Dómur um skaðabótaábyrgð vegna skipskaða

Í dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli þar sem Sjóvá-Almennar tryggingar hf. kröfðu Stálsmiðjuna Framtak ehf. og Tryggingamiðstöðina hf., ábyrgðartryggjanda félagsins, um greiðslu skaðabóta vegna tjóns sem Björgun ehf. varð fyrir er skip þess Perlan RE sökk í Reykjavíkurhöfn. Hafði Björgun ehf. samþykkt tilboð Stálsmiðjunnar Framtaks ehf. um að taka skipið í slipp og vinna tiltekna viðhaldsvinnu. Tilboðið fól meðal annars í sér að taka skipið upp og sjósetja á ný þegar slippvinnu lyki. Til viðbótar óskaði Björgun ehf. eftir því að félagið ynni ýmis aukaverk og var eitt þeirra vinna við botntanka skipsins. Voru göt gerð á stokk og á botntank í tengslum við viðgerðir til að koma í veg fyrir leka milli botntanka í skipinu. Þegar verkinu samkvæmt tilboðinu var lokið var skipið sjósett á ný. Tók þá sjór að leka í lestar þess og fylltist það að lokum af sjó og sökk. Greiddu Sjóvá-Almennar tryggingar hf. bætur til Björgunar ehf. á grundvelli vátrygginga sem félagið var með hjá félaginu.

Talið var að þrjár samverkandi orsakir hefðu verið fyrir því að sjór náði að berast inn í skipið með þeim afleiðingum að sökk. Í fyrsta lagi hefði blöndunarloki verið opinn þegar skipið var sjósett, í öðru lagi hefðu verið skorin tvö göt í lestargólfið og ofan við botntank stjórnborðsmegin þannig að sjór átti greiða leið niður úr lestinni í botntankinn. Í þriðja lagi hefði mannop verið opið úr botntanknum og inn í verkstæði. Þar með hefði sjór komist úr honum inn í þurrrými skipsins. Var talið að engin ein þessara orsaka hefði verið nægileg en hver þeirra nauðsynleg forsenda skipskaðans. Ósannað væri í málinu að skipið hefði verið yfirfarið af Stálsmiðjunni Framtak ehf. með fulltrúum Björgunar ehf. áður en því var slakað niður í sjó eins og áskilið var í verklagsreglum sem fyrrgreinda félagið hafði sett sér. Þá hefði meðal þeirra aukaverka sem Stálsmiðjan Framtak ehf. tók að sér verið smíðavinna og önnur aðstoð til að komast fyrir leka milli botntanka. Hlyti úttekt og yfirferð yfir þau verk sem unnin hefðu verið áður en sjósetning fór fram meðal annars að hafa náð til stöðu þess verks og aðstæðna þar. Gæti Stálsmiðjan Framtak ehf. því ekki borið fyrir sig að það hefði ekki verið í verkahring hans að taka þennan verkþátt út með tilliti til öryggis við sjósetninguna. Þá hefðu það verið saknæm mistök af hálfu starfsmanna félagsins að huga ekki að stöðu blöndunarlokans áður en niðurslökun fór fram. Var því talið að Stálsmiðjan Framtak ehf. bæri skaðabótaábyrgð á tjóninu. Á hinn bóginn var talið að Björgun ehf. eða skipstjóri skipsins, sem ekki var um borð umrætt sinn, hefði ekki tryggt að vélstjóri hjá félaginu, sem var um borð, væri upplýstur um nauðsyn þess að loka blöndunarlokanum og hvernig það skyldi gert. Með þessu hefði Björgun ehf. sýnt af sér vanrækslu sem átti þátt í því að tjónið varð. Var jafnframt talið að ófullnægjandi mönnun skipsins við sjósetninguna hefði átt þátt í því að viðbrögð skipverja urðu fálmkennd eftir að það fór að halla.

Voru Sjóvá-Almennar tryggingar hf. því látnar bera helming tjónsins. Var Stálsmiðjunni Framtak ehf. og Tryggingamiðstöðinni hf. gert að greiða Sjóvá-Almennum tryggingum hf. helming þess sem félagið hafði greitt Björgun ehf. úr húfutryggingu meðal annars vegna björgunar, hagsmunatryggingu og áhafnartryggingu skipsins.

Dóminn í heild sinni má lesa hér.