Print

Mál nr. 67/2006

Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Þjóðlenda
  • Afréttur
  • Hefð
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2006.

Nr. 67/2006.

Íslenska ríkið

(Skarphéðinn Þórisson hrl.                      

 Jón Sigurðsson hdl.)

gegn

Grímsnes- og

Grafningshreppi

(Óskar Sigurðsson hrl.

 Guðjón Ægir Sigurjónsson hdl.)

og gagnsök

 

Eignarréttur. Fasteign. Þjóðlenda. Afréttur. Hefð. Gjafsókn.

 

Með úrskurði 21. mars 2002, þar sem fjallað var um mörk þjóðlendna og eignarlanda í Grímsnesafrétti og jörðum umhverfis Lyngdalsheiði í Grímsnes- og Grafningshreppi, komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu að afréttarland sem Grímsneshreppur hafði fengið úr landi Þingvallakirkju með makaskiptasamningi 7 september 1896, væri þjóðlenda, en innan afréttar Grímsnes- og Grafningshrepps. G krafðist þess að úrskurður nefndarinnar um landsvæðið yrði felldur úr gildi og var sú krafa tekin til greina með héraðsdómi. Í dómi Hæstaréttar var talið að eldri heimildir en landamerkjabréf Þingvallakirkju frá 1. september 1886 skæru ekki úr um hvernig eignarrétti að landsvæðinu hefði verið varið. Gróðurfar á svæðinu var talið benda til þess að það hefði aðeins verið nýtt til sumarbeitar, auk þess sem ráða mætti af makaskiptasamningnum að það hefðu verið afréttarnotin sem Grímsneshreppur hefði sóst eftir. Vísað var til dóms Hæstaréttar frá 31. maí 1926 þar sem yfirlýsing Grímsneshrepps um að hann ætti aðeins upprekstrarrétt í Þingvallahreppi var lögð til grundvallar því að fyrrnefndur hreppur væri ekki útsvarsskyldur til síðarnefnds hrepps vegna landsvæðisins og bréfs hreppstjóra Grímsneshrepps frá 20. apríl 1920 um að hreppurinn hefði keypt til afréttarnotkunar hluta af Þingvallaafrétti sem tilheyrði Þingvallakirkju. Að öllu virtu var ekki talið að sýnt hefði verið fram á að umrætt landsvæði hefði nokkurn tíma verið háð beinum eignarrétti einstaklinga eða kirkjunnar. Þá yrði ekki ráðið af makaskiptasamningnum, fyrrgreindum dómi Hæstaréttar eða bréfi hreppstjórans að fyrirsvarmenn Grímsneshrepps hefðu talið að annað og meira en afréttarnot hefðu verið keypt með samningnum. G var heldur ekki talinn hafa sýnt fram á að skilyrðum eignarhefðar á landsvæðinu hefði verið fullnægt með þeim hefðbundnu afréttarnotum sem hann hefði haft af því. Var því talið að niðurstaða óbyggðanefndar um að landsvæðið væri þjóðlenda skyldi standa óbreytt og Í sýknað af kröfum G, að öðru leyti en því að staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að greiða bæri G útlagðan kostnað sem hann hafði ekki fengið greiddan vegna meðferðar málsins hjá óbyggðanefnd.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Hafstein fyrrverandi hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 12. desember 2005. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 25. janúar 2006 og áfrýjaði aðaláfrýjandi öðru sinni 3. febrúar 2006. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 14. mars 2006. Endanlegar kröfur hans eru að héraðsdómur verði staðfestur og honum greiddur málskostnaður fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Dómarar Hæstaréttar gengu á vettvang þriðjudaginn 19. september 2006 ásamt fulltrúum sveitarstjórnar gagnáfrýjanda og lögmönnum beggja aðila.

I.

Óbyggðanefnd, sem starfar samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, kvað upp úrskurð 21. mars 2002 í máli nr. 2/2000, Grímsnesafréttur og jarðir umhverfis Lyngdalsheiði í Grímsnes- og Grafningshreppi. Í úrskurðinum var meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að afréttarland, sem Grímsneshreppur hafði fengið úr landi Þingvallakirkju í makaskiptum fyrir jörðina Kaldárhöfða 7. september 1896, væri þjóðlenda í skilningi framangreindra laga, en innan afréttar Grímsnes- og Grafningshrepps. Gagnáfrýjendur vildu ekki una þessari niðurstöðu og báru úrskurðinn undir Héraðsdóm Suðurlands sem kvað upp dóm 13. október 2005 þar sem úrskurður óbyggðanefndar var felldur úr gildi að því er land þetta snertir. Hafa málsaðilar skotið þeirri úrlausn til Hæstaréttar. Makaskiptasamningurinn er tekinn upp í héraðsdóm í heild sinni og koma þar fram mörk þess landsvæðis sem um er deilt. Ekki er ágreiningur um þau mörk hér fyrir dómi heldur um það hvort gagnáfrýjandi njóti einkaeignarréttar að landsvæðinu eða einungis afréttarréttinda í þjóðlendu, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 58/1998.

II.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 58/1998 er það hlutverk óbyggðanefndar að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda. Jafnframt að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu, sem nýttur er sem afréttur, og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna. Í 8. gr. er svo fyrir mælt að nefndin skuli að eigin frumkvæði taka til meðferðar og úrskurða um þau málefni sem undir hana heyra. Samkvæmt þessu hefur nefndin bæði frumkvæðisskyldu og rannsóknarskyldu, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þau lög gilda einnig um starfsemi nefndarinnar. Ber að huga að því við úrlausn þessa máls að aðkoma nefndarinnar er að nokkru frábrugðin meðferð málsins fyrir dómi þar sem dómstólar eru hér sem endranær bundnir af þeim gögnum og röksemdum sem aðilar færa fram fyrir dóminum. Við úrlausn þjóðlendumála gildir einnig almennt að gæta ber samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 37/1993.

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi að lögum nr. 58/1998, var tekið fram að ekki verði að lögum settar sérstakar sönnunarreglur eða lagaskilyrði fyrir því að land teljist eignarland í merkingu laganna, heldur ráðist það af almennum sönnunarreglum og réttarheimildum sem færðar eru fram í einstöku tilviki. Gildir sú regla því sem endranær að sá sem telur til eignarréttinda yfir landi verður að færa fram heimildir fyrir eignartilkalli sínu sé það dregið í efa. Skipan mála var hins vegar breytt með lögum nr. 58/1998 að því leyti að eigandalaust land var með þeim fellt undir eignarráð aðaláfrýjanda, en talið hafði verið að land sem enginn gat sannað eignarrétt sinn á væri ekki undirorpið beinum eignarrétti. Hafði Hæstiréttur í dómi sínum 28. desember 1981 í málinu nr. 199/1978, sem birtur er í dómasafni fyrrnefnds árs á bls. 1584, í máli um Landmannaafrétt látið svo um mælt: „Handhafar ríkisvalds, sem til þess eru bærir, geta í skjóli valdheimilda sinna sett reglur um meðferð og nýtingu landsvæðis þess, sem hér er um að ræða, en líta ber þó til þess, að fyrirsvarsmenn ríkisins hafa viðurkennt „rétt byggðamanna til upprekstrar og annarra afréttarnota, sem lög og venjur eru fyrir.“ “ Landmannaafréttur var í málinu að öðru leyti talinn eigandalaust land.

Í dómi Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 3796 og varðar mörk þjóðlendu á Biskupstungnaafrétti gagnvart eignarjörðum, tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og því hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Var þar sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði, en þekkt væri að landamerkjabréf hafi ekki eingöngu verið gerð fyrir jarðir, heldur einnig til dæmis afrétti, sem ekki tengist sérstaklega tiltekinni jörð. Var þar sagt að landamerkjabréf fyrir jörð fæli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland væri að ræða þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Þá var talið að það yki almennt gildi landamerkjabréfa væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing heldur ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Ber við niðurstöðu máls þessa að hafa framangreint í huga.

III.

Landsvæði það sem um ræðir í máli þessu fékk Grímsneshreppur, svo sem að framan greinir, frá Þingvallakirkju með makaskiptasamningi 7. september 1896. Í héraðsdómi er greint frá tildrögum skiptanna og raktar helstu heimildir um lönd Þingvallakirkju. Glöggar heimildir skortir um nám á þessu landsvæði og í Vilkinsmáldaga, fyrstu skrá um eignir Þingvallakirkju frá 1397, er ekki greint frá landareignum utan eignarhlutar í Brúsastaðajörð. Það er fyrst í Gíslamáldögum frá 1575 að minnst er á land Þingvallakirkju. Þar er fyrst sagt að kirkjan eigi heimaland allt með gögnum og gæðum og síðan bætt við orðinu: Skjaldbreiður. Mörk heimalandsins og Skjaldbreiðs eru ekki nefnd. Þess er síðan getið í héraðsdómi að í vísitasíubókum biskupa næstu aldirnar sé vitnað til lands kirkjunnar með sama hætti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er skráð 1711 að kirkjustaðurinn á Þingvöllum hafi átt afrétt í Skjaldbreiðarhrauni, sem ekki hafi verið notaður í yfir 40 ár og láti presturinn nota Ármannsfell, Kvíindisfell og Gagnheiði fyrir afrétt. Aðrar jarðir í Þingvallahreppi eru einnig sagðar eiga afrétt í hrauninu og það ekki einungis hjáleigur Þingvalla heldur einnig sjálfstæðar jarðir, svo sem Kárastaðir, Brúsastaðir og Miðfell. Þá kemur einnig fram um jörðina Efsta-Dal í þáverandi Grímsneshreppi að Grímsnesingar allir hafi átt afrétt norður og vestur á fjöll kringum Skjaldbreið og þá hafi verið siður að reka þangað sem heitir Lambahraun. Virðast þessi afréttarnot Þingvellinga og Grímsnesinga hafa verið sameiginleg frá fornu fari þótt afrétturinn hafi ekki verið lengi notaður þegar jarðabókin er rituð vegna uppblásturs og snjóþyngsla langt fram á sumar, svo sem þar segir. Í engum þeim heimildum, sem hér hafa verið raktar, er getið landamerkja Þingvallajarðarinnar. Það mun fyrst hafa verið 1740 að marka sem varða umdeilt landsvæði er getið, en það ár lögfesti Markús Snæbjörnsson, prestur á Þingvöllum, og lét þinglesa landareign kirkjunnar innan ákveðinna marka. Fyrir því hafa hins vegar engar heimildir fundist að lögfestan hafi verið staðfest með dómi, sem þó var lögboðið á þessum tíma. Í lýsingu á merkjum þess lands sem lögfestan nær til segir meðal annars: „Á Mjóaness Sídu: i Saudanes fyrer sunnann Arnarfell, þadann beint uppi Prestsveginn og vestur epter sem hann heldur ad Hrafnagiá, sidann epter endelángri sömu Giá nordur ad Hrafnabjarga Vegi, Enn fyrer nordann vegenn strandlengis epter Fjöllum nordr ad Skialdbreid hvörja eg lögfesti alla itra;.“ Innan þeirra marka sem lögfestan náði til lögfesti Þingvallaprestur töðu, engjar, skóga, holt og haga, vötn og veiðistaði, eggver og allar landsnytjar sem að lögum teldust fylgja þessu landi. Verður ekki annað séð en að innan marka lögfestunnar sé einnig allt land hjálendnanna og auk þess jarðanna Kárastaða og Brúsastaða, sem þá kunna að hafa verið eign kirkjunnar, og ennfremur að minnsta kosti stór hluti afréttar sem jarðabókin taldi sameiginlegan Þingvalla- og Grímsneshreppum. Í héraðsdómi er rakið hvert hefur verið talið tilefni þessarar lögfestu. Þar er einnig getið sýslumarkalýsingar Þórðar Sveinbjörnssonar, sýslumanns í Árnessýslu, frá 1832, lýsingar Stefáns Pálssonar, hreppstjóra í Oddgeirshólum, á landamerkjum Þingvallakirkju og sýslumörkum frá sama ári, sóknarlýsingar séra Björns Pálssonar, prests á Þingvöllum, frá 1840 og þeirra marka sem finna má á Íslandskorti Björns Gunnlaugssonar frá 1844.

Í fyrrgreindri sóknarlýsingu séra Björns Pálssonar segir að fyrir norðan Súlur, Ármannsfell og Lágafell og suður af Skjaldbreið sé afréttur fyrir Þingvallasókn, sem tilheyri Þingvallaprestakalli og brúkist leigulaust. Fáeinir Grímsnesingar reki þangað. Einnig segir að yfir um mið Hrafnabjörg, Tindafjöll eða Tindaskaga og Skjaldbreið séu afréttarskil milli Laugardals og Þingvallahrepps. Á þessum tíma tilheyrði Laugardalur Grímsneshreppi. Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að séra Jón Bachmann geti þess hins vegar að á þessum sama tíma hafi fáeinir sóknarmenn í Klausturhóla- og Búrfellssóknum keypt upprekstur í Þingvallasveitarafrétti.

Í skrá frá 1. september 1886 yfir landamerki prestsetursins Þingvalla með hjáleigunum Arnarfelli, Skógarkoti, Hrauntúni og Svartagili, það er Þingvallakirkjulands, lýsir séra Jens Pálsson merkjum að austan og norðan meðal annars á þessa leið: „Eptir norðureggjum Hrafnabjarga, og úr Hrafnabjörgum yfir tvo hnúka beint á Tröllatind, úr Tröllatindi sjónhending í suðvesturhorn Tindaskaga, síðan eptir Tindaskaga endilöngum til norðausturenda hans, þaðan í austurrætur fjallsins Skjaldbreiðs, sem allt er eign Þingvallakirkju, og svo kringum það norður fyrir meðfram rótum þess, og úr norðurrótum þess eptir beinni stefnu á Leirárhöfða, þartil vötnum hallar að Borgarfirði, ...“ Landamerkjabréfið var þinglesið 7. júní 1890 og innfært í landamerkjabók sýslunnar. Ljóst má vera að landamerkjalýsing þessi er gerð vegna setningar landamerkjalaga nr. 5/1882. Skylda þeirra laga náði til þess að halda við glöggum merkjum jarða og gilti sama regla um afrétti og aðrar óbyggðar lendur eftir því sem við varð komið. Nú gilda um þetta efni lög nr. 41/1919 um landamerki o.fl. Frá upphafi Íslandsbyggðar helguðu menn sér ekki eingöngu ákveðin landsvæði, sem voru háð beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði gaf eitthvað af sér lágu hagsmunir til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau voru.

IV.

Að framan er því lýst að í dómi Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004 var tekin almenn afstaða til mats á gildi landamerkjabréfa og því hvert væri inntak eignarréttar á svæði sem í þeim væri lýst. Var þar sagt að landamerkjabréf fyrir jörð fæli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland væri að ræða en merkjabréf annars landsvæðis, þótt meta yrði gildi hvers bréfs sérstaklega. Einnig kom þar fram að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt. Verður samkvæmt þessu að kanna sérstaklega landamerkjabréf Þingvallakirkju meðal annars með tilliti til eldri heimilda. Landamerkjabréfið er áritað um samþykki fyrirsvarsmanna allra aðliggjandi jarða nema afréttar Lundareykjadalshrepps og Grímsnesafréttar. Þá hefur enginn ritað samþykki sitt vegna marka landsins að norðan, enda engum til að dreifa til þess fyrr en með lögum nr. 58/1998. Þegar eldri heimildir eru metnar er það að athuga að þær eru að mestu einhliða lýsingar þeirra, sem fóru með kirkjujörðina, eða eftir þeim hafðar án þess að vera staðfestar af öðrum, sem til réttinda gátu talið. Hafa vísitasíur og lögfestur ekki einar sér verið taldar fullnægjandi gögn fyrir beinum eignarrétti. Að framan er þess getið að í Gíslamáldögum 1575 er fyrst lýst eign kirkjunnar að heimalandi en síðan vitnað sérstaklega til fjallsins Skjaldbreiðs. Engin merki koma fram í þessum máldaga og er landi kirkjunnar lýst með líkum hætti í þeim vísitasíum sem á eftir fóru. Það er fyrst með lögfestu séra Markúsar Snæbjörnssonar 1740, sem mörkum er lýst, en þá með þeim hætti að ekki verður betur séð að innan þeirra marka séu talin lönd sem Þingvellingar og Grímsnesingar höfðu einnig afréttarnot af, eftir því sem um getur í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Í sóknarlýsingu séra Björns Pálssonar á Þingvöllum 1840 er hluti þess lands, sem afmarkað er í lögfestu séra Markúsar og síðar landamerkjabréfinu, að vísu talið tilheyra Þingvallaprestakalli en talið afréttur fyrir Þingvallasókn sem brúkist leigulaust. Jafnframt er þar sagt að þangað sé rekið fé úr Grímsnesi. Verður ekki talið að þessar heimildir skeri úr um það hvernig eignarrétti að landsvæðinu var varið. Hjáleigur kirkjunnar eru allar sunnan og vestan þessa svæðis og engar heimildir aðrar en munnmælasögur fyrir því að það hafi nokkurn tíma verið nýtt til annars en sumarbeitar. Gróðurfar landsvæðisins bendir jafnframt til sömu niðurstöðu. Landamerki Gjábakka, næstu jarðar að sunnan, liggja norður að svæðinu en afréttur að öðrum hliðum þess. Hefur óbyggðanefnd talið rannsóknir sínar leiða til þess að það land sé þjóðlenda í afréttarnotum en Gjábakkaland heimaland háð beinum eignarrétti.

