Print

Mál nr. 93/2006

Lykilorð
  • Þjóðlenda
  • Stjórnsýsla
  • Málskostnaður
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá Hæstarétti að hluta
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. október 2006.

Nr. 93/2006.

Þorleifur Hjaltason

(Jón Hjaltason hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

og gagnsök

 

Þjóðlendur. Stjórnsýsla. Málskostnaður. Kröfugerð. Frávísun máls frá Hæstarétti að hluta. Gjafsókn.

 

Þ krafðist þess að lög nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta yrðu felld úr gildi með dómi, en til vara aðeins 10. gr. laganna. Þá krafðist hann viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta úr hendi Í vegna nánar tilgreindra atvika og að Í yrði gert að greiða málskostnað hans af máli nr. 4/2001 fyrir óbyggðanefnd. Með dómi Hæstaréttar 13. júní 2005 í máli nr. 217/2005 var framangreindum kröfum Þ um að lög nr. 58/1998 yrðu felld úr gildi með dómi og um viðurkenningu á rétti hans til skaðabóta vísað frá héraðsdómi. Þessar kröfur yrðu ekki

bornar undir Hæstarétt með áfrýjun héraðsdóms, þar sem efnisleg afstaða hefði ekki verið tekin til þeirra, og heldur ekki varakrafa, sem Þ gerði nú við hluta þessara krafna. Var málinu því vísað frá Hæstarétti að þessu leyti. Hvað varðar kröfu Þ um greiðslu málskostnaðar fyrir óbyggðanefnd var talið að ákvörðun nefndarinnar um þóknun lögmanns hans hefði verið í samræmi við 17. gr. laga nr. 58/1998 og að engin efni væru til að hnekkja henni. Þó svo að lögmaðurinn hefði ekki vitjað greiðslu þessarar þóknunar voru ekki talin efni til að dæma Í til greiðslu hennar, enda mætti leita með fjárnámi fullnustu ákvæðis um þetta efni í úrskurði óbyggðanefndar og Þ ekki fallið frá réttindum til þessarar greiðslu samkvæmt úrskurðinum. Kröfu Þ um greiðslu útlagðs kostnaðar var jafnframt hafnað þar sem hann hafði ekki fært fram skýringar á ástæðum þess að stofnað hefði verið til einstakra kostnaðarliða eða lagt fram viðhlítandi gögn fyrir þeim. Samkvæmt framangreindu var Í sýknaður af kröfu Þ um greiðslu málskostnaðar fyrir óbyggðanefnd.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. febrúar 2006. Endanlega krefst hann þess að „lög um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta nr. 58/1998 verði felld úr gildi með dómi“, en til vara „verði 10. gr. laganna felld úr gildi með dómi.“ Þá krefst hann þess einnig að viðurkenndur verði réttur sinn til skaðabóta úr hendi gagnáfrýjanda „vegna endurtekinna þinglýsinga og aflýsinga óbyggðanefndar á kvöðum á jörðinni Hólum“, að gagnáfrýjanda verði gert að greiða málskostnað aðaláfrýjanda af máli nr. 4/2001 fyrir óbyggðanefnd að fjárhæð 1.883.648 krónur með dráttarvöxtum frá 29. nóvember 2003 til greiðsludags og að gagnáfrýjanda verði gert að greiða málskostnað í máli þessu í héraði, að fjárhæð 13.001.732 krónur, og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 28. mars 2006. Hann krefst þess aðallega að vísað verði frá Hæstarétti framangreindum kröfum aðaláfrýjanda, sem lúta að öðru en málskostnaði fyrir óbyggðanefnd og af dómsmáli þessu, en að öðru leyti verði hann sýknaður. Til vara krefst gagnáfrýjandi sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda. Í báðum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Óbyggðanefnd, sem starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998, tilkynnti gagnáfrýjanda 13. júlí 2000 að hún hefði ákveðið að taka til meðferðar Sveitarfélagið Hornafjörð, sem afmarkað var á nánar tiltekinn hátt. Nefndinni bárust 13. desember 2000 kröfur gagnáfrýjanda um mörk eignarlanda og þjóðlendna á svæðinu. Í framhaldi af því birti nefndin tilkynningu um meðferð svæðisins ásamt útdrætti úr kröfum gagnáfrýjanda og skoraði á þá, sem teldu til eignarréttinda á því, að lýsa kröfum sínum innan frests, sem lauk 3. maí 2001. Jafnframt þessu fékk nefndin þinglýst 