Print

Mál nr. 320/2000

Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Endurkrafa
  • Nauðasamningur

Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. mars 2001.

Nr. 320/2000.

Íslenska ríkið

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.)

gegn

Deiglunni-Ámunni ehf.

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

og gagnsök

                                                   

Virðisaukaskattur. Endurkrafa. Nauðasamningur.

Þann 4. desember 1995 var D veitt heimild til að leita nauðasamnings. Samningur náðist við kröfuhafa og var hann staðfestur með úrskurði héraðsdóms 27. mars 1996. Í kjölfarið reis ágreiningur milli D og Í um það hvort ógreiddur virðisaukaskattur vegna uppgjörstímabilsins september-október 1995, með gjalddaga 5. desember sama ár, félli undir nauðasamninginn. Þrátt fyrir ágreininginn afréð D að greiða kröfu Í með fyrirvara um að greiðsluskylda væri ekki fyrir hendi. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að krafan hefði verið fallin til strax að uppgjörstímabilinu loknu þann 1. nóvember 1995 og D hefði því verið óheimilt að greiða kröfuna eftir að úrskurður um heimild til nauðasamningsumleitunar lá fyrir. Var fallist á endurkröfurétt hans gagnvart Í.  Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. ágúst 2000 og krefst aðallega sýknu af öllum kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, til vara að kröfur gagnáfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti látinn niður falla, en til þrautavara að málskostnaður falli niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 17. október 2000. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að gerðum þeim breytingum að aðaláfrýjandi greiði dráttarvexti frá 23. mars 1998 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Virðisaukaskattskrafa sú sem hér um ræðir féll til á uppgjörstímabilinu frá 1. september til 31. október 1995. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt bar gjaldanda að greiða skattkröfuna ótilkvaddur eftir lok þessa tímabils, og eigi síðar en 5. desember 1995 samkvæmt 2. mgr. 24. gr., en það var gjalddagi hennar samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 529/1989 um framtal og skil á virðisaukaskatti.

Gagnáfrýjanda var veitt heimild til að leita nauðasamnings með úrskurði 4. desember 1995. Enda þótt skattkrafan hafi verið fallin til þegar í lok tímabilsins, eða 1. nóvember 1995, var gjaldanda skattsins óheimilt að greiða hana eftir að úrskurður um heimild til nauðasamningsumleitana lá fyrir, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Því var í dómi Hæstaréttar 25. mars 1999 í máli ákæruvaldsins gegn forsvarsmanni gagnáfrýjanda ekki talið að hann hefði gerst brotlegur með því að inna skattinn ekki af hendi 5. desember 1995. Í því máli var tekist á um það hvenær virðisaukaskattkrafan hafi stofnast. Taldi ákæruvaldið að það hefði ekki verið fyrr en á gjalddaga 5. desember og því hafi krafan ekki fallið undir nauðasamninginn. Á þetta hafði héraðsdómur fallist. Hæstiréttur taldi á hinn bóginn gjalddagann ekki skera úr um stofnun kröfunnar, hún hafi fallið til á uppgjörstímabilinu samkvæmt 24. gr. laganna.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að virðisaukaskattskrafan hafi verið fallin til í lok uppgjörstímabils 1. nóvember 1995. Krafan var því orðin til þegar heimild var veitt til að leita nauðasamnings með úrskurði 4. desember sama árs. Verður héraðsdómur því staðfestur um annað en málskostnað, sem ákveðst eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

         Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Deiglunni-Ámunni ehf., 400.000 krónur samtals í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2000.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 4. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Deiglunni-Ámunni ehf., kt. 640388-1109, Skeifunni 11 d, Reykjavík, með stefnu birtri 27. september 1999 á hendur íslenska ríkinu.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 1.846.313 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 23. marz 1998 til greiðsludags, auk málskostnaðar að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins.  Til vara er þess krafizt, að stefnukröfur verði lækkaðar, og málskostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

II.

Málavextir:

Stefnandi, sem áður hét Tölvukaup hf., stundaði kaup, sölu og þjónustu á ýmiss konar tölvubúnaði og tengdum vörum.  Á árinu 1995 átti félagið í verulegum greiðslu­erfiðleikum.  Stefnandi kveður stjórnendur félagsins hafa ráðizt í fjárhagslega endurskipulagningu á rekstrinum, til að forða félaginu frá gjaldþroti, meðal annars með því að fá nýtt hlutafé inn í félagið.  Hafi samningar verið gerðir við fjárfesta um hlutafjárframlög, sem þó hafi öll verið bundin þeim fyrirvara, að félagið næði nauðasamningum um niðurfellingu á hluta af skuldum þess.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 4. desember 1995, var stefnanda veitt heimild til að leita nauðasamnings, samkvæmt lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.  Var félaginu skipaður umsjónarmaður við nauðasamnings­umleitun.  Samningur við kröfuhafa náðist hinn 14. febrúar 1996, og var sá samningur staðfestur með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 27. marz sama ár.  Meginefni samningsins var það, að kröfuhöfum, samkvæmt samningskröfum, skyldu greiddir 20 hundraðshlutar krafna sinna með tilgreindum hætti.

