Print

Mál nr. 473/2009

Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Afréttur
  • Þjóðlenda
  • Aðild
  • Kröfugerð

Fimmtudaginn 16. september 2010.

Nr. 473/2009.

Stefán Halldórsson og

Sigvarður Halldórsson

(Berglind Svavarsdóttir hrl.

Friðbjörn Garðarsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Indriði Þorkelsson hrl.

Stefán A. Svensson hdl.)

og til réttargæslu

Guðrúnu M. Valgeirsdóttur

Sigurði J. Þorbergssyni

dánarbúi Þuríðar Sigurðardóttur

Kristínu Ólafsdóttur

Arnari Ólafssyni

Bryndísi Jónsdóttur

Sigurði Baldurssyni

Finni Baldurssyni

Pétri Gíslasyni

Sigfúsi Illugasyni

Jóni Illugasyni

Sólveigu Illugadóttur

Gísla Sverrissyni

Héðni Sverrissyni

Daða Lange Friðrikssyni og

Kristínu Sverrisdóttur

(Ólafur Björnsson hrl.)

Eignarréttur. Fasteign. Afréttur. Þjóðlenda. Aðild. Kröfugerð.

Gjafsókn. Málskostnaður.

ST og SI höfðuðu mál gegn íslenska ríkinu og kröfðust þess aðallega að felldur yrði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar 6. júní 2008 í máli nr. 1/2007 að því leyti, sem þar var kveðið á um að svæði sem nefnt er Krepputunga væri þjóðlenda innan nánar tilgreindra marka. Þá kröfðust þeir viðurkenningar á því að á þessu landsvæði væri engin þjóðlenda en til vara að svæðið væri þjóðlenda í afréttareign þeirra. ST og SI stefndu G o.fl. til réttargæslu í málinu. Aðalkrafa réttargæslustefndu var hin sama og aðalkrafa ST og SI, en til vara gerðu þau kröfu um að fyrrgreint svæði væri þjóðlenda í afréttareign þeirra sjálfra. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 102/2009, sem kveðinn var upp 24. september 2009, var skorið úr ágreiningi ST og SI við Í vegna kröfu Í um þjóðlendu á suðurhluta svæðis, sem áfrýjendur töldu vera innan marka jarðar sinnar, Brúar á Jökuldal. Í þeim dómi Hæstaréttar var talið að engra heimilda nyti við sem bent gætu til þess að það land hefði nokkurn tíma verið háð beinum eignarrétti. Staðhættir og fjarlægð þess frá byggð væru jafnframt þannig að ólíklegt væri að nokkur hluti þess hefði verið numinn. Áfrýjendur hefðu ekki fært fram sönnun þess að skilyrðum eignarhefðar á landinu hefði verið fullnægt með þeim venjubundnu afréttarnotum og talið að þrætusvæðið í því máli væri þjóðlenda. Málsástæður fyrir aðalkröfu áfrýjenda í því máli sem nú var til meðferðar höfðu flestar verið  hafðar uppi í fyrra málinu. Með vísan til forsendna dóms í máli nr. 102/2009 var því hafnað að aðalkrafa áfrýjenda nú næði fram að ganga. Til viðbótar vísuðu ST og SI nú til munnlegs leigusamnings um lóð undir skála og friðlýsingu  þjóðminjavarðar á rústum í Krepputungu, sem styðja átti við kröfu þeirra um viðurkenningu beins eignarréttar. Talið var að þetta  skipti engu fyrir úrlausn málsins. Þá var talið að áfrýjendur hefðu engu borið við svo að haldbært væri til stuðnings aðalkröfu sinni að því leyti sem hún sneri sérstaklega að nyrsta hluta Krepputungu. Ekki var heldur talið neitt fram komið um nýtingu lands frá Brú vestur yfir Kreppu á þessu svæði. Samkvæmt framansögðu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna Í af aðalkröfu SI og ST. Varakrafa réttargæslustefndu um að viðurkennd yrðu réttindi þeim sjálfum til handa andstætt kröfu SI og ST, var talin óheimil samkvæmt 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kom hún ekki til álita í málinu. Þá var talið að varakrafa SI og ST hefði ekki verið studd gögnum fyrir Hæstarétti. Þar sem dómur um varakröfu þeirra yrði ekki bindandi gagnvart réttargæslustefndu stæði hugsanlegt tilkall þeirra til afnota af landinu því ekki í vegi að úr henni yrði leyst og Í sýknað af varakröfu SI og ST. Þá kemur fram að SI og ST hefðu aðeins getað náð fram endanlegum úrslitum um varakröfu sína gagnvart réttargæslustefndu að þeim hefði verið stefnt til aðildar að málinu, en ekki réttargæslu, þannig að þeir yrðu bundnir af dómi, sem gengi SI og ST í vil. Þar sem málatilbúnaður SI og ST kæmi í þessu skyni að engu haldi í því horfi sem hann var, var SI og ST gert að greiða Í málskostnað fyrir Hæstarétti sem svaraði til þóknunar lögmanns réttargæslustefndu í skjóli gjafsóknar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 21. ágúst 2009. Þeir krefjast þess aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar 6. júní 2008 í máli nr. 1/2007 að því er varðar þjóðlendu á landsvæði innan eftirgreindra marka: „Frá ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum er Kreppu fylgt þar til Kverká rennur í hana og síðan Kverká að upptökum sínum í Brúarjökli. Síðan er jaðri jökulsins fylgt að meginupptökum Jökulsár á Fjöllum í Dyngjujökli og er þá miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998 ... Loks ræður Jökulsá á Fjöllum að ármótum Kreppu.“ Þá er krafist viðurkenningar á því að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda, en til vara að á ofangreindu svæði sé þjóðlenda í afréttareign áfrýjenda. Áfrýjendur krefjast að auki málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi stefnda án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Réttargæslustefndu, sem áfrýjendur kveða vera sameigendur Reykjahlíðartorfu í Skútustaðahreppi, krefjast þess aðallega að fyrrgreindur úrskurður óbyggðanefndar verði felldur úr gildi og viðurkennd krafa áfrýjenda um að á áðurnefndu landsvæði sé engin þjóðlenda, en til vara að svæðið sé þjóðlenda í afréttareign réttargæslustefndu. Í báðum tilvikum krefjast réttargæslustefndu málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjenda án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi. Til vara krefjast þeir að málskostnaður verði felldur niður.

I

Áfrýjendur eru eigendur jarðarinnar Brúar á Jökuldal. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 102/2009, sem kveðinn var upp 24. september 2009, var skorið úr ágreiningi áfrýjenda við stefnda vegna kröfu hans um þjóðlendu á suðurhluta svæðis, sem áfrýjendur töldu vera innan marka jarðar sinnar. Niðurstaðan varð sú að krafa stefnda var tekin til greina, en þó þannig að mörk þjóðlendu og eignarlands áfrýjenda voru ákveðin sunnar á svæðinu en stefndi krafðist upphaflega þegar málið var rekið fyrir óbyggðanefnd. Vesturmörk þess svæðis, sem áðurnefndur dómur Hæstaréttar tók til og telst þjóðlenda, liggja frá jaðri Brúarjökuls til norðurs um Kverká og síðan Kreppu, eftir að fyrrnefnda áin fellur í hana, að þeim stað er hún nær suðurmörkum eignarlands áfrýjenda.

Þegar stefndi lýsti á fyrri stigum kröfu um þjóðlendu fyrir óbyggðanefnd tók hún jafnframt til þess svæðis, sem er til úrlausnar í þessu máli og nefnt Krepputunga. Það liggur milli Kverkár og Kreppu að austan en Jökulsár á Fjöllum í vestri að þeim stað sem árnar sameinast. Að sunnan markast Krepputunga af Brúarjökli, Kverkfjöllum og Dyngjujökli. Áfrýjendur mótmæltu kröfu stefnda og töldu svæðið innan marka Brúar. Í kjölfarið skildi óbyggðanefnd Krepputungu undan því svæði, sem endanlega var skorið úr um með dómi Hæstaréttar í máli nr. 102/2009, og felldi úrskurð um kröfu stefnda sem laut að Krepputungu 6. júní 2008 í máli nr. 1/2007, þar sem fallist var á kröfu hans um að umrætt landsvæði teldist vera þjóðlenda. Með hinum áfrýjaða dómi var hafnað kröfu áfrýjenda um að hnekkt yrði ákvæði úrskurðarins um það efni.

II

Hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp áður en dómur Hæstaréttar gekk í máli milli áfrýjenda og stefnda nr. 102/2009. Málsástæður áfrýjenda í fyrra málinu fyrir aðalkröfu, sem laut að eignarrétti á víðlendum landsvæðum fjarri byggð, voru um flest hinar sömu og teflt er fram í þessu máli til stuðnings beinum eignarrétti þeirra á Krepputungu og hinu sama gegnir um málsástæður stefnda fyrir gagnstæðri niðurstöðu. Til viðbótar málsástæðum í fyrra málinu vísa áfrýjendur til þess að skáli fyrir ferðamenn hafi verið reistur í Krepputungu við Kverkfjöll. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu áfrýjenda greint frá því að þeir hafi gert munnlegan samning við tvö ferðafélög um leigulóð tiltekinnar stærðar undir skálann á árinu 1996, en árlegt endurgjald hafi jafnan komið fyrir, sem ýmist hafi verið greitt í peningum eða á annan hátt. Þá hafi fornar rústir af bústað útilegumanna og fjárrétt í Hvannalindum verið friðlýstar á árinu 1969 og þá komið fram skrifleg viðurkenning þjóðminjavarðar á því að þær væru í landi Brúar.

Fyrir Hæstarétti hefur málatilbúnaður áfrýjenda einnig lotið að því að hvað sem öðru líði beri að viðurkenna aðalkröfu þeirra að því er varðar nyrsta hluta Krepputungu. Nánar tilgreint taki hann yfir svæðið norðan frá ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum suður að línu, sem hugsast dregin sem framhald þeirrar, sem ræður suðurmörkum Brúar samkvæmt fyrrnefndum dómi Hæstaréttar, til vesturs yfir Kreppu að Jökulsá á Fjöllum. Í fyrra málinu hafi verið lagt til grundvallar að allur Arnardalur tilheyrði Brú og því nái jörðin lengra til suðurs en stefndi vildi viðurkenna í upphafi. Telja áfrýjendur að dalurinn nái að sama skapi lengra til vesturs, yfir Kreppu allt að Jökulsá á Fjöllum. Þá megi einnig ganga út frá því að Kreppa hafi á fyrri tíð fallið í Jökulsá á Fjöllum mun sunnar en hún geri nú auk þess sem hún hafi þá eingöngu verið bergvatnsá líkt og Sauðá og Kringilsá, sem nú eigi upptök í Brúarjökli en hafi á vissum tímaskeiðum verið bergvatnsár. Kreppa hafi því áður verið mun minna vatnsfall en nú og ekki sá farartálmi að hindrað hafi að umræddur hluti Krepputungu væri nýttur frá Brú.