V.

Gagnáfrýjandi reisir beinan eignarrétt sinn á fyrrnefndum makaskiptasamningi á „afréttarlandi“ Þingvallakirkju og jörðinni Kaldárhöfða. Í makaskiptasamningnum er mörkum afréttarlandsins lýst og síðan segir: „Allt það afrjettarland Þingvallakirkju, þar með talið fjallið Skjaldbreiður, sem liggur fyrir austan nefnda markalínu er því upp frá þessu rjett eign Grímsneshrepps og honum heimil til allra löglegra afnota, með þeim skilyrðum og takmörkunum, sem nú skal greina.“ Síðan eru þessar takmarkanir og skilyrði rakin í sex liðum og verður ekki betur séð en að þau varði öll afnot Grímsnesinga og nágranna þeirra á landsvæðinu til sumarbeitar. Þá má ráða af samningnum sjálfum að það hafi verið afréttarnotin sem sóst var eftir. Í héraðsdómi er rakinn aðdragandi þessara makaskipta og samþykki stjórnvalda í Kaupmannahöfn fyrir þeim en þar er vitnað til landsins sem sumarbeitilands. Ráða má af þessum gögnum að Grímsnesingar hafa áður greitt Þingvallapresti fyrir afréttarnot af þessu landsvæði og ekki verið sáttir við það. Rök Þingvallaprests fyrir makaskiptunum voru meðal annars þau að fá mætti leigu fyrir jörðina Kaldárhöfða og verður það ekki skilið öðruvísi en svo að kirkjan tapi ekki tekjum við þetta ráðslag. Jörðin Kaldárhöfði var afhent án veiðiréttinda og land jarðarinnar var til muna minna að víðáttu en það afréttarland sem prestur afhenti. Í dómi Hæstaréttar 31. maí 1926 í máli nr. 19/1926, sem birtur er í dómasafni þess árs á blaðsíðu 341, var komist að þeirri niðurstöðu að Grímsneshreppur væri ekki útsvarsskyldur til Þingvallahrepps vegna makaskiptalandsins. Var í málinu lögð til grundvallar yfirlýsing fyrrnefnds hrepps um að hann ætti aðeins upprekstrarrétt í hinum síðarnefnda hreppi. Nokkrum árum fyrr, 20. apríl 1920, kom fram í svarbréfi hreppstjóra Grímsneshrepps til sýslumannsins í Árnessýslu um vatnsorku og afréttarlönd í hreppnum að hreppurinn hefði keypt „til afréttarnotkunar ... í sameign við Laugardalshrepp stykki af Þingvallaafrétti, tilheyrandi Þingvallakirkju. “

Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið um Þingvallakirkjuland, og sérstaklega makaskiptalandið og nýtingu þess, er ekki fram komið að land það sem kirkjan afhenti Grímsneshreppi við makaskiptin 1896 hafi nokkurn tíma verið undirorpið beinum eignarrétti einstaklinga, kirkjunnar. Af makaskiptasamningnum sjálfum, framangreindum dómi Hæstaréttar 31. maí 1926 og bréfi hreppstjóra Grímsneshrepps 20. apríl 1920 verður heldur ekki ráðið að fyrirsvarsmenn hreppsins hafi talið að annað og meira en afréttarnot hafi verið keypt 1896. Ekki er um það deilt í máli þessu að hreppurinn nýtur þeirra að fullu. Þá hefur gagnáfrýjandi ekki sýnt fram á að skilyrðum eignarhefðar á landsvæðinu hafi verið fullnægt, en þau hefðbundnu afréttarnot sem hann hefur haft með höndum geta ekki stofnað til beins eignarréttar yfir því. Niðurstaða óbyggðanefndar skal því standa óbreytt og verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda að öðru leyti en því að staðfest er niðurstaða héraðsdóms um að aðaláfrýjandi skuli greiða gagnáfrýjanda útlagðan kostnað, sem hann hefur ekki fengið greiddan vegna meðferðar málsins hjá óbyggðanefnd, að fjárhæð 46.681 króna.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.

                                                              Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Grímsnes- og Grafningshrepps, að öðru leyti en því að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 46.681 krónu.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, 500.000 krónur.

                                                                                                                 

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. október 2005.

Mál þetta var tekið til dóms 15. september 2005.

Stefnandi er Grímsnes- og Grafningshreppur.

Stefndi er fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins.

Kröfur stefnanda eru:

a)        a)       Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 2/2000: Grímsnesafréttur og jarðir umhverfis Lyngdalsheiði í Grímsnes- og Grafningshreppi, dagsettur 21. mars 2002, að því leyti sem úrskurðurinn tekur til lands, sem Grímsneshreppur fékk í makaskiptum við Þingvallakirkju 7. september 1896.

b)       b)      Að viðurkenndur verði einkaeignarréttur stefnanda að umræddu landsvæði, eins og það er afmarkað hér á eftir:

„Frá Gjábakkalandi á Hlíðarstíg, eftir Hlíðargjá inn á enda hennar fyrir innan Prestastíg, þaðan beina stefnu í hæsta hnúkinn á Gatfelli, og þaðan beina stefnu í vesturhornið á Hrúðurkörlum. Frá Hlíðarstíg beina stefnu yfir þúfuhól í Hrafnabjörg. Síðan liggja mörkin strandlengis með fjallabrúnum allt til norðausturenda Tindaskaga svo sem hér segir: eftir norðureggjum Hrafnabjarga, og úr Hrafnabjörgum yfir tvo hnúka beint á Tröllatind, úr Tröllatind sjónhending í suðvesturhorn Tindaskaga, síðan eftir Tindaskaga endilöngum til norðausturenda hans, þaðan í austurrætur fjallsins Skjaldbreiðs og svo kringum það norður fyrir meðfram rótum þess, og úr norðurrótum þess eftir beinni stefnu á Leirárhöfða, þar til kemur að skurðarpunkti við framangreinda stefnulínu úr Gatfelli í vesturhornið á Hrúðurkörlum.“

c)        c)       Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 548.680 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 16. nóvember 2002 til greiðsludags.

d)       d)      Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi og tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati réttarins.

Mál þetta er höfðað vegna úrskurðar óbyggðanefndar í máli nr. 2/2000, sem kveðinn var upp 21. mars 2002 og birtur í Lögbirtingablaði 26. apríl 2002. Stefna var útgefin 9. október 2002 og móttekin af stefnda 14. og þingfest 16. sama mánaðar. Hefur skilyrðum 19. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta um frest til málshöfðunar verið fullnægt. Gagnaöflun var endanlega lokið 8. september sl. og var gengið á vettvang sama dag.

Málið hefur verið alllengi hjá dómstólnum, þar sem í tvígang var skipt um dómara, og auk þess var það látið bíða úrlausnar annarra mála í héraði og Hæstarétti ef fordæmi kynnu að skapast sem leitt gætu til sátta í málinu, en svo varð ekki nema að litlu leyti.

Málsatvik

Ágreiningur er um eignarhald á landi sem afmarkast af þeim kennileitum sem lýst er í b lið stefnukröfu og merkt er á uppdráttum sem eru á meðal dómskjala. Stefnandi heldur því fram að land þetta lúti einkaeignarrétti, en stefndi að um sé að ræða þjóðlendu, sbr. framangreindan úrskurð óbyggðanefndar. Verða rök þeirra rakin síðar. 

Hinn 7. september 1896 var gerður makaskiptasamningur á milli Þingvallakirkju og Grímsneshrepps. Óumdeilt er að með þessum samningi kom land það sem deilt er um í þessu máli í hlut hreppsins, en Þingvallakirkja fékk í skiptum eignarjörðina Kaldárhöfða í Grímsnesi. Samningurinn var samþykktur af Stiftsyfirvöldum Íslands 6. apríl 1897 og ritaður í afsals- og veðmálabók Árnessýslu 16. júní 1897. Makaskiptasamningur þessi er svohljóðandi:

„Að undangengnum löglegum undirbúningi og að fengnu samþykki hlutaðeigandi stjórnarvalda gjörum við undirskrifaðir svo látandi makaskifti milli Þingvallakirkju annarsvegar og Grímsneshrepps hinsvegar.

- Jeg Jón Thorstensen prestur á Þingvöllum afhendi Grímsneshreppi til lögfullrar eignar, afnota og umráða afrjettarland það allt, tilheyrandi Þingvallakirkju, sem liggur fyrir austan þessa línu: Frá Gjábakkalandi á Hlíðarstíg, eftir Hlíðargjá inn á enda hennar fyrir innan Prestastíg, þaðan beina stefnu í hæsta hnúkinn á Gatfelli og þaðan beina stefnu í vesturhornið á Hrúðurkörlum. Allt það afrjettarland Þingvallakirkju, þar með talið fjallið Skjaldbreiður, sem liggur fyrir austan nefnda markalínu er því upp frá þessu rjett eign Grímsneshrepps og honum heimil til allra löglegra afnota, með skilyrðum þeim og takmörkunum, sem nú skal greina.

1.        1.      Grímsnesingar smala landið, sem annan afrjett sinn til allra rjetta.

2.        2.      Að vorinu mega Grímsnesingar enga kind reka í landið fyrir 15. dag júnímánaðar og engan rekstur mega þeir skilja eftir fyrir framan beina línu úr hæsta hnúki á Gatfelli um suðurenda Söðulhóla og austur að Tindaskaga. Sje sannað brot móti þessu, sæta hlutaðeigendur sektum, 10 kr. fyrir hvern rekstur hvort sem hann er stór eða lítill, og fellur sektin til Þingvallahrepps. Hross má engin reka á þennan afrjett.

3.        3.      Grímsnesingar flytja aðalrjettir sínar upp á Laugarvatnsvöllu, þar sem þær hafa verið að fornu. Hreppsnefndir Þingvalla- og Grímsneshreppa koma sjer saman um hvernig afrjettarsmölun fer fram og skulu leitir jafnan vera samhliða.

4.        4.      Refaveiðar í afrjettarlandi þessu kostar Grímsneshreppur. Hreppsnefnd Grímsneshrepps getur með samkomulagi falið hreppsnefnd Þingvallahrepps framkvæmd refaveiðanna; en hafi hreppsnefnd Grímsneshrepps þá framkvæmd á hendi, lítur hreppsnefnd Þingvallahrepps eftir að verkið sje trúlega unnið. Sje verkið illa af hendi leyst, er hreppsnefnd Þingvallahrepps heimilt að ráðstafa umbótum á því á kostnað Grímsneshrepps. Hausteitrun kosta Grímsnesingar þó ekki að öðru en því, að leggja eina kind til eitrunar og kosta eitrun hennar. Alla aðra eitrun taka Þingvallasveitarmenn að sjer endurgjaldslaust.

5.        5.      Ábúendur á jörðunum Gjábakka, Skógarkoti og Hrauntúni hafa rjett til að reka fjallfje upp í eitt eða fleiri skifti hvert sumar, og greiðir Grímsneshreppur þann kostnað með 20 kr. árlega. Upp í þetta gjald kemur þó sektarfje, sem til kann að falla (sbr. 2. gr.).

6.        6.      Grímsnesingar hirða fje sitt í Þingvallarjettum eins og verið hefur og senda þangað í því skyni 6 menn í fyrstu rjett á hausti hverju.

- Jeg Stefán Stephensen prestur að Mosfelli og oddviti í Grímsneshreppi afhendi aftur á móti Þingvallapresti og kirkju hreppseignina allan Kaldárhöfða í Grímsnesi innan Árnessýslu 11.1 hndr. að dýrleika eftir nýju mati með 2 kúgildum og öllu, sem henni ber að fylgja til fullrar eignar, umráða og afnota

- Þar eð makaskifti þessi eru að sljettu og eigi bundin öðrum skilmálum eða skilyrðum en þeim, sem fram eru tekin hjer að framan, lýsum við hjermeð yfir, að áðurnefnt afrjettarland er upp frá þessu lögleg eign Grímsneshrepps og jörðin Kaldárhöfði einnig upp frá þessu lögleg eign Þingvallakirkju.“

Á makaskiptaskjalið er skráð að jörðin Kaldárhöfði sé virt á 1500 krónur. Í úrskurði óbyggðanefndar segir að rétt sé að benda á „að í makaskiptasamningnum var austurhluti Skjaldbreiðar lagður að jöfnu við fremur rýra jörð. Kaldárhöfði var talinn 11,1 hundrað að dýrleika samkvæmt nýju jarðamati um miðja 19. öld, og í lok aldarinnar höfðu mikilvægustu hlunnindi jarðarinnar, veiðirétturinn, verið seld undan henni.“ Ennfremur er þess getið að 4. júlí 1924 hafi samningurinn verið þinglesinn að nýju og þá með eftirfarandi viðbót sem oddviti Grímsneshrepps, Magnús Jónsson, hafi undirritað 2. febrúar sama ár: „Söluverð án veiðirjettar kr. 1000,00 - eitt þúsund krónur“ og sé hér átt við söluverð Kaldárhöfða.

Í bréfa- og bréfadagbók Grímsneshrepps 1891-1909 er bókað: „Hreppurinn hefur nýlega makaskipt eign sinni jörðinni Kaldárhöfða til (svo) afrjettarland tilheyrandi Þingvallakirkju, sem er hreppnum mjög þörf eign, þó ekki geti verið að ræða um beinar tekjur af landinu og álítur nefndin það gott 1000 kr. virði.“

     Forsaga þessara viðskipta er sú að Grímsnesingar nýttu umdeilt land að einhverju leyti til sumarbeitar og eru heimildir fyrir því að þeir hafi falast eftir að taka svæðið á leigu af Þingvallapresti, en ekki náðst um það samningar. Hinn 10. maí árið 1895 er ákveðið á fundi hreppsnefndar Grímsneshrepps að skora á prestinn og hreppsnefnd Þingvallasveitar að boða til fundar til að ræða og útkljá friðsamlega mál „viðvíkjandi leigu á afrjettarlandi Þingvallakirkju“. Hinn 4. júní 1895 var á fundi, sem haldinn var á Gjábakka í Þingvallasveit, ákveðið „að selja Grímsnessveit til eignar og afnota tiltekið stykki af afrjettarlandi Þingvallakirkju í makaskiptum fyrir jörðina Kaldárhöfða“ og myndi þá árlegt afnotagjald af jörðinni, 60 krónur, falla til prestakallsins. Kemur þetta fram í bréfi Þingvallaprests til konungs frá 6. september 1895, og segir þar ennfremur: „Með því að þannig hagar til, að Þingvallakirkja hefur nægilegt afrjettarland eftir sem áður, en Grímsnessveit lítið, og löndin liggja saman, svo að ágangur af fje Grímsnesinga er óumflýjanlegur, leyfi jeg mjer allra þegnsamlegast að beiðast þess, að þessi gjörningur mætti fá staðfestingu.“ Er þetta erindi Þingvallaprests í samræmi við konungsbréf um sölu kirkjueigna frá 30. júní 1786, en þar var kirkjueigendum bannað að rýra eignir þeirra á nokkurn hátt. Í úrskurði óbyggðanefndar kemur fram að presturinn ritaði einnig stiftsyfirvöldum vegna málsins, en þar var málinu vísað til landshöfðingja.

     Salan var heimiluð í ársbyrjun 1896 með þeim skilmálum sem greinir í makaskiptasamningnum. Bréf stjórnvalda, sem er birt í úrskurði óbyggðanefndar, hljóðar svo:

„Daa Ministeriet for Islands efter Modtagelsen af Hr. Landshövdingens behagelige Skrivelse af 11 oktober f.A. derom nedlagte allerunderdanigste Forestilling har det under 14 d.M. behaget Hans Majestæt Kongen allernaadigst at meddele allerhöjeste Tilladelse til at det i bemeldte Skrivelse omhandlede af Thingvellir Kirkes Sommergræsgang maa bortmageskiftes med Jorden Kaldarhöfdi i Arnes Rep, saaledes at nævnte Stykke i Henseende til Afgifterpligt for Fremtiden betragtes som Bondejord, medens den for Kirken erhvervede Jord stilles lige med anden Kirkejord.“

     Svo sem að framan greinir er ekki deilt um hvernig land það sem Þingvallakirkja afsalaði afmarkast, en deilt er um hvort það var eignarland eða hvort einungis voru seld afréttarnot. Er saga eigna og landamerkja Þingvallakirkju ítarlega rakin í úrskurði óbyggðanefndar sem og í málsreifun aðila.  Helstu atriðin verða nú rakin hér.

     Ekki eru glöggar heimildir um nám landsins í upphafi. Heimildir munu vera um prestskylda kirkju á Þingvöllum um 1200. Er greint frá því að „Þingvallakirkja hafði þá sérstöðu að hún þjónaði þinghaldi landsmanna og hefur því trúlega notið góðs af því fé sem lagt var til alþingisneyslu og greint er frá í Íslendingabók Ara fróða“. Um eignir kirkna, fastar og lausar, voru áður gerðar skrár sem nefndar voru máldagar. Elsta skrá um eignir Þingvallakirkju er í Vilchinsmáldaga frá 1397. Þar er talið lausafé hennar en ekki greint frá landareignum, utan eignarhlut í jörðinni Brúsastöðum. Í Gíslamáldaga frá 1575, sem kenndur er við Gísla Jónsson biskup í Skálholti, er í fyrsta sinn minnst á heimaland Þingvallakirku og aðrar eignir taldar upp. Þar segir:

„Kirkian ä Thijingvelle. ä heimaland alltt með gøgnum og giædum.

