Print

Mál nr. 303/2017

KSÍ ehf. (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Ólafur Örn Svansson lögmaður)
Lykilorð
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
Reifun

K ehf. gerði viðskiptasamning um reikningslánalínu við LÍ hf. 22. september 2006. Frá því samningurinn var gerður og fram til 30. júlí 2007 óskaði K ehf. átta sinnum eftir að fá greiddan út tiltekinn lánshluta á grundvelli samningsins. Í öllum tilvikum var fjárhæð væntanlegs láns tilgreind í íslenskum krónum en einnig tilgreind prósentutala í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Í febrúar 2007 greiddi K ehf. tvívegis inn á skuld sína við LÍ hf. og með lánsbeiðni í ágúst 2007 óskaði K ehf. eftir nýjum lánshluta að tiltekinni fjárhæð sem tilgreind var í svissneskum frönkum og japönskum jenum, en með þeim lánshluta voru allir eldri lánshlutar greiddir upp. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var ýmsum réttindum og skyldum LÍ hf. ráðstafað til L hf., þar á meðal kröfum þess fyrrnefnda á hendur K ehf. að því leyti sem þær voru þá ógreiddar. Með nýrri lánsbeiðni til L hf. í desember 2008 óskaði K ehf. eftir lánshluta að tiltekinni fjárhæð sem tilgreind var í svissneskum frönkum og japönskum jenum, en með beiðninni var eldra lánið framlengt og áföllnum vöxtum bætt við höfuðstól þess. Greiddi K ehf. upp skuld sína við L hf. í desember 2009. K ehf. taldi sig hafa ofgreitt við uppgjör á lánum á grundvelli samningsins frá 2006 þar sem þau hefðu í raun verið veitt í íslenskum krónum og bundin við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Í málinu krafði félagið L hf. um endurgreiðslu á því sem það taldi að ofgreitt hefði verið. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísaði til þess að fyrir lægi í málinu að lán þau sem K ehf. tók hjá LÍ hf. fram til 30. júlí 2007 hefðu öll verið greidd upp með nýjum lánshluta, sem K ehf. gerði beiðni um í ágúst sama ár. Hefði beiðnin verið um lán að tiltekinni fjárhæð sem tilgreind var í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Hefði lánið sem LÍ hf. veitti á þeim grundvelli verið í erlendum gjaldmiðlum og væri K ehf. við það bundinn. Þegar L hf. hefði tekið yfir skuldbindingu K ehf. hefði lánið því ótvírætt verið í erlendum gjaldmiðlum. Yrði litið svo á að lánveiting LÍ ehf. hefði verið háð ólögmætum skilmála um gengistryggingu fram til ágúst 2007 væri þess að gæta að K ehf. hefði ekki fært haldbær rök fyrir því að hann gæti krafið L hf. um endurgreiðslu ofgreidds fjár af þeim sökum þar sem hinn síðarnefndi hefði ekki tekið yfir slíkar skuldbindingar LÍ hf. Var L hf. því sýknaður af kröfu K ehf.

                                                        Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Árni Kolbeinsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. maí 2017. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 339.621.068 krónur, til vara 246.139.581 krónu, en að því frágengnu 217.743.873 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. ágúst 2011 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins gerði áfrýjandi samning 22. september 2006 við Landsbanka Íslands hf. með fyrirsögninni: „Kr. 1.000.000.000,- Viðskiptasamningur um reikningslánalínu“. Þar kom fram að bankinn hafi samþykkt að veita áfrýjanda sem lántaka „framkvæmdafjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð kr. 1.000.000.000,-“, en innan þeirra marka væri „lántaka heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum svo og öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn á viðskipti með.“ Myndi hver lánshluti, sem áfrýjandi tæki, teljast „sjálfstætt lán.“ Hámarkstími hvers lánshluta yrði takmarkaður af gildistíma samningsins, sem væri frá undirritun hans til 1. ágúst 2007, en gildistíminn myndi eftir það framlengjast í sex mánuði í senn yrði samningnum ekki sagt upp með tilteknum fyrirvara. Um lágmarkstíma lánshluta var tekið fram að lánstími mætti ekki verða skemmri en tveir dagar ef um væri að ræða „lán í erlendum myntum.“ Að öðru leyti átti gjalddagi lánshluta að ráðast af ósk áfrýjanda, sem fram kæmi í lánsbeiðni, en heimilt yrði að „framlengja einstaka lánshluta með sama hætti og gildir um lánsbeiðnir.“ Undirrituð lánsbeiðni yrði að berast frá áfrýjanda um lánshluta í íslenskum krónum fyrir tiltekinn tíma þess dags, sem hann vildi fá lánið greitt út, en með tveggja bankadaga fyrirvara ef um væri að ræða „erlendan lánshluta“ og yrði þá lánsféð lagt inn á reikning áfrýjanda „miðað við kaupgengi hverrar myntar“. Mælt var fyrir um að vextir af lánshluta í íslenskum krónum yrðu svonefndir REIBOR vextir með 0,7% álagi, en LIBOR vextir með sama álagi af lánshluta í erlendum gjaldmiðlum. Þá var kveðið á um að áfrýjandi myndi endurgreiða lánshluta í erlendum gjaldmiðli með „íslenskum krónum samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga“, en honum væri þó einnig heimilt að greiða „í lántökumyntum.“

Samningi þessum fylgdi eyðublað fyrir lánsbeiðni til Landsbanka Íslands hf., sem áfrýjandi átti að fylla út og undirrita í hvert sinn sem hann óskaði eftir að fá greiddan út lánshluta. Var ætlast til að áfrýjandi færði þar inn lántökudag, „mynt og upphæð“ lánshlutans, gjalddaga, vaxtakjör, númer reiknings til að greiða lánsfé inn á og númer reiknings til að skuldfæra endurgreiðslu af, en um önnur atriði var vísað þar til samningsins frá 22. september 2006. Á tímabilinu frá þeim degi til 30. júlí 2007 óskaði áfrýjandi í átta skipti eftir að fá greiddan út lánshluta með því að afhenda bankanum lánsbeiðni á slíku eyðublaði. Í öllum tilvikum var fjárhæð væntanlegs láns tilgreind í íslenskum krónum, en einnig tekið fram ýmist „50% JPY – 50% CHF“ eða það sama ritað í gagnstæðri röð. Hafa skammstafanir þessar væntanlega verið notaðar um japönsk jen og svissneska franka. Þá var lántökudagur og gjalddagi ávallt tilgreindur ásamt því að vextir yrðu „Libor + 0,7“. Að einu tilviki undanskildu var einnig tekið fram inn á hvaða reikning greiða ætti lánsféð og mun hann hafa tilheyrt áfrýjanda og verið í íslenskum krónum, en aldrei var getið um reikning til að skuldfæra endurgreiðslu af. Með þessum átta lánshlutum tók áfrýjandi samtals 635.000.000 krónur að láni hjá bankanum miðað við þær fjárhæðir í þeim gjaldmiðli, sem fram komu í lánsbeiðnunum.

Fyrir liggur að áfrýjandi greiddi 16. og 20. febrúar 2007 samtals 227.605.668 krónur inn á skuld sína við Landsbanka Íslands hf. Í báðum tilvikum kom fram í kvittunum útreikningur á endurgreiðslu í japönskum jenum og svissneskum frönkum, svo og að áfrýjandi hafi átt gjaldeyrisviðskipti með kaupum á tilteknum fjárhæðum í þeim gjaldmiðlum, sem svöruðu til greiðslna hans. Samningurinn frá 22. september 2006 átti sem áður segir að renna skeið sitt á enda 1. ágúst 2007 og áttu einstakir lánshlutar til áfrýjanda í síðasta lagi að falla í gjalddaga þann dag. Ráðið verður af gögnum málsins að gildistími samningsins hafi þá framlengst eftir áðurnefndum ákvæðum hans, en ótilgreindan dag í ágúst 2007 fyllti áfrýjandi út lánsbeiðni á grundvelli samningsins, þar sem óskað var eftir nýjum lánshluta að fjárhæð „CHF 3.707.036,05 JPY 353.892.665,-“ með gjalddaga 16. október sama ár og átti hann að bera LIBOR vexti með 0,7% álagi. Óumdeilt er að með þessu hafi allir eldri lánshlutar verið greiddir upp að því leyti, sem áfrýjandi hafði ekki endurgreitt þá eins og áður var lýst 16. og 20. febrúar 2007. Þessi nýi lánshluti var síðan framlengdur til tiltekins tíma í senn með nýjum lánsbeiðnum áfrýjanda 25. október 2007, 18. desember 2007, 19. febrúar 2008 og 25. júní 2008. Beiðnir þessar voru að einni undantekinni auðkenndar með orðinu „framlenging“. Fjárhæðir voru aðeins tilgreindar í einu tilviki, en í öðrum kom það eitt fram að lánshluti væri í fyrrnefndum erlendum gjaldmiðlum og ættu áfallnir vextir að leggjast við höfuðstól. Samkvæmt framlagðri kvittun innti áfrýjandi af hendi greiðslu inn á skuld sína 1. ágúst 2008 með því að 1.750.010 evrur voru teknar af tilteknum gjaldeyrisreikningi hans og þeirri fjárhæð skipt í japönsk jen og svissneska franka, en í kvittuninni var fjárhæð skuldarinnar fyrir og eftir innborgun ásamt greiddri fjárhæð tilgreind í síðastnefndum tveimur gjaldmiðlum. Vegna eftirstöðva skuldarinnar eftir þessa innborgun var gerð ný lánsbeiðni, sem aftur var auðkennd með orðinu „framlenging“, en um gjaldmiðla og fjárhæðir sagði aðeins „CHF/JPY Höfuðst. + vxt.“

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., leysa stjórn félagsins frá störfum og setja yfir það skilanefnd. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. sama mánaðar var ýmsum réttindum og skyldum þess banka ráðstafað til stefnda og er óumdeilt að meðal þeirra hafi verið kröfur bankans á hendur áfrýjanda á framangreindum grundvelli að því leyti, sem þær voru þá ógreiddar.

Áfrýjandi beindi nýrri lánsbeiðni til stefnda 29. desember 2008 og var þar sem fyrr vísað til samnings áfrýjanda við Landsbanka Íslands hf. frá 22. september 2006. Óskaði áfrýjandi þar eftir lánshluta að fjárhæð 221.675.008 japönsk jen og 2.513.480,86 svissneska franka með gjalddaga 4. febrúar 2009, en lán þetta ætti að bera LIBOR vexti með 3,75% álagi. Á gjalddaga þessa lánshluta greiddi áfrýjandi inn á skuldina samtals 1.661.000 evrur með úttekt af þremur gjaldeyrisreikningum auk 51.583,44 bandaríkjadala, en samkvæmt kvittunum fyrir þessum greiðslum var framangreindum fjárhæðum varið til kaupa á svissneskum frönkum og var sá hluti skuldarinnar, sem var talinn í þeim gjaldmiðli, þar með greiddur upp. Lánshluti í japönskum jenum var á hinn bóginn framlengdur með nýrri lánsbeiðni til 4. september 2009 og fjárhæð hans tilgreind 224.332.263 jen. Af gögnum málsins virðist mega ráða að aftur hafi sá lánshluti verið framlengdur til 22. desember 2009, en þann dag greiddi áfrýjandi upp skuld sína með því að 1.732.910,86 evrur voru teknar af tilteknum gjaldeyrisreikningi hans og skipt í 226.127.538 japönsk jen eða sem svaraði eftirstöðvum höfuðstóls lánshlutans og áföllnum vöxtum af honum.

Með þeim ráðstöfunum, sem hér hefur verið lýst, kveðst áfrýjandi hafa greitt Landsbanka Íslands hf. og síðan stefnda samtals 1.016.697.669 krónur vegna lána, sem hann hafi tekið á grundvelli samningsins frá 22. september 2006. Áfrýjandi telur lán þessi í raun hafa verið veitt í íslenskum krónum, en fjárhæð þeirra hafi verið bundin við gengi áðurnefndra erlendra gjaldmiðla, sem hafi verið óheimilt eftir þágildandi ákvæðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001. Í málinu krefur áfrýjandi stefnda um endurgreiðslu á því, sem hann telur sig hafa af þessum sökum ofgreitt við uppgjör á framangreindum lánum.

