Print

Mál nr. 69/2009

Lykilorð
  • Eignaskattur
  • Aðfinnslur
  • Fasteign
  • Hefð
  • Þjóðlenda
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009

Nr. 69/2009.

Jón Sigurðsson

Dýrleif Ásgeirsdóttir

Vesturfarar ehf. og

Austurfarar ehf.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Indriði Þorkelsson hrl.)

Eignaskattur. Fasteign. Þjóðlenda. Hefð. Gjafsókn. Aðfinnslur.

J, D, V og A kröfðust þess að ógiltur yrði úrskurður óbyggðanefndar 29. maí 2007 að því er varðar þjóðlendu á nánar tilgreindu svæði innan marka fyrrum Skeggjastaðahrepps. Kröfðust þau jafnframt viðurkenningar á því að landsvæðið væri hluti jarðarinnar G og háð einkaeignarrétti þeirra. J, D, V og A studdu kröfur sínar við landamerkjabréf, sem gert var fyrir jörðina G árið 1921 og þinglesið ári síðar. Í byggði hins vegar á því að leggja bæri til grundvallar eldra landamerkjabréf fyrir jörðina, þinglesið 1891. Samkvæmt því bréfi náði jörðin mun skemmra til suðurs en í hinu yngra bréfi. J, D, V og A héldu því fram að yngra bréfið hefði komið í stað þess eldra, sem eftir það hefði ekkert gildi haft. Tengsl þeirra, sem undirrituðu eldra bréfið, við jörðina G væru óljós og vefengdu J, D, V og A að þeir hefðu haft umboð til þess verks. Þá hefði bréfið falið í sér málamyndagerning til að fullnægja formreglum gagnvart stjórnvöldum. Í hafnaði því að um málamyndagerning hefði verið að ræða, bréfið hefði þvert á móti verið í samræmi við ákvæði þágildandi landamerkjalaga að öðru leyti en því að það hefði ekki fremur en yngra bréfið verið áritað um samþykki vegna aðliggjandi svæða til suðurs. Hafnað var málsástæðu J, D, V og A um að þau sem undirrituðu bréfið hefðu ekki verið til þess bær, en einnig yrði heldur ekki framhjá því litið að slík bréf hefðu ekki átt að vera tæk til þinglestrar nema þau stöfuðu frá þeim, sem höfðu þinglesnar eignarheimildir yfir viðkomandi eignum. Þá var því ennfremur hafnað að um málamyndagerning hefði verið að ræða, þar sem ekkert væri fram komið um að lokið hefði verið við gerð landamerkjabréfs G til þess eins að komast undan viðurlögum án tillits til réttmætis þess, sem gert var. Ekki var fallist á að með yngra bréfinu hefði verið skýrður óljós texti eldra bréfs, enda væri texti eldra bréfsins skýr og engin þörf af þeim sökum á að gera nýtt bréf. Talið var að engra heimilda nyti við sem bent gætu til þess að landið, sem deilt var um, hefði nokkurn tíma verið háð beinum eignarrétti eða að það væri hluti jarðarinnar G. Áðurnefnd gögn málsins bentu þvert á móti til þess að merkjum jarðarinnar væri rétt lýst í hinu eldra bréfi og ekkert væri fram komið, sem rennt gæti stoðum undir lýsingu yngra bréfsins að því leyti sem þar var gengið lengra inn til landsins en gert var í eldra bréfi. Þá var málsástæðum J, D, V og A, sem studdust við hefð, væntingar þeirra og brot á meðalhófsreglu og jafnræðisreglu jafnframt hafnað með vísan til forsendna héraðsdóms. Var Í sýkn af kröfum J, D, V og A.

 

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2009. Þeir krefjast þess að ógiltur verði úrskurður óbyggðanefndar 29. maí 2007 að því er varðar þjóðlendu á eftirgreindu landsvæði: „Frá þeim stað þar sem línan sem dregin er úr vörðu við Kistufellslæk og í Hölknárdrög sker sveitarfélagamörk er sveitarfélagamörkum fylgt til austurs þar til kemur að hornmarki Gunnarsstaða og Þorvaldsstaða í Hágangaurð svo sem það er teiknað í kröfulýsingum gagnaðila íslenska ríkisins. Þaðan er kröfulínu sömu aðila fylgt í Sellækjardrög en þaðan er farið í Sauðárdrög. Þá er Sauðá fylgt þar til hún fellur í Hölkná. Þaðan er farið með Hölkná í Hölknárdrög og þaðan á fyrstnefndan stað þar sem línan sem dregin er úr vörðu við Kistufellslæk og í Hölknárdrög, sker sveitarfélagamörk.“ Þá krefjast áfrýjendur viðurkenningar á því að framangreint svæði sé hluti jarðarinnar Gunnarsstaða í Langanesbyggð og háð einkaeignarrétti þeirra. Þeir krefjast einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta með áorðnum breytingum skal óbyggðanefnd kanna og skera úr um hvaða land teljist til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Nefndin ákvað 1. mars 2004 að taka til meðferðar landsvæði á norðausturlandi, sem hún afmarkaði með þeim hætti, sem nánar var lýst í dómi Hæstaréttar í máli nr. 102/2009 uppkveðnum 24. september 2009, en það var hið fyrsta sem kom til kasta réttarins vegna úrskurðar óbyggðanefndar um mörk þjóðlendu og eignarlanda í þessum landshluta. Óbyggðanefnd bárust kröfur stefnda 11. nóvember 2004, sem vörðuðu allt svæðið. Nefndin birti kröfugerð stefnda 28. desember 2004, 7. janúar 2005 og 9. sama mánaðar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 og skoraði á þá, sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem féll innan kröfusvæðis stefnda, að lýsa kröfum sínum fyrir 31. mars 2005. Sá frestur var framlengdur til maí sama ár. Fjölmargar kröfur og athugasemdir bárust nefndinni. Í júlí 2005 kynnti óbyggðanefnd þá ákvörðun sína að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum. Var eitt þeirra nr. 4/2005 um þjóðlendur í Svalbarðshreppi, Þórshafnarhreppi og Skeggjastaðahreppi, en tveir hinir síðastnefndu hafa nú verið sameinaðir í eitt sveitarfélag, Langanesbyggð. Tók málið meðal annars til landsvæða sem áfrýjendur, eigendur jarðarinnar Gunnarsstaða í fyrrum Skeggjastaðahreppi og býlanna Hölknár, Veðramóta I og Veðramóta II, sem skipt hefur verið út úr Gunnarsstöðum, töldu til eignarlanda sinna.

Óbyggðanefnd kvað upp úrskurð í málinu 29. maí 2007 og varð niðurstaðan sú að fallist var á kröfur stefnda að hluta. Að því er varðar sérstaklega land innan marka fyrrum Skeggjastaðahrepps var niðurstaða nefndarinnar sú að þjóðlenda væri á fjórum nánar tilteknum svæðum, sem eigendur jarða höfðu í öllum tilvikum gert tilkall til beins eignarréttar yfir. Eitt þeirra tók til lands, sem áfrýjendur töldu hluta eignarlands Gunnarsstaða, en þar lagði óbyggðanefnd til grundvallar að land sunnan línu frá Sellækjardrögum að Sauðárdrögum og síðan með Sauðá þar til hún fellur í Hölkná teldist vera þjóðlenda. Krafa stefnda á þessum stað var þannig tekin til greina að hluta, en kröfulína hans hafði verið dregin nokkru norðar. Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar taldist þetta svæði innan þjóðlendu vera í afréttareign Gunnarsstaða.

Áfrýjendur höfðuðu málið 15. janúar 2008 og kröfðust þess í senn að „ógilt verði með dómi sú niðurstaða óbyggðanefndar, að landsvæði það sem afmarkað er hér á eftir þ.e. norðurhlíðar Ytra-Hágangs, sé þjóðlenda“ og jafnframt „viðurkenningar á því með dómi að framangreint svæði í norðurhlíðum Ytri-Hágangs ... sé hluti jarðarinnar Gunnarsstaða og sé háð einkaeignarrétti stefnenda sem eigenda Gunnarsstaða.“ Stefndi krafðist sýknu og lýsti yfir að hann myndi una því að ekki hafi verið fallist á kröfu hans um norðurmörk þjóðlendu. Með hinum áfrýjaða dómi var sýknukrafa stefnda tekin til greina. Krafa áfrýjenda fyrir Hæstarétti er sú sama og gerð var fyrir héraðsdómi.

II

Áfrýjendur styðja kröfur sínar við landamerkjabréf, sem gert var fyrir jörðina Gunnarsstaði 12. desember 1921 og þinglesið 31. júlí 1922. Samkvæmt því bréfi var merkjum jarðarinnar lýst til suðurs með þeim hætti að innan þeirra féll landsvæði, sem samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar telst til þjóðlendu, en afmörkunar jarðarinnar samkvæmt bréfinu er nánar getið í hinum áfrýjaða dómi. Áður hafði verið gert landamerkjabréf fyrir Gunnarsstaði, sem er ódagsett en þinglesið 9. júlí 1891. Samkvæmt því náði jörðin mun skemmra til suðurs en í hinu yngra bréfi. Mörkum var þar lýst svo að þau væru úr norðri þaðan sem Sellækur rennur í Hölkná, en síðan eftir Hölkná til suðurs þar til „Sauðá fellur í hana og upp eftir henni í efstu drög; þaðan í Sellækjardrög og eptir þeim læk aptur í Hölkná“, en lækurinn er óumdeilt í mörkum að austan og Hölkná að vestan. Í úrskurði óbyggðanefndar og héraðsdómi var niðurstaða um mörk þjóðlendu reist á þeirri lýsingu á suðurmörkum jarðarinnar, sem eldra landamerkjabréfið hafði að geyma.

Áfrýjendur halda fram að yngra bréfið hafi komið í stað þess eldra, sem eftir það hafi ekkert gildi haft. Þá séu tengsl þeirra, sem undirrituðu eldra bréfið, við jörðina Gunnarsstaði óljós og vefengja áfrýjendur að þeir hafi haft umboð til þess verks. Bréfið hafi falið í sér málamyndagerning til að fullnægja formreglum gagnvart stjórnvöldum og sýnt sé fram á að sá eða þeir, sem sömdu það, hafi verið lítt staðkunnugir. Kort, sem fylgt hafi úrskurði óbyggðanefndar, sé rangt, einkum að því er varði upptök Sauðár, sem séu mun sunnar en óbyggðanefnd hafi lagt til grundvallar og hið sama gildi um örnefnið Hölknárdrög. Lög um landamerki o.fl. nr. 41/1919 hafi leyst af hólmi landamerkjalög nr. 5/1882, en í yngri lögunum sé mælt fyrir um að landamerkjaskrá skuli afhent hreppstjóra til rannsóknar, sem auki gildi landamerkjabréfa. Yngra bréfið fyrir Gunnarsstaði hafi verið gert eftir gildistöku laga nr. 41/1919. Niðurstaða óbyggðanefndar gangi að auki gegn því, sem telja verði eðlileg landamerki til suðurs gagnvart næstu jörðum, vatnaskilum og sveitarfélagamörkum. Þá beri að skýra óljósan texta eldra landamerkjabréfsins stefnda í óhag en ekki áfrýjendum. Þeir síðastnefndu telja að allt deilusvæðið hafi verið numið í öndverðu og skilyrði séu jafnframt uppfyllt til að þeir hafi eignast landið fyrir hefð. Réttmætar væntingar þeirra leiði til sömu niðurstöðu. Þá hafi stefndi gengið of langt með kröfugerð sinni að því virtu að tilgangur með setningu laga nr. 58/1998 sé óljós og stefndi jafnframt brotið jafnræðisreglu gagnvart áfrýjendum.