Skialldbreid.“

Óbyggðanefnd tekur fram að í handritinu LBS. 350, 4to, sem lagt er til grundvallar við útgáfu Íslensks fornbréfasafns sé orðið „Skjalldbreid“ ekki í stakri línu. Einnig er tilgreind önnur afskrift Gíslamáldaga AM 261, fol. frá 1642 sem sögð er samhljóða hinni fyrri, og loks afskrift frá 1850 þar sem Skjaldbreiðar er ekki getið. Ályktar óbyggðanefnd að þar sé annað hvort um mistök að ræða eða „að ekki hafi verið talin ástæða til að nefna Skjaldbreið þegar hér var komið sögu því að nytjar af fjallinu höfðu þá að mestu lagst af“. Þess er einnig getið að lýsing Þingvallakirkju í vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 25. apríl 1644 sé nær samhljóða Gíslamáldaga. Tveimur áratugum síðar hafi sami máldagi verið færður inn í vísitasíubók Þórðar biskups Þorlákssonar og 1726 í vísitasíubók Jóns biskups Árnasonar með þeim breytingum í hvort skipti að fleiri jarðir hafi verið eignaðar Þingvallakirkju og leigugjöld verið önnur.

     Árið 1740 lögfesti Markús Snæbjörnsson, prestur á Þingvöllum, og lét þinglesa landareign kirkjunnar. Lýsir hann merkjum þess lands sem lögfestan nær til og segir þar m.a.: „Enn fyrer nordann vegenn strandlengis efter Fjöllum nordr ad Skialdbreid hvörja eg lögfesti alla itra,“ bannaði hann hvers konar nytjar lands eða landgæða án síns leyfis. Tilefni þessa var álitsgerð amtmanns frá 1736 þar sem áréttuð eru „þau ævafornu réttindi þingmanna að nýta sér almenninginn á svæðinu til skógartekju og beitar jafnframt því sem þeim væri heimilt að reisa þar búðir.“ Ekki eru heimildir um deilur vegna þessa.

     Þá eru raktar lýsingar Þórðar Sveinssonar sýslumanns í Árnessýslu frá árinu 1832 á mörkum milli Árnessýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem kveðst hafa stuðst að hluta við lögfestu Þingvallaprests og haft hliðsjón af gögnum frá Stefáni Pálssyni, hreppstjóra í Oddgeirshólum, sem hafði um svipað leyti tekið saman landamerkjaskrá Þingvalla, en dregið landamerkjalínuna nokkru vestar en Þórður. Árið 1840 skrifaði Björn Pálsson, Þingvallaprestur, lýsingu á takmörkum þeirra sókna sem hann þjónaði. Hann var bróðir nefnds Stefáns og virðist hafa fylgt lýsingu hans en þó bætt aðeins um betur. Árið 1844 kom út Íslandskort Björns Gunnlaugssonar. Eru vesturmörk Árnessýslu sýnd þar mun austar en þeir Þórður, Stefán og Björn höfðu gert ráð fyrir.

Árið 1882 voru sett lög um landamerki jarða og í samræmi við þau var landamerkjabréf Þingvalla undirritað 1. september 1886 og þinglesið 7. júní 1890. „Með landamerkjabréfinu var presturinn á Þingvöllum, séra Jens Pálsson, í reynd að falla frá tilkalli kirkjunnar til þess lands á mörkum Borgarfjarðarsýslu sem þeir bræður, Stefán og Björn Pálssynir, höfðu áður eignað henni. Sagnir eru um að þessi tilfærsla landamerkjanna hafi stafað af ágreiningi um greiðslu á refaveiðikostnaði“. Ekki þykir ástæða til að rekja þessar lýsingar þar sem merki eru hér óumdeild, þó má nefna að í lýsingu Jens Pálssonar, segir: „ … síðan eptir Tindaskaga endilöngum til norðausturenda hans, þaðan í austurrætur fjallsins Skjaldbreiðs, sem allt er eign Þingvallakirkju.“ Þá er í lýsingu hans sérstakur kafli um ítök jarðarinnar; rétt til beitar, veiði og slægna. Lýsing séra Jens er „nokkurn vegin í samræmi við lögfestu séra Markúsar Snæbjörnssonar frá 1740“.

Málsástæður stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína um ógildingu úrskurðar óbyggðanefndar á því að í hann skorti fullnægjandi rökstuðning fyrir niðurstöðu nefndarinnar varðandi umrætt landsvæði. Þá byggir stefnandi á því að úrskurðurinn sé efnislega rangur. Stefnandi gerir auk þess kröfu um greiðslu 548.680 króna, sem séu eftirstöðvar útlagðs kostnaðar vegna málsmeðferðar fyrir óbyggðanefnd. Verða málsástæður stefnanda nú raktar.

Stefnandi telur að í úrskurð óbyggðanefndar skorti fullnægjandi rökstuðning fyrir niðurstöðu hennar og úrskurðurinn fari því gegn 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 16. gr. laga nr. 58/1998. Nefnir hann þar einkum að af hálfu óbyggðanefndar sé ekki tekið til skoðunar hvort stefnandi hafi unnið eignarhefð á landinu, og hafi hún ekki tekið afstöðu til röksemda stefnanda fyrir því að svo væri. Landamerkjabréf Þingvallakirkjulands og makaskiptasamningurinn frá 1896 séu eldri en nemur lögbundnum hefðartíma, í þessu tilviki 20 ára óslitið eignarhald á landi. Hafi því verið fullt tilefni fyrir óbyggðanefnd að taka afstöðu til þessa atriðis. Almenn umfjöllun um hefð í úrskurðinum nægi ekki.

Þá hafi óbyggðanefnd ekki, við mat á inntaki eignarráða stefnanda, fjallað um þýðingu þess að hjáleigur hafi verið stofnaðar í landi Þingvallajarðarinnar. Auk þess hefði óbyggðanefnd þurft að rökstyðja hvers vegna hún telji unnt að leggja markalínu makaskiptasamningsins fortakslaust til grundvallar við afmörkun á þjóðlendu í landi Þingvalla. Þetta sé mikilvægt þar sem land Þingvallajarðarinnar hafi aldrei verið aðgreint í heimaland og afréttarland samkvæmt öðrum heimildum.

Stefnandi byggir á því að úrskurður óbyggðanefndar sé efnislega rangur hvað varðar umrætt landsvæði.

Þessu til stuðnings bendir stefnandi í fyrsta lagi á, að með makaskiptasamningi 7. september 1896 milli Þingvallakirkju og Grímsneshrepps hafi hreppurinn fengið allan austurhluta Þingvallalands, þ.e. Skjaldbreið og landsvæði vestur og suðvestur af henni en látið á móti eignarjörð sína Kaldárhöfða. Eins og rakið sé í úrskurði óbyggðanefndar komi ekki fram í Landnámu hver hafi numið landið norðan og austan við Þingvallavatn en í Íslendingabók skýri Ari fróði frá Þóri kroppinskegg, sem átt hafi land í Bláskógum, sem lagt hafi verið til neyslu Alþingis. Fræðimenn hafi greint á um hvar umrætt land sé og hvaða þýðingu það hafi að Íslendingabók greini að landið hafi verið lagt til Alþingis neyslu.

Björn Þorsteinsson telji í riti sínu Þingvellir, að Þórir kroppinskeggur hafi átt það land, sem lá undir jörðina Þingvelli og hjáleigur hennar. Einnig telji Björn að landamerki Þingvalla, eins og þeim sé lýst í landamerkjaskránni frá 1896, hafi að mestu leyti verið þau sömu og í upphafi. Greind ummæli Íslendingabókar telji Björn að feli í sér að ábúandi hafi þurft að þola tilteknar kvaðir og Alþingishald bótalaust en jörðin Þingvellir hafi að öðru leyti verið venjuleg eignarjörð.

Vitað sé að um 1200 hafi verið prestsskyld kirkja á Þingvöllum og þá sé vitað með vissu að Brandur Þórsson hafi búið á Þingvöllum um 1200 og heimildir geti einnig um að á seinni hluta 12. aldar hafi búið þar Guðmundur Ámundason gríss.

Í Vilchinsmáldaga frá 1397 sé ekki minnst á land jarðarinnar, hins vegar sé ljóst samkvæmt Gíslamáldaga frá 1575 að jörðin hafi verið komin í eigu kirkjunnar á ofanverðri 16. öld, þar segi orðrétt:

"Kirkian a Thijingvelle. a heimaland alltt med gögnum og giædum. Skjalldbreid."

Í Vísitasíubók Jóns biskups Árnasonar frá 1726 sé að finna sömu tilgreiningu auk þess sem þar sé getið jarðanna Vatnskots, Skógarkots og Svartagils, sem sagðar eru byggðar í heimalandi jarðarinnar.

Í lögfestu Markúsar Snæbjörnssonar frá 1740 sé lýst landamerkjum jarðarinnar og sé þar að finna fyrstu lýsinguna á landamerkjum Þingvalla. Lögfestan sé í samræmi við landamerkjaskrána frá 1886 og allt land innan merkja lýst eignarland kirkjunnar. Hér veki það athygli að ekki sé greint á milli heimalands og afréttarlands auk þess sem landamerkin, sem byggt er á, séu mjög skýr.

Í landamerkjaskrá prestssetursins Þingvalla frá 1. september 1886 sé land jarðarinnar án nokkurrar aðgreiningar í heimaland og afréttarland en hjáleigurnar Arnarfell, Skógarkot, Hrauntún og Svartagil, séu taldar liggja innan marka jarðarinnar. Landamerkjabréfið hafi verið þinglesið 7. júní 1890 og innfært í landamerkjabók sýslumanns. Lýsing á merkjum Þingvallatorfunnar sé í góðu samræmi við eldri heimildir um landamerki hennar, sbr. lýsingu í lögfestunni frá 1740 varðandi umrætt svæði.

Í fyrrgreindum heimildum hafi því verið gerð grein fyrir hjáleigum í landi Þingvalla. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og sóknarlýsingu Björns Pálssonar fyrir Þingvallasókn frá 1840 sé að auki getið töluverðs fjölda hjáleigna og eyðibýla, sem eigi að hafa legið í landi Þingvalla og þar á meðal á því svæði, sem krafa stefnanda taki til.

Í kjölfar þess að landamerkjalögin tóku gildi 1882 hafi verið gert landamerkjabréf fyrir Þingvallakirkjuland.

Loks geti heimildir einnig um að bændur í Þingvallasveit og í Grímsneshreppi hafi rekið fé til beitar á landsvæði, sem talist hafi til Þingvallalands, sbr. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og sóknarlýsingu Þingvallasóknar.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að heimildir varðandi land Þingvallajarðarinnar bendi til þess að eignarhald á landi Þingvalla hafi verið í höndum ákveðins eiganda á hverjum tíma og að allt land Þingvalla hafi legið innan marka eiginlegs heimalands. Ekkert liggi fyrir um að einhver hluti lands Þingvalla hafi orðið almenningur fyrir eða á stofnunartíma Alþingis á 10. öld.

Enginn hluti Þingvallalands, t.d. Skjaldbreiður, sé tilgreindur sem afréttur í máldögum eða Vísitasíubókum. Hefði verið ástæða til að nefna Skjaldbreiði afrétt ef nytjar landsins hefðu einungis verið með þeim hætti. Ekki sé unnt að draga þá ályktun af tilgreiningu Skjaldbreiðar í Gíslamáldaga 1575 að svæðið hafi ekki tilheyrt kirkjunni áður eða um afrétt hafi verið að ræða. Orðalag máldagans hafi einnig verið fyllilega eðlilegt og árétting á fullkomnu eignarhaldi kirkjunnar og breyti engu um grunneignarrétt þess. Þær heimildir, sem óbyggðanefnd vísi til varðandi nýtingu lands Þingvalla til afréttarnota sé ekki unnt að túlka með þeim hætti, sem nefndin geri. Mörg dæmi séu um það að lönd einstakra jarða hafi verið nýtt til sameiginlegra beitarafnota án þess að þau teldust afréttur af þeim sökum.

Í forsendum úrskurðar óbyggðanefndar sé ekkert fjallað um hinar ýmsu hjáleigur, sem heimildir geti um í Þingvallalandi, og þýðingu stofnunar þeirra við mat á inntaki eignarráða stefnanda, þótt ástæða hefði verið til. Hjáleiga hafi verið lýsing á sérstökum leiguréttindum og hafi hjáleigur verið leigulönd, sem leigð hafi verið út frá aðaljörðinni. Hjáleigur hafi ekki verið stofnaðar í afréttarlandi heldur hafi þær átt óskipt beitiland með aðaljörðinni. Hjáleiguformið hafi síðan horfið um og upp úr aldamótum 1900 með sölu þjóðjarða og kirkjujarða til ábúenda. Hér liggi hins vegar fyrir að landi Þingvallajarðarinnar hafi verið lýst sameiginlega ásamt hjáleigum, án aðgreiningar í heimaland og afréttarland, en algengt sé að til séu sameiginleg landamerki fyrir svonefndar torfur, þ.e. sameiginleg ytri landamerki. Sú staðreynd að hjáleigur hafi verið byggðar út úr landi Þingvallajarðarinnar og þær ekki stofnaðar í afréttarlandi bendi til þess að allt land Þingvalla hafi legið innan eiginlegs heimalands.

Í þeim heimildum, sem getið hafi verið um, sé gerð grein fyrir hjáleigum í landi Þingvalla, eins og t.d. Vatnskoti, Hrauntúni, Skógarkoti og Svartagili. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, sem samin hafi verið á árunum 1706-1711, segi um hjáleigurnar að þær séu byggðar úr landi Þingvalla og að afréttur hafi til forna verið brúkaður í Skjaldbreiðarhrauni. Af öðrum ummælum í jarðabókinni nefnir stefnandi að um hjáleiguna Vatnskot segi: „Haga á jörðin í betra lagi mikla og góða. Útigangur á vetur er hjer góður og er hverki sauðfje nje hestum fóður ætlað.“ Um hinar hjáleigurnar sé vísað til þess sem ritað var um Vatnskot. Í jarðabókinni segi jafnframt að Þingvellir hafi átt afrétt á  „ … Skjaldbreiðarhrauni en hefur ekki verið brúkaður yfir 40 ár, lætur nú presturinn brúka fyrir afrétt Ármannsfell, Kvíindisfell og Gagnheiði“. Í jarðabókinni og sóknarlýsingu Þingvallasóknar sé að auki getið um fjölda annarra hjáleigna og eyðibýla, sbr. t.d. Fíflavelli, landsuður undir Skjaldbreið, Ölkofra, Þórallarstaði, Múlakot eða Mosastaði, Grímastaði, Bárukot og Þverspirnu.

Samkvæmt jarðabókinni hafi afrétturinn á Skjaldbreiðarhrauni ekki verið brúkaður yfir 40 ár, m.a. vegna snjóþyngsla fram á sumar og uppblásturs. Þingvellir ásamt hjáleigum sem og jarðir í einkaeigu hafi verið sagðar eiga umræddan afrétt. Þegar hætt hafi verið að nýta Skjaldbreiðarhraunið sé líklegt að beitt hafi verið í landi Þingvalla og það verið notað til beitar, ekki einungis fyrir Þingvallatorfuna ásamt hjáleigum, heldur einnig aðrar jarðir. Stefnandi segir þetta í samræmi við það sem heimildir geti um beitarnot Grímsnesinga. Land jarðarinnar hafi því verið nýtt sameiginlega til beitar.

Í makaskiptasamningi Grímsneshrepps og Þingvallakirkju sé Skjaldbreiður nefnd afréttarland. Notkun orðsins „afréttur“ endurspegli í þessu sambandi eingöngu þau not sem menn hafi tengt helst við landið, það er upprekstur og beit. Og burtséð frá því geti afréttur verið fullkomið eignarland eins og til dæmis þegar jarðir hafi verið lagðar til afréttar, eins og eigi við um land Þingvalla. Vegna umfjöllunar óbyggðanefndar um aðdraganda þessara viðskipta tekur stefnandi fram að Grímsnesingar hafi varla talið sig einungis vera að kaupa beitarrétt og afhenda í staðinn fullkomið eignarland, þar sem þeir hafi haft beitarréttinn áður. Þingvallaprestur hafi leitað eftir makaskiptunum til þess að koma af sér kostnaði við smölun og kostnaði af refaeyðingu, sem hann hafi ekki ráðið við. Samkvæmt samningnum skyldu Grímsnesingar sjá um refaeyðingu á landinu og með því sé verið að undirstrika að landsvæðið hafi verið afhent til fullrar eignar og afnota fram yfir beitarrétt, sem bændur í Grímsnesi hafi þegar haft.

Stefnandi telur hæstaréttardóm 1926, bls. 341, sem óbyggðanefnd byggi á til stuðnings niðurstöðu sinni, hér enga þýðingu hafa. Í greindu máli hafi Grímsneshreppur ekki gefið út yfirlýsingu um að hann hafi einungis fengið „beitarrétt“ í skiptum fyrir eignarjörð sína Kaldárhöfða, eins og nefndin byggi á í úrskurði sínum.

