Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-152
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Þjóðlenda
- Eignarréttur
- Fasteign
- Afréttur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 1. desember 2022 leitar Borgarbyggð leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 4. nóvember sama ár í máli nr. 515/2021: Borgarbyggð gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið lýtur að því hvort landsvæðið suðausturhluti fjalllendis Hraunhrepps í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu að undanskildum fyrrum Kolbeinsstaðahreppi teljist þjóðlenda eða eignarland í skilningi laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun eignarlands, þjóðlendna og afrétta.
4. Með úrskurði óbyggðanefndar 11. október 2016 í máli nr. 1/2014 var komist að þeirri niðurstöðu að landsvæðið væri þjóðlenda. Leyfisbeiðandi höfðaði mál á hendur gagnaðila og krafðist þess að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi þar sem hann taldi landsvæðið undirorpið beinum eignarrétti sínum. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu. Við aðalmeðferð málsins í héraði tefldi leyfisbeiðandi fram varakröfu um að viðurkennt yrði að landsvæðið teldist afréttareign hans en sú krafa komst hvorki að í héraði né Landsrétti þar sem hún taldist of seint fram komin. Í dómi Landsréttar voru ekki talin efni til þess að hrófla við niðurstöðu óbyggðanefndar að kröfur um beinan eða óbeinan eignarétt að umdeilda svæðinu væru ekki taldar eiga sér stoð í heimildum um Hítardal. Þá taldi Landsréttur að beinn eignarréttur leyfisbeiðanda að umræddu landsvæði fengi ekki stoð í öðrum heimildum sem málatilbúnaður hans byggði á. Var gagnaðili því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í því sambandi vísar hann til þess að með því megi varpa ljósi á hvaða vægi skjöl af því tagi sem fyrir liggja eigi að hafa við sönnun beins eignarréttar og hvort efni séu til að víkja frá sönnunarkröfum sem leiða af nýlegum dómafordæmum. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, einkum um þær sönnunarkröfur sem rétturinn gerði og að ekki hafi verið tekið nægjanlegt tillit til þeirra sérstöku aðstæðna sem hafi verið vegna bruna sýsluskrifstofunnar í Borgarnesi árið 1920. Leyfisbeiðandi telur að varakrafa hans hefði átt að komast að í málinu þar sem hún lúti að óbeinum eignarréttindum sem felist að öllu leyti í beinum eignarrétti og rúmist þannig innan aðalkröfunnar. Hann telur úrlausn Landsréttar ekki standast skoðun og leiði til réttarspjalla. Þá hafi óbyggðanefnd farið gegn málsforræðisreglunni með því að úrskurða óbein eignarréttindi til aðila sem ekki gerðu kröfu fyrir nefndinni.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið á þessu réttarsviði né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.