3. janúar 2001 yfirlýsingu um sama efni á þær jarðir, sem málið varðaði, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998, eins og þeim var breytt með 4. gr. laga nr. 65/2000. Meðal þeirra fasteigna, sem þessi yfirlýsing var þinglýst á, var jörð aðaláfrýjanda, Hólar. Eftir að fyrrnefndum fresti lauk ákvað nefndin að fjalla um landsvæðið í fimm aðgreindum málum, þar á meðal í máli nr. 4/2001, en svæðið, sem það tók til, var kennt við Nes í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Samkvæmt gögnum málsins barst óbyggðanefnd engin krafa vegna jarðar aðaláfrýjanda innan frestsins, sem hún hafði sett. Við aðra fyrirtöku málsins fyrir nefndinni 9. október 2001 bar hún fram fyrirspurn til aðila þess um hvort þeir teldu kröfugerð gagnáfrýjanda varða nánar tilgreindar jarðir, sem kröfum hafði ekki verið lýst fyrir, þar á meðal jörðina Hóla. Þessi fyrirspurn var ítrekuð þegar málið var tekið fyrir næstu skipti á fundum nefndarinnar 15. apríl, 27. maí og 16. ágúst 2002 án þess að niðurstaða fengist. Nefndin ritaði loks bréf til aðaláfrýjanda 20. ágúst 2002, þar sem hún óskaði eftir afstöðu hans til þess hvort kröfugerð gagnáfrýjanda gengi gegn eignarréttindum hans. Þessu bréfi var svarað 28. sama mánaðar af lögmanni, sem upp frá því hefur gætt hagsmuna aðaláfrýjanda, og var þar mótmælt hvernig nánar tiltekin markalína hefði verið dregin um land Hóla. Þess var krafist að „núverandi landamerki Hóla verði óbreytt“ og að málskostnaður aðaláfrýjanda fyrir óbyggðanefnd yrði greiddur úr ríkissjóði. Óbyggðanefnd tók málið næst fyrir 12. september 2002 til vettvangsgöngu og aðalmeðferðar. Þar mætti lögmaður aðaláfrýjanda og lagði fram greinargerð ásamt nokkrum skjölum. Þegar það hafði verið gert var því lýst yfir af hálfu gagnáfrýjanda að hann væri reiðubúinn til að gera sátt við aðaláfrýjanda, þar sem kröfur hans yrðu teknar til greina. Því boði hafnaði aðaláfrýjandi og tók lögmaður hans áfram þátt í meðferð málsins. Í úrskurði óbyggðanefndar í málinu 14. nóvember 2003 var gerð grein fyrir kröfum aðaláfrýjanda, sáttaboði gagnáfrýjanda og afstöðu aðaláfrýjanda til þess, en síðan sagði þar: „Óbyggðanefnd lítur svo á að með þessu hafi íslenska ríkið dregið umrædda kröfu til baka. Endanleg kröfugerð íslenska ríkisins snertir því ekki land sem samkvæmt landamerkjabréfi liggur innan landamerkja Hóla. Hólar koma því ekki sérstaklega til umfjöllunar í úrskurði þessum umfram það sem sjálfstæð rannsóknarskylda óbyggðanefndar, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998, leiðir af sér, nema að því er varðar ákvörðun málskostnaðar.“ Í niðurstöðum úrskurðarins var ekki vikið frekar að landi Hóla, en í röksemdum nefndarinnar fyrir ákvörðun málskostnaðar sagði meðal annars: „Við mat á kostnaði við hagsmunagæslu vegna jarðarinnar Hóla hefur nefndin enn fremur litið til þess að við upphaf aðalmeðferðar féll íslenska ríkið frá kröfu um þjóðlendu inn fyrir merki jarðarinnar. Lögmaður eiganda Hóla kaus engu að síður að taka áfram þátt í aðalmeðferð málsins. Verður því að teljast bæði sanngjarnt og eðlilegt að kostnað vegna þess þáttar beri umbjóðandi hans sjálfur.“ Í úrskurðarorði var tiltekið að allur kostnaður aðilanna, að frátöldum gagnáfrýjanda, hefði þegar verið greiddur, annar en þóknun lögmanna þeirra. Hún var ákveðin þannig að í hlut lögmanns aðaláfrýjanda skyldu koma 300.000 krónur, en þrír lögmenn, sem komið höfðu fram af hálfu annarra aðila við rekstur málsins, skyldu hver um sig fá 900.000 krónur í þóknun. Mælt var fyrir um að þessi þóknun lögmannanna fjögurra skyldi greiðast úr ríkissjóði, sbr. 17. gr. laga nr. 58/1998.

Yfirlýsing óbyggðanefndar um meðferð lands innan Sveitarfélagsins Hornafjarðar, sem þinglýst var sem áður segir 3. janúar 2001, ber með sér að hún hafi verið afmáð úr þinglýsingabók sýslumannsins á Höfn 20. janúar 2004.

Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta fyrir Héraðsdómi Austurlands 5. apríl 2004. Í héraðsdómsstefnu krafðist hann þess að lög nr. 58/1998 yrðu „felld úr gildi með dómi“, að fyrrgreindur úrskurður óbyggðanefndar yrði felldur úr gildi, að „núverandi landamerki Hóla, sem lýst var af Þórunni Þorleifsdóttur með yfirlýsingu, dags. 8. maí 1885, verði staðfest í einu og öllu“, að aflýst yrði tafarlaust „kvöð óbyggðanefndar á þinglýsingarvottorði Hóla“ og að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða málskostnað aðaláfrýjanda fyrir óbyggðanefnd, 1.883.648 krónur, auk málskostnaðar í dómsmálinu án tillits til gjafsóknar, sem hann hafði fengið. Gagnáfrýjandi krafðist þess aðallega að fjórum fyrstu kröfum aðaláfrýjanda yrði vísað frá dómi og hann sýknaður að öðru leyti, en til vara að hann yrði sýknaður af öllum kröfunum. Aðaláfrýjandi höfðaði síðan framhaldssök 4. apríl 2005, þar sem fyrri dómkröfur hans voru endurteknar en jafnframt bætt við kröfu um að viðurkennt yrði að hann ætti rétt til skaðabóta úr hendi gagnáfrýjanda „vegna þinglýsingar og aflýsingar óbyggðanefndar á kvöðum á jörðinni Hólum, hvorttveggja án hans vitundar.“ Í greinargerð gagnáfrýjanda í framhaldssök krafðist hann þess aðallega að málinu yrði í heild vísað frá dómi, en til vara að hann yrði sýknaður. Með úrskurði héraðsdóms 6. maí 2005 var málinu vísað frá dómi. Aðaláfrýjandi kærði þann úrskurð til Hæstaréttar, sem með dómi 13. júní 2005 í máli nr. 217/2005 staðfesti niðurstöðu héraðsdóms að öðru leyti en því að fellt var úr gildi ákvæði úrskurðarins um frávísun kröfu aðaláfrýjanda um málskostnað fyrir óbyggðanefnd, sem lagt var fyrir héraðsdóm að taka til efnislegrar meðferðar. Í hinum áfrýjaða dómi var leyst úr þeirri kröfu, svo og kröfu aðaláfrýjanda um málskostnað og gjafsóknarkostnað.

II.

Í áfrýjunarstefnu og greinargerð fyrir Hæstarétti gerði aðaláfrýjandi sömu dómkröfur og hann hafði uppi með framhaldsstefnu í héraði, en við meðferð málsins hér fyrir dómi breytti hann tvívegis kröfum sínum og urðu þær að endingu í því horfi, sem áður er getið. Kröfunum, sem aðaláfrýjandi gerði í héraði, var sem fyrr segir vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar 13. júní 2005 að öðru leyti en kröfum um málskostnað fyrir óbyggðanefnd, málskostnað í máli þessu og gjafsóknarkostnað, en úr þeim var leyst að efni til með hinum áfrýjaða dómi. Meðal þeirra dómkrafna, sem þannig var vísað frá héraðsdómi, voru kröfur aðaláfrýjanda um að lög nr. 58/1998 yrðu „felld úr gildi með dómi“ og að viðurkenndur yrði réttur hans til skaðabóta úr hendi gagnáfrýjanda „vegna þinglýsingar og aflýsingar óbyggðanefndar á kvöðum á jörðinni Hólum“. Þessar kröfur verða ekki bornar undir Hæstarétt með áfrýjun héraðsdóms, þar sem efnisleg afstaða var ekki tekin til þeirra, og heldur ekki varakrafa, sem aðaláfrýjandi gerir nú við hluta þessara krafna. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti að þessu leyti.