Ætíð hafi verið gengið út frá því að land innan landamerkja Þingvalla væri einkaeignarland. Sama gildi um makaskiptalandið. Með gerð landamerkjalýsinga Þingvallajarðarinnar hafi verið afmarkað eignarland jarðarinnar ásamt hjáleigum og því svæði sem hér um ræði, staðfesti þær þá einkaeignarréttarlegu stöðu, sem landið hafi fengið við landnám í öndverðu. Það hafi ekki vafist fyrir neinum, hvorki fyrir hinu opinbera eða einkaaðilum, að eigandi umrædds lands færi með eignarráð þess, eins og það hafi verið afmarkað í makaskiptasamningnum. Út frá þessu hafi ætíð verið gengið og því hafi stefnandi ekki haft tilefni til að ætla annað en að af hálfu ríkisins væri eignarréttur á umræddu landsvæði samkvæmt merkjaskrám og makaskiptasamningnum viðurkenndur og óumdeildur. Stefnandi segir umrætt landsvæði skýrlega afmarkað og út frá því gengið í lögskiptum Grímsneshrepps og Þingvallakirkju á sínum tíma sem og síðari lögskiptum að um fullkomið eignarland væri að ræða. Stefnandi hafi því haft réttmætar ástæður til að vænta þess að merkjum á umræddu landi væri rétt lýst sem og að eignarhald hans væri án ágreinings, enda engar athugasemdir gerðar við eignarráð hans.

Í samræmi við almennar sönnunarreglur íslensks réttar verði sá sem vefengi landamerkjalýsingar og geri tilkall til lands innan landamerkja jarða að bera sönnunarbyrðina fyrir því. Í því sambandi minnir stefnandi á þá reglu íslensks réttar að sá sem hafi þinglesna eignarheimild samkvæmt lögum hvers tíma myndi vera talinn sá sem eignina ætti, og þá að eign hans væri undirorpin einkaeignarrétti hans, nema annað sannaðist. Í þessu tilviki hafi stefnandi þinglesna eignarheimild fyrir umræddu landsvæði, sem samþykkt hafi verið og þinglesin án athugasemda fyrir 106 árum. Á þessu tímabili hafi eignarheimild stefnanda ekki verið vefengd. Hér megi líka nefna að dómstólar hafi litið svo á að lönd jarða, sem lögð hafi verið til afréttar, séu beinum eignarrétti undirorpin, eins og í þessu tilviki. Land sem sé innan marka eignarlands samkvæmt merkjalýsingu verði ekki skert, nema ríkið geti sýnt fram á eignarrétt sinn að umræddu landi, lýsing landamerkja sé röng og að auki að viðkomandi landeigandi hafi ekki unnið eignarhefð á landinu, sem gert sé tilkall til. Í ljósi þess sem fyrir liggi um eignarheimildir stefnanda á þessu svæði, þinglesnar merkjalýsingar sem og aðrar heimildir, megi fullyrða að ríkinu sé ókleift að gera tilkall til landsvæðis stefnanda, enda hafi engar athugasemdir komið fram í gegnum tíðina við þinglýsingu á landamerkjaskrám Þingvallajarðarinnar ásamt hjáleigum, eða við makaskiptin, hvorki af hálfu sýslumanns né annars handhafa opinbers valds.

Hér skipti það einnig máli, að viðsemjandi Grímsneshrepps við gerð makaskiptasamningsins hafi verið íslenska ríkið, sem hafi í staðinn fengið eignarjörð hreppsins Kaldárhöfða. Óumdeilt sé að umrædd jörð hafi verið undirorpin einkaeignarrétti stefnanda við afsal hennar, t.a.m. hafi stefndi gert þá kröfu fyrir óbyggðanefnd að viðurkenndur yrði einkaeignarréttur ríkisins að jörðinni með vísan til makaskiptasamningsins. Að mati stefnanda gangi það ekki upp að stefndi geri nú tilkall til þess lands, sem afhent hafi verið stefnanda til eignar fyrir 106 árum. Til þess verði að horfa við úrlausn málsins, enda myndi stefndi að öðrum kosti hagnast á kostnað stefnanda.

Hér hafi einnig þýðingu viðurkennd og athugasemdalaus beiting eignarráða eiganda landsins og hagnýting þess, sem styðjist við eignarheimildir hans. Það skipti ótvírætt máli við mat á gildi og efni eignarheimildar stefnanda. Í þessu tilviki sé venjuréttur því ekki aðeins sjálfstæð eignarheimild heldur hafi einnig sönnunarlega þýðingu að því leytinu til að hún styðji að öllu leyti málsástæður og sjónarmið stefnanda að umrætt landsvæði hafi verið afhent til eignar og að um eignarland sé að ræða. Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni.

Óbyggðanefnd hafi úrskurðað sambærileg landsvæði og hér um ræðir einkaeignarlönd viðkomandi samkvæmt þjóðlendulögum. Hér megi t.d. nefna mál nr. 4/2000, þar sem land Úthlíðartorfu í Biskupstungnahreppi hafi verið tekið til skoðunar en stærstur hluti Úthlíðarlandsins liggi ofan byggðar og samhliða afrétti Laugdælinga og raunar Biskupstungnamanna að hluta og nái allt til jökuls. Úthlíðartorfan, þ.e. Úthlíð ásamt hjáleigunum Hrauntúni og Stekkholti, hafi verið stólsjörð og hafi Skálholtskirkja selt jörðina árið 1798. Óbyggðanefnd hafi úrskurðað að land jarðarinnar væri einkaeignarland og kirkjan hafi þar með afsalað sér fullkomnu eignarlandi á sínum tíma allt til jökuls. Sömu sjónarmið eigi við um land stefnanda, enda um sambærileg landsvæði að ræða bæði hvað varði staðhætti, víðáttu sem og inntak eignarráða. Það hafi t.d. verið búið á Þingvallajörðinni og hjáleigum og stundaður þar búskapur. Stefnandi hafi innan eignarráða sinna hagnýtt landið frá 1896 og gert ráðstafanir með sama hætti og um eignarland gildi almennt. Eignarhald stefnanda hafi jafnframt verið ágreiningslaust og án athugasemda eins og í tilviki eigenda Úthlíðartorfunnar og stefnandi haft réttmætar ástæður til að vænta að eignarhaldi sem og merkjum eignarlands hans væri rétt lýst. Stefnandi segir að í tilviki Úthlíðar hafi óbyggðanefnd einnig talið að staðhættir, gróðurfar eða nýtingarmöguleikar ættu ekki að hafa úrslitaáhrif við mat á eignarréttarlegri stöðu landsins. Nefndin víki hins vegar frá þessu í tilviki stefnanda og telji í forsendum sínum að staðhættir og víðátta makaskiptalandsins bendi til þess að það sé ekki fullkomið eignarland. Hér hafi því sömu sjónarmiðum og grundvallarreglum ekki verið beitt. Niðurstaðan í þessu máli, sem nú sé til úrlausnar, verði að taka mið af úrskurðum óbyggðanefndar, sem þegar hafi verið kveðnir upp, til þess að jafnræðis verði gætt og samræmis við mat á inntaki eignarráða landeigenda.

Að mati stefnanda liggi því fyrir samkvæmt fyrirliggjandi heimildum að allt land Þingvalla hafi legið innan marka eiginlegs heimalands og því hafi óbyggðanefnd ekki getað skilgreint makaskiptalandið sem afrétt og lagt til grundvallar markalínu samningsins. Umrætt landsvæði sé því einkaeignarland stefnanda.

Loks styður stefnandi þessa málsástæðu þeim rökum, að umrætt landsvæði hafi verið og sé í hans eigu og hafi verið nýtt með þeim hætti sem lög frekast leyfa frá 1896. Eins og fram hafi komið við skýrslutökur fyrir óbyggðanefnd hafi afnot stefnanda ekki einungis falist í beitarnotum. Stefnandi hafi haft allar venjulegar ráðstöfunarheimildir eiganda fasteignar varðandi meðferð á landinu og réttindum þess. Hér megi t.d. nefna að bætur hafi verið greiddar til stefnanda og samningar gerðir við hann vegna framkvæmda Landsvirkjunar á landinu árið 1979 þegar Búrfellslína var lögð. Þá hafi stefnandi reist fjallaskála í umræddu landi. Stefnandi byggi því eignarrétt sinn ekki einungis á þinglesnum eignarheimildum heldur byggi hann einnig eignarrétt sinn að umræddu landsvæði á því að hefð sé fullnuð í merkingu hefðarlaga nr. 46/1905. Stefnandi hafi litið á landsvæði þetta sem sína eign og farið með það sem sitt frá ómunatíð. Enginn hafi dregið eignarrétt stefnanda í efa allan þennan tíma. Skilyrði hefðarlaga um óslitið eignarhald sé því uppfyllt. Því til stuðnings sé ótvíræð huglæg afstaða hefðanda og almennt álit nágranna hans.

Stefnandi krefur stefnda um eftirstöðvar útlagðs kostnaðar stefnanda, 548.680 krónur, vegna meðferðar mála sinna fyrir óbyggðanefnd. Byggir stefnandi á því að umræddur kostnaður hafi átt að greiðast úr ríkissjóði, sbr. 17. gr. laga nr. 58/1998, sbr. 7. gr. laga nr. 65/2000.

Krafan er nánar sundurliðuð þannig:

1.Útlagður kostnaður vegna gagnaöflunar

    og kortagerðar                                                       kr.    247.573

2.Lögmannskostnaður                                           kr. 1.299.999

Samtals    kr. 1.547.572

Frá dragast innborganir frá óbyggðanefnd

1.      Hinn 23.10.2001 vegna útlagðs kostnaðar   kr.   198.892

2.      Lögmannskostnaður 21.03.2002.                   kr.   800.000

(Greitt beint til Lögmanna Suðurlandi)

                                                            Samtals            kr. 998.892

Samkvæmt framangreindu nemi eftirstöðvar kostnaðar stefnanda 548.680 krónum (1.547.572 -998.892).

Stefnandi kveðst hafa þurft að leggja út í mikinn kostnað vegna lýsinga á kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd, kalla eftir heimildum og gögnum, sem hann hafi byggt rétt sinn á, ásamt því að leggja fram uppdrætti af mörkum landsvæðisins og annarra jarða. Ástæða þessa mikla kostnaðar hafi m.a. verið sú að lög nr. 58/1998 hafi upphaflega gert ráð fyrir að málsmeðferð fyrir nefndinni væri með þeim hætti að sá sem teldi til eignarréttinda eða annarra réttinda yfir landi, þyrfti fyrst að lýsa skriflega kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd en síðan fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins. Með kröfunum hafi átt að fylgja heimildir og gögn sem aðilar byggðu rétt sinn á ásamt uppdrætti af mörkum þess landsvæðis/jarðar sem kröfur lytu að. Þannig hafi stefnandi ásamt öðrum jarðeigendum verið settur í þá stöðu að verja eignarrétt sinn án þess að vita hvort ríkið gerði tilkall til lands þeirra eða hvers þeir mættu eiga von á. Það hafi líka komið í ljós að þetta fyrirkomulag var ótækt, enda hafi málsmeðferðinni síðar verið breytt með lögum nr. 65/2000, þannig að nú lýsi fjármálaráðherra fyrst kröfum ríkisins um þjóðlendur á því svæði sem til meðferðar sé.

Útlagður kostnaður vegna kortagerðar og gagnaöflunar hafi verið nauðsynlegur og eðlilegur og þóknun fyrir lögfræðiaðstoð hafi verið sanngjörn og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli. Kostnað stefnanda verði jafnframt að virða í ljósi upphaflegrar málsmeðferðar fyrir nefndinni. Allur kostnaður stefnanda hafi því átt að fást greiddur úr ríkissjóði samkvæmt 17. gr. laga nr. 58/1998.

Loks telur stefnandi að nefndin hafi ekki rökstutt niðurstöður sínar varðandi málskostnað. Stefnanda sé þannig ekki unnt að átta sig á því hvers vegna hann hafi verið látinn bera hluta af málskostnaði sínum.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna eignaréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglna um eignarráð fasteignareiganda, almennra reglna samninga- og kröfuréttar, hefðarlaga nr. 14/1905, laga nr. 58/1998 um þjóðlendur, jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins, sbr. 1. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignarréttarins, sbr. lög nr. 62/1994 um lögfestingu sáttmálans. Málskostnaðarkröfu sína styður stefnandi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og kröfu sína um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Málsástæður stefnda

Stefndi krefst sýknu. Hann kveðst fyrst rökstyðja, með vísan til réttarheimilda og annarra heimilda, að úrskurður óbyggðanefndar um hið umdeilda land sé efnislega réttur. Þessu næst fjalli hann um rökstuðning óbyggðanefndar og sjónarmið um hefð. Þá verði fjallað um réttarþróun frá landnámsöld til nútímans varðandi sakarefni málsins. Að lokum verði fjallað um fjárkröfur stefnanda.

Stefndi segir um efnislega niðurstöðu óbyggðanefndar, að við kröfugerð um þjóðlendumörk í Grímsnes- og Þingvallahreppi hafi að meginstefnu til verið byggt á því, að mörk eignarlanda í hreppnum væru þau sömu og landnámsmörk. Sunnan þjóðlendukröfulínu væru eignarlönd sem numin hafi verið til eignar, en ofan og norðan línunnar væri þjóðlenda.

Frumstofnun eignarréttar að landi hérlendis og meðal annarra germanskra þjóða hafi orðið við nám. Við námið og eftirfarandi aðgerðir landnámsmannsins við að brjóta land til ræktunar og gera landið að bújörð hafi orðið til beinn eignarréttur hans að þessum hluta náttúrunnar.

Heimildir um landnámið séu hérlendis aðallega í landnámabókum og Íslendingasögunum. Þar að auki staðfesti fornleifar, fornleifarannsóknir og búsetusaga, að byggð hafi í aðaldráttum haldist á þeim svæðum sem numin voru til eignar. Annað land, sem ekki var numið til eignar, hafi síðan í talsverðum mæli verið tekið til takmarkaðra afnota ákveðinna aðila og síðar þjóðarinnar.

Benda megi á fjölmörg ákvæði í fornlögum okkar sem skýri að strax í upphafi byggðar hafi verið mikill eðlismunur á jörðum og öðrum lendum. Þessara ákvæða hafi verið getið í greinargerð íslenska ríkisins fyrir óbyggðanefnd og sé vísað til hennar um þessi atriði.

Af dómafordæmum megi ráða þá reglu að greina megi í sundur eignarlönd og afréttarlönd í þjóðlendu með tilliti til nýtingar þeirra. Eignarlönd séu nýtt allt árið til búrekstrar en afréttir til sumarbeitar. Allt frá Jónsbók hafi verið í gildi þau lagaákvæði, að eigandi smali sitt land, en allt annað land sé smalað sameiginlega af fjallskilastjórn.

Samkvæmt heimildum um landnám í Grímsneshreppi hafi Ketilbjörn gamli numið Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk. Sturlubók, Hauksbók og Þórðarbók Landnámu (S 388, H 342, Þ 58 ) séu samhljóða um það, að Grímur hafi komið að landi rétt við Stokkseyri, í fallvatn þar rétt fyrir austan sem nefndist Grímsá. Land hafi þá verið numið um þessar slóðir og hafi Grímur þá leitað lengra upp í landið. Segi landnámabækur hann hafa numið Grímsnes allt upp til Svínavatns. Stefndi kveður suðurmörk landnáms Gríms vera Hvítá svo langt til austurs sem það hafi náð. Vesturmörkin séu Sogið allt upp til Þingvallavatns. Norðurmörkin séu óglögg, en Lyngdalsheiði liggi á því svæði fyrir ofan byggðina. Bæinn og vatnið Svínavatn kveður hann vera undan suðausturhorni heiðarinnar. Austurmörk landnámsins segir stefndi mjög óviss og ekki skipta hér máli.

Landnámabækur telji Ketilbjörn gamla hafa numið Grímsnes allt frá Höskuldslæk sem renni úr Lyngdalsheiði austanvert við Klausturhóla og suður í Hvítá austanvert við Hraunin í Grímsnesi. Með þessum hætti verði allur miðhluti Grímsnessins í landnámi þeirra Gríms og Ketilbjarnar beggja. Rekist sagnir um landnám þeirra því á að þessu leyti. Þetta skipti þó ekki máli, þar sem báðar heimildirnar séu í samræmi að því er varðar hvaða land hafi verið numið. 

Óbyggðanefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu, að meiri líkur væru á því að Lyngdalsheiðin hafi verið numin en ekki og hafi úrskurðað Heiðina eignarland og þar sem hún sé á mörkum þess lands í hreppnum sem numið hafi verið séu nánast engar líkur á að land norðar hafi verið numið og þá alls ekki það land sem í þessu máli sé deilt um.

Stefndi kveður landnám Gríms í Grímsnesi hafa náð í vestri að Sogi og meðfram því að Þingvallavatni eins og áður hafi verið getið. Þar með sé Kaldárhöfði í Grímsneshreppi síðasti bærinn í vestri í landnámi Gríms. Spurning sé þá hvaða landnám taki við þegar komið sé í Þingvallahreppinn. Í þessu sambandi telur stefndi nærtækast að skoða heimildir um landnám Ingólfs Arnarssonar.