II

Án tillits til þess hvort álitaefni geti verið um hvort lán, sem áfrýjandi tók hjá Landsbanka Íslands hf. í skjóli samnings þeirra frá 22. september 2006 með áðurgreindum átta lánsbeiðnum á tímabilinu frá þeim degi til 30. júlí 2007, hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðlum, svo sem heimilt var, eða í íslenskum krónum með ólögmætum ákvæðum um bindingu lánsfjárhæðar við tiltekna erlenda gjaldmiðla, liggur fyrir að þessir lánshlutar voru allir greiddir upp með nýjum lánshluta, sem áfrýjandi gerði beiðni um í ágúst 2007. Sú beiðni var sem fyrr segir um lán að fjárhæð 3.707.036,05 svissneskir frankar og 353.892.665 japönsk jen. Lánið, sem Landsbanki Íslands hf. veitti á þeim grundvelli, var hvað sem líður fyrri skiptum hans við áfrýjanda í erlendum gjaldmiðlum og var áfrýjandi við það bundinn, sbr. að nokkru dóma Hæstaréttar 5. júní 2014 í máli nr. 25/2014 og 28. maí 2015 í máli nr. 337/2015. Eftir það hækkaði annars vegar skuld áfrýjanda með því að áfallnir vextir voru lagðir við höfuðstól við framlengingar á lánshlutum og lækkaði hins vegar með áðurgreindri innborgun 1. ágúst 2008, en í því horfi, sem lán Landsbanka Íslands hf. til áfrýjanda var eftir þær ráðstafanir, tók stefndi við skuldbindingu áfrýjanda á grundvelli ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Lánið var þá ótvírætt í erlendum gjaldmiðlum. Yrði litið svo á að lánveiting Landsbanka Íslands hf. til áfrýjanda hafi verið háð ólögmætum skilmála um gengistryggingu fram til ágúst 2007 er þess að gæta að áfrýjandi hefur ekki fært haldbær rök fyrir því að hann geti að réttu lagi beint kröfu um endurgreiðslu ofgreidds fjár af þeim sökum að stefnda, sem tók ekki yfir slíkar skuldbindingar Landsbanka Íslands hf. samkvæmt fyrrnefndri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður því staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, KSÍ ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur, 17. febrúar 2017

Mál þetta, sem endurupptekið var og dómtekið 16. febrúar sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af KSÍ ehf., Engjavegi 6, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 13. nóvember 2015.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 344.896.435 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 22. desember 2009 til 27. ágúst 2011, en frá þeim degi og til greiðsludags beri fjárhæðin dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 248.589.850 krónur með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 22. desember 2009 til 27. ágúst 2011, en frá þeim degi og til greiðsludags beri fjárhæðin dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 220.116.151 krónu með vöxtum samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 22. desember 2009 til 27. ágúst 2011, en frá þeim degi og til greiðsludags beri fjárhæðin dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Í öllum tilfellum krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum krefst stefndi þess jafnframt að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað.

II

Mál þetta er til komið vegna lánaskuldbindinga milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf. sem gerðar voru á grundvelli viðskiptasamnings um reikningslánalínu nr. 5756.  Viðskiptasamningurinn er dagsettur 22. september 2006 og ber fyrirsögnina „Kr. 1.000.000.000,- Viðskiptasamningur um reikningslánalínu“.  Í aðfaraorðum samningsins segir að bankinn hafi samþykkt að veita lántaka framkvæmdafjármögnun í formi reikningslánalínu að fjárhæð 1.000.000.000 króna, í íslenskum krónum eða þeim erlendu myntum sem bankinn eigi viðskipti með, með þeim skilyrðum sem fram komi í samningnum.  Í grein 2.2 samningsins segir einnig að á grundvelli samningsins sé lántaka heimilt að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum svo og öllum algengum erlendum gjaldmiðlum sem bankinn eigi viðskipti með.  Í grein 3.1 er svo kveðið á um að hver lánshluti sem lántaki taki innan lánsheimildar reikningslánalínunnar teljist vera sjálfstætt lán.

Fjallað er um lánsbeiðnir í 4. kafla samningsins.  Í grein 4.1 segir að undirrituð lánsbeiðni frá lántaka skuli fylgja beiðni um einstaka lánshluta og skuli berast bankanum fyrir klukkan 13:30 þann dag sem lánshlutinn skuli greiðast út, sé um íslenskar krónur að ræða, en með tveggja bankadaga fyrirvara, sé um erlenda gjaldmiðla að ræða.  Í grein 4.2 kemur fram að lánsbeiðni sé fylgiskjal með samningnum og hún skuli skýrlega fyllt út.  Í henni skuli koma fram fullt nafn og kennitala lántaka, lántökudagur lánshlutans, mynt og upphæð, vaxtakjör og gjalddagi, ráðstöfunarreikningur, skuldfærslureikningur og undirskrift og staðfesting lántaka.

Um endurgreiðslu segir í grein 7.1 að hvern lánshluta skuli greiða hjá bankanum á gjalddaga hans.  Sé lánshluti í erlendum gjaldmiðli skuli lántaki greiða afborganir, vexti og dráttarvexti, eða aðrar greiðslur, í íslenskum krónum, samkvæmt sölugengi bankans á gjalddaga.  Á gjalddaga sé lántaka heimilt að greiða í lántökumyntum.

Samkvæmt grein 17.1 gekk samningurinn í gildi við undirritun og gilti til 1. ágúst 2007.  Í grein 17.2 segir svo að hafi annar hvor samningsaðila ekki sagt upp samningnum með skriflegum hætti með þriggja mánaða fyrirvara framlengist hann um sex mánuði.

Stefnandi fékk alls átta lánshluta greidda á grundvelli samningsins, frá 25. september 2006 til og með 30. júlí 2007, samtals að fjárhæð 635.000.000 króna.  Fyrsta lánsbeiðnin er dagsett 22. september 2006 en lántökudagur er tilgreindur 25. september 2006.  Aðrar lánsbeiðnir eru dagsettar sama dag og tilgreindur lántökudagur.  Gjalddagi er tilgreindur á öllum lánsbeiðnum sem 1. ágúst 2007 og vextir tilgreindir LIBOR-vextir með 0,7% álagi.

Landsbanki Íslands hf. greiddi allt lánsféð út í íslenskum krónum inn á reikning stefnanda hjá bankanum, nr. 101-26-501202, sem er tékkareikningur í íslenskum krónum.  Í fyrstu lánsbeiðninni er tilgreind lánsfjárhæð 100.000.000 króna, 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen.  Samkvæmt meðfylgjandi kaupnótu lagði stefndi á lántökudegi, 25. september 2006, 99.990.000 krónur inn á framangreindan tékkareikning stefnanda, þ.e. 100.000.000 króna að frádregnum 10.000 krónum vegna skjalagerðar.  Á kaupnótu bankans er höfuðstóll lánsins tilgreindur sem 884.173,30 svissneskir frankar og 83.305.565 japönsk jen.  Þá segir í kaupnótunni að stefnandi hafi selt framangreindar myntir á tilgreindu myntgengi, samtals 50.000.000 króna fyrir svissnesku frankana og 50.000.000 króna fyrir japönsku jenin.

Önnur lánsbeiðnin er dagsett 4. október 2006.  Á henni er framangreindur tékkareikningur stefnanda tilgreindur sem ráðstöfunarreikningur.  Lánsfjárhæðin er tilgreind 50.000.000 króna, 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen.  Samkvæmt meðfylgjandi kaupnótu lagði stefndi á lántökudegi, 4. október 2006, 50.000.000 króna inn á tékkareikninginn.  Höfuðstóll lánsins er á kaupnótu bankans tilgreindur 455.705,43 svissneskir frankar og 42.947.947 japönsk jen.  Þá segir að stefnandi hafi selt framangreindar myntir á tilgreindu myntgengi, samtals 25.000.000 króna fyrir svissnesku frankana og 25.000.000 króna fyrir japönsku jenin.

Þriðja lánsbeiðnin er dagsett 23. október 2006.  Á henni er framangreindur tékkareikningur stefnanda tilgreindur sem ráðstöfunarreikningur.  Lánsfjárhæðin er tilgreind 150.000.000 króna, 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen.  Samkvæmt meðfylgjandi kaupnótu lagði stefndi á lántökudegi, 23. október 2006, 150.000.000 króna inn á tékkareikninginn.  Höfuðstóll lánsins er á kaupnótu bankans tilgreindur 130.571.031 japanskt jen og 1.387.090,81 svissneskur franki.  Þá segir að stefnandi hafi selt framangreindar myntir á tilgreindu myntgengi, samtals 75.000.000 króna fyrir svissnesku frankana og 75.000.000 króna fyrir japönsku jenin.

Fjórða lánsbeiðnin er dagsett 28. nóvember 2006.  Á henni er framangreindur tékkareikningur stefnanda tilgreindur sem ráðstöfunarreikningur.  Lánsfjárhæðin er tilgreind 100.000.000 króna, 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen.  Samkvæmt meðfylgjandi kaupnótu lagði stefndi á lántökudegi, 28. nóvember 2006, 100.000.000 króna inn á tékkareikninginn.  Höfuðstóll lánsins er á kaupnótu bankans tilgreindur 867.152,27 svissneskir frankar og 83.514.281 japanskt jen.  Þá segir að stefnandi hafi selt framangreindar myntir á tilgreindu myntgengi, samtals 50.000.000 króna fyrir svissnesku frankana og 50.000.000 króna fyrir japönsku jenin.

Fimmta lánsbeiðnin er dagsett 28. desember 2006.  Á henni er framangreindur tékkareikningur stefnanda tilgreindur sem ráðstöfunarreikningur.  Lánsfjárhæðin er tilgreind 80.000.000 króna, 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen.  Samkvæmt meðfylgjandi kaupnótu lagði stefndi á lántökudegi, 28. desember 2006, 80.000.000 króna inn á tékkareikninginn.  Höfuðstóll lánsins er á kaupnótu bankans tilgreindur 687.285,22 svissneskir frankar og 66.968.023 japönsk jen.  Þá segir að stefnandi hafi selt framangreindar myntir á tilgreindu myntgengi, samtals 40.000.000 króna fyrir svissnesku frankana og 40.000.000 króna fyrir japönsku jenin.

Sjötta lánsbeiðnin er dagsett 29. janúar 2007.  Á henni er framangreindur tékkareikningur stefnanda tilgreindur sem ráðstöfunarreikningur.  Lánsfjárhæðin er tilgreind 60.000.000 króna, 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen.  Samkvæmt meðfylgjandi kaupnótu lagði stefndi á lántökudegi, 29. janúar 2007, 60.000.000 króna inn á tékkareikninginn.  Höfuðstóll lánsins er á kaupnótu bankans tilgreindur 548.747,03 svissneskir frankar og 53.361.793 japönsk jen.  Þá segir að stefnandi hafi selt framangreindar myntir á tilgreindu myntgengi, samtals 30.000.000 króna fyrir svissnesku frankana og 30.000.000 króna fyrir japönsku jenin.

Sjöunda lánsbeiðnin er dagsett 18. júní 2007.  Á henni er framangreindur tékkareikningur stefnanda tilgreindur sem ráðstöfunarreikningur.  Lánsfjárhæðin er tilgreind 50.000.000 króna, 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen.  Samkvæmt meðfylgjandi kaupnótu lagði stefndi á lántökudegi, 18. júní 2007, 50.000.000 króna inn á tékkareikninginn.  Höfuðstóll lánsins er á kaupnótu bankans tilgreindur 497.215,59 svissneskir frankar og 49.446.203 japönsk jen.  Þá segir að stefnandi hafi selt framangreindar myntir á tilgreindu myntgengi, samtals 25.000.000 króna fyrir svissnesku frankana og 25.000.000 króna fyrir japönsku jenin.

Áttunda lánsbeiðnin er dagsett 30. júlí 2007.  Á henni er framangreindur tékkareikningur stefnanda tilgreindur sem ráðstöfunarreikningur.  Lánsfjárhæðin er tilgreind 45.000.000 króna, 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen.  Samkvæmt meðfylgjandi kaupnótu lagði stefndi á lántökudegi, 30. júlí 2007, 45.000.000 króna inn á tékkareikninginn.  Höfuðstóll lánsins er á kaupnótu bankans tilgreindur 439.624,85 svissneskir frankar og 43.260.911 japönsk jen.  Þá segir að stefnandi hafi selt framangreindar myntir á tilgreindu myntgengi, samtals 22.500.000 krónur fyrir svissnesku frankana og 22.500.000 krónur fyrir japönsku jenin.

Í samræmi við kaupnóturnar eru lögð fram reikningsyfirlit frá Landsbanka Íslands hf. þar sem svissneskir frankar og japönsk jen virðast lögð inn og tekin út af gjaldeyrisreikningum bankans í samræmi við þær fjárhæðir sem tilgreindar eru á kaupnótunum.

Með lánsbeiðni í samræmi við fylgiskjal A, dagsettri 29. ágúst 2007, er lán stefnanda hjá Landsbanka Íslands hf., að fjárhæð 3.707.036,05 svissneskir frankar og 353.892.665 japönsk jen, framlengt til 16. október 2007.  Með lánsbeiðni, dagsettri 25. október 2007, eru lán stefnanda hjá bankanum, með vísan til samnings aðila frá 22. september 2006, framlengd til 28. nóvember 2007.  Með lánsbeiðni, dagsettri 18. desember 2007, eru lánin aftur framlengd, til 4. febrúar 2008.  Með lánsbeiðni, dagsettri 19. febrúar 2008, eru lánin enn á ný framlengd, til 5. maí 2008.  Á lánsbeiðninni er skuldfærslureikningur tilgreindur sem fyrrgreindur tékkareikningur stefnanda.  Með lánsbeiðni, dagsettri 25. júní 2008, er lán stefnanda hjá bankanum, að fjárhæð 361.352.427 japönsk jen og 3.837.475,69 svissneskir frankar, framlengt til 4. ágúst 2008.  Með lánsbeiðni, dagsettri 30. september 2008, eru lán stefnanda hjá bankanum, með vísan til samnings aðila frá 22. september 2006, framlengd til 4. nóvember 2008.  Með lánsbeiðni, dagsettri 29. desember 2008, er lán stefnanda hjá bankanum, þá NBI hf., að fjárhæð 221.675.008 japönsk jen og 2.513.480,86 svissneskir frankar, framlengt til 4. febrúar 2009.  Með lánsbeiðni, dagsettri 21. júlí 2009, er lán stefnanda hjá bankanum, þá NBI hf., að fjárhæð 224.332.263 japönsk jen, framlengt til 4. september 2009.  Á lánsbeiðninni er skuldfærslureikningur tilgreindur sem fyrrgreindur tékkareikningur stefnanda.

