Print

Mál nr. 845/2017

Samtök sparifjáreigenda (Hróbjartur Jónatansson lögmaður)
gegn
Hreiðari Má Sigurðssyni (Hörður Felix Harðarson lögmaður), Ingólfi Helgasyni (enginn), Magnúsi Guðmundssyni (sjálfur), Ólafi Ólafssyni (Þórólfur Jónsson lögmaður) og Sigurði Einarssyni (Gestur Jónsson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun

SP höfðaði mál vegna tjóns sem lífeyrissjóðurinn SL taldi sig hafa orðið fyrir vegna viðskipta með hlutabréf í K hf. en SL hafði framselt SP skaðabótakröfu sem SL taldi sig eiga af þessum sökum. Staðhæfði SP að H, I, M, Ó og S hefðu á árunum 2007 og 2008 staðið að markaðsmisnotkun til að halda uppi verði á hlutabréfum í K hf. og valdið þannig hluthöfum, meðal annars SL, í félaginu tjóni. Í dómi Hæstaréttar var fallist á með SP að honum nægði að reisa staðhæfingar í málatilbúnaði sínum um saknæma háttsemi H, I, M, Ó og S á tilvísun til dóma Hæstaréttar í málum nr. 498/2015 og 145/2014 að því leyti sem hann byggði á sakarefni þeirra enda hefðu þeir dómar fullt sönnunargildi um þau atvik sem þar greindi, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varðandi önnur atriði sem SP byggði á taldi dómurinn að eins og málið lægi fyrir væru málsástæður SP um saknæma og ólögmæta háttsemi H, I, M, Ó og S verulega vanreifaðar og litlum gögnum studdar. Þá kom fram að þótt rétt væri hjá SP að engu gæti breytt um óskipta skaðabótaábyrgð H, I, M, Ó og S hvort hlutur hvers þeirra í ætlaðri saknæmri háttsemi kynni að hafa verið misjafn mætti vera ljóst að slík skaðabótaábyrgð gæti ekki fallið á einstaka varnaraðila vegna atvika sem kynnu að hafa gerst áður en þeir áttu hlut að máli. Þá kom einnig fram að reifun SP á atriðum varðandi umfang tjóns hans hefði verið háð verulegum annmörkum. Var því staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar og málinu vísað frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 3. janúar 2018. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 8. desember 2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild var í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson, Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson krefjast hver fyrir sitt leyti staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefjast varnaraðilarnir Hreiðar, Magnús og Sigurður kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn Ingólfur Helgason hefur ekki látið málið til sín taka.

I

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila átti Stapi lífeyrissjóður hlutabréf í Kaupþingi banka hf. 1. nóvember 2007, sem hann hafði keypt fyrir samtals 4.230.351.596 krónur, og keypti hann síðan frá þeim tíma fram til 7. ágúst 2008 þessu til viðbótar hlutabréf í félaginu fyrir alls 2.161.176.732 krónur. Á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 þar til Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki til að víkja stjórn Kaupþings banka hf. frá, taka yfir vald hluthafafundar í félaginu og setja yfir það skilanefnd hafi lífeyrissjóðurinn selt hlutabréf í því fyrir samtals 5.455.837.008 krónur og fengið að auki arð af hlutabréfum sínum að fjárhæð alls 33.197.560 krónur. Síðastgreindan dag hafi hlutabréf í félaginu orðið verðlaus, en lífeyrissjóðurinn hafi þá átt eftir 196.108 hluti í því. Sóknaraðili segir tap lífeyrissjóðsins vegna þessara viðskipta hafa þannig orðið 902.493.733 krónur. Sóknaraðili kveður lífeyrissjóðinn hafa eftir þetta framselt sér áðurnefnda 196.108 hluti ásamt skaðabótakröfu, sem hann kynni að eiga vegna þessara viðskipta með hlutabréf í Kaupþingi banka hf.

Sóknaraðili vísar til þess að varnaraðilinn Hreiðar hafa verið forstjóri Kaupþings banka hf. frá árinu 2003 þar til skilanefnd hafi samkvæmt áðursögðu verið sett yfir félagið. Varnaraðilinn Ingólfur hafi verið forstjóri yfir starfsemi Kaupþings banka hf. á Íslandi fram til sama tíma. Varnaraðilinn Magnús hafi verið forstjóri dótturfélags Kaupþings banka hf. í Luxembourg frá 1998 til 2010. Þá hafi varnaraðilinn Sigurður verið formaður stjórnar Kaupþings banka hf. frá árinu 2003 til 9. október 2008. Loks hafi varnaraðilinn Ólafur eða félög í eigu hans verið næst stærsti hluthafinn í félaginu allar götur frá árinu 2003, en á þeim grunni hafi hann „átt sérlegan fulltrúa“ í stjórn þess, svo sem komist er að orði í málatilbúnaði sóknaraðila.

Sóknaraðili staðhæfir að varnaraðilarnir hafi á árunum 2007 og 2008 staðið að markaðsmisnotkun til að halda uppi verði á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. og valdið þannig hluthöfum í félaginu tjóni með því annars vegar að blekkja þá til að kaupa hlutabréf í félaginu á of háu verði og hins vegar að selja þau ekki áður en þau urðu verðlaus. Stapi lífeyrissjóður, sem sóknaraðili leiði rétt sinn frá, hafi verið meðal þeirra, sem hafi orðið fyrir tjóni af þessum sökum. Á þessum grunni höfðaði sóknaraðili mál þetta með stefnu 9. febrúar 2016 og krefst þess að varnaraðilum verði óskipt gert að greiða sér aðallega 902.493.733 krónur en til vara aðra lægri fjárhæð með nánar tilgreindum vöxtum frá 9. október 2008 til greiðsludags. Að þessu frágengnu krefst sóknaraðili þess að viðurkennd verði óskipt skaðabótaskylda varnaraðila gagnvart sér vegna fjártjóns síns, sem hafi hlotist af markaðsmisnotkun varnaraðila með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 9. október 2008. Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili jafnframt málskostnaðar.

II

Í málatilbúnaði sóknaraðila er byggt á því að markaðsmisnotkun, sem hann telur varnaraðila hafa staðið að í starfsemi Kaupþings banka hf. og valdið hafi því tjóni sem hann leitar skaðabóta fyrir, hafi verið fólgin í sex atriðum.

Í fyrsta lagi vísar sóknaraðili til þess að í dómi Hæstaréttar 6. október 2016 í máli nr. 498/2015 hafi þótt sannað að varnaraðilarnir Hreiðar, Ingólfur og Sigurður hafi á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 8. október 2008 staðið að því að deild eigin viðskipta innan Kaupþings banka hf. hafi keypt verulegan hluta af hlutabréfum í félaginu, sem seld hafi verið í svonefndum sjálfvirkum pörunarviðskiptum í kauphöll, og látið með því líta svo út að spurn væri eftir hlutabréfunum, sem í raun hafi ekki verið fyrir hendi. Með þessu hafi verði á hlutabréfunum verið haldið uppi og það ekki ráðist af framboði og eftirspurn á markaði. Hafi þessir varnaraðilar verið sakfelldir í dóminum fyrir að hafa brotið á þennan hátt gegn 117. gr., sbr. 146. gr., laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Í öðru lagi hafi varnaraðilarnir Hreiðar, Ingólfur og Sigurður í sama dómi verið sakfelldir fyrir að hafa brotið gegn áðurnefndum ákvæðum laga nr. 108/2007 með því að hafa staðið að því að Kaupþing banki hf. seldi hlutabréf í félaginu, sem hafi safnast fyrir með fyrrgreindum kaupum, til þriggja félaga í stórum viðskiptum, sem hafi farið fram utan kauphallar. Þetta hafi verið gert meðal annars með þeim skilmálum að félögin þrjú fengju lán frá Kaupþingi banka hf. til kaupanna án þess að setja aðrar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánanna en hlutabréfin, sem keypt voru. Með þessum viðskiptum hafi ranglega verið látið líta svo út að kaupendurnir hafi borið áhættu af kaupunum, sem hafi í raun hvílt á Kaupþingi banka hf., og hafi þetta leitt til þess að verði á hlutabréfum í félaginu hafi verið haldið uppi í stað þess að ráðast af framboði og eftirspurn á markaði. Í dóminum hafi varnaraðilinn Magnús einnig verið sakfelldur fyrir hlutdeild í broti hinna þriggja í einum af þessum viðskiptum.

Í þriðja lagi vísar sóknaraðili til þess að rakið sé í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði að Kaupþing banki hf. hafi á því ári veitt félögum í eigu varnaraðilans Ólafs lán að fjárhæð 280.000.000 evrur til að greiða skuldir þeirra við tiltekinn erlendan banka, sem tryggðar hafi verið með veði í hlutabréfum félaganna í Kaupþingi banka hf. Með þessu hafi verið komið í veg fyrir að erlendi bankinn leitaði fullnustu á kröfum sínum með því að ganga að hlutabréfunum, en Kaupþing banki hf. hafi í staðinn fengið tryggingu í bréfunum og eftir það borið af þeim alla markaðsáhættu. Á þennan hátt hafi því verið forðað að verulegur fjöldi hlutabréfa í félaginu færi á markað, en hefði það gerst hefðu þau lækkað mjög í verði. Telji sóknaraðili „engin lagaskilyrði“ hafa verið fyrir þessari ráðstöfun Kaupþings banka hf., en um hana hafi varnaraðilar allir sammælst.