Sturlubók 9. kap. og Þórðarbók 60. kap. segi, að Ingólfur hafi numið land „milli Ölfussár ok Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá milli ok Öxarár ok öll nes út“. Í Hauksbók 9. kap. sé landnámsmörkunum lýst svo, að Ingólfur hafi numið land „milli Ölfusár ok Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá milli ok Hranna Gjollnes“. Hranna Gjollnes standi sjálfsagt fyrir „Hrannagjá ok öll nes“. Allar þrjár Landnámugerðirnar telji landnámsmörkin að austan að neðanverðri Ölfusá, hvort sem átt sé eingöngu við Sogið, eða þann hluta Hvítár sem nú er kallaður Ölfusá ( þ.e. Hvítá eftir að Sogið fellur í hana og til sjávar) eða ef til vill bæði Ölfusá og Sogið. Þingvallavatn hafi verið kallað Ölfossvatn í fornöld og sunnan við vatnið standi enn bærinn Ölfusvatn. Vatnsfall það, sem nú sé kallað Sogið hafi líklega verið nefnt Alfossá eða Ölfossá í öndverðu. Hvernig sem öllu þessu hafi verið varið sé langlíklegast að austurmörk landnáms Ingólfs hafi verið að neðanverðu austan megin núverandi Ölfusár og síðan Sogið upp í núverandi Þingvallavatn.

Um austurmörkin að ofanverðu skilji heimildarritin nokkuð á. Eftir Sturlu- og Þórðarbók mætti ætla, að Ingólfur hefði helgað sér landið sunnan og vestan vert við Þingvallavatn og norðan við það allt til Öxarár. Hafi Öxará þá runnið í forna farveginum í Þingvallavatn, þá hafi landnám Ingólfs eftir Sturlu- og Þórðarbók aðeins náð austur fyrir Kárastaði og Brúsastaði, en hafi hún þá runnið svo sem hún renni nú, þá hafi Ingólfur helgað sér land upp að ánni frá Brúsastöðum og að Almannagjá og síðan að ánni um gjána og niður til vatnsins að vestanverðu árinnar. Telur stefndi að þannig verði ekki séð, að landið norðanvert við Þingvallavatn, austur frá Öxará, samkvæmt forna eða nýja farveginum, og að Lyngdalsheiði og Kálfstindum hafi verið numið sérstaklega, að minnsta kosti ekki í öndverðu.

Hauksbók telji mörkin nokkru austar. Eftir því að dæma hafi Ingólfur helgað sér landspilduna allt frá Öxará til Hrafnagjár sem gangi upp frá vatninu rétt fyrir vestan bæinn Gjábakka. Eftir Sturlu- og Þórðarbók hafi Þingvöllur og umhverfi hans hið næsta alls ekki verið í landnámi Ingólfs, en eftir Hauksbók taki landnám hans einnig yfir Þingvöll. „Hrannagjá“ gæti þó verið misritun fyrir Hvannagjá sem sé einn hluti Almannagjár, er þá væri landnámsmörk. Verði ekki úr því skorið, hvor sögnin sé rétt.

Stefndi bendir á að hvort sem Ingólfur hafi helgað sér landið milli Öxarár og Hrafnagjár eða einungis land til Öxarár, þá virðist ritarar landnámabóka ekki hafa vitað til þess að nokkur hafi helgað sér land austan Öxarár, hvort sem hún hefur þá runnið í forna eða nýja farveginum og allt til Lyngdalsheiðar. Land þetta hafi þó ekki lengi verið óbyggt með öllu, eftir því sem Ari fróði segi. Frásögn hans sé á þá leið, er hann lýsi setningu Alþingis, að maður nokkur að nafni Þórir kroppinskeggi er land átti í Bláskógum hafi orðið sekur um þrælsmorð eða leysings og hafi land hans síðan orðið allsherjarfé. Land Þóris þessa hafi að sögn Ara verið lagt til Alþingisneyslu. Ekki sé vitað hversu vítt land Þóris hafi verið, en getum hafi verið leitt að því að það hafi að minnsta kosti verið milli Almannagjár og Hrafnagjár.

Bæði af þessari umfjöllun og fyrri umfjöllun um Grímsnes megi glöggt sjá, að engar heimildir séu til um nám lands á þeim slóðum, sem makaskiptalandið, þrætulandið, sé og eftir því að dæma hafi aldrei orðið þar til beinn eignarréttur neinum til handa.

Sammerkt sé með öllu því landi sem samkvæmt kröfulýsingu fjármálaráðuneytisins hafi verið innan þjóðlendumarka, að þar hafi landsvæði verið annað hvort ógróin eða vaxin heiðargróðri. Þetta séu miklar hálendisvíðáttur og háfjöll allt til jökla. Innan þess svæðis sé makaskiptalandið umdeilda.

Þá reglu megi ráða af heimildum um landnám og því sem þekkt sé um nýtingu lands í kjölfarið, að hálendi, fjöll og öræfi hafi ekki verið numin til eignar og því séu gerðar ríkari sönnunarkröfur um beinan eignarrétt að slíku landi en öðru landi á mörkum byggðar. Í þessu tilliti hafi Hæstiréttur litið til atriða eins og staðhátta, víðáttu og gróðurfars. Stefndi kveðst líta svo á, að sönnunarbyrði um beinan eignarrétt liggi hjá þeim sem telji sig hafa slíkan rétt. Þannig verði landeigandi að sanna eignarheimildir sínar. Það sé ennfremur hans að sanna, að raunveruleg og eðlileg nýting tiltekinnar jarðar eða önnur atriði hafi tekið til þess svæðis sem deilt sé um. Stefndi byggir á því að þessi sönnunarregla sé eðlileg, með tilliti til þess að stefndi hafi engin eignarskjöl fyrir þjóðlendum fyrr en að undangengnum úrskurði óbyggðanefndar og eftir atvikum dómi, enda séu þjóðlendur einmitt það land sem útaf standi þegar búið sé að ákveða mörk eignarlanda. Stefndi byggir á því, að þetta verði ráðið af skilgreiningunni á þjóðlendum í 1. gr. þjóðlendulaga þar sem segir að þjóðlenda sé land utan eignarlanda. Ennfremur vísar stefndi til l. mgr. 2. gr. laganna en þar segi að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda sem ekki séu háð einkaeignarrétti. Þessi regla um sönnunarbyrði eigi sér hliðstæðu í lögum nr. 64/1994 um friðun fugla og dýra.

Það skipti miklu máli að átta sig á nýtingu lands, þegar greina eigi á milli eignarlanda og þjóðlendna. Því þurfi að skoða hvernig nýtingu þrætulandsins sé háttað. Allt frá lokum landnámsaldar og fram að 21. öldinni hafi löggjafarvaldið sett ýmsar reglur um nýtingu þeirra landsvæða sem nú heiti þjóðlendur. Um nýtingu eignarlanda hafi hins vegar ekki verið settar nýtingareglur, nema þær sem teljist til grenndarréttar. Eitt meginatriði skilji á milli eignarlanda og þjóðlendna, en það sé að allt frá Jónsbókartíma hafi eigandi átt að smala eignarland sitt, en þjóðlendan sem svo heiti nú, hafi verið smöluð sameiginlega af fjallskilastjórn. Vegna þessara ákvæða sé nauðsynlegt að fjalla um hvað heimildir segi okkur um smölun og beitarafnot á þjóðlendumörkum í Grímsneshreppi og norðan þjóðlendumarka. Stefndi vísar um þetta til bókarinnar Göngur og réttir, II bindi, á bls. 252 sé fjallað um afréttarlönd Laugdælinga, Grímsnesinga og Þingvellinga og þau sögð liggja saman. Afréttur Laugdælinga sé austastur og liggi að löndum Biskupstungnahrepps. Þá liggi þessi afréttur inn með Langjökli. Þaðan austanvert í Skjaldbreið um Sköflung, Langafell, Skriðuhnjúk, Skefilfjöll og í Klukkuskarð. Þaðan ráði svo landamerki Grímsnesinga og heimalands Laugarvatns fram með Reyðarbarmi og Litlabarmi að vestan, og úr syðra Litlabarmshorni í Biskupsbrekku norðanvert á Lyngdalsheiði. Mörk Grímsnesafréttar og Þingvallahrepps séu, að vestan úr Þrasaborgum í Driftarenda um Hamarselshelli og um Stóra-Dímon í Hrafnabjörg. Úr norðurhorni Hrafnabjarga í Gatfellsenda, úr norðurhorni Gatfells í Fanntófell og liggi það við Ok.

Á bls. 253 í sömu heimild segi, að leitir hafi byrjað á laugardegi í 22. viku, en á mánudegi hafi svo verið farið á Vesturfjallið og í Lyngdalsheiði og öllu safnað saman á Laugarvatnsfjöllum og rekið þar saman við safn Grímsnesinga sem þeir hafi komið með innan af sínum afrétti. Neðst á blaðsíðu 271 segi síðan: „Enginn gleymir, sem lifað hefir, þeirri dýrðlegu sjón, sem gat að líta af Lyngdalsheiði, þegar komið var með fjársafnið úr 3 áttum og 50-60 menn voru utan um það. Fyrsta fjárbreiðan kom austan með Laugarvatnsfjöllum, önnur sunnan úr Lyngdalsheiði og sú þriðja niður Barmaskarð.“

Á bls. 294 -295 sé greint frá leitarfyrirkomulagi Grímsnesinga og segi þar m.a. þetta: „Þriðju og síðustu nóttina er gist í Kringlumýrarskála ( skáli þessi er á miðri Lyngdalsheiði) Síðasta daginn smala svo leitarmenn Lyngdalsheiði heim með sér, og er það um leið allsherjar heimasmalamennska við Heiðina.“

Í dómi Hæstaréttar frá 31. maí 1926 hafi verið tekist á um greiðslu útsvars til Þingvallahrepps vegna þrætulandsins. Atvik máls hafi verið þau, að haustið 1924 hafi hreppsnefnd Þingvallahrepps lagt útsvar á Grímsneshrepp. Réttinn til álagningar hafi hreppurinn byggt á því að samkvæmt konungsúrskurði 14. janúar 1896 hafi Grímsneshreppur eignast allstóra landspildu úr afréttarlandi Þingvallakirkju innan Þingvallahrepps til eignar, afnota og umráða og beri því að greiða útsvar af landinu. Heimildin til álagningarinnar hafi verið talin byggjast á 1. gr. laga nr. 29/1922 um að gjöra mönnum útsvar er hafa ábúð á jörð eða jarðarhluta, leiguliðaafnot af jörð eða lóðarafnot sem einhvern arð gefi í sveitarfélagi utan síns lögheimilis. Upplýst hefði verið í málinu að lögtaksþoli, Grímsneshreppur, hefði notað greinda afréttarspildu til uppreksturs sauðfjár á sumrum, en til annars ekki. Forsendur dómsins hafi verið eftirfarandi: „Ábúð á jörð geta slík afnot ekki kallast og því síður leiguliðaafnot, eins og þau eru takmörkuð í greindum ákvæðum (svo sem slægjuafnot). Hins vegar verður með skírskotun til nýgreindrar takmörkunar heldur eigi talið að orðið „lóðarafnot“ eigi við búnaðarafnot jarða, því við það yrði ósamræmi milli ákvæðanna. Almenn skilyrði fyrir að beita greindum ákvæðum verður að telja að afnotin séu rekin sem atvinna, en það er víst að lögtaksþoli með engu móti getur kallast reka atvinnu með upprekstrarafnotum þessum. Þá mun það mjög hæpið að greind ákvæði um jarðarafnot nái til afrétta enda afréttarspilda þessi ekki metin til fasteignaverðs, fremur en aðrir afréttir.“

Stefndi telur þessar heimildir um nýtingu heiðanna ofan bæja í Grímsneshreppi og fjallskil þar og álit Hæstaréttar á þrætulandinu ekki styðja sjónarmið stefnanda um að það sé háð beinum eignarrétti.

Af heimildum landnámabóka og af umfjöllun sagnfræðinga sé líklegast að Grímsnesið hafi verið numið til eignar. Ekki sé greint frá því að Lyngdalsheiðin hafi verið numin en það þurfi ekki endilega að þýða að svo hafi ekki verið. Land hafi verið numið til eignar og umráða til að reisa á býli og stofna þannig til beins eignarréttar að landi. Býli þessi hafi svo náð mislangt inn til óbyggða. Ekki sé rökrétt að telja Lyngdalsheiðina til óbyggða; land inn á hana smáhækki og engin skörp skil verði á gróðurfari. Engra heimilda njóti við hversu gamalt nafnið Lyngdalsheiði er. Hugsanlegt sé að hún hafi áður verið talin hluti af Grímsnesinu.

Stefndi kveður ekki ljóst hvar nákvæmlega landnámsmörkin séu í Grímsnesi til norðurs, en alla vega ekki mikið fyrir norðan Lyngdalsheiði. Í umfjöllun um landnámsheimildir í Þingvallasveit, sem auðvitað verði að skoða í samhengi við Grímsnesið vegna legu þrætulandsins, komi glöggt fram að litlar líkur séu á að nám lands þar hafi náð til þrætulandsins í vestri og sé þá ljóst að grundvöllinn undir eignaréttarkröfu stefnanda, landnámið sjálft, vanti.

Stefndi kveður ágreiningsland dómsmáls þessa vera norðan Lyngdalsheiðar og norðan Gjábakkalands. Áður hafi það verið talið í eigu Þingvallakirkju og selt Grímsneshreppi með makaskiptasamningi, dags. 6. apríl 1897. Samningur þessi hafi verið staðfestur af stiftisyfirvöldum 6. apríl 1897 og hann þinglesinn 16. júní 1897. Þetta land Þingvallakirkju telji stefnandi vera hluta Þingvallajarðarinnar og undirorpið beinum eignarétti og þannig vera eftir söluna fullkomna eign Grímsnes- og Grafningshrepps.

Stefndi vísar til þess, að eftir kristnitöku hafi verið reist kirkja á Þingvöllum, og hafi hún verið gjöf Ólafs Haraldssonar Noregskonungs. Þetta hafi verið almenningskirkja. Þannig hafi hún verið allsherjarfé eins og talið sé að jörðin sjálf hafi verið. Til þess að hægt væri að reisa kirkju og efna til kirkjuhalds þá hafi orðið að vera bær á staðnum. Engin dæmi séu þess að kirkjur hafi verið reistar á eyðistað þar sem enginn maður hafi verið til að sjá um hana að staðaldri. Eins og aðrar slíkar stofnanir hafi kirkjan orðið að geta staðið undir sér. Því liggi fyrir að kirkjunni hafi verið lagðar til einhverjar eignir, hvort sem um hafi verið að ræða beitilönd, búsmala eða einhver réttindi sem verðmæt hafi getað talist. Í upphafi muni öll þessi réttindi hafa verið óskráð.

Elstu heimildir um máldaga Þingvallakirkju sé að finna í Vilchinsmáldaga frá árinu 1397. Þar sé ekki minnst á að kirkjan eigi afrétt og þar séu heldur ekki neinar upplýsingar um að kirkjan eigi hlut í heimalandi. Næstur komi máldagi Gísla Jónssonar biskups í Skálholti frá 1575 og þar komi fram að kirkjan eigi heimaland allt með gögnum og gæðum og einnig Skjaldbreið og ýmsar jarðir. Árið 1746 komi síðan erindisbréf konungs handa biskupum. Samkvæmt 16. gr. erindisbréfsins séu Vilchins- og Gíslamáldagar taldir áreiðanlegir og löggiltir og skuli allar þrætur um eignir kirkna, réttindi og kúgildi, er standi á jörðum léns- og bændakirkna dæmd og útkljáð eftir þeim.

Á þessum tíma hafi Þingvallakirkja verið lénskirkja og hafi ofangreint erindisbréf konungs, sem gert var á einveldistíma, lagagildi um eignarhald að heimajörð og eignum þar. Hafi á þessum tíma verið einhver vafi um eignarrétt kirkjunnar á jörðinni sjálfri, þar sem landið hefði verið gert að allsherjarfé og lagt til allsherjarneyslu, þá séu öll tvímæli tekin af með erindisbréfinu því samkvæmt konungsboði eigi Þingvallakirkja beinan eignarrétt að heimalendunni, að minnsta kosti. Eignarrétturinn sé því óvefengjanlegur en eftir standi spurningin, hversu langt þetta land hafi náð sem eignarland. Ennfremur standi eftir ýmis álitamál varðandi það útlendi, eða afrétti, sem á síðari tímum hafi verið tileinkað Þingvallakirkju.

Nær samhljóða Gíslamáldaga sé lýsing Þingvallakirkju í vísitasíubók Brynjólfs Sveinssonar frá 25. apríl 1644. Tveimur áratugum síðar hafi sami máldagi verið færður óbreyttur inn í vísitasíubók Þórðar biskups Þorlákssonar, nema hvað þá hafi fleiri jarðir verið eignaðar Þingvallakirkju.

Í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segi að kirkjustaðurinn á Þingvöllum hafi átt afrétt á Skjaldbreiðarhrauni, sem hafi ekki verið brúkaður yfir 40 ár. Þar standi: “Lætur prestur brúka fyrir afrétt Ármannsfell, Kvíindisfell og Gagnheiði.“ Í jarðabókinni komi líka fram, að fleiri jarðir hafi átt afrétt í Skjaldbreiðarhrauni. Þetta hafi ekki aðeins verið hjáleigur Þingvallakirkju, heldur einnig jarðir í einkaeign í Grímsnesi og víðar sem einnig hafi átt þennan upprekstur í Skjaldbreiðarhrauni og virðist svo hafa verið frá fornu fari. Á þessum tíma hafi gróðurfari eitthvað verið farið að fara aftur þannig að not hafi verið minni en áður var, ef þau hafi þá nokkur verið.