Í fyrri dómi Hæstaréttar var sem áður sagði dæmt að þrætusvæðið í því máli væri þjóðlenda. Málsástæður fyrir aðalkröfu áfrýjenda nú voru flestar einnig hafðar uppi í fyrra málinu. Með vísan til forsendna þess dóms er því hafnað að aðalkrafa áfrýjenda nái fram að ganga á þeim grunni, en þær forsendur eiga eins við í þessu máli. Vísun til munnlegs leigusamnings frá 1996 um lóð undir skála og friðlýsingar þjóðminjavarðar á rústum, sem styðja á við kröfu um viðurkenningu beins eignarréttar, skiptir engu fyrir úrlausn málsins. Þá hafa áfrýjendur engum haldbærum rökum stutt aðalkröfu sína að því leyti, sem hún snýr sérstaklega að nyrsta hluta Krepputungu, og á það jafnt við um þá staðhæfingu að Kreppa hafi fyrrum runnið í öðrum farvegi en nú og að hún hafi þá verið bergvatnsá en ekki sú vatnsmikla jökulá sem hún er. Ekki er heldur neitt fram komið um nýtingu lands frá Brú vestur yfir Kreppu á þessu svæði. Samkvæmt öllu framanröktu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af aðalkröfu áfrýjenda.

III

Fyrir óbyggðanefnd gerðu réttargæslustefndu auk áfrýjenda tilkall til beins eignarréttar yfir Krepputungu sem var hafnað. Við höfðun málsins stefndu áfrýjendur þeim til réttargæslu á grundvelli 1. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Réttargæslustefndu áttu þess kost að gerast aðilar að málinu með meðalgöngu, sem þeir gerðu ekki. Við svo búið var þeim samkvæmt framangreindu lagaákvæði heimilt að styðja kröfu áfrýjenda, sem þeir gerðu að því er varðar kröfu um að úrskurður óbyggðanefndar yrði felldur úr gildi og að í Krepputungu sé ekki þjóðlenda. Varakrafa þeirra felur hins vegar í sér að viðurkennd verði réttindi þeim sjálfum til handa andstætt kröfu áfrýjenda, en slík kröfugerð er þeim óheimil samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar. Varakrafa réttargæslustefndu kemur þegar af þeirri ástæðu ekki til álita í málinu.

Varakrafa áfrýjenda hefur ekki verið studd gögnum fyrir Hæstarétti. Að gættu því að dómur um þá kröfu yrði ekki bindandi gagnvart réttargæslustefndu stendur hugsanlegt tilkall þeirra til afnota af landinu því ekki í vegi að úr þessari kröfu áfrýjenda verði leyst. Með þessari athugasemd verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af henni staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest og er rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður vegna áfrýjunar héraðsdóms gagnvart stefnda. Réttargæslustefndu létu málið til sín taka fyrir Hæstarétti og var veitt gjafsókn 12. nóvember 2009. Áfrýjendur gátu því aðeins náð fram endanlegum úrslitum um varakröfu sína gagnvart réttargæslustefndu að þeim hefði verið stefnt til aðildar að málinu, en ekki einungis til réttargæslu, þannig að þeir yrðu bundnir af dómi, sem gengi áfrýjendum í vil. Ljóst var að málatilbúnaður áfrýjenda kæmi í þessu skyni að engu haldi í því horfi, sem hann er. Verður áfrýjendum samkvæmt því gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem svarar til þóknunar lögmanns réttargæslustefndu í skjóli gjafsóknar, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjenda og réttargæslustefndu verða staðfest. Gjafsóknarkostnaður þeirra fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Stefán Halldórsson og Sigvarður Halldórsson, greiði óskipt stefnda, íslenska ríkinu, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda og réttargæslustefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns áfrýjenda, 500.000 krónur, og þóknun lögmanns réttargæslustefndu, 250.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 25. maí 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 27. apríl, var höfðað 12. desember 2008.

Stefnendur eru Stefán Halldórsson, Brú II, Fljótsdalshéraði og Sigvarður Halldórsson, Brú I, Fljótsdalshéraði.

Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhváli, Reykjavík.

Þá er stefnt til réttargæslu Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur, Reykjahlíð 1, Skútustaðahreppi, Sigurði Jónasi Þorbergssyni, Baughúsum 12, Reykjavík, Þuríði Sigurðardóttur, Hringbraut 50, Reykjavík, Ólafi H. Jónssyni, Huldubraut 50, Kópavogi, Bryndísi Jónsdóttur, Granaskjóli 56, Reykjavík, Sigurði Baldurssyni, Reykjahlíð 4, Skútustaðahreppi, Finni Baldurssyni, Lynghrauni 5, Skútustaðahreppi, Pétri Gíslasyni, Reynihlíð, Skútustaðahreppi, Finni Sigfúsi Illugasyni, Háaleitisbraut 34, Reykjavík, Jóni Illugasyni, Helluhrauni 15, Skútustaðahreppi, Sólveigu Illugadóttur, Sólgörðum, Skútustaðahreppi, Gísla Sverrissyni, Huldugili 5, Akureyri, Héðni Sverrissyni, Geiteyjarströnd 1, Skútustaðahreppi, Sigrúnu Sverrisdóttur, Skútahrauni 15, Skútustaðahreppi og Kristínu Þ. Sverrisdóttur, Víðihlíð, Skútustaðahreppi.

Málið er höfðað til ógildingar á úrskurði óbyggðanefndar og viðurkenningar á eignarréttarlegri stöðu lands í svokallaðri Krepputungu.

Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2007: Mývatnsöræfi og Ódáðahraun, frá 6. júní 2008, að því er varðar þjóðlendu á landsvæði, sem nefnt hefur verið Krepputunga, innan neðangreindra marka:

Frá ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum er Kreppu fylgt þar til Kverká rennur í hana og síðan Kverká að upptökum sínum í Brúarjökli. Síðan er jaðri jökulsins fylgt að meginupptökum Jökulsár á Fjöllum í Dyngjujökli og er þá miðað við stöðu jökuls eins og hann var við gildistöku þjóðlendulaga 1. júlí 1998, sbr. 22. gr. þjóðlendulaga. Loks ræður Jökulsá á Fjöllum að ármótum Kreppu.

Stefnendur krefjast og viðurkenningar á því að í Krepputungu innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda, en til vara að á ofangreindu svæði sé þjóðlenda í afréttareign stefnenda.

Þá krefjast þeir málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Stefndi krefst sýknu. Þá krefst hann aðallega málskostnaðar en til vara að hver aðila verði látinn bera sinn kostnað af málinu.

Réttargæslustefndu krefjast þess að viðurkennd verði krafa stefnenda um að innan framangreindra merkja sé engin þjóðlenda. Af þeirra hálfu er varakröfu stefnenda hins vegar mótmælt að því leyti að réttargæslustefndu telji að afréttareign á Krepputungu, ef viðurkennd yrði, tilheyri eigendum jarðarinnar Reykjahlíðar, en ekki eigendum jarðarinnar Brúar. Þá krefjast réttargæslustefndu málskostnaðar úr hendi stefnda, íslenska ríkisins, án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi.

I.

Í stefnu kemur fram að stefnendur séu eigendur óskipts lands jarðarinnar Brúar á Jökuldal, sbr. skiptagerð frá árinu 2000, en með skiptagerðinni hafi jörðinni verið skipt í Brú I, í eigu stefnanda Sigvarðar og Brú II í eigu stefnandans Stefáns, en hvorri jarðanna fylgi helmingshlutur í óskipti landi Brúar.

Bújörðin Brú  á Jökuldal hafi jafnan verið talin sú önnur stærsta á Íslandi á eftir nágrannajörðinni Reykjahlíð í Mývatnssveit. Að áliti stefnenda afmarkist land jarðarinnar þannig: Að norðan af landamerkjum jarðanna Möðrudals, Heiðarsels og Eiríksstaða, að austan af Jökulsá á Dal, að sunnan af Vatnajökli og að vestan af Jökulsá á Fjöllum. Land jarðarinnar sé allt samfellt og afmarkað afar glöggum merkjum frá náttúrunnar hendi. Falli því hið umdeilda svæði undir landamerkjalýsingu jarðarinnar, eins og stefnendur túlki hana.

Samkvæmt texta Landnámu hafi Hákon Hákonarson numið Jökulsdal allan fyrir vestan Jökulsá ok fyrir ofan Teigará ok [hafi búið] á Hákonarstöðum. Af tilvitnuðum texta Landnámu sé ljóst að ritari hennar hafi talið landnám Hákonar afmarkast af Jökulsá á Dal fyrir ofan (sunnan) Teigará og allt til upptaka hennar.

Brúar sé ekki getið í heimildum fyrr en á 15. öld og fáar skriflegar heimildir um jörðina hafi varðveist frá miðöldum. Jörðin Brú virðist frá upphafi hafa verið í bændaeign og kunni það að skýra fyrrgreinda heimildafátækt, en þó verði að geta þess að fjöldi íslenskra skjala hafi glatast í tímans rás, eins og alkunna sé. Elsta beina heimildin um heildarlandamerki jarðarinnar sé landamerkjabréf hennar frá árinu 1890, en þó hafi varðveist fáeinar heimildir sem ljósi geti varpað á landamerki Brúar, þó með óbeinum hætti sé.

II.

Í samræmi við ákvæði laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, tók óbyggðanefnd til meðferðar nánar tilgreint landsvæði á Norðausturlandi, sem nefndin kallaði svæði nr. 5. Hófst málsmeðferðin á árinu 2004 og lauk með uppkvaðningu úrskurða 29. maí 2007 í málum sem fengu númerin 1 til 5/2005. Í máli nr. 2/2005 var meðal annars fjallað um ágreining stefnenda og stefnda um eignarréttarlegri stöðu lands jarðarinnar Brúar á Jökuldal. Til norðurs á jörðin Brú land að jörðunum Eiríksstöðum, Heiðarseli og Möðrudal og liggja landamerki jarðarinnar að merkjum nefndra jarða frá Jökulsá á Dal allt yfir til Jökulsár á Fjöllum. Fyrir óbyggðanefnd kröfðust stefnendur þess að allt land milli nefndra jökulsáa frá framangreindri línu til suðurs allt til upptaka ánna í Vatnajökli yrði talið undirorpið beinum eignarrétti þeirra, að frátöldu landi jarðarinnar Laugarvalla sem liggur meðfram Jökulsá á Dal nokkru fyrir sunnan landamerki Brúar gagnvart Eiríksstöðum. Íslenska ríkið gerði kröfu til þess að land sunnan línu sem dregin væri milli jökulsánna frá þeim stað sem Kreppa rennur í Jökulsá á Fjöllum, í toppinn á Bíldufelli og beina línu í Jökulsá á Dal, teldist þjóðlenda. Undir meðferð málsins hjá óbyggðanefnd var umfjöllun um Krepputungu, sem er það landsvæði sem um er deilt í máli þessu, klofin frá og var síðan um það landsvæði fjallað þegar tekið var fyrir svæði nr. 6 hjá nefndinni, nánar tiltekið í máli nr. 1/2007, eins og nánar greinir hér síðar.