Þann dag, sem stefnanda var, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, veitt heimild til að leita nauðasamnings, átti félagið ógreiddan virðisaukaskatt til stefnda, meðal annars vegna uppgjörstímabilsins september og október 1995.  Fjárhæð skattsins fyrir það tímabil nam kr. 1.703.402.  Stefnandi kveðst hafa talið sér óheimilt að greiða skuld þessa, þar sem umsjónarmaður félagsins hefði tjáð stjórnendum þess, að ekki mætti greiða eldri skuldir, eftir að heimild til nauðasamningsumleitana væri fengin.  Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. l. nr. 50/1988 bar að greiða skuldina í síðasta lagi þann 5. desember 1995, eða daginn eftir að úrskurður Héraðsdóms um heimild til að leita nauðasamnings var upp kveðinn.

Í kjölfar þess, að nauðasamningur stefnanda var staðfestur í marz 1996, kom upp ágreiningur um það milli stefnanda og tollstjórans í Reykjavík, innheimtumanns ríkissjóðs á virðisaukaskatti innan Reykjavíkur, hverjar af kröfum stefnda á hendur stefnanda féllu undir nauðasamninginn.  Með bréfi, dags. 27. febrúar 1998, fór lögmaður stefnanda þess á leit við tollstjóra, að hann léti endanlega í té afstöðu til þess, hvaða skuldir féllu undir nauðasamning stefnanda, og hvaða skuldir féllu utan hans.  Fram kom í bréfinu, að stefnandi teldi allar kröfur stefnda á hendur félaginu falla undir nauðasamninginn.  Erindinu var svarað með bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 10. marz 1998, þar sem fram kom sú afstaða embættisins, að umrædd krafa hafi myndazt á uppgjörstímabilinu september og október 1995, en orðið gjaldkræf hinn 5. desember það ár.  Krafan hafi ekki orðið til fyrr en í fyrsta lagi, er hún varð gjaldkræf.  Til skuldar stefnanda hefði því ekki stofnazt, áður en úrskurður gekk um heimild til að leita nauðasamnings, og félli hún því ekki undir nauðasamninginn.

Lögmaður stefnanda mótmælti afstöðu tollstjórans í Reykjavík með bréfi, dags. 23. marz 1998.  Stefnandi kveður engu að síður hafa verið afráðið, vegna opinberrar rannsóknar á virðisaukaskattskilum fyrirtækisins, að greiða þann dag, að kröfu tollstjóra, fjárhæð, sem svaraði til umþrættrar skuldar auk 10% álags og dráttarvaxta (kr. 1.703.402 + kr. 170.340 + kr. 313.251 = kr. 2.186.993).  Greiðsla var innt af hendi með fyrirvara um, að greiðsluskylda væri ekki fyrir hendi, og að mismunur á eiginlegri kröfu og því, sem greitt var, yrði endurkrafinn í sérstöku dómsmáli.

Með ákæru, dags. 22. maí 1998, var framkvæmdastjóri félagsins sóttur til saka fyrir að hafa ekki staðið skil á ofangreindum virðisaukaskatti.  Í refsimáli, nr. 467/1998, sem rekið var á hendur honum í tilefni af þessu, komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í dómi, sem kveðinn var upp hinn 25. marz 1999, að krafa til virðisaukaskattsins hafi verið "fallin til þegar hinn 1. nóvember 1995".  Stefnanda hafi því verið óheimilt að greiða hana, eftir að úrskurður um heimild til nauðasamningsumleitunar lá fyrir hinn 4. desember það ár, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 21/1991.  Var samkvæmt því ekki fallizt á með ákæruvaldinu, að framkvæmdastjóri stefnanda hafi gerst brotlegur, með því að inna ekki skattinn af hendi hinn 5. desember 1995.

 Hinn 21. maí 1999 sendi lögmaður stefnanda tollstjóranum í Reykjavík bréf, þar sem krafizt var endurgreiðslu á ofgreiddum virðisaukaskatti.  Vísað var til framangreinds dóms Hæstaréttar og byggt á því, að virðisaukaskattsskuld stefnanda hafi fallið undir nauðasamning hans.  Samkvæmt samningnum bæri einvörðungu að greiða 20% af kröfunni, en ofgreiðsla stefnanda næmi því 80% af gjalddaga (sic í stefnu) auk 80% af álagi.  Að auki var krafizt dráttarvaxta og innheimtuþóknunar.  Krafa stefnanda um endurgreiðslu var ítrekuð með bréfi, dags. 21. júní 1999.  Með bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 7. júlí 1999, var kröfu stefnanda um endurgreiðslu virðisauka­skattsins hafnað. 

Ágreiningsefni máls þessa snýst um það, hvort krafa um virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins september og október 1995 hafi stofnazt, áður en stefnanda var veitt heimild til að leita eftir nauðasamningi samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykja­víkur hinn 4. desember 1995, og falli því undir nauðasamninginn, sem var staðfestur með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 27. marz 1996, eða ekki.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir á því, að kröfur stefnda til virðisaukaskatts stofnist samkvæmt hljóðan 1. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 "eftir lok hvers uppgjörstímabils", enda þótt skiladagur samkvæmt 2. mgr. sömu greinar sé "eigi síðar en á fimmta degi annars mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna viðskipta á því tímabili", sbr. einnig 8. gr. reglugerðar nr. 667/1995.

Krafa stefnda til virðisaukaskattsins vegna uppgjörs­tímabilsins september og október 1995 hafi stofnazt þegar að uppgjörstímabili loknu, og hafi hún því fallið undir nauðasamning félagsins, sem staðfestur var hinn 27. marz 1996.  Stefndi hafi því einvörðungu átt rétt til greiðslu í samræmi við ákvæði samningsins, eða 20% af gjaldföllnum virðisaukaskatti stefnanda fyrir nefnt tímabil.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga, hafi krafa stefnda til virðisauka­skatts verið samningskrafa í skilningi laganna.  Krafan hafi því fallið undir nauða­samning stefnanda.  Engin ákvæði í lögum leiði til þess, að krafa stefnda hafi átt að njóta forgangs fram yfir kröfur annarra kröfuhafa stefnanda eða betri stöðu við nauðasamningsumleitanir.  Þvert á móti sé jafnræði kröfuhafa meginregla samkvæmt lögum nr. 21/1991, og eigi sú regla við í þessu tilviki.

Hæstiréttur Íslands hafi, með áður tilvitnuðum dómi hinn 25. marz 1999, staðfest þessa túlkun, en þar sé tekið fram, að skattakrafan hafi verið fyrir tímabilið september og október 1995.  Hún hafi því, þegar hinn l. nóvember 1995, verið fallin til, þ.e. þegar að loknu uppgjörstímabilinu.  Segi í dóminum, að gjaldanda hafi verið óheimilt að greiða kröfuna, eftir að úrskurður um heimild til nauðasamnings­umleitunar lá fyrir hinn 4. desember 1995, sbr. l. mgr. 19. gr. laga nr. 21/1991.

Hafi einhver vafi leikið á um stofndag virðisaukaskattskrafna ríkissjóðs, telji stefnandi, að dómur Hæstaréttar skeri úr um það með skýrum og afgerandi hætti, að stofndagurinn sé að loknu uppgjörstímabili, og sé gjaldendum þá þegar heimilt að greiða, þ.e. að gjalddagi virðisaukaskattskrafna sé þegar að uppgjörstímabili loknu, enda þótt eindagi viðkomandi krafna miðist eftir atvikum við síðara tímamark.  Stefnandi leggi ríka áherzlu á, að fram hjá þessu verði ekki horft við úrlausn málsins.

Eftir að kveðinn var upp úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 4. desember 1996, hafi stefnanda verið óheimilt að greiða virðisaukaskatt til stefnda, sbr. l. mgr. 19. gr. laga nr. 21/1991, en þetta hafi verið staðfest með dómi Hæstaréttar, sbr. undanfarandi umfjöllun.  Þannig hafi, að mati stefnanda, ekki verið uppfyllt skilyrði fyrir því að leggja á hann álag til viðbótar skatti.  Af sömu sökum líti stefnandi svo á, að innheimtumanni stefnda hafi ekki verið heimilt að heimta af honum dráttarvexti vegna vanskila.  Með vísan til þessa byggi stefnandi á því, að hann eigi rétt á endurgreiðslu álagsins og greiddra dráttarvaxta að fullu, enda um ofgreitt fé að ræða, sem innt hafi verið af hendi án skyldu.  Dráttarvaxta sé krafizt frá þeim degi, sem hið ofgreidda fé var innt af hendi.