Viðauki við samninginn um reikningslánalínuna var undirritaður af hálfu aðila 21. júlí 2009.  Fram kemur að NBI hf. hafi tekið við réttindum og skyldum Landsbanka Íslands hf. samkvæmt viðskiptasamningi aðila.  Vísað er til fyrrgreindra lánsbeiðna um framlengingu og segir svo að lánsheimild samkvæmt grein 2.1 í samningnum breytist nú þannig að bankinn skuli hafa til reiðu fyrir lántaka reikningslánalínu að fjárhæð 290.000.000 króna en að samningurinn teljist að fullu ádreginn.  Gildistími samningsins var einnig framlengdur til 4. september 2009.  Samningurinn skyldi að öðru leyti haldast óbreyttur og lántaki samþykkti að tékkareikningur hans nr. 0101-26-501202 yrði skuldfærður fyrir kostnaði við gerð viðaukans.

Lánið var endurgreitt á árunum 2007 til 2009.  Stefnandi nýtti sér rétt sinn til þess að greiða lánshluta upp fyrir gjalddaga, samkvæmt grein 8.1 í samningi aðila, og endurgreiddi stefnda 47.500.000 krónur 16. febrúar 2007 og 180.105.668 krónur 20. febrúar sama ár.  Stefnandi greiddi 1.750.010 evrur, eða 218.243.747 krónur, inn á lánin 30. júlí 2008.  Hafði stefnandi þá endurgreitt samtals 445.849.415 krónur af þeim 635.000.000 króna sem stefndi hafði lánað honum.  Stefndi sendi stefnanda yfirlit yfir skuldina í árslok 2008 og kvað lánið þá standa í 591.143.704 krónum.

Stefnandi endurgreiddi stefnda samtals 227.605.668 krónur, 5.143.921 evru og 51.576 bandaríkjadali.  Síðasta greiðslan var innt af hendi 22. desember 2009 og hafði stefnandi þá greitt samtals 1.016.697.669 krónur.  Af þeirri fjárhæð voru 533.070.004 krónur greiddar árið 2009.  Stefnandi kveðst hafa fengið aðstoð frá móðurfélagi sínu, Knattspyrnusambandi Íslands, og systurfélagi sínum, KSÍ – íslensk knattspyrna ehf., við að greiða upp lánin.

Af hálfu stefnanda var stefnda sent bréf 27. júlí 2011 og var þá óskað eftir því að bankinn endurgreiddi stefnanda þann hluta af öllum greiðslum hans vegna láns nr. 5756, sem rót ætti að rekja til gengistryggingar lánsins.  Bréfinu var svarað af hálfu stefnda 9. ágúst 2011.  Í svari stefnda kom fram að bankinn væri, í kjölfar dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011, að greina hvaða lán féllu undir dóminn.  Kom fram að lán stefnanda hefði ekki verið flokkað og að ekki væri hægt að tilgreina þann dag nákvæmlega sem flokkun og endurútreikningum yrði lokið en gera mætti ráð fyrir því að það kynni að taka einhverjar vikur.  Af hálfu stefnda var stefnanda sent bréf 26. júlí 2012 og stefnanda þá tilkynnt um það mat bankans að lánið félli ekki undir framangreindan dóm.  Af hálfu stefnanda var afstöðu stefnda mótmælt með bréfi, dagsettu 13. ágúst 2012.  Í bréfinu var gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum stefnanda sem leiddu til þeirrar niðurstöðu að lán hans hjá bankanum væri bundið gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti.  Í bréfinu var þess krafist að bankinn endurreiknaði lán nr. 5756, sem ólögmætt gengistryggt lán, og að bankinn endurgreiddi stefnanda þá fjárhæð sem hann hefði ofrukkað stefnanda um vegna hinnar ólögmætu gengistryggingar.  Kom fram að stefnandi myndi að öðrum kosti höfða mál á hendur bankanum til að ná fram rétti sínum.

Stefnandi höfðaði mál á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, birtri 24. september 2013.  Í málinu krafðist stefnandi viðurkenningar á því að lánssamningur aðila frá 22. september 2006 fæli í sér ólögmæta gengistryggingu.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 4. júní 2014, var viðurkennt að umdeildur samningur fæli í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Stefndi áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Íslands sem kvað upp dóm í málinu nr. 738/2014, 13. maí 2015.  Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu að stefndi hefði ekki sýnt fram á að hann hefði lögvarða hagsmuni af því að efnisdómur yrði felldur á kröfu hans og var málinu því vísað frá dómi.  Byggði niðurstaðan meðal annars á því að samningur aðila frá 22. september 2006 væri ekki lánssamningur sem aðilar gætu byggt kröfur sínar á.  Lánssamningar hafi falist í lánsbeiðnum stefnanda sem bankinn hafi samþykkt í verki með útborgun lánanna.

III

Stefnandi byggir á því að lán Landsbanka Íslands hf. til stefnanda hafi verið í íslenskum krónum en bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 14. gr. laga nr. 38/2001.  Við mat á þessu verði að líta til grunnsamningsins, sem hafi verið rammi utan um alla lánshlutana, og til lánsbeiðnanna sem stefnandi hafi fyllt út þegar hann dró á lánalínuna.

Stefnandi byggir á því að Landsbanki Íslands hf. hafi aldrei veitt honum lán í erlendum gjaldmiðli/-um, og að stefndi, sem leiði rétt sinn á hendur stefnanda frá Landsbanka Íslands hf., hafi aldrei eignast kröfu á hendur stefnanda um greiðslu í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum.  Krafa stefnda í íslenskum krónum hafi verið tengd við gengi svissneska frankans annars vegar og japanska jensins hins vegar.

Stefnandi hafi hvorki átt innlenda gjaldeyrisreikninga í svissneskum frönkum né í japönskum jenum, eins og fram komi í matsgerð dómkvadds matsmanns.  Stefnandi hafi því aldrei fengið gjaldeyri greiddan frá Landsbanka Íslands hf.

Stefnandi bendir á að fyrirrennari stefnda, Landsbanki Íslands hf., hafi hvorki gert né getað gert löglegan lánssamning við stefnanda um lán í erlendum myntum 22. september 2006.  Lánið sem bankinn hafi veitt stefnanda, sem er Íslendingur, hafi verið veitt á Íslandi af íslensku fjármálafyrirtæki.  Stefnandi hafi notað lánsféð til byggingar íþróttamannvirkis hér á landi, sem byggt hafi verið af innlendum framkvæmdaaðilum.  Til viðskipta eins og þessara hafi Landsbanki Íslands hf. aldrei getað veitt lán í öðrum gjaldmiðli en íslenskum krónum, enda sé íslenska krónan lögeyrir Íslands og eini gjaldmiðillinn sem Landsbanki Íslands hf. hafi getað, einn og óstuddur, veitt lán í.

Til lánveitinga í lögeyri annarra ríkja eða ríkjasambanda hefði Landsbanki Íslands hf. þurft aðkomu banka í því ríki eða innan þess ríkjasambands, sem notaði þann lögeyri sem Landsbanki Íslands hf. hafi látið líta út fyrir að samið hafi verið um að veita stefnanda lánið í.  Stefnandi hefði þá orðið að eiga bankareikning hjá erlendum banka eða bönkum til að taka við láninu í þeim gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, sem lánið hefði verið greitt út í.  Slíka bankareikninga hafi stefnandi ekki getað stofnað hjá Landsbanka Íslands hf.

Enginn erlendur gjaldeyrir hafi því komið við sögu þegar Landsbanki Íslands hf. hafi greitt stefnanda lánshlutana átta á tímabilinu 25. september 2006 til 30. júlí 2007.  Landsbanki Íslands hf. hafi greitt stefnanda íslenskar krónur inn á íslenskan krónureikning stefnanda.  Engu breyti hér um þó að starfsmenn Landsbanka Íslands hf. hafi búið til skjöl, í tengslum við útborgun lánshlutanna, þess efnis að til útgreiðslu væru svissneskir frankar og japönsk jen og að gjaldmiðlum þessum hefði verið skipt fyrir íslenskar krónur.  Einu peningarnir sem Landsbanki Íslands hf. hafi lánað stefnanda hafi verið íslenskar krónur.  Landsbanki Íslands hf. hafi ekki einu sinni farið þá leið, við útgreiðslu lánshlutanna til stefnanda, að leggja lánsfé í meintum erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikninga, höfuðbók 38, eins og oft hafi tíðkast á árunum eftir gildistöku laga nr. 38/2001, sem lagt hafi bann við gengistryggingu lána í íslenskum krónum.  Jafnvel þótt sú leið hefði verið farin telur stefnandi að engu að síður hefði verið um ólögmæta gengistryggingu að ræða, enda hafi þessir svokölluðu gjaldeyrisreikningar aldrei geymt erlendan gjaldeyri heldur hafi þeir geymt íslenskar krónur, eins og allir aðrir innlánsreikningar í íslenskum viðskiptabönkum og sparisjóðum.

Við framlengingu lánanna hafi fjárhæð þeirra verið tilgreind í hinum erlendu myntum, þ.e. svissneskum frönkum og japönskum jenum.  Í tengslum við framlenginguna hafi ekkert fé skipt um hendur.  Lánið hafi verið framlengt nokkrum sinnum með svipuðum hætti en ekkert fé hafi skipt um hendur í tengslum við framlengingarnar.

Lögmaður stefnda hafi ítrekað vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 6. mars 2014, í máli nr. 602/2013, Vísir hf. gegn Landsbankanum hf., og sagt hann vera fordæmisgefandi að því er varði samning nr. 5756 og ádrætti samkvæmt honum.  Sá grundvallarmunur sé þó á málunum að í nefndu máli hafi verið óumdeilt að lánsfénu hefði að langstærstum hluta verið ráðstafað til uppgreiðslu eða greiðslu inn á eldri lán Vísis hf., sem hafi verið í hinum erlendu myntum sem tilgreindar hafi verið í samningnum.

Þegar skýring á texta samnings taki ekki af skarið um það hvort samningur teljist vera í íslenskum krónum eða í erlendri mynt hafi verið litið til þess hvernig efndum samningsins hafi verið hagað.  Í þessu máli liggi fyrir reikningslánalína sem marki ramma samningssambands stefnanda og stefnda.  Ádrættir stefnanda á lánið, með átta lánsbeiðnum á fylgiskjölum A við samninginn, hafi verið með þeim hætti að stefnandi hafi óskað eftir greiðslu íslenskra króna inn á íslenskan tékkareikning.  Á eftir tilgreiningu á íslensku krónunum hafi stefnandi ritað tiltekin hlutföll erlendra gjaldmiðla.  Við útborgun lánanna hafi stefnandi ekki fengið í hendurnar neinn gjaldeyri, þ.e.a.s. ekkert fé í erlendri mynt hafi skipt um hendur.  Stefnandi hafi heldur engin not haft fyrir erlendan gjaldeyri, enda hafi staðið til að nýta fjármunina til byggingarframkvæmda á Íslandi.

Eins og áður segi hafi stefnandi notið liðsinnis móðurfélags síns og systurfélags við uppgreiðslu skuldar við Landsbanka Íslands hf. og við stefnda.  Við framkvæmdir á Laugardalsvelli hafi Knattspyrnusamband Íslands m.a. notið styrkja frá Evrópska knattspyrnusambandinu (UEFA) og Alþjóða knattspyrnusambandinu (FIFA).  Styrki þessa hafi knattspyrnusambandið að langmestu leyti fengið greidda í evrum og nýtt til uppgreiðslu lána samkvæmt reikningslánalínunni.  Lánin hafi þannig að nokkrum hluta verið gerð upp með þeim hætti að stefnandi hafi afhent stefnda, eða Landsbanka Íslands hf., evrur og stefndi eða fyrirrennari hans umbreytt evrunum í íslenskar krónur og greitt upp í lán samkvæmt samningi 5756.  Því hafi stefnandi greitt íslenskar krónur inn á lán í íslenskum krónum, sem bundið hafi verið gengi erlendra gjaldmiðla.