Krafa aðaláfrýjanda um greiðslu málskostnaðar fyrir óbyggðanefnd að fjárhæð 1.883.648 krónur er studd við reikning, sem lögmaður hans gaf út 13. september 2002 á hendur nefndinni vegna máls nr. 4/2001. Í meginmáli reikningsins sagði eftirfarandi: „Málskostnaður ef reiknað er með tímakaupi skv. gjaldskrá frá því undirritaður hóf störf að gagnaöflun og varna í þessu máli, 26. ágúst 2002 til og með 31. ágúst, 6 dagar 10 klst. á dag, kr. 7.500-“. Fyrir þennan lið hljóðaði reikningurinn á 450.000 krónur. Í annan stað sagði: „1. sept. til 13. sept, 13 dagar kr. 75.000 á dag“, en vegna þessa var áskilin greiðsla á 975.000 krónum. Í lið vegna útlagðs kostnaðar var gerð krafa vegna fimm ferða milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, alls 44.150 krónur, aksturs til Hornafjarðar, 10.000 krónur, dagpeninga þar í tvo daga, 30.000 krónur, og ljósmynda, 3.820 krónur. Við samtölu þessara fjárhæða, 1.512.970 krónur, var bætt virðisaukaskatti, 370.678 krónum, og fékkst þannig heildarfjárhæð reikningsins.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 58/1998, eins og þeim var breytt með 7. gr. laga nr. 65/2000, skal greiða úr ríkissjóði nauðsynlegan kostnað vegna gæslu hagsmuna málsaðila fyrir óbyggðanefnd. Með 2. mgr. fyrrnefnda lagaákvæðisins er lagt í hendur nefndarinnar að úrskurða um kröfur aðila um þann kostnað. Meðal þess, sem nefndin á að líta til við ákvörðun á nauðsynlegum kostnaði aðila, er hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli. Loks er óbyggðanefnd heimilað í 3. mgr. ákvæðisins að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti ef hún telur málatilbúnað hans gefa tilefni til þess. Á grundvelli þessara reglna og með þeim röksemdum, sem áður var getið, ákvað óbyggðanefnd í úrskurði sínum 14. nóvember 2003 að þóknun handa lögmanni aðaláfrýjanda skyldi vera 300.000 krónur. Við mat á því hvort þóknun lögmannsins hafi verið hæfilega ákveðin af óbyggðanefnd eftir framangreindum ákvæðum 17. gr. laga nr. 58/1998 verður að líta til þess að hann kom fyrst að málinu skömmu fyrir aðalmeðferð þess í framhaldi af bréfi nefndarinnar til aðaláfrýjanda 20. ágúst 2002, en á því stigi var rannsókn hennar á málinu langt komin. Lögmaðurinn mætti fyrst fyrir nefndinni við aðalmeðferð málsins og lagði þá fram greinargerð, sem var á þriðju blaðsíðu að lengd og varðaði öðrum þræði atriði varðandi landamerki jarðarinnar Hóla, sem ekki átti undir óbyggðanefnd að taka afstöðu til. Við það tækifæri lagði lögmaðurinn einnig fram áðurnefnt bréf sitt til óbyggðanefndar 28. ágúst 2002, uppdrátt af landamerkjum jarðarinnar, þinglýsingarvottorð og vottorð um fasteignamat hennar, afrit af tveimur heimildarbréfum vegna hennar og ljósrit úr tveimur ritum. Þegar í upphafi aðalmeðferðar bauð gagnáfrýjandi sættir, sem fólu í sér að krafa aðaláfrýjanda yrði tekin til greina um þau atriði, sem voru á valdi óbyggðanefndar að taka afstöðu til. Því boði hafnaði lögmaður aðaláfrýjanda og tók áfram þátt í meðferð málsins, sem stóð í tvo daga í það sinn. Óbyggðanefnd hlýddi á munnlegan flutning lögmannsins og hefur þá virt vinnuframlag hans varðandi þann þátt málsins við ákvörðun þóknunar. Að öllu þessu gættu eru engin efni til að hnekkja ákvörðun óbyggðanefndar um þóknun handa lögmanninum. Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti hefur lögmaðurinn ekki vitjað greiðslu þessarar þóknunar. Til þess verður að líta að leita má með fjárnámi fullnustu ákvæðis um þetta efni í úrskurði óbyggðanefndar, sbr. 4. mgr. 17. gr. laga nr. 58/1998. Eru því ekki efni til að dæma gagnáfrýjanda til að greiða aðaláfrýjanda þær 300.000 krónur, sem hér um ræðir, enda hefur sá síðarnefndi ekki fallið frá réttindum til þessarar greiðslu samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar. Gagnáfrýjandi hefur mótmælt sem órökstuddri kröfu aðaláfrýjanda vegna útlagðs kostnaðar fyrir óbyggðanefnd. Í málinu hefur aðaláfrýjandi hvorki fært fram skýringar á ástæðum þess að stofnað hafi verið til einstakra kostnaðarliða né hefur hann lagt fram viðhlítandi gögn fyrir þeim. Gegn mótmælum gagnáfrýjanda verður því að hafna kröfu aðaláfrýjanda um þetta efni. Samkvæmt þessu verður gagnáfrýjandi því sýknaður af kröfu aðaláfrýjanda um greiðslu málskostnaðar fyrir óbyggðanefnd.

Rétt er að staðfesta ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda. Eftir úrslitum málsins verður honum á hinn bóginn gert að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfu aðaláfrýjanda, Þorleifs Hjaltasonar, um greiðslu á 1.883.648 krónum. Að öðru leyti er dómkröfum aðaláfrýjanda vísað frá Hæstarétti.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                                                                                 

            

Dómur Héraðsdóms Austurlands 21. nóvember 2005.

             Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 5. apríl 2004 og dómtekið 24. október sl.

             Stefnandi er Þorleifur Hjaltason, Hólum, Hornafirði.

             Stefndi er fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins, Arnarhváli, Reykjavík.

             Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða hæfilegan málskostnað stefnanda fyrir óbyggðanefnd, 1.883.648 krónur samkvæmt framlögðum reikningi, þó ekki undir 900.000 krónum sem óbyggðanefnd ákvað öðrum hæstaréttarlögmönnum í úrskurði nefndarinnar 14. nóvember 2003 í máli nr. 4/2003, Nes í sveitarfélaginu Hornafirði. Hann krefst einnig málskostnaðar, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

         Stefndi krefst aðallega sýknu auk málskostnaðar.

         Máli þessu var upphaflega vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Austurlands 6. maí 2005. Með dómi Hæstaréttar 13. júní 2005 í máli nr. 217/2005 var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi að því er varðar kröfu stefnanda um að ríkissjóði verði gert að greiða málskostnað hans fyrir óbyggðanefnd og lagt fyrir héraðsdómara að taka þann þátt málsins til efnismeðferðar. Að öðru leyti en að framan greinir var hinn kærði úrskurður staðfestur. Af þessu tilefni var málið tekið til efnismeðferðar að nýju í héraði 24. október 2005. Fór aðalmeðferð málsins fram þann dag og var málið dómtekið að því loknu, eins og áður greinir.

