image
image

Ísland tekur þátt í 60. heimsþingi dómara

23.11.2017

Nýlokið er 60. heimsþingi dómara (60th Annual Meeting of the International Association of Judges) sem að þessu sinni var haldið í Santiago, Chile dagana 13. til 16. nóvember s.l. Þingið, sem haldið er árlega, sóttu fulltrúar félaga dómara hvaðanæva úr heiminum. Fulltrúar Dómarafélags Íslands voru Skúli Magnússon formaður félagsins og Karl Axelsson hæstaréttardómari og meðstjórnandi. Á þinginu komu til umræðu fjölmörg hagsmunamál dómara, úrbætur í dómsýslu auk þess sem fólk skiptist á skoðunum og upplýsingum um það sem hæst ber í réttarframkvæmd og starfsumhverfi dómstóla einstakra aðildarríkja. Meðal annars var samþykkt einróma mikilvæg yfirlýsing um stöðu dómara (Universal Charter of the Judge) sem kemur í stað eldri yfirlýsingar frá 1999. Einnig var samþykkt harðorð yfirlýsing vegna þeirra fleiri hundruða tyrkneskra dómara sem enn í sitja í haldi við óviðunandi aðstæður þar í landi og bíða ákæru og/eða réttarhalda. Þá var meðal viðfangsefna rafræn dómsýsla og notkun tölvupósts og jafnvel samfélagsmiðla í starfsemi dómstóla en á því sviði eru menn komnir mjög mislangt á leið. Var afar upplýsandi  að heyra frá fulltrúum þeirra þjóðríkja sem lengst eru komin á því sviði. Næsta heimsþing verður haldið í Marokkó að ári. Nánari upplýsingar um  samtökin, þingið og samþykktir heimsþingsins má finna á vef Alþjóðasamtaka dómara: http://www.iaj-uim.org