Aðalkrafa og varakröfur stefnanda byggist á útreikningum sem stefnandi hafi látið gera vegna lánshlutanna átta.  Aðalkrafan sé byggð á því að fullnaðarkvittanatímabil nái fram til þess tíma þegar lánið hafi verið gert upp en varakröfur stefnanda byggist á því að fullnaðarkvittanatímabili hafi lokið fyrir þann dag.  Stefnandi byggi því aðallega á því að festa hafi verið á greiðslum allt fram til þess dags þegar síðasta greiðslan hafi verið innt af hendi 22. desember 2009.

Verði ekki fallist á það með stefnanda að Landsbanki Íslands hf. hafi aldrei veitt stefnanda lán í erlendum gjaldmiðli byggir stefnandi málssókn sína jafnframt á því að lánin hafi verið ósanngjörn eða andstæð góðri viðskiptavenju samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936.  Þá byggir stefnandi á því að þau hafi verið ósamrýmanleg eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum og venjum á fjármálamarkaði samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.  Einnig byggir stefnandi á því að meðferð lánanna hjá stefnda hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 107/2009 og stefndi hafi auðgast með ólögmætum hætti á kostnað stefnanda.

Svo sem áður segi hafi Landsbanki Íslands hf. komist í greiðsluþrot 6. október 2008 og daginn eftir, 7. október, hafi stefndi verið stofnaður á grunni eldri bankans.  Til að bregðast við yfirvofandi hruni fjármálakerfisins hafi Alþingi sett lög nr. 125/2008, svokölluð neyðarlög, sem fengið hafi Fjármálaeftirlitinu nánast alræðisvald yfir hinu fallandi viðskiptabankakerfi og heimild til að stofna nýja banka fyrir hönd ríkissjóðs á grunni þeirra föllnu.  Samkvæmt stjórnvaldsákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf., hafi bróðurpartur eigna og skulda eldri bankans verið færður til nýja bankans, þ. á m. kröfur á hendur stefnanda sem mál þetta snúist um.  Strax í framhaldinu hafi, samkvæmt ákvörðun fjármálaráðuneytisins, átt að skipa aðila til þess að meta sannvirði eigna og skulda sem ráðstafað væri til stefnda til þess að undirbúa uppgjör á milli nýja bankans og þess gamla.  Verðmæti yfirfærðra útlána hafi strax verið fært niður um verulega fjárhæð.  Engu að síður hafi stefndi innheimt lánin að fullu sem meint lögmæt lán í erlendum gjaldeyri.  Stefnandi byggir á því að þegar þessar staðreyndir séu skoðaðar með hliðsjón af málsástæðum hans verði ekki komist að annarri niðurstöðu en þeirri að stefnandi hafi ofgreitt verulega af lánum sem fyrirrennari stefnda hafi veitt stefnanda á grundvelli reikningslánalínu nr. 5756.

Auðgun stefnda á kostnað stefnanda sé í andstöðu við yfirlýst markmið lagasetningar í kringum efnahagshrunið og í kjölfar þess.  Neyðarlögin svokölluðu og lög nr. 107/2009 hafi verið sett til þess að slá skjaldborg um einstaklinga, heimili og fyrirtæki, sem staðið hafi frammi fyrir fjárkröfum fjármálafyrirtækja, sem komin hafi verið í þrot; fjárkröfum sem hafi verið langt umfram það sem nokkurn hafi órað fyrir þegar til þeirra hafi verið stofnað.  Stjórnvöld hafi ákveðið að taka kröfurnar af lögmætum eigendum þeirra, meta þær til sannvirðis, greiða fyrri eiganda sannvirðið, og fá þær í hendur nýjum eigendum.  Þessir nýju eigendur hafi mátt og átt að innheimta kröfurnar með hliðsjón af metnu sannvirði.  Það hafi stefndi ekki gert.

Stefnandi telur enn fremur að stefndi hafi ekki gætt jafnræðis á milli viðskiptavina sinna varðandi endurútreikninga lána sem fyrirrennari stefnda hafi veitt.  Um þetta megi m.a. vísa til samnings sem deilt hafi verið um í máli fyrir Hæstarétti Íslands nr. 734/2013.  Í málinu hafi m.a. verið fjallað um viðskiptasamning um reikningslánalínu á milli Landsbanka Íslands hf. og Líflands hf.  Stefndi hafi endurreiknað þau lán sem Lífland hf. hafi fengið á grundvelli reikningslánalínunnar vegna ólögmætrar gengistryggingar þeirra.  Samningi aðila þess máls virðist um margt svipa til samnings nr. 5756, en stefnandi hafi þrátt fyrir það aldrei fallist á að endurreikna samninginn vegna ólögmætrar gengistryggingar.

Þegar viðskiptasamningur um reikningslánalínu nr. 5756 hafi verið undirritaður af hálfu stefnanda 22. september 2006 hafi stefnandi verið að leita eftir hagstæðustu lánakjörum hjá viðskiptabanka sínum, vegna þeirra framkvæmda sem ráðast hafi átt í á Laugardalsvelli.  Starfsmenn viðskiptabankans hafi talið bestu lánskjörin, fyrir fjármögnun framkvæmdar sem þessarar, vera falin í því að gera viðskiptasamning um reikningslánalínu, þar sem ádrættir fælu í sér lán í íslenskum krónum bundin við gengi erlendra gjaldmiðla.  Stefnandi hafi tekið ráðleggingu viðskiptabanka síns en sú ráðlegging hafi reynst kostnaðarsöm.

Stefnandi byggir á því að framlengingar á lánunum breyti engu um það hvernig efndum á þeim hafi verið háttað og að þessar framlengingar feli ekki í sér viðurkenningu stefnanda á því að lánin hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Staðhæfingar í ársreikningum og fjölmiðlum feli því síður í sér viðurkenningu á þessu, enda hafi þær verið settar fram töluvert löngu áður en í ljós hafi komið að stóru viðskiptabankarnir hefðu veitt lán í andstöðu við lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

Stefnandi byggir á því að allt framangreint leiði til þeirrar niðurstöðu að stefnandi hafi ofgreitt af lánum sem Landsbanki Íslands hf. hafi veitt á grundvelli samnings nr. 5756 og stefndi hafi tekið yfir í kjölfar stjórnvaldsákvörðunar í október 2008.  Aðalkröfu og varakröfur miði stefnandi við útreikninga sem gerðir hafi verið vegna lánanna.  Varðandi vaxtakröfur stefnanda miði hann við að krafa hans um endurgreiðslu ofgreidds fjár beri vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi þegar síðasta greiðsla af láninu hafi verið innt af hendi.  Stefnandi krefjist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 27. ágúst 2011, en þá hafi mánuður verið liðinn frá því að stefnandi hafi sannanlega krafið stefnda um endurgreiðslu hins ofgreidda fjár.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands og laga nr. 161/2001, um fjármálafyrirtæki, einkum 1. mgr. 19. gr. laganna.  Stefnandi vísar einnig til 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 108/2009, laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum nr. 151/2010, og laga nr. 38/2014, varðandi fyrningu uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga.

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála.  Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

IV

Stefndi mótmælir öllum kröfum, málsástæðum og lagarökum stefnanda og telur að stefnandi geti ekki byggt rétt á neinni þeirra gagnvart bankanum.  Stefndi kveður, að líkt og fram komi í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 738/2013, milli sömu aðila, sé hver ádráttur sjálfstætt lán og sé það í samræmi við ákvæði viðskiptasamningsins frá 22. september 2006.

Fyrir liggi og á því sé byggt af hálfu stefnanda að stór hluti þeirra lána sem tekin hafi verið á grundvelli viðskiptasamningsins hafi verið greiddur upp í febrúar 2007, eða u.þ.b. 21 mánuði áður en stefndi hafi verið stofnaður með ákvörðun FME frá 9. október 2008.  Í framangreindum dómi Hæstaréttar Íslands sé sérstaklega tekið fram að viðskipti stefnanda hafi verið við Landsbanka Íslands hf. en ekki stefnda í þeim tilvikum þegar greiðslur voru inntar af hendi fyrir framsal kröfuréttindanna til stefnda.  Fyrir liggi að með þeim endurgreiðslum hafi fullum efndum einstakra lánssamninga lokið og hafi réttarsamband aðila á grundvelli þeirra samninga því liðið undir lok.  Stefnandi skýri ekki með nokkrum hætti í stefnu málsins á hvaða grunni hann hefur hagsmuni af því að beina kröfu á hendur stefnda eða á hvaða grunvelli unnt sé að beina kröfu á hendur stefnda vegna lánssamninga sem séu að fullu efndir fyrir kröfuframsalið.  Stefndi geri ekki sjálfstæða kröfu um frávísun máls en þar sem stefnandi skýri ekki frekar hina ætluðu lögvörðu hagsmuni, þrátt fyrir fyrrnefndan dóm Hæstaréttar Íslands, telji stefndi að til greina hljóti að koma að vísa kröfum stefnanda frá dómi án kröfu, að því leyti sem þær varði lán sem tekin hafi verið fyrir 5. ágúst 2008, þegar eldri lán hafi verið gerð upp.  Stefndi hafi ekki tekið yfir aðra skuldbindingu með kröfuframsali því sem felist í ákvörðun FME frá 9. október 2008 auk þess sem stefndi hafi ekki móttekið greiðslur frá stefnanda er varði eldri skuldbindingar.

Verði kröfum vegna lána sem tekin hafi verið fyrir nefndan dag ekki vísað frá dómi án kröfu, geri stefndi þá kröfu aðallega að hann verði sýknaður á grundvelli aðildarskorts vegna þessara lána og vísar um það m.a. til forsendna Hæstaréttar Íslands í máli nr. 738/2014.  Byggt sé á því að stefnandi hafi átt að beina kröfum sínum á hendur Landsbanka Íslands hf. vegna þeirra lána sem tekin hafi verið fyrir 5. ágúst 2008 en stefndi hafi ekki tekið yfir þau lán sem þegar hafi verið greidd upp þegar bankinn hafi verið stofnaður í október 2008.

Stefndi byggir sýknukröfu sína jafnframt á því að stefnandi hafi skuldbundið sig til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum með undirritun sinni á umræddar lánsbeiðnir og framlengingar lánsbeiðnanna sem allar teljist sjálfstæð lán.  Stefnanda beri að efna þessa samninga sem hann hafi jafnframt gert en lánshlutarnir séu að fullu greiddir og hafi það verið gert án athugasemda.

Skuldbindingar stefnanda samkvæmt lánssamningunum hafi verið um greiðslu lána í erlendri mynt og falli þess vegna utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. laganna.  Byggir stefndi á því að lánssamningar, útgreiðsla á grundvelli þeirra, framlengingar og endurgreiðsla, beri með sér að samið hafi verið um skuldbindingar í erlendum gjaldmiðlum.

Stefndi kveður lánsbeiðnirnar fela í sér átta sjálfstæða lánssamninga og að Landsbanki Íslands hf. hafi veitt stefnanda lán í erlendum gjaldmiðlum á grundvelli þeirra, í svissneskum frönkum annars vegar og japönskum jenum hins vegar.  Kveður stefndi að hvor mynt hafi fengið sérnúmer þannig að í kerfum bankans hafi myndast tveir leggir í hvert sinn sem stefnandi hafi óskað eftir láni.  Þá hafi einnig myndast leggur fyrir íslenskar krónur við lántökuna vegna kostnaðar af lántökunni, 44.850 krónum.

Stefnandi hafi greitt tvær greiðslur fyrir gjalddaga lánanna 1. ágúst 2007.  Á gjalddaga hafi stefnandi hins vegar tekið nýtt lán sem notað hafi verið til að greiða öll útistandandi lán stefnanda á grundvelli viðskiptasamningsins.  Samkvæmt þeirri lánsbeiðni hafi stefnandi óskað eftir því að fá lánaða 3.707.036,05 svissneska franka og 353.892.665 japönsk jen.  Lán þessi hafi verið framlengd með áföllnum vöxtum á gjalddögunum 16. október 2007, 28. nóvember 2007, 4. febrúar 2008 og 5. maí 2008.

Stefnandi hafi greitt 1.750.010 evrur 30. júlí 2008.  Stefndi kveður að hin greidda mynt hafi verið seld og japönsk jen og svissneskir frankar keyptir.

Þá kveður stefndi að lánið, ásamt áföllnum vöxtum, hafi verið endurfjármagnað með nýju láni 5. ágúst 2008, sbr. framlagða lánsbeiðni.  Eldra lán hafi þá verið gert upp.  Lánið frá 5. ágúst 2008 sé það lán sem stefndi hafi tekið yfir en önnur lán milli stefnanda og Landsbanka Íslands hf. hafi þá þegar verið gerð upp.  Þetta lán, ásamt áföllnum vöxtum, hafi svo verið endurfjármagnað að nýju 4. nóvember 2008.

Lánið hafi verið gert upp með greiðslum 4. febrúar 2009, þegar lánshluti í svissneskum frönkum var greiddur, og 22. desember 2009, þegar lánshluti í japönskum jenum var greiddur en lánað hafði verið fyrir vöxtum af því láni með framlengingu 4. nóvember 2009 þegar stefnandi hafi óskað eftir láni að fjárhæð 224.332.263 japönsk jen.