Stefndi byggir á því að leggja beri eldra landamerkjabréfið til grundvallar niðurstöðu um mörk eignarlands og þjóðlendu, enda hafi ekki verið unnt með gerð nýs landamerkjabréfs að auka einhliða við rétt landeiganda umfram það, sem eldri heimildir kváðu á um. Engar heimildir séu fyrir því að deilusvæðið hafi verið numið í öndverðu og eldra landamerkjabréfið bendi jafnframt ótvírætt til að það hafi ekki verið undirorpið beinum eignarrétti. Stefndi hafnar því að eldra bréfið hafi falið í sér málamyndagerning, en það hafi þvert á móti verið í samræmi við ákvæði þágildandi laga nr. 5/1882 að öðru leyti en því að það hafi ekki fremur en yngra bréfið verið áritað um samþykki vegna aðliggjandi svæða til suðurs. Stefndi hafnar því jafnframt að landamerkjabréf, sem gerð voru eftir gildistöku laga nr. 41/1919, feli í sér ríkari sönnun um merki en bréf gerð í tíð eldri laga. Hann telur heimildir ekki benda til annars en að þrætulandið hafi eingöngu verið nýtt með takmörkuðum hætti og þá einkum til beitar og fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags. Gögnum, sem hér um ræðir, og málsástæðum aðilanna eru gerð nánari skil í hinum áfrýjaða dómi.

III

Við úrlausn málsins verður litið til þess að eftir gildistöku laga nr. 58/1998 hafa í Hæstarétti verið kveðnir upp dómar í allmörgum málum, þar sem skorið hefur verið úr ágreiningi um mörk þjóðlendna og eignarlanda á suður-, suðaustur- og austurlandi, en hinn fyrsti þessara dóma var í máli nr. 48/2004. Þeir eru fordæmi við úrlausn málsins að því leyti, sem í þeim var fjallað um almenn atriði sem reynir á með sama hætti nú. Í II. kafla dóms í máli nr. 48/2004 var rakið tilefni setningar laga nr. 58/1998, efni þeirra og réttarstaðan fyrir gildistöku þeirra að því er varðar eignarréttarlega stöðu lands utan eignarlanda. Meðal annars var fjallað sérstaklega um dóma Hæstaréttar í dómasafni 1981, bls. 1584 og 1955, bls. 108, þar sem deilt var um beinan eignarrétt að afrétti og fengin niðurstaða um lagalega stöðu slíkra landsvæða. Í dóminum var jafnframt gerð grein fyrir skilgreiningu laga nr. 58/1998 á þremur grundvallarhugtökum, sem notuð eru til að lýsa eignarréttindum yfir landi, en það eru eignarland, þjóðlenda og afréttur. Þar var einnig vikið að óbyggðanefnd, skipan hennar og hlutverki, svo og reglum sem gilda um meðferð mála fyrir nefndinni.

Í niðurstöðu í VII. kafla dómsins í máli nr. 48/2004 um mörk þjóðlendu gagnvart eignarjörðum tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Þar var sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði og einnig að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þó var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfs væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið framhjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa, sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands, sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt umfram það, sem verið hafði. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir, sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Í síðari dómum réttarins hefur enn verið áréttuð þýðing þess að landsvæði teljist vera innan lýstra merkja samkvæmt landamerkjabréfum og að þau hafi stuðning af öðru og þá einkum eldri heimildum. Við úrlausn máls þessa ber að hafa þetta í huga.

IV

Jörðin Djúpilækur liggur að Gunnarsstöðum að austanverðu, en síðarnefnda jörðin mun hafa verið byggð úr landi Djúpalækjar á þriðja áratug 19. aldar og tilheyrt henni fram eftir þeirri öld. Austan Djúpalækjar eru Þorvaldsstaðir, en eins og merkjum Gunnarsstaða var lýst í landamerkjabréfi þinglesnu 1891 lágu lönd tveggja síðastnefndra jarða ekki saman. Skeggjastaðir eru austan Þorvaldsstaða. Vestan Gunnarsstaða er Miðfjörður og vestan að þeirri jörð liggur Kverkártunga. Allar framantaldar jarðir liggja inn af Bakkaflóa.

Eldra landamerkjabréfið fyrir Gunnarsstaði undirrituðu Stefán Pjetursson, Matthildur Þorsteinsdóttir og Jón Halldórsson „fyrir hönd Mad. Ólafar Stefánsdóttur í Krossavík.“ Áfrýjendur byggja á því að tengsl þessa fólks við jörðina séu óljós, svo sem áður var getið, og meðal annars þess vegna eigi bréfið að víkja fyrir yngra landamerkjabréfi. Til stuðnings þessari málsástæðu hafa þeir lagt fyrir Hæstarétt bréf Héraðsskjalasafns Austfirðinga 23. október 2009, þar sem vísað var til heimilda um að Jakob Jónasson og Þórdís Jósefsdóttir hafi verið ábúendur á Gunnarsstöðum 1864 til 1907. Barna þeirra er getið, en þeirra á meðal var Eiríkur, sem undirritaði yngra landamerkjabréfið 1921. Í manntali 1880 og 1890 hafi Jakob og Þórdís verið skráð ábúendur á Gunnarsstöðum, en 1880 hafi verið tvíbýlt á jörðinni og þar hafi þá einnig búið Helgi Jónsson og Ólöf Þorsteinsdóttir. Árið 1890 hafi aftur verið orðið einbýlt á Gunnarsstöðum. Í manntali 1901 hafi að þessu leyti verið óbreytt staða, en í manntali 1910 hafi Eiríkur Jónsson verið nefndur „sjálfseignarbóndi“ á jörðinni, „sem bendir ótvírætt til þess að hann hafi átt Gunnarsstaði á þessum tíma, þó ekkert komi fram um hvenær hann eignaðist jörðina.“ Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu áfrýjenda sérstaklega bent á að Jakob Jónasson hafi ekki undirritað eldra landamerkjabréfið þótt hann hafi verið ábúandi á Gunnarsstöðum þegar bréfið var gert og sennilega eigandi jarðarinnar.

Í úrskurði óbyggðanefndar er vísað til gagna, sem veita upplýsingar um stöðu Gunnarsstaða um miðja 19. öld. Um það segir að samkvæmt jarðamati 1849 tilheyri afbýlið Gunnarsstaðir jörðinni Djúpalæk og jörðin eigi „afrétt“ fyrir sig. Í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi segi um Djúpalæk að jörðin sé bændaeign frá fornu fari og Gunnarsstaðir hjáleiga þaðan og vísað meðal annars um það til fasteignamats 1861. Landamerkjabréf hafi verið þinglesið fyrir Djúpalæk 9. júlí 1891, en áður er fram komið að landamerkjabréf fyrir Gunnarsstaði var þinglesið sama dag. Landamerkjabréf Djúpalækjar undirrituðu Jón Halldórsson „fyrir hönd Mad. Ólafar Stefánsdóttur í Krossavík“, Stefán Pjetursson, Matthildur Þorsteinsdóttir og Guðríður Árnadóttir, sem þá var eigandi Þorvaldsstaða. Að þeirri síðasttöldu undanskilinni undirrituðu hin sömu landamerkjabréf fyrir bæði Djúpalæk og Gunnarsstaði, sem þinglesin voru 9. júlí 1891.

Að því er varðar Þorvaldsstaði segir í úrskurði óbyggðanefndar að landamerkjalýsing fyrir jörðina 14. júlí 1890 og skýrsla um áreið á merki hennar og Djúpalækjar 22. júní 1883 hafi verið þinglesin 16. júlí 1892. Eigandi Þorvaldsstaða, fyrrnefnd Guðríður Árnadóttir, og Jón Halldórsson, eigandi Skeggjastaða og umráðamaður Skeggjastaðakirkju, hafi ritað undir landamerkjalýsinguna. Í skjali um áreiðina segir að hún hafi verið gerð „eptir beiðni eiganda og ábúanda Þorvaldsstaða Árna bónda Þorkelssonar og að viðstöddum Gunnlögi presti Halldórssyni sem umboðsmanni eiganda Djúpalækjar, Ólafar Stefánsdóttur í Krossavík“. Kom fram að þau, sem undirrituðu þetta skjal 1883, væru með því að lýsa áliti sínu um rétt landamerki milli Þorvaldsstaða og Djúpalækjar, en meðal þeirra hafi verið St. Pjetursson, Jakob Jónasson, Árni Þorkelsson og Ólöf Stefánsdóttir.

Meðal málskjala liggur loks fyrir landamerkjabréf fyrir jörðina Miðfjörð frá 1. apríl 1884. Undir það ritaði Matthildur Þorsteinsdóttir, en við önnur nöfn á skjalinu eru færðar svofelldar athugasemdir eða skýringar: Árni Þorkelsson „eigandi Kverkártungu“, St. Pjetursson „eptir fullmakt“ og Jakob Jónasson „ábúandi“.

Ljósrit af blaðsíðu Gunnarstaða í veðmálaregistri fyrir Norður-Múlasýslu er meðal málskjala en ekkert verður ráðið af því um eignarhald á jörðinni í lok 19. aldar, enda er fyrsta færslan þar um jörðina frá árinu 1924. Því er í þeim efnum ekki við annað að styðjast en þær heimildir, sem rannsókn óbyggðanefndar leiddi í ljós og að framan var getið. Skiptir þá máli bæði það, sem snýr beint að Gunnarsstöðum, og einnig það, sem fram er komið um jarðir, sem liggja næst þeim. Varðandi umboð þeirra, sem rituðu undir eldra landamerkjabréfið fyrir Gunnarsstaði, verður að álykta að Matthildur Þorsteinsdóttir hafi með því samþykkt landamerkin fyrir aðliggjandi jörð að vestan, Miðfjörð. Af gögnum málsins verður ráðið að Stefán Pjetursson hafi verið hreppstjóri, en nafn hans virðist koma víða fyrir á landamerkjabréfum, sem gerð voru á svæðinu á þessum tíma. Sá þriðji, sem undirritaði bréfið, var Jón Halldórsson á Skeggjastöðum fyrir hönd Ólafar Stefánsdóttur. Hún var samkvæmt áðurröktum gögnum eigandi Djúpalækjar á þeim tíma, sem Jón Halldórsson undirritaði fyrir hennar hönd landamerkjabréf fyrir báðar jarðirnar, sem þinglesin voru sama dag. Áður var þess getið að Gunnarsstaðir voru lengst af ekki sjálfstæð jörð heldur hjáleiga frá Djúpalæk og ekki er fram komið að á því hafi orðið breyting áður en landamerkjabréfið var gert, sem þinglesið var 1891. Jakob Jónasson var í landamerkjabréfi fyrir Miðfjörð 1884 skráður sem ábúandi en ekki eigandi nágrannajarðarinnar Gunnarsstaða og hans er hvergi getið í fram komnum heimildum sem eiganda jarðarinnar. Sú heildarmynd, sem rannsókn óbyggðanefndar leiðir í ljós og að framan var lýst, rennir eindregið stoðum undir að Ólöf Stefánsdóttir hafi verið eigandi bæði Gunnarsstaða og Djúpalækjar þegar landamerkjabréfin voru gerð og þau þinglesin 1891. Framhjá því verður heldur ekki litið að slík bréf hefðu ekki átt að vera tæk til þinglestrar nema þau stöfuðu frá þeim, sem höfðu þinglesnar eignarheimildir yfir viðkomandi eignum. Samkvæmt því verður hafnað málsástæðu áfrýjenda, sem er á því reist að þau sem undirrituðu eldra landamerkjabréfið hafi ekki verið til þess bær og að Jakob Jónasson hafi þá verið eigandi Gunnarsstaða.