Í fjórða lagi byggir sóknaraðili á því að í sömu skýrslu komi fram að Kaupþing banki hf. hafi frá árinu 2004 boðið starfsmönnum sínum að kaupa hlutabréf í félaginu með lánum frá því, veitt starfsmönnum kauprétt að hlutabréfum og tryggt þeim sölurétt. Í byrjun október 2008 hafi samanlögð fjárhæð slíkra lána numið um 60.000.000.000 krónum, en fyrir þeim hafi ekki verið aðrar tryggingar en veð í hlutabréfunum. Þegar verð á bréfunum hafi farið að lækka á árinu 2007 og andvirði þeirra ekki lengur nægt til tryggingar fyrir lánunum hafi varnaraðilarnir Hreiðar, Ingólfur og Sigurður ákveðið að Kaupþing banki hf. myndi ekki neyta réttar til að kalla eftir frekari tryggingum og um leið meinað starfsmönnum félagsins að selja hlutabréfin. Í kjölfarið hafi þeir samþykkt að gefa eftir ábyrgð starfsmannanna á endurgreiðslu þessara lána að því leyti, sem andvirði hlutabréfanna nægði ekki til uppgjörs á lánunum. Með þessu hafi verið komið í veg fyrir mikið framboð hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. á markaði og hafi verði þeirra verið haldið þar uppi með þessum ráðstöfunum.

Í fimmta lagi kveður sóknaraðili Gnúp fjárfestingafélag ehf. hafa 11. desember 2007 selt verulegan fjölda hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. annars vegar til Giftar fjárfestingarfélags ehf. og hins vegar AB 57 ehf. Fyrir þeim kaupum í heild hafi Kaupþing banki hf. veitt lán, til fyrrnefnda kaupandans að fjárhæð 20.000.000.000 krónur og þess síðarnefnda 3.000.000.000 krónur. Fyrir 16.000.000.000 krónum af láni til þess fyrrnefnda hafi verið veitt veð í hlutabréfunum, en engin trygging hafi verið sett fyrir láninu að öðru leyti. Sóknaraðili telji að verð á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. hefði lækkað ef svo verulegur fjöldi bréfa hefði verið boðinn til sölu á markaði og hafi því „stjórnendur bankans“ tryggt „óeðlilegt verð“ á bréfunum í andstöðu við b. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.

Í sjötta lagi vísar sóknaraðili til þess að með dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014 hafi varnaraðilarnir Hreiðar, Magnús, Ólafur og Sigurður verið sakfelldir meðal annars fyrir brot gegn 117. gr., sbr. 146. gr., laga nr. 108/2007 með því að hafa staðið að nánar tilgreindum viðskiptum með rúmlega 5% af heildarhlutafé í Kaupþingi banka hf., sem bankinn hafi í september 2008 selt félagi í eigu nafngreinds erlends manns. Hafi með opinberri umfjöllun um viðskiptin verið látið líta svo út að kaupandinn hafi greitt fyrir hlutabréfin með eigin fjármunum og lýst með kaupunum trausti á Kaupþingi banka hf., en sóknaraðili kveður bankann hafa í raun „með talsverðri launung“ veitt lán fyrir öllu kaupverði bréfanna og borið alla áhættu af viðskiptunum. Hafi því einnig verið leynt að varnaraðilinn Ólafur hafi að helmingi staðið að baki kaupunum og átt að njóta að því leyti hugsanlegs ábata af þeim. Telji sóknaraðili að markaðsmisnotkun, sem í þessu hafi falist, hafi haft veruleg áhrif á verðbréfamarkaði, enda hafi lækkun á verði hlutabréfa í Kaupþingi banka hf., sem hafi verið nær samfelld frá 2007 „stöðvast við tilkynninguna“ um þessi viðskipti og gengi á bréfunum tekið „í kjölfarið skyndilega kipp upp á við.“

III

Fallast verður á með sóknaraðila að honum nægi að reisa staðhæfingar í málatilbúnaði sínum um saknæma háttsemi varnaraðila á tilvísun til áðurnefndra dóma Hæstaréttar 12. febrúar 2015 og 6. október 2016 að því leyti, sem hann byggir á sakarefni í þeim í máli þessu, enda hafa þeir dómar fullt sönnunargildi hér um þau atvik, sem í þeim greinir, þar til það gagnstæða yrði sannað, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í málinu er um slíkar tilvísanir í dóma þessa að ræða varðandi þrjú af þeim sex atriðum, sem áður var lýst og sóknaraðili telur fela í sér skaðabótaskylda háttsemi varnaraðila. Um hin atriðin þrjú á þetta á hinn bóginn ekki við. Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti eru málsástæður sóknaraðila um saknæma og ólögmæta háttsemi varnaraðila í þeim tilvikum verulega vanreifaðar og virðast þær litlum sem engum gögnum studdar. Í því sambandi er þess að gæta að skírskotanir til áðurnefndrar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis verða engan veginn lagðar að jöfnu við tilvísanir til dóma, sem hafa í máli þessu bindandi áhrif eftir fyrrgreindu ákvæði laga nr. 88/2008.

Eins og áður var lýst snúa dómkröfur sóknaraðila að tjóni, sem hann telur Stapa lífeyrissjóð hafa orðið fyrir í viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 9. október 2008. Í dómi Hæstaréttar 6. október 2016 voru varnaraðilarnir Hreiðar, Ingólfur og Sigurður sem fyrr segir sakfelldir fyrir að hafa staðið að markaðsmisnotkun í viðskiptum með hlutabréf í félaginu á þessu tímabili öllu. Þá var varnaraðilinn Magnús jafnframt sakfelldur fyrir hlutdeild í einu broti hinna varnaraðilanna þriggja, sem framið var í nánar tilgreindum viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. 25. mars 2008. Í dómi réttarins 12. febrúar 2015 voru varnaraðilarnir Hreiðar, Magnús, Ólafur og Sigurður jafnframt sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun í viðskiptum með hlutabréf í félaginu á tímabili, sem hófst 22. september 2008. Þessir dómar taka sem áður segir til þriggja af þeim sex tilvikum, þar sem sóknaraðili heldur fram að varnaraðilar hafi bakað sér skaðabótaskyldu með markaðsmisnotkun. Í einu af hinum tilvikunum þremur er tiltekið í málatilbúnaði sóknaraðila að atvik hafi gerst 11. desember 2007, en eins og málið liggur fyrir verður ekki skýrlega ráðið hvenær nákvæmlega atburðir eigi að hafa orðið í öðrum þessum tilvikum. Þá er því í einu af þessum þremur tilvikum borið við að varnaraðilarnir Hreiðar, Ingólfur og Sigurður hafi staðið að ráðstöfunum, sem sóknaraðili telur varða skaðabótaskyldu, í öðru þeirra virðist haldið fram án frekari skýringa að varnaraðilar hafi allir sammælst um ráðstöfun, en í því þriðja kemur ekki fram hver eða hverjir þeirra eigi að hafa átt í hlut. Þegar þetta er virt í heild kann að mega ætla að sóknaraðili miði í málatilbúnaði sínum við að varnaraðilarnir Hreiðar, Ingólfur og Sigurður beri vegna atvika, sem þeir voru sakfelldir fyrir í dómi Hæstaréttar 6. október 2016, skaðabótaskyldu á tjóni, sem rakið verði til viðskipta með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 9. október 2008. Að því slepptu verður á hinn bóginn hvergi séð í málinu skýring á því hvers vegna varnaraðilarnir Magnús eða Ólafur eigi að bera skaðabótaábyrgð vegna slíkra viðskipta á þessu tímabili öllu eða hvort haldið sé fram að varnaraðilarnir Hreiðar, Ingólfur eða Sigurður séu af öðrum ástæðum en greinir í nefndum dómi skaðabótaskyldir vegna viðskiptanna á öllu tímabilinu. Þótt rétt sé, sem sóknaraðili heldur fram, að engu gæti breytt um óskipta skaðabótaábyrgð varnaraðila hvort hlutur þeirra í ætlaðri saknæmri háttsemi kynni að hafa verið misjafn, má ljóst vera að slík skaðabótaábyrgð gæti ekki fallið á einstaka varnaraðila vegna atvika, sem kunna að hafa gerst áður en þeir áttu hlut að máli. Er þess þá jafnframt að gæta að í málatilbúnaði sóknaraðila er ekki að sjá viðhlítandi skýringar á því hvort eða hvernig hann telji tjón hafa í einstökum atriðum myndast innan heildartímabilsins frá 1. nóvember 2007 til 9. október 2008.

