Print

Mál nr. 188/1999

Lykilorð
  • Uppsögn
  • Laun
  • Miskabætur

                                                        

Fimmtudaginn 7. október 1999.

Nr.188/1999.

Steinar Orri Sigurðsson

(Þorsteinn Júlíusson hrl.)

gegn

Hallargarðinum ehf.

(Baldvin Hafsteinsson hdl.)

Uppsögn. Launakrafa. Miskabætur.

S, starfsmaður hjá H, undirritaði uppsagnarbréf, þar sem hann féll frá launum vegna yfirstandandi mánaðar og vinnu í uppsagnarfresti, eftir að honum hafði verið tjáð að sannanir væru fyrir því að hann væri valdur að rýrnun hjá H og réttlætti atferli hans fyrirvaralausan brottrekstur af þeim sökum. S hélt því fram að hann hefði verið þvingaður með ólögmætum hætti til að segja starfi sínu lausu og krafði H um vangreidd laun og skaðabætur. Með hliðsjón af því, að S taldi sig saklausan af þeim ávirðingum, sem á hann voru bornar, þótti hafa verið fullt tilefni fyrir S að snúa sér til lögregluyfirvalda með beiðni um opinbera rannsókn á fullyrðingum fyrirsvarsmanna H um refsvert atferli hans. Þegar litið var til þessa, þótti verða að fallast á það með héraðsdómi, að S hefði ekki haft neina skynsamlega ástæðu til að undirrita uppsagnarbréfið, ef hann hefði ekki sætt sig við þá skilmála, sem þar greindi frá. Var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna H af kröfum S, en málskostnaður látinn niður falla.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 12. maí 1999. Hann krefst þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða skuld að fjárhæð 268.940 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 155.374 krónum frá 30. nóvember 1997 til 31. desember sama ár, en af 268.940 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér miskabætur að fjárhæð 2.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 29. janúar 1998 til greiðsludags. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram var áfrýjandi boðaður á fund 24. nóvember 1997 með fyrirsvarsmönnum stefndu, sem tilkynntu honum, að rýrnunar hefði orðið vart hjá fyrirtækinu og hefðu þeir sannanir fyrir því, að hann væri valdur að henni. Var áfrýjanda tjáð, að atferli hans réttlætti fyrirvaralausa uppsögn og kæru til lögreglu, en honum var boðið, að málið yrði fellt niður, ef hann léti tafarlaust af störfum og félli frá öllum launakröfum. Á fundinum undirritaði áfrýjandi uppsagnarbréf, sem fyrir hann var lagt, án nokkurra fyrirvara. Áfrýjandi heldur því fram, að hann hafi verið þvingaður með ólögmætum hætti til að segja starfi sínu lausu.

Ekki liggur fyrir, hvort áfrýjandi mótmælti á fundinum ávirðingum þeim, sem á hann voru bornar. Fyrir dómi sagði áfrýjandi, að honum hefðu verið gefnir tveir kostir, annaðhvort að skrifa undir uppsagnarbréfið eða vera kærður fyrir þjófnað. Hann hefði spurt hvers vegna þeir héldu, að hann hefði gert þetta, en honum hafi ekki verið sagt það. Spurningu um það hvers vegna hann hefði skrifað undir uppsagnarbréfið svaraði hann svo, að hann hefði ekki séð annan kost til að sleppa við kæru.

Í bréfi lögmanns áfrýjanda til stefnda 26. nóvember 1997 kemur fram, að áfrýjandi telji sig saklausan af refsiverðum verknaði gagnvart stefnda. Samkvæmt gögnum málsins fór áfrýjandi þess á leit við lögreglustjórann í Reykjavík 20. janúar 1998 að fram færi opinber rannsókn á gerð og notkun leynilegs myndbands, sem stefndi hafði komið fyrir á vinnustað áfrýjanda. Var beiðninni synjað, og sá ríkissaksóknari ekki ástæðu til frekari aðgerða í málinu. Áfrýjandi heldur því fram, að hann sé saklaus af þeim ávirðingum, sem á hann voru bornar. Ekkert liggur hins vegar fyrir um það, að hann hafi snúið sér til lögregluyfirvalda með beiðni um opinbera rannsókn á fullyrðingum stefndu um refsivert atferli hans. Var þó fullt tilefni fyrir áfrýjanda að gera það, ef hann taldi sér misboðið. Þegar til þessa er litið verður að fallast á það með héraðsdómi, að áfrýjandi hafi ekki haft neina skynsamlega ástæðu til að undirrita uppsagnarbréfið, ef hann sætti sig ekki við þá skilmála, sem þar er greint frá. Ber því að staðfesta héraðsdóm um sýknu stefnda og niðurfellingu málskostnaðar.