V

Af hálfu áfrýjenda er jafnframt á því byggt að hafna beri eldra landamerkjabréfinu þar eð í því hafi falist málamyndagerningur til að fullnægja formreglum. Þegar það var gert hafi verið liðinn alllangur tími frá því lög nr. 5/1882 tóku gildi, en samkvæmt 5. gr. laganna skyldi það varða sektum ef skyldur samkvæmt 1. til 4. gr. þeirra væru vanræktar. Um þetta er þess að gæta að þegar bréfið var gert var ekki enn lokið við að semja og þinglesa landamerkjabréf fyrir allar nágrannajarðir, en bréf fyrir Þorvaldsstaði var þinglesið í júlí 1892. Ekkert er fram komið um að lokið hafi verið við gerð landamerkjabréfs Gunnarsstaða til þess eins að komast undan viðurlögum án tillits til réttmætis þess, sem gert var, en til þess verður og að líta að slík viðurlög hefðu fallið á eiganda eða umráðamann jarðarinnar, sem gat ekki haft hagsmuni af því að skerða réttindi sín með efni bréfsins. Í fyrri dómsmálum varðandi mörk þjóðlendu og eignarlanda er að finna dæmi um landamerkjabréf fyrir jarðir, sem gerð voru á árunum 1890 til 1900, en í engu tilviki hafa tafir á að ljúka gerð landamerkjabréfs að virtum áskilnaði laga nr. 5/1882 um tímamörk leitt til þess að dregið hafi úr gildi bréfsins. Þessi málsástæða áfrýjenda kemur því ekki frekar til álita við úrlausn málsins.

Í málatilbúnaði áfrýjenda er jafnframt á því byggt að með yngra landamerkjabréfinu hafi verið skýrður óljós texti eldra bréfs og að full þörf hafi verið á að gera nýtt bréf. Á þetta verður ekki fallist, enda er texti eldra bréfsins skýr og engin þörf af þeim sökum á að gera nýtt bréf. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður jafnframt hafnað þeim rökum áfrýjenda að taka beri yngra bréfið fram yfir hið eldra vegna formkrafna, sem gerðar séu í lögum nr. 41/1919 um það hvernig standa beri að gerð landamerkjabréfs, sem ekki hafi verið að finna í lögum nr. 5/1882.

Í Landnámabók greinir ekki frá því hve langt inn til fjalla landnám náði á þessu svæði, en í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að frá bæjarstæði Gunnarsstaða séu tæpir 14 km í beinni loftlínu suður að tindi Ytri­-Hágangs, sem er yfir 900 m að hæð. Engra heimilda nýtur við sem bent geta til þess að landið, sem deilt er um í málinu, hafi nokkurn tíma verið háð beinum eignarrétti eða að það sé hluti jarðarinnar Gunnarsstaða. Áðurnefnd gögn málsins benda þvert á móti til þess að merkjum jarðarinnar sé rétt lýst í hinu eldra bréfi og ekkert er fram komið, sem rennt getur stoðum undir lýsingu yngra bréfsins að því leyti sem þar er gengið lengra inn til landsins en gert var í eldra bréfi. Skilyrði voru ekki til að færa mörk jarðarinnar einhliða út fyrir þau, sem áður höfðu verið, svo sem gert var í yngra bréfinu. Um það vísast að öðru leyti til þess, sem greinir í kafla III að framan um skýringu á landamerkjabréfum jarða í fyrri dómum Hæstaréttar, þar sem skorið hefur verið úr um mörk þjóðlendna og eignarlands. Málsástæðum áfrýjenda, sem styðjast við hefð, væntingar þeirra og brot á meðalhófsreglu og jafnræðisreglu er jafnframt hafnað með vísan til forsendna héraðsdóms.

Í úrskurði óbyggðanefndar er vikið að örnefninu Sauðárdrögum með þeim orðum að inn af Urðarbrúnum suður að Ytri-Hágangi halli landi til norðurs og kallist það Sauðárdrög, en þar falli allnokkrir lækir. Af þessari lýsingu og að virtum uppdrætti vatnamælingasviðs Orkustofnunar, sem óbyggðanefnd studdist meðal annars við, fæst ekki séð að hún hafi staðsett Sauðárdrög ranglega við úrlausn málsins.

Í úrskurði óbyggðanefndar er tekið fram að land, sem telst þjóðlenda og lýst er í kröfugerð áfrýjenda hér að framan, sé afréttareign Gunnarsstaða, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c. lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Sú niðurstaða hefur ekki verið borin undir dómstóla til endurskoðunar.

Samkvæmt öllu framanröktu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjenda greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.

Það athugast að í atvikalýsingu í héraðsdómi er greint frá kröfugerð stefnda fyrir óbyggðanefnd og hermt að hún varði Gunnarsstaði. Þessi misvísandi lýsing, sem tekin var upp úr héraðsdómsstefnu og áfrýjendur leituðust við að leiðrétta undir rekstri málsins í héraði, varðar að sönnu Gunnarsstaði, en sú jörð er í Svalbarðshreppi við Þistilfjörð og kemur úrlausnarefni málsins ekki við. Í málinu hafa aðilarnir að auki lagt fram fjölda skjala, sem snúa að þeirri jörð, og er þau enn að finna í málsgögnum, sem lögð voru fyrir Hæstarétt.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, Jóns Sigurðssonar, Dýrleifar Ásgeirsdóttur, Vesturfara ehf. og Austurfara ehf., greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 600.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2008.

Mál þetta sem tekið var til dóms 5. nóvember sl., er höfðað með stefnu birtri 15. janúar 2008.

Stefnendur eru Jón Sigurðsson, Selbraut 15, Seltjarnarnesi, Dýrleif Ásgeirsdóttir, Hrísalundi 16g Akureyri, Vesturfarar ehf., Stórhöfða 23, Reykjavík og Austurfarar ehf., Stórhöfða 23, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Stefnendur krefjast þess að ógilt verði með dómi sú niðurstaða óbyggðanefndar, að landsvæði það sem afmarkað er hér á eftir, þ.e. norðurhlíðar Ytra-Hágangs, sé þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:

Frá þeim stað þar sem línan sem dregin er úr vörðu við Kistufellslæk og í Hölknárdrög sker sveitarfélagamörk er sveitarfélagamörkum fylgt til austurs þar til kemur að hornmarki Gunnarsstaða og Þorvaldsstaða í Hágangaurð svo sem það er teiknað í kröfulýsingu gagnaðila íslenska ríkisins. Það er kröfulínu sömu aðila fylgt í Sellækjardrög en þaðan er farið í Sauðárdrög. Þá er Sauðá fylgt þar til hún fellur í Hölkná. Þaðan er farið með Hölkná í Hölknárdrög og þaðan á fyrstnefndan stað þar sem línan sem dregin er úr vörðu við Kistufellslæk og í Hölknárdrög sker sveitarfélagamörk.

Jafnframt er krafist viðurkenningar á því með dómi að framangreint svæði í norðurhlíðum Ytri-Hágangs innan þeirra merkja sem að ofan er lýst og dregin eru á landakort, sem lagt verður fram við þingfestingu málsins, sé hluti jarðarinnar Gunnarsstaða og sé háð einkaeignarrétti stefnenda sem eigenda Gunnarsstaða. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda eins og mál þetta sé ekki gjafsóknarmál.

Stefndi, íslenska ríkið, krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnenda.

Þá er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

Málsatvik.

Stefnendur eru eigendur Gunnarsstaða í Langanesbyggð og á hver þeirra ¼ hluta jarðarinnar. Úr upphaflegu landi Gunnarsstaða voru byggð þrjú nýbýli, Hölkná, Veðramót II, Veðramót I og síðan Gunnarsstaðir. Landi hinna upprunalegu Gunnarsstaða er óskipt.

Lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998 tóku gildi 1. júlí 1998, sbr. lög nr. 65/2000, 7/2005 og 19/2006. Í greindum lögum er kveðið á um hlutverk óbyggðanefndar, sem stofnað var til með 7. gr. laganna. Með bréfi 1. mars 2004 tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun að taka til umfjöllunar afmarkað landsvæði á Norðausturlandi. Landsvæði þetta er í aðalatriðum afmarkað að vestanverðu af Jökulsá á Fjöllum þó þannig að svokölluð Krepputunga austan Jökulsár og vestan Kreppuár var skilið undan svæðinu. Að austan afmarkast svæðið af Lagarfljóti þangað sem Gilsá rennur í það, síðan fylgja mörkin Gilsá og austurmörkum Fljótsdalshrepps. Að sunnan afmarkast svæðið m.a. af Vatnajökli og norðan af hafi. Þjóðlendukröfusvæði þessu var síðan skipt í fimm mál nr.1-5/2005. Gunnarsstaðir falla undir mál nr. 4/2005, Svalbarðshreppur, Þórshafnarhreppur og Skeggjastaðahreppur.

Fjármálaráðherra fékk frest til 1. ágúst 2004 til að lýsa kröfum og var sá frestur framlengdur til 15. október 2004 og síðan til 12. nóvember 2004. Kröfulýsingar fjármálaráðherra á svæðinu voru birtar í Lögbirtingablaði 28. desember 2004 og víðar. Þá var skorað á þá sem teldu til eignarréttinda á svæðinu sem féllu innan ríkisins að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd eigi síðar en 31. mars 2005 og bárust síðustu kröfulýsingarnar í maí 2005. Úrskurður í máli 4/2005 var kveðinn upp 29. maí 2007.

Á því svæði sem hér skiptir máli gagnvart Gunnarsstöðum var kröfulýsing íslenska ríkisins sú, að frá punkti 2 þar sem Hávarðsdalsá rennur í Hafralónsá, er farið í punkt 3 þar sem Grasmannalækur rennur úr Bræðravötnum og þaðan er læknum fylgt að Hölkná, og eftir henni liggur línan að innri landamörkum Hafurstaða og þeim fylgt í Balafellsbrún.

Jörðin Gunnarsstaðir er, samkvæmt því sem segir í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi, upphaflega hjáleiga frá Djúpalæk og bændaeign. Jörðin nær norðan frá hafi suður að Hágöngum og er talin u.þ.b. 18 km. frá norðri til suðurs, en breidd landsins innst er 5,5 km við Sauðhöfða. Mýrlendi fylgir Hölkná allt að Hölknárdrögum skammt norðaustur af Hágangi.

Landsvæði það sem ágreiningur er um milli málsaðila er í óskiptri sameign jarðanna Hölknár, Gunnarsstaða, Veðramóta I, og Veðramóta II. Verður því fjallað um svæðið, sem ágreiningur er um, sem land Gunnarsstaða.

Landamerki Gunnarsstaða voru upphaflega þinglesin 9. júlí 1891 og er þá þannig lýst:

,,Að norðan ræður Hölkná frá því er Sellækur rennur í hana, upp eptir þar til Sauðá fellur í hana og upp eptir henni í efstu drög; þaðan í Sellækjardrög og eptir þeim læk aptur í Hölkná.“

Undir þessa lýsingu eru sögð rita Jón Halldórsson f.h. Ólafar Stefánsdóttur í Krossavík. Ennfremur skrifuðu Stefán Pétursson og Matthildur Þorsteinsdóttir undir.