Í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2005 var ekki fallist á kröfulínu íslenska ríkisins og talið að Arnardalur teldist af nánar tilgreindum ástæðum undirorpinn beinum eignarrétti stefnenda. Var dregin lína frá Kreppu eftir nánar tilgreindum fjórum tindum Álftadalsdyngju yfir tvo tinda í Álftadalsfjalli og þaðan nánast beint í landamerki Laugarvalla um nánar tiltekinn tind í Þríhyrningsfjallgarði. Var þannig viðurkenndur beinn eignarréttur eigenda Brúar að öllu landi norðan umræddrar línu, milli nefndra vatnsfalla, að frátöldu landi Laugarvalla, en land sunnan línunnar allt að upptökum ánna í Vatnajökli var talin þjóðlenda í afréttareign eigenda Brúar.

Stefnendur freistuðu þess með málsókn að hnekkja framangreindri niðurstöðu óbyggðanefndar, en kröfum þeirri var hafnað með dómi Héraðsdóms Austurlands þann 10. desember 2008 í máli nr. 349/2007. Er það mál nú til meðferðar fyrir Hæstarétti.

Í því máli sem hér er til meðferðar er deilt um eignarréttarlega stöðu svokallaðrar Krepputungu, sem afmarkast með þeim hætti sem fram kemur í kröfugerð stefnenda og þykir ekki ástæða til að endurtaka hér. Um landsvæðið fjallaði óbyggðanefnd í máli nr. 1/2007 og var úrskurður kveðinn upp 6. júní 2008, en útdráttur úr úrskurðinum var birtur í Lögbirtingablaðinu 16. júní sama ár. Málið var höfðað 12. desember 2008 og því innan þess frests sem mælt er fyrir um í 19. gr. laga nr. 58/1998. Stefnendur kröfðust fyrir óbyggðanefnd að viðurkenndur yrði beinn eignarréttur þeirra að umræddu landsvæði, en til vara að svæðið væri í afréttareign þeirra. Réttargæslustefndu sem eru eigendum jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi gerðu samskonar kröfur fyrir óbyggðanefnd. Íslenska ríkið krafðist þess að landsvæðið yrði allt talið þjóðlenda og féllst óbyggðanefnd á kröfur ríkisins og hafnaði kröfum stefnenda og réttargæslustefndu í framangreindum úrskurði í máli nr. 1/2007.

III

Í úrskurði óbyggðanefndar í máli nefndarinnar nr. 1/2007 var kveðið á um eignarréttarlega stöðu Mývatnsöræfa og Ódáðahrauns. Varðar úrskurðurinn því mun víðlendara landssvæði en deilt er um í dómsmáli þessu. Verður hér gerð grein fyrir niðurstöðu nefndarinnar, eins og nauðsynlegt er til úrlausnar málsins. Ekki þykir ástæða til að gera sérstaklega grein fyrir ítarlegri umfjöllun nefndarinnar um ritaðar heimildir sem tiltækar eru og varða landsvæðið, en rakin eru í þeim köflum þar sem gerð er grein fyrir málsástæðum aðila þau gögn sem þeir  byggja málatilbúnað sinn og kröfur á.

Þó líta verði til úrskurðar óbyggðanefndar í heild við endurskoðun hans fyrir dómi þykir ekki ástæða til að rekja hér hina almennu umfjöllun í úrskurðinum en látið við það sitja að setja fram niðurstöðu nefndarinnar að því er varðar Krepputungu sérstaklega.

Í niðurstöðukafla úrskurðar óbyggðanefndar um Krepputungu kemur fram að nefndin muni fyrst fjalla um afmörkun jarðarinnar Reykjahlíðar og jarðarinnar Brúar og í því sambandi verði hugað sérstaklega að því hvort Krepputunga sé innan eða utan merkja þessara jarða. 

Ekki þykir ástæða til að rekja hér röksemdir óbyggðanefndar varðandi eignarréttartilkall eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, sbr. það sem rakið er í niðurstöðukafla dómsins um aðild réttargæslustefndu að málinu og heimildir þeirra til sjálfstæðrar kröfugerðar.

Varðandi eignarréttartilkall eigenda Brúar er vísað til þess í úrskurði óbyggðanefndar að af þeirra hálfu sé afmörkun svæðisins byggð á landamerkjabréfum jarðarinnar, því eldra frá 4. júlí 1890, sem þinglýst hafi verið 6. júní 1894, og því yngra frá 14. október 1921, sem þinglýst hafi verið 27. júlí 1922. Þá vitnar óbyggðanefnd orðrétt til úrskurðar nefndarinnar í máli nr. 2/2005 þar sem segi svo um merki jarðarinnar Brúar til suðurs:

 „Sá ágreiningur sem hér er til úrlausnar varðar suðurmerki Brúar, inn til landsins og í átt að jökli. Í hinu eldra landamerkjabréfi segir svo um þetta atriði, eftir að norðurmerkjum hefur verið lýst: „Allan Arnardal átölulaust, allt land Jökulsár á milli.“ Í yngra landamerkjabréfi Brúar er norðurmerkjum lýst vestur í Arnardalsárós við Jökulsá á Fjöllum og síðan segir „...allt land Jökulsáa á milli.“

Samkvæmt framangreindu sé suðurmerkjum Brúar hvergi lýst sérstaklega í heimildum. Þá er sá munur á eldra og yngra landamerkjabréfi jarðarinnar að í hinu eldra virðist einungis vísað frá Arnardal austur til Jökulsár á Jökuldal en í hinu yngra eru jökulárnar tvær, í vestri og austri. Þess er ekki getið í yngra landamerkjabréfi Brúar að á því svæði sem krefjendur beins eignarréttar í máli þessu miða við að sé innan merkjalýsingar, sé að finna allstórt landsvæði sem tilheyri Laugarvöllum, sbr. kafla 6.14. Var þó bréf Laugarvalla gert samdægurs yngra bréfi Brúar og áritað af hálfu Brúar.“

Niðurstaða óbyggðanefndar um þetta atriði í máli nr. 2/2005 sé svo sem hér segi:

„Svo sem hér að framan var rakið eru landamerki Brúar óljós um  merki til suðurs. Þá fær það ekki stoð í eldri heimildum að eignarland Brúar hafi náð allt suður að Vatnajökli. Arnardalur hefur nokkra sérstöðu í heimildum og að teknu tilliti til þess virðist eðlilegt að skýra eldra landamerkjabréf Brúar þannig að merki jarðarinnar nái til þess svæðis í heild sinni og þaðan austur að Jökulsá á Jökuldal.

[...]

Eftir er þá að leysa úr því hver séu mörk eignarlands Brúar til suðurs. Samkvæmt því er áður greindi um skýringu á eldra landamerkjabréfi Brúar, sbr. einnig heimildir um Arnardal, telur óbyggðanefnd rétt að miða hér við að Arnardalssvæðið sé innan merkja eignarlands Brúar, og afmarkist af tindum Álftadalsdyngju sunnan þess. Með vísan til aðildar eiganda Brúar að landamerkjabréfi Laugarvalla og staðhátta á svæðinu telur óbyggðanefnd rétt að miða við að eignarland Brúar afmarkist til suðurs af tindum Álftadalsfjalls og Þríhyrningsfjalla og þaðan að merkjum Laugarvalla.“

 Í máli því sem hér sé til úrlausnar hafi ekki verið sýnt fram á annað að þessu leyti og verði því að telja að Krepputunga liggi sunnan og utan landamerkja jarðarinnar Brúar.

Samkvæmt framangreindu liggi Krepputunga utan merkja Brúar og Reykjahlíðar, svo sem óbyggðanefnd hafi lagt til grundvallar að þau liggi. Þá verði skoðað hvort önnur atriði liggi til grundvallar rétti gagnaðila til Krepputungu. Svo sem fram komi fyrr í úrskurðinum sé því ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð. Sé tekið mið af staðháttum og fjarlægðum við túlkun landnámslýsinga verði þó að telja ólíklegt að land á þessu svæði hafi verið numið. Óvissa um aðferðir við landnám sé þó of mikil til þess að hægt sé að fullyrða um stærð landnáma á þeim grundvelli.

Friðlýsing fornleifa í Hvannalindum árið 1967 og síðar friðlýsing Hvannalinda árið 1972 skipti hér ekki máli en enga viðurkenningu stjórnvalda um að landið sé háð beinum eignarrétti sé að finna vegna þessa. Sérstaklega sé vísað til þess að gerður hafi verið leigusamningur vegna byggingar Sigurðarskála í Kverkfjöllum. Við mat á þessari ráðstöfun eigenda Brúar á landsvæðinu undir Sigurðarskála verði að hafa í huga þá almennu og viðurkenndu meginreglu eignarréttar að sá sem afsali fasteignaréttindum geti ekki afsalað víðtækari réttindum en hann eigi sjálfur. Að öðru leyti hafi Krepputunga lítið verið nýtt. Þangað hafi fé ekki ratað vegna landfræðilegra aðstæðna, þ.e. þeirra tveggja jökulsáa sem afmarki svæðið. Að öllu þessu virtu telji óbyggðanefnd að á viðkomandi landsvæði hafi ekki stofnast til beins eða óbeins eignarréttar fyrir nám, löggerninga, hefð eða með öðrum hætti.

Það sé því niðurstaða óbyggðanefndar að Krepputunga svo sem hún sé mörkuð í úrskurðinum, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

Merkjalýsing úrskurðarins fer saman við merkjalýsingu í kröfugerð stefnenda og þykir ekki ástæða til að endurtaka hana hér.

Þá kemur loks fram í úrskurði óbyggðanefndar að hluti umrædds svæðis sem lýst hafi verið þjóðlenda sé háður sérstöku eignarréttarlegum takmörkunum samkvæmt lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sbr. náttúruminjaskrá og auglýsingu nr. 32/1973.

IV

Stefnendur kveðast halda því fram að land þeirra, sem kallað er Krepputunga, sé eignarland í skilningi 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 þar sem eignarland sé skilgreint þannig að það sé landsvæði þar sem eigandi landsins fari með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segi til um á hverjum tíma. Þjóðlenda sé hins vegar landsvæði utan eignarlanda þó að einstaklingar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Það hafi því verið röng niðurstaða hjá óbyggðanefnd að telja fyrrgreint landsvæði til þjóðlendu.

Stefnendur telji að Krepputunga hafi verið hluti landnáms Hákonar Hákonarsonar en það hafi náð milli Jökulsár á Dal og Jökulsár á Fjöllum allt til Vatnajökuls. Eignarréttur hafi þannig stofnast við landnám og fullljóst að um fullkominn eignarrétt hafi verið að ræða þar sem engar heimildir bendi til þess að landnámsmenn hafi numið land til annars en fullrar eignar. Engin rök séu fyrir því að ætla að hluti lands, sem hafi verið á einni hendi um aldir, hafi verið skilinn frá og talinn einungis undirorpinn afnotarétti. Slíkt væri hugsanlegt ef um almenning eða samnotaafrétt margra jarða eða heillar sveitar væri að ræða, sem sé ekki í þessu tilviki.