Með hliðsjón af því, að engin gögn liggja fyrir um verðmæti þess, sem fyrirsvarsmenn stefnda telja, að áfrýjandi hafi tekið ófrjálsri hendi, og engin sönnun um, að áfrýjandi hafi staðið þar að verki, þykir rétt að fella niður málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Stefndi, Hallargarðurinn ehf., skal vera sýkn af kröfum áfrýjanda, Steinars Orra Sigurðssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. febrúar 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Steinari Orra Sigurðssyni, kt. 200274-4669, Krummahólum 69, Reykjavík, á hendur Hallargarðinum ehf., 440191-1509, Austurstræti 9, Reykjavík, með stefnu, sem birt var 26. janúar 1998.

Dómkröfur stefnanda eru:

Að hið stefnda einkahlutafélag verði dæmt til greiðslu skuldar að fjárhæð 268.940 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 155.374 kr. frá 30. nóvember 1997 til 31. desember 1997 en þá af 268.940 kr. til greiðsludags.

Að hið stefnda einkahlutafélag verði dæmt til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 2.000.000 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. janúar 1998 til greiðsludags.

Að myndbönd sem tekin voru leynilega af starfsfólki stefnanda við vinnu sína árið 1997 verði gerð upptæk og þeim skuli eytt.

Stefnandi krefst málskostnaðar að mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti. Þá er þess krafist að dæmt verði að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfu og málskostnað á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxtanna.

Dómkröfur stefnda eru að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Auk þess krefst hann þess sérstaklega að bréf Tölvunefndar dags. 31. desember 1997, sem lagt er fram sem dómskjal nr. 7, verði ómerkt og því vísað frá dómi

Þá krefst stefndi í öllum tilvikum málskostnaðar að skaðlausu .

I.

Stefnandi mun hafa hafið störf sem framreiðslumaður hjá stefnda í febrúar 1997. Að sögn stefnda varð vart við töluverða óreglu við sjóðsuppgjör þannig að óútskýrð vöntun var á greiðslum eða of mikið fé var í kassanum. Taldi stefndi þetta benda til að sölur væru ekki slegnar inn eins og ætlast var til og að fé væri tekið úr kassa án þess að grein væri fyrir því gert.

Vegna þessa kveðst stefndi hafa ákveðið að láta tímabundið setja upp eftirlitsmyndavél til að kanna umgengni starfsmanna um sjóðvél. Heldur stefndi fram að fljótlega hafi komið í ljós að stefnandi hafi tekið ófrjálsri hendi fé úr sjóðsvél. Auk þess hafi hann tekið ýmsar vörur svo sem vín, tóbak og bjór, án þess að greiða fyrir eða á annan hátt gera grein fyrir töku sinni á vörum - eins og þó reglur stefnda hafi kveðið skýrt á um.