Meginástæðan fyrir því að upphæð hinna erlendu mynta sé ekki sett fram í viðskiptasamningnum sjálfum sé sú að stefnandi hafi haft um það val, á grundvelli samningsins, í hvaða myntum hann óskaði eftir lánum.  Hafi því hreinlega verið útilokað að tilgreina hámaraksfjárhæðina í viðskiptasamningnum í þeim myntum sem stefnandi tæki að láni að endingu þar sem hann hafi þá ekki tekið um það ákvörðun.  Þá hafi stefnanda verið frjálst að óska eftir láni í mismunandi myntum með útgreiðslubeiðnum á grundvelli samningsins.

Þá hafi ekki verið ákveðið fyrir fram, samkvæmt samningnum, hvenær útgreiðsla skyldi fara fram heldur færi það eftir útgreiðslubeiðnum á grundvelli samningsins.  Fyrir liggi að stefnandi hafi í öllum tilvikum óskað eftir því að lánið yrði í erlendum myntum auk þess sem hann hafi óskað eftir útgreiðslu inn á reikning í íslenskum krónum.  Þá beri til þess að líta að stefnandi hafi sérstaklega óskað eftir því í öllum tilvikum að vextir yrðu LIBOR-vextir (London Inter Bank Offered Rate) en sérstaklega sé tilgreint í grein 5.2 í viðskiptasamningnum að vaxtakjör lánshluta í erlendum gjaldmiðlum séu LIBOR en REIBOR-vextir á þá lánshluta sem lántakandi kjósi að taka í íslenskum krónum, sbr. grein 5.1 í samningnum.  Augljóst megi vera að stefnandi hafi tekið lán í erlendri mynt en ekki í íslenskum krónum enda hefði hann ella átt að tilgreina REIBOR-vexti.

Óumdeilt sé að stefnanda hafi verið heimilt að óska eftir láni í erlendri mynt á grundvelli viðskiptasamningsins og að stefnandi hafi, á grundvelli fyrrgreindrar heimildar, óskað eftir láni í erlendri mynt, sbr. það sem fram komi í málatilbúnaði stefnanda í hinu fyrra máli.  Þannig liggi fyrir að stefnandi hafi í öllum tilvikum kosið að taka lán í erlendum myntum, sem tilteknar séu í lánsbeiðnunum.  Lán í erlendum myntum sé svo staðfest í kaupnótum, ársreikningum, með greiðslu o.s.frv.

Fyrst eftir að stefnandi hafi óskað eftir láni hafi legið fyrir hver höfuðstóll þess lánshluta yrði.  Kaupnóta hvers láns (lánshluta) sýni hver höfuðstóll lánsins sé á útborgunardegi en á kaupnótunni sé skuldbinding stefnda útlistuð og einungis tilgreind með hinum erlendu myntum.  Skuldbinding stefnda samkvæmt lánunum er því ekki einungis tilgreind í íslenskum krónum heldur í hlutföllum hinna erlendu mynta í lánsbeiðnunum og einvörðungu í hinum erlendu myntum allt frá því að lánsbeiðnirnar hafi verið mótteknar.

Þá ber til þess að líta að í tilkynningum um gjalddaga lánanna hafi skuldbindingar stefnanda eingöngu verið tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum og sömu sögu sé að segja af kvittunum fyrir endurgreiðslu hvers gjalddaga.  Skuldbinding stefnanda hafi því í öllum skjölum, frá og með útgreiðslu lánsins, verið tilgreind í hinum erlendu gjaldmiðlum, en ekki í íslenskum krónum.  Sama sé að segja um lánið sem tekið hafi verið til að greiða upp öll útistandandi lán á grundvelli reikningslánalínunnar, sem hafi verið á gjalddaga 1. ágúst 2007, og um allar framlengingar eftir það.  Ætti það að taka af allan vafa um að lánin séu í myntum en ekki íslenskum krónum.  Þar eð ljóst sé af öllum lánsbeiðnum, kaupnótum, greiðsluseðlum, framlengingarbeiðnum og öðrum skjölum, svo sem ársreikningi stefnanda, að lánin hafi verið í hinum erlendu gjaldmiðlum, þurfi ekki að skoða hvernig samningarnir hafi verið efndir.  Stefndi telur hins vegar ljóst af því hvernig samningarnir hafi verið efndir af hálfu beggja aðila að lánin hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.

Sem fyrr segi hafi stefnandi í öllum tilvikum, með vísan til heimilda í viðskiptasamningnum, óskað eftir lánum í tilgreindum erlendum myntum og sé það staðfest með tilgreiningu LIBOR-vaxta, sem séu aðeins vextir á erlenda lánveitingu samkvæmt viðskiptasamningnum.

Stefnandi hafi sjálfur óskað eftir því að lánin yrðu lögð inn á reikning í íslenskum krónum.  Þar sem ómögulegt sé að leggja erlenda fjárhæð inn á reikning í íslenskum krónum hafi Landsbanki Íslands hf. orðið að selja hina lánuðu mynt fyrir íslenskar krónur.  Stefnandi virðist byggja á því að engin viðskipti hafi átt sér stað með gjaldeyri og að kaupnótur eða önnur skjöl sem stafi frá Landsbanka Íslands hf. séu marklaus.  Til að bregðast við þessum málatilbúnaði hafi stefndi óskað eftir því við héraðsdóm að dómkvaddur yrði óháður og sérfróður matsmaður til að svara:

1.         Hvort erlendur gjaldeyrir hafi verið keyptur og/eða seldur við lánveitingarnar.

2.         Hvaða gjaldeyrir hafi verið keyptur og/eða seldur hverju sinni, hversu mikill gjaldeyrir hafi verið keyptur og/eða seldur hverju sinni og hvert hafi verið kaupverð umræddra gjaldmiða að teknu tilliti til gengis íslensku krónunnar.

3.         Hvaða áhrif umrædd gjaldeyrisviðskipti hafi haft á gjaldeyrisforða Landsbanka Íslands hf.

Hinn 17. október 2014 hafi hagfræðingur, sem sé sérfræðingur í gjaldmiðlaviðskiptum, verið dómkvaddur af héraðsdómi til að framkvæma matið.  Við framkvæmd matsins hafi matsmaður m.a. aflað sér bankayfirlita frá stefnanda, upplýsinga úr upplýsingakerfum bankans og tölvupóstsamskipta milli lánasviðs og gjaldeyrismiðlunar Landsbanka Íslands hf.  Þá hafi matsmaður fengið í hendur öll gögn málsins sem þá hafi verið rekið milli aðila.  Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar segi um fyrstu matsspurninguna:

Til að meta hvort seldur hafi verið erlendur gjaldeyrir í tengslum við lánveitingu matsbeiðanda til matsþola verður að skoða ferli hvers lánshluta fyrir sig frá því að lánsbeiðni berst frá matsþola þangað til íslenskar krónur  eru lagðar inn á reikning matsþola.  Matsþoli átti hvorki CHF né JPY gjaldeyrisreikninga hjá matsbeiðanda og því ekki möguleiki að fá myntirnar inn á gjaldeyrisreikninga matsþola þegar dregið var á lánið.  Samt sem áður var gjaldeyrir seldur í öll þau skipti sem dregið var á lánið.

Um  aðra matsspurninguna segi, þar sem fjallað er um lánsbeiðni, dagsetta 22. september 2006:

a. Seldir voru 884.173,30 CHF á genginu 56,55. Söluverð CHF að teknu tilliti til gengis íslensku krónunnar voru mISK 50. Kaupnóta ásamt afriti af innslætti í Murex, upplýsingakerfi gjaldeyrismiðlunar matsbeiðanda, sýna fram á söluna á gjaldeyrinum. Tölvupóstsamskipti við gjaldeyrismiðlun matsbeiðanda þar sem gengi er staðfest eru einnig til staðar.

b. Seld voru 83.305.565 JPY á genginu 0,6002. Söluverð JPY að teknu tilliti til gengis íslensku krónunnar voru mISK 50. Kaupnóta ásamt afriti af innslætti í Murex, upplýsingakerfi gjaldeyrismiðlunar matsbeiðanda, sýna fram á söluna á gjaldeyrinum. Tölvupóstsamskipti við gjaldeyrismiðlun matsbeiðanda þar sem gengi er staðfest eru einnig til staðar.

Af þessu sé ljóst að seldir hafi verið svissneskir frankar og japönsk jen vegna nefndrar lántöku stefnanda.  Hefði stefnandi óskað eftir láni í íslenskum krónum hefði ekki komið til gjaldeyrisviðskiptanna.  Líta beri svo á að Landsbanki Íslands hf. hafi efnt skyldu sína í erlendri mynt.  Sama eigi við um aðra lánshluta.

Um þriðju matsspurninguna segi m.a.:

Í tilviki lánveitinga Landsbankans til KSÍ ehf. á árunum 2006 og 2007 þá var gjaldeyrinn sem tekinn var að láni í öllum tilvikum seldur í skiptum fyrir íslenskar krónur. Gerð hefur verið grein fyrir sölunni hér að ofan, þ.e. í matsliðum 1 og 2. Í þau átta skipti sem dregið var á lánið voru samtals seld rúm mJPY 550 og mCHF 5,7. Við söluna á þessum gjaldeyri jókst eign Landsbanka Íslands hf. (gjaldeyrisforði) í erlendri mynt (CHF og JPY) sem þessu nam.

 

Framangreind niðurstaða hins dómkvadda matsmanns staðfesti, líkt og fyrirliggjandi kaupnótur og önnur gögn, að raunveruleg gjaldeyrisviðskipti hafi farið fram í tengslum við lánveitingu Landsbanka Íslands hf. til stefnanda.  Það liggi því fyrir að bankinn hafi efnt aðalskyldu sína samkvæmt lánssamningunum með því að útvega erlendan gjaldeyri sem stefnandi hafi svo kosið að fá inn á krónureikning.  Það sé stefnda með öllu óviðkomandi að stefnandi hafi ákveðið að óska eftir sölu hinnar lánuðu myntar.  Kjarni málsins sé sá að bankinn hafi raunverulega útvegað erlenda mynt, að beiðni stefnanda sjálfs, og um það sé ekki deilt, sbr. málflutningsyfirlýsingu stefnanda í stefnu í fyrra málinu.

Þá byggir stefndi á því að stefnandi hafi í öllum tilvikum greitt af láninu í erlendri mynt, með því að selja íslenskar krónur og kaupa svissneska franka eða japönsk jen, sbr. framlagðar kvittanir.  Í flestum tilvikum hafi hins vegar verið notuð erlend mynt.  Allar greiðslur stefnanda til stefnda, Landsbankans hf., hafi til að mynda verið í erlendum gjaldeyri.  Á kvittunum hafi upphafleg lánsfjárhæð verið tilgreind í erlendri mynt en hvergi sé vísað í íslenskar krónur.  Þá hafi eftirstöðvar lánsins einnig verið tilgreindar í erlendri mynt.

Ekki verði litið fram hjá þeirri staðreynd að stefnandi hafi efnt skyldur sínar í langflestum tilvikum með því að nýta erlenda mynt sem teljast verði óvenjulegt hafi aðilar samið um lán í íslenskum krónum, líkt og stefnandi haldi ranglega fram.  Af yfirliti yfir greiðslur á framlögðum dómskjölum megi sjá að evrur og dollarar hafi verið seld til að kaupa svissneska franka og japönsk jen, sem ráðstafað hafi verið inn á lánin og jafngildi greiðslu á 77,53% af lánunum.  Eftirstöðvarnar hafi verið greiddar með því að erlend mynt hafi verið keypt fyrir íslenskar krónur eða sem nemur 22,47% af heildargreiðslum.  Þau lán hafi að fullu verið greidd þegar kröfurnar hafi verið framseldar til stefnda í október 2008.  Allar greiðslur til stefnda hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.

Hvernig sem litið sé á málið verði að leggja til grundvallar að stefnandi hafi að verulegu leyti efnt skyldur sínar með því að greiða í erlendum gjaldmiðlum en ekki í íslenskum krónum, og það að öllu leyti gagnvart stefnda.

Þá liggi fyrir að stefnandi hafi sjálfur óskað eftir sölu á hinum erlendu myntum með beiðni um útgreiðslu inn á krónureikning.  Einnig liggi fyrir, líkt og fyrr greini, að greitt hafi verið af lánunum í erlendum gjaldmiðlum og það í flestum tilvikum með því að kaupa svissneska franka og japönsk jen með dollurum og evrum.  Báðir aðilar lánssamninganna, stefnandi og Landsbanki íslands hf., hafi þannig efnt aðalskyldur sínar með erlendum gjaldmiðlum.  Við slíkar aðstæður geti skuldbinding aldrei talist vera í íslenskum krónum.

