Print

Mál nr. 61/2004

Lykilorð
  • Vinnusamningur
  • Uppsögn
  • Skaðabætur

Föstudaginn 18

 

Föstudaginn 18. júní 2004.

Nr. 61/2004.

Gunnar Brynjólfsson

(Reimar Pétursson hrl.)

gegn

Jannicke Elvu Juvik

(Guðmundur B. Ólafsson hrl.)

 

Vinnusamningur. Uppsögn. Skaðabætur.

J var ráðin til starfa hjá G í einkafirma hans í febrúar 2002. J hafði kynnt G að hún væri þunguð þegar hann sagði henni upp störfum í maí sama ár. G var ekki talinn hafa sýnt fram á að hann hafi haft gildar ástæður til að segja J upp, sbr. 30. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, en hún var enn á þriggja mánaða reynslutíma þegar henni var sagt upp. Var G dæmdur bótaskyldur gagnvart J samkvæmt 31. gr. fyrrnefndra laga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. febrúar 2004. Hann krefst sýknu af kröfu stefndu og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

         Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

         Í héraðsdómi kemur fram að hvorki hafi verið ágreiningur með aðilum um þann tíma sem launakrafa stefndu tekur til né um þá kröfu tölulega. Stefnda hefur mótmælt því að fyrir Hæstarétti verði grundvelli málsins breytt að þessu leyti. Verður á það að fallast. Stefnda hafði kynnt áfrýjanda að hún væri þunguð þegar hann sagði henni upp störfum. Hann hefur ekki sýnt fram á að hann hafi haft gildar ástæður til að segja henni upp á reynslutíma, sbr. 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Að þessu athuguðu en annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

        Áfrýjandi greiði stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Gunnar Brynjólfsson, greiði stefndu, Jannicke Elvu Juvik, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. nóvember 2003

       

          Mál þetta, sem dómtekið var hinn 7. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Jannicke Elva Juvik kt. 210277-2269 Bjargartanga 17, Mosfellsbæ, á hendur Gunnari Brynjólfssyni, kt. 100447-2829, Kríuhólum 4, Reykjavík, með stefnu birtri 6. febrúar 2003.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til greiðslu vangoldinna launa að fjárhæð kr. 1.214.802; ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af kr. 14.189,- frá l. júní 2002 til 1. júlí 2002, af kr. 124.189,- frá þeim tíma til 1. ágúst 2002, af kr. 234.189,- frá þeim tíma til l. september 2002, af kr. 344.189,- frá þeim tíma til 1. október 2002, en af kr. 1.214.802; frá þeim degi til greiðsludags.

Þess er krafist, að dæmt verði, að dráttarvextir skuli leggjast við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn þann 1. júní 2003, en síðan árlega þann dag.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Krafist er vaxta af málskostnaði samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 15. degi eftir uppkvaðningu dóms til greiðsludags. Einnig er krafist virðisauka af málskostnaði þar sem stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

             Dómkröfur stefnda eru  þær að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.

Þá krefst stefndi málskostnaðar að mati dómsins úr hendi stefnanda.  

 

                                                                                  Málsatvik

Stefnandi hóf störf hjá stefnda í einkafirma hans, Verkfæralagernum, þann 22. febrúar 2002 og starfaði hún við afgreiðslustörf í fullu starfi. Þann 22. apríl 2002 tilkynnti stefnandi stefnda að hún væri barnshafandi.

Stefnanda var sagt upp störfum með uppsagnarbréfi dags. 10. maí 2002 og var tekið fram að uppsagnarfrestur væri ein vika þar sem stefnandi væri enn á þriggja mánaða lausráðningu. Þá var tilgreint í uppsagnarbréfinu að ástæða uppsagnar væri tungumálaörðugleikar.  Stefnandi leitaði til Verslunarmannafélags Reykjavíkur (VR) vegna uppsagnarinnar.  Uppsögninni var mótmælt með bréfi VR dags. 16. maí 2002 og 14. júní 2002, en því bréfi var svarað með bréfi lögmanns Samtaka Verslunarinnar (FÍS) dags. 21. júní 2002. Kröfur stefnanda voru ítrekaðar með bréfi VR dags. 28. júní 2002 og innheimtubréfi Arnar Clausen hrl. dags. 9. júlí 2002.