Stefnendur telji að þinglýstar heimildir beri með sér að Krepputunga hafi verið hluti Brúarlands skv. þinglýstum landamerkjabréfum og óbyggðanefnd hafi ranglega túlkað hið eldra landamerkjabréf jarðarinnar, en túlkun nefndarinnar á texta bréfsins sé helsta röksemdin í þeirri niðurstöðu nefndarinnar að Krepputunga skuli vera þjóðlenda.

Hið eldra landamerkjabréf jarðarinnar sé dagsett 4. júlí árið 1890 og hljóði svo:

Landamerki milli Brúar og Eiríksstaða, Hákonarstaða og Möðrudals:

Eptir garði þeim er liggur úr Jökulsá utan við svokallaða ,,Orustustaði“ sjónhending í fremstu Hnefilöxl, þaðan í svokallaðan Stóralæk er fellur í Þverárvatn og allt land vestan vatna út í sel sem stendur í svokölluðum Skolladal, þaðan beina leið í Rúnastein á Urðarhlíð, sjónhending í hestleið á Þríhyrningsfjallgarði. Allan Arnardal átölulaust, allt land jökulsár á milli.

Landamerkjalýsingunni hafi verið þinglýst 6. júní 1894 á Skjöldólfsstaðamanntalsþingi og færð í landamerkjabók N-Múlasýslu. Undir hana riti Eiríkur Guðmundsson bóndi á Brú, Einar Eiríksson bóndi á Eiríksstöðum, S[ölvi] Magnússon, Eiríkur Einarsson og St[efán] Einarsson bóndi á Möðrudal.

Nýtt landamerkjabréf hafi verið undirritað, þann 14. október árið 1921 í samræmi við landamerkjalög frá árinu 1919 og hljóði svo:

Eftir grafning þeim er fellur í Jökulsá utan við Orustustaði, sjónhending í fremstu Hnefilsöxl, þaðan í Merkilæk, sem fellur í mitt Þverárvatn sunnanvert, allt land vestan vatna út í Svínabúðarlæk, sem ræður þaðan neðan frá Kílnum upp á ölduna neðan við Gyltuteig, þaðan í lágan mel utan við Fiskidalshálsinn, þaðan beina línu í Ysta-Þríhyrninginn. Þaðan beina línu í Arnardalsárós við Jökulsá á Fjöllum, og allt land Jökulsáa á milli.

Landamerkjabréfinu hafi verið þinglýst 27. júlí árið 1922 á Skjöldólfsstaðamanntalsþingi og undir það riti Eyjólfur Marteinsson bóndi á Brú, Einar Eiríksson bóndi Eiríksstöðum, Guðjón Gíslason bóndi Heiðarseli og Jón A. Stefánsson bóndi Möðrudal.

Að auki riti Björn Þorkelsson hreppstjóri Jökuldalshrepps undir svofellda yfirlýsingu á landamerkjabréfinu, sem dagsett sé 15. desember 1921: Allir aðiljar hafa undirskrifað landamerkin ágreiningslaus.

Stefnendur telji sönnunargildi hins yngra landamerkjabréfs vera miklum mun meira en hins eldra vegna þess að í ljósi slæmrar reynslu af hinum eldri landamerkjalögum hafi verið sett ný lög um landamerki árið 1919, lög nr. 41/1919, þar sem hvort tveggja hafi verið skerpt á efnis- og formsatriðum til þess að tryggja betri framkvæmd. Nýja löggjöfin hafi verið vandlega undirbúin og hafi ríkisstjórnin fengið lagadeild Háskóla Íslands til þess að semja frumvarp til nýrra landamerkjalaga. Lagadeildin hafi falið Einari prófessor Arnórssyni að semja frumvarpið.

Í greinargerð Einars Arnórssonar sem fylgt hafi fumvarpinu segi:

Landamerkjaskrár hafa eigi verið gerðar fyrir allar jarðir á landinu að því er ætla má. En þó þær hafi sjálfsagt verið gerðar að nafni til , þá munu margar þeirra eigi hafa hlotið samþykki allra aðilja ... Og er eigi heldur trygging fyrir því að merki hafi verið rétt samkvæmt því. (Alþingistíðindi 1919, A. Þingskjöl, þskj. Nr. 7, bls 172.)

Til þess að bæta úr þessum ágöllum hafi því ákvæði verið bætt í landamerkjalög nr. 41/1919 að landamerkjaskrár skyldi afhenda hreppstjóra, er rannsaka skyldi hvort allir aðilar hafi samþykkt hana og afhenda hana að því búnu sýslumanni til þinglýsingar. Þetta hafi verið ein mikilvægasta breytingin sem gerð hafi verið með lögum nr. 41/1919, en lögin skyldi bæði hreppstjóra og sýslumenn til að gæta þess sérstaklega eftirleiðis að lögunum verði fylgt. Þannig sé ábyrgð hins opinbera á réttri framkvæmd laganna ákveðin miklu skýrar en áður og þar með sönnunargildi landamerkjaskráa um eignarrétt aukið til mikilla muna.

Stefnendur telji þannig ljóst að merki jarðarinnar liggi, og hafi alltaf legið, frá Jökulsá á Jökuldal í austri til Jökulsár á Fjöllum í vestri og að Vatnajökli í suðri.

Í úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 2/2005, sé því slegið föstu að hvergi í heimildum sé suðurmerkjum jarðarinnar lýst. Stefnendur mótmæli því harðlega að svo sé. Land Brúarjarðarinnar sé ákaflega vel afmarkað frá náttúrunnar hendi, Vatnajökull í suðri, Jökulsá á Jökuldal í austri, Jökulsá á Fjöllum í vestri og aðliggjandi jarðir í norðri. Þegar gengið sé upp á bæjarhólinn á Brú í góðu skyggni sjáist alveg fram í Vatnajökul, sem dragi reyndar nafn sitt af bænum á þessu svæði og nefnist Brúarjökull, sem sé fornt örnefni og notað í Jöklariti Sveins Pálssonar frá 1794. Bæði landamerkjabréf jarðarinnar greini frá merkjum í Jökulsá á Fjöllum og Jökulsá á Dal og lýsi leiðinni þeirra á milli og segi síðan að jörðinni tilheyri allt land á milli Jökulsánna þar fyrir sunnan. Hvenær sé land á milli jökulsánna? Svarið sé augljóst: Þangað til komið sé að upptökum ánna og jökullinn taki við. Því sé þeim skilningi óbyggðanefndar að heimildir greini ekki frá suðurmerkjum jarðarinnar harðlega mótmælt.

Í úrskurði sínum vísi óbyggðanefnd mjög til þess að staðhættir og fjarlægð frá byggð styðji niðurstöðu nefndarinnar, en landið sé nær allt í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli.

Á það skuli minnt að staðhættir og gróðurfar séu nú með allt öðrum hætti en fyrr á tíð og samkvæmt greinargerð Hjörleifs Guttormssonar, um staðhætti og náttúrufar á svæðinu, sem fyrir liggi í málinu, hafi allt Brúarland verið meira eða minna þakið gróðri áður fyrr. Fjarlægð frá byggð sé ekki meiri en í landi Möðrudals á Fjöllum, sem þó teljist allt eignarland og verði Brúarland að teljast töluvert grónara á heildina litið. Möðrudalsland og Brúarland séu í svipaðri hæð yfir sjó og þess megi geta að bæjarhúsin á Brú séu í tæplega 380 metra hæð yfir sjávarmáli en í 450 metra hæð á Möðrudal. Varla teljist sú jörð mjög hálend sem hækki einungis um rúma 200 metra inn til landsins.

Óvíst sé að Kreppa hafi alla tíð verið jökulvatn og þannig jafnmikill farartálmi og nú. Heiti hennar bendi ekki til þess að um jökulvatn hafi verið að ræða. Nafn sitt dragi hún af kröppum beygjum sem einkenni farveg hennar. Heimildir séu fyrir því að þegar jökullinn hlaupi fram hafi ár breyst úr tærum bergvatnsám í beljandi jökulár og öfugt. Í sýslulýsingu norðurhluta Múlasýslu 1745 sé Sauðá í Brúarlandi lýst sem bergvatnsá en líklega fari jökulvatn að falla til Sauðár eftir framhlaup Brúarjökuls árið 1810. Þetta komi fram í skoðunargerð á Brúarlandi 1824 þar sem segi að Sauðá sé vegna jökulhlaupa aldeilis ófær orðin mönnum og skepnum. Í ferðabók Ólavíusar (1780) segi svo um Kringilsá í Brúarlandi, sem þar sé talin ein af fjórum upptakakvíslum Jökulsár á Brú:

„... 4. Úr Kringilsá, sem fyrr um kvað hafa verið bergvatn, en er nú kolmórauð gruggug jökulá ...“

Vitað sé að jökullinn hafi oft hlaupið fram á sögulegum tíma. Í ferðabók Eggerts og Bjarna sé þess getið að brúna á Jökulsá á Dal hafi tekið af í jökulhlaupi árið 1695. Af jöklariti Sveins Pálssonar megi draga þá ályktun að jökullinn hafi gengið fram í kringum 1760. Mikið framhlaup hafi verið í jöklinum 1810 sem áður hafi verið getið. Árið 1890 hafi jökullinn enn gengið fram og síðast 1963 – 1964.

Þótt Kreppu sé ekki getið í þessum heimildum sé meira en líklegt að hún hafi fyrrum verið bergvatnsá eða í það minnsta stórum minna jökulvatn en nú sé. Í það minnsta sé Kreppa ekki ófærara vatnsfall en það, að þar séu fornar rústir sem taldar séu vera frá dvöl útilegumanna í Krepputungunni. Því sé alfarið mótmælt að Kreppa sé þannig farartálmi að hún takmarki landareign Brúar að vestan eða skapi Krepputungu aðra eignarréttarlega stöðu en annað land jarðarinnar sé undirorpið.

Stefnendur bendi á að í dómsmálum vegna þjóðlendna hafi verið á það litið við úrlausn málanna að réttmætar væntingar eiganda um eignarrétt sinn, eins og þær sem að framan greinir, nytu verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi með samnefndum lögum nr. 62/1994. Verði eigandi ekki sviptur þeim fjárhagslegu hagsmunum sem felist í slíkum réttmætum væntingum nema að uppfylltum þeim skilyrðum sem nánar greini í umræddum eignarréttarákvæðum. Athugasemdir við það frumvarp sem orðið hafi að lögum nr. 58/1998 beri skýrlega með sér að það hafi ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um aldalangt skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi og láta þá bera hallann af vafa um þetta efni.