Auk þess, sem að framan greinir, verður að líta til þess að í umfjöllun í héraðsdómsstefnu um orsakatengsl vísaði sóknaraðili meðal annars til þess að saknæm og ólögmæt háttsemi varnaraðila hafi leitt til þess að „þátttakendur á verðbréfamarkaði 1) keyptu hlutabréf í Kaupþingi á röngum forsendum, sem þeir ella hefðu ekki gert eða 2) keyptu hlutabréf í Kaupþingi á of háu verði eða 3) seldu ekki hlutabréf í Kaupþingi sem þeir höfðu áður keypt sem þeir ella hefðu selt ef markaðsmisnotkunar stefndu hefði ekki notið við.“ Í málatilbúnaði sóknaraðila verður ekki skýrlega séð hvort hann telji einn eða tvo þessara þriggja kosta eða þá alla jöfnum höndum hafa átt við um viðskipti Stapa lífeyrissjóðs, sem hann kveðst leiða rétt sinn frá, með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Ef miðað yrði við fyrsta kostinn einan verður að ætla að markmið skaðabótakröfu væri að gera tjónþolann eins settan og ef kaupin hefðu aldrei farið fram, en sóknaraðili yrði þá að bera sönnunarbyrði fyrir því að lífeyrissjóðurinn hefði ekki keypt hlutabréf í félaginu ef markaðsmisnotkun hefði ekki haft áhrif á verðmyndun þeirra á markaði. Hvorki verður séð að sóknaraðili haldi fram í málinu að atvik hefðu farið á þann veg né að hann hafi leitast við að sanna það. Ef miðað yrði við annan kostinn einan yrði tjón vegna kaupa á hlutabréfum ekki staðreynt nema með því að komast fyrst að niðurstöðu um hvert kaupverð gæti hafa orðið ef markaðsmisnotkunar hefði ekki gætt. Í málatilbúnaði sóknaraðila er engu haldið fram um þetta efni. Að því verður einnig að gæta að í útreikningi á skaðabótakröfu hans, sem áður var lýst, er að hluta byggt á heildarfjárhæð, sem Stapi lífeyrissjóður mun hafa greitt fyrir hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í kaupum fyrir 1. nóvember 2007, en á tímabilinu eftir þann dag mun lífeyrissjóðurinn hafa selt meira af hlutabréfum en hann átti þá og verður að ætla að markaðsmisnotkun hlyti að hafa valdið því að söluverðið hafi þá orðið hærra en ef hennar hefði ekki gætt. Yrði miðað við þriðja kostinn einan myndi hvíla á sóknaraðila að sýna ekki aðeins fram á að líkur væru til að Stapi lífeyrissjóður hefði fyrir 9. október 2008 selt öll hlutabréf sín í Kaupþingi banka hf. ef ekki hefði komið til ætlaðrar saknæmrar og ólögmætrar háttsemi varnaraðila, heldur einnig hvaða verð hefði getað fengist við þær aðstæður fyrir hlutabréfin. Myndi þá tjón lífeyrissjóðsins væntanlega hafa svarað til þess söluverðs. Að þessu er ekki vikið í málatilbúnaði sóknaraðila.

Af þeim ástæðum, sem hér voru raktar, er reifun sóknaraðila á atriðum varðandi fjárhæð aðalkröfu hans háð verulegum annmörkum. Fram hjá þeim annmörkum yrði ekki komist með því að ákveða sóknaraðila „skaðabætur að álitum“, svo sem hann krefst til vara, enda yrði slíkt ekki fært að öðrum skilyrðum fullnægðum nema fyrir lægi á hvaða grundvelli áætla ætti slíkar bætur. Ekki væri heldur tækt að viðurkenna í dómi skaðabótaskyldu varnaraðila vegna fjártjóns sóknaraðila án þess að kveða á um fjárhæð bóta, svo sem hann krefst til ítrustu vara, nema fyrir lægi á hvaða grundvelli hann teldist hafa orðið fyrir tjóni.

Vegna alls þess, sem að framan greinir, verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar. Verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðilunum Hreiðari, Magnúsi og Sigurði kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir, en aðrir varnaraðilar hafa ekki krafist hans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Samtök sparifjáreigenda, greiði varnaraðilunum Hreiðari Má Sigurðssyni, Magnúsi Guðmundssyni og Sigurði Einarssyni hverjum fyrir sig 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands föstudaginn 8. desember 2017

            Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísun án kröfu þann 17. október sl., er höfðað með stefnu birtri 10. og 19. febrúar 2016.

            Stefnandi er Samtök sparifjáreigenda, kt. 541088-2539, Borgartúni 23, Reykjavík. Fyrirsvarsmaður er Bolli Héðinsson, kt. [...], Bjarmalandi 4, Reykjavík, formaður stefnanda.

            Stefndu eru Hreiðar Már Sigurðsson, kt. [...], með lögheimili í Lúxemborg, Ingólfur Helgason, kt. [...], með lögheimili í Lúxemborg, Magnús Guðmundsson, kt. [...], með lögheimili í Lúxemborg, Ólafur Ólafsson, kt. [...], með lögheimili í Sviss og Sigurður Einarsson, kt. [...], með lögheimili að Þorragötu 7, Reykjavík.

            Dómkröfur

            Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi: „Aðallega: Að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda kr. 902.493.733 ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara: Að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skaðabætur að álitum ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til þingfestingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til  þrautavara: Að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu in solidum gagnvart stefnanda vegna fjártjóns stefnanda sem hlaust af  markaðsmisnotkun stefndu með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 9. október 2008. Í öllum tilvikum er gerð krafa um málskostnað að skaðlausu samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins að teknu tillit til virðisaukaskatts.“

 

            Dómkröfur stefnda Hreiðars Más eru „aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar skv. gjaldskrá Markarinnar lögmannsstofu hf., að meðtöldum þeim kostnaði sem stefndi hefur af greiðslu virðisaukaskatts af aðkeyptri lögmannsþjónustu.“

            Dómkröfur stefnda Magnúsar eru „aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda. Þá er í báðum tilvikum krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.“

            Dómkröfur stefnda Ólafs eru „aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að meðtöldum þeim kostnaði sem stefndi hefur af greiðslu virðisaukaskatts af aðkeyptri lögmannsþjónustu.“

            Dómkröfur stefnda Sigurðar eru „aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi þess að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að meðtöldum þeim kostnaði sem stefndi hefur af greiðslu virðisaukaskatts af aðkeyptri lögmannsþjónustu.“

            Stefndi Ingólfur hefur engar kröfur gert í málinu og ekki látið það til sín taka.

            Rekstur málsins

            Mál þetta var þingfest 5. apríl 2016. Þann 3. maí 2016 voru lagðar fram greinargerðir stefndu Ólafs, Hreiðars Más, Sigurðar og Magnúsar. Voru þær allar með heimild í 6. ml. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og aðeins gerð grein fyrir málsástæðum vegna krafna um frávísun, en allar voru frávísunarkröfurnar byggðar á því að málið væri höfðað á röngu varnarþingi og að stefnubirting hefði verið ólögmæt. Var jafnframt í greinargerðunum áskilnaður um að leggja síðar fram greinargerð um efnisvarnir ef frávísunarkröfum yrði hafnað. Með úrskurði dómsins 1. júlí 2016 var málinu vísað frá dómi, en með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 517/2016, uppkveðnum 7. september 2016, var frávísunarúrskurðurinn felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

            Þann 17. janúar 2017 voru lagðar fram greinargerðir stefndu Hreiðars Más, Magnúsar, Sigurðar og Ólafs.

            Með úrskurði, 25. janúar 2017, vék þáverandi dómari málsins, Ásgeir Magnússon dómstjóri, sæti í málinu og var úrskurðurinn staðfestur í dómi Hástaréttar í málinu nr. 95/2017 uppkveðnum 16. mars 2017.

            Með bréfi dómstólaráðs, dags. 3. apríl 2017, var undirrituðum dómara falið málið til meðferðar. Í þinghaldi 15. maí 2017 kynnti dómurinn lögmönnum aðila að hann teldi þörf á því að fram færi munnlegur málflutningur um það hvort málinu yrði vísað frá dómi án kröfu. Fór sá málflutningur fram 17. október 2017 og var málið tekið til úrskurðar að honum loknum.

            Fyrir uppkvaðningu úrskurðar var gætt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

            Málavextir

            Mál þetta er sprottið af falli Kaupþings banka haustið 2008.

            Stefnandi kveðst vera hagsmunasamtök almennra hluta- og sparifjáreigenda og kveðst leiða rétt sinn frá Stapa lífeyrissjóði sem átti hlutabréf í Kaupþingi banka hf. við fall bankans haustið 2008, en stefnandi hafi fengið hlutina og öll kröfuréttindi, þ.m.t. skaðabótakröfur, framselda frá Stapa lífeyrissjóði. Við fall bankans urðu hlutirnir verðlausir.

            Stefndu tengjast allir Kaupþingi banka hf. á einn eða annan hátt.

            Samkvæmt því sem lýst er í stefnu var stefndi Hreiðar Már ráðinn aðstoðarforstjóri Kaupþings hf. árið 1998 og starfaði sem forstjóri Kaupþingssamstæðunnar frá 2003 og fram að falli bankans. Stefndi Magnús var skv. stefnu forstjóri dótturfélags Kaupþings í Lúxemborg frá stofnun þess árið 1998 og fram til 2010. Stefndi Sigurður var skv. stefnu forstjóri Kaupþings hf. 1997 og síðar starfandi stjórnarformaður bankans frá 2003 til 2008. Stefndi Ingólfur mun hafa  hafið störf hjá Kaupþingi hf. 1993, orðið yfirmaður markaðsviðskipta bankans og loks forstjóri Kaupþings á Íslandi allt þar til bankinn féll. Stefndi Ólafur er sagður hafa verið næst stærsti hluthafi bankans í gegnum önnur félög.

