image

Arnfinn Bårdsen dómari við Hæstarétt Noregs heimsækir Hæstarétt

19.02.2018

Arnfinn Bårdsen dómari við Hæstarétt Noregs heimsótti Hæstarétt föstudaginn 16. febrúar síðastliðinn og átti fund með dómurum réttarins. Arnfinn var staddur hér á landi í tengslum við erindi sem hann hélt á hádegisverðarfundi Lögmannafélags Íslands sama dag og fjallaði um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar Íslands. Á fundinum fór Arnfinn yfir reglur og meðferð beiðna um áfrýjunarleyfi við Hæstarétt Noregs, en hann hefur meðal annars skrifað grein um það efni.

Af þessu tilefni var rætt við Arnfinn um nokkur atriði sem varða fyrirkomulagið við meðferð umsókna um áfrýjunarleyfi í Noregi.

Hversu lengi hefur þetta fyrirkomulag þar sem áfrýjun til Hæstaréttar er háð samþykki verið við lýði í Noregi?

Í sakamálum var núverandi fyrirkomulagi komið á fót með svokallaðri tveggja dómstiga leið á árinu 1995. Í einkamálum á það sér lengri sögu en núgildandi reglur tóku gildi við endurskoðun einkamálalaganna á árinu 2005.  

Hvers vegna er mikilvægt að svona kerfi sé fyrir hendi?

Hæstiréttur Noregs er fordæmisgefandi dómstóll. Megin verkefni hans er að vinna að skýringu og þróun réttarreglna innan ramma laganna, stjórnarskrárinnar og þjóðaréttarins. Það er því mikilvægt að kröftum Hæstaréttar sé beint að þeim málum sem geta verið grundvöllur slíkra skýringa og þróunar. Það er jafnframt mikilvægt að það sé Hæstiréttur sjálfur sem leggur mat á beiðnir um áfrýjunarleyfi. Á árinu 2016 voru 102 umsóknir um áfrýjunarleyfi samþykktar af 829. Á árinu 2017 voru samþykktar 114 umsóknir af 800, það er tæplega 14%.  

Hvaða skilyrði setja norsk lög fyrir því að samþykki verði veitt til áfrýjunar til Hæstaréttar?

Bæði í einkamálum og sakamálum er mikilvægast að álitaefni málsins hafi almenna þýðingu og þar með fyrir fleiri mál en það sem til meðferðar er. Kemur þar til skoðunar hvort áfrýjunin sýnir fram á þörf fyrir (nýtt) fordæmi frá Hæstarétti? Venjulega felst í þessu að það verður að sýna fram á að það sé réttaróvissa sem mikilvægt er að sé tekin afstaða til. Málið sem tekið er til meðferðar verður einnig að vera til þess fallið að vera grundvöllur fyrir slíka skýringu.

Jafnframt er fyrir hendi „öryggisventill“ sem heimilar að veitt sé samþykki í þeim tilvikum þar sem af öðrum ástæðum þykir sérstaklega mikilvægt að fá niðurstöðu Hæstaréttar í máli. Almennt eru það mál sem varða álitaefni sem hafa þýðingu fyrir velferð einstaklinga og ástæða er til að ætla að niðurstöðu undirréttar verði breytt. Þetta hefur sérstaklega þýðingu í sakamálum þar sem líkur eru á að sakfelling hafi farið í bága við lög eða augljóst er að refsing viðkomandi hefur verið of þung. 

Í Noregi líkt og á Íslandi er unnt að sækja um leyfi til að áfrýja til Hæstaréttar dómi á fyrsta dómstigi. Í hvaða tilvikum er fallist á umsóknir um slík leyfi í Noregi?

Já, það er rétt að slíkar reglur eru í gildi í Noregi en skilyrðin fyrir veitingu leyfis eru þröng. Þannig verður málið að varða sérstaklega mikilvægt lögfræðilegt álitaefni og jafnframt verður að vera sérstök þörf á skjótri niðurstöðu Hæstaréttar. Það verður líka að teljast forsvaranlegt að haga málsmeðferðinni með þessum hætti. Samþykki er mjög sjaldan veitt á þessum grundvelli – það eru í raun fleiri ár síðan það gerðist síðast.

Hvað er mikilvægt fyrir lögmenn að hafa í huga þegar þeir sækja um áfrýjunarleyfi?

Ég hef fjögur ráð til lögmanna. Í fyrsta lagi að vera raunsær. Í flestum málum er ekki veitt áfrýjunarleyfi. Hvers vegna er þitt mál sérstakt? Í öðru lagi að takmarka umsóknina við þau atriði sem er raunhæft að ætla að leiði til að fallist verði á beiðnina. Í þriðja lagi að rökstyðja af hverju fallast eigi á beiðnina út frá skilyrðum laganna. Í fjórða lagi að einbeita sér að góðu röksemdunum og vera hnitmiðaður í röksemdafærslunni. Bestu umsóknirnar eru stuttar. 

Í Noregi hefur áfrýjunarnefnd Hæstaréttar möguleika á að fella dóm undirréttar úr gildi þegar nefndin hefur til meðferðar beiðni um áfrýjunarleyfi, en slíka heimild er ekki að finna í íslenskum lögum. Hvers vegna var slík regla sett inn í norsk lög og hvernig virkar hún í framkvæmd?  

Ákvæðin voru leidd í lög á árinu 2012, að frumkvæði Hæstaréttar sjálfs. Tilgangurinn var að koma á fót einfaldari meðferð sem ekki krefðist sama mannafla í málum þar sem álitaefnið hefur ekki mikla almenna þýðingu. Dómurinn sem óskað er áfrýjunar á þarf að vera bersýnilega rangur eða þannig háttað til að stórfelldir annmarkar hafa verið við meðferð málsins og út frá sjónarmiðum um rétta málsmeðferð er ekki hægt að una við það að dómurinn sé látinn standa. Á árinu 2016 voru 19 dómar felldir úr gildi á þessum grundvelli, en á árinu 2017 voru þeir 10. Án þessa möguleika að fella dómana úr gildi við þetta tímamark hefði Hæstiréttur þurft að veita leyfi til áfrýjunar á málunum. Nú er unnt að nýta mannafla Hæstaréttar í önnur mál. Úrræðinu er mest beitt í sakamálum en það er þó einnig notað í einkamálum.

Fyrirlesturinn af málþinginu má sjá hér.