Ákvæði í Jarðabókinni um þennan rétt sem margir hafi átt þarna á ákveðnu svæði virðist hafa valdið ágreiningi, því árið 1740 hafi presturinn á Þingvöllum séð ástæðu til að lögfesta landareign kirkjunnar. Hafi hann ætlast til að eftir það léki ekki vafi á því hver væri raunverulegur eigandi afréttarins. Virðist lögfestan síðar hafa verið tekin góð og gild sem heimild um eignarlönd Þingvallakirkju, því að í lýsingu Mosfellssóknar frá 1840 segi sr. Halldór Jónsson afréttarlönd sóknarmanna vera í Kræklum og Lambahrauni, „sem ég heyri sagt að liggja muni á landamerkjum Þingvalla og Laugardalsjarða“ ( Laugarvatns og Miðdals ).

Í byrjun árs 1832 hafi Björn Gunnlaugsson verið að vinna að kortagerð um landið og hafi amtmaður beðið sýslumanninn í Árnessýslu um upplýsingar um mörk milli Árnessýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu. Lýsing sýslumanns sé undirrituð 11. janúar 1832 og samkvæmt þeirri lýsingu hafi bæst verulegur skiki við afrétt Þingvallakirkju í norðri, ef miðað sé við lögfestu sr. Markúsar Snæbjörnssonar eða Þríhyrningurinn frá Leirárhöfða í Eiríksnípu og þaðan væntanlega í skurðarlínuna frá norðurjaðri Skjaldbreiðar í Leirárhöfða. Daginn áður hafi bóndinn í Oddgeirshólum, Stefán Pálsson hreppsstjóri, tekið saman landamerkjaskrá fyrir Þingvallakirkju. Hann hafi á einum stað bætt inn fáeinum orðum og við það hafi afréttur Þingvallakirkju stækkað.

Björn Pálsson, prestur á Þingvöllum, hafi þurft að gera grein fyrir mörkum sóknar sinnar árið 1840. Hann hafi fylgt lýsingu bóndans í Oddgeirshólum, en bætt þó aðeins við með því að færa merkin úr skurði norðaustur í Fanntófell áður en þau sveigðu í Eiríksnípu.

Þegar fyrstu lögin um landamerki hafi verið sett 1882 hafi þurft að semja landamerkjabréf fyrir Þingvelli. Sú skrá hafi verið gerð 1. september 1886 en sumarið áður hafi presturinn helgað landamörk Þingvallakirkjulands í austri og norðri með merkjareið, „allt frá því að Gjábakkaland þrýtur og alla leið inn fyrir Skjaldbreið“, eftir að hafa látið boð út ganga til eigenda tiltekinna jarða í Laugardal.

Þverfell í Borgarfirði sé innsti bær í Lundarreykjadal og liggi jörðin næst landamerkjum Árnessýslu í vestri. Bóndinn á Þverfelli hafi undirritað landamerkjaskrá jarðarinnar 10. september 1886 og presturinn á Þingvöllum staðfest hana með undirritun sinni. Um landamerkin þeirra á milli segi þetta: „Svo eru merki með austurströnd Reyðarvatns, suður að Reyðarlæk. Svo ræður hann merkjum út grunna vatns. Svo ræður bein sjónhending merkjum milli Þverfells og Þingvallakirkju í há hnjúkinn á Kvíyndisfelli. Þaðan vestur í gil það sem fellur síst á krókinn sem er vestan undir því og Tungá kemur úr. Síðan ræður Tungá merkjum ofan fjallið þar til Kaldagil rennur í hana.“

Stefndi telur að hvort sem litið sé til landamerkjalýsingar Þverfells eða Þingvallakirkju þá sé ljóst, að afréttur kirkjunnar hafi mjög skroppið saman, ef mið sé tekið af þeim lýsingum sem fyrr sé getið. Sagt sé að þessi tilfærsla merkjanna stafi af deilum um refaveiðikostnað, sem Lundarreykjadalshreppur hafi greitt og talið sig eiga endurkröfurétt á Þingvallaprest. Prestur hafi frekar viljað láta af hendi land en greiða þennan kostnað. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi staðfest ákvörðun prestsins átta áratugum síðar þegar því hafi verið lýst yfir við dómsrannsókn að umrætt afréttarsvæði norðan Reyðarvatns í Borgarfirði varðaði ekki landsréttindi Þingvallakirkju (hæstaréttardómur í XLII, bls. 1144).

Árið 1890 hafi hreppsnefndin í Lundarreykjadal lögfest hreppnum „land það á fjalli, er liggur fyrir norðan Reyðarlæk á milli Þingvallakirkju og Reykholtskirkjulands.“ Við þessu hafi Þingvallaprestur engum andmælum hreyft. Þannig megi sjá að land sé ýmist að stækka eða minnka eftir einhverjum einhliða gerningum á nokkurra ára bili, allt eftir einhverjum hentugleikum á hverjum tíma.

Ekki sé vitað, hvernig Þingvallakirkja hafi eignast sína afrétti í öndverðu. Við samanburð máldaga megi ætla að afrétturinn hafi komist undir eignarráð kirkjunnar á 15. öld eða í byrjun 16. Þó geti verið um það vafi. Benda megi á að eigi síðar en á 14. öld hafi skipting landsins í afrétti verið komin nokkurn veginn í fast horf og fyrir siðaskipti hafi flestar kirkjur fengið þær eignir og hlunnindi sem þær bjuggu að síðar, jafnvel öldum saman. Það sé nokkuð sennilegt að kirkjan hafi frekar eignast afrétt eða beitarítök, þó þess sé ekki getið í Vilchinsmáldaga, og það hafi kannski ekki alltaf verið þörf á að skrásetja allt sem hafi verið á allra vitorði. Þegar frá leið aftur hafi þótt tryggara að færa það allt í letur sem kirkjunni var eignað.

Í 4. gr. laga nr. 59/1928 um friðun Þingvalla segi, að Þingvellir skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Hið friðlýsta land skuli vera undir vernd Alþingis og ævinlega í eign íslensku þjóðarinnar. Það megi aldrei selja eða veðsetja. Svo vilji til að mest það undirlendi sem samkvæmt þjóðlendulínu óbyggðanefndar sé talið eignarland á Þingvallasvæðinu, og þar með utan þjóðlendu, sé einmitt þjóðgarðurinn.

Þau sjónarmið sem mæli gegn beinum eignarrétti að hinu umþrætta landi séu, samkvæmt því sem að framan hafi verið rakið, þessi:

1. Í Landnámu sé upphaflegrar eignartöku umrædds landsvæðis ekki getið.

2. Lega landssvæðis þessa sé utan við kunn byggðamörk og langt frá öllu landi sem verið hafi í landbúnaðarnotkun.

3. Í Gíslamáldaga sé gerð grein fyrir því að kirkjan eigi annarsvegar heimaland allt, hinsvegar sé fjallið Skjaldbreiður skilgreint sérstaklega sem eign kirkjunnar. Samkvæmt heimildum frá 18. og 19. öld virðist umrætt land einungis vera nýtt sem afréttur á einn eða annan hátt.

4. Samkvæmt sóknarlýsingum Þingvallasóknar frá 1840 sé allt land umhverfis Skjaldbreið tilgreint sem afréttur og sagt að hann brúkist leigulaust.

5. Í makaskiptasamningnum frá 1896 sé hið selda umdeilda land kallað afréttarland Þingvalla.

Þær heimildir og sjónarmið sem frekar bendi til þess að allt land Þingvalla hafi legið innan marka eiginlegs heimalands séu hins vegar eftirfarandi:

1. Björn Þorsteinsson, sagnfræðingur, telji að mörk Þingvalla hafi lítið breyst frá upphafi og fram á 19. öld, og vísi til heimilda þar um.

2. Enginn hluti Þingvallalands, t.d. Skjaldbreiður, sé tilgreindur sem afréttur í máldögum eða vísitasíubókum, einungis sé talað um Skjaldbreiðarhraun.

3. Í lögfestu Markúsar Snæbjörnssonar frá 1740 sé land Þingvalla skilgreint án nokkurrar aðgreiningar í heimaland og afréttarland. Auk þess sé þar byggt á skýrum landamerkjum.

4. Í landamerkjaskrá Þingvalla 1896 sé engin aðgreining í afréttarland og heimaland.

5. Ef viðurkenna ætti, að hluti af landi Þingvalla hafi verið afréttur, í þeirri merkingu sem lögð hafi verið í það hugtak sem beitarrétt, vakni sú spurning hvar mörk þess afréttar og heimalands hafi verið. Tæplega verði markalínan úr makaskiptasamningnum frá 1896 lögð fortakslaust til grundvallar hvað það varði.

Stefndi telur að í ofangreindri upptalningu og í hinum sögulega bakgrunni sakarefnisins skipti öll upptalin atriði máli. Það er skoðun stefnda að þau atriði sem fyrr voru nefnd vegi þyngra í þessu mati og þessi sömu atriði séu jafnframt undirstöðurök fyrir þeirri kröfugerð stefnda að þrætulandið sé þjóðlenda. Stefndi kveðst byggja á því að eini réttur stefnanda til landsins hafi verið upprekstrarréttur og ekki annað. Jafnframt sé byggt á því að líta verði til efnis afsalsins og/eða makaskiptasamningsins. Stefndi kveður því svarað í afsalinu frá 7. september 1896, en þar segi orðrétt: „Ég, Jón Thorsteinssen, prestur á Þingvöllum afhendi Grímsneshreppi til lögfullrar eignar, afnota og umráða afréttarland það allt tilheyrandi Þingvallakirkju, ... “. Stefndi telur að hefði eignarland verið gjaldmiðillinn í þessum makaskiptasamningi, hefði ekki verið talað um afhendingu, það hefði verið talað um sölu. Ennfremur hefði þá verið talað um eignarland eða hluta úr jörð Þingvalla. Þess í stað komi skýrt fram að afhent sé til umráða afréttarland. Stefndi segir að í nokkur önnur skipti í afsalinu sé talað um landssvæðið sem afréttarland.

Orð og efni afsala skeri oftast úr um hvað selt er, og í þessu tilviki sé ótvírætt hvað selt er. Meginreglan sé sú að það selji enginn meira en hann á og enginn eignarréttur geti framselst ef viðsemjandi hafi ekki ráð á honum. Það sé alveg ljóst, að unnt sé að selja tiltekin afnot án þess að seldur sé grunnréttur. Þannig ráði orð og efni afsala miklu þegar skera þurfi úr um álitaefni, eins og það sem hér sé um að ræða.

Stefndi fjallar um þá málsástæðu stefnanda að í úrskurði óbyggðanefndar skorti fullnægjandi rökstuðning og að hann brjóti þannig gegn 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 16. gr. laga nr. 58/1998. Stefnandi telji rökstuðning aðallega skorta fyrir því hvort stefnandi hafi unnið eignarhefð á landinu. Þá gagnrýni hann að ekki sé fjallað um þýðingu þess að hjáleigur hafi verið stofnaðar í landi Þingvallajarðarinnar. Ennfremur geri hann athugasemd við það að óbyggðanefnd telji unnt að leggja markalínu makaskiptasamningsins fortakslaust til grundvallar við afmörkun þjóðlendu í landi Þingvalla. Stefndi kveðst algjörlega ósammála stefnanda hvað varði málsmeðferð og rökstuðning óbyggðanefndar. Kveðst hann telja að óbyggðanefnd hafi rökstutt niðurstöður sínar ítarlega og úrskurðurinn sé því í ágætu samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.

Um mörk heimalands og afrétta og sjónarmið í því sambandi vísar stefndi til fyrri umfjöllunar.

Stefndi mótmælir því að stefnandi geti hafa öðlast beinan eignarrétt með hefð.

Talið sé að hefðarréttur hafi ekki verið í fornlögum okkar, a.m.k. ekki í þeirri mynd sem við þekkjum hann. Lagaákvæði í bæði Grágás og Jónsbók um að almenningar skyldu vera sem að fornu hafi verið séu nefnd sem óræk sönnun þess, að nám landa utan byggðar hafi verið óheimilt og sömuleiðis hafi verið andstætt þessu lagaákvæði, að hefða slík landsvæði. Í þessu sambandi megi benda á Jónsbók Llb. 52. Ef menn vitu eigi, hvárt eru almenningar eða afréttir. Þar segi: „Svá skulu almenningar vera, sem at fornu hafa verit, bæði hit efra og hit ytra.“

Fyrstu lagaákvæði um hefð sé að finna í Norsku lögum frá 1687, V. bók 5. kap. Í 7. gr. laganna segi svo: „Enginn á að fá eignardóm að nokkurri fasteign, nema hann leiði lögfulla sönnun að heimild sinni, með erfðum, kaupum, eignaskiptum, gjöf eða 20 ára hefð, án þess að átalið hafi verið og að hann hafi þannig öðlast hana ákærulaust af öllum er kynnu að hafa haft einhverjar athugasemdir við það.“ Þegar þessi lög hafi tekið gildi hafi enn verið í gildi ákvæði Jónsbókar um að almenningar skyldu vera sem að fornu hafi verið og þessi hefðarlög hafi ekki afnumið Jónsbókarákvæðið, að minnsta kosti sé þess ekki getið. Einnig telji stefndi að orðið „fasteign“ beri að túlka á þann veg, að hún merki eignarjörð með byggingum eða bara byggingu eða hús. Lögin hafi því ekki tekið til afrétta eða almenninga og hafi því áfram verið óheimilt að hefða slík landsvæði.

Næstu lög um hefð séu lög nr. 46 frá 1905 sem enn séu í gildi hér á landi. Í 1. gr. þeirra segi að hefð megi vinna á hverjum hlut, jafnt fasteign sem lausafé, er geti verið eign einstakra manna, án tillits til þess, hvort hann hafi áður verið einstaks manns eign eða opinber eign. Þessi lög kveði enn á um réttinn til að hefða fasteignir sem undirorpnar séu beinum eignarrétti. Með gagnályktun frá lögunum sé því óheimilt að hefða eign sem ekki sé eða hafi verið eign einstakra manna eða stofnana eins og til dæmis eigi við um grunnréttinn að afréttum og almenningum, sem nú heiti þjóðlendur. Segja megi að þessi skoðun komi fram í Landmannaafréttardóminum síðari. Þar sé því slegið föstu, að afréttarlandsvæði sé einskis manns eign og af því leiði að slík landsvæði geti ekki verið eign í skilningi hefðarlaga vegna þeirrar kröfu laganna, að fasteign verði að geta verið eign einstakra manna. Við landnám hafi orðið til eignalönd og eigendalaus svæði utan þeirra. Þessum eigendalausu svæðum hafi einungis verið hægt að ráðstafa með lögum eftir að nám hérlendis hafi orðið óheimilt og þannig hafi hefð aldrei getað orðið frumstofnun landréttar hér á landi. Þessi regla sé lögfest í niðurlagsákvæði 3. greinar núgildandi laga um þjóðlendur en þar segi: „Frá og með gildistöku laga þessara er ekki unnt að öðlast eignarréttindi innan þjóðlendna fyrir nám eða hefð.“

Þá sé óslitið eignarhald skilyrði fyrir hefðarhaldi. Þetta hafi verið skýrt þannig, að hefðandi verði að hafa haft svo víðtæk ráð eignar, að þau bentu til eignarréttar og jafnframt þyrfti hann að hafa útilokað aðra frá því að ráða yfir eigninni. Í þessu sambandi skipti auðvitað miklu máli hvernig afnot séu og ekki síst girðingar umhverfis landareign. Land sé ekki í vörslum, nema það sé girt.

Hjáleigur hafi verið stofnaðar í landi Þingvallajarðarinnar á sama hátt og víða annars staðar á landinu. Þær hafi allar legið í þeim hluta jarðarinnar, sem samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar sé eignarland. Því sé vandséð hvaða gildi umfjöllun um þær hefðu haft í úrskurðinum.

Stefndi kveður stefnanda samkvæmt framansögðu á engan hátt hafa sýnt fram á að skilyrði hefðar séu til staðar varðandi hið umdeilda landsvæði.

Stefndi heldur því fram, með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, að almenn rök og samfelld réttarþróun allt til þjóðlendulaga hafi leitt í ljós, að stefndi sé í skilningi þjóðlendulaga og úrskurðar óbyggðanefndar eigandi að því afréttarsvæði sem hér sé til úrlausnar. Réttur þessi leiði til óskerts réttar stefnda til hvers konar jarðefna og námuvinnslu, jarðhita, vatnsafls og hagnýtingar þess, umferðar, fuglaveiða, dvalar og náttúruskoðunar fyrir landsmenn, en að virtum rétti afréttareigenda, sbr. 5. gr. þjóðlendulaga, til upprekstrar. Það liggi ljóst fyrir, að réttarþróun allt að núverandi stöðu mála sé á þá lund, að enginn hafi getað eignast grunnrétt að hálendissvæðum utan landnáma. Við athugun á því hvað felist í hugtökunum „almenningur“ og „afréttur“ séum við Íslendingar í þeirri einstæðu aðstöðu, að hafa skjallegar frásagnir um landnám Íslands, en þær frásagnir hafi verið taldar áreiðanlegar af sagnfræðingum. Samkvæmt þessum heimildum sé greint frá yfir 400 landnámum og sé hvergi getið um þau, nema þar sem um sé að ræða eignarlönd sem síðar hafi verið byggð. Einnig sé talið áreiðanlegt, að Jónsbók í núverandi afritum sýni hver lög voru talin gilda hér 1281. Þá sé einnig talið sannað, að eldri ákvæði um landbúnað og landnot hafi að miklu leyti verið tekin upp óbreytt í Jónsbók. Frá Jónsbók hafi öll réttarþróun verið á þá lund, að eigna ríkisheildinni á hverjum tíma grunnrétt að löndum utan eignarlanda og þá þau réttindi sem grunnrétti fylgi. Þessi þróun hafi m.a. falist í nýbýlatilskipun 1776, áliti landbúnaðarnefndar 1877, nýbýlalögum 1897, vatnalögum 1923, námulögum og síðar lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, t.d. áliti beggja hluta Fossanefndar 1917, náttúruverndarlaga og laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum svo að dæmi séu tekin.