Núgildandi landamerkjabréf fyrir Gunnarsstaði var gert 12. desember 1921 og það þinglesið á Skeggjastaðamanntalsþingi 31. júlí 1922. Í bréfinu er landamerkjum jarðarinnar lýst þannig:

,,Að austan eru merkin úr vörðu sem stendur á sjávarbakkanum rétt austur við Árvík, þaðan beina stefnu í svonefnda Valgerðartóft, sem er á Hávaðanum austan við Hölkná, þaðan beina stefnu í Stórusteina á Jarðbakkanum. Úr Stórusteinum norðvestur í Sellæk neðanvert við Litla-Kíl. Úr því ræður Sellækur inn á móts við Bláfjall. Þá tekur við Sellækjardrag og hágangsröð eystri, þaðan í eystra hágangshorn.  ...

Silungsveiði tilheyrir jörðinni að hálfu innan við Sellækjarós. Að vestan skiptir Hölkná frá fjalli til fjöru.“

Undir landamerkjabréfið ritað Eiríkur Jakobsson, eigandi Gunnarsstaða. Það var samþykkt af Einari Einarssyni, eiganda Djúpalækjar, sem liggur austan við Gunnarsstaði. Það var enn fremur samþykkt af Jónasi Pálssyni, eiganda að hálfum Miðfirði, en Miðfjörður liggur vestan við Gunnarsstaði. Þá var það og undirritað af Þorbjörgu Þorsteinsdóttur, sem átti hálfa jörðina Miðfjörð. Jarðirnar Hámundarstaðir og Hvammsgerði í Vopnafjarðarhreppi eiga sameiginleg landamerki með Gunnarsstöðum að sunnan. Í landamerkjabréfum beggja jarðanna frá 1885 og 1884 er merkjum þessara jarða lýst norður í Hágangsröð, en merkjum Gunnarsstaða er einnig lýst suður í Hágangsröð. Eigendur eða ábúendur jarðanna í Vopnafirði skrifuðu þó ekki upp á landamerkjabréf Gunnarsstaða. Landamerkjabréfi Gunnarsstaða var þinglýst á Skeggjastaðamanntalsþingi, en landamerkjabréfum jarðanna Hámundarstaða og Hvammsgerðis var þinglýst í Vopnafjarðarmanntalsþingi 14. júlí 1885 og 11. júní 1886.

Nágrannajarðir Gunnarsstaða til austurs eru Djúpilækur, Þorvaldsstaðir, Skeggjastaðir og Nýibær. Gunnarsstaðir, Þorvaldsstaðir, Skeggjastaðir og Nýibær ná suður að sveitarmörkum Skeggjastaðahrepps og Vopnafjarðarhrepps. Sunnan sveitarmarka milli þessara hreppa eru jarðirnar Hámundarstaðir og Hvammsgerði.

Óbyggðanefnd hefur fallist á að sveitarmörk réðu landamerkjum milli Nýjabæjar og Skeggjastaða annars vegar og Hámundarstaða hins vegar. Óbyggaðnefnd dregur síðan línu á merkjum Skeggjastaða að austan og Þorvaldsstaða að vestan beint í norður og þaðan í norðvestur yfir land Þorvaldsstaða. Því næst dregur óbyggðanefnd línu á landamerkjum Þorvaldsstaða og Djúpalækjar nánast í suður í syðsta landamerkjapunkt Djúpalækjar. Í niðurstöðu óbyggðanefndar segir um framhald línunnar:

...,,þaðan er kröfulínu sömu aðila fylgt í Sellækjardrög en þaðan er farið í Sauðárdrög. Þá er Sauðá fylgt þar til hún fellur í Hölkná. Þaðan er farið með Hölkná í Hölknárdrög og þaðan á fyrstnefndan stað... “

Málsástæður og lagarök stefnenda.

Stefnendur kveða að ekki verði hjá því komist að líta til þess hvernig háttað sé landamerkjum jarða bæði í Skeggjastaðahreppi og í Vopnafjarðarhreppi á því landsvæði sem hér skipti máli. Sé þá rétt að líta til landamerkjabréfa Nýjabæjar, Skeggjastaða, Þorvaldsstaða, Gunnarsstaða og Miðfjarðar í Skeggjastaðahreppi. Jafnframt sé óhjákvæmilegt að líta til landamerkjabréfa Hámundarstaða, Hvammsgerðis, Hróaldsstaða II, Hróaldsstaða I, Áslaugarstaða og Leifsstaða í Vopnafjarðarhreppi og jafnvel einnig Þorvaldsstaða og Ytri- og Fremri-Hamars í sama hreppi. Tilgreindar jarðir í Skeggjastaðahreppi annars vegar og tilgreindar jarðir í Vopnafjarðarhreppi hins vegar eigi sér sameiginleg landamerki og hafi óbyggðanefnd fallist á að það eigi við um landamerkin milli Hámundarstaða annars vegar og Nýjabæjar og Skeggjastaða hins vegar. Óbyggðanefnd telji hins vegar rétt að skerða syðsta hluta lands Þorvaldsstaða, Gunnarsstaða og Miðfjarðar í Skeggjastaðahreppi og einnig vestasta hluta lands Hvammsgerðis, Hróaldsstaða II, Hróaldsstaða I og Áslaugarstaða í Vopnafjarðarhreppi. Með þessu móti takist óbyggðanefnd að úthluta stefnda, íslenska ríkinu, óreglulegri sneið úr landi sumra jarðanna í Skeggjastaðahreppi og Vopnafjarðarhreppi. Sveitarfélagsmörk á milli Skeggjastaðahrepps og Vopnafjarðarhrepps eigi sér eðlilega og röklega skýringu, enda séu þau mörk dregin á landamerkjum jarðanna í hvorum hreppi fyrir sig og sveitarfélagamörkin fylgi því landamerkjum jarðanna, svo sem tíðkanlegt sé, vítt og breitt um Ísland. Með niðurstöðu óbyggðanefndar séu sveitarfélagamörk dregin um svonefnda þjóðlendu, þ.e. ríkisland það sem nefndin telji að hafi orðið til við afmörkun nefndarinnar á landamerkjum jarðanna á þessu landsvæði.

Landamerki Miðfjarðar séu sem hér segir, samkvæmt landamerkjabréfi 20. desember 1921:

,,Kistufellslækur að vörðu, sem stendur á hól við lækinn og þaðan beina leið að Hölknárupptökum, síðan Hölknár til sjávar.“

Landamerkjabréf fyrir Þorvaldsstaði er frá 12. desember 1921 og þinglýst 31. júlí 1922 og er merkjum til suðurs lýst þannig í kröfulýsingu Þorvaldsstaða fyrir óbyggðanefnd samkvæmt bréfinu:

...,,þaðan beina línu í upptök Seljalækjar (p 3) og þaðan á móti Gunnarsstöðum á punkt á hreppamörkum (p 4) þaðan eftir hreppamörkum að Skeggjastaðalandi (p 5 )“...

Við kaup Brynjólfs biskups á Þorvaldsstöðum 22. ágúst 1669 er merkjum jarðarinnar til suðurs lýst þannig ,,... uppe í háfjöll sem wötn mega deila... “

Landamerkjabréf fyrir Skeggjastaði var gert 28. desember 1921. Þar er landamerkjum lýst þannig að land jarðarinnar og land Hámundarstaða í Vopnafjarðarhreppi liggi saman.

Gert var landamerkjabréf fyrir Bakka 15. desember 1921 og landamerki Bakka og Nýjabæjar voru skráð 15. desember 1921 og þinglesið 31. júlí 1922. Í kröfulýsingu fyrir jörðina Nýjabæ fyrir óbyggðanefnd er merkjum til suðurs lýst þannig og er farið eftir landamerkjabréfinu:

... ,,þaðan eftir ánni að Efra-Hölknárlóni (p 4) þaðan í syðri enda Bakkanúps ( p 5) þaðan í tangann í Miðheiðarvatni (p 6) þaðan beint í Skálafjöll og af vestasta Skálafjalli (p 7) í læk sem rennur fyrir norðan hann ( p 8 ). “...

Samkvæmt ofangreindu liggi lönd Nýjabæjar og Hámundarstaða í Vopnafirði saman. Lönd Gunnarsstaða, Þorvaldsstaða, Skeggjastaða og Nýjabæjar liggi sameiginlega að línu þeirri sem marki sveitarmörk Skeggjastaðahrepps og Vopnafjarðarhrepps, en sunnan línunnar séu lönd jarðanna Hámundarstaða og Hvammsgerðis. Sveitamörk og jarðamörk falli því saman eins og eðlilegt sé og jafnframt séu mörkin þar sem vötn falli annars vegar til norðurs og hins vegar til suðurs, þ.e. mörkin séu á vatnaskilum.

Þegar hugað sé að merkjum jarðanna eins og þau eru dregin samkvæmt landamerkjabréfum jarðanna birtist sannfærandi mynd af samspili landamerkja jarða, hreppaskila og náttúru. Það eigi hins vegar ekki við um kröfulínu ríkisins eða úrskurðarlínu óbyggðanefndar.

Stefnendur benda á að í úrskurði óbyggðanefndar, þar sem vísað sé í eldra landamerkjabréf fyrir Gunnarsstaði, segi að fyrirliggjandi gögn bendi hins vegar ekki til annars en að landamerkjum Gunnarsstaða sé rétt lýst í landamerkjabréfinu.

Enga greinargerð sé að finna í forsendum úrskurðarins um það hvaða fyrirliggjandi gögn bendi til að landamerkjum jarðarinnar sé réttar lýst í eldra en yngra landamerkjabréfi og sé þessi staðhæfing nefndarinnar því órökstudd og verði því ekki lögð til grundvallar ákvörðun landamerkja jarðarinnar. Þó sé bent á af hálfu nefndarinnar að ekki hafi verið leidd í ljós nein not af hinu umdeilda landi sem nefndin telji vera þjóðlendu, sem stofnað hafi til beins eignarréttar. Stefnendur benda á að þau not sem höfð voru af landinu hafi verið þau einu not sem unnt var að hafa af landi þessu og önnur not hafi fram til þessa ekki átt við, með hliðsjón af efnahagsstarfsemi í landbúnaði og tækniþekkingu fyrri tíma. Stefnendur og forverar þeirra hafi nýtt land þetta og náttúruauðæfi  með þeim hætti sem aðstæður og þekking hvers tíma hafi leyft. Engin hugsanleg not hafi verið undanskilin. Þetta hafi þýðingu í fyrsta lagi þegar hugað sé að sönnun á eignarrétti stefnenda og forvera þeirra á landsvæðinu.

Í afstöðu nefndarinnar og niðurstöðu felist að stefnendur eigi einir réttindi í landi því sem kallað sé þjóðlenda. Aðrir eigi þar hvorki beitarrétt né önnur réttindi fyrir utan þjóðlenduréttindi ríkisins að mati nefndarinnar. Landvæðið sé því ekki afréttur í lagaskilningi. Afréttur sé land sem er í óskiptri sameign tveggja jarða eða fleiri, en einu lögfræðilegu skilgreininguna á hugtakinu afréttur sé að finna í Jónsbók og ráði hún úrslitum hér. Landsvæðið sé því þegar af þeirri ástæðu óaðskiljanlegur hluti jarðarinnar.

Í öðru lagi sé það rangt hjá nefndinni að þau not sem að framan er lýst, stofni ekki til eignarréttar. Með þeim notum sé fullnægt skilyrðum laga á tímabilinu frá 1281 til okkar daga um eignarhefð.

