Dómur í máli um skuldbindingargildi takmörkunar á söluverði íbúða

09.11.2017

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli er varðaði ágreining um skuldbindingargildi tiltekins ákvæðis í samþykktum Byggingarsamvinnufélagsins Samtaka aldraðra er kveður á um ótímabundna takmörkun á söluverði íbúða sem félagið hefur reist. Töldu erfingjar konu sem hafði átt íbúð í fjöleignarhúsi reistu af Byggingarsamvinnufélaginu að ákvæðið væri ekki skuldbindandi fyrir þau, en því hafði ekki verið þinglýst sem kvöð á íbúðina.

Á líkt álitaefni reyndi í dómi Hæstaréttar frá 6. febrúar 2003 í máli nr. 400/2002, en þar komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að sambærilegt ákvæði í þágildandi samþykktum Byggingarsamvinnufélagsins væri óskuldbindandi fyrir erfingja konu sem hafði átt íbúð í húsi reistu af félaginu þar sem ekki hafði verið sýnt fram á að henni hefði verið kunnugt um efni ákvæðisins að þessu leyti.

Með vísan til dóms réttarins frá 6. febrúar 2003 komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að framangreint ákvæði samþykktanna um ótímabundna takmörkun á söluverði íbúða fæli í sér víðtækari takmörkun á eignarrétti en boðin væri í 6. gr. laga nr. 153/1998 um byggingarsamvinnufélög og yrði henni ekki beitt að liðnum 5 árum frá lóðarúthlutun gagnvart öðrum en þeim, sem skýrlega hefðu gengst undir þá skuldbindingu. Taldi Hæstiréttur að með undirritaðri umsókn sinni um félagsaðild í Byggingarsamvinnufélaginu Samtökum aldraðra hefði viðkomandi skýrlega gengist undir slíka skuldbindingu, en ákvæðisins var þar sérstaklega getið. Þá hefðu þessar kvaðir verið tíundaðar í kauptilboði í íbúðina, auk kaupsamnings sem gerður hefði verið í kjölfarið. Var ekkert fram komið um að viðkomandi hefði mátt telja að skilmálarnir væru ekki skuldbindandi. Breytti engu í því sambandi hvort íbúðin kynni að hafa verið keypt á hærra verði en sem nam réttu matsverði samkvæmt reglum Byggingarsamvinnufélagsins né hvort aðrar íbúðir í fjöleignarhúsinu hefðu verið seldar á hærra verði en matsverði samkvæmt reglunum. Var Byggingarsamvinnufélagið Samtök aldraðra því sýknað af kröfu erfingjanna.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.