Í málinu gerir stefnandi kröfu til launa vegna ólögmætrar uppsagnar og greiðslu bóta fyrir tjón vegna þjófnaðar.  Af hálfu stefnda er öllum kröfum stefnanda hafnað.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

             Stefnandi kveður mál þetta snúast um heimild til uppsagnar á barnshafandi konum. Stefnandi hafði tilkynnt um að hún væri barnshafandi þann 20. apríl 2002. Nokkru síðar hafi henni verið sagt upp störfum en engar athugasemdir höfðu verið gerðar við störf hennar fyrir uppsögn.

Í bréfi lögmanns Samtaka verslunarinnar / FÍS til VR dags. 21. júní 2002 er því haldið fram að uppsögnin á starfskröftum stefnanda sé lögleg þar sem ekki sé verið að segja henni upp störfum vegna þungunar heldur tungumálaörðugleika, en stefnandi er frá Noregi. Í bréfinu heldur lögmaður stefnda því fram að á reynslutíma stefnanda hafi komið í ljós að hún gæti ekki sinnt starfi sínu sem skyldi sökum tungumálaerfiðleika og því hafi verið heimilt að segja henni upp þó þunguð væri.

Sjónarmið stefnda eigi ekki við nokkur rök að styðjast. Uppsögn hafi farið fram stuttu eftir að stefnandi tilkynnti um þungun sína og aldrei hafði stefndi kvartað undan tungumálaörðugleikum við stefnanda enda búi stefnandi yfir mikilli kunnáttu í íslensku þó hún sé borin og barnfædd í Noregi.

Stefnandi tali mjög góða íslensku miðað við hve stutt hún hafi starfað á Íslandi. Í samtölum tali hún skýrt mál og geti hún tjáð hugsanir sínar vel og því sé ekki hægt að líta svo, á eins og haldið sé fram í bréfi lögmanns stefnda, að sökum tungumálaörðugleika hafi hún ekki haft burði til að sinna starfi sínu.

Stefnandi hafi rætt við starfsmenn VR um sitt mál á íslensku og komið öllu vel til skila. Sólveig Vignisdóttir íslenskukennari hafi verið fengin til að meta íslenskukunnáttu stefnanda og segir hún að stefnandi tali íslensku skýrt og eðlilega og að orðaforði hennar sé mjög góður, sbr. bréf hennar dags. 5. desember 2002.

Uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt þar sem óheimilt sé að segja barns­hafandi konu upp störfum sbr. 30. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000.

Krafa er gerð um launagreiðslur til handa stefnanda fram að fæðingu barns hennar sem og á uppsagnarfresti eftir töku fæðingarorlofs.

Þá hafi stefnandi orðið fyrir tjóni á vinnustað þar sem veski hennar hafi verið stolið af lager fyrirtækisins þann 19. apríl 2002, sbr. framlagða lögregluskýrslu.  Sam­kvæmt grein 6.1. í kjarasamningi milli Samtaka verslunarinnar – FÍS og Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Landsssambands íslenskra verzlunarmanna sé skylt að láta starfsmann hafa aðgang að læstum hirslum eða öðrum tryggum geymslustað þar sem hann geti geymt persónulega muni meðan á vinnu stendur. Á vinnustað hafði stefnandi ekki læsta hirslu og var tjón hennar verulegt eða að andvirði  26.000 kr. (taska, veski, snyrtivörur, græna kortið, ökuskírteini og lyklar).

Auk þess hafi stefnandi orðið að skipta um lás á heimili sínu sem hafi kostað 5.000 kr.  Tjón þetta hafi stefndi enn ekki bætt stefnanda.

Í bréfi lögmanns stefnda sé því haldið fram að ákvæði kjarasamninga um aðgang starfsmanna að læstum hirslum í fyrirtækinu fyrir sína persónulegu muni sé tryggt í fyrirtækinu. Því sé einnig hafnað.  Stefnandi hafi ekki haft aðgang að læstu herbergi fyrir slíka muni, henni höfðu ekki verið afhentir lyklar að því og ítrekað hafði verið við hana að einungis samstarfsmaður hennar hefði einn aðgang að því herbergi er yfirmenn/eigendur væru fjarverandi.