Stefnendur fallast ekki á þá túlkun óbyggðanefndar á eldra landamerkjabréfinu, sem birtist í því hvernig hún marki suðurmörk Gunnarsstaða. Í bréfinu er tekið fram að jörðin nái í efstu drög, en með því sé átt við að jörðin nái að vatnaskilum í suður á móts við land Hámundarstaða og Hvammsgerðis. Við mat á þessu verði að hafa í huga að engin gögn fyrirfinnist um að á milli jarðanna í Skeggjastaðahreppi og Vopnafjarðarhreppi hafi verið afréttarland í lagaskilningi, þ.e. sameignarland tveggja jarða eða fleiri. Hver jörð hafi fullnýtt sitt land og ekki þurft beitilönd utan jarðarmarka. Með yngra bréfinu sé verið að orða landamerkjalýsinguna með þeim hætti að hún misskiljist ekki, merkjalýsingin sé gerð skýrari. Hugsanlegt sé að óbyggðanefnd telji vatnaskil á svæðinu annars staðar en stefnendur telji.

Þá færi óbyggðanefnd þau rök fyrir niðurstöðu sinni að bæði hið eldra og hið yngra landamerkjabréf séu undirrituð af eigendum jarðarinnar, en það sé ekki rétt. Óljóst sé hver hafi verið tengsl þeirra sem undirritað hafi eldra bréfið við jörðina. Það sé hins vegar rétt hjá nefndinni að máli skipti hvort eigandi jarðar undirriti landamerkjabréf eða ekki. Það hafi eigandinn sannanlega gert 1921 og sé gildi þess bréfs því meira en hins eldra.

Óbyggðanefnd staðhæfi að ekkert hafi komið fram sem renni stoðum undir lýsingu yngra bréfsins að því marki sem hún gangi lengra inn til landsins en lýsing eldra bréfsins. Þess sé fyrst að geta að vefengt sé að yngra bréfið gangi lengra en eldra bréfið. Þess utan styðjist yngra bréfið við efnahagsleg, söguleg og náttúruleg rök. Mörk hreppa og jarða falli saman. Þau falli í meginatriðum saman við vatnaskil þar sem þannig hátti til. Þá hafi óbyggðanefnd komist að þeirri niðurstöðu að enginn sameiginlegur afréttur sé á svæðinu, þ.e. afréttur sem nefndin nefni stundum ranglega ,,samnotaafrétt“. Nefndin hafi ekki heldur komist að þeirri niðurstöðu að um almenning sé að ræða milli samliggjandi jarða í Skeggjastaðahreppi og Vopnafjarðarhreppi. Af því leiði að ekki sé um annað að ræða en að landið sé hluti af jörðunum. Að skipta þessu landi upp í einstaka aðskilda afrétti, sem hver um sig tilheyri sinni jörð, eigi sér hvorki stoð í réttarreglum né sögulegum heimildum.

Stefnendur kveða að setning landamerkjalaga 1882 hafi borið vitni um viðleitni löggjafans í lok nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu að skapa traustan grundvöll undir fasteignamat, veðsetningu, sölu og skattlagningu jarða og annarra fasteigna. Þessi atriði séu í reynd undirstaða kerfis eignarréttar, markaðsbúskapar og viðskipta í réttarríki. Þótt setning landamerkjalaga nr. 5/1882 hafi vissulega verið mikilvægt brautryðjendaverk hafi í reynd ekki verið komið á fastri og áreiðanlegri skipan laga og reglna um landamerki og framkvæmd þeirra fyrr en með lögum um landamerki o.fl. nr. 41/1919, sem enn séu að stofni til í gildi, hvað varði landamerki, merkjalýsingu og viðhald merkja. Landamerkjalögin frá 1882 hafi ekki náð tilgangi sínum vegna margvíslegra bresta í framkvæmd þeirra. Í ljósi þeirrar reynslu hafi verið sett ný lög um landamerki 1919, lög nr. 41/1919 þar sem bæði hafi verið skerpt á efnisákvæðum og formsatriðum til þess að tryggja betri framkvæmd. Nýja löggjöfin hafi verið vandlega undirbúin og hafi ríkisstjórnin fengið lagadeild Háskóla Íslands til að semja frumvarp til nýrra landamerkjalaga. Stefnendur kveða að þegar menn reyna nú að túlka landamerkjaskrár sem gerðar hafi verið til málamynda fyrir meira en hundrað árum verði óvissan um gildi þeirra enn meira. Landamerkjaskrár sem gerðar hafi verið á grundvelli laga nr. 5/1882 hafi á stundum verið samdar af aðilum fjarri vettvangi, oft með óljóst eða ekkert umboð frá landeigendum til þess að staðfesta merkjalýsinguna og skrána í heild.

Til þess að bæta úr þessum ágöllum hafi því ákvæði verið bætt í lögin frá 1919 að landamerkjaskrár skuli afhenda hreppstjóra, er rannsaka skyldi hvort allir aðilar hafi samþykkt hana og afhenda hana að því búnu sýslumanni til þinglýsingar. Hafi þetta verið gert til þess að tryggja að skrárnar yrðu löglegar. Þetta sé ef til vill mikilvægasta breytingin sem gerð hafi verið með lögum nr. 41/1919. Þau skylda bæði hreppstjóra og sýslumenn til að gæta þess sérstaklega að lögunum sé fylgt. Þannig sé ábyrgð hins opinbera á réttri framkvæmd laganna ákveðin mikli skýrar en áður og þar með sönnunargildi landamerkjaskráa um eignarrétt aukið að mun.

Önnur mikilvæg breyting sem gerð hafi verið árið 1919 varði skyldu eigenda og fyrirsvarsmanna jarða, afrétta og annarra óbyggðra lendna til merkjasetningar og skráningar landamerkja milli jarða og óbyggðra lendna. Skyldi sama regla gilda um þessi mörk og mörk milli jarða ef sá krefðist þess sem land á að afrétti eða óbyggðri lendu, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1919. Samkvæmt lögunum frá 1882 átti almenna reglan um merkjasetningu og skráningu marka milli jarða annars vegar og afrétta og óbyggða hins vegar einungis gilda ,,að því leyti sem því verður við komið,“ eins og segi í 1. gr. laga nr. 5/1882. Þessar breytingar séu sérstaklega mikilvægar fyrir það úrlausnarefni sem hér sé til umfjöllunar.

Aðdragandi lagasetningarinnar nr. 41/1919 hafi verið frumvarp sem borið hafi verið upp á Alþingi árið 1917 að tilhlutan formanns Búnaðarfélags Íslands. Aðalstefna þess frumvarps hafi verið sú að öll landamerki skyldu rannsökuð að nýju og allar landamerkjaskrár gerðar að nýju. Í lögum nr. 41/1919 hafi ekki verið gengið svo langt hvað þetta varði. Í 2. gr. laga nr. 41/1919 sagði að hafi merkjaskrá verið löglega gerð og þinglesin áður en lögin komu til framkvæmda þurfi ekki að gera hana að nýju, enda séu þau merki glögg og ágreiningslaus sem þá voru sett. Af þessu megi draga þá ályktun að landamerkjaskrár, sem gerðar hafa verið á grundvelli laga nr. 41/1919, þegar í kjölfar lagasetningarinnar og innan tilskilins frests sem settur var í tvö ár í lögunum, hafi einmitt verið gerðar til þess að koma landamerkjum í rétt horf og bæta úr göllum á fyrri landamerkjaskrám. Hlutverk hreppstjóra samkvæmt hinum nýjum lögum hafi án efa skipt sköpum hvað þetta varði.

Þegar horft sé til baka yfir sögu lagasetningar um landamerki og framkvæmd laganna frá 1882 og litið til þeirra margvíslegu og alkunnu galla á framkvæmd þessara fyrstu laga um þetta efni hér á landi, þ.e. laga nr. 5/1882, verði ekki séð hvers vegna óbyggðanefnd skuli í úrskurði sínum taka frekar mark á landamerkjabréfi sem gert hafi verið á grundvelli laga nr. 5/1882, en landamerkjabréfi sem samið hafi verið eftir lagabæturnar sem gerðar voru með lögum nr. 41/1919.

Stefnendur kveða að eldra landamerkjabréf fyrir Gunnarsstaði, sem gegni lykilhlutverki í úrskurði óbyggðanefndar sé einmitt glöggt dæmi um brestina í framkvæmd landamerkjalaganna frá 1882 sem úr hafi verið bætt með lögum nr. 41/1919. Það sé til marks um sleifarlag við framkvæmd laganna frá 1882 að eldra landamerkjabréf Gunnarstaða hafi ekki verið þinglesið fyrr en 9. júlí 1891, næstum áratug eftir setningu laga nr. 5/1882, þrátt fyrir ákvæði 5. gr. þeirra laga að skráningarskyldu skyldi fullnægt innan fimm ára frá gildistöku laganna að viðlögðum sektum. Sýslumaður hafi að vísu verið skyldugur að grennslast fyrir um framkvæmd landamerkjalaganna á manntalsþingum, en aðild hans að framkvæmdinni hafi verið næsta óbein og fjarlæg. Þetta hafi einmitt verið eitt þeirra atriða sem úr hafi verið bætt með lögunum frá 1919 með auknu hlutverki hreppstjóra og sýslumanna í framkvæmdinni eins og fram komi hér að ofan. Líklegt virðist að sýslumenn hafi reynt að fá gerðar landamerkjaskrár a.m.k. til málamynda til þess að sýna að eitthvað væri aðhafst í þessu efni í þeirra sýslum, þótt hægt gengi. Þegar skoðaðar séu undirskriftirnar undir þessu eldra bréfi komi í ljós að óvissa ríki um það hverjir hafi undirritað bréfið og hvert umboð þeirra eða eignatengsl við Gunnarstaði eru. Þrjú nöfn eru undir bréfinu, Jón Halldórsson, sem sagður er skrifa undir fyrir hönd Maddömu Ólafar Stefánsdóttur í Krossavík (í Vopnafirði?), Matthildur Þorsteinsdóttir, sem sögð er hafa verið fyrrum húsfreyja í Miðfirði, og loks Stefán Pétursson, en um hann segir í forsendum úrskurðar óbyggðanefndar, að „hann gæti hafa verið eigandi Djúpalækjar eða umboðsmaður hans“. Það sé athyglisvert að enginn þeirra þriggja sem undir landamerkjabréfið skrifi verði með vissu talinn eigandi eða ábúandi Gunnarsstaða eða aðliggjandi jarða, eða staðkunnugur í landi Gunnarsstaða. Margt bendi því til þess að landamerkjabréfið frá 1891 hafi verið málamyndagerningur til þess að fullnægja formsatriðum gagnvart stjórnvöldum en ekki gert af staðkunnugum mönnum með skýra hagsmunaaðild að málinu. Óneitanlega rýri þetta heimildargildi landamerkjabréfsins frá 1891.