I

             Málsatvik

             Atvik málsins eru ágreiningslaus. Óbyggðanefnd starfar samkvæmt lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, og hefur það hlutverk að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda, að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendna sem nýttur er sem afréttur og úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna, sbr. 7. gr. laganna. Samkvæmt 8. gr. laganna, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 65/2000, skal nefndin, að eigin frumkvæði, taka til meðferðar og úrskurða um málefni sem undir hana heyra. Skal hún ákveða hvaða landsvæði tekið er til meðferðar hverju sinni. Í 10. gr. laganna, eins og greininni var breytt með 4. gr. laga nr. 65/2000, eru nánari fyrirmæli um málsmeðferð nefndarinnar, meðal annars þau að þegar nefndin hefur ákveðið að taka svæði til meðferðar ber henni að tilkynna fjármálaráðherra um það og veita honum minnst þriggja en mest sex mánaða frest til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur á svæðinu.

Með bréfi 13. júlí 2000 tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra þá ákvörðun sína að taka til meðferðar sveitarfélagið Hornafjörð í samræmi við 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Svæðið var nánar tiltekið afmarkað með vesturmörkum jarðarinnar Skaftafells í Öræfasveit og austurmörkum jarðanna Hvalsness, Víkur, Svínhóla, Reyðarár, Bæjar, Hlíðar og Stafafells. Til suðurs afmarkaðist svæðið af hafinu og til norðurs af tiltekinni línu á Vatnajökli. Kröfulýsingar fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins um þjóðlendur í Lóni, Nesjum, Mýrum, Suðursveit og Öræfum í sveitarfélaginu Hornafirði bárust 13. desember 2000. Óbyggðanefnd birti tilkynningu um meðferð á framangreindu svæði og útdrátt úr kröfum ríkisins, ásamt uppdrætti, í Lögbirtingablaðinu 3. janúar 2001, Morgunblaðinu 7. janúar og fleiri blöðum síðar í sama mánuði, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998. Skorað var á þá sem teldu til eignarréttinda á því landsvæði sem félli innan kröfusvæðis ríkisins, að lýsa kröfum sínum fyrir óbyggðanefnd innan fjögurra mánaða.

             Í júlí 2001 var aðilum tilkynnt að ákveðið hefði verið að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum. Var í máli nr. 4/2001 fjallað um Nes í sveitarfélaginu Hornafirði, Austur-Skaftafellssýslu, þ.e. svæði sem afmarkast til vesturs af Mýrum, þar sem áður voru hreppamörk, og til austurs af Lóni, þar sem einnig voru hreppamörk áður. Til suðurs afmarkast svæðið af hafinu. Ekki er ástæða til að greina sérstaklega frá mörkum svæðisins til norðurs.

Málið var fyrst tekið fyrir af óbyggðanefnd 7. ágúst 2001. Stefnandi lýsti ekki kröfum fyrir nefndinni en gerðist aðili máls í kjölfar fyrirspurnar óbyggðanefndar 20. ágúst 2002 á grundvelli 2. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998.  Með bréfi lögmanns stefnanda til óbyggðanefndar 28. ágúst 2002 var mótmælt kröfu ríkisins um þjóðlendu austan við línu sem liggur úr Skálatindi í Miðfellstind.  Með því yrði raskað austurmörkum jarðarinnar Hóla, sem jafnframt er landamerkjalína milli Nesja- og Lónssveita.

Vettvangsferð, skýrslutökur og munnlegur málflutningur fór fram 12. til 13. september 2002. Málið var endurupptekið hinn 14. nóvember 2003 og lögð fram ný gögn en að því loknu tekið til úrskurðar að nýju. Úrskurður óbyggðanefndar nr. 4/2001 var kveðinn upp 14. nóvember 2003.

Samkvæmt gögnum máls setti stefnandi fram eftirgreindar kröfur fyrir óbyggðanefnd:

Að núverandi landamerki Hóla, sem lýst er af Þórunni Þorleifsdóttur í yfirlýsingu 8. maí 1885, verði staðfesti í einu og öllu. / Aflýst verði tafarlaust kvöð óbyggðanefndar á þinglýsingavottorði Hóla. / Ennfremur greiði íslenska ríkið hæfilegan málskostnað lögmanns stefnanda fyrir óbyggðanefnd samkvæmt mati óbyggðanefndar.  