            Á árunum 2004-2007 hækkaði gengi hlutabréfa í Kaupþingi verulega, líkt og í öðrum íslenskum bönkum á sama tíma. Þessi hækkun hélt áfram, nánast án afláts, allt fram á mitt ár 2007, en eftir það lækkaði gengið nær samfellt uns bankinn féll í október 2008.

            Um fall Kaupþings banka hefur talsvert verið fjallað, m.a. í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, en jafnframt hafa risið af því málaferli, þ. á m. sakamál þar sem stefndu hafa verið sakborningar.

            Fram hefur verið lagður dómur Hæstaréttar í málinu nr. 145/2014 þar sem stefndi Hreiðar Már var dæmdur til að sæta fangelsi í 5 ár og 6 mánuði, stefndi Sigurður í 4 ár, stefndi Ólafur í 4 ár og 6 mánuði og stefndi Magnús í 4 ár og 6 mánuði. Þá hefur jafnframt verið lagður fram dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-206/2013 þar sem stefnda Hreiðari Má var ekki gerð frekari refsing, stefndi Sigurður dæmdur í fangelsi í 1 ár, stefndi Ingólfur í fangelsi í 4 ár og 6 mánuði. Þá voru öðrum mönnum dæmdar refsingar í málinu, en óþarft er að rekja það hér. Dómi þessum mun hafa verið áfrýjað til Hæstaréttar Íslands, en ekki hefur dómur Hæstaréttar verið lagður fram í málinu.

            Málsástæður og lagarök stefnanda

1.       Almennt um málatilbúnað stefnanda

            Stefnandi kveðst byggja málatilbúnað sinn á almennum reglum skaðabótaréttar um skaðabótaábyrgð utan samninga. Byggir stefnandi á því að fullsannað sé að stefndu hafi sameiginlega viðhaft markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi á árunum 2007-2008 og að orsakatengsl séu milli þeirrar háttsemi og tjóns stefnanda og að tjónið sé sennileg afleiðing hennar. Kveður stefnandi að beita beri ströngu sakarmati skv. reglum um sérfræðiábyrgð við mat á háttsemi stefndu, sem hafi verið beinir og óbeinir stjórnendur fjármálafyrirtækis sem skráð hafi verið á skipulegum verðbréfamarkaði. Þá beri við sakarmatið að gæta að því að hluthafar í Kaupþingi hafi hvorki getað gert sér grein fyrir  að háttsemi stefndu kynni að valda þeim fjártjóni né hafi þeir átt möguleika á að fyrirbyggja eða minnka sitt tjón áður en bankinn féll. Í ljósi stöðu stefndu sem sérfræðinga beri að slaka á kröfum um orsakatengsl, ef því er að skipta.

            Stefnandi kveður að stefndu hafi, líkt og áður hafi komið fram, verið sakfelldir fyrir þá háttsemi sem málatilbúnaður stefnanda byggi að mestu leyti á, sbr. dóm Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014 og dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli S-206/2013. Vísar stefnandi til þess að dómarnir hafi fullt sönnunargildi um þau málsatvik sem í þeim greinir þar til hið gagnstæða er sannað, sbr. 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

            Stefnandi byggir á því að sú háttsemi sem sakfellt hafi verið fyrir sé markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr. lafa nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og hafi brotin verið framin af ásetningi hinna sakfelldu en í því ljósi verði þegar af þeirri ástæðu að teljast sannað að saknæm og ólögmæt háttsemi hafi verið viðhöfð af hinum stefndu í þeim tilvikum.

2.       Saknæm og ólögmæt háttsemi

            Stefnandi byggir á því að stefndu hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi sem hafi valdið fjártjóni þeim hluthöfum í Kaupþingi sem hann leiði rétt sinn frá. Hin saknæma og ólögmæta háttsemi kveður stefnandi að felist nánar tiltekið í markaðsmisnotkun sem sé refsiverð samkvæmt 117. gr. laga nr. 108/2007 eins og rakið hafi verið, en það ákvæði sé skráð hátternisregla sem mæli fyrir um bann við tiltekinni háttsemi á verðbréfamarkaði, þ.e. að beita opinberlega blekkingum í því skyni að hafa áhrifum á framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga, sbr. nánari tilgreiningu í 117. gr. laga nr. 108/2007. Þannig kveður stefnandi að fyrir liggi brot á skráðri hátternisreglu sem framið hafi verið af einbeittum ásetningi og sé því ljóst að um saknæma og ólögmæta háttsemi stefndu sé að ræða, enda eigi engar hlutrænar ábyrgðarleysisástæður við.

            Um hina ætluðu saknæmu og ólögmætu háttsemi vísar stefnandi til málsatvikalýsingar sinnar og dóms Hæstaréttar nr. 145/2014 og dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-206/2013.

            Kveður stefnandi að fyrir liggi að stefndu hafi brotið gegn ákvæði 117. gr. laga nr. 108/2007. Þeir, þ.e. stefndu, hafi ásamt öðrum, verið sakfelldir fyrir viðskipti bankans með eigin hlutabréf í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-206/2013. Hafi þar verið talið að hinir sakfelldu hefðu brotið gegn a- og b-lið 1. tölul. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 með umfangsmiklum viðskiptum bankans með eigin bréf sem hafi gefið, eða verið í það minnsta líkleg til að gefa, eftirspurn og verð hlutabréfa í bankanum ranglega eða misvísandi til kynna. Hafi ekki verið talið að lögmætar ástæður hafi búið að baki viðskiptunum eða þau hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd. Þá hafi ekki verið fallist á að bankinn hafi verið viðskiptavaki í eigin bréfum, en eins og leiða megi af gagnályktun frá 116. gr. laga nr. 108/2007 sé fjármálafyrirtæki, sem annast verðbréfaviðskipti, óheimilt að takast á hendur viðskiptavakt með eigin hluti.

            Stefnandi kveður að með hinni refsiverðu háttsemi hafi stefndu með ólögmætum hætti gripið inn í verðmyndun á hlutabréfum í Kaupþingi. Á þessum tíma hafi verið verulegur söluþrýstingur sem myndi undir venjulegum kringumstæðum leiða til verulegrar lækkunar á gengi bréfanna. Með þessu hafi fjárfestar, og aðrir aðilar á verðbréfamarkaði, verið blekktir um hvert væri raunverulegt markaðsverðmæti hlutabréfanna í Kaupþingi.

            Vísar stefnandi til þess að því er varðar sölu Kaupþings á eigin hlutabréfum með seljandaláni til Holt Investment Group Ltd., Mata ehf. og Desulo Trading Ltd. hafi verið talið í áðurnefndum dómi héraðsdóms að viðskiptin féllu undir a-lið 1. tölul. og 2. tölul. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Hafi verið talið sannað að með því að selja bréfin á þann hátt sem um ræddi hafi framboð og eftirspurn eftir bréfunum verið gefin ranglega til kynna auk þess sem blekkingum hafi verið beitt með því að kaupendurnir hafi ekki tekið neina fjárhagslega áhættu en áhættan hafi öll verið Kaupþings.

            Stefnandi kveður að viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi kennd við Al Thani hafi með sama hætti verið talin falla undir a-lið 1. tölul. og 2. tölul. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 af Hæstarétti í máli nr. 145/2014. Hafi ranglega verið látið líta svo út að Al Thani hafi lagt til fé til að kaupa hlutina ásamt því að bera fulla markaðsáhættu af kaupunum en þögn hafi ríkt um að Kaupþing hefði lagt til lánsfé fyrir kaupunum í heild sinni auk aðkomu stefnda Ólafs sem hafi í reynd verið kaupandi að helmingi hlutarins á móti Al Thani.

            Stefnandi kveður að þann 22. september 2008 hafi viðskipti Al Thani verið tilkynnt af hálfu Kaupþings með svohljóðandi fréttatilkynningu.

            „Q Iceland Finance ehf., dótturfélag í eigu Q Iceland Holding ehf., sem er eignarhaldsfélag hans hátignar Sheikh Mohammed Bin Khalifa Al-Thani, hefur keypt 5,01% hlut í Kaupþingi banka hf. Q Iceland Finance keypti alls 37,1 milljón hluta á genginu 690 kr. á hlut og verður þar með þriðji stærsti hluthafi bankans.

            Hans hátign Sheikh Mohammed er í konungsfjölskyldunni sem verið hefur við völd í Qatar frá því á nítjándu öld.

            Hans hátign Sheikh Mohammed:,,Við höfum fylgst náið með Kaupþingi í nokkurn tíma og teljum þetta góða fjárfestingu. Staða Kaupþing er sterk og við höfum trú á stefnu og stjórnendum bankans, enda hefur Kaupþing náð góðum árangri við þær erfiðu aðstæður sem nú eru á markaðnum og sýnt fram á getu til þess að breytast og laga sig að nýjum veruleika í bankastarfsemi. Við lítum á hlut okkar í Kaupþingi sem langtímafjárfestingu og hlökkum til að eiga góð samskipti við stjórnendur bankans."

