Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-9

Menntamiðstöðin ehf. (Eiríkur Gunnsteinsson lögmaður)
gegn
Kára Jónassyni (Kristinn Bjarnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Ómerking ummæla
  • Skaðabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 6. janúar 2023 leitar Menntamiðstöðin ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. desember í máli nr. 546/2021: Menntamiðstöðin ehf. gegn Kára Jónassyni. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um ómerkingu á ummælum sem gagnaðili lét falla í sjónvarpsþætti um skóla sem leyfisbeiðandi rak auk kröfu um skaðabætur úr hendi gagnaðila.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Ummælin sem krafist var ómerkingar á voru: „[…] okkur finnst dálítið skrítið af hverju þessi skóli getur ekki kennt samkvæmt námsskrá menntamálaráðuneytisins.“ Í dómi Landsréttar var rakið að ummælin hefðu verið hluti af opinberri umræðu um menntamál leiðsögumanna. Þá hefðu ummælin beinst að atvinnufyrirtæki sem bauð almenningi þjónustu en ekki einstaklingi og yrðu slík fyrirtæki að þola meiri gagnrýni með hliðsjón af dómaframkvæmd Hæstaréttar og mannréttindadómstóls Evrópu. Að lokum yrði að meta ummælin heildstætt sem gildisdóm sem hefði átt sér næga stoð í staðreyndum og gefið til kynna andstöðu gagnaðila við að ekki hefðu verið gerðar meiri eða skýrari kröfur til þeirra sem útskrifuðust úr náminu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og séu fordæmisgefandi um túlkun á því hvar mörk gildisdóms og staðreynda liggi, einkum þegar settar eru fram fullyrðingar um að háttsemi sé í andstöðu við opinber fyrirmæli. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hann á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng að efni til. Vísar hann til þess að þrátt fyrir að þjónustufyrirtæki verði að þola meiri gagnrýni en einstaklingar breyti það ekki því að slík gagnrýni verði að vera innan ákveðinna marka. Þá telur hann ljóst að skilyrði þess að ummæli teljist vera gildisdómur sé að tiltekin staðhæfing verði ekki sönnuð. Ummæli gagnaðila hafi ekki getað fallið þar undir þar sem sannað hafi verið að þau ættu ekki við rök að styðjast enda hafi verið búið að fella úr gildi námsskrá menntamálaráðuneytisins og því hafi engin námsskrá verið í gildi þegar ummælin hafi verið sett fram.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.