Dómur í þjóðlendumáli

28.09.2017

Hæstiréttur kvað í dag upp dóm í þjóðlendumáli varðandi landsvæðið Hvassafellsdal í Eyjafjarðarsveit sem í úrskurði óbyggðanefndar var talið til þjóðlendu, en í afréttareign Fallorku ehf. Félagið höfðaði mál gegn íslenska ríkinu og krafðist ógildingar á úrskurðinum á þeim grundvelli að landsvæðið væri háð beinum eignarrétti sínum, en félagið hafði keypt það af eiganda jarðarinnar Hvassafells á árinu 2005.

Um þetta tiltekna atriði vísaði Hæstiréttur til þess að eigandi jarðarinnar Hvassafells hefði ekki getað með útgáfu afsals framselt Fallorku ehf. víðtækari réttindi en hann átti til landsvæðisins, en heimildir hnigu að því að þau réttindi hefðu einungis verið óbein eignarréttindi til afréttarnota. Hins vegar yrði að líta til þess að óskað hefði verið eftir því við landbúnaðarráðherra að hann heimilaði skiptingu á jörðinni Hvassafelli þannig að landsvæðið yrði gert að sér fasteign og skráð sem jörð undir nafninu Hvassafellsdalur, svo og að það yrði leyst úr landbúnaðarnotum. Við þeirri ósk var orðið með bréfi þar sem til hennar var vísað án þess að gerður hefði verið fyrirvari um eignarréttarlega stöðu landsvæðisins. Hefði ekki verið unnt að að ræða á þennan hátt um landsvæðið nema á þeim grundvelli að landið væri háð beinum eignarrétti. Hefði krafa fjármálaráðherra um mörk þjóðlendu þannig verið alls ósamrýmanleg afstöðu landbúnaðarráðherra hvað landsvæðið varðaði. Var því fellt úr gildi ákvæðið í úrskurði óbyggðanefndar um að Hvassafellsdalur væri þjóðlenda.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.