Stefnendur leggi áherslu á að þegar metið sé hvort um fullkominn eignarrétt sé að ræða á svæðinu eða ekki verði að líta til þeirra atvika er varði núverandi eigendur og forvera þeirra, sem styðji tilkall þeirra til beinna eignarréttinda innan ummerkja jarðarinnar. Í Hvannalindum í Krepputungu séu friðlýstar fornminjar, kofarústir og fjárrétt, sem taldar séu fra´byggð útilegaum anna. Friðlýsingarskjali hafi verið þinglýst sem kvöð á síðu Brúar í þinglýsingabók sýslumannsins í Norður – Múlasýslu með heimild í 10. gr. laga nr. 52/1969, en þar segi m.a.:

„... Tilkynna skal landeiganda á ábúanda skráninguna og tilgreina staðinn svo nákvæmlega og unnt er. Skráningu fornleifar á fornleifaskrá skal þinglýsa sem kvöð á landareign þá, sem í hlut á. ...“

Stefnendur bendi á að Sigurðarskáli í Kverkfjöllum standi á leigulóð og sé lóðarlega innt af hendi til eigenda Brúar.

Á áttunda áratug 20. aldar hafi verið hafist handa um friðlýsingu Hvannalinda í Krepputungu. Menntamálaráðuneytið hafi því aðeins viljað heimila friðlýsingu að ekki kæmu til skaðabótakröfur frá eigendum landsins, eins og fram komi í gögnum málsins, og hafi verið leitað til eiganda Brúar um að hann gæfi út yfirlýsingu þess efnis. Hafi slík yfirlýsing verið gefin út 24. júlí 1972 og hafi verið þinglýst á síðu Brúar í fasteignabók sýslumanns í Norður – Múlasýslu.

Landeigendur Brúar hafi þess vegna í gegnum tíðina haft réttmætar ástæður til að ætla að land innan landamerkja jarðarinnar væri undirorpið fullkomnum eignarrétti þeirra og hafi aðgerðir ríkisins fram til þessa aðeins styrkt landeigendur í þeirri trú.

Samkvæmt framangreindu öllu telji stefnendur vera þá annmarka á úrskurði óbyggðanefndar að varðað geti ógildingu hans.

Það sé og skoðun stefnenda að lög nr. 58/1998 verði ekki skýrð á þá leið að landeigendur þurfi að sýna frekar fram á, en þegar hafi verið gert, að umrætt landssvæði sé eignarland þeirra og þar með utan þjóðlendu.

Ekki ráði úrslitum í máli þessu þótt víða í heimildum sé notað orðið afréttur um hið umdeilda land. Afréttur geti verið heimaafréttur og ekki eingöngu notaður til sumarbeitar sauðfjár. Þá ráði ekki úrslitum um eignarhald þótt land sé aðeins notað til sumarbeitar eins og fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004. 

Stefnendur vísi til þess að stefndi hafi ekki sýnt fram á að hann eigi nokkurn rétt til umrædds landsvæðis. Til að stefndi geti öðlast þann rétt, sem skilgreindur sé í þjóðlendulögum verði að sýna fram á að heimildir um landamerki séu rangar og sömuleiðis þinglesnar landamerkjaskrár en það hafi hann á engan hátt gert. Þá þurfi stefndi að sýna fram á að afréttur sé samnotaafréttur en ekki einkaafréttur eða hluti jarðar, sem hann hafi ekki gert og hafi það mikið að segja við ákvörðun um inntak eignarréttarins sbr. fyrrgreindan Hæstaréttardóm í máli nr. 48/2004. 

Stefnendur byggi á því að verði eignarréttur þeirra ekki viðurkenndur á grundvelli þinglýstra eignarheimilda, hafi þeir öðlast eignarrétt að Krepputungu fyrir hefð og vísi þeir til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905. Eignarhefð verði unnin á fasteign með 20 ára óslitnu eignarhaldi og stefnendur og fyrri eigendur hafi í góðri trú haft öll umráð landsins í árhundraðaraðir.  Fullnægt sé öllum skilyrðum hefðar um eignarhaldstíma, virk umráð og huglæga afstöðu og samkvæmt því verði að telja, án tillits til uppruna og sögu eignarheimilda fyrir jörðina, að hefð hafi unnist, sbr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð, að því er varði umrætt landssvæði. Með hliðsjón af afstöðu eigenda á hverjum tíma og nýtingar þeirra verði að telja að sú hefð hafi verið til eignar á landinu, en ekki aðeins náð til takmarkaðra afnota eða ítaksréttinda. 

Stefnendur vísi um lagarök til 25. og 26. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 um rétt þinglýsts eiganda og til 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttinda,  sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með samnefndum lögum nr. 62/1994. Einnig sé vísað til óskráðra reglna eignarréttarins um beinan eignarrétt, til 1. gr. laga um þjóðlendur o.fl. nr. 58/1998, að því er varði skilgreiningu á eignarlöndum, og 1. gr. laga um landamerki nr. 41/1919 sbr. eldri lög um sama efni. Þá sé vísað til 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 6. gr. laga um hefð nr. 46/1905 enda hafi stefnendur haft umráð landsins fullan hefðartíma fasteigna margfalt og meinað öðrum afnot þess. Einnig vísi stefnendur til venju, þ.e. að það land sem að fornu hafi verið notað eingöngu af landeigendum sé með vísan til venjuréttar talið eignarland þeirra án takmarkana enda hafi nýting þeirra gefið slíkt til kynna.  Þá vísi stefnendur til meginreglna einkamálaréttarfars um sönnunargildi dóma sbr. og  núgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnendur byggi málskostnaðarkröfu á XXI. kafla laga nr. 91/1991 og vísi til gjafsóknarleyfis dóms- og kirkjumálaráðuneytis.

V

Af hálfu stefnda er á því byggt, að landsvæði það sem mál þetta varði sé svæði utan eignarlanda og teljist þannig vera þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar á svæðinu, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telji stefndi fullljóst af heimildum, að landsvæðið hafi aldrei verið undirorpið beinum eignarétti, og að nýting þess hafi ekki verið með þeim hætti, sbr. nánar eftirgreint. Að mati stefnda hvíli sönnunarbyrðin ótvírætt á stefnendum að sýna fram á tilvist beins eignaréttar að landsvæðinu, eða einstökum hlutum þess.

Óbyggðanefnd byggi úrskurð sinn á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum. Sé niðurstaðan byggð á kerfisbundinni leit nefndarinnar að gögnum og framlögðum gögnum frá málsaðilum. Þá hafi einnig verið byggt á skýrslum sem gefnar hafi verið fyrir nefndinni. Hafi óbyggðanefnd talið ótvírætt, að við gildistöku laga nr. 58/1998, hefði landsvæði það sem um sé deilt í máli þessu, talist til afrétta samkvæmt þeirri eignaréttarlegu flokkun lands sem almennt hafi verið miðað við fram til þess tíma.

Stefndi geri niðurstöður nefndarinnar að sínum til stuðnings sýknukröfu.

Af hálfu stefnda sé á því byggt að hin svonefnda Krepputunga liggi sunnan og utan landamerkja jarðarinnar Brúar.

Til séu tvö landamerkjabréf fyrir jörðina Brú. Annars vegar sé um að ræða landamerkjabréf frá 4. júlí 1890, en hins vegar bréf dags. 14. október 1921. Landamerkjabréfum beri hins vegar ekki að öllu leyti saman um merki, auk þess sem hið yngra bréf sé að hluta til í mótsögn við merkjalýsingar jarðarinnar Laugarvalla, sem hafi þó verið gert samdægurs yngra bréfi Brúar og áritað af hálfu Brúar.

Hvorki í hinu eldra né hinu yngra bréfi, sé merkjum jarðarinnar lýst sérstaklega til suðurs. Í hinu eldra landamerkjabréfi jarðarinnar segi svo, eftir að norðurmörkum jarðarinnar hefur verið lýst: „Allan Arnardal átölulaust, allt land Jökulsár á milli“. Í hinu yngra bréfi Brúar sé norðurmörkum lýst vestur í Arnardalsárós við Jökulsá á Fjöllum og síðan segi: „... alt land Jökulsáa á milli“.

Með vísan til óljósra lýsinga suðurmerkja jarðarinnar Brúar, sbr. að framan, sé eignarréttartilkalli til svæðisins sunnan þjóðlendukröfulínu hafnað, enda fái slíkt ekki stoð í eldri heimildum. Álíti stefndi sönnunarbyrði um beinan eignarrétt á hinum umdeilda landsvæði hvíla alfarið á stefnendum, í samræmi við almenn sönnunarsjónarmið í málum sem þessum, sbr. dóm Héraðsdóms Austurlands frá 10. desember 2008, í málinu nr. E-349/2007 (Brú).         

Stefndi sé sammála þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar, að þrátt fyrir tilvist þinglýsts landamerkjabréfs fyrir jörð, verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki getað einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. m.a. niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004 (Úthlíð).

Þá verði og við mat á gildi landamerkjalýsinga jarðarinnar að horfa til þess, að enginn hafi ritað samþykki sitt vegna marka jarðarinnar til suðurs og vesturs.

Við mat á gildi landamerkjabréfa beri að gæta að því, að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en í því felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst, þá takmarkist gildi þinglýsingarinnar af því, að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi á. Slíku eigendalausu landi geti eingöngu löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir, dragi það úr sönnunargildi bréfsins, sbr. t.d. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004.

Af hálfu stefnda sé á því byggt, að kröfur stefnenda til suðurs og vesturs, allt að Vatnajökli, eigi sér ekki nokkra stoð í eldri heimildum.

Bent sé á, að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám á þessu svæði hafi náð. Ólíklegt verði að teljast, að land á umþrættu svæði hafi verið numið í öndverðu, einkum með hliðsjón af staðháttum, gróðurfari, víðáttu og því að svæðið sé hálent, auk þess sem það sé umlukið illfærum straumvötnum til vesturs, norðurs og austurs, en jökli að sunnan. Þá sé og til þess vísað að svæðið liggi langt frá byggðum bólum. 

Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur hvað þetta varði leiða til þess að álitið verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Sé þetta til samræmis við þá reglu sem ráðin verði af dómafordæmum Hæstaréttar, að sé deilt um upphaflegt nám lands, verði aðeins stuðst við glöggar landfræðilegar heimildir, en heimildarskortur leiði til þess, að álitið verði ósannað að heiðarlönd hafi verið numin í öndverðu, sbr. til hliðsjónar t.d. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/1996 (Eyvindarstaðaheiði), 171/1998 (Jökuldalsheiði) og 48/2004 (Úthlíð). Hvíli sönnunarbyrðin um slíka eignaréttarstofnun á þeim sem haldi slíku fram.

Ekki verði annað ráðið af heimildum en að svæðið hafi eingöngu verið nýtt með afar takmörkuðum hætti, sbr. m.a. umfjöllun um það atriði í úrskurði óbyggðanefndar. Þá vísi stefndi einnig til fyrrgreinds dóms Héraðsdóms Austurlands í máli Brúar.  

Ekki verði annað séð, en að réttur stefnenda til hins umþrætta landsvæðis hafi orðið til á þann veg, að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búpening og, ef til vill, annarrar takmarkaðrar notkunar.