Stefndi telur að framangreint eigi að taka af allan vafa um að lánin hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðlum.  Stefnandi hafi heldur ekki útskýrt hvers vegna hann tilgreini sérstaklega fjárhæðir hinna erlendu mynta í lánsbeiðni vegna láns sem óskað hafi verið eftir 1. ágúst 2007.  Lánsfjárhæðin hafi skilmerkilega verið tilgreind 3.707.036,05 svissneskir frankar og 353.892.665 japönsk jen og engin tilvísan hafi verið í íslenskar krónur.  Með láninu hafi allar aðrar skuldbindingar sem komnar hafi verið á gjalddaga verið greiddar og nýr gjalddagi ákveðinn.  Eðli málsins samkvæmt hafi ekkert fé skipt um hendur við þessa lánveitingu enda hafi lánveitingin farið til greiðslu á eldri skuldbindingu gagnvart Landsbanka Íslands hf.  Sambærileg ráðstöfun hafi verið gerð í hvert sinn sem lán hafi verið endurfjármagnað.

Sama sé að segja um lánsbeiðni, dagsetta 25. júní 2008, að fjárhæð 3.707.036,05 svissneskir frankar og 353.892.665 japönsk jen.  Í lánsbeiðninni sé hvergi vísað í íslenskar krónur.  Lánið hafi verið endurfjármagnað að nýju 5. ágúst 2008 og sé þá hvergi vísað í íslenskar krónur heldur tilgreint að um framlengingu á CHF- og JPY- láni sé að ræða.  Þá hafi lánsbeiðni verið útbúin af stefnanda 29. desember 2008 og óskað eftir framlengingu á láni að fjárhæð 221.675.008 svissneskir frankar og 2.513.480,86 japönsk jen.  Af ársyfirliti megi sjá að allar eftirstöðvar á láni stefnanda umreiknaðar í íslenskar krónur nemi 591.143.704 krónum.  Sé ársreikningur stefnanda skoðaður megi sjá sömu fjárhæð.  Þá hafi stefnandi afhent bankanum nýja lánsbeiðni 21. júlí 2009 og farið fram á framlengingu lána sinna.  Lán stefnanda hafi þá staðið í 221.675.008 svissneskum frönkum og 2.513.480,86 japönskum jenum.  Í öllum tilvikum hafi verið óskað eftir LIBOR-vöxtum.  Á milli þessara lánveitinga hafi verið útbúnar nokkrar lánsbeiðnir sem tilgreini hinar erlendu myntir án tilvísunar til íslenskra króna.

Stefndi telur að framangreindar lánsbeiðnir (lán) sem og aðrar lánsbeiðnir, sem lagðar hafi verið fram, staðfesti að lánveitingar til stefnanda hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Tilvísan stefnanda til ákvæða laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, sé þýðingarlaus.  Stefndi vísar um þetta til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 337/2013.  Í því máli hafi verið fallist á að samningsformið hafi verið eins og í dómi réttarins í máli nr. 155/2011 (Mótormax).  Á hinn bóginn hafi rétturinn talið að líta bæri til fimm viðauka sem gerðir hefðu verið við samninginn í því skyni að breyta skilmálum samningsins um gjalddaga höfuðstóls og vaxta.  Í viðaukunum hafi eftirstöðvar lánsins í öllum tilvikum verið tilgreindar í evrum.  Rétturinn hafi talið þessar breytingar gefa vísbendingar um það viðhorf samningsaðila að lánið hefði verið veitt í evrum.  Stefndi telur að nákvæmlega sömu sjónarmið eigi við í þessu máli enda vandséð hvaða tilgangi það þjóni að tilgreina lánsfjárhæðina í erlendri mynt í beiðnum um framlengingu, hafi lánið í reynd verið í íslenskum krónum.

Þá telur stefndi ljóst, m.a. af ársreikningum stefnanda og fréttatilkynningum, að lán stefnanda hafi verið í erlendum gjaldmiðlum.  Í umfjöllun í framlögðum ársreikningi Knattspyrnusambands Íslands frá 2008 komi fram að tap ársins skýrist af „miklu gengistapi af erlendu láni vegna framkvæmda á Laugardalsvelli“.  Í ársreikningnum segi jafnframt: „Um er að ræða framkvæmdalán til skamms tíma í erlendum myntum en til stendur að greiða það að fullu á næsta ári.“  Þá séu lánin tilgreind í ársreikningnum í hinum erlendu gjaldmiðlum, 223.321.351 japanskt jen og 2.538.223 svissneskir frankar.  Sömu tölur komi fram í ársreikningi stefnanda.

Tilgreining þessi staðfesti það sem jafnframt sé óumdeilt, að stefnandi hafi óskað eftir láni í erlendum gjaldmiðlum, að viðskiptasamningurinn hafi heimilað slíka lánveitingu og að lán hafi raunverulega verið veitt í japönskum jenum og svissneskum frönkum.  Rétt sé að geta þess að stefnandi hafi áður tekið lán í erlendum gjaldmiðlum enda tekjustreymi stefnanda, sem og þeirrar samstæðu sem stefnandi tilheyri, einkum í erlendum gjaldmiðlum, líkt og framlagðir ársreikningar staðfesti.  Sjá megi af framlögðum ársreikningi Knattspyrnusambands Íslands að félagið skuldi lán í japönskum jenum árið 2003.  Einnig megi vísa til framlagðrar þinggerðar 54. ársþings KSÍ sem haldið hafi verið 12. og 13. febrúar 2000.  Þar segi: „Sá góði árangur sem næst vegna fjarstýringar á erlenda láninu á Laugardalsvelli þýðir í raun, að það lán hefur lækkað úr rúmlega 221 milljónum króna í rúmlega 197 milljónir sem þýðir aftur að vexti og afborganir á næstu árum lækka sem því nemur og framlag Reykjavíkurborgar nýtist því enn betur en áður.“  Af framangreindu sé ljóst að stefnandi hafi haft reynslu af því að fá lán í erlendum gjaldmiðlum og hafi haft sérstakan áhuga á því að hafa lánið í erlendum gjaldmiðlum, enda hagnast verulega á því.  Þá sé tekjustreymi stefnanda einkum í erlendum gjaldmiðlum.

Ekki verði hjá því litið að stefnandi hafi haft virkar gjaldmiðlavarnir í ljósi skuldbindinga sinna og tekna í erlendum gjaldmiðlum.  Í framlögðum ársreikningi Knattspyrnusambands Íslands 2009 segi: „Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) greiddi Knattspyrnusambandi Íslands (KSÍ) fyrirfram 1,5 milljónir evra vegna framkvæmda við Laugardalsvöll.“  Jafnframt segi í ársreikningnum: „Félagið býr við gjaldmiðlaáhættu vegna erlendar viðskiptakrafna, lántöku í erlendum gjaldmiðlum, viðskiptaskulda í erlendum gjaldmiðlum og skuldbindinga vegna sjónvarpssamninga.“  Í framlagðri fréttatilkynningu KSÍ komi fram að aukning á tekjum „skýrist af stórauknum tekjum erlendis frá“.  Þá komi fram í framlögðum ársreikningi Knattspyrnusambands Íslands 2007 að KSÍ hafi fengið 282.478.962 krónur í erlendum myntum vegna sölu sjónvarpsréttar til SportFive árið 2007 og að „Viðskiptabanki sambandsins hefur fjármagnað að hluta byggingaframkvæmdir við Laugardalsvöll. Um er að ræða framkvæmdalán til skamms tíma í erlendum myntum en láninu verður breytt í langtímalán á árinu 2008.“  Knattspyrnusamband Íslands hafi verið að takmarka gjaldeyrisáhættuna sem fylgi því að hafa tekjur einkum í erlendum gjaldmiðlum.  Þetta komi fram í framlögðum ársreikningi sambandsins fyrir árið 2005 þar sem segi: „Almenn stefnda KSÍ er að takmarka gjaldeyris- og vaxtaáhættu.“

Tekið sé fram í ársreikningi KSÍ 2007 og í stefnu málsins að stefnandi hafi fengið styrki frá FIFA og UEFA vegna byggingar nýrra höfuðstöðva við Laugardalsvöll.  Stefnandi hafi því tekið umþrætt lán hjá Landsbanka Íslands hf. vitandi það að félagið ætti von á styrkjum í erlendum gjaldmiðlum.  Í ljósi erlendu styrkjanna sé ekki óeðlilegt að stefnandi hafi viljað takmarka gengisáhættu sína með því taka lán til framkvæmdanna einnig í erlendum gjaldmiðlum, í samræmi við stefnu félagsins.  Stefndi vísi í þessu tilliti til áritunar stjórnenda stefnanda í ársreikningi félagsins frá 2008 en þar segi orðrétt: „Rekstrarhagnaður sambandsins nam um 278 m.kr. samanborið við tap á árinu á undan að fjárhæð 35 m.kr. Þessi mikla breyting á rekstrarhagnaði skýrist af stórauknum tekjum í erlendri mynt. Tap samstæðu Knattspyrnusambands Íslands á árinu 2008 nam um 163 m. kr. Tap skýrist af miklu gengistapi af erlendu láni vegna framkvæmda á Laugardalsvelli en gengistap vegna þess nam á árinu tæpum 390 m. kr.“

Stefndi telur framangreindan texta sýna vel tilgang og markmið stefnanda með því að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.  Með því hafi félagið getað stýrt gengisáhættunni.  Stefndi telur brýnt að lánssamningar aðila séu skýrðir í þessu ljósi, sem og með hliðsjón af samtímagögnum sem sýni skýrt að stefnandi hafi ætíð litið svo á að hann væri að taka lán í erlendum gjaldmiðlum og að hann hafi áður tekið slík lán.  Þá verði ekki annað ráðið af ársreikningum stefnanda og Knattspyrnusambands Íslands en að stefnandi hafi sjálfur litið á hinar umþrættu skuldbindingar sem skuldir í erlendum gjaldmiðlum og viðurkenni með því lögmæti lánanna.  Stjórnendur hlutafélags beri enda ábyrgð á ársreikningi félags og útgáfu hans, sbr. 3. mgr. 44. gr. laga nr. 3/1995, um einkahlutafélög, og 3. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga.  Enn fremur staðfesti framangreint að stefnandi hafi viljað lán í erlendum gjaldmiðlum, m.a. til að „takmarka gjaldeyris- og vaxtaáhættu“, og því sé það rangt, sem haldið sé fram í stefnu, að stefnandi hafi ekki haft not fyrir lán í erlendum gjaldmiðlum.

Fari svo að dómurinn telji að lán stefnanda hafi verið í íslenskum krónum byggir stefndi á því að Landsbanka Íslands hf. hafi verið heimilt, samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2001, að víkja frá ákvæðum VI. kafla laganna, þar sem lánssamningarnir hafi sannanlega verið stefnanda til hagsbóta.  Vaxtakjör stefnanda samkvæmt lánssamningunum hafi verið umtalsvert betri en honum hefði ella boðist.  LIBOR-vextir hafi verið umtalsvert hagstæðari fyrir stefnanda en REIBOR-vextir á lán í íslenskum krónum á því tímabili sem vaxtagreiðslur hafi verið inntar af hendi, sbr. samanburð á framlögðu skjali.

Stefndi byggir enn fremur á því að Landsbanki Íslands hf. hafi ekki haft forsendur til að ætla, þegar lánin hafi verið veitt, að lánveitingarnar kynnu að reynast stefnanda óhagstæðari en aðrar lánveitingar sem val hafi staðið um enda hafi tekjustreymi stefnanda að mestu verið í erlendum gjaldmiðlum.  Vegna tekjustreymis stefnanda í erlendum gjaldmiðlum hafi ekki falist sama áhætta í því fyrir hann að taka erlent lán eins og fyrir þá sem einungis njóti tekna í íslenskum krónum.  Ljóst hafi verið að stefnandi yrði ekki fyrir tjóni af gengisfalli krónunnar, m.a. vegna þess að stefnandi hafi átt erlendan gjaldeyri tiltækan á gjalddögum. Óveruleg gengisáhætta hafi því verið fyrirséð við lánveitingarnar.  Þar að auki hafi stefnandi um nokkurra ára skeið verið með virka áhættustjórnun sem hafi miðað að því að takmarka gjaldeyris- og vaxtaáhættu.  Stefnandi hafi m.a. gert afleiðusamninga við fjármálastofnanir í þeim tilgangi, líkt og fram komi í ársreikningum.  Stefnandi hafi því staðið jafnfætis bankanum við gerð samningsins og hafi verið fullljóst hvað væri félaginu til hagsbóta og hvað ekki.

Við mat á því hvað stefnanda hafi verið til hagsbóta, samkvæmt lögum nr. 38/2001, verði ekki einungis horft til breytinga á höfuðstól lánssamningsins í íslenskum krónum heldur verði einnig að horfa til breytinga á tekjum stefnanda vegna breytinga á gengi gjaldmiðla.  Vegna tekjustreymis stefnanda í erlendum gjaldmiðlum hafi engin eða óveruleg áhætta falist í því fyrir hann að taka erlent lán.  Fullt jafnvægi hafi verið milli tekna og skulda stefnanda.  Hefðu lánssamningar aðila verið um lán í íslenskum krónum hefði hins vegar verið ójafnvægi á milli tekna og lána stefnanda og það hafi stefnandi viljað forðast.  Stefnandi hafi því haft augljósan hag af því að taka lán í erlendum gjaldmiðlum.

Með vísan til framangreinds telur stefndi að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda að því leyti sem þeim verði ekki vísað frá dómi án kröfu.