            Sigurður Einarsson, stjórnarformaður:,,Okkur er mikil ánægja að bjóða hans hátign Sheikh Mohammed Bin  Khalifa Al-Thani velkominn í hluthafahóp Kaupþings. Það hefur lengi verið stefna okkar að laða nýja fjárfesta að bankanum og því er ánægjulegt að sjá að við höfum nú náð að breikka hluthafahópinn enn frekar. Við hlökkum til þess að vinna með hans hátign Sheikh Mohammed í framtíðinni."

            Auk þessa kveður stefnandi að tilkynningar sama efnis hafi birst í ýmsum fjölmiðlum og stefndu viðhaft sambærileg ummæli í viðtölum við hina ýmsu fjölmiðla. Hafi tilkynningarnar og fréttaumfjöllun þeim tengd verið taldar falla undir 3. tölul. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 og hinir ákærðu því einnig verið sakfelldir fyrir brot gegn því ákvæði.

            Stefnandi kveður að til viðbótar við þá háttsemi, sem lýst hafi verið, og sakfellt hafi verið fyrir í sakamálum sem höfðuð hafi verið af embætti sérstaks saksóknara, byggi stefnandi á því að stefndu hafi í ýmsum öðrum tilvikum viðhaldið of háu markaðsverði hlutabréfa í Kaupþingi og með samstilltum aðgerðum komið í veg fyrir að hlutir í bankanum færu á markað í því skyni að koma í veg fyrir að gengi bréfanna myndi lækka. Í því hafi falist að tryggja verð eða búa til verð á fjármálagerningi í skilningi b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 og teljist af þeim sökum vera ólögmæt  háttsemi.

            Kveður stefnandi að þar megi í fyrsta lagi nefna endurfjármögnun Kaupþings á láni sem Citibank hafi veitt Eglu Invest, félagi stefnda Ólafs sem hafi haldið utan um hlut hans í Kaupþingi. Samkvæmt upplýsingum úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hafi Kaupþing veitt Eglu Invest lán að fjárhæð 120 milljón evrur í janúar 2008 og að fjárhæð 280 milljón evra í mars 2008, gagngert í því skyni að forða því að Citibank gengi að veðsettum hlutabréfum í Kaupþingi.

            Með því að Kaupþing hafi veitt framangreind lán hafi stefndi Ólafur, næst stærsti  hluthafi í bankanum, og stjórnendur Kaupþings, komið því sameiginlega til leiðar að Citibank myndi ekki ganga að hlutabréfum stefnda Ólafs í bankanum og selja þau á markaði sem ella hefði óhjákvæmilega gerst. Um hafi verið að ræða 9,88% hlut í bankanum og án inngripa Kaupþings hefði sala hlutarins á markaði leitt til verulegs söluþrýstings og verðlækkana á hlutabréfunum.

            Stefnandi kveður að stefndi Ólafur hafi verið næst stærsti hluthafi bankans með 9,88% hlut en allt frá því að Búnaðarbanki Íslands og Kaupþing hf. hafi sameinast árið 2003 og fram til falls bankans í október 2008 hafi framkvæmdastjóri Kjalars hf., félags í eigu Ólafs, verið í stjórn bankans, sem sérlegur fulltrúi stefnda Ólafs. Kveður stefnandi því ljóst að stefndi Ólafur hafi ætíð haft víðtæk ítök innan bankans frá þeim tíma er hann hafi eignast stóran hluta í bankanum.

            Stefnandi kveður að stefndi Ólafur hafi verið fjárhagslega tengdur Kaupþingi í skilningi reglna FME nr. 216/2007 enda líkur á að fjárhagslegir erfiðleikar bankans eða félaga í eigu Ólafs hefðu keðjuverkunaráhrif. Þá kveður stefnandi að stefndi Ólafur hafi haft óbein yfirráð yfir bankanum í skilningi reglna FME nr. 216/2007, sbr. og 3. mgr. 100. gr. laga nr. 108/2007. Kjalar og önnur félög stefnda Ólafs hafi saman myndað einn stærsta lántakahóp Kaupþings. Í lok september 2008 hafi þannig félög í eigu stefnda Ólafs verið fjórði stærsti lántaki Kaupþings með lán sem hafi numið um 18% af skráðum eiginfjárgrunni bankans við fall hans. Að líkindum hafi þá eigið fé bankans verið talsvert lægra en skráð vegna þess að ekki hafi verið fylgt 84. gr. laga nr. 161/2002 um meðferð á eigin hlutabréfum og tengdra aðila. Lánveitingar Kaupþings til félaga stefnda Ólafs hafi talist til stórrar áhættu í skilningi 30. gr. laga nr. 161/2002.

            Stefnandi byggir á því að stefndi Ólafur hafi í krafti stöðu sinnar sem næst stærsti hluthafinn í bankanum stuðlað að því með beinum hætti að Kaupþing hafi átt í gríðarlegum viðskiptum með eigin bréf á tímabilinu 2007-2008. Enn fremur að stefndi Ólafur hafi átt frumkvæði að, hvatt til og í raun stýrt þeirri ákvörðun Kaupþings að endurfjármagna lán félags hans hjá Citibank í þeim tilgangi að tryggja óeðlilegt verð á hlutabréfum í bankanum á fyrri hluta ársins 2008. Ekki hafi verið neinar sýnilegar ástæður fyrir lánveitingunni af hálfu Kaupþings aðrar en þær að fylgja fyrirmælum eins stærsta hluthafans í bankanum og um leið tryggja óeðlilegt markaðsverð á hlutabréfum í bankanum. Augljóst sé að stefndi Ólafur hafi haft verulegan hag af því að hlutabréfaverði í bankanum yrði haldið háu. Með hliðsjón af framangreindu hafi stefndi Ólafur, af ásetningi eða gáleysi, tekið þátt í ráðstöfunum stjórnenda Kaupþings sem ætlað hafi verið að hafa áhrif á verðlagningu hlutabréfa Kaupþings. Þó hann hafi ekki haft formlegt vald til að binda bankann sé ljóst að hann hafi beitt áhrifum sínum sem stór hluthafi í bankanum til að tryggja óeðlilegt verð á hlutabréfum sínum í bankanum. Slíkar ráðstafanir falli undir markaðsmisnotkun skv. b-lið 1. mgr. 117. gr. lögum nr. 108/2007 með hluti í bankanum þegar í mars 2008.

            Stefnandi kveðst í öðru lagi vísa um þetta til fjármögnunar Kaupþings á sölu hluta í eigu Gnúps til Giftar og AB 57 í desember 2007 en þá hafi Gnúpur verið kominn í veruleg fjárhagsvandræði. Kaupþing hafi veitt Gift 20 milljarða kr. lán og AB 57 um þriggja milljarða kr. lán til að kaupa hlutabréfin. Eingöngu bréfin sjálf hafi verið veðsett til tryggingar lánunum. Þessi lánveiting Kaupþings hafi leitt til þess að markaðsvirði hlutabréfa í Kaupþingi hafi verið viðhaldið og því beinlínis afstýrt að rúmlega 3% hlutur í bankanum færi í sölu á skipulegum verðbréfamarkaði. Með þessari ráðstöfun hafi verið tryggt óeðlilegt verð á hlutabréfunum í skilningi b-liðar 1.mgr. 117. laga nr. 108/2007.

            Í þriðja lagi kveðst stefnandi um þetta vísa til lánveitinga Kaupþings til starfsmanna sinna til hlutabréfakaupa. Þessi lán hafi að stórum hluta verið veitt með þeim skilyrðum að starfsmenn bæru eingöngu 10% persónulega ábyrgð á þeim, Kaupþing væri heimilt að beita veðkalli ef verðmæti bréfanna færi niður fyrir 120% af lánsfjárhæðinni og starfsmenn mættu ekki selja bréfin nema lánið væri að fullu uppgreitt. Þegar markaðsverð Kaupþingsbréfa hafi lækkað á árinu 2007 hafi stjórnendur Kaupþings ákveðið að beita ekki veðkalli. Þegar starfsmenn hafi leitað heimildar til að selja bréfin hafi svarið verið á þá leið að verið væri að leita lausna á vandanum. Sú lausn hafi falist í niðurfellingu persónulegra ábyrgða sem ákveðin hafi verið á stjórnarfundi bankans 25. september 2008, þar sem m.a. stefndu Hreiðar Már og Sigurður hafi setið. Kveður stefnandi að þetta sýni glögglega þann ásetning stjórnenda Kaupþings að koma í veg fyrir að eigendur bréfa myndu selja þau á markaði. Í stað þess að fallast á sölu þeirra á markaði og fá a.m.k. umtalsvert upp í kröfu bankans hafi falist í aðgerðum bankans að áhættu af bréfunum hafi alfarið verið velt yfir á bankann sjálfan. Markaðsverði hlutabréfanna hafi þannig verið viðhaldið af stjórnendum bankans og um leið tryggt óeðlilega hátt verð þeirra sem hafi farið gegn ákvæðum b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.