Þegar þetta hafi verið ljóst hafi eigendur stefnda tafarlaust kallað stefnanda til fundar þar sem honum hafi verið gerð grein fyrir málavöxtum. Hafi stefnanda verið bent á að stefndi teldi hann hafa brotið alvarlega gegn vinnuréttarsambandi aðila auk þess sem hann hefði gróflega brotið trúnað við stefnda. Stefndi hafi talið að brotið réttlætti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi en slík brottvikning myndi hins vegar hafa áhrif á möguleika stefnanda til starfa annars staðar. Hafi honum því verið boðið að láta tafarlaust af störfum hjá stefnda og myndi stefndi þá láta málið falla niður af sinni hálfu. Jafnframt hafi stefnanda verið gerð grein fyrir, að yrði eftir því leitað af vinnuveitendum stefnanda í framtíðinni, myndi stefndi upplýsa um tildrög starfsloka stefnanda hjá stefnda. Stefnandi hafi fallist á þetta og undirritað eftirfarandi uppsagnarbréf:

Ég undirritaður Steinar Orri Sigurðsson kt 200274-4669 segi hér með upp störfum mínum hjá Hallargarðinum ehf. kt 440191-1509 frá og með deginum í dag að telja.

Ekki er óskað eftir að vinna uppsagnafrest.

Fallið er frá launakröfum vegna nóvember.

Reykjavík 24.11.1997.

Stefnandi heldur því á hinn bóginn fram að samkomulag hafi verið milli starfsmanna og forráðamanna félagsins að starfsmenn mættu taka út vörur, sem síðan hafi verið greiddar við útborgun launa, þ.e. vöruúttekt hvers mánuðar hafi verið dregin frá launum og þess getið á launaseðli. Þannig hafi starfsmenn mátt taka vörur, t.d. áfengi eða sígarettur, enda hafi verið við það miðað að uppgjör færi fram við útborgun launa.

Stefnandi kveðst hafa starfað sem framreiðslumaður og vaktstjóri í matsal í veitingahúsi stefnda. Allir þeir, sem unnið hafi í sal, hafi haft aðgang að peningakassa (sjóðsvél) stefnda. Hafi þeir tekið á móti greiðslum frá viðskiptavinum, sett í kassa og gefið til baka úr kassa, ef svo hafi borið við. Þá hafi peningar oft verið teknir úr kassa til að bjarga málum, er skortur varð á hráefni eða öðru. Hafi þá einhver starfsmanna hlaupið út til að kaupa það sem vantaði. Sem vaktstjóri hafi stefnandi haft heimild til að fara í kassa og taka fé til að greiða öðrum laun fyrir fram, sem jafnað hefði verið við útborgun launa um mánaðamót. Þá sé þess að geta að póstkort liggi frammi í veitingahúsi stefnda, sem viðskiptavinum sé boðið að nýta sér, og stefndi taki að sér að póstsenda viðskiptavinum að kostnaðarlausu. Hafi fé til þess verið tekið úr kassa stefnda.

Stefnandi kveðst ekki hafa séð um uppgjör úr peningakassa. Framkvæmdin hafi verið þannig að söluandvirði kvöldsins var skilið eftir í peningakassanum yfir nóttina. Næsta dag hafi forsvarsmenn stefnda tæmt kassa og gert upp. Hafi þá verið undir hælinn lagt hvort umgangur annarra var hafinn um húsnæðið eða ekki.

Stefnandi heldur fram að samskipti sín við forsvarsmenn stefnda hafi gengið snurðulaust fyrir sig. Hafi hann ekki vitað betur en að þeir væru ánægðir með störf hans þar til hann var fyrirvaralaust kallaður á þeirra fund 24. nóvember 1997. Hafi hann þá hitt fyrir brúnaþungt fólk, sem tilkynnt hafi honum að óeðlileg rýrnu hefði orðið á rekstrarafkomu, sem það teldi að stefnandi ætti sök á. Hafi það talið sig hafa undir höndum óræka sönnun þess að stefnandi hefði gerst sekur um refsiverðan verknað. Ætlun þess væri að segja honum fyrirvaralaust upp störfum og kæra hann til lögreglu. Í beinu framhaldi af þessu hafi það þó lagt fyrir hann bréf, sem efnislega hafi kveðið á um fyrirvaralausa uppsögn og að stefnandi falli frá öllum launakröfum. Honum hafi verið sagt að undirrita bréfið til að koma í veg fyrir kæru af þess hálfu. Við þessar aðstæður og undir þessum óréttlátu hótunum hafi hann skrifað undir bréfið.

