Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-98

íslenska ríkið (Edda Björk Andradóttir lögmaður)
gegn
Þjóðkirkjunni (Ólafur Björnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Þjóðlenda
  • Eignarréttur
  • Afréttur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 1. júlí 2022 leitar íslenska ríkið leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 3. júní sama ár í máli nr. 490/2020: Kirkjumálasjóður gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Málið lýtur að því hvort landsvæðið austurhluti Ystutunguafréttar í Borgarbyggð, áður Norðurársdalshreppi, teljist þjóðlenda eða eignarland í skilningi laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

4. Með úrskurði óbyggðanefndar 11. október 2016 í máli nr. 2/2014 var komist að þeirri niðurstöðu að landsvæðið væri eignarland þar sem að leyfisbeiðanda hefði ekki tekist sönnun þess að landsvæðið væri þjóðlenda í skilningi laganna. Leyfisbeiðandi höfðaði þá mál á hendur Kirkjumálasjóði og krafðist þess að fellt yrði úr gildi ákvæði í úrskurðinum um landsvæðið og að viðurkennt yrði að það væri þjóðlenda, en Kirkjumálasjóður byggði á því að landið væri í eigu Stafholtskirkju. Með héraðsdómi voru kröfur leyfisbeiðanda teknar til greina. Með dómi Landsréttar var Kirkjumálasjóður hins vegar sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar var meðal annars vísað til þess að við mat á eignarréttarlegri stöðu landsvæða skipti almennt mestu máli hvort viðkomandi svæði væri eða hefði verið hluti af jörð samkvæmt fyrirliggjandi heimildum. Með vísan til þeirra yrði ekki annað séð en að hið umdeilda land hefði verið numið í öndverðu og því háð beinum eignarrétti. Talið væri að landið hefði komist í eigu Stafholtskirkju sem eignarland og það hefði gerst eigi síðar en á fyrri hluta 12. aldar. Ekki yrði séð af síðari heimildum að beinn eignarréttur að landinu hefði síðar fallið niður. Gagnaðili er nú skráður þinglýstur eigandi að landsvæðinu.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem dómur Hæstaréttar myndi veita mikilvæga leiðbeiningu um áframhaldandi meðferð þjóðlendumála samkvæmt lögum nr. 58/1998. Í því sambandi vísar leyfisbeiðandi einkum til þess að Landsréttur hafi gert aðrar og vægari kröfur til sönnunar á því að landsvæði teljist undirorpið beinum eignarrétti en hafi tíðkast. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.