Skaðabætur dæmdar vegna samkeppnisbrots

Í dag var kveðinn upp dómur í máli þar sem deilt var um skaðabótaábyrgð lyfjafyrirtækis vegna samkeppnisbrota þess á lyfsölumarkaði á Akranesi. Árið 2013 var félagið dæmt fyrir brot gegn 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 með því að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beinst hefðu gegn öðru lyfjafyrirtæki. Í máli því sem kveðið var upp í dag lá fyrir undirmatsgerð með þeirri niðurstöðu að brotaþoli hefði orðið fyrir tilteknu tjóni, en með yfirmatsgerð var ályktað að hann hefði ekki orðið fyrir beinu tapi vegna hinna ólögmætu samkeppnishindrana lyfjafyrirtækisins. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að gerólíkar forsendur hefðu verið lagðar til grundvallar niðurstöðum matsgerðanna. Í yfirmati hefði fyrst og fremst verið horft til rekstraráætlunar brotaþola, en í undirmati hefði verið styðst við samanburðaraðferðir. Tekið var fram að hafa yrði í huga að tjón gæti hlotist af ólögmætum samkeppnishindrandi aðgerðum þótt rekstur þess sem brotið væri gegn hefði verið í samræmi við fyrirliggjandi rekstraráætlun. Þótti grunnforsenda yfirmatsgerðar því haldin slíkum annmarka að á henni yrði ekki byggt um áhrif hluta brota lyfjafyrirtækisins. Að teknu tilliti til matsgerðanna og þar sem ekki lágu fyrir skýr gögn um tímalengd áhrifa aðgerða lyfjafyrirtækisins gegn brotaþola voru honum dæmdar bætur að álitum. Tveir dómarar skiluðu sératkvæði í málinu og töldu að brotaþoli hefði ekki fært sönnur að því að hann hefði orðið fyrir fjártjóni vegna samkeppnisbrota lyfjafyrirtækisins.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.