 

Krafan sundurliðast sem hér segir:

Laun vegna maí 2002                                                         kr.          110.000,-

Áður greitt                                                                          kr.           -95.811,-

Laun vegna júní 2002                                                        kr.          110.000,-

Laun vegna júlí 2002                                                          kr.          110.000,-

Laun vegna ágúst 2002                                                     kr.          110.000,-

Laun vegna september 2002                                             kr.          110.000,-

Laun vegna október 2002                                                 kr.          110.000,-

Laun vegna nóvember 2002                                             kr.          110.000,-

Laun á uppsagnarfresti fyrsti mánuður                          kr.          110.000,-

Laun á uppsagnarfresti annar mánuður                         kr.          110.000,-

Laun á uppsagnarfresti þriðji mánuður                          kr.          110.000,-

Desemberuppbót 2002                                                      kr.            37.000,-

Orlof 10,17% af kr. 1.100.000,-                                          kr.          111.870,-

Orlof 10,17% mars til maí 2002                                          kr.            30.743,-

Tjón vegna þjófnaðar                                                        kr.            31.000,-

                                                         Samtals kr. 1.214.802,­-

 

        Kröfur um bætur styður stefnandi við lög nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, lög nr.  30/1987 um orlof og lög nr. 19/1979 um uppsagnarfrest, samningalög nr. 7/1936, lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar og kjarasamninga Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og vinnuveitenda, og bókanir sem teljast hluti kjarasamninga.  Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 sbr. 129. gr. 4. tl. um vexti af málskostnaði. Einnig er krafist virðisaukaskatts af málskostnaði þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

             Af hálfu stefnda er tekið fram varðandi málavexti að stefnandi hafi verið ráðinn starfsmaður hjá fyrirtæki stefnda, Verkfæralagernum, frá 22. febrúar 2002.  Um hafi verið að ræða tímabundna ráðningu til reynslu. Stefnanda var sagt upp störfum þann 10. maí 2002 með viku uppsagnarfresti og voru launagreiðslur miðaðar við það. Í uppsagnarbréfi til stefnanda séu tilgreindar ástæður uppsagnarinnar.

             Ástæður uppsagnar á vinnusambandi stefnanda og stefnda séu að hluta tilgreindar í framlögðu uppsagnarbréfi. Komi þar fram að tungumálaörðugleikar séu ein ástæða uppsagnarinnar en upp höfðu komið ýmis tilvik um misskilning milli stefnanda og viðskiptavina fyrirtækisins vegna þeirra.  Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um að þörf væri á að stefnandi reyndi að bæta ráð sitt hafi sú ekki orðið raunin. Stefnandi hafi auk þess ekki verið starfi sínu vaxin varðandi meðhöndlun á vörum. Það að öll þau tilvik væru ekki sérstaklega tilgreind í uppsagnarbréfi  hafi frekar verið gert til að koma í veg fyrir særindi. Samtal Sólveigar Vignisdóttur við stefnanda til að meta íslenskukunnáttu hennar hafi átt sér stað 9 mánuðum eftir uppsögnina, sbr. framlagt skjal dags. 5. desember 2002, og megi gera ráð fyrir að íslenskukunnáttu stefnanda hafi eitthvað farið fram á þeim tíma. Enn fremur megi leiða líkur að því að stefndandi hafi getað undirbúið sig fyrir viðtalið enda virðist það beinlínis hafa verið gert vegna málatilbúnaðar stefndanda. Sé því hafnað að skjal þetta hafi gildi í málinu.

            Stefndi reki sérhæft verslunarfyrirtæki sem selji ýmis verkfæri. Honum sé nauðsynlegt að hafa á að skipa starfsfólki sem þekki þær vörur sem seldar séu í verslun fyrirtækisins og kunni að fara með þær. Stefnandi hafi ekki haft getu til að sinna starfinu eins og til hafi verið ætlast af henni.

            Því sé hafnað að stefnanda hafi verið sagt upp starfi sínu af þeirri ástæðu að hún var þunguð. Eins og rakið hafi verið hafi gildar ástæður verið fyrir uppsögninni og hún í fullu samræmi við ákvæði 30. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.

         Kröfu stefnanda um bætur úr hendi stefnda vegna þjófnaðar á veski hennar sé einnig hafnað. Réttilega komi fram í stefnu að í kjarasamningi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka verslunarinnar FÍS skuli starfsmaður hafa aðgang að læstum hirslum eða öðrum tryggum geymslustað þar sem hann geti geymt persónulega muni meðan á vinnu stendur. Þessi áskilnaður samningsins sé tryggður í fyrirtækinu og hafði stefnandi aðgang að læstu herbergi í þessum tilgangi. Ekki sé gerð krafa í samningum um að starfsmaður hafi persónulega sérstakar hirslur til geymslu á eignum sínum heldur sé sérstaklega tekið fram að fyrir hendi sé tryggur geymslustaður í þessum tilgangi. Það að stefnandi hafi kosið að geyma veski sitt á ótryggum stað geti ekki verið á ábyrgð stefnda.