            Stefnandi kveður að jafnaði hafi veð Kaupþings í eigin hlutabréfum numið að verðmæti milli 200 og 300 milljarða. Þrátt fyrir lækkandi hlutabréfaverð bankans árið 2007 hafi  markaðsvirði í eigin bréfum haldist nánast stöðugt síðasta árið fram að falli bankans. Samkvæmt Rannsóknarskýrslu Alþingis sé skýringin sú að verðmæti Kaupþings í eigin bréfum hafi í lok september 2008 numið alls um 214 milljörðum króna eða sem hafi numið 42% af öllum hlutabréfum bankans. Í dæmaskyni megi nefna að síðasta árið fyrir fall bankans hafi bankinn keypt hlutabréf í sjálfum sér fyrir um 96 milljarða króna.

            Stefnandi kveður að ástæður að baki lánveitingum Kaupþings til hlutabréfakaupa sem raktar hafi verið hafi verið fjarri því að vera lögmætar eða samræmast viðurkenndri markaðsframkvæmd á skipulegum verðbréfamarkaði í skilningi b-liðar 1. tölul. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007. Í þeim hafi m.a. falist brot á lögum um  hlutafélög nr. 2/1995, lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 og lögum um ársreikninga nr. 3/2006.

            Þá kveður stefnandi að eigin hlutir Kaupþings sem bankinn hafi lánað fyrir og tekið að veði hafi ekki verið dregnir frá eigin fé bankans eins og lögskylt hafi verið þegar áhættan hafi verið hjá bankanum, sbr. 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002. Augljóst sé að ef stefndu hefðu gætt að þessari lagaskyldu hefði eigið fé bankans verið skráð mun lægra og jafnvel lægra en lögákveðið hafi verið. Það hefði mögulega þýtt sviptingu starfsleyfis og afskráningar af markaði strax árið 2006. Þá hafi þess ekki verið getið í ársreikningum bankans, þar með talið milliuppgjöri bankans fyrir árið 2008, að stór hluti lána til starfsmanna sem hafi numið um 60 milljörðum hafi einungis verið með 10% ábyrgð. Þrátt fyrir það hafi lánin verið færð í efnahagsreikningi á fullu verði.

            Stefnandi byggir á því að veðtaka Kaupþings í eigin hlutabréfum hafi farið langt umfram 10% hámark 55. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og hafi stjórnendur Kaupþings, þ.m.t. stefndu, brotið gegn ákvæðum laganna. Stefndi Ólafur hafi verið hlutdeildarmaður í þeim brotum enda hafi honum ekki getað dulist sem fagfjárfesti að endurfjármögnun Kaupþings á Citibank lánunum með veði í hlutabréfum félaga hans í bankanum leiddi til þess að brotið væri gegn 10% hámarki í eigin bréfum skv. 55. gr. laga nr. 2/1995. Þá hafi veðtaka bankans í hlutabréfum stærsta eiganda síns, Exista, einnig haft samsvarandi áhrif á eigið fé bankans í ljósi fjárhagslegra tengsla félaganna.

            Stefnandi kveður að hvað varðar þátt hvers og eins stefndu sé byggt á því að stefndu beri sameiginlega (in solidum) ábyrgð á tjóni stefnanda. Um sé að ræða samverkandi tjónsorsakir og sé innbyrðis skipting ábyrgðar milli tjónvalda tjónþola óviðkomandi.

            Kveður stefnandi að stefndu Hreiðar Már, Sigurður og Ingólfur hafi, sem stjórnarmaður og framkvæmdastjórar Kaupþings, borið ríkar trúnaðar- og eftirlitsskyldur skv. lögum nr. 2/1995 gagnvart bankanum og í því hafi falist ábyrgð og eftirlit með því að starfsemi bankans færi í hvívetna að lögum. Stefndu Hreiðar Már og Sigurður hafi auk þess verið í lánanefnd stjórnar bankans, en þar hafi stefndi Sigurður gegnt formennsku, og hafi þeir einnig borið ríka ábyrgð sem slíkir þegar hafi komið að lánveitingum út á eigin bréf félagsins.

            Stefnandi kveður að frá öndverðu hafi stefndi Ólafur verið næst stærsti hluthafi bankans og skuggastýrt honum í eigin þágu um árabil. Stefndi Ólafur hafi ekki verið ákærður í máli S-206/2013 en byggt sé á því að hann hafi tekið þátt í að halda uppi verði bréfanna, sbr. t.d. það sem segi um endurfjármögnun bankans á láni Eglu Invest, sem hafi verið í hans eigu. Þá hafi stefndi Ólafur verið sakfelldur fyrir sinn þátt í Al Thani málinu og nægi það, allt að einu, til að fella skaðabótaábyrgð á hann í máli þessu. Að því er varðar stefnda Ingólf þá hafi hann ekki verið ákærður í Al Thani málinu en ljóst sé að þáttur hans hafi verið mikill í máli S-206/2013. Þá hafi stefndu Hreiðar Már og Magnús verið sakfelldir í báðum málunum.

3.       Orsakatengsl

            Stefnandi kveður að eins og ofangreind umfjöllun um saknæmi beri með sér byggi stefnandi málatilbúnað sinn á nokkrum tjónsorsökum en á því sé byggt að um samverkandi tjónsorsakir sé að ræða og beri allir hinna stefndu óskipta (in solidum) ábyrgð á heildartjóni stefnanda.

            Stefnandi kveður framangreint tjón stefnanda vera afleiðingu saknæmrar og ólögmætrar háttsemi stefndu sem rakin hafi verið hér að framan. Samkvæmt framansögðu liggi þannig fyrir að frá nóvember 2007 til október 2008 hafi stefndu sameinast um umfangsmikla og kerfisbundna markaðsmisnotkun með hlutabréf í Kaupþingi. Þessi sameiginlega háttsemi stefndu hafi leitt til tjóns fyrir hluthafa í Kaupþingi sem hafi átt viðskipti á tímabilinu 1. nóvember 2007 til falls bankans í október 2008.

            Kveður stefnandi að stefndu hafi haldið uppi gengi hlutabréfa í bankanum með saknæmum og ólögmætum hætti auk þess sem opinberar tilkynningar þeirra um fjárhagsstöðu bankans hafi reynst vera blekkingar. Það hafi leitt til þess að þátttakendur á verðbréfamarkaði 1) hafi keypt hlutabréf í Kaupþingi á röngum forsendum, sem þeir ella hefðu ekki gert eða 2) keypt hlutabréf í Kaupþingi á of háu verði eða 3) ekki selt hlutabréf í Kaupþingi sem þeir hafi áður keypt sem þeir ella hefðu selt ef markaðsmisnotkunar stefndu hefði ekki notið við.

            Stefnandi byggir á því að þegar markaðsmisnotkunin hafi hafist þann 1. nóvember 2007 hafi Stapi lífeyrissjóður, sá sem stefnandi leiði rétt sinn frá, átt hlutabréf í bankanum sem keypt hafi verið fyrir samtals 4.230.351.569 kr. en á tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til og með 7. ágúst 2008 hafi Stapi lífeyrissjóður átt nokkur viðskipti með hluti í bankanum. Nettó mismunur kaupverðs hlutabréfanna, annars vegar og söluverðs og arðs af bréfunum, hins vegar, hafi numið kr. 902.493.733 þegar Kaupþing féll.

            Stefnandi kveður að nánar tiltekið varðandi markað með hlutabréf í Kaupþingi þá liggi fyrir að á árunum 2004-2005 hafi verið mikill kaupþrýstingur á markaði sem hafi leitt til mjög mikillar hækkunar á hlutabréfum í bankanum. Gengi hlutabréfanna hafi svo lækkað í byrjun árs 2006 en hækkað svo aftur fram á mitt ár 2007 er gengi bréfanna hafi náð hámarki. Frá miðju ári 2007 til falls bankans í október 2008 hafi verið mikill söluþrýstingur á bréfin en eins og rakið hafi verið hafi stefndu, með ýmsum inngripum inn í framboð og eftirspurn með hlutabréf í Kaupþingi, hægt verulega á verðlækkun bréfanna. Það hafi annars vegar verið gert með því að kaupa mikið magn af eigin bréfum og hins vegar með því að koma í veg fyrir að mikið magn bréfa færi til sölu á markaði, s.s. með því að lána stórar fjárhæðir í utanþingsviðskiptum án nægra trygginga, veita lán til að greiða upp lán annars banka sem hafði beitt veðkalli og forða aðför, fella niður ábyrgðir starfsmanna í stað þess að samþykkja sölu þeirra á bréfunum og senda rangar tilkynningar um stöðu bankans til kauphallar og eftirlitsaðila.

            Stefnandi kveður að ef verðmyndun á hlutabréfum í Kaupþingi hefði fylgt lögmálum um verðmyndun á hlutabréfamarkaði sé ljóst að staðan hefði verið nokkuð önnur á seinni hluta árs 2007 og fram til falls bankans á árinu 2008 þótt ómögulegt sé að segja með nokkurri vissu hvernig þróun gengisins hefði orðið.