                Þessi skoðun styrkist þegar litið sé til þess að eldra landamerkjabréf fyrir Miðfjörð sem liggi að Hölkná að vestan og þar með að Gunnarsstöðum lýsi merkjum milli Miðfjarðar og Gunnarsstaða mun lengra til suðurs en gert sé í eldra landamerkjabréfi Gunnarsstaða frá 1891. Þetta landamerkjabréf fyrir Miðfjörð hafi verið gert 1. apríl 1884 og þinglýst 26. júní sama ár, þ.e.a.s. vel innan fimm ára skráningarfrestsins samkvæmt ákvæðum laga nr. 5/1882. Þeir sem skrifi undir þetta landamerkjabréf séu flestar miklu nær vettvangi en þeir sem riti undir eldra landamerkjabréf Gunnarsstaða. Undir bréfið skrifa Matthildur Þorsteinsdóttir, eigandi Miðfjarðar, Árni Þorkelsson, eigandi Kverkártungu, Jakob Jónasson, ábúandi Gunnarsstaða, og Stefán Pétursson, eftir fullmakt. Hyggist stefndi byggja á eldra bréfinu fyrir Gunnarsstaði verði hann að sanna tengsl undirskrifenda við jörðina Gunnarsstaði í stað þess að láta ágiskanir duga. Tímasetning yngra landamerkjabréfsins fyrir Gunnarsstaði og það að undir það riti eigandi/ábúandi viðkomandi jarðar og eigendur og ábúendur aðliggjandi jarða geri yngra landamerkjabréfið sýnu trúverðugra en hið eldra landamerkjabréf Gunnarsstaða og sönnunargildi þess sé því allt annað og meira. Í eldra landamerkjabréfi Miðfjarðar er austurmörkum þeirrar jarðar lýst svo að þau séu frá „Hölknárós og svo uppeftir henni í norðasta Hágangshorn“. Stefnendur benda á að þetta séu einmitt vesturmörk Gunnarstaða eins og þeim sé lýst í yngra landamerkjabréfinu frá 1921. Enda er viðmiðun við Hölkná sem skiptir löndum milli jarðanna frá fjöru til fjalls í alla staði eðlileg og greinilega gamalgróin. Sama máli gegnir um Ytri-Hágang í suðri sem ásamt Hölkná er sterkasta kennileitið í landi Gunnarsstaða. Tilvísun til Sauðár, sem er lítill hliðarlækur Hölknár, í eldra landamerkjabréfi Gunnarsstaða til skilgreiningar á vestur- og suðurmörkum Gunnarsstaðalands virðist komin inn í merkjalýsinguna sakir ókunnugleika þeirra sem sömdu merkjaskrána 1891 á staðháttum á mörkum landa Gunnarsstaða og Miðfjarðar, enda er hvorki vitnað til Sauðár í landamerkjaskrám Miðfjarðar frá 1884 né 1921 sem hefði aukið nokkru við land Miðfjarðar til austurs. Reyndar virðist landabréfum þeim sem til eru af þessu landssvæði ekki bera vel saman um farveg Sauðár og enn síður um það hvar séu „efstu drög“ Sauðár, sem vitnað er til í eldri landamerkjabréfi Gunnarstaða.

                Samkvæmt korti Geodætisk Institut í mælikvarða 1:100000, sem Landmælingar Íslands gáfu út 1933, endurskoðuðu 1980 og gerðu á örnefnaleiðréttingar 1986, virðast efstu drög Sauðár liggja a.m.k. jafnsunnarlega og efstu Hölknárdrög. Kortið sem fylgir úrskurði óbyggðanefndar virðist sýna upptök Sauðár norðar og farveg hennar í heild austar en kort Geodætisk Institut. Hyggist stefndi byggja á korti óbyggðanefndar hafi hann sönnunarbyrðina um að drögin liggi ekki sunnar eins og önnur kort sýni og hér sé miðað við. Þegar litið er til staðhátta virðist ólíklegt að Sauðá hafi nokkurn tíma verið valin í raun og veru sem landamerki milli Gunnarsstaða og Miðfjarðar. Allar aðstæður mæli þar frekar með Hölkná. 

                Í forsendum úrskurðar óbyggðanefndar segi: „Í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882 var gert landamerkjabréf fyrir Gunnarsstaði. Fyrirliggjandi gögn benda til þess að landamerkjum jarðarinnar sé þar rétt lýst og finnast ekki eldri heimildir sem mæla því í mót.“ Stefnendur kveða þennan málflutning villandi. Orðalagið „Í kjölfar þess að landamerkjalög tóku gildi 1882...“ rími ekki vel við þá staðreynd að landamerkjabréfið var gert næstum tíu árum eftir að landamerkjalögin voru samþykkt á Alþingi. Óbyggðanefnd vitni ekki beint til neinna gagna sem bendi til þess að landamerkjum sé þar rétt lýst en láti í það skína að slík gögn séu til með orðalaginu „Fyrirliggjandi gögn o.s.frv. ...“ Þetta séu fullyrðingar án rökstuðnings. Þvert á móti megi leiða líkur að því að landamerkjabréfið frá 1891 hafi verið ófullkomið og án heimildargildis. Þá virðist landamerkjabréf fyrir Miðfjörð frá 1884 styðja þá skoðun að Hölkná og Hölknárdrög hafi skipt löndum milli Miðfjarðar og Gunnarsstaða frá fjöru til fjalls þegar á nítjándu öld. Þar sé einmitt fundin eldri heimild sem mæli gegn landamerkjaskránni fyrir Gunnarsstaði frá 1891.

                Þá segi í forsendum úrskurðar óbyggðanefndar að annað landamerkjabréf hafi síðan verið gert fyrir Gunnarsstaði eftir gildistöku landamerkjalaga nr. 41/1919. Þar séu landamerki jarðarinnar að austanverðu dregin nokkru sunnar en í eldra bréfinu og að fyrirliggjandi gögn bendi ekki til annars en landamerkjum  Gunnarsstaða sé rétt lýst í eldra landamerkjabréfinu. Stefnendur kveða að enn sé hér vitnað til „fyrirliggjandi gagna“ til sönnunar án þess að nokkur grein sé fyrir þeim gerð. Eins og fram hafi komið hér að framan bendi fyrirliggjandi gögn um landamerki Miðfjarðar eins og þau voru skráð 1884 einmitt til þess að landamerki milli Gunnarsstaða og aðliggjandi jarða hafi frá upphafi náð lengra til suðurs en lýst er í eldra landamerkjabréfi jarðarinnar frá 1891, eins og nefndin túlkar það. Þá sé ástæða til þess að benda á að í rökstuðningi sínum taki óbyggðanefnd ekkert tillit til þess að landamerkjabréf sett í kjölfar gildistöku laga um landamerki nr. 41/1919 hljóti að hafa meira heimildargildi en eldri landamerkjabréf vegna þeirra lagabóta og vandaðri framkvæmdar sem ákveðin var með þeim lögum, enda hafði verið bent á margvíslega bresti í framkvæmd eldri laga frá 1882 sem úr var bætt með lögunum 1919.

                Í forsendum úrskurðar óbyggðanefndar segi ennfremur að bæði landamerkjabréfin, hið eldra og hið yngra, hafi verið undirrituð af eigendum jarðarinnar, þinglesin og færð í landamerkjabók og ekki sé að sjá að fram hafi komið athugasemdir yfirvalda eða ágreiningur við nágranna. Hvað varði undirskriftirnar undir bréfin vísast til þess sem að framan sagði um undirskriftirnar undir eldra bréfið sem virðast ekki standa undir lýsingu óbyggðanefndar. En undirskriftirnar undir yngra landamerkjabréfið geri það vissulega. Í nýja landamerkjabréfinu, sem gert var innan tveggja ára frá gildistöku laga nr. 41/1919, þ.e. 12. desember 1921 og þinglýst 31. júlí 1922, fólst einmitt að þörf var talin á að gera nýja landamerkjaskrá í stað þeirrar gömlu sem þar með má ætla að hafi hvorki verið glögg né ágreiningslaus, sbr. ákvæði 2. gr. laga nr. 41/1919. Meðal annars vegna þessara lagaákvæða sé alls ekki unnt að líta svo á að gefa megi eldri landamerkjaskrá sama gildi, hvað þá meira gildi en hinni yngri.

                Í úrskurði óbyggðanefndar sé gefið í skyn, að við gerð landamerkjabréfsins 1921 hafi landeigendur einhliða reynt að auka við land sitt með því að færa landamerki lengra til suðurs en greindi í eldra landamerkjabréfi. Í þessu felist sú lögskýringarleið að ætíð beri án nokkurra sönnunargagna að hafa að forsendu í ágreiningsmálum milli borgaranna og ríkisins, að borgararnir séu óheiðarlegir. Þetta sé óheimil lögskýring og hin rétta sé sú að líta svo á að sönnunargögn hafi orðið til með heiðarlegum hætti þar til annað sannist. Sönnunarbyrðin um óheiðarleikann hvíli á þeim sem beri hann fyrir sig. Staðhæfingu nefndarinnar um einhliða færslu verði með öllu að hafna.

                Áhersla er lögð á að sýslumönnum og hreppstjórum hafi lögum samkvæmt borið að gæta almannahagsmuna við skráningu merkja. Þetta gefi landamerkjabréfinu frá 1921 aukið gildi, ekki síst hvað varði suðurmörk landareignar Gunnarstaða.

                Mikilvægt sé að halda því til haga að landamerkjabréfið frá 1921 hafi verið grundvöllur fyrir fasteignamat, veðsetningu, sölu og skattlagningu Gunnarsstaðajarða í 86 ár og ekki sætt allan þann tíma athugasemdum yfirvalda eða valdið ágreiningi milli nágranna hvað varði landamerki Gunnarsstaða. Engin rök mæli með því að byggja á eldra landamerkjabréfi frá 1891 til þess að skilgreina mörk eignarlands jarðarinnar. Úrskurður óbyggðanefndar gangi þvert á tilgang laga um landamerki sem sé einmitt að skapa traustan grundvöll fyrir skráningu eigna, eignarrétt og markaðsviðskipti með jarðeignir og aðrar fasteignir. Hér sé því um grundvallaratriði í íslenskri samfélagsgerð að ræða í orðsins fyllstu merkingu.

                Verði talið, að hinum formlegu eignarheimildum stefnenda sé að einhverju leyti svo áfátt að þær verði ekki lagðar til grundvallar efnisdómi í máli þessu, þá er því haldið fram að sýnt hafi verið fram á hér að framan að uppfyllt séu hefðarskilyrði laga, ekki aðeins samkvæmt hefðarlögunum frá 1905, heldur og samkvæmt eldri lögum, þar á meðal Jónsbókarákvæðum um hefð frá 1281 og Norsku lögum Kristjáns V. sem hér var beitt um hefð. Óumdeilt er að eigendur og ábúendur Gunnarsstaða og þar á undan Djúpalækjar hafi fullnýtt um aldir það land jarðarinnar sem óbyggðanefnd telur vera þjóðlendu.

                Stefnendur og forverar þeirra hafi einnig mátt treysta því að land þeirra innan þinglesinna merkja yrði ekki skert af hinu opinbera valdi. Merkin séu þinglesin með staðfestingu hins opinbera valds, það hafi veitt veðlán út á jörðina innan merkja og í hvívetna hagað sér gagnvart stefnendum og forverum þeirra sem eigendum alls lands innan þinglesinna merkja. Slíkar væntingar skapi stefnendum rétt, sem þeir verði ekki sviptir.

                Þá beri að hafa í huga að stefnendur hafi verið í góðri trú um eignarheimild sína. Gunnarsstaðir og þær jarðir sem skipt hefur verið úr jörðinni hafi sætt aðilaskiptum bæði við kaup og fyrir erfð. Samkvæmt opinberum gögnum, þ.e. gildandi landamerkjabréfi frá 1921, séu landamerki jarðarinnar skýr og óumdeilanleg. Frásagnir forvera stefnenda voru í samræmi við hið skráða, viðtekna og opinbera sönnunargagn um merkin. Veðsetningar jarðarinnar miðuðust og við greind landamerki samkvæmt bréfinu frá 1921. Stefnendur hafi mátt treysta því er þeir eignuðust hlutdeild í Gunnarsstöðum, að landamerkjunum væri rétt lýst og þriðji aðili gæti ekki gert tilkall til hlutdeildar í landi jarðarinnar innan merkja og á það jafnt við um einkaaðila og opinbera aðila. Dómstólum sé skylt að lögum að veita hinni góðu trú stefnenda um landamerkin lagavernd.

                Stefnendur kveða að sönnunarbyrðin um það að stefndi hafi ekki gengið of langt á hagsmuni stefnenda hvíli á stefnda. Stefnendur telja að tilgangur þjóðlendulaganna, eins og fjármálaráðherra hafi túlkað þau með kröfugerð sinni fyrir óbyggðanefnd og dómstólum, sé sá að afla íslenska  ríkinu lands og landsnytja án endurgjalds og sniðganga þannig eignarnámsákvæði stjórnarskrárinnar. Þetta sé gert í því skyni að komast hjá því að greiða fullt verð fyrir landið og landsnytjarnar eins og áskilið sé í greindu ákvæði stjórnarskrárinnar.

                Stefnendur byggja á því að þeir hafi ekki notið jafnræðis gagnvart íslenska ríkinu. Eigi það við um aðrar ákvarðanir óbyggðanefndar á svæðinu þar sem ekki sé fallist á sjónarmið ríkisins um að víkja til hliðar merkjum jarða og úrskurða hluta lands þeirra að þjóðlendu. En einnig eigi það við um landeigendur annars staðar á landinu, sem ekki sé gert að sanna eignarrétt sinn með sama hætti og stefnendum. Í öllum viðskiptum ríkisins við aðra land- og lóðaeigendur taki ríkið mið af þeirri viðteknu reglu, að leggja beri þinglýstar eignarheimildir til grundvallar um eignarrétt og merki landa og lóða og að sá sem vefengi þannig sannaðan eignarrétt hafi sönnunarbyrðina um að þinglesnar heimildir séu rangar. Einungis í svokölluðum þjóðlendumálum krefjist ríkið þess að eigendur jarða með þinglesin merki leggi fram sönnunargögn um eignarrétt sinn – önnur en þau sem lögbundin eru – og forvera sinna allt aftur á landnámsöld og alltént ekki aftur til fyrri alda. Krafa um slíka sönnunarbyrði sé óheimil að lögum og hún sé svo þungbær að undir henni geti landeigendur almennt ekki risið. Verði svo þungbær sönnunarbyrði lögð á stefnendur jafngildi það eignarnámi án bóta.

                Hafa verði í huga við mat á víðnæmi jarðarinnar, að aðstæður hafi verið aðrar þegar land þetta var numið innan núverandi merkja á landnámsöld. Veður voru blíðari og gróður var samfelldari og teygði sig langt til fjalla. Landnámið miðaðist því við þáverandi aðstæður og nýtingarmöguleika.

                Stefnendur búi við hefðbundin sönnunargögn um eignarrétt sinn að jörðinni Gunnarsstöðum. Slík sönnunargögn hafi ekki verið vefengd í dómsmálum um eignarrétt að fasteignum og mörk þeirra fyrr en í svonefndum þjóðlendumálum. Íslenska ríkið geri tilkall til eignarréttinda innan þinglesinna merkja jarðarinnar Gunnarsstaða. Eignarréttindi þessi njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Þar sem ríkið er eignartilkallsmaðurinn í málinu hafi það sönnunarbyrðina um að eignarheimildir stefnenda séu svo gallaðar eða þeim sé svo áfátt að einhverju leyti, að við þær verði ekki stuðst í dómsmáli um eignarrétt stefnenda og mörk jarðarinnar.

Málsástæður og lagarök stefnda, íslenska ríkisins.

Af hálfu stefnda er á því byggt að landsvæði það sem mál þetta varðar sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telur stefndi fullljóst af heimildum að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarrétti og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti. Að mati stefnda hvíli sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum að sýna fram á tilvist beins eignarréttar að landsvæðinu eða einstökum hlutum þess.

Stefndi bendir á að óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Sé niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og á framlögðum gögnum frá málsaðilum. Þá hafi einnig verið byggt á skýrslum sem gefnar hafi verið fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt að við gildistöku laga nr. 58/1998, hafi landsvæði það sem um er deilt í máli þessu, talist til afrétta samkvæmt þeirri eignarréttarlegu flokkun lands sem almennt var miðað við fram til þess tíma.

Stefndi bendir á að til séu tvö landamerkjabréf fyrir jörðina Gunnarsstaði. Annars vegar sé um að ræða ódagsett landamerkjabréf sem þinglýst hafi verið 9. júlí 1891, en hins vegar bréf 12. desember 1921, sem þinglýst hafi verið 31. júlí 1922. Landamerkjabréfunum beri hins vegar ekki að öllu leyti saman um merki, einkum til suðurs.

Eldra bréf fyrir Gunnarsstaði lýsi merkjum til suðurs, gagnvart ágreiningssvæði í Vopnafjarðarhreppi, þannig að farið sé úr Sauðárdrögum og ,,þaðan í Sellækjardrög og eptir þeim læk aptur í Hölkná...“. Samkvæmt yngra landamerkjabréfi Gunnarsstaða séu merki til suðurs miðuð við ,,Sellækjardrag og hágangsröð eystri, þaðan í eystri hágangshorn “. Hvorugt bréfanna sé áritað vegna landsvæðis til suðurs.

Hið sama eigi við um lýsingu Gunnarsstaða til austurs. Samkvæmt eldra landamerkjabréfi jarðarinnar séu merki til austurs miðuð við Sellækjardrög, í samræmi við merkjalýsingu jarðarinnar Djúpalækjar samkvæmt ódagsettu landamerkjabréfi jarðarinnar þinglýstu 9. júlí 1891 og bréfi dagsettu 12. desember 1921. Hins vegar sé í yngra bréfi vegna Gunnarsstaða austurmerki sögð vera frá ,,...Sellæk neðanvert við Litla-Kíl. Úr því ræður Sellækur inn á móts við Bláfjall. Þá tekur við Sellækjardrag og hágangsröð eystri...“

Samkvæmt þessu sé ljóst að suður- og austurmörkum Gunnarsstaða sé lýst mun skemur inn til landsins en í hinu eldra bréfi, þar sem annars vegar er miðað við Sauðá í suðri, en Sellækjardrög í austri. Ekki sé því samræmi hvað þetta varði í lýsingum bréfanna.

Stefndi kveðst vera sammála þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar að þrátt fyrir tilvist þinglýsts landamerkjabréfs fyrir jörð, verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöður Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.

Þá verði við mat á gildi landamerkjalýsingar jarðarinnar að horfa til þess að enginn hafi ritað samþykki sitt vegna marka jarðarinnar til suðurs, þ.e. vegna aðliggjandi jarða í Vopnafjarðarhreppi.

Við mat á gildi landamerkjabréfa beri að gæta að því að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst, þá takmarkist gildi þinglýsingarinnar af því að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi. Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. t.d. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.

Af hálfu stefnda sé kröfugerð stefnenda, sem byggð er á lýsingu landamerkja samkvæmt hinu yngra landamerkjabréfi jarðarinnar því hafnað. Fyrirliggjandi heimildir bendi ekki til annars, en að landamerkjum Gunnarsstaða sé rétt lýst í hinu eldra landamerkjabréfi. Lýsing eldra bréfsins sé mjög skýr og svo mikið beri á milli að telja verði að hún mæli mót lýsingu yngra bréfsins að þessu leyti.

Engar heimildir geti því talist renna stoðum undir lýsingu yngra bréfsins að því marki sem hún gangi lengra inn til landsins en lýsing hins eldra bréfs, en jarðarinnar sé fyrst getið í heimildum í byrjun 19. aldar. Á hinn bóginn hafi ekkert komið fram sem mæli gegn lýsingu á merkjum jarðarinnar í eldra bréfinu.

Bent er á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði nái. Ólíklegt verði að teljast að land á umþrættu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum.

Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildaskortur hvað þetta varði leiða til þess að álíta verði ósannað að heiðarlönd og öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé þetta til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildaskortur leiði til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði) og 48/2004. Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignarréttarstofnun á þeim slíku haldi fram.

Ekki verði annað séð en að réttur stefnenda til hins umþrætta landsvæðis hafi orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og ef til vill annarrar takmarkaðrar notkunar.

Verði talið að svæðið hafi verið numið í öndverðu hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn ekki eingöngu helgað sér ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér, hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/2007 (Grænafjall).

Verði hins vegar talið að svæðið kunni að hafa að hluta eða að öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti, byggi stefndi á til vara, að allar líkur séu á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið hafi verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota. Þó að talið yrði að til beins eignarréttar hafi stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

Engin gögn liggi fyrir um að svæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé, og e.t.v. annarra takmarkaðra nota.

Þyki það einnig styðja þau sjónarmið að til beins eignarréttar hafi ekki stofnast á svæðinu að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélags, landsvæðið ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leita frá öðrum jörðum án hindrana. Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur, sem sveitarstjórnum hafi verið falið að annast framkvæmd á.

Sé því fallist á með óbyggðanefnd að þetta þyki benda til þess að á svæðinu, þ.e. sunnan Sauðár sé afréttur, þó svo að það kunni að vera í afréttareign stefnenda, Gunnarsstaða.

Þá er á því byggt af hálfu stefnda að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess að landið hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarrétti.

Umþrætt landsvæði liggi að mestu í 300-500 metra hæð yfir sjávarmáli. Hæst rísi landið syðst á svæðinu í Ytri-Hágangi. Nyrst á svæðinu liggi Urðarbrúnir, en úr þeim renni Sauðá til norðurs í Sauðhöfðalæk. Upp af Urðarbrúnum liggi tvær hæðarnibbur sem kallist Sauðahöfðar og séu þeir samfastir að sunnan og austan. Syðri nibban sé Efri-Sauðhöfði og sú nyrðri sé Neðri-Sauðhöfði. Inn af Urðarbrúnum suður að Ytri-Hágangi halli landi til norðurs og kallist það Sauðárdrög en þar falli allnokkrir lækir. Frá bæjarstæði Gunnarsstaða suður að toppi Ytri-Hágangs séu tæpir 14 km í beinni loftlínu.

Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó, virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en beitarafnota.

Ekki verði talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2007  og 48/2004.

Þá hafni stefndi því einnig að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á svæðinu. Sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þar með talið það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi. Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar að vera réttmætar, þ.e. menn geti ekki haft væntingar til að öðlast frekari og meiri réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því hátti þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignaréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

Með vísan til þessa alls telji stefndi að ekki hafi verið sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar í málinu nr. 4/2005 hvað varði hið umþrætta svæði, hafi verið röng. Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um, séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæði það sem hér sé til meðferðar, verði því talið falla undir skilgreininguna ,,landsvæði ... sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Engin gögn liggi fyrir um að landsvæði þetta hafi haft mismunandi eignarréttarlega stöðu. Telji stefndi því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það er afmarkað í kröfugerð stefnenda og fari saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., einnig a- lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

Niðurstaða.