     Kröfum sínum til stuðnings vísar stefndi m.a. til meginreglna kaupa- og kröfuréttar, og samningalaga. Þá er einnig vísað til laga nr. 30/1987, laga nr. 55/1980, laga nr. 80/1938 og laga nr. 95/2000.

             Kröfu um málskostnað styður stefndi við lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

             Svo sem fram er komið hóf stefnandi störf hjá stefnda 22. febrúar 2002.  Hún tilkynnti stefnda að hún væri barnshafandi 22. apríl 2002.  Stefnanda var sagt upp störfum með uppsagnarbréfi dags. 10. maí 2002. 

             Í 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eru ákvæði sem fela í sér vernd gegn uppsögnum við þær aðstæður, sem þar eru tilgreindar. Samkvæmt þeirri grein er óheimilt að segja þungaðri konu upp störfum nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Ákvæði þetta ber að túlka svo að sönnunarbyrði um gildar ástæður uppsagnar hvíli á vinnuveitanda. Í uppsagnarbréfinu eru tilgreindar ástæður uppsagnarinnar.  Þar segir svo: “Ástæður uppsagnar eru að starfsmaður á í vandræðum með að skilja viðskiptavinina og ekki síður að viðskiptavinirnir eiga í enn meiri vandræðum með að skilja starfsmanninn, þar að auki hefur komið betur og betur í ljós að starfsmaður hefur ekki getu til að meðhöndla og aðstoða viðskiptavini með of margar af þeim vörum sem verslunin selur, þar að auki eru viss vandræði í sambandi við útskrift á nótum og reikningum vegna tungumáls.”

Stefnandi, sem er norsk, var ráðin til starfa í verslun stefnda að undangenginni auglýsingu og án þess gerðar væru athugasemdir við kunnáttu hennar í íslensku. Stefndi hefur heldur ekki sýnt fram á að íslenskukunnátta stefnanda hafi verið það slök að það hafi valdið henni sérstökum erfiðleikum í starfi og stefndi hefur ekki sannað að stefnandi hafi að öðru leyti verið ófær um að gegna starfi sínu. Þegar stefnanda var sagt upp störfum í maí 2002 var hún þunguð og þá voru ekki liðnir þrír mánuðir frá ráðningu hennar, sem stefndi heldur fram að hafi verið tímalengd ráðningar stefnanda til reynslu. Voru því ekki gildar ástæður fyrir uppsögn stefnanda samkvæmt 30. gr. laga nr. 95/2000 og er stefndi því skaðabótaskyldur samkvæmt 31. gr. laganna. Hvorki er ágreiningur með aðilum um þann tíma sem launakrafa stefnanda tekur til né um þá kröfu tölulega.  Ber því að taka þá kröfu til greina að fjárhæð 1.183.802 kr.

Að því er varðar kröfu stefnanda um tjón vegna  þjófnaðar, virðist stefnandi ekki hafa gert kröfu um bætur af þeim sökum fyrr en eftir að henni var sagt upp störfum. Hún virðist heldur ekki hafa farið fram á það við stefnda að fá að geyma verðmætin á tryggum stað. Gegn andmælum stefnda verður ekki talið sannað að hann hafi brotið gegn ákvæði 6.1. í kjarasamningi og verður kröfu stefnanda um tjón vegna  þjófnaðar að fjárhæð 31.000 kr. hafnað.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaðan sú að dæma ber stefnda til að greiða stefnanda 1.183.802 kr. ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð, eins og í dómsorði greinir. Þá ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 250.000 kr.  Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.     

 

D Ó M S O R Ð :

             Stefndi, Gunnar Brynjólfsson, greiði stefnanda, Jannicke Elva Juvik, 1.183.802 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, af kr. 14.189,- frá l. júní 2002 til 1. júlí 2002, af kr. 124.189,- frá þeim tíma til 1. ágúst 2002, af kr. 234.189,- frá þeim tíma til l. september 2002, af kr. 344.189,- frá þeim tíma til 1. október 2002, en af kr. 1.183.802 frá þeim degi til greiðsludags og 250.000 kr. í málskostnað.

 

                                                   Eggert Óskarsson