            Kveður stefnandi að sú háttsemi að halda uppi gengi bréfa bankans hafi leitt til þess að sá sem stefnandi leiði rétt sinn frá hafi átt framangreinda hluti í bankanum þann 22. september 2008 þegar Al Thani viðskiptin hafi átt sér stað, sem hafi leitt til þess að sá hafi enn verið eigandi bréfanna við fall bankans. Staðfest hafi verið í dómi Hæstaréttar í málinu 145/2014 að þær blekkingar, sem viðhafðar hafi verið í tengslum við þau viðskipti hafi haft veruleg áhrif á markaði og leitt til stórfellds tjóns gagnvart almenningi. Tilkynning stefndu um meint kaup Al Thani hafi leitt til þess að sá, sem stefnandi leiði rétt sinn af, hafi ekki selt bréf sín í Kaupþingi.

            Þá kveður stefnandi að tilkynning stefndu til almennings um að erlendur fjárfestir, Al Thani, hefði keypt ríflega 5% hlut í bankanum hafi verið gríðarleg traustyfirlýsing á bankann og sent þau skilaboð út á markaðinn að staða bankans væri góð og  framtíð hans væri björt þegar raunin hafi verið önnur. bendir stefnandi á að í frétt Morgunblaðsins 23. september 2008 sé t.a.m. fjallað um viðskiptin og þar vísað orðrétt í stefnda Hreiðar Má „Við teljum að þetta sé mikil traustsyfirlýsing fyrir félagið. Það er búið að fara í gegnum mikla úttekt og grandskoðun á rekstri bankans á undanförnum mánuðum og þessi fjárfesting er gerð í kjölfar þess“.

            Þá kveður stefnandi að eftir stefnda Ólafi hafi verið haft í Morgunblaðinu 23. september 2008 að kaup Al Thani væru „mikil viðurkenning fyrir Kaupþing“. Enn fremur að „Ég er ekki í vafa um að þessi kaup munu skipta miklu máli fyrir Kaupþing. Bankar og fjármálafyrirtæki út um allan heim hafa legið utan í mönnum.í Katar með það fyrir augum að fá þá inn sem hluthafa. Það gefur því góða mynd af styrk Kaupþings að Sheikh Mohammed skuli kaupa hlut í bankanum… Það hefur tekist hjá Kaupþingi að fá góða erlenda fjárfesta inn í hópinn og það mun skipta sköpum í framtíðinni.“

            Stefnandi kveður að af þessum ummælum, og fréttaumfjöllun um málið að öðru leyti, sé óhjákvæmilegt að ætla að í kjölfar úttektar og grandskoðunar á rekstri Kaupþings hafi Al Thani, sem sagður hafi verið stór alþjóðlegur fjárfestir og titlaður fjármálaráðherra Katar, metið það svo að eðlilegt verð fyrir 5,01% hlut í bankanum væri 690 kr. á hlut sem hafi verið litlu lægra en skráð gengi hlutabréfanna í Kauphöll en dagslokagengi síðasta viðskiptadags fyrir viðskiptin hafi numið 714 kr. á hlut. Gengið 690 kr. á hlut hafi ekki endurspeglað það verð sem Al Thani hafi talið rétt í viðskiptum með hluti í bankanum eftir því sem síðar hafi komið í ljós þegar upplýstist hafi að Qatar Investment Authority hafi örfáum mánuðum áður gert tilboð sem hafi hljóðað upp á 399 kr. á hlut og hafi Al Thani verið grandvís um það, sbr. fyrri umfjöllun. Það verð sem ákveðið hafi verið í viðskiptunum hafi því átt rætur að rekja til þeirra kjara sem Al Thani hafi fengið, þ.e. lánað hafi verið að fullu fyrir kaupunum auk þess sem honum hafi verið greidd 50 milljóna dollara umbun í formi láns til eignalauss félags til frjálsrar ráðstöfunar án nokkurra trygginga vegna ætlaðs fyrirfram greidds hagnaðar af afleiðusamningi sem hafi þó aldrei verið gerður.

            Stefnandi kveður fullsannað að Al Thani viðskiptin hafi haft raunveruleg áhrif á skipulegan verðbréfamarkað. Í hæstaréttarmálinu nr. 145/2014 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að markaðsmisnotkunin hafi beinst „í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðnum hér á landi í heild og verður tjónið sem leiddi af þeim [þ.e. brotunum] ekki metið til fjár“. Hafi markaðsmisnotkunin verið „þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi“ eins og segi í dómi Hæstaréttar. Fyrir liggi yfirlit yfir dagslokagengi hlutabréfa í Kaupþing í íslensku kauphöllinni frá 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Megi þar sjá að gengi bréfanna hafi lækkað hægt og sígandi allt tímabilið þar til botninum hafi verið náð þann 17. september 2008 er gengi á hlut hafi numið 675 kr. Gengi bréfanna hafi hækkað lítillega eftir það og tekið svo kipp við Al Thani viðskiptin og hafi gengið náð kr. 755 á hlut þann 25. september 2008 en þá hafi það ekki verið hærra síðan í júní það ár.

            Þá kveður stefnandi að ljóst sé af gögnum málsins um viðskipti með hlutabréf í bankanum að Al Thani viðskiptin hafi almennt séð haft þau áhrif að almennir hluthafar hafi talið hagfelldast að eiga hlutabréfin í stað þess að selja þau. Þetta sjáist af því hvernig velta með Kaupþingsbréf hafi breyst eftir viðskiptin. Vikuna fyrir viðskiptin, þ.e. frá 15.-19. september hafi að meðaltali verið 170 viðskipti með bréfin á dag, meðalvelta á dag verið 2.667.292.765 kr. og meðalfjöldi bréfa í viðskiptum á dag hafi verið 3.897.457. Vikuna eftir viðskiptin hafi tölurnar hins vegar breyst í 77 viðskipti, 1.064.707.494 kr. og 1.436.110 bréf, en á sama tíma hafi gengi bréfanna hækkað um u.þ.b. 5%.

            Þá kveður stefnandi að við mat á sönnunarbyrði að því er varðar orsakatengsl verði að hafa hugfast að stefndu séu sérfræðingar á því sviði sem um ræðir, háttsemi þeirra hafi verið sviksamleg, í sumum tilfellum refsiverð og unnin af einbeittum ásetningi. Að auki  hafi verið staðfest af dómstólum að háttsemi stefndu hafi gefið, eða hafi verið líkleg til að gefa til kynna ranglega eða misvísandi eftirspurn eftir hlutabréfum í Kaupþing. Sé því einhver vafi um það til staðar, hvort orsakatengsl séu fyrir hendi, verði stefndu að bera hallann af því.

            Ofangreindu til viðbótar kveðst stefnandi byggja á því að kaup bankans á eigin bréfum og lánveitingar, þar sem eingöngu bréf í bankanum hafi verið sett að veði, hafi ekki verið dregið frá eiginfjárgrunni bankans. Þann 28. mars 2008 hafi CAD hlutfall bankans með réttu átt að vera undir 8% og bankinn misst starfsleyfi sitt samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki og að stefnandi hefði því, eðli máls samkvæmt, ekki keypt hlutina sem hann hafi keypt þann dag.

4.       Tjón stefnanda og kröfugerð

            Stefnandi kveðst krefjast skaðabóta sem nemi þeirri fjárhæð sem sá hluthafi í Kaupþingi, sem stefnandi leiði rétt sinn frá, hafi varið í kaup á hlutabréfum í Kaupþingi að frádregnu söluverði hlutanna og greiddum arði. Stefnandi hafi fengið hlutina og öll kröfuréttindi, þ.m.t. bótakröfur, framseldar frá Stapa lífeyrissjóði.

            Kveður stefnandi að þann 1. nóvember 2007 hafi Stapi lífeyrissjóður átt hlutabréf í bankanum sem hann hafi keypt fyrir samtals kr. 6.391.528.301. Eftir það tímabil og fram til falls bankans hafi Stapi keypt til viðbótar hluti fyrir kr. 2.161.176.732. Á sama tímabili hafi Stapi selt  hluti fyrir samtals kr. 5.455.837.008 og fengið greiddan arð að fjárhæð kr. 33.197.560. Tjón stefnanda sé það sem Stapi lífeyrissjóður hafi keypt umfram það sem hann hafi selt í bankanum að teknu tilliti til arðgreiðslna. Mismunur á kaupverði hlutabréfa í Kaupþingi og söluverði hlutabréfanna á tímabilinu 1. nóvember 2007 til október 2008 hafi numið kr. 902.493.733 og sé sú fjárhæð stefnufjárhæð málsins.

            Til vara gerir stefnandi kröfu um að stefndu greiði stefnanda skaðabætur að álitum. Kveður stefnandi ótvírætt að bótagrundvöllur sé fyrir hendi og að sá sem stefnandi leiði rétt sinn frá hafi orðið fyrir fjártjóni vegna háttsemi stefndu. Verði talið að stefnandi hafi ekki sýnt fram á hið eiginlega fjártjón sem leitt hafi af háttsemi stefndu séu lagaskilyrði til þess að dæma stefnanda bætur að álitum úr hendi stefndu.