Stefnandi segir að þessar ásakanir forráðamanna stefnda og aðferð þeirra við uppsögnina hafi orðið sér mikið áfall, valdið sér tilfinningalegu uppnámi og veru­legum heilabrotum. Hvernig sem hann skoði hug sinn hafi hann ekki getað fundið sök hjá sér eða ástæður aðfarar stefnda gegn sér.

Kveðst stefnandi hafa leitað til stéttarfélags síns. Að höfðu samráði við stjórn félagsins kveðst hann hafa leitað til lögmanns. Lögmaðurinn hafi sent bréf til stefnda 26. sama mánaðar þar sem m.a. var krafist að stefndi greiddi stefnanda laun fyrir störf hans fyrir stefnda í nóvember svo og laun í uppsagnarfresti enda væri hann reiðubúinn að vinna fyrir stefnda meðan fresturinn liði. Forráðamenn stefnda hafi þá upplýst að leynileg myndbandsupptaka af stefnanda á vinnustað hafi sýnt þeim afbrot stefnanda. Lögmaður stefnanda hafi fengið að sjá þessa upptöku en hann álítur að hún sanni ekki eitt eða neitt. Ef aðili sá, er myndbandið sýnir, sé stefnandi - en það sé ekki ljóst að um hann sé að ræða – þá sýni það ekki óeðlilegt atferli stefnanda í ljósi vinnu­samnings aðila og almennra athafna starfsmanns á borð við stefnanda á þessum vinnustað.

II.

Stefnandi setur kröfufjárhæðina í tl. 1. tölulega þannig fram:

Laun vegna nóvember 1997

146.580,-

6% lífeyrissjóðsframlag vinnuv.

8.794,-

155.374,-

Laun vegna 14 daga í des 1997

66.197,-

6% lífeyrissjóðsframlag vinnuv.

3.972,-

70.169,-

10,17% orlof frá maí til des 1997

111.087,-

Desemberuppbót (25.180,- / 12 x 9,5)

19.934,-

Orlofsuppbót ( 8.400,- / 12 x 9,5)

6.650,-

Samtals

363.214,-

( - 94.274,-)

Samtals

268.940,-

Stefnandi segir að laun í desember séu fundin þannig að heildarlaunum, 146.580 kr., sé deilt í dagafjölda, þ.e. 31, og síðan margfaldað með fjórtán dögum. Orlof frá maí til desember 1997 miðist við ógreitt orlof frá maí til 14. desember 1997. Desemberuppbót ársins 1997 hafi verið 25.180 kr. Þessari tölu sé deilt með mánaðarfjölda, þ.e. 12, og margfaldað með unnum mánuðum, þ.e. 9,5. Orlofsuppbót ársins 1997 hafi verið 8.400 kr. Þessari tölu sé deilt með mánaðarfjölda, þ.e. 12, og margfaldað með unnum mánuðum, þ.e. 9,5.

Stefnandi heldur fram, þrátt fyrir undirritun sína á uppsagnarbréf, hafi honum í raun og veru með ólögmætum hætti verið sagt upp störfum. Stefnandi vísar til laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 í því sambandi, einkum til 1. mgr. 29. gr., 2. mgr. 30. gr., 33. gr. og 36. gr. Þá telur stefnandi að myndataka sú, sem stefndi stóð að vegna óeðlilegrar rýrnunar í rekstrarafkomu að mati forráðamanna stefnda, brjóta í bága við ákvæði laga um skráningu og meðferð persónuupplýsinga nr. 121/1989 eins og bréf Tölvunefndar til lögmanns stefnanda frá 31. desember 1997 hafi reyndar staðfest.

Stefnandi telur að forsvarsmenn stefnda hafi brotið með framferði sínu gagnvart honum ákv. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem segi, þá er vafi leikur á um réttindi þegns og skyldur eða hann er borinn sökum um glæpsamlegt athæfi, þá skuli hann njóta réttlátrar og opinberrar rannsóknar innan hæfilegs tíma fyrir óháðum, óhlutdrægum og lögmæltum dómstóli. Fyrst þeir töldu að stefnandi hefði stolið frá þeim hefðu þeir átt að sjá til þess að rannsókn færi fram með opinberum hætti. Sú málsmeðferð, sem stefnandi hafi fengið hjá þeim, sé með öllu óásættanleg og þar að auki ólögmæt.

