Viðbrögð Hæstaréttar við dómi Mannréttindadómstóls Evrópu

Í dag beindi Hæstiréttur eftirfarandi fyrirspurn til aðila hæstaréttarmáls nr. 29/2018:

   „Samkvæmt dagskrá Hæstaréttar er ráðgert að mál nr. 29/2018, Glitnir Holdco ehf. gegn Útgáfufélaginu Stundinni ehf. og Reykjavík Media ehf., verði munnlega flutt í þinghaldi föstudaginn 15. mars nk. Er þar áfrýjað dómi Landsréttar 5. október 2018, en meðal dómara, sem áttu hlut að úrlausn málsins, var landsréttardómarinn Ragnheiður Bragadóttir.
    Sem kunnugt er gekk 12. þessa mánaðar dómur í Mannréttindadómstóli Evrópu í máli nr. 26374/18, Guðmundur Andri Ástráðsson gegn Íslandi. Þar var því slegið föstu að ranglega hafi verið staðið að skipun Arnfríðar Einarsdóttur í embætti landsréttardómara með þeim afleiðingum að við meðferð málsins hafi ekki verið fullnægt því skilyrði 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis að skipan dómstóls skuli ákveðin með lögum. Sömu aðstæður og byggt var að þessu leyti á í dóminum eiga við um landsréttardómarann Ragnheiði Bragadóttur.
    Af framangreindu tilefni beinir Hæstiréttur hér með þeirri fyrirspurn til aðila máls nr. 29/2018 hvort þeir hafi annar eða báðir í hyggju að krefjast þess að dómur Landsréttar verði ómerktur af áðurnefndum ástæðum. Verði slík krafa höfð uppi telur Hæstiréttur, í ljósi þess sem opinberlega hefur komið fram um að íslenska ríkið hafi til athugunar að neyta heimildar í 43. gr. fyrrgreinds samnings til að óska eftir að máli nr. 26374/18 verði vísað til yfirdeildar mannréttindadómstólsins, óhjákvæmilegt að fresta munnlegum flutningi máls nr. 29/2018 um óákveðinn tíma þar til endanleg niðurstaða fæst um þetta efni. Verði á hinn bóginn engin slík krafa gerð mun málið koma til munnlegs flutnings á áður boðuðum tíma.
    Í ljósi aðstæðna er óskað eftir svörum við þessari fyrirspurn fyrir kl. 16 í dag.“

    Áfrýjandinn Glitnir Holdco ehf. og stefndu, Stundin ehf. og Reykjavík Media ehf., hafa tilkynnt að þeir muni ekki krefjast þess fyrir Hæstarétti að dómur Landsréttar verði ómerktur af ofangreindum ástæðum. Hefur Hæstiréttur því í samræmi við framangreint ákveðið að munnlegur flutningur máls nr. 29/2018 fari fram á áður boðuðum tíma föstudaginn 15. mars nk. Sams konar erindi verður beint til aðila annarra dómsmála fyrir Hæstarétti þar sem eins stendur á um.