Í úrskurði óbyggðanefndar segir eftirfarandi um kröfugerð stefnda fyrir óbyggðanefnd:

Upphafleg kröfugerð íslenska ríkisins náði til lands sem samkvæmt landamerkjabréfi liggur innan landamerkja Hóla. Krafa var þó ekki höfð uppi af því tilefni af hálfu eiganda Hóla. Með hliðsjón af ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 58/1998 ritaði óbyggðanefnd eiganda Hóla bréf, dags. 20. ágúst 2002, þar sem óskað var eftir því að hann upplýsti nefndina um það hvort hann teldi kröfugerð ríkisins ganga gegn eignarrétti sínum. Í kjölfar þess gerði eigandi Hóla kröfu um staðfestingu á landamerkjum Hóla samkvæmt landamerkjabréfi. [/] Við upphaf aðalmeðferðar kvaðst lögmaður íslenska ríkisins reiðubúinn að sætta málið og fallast á það með eiganda Hóla að norðurmörk jarðarinnar fylgdu mörkum Nesja við Lón. Fram kom að lögmaðurinn teldi ekki vera um efnislegan ágreining að ræða heldur væri línan samkvæmt landamerkjabréfinu dregin með mismunandi hætti. Lögmaður eiganda Hóla hafnaði sáttum. [/] Óbyggðanefnd lítur svo á að með þessu hafi íslenska ríkið dregið umrædda kröfu til baka. Endanleg kröfugerð íslenska ríkisins snertir því ekki land sem samkvæmt landamerkjabréfi liggur innan landamerkja Hóla. Hólar koma því ekki sérstaklega til umfjöllunar í úrskurði þessum umfram það sem sjálfstæð rannsóknarskylda óbyggðanefndar, sbr. 5. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1998, leiðir af sér nema að því er varðar ákvörðun málskostnaðar.

Síðar segir í úrskurði óbyggðanefndar:

Aðalmeðferð stóð dagana 12.-13. september 2002 og skiptist í forflutning, vettvangsferð, skýrslutökur og málflutning. Fundað var í salarkynnum Hótel Hafnar, Hornafirði. Áður en forflutningur hófst voru sáttamöguleikar kannaðir að nýju, án árangurs. Fram kom þó að íslenska ríkið væri reiðubúið að fallast á kröfugerð eiganda Hóla um norðurmörk jarðarinnar. Á sáttarboð þetta var ekki fallist af hálfu eiganda Hóla. Að aðalmeðferð lokinni var málið tekið til úrskurðar.

Um endanlega kröfu stefnda fyrir óbyggðanefnd segir eftirfarandi í úrskurði óbyggðanefndar:

Við aðalmeðferð málsins kom fram að íslenska ríkið væri reiðubúið að sætta málið hvað varðar þjóðlendukröfulínu yfir land sem samkvæmt kröfugerð eiganda Hóla liggur innan landamerkja og fallast á það með eiganda jarðarinnar að norðurmörk hennar fylgi mörkum Nesja við Lón. Óbyggðanefnd lítur svo á að með þessu hafi íslenska ríkið dregið umrædda kröfu til baka. Endanleg þjóðlendukröfulína íslenska ríkisins fylgi því mörkum Nesja við Lón frá þeim stað þar sem bein lína úr Skálatindi í Miðfellstind sker norðurmörk Hóla, samkvæmt kröfugerð eiganda jarðarinnar, í nefndan Miðfellstind.

Í úrskurði óbyggðanefndar er ekki vikið efnislega að jörðinni Hólum. Í niðurstöðum nefndarinnar um málskostnað segir hins vegar eftirfarandi:

Í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 58/1998 hefur óbyggðanefnd lagt mat á það hvað telja megi nauðsynlegan kostnað vegna hagsmunagæslu fyrir nefndinni í máli þessu.  Við það mat hefur nefndin m.a. litið til þess hvort aðilar, sem svipaðra hagsmuna eigi að gæta, hafi sameinast um aðstoð lögmanns og annarra sérfræðinga enda rekist hagsmunir ekki á. Við mat á fjárhæð kostnaðar hefur nefndin jafnframt litið til þess hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í máli þessu. Við mat á kostnaði við hagsmunagæslu vegna jarðarinnar Hóla hefur nefndin enn fremur litið til þess að við upphaf aðalmeðferðar féll íslenska ríkið frá kröfu um þjóðlendu inn fyrir merki jarðarinnar. Lögmaður eiganda Hóla kaus engu að síður að taka áfram þátt í aðalmeðferð málsins. Verður því að teljast bæði sanngjarnt og eðlilegt að kostnað vegna þess þáttar beri umbjóðandi hans sjálfur.

Í úrskurðarorði óbyggðanefndar segir að allur kostnaður málsaðila, annarra en fjármálaráðherra vegna íslenska ríkisins, utan þóknunar lögmanna, hafi þegar verið greiddur. Þá kemur fram að þóknun Jóns Hjaltasonar hrl. sé ákveðin 300.000 krónur, en þóknun þriggja annarra nafngreindra lögmanna er ákveðin 900.000 krónur til handa hverjum og einum, er greiðist úr ríkissjóði, sbr. 17. gr. laga nr. 58/1998.

             Með hliðsjón af sakarefni málsins er ekki ástæða til að gera frekari grein fyrir efni úrskurðar óbyggðanefndar.

             Engar skýrslutökur fóru fram við aðalmeðferð málsins.

