Óskuldbindandi skilmáli í samningi um neytendalán

12.10.2017

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í máli er sneri að skilmála neytendaláns um endurskoðun vaxta. Í málinu krafðist Íslandsbanki hf. þess að felldur yrði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar neytendamála þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði brotið gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán, með því að tilgreina ekki í tilteknum lánssamningi við hvaða aðstæður vextir gætu breyst, auk þess sem bankanum var bannað að breyta vöxtum samkvæmt 4. lið skilmála lánssamningsins.

Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að í fyrirsögn lánssamningsins segði að hann bæri fasta vexti hefði skuldin í raun borið breytilega vexti í skilningi 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 vegna ákvæða í 4. lið skilmála lánssamningsins um heimild lánveitanda til að endurskoða hæð vaxta. Hefði því borið að tilgreina í lánssamningnum við hvaða aðstæður mætti beita þeirri heimild. Taldi Hæstiréttur að þeim áskilnaði hefði ekki verið fullnægt í þessu tilviki þar sem ákvæði lánssamningsins hefði einungis snúið að aðferð til að hrinda í framkvæmd breytingu á vöxtum en ekki tilefninu til að taka ákvörðun um hana. Um slíkt tilefni hefði þar ekkert verið sagt. Þegar að þessum sökum uppfylltu skilmálar lánssamningsins ekki það skilyrði 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994 að þar yrði að tilgreina við hvaða aðstæður breyta mætti vöxtum af skuldinni sem um ræddi. Fékk það engu breytt í þessu sambandi að sá sem tók lánið hefði getað vikist undan breytingunni með því að greiða upp skuld sína án sérstaks kostnaðar, enda hefði viðkomandi átt rétt á því að Íslandsbanki hf. stæði fyrir sitt leyti við lögmæta skilmála gagnkvæms lánssamnings þeirra. Var því ekki fallist á kröfu Íslandsbanka hf.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.