Stefndi krefst þess til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Stefndi mótmælir framlögðum endurútreikningum stefnanda sem og kröfum stefnanda er varða uppgreidd lán stefnanda hjá Landsbanka Íslands hf.  Stefnandi hafi aðeins tekið yfir lán sem veitt hafi verið með lánsbeiðni frá 5. ágúst 2008.  Með því láni hafi önnur lán verið gerð upp og geti stefnandi ekki beint kröfum að stefnda vegna þeirra.  Stefnandi skýri það ekki með nokkrum hætti á hvaða grundvelli hann telji sig eiga kröfu á hendur stefnda vegna þeirra samninga og jafnvel þrátt fyrir að Hæstiréttur Íslands hafi gert við það athugasemd í fyrra málinu.

Sé lagt til grundvallar að lánin hafi verið í íslenskum krónum nemi endurútreiknuð fjárhæð þeirra 169.020.097 krónum, sbr. framlagða endurútreikninga.  Útreikningurinn taki mið af lögum nr. 151/2010 og lagt sé til grundvallar að ekki séu skilyrði til þess að miða við fullnaðarkvittanir þar sem engin festa hafi verið fyrir hendi.  Þá séu skilyrði um fjárhagslega röskun ekki uppfyllt líkt og rakið verði nánar.  Endurútreikningurinn sé á láninu sem tekið hafi verið 5. september 2008 í svissneskum frönkum og japönskum jenum sem samsvari 351.007.862 krónum.  Það lán sé svo endurútreiknað að teknu tilliti til innborgana 22. febrúar 2009, að jafnvirði 252.005.847 krónur, og SÍ vaxta frá þeim degi til 22. desember 2009.  Þann dag hafi lánið verið gert upp með greiðslu að jafnvirði 315.199.156 krónur.  Til áréttingar beri að taka fram að stefnandi hafi notað evrur og dollara til að greiða af láninu.

Verði af einhverri ástæðu litið svo á að stefndi hafi yfirtekið þau lán sem greidd hafi verið fyrir 5. ágúst 2008, sé á því byggt að ekki séu skilyrði til þess að endurútreikna lánin með hliðsjón af fullnaðarkvittunum, m.a. vegna þess að festa á greiðslum hafi ekki verið fyrir hendi.  Upphaflegu lánin hafi verið gerð upp á einum gjalddaga, 1. ágúst 2007.  Fyrir liggi að stefnandi hafi greitt tvær greiðslur fyrir gjalddaga og tekið svo nýtt lán 1. ágúst 2008.  Ljóst megi vera að engin festa hafi þá verið komin á greiðslur.  Eftir það hafi lánið ítrekað verið endurfjármagnað, þ.e. ekki greitt á gjalddaga líkt og rakið sé í endurútreikningi sem lagður sé fram af hálfu stefnanda.  Því sé útilokað að halda því fram að skilyrði um festu séu uppfyllt svo réttlæta megi að vikið verði frá meginreglu kröfuréttar um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu.

Stefndi byggir einnig á því að með hliðsjón af eðli starfsemi stefnanda sé ekki hægt að líta svo á að sá aðstöðumunur sé með stefnanda og stefnda sem réttlæt geti að vikið verði frá meginreglu kröfuréttar um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu.  Rekstrartekjur samstæðunnar, Knattspyrnusambands Íslands, samkvæmt ársreikningi 2008 hafi verið 871.040.249 krónur og eigið fé 1.300.701.579 krónur, þar af handbært fé í lok árs 649.409.030 krónur.  Að teknu tilliti til rekstrartekna stefnanda og eigna, byggir stefndi á því að viðbótarkrafa í formi SÍ-vaxta valdi ekki slíkri röskun á fjárhagslegri stöðu stefnanda að jafna megi til þess óhagræðis sem einstaklingur eða lítið fyrirtæki yrði fyrir vegna óvæntrar kröfu um verulega viðbótargreiðslu.  Það standi stefnanda því nær en stefnda að bera umræddan vaxtamun.

Að framangreindu virtu byggir stefndi á því að reikna beri SÍ-vexti allan lánstímann.  Verði fallist á að stefnandi eigi kröfu til endurútreiknings allra lánanna sem tekin hafi verið á grundvelli viðskiptasamnings aðila frá 22. september 2006, byggi stefndi á því að krafan geti ekki verið hærri en 217.743.873 krónur, sbr. framlagðan endurútreikning, sem taki mið af SÍ-vöxtum frá upphafi.

Verði ekki fallist á að reikna beri SÍ-vexti frá upphafi byggi stefndi á því að ekki séu skilyrði til þess að byggja á gildi fullnaðarkvittana lengur en til 20. febrúar 2007.  Miðað við þá forsendu sé krafa stefnanda 246.139.581 króna, í samræmi við framlagðan endurútreikning.

Stefndi mótmælir öllum endurútreikningum stefnanda.  Í fyrsta lagi séu endurútreiknuð lán sem ekki hafi verið tekin yfir af stefnda.  Í öðru lagi sé miðað við SÍ-vexti á ætlaða ofgreiðslu á tímabilið frá 22. desember 2009 til 31. maí 2015 en fyrir því sé engin heimild í lögum eða samningi aðila.  Jafnframt mótmælir stefndi því gengi evra og bandaríkjadala sem stefnandi miði við, við útreikning innborgana á lánið.  Stefnandi virðist nota opinbert miðgengi þessara gjaldmiðla, sem sé rangt, enda verði að miða við að bankinn hafi keypt gjaldmiðla af stefnanda líkt og gert sé ráð fyrir í kvittunum.  Þessi ranga forsenda stefnanda hafi þær afleiðingar að útreikningur hans sé í öllum tilvikum rangur.

Þá sé í framlögðum útreikningi fyrir stefnanda, miðað við að heildarfjárhæð greiðslna sé 1.015.496.578 krónur.  Í stefnu sé hins vegar miðað við að heildarfjárhæð greiðslna hafi verið 1.016.697.669 krónur og fullyrt að „lánið“ hafi verið gert upp með einni lokagreiðslu 22. desember 2012, að fjárhæð „tæplega 319 milljónum króna“.  Það sem veki athygli sé að í framlögðum útreikningum sé fjárhæðin 315.199.182 krónur en ekki tæplega 319 milljónir króna.  Umtalsvert misræmi sé því í málatilbúnaði stefnanda.  Stefndi byggir þar af leiðandi á því að á honum verði ekki byggt.  Stefndi byggir á því að heildargreiðslur stefnanda hafi verið 1.013.054.418 krónur og sé þá miðað við kaupgengi þeirra gjaldmiðla sem notaðir hafi verið til að greiða af láninu.

Stefnandi byggi aðalkröfu sína á því að fullnaðarkvittanatímabil nái fram til þess tíma þegar síðasta lánið hafi verið gert upp 22. desember 2009.  Stefndi mótmælir þessum málatilbúnaði eins og að framan er rakið.  Þá megi, í framlögðum endurútreikningi stefnanda, sjá að miðað sé við ætlaða inneign stefnanda 4. febrúar 2009, að fjárhæð 24.421.912 krónur.  Farið sé með þessa ætluðu inneign þannig að reiknaðir séu SÍ-vextir fyrir tímabilið frá 4. febrúar 2009 til 22. desember 2009, að fjárhæð 2.908.368 krónur, og sé þá lokagreiðslan lögð við hina ætluðu inneign.  Þessi aðferðafræði styðjist ekki við dómafordæmi því Hæstiréttur Íslands hafi, m.a. í máli nr. 544/2013, hafnað því að ætluð inneign beri SÍ-vexti.  Afstaða stefnda sé því sú að verði fallist á að fullnaðarkvittanir gildi út samningstímann þá sé réttur endurútreikningur 339.621.068 krónur en ekki 344.896.425 krónur.

Varakröfur stefnanda séu allar því marki brenndar að ekki sé að finna einn staf um þær kröfur í stefnu.  Segi þar aðeins að varakröfur stefnanda byggist á því að „fullnaðarkvittanatímabili hafi lokið fyrir þann dag“, þ.e. að fullnaðarkvittanir nái ekki til uppgreiðslu samningsins líkt og aðalkrafan geri.  Í framhaldinu sé vísað í framlagðan endurútreikning stefnanda, án frekari tilvísana.

Fyrsta varakrafa stefnanda sé að fjárhæð 248.589.850 krónur, auk vaxta.  Sem fyrr, sé ekki að finna nokkra skýringu á þessari kröfugerð.  Ætla megi að stefnandi finni kröfunni stoð undir „Tilviki 3“ í framlögðum endurútreikningi sínum.  Í stefnu sé ekki að finna orð um það hvaða forsendur séu að baki þessum endurútreikningi og hann því í raun vanreifaður.  Stefndi verði því að reyna að átta sig á forsendum útreikningsins á grundvelli endurútreikningsins sjálfs.  Þar segi að útreikningurinn taki mið af því að fullnaðarkvittanir gildi til 20. febrúar 2009 en eftir það beri lánið almenna óverðtryggða seðlabankavexti.  Stefndi mótmælir útreikningi stefnanda en verði fallist á að stefnandi eigi kröfur á hendur stefnda vegna lána sem gerð hafi verið upp með láninu 5. ágúst 2008 og að stefnandi verði talinn geta borið fyrir sig fullnaðarkvittun þrátt fyrir skort á festu og fjárhagslegri röskun, sé á því byggt að réttur endurútreikningur, miðað við fullnaðarkvittanir til 20. febrúar 2009 sé 246.139.581 króna, sbr. framlagðan endurútreikning stefnda, en ekki 248.589.850 krónur.

Önnur varakrafa stefnanda sé að fjárhæð 220.116.151 króna.  Líkt og varðandi aðrar kröfur stefnanda, sé ekki að finna nokkurn rökstuðning fyrir útreikningi kröfunnar í stefnu heldur láti stefnandi nægja að vísa með almennum hætti í framlagðan endurútreikning sinn.  Af þeim útreikningi verði helst ráðið að stefnandi sé í stefnu að vísa í „Tilvik 2“.  Um þann útreikning segi: „[h]itt öfgadæmið væri að horfa alveg fram hjá fullnaðarkvittanahugtakinu og líta sem svo á að allt frá fyrsta degi hafi lánið átt að bera almenna óverðtryggða seðlabankavexti“.  Stefndi mótmælir útreikningnum og byggir á því að réttur útreikningur, miðað við þessa forsendu, sé 217.743.873 krónur.

Stefndi áréttar mótmæli sín og telur að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda en ella að ekki komi til greina að unnt sé að beina kröfum á hendur honum vegna lána sem gerð hafi verið upp með láni 5. ágúst 2008 og fyrir þann tíma.  Komi til endurútreiknings lánanna verði að miða við að ekki séu skilyrði til að víkja frá meginreglu kröfuréttar um rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu hvað vexti varðar.

Að öðru leyti mótmælir stefndi því sérstaklega að skilyrði séu til þess að ógilda eða breyta samningum aðila með vísan til ógildingarreglna samningalaga.  Jafnframt sé því sérstaklega mótmælt að þýðingu hafi gagnvart stefnanda hvað stefndi kunni að hafa greitt fyrir kröfur Landsbanka Íslands hf. á hendur stefnanda.  Þá sé því mótmælt sem haldið sé fram, að gjaldeyrisreikningar geymi ekki erlendan gjaldeyri.

Stefndi mótmælir einnig kröfu stefnanda um vexti.  Krafa stefnanda um vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, eigi sér enga stoð í lögum nr. 38/2001, hvorki fyrir eða eftir gildistöku laga nr. 151/2010.  Einnig megi ljóst vera að lögum nr. 151/2010 verði ekki beitt með afturvirkum hætti.  Þá mótmælir stefndi upphafstíma vaxta, þ.m.t. dráttarvaxta.  Upphafstími dráttarvaxta geti í fyrsta lagi tekið mið af þingfestingu málsins þar sem stefnandi hafi fyrst beint fjárkröfu á hendur stefnda með stefnu þessa máls.

Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, þá sérstaklega til 13., 14. og 18. gr. laganna.  Stefndi vísar einnig til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um samningsfrelsi, skuldbindingargildi loforða og efndaskyldu krafna.  Jafnframt vísar hann til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr. sömu laga.

V

Í málinu greinir aðila á um hvort lánssamningar þeirra á milli, á grundvelli viðskiptasamnings um reikningslánalínu frá 22. september 2006, séu um lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti.  Telur stefnandi að lánin hafi verið í íslenskum krónum bundin við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, og að hann eigi endurgreiðslukröfu á hendur stefnda vegna þeirra ofgreiðslna sem hann telur sig hafa innt af hendi.

Eins og greinir í forsendum dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010 fer skuldbinding í erlendum gjaldmiðlum ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001.  Samkvæmt þeim er hins vegar óheimilt að verðtryggja lánsfé í íslenskum krónum á þann hátt að það sé bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.  Af orðalagi ákvæðanna og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því, hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum, verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni.  Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim.  Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla hefur Hæstiréttur Íslands fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir.  Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti.