Höfuðstóll fjárkröfu stefnanda í máli þessu feli í sér, að krafizt sé endurgreiðslu á 80% af kr. 1.703.402, þ.e. kr. 1.362.722, auk alls álags, kr. 170.340 og dráttarvaxta, kr. 313.251, samtals kr. 1.846.313.

Stefnandi vísar einkum til 24. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 með síðari breytingum, sem og 28. gr. og 29. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og IV. kafla sömu laga.  Þá vísar stefnandi til óskráðra reglna kröfuréttar og dómafordæma um endurgreiðslu ofgreidds fjár.  Varðandi dráttarvexti vísar stefnandi til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Krafa stefnanda um málskostnað er byggð á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda:

Stefndi styður kröfur sínar eftirfarandi rökum: 

Stefnandi, sem áður hét Tölvukaup hf., hafi ekki skilað virðisaukaskattskýrslu vegna uppgjörstímabilsins september og október 1995, en samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt hafi honum borið af sjálfsdáðum að gera skil á virðisaukaskatti ásamt útfylltri virðisaukaskattskýrslu, í síðasta lagi hinn 5. desember 1995.  Skatt­stjórinn í Reykjavík hafi því, hinn 4. janúar 1996, áætlað virðisaukaskattinn fyrir tímabilið, sbr. dskj. nr. 15.  Í kjölfar innsendrar virðisauka­skatts­skýrslu þann 16. ágúst 1996, vegna tímabilsins, sbr. dskj. nr. 5, hafi þeirri álagningu verið breytt og innsend virðisaukaskattskýrsla lögð til grundvallar álagningu vegna tímabilsins, sbr. dskj. nr. 16.

Stofnunartími skattkrafna ráðist af efnisreglum viðkomandi skattalaga.  Sam­kvæmt virðisaukaskattslögum sé á því byggt, að uppgjör skattskyldra atvika fari fram innan árs fyrir tiltekin tímabil í senn.  Útkoma úr því uppgjöri grundvalli stofnun skattkröfu.  Umbreyting skattskyldu í skattkröfu sé ávallt formbundinn gerningur.  Virðisaukaskatts­kröfur geti stofnazt á mismunandi lagagrundvelli.  Annars vegar samkvæmt eigin viður­kenningu gjaldanda í formi lögboðinnar skýrslugjafar, með eða án greiðslu, sbr. 2. mgr. 24. gr. laganna, en hins vegar á grundvelli álagningar skattstjóra við það, að álagningar­heimild hans að lögum verði virk, svo sem vegna vanskila á lögboðnum skýrslum, eða við skatteftirlit, sbr. 25. gr.

Samkvæmt 24. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, og reglugerð nr. 529/1989, sbr. reglugerð nr. 419/1990 um framtal og skil á virðisaukaskatti, sé hvert uppgjörstímabil 2 mánuðir, og tilheyri september og október sama uppgjörstímabili.  Skráningarskyldir aðilar skuli, eftir lok hvers uppgjörstímabils, greiða ótilkvaddir virðisaukaskatt þann, sem þeim beri að standa skil á samkvæmt lögunum.  Skuli skila virðisaukaskatti, ásamt virðisaukaskattskýrslu, eigi síðar en á fimmta degi annars almanaks­mánaðar eftir lok uppgjörstímabils vegna viðskipta á því tímabili.  Sam­kvæmt þessu ákvæði hafi stefnanda borið að skila, að eigin frumkvæði, eigi síðar en 5. desember 1995, virðisaukaskattskýrslu, ásamt virðisaukaskatti, vegna uppgjörstíma­bilsins september til október 1995.  Fyrst að liðnu því tímamarki hafi álagningarheimild skattstjóra vegna vanskila á skýrslu getað orðið virk að lögum, sbr. 25. gr. laganna.  Er stefnandi fékk heimild til að leita nauðasamninga hinn 4. desember 1995, hafi engin slík skýrsla legið fyrir af hans hendi fyrir það tímabil, og áætlunar- og álagningarheimild skatt­stjóra vegna þess tímabils hafi ekki verið orðin virk að lögum.  Samkvæmt því hafði ekki stofnazt formleg skattkrafa vegna uppgjörstímabilsins september til október 1995, er úrskurður gekk um heimild stefnanda til að leita nauðasamninga hinn 4. desember 1995.  Sú krafa hafi ekki stofnazt að lögum fyrr en hinn 4. janúar 1996, og hún hafi sótt laga­legan grundvöll sinn í álagningu skattstjóra, byggðri á áætlun samkvæmt 25. gr.