Stefnandi kveðst byggja á því að ásakanir, sem á hann voru bornar og töldust ástæður uppsagnar, eigi ekki við rök að styðjast. Hann heldur því fram að allir þeir er unnu hjá fyrirtækinu hafi haft aðgang að lager og peningakassa þess.

Tölulega kveðst stefnandi reisa kröfu sína um laun á vinnusamningi milli aðila, kjarasamningi og almennum reglum samninga- og vinnuréttarins. Og kröfum um vexti, málskostnað, orlof og virðisaukaskatt á lögum þar að lútandi.

Stefnandi krefst miskabóta sbr. ákv. 26. gr. skaðabótalaga. Rétt sé að líta til þess að stefnandi sé ungur að árum, hafi menntað sig í lögmæltri iðngrein, sem sé vaxandi og rík af tækifærum fyrir ungt fólk. Brottvikning úr starf hans hjá stefnda hafi ótvírætt haft í för með sér röskun á stöðu og högum. Stefndi hafi ásakað stefnanda um framferði, sem varðar refsilög, til þess fallið að skapa vantraust annarra atvinnurekenda í iðninni á honum og raunar hjá fólki almennt. Ásakanir forráða­manna stefnda hafa að mati stefnanda því haft veruleg áhrif á framtíðarmöguleika hans.

Stefnandi hafi nú hrökklast úr iðngrein sem tók hann 3 ár að læra.  Ekki verði á óyggjandi hátt sannað fjártjón stefnanda eins og aðstæðum sé háttað. Engu að síður beri að bæta tjón stefnanda. Telji hann hæfilegar bætur nema 2.000.000 kr.

Kröfu um að myndbandsspólur verði gerðar upptækar og þeim eytt kveðst stefnandi byggja á því að um ólöglegar upptökur hafi verið að ræða. Í þessu sambandi kveðst stefnandi vísa til meginreglu, sem fram komi í 88. gr. laga um meðferð opin­berra mála nr. 19/1991. Ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs beri að sama brunni.

III.

Stefndi reisir kröfu sína um sýknu á því að stefnandi hafi sagt starfi sínu lausu af fúsum og frjálsum vilja. Í ljósi aðstæðna hafi stefndi fallist á að stefnandi léti tafarlaust af störfum. Stefnandi eigi því enga kröfu á hendur stefnda. Þá heldur stefndi fram að engar forsendur séu til að beita ógildingarreglum samningalaga svo sem stefnandi haldi fram. Stefnandi hafi hvorki verið beittur ólögmætri nauðung né hafi hann sviksamlega verið leyndur atriðum sem máli skiptu.

Stefndi telur skilyrði 26. gr. skaðabótalaga til miskabóta ekki vera fyrir hendi eins og stefnandi haldi fram. Stefnanda hafi ekki verið vísað úr starfi með þeim hætti sem hann segi. Og jafnvel þótt svo hefði verið, hefði slík brottvikning verið fyllilega lögmæt með hliðsjón af öllum aðstæðum. Engin meingerð hafi átt sér stað, hvorki gagnvart æru né persónu stefnanda. Stefndi kveðst harðlega mótmæla orðalagi í stefnu um aðför að stefnanda. Stefnandi hafi viðurkennt ásakanir sem á hann voru bornar. Líta megi á uppsagnarbréf stefnanda sem fullkomna viðurkenningu á því. Telji stefnandi sig hafa orðið fyrir ærumissi eða röskun á högum, sem stefndi dregur stórlega í efa, þá beri hann alfarið sök á því sjálfur. Stefndi hafi kappkostað að láta ekkert uppi um tildrög starfsloka stefnanda.

Alveg sérstaklega mótmælir stefndi miskabótakröfu stefnanda sem allt of hárri og órökstuddri.

 Launakröfum stefnanda mótmælir stefndi sem of háum. Kröfum um desemberuppbót og orlofsuppbót mótmælir hann sérstaklega, enda sé ekki ljóst á hvaða grundvelli þær kröfur séu reistar.

IV.

Niðurstaða.

Stefnandi var kallaður á fund forráðamanna stefnda 24. nóvember 1997. Að sögn Ívars Daníelssonar og Leifs Kolbeinssonar, en þeir stjórna veitingastaðnum sem hér um ræðir, höfðu þeir orðið varir við að dagleg afkoma veitingarekstrarins var ekki með eðlilegum hætti, áberandi eftir að starfsmannahópur sá, er stefnandi var með, átti vakt. En að jafnaði skiptu starfsmenn stefnda störfum með sér í tvær vaktir, minnst fjórir á vakt í einu en fleiri um helgar. Þeir kváðust hafa komist að því að stefnandi ætti sök á þessu misferli. Hafi þeir uppgötvað það af myndum, sem teknar hafi verið af starfsfólkinu með leynilegri upptökuvél, í námunda við sjóðvél veitingastaðarins.

Stefnandi neitaði staðfastlega fyrir rétti að hafa stolið frá stefnda peningum og vörum svo sem forráðamenn stefnda halda fram að hann hafi gert. Hann kvaðst hafa verið þvingaður til að skrifa undir uppsögn 24. nóvember 1997 með hótunum um að að öðrum kosti yrðu bornar á hann sakir um þjófnað.

 Ekki liggja fyrir í málinu nein gögn eða upplýsingar um hvert sé verðmæti þess nokkurn veginn, sem forráðamenn stefnda telja, að stefnandi hafi stolið frá fyrirtækinu. Þá hafa ekki verið lagðar fram myndir þær, sem þeir telja að sýni og sanni afbrot stefnanda. Aftur á móti hefur heldur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi verið þvingaður með ólögmætum hætti til að segja starfi sínu hjá stefnda lausu. Í bréfi, sem dagsett er 24. nóvember 1997 og lagt hefur verið fram í málinu sem dskj. nr 10, tjáist stefnandi ekki óska eftir að vinna uppsagnarfrest og jafnframt falli hann frá launakröfu "vegna nóvember". Verður að telja að hann hafi ekki haft neina skynsam­lega ástæðu til fallast á að undirrita bréf þetta ef hann óskaði ekki eftir að hætta störf­um hjá stefnda með þeim skilmálum sem þar er greint frá.

Mál þetta er ekki upplýst sem skyldi og verður stefnandi sem sóknaraðili málsins að bera halla af því. Stefndi verður því sýknaður af launa- og bótakröfu stefnanda.

Krafa stefnanda um „að myndbönd sem tekin voru leynilega af starfsfólki stefnanda við vinnu sína árið 1997 verði gerð upptæk og þeim skuli eytt“ verður ekki fjallað um í þessu einkamáli og verður henni vísað frá dómi.

Stefndi gerir þá kröfu að bréf Tölvunefndar frá 31. desember 1997 til lögmanns stefnanda, sem lagt hefur verið fram sem dskj. nr. 7 í málinu, verði ómerkt og því vísað frá dómi. Tölvunefnd er ekki aðili að þessu máli. Bréf nefndarinnar verður ekki ómerkt í máli sem hún á ekki aðild að.

Á dómþingi 29. janúar 1998 var dskj. nr. 7 lagt fram og þingmerkt. Í þinghaldinu kom ekki fram krafa af hálfu stefnda að hafna bæri framlagningu á skjalinu. Verður skjalinu nú ekki vísað frá dómi.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, Hallargarðurinn ehf., er sýkn að launa- og bótakröfum stefnanda, Steinars Orra Sigurðssonar.

Vísað er frá dómi kröfu stefnanda um að tiltekin myndbönd verði gerð upptæk og þeim eytt.

Hafnað er kröfum stefnda um að bréf Tölvunefnda frá 31. desember 1997 til lögmanns stefnanda, Ásgeirs Björnssonar hdl., verði ómerkt og því vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.