Mál nr. 2020-299

ÍL-sjóður (Áslaug Árnadóttir hrl.) gegn Ólafi Hvanndal Ólafssyni og Maríu Björg Þórhallsdóttur (Jónas Fr. Jónsson hdl.)
Lykilorð
  • Áfrýjunarleyfi.
  • Lán.
  • Uppgreiðslugjald.
  • Samþykkt.

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 21. desember 2020 leitar ÍL-sjóður eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 17. sama mánaðar í málinu nr. E-3061/2020: Ólafur Hvanndal Ólafsson og María Björg Þórhallsdóttir gegn ÍL-sjóði, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast ekki gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að  kröfu gagnaðila um endurgreiðslu á uppgreiðslugjaldi sem þau inntu af hendi til leyfisbeiðanda þegar þau endurgreiddu 40 ára húsnæðislán síðla árs 2019 sem þau tóku hjá leyfisbeiðanda á árinu 2008 með útgáfu ÍLS-veðbréfs. Á þeim tíma stóðu lántakendum til boða tvenns konar kjör á ÍLS-veðbréfum, annars vegar lán með 5,05% vöxtum og án uppgreiðsluheimildar nema gegn þóknun og hins vegar lán með 5,55% vöxtum og heimild til uppgreiðslu án þóknunar. Við lántökuna völdu gagnaðilar lán sem bar lægri vexti og var án heimildir til uppgreiðslu nema gegn greiðslu sérstakrar þóknunar til leyfisbeiðanda. Gagnaðilar greiddu af láninu án athugasemda frá útgáfu veðbréfsins og allt fram til þess að þau greiddu lánið upp. Við uppgreiðsluna krafði leyfisbeiðandi gagnaðila um greiðslu sérstakrar þóknunar samkvæmt 6. tölulið skilmála bréfsins og 7. gr. reglugerðar nr. 1016/2005 um gjaldskrá Íbúðalánasjóðs, sbr. 4. mgr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 522/2004 um ÍLS-veðbréf og íbúðarbréf, með síðari breytingum. Þar kom meðal annars fram að þóknun vegna uppgreiðslu skuldar reiknaðist af mismun á vaxtastigi ÍLS-veðbréfsins sem greitt væri og markaðsvaxta sambærilegra nýrra lána hjá Íbúðalánasjóði ef þeir væru lægri, miðað við uppreiknaðar eftirstöðvar lánsins, núvirt frá greiðsludegi til lokagjalddaga. Þegar gagnaðilar greiddu upp lánið voru vextir nýrra lána 0,85% lægri en vextir á láni þeirra og voru þau því krafin um greiðslu þóknunar sem nam 2.744.856 krónum eða 10,06% af eftirstöðvum lánsins.

Héraðsdómur tók kröfu gagnaðila til greina og var leyfisbeiðanda gert að greiða þeim fyrrgreinda fjárhæð með dráttarvöxtum. Vísaði héraðsdómur til þess að sú skylda hefði hvílt á leyfisbeiðanda við veitingu lánsins að tiltaka með skýrum hætti í lánaskilmálum hvernig uppgreiðslugjald skyldi reiknað út og við hvaða aðstæður það yrði innheimt, sbr. 16. gr. a. þágildandi laga um neytendalán nr. 121/1994. Ljóst væri að mjög hefði skorti á að skilmálar ÍLS-veðbréfsins hefðu verið fullnægjandi að þessu leyti því engar upplýsingar hefðu verið þar að finna um hvernig uppgreiðslugjaldið skyldi reiknað út. Þegar af þeirri ástæðu var fallist á kröfu gagnaðila. Einnig taldi héraðsdómur að reglusetning um uppgreiðslugjald, sem ákvörðuð var með reglugerð nr. 1017/2005 og nr. 1016/2005 um gjaldskrá leyfisbeiðanda hefði ekki staðist áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál um heimild ráðherra að setja leyfisbeiðanda ramma um heimild til að bjóða lán með uppgreiðslugjaldi og hefði því ekki verið grundvöllur að löglegri álagningu slíks gjalds.

Leyfisbeiðandi telur ljóst að mikilvægt sé að fá endanlega niðurstöðu Hæstaréttar í málinu sem fyrst. Vísar hann til þess að málið lúti að mikilsverðum hagsmunum tæplega 12.000 lántakenda sem og leyfisbeiðanda og ríkissjóðs og hafi því verulega samfélagslega og almenna þýðingu. Þá hafi á árunum 2014 og 2020 gengið héraðsdómar þar sem reynt hafi á lögmæti uppgreiðslugjalds Íbúðalánasjóðs, forvera ÍL-sjóðs. Var niðurstaða þeirra mála sú að uppgreiðslugjaldið var talið lögmætt og hafi því með þessum dómi héraðsdóms skapast mikil réttaróvissa. Einnig telur leyfisbeiðandi að málið geti verið fordæmisgefandi og haft almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna. Vísar hann til þess að niðurstaða málsins sé fordæmisgefandi varðandi það hvenær reglugerð telst hafa viðhlítandi lagastoð, bæði um það hversu skýr lagaheimild þurfi að vera og hvernig hún sé útfærð. Þá sé ljóst að málið sé fordæmisgefandi fyrir aðra sem tekið hafi lán með sambærilegum skilmálum og að niðurstaðan hafi almenna þýðingu fyrir túlkun 23. gr. laga nr. 44/1998 og reglugerða sem settar hafi verið á grundvelli ákvæðisins. Enn fremur telur leyfisbeiðandi að niðurstaða héraðsdóms sé röng. Vísar hann til þess að upplýsingagjöf hafi verið í samræmi við ákvæði laga um neytendalán og jafnvel þó að svo hafi ekki verið leiði skortur á upplýsingagjöf ekki til endurgreiðslu uppgreiðslugjaldsins. Einnig vísar leyfisbeiðandi til þess að hann telji að ákvæði reglugerða um uppgreiðslugjald hafi fullnægjandi lagastoð. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að héraðsdómur hafi dæmt leyfisbeiðanda til að endurgreiða alla þá fjárhæð sem gagnaðilar hafi greitt í uppgreiðslugjald án þess að taka tillit til þess ávinnings sem gagnaðilar óumdeilanlega hafi notið í formi lægri vaxta.

 

Mál þetta hefur þýðingu fyrir fjölda lántakenda hjá leyfisbeiðanda og varðar mikla hagsmuni þeirra og ríkissjóðs. Jafnframt verður því slegið föstu að brýnt sé að fá niðurstöðu Hæstaréttar í málinu með skjótum hætti en málið er fordæmisgefandi og hefur almenna þýðingu fyrir beitingu réttarreglna. Þá liggur fyrir að ekki er þörf á að leiða vitni í málinu og skýrslur voru ekki gefnar við meðferð þess þannig að ekki reynir á mat á sönnunargildi munnlegs framburðar í héraði. Samkvæmt öllu þessu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar verður því tekin til greina.