Meginágreiningur máls þessa lýtur að vægi tveggja landamerkjabréfa fyrir jörðina Gunnarsstaði, annars vegar bréfs sem þinglýst var 9. júlí 1891 og hins vegar bréfs sem dagsett er 12. desember 1921 og þinglýst var 31. júlí 1922, en bréfunum ber ekki að öllu leyti saman um merki, einkum til suðurs og austurs. Samkvæmt eldra bréfinu eru merki til suðurs miðuð við efstu drög Sauðár og ,,þaðan í Sellækjardrög og eptir þeim læk aptur í Hölkná“. Í yngra bréfinu er merkjum til suðurs hins vegar lýst svo að miðað sé við Sellækjardrög og  ,,hágangsröð eystri, þaðan í eystra hágangshorn.“ Hvorugt bréfanna er áritað vegna landsvæðis til suðurs. Samkvæmt eldra landamerkjabréfi jarðarinnar eru merki jarðarinnar til austurs miðuð við Sellækjardrög, en í hinu yngra bréfi eru austurmerki sögð vera frá ,,Sellæk neðanvert við Litla-Kíl. Úr því ræður Sellækur inn á móts við Bláfjall. Þá tekur við Sellækjardrag og hágangsröð eystri ...“

Þannig er suður- og austurmörkum Gunnarsstaða lýst mun skemur inn til landsins í hinu eldra bréfi en hinu yngra.

Í úrskurði óbyggðanefndar nr. 4/2005 kemur fram að þau Ólöf Stefánsdóttir í Krossavík, Stefán Pétursson og Matthildur Þorsteinsdóttir hafi skrifað undir landamerkjabréfið frá 9. júlí 1891, en Matthildur hafi verið fyrrum húsfreyja í Miðfirði og Stefán gæti hafa verið eigandi Djúpalækjar eða umboðsmaður hans. Þá kemur einnig fram í úrskurði nefndarinnar að undir landamerkjabréf Gunnarsstaða frá 12. desember 1921 hafi skrifað Eiríkur Jakobsson, eigandi Gunnarsstaða, og það hafi verið samþykkt af Einari Eiríkssyni, eiganda Djúpalækjar, Jónasi Pálssyni eiganda að hálfum Miðfirði og Þorbjörgu Þorsteinsdóttur sem átt hafi hálfan Miðfjörð.

Af hálfu stefnenda hefur verið á það bent að meiri vafi leiki á umboði eða eignatengslum þeirra við Gunnarsstaði, sem undirrituðu eldra landamerkjabréfið, en þeirra sem undirrituðu yngra landamerkjabréfið. Þá hefur verið á það bent af hálfu stefnenda að hið eldra landamerkjabréf hafi verið gert næstum tíu árum eftir gildistöku landamerkjalaga frá 1882, en hið yngra hafi verið gert innan tveggja ára frá gildistöku landamerkjalaganna nr. 41/1919 og auki það gildi hins yngra landamerkjabréfs, sem heimildar fyrir eignarrétti stefnenda. Jafnframt hefur verið á það bent af hálfu stefnenda að landamerkjabréf frá 1884, sem gert var fyrir jörðina Miðfjörð, styðji þá skoðun stefnenda að Hölkná og Hölknárdrög hafi skipt löndum milli Gunnarsstaða og Miðfjarðar frá fjöru til fjalls.

Við mat á gildi framangreindra landamerkjabréfa sem heimildar fyrir eignarrétti stefnenda verður að halda því til haga að landamerkjabréf fela í sér sönnun um mörk milli eigna, en fela ekki í sér fortakslausa sönnun þess að allt land innan merkja sé óskorað eignarland. Vegast á mörg sjónarmið við mat á gildi landamerkjabréfa sem heimildar fyrir eignarrétti og ítrekað hefur verið í dómafordæmum Hæstaréttar að meta þurfi gildi sérhvers landamerkjabréfs sérstaklega. Hið yngra og hið eldra landamerkjabréf jarðarinnar Gunnarsstaða eru ekki samhljóða um merki til suðurs og austurs. Dregur það úr gildi yngra landamerkjabréfs fyrir Gunnarsstaði, að efni eldra bréfsins fellur ekki að lýsingu merkja í yngra landamerkjabréfinu hvað varðar mörk til suðurs og austurs. Þá dregur úr gildi þess að hvorki yngra né eldra bréfið er áritað af eigendum landsvæða til suðurs. Einnig ber að horfa til þess við mat á vægi hvors bréfs um sig, að lýsing í eldra bréfinu er mjög skýr og að með gerð nýja landamerkjabréfsins var ekki einhliða unnt að auka rétt eigenda landsins umfram það sem eldri heimildir kváðu á um. Þegar horft er til allra þeirra þátta sem skipt geta máli við mat á gildi landamerkjabréfanna tveggja verður heldur ekki dregin einhliða ályktun af mörkum Gunnarsstaða og Miðfjarðar samkvæmt landamerkjabréfi Miðfjarðar frá 1. apríl 1884. Er því fallist á þá niðurstöðu óbyggðanefndar í máli nr. 4/2005 að ekki sé í ljós leitt að land sunnan þeirra marka sem miðað er við í eldra landamerkjabréfi Gunnarsstaða hafi verið innan landamerkja Gunnarsstaða fyrir gerð yngra bréfsins árið 1921.

Eldra landamerkjabréf fyrir Gunnarsstaði er gert í tíð eldri landamerkjalaga, en stefnendur hafa haldið því fram að landamerkjaskrár sem gerðar voru á grundvelli landamerkjalaga nr. 5/1882 hafi oft verið samdar af aðilum fjarri vettvangi og oft með óljóst eða ekkert umboð frá landeigendum til þess að staðfesta merkjalýsingu. Með nýjum landamerkjalögum frá 41/1919, hafi verið gerð sú mikilvæga breyting að landamerkjaskrár skyldi afhenda hreppstjóra sem rannsaka skyldi hvort allir aðilar hefðu samþykkt hana og afhenda hana að því búnu til sýslumanns til þinglýsingar. Hér ber að líta til þess að samkvæmt 3. gr. laga nr. 5/1882 var eigandi eða umráðamaður hverrar jarðar skyldur að skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar. Merkjalýsinguna átti að sýna hverjum þeim sem land átti til móts við hann og eigendum lands þess er hann teldi jörð sína eiga ítak í og skyldu þeir rita á lýsinguna samþykki sitt, hver fyrir sína jörð. Þannig voru engar efnislegar breytingar gerðar með hinum nýju lögum, varðandi skyldu landeigenda til að fá áritaða lýsingu á merkjum aðliggjandi jarða. Breytingar þær sem gerðar voru með hinum nýrri lögum geta þannig ekki aukið sönnunargildi landamerkjaskráa um eignarrétt.

Stefnendur hafa haldið því fram að sýnt hafi verið fram á að uppfyllt séu í máli þessu hefðarskilyrði laga, ekki aðeins samkvæmt hefðarlögum, heldur og samkvæmt eldri lögum, þar á meðal Jónsbókarákvæðum um hefð frá 1281 og Norsku lögum Kristjáns V.

Landsvæði það sem stefnendur telja til eignarlands, er í um 300-500 metra hæð yfir sjávarmáli. Hæst rís landið syðst á svæðinu í Ytri-Hágangi. Inn á landsvæðið getur búfénaður leitað án hindrana og óumdeilt er að landsvæðið hefur verið nýtt af eigendum Gunnarsstaða til beitar og annarra venjubundinna afréttarnota, en ekkert liggur fyrir í málinu um nein önnur not eigenda Gunnarsstaða af landinu. Í ljósi framangreinds er ekki fallist á að stefnendur hafi fært fram sönnun þess að skilyrðum eignarhefðar á landinu hafi verið fullnægt með þeim afréttarnotum sem eigendur Gunnarsstaða höfðu af því.

Þá benda stefnendur á að þeir og forverar þeirra hafi mátt treysta því að land þeirra innan þinglesinna merkja yrði ekki skert af hinu opinbera valdi.

Gróðurfar á hinu umþrætta landsvæði, nýting eigenda Gunnarsstaða á landinu svo og staðhættir landsvæðisins og hæð þess yfir sjávarmáli, benda ekki til beins eignarréttar stefnenda yfir landinu. Þá ber ekki saman þinglesnum landamerkjabréfum  fyrir Gunnarsstaði, um mörk til suðurs og austurs. Í ljósi framangreinds verður ekki séð að stefnendur hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að beinn eignarréttur hafi unnist að landi því sem um er deilt í málinu.

Varðandi þá málsástæðu stefnenda að meðalhófs hafi ekki verið gætt gagnvart stefnendum, ber að horfa til þess að með lögum nr. 58/1998 var ekki stefnt að því að skerða eignarrétt eða raska á annan hátt réttindum með því að taka eignir af mönnum, heldur að ganga úr skugga um hvort viðhlítandi heimildir væru fyrir eignarrétti. Ekki verður því fallist á þá málsástæðu stefnenda að stefndi hafi gengið of langt á hagsmuni stefnenda í því skyni að ná því markmiði sem að er stefnt með lögum um þjóðlendur.

Með vísan til framangreinds tilgangs laganna nr. 58/1998 verður heldur ekki fallist á að jafnræðisregla hafi verið brotin gagnvart stefnendum, enda gildir sú regla sem endranær, eins og ítrekað hefur komið fram í dómum hæstaréttar, að sá sem telur til eignarréttinda yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli sínu sé það dregið í efa.

Þegar allt framangreint er virt er hafnað kröfu stefnenda, en fallist á kröfu stefnda um að staðfestur verði úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007, í máli nr. 4/2005, þannig að miðað verði við að þjóðlendulína verði dregin með svofelldum hætti:

Frá þeim stað þar sem línan sem dregin er úr vörðu við Kistufellslæk og í Hölknárdrög sker sveitarfélagamörk er sveitarfélagamörkum fylgt til austurs þar til kemur að hornmarki Gunnarsstaða og Þorvaldsstaða í Hágangaurð svo sem það er teiknað í kröfulýsingum gagnaðila íslenska ríkisins. Þaðan er kröfulínu sömu aðila fylgt í Sellækjardrög en þaðan er farið í Sauðárdrög. Þá er Sauðá fylgt þar til hún fellur í Hölkná. Þaðan er farið með Hölkná í Hölknárdrög og þaðan á fyrstnefndan stað þar sem línan, sem dregin er úr vörðu við Kistufellslæk og í Hölknárdrög, sker sveitarfélagamörk.

Í ljósi atvika málsins er rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.

Gjafsóknarkostnaður stefnenda, sem er þóknun lögmanns þeirra, og er hæfilega ákveðin 800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts af málskostnaði.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnenda, Jóns Sigurðssonar, Dýrleifar Ásgeirsdóttur, Vesturfara ehf., og Austurfara ehf., og er staðfestur úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í máli nr. 4/2005, þar sem þjóðlendulína er dregin með svofelldum hætti: Frá þeim stað þar sem línan sem dregin er úr vörðu við Kistufellslæk og í Hölknárdrög sker sveitarfélagamörk er sveitarfélagamörkum fylgt til austurs þar til kemur að hornmarki Gunnarsstaða og Þorvaldsstaða í Hágangaurð svo sem það er teiknað í kröfulýsingum gagnaðila íslenska ríkisins. Þaðan er kröfulínu sömu aðila fylgt í Sellækjardrög en þaðan er farið í Sauðárdrög. Þá er Sauðá fylgt þar til hún fellur í Hölkná. Þaðan er farið með Hölkná í Hölknárdrög og þaðan á fyrstnefndan stað þar sem línan, sem dregin er úr vörðu við Kistufellslæk og í Hölknárdrög, sker sveitarfélagamörk.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnenda, sem er þóknun lögmanns þeirra, 800.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.