Meginefni viðskiptasamnings aðila og lánsbeiðna á grundvelli hans er lýst hér að framan.  Eins og þar kemur fram var samningur aðila um svokallaða reikningslánalínu, þar sem stefnanda var veitt heimild til að taka lán hjá bankanum í íslenskum krónum og öllum algengum gjaldmiðlum sem bankinn átti viðskipti með, upp að tiltekinni fjárhæð, sem í samningnum er tilgreind í íslenskum krónum.  Í samningnum er hvorki að finna yfirlýsingu stefnanda um að hann standi í skuld við bankann né myndar samningurinn kröfuréttindi bankans á hendur stefnanda, heldur setur samningurinn aðeins ramma um lánsviðskipti milli aðila með ákvæðum um beiðni um lán, útborgun þess, vexti af því og endurgreiðslu.  Fólust því lánssamningar í lánsbeiðnum stefnanda, sem bankinn samþykkti í verki með útborgun lána.  Segir enda í samningnum að hver lánshluti sem lántaki taki innan lánsheimildarinnar sé sjálfstætt lán.  Í þessu ljósi getur það eitt út af fyrir sig ekki skipt máli að heildarumfang viðskiptanna hafi verið afmarkað í samningnum með tilgreiningu fjárhæðar í íslenskum krónum.  Hins vegar mynda samningsákvæðin ramma um lánsviðskipti aðila.

Ákvæði samningsins bera með sér að lán á grundvelli hans gátu hvort heldur verið í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum.  Bankinn skyldi hafa til reiðu fyrir lántaka reikningslánalínu að fjárhæð 1.000.000.000 króna en ekki er tekið fram í hvaða gjaldmiðlum lánin skuli vera heldur er í samningnum gert ráð fyrir að lántaki geri grein fyrir því í lánsbeiðnum samkvæmt fylgiskjali A með samningnum.  Þá er kveðið á um það í samningnum að lánshlutar í íslenskum krónum skyldu bera REIBOR-vexti  en lánshlutar í erlendum gjaldmiðlum skyldu bera LIBOR-vexti.  Verður ekki annað séð af framangreindum ákvæðum en að vilji aðila hafi staðið til þess að lán sem tekin yrðu á grundvelli hans gætu hvort heldur verið í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, allt eftir lánsbeiðnum stefnanda.  Ákvæði samningsins um heimild lánveitanda til að umreikna lán í erlendum myntum í íslenskar krónur við gjaldfellingu þeirra og reikna á þau dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 samræmast því einnig að lántaka hafi, á grundvelli samningsins, verið unnt að óska eftir lánum í erlendum myntum.

Eins og að framan greinir skyldu lánsbeiðnir vegna hvers lánshluta vera á formi sem var fylgiskjal A með samningnum og skyldi stefnandi tiltaka á lánsbeiðnum í hvaða gjaldmiðli lánið ætti að vera og að hvaða upphæð.  Á lánsbeiðnum skyldi jafnframt tiltaka fullt nafn og kennitölu lántaka, lántökudag lánshlutans, vaxtakjör og gjalddaga, ráðstöfunarreikning og skuldfærslureikning.  Þá skyldi lántaki undirrita og staðfesta lánsbeiðnir.

Samkvæmt þeim átta lánsbeiðnum sem undirritaðar voru af stefnanda á grundvelli viðskiptasamningsins var fjárhæð lánsins ávallt tilgreind í íslenskum krónum en hlutfall hinna erlendu gjaldmiðla, 50% svissneskir frankar og 50% japönsk jen.  Á öllum lánsbeiðnum, að þeirri fyrstu undanskilinni, er ráðstöfunarreikningur tilgreindur tékkareikningur stefnanda í íslenskum krónum.  Þá liggur fyrir að stefndi staðfesti lánsbeiðnir og samþykkti í verki, í öllum átta tilvikum, með útborgun lána í íslenskum krónum inn á tilgreindan tékkareikning stefnanda.  Hins vegar eru vaxtakjör á öllum lánsbeiðnum tilgreind sem LIBOR-vextir með 0,7% álagi en samkvæmt samningnum sem lá til grundvallar lánsbeiðnunum skyldu vaxtakjör lánshluta í erlendum gjaldmiðlum vera LIBOR-vextir en vaxtakjör lánshluta í íslenskum krónum vera REIBOR-vextir.  Þá liggur jafnframt fyrir að millifærslur voru framkvæmdar af bankanum á svissneskum frönkum og japönskum jenum í tengslum við lánveitingarnar milli reikninga í eigu bankans og lánsleggir stofnaðir í framangreindum gjaldmiðlum.  Erlendir gjaldmiðlar voru þó ekki afhentir stefnanda með beinum hætti við útgreiðslu lánanna, þegar stefndi efndi aðalskyldu sína samkvæmt samningnum.

Óumdeilt er að stefnandi dró á reikningslánalínuna samtals 635.000.000 króna.  Sem fyrr segir var gjalddagi allra lánanna átta 1. ágúst 2007.

Skuldfærslureikningur er ekki tiltekinn á neinni af þeim átta lánsbeiðnum sem lágu til grundvallar lánum stefnanda.  Samkvæmt grein 7.1 í viðskiptasamningnum, sem einnig lá til grundvallar lánunum, var stefnanda heimilt að greiða af lánunum í íslenskum krónum sem og í lántökumyntum.  Samkvæmt framlögðum greiðslukvittunum endurgreiddi stefnandi 47.500.000 krónur 16. febrúar 2007 og 180.105.668 krónur 20. febrúar 2007.  Var síðari greiðslan dregin af framangreindum tékkareikningi stefnanda í íslenskum krónum.

Framlögð færsluyfirlit bera með sér að bankinn hafi framkvæmt millifærslur á svissneskum frönkum og japönskum jenum í tengslum við innborganir stefnanda á lánin en erlendir gjaldmiðlar virðast ekki hafa verið afhentir stefnda með beinum hætti við framangreindar afborganir stefnanda.

Með undirritun á lánsbeiðni, fylgiskjal A við samninginn, óskaði stefnandi eftir framlengingu á eftirstöðvum lána sinna samkvæmt viðskiptasamningi aðila frá 22. september 2006.  Lántökudagur er tilgreindur 1. ágúst 2007 en beiðnin virðist undirrituð 29. ágúst 2007.  Nýr gjalddagi er samkvæmt beiðninni 16. október 2007.  Með beiðninni er ekki farið fram á framlengingu einstakra lána samkvæmt fyrri lánsbeiðnum stefnanda heldur eru eftirstöðvar lánanna lagðar saman, auk áfallinna vaxta, og nýr höfuðstóll myndaður í svissneskum frönkum og japönskum jenum.  Kemur fram á beiðninni að mynt og upphæð sé 3.707.036,05 svissneskir frankar og 353.892.665 japönsk jen.  Vaxtakjör eru sem fyrr LIBOR-vextir auk 0,7 % álags.  Nýr höfuðstóll lánanna er hvergi tilgreindur í íslenskum krónum.

Samkvæmt framlögðum yfirlitum og kaupnótum voru myndaðir tveir nýir leggir vegna framlengingarinnar, annar í svissneskum frönkum og hinn í japönskum jenum.  Þrátt fyrir að ekkert fé hafi skipt um hendur við framangreinda framlengingarbeiðni er ljóst að með beiðninni, sem staðfest var af hálfu Landsbanka Íslands hf., var samið um skilmálabreytingu sem fól í sér að eftirstöðvar lána stefnanda, ásamt áföllnum vöxtum, mynduðu nýjan höfuðstól í erlendum gjaldmiðlum.  Verður því litið svo á að með skilmálabreytingunni hafi verið samið um að lánið skyldi eftirleiðis vera í þeim erlendu gjaldmiðlum sem þar greinir. Gildir þá einu þótt ekkert fé hafi skipt um hendur enda fela skilmálabreytingar lána eðli málsins samkvæmt í sér að skilmálum láns, sem þegar hafi verið veitt, er breytt. Styður það framangreinda niðurstöðu að eftirstöðvar láns stefnanda voru eftirleiðis aðeins tilgreindar í hinum erlendu gjaldmiðlum.

Þá liggur fyrir að eftir skilmálabreytinguna sem undirrituð var 29. ágúst 2007 greiddi stefnandi aðeins af láninu í erlendum gjaldmiðlum, evrum og bandaríkjadölum.  Hefur stefnandi ekki lagt neitt fram um að hann hafi keypt íslenskar krónur fyrir gjaldeyrinn og þær notaðar til greiðslu lánsins, eins og haldið er fram í stefnu málsins.

Samkvæmt framlögðum greiðslukvittunum greiddi stefnandi samtals 1.661.000 evrur og 51.583,44 bandaríkjadali inn á lánið 4. febrúar 2009 og var allt féð notað til að kaupa svissneska franka og greiða upp þann legg láns stefnanda sem var í svissneskum frönkum.  Enn ein beiðnin um framlengingu lánsins var undirrituð 21. júlí 2009 og þá óskað eftir framlengingu gjalddaga til 4. september 2009.  Eru eftirstöðvar lánsins þá aðeins tilgreindar í japönskum jenum enda sá leggur lánsins sem var í svissneskum frönkum greiddur til fulls.

Sama dag, 21. júlí 2009, var undirritaður, af hálfu beggja aðila, viðauki við viðskiptasamning aðila um reikningslánalínu.  Í viðaukanum er meginefni samningsins lýst í grófum dráttum.  Því næst segir að NBI hf., nú stefndi, hafi tekið yfir réttindi og skyldur Landsbanka Íslands hf. samkvæmt samningnum í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.  Þá segir að stefnandi og stefndi gerist ásáttir um eftirfarandi breytingar á samningnum: „Lánsheimild skv. gr. 2.1. breytist þannig að bankinn skal hafa til reiðu fyrir lántaka reikningslánalínu að fjárhæð kr. 290.000.000,-, krónur [...] Samningurinn telst að fullu ádreginn.“  Gildistíma er breytt til 4. september 2009 og tekið fram að samningurinn haldist að öðru leyti óbreyttur.  Loks er tekið fram að stefnandi samþykki að tékkareikningur hans í íslenskum krónum verði skuldfærður fyrir kostnaði við gerð viðaukans.  Samkvæmt orðanna hljóðan lýtur viðaukinn að lánsheimild reikningslánalínunnar samkvæmt viðskiptasamningi aðila.

Loks greiddi stefnandi 1.732.910,86 evrur 22. desember 2009.  Samkvæmt framlagðri greiðslukvittun voru japönsk jen keypt fyrir evrurnar og sá leggur lánanna greiddur upp.

Að öllu framangreindu virtu verður að leggja til grundvallar að lán stefnanda hafi, eftir skilmálabreytinguna sem undirrituð var 29. ágúst 2007, verið í erlendum gjaldmiðlum.

Ekki er fallist á þau sjónarmið stefnanda að bankanum hafi verið ómögulegt að gera löglegan lánssamning við stefnanda um lán í erlendum gjaldmiðlum og er um það vísað til fjölmargra dóma Hæstaréttar Íslands um löglega samninga þess efnis.  Þá er ekki fallist á það með stefnanda að ósanngjarnt sé af hálfu stefnda að bera samninginn fyrir sig og andstætt góðri viðskiptavenju, samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Verður ekki fallist á það með stefnanda að þróun efnahagsmála á Íslandi verði virt sem brostin forsenda sem haft geti áhrif á greiðsluskyldu hans eða að víkja beri samningnum til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936.  Stefnandi byggir jafnframt á því að lánið hafi verið ósamrýmanlegt eðlilegum og heilbrigðum viðskiptaháttum og venjum á fjármálamarkaði samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.  Enn fremur að meðferð lánanna hjá stefnda hafi ekki verið í samræmi við lög nr. 107/2009 og að stefndi hafi auðgast með ólögmætum hætti á kostnað stefnanda.  Vísar stefnandi til þess að verðmæti umþrætts láns hafi verið fært niður við yfirfærslu þess frá Landsbanka Íslands hf. til stefnda en að stefndi hafi engu að síður innheimt lánið að fullu sem meint lögmætt lán í erlendum gjaldmiðlum í stað þess að innheimta kröfuna með hliðsjón af metnu sannvirði hennar.  Stefnandi leggur ekki fram gögn þessum fullyrðingum til stuðnings eða tiltekur hve mikið hann telur sig hafa ofgreitt af láninu á þessum grundvelli.  Þá hafa lánssamningar milli lánastofnana annars vegar og einstaklinga og lögaðila hins vegar um lán í erlendum gjaldmiðlum ítrekað verið dæmdir lögmætir í dómum Hæstaréttar Íslands.

Með því að lán stefnanda hafi eftir skilmálabreytinguna 29. ágúst 2007 ótvírætt verið í erlendum gjaldmiðlum fellur lánið ekki undir ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.  Í ljósi þess og eins og málatilbúnaður stefnanda er fram settur verður ekki talið að hann hafi sýnt fram á að hann eigi kröfu á hendur stefnda vegna endurgreiðslu lánsins.  Verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessari niðurstöðu þykir rétt, samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 krónur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýkn af kröfum stefnanda, KSÍ ehf.

Stefnandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað.