Breytt dómstólaskipan

15.01.2018

Sú breyting varð á skipan dómstóla 1. janúar 2018 að nýr áfrýjunardómstóll, Landsréttur, tók til starfa.  Hæstiréttur Íslands er eftir sem áður æðsti dómstóll landsins, en fyrirséð er að talsverðar breytingar verða á starfsemi hans. Hæstiréttur mun ljúka meðferð þeirra einkamála sem áfrýjað hafði verið til réttarins fyrir 1. janúar síðastliðinn. Eru það um 270 mál og er markmiðið að meðferð þeirra verði að mestu lokið við lok þessa árs. Á hinn bóginn hafa þau sakamál sem áfrýjað hafði verið til réttarins fyrir framangreint tímamark verið færð til Landsréttar sem mun ljúka meðferð þeirra.  

Fram til 1. janúar 2018 var meginreglan sú að úrlausnum héraðsdómstóla var, að fullnægðum tilteknum skilyrðum, skotið beint til Hæstaréttar með áfrýjun eða kæru. Eftir tilkomu Landsréttar er meginreglan sú að úrlausnum héraðsdómstóla verður að meginstefnu skotið til Landsréttar. Úrlausnum Landsréttar verður hægt að skjóta til Hæstaréttar, að tilteknum skilyrðum fullnægðum og í flestum tilvikum að fengnu leyfi Hæstaréttar. Er fyrirséð að færri mál munu koma til meðferðar í Hæstarétti sem getur þannig betur sinnt hlutverki sínu sem fordæmisgefandi og stefnumarkandi æðsti dómstóll landsins.

Ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og nr. 88/2008 um meðferð sakamála gera nú ráð fyrir því að áfrýjun mála til Hæstaréttar verði í öllum tilvikum háð leyfi Hæstaréttar. Þannig verður í fyrsta lagi unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til þess að áfrýja dómi héraðsdóms í einkamáli beint til Hæstaréttar, en skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis eru þröng. Í öðru lagi verður unnt að óska eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómum Landsréttar í einkamálum og sakamálum til Hæstaréttar. Skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis eru ekki fyllilega þau sömu þegar um er að ræða sakamál eða einkamál, en þó er sammerkt með lögunum að skilyrðin varða annars vegar mikilvægi þess máls sem til meðferðar er og hins vegar möguleika Hæstaréttar til að bæta úr stórfelldum réttarfarsannmörkum á lægri dómstigum eða leiðrétta niðurstöður Landsréttar sem eru bersýnilega rangar að formi eða efni.

Að því er varðar kærur á úrskurðum til Hæstaréttar verður hvorki unnt að kæra úrskurði héraðsdóms beint til Hæstaréttar né óska eftir leyfi til að kæra slíkan úrskurð. Gildir það jafnt í einkamálum og sakamálum. Í einkamálum og sakamálum sæta úrskurðir Landsréttar um nánar tilgreind atriði, svo sem hvort máli skuli vísað frá héraðsdómi eða Landsrétti eða hvort dómari Landsréttar víki sæti í máli, kæru til Hæstaréttar. Rétt er að taka fram að þau atriði sem sæta kæru eru ekki að öllu leyti þau sömu þegar um að er ræða einkamál og sakamál. Að auki er í lögum um meðferð einkamála að finna ákvæði er mælir fyrir um að unnt sé að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Er slík ákvæði til að mynda að finna í lögum nr. 90/1989 um aðför, lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Í málum á grundvelli þessara laga er þörf á tiltölulega skjótri niðurstöðu en jafnframt þótti rétt að Hæstiréttur gæti haft réttarskapandi áhrif á þau með lagatúlkun þegar tilteknum skilyrðum um veitingu leyfis til kæru er fullnægt.

Hæstiréttur vinnur nú að því að uppfæra upplýsingar á heimasíðu um heimildir og skilyrði til áfrýjunar og kæru á úrlausnum lægra settra dómstiga sem og að útbúa leiðbeiningar er lúta að beiðnum um áfrýjunar- og kæruleyfi. Við gerð leiðbeininganna hefur meðal annars verið litið til þeirra leiðbeininga sem Hæstiréttur Noregs hefur gert um sama efni.