II

         Málsástæður og lagarök aðila

         Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á framlögðum reikningi að fjárhæð 1.883.648 krónur dags. 13. september 2002. Efnislega er reikningurinn sundurliðaður  í málsflutningsþóknun að fjárhæð 1.425.000 krónur vegna 19 daga vinnu við málið fyrir óbyggðanefnd, útlagðan kostnað að fjárhæð 86.060 krónur vegna ferðakostnaðar og dagpeninga svo og virðisaukaskatt að fjárhæð 370.678 krónur.  Hann vísar einnig til þess að ákvörðun málskostnaðar fyrir óbyggðanefnd hafi gengið gegn jafnræðissjónarmiðum þar sem þóknun lögmanna annarra aðila hafi verið ákveðin 900.000 krónur.

         Stefndi krefst sýknu af málskostnaðarkröfu stefnanda í málinu. Krafa þessi sé í tveimur liðum. Annars vegar sé krafist endurskoðunar á málskostnaðarákvörðun óbyggðanefndar vegna reksturs málsins þar. Hins vegar sé gerð almenn málskostnaðarkrafa vegna dómsmálsins eins og það væri ekki gjafsóknarmál. Um þennan þátt málskostnaðarkröfu stefnanda verði ekki frekar
fjallað í greinargerð þessari og við það látið sitja að krefjast sýknu.

         Stefnandi gerir kröfu um greiðslu á málskostnaði fyrir óbyggðanefnd að fjárhæð 1.883.648 krónur. Vísar hann til reiknings þar að lútandi en útskýrir á engan hátt þann reikning í stefnu.

         Í úrskurði óbyggðanefndar á bls. 173 segir að kostnaður málsaðila, annarra en fjármálaráðherra vegna íslenska ríkisins, utan þóknun lögmanna, hafi þegar verið greiddur. Síðan er þóknun lögmanna málsaðila ákvörðuð og í hlut lögmanns stefnanda kom 300.000 kr. Í málskostnaðarkröfu stefnanda felist krafa um vangreiddan útlagðan kostnað. Stefnandi gefi enga skýringu á því hvers vegna þessi krafa sé gerð. Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar sé allur útlagður kostnaður greiddur að fullu og þegar af þeirri ástæðu verði að mótmæla þessum kröfulið stefnanda.

         Í 1. mgr. 17. gr. þjóðlendulaga segir, að auk kostnaðar við rekstur óbyggðanefndar skuli greiða úr ríkissjóði nauðsynlegan kostnað annarra en ríkisins vegna hagsmunagæslu fyrir nefndinni. Í 2. mgr. lagagreinarinnar segi að óbyggðanefnd úrskurði um kröfur aðila vegna kostnaðar samkvæmt 1. grein. Við mat á kostnaði skuli enn fremur litið til þess hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli. Í 3. mgr. segi síðan að nefndinni sé heimilt að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti telji hún málatilbúnað gefa tilefni til slíks.

         Ekki sé annað að ráða af úrskurði óbyggðanefndar en að málskostnaðarákvörðun nefndarinnar hafi verið málefnaleg. Ákvörðun sé byggð á þekkingu úrskurðaraðila á rekstri viðkomandi máls og væntanlega þeim tíma sem nefndin áætli að lögmenn hagsmunaaðila hafi lagt í málið miðað við umfang þess. Úrskurðaraðilar verði og að leggja mat á sanngjarnt og eðlilegt endurgjald miðað við þær lagaforsendur sem byggja verði á. Að mati stefnda hafi óbyggðanefnd augljóslega uppfyllt öll þessi skilyrði á málefnalegan hátt.

         Stefndi bendir á að við túlkun á 17. gr. þjóðlendulaga verði að líta til þess að óbyggðanefnd var bundin við lög við ákvörðun sína um kostnað vegna hagsmunagæslu. Það var aðilum og lögmönnum þeirra ljóst. Stefnandi mátti því vita að hann ætti ekki lögvarða kröfu til þess að einhliða framsetning af hans hálfu á kostnaði, tímagjaldi eða tímafjölda yrði lagður til grundvallar. Líta beri til þess að nauðsynlegur kostnaður annarra en ríkisins vegna hagsmunagæslu fyrir nefndinni falli undir þann kostnað vegna starfa óbyggðanefndar sem greiddur sé úr ríkissjóði, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna.  Átti nefndin úrskurðarvald þar um samkvæmt 2. mgr. 17. gr., svo sem stefnanda var ljóst. Í öðru lagi verði að túlka orð laganna um „nauðsynlegan kostnað“ þröngt, þannig að hann hafi verið óhjákvæmilegur og að því leyti háður mati nefndarinnar í einstökum tilvikum. Í þriðja lagi séu í 2. mgr. 17. gr. matsreglur, bæði um þá aðstöðu að fleiri hafi sameinast um að nýta sér aðstoð sömu lögmanna, og að líta beri sérstaklega til þess hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli. Í fjórða lagi sé heimilt að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti telji nefndin málatilbúnað hans gefa tilefni til slíks. Stefndi telur að ákvörðun óbyggðanefndar hafi verið í samræmi við 17. gr. laga nr. 58/1998. Engin tilefni séu til að endurskoða ákvörðun nefndarinnar þar sem stefnandi hafi ekki sannað að hún hafi verið ósanngjörn.