Verði talið, að svæðið hafi verið numið í öndverðu, hafi það ekki verið numið til eignar, heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota. Frá upphafi Íslandsbyggðar hafi menn helgað sér ekki eingöngu ákveðin landsvæði, sem háð hafi verið beinum eignarétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu hafi getað haft fyrir afkomu þeirra. Meðan landsvæði hafi gefið eitthvað af sér hafi hagsmunir legið til þess að halda við merkjum réttindanna, hvers eðlis sem þau hafi verið. Um þetta sé m.a. vísað til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 67/2006 (Skjaldbreiður) og nr. 27/20007 (Grænafjall).

Verði hins vegar talið, að svæðið kunni að hafa að hluta eða að öllu leyti verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarétti, byggi stefndi á til vara, að allar líkur séu á því, að slíkt eignarhald hafi fallið niður en svæðið verið tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota, sbr. eftirfarandi umfjöllun í greinargerð. Þó að talið yrði að til beins eignaréttar hefði stofnast í öndverðu, liggi ekkert fyrir um að sá réttur hafi haldist í gegnum aldirnar.

Stefndi sé sammála þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar, að suðurmörk jarðarinnar Brúar afmarkist af tindum Álftadalsfjalls og Þríhyrningsfjalla og þaðan að merkjum Laugarvalla, með vísan til staðhátta á svæðinu. Vísist um það m.a. til lýsingar í hinu eldra landamerkjabréfi jarðarinnar frá árinu 1890, sbr. orðalagið „Allan Arnardal átölulaust, ...“. Arnardalur liggi vestan Þríhyrningsfjalla en norðan Álftadalsdyngju (802 m), austur af ármótum Kreppu og Jökulsár á Fjöllum.

Að því er varði heimildir um fyrri tíðar nýtingu svæðisins, skuli fyrst geta skoðunargjarðar Páls Melsteðs sýslumanns frá árinu 1824. Þar segi, að af afréttum þeim „...er Brú tilheyr[i], og Brúardalir nefn[i]st, [sé] aftekin fullur þridiúngur, vegna þess, að Vatnsfall nokkurt, ad nafni Saudá, [sé], vegna Jökulhlaupa, aldeilis ófært ordid bæde Mönnum og Sképnum, og öll Öræfe þau, sem þar [séu] fyrir framan, [séu] því Jördunni töpud og ad eingu Gagni.“

Sóknarlýsing Sigfúsar Finssonar prests í Hofteigi frá árinu 1840 sé í samræmi við skoðunargjörðina en þar segi að afréttir í sókninni séu öngvir, þar fjalllöndin (sem sagt) [séu] fallin í sand og aura, nema Skjöldólfstaða- og Hákonarstaðaheiðar og einstöku torfuskikar á Brúardölum, ...“ Í lýsingunni komi einnig fram, að almenninga sé ekki að finna í sveitinni.

Í jarðamati 1849 segi um Brú, að afrétt eigi jörðin „fyrir sjálfa sig, og [megi] ljá hann öðrum 2ur eda 3ur mönnum.“ Þá segi að útheyjarskapur sé talsverður en langsóttur.

Í sóknarlýsingum Þorvalds Ásgeirssonar prests í Hofteigi frá 1874 segi um Brú að jörðin sé „einhver hin erfiðasta allra stórjarða í sveitinni því að heyskapur [sé] svo að segja enginn í heimalandi heldur langsóttur mjög, bæði á Laugarvalladal og norður undir fjallgarða.“ Nefndir fjallgarðar séu utan kröfusvæðis íslenska ríkisins en Laugarvalladalur innan ágreiningssvæðis í máli þessu. Þá segi um hinn svonefnda Brúarskóg sem liggi „fyrir innan bæinn með fram Jökulsánni að norðan, [að þar sé] ekki nokkur kvisttanni, en beit [sé] þar oft góð, haust og vor, fyrir sauði.“ Brúarskógur nái upp að Hafrahvammagljúfri og sé þannig bæði innan kröfusvæðis Brúar og Laugarvalla. Loks sé fjallað almennt um afrétti innan sóknarinnar en þeir helstu séu „... Fljótsdals- og Jökuldalsheiðin, þ.e. hver jörð [hafi] afrétt í þeirri heiði, sem henni [tilheyri]. Auk þess [séu]: Vesturöræfaafrétt, fram af Hrafnkelsdal, og Brúardalir, fram af Jökuldal, og [séu] þessar afréttir aðeins notaðar af fremstu bæjum.“

Í bókinni Lýsing Íslands frá árinu 1881 segi að upp af Múlasýslum séu afar víðáttumikil beitarlönd og afréttir. Þar séu sauðsnöp víða og sumstaðar stórir hagablettir. Upp af Brúaröræfum við Brúarjökul séu hagasvæði á Þorláksmýrum og í Maríutungum. Þá segi að bændur frá Efri-Jökuldal hafi upprekstur fyrir lömb sín á Kringilsárrana og séu þau flutt á kláfdrætti yfir Kringilsá.

Í fasteignamati 1916-1918 segi að jörðinni Brú fylgi víðlent afréttarland og silungsveiði í heiðarvötnum.

Af fyrrgreindum heimildum verði ekki annað ráðið en að umdeilt svæði, sunnan þjóðlendukröfulínu, hafi ekki lotið beinum eignarrétti, heldur verið svæði utan eignarlanda sem einungis hafi verið nýtt til takmarkaðra nota, þ.á.m. til sumarbeitar fyrir búfé. Af heimildum verði því ekki ráðið að merki jarðarinnar Brúar hafi náð allt suður til Vatnajökuls. Þar sem ritaðar heimildir renni ekki stoðum undir túlkun stefnenda á landamerkjabréfum Brúar, verði óljósar lýsingar bréfanna til suðurs, um hið umdeilda landsvæði, ekki lagðar til grundvallar.

Af hálfu stefnda sé fallist á með óbyggðanefnd, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 1/2007, að ekki hafi verið sýnt fram á annað en Krepputunga liggi sunnan og utan landamerkja jarðarinnar Brúar.

Þá sé á því byggt af hálfu stefnda að staðhættir og fjarlægð frá byggð bendi til þess að landið hafi ekki verið numið í öndverðu eða teljist lúta beinum eignarrétti.

Umdeilt landsvæði liggi í um og yfir 500 metra hæð yfir sjávarmáli og nái suður að Vatnajökli. Nyrsti hluti tungunnar kallist Krepputunga og inn af henni taki við Kverkfjallarani og suður af honum Kverkfjöll. Kverkfjallarani sé fjalllendur og nær alveg gróðurlaus og nái fjallstopparnir í yfir 800 metra hæð. Raninn sé að meginhluta byggður upp af fimm samsíða móbergshryggjum og fari fellin í þeim hækkandi eftir því sem nær dragi jökli. Kverkfjöll og Kverkfjallarani liggi hærra en svo að þar þrífist samfelldur gróður enda sáralítið um hann á hinu umdeilda svæði. Stærsta gróðurvinin sé norðvestan Kverkfjallarana í Hvannalindum í um 640 metra hæð. Hvannalindir liggi undir Lindahrauni í skjóli af Lindafjöllum og Krepputunguhraunum að vestan og Kreppuhrygg að austan. Lindaá falli úr suðri niður með hraunjaðrinum við Kreppuhrygg. Frá tungusporði Krepputungu í 1800 metra hæðarpunkt upp af Kverkfjöllum séu rúmir 52 kílómetrar og frá sama hæðarpunkti í Hvannalindir séu um 25 kílómetrar, mælt í beinni loftlínu.

Að teknu tilliti til staðhátta, víðáttu, gróðurfars á svæðinu og hæðar þess yfir sjó, virðist því augljóst að svæðið hafi ekki verið nýtt til annars en hugsanlega takmarkaðra beitarnota eða eftir atvikum annarra takmarkaðra nota.

Ekki verði talið að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu lands, staðhætti og eldri heimildir. Í aldanna rás hafi svæðið verið nýtt með afar takmörkuðum hætti, svo sem til sumarbeitar fyrir búfénað. Hefðbundin afréttarnot, eða önnur takmörkuð nýting lands, geti hins vegar ekki stofnað til beinna eignaréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 103/1953 (Landmannaafrétt), 47/2007 (Bláskógabyggð) og 48/2004.

Stefndi hafni því, að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignaréttartilkalli á svæðinu. Sú regla verði leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær til þess að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema sérstök lagaheimild hafi verið fyrir hendi, þ.m.t. það að þjóðlenda hafi verið látin af hendi.  Réttmætar væntingar geti því ekki stofnast á þeim grundvelli sem haldið sé fram. Þar að auki verði væntingarnar vitanlega einnig að vera réttmætar í skilningi laga, þ.e. menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Ef því hátti þannig til, líkt og í þessu tilviki, að m.a. heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands bendi ekki til beins eignaréttar, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.

Þá sé á það bent af hálfu stefnda að þinglýsing landamerkjabréfs eða heimildarskjals fyrir svæði feli ekki í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar, sbr. þá meginreglu eignarréttarins, að menn geti ekki með eignayfirfærslugerningi öðlast betri rétt en seljandi hafi átt.

Af hálfu stefnda sé ekki talið að friðlýsing fornleifa í Hvannalindum árið 1967 og síðar friðlýsing Hvannalinda árið 1972 hafi nokkra þýðingu við mat á eignarréttarlegri stöðu landsins, enda felist ekki í því viðurkenning stjórnvalda á því að svæðið sé háð beinum eignarrétti.

Þá sé hafnað að leiga og innheimta lóðarleigu vegna Sigurðarskála í Kverkfjöllum renni stoðum undir eignarréttartilkall stefnenda. Tekið sé undir með óbyggðanefnd að við mat á þessari ráðstöfun eigenda Brúar á landsvæðinu undir Sigurðarskála verði að hafa í huga þá almennu og viðurkenndu meginreglu eignarréttar, að sá sem afsali fasteignaréttindum geti ekki afsalað víðtækari réttindum en hann eigi sjálfur. Að sama skapi teljist þinglýsing landamerkjabréfa og heimildarbréfa vegna Brúar ekki fela í sér sönnun um tilvist beins eignarréttar að hinu umdeilda landsvæði.

Þeim málatilbúnaði stefnenda sé jafnframt hafnað, er lúti að því að ákvæði þjóðlendulaga uppfylli ekki lagaskilyrði 72. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Með lögunum sé ekki verið að gera eignir manna upptækar, heldur skera úr um eignaréttindi.

Með vísan til alls þess sem að framan sé rakið, hvers um sig og saman, þá telji stefndi að stefnendum hafi ekki tekist að sýna fram á eignarétt á hinu umþrætta landsvæði. Ljóst sé að einstakir hlutar þess svæðis sem hér hafi verið fjallað um, séu misjafnlega fallnir til beitar. Beitarsvæði taki þó breytingum, auk þess sem þau séu ekki endilega samfelld. Landsvæði það sem hér sé til meðferðar, verði því talið falla undir skilgreininguna „landsvæði ...sem að staðaldri [hafi] verið notað til sumarbeitar fyrir búfé...“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998. Engin gögn liggi fyrir um að landsvæði þetta hafi haft mismunandi eignaréttarlega stöðu. Telji stefndi því að landsvæði það sem hér sé til umfjöllunar, svo sem það sé afmarkað í kröfugerð stefnenda og fari saman við niðurstöður óbyggðanefndar, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998.