Stefndi telur að nú á dögum verði einnig að taka tillit til nútímaviðhorfa réttarþjóðfélags. Í því tilliti beri að líta til þess grundvallaratriðis, að ríki sé óhugsandi nema það eigi landið undir sér. Frumeignarréttur að landi hljóti ávallt að vera á hendi ríkisheildarinnar, en einkaeignarréttur skuli vera innan þeirra marka sem beinar sannanlegar heimildir verði leiddar að.

Stefndi fjallar loks um fjárkröfur stefnanda. Stefnandi geri kröfu um greiðslu á 548.680 krónum, sem að sögn stefnanda sé fjárhæð eftirstöðva útlagðs kostnaðar hans vegna meðferðar mála sinna fyrir óbyggðanefnd. Af þessari fjárhæð séu 499.999 krónur mismunur á þeirri kröfu sem stefnandi geri í stefnu um greiðslu málflutningslauna og málskostnaðar samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar, dagsettum 21. mars 2002. Það sem eftir standi eða 48.681 króna sé mismunur á kröfðum kostnaði í stefnu og kröfðum kostnaði sem óbyggðanefnd hafi þegar greitt stefnanda samkvæmt framlögðum reikningum. Byggi stefnandi á því að umræddur mismunur hafi átt að greiðast úr ríkissjóði, sbr. 17. gr. laga nr. 58/1998, sbr. 7. gr. laga nr. 65/2000.

Í úrskurði óbyggðanefndar sem sé til umfjöllunar í málinu segi að kostnaður málsaðilja, annarra en fjármálaráðherra og Landsvirkjunar, ákvarðist sameiginlega 998.892 krónur og þar af útlagður kostnaður 198.892 krónur, sem greiddur skuli úr ríkissjóði. Málsaðilar hafi verið auk stefnanda, sjö jarðeigendur með kröfulýsingar. Ekki liggi fyrir í málinu hvort stefnandi hafi greitt meintan umframkostnað sinn og annarra aðila fyrir óbyggðanefnd og hvers vegna og á hvaða grundvelli hann geri nú kröfu á hendur stefnda fyrir hönd sömu málsaðila.

Í 1. mgr. 17. gr. þjóðlendulaga segi, að auk kostnaðar við rekstur óbyggðanefndar skuli greiða úr ríkissjóði nauðsynlegan kostnað annarra en ríkisins vegna hagsmunagæslu fyrir nefndinni. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segi, að óbyggðanefnd úrskurði um kröfur aðila vegna kostnaðar samkvæmt 1. grein. Við mat á kostnaði skuli enn fremur litið til þess hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli. Í 3. mgr. segi síðan, að nefndinni sé heimilt að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti telji hún málatilbúnað gefa tilefni til slíks.

Ekki verði annað ráðið af úrskurði óbyggðanefndar en að málskostnaðarákvörðun nefndarinnar hafi verið málefnaleg. Ákvörðunin sé byggð á þekkingu úrskurðaraðila á rekstri viðkomandi máls og væntanlega þeim tíma sem nefndin áætli að lögmenn hagsmunaaðila hafi lagt í málið miðað við umfang þess. Úrskurðaraðilar verði og að leggja mat á sanngjarnt og eðlilegt endurgjald miðað við þær lagaforsendur sem byggja verði á. Að mati stefnda hafi óbyggðanefnd augljóslega uppfyllt öll þessi skilyrði á málefnalegan hátt.

Ekki sé annað að sjá en að allur annar nauðsynlegur kostnaður málsaðila af rekstri óbyggðamálsins hafi verið greiddur samkvæmt framlögðum reikningum. Stefndi kveðst ekki fá séð að reikningi eða reikningum vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð 48.681 krónur hafi verið komið á framfæri við óbyggðanefnd. Ekki sé við aðra að sakast í þeim efnum en stefnanda sjálfan.

Við túlkun á 17. gr. þjóðlendulaga verði að líta til þess að óbyggðanefnd hafi verið bundin við lög við ákvörðun sína um kostnað vegna hagsmunagæslu. Það hafi aðilum og lögmönnum þeirra verið ljóst. Stefnandi hafi því mátt vita að hann ætti ekki lögvarða kröfu til þess að einhliða framsetning af hans hálfu á kostnaði, tímagjaldi eða tímafjölda yrði lagður til grundvallar. Líta beri til þess að nauðsynlegur kostnaður annarra en ríkisins vegna hagsmunagæslu fyrir nefndinni falli undir þann kostnað vegna starfa óbyggðanefndar sem greiddur sé úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna. Hafi nefndin átt úrskurðarvald þar um samkvæmt 2. mgr. 17. gr., svo sem stefnanda hafi verið ljóst. Í öðru lagi verði að túlka orð laganna um „nauðsynlegan kostnað“ þröngt, þannig að hann hafi verið óhjákvæmilegur og að því leyti háður mati nefndarinnar í einstökum tilvikum. Í þriðja lagi séu í 2. mgr. 17. gr. matsreglur, bæði um þá aðstöðu að fleiri hafi sameinast um að nýta sér aðstoð sömu lögmanna, og að líta beri sérstaklega til þess hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli. Í fjórða lagi sé heimilt að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti telji nefndin málatilbúnað hans gefa tilefni til slíks. Stefndi telur að ákvörðun óbyggðanefndar hafi verið í samræmi við 17. gr. laga nr. 58/1998. Engin tilefni séu til að endurskoða ákvörðun nefndarinnar þar sem stefnandi hafi ekki sannað að hún hafi verið ósanngjörn.

Stefndi kveður það skoðun sína, að hafi stefnandi, og þeir sem hann kann að vera í fyrirsvari fyrir, greitt hærri reikninga fyrir hagsmunagæslu sína fyrir óbyggðanefnd, án þess að bíða úrskurðar óbyggðanefndar, verði það að skoðast á eigin ábyrgð stefnanda sjálfs.

Stefndi kveður engin rök hafa verið færð í málatilbúnaði stefnanda fyrir þeirri fullyrðingu að málskostnaðarákvörðun óbyggðanefndar sé hvorki sanngjörn né eðlileg. Ekki hafi stefnandi heldur sýnt fram á, að óbyggðanefnd hafi hafnað greiðslu á tilteknum útlögðum kostnaði sem nefndin hefði átt að samþykkja en hafi ekki gert. Það sé hlutverk stefnanda að sýna fram á að á sér hafi verið brotið, telji hann svo vera. Það hafi hann ekki gert að mati stefnda. Stefnandi þurfi líka að sýna fram á, að hann hafi verið krafinn um þá fjárhæð sem hann geri kröfu til og líka að hann hafi greitt hana. Það hafi hann heldur ekki gert. Af öllu þessu leiði að sýkna beri stefnda af þessum kröfulið eins og reyndar af öðrum dómkröfum stefnanda í málinu.

Niðurstaða

Í atvikalýsingu hér að ofan og í málsástæðum aðila eru raktar heimildir fyrir afmörkun eignarlands Þingvallakirkju. Meðal þessara gagna eru Gíslamáldagi frá 1575, sem samkvæmt 16. gr. erindisbréfs konungs 1746 skyldi teljast áreiðanlegt og löggilt kirkjuregistur, sbr. konungsbréf frá 5. apríl 1749 sem enn er birt í lagasafni, þinglesin lögfesta Markúsar Snæbjörnssonar, Þingvallaprests, frá 1740 og landamerkjabréf Þingvalla frá 1. september 1886, gert á grundvelli landamerkjalaga frá 1882, þinglesið 7. júní 1890. Í öllum þessum heimildum kemur fram að fjallið Skjaldbreiður sé eign Þingvallakirkju. Skjaldbreiður liggur í nyrðri hluta þess svæðis sem hér er deilt um. Svæðið liggur að landi Þingvallakirkju, nú þjóðgarði, og eru engin náttúruleg merki á milli þess og lands þjóðgarðsins. Heimildir um hjáleigur Þingvallakirkju, sem stefnandi vísar til, benda til að minnsta kosti einhverrar byggðar forðum á svæðinu norðan Þingvallavatns. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, er rituð lýsing á Þingvallahreppi í október 1711 en þar segir: „Sagt er að fyrir pláguna stóru hafi í allri Þingvallasveit verið 50 býli, og að Hrafnabjörg hafi þá staðið í miðri sveit.“ Einnig er lýst landkostum Þingvallajarðarinnar: „Afrjett hefur staðurinn átt á Skjaldbreiðarhrauni, en hefur ekki brúkaður verið yfir 40 ár, lætur nú presturinn brúka fyrir afrjett Ármannsfell, Kvíindisfell og Gagnheiði. Fjallhagar eru svo að kalla óþrjótandi. Útigangur á vetur er hjer hinn allra besti og nærri að kalla óbilandi, og er hjer engum kvikpeningi fóður ætlað, nema kúm og nautum alleina.“ Umsögn Ingva Þorsteinssonar um gróðurfar fyrr á tímum  er í samræmi við þessa lýsingu. Hvergi í framangreindum heimildum er land Þingvallajarðarinnar afmarkað í heimaland og afréttarland. Allt framangreint þykir renna stoðum undir þá fullyrðingu stefnanda að land það sem Þingvallaprestur afsalaði Grímsneshreppi árið 1896 hafi verið hluti eignarlands Þingvallakirkju. Mörk þess eru í samræmi við landamerki Þingvallajarðarinnar, eins og þeim var lýst í framangreindum heimildum, löggiltum og þinglesnum, og eru þau óumdeild.

Stefndi leggur áherslu á að almennt sé nám frumstofn eignarréttar á landi. Byggir hann á því, að mörk eignarlanda og þjóðlendu séu þau sömu og landnámsmörk. Í úrskurði óbyggðanefndar og greinargerð stefnda eru raktar heimildir um landnám landsvæðisins sem liggur að Þingvöllum eða getgátur um landnám þar. Kemst stefndi að þeirri niðurstöðu að ekki sé að finna heimildir um að land hafi í öndverðu verið numið norðan Lyngdalsheiðar. Þá verði ekki séð að land austan Öxarár að Lyngdalsheiði og Kálfstindum hafi verið numið sérstaklega, en þetta svæði í vestri telur hann afmarkast af landnámi Ingólfs. Þó er einnig vísað til frásagnar Íslendingabókar um land Þóris kroppinskeggja, og getum að því leitt að það hafi að minnsta kosti náð yfir svæðið á milli Almannagjár og Hrafnagjár. Er það niðurstaða stefnda að allar þessar heimildir bendi til þess, að land hafi ekki verið numið á þessum slóðum, og því skorti grundvöllinn undir eignarréttarkröfu stefnanda, landnámið sjálft.

Af lýsingum þessum er ljóst að óvissa er um nám hins umdeilda landsvæðis í upphafi byggðar á Íslandi. Verður ekki framhjá því litið að tilvitnaðar sagnir eru ekki samtímaheimildir. Þykir ekki unnt að fallast á að jafn óljósar heimildir eða heimildaskortur geti hrakið staðfestar og löggiltar heimildir frá síðari tímum um eignarhald að landi. Sögnin um Þóri kroppinskeggja í Bláskógum virðist hins vegar benda til landnáms á Þingvöllum, en að engu er getið hversu langt inn til landsins það kann að hafa náð.

Stefndi lýsir því einnig, að eftir kristnitöku hafi kirkja verið reist á Þingvöllum, sem hafi verið gjöf Ólafs Haraldssonar Noregskonungs. Segir stefndi að kirkjunni hljóti að hafa verið lagðar til eignir, þar sem „engin dæmi séu þess að kirkjur hafi verið reistar á eyðistað þar sem enginn maður hafi verið til að sjá um hana að staðaldri.“ Telur hann þetta hafa verið almenningskirkju og þar með allsherjarfé „eins og talið sé að jörðin sjálf hafi verið.“ Einnig er vísað til þess að land Þóris kroppinskeggja í Bláskógum hafi orðið allsherjarfé vegna afbrots hans og verið lagt til Alþingisneyslu.

Ljóst má vera að Þingvallakirkja hefur ætíð haft nokkra sérstöðu vegna staðsetningar sinnar á þingstað þjóðarinnar og síðar þjóðgarði. Framangreind sögn úr Íslendingabók um Þóri kroppinskeggja, heimildir um þinghald á Þingvöllum, og meintur ágreiningur amtmanns og Þingvallaprests á fyrri hluta 18. aldar um rétt þingmanna til að nýta landið, eru vísbendingar um almannanytjar á landi og landgæðum í kringum þingstaðinn. Af þessu verður hins vegar ekki dregin sú ályktun að kirkjujörðin hafi verið einskonar almenningur án eignarhalds. Skjalfestar heimildir benda til þess, svo sem áður greinir, að landið ásamt Skjaldbreiði, hafi að minnsta kosti á þeim tíma er Gíslamáldagi var ritaður og síðan, verið talið eign Þingvallakirkju, enda þurfti samþykki konungs fyrir makaskiptunum árið 1896. Í Jarðabókinni segir: „Tún og hagar staðarins liggja undir stórfeldum skaða og átroðningi um alþingistímann … .“

Stefndi minnir á lög nr. 59/1928 um friðun Þingvalla, en þar segir í 4. gr. að Þingvellir skuli vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga og ævinlega í eigu íslensku þjóðarinnar. Bendir stefndi á að þjóðgarðurinn sé einmitt utan þjóðlendulínu. Ekki þykir nein ályktun verða dregin af þessu um stærð eignarlands Þingvallakirkju árið 1896. Það að Þingvallajörðin hafi samkvæmt heimildum ætíð verið í opinberri eigu, samræmist því að vörslumaður ríkiseigna var samningsaðili stefnanda. Eignin Þingvellir er ekki friðlýst fyrr en rúmum aldarfjórðungi síðar. Í byrjun 20. aldar hefði vegna makaskiptanna þurft sérstakt eignarnámsákvæði í lögum eða nýjan löggerning til þess að hið umdeilda svæði félli undir þjóðgarðinn.

Meginmálsástæða stefnanda er að úrskurður óbyggðanefndar sé efnislega rangur. Byggir hann þar fyrst og fremst á því, að hann hafi eignast hið umdeilda land með makaskiptasamningi 7. september 1896. Aðila greinir á um túlkun á orðalagi samningsins. Er skjalið birt hér að framan í heild (bls. 2-3). Í upphafi þess kemur fram, að löggerningurinn hafi átt sér ákveðinn lögboðinn aðdraganda. Í konungsbréfi frá 30. júní 1786 um sölu kirkjujarða var lagt bann við, að rýra eignir kirkna á nokkurn hátt. Í samræmi við þetta lagaboð hafði verið leitað eftir samþykki „hlutaðeigandi stjórnarvalda“ fyrir sölunni, og samþykki fengist til makaskiptanna. Síðan segir að Þingvallaprestur „ … afhendi Grímsneshreppi til lögfullrar eignar, afnota og umráða afrjettarland það allt, til heyrandi Þingvallakirkju, … “ og síðar í skjalinu: „Allt það afrjettarland Þingvallakirkju, þar með talið fjallið Skjaldbreiður, sem liggur fyrir austan nefnda markalínu er því upp frá þessu rjett eign Grímsneshrepps og honum heimil til allra löglegra afnota, með skilyrðum þeim og takmörkunum, sem nú skal greina.“ Skjal þetta var þinglesið án athugasemda.

Aðila greinir einkum á um hvaða skilning beri að leggja í notkun orðanna „afhendi“, „afnota og umráða“ og „afrjettarland“ í makaskiptaafsalinu. Dómurinn telur notkun þessara orða geta samræmst því að verið sé að afsala eignarlandi. Þá þykir dóminum aðdragandi þessa samnings, orðalag hans að öðru leyti og eðli viðskiptanna gefa eindregið til kynna, að aðilar samningsins hafi litið svo á að verið væri að afsala lögfullri eign. Er þá einkum vísað til þess að talað er um að afréttarlandið, þar með talið fjallið Skjaldbreiður, verði „rjett eign“ Grímsneshrepps. Einnig til þess að sú eign sem stefnandi afsalaði Þingvallakirkju, jörðin Kaldárhöfði, var óumdeilanlega háð einkaeignarrétti og er á sama hátt með svipuðu orðalagi lýst „lögleg eign Þingvallakirkju,“ og hún er afhent „… til fullrar eignar, umráða og afnota.“ Er það niðurstaða dómsins að orðalag skjalsins styðji þá fullyrðingu stefnanda, að aðilar hafi hér skipst á eignum sem báðar voru háðar beinum eignarrétti. Þær eldri eignarheimildir sem fyrir hendi eru, sem og lega landsins, styðja og þá niðurstöðu.

Hinu umdeilda landi var afsalað af forráðamanni Þingvallakirkju. Prestssetrið Þingvellir og eignir þess voru eins og aðrar kirkjujarðir konungseign, en þær eignir urðu síðar ríkiseignir. Það var því fulltrúi íslenska ríkisins, eins og málum var háttað á þeim tíma, sem gerði makaskiptasamninginn. Konungssamþykki lá fyrir. Þykir það illa samrýmast þessum gerningi að íslenska ríkið geri nú kröfu til þess að land þetta verði skilgreint sem þjóðlenda, þ.e. eins og það hafi ekki áður verið beinum eignarrétti háð. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 58/1998 er þjóðlenda: „Landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar eða lögaðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi.“ Kaupandi landsins, stefnandi, verður að teljast hafa haft réttmætar væntingar til þess að um eignarland væri að ræða, enda lét hann á móti eignarjörð sína Kaldárhöfða. Samkvæmt því sem fram kemur í málsgögnum var verðmæti þessara tveggja eigna metið sambærilegt og hafði hvor aðila um sig sérstaka hagsmuni af skiptunum. Söguleg rök styðja þá tilgátu að Þingvallaprestur hafi talið sig aðallega hafa haft útgjöld og erfiði af Skjaldbreiðarsvæðinu þar sem hann hafi þurft að kosta þar leitir og refaveiðar, en Grímsneshreppur hafi sóst eftir því til beitar. Landsvæðið liggur innan þeirra marka sem lýsingar á landi Þingvallakirkju taka til. Hvergi er þar landi skipt í heimaland og úthaga, og hvergi er talað um annað en „eign“. Heimildir benda því ekki til annars en að landsvæði þetta hafi áður verið talið hluti Þingvallajarðarinnar. Þykir nýting landsins ein og sér ekki geta ákvarðað eignarréttarlega stöðu þess.

Niðurstaða dómsins er að heimildir varðandi beinan eignarrétt að hinu umdeilda landi séu það ótvíræðar, að leggja beri á stefnda sönnunarbyrði fyrir því að aðrar ástæður eða heimildir um eignarréttarlega stöðu þess eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu að landsvæði þetta sé þjóðlenda, og að stefnandi eigi þar einungis óbeinan eignarrétt í formi afréttarnota. Framangreind rök stefnda, að því er varðar stofnun grunneignarréttar að landinu og almannanot, þykja ekki fullnægjandi til að hnekkja eignarheimildum stefnanda.

Stefndi byggir einnig á því að við ákvörðun á eignarréttarlegri stöðu lands, þegar þjóðlenda sé afmörkuð, skipti miklu máli hvernig landkostum og nýtingu sé og hafi verið háttað. Kveður hann heimildir eindregið benda til þess að hið umdeilda landsvæði hafi verið afréttarland, sbr. til dæmis orðalag makaskiptasamningsins „ … afhendi Grímsneshreppi til lögfullrar eignar, afnota og umráða afrjettarland það allt … “. Í Gíslamáldaga komi fram að landið sé einungis nýtt sem afréttur, og hið sama komi fram í sóknarlýsingu frá 1840. Afréttur sé að jafnaði ekki undirorpinn beinum eignarrétti þó þar kunni að vera staðfest beitarítök. Telur hann að einnig verði að gera ríkari kröfur til sönnunar fyrir eignarrétti þegar um hálendisvíðáttur sé að ræða.

Dómurinn fór á vettvang í byrjun septembermánaðar. Skyggni var gott og var ekið um og umhverfis svæðið svo sem aðstæður leyfðu. Með í för voru lögmenn aðila, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps og fyrrverandi oddviti, Böðvar Pálsson, sem var leiðsögumaður. Lýsti hann afréttum og smölun á svæðinu síðustu áratugi. Virtust landkostir vera frekar rýrir að sjá, en samkvæmt framangreindri umsögn Ingva Þorsteinssonar er gróður á svæðinu fjölbreyttur. Einkum eru hlíðar Skjaldbreiðar grónar, en landið er mjög þurrt, mikill sandur berst um svæðið og gróðureyðing er mikil. Telur Ingvi hins vegar víst að svæðið hafi verið næstum algróið við upphaf landnáms. Virðist svo enn hafa verið í byrjun 18. aldar þegar Árni Magnússon og Páll Vídalín könnuðu landgæði, sbr. þá umsögn þeirra að fjallhagar væru nær óþrjótandi. Ekki nefna þeir ástæðu þess að Þingvallaprestur hafði lengi notað aðra afrétti en Skjaldbreiðarhraun. Heimildir um byggð, hjáleigur, í Þingvallalandi og sú sögn að bærinn Hrafnabjörg hafi legið í miðri fjölmennri sveit, benda einnig til þess að landkostir hafi í öndverðu verið aðrir en nú eru. Svæðið er í 150 til 200 metra hæð á suðurmörkum þess, en hækkar inn til landsins. Fjallið Skjaldbreiður er 1060 metra hátt.

Það þykir ekki einhlítt til niðurstöðu og verður ekki á því byggt, að um gróðurlítið svæði eða fjalllendi sé að ræða, ef fyrir liggja heimildir um eignarhald. Í tilvitnuðum heimildum kemur ítrekað fram að fjallið Skjaldbreiður sé eign Þingvallakirkju. Skjaldbreiður er á hinu umdeilda svæði og stærstur hluti þess annar liggur frá fjallinu í átt til Þingvallavatns og var vel gróið samanber það sem áður segir. Fyrir liggur, samkvæmt bókun í bréfa- og bréfadagbók Grímsneshrepps 11. maí 1895, að stefnandi sóttist eftir landinu í lok 19. aldar vegna landgæða þess og hagsmuna sinna. Í ljósi þessara heimilda þykja upplýsingar um gróðurfar og hæðarlínur ekki renna stoðum undir þá fullyrðingu að svæðið teljist þjóðlenda.

Verður nú vikið að þýðingu þess að hið umdeilda land hefur lengi verið nýtt til beitar. Í 1. gr. laga nr. 58/1998 er hugtakið afréttur þannig skilgreint: „Landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé.“ Í greinargerð með lögum þessum er fjallað um hugtakið afrétt almennt og í lögum. Vikið er að því að með afrétti sé almennt átt við tiltekið, afmarkað landsvæði, en að skiptar skoðanir séu um hvort einungis geti verið um beitarrétt eða annan afnotarétt að ræða, þ.e. hvort slíkt landsvæði geti ýmist verið undirorpið beinum eða óbeinum eignarrétti. Samkvæmt athugasemdum við 1. gr. laganna er hins vegar ljóst, að í þeim lögum er hugtakið afréttur „skilgreint út frá beitarnotum fyrir búfé og ráðast mörk afréttar þannig af því landsvæði sem sannanlega hefur verið nýtt til sumarbeitar fyrir búpening.“ Hins vegar er einnig ljóst, að lögunum er ekki ætlað að breyta eignarheimildum að landi, þótt það hafi verið nýtt til beitar.

Hugtakið „afréttur“ er eignarréttarlegt hugtak sem vísar oftast til óbeins eignarréttar, þ.e. beitarítaks. Það á almennt við um afmarkað landsvæði, sem er utan eiginlegrar byggðar. Landsvæði það sem hér er deilt um hefur lengi verið nýtt sem afréttarland, en líkur eru fyrir því, samkvæmt lýsingu á landgæðum fyrr á tímum, að nýting þess hafi í öndverðu verið fjölbreyttari. Svo virðist sem dómstólar geri ríkari kröfur til sönnunar um beint eignarhald á landi sem nýtt er til beitar, þó hafa sönnunarreglur hér um ekki verið lögbundnar og er litið til aðstæðna í hverju tilviki fyrir sig þegar þýðing landsnytja er metin. Staðfest er að afréttarland getur verið og er á stundum háð beinum eignarrétti. Einnig er viðurkennt að þótt eignarland sé lagt til afréttar breytist ekki eignarhald þess.

Stefndi vísar í greinargerð sinni til heimilda um upprekstur, leitir og afréttarsvæði Þingvalla og nærliggjandi sveitarfélaga. Tilvitnaðar heimildir eru yngri en makaskiptasamningurinn. Hvorki í greinargerð stefnda né í úrskurði óbyggðanefndar er lýst skipulagi fjallskila á hinu umdeilda svæði. Ekkert annað hefur komið fram en að smölun á svæði þessu sé í samræmi við einkaeignarrétt stefnanda. Upplýst er að áður en makaskiptasamningurinn var gerður föluðust Grímsnesingar eftir því að taka landið á leigu, en ekki var á það fallist. Náðist í framhaldi samkomulag um söluna. Ekki liggur annað fyrir en að Grímsneshreppur hafi séð um smölun á þessu svæði eftir að makaskiptin áttu sér stað.

Stefndi byggir á því að með dómi Hæstaréttar frá 31. maí 1926 sé skorið úr um að hið umdeilda landsvæði sé afréttur en ekki eignarland. Niðurstaða Hæstaréttar var að Þingvallahreppi væri ekki heimilt að leggja aukaútsvar á Grímsneshrepp vegna upprekstrarréttar sem Grímsneshreppur ætti í Þingvallahreppi. Þingvallahreppur byggði kröfu sína á því að Grímsneshreppur hefði árið 1896 eignast, samkvæmt konungsúrskurði, landspildu í hreppnum og bæri því að greiða útsvar til Þingvallahrepps. Grundvöllur heimildar til útsvarsálags var ábúð eða leiguliðaafnot af jörð eða jarðarhluta „sem einhvern arð gefa, í sveitarfjelagi utan síns lögheimilis“. Í úrskurði fógetaréttar vegna málsins kemur fram að upplýst sé talið að Grímsneshreppur hafi „notað greinda afrjettarspildu til uppreksturs sauðfjár á sumrum og annars ekki“. Voru þessi not ekki talin falla undir greind undantekningarákvæði. Í úrskurðinum kemur einnig fram að „afrjettarspilda þessi [sé] ekki metin til fasteignaverðs, fremur en aðrar afrjettir.“ Í dóminum er fjallað um undantekningarákvæði sem heimiluðu skattlagningu á arð af tilgreindum notum. Ekki verður fallist á það með stefnda að dómur þessi skeri úr um eðli eignarhalds á landinu.

Niðurstaða dómsins um eignarrétt að hinu umdeilda landi er sú, með vísan til alls þess sem hér að framan er rakið, að þegar makaskiptin voru gerð árið 1896 hafi Skjaldbreiður og svæðið í kringum hana, sem afmarkað er í kröfugerð stefnanda, verið háð beinum eignarrétti, sem hluti af landi Þingvallakirkju. Lýsing landamerkja er hér óumdeild og ríkið var sjálft seljandi landsins. Breytir það ekki þessari niðurstöðu þó að vísað sé til landsins sem afréttarlands í makaskiptasamningnum. Það útilokar ekki að land sé undirorpið einkaeignarrétti að það hafi verið nýtt til beitar á þeim tíma sem samningurinn var gerður, og það af öðrum en umráðamanni landsins, né heldur breytir það eignarréttarlegri stöðu landsins að það sé lagt til afréttar. Ekki hefur verið sýnt fram á annað en að þær upplýsingar sem fyrir liggja um smölun á svæðinu séu í samræmi við beinan eignarrétt stefnanda. Hæstaréttardómur frá 1926 byggir á nýtingu landsins, en fjallar ekki um eignarrétt á því, og athugasemd um fasteignagjöld raskar ekki heimildum um eignarrétt. Stefnda þykir ekki hafa tekist að hrekja fyrirliggjandi heimildir um að land þetta hafi verið háð beinum eignarrétti. Ekki hefur annað komið fram í málinu en að stefnandi hafi, síðan makaskiptin voru gerð, litið á land þetta sem sína eign og nýtt það sem slíkt. Hann hefur eignarheimild fyrir landinu sem þinglesin var án athugasemda fyrir meira en 100 árum. Þá er ekki annað komið fram í málinu en að stefnandi hafi frá gerð makaskiptasamningsins gengið út frá því að hann sé réttur eigandi landsins og eigendur granneigna virt eignarrétt hans. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sérstaklega litið til þess í úrlausnum sínum um eignarrétt hvaða væntingar menn máttu hafa um eignarhald sitt, þegar litið var til athafna eða athafnaleysis ríkisvalds gagnvart réttindunum. Eignarréttur stefnanda nýtur verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var með samnefndum lögum nr. 62/1994.

Að þessari niðurstöðu fenginni þykir ekki ástæða til að fjalla nánar um aðrar málsástæður aðila.

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu er tekin til greina krafa stefnanda um að fella úr gildi úrskurð óbyggðanefndar frá 21. mars 2002 í máli nr. 2/2000: Grímsnesafréttur og jarðir umhverfis Lyngdalsheiði í Grímsnes- og Grafningshreppi, að því leyti sem úrskurðurinn tekur til lands, sem Grímsneshreppur fékk í makaskiptum við Þingvallakirkju 7. september 1896.

Mál þetta er lagt fyrir dóminn á grundvelli niðurstöðu óbyggðanefndar. Hlutverk hennar er að skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna, mörk slíkra svæða og eignarlanda, mörk þjóðlendu sem nýtt er sem afréttur, og um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laga nr. 58/1998. Stefnandi hefur byggt málatilbúnað sinn á því að niðurstaða óbyggðanefndar sé efnislega röng þar sem hann eigi beinan eignarrétt að hinu umþrætta landi og hefur dómurinn fallist á það. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu og 19. gr. laga 58/1998 þykir verða að vísa kröfu stefnanda um að fá sérstakan viðurkenningardóm um eignarrétt sinn frá dómi án kröfu.

Stefnandi gerir jafnframt kröfu um greiðslu á 548.680 krónum auk vaxta. Kveður hann kröfu þessa til komna vegna þess að óbyggðanefnd hafi vanmetið útlagðan kostnað og málflutningsþóknun við rekstur málsins fyrir nefndinni. Stefnandi kveður útlagðan kostnað sinn vegna gagnaöflunar og kortagerðar hafa verið 247.573 krónur, en lögmannskostnað 1.299.999 krónur, samtals 1.547.572 krónur. Dragi hann innborganir óbyggðanefndar frá, 198.892 krónur vegna útlagðs kostnaðar og 800.000 krónur vegna málsvarnarþóknunar og fái þannig umkrafða fjárhæð. Óbyggðanefnd kvað í úrskurði sínum á um að stefnandi, Grímsnes- og Grafningshreppur, ásamt öðrum aðilum að málinu sem voru með sama lögmann, skyldu sameiginlega fá framangreindar upphæðir.

Stefnandi hefur lagt fram greidda reikninga vegna útlagðs kostnaðar að fjárhæð 245.573 krónur, og greiddan reikning fyrir lögfræðiaðstoð vegna vinnu við óbyggðamál, að fjárhæð 499.999 krónur. Krafa stefnanda um útlagðan kostnað er í samræmi við reikninga þessa, þótt skeiki um 2.000 krónur.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 58/1998 úrskurðar óbyggðanefnd um útlagðan kostnað og málflutningsþóknun vegna meðferðar máls fyrir nefndinni.

Óbyggðanefnd rökstyður ekkert niðurstöðu sína um málskostnað. Útlagður kostnaður er sannanlega greiddur. Stefnandi hefur fært þau rök fyrir kröfunni að lög nr. 58/1998 hafi á þeim tíma gert landeigendum nauðsynlegt að gera ítrustu kröfur fyrir óbyggðanefnd áður en þeir hafi vitað hvaða kröfur ríkið myndi gera og hafi kostnaður af þeim sökum orðið hár. Hefur þessari tilhögun síðar verið breytt með lögum nr. 65/2000. Í ljósi þessa þykir rétt að taka umframkostnað stefnanda 46.681 krónu til greina, enda er krafan studd fullnægjandi gögnum.

Ekki liggur fyrir sundurliðun lögmannskostnaðar eða tímaskýrsla. Stefnandi skýrði kröfu sína ekki frekar en að framan greinir við meðferð málsins fyrir dómi. Ekki liggur fyrir hvaða upplýsingar um vinnu lögmanns lágu fyrir óbyggðanefnd, hvaða kröfur voru þar gerðar eða á hverju ákvörðun hennar er byggð. Hitt er ljóst að nefndin hefur þar visst mat. Af fyrirliggjandi gögnum er ekki er unnt að leggja dóm á það hvort ákvörðun nefndarinnar um lögmannsþóknun hafi verið réttmæt.

Þykir þessi hluti kröfu stefnanda því vera vanreifaður, og verður honum vísað frá dómi án kröfu.

Samkvæmt niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 skal stefndi greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 1.200.000 krónur og hefur virðisaukaskattur þá ekki verið reiknaður.

Dóm þennan kveða upp Hjördís Hákonardóttir, dómstjóri, Arngrímur Ísberg héraðsdómari og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

D ó m s o r ð

Úrskurður óbyggðanefndar frá 21. mars 2002 í máli nr. 2/2000: Grímsnesafréttur og jarðir umhverfis Lyngdalsheiði í Grímsnes- og Grafningshreppi er felldur úr gildi, að því leyti sem úrskurðurinn tekur til lands, sem Grímsneshreppur fékk í makaskiptum við Þingvallakirkju 7. september 1896.

Kröfu stefnanda, Grímnes- og Grafningshrepps, um að viðurkenndur verði beinn eignarréttur hans að sama landi er vísað frá dómi.

Stefndi, íslenska ríkið, skal greiða stefnanda 46.681 krónu. Að öðru leyti er fjárkröfu stefnanda vísað frá dómi.

Stefndi skal greiða stefnanda 1.200.000 krónur í málskostnað.