Ákvarðanir 2020

Endurrit úr gerðabók Hæstaréttar við kjör forseta Íslands 27. júní 2020 í tilefni af kærum

 • Þriðjudagurinn 16. júní 2020

  Endurrit

  úr

  gerðabók

  Hæstaréttar við kjör forseta Íslands

  ---ooo000ooo---

   

  Ár 2020, þriðjudaginn 16. júní, er þing Hæstaréttar sett í dómhúsi réttarins af hæstaréttardómurunum Þorgeiri Örlygssyni, Benedikt Bogasyni, Ingveldi Einarsdóttur, Karli Axelssyni, Ólafi Berki Þorvaldssyni og Sigurði Tómasi Magnússyni. Greta Baldursdóttir boðaði forföll.

  Hæstarétti hefur borist kæra, dagsett 20. maí 2020, frá Axel Pétri Axelssyni, sem hér á eftir verður nefndur kærandi.

  Að ákvörðun þessari standa sex dómarar Hæstaréttar, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla.

  I

  Samkvæmt auglýsingu forsætisráðherra 20. mars 2020 fer kjör forseta Íslands fram 27. júní 2020. Kærandi vísar til þess að kæran snúi að aðdraganda og framkvæmd forsetakosninga 2020 og krefst þess í fyrsta lagi að „fyrsta stig kosninga sem er söfnun meðmælalista verði dæmt ógilt og ferlið endurtekið þar sem allir frambjóðendur fá að kynna sig, skoðanir sínar og veita upplýsingar um framboð sitt“. Jafnframt gerir kærandi kröfu um að Ríkisútvarpinu ohf., fjölmiðlum og starfsmönnum þeirra verði „refsað fyrir lýðræðisspjöll“. Um rök fyrir þessu vísar kærandi einkum til þess að Ríkisútvarpið ohf. hafi í aðdraganda forsetakosninga 2020 ekki sinnt lýðræðislegum skyldum sínum í samræmi við samning mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins ohf. Þá hafi fjölmiðlar stundað áróður sem hafi skaðað lýðræðislega framkvæmd forsetakosninganna og framboð kæranda.

  Í öðru lagi krefst kærandi þess að „fallið verði frá öllum kröfum um undirskriftir meðmælenda“ kæranda í forsetakosningum 2020. Um rök fyrir þessari kröfu vísar kærandi til þess að rafræn söfnun meðmæla samkvæmt reglugerð nr. 341/2020 um rafræna söfnun meðmæla með forsetaefni, meðferð þeirra, varðveislu og eyðingu hafi verið íþyngjandi fyrir hann.

  Loks krefst kærandi opinberrar rannsóknar „á ástandi lýðveldis Íslands og hvort það sé raun fallið“ og að „lögð verði fram sönnun fyrri tilvist covid-19 sem réttlætt hefur samkomubann“.

  II

  Í ákvæðum laga nr. 36/1945 um framboð og kjör forseta Íslands er hvergi að finna heimild til að kæra til Hæstaréttar tilteknar ákvarðanir eða gerðir ráðherra, kjörstjórna eða annarra stjórnvalda varðandi undirbúning eða framkvæmd forsetakjörs. Almenna heimildin, sem felst í 2. mgr. 14. gr. laganna til að beina til réttarins kærum um ólögmæti forsetakjörs, leiðir á hinn bóginn til þess að leita megi eftir ógildingu forsetakjörs í heild, þar á meðal vegna afmarkaðra annmarka á undirbúningi þess eða framkvæmd, en Hæstiréttur getur ekki á þeim grunni ógilt tilteknar ákvarðanir um slík efni eða breytt þeim. Kjör forseta Íslands á að fara fram 27. júní 2020. Eðli máls samkvæmt getur Hæstiréttur ekki fjallað um gildi forsetakjörs sem ekki hefur farið fram. Stendur því engin heimild í lögum nr. 36/1945 til fyrirliggjandi kæru og er henni því vísað frá Hæstarétti.

  Þorgeir Örlygsson

  Benedikt Bogason                                                                             Ingveldur Einarsdóttir           

  Karl Axelsson                                                                                    Ólafur Börkur Þorvaldsson

  Sigurður Tómas Magnússon

   

   

  Rétt endurrit staðfestir,

  16. júní 2020