Að öðru leyti mótmæli stefndi öllum sjónarmiðum og málsástæðum stefnenda, svo sem þeim sé lýst í stefnu, en byggi um leið á þeim röksemdum sem lagðar hafi verið til grundvallar í úrskurði óbyggðanefndar í málinu nr. 1/2007, sbr. 2/2005, auk þess sem byggt sé á þeim sjónarmiðum og röksemdum sem settar hafi verið fram af hálfu stefnda, fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins, í kröfulýsingu hans fyrir nefndinni, dags. 1. nóvember 2006, sbr. greinargerð hans dags. 11. júní 2007, sbr. einnig kröfulýsingu dags. 14. október 2004, sbr. greinargerð dags. 10. desember 2005, og þess krafist að úrskurður óbyggðanefndar frá 6. júní 2008, í fyrrgreindu máli nr. 1/2007, verði staðfestur, þannig að miðað verði við að þjóðlendulína verði dregin með þeim hætti sem þar sé gert.

Auk framangreindra lagatilvísana, vísi stefndi máli sínu til stuðnings til almennra reglna eignaréttar og til þjóðlendulaga, nr. 58/1998. Þá sé vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944. Byggt sé á meginreglum eignaréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareigenda og almennra reglna samninga- og kröfuréttar. Vísað sé til hefðarlaga, nr. 46/1905 og til laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni og fjallskil. Þá sé vísað til ýmissa eignaréttarreglna Grágásar og Jónsbókar.

Krafa um málskostnað styðjist við XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, aðallega 129. og 130. gr. þeirra laga.

VI

Af hálfu réttargæslustefndu var lögð fram greinargerð og þar gerðar þær kröfur sem að framan eru raktar. Réttargæslustefndu gerðust ekki aðilar að málinu með höfðun meðalgöngusakar. Þykir þó rétt að gera hér grein fyrir efni greinargerðarinnar.

Réttaræslustefndu lýsa málavöxtum svo að með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu er birst hafi 28. desember 2004 hafi verið skorað á eigendur jarða á N-Austurlandi, að lýsa kröfu sinni til landsins fyrir óbyggðanefnd, auk þess að gera grein fyrir landamerkjum jarðanna, með vísan til laga nr. 58/1998, með síðari breytingum. Hafi svo verið gert af hálfu réttargæslustefndu.

Hafi raunar fyrst verið gert ráð fyrir að landsvæði það sem hér sé til meðferðar ætti ekki að taka til S-Þingeyjarsýslu, en réttargæslustefndu telji að fornar heimildir sýni að mörk S-Þingeyjarsýslu og þar með Reykjahlíðar eigi að ná að Kreppu sem sé austasta kvísl Jökulsár á Fjöllum. Hafi svæðið því verið tekið með svæði 6. Auk réttargæslustefndu hafi stefnendur gert kröfu til svæðisins.

Í árbók Þingeyjarsýslu frá 1965 eftir Jóhann Skaftason segi að það hafi komið fram misskilningur um mörk milli S-Þingeyjarsýslu og N-Múlasýslu eftir að Kreppa hafi hlotið sjálfstætt nafn, en það hafi ekki orðið fyrr en snemma á 19. öld. Hann telji óhætt að fullyrða að Kverkfjöll og Krepputunga hafi frá fornu fari verið talin meðal Þingeyinga til Þingeyskra öræfa.

Jóhann bendi á að heimildir frá Þorvaldi Thoroddsen og Ólafi Jónssyni í ritinu Ódáðahraun bendi til þess að menn telji Krepputungu til Þingeyskra öræfa.

Jóhann segi að fremur sjaldgæft sé að fé fari í Krepputungu, en Mývetningar hafi stundum bjargað því.

Samkvæmt afréttarskrá Skútustaðahrepps frá 13. mars 1878 sé sagt frá svokölluðum Austurfjöllum er tilheyri Reykjahlíðarkirkju. Þar séu austurmörkin sögð Jökulsá á Fjöllum framundir jökla.

Svæði þetta hafi svo verið tekið til afgreiðslu hjá óbyggðanefnd eftir málflutning haustið 2007, með úrskurði óbyggðanefndar 6. júní 2008 í málinu nr. 1/2007. Landið hafi verið talið af óbyggðanefnd hrein þjóðlenda. Eigendur Brúar hafi höfðað mál þetta til þess að fá þeirri niðurstöðu hnekkt. Undir þá kröfu taki eigendur Reykjahlíðar, réttargæslustefndu í máli þessu.

Komi til þess að landið teljist ekki þjóðlenda, muni stefnendur og réttargæslustefndu leysa úr því innbyrðis hvorum eignarréttur á Krepputungu tilheyri, en úrlausn þess eigi eðli máls samkvæmt ekki undir óbyggðanefnd.

Réttargæslustefndu kveðast byggja á og vísa til þess að þeir séu þinglýstir eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Mývatnssveit. Með framlagningu staðfests veðbókavottorðs fyrir eigninni, hafi þeir lagt fram sönnun fyrir eignarrétti sínum á jörðinni. Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því.

Krafa réttargæslustefndu byggi m.a. á úrskurði frá 23. maí 1506, kveðnum upp á Þverá, þar sem Finnbogi lögmaður Jónsson, samþykki og staðfesti dóm frá 17. maí 1506 um landeign Reykjahlíðar, og vitnisburði um landeign Reykjahlíðar. Krafan byggi einnig á öðrum skráðum eignarheimildum sem þeir hafi fyrir þessari eign sinni, fornum og nýjum og einnig landamerkjabréfum aðliggjandi jarða.

Samkvæmt nefndum úrskurði frá 1506 tilheyri jörðinni Reykjahlíð samkvæmt fornu hefðarhaldi allt land á millum Jökulsár og búfjárhaga þeim er liggi í austur frá þeim jörðum er við Mývatn standi og sjónhending fyrir austan alla búfjárhaga fyrrnefnda suður í öræfi svo langt sem vatnsföll deilist og vötn dragi. Sé því haldið fram að Krepputunga rúmist innan þessarar lýsingar, enda Kreppa austasta kvísl Jökulsár á Fjöllum.

Fullur hefðartími sé að sjálfsögðu einnig löngu liðinn frá því ofangreindur landamerkjadómur hafi gengið, eða um 500 ár.

Þá sé einnig vísað til lýsingar á svokölluðum Austurfjöllum sem tilheyrt hafi Reykjahlíðarkirkju samkvæmt skráningu á afréttarlöndum frá 13. mars 1878.

Samkvæmt ofangreindum heimildum hafi réttargæslustefndu óskoraðan eignarrétt fyrir þessu eignarlandi sínu með öllum gögnum og gæðum, meðal annars á grundvelli hefðar.

Á því sé byggt að hafi ríkisvaldið nokkru sinni getað haft uppi vefengingarkröfu á hendur eigendum Reykjahlíðar vegna Krepputungu, þá sé ljóst að hún sé fallin niður vegna fyrningar og tómlætis.

Í ljósi þessa fimmhundruð ára gamla dóms, sem liggi fyrir um eignarrétt á umræddu landi, sé því haldið fram að réttargæslustefndu hafi fært fram nægar heimildir fyrir eignatilkalli sínu. Það sé því ríkisins að hrekja þá staðhæfingu þeirra að þrætulandið Krepputunga sé fullkomið eignarland þeirra.

Vísist einnig um þetta til fyrri úrskurða óbyggðanefndar, þess efnis að landsvæði, sem talið hafi verið jörð, samkvæmt elstu heimildum og þegar landamerkjalýsing fari ekki í bága við eldri heimildir, sé beinum eignarrétti háð. Sá er haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir því. Þessi niðurstaða sé í samræmi við niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands í dómi frá 7. nóvember 2003, er standi óraskaður af Hæstarétti, sbr. Hrd. frá 21. október 2004.

Þá hafi Mannréttindadómstóll Evrópu sérstaklega litið til þess, í úrlausnum sínum um eignarrétt, hvaða væntingar menn hafi mátt hafa um eignarhald sitt, þegar litið hafi verið til athafna eða athafnaleysis ríkisvalds gagnvart réttindunum.

Eigendur Reykjahlíðar hafi í ljósi eignarheimilda sinna, þ.e. hins ævaforna eignardóms, og viðurkenningar ríkisvaldsins á honum lengi haft réttmætar ástæður til að vænta þess að jörðin Reykjahlíð og þar með Krepputunga, sé beinum eignarrétti háð. Þessi eignarréttur verði ekki af þeim tekinn bótalaust enda sé hann varinn í stjórnarskrá Íslands og af mannréttindaákvæðum sem lagagildi hafi hér á landi.

Réttargæslustefndu leggi áherslu á að þegar metið sé hvort um beinan eignarrétt sé að ræða á svæðinu að horft sé til þeirra atvika er varði núverandi eigendur og forvera þeirra sem styðji eignartilkall þeirra á umræddu svæði:

1) Eignardómur byggður á hefð liggi til grundvallar umræddum landamerkjum. Hafi landamerki þessi ekki áður verið vefengd af ríkisvaldinu. Enginn hafi getað nýtt jörðina án samþykkis eigenda hennar. Þegar Sigurðarskáli í Kverkfjöllum hafi verið byggður hafi verið leitað til Reykhlíðinga um leyfi.

2) Skattar og önnur lögboðin gjöld hafi alltaf verið greidd af öllu landi Reykjahlíðar og það verið veðsett m.a. af opinberum sjóðum án athugasemda.

3) Samkvæmt ofangreindu sé ljóst að öll nýting á umræddu landsvæði hafi verið háð leyfi eigenda. Eignarréttur verði leiddur af samanburðarskýringu á þeim heimildarskjölum sem eigendurnir hafi fyrir eign sinni sem og landamerkjabréfum aðliggjandi jarða, ómunahefð, venjurétti og svo þeim réttmætu væntingum sem þeir hafi haft til eignarréttar síns af umræddu landsvæði, sbr. túlkun Mannréttindadómstóls Evrópu á 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við framkomu ríkisins gagnvart þeim með athöfn og athafnaleysi. Ríkið hafi aldrei fyrr vefengt eignarrétt landeigenda að umræddu landsvæði.

Venjur varðandi fjallskil geti ekki ráðið úrslitum þegar tekin sé afstaða til þess hvort jörðin sé öll beinum eignarrétti háð, sbr. og úrskurð óbyggðanefndar í uppsveitum Árnessýslu 21. mars 2002. Fjallskil hafi verið gerð eftir þörfum af landeigendum samkvæmt fjallskilareglugerð, en svæðið hafi ekki verið nýtt undir sauðfé.