            Til þrautavara gerir stefnandi kröfu um viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu in solidum gagnvart stefnanda vegna fjártjóns stefnanda sem hlaust af markaðsmisnotkun stefndu með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 9. október 2008.

5.       Aðild

            Stefnandi kveður málssókn sína vera reista á því að um einstaklingsbundið tjón hluthafa sé að ræða vegna markaðsmisnotkunar stefndu sem leitt hafi til þess að sá sem stefnandi leiði rétt sinn frá og aðrir hluthafar í Kaupþingi hafi bæði keypt hlutabréf í bankanum á of háu verði og haldið þeim þangað til þau hafi orðið verðlaus við fall bankans. Að þessu leyti hafi það því ekki orðið bankinn sjálfur sem hafi orðið fyrir tjóni heldur hluthafarnir sem slíkir, þ.m.t. stefnandi.

            Kveður stefnandi að sameiginleg aðild til varnar byggist á samlagsaðild samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991, enda reisi stefnandi kröfu sína á hendur öllum stefndu á sömu atvikum og aðstöðu. Sé byggt á því að stefndu beri óskipta ábyrgð á tjóni stefnanda og sé krafan reist á reglum skaðabótaréttar utan samninga. Þótt aðrir einstaklingar hafi verið sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun með hlutabréf bankans sé ekki þörf á aðild þeirra að málinu.

6.       Fyrning

            Stefnandi byggir á því að krafan sé ófyrnd þar sem hún fyrnist á fjórum árum frá því að tjónþoli hafi fengið upplýsingar um tjónið og þann sem hafi borið ábyrgð á því, sbr. 9. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007. Það hafi í fyrsta lagi verið við uppkvaðningu Héraðsdóms Reykjavíkur í Al Thani málinu þann 12. desember 2013. Þá vísar stefnandi til viðbótar til 12 mánaða fyrningarfrests frá 12. febrúar 2015, frá dómsuppsögu Hæstaréttar í máli nr. 145/2014 að því er varðar stefndu Hreiðar Má, Ólaf og Sigurð, sbr. 11. gr. fyrningarlaga nr. 150/2007. Að því er varðar héraðsdómsmálið nr. S-206/2013 þá hafi fallið dómur í málinu á hendur stefndu Hreiðari Má, Ingólfi, Magnúsi og Sigurði þann 26. júní 2015.

            Þá kveður stefnandi að hvað varðar athafnir stefndu sem hafi farið í bága við 117. gr. laga nr. 108/207 á árunum 2008 og falli ekki undir sakarefni framangreindra sakamála gegn stefndu, þá byggi stefnandi á því að fyrsta tímamark sem hafi gefið honum tilefni til að kanna hvort athafnir stefndu með markaðssetningu hlutabréfa Kaupþings kynnu að varða bótaskyldu hafi verið við dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í Al Thani málinu þann 12. desember 2013.

7.       Varnarþing

            Að því er varðar varnarþing vísar stefnandi til síðari málsl. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 91/1991 þar sem mælt sé fyrir um að ef einstaklingur eigi fasta búsetu á öðrum stað en hann á lögheimili sé heimilt að sækja hann í þeirri þinghá. Stefndu Hreiðar Már, Magnús, Ólafur og Sigurður afpláni dóma skv. máli nr. 145/2014 í fangelsinu að Kvíabryggju á Snæfellsnesi og teljist því eiga fasta búsetu þar. Að því er varðar stefnda Ingólf sé um varnarþing vísað til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

            Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna skaðabótarréttar, þar á meðal sakarreglunnar, reglna um strangt sakarmat og vægari kröfur til sönnunar á orsakatengslum og sennilegri afleiðingu o.fl.  Þá er vísað til laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, einkum 117. gr., og 116. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt er vísað til ákvæða laga um hlutafélög nr. 2/1995 og ákvæða laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Viðurkenningarkrafa styðst við ákvæði 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um almenna vexti styðst við 8. gr. laga nr. 38/2001 og krafa um dráttarvexti styðst við 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Málskostnaðarkrafa styðst við 129., sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við ákvæði laga nr. 50/1988.

            Málsástæður og lagarök stefndu vegna frávísunar

            Eins og að framan greinir hafa allir stefndu, að frátöldum stefnda Ingólfi sem ekki hefur látið málið til sín taka, krafist þess að málinu verði vísað frá dómi. Upphaflega lögðu stefndu fram greinargerðir sínar þar sem gerðar voru kröfur um frávísun og voru þær frávísunarkröfur studdar þeim málsástæðum að málið væri höfðað á röngu varnarþingi og að stefnubirting hefði verið ólögmæt. Var þessum upphaflegu frávísunarkröfum stefndu hafnað með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 517/2016. Eftir þetta lögðu stefndu fram nýjar greinargerðir þar sem aðallega er krafist frávísunar, en til vara er krafist sýknu.

            Í hinum nýrri greinargerðum stefndu eru færðar fram nýjar málsástæður fyrir kröfum stefndu um frávísun málsins. Er þar byggt á vanreifun, sbr. 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, og á því að ekki séu uppfyllt í málinu skilyrði 19. gr. laga nr. 91/1991 til samlagsaðildar.

            Það er álit dómsins að 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 girði fyrir það að hinar nýju málsástæður stefndu, sem þeir færa nú fram um frávísunarkröfur sínar, fái komist að í málinu, en af hálfu stefnanda hefur því verið mótmælt að málsástæðurnar geti komist að. Ekkert liggur heldur fyrir um að stefndu hafi ekki getað, eða ekki haft tilefni til, að styðja frávísunarkröfur sínar við þessar málsástæður þegar í öndverðu. Verður ekki séð að nýmæli það sem felst í 6. og 7. ml. 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 7. gr. laga nr. 78/2015, veiti stefnda heimild til að tefla fram nýjum málsástæðum vegna frávísunarkröfu sem búið er að hafna.    

            Samkvæmt 19. gr. laga nr. 91/1991 er frávísun máls, vegna skorts á því að skilyrði samlagsaðildar séu uppfyllt, háð kröfu varnaraðila máls. Verður því ekki fjallað frekar um það í úrskurði þessum hvort skilyrði til samlagsaðildar skv. 19. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt. Á sama hátt þykir ekki vera ástæða til að rekja sérstaklega eða gera grein fyrir rökstuðningi stefndu fyrir því að málið sé vanreifað af hálfu stefnanda.   

            Forsendur og niðurstaða

            Í máli þessu gerir stefnandi fjárkröfur á hendur stefndu um greiðslu skaðabóta in solidum. Eru kröfurnar studdar við réttarreglur um skaðabætur utan samninga.

            Í málsástæðum sínum gerir stefnandi ekki sérstaklega grein fyrir því hvort þáttur hvers og eins hinna stefndu hafi verið nauðsynlegur til að ætluð skaðabótaskylda myndaðist, eða hvort þáttur hvers og eins hafi verið nægilegur, án aðkomu hinna stefndu, til að skaðabótaskylda myndaðist. Nánar tiltekið hvort þáttur hvers og eins stefndu hafi verið nauðsynlegur, eða hvort þáttur hvers og eins hafi verið nægur til að bótaskyldan myndaðist og þá án aðkomu hinna stefndu. Að mati dómsins er þetta mjög til þess fallið að gera dóminum erfitt fyrir um úrlausn málsins, en það er ekki á færi dómsins að ákveða þetta fyrir stefnanda ef svo færi að óhjákvæmilegt væri að sýkna einn eða fleiri stefndu af kröfum stefnanda, en þó ekki alla stefndu. Þá er þetta augljóslega á sama hátt til þess fallið að gera stefndu erfitt fyrir um varnir sínar.

            Þá er sá ljóður á málatilbúnaði stefnanda að þætti hvers og eins hinna stefndu, afmarkað frá öðrum stefndu, er afar lítið lýst. Þannig er fátt, ef nokkuð handfast, í málsástæðum stefnanda um það nákvæmlega hvernig og með hvaða athöfnum sínum hver stefndi fyrir sig hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart þeim sem stefnandi kveðst leiða rétt sinn frá. Að mati dómsins er ekki nægilegt að vísa í þessu efni til dóma Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur í þeim málum sem að framan greinir og enn síður að vísa til skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Regla sú sem greinir í 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur ekki leyst stefnanda undan því að gera í stefnu gagnorða og skýra grein fyrir ætluðum þætti og athöfnum hvers og eins hinna stefndu, sem stefnandi kveður leiða til bótaskyldunnar.

            Af þessum sökum þykir málatilbúnaður stefnanda vera haldinn slíkum annmörkum að hann standist ekki þær kröfur sem gerðar eru í e lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og er óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi án kröfu af þessum sökum.

            Rétt er að stefnandi greiði stefndu Hreiðari Má, Magnúsi, Ólafi og Sigurði kr. 800.000 hverjum í málskostnað.

            Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Máli þessu er vísað frá dómi án kröfu.

                Stefnandi, Samtök sparifjáreigenda, greiði stefndu Hreiðari Má Sigurðssyni, Magnúsi Guðmundssyni, Ólafi Ólafssyni og Sigurði Einarssyni, kr. 800.000 hverjum í málskostnað.