Samkvæmt framangreindu hafði virðisaukaskattskrafa sú, sem deilt sé um í máli þessu, ekki stofnazt að lögum, er stefnandi fékk heimild til að leita nauðasamninga.  Sú skattkrafa hafi ekki stofnazt fyrr en við álagningu skattstjóra á grundvelli áætlunar­heimildar hans hinn 4. janúar 1996, eða löngu eftir að úrskurður gekk um heimild stefnanda til að leita nauðasamninga, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 1993 bls. 85 og 1994 bls. 1300.  Þegar af þeirri ástæðu falli krafan utan við nauðasamninginn, sbr. 1. tl. 28. gr. laga um gjaldþrotaskipti ofl. nr. 21/1991, sem leiði til sýknu af endurgreiðslukröfu stefnanda.

Af dómi Hæstaréttar í máli ákæruvaldsins gegn framkvæmdastjóra Tölvukaupa ehf. vegna brota á 40. gr. laga nr. 50/1988 og 262. gr. alm. hegningarlaga verði ekki annað ráðið en það, að af hálfu ákæruvaldsins hafi verið á því byggt, að virðisaukaskatts­krafan hafi stofnazt þegar í lok uppgjörstímabilsins, en gjalddagi og eindagi verið 5. desember 1995.  Verði ekki annað ráðið, en að ákæruvaldið hafi á því byggt, að krafan hafi fallið undir nauðasamninginn, en í lokamálsgrein II. kafla dóms Hæstaréttar komi fram, að af hálfu ákæruvaldsins hafi því m.a. verið haldið fram, að honum hafi borið að leita heimildar umsjónarmanns til að greiða skattinn.  Sú afstaða ákæruvalds geti ekki á nokkurn hátt bundið stefnda í þessu máli.  Þá verði dómur Hæstaréttar í refsimálinu, eins og það hafi verið lagt fyrir, eigi talinn bindandi fyrir niðurstöðu máls þessa.

Dráttarvaxtakröfu stefnanda sé til vara mótmælt.  Fáist ekki séð, að lög standi til að miða við fyrri tíma en 21. júní 1999, eða að liðnum mánuði frá kröfu stefnanda um endurgreiðslu, sbr. dskj. nr. 10.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Í 1. mgr. 24. gr. l. nr. 50/1988 segir svo m.a.:  “Hvert uppgjörstímabil er tveir mánuðir, janúar og febrúar, marz og apríl, maí og júní, júlí og ágúst, september og október, nóvember og desember.  Skráningarskyldir aðilar skulu eftir lok hvers uppgjörstímabils greiða ótilkvaddir virðisaukaskatt þann sem þeim ber að standa skil á samkvæmt lögum þessum.”

Skattkrafa sú, sem hér um ræðir, var fyrir tímabilið september og október 1995.  Krafan var því fallin til þegar hinn 1. nóvember 1995, en eindagi hennar var 5. desember s.á., skv. 2. mgr. 24. gr. l. nr. 50/1988.

Álagning skattstjóra þann 4. janúar 1996 var vegna framangreinds tímabils.  Ekki er fallizt á, að um aðra skattkröfu sé að ræða, svo sem skilja má af málatilbúnaði stefnda, sbr. orðalag 25. gr. l. nr. 50/1988, sem áætlunarheimild skattstjóra byggir á, en þar segir:  “Áætlun skal vera svo rífleg að eigi sé hætt við að skattfjárhæð sé áætluð lægri en hún er í raun og veru.”  Stefnanda var því óheimilt að greiða kröfuna, eftir að útskurður um heimild til nauðasamningsumleitunar lá fyrir þann 4. desember 1995, sbr. 1. mgr. 19. gr. l. nr. 21/1991.

Ekki verður séð af málatilbúnaði stefnda, að ágreiningur sé um stefnufjárhæð, og er varakrafa hans um lækkun dómkröfunnar engum rökum studd.  Ber því að taka til greina kröfu stefnanda, eins og hún er fram sett, að öðru leyti en því, að fallizt er á málsástæður stefnda varðandi dráttarvaxtakröfu.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 400.000.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, íslenzka ríkið, greiði stefnanda, Deiglunni-Ámunni ehf., kr. 1.846.313 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 21. júní 1999 til greiðsludags og kr. 400.000 í málskostnað.