Um lagarök vísa réttargæslustefndu til meginreglna í eignarrétti og stjórnarskrár, einkum 72. gr., landamerkjalaga nr. 41/1919, laga um hefð, laga um skráningu og mat fasteigna nr. 94/1976, rannsóknarreglu, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Þá sé minnt á reglu stjórnsýslulaga um álitsumleitan. Vísað sé til þinglýsingarlaga nr. 39/1978, einkum 25. – 27. gr., laga um afréttarmálefni og fjallskil nr. 6/1986, þjóðlendulaga nr. 58/1998, einkum 1. gr., 5. gr., 15. gr. og 17. gr. Einnig sé vísað til 11. gr., Mannréttindasáttmála Evrópu einkum 2. og 6. gr. og 1. gr. 1. samningsviðauka og um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. þjóðlendulaga.

VII

Eins og nánar er lýst hér að framan stendur deila málsaðila um eignarréttarlega stöðu Krepputungu innan merkja sem nánar er lýst í aðalkröfu stefnenda og ekki þykir ástæða til að endurtaka hér. Fjallaði óbyggðanefnd um málið á grundvelli fyrirmæla laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta og kvað upp úrskurð 6. júní 2008 og hafði málið númerið 1/2007. Útdráttur úrskurðarins var birtur í Lögbirtingablaði 16. júní 2008 og er mál þetta höfðað 12. desember sama ár og því innan þess frests sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að innan greindra merkja væri þjóðlenda. Með þeirri niðurstöðu sinni hafnaði nefndin eignaréttartilkalli stefnenda sem eigenda jarðarinnar Brúar, sem og eignarréttartilkalli eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar sem stefnt er til réttargæslu í málinu. Verður fyrst vikið að kröfum réttargæslustefndu í málinu, en þær eru raktar í upphafi dómsins.

Í 21. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála greinir í 1. mgr. að ef úrslit máls geti skipt þriðja mann máli að lögum geti aðili stefnt honum og skorað þannig á hann að veita sér styrk í málinu eða gæta þar annars réttar síns. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er kveðið á um að mæti þriðji maður í máli en gerist ekki aðili að því verði kröfur ekki gerðar á hendur honum og geti hann ekki gert kröfu um annað en málskostnað sér til handa. Honum sé allt að einu rétt að afla gagna í máli og flytja það af sinni hendi að því leyti sem það varði hann að lögum.

Stefnendur stefndu eigendum jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi til réttargæslu í málinu á grundvelli framangreindrar heimildar, enda höfðu réttargæslustefndu kallað til eignarréttinda á umræddu landsvæði. Réttargæslustefndu gerðust ekki aðilar að máli þessu með höfðun meðalgöngusakar, eins og þeim hefði þó verið kleift en eignarréttartilkalli þeirra til umrædds landsvæðis var hafnað með nefndum úrskurði óbyggðanefndar. Samkvæmt fortakslausu ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 er engin heimild að lögum fyrir réttargæslustefndu að hafa uppi í málinu aðrar kröfur en um málskostnað og koma kröfur þeirra umfram það því ekki til álita hér fyrir dómi.  Þykir því ekki ástæða til að huga frekar að röksemdum sem réttargæslustefndu tefla fram í málinu.

Stefnendur byggja kröfur sínar í fyrsta lagi á því að umrætt landsvæði sé innan landnáms Hákonar Hákonarsonar, en það hafi náð milli Jökulsár á Dal og Jökulsár á Fjöllum allt til Vatnajökuls og þar með Krepputunga.

Landnámabók greinir frá landnámi Hákonar Hákonarsonar með þeim hætti að hann hafi numið Jökuldal allan fyrir vestan jökulsá og fyrir ofan Teigará. Ekki verður að mati dómsins talið að framangreind lýsing sé nægilega skýr til að geta ein og sér leitt til þeirrar ályktunar sem stefnendur byggja á, þannig að allt land vestan Jökulsár á Jökuldal allt að upptökum árinnar í Vatnajökli og vestur að Jökulsá á Fjöllum allt til upptaka þeirrar ár í Vatnajökli geti á grundvelli framangreindrar lýsingar talist hafa verið numið í öndverðu. Á hinn bóginn útilokar nefnd landnámslýsing heldur ekki að svo kunni að hafa verið.

Stefnendur telja að heimildir beri með sér að Krepputunga hafi verið hluti Brúarlands, skv. þinglýstum landamerkjabréfum, en í málinu liggja fyrir tvö landamerkjabréf jarðarinnar, hið fyrr frá árinu 1890 og hið síðara frá árinu 1921. Telja stefnendur að nefnd landamerkjabréf séu að réttum skilningi samhljóða um að „allt land jökulsáa á milli“ sé í eigu Brúar og að í því felist að í landamerkjabréfunum sé lýst merkjum sem fylgi nefndum jökulsám allt að upptökum þeirra í Vatnajökli. Stefndi á hinn bóginn telur merkjalýsingu til suðurs (í átt að jöklinum) óljósa.

Í máli nr. E-349/2007 sem dæmt var í Héraðsdómi Austurlands 10. desember 2008 var fjallað um kröfur stefnenda á hendur stefnda vegna úrskurðar óbyggðanefndar í máli nr. 2/2005. Var þar fjallað um land jarðarinnar Brúar og túlkun ofangreindra tveggja landamerkjabréfa jarðarinnar. Var staðfest niðurstaða óbyggðanefndar um að umrædd landamerkjabréf væri ekki unnt að skilja á þann veg að þau lýstu landamerkjum jarðarinnar allt til upptaka nefndra jökulsáa. Þá var staðfest niðurstaða óbyggðanefndar um að mörk eignarlands jarðarinnar yrðu dregin þannig að allur Arnardalur teldist eignarland hennar en sunnan hans væri þjóðlenda í afréttareign stefnenda. Byggðist niðurstaða dómsins um afréttareign stefnenda á landsvæði sunnan Arnardals og lands Laugarvalla og allt inn til jökuls á fyrirliggjandi heimildum um landnýtingu á svæðinu.

Samkvæmt hinum fyrri dómi var ekki fallist á með stefnendum að landamerki jarðarinnar fylgdu Jökulsá á Fjöllum allt til upptaka hennar í Vatnajökli, en suðurmerki voru ákveðin á grundvelli heimilda um nýtingu Arnardals. Engar heimildir frá fyrri tíð liggja fyrir um nýtingu Krepputungu, hvorki af hálfu stefnenda né annarra. Jökuláin Kreppa, sem skilur land jarðarinnar Brúar, sem fjallað var um í hinum fyrri dómi, frá því landi sem hér eru um deilt, er ill yfirferðar og liggja engin gögn eða upplýsingar fyrir um að svo hafi ekki verið á fyrri tíð. Geta heimildir um breytingu á vatnsmagni og eðli annarra jökuláa á svæðinu ekki veitt neina vísbendingu um að Kreppa hafi áður verið bergvatnsá eins og stefnendur telja. Þá eru órökstuddar fullyrðingar stefnenda um að nafn árinnar bendi til þess að hún hafi áður verið bergvatnsá. Með hliðsjón af því á hvaða röksemdum talið var að Arnardalur teldist til eignarlands jarðarinnar Brúar, verður ekki talið að það skipti máli hvort hluta dalsins sé að finna handan Kreppu, eins og stefnendur vísuðu til við munnlegan málflutning. Með hliðsjón af aðstæðum gæti landsvæði handan árinnar, ekki talist hafa verið nýtt með þeim hætti að það styðji kröfur um beinan eignarrétt.

Með vísan til þess sem hér að framan greinir er það mat dómsins að stefnendum hafi ekki tekist sönnun þess að hið umdeilda landsvæði sé innan merkja jarðarinnar Brúar og eru því ekki efni til annars en að staðfestu niðurstöðu óbyggðanefndar um þetta atriði.           

Heimildir um landnám á svæðinu eru ekki nægilega skýrar til að af þeim verði dregin ályktun um eignarréttarlega stöðu landsins, sbr. það sem segir um þetta hér að framan.

Þá verður staðfest sú ályktun óbyggðanefndar að friðlýsing fornleifa í Hvannalindum árið 1967 og síðar friðlýsing Hvannalinda árið 1972 skipti hér ekki máli en enga viðurkenningu stjórnvalda um að landið sé háð beinum eignarrétti er að finna vegna þessa. Á grundvelli þeirrar almennu og viðurkenndu reglu eignarréttar að sá sem afsali fasteignarréttindum geti ekki afsalað víðtækari réttindum en hann eigi sjálfur verður ekki talið að samþykki eigenda Brúar við byggingu Sigurðarskála í Kverkfjöllum og eftirfarandi viðtaka leigu vegna afnota landsvæðisins hafi skapað stefnendum rétt til svæðisins. Þá verður talið, með vísan til fyrirliggjandi gagna, að Krepputunga hafi að öðru leyti verið lítið nýtt. Þangað hafi fé ekki ratað vegna landfræðilegra aðstæðna, þ.e. þeirra tveggja jökulsáa sem afmarki svæðið. Ekki liggja fyrir í málinu gögn sem sýna eða gera líklega aðra nýtingu stefnenda á landi í Krepputungu þannig að grundvallað geti eignarhefð, eða skapað réttmætar væntingar til eignarréttar landsins eins og þeir byggja á. Með vísan til framangreinds verði fallist á með óbyggðanefnd að ekki hafi verið sýnt fram á að á viðkomandi landsvæði hafi stofnast til beins eða óbeins eignarréttar fyrir nám, löggerninga, hefð eða með öðrum hætti.

Af öllu framansögðu verður ekki talið að stefnendum hafi tekist að hnekkja þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar sem um er deilt í máli þessu, með vísan til þeirra rituðu heimilda sem fyrir liggja um umrætt landsvæði frá öndverðu og að gættum þeim sönnunarreglum sem mótast hafa á undanförnum árum í niðurstöðum Hæstaréttar í sambærilegum málum, til dæmis að því er varðar sönnunargildi landamerkjabréfa.

Er það niðurstaða dómsins að engir form- eða efniságallar séu í nefndum úrskurði þannig að nægi til ógildingar hans. Verður stefndi því sýknaður bæði af aðal- og varakröfum stefnenda.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði að meðtalinni málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem telst hæfilega ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Gjafsóknarkostnaður réttargæslustefndu greiðist úr ríkissjóði og er þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Halldór Björnsson dómstjóri kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, skal sýkn af kröfum stefnenda, Stefáns Halldórssonar og Sigvarðar Halldórssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarakostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði og er þar meðtalin þóknun lögmanns þeirra, Friðbjörns Garðarssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 311.250 krónur.

Gjafsóknarkostnaður réttargæslustefndu, Guðrúnar Maríu Valgeirsdóttur, Sigurðar Jónasar Þorbergssonar, Þuríðar Sigurðardóttur, Ólafs H. Jónssonar, Bryndísar Jónsdóttur, Sigurðar Baldurssonar, Finns Baldurssonar, Péturs Gíslasonar, Finns Sigfúsar Illugasonar, Jóns Illugasonar, Sólveigar Illugadóttur, Gísla Sverrissonar, Héðins Sverrissonar, Sigrúnar Sverrisdóttur og Kristínar Þ. Sverrisdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.