         Það sé skoðun stefnda að hafi stefnandi greitt hærri reikninga fyrir hagsmunagæslu sína fyrir óbyggðanefnd, án þess að bíða úrskurðar óbyggðanefndar eða að koma þeim á framfæri við nefndina, verði það að skoðast á eigin ábyrgð stefnanda sjálfs.

         Í málatilbúnaði stefnanda hafi engin rök verið færð fyrir þeirri fullyrðingu að málskostnaðarákvörðun óbyggðanefndar sé hvorki sanngjörn né eðlileg. Ekki hafi stefnandi heldur sýnt fram á, að óbyggðanefnd hafi hafnað greiðslu á tilteknum útlögðum kostnaði sem nefndin hefði átt að samþykkja en hafi ekki gert. Það sé hlutverk stefnanda að sýna fram á, að á sér hafi verið brotið, telji hann svo vera. Það hafi hann ekki gert að mati stefnda. Stefnandi þurfi líka að sýna fram á að hann hafi verið krafinn um þá fjárhæð sem hann gerir kröfu til og líka að hann hafi greitt hana. Það hefur hann heldur ekki gert. Af öllu þessu leiðir að sýkna ber stefnda af þessum kröfulið.

III.

         Niðurstaða

         Samkvæmt 17. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sbr. 7. gr. laga nr. 65/2000, úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur annarra en ríkisins vegna kostnaðar við hagsmunagæslu fyrir nefndinni. Við mat á því hvort um nauðsynlegan kostnað hafi verið að ræða er nefndinni heimilt að líta til þess hvort aðilar, sem svipaðra hagsmuna eiga að gæta, hafi sameinast um að nýta sér aðstoð sömu lögmanna og annarra sérfræðinga, enda rekist hagsmunir ekki á, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Í málsgreininni segir einnig að við mat á fjárhæð kostnaðar skuli enn fremur litið til þess hvað telja megi sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli. Í 3. mgr. greinarinnar segir að nefndinni sé heimilt að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti telji hún málatilbúnað hans gefa tilefni til slíks.

         Skilja verður framangreindan úrskurð óbyggðanefndar á þá leið að nefndin hafi talið heimilt með vísan til 3. mgr. 17. gr. laga nr. 58/1998 að láta stefnanda bera málskostnað sinn að nokkru sjálfan með hliðsjón af málatilbúnaði hans. Virðist nefndin þá fyrst og fremst hafa litið til þess að við upphaf aðalmeðferðar fyrir nefndinni féll stefndi frá kröfu um þjóðlendu inn fyrir merki jarðarinnar Hóla í Nesjum. Hafi því verið ónógt tilefni fyrir stefnanda að taka þátt í aðalmeðferð málsins sem samanstóð af forflutningi, vettvangsgöngu, skýrslutöku og munnlegum flutningi.

         Dómurinn fellst á það með óbyggðanefnd að eftir að stefndi hafði fallist á sjónarmið stefnanda fyrir óbyggðanefnd hafi verið ástæðulaust af hans hálfu að taka þátt í frekari meðferð málsins. Verður stefnandi því að bera sjálfur kostnað af því að taka þátt í aðalmeðferð málsins dagana 12. og 13. september 2002, sbr. 3. mgr. 17. gr. laga nr. 58/1998. Á hitt er að líta að hin breytta afstaða stefnda til afmörkunar þjóðlendulínu, að því er varðaði jörðina Hóla, kom fyrst fram í upphafi aðalmeðferðar 12. september 2002. Hafði stefnandi því tilefni til að taka til varna fyrir nefndinni, afla gagna og leggja þau fram og undirbúa sig undir aðalmeðferð málsins. Verður því talið að lögmaður stefnanda, Jón Hjaltason hrl., hafi haft réttmæta ástæðu til að undirbúa sig undir aðalmeðferð og vera viðstaddur þegar hún hófst 12. september 2002. Að þessu virtu telur dómurinn að sá munur sem gerður er á þóknun nefnds lögmanns og annarra lögmanna sem sinntu hagsmunagæslu fyrir landeigendur vegna umrædds úrskurðar óbyggðanefndar sé óeðlilegur. Að þessu virtu, svo og að teknu tilliti til umfangs málsins fyrir óbyggðanefnd, verður þóknun umrædds lögmanns talin hæfilega ákveðin 750.000 krónur. Þá verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda útlagðan kostnað hans samkvæmt reikningi til óbyggðanefndar 13. september 2002 að fjárhæð 86.060 krónur. Með úrskurði óbyggðanefndar hefur stefnanda þegar verið ákveðin greiðsla að fjárhæð 300.000 krónur. Verður stefndi því dæmdur til að greiða stefnanda alls 536.060 krónur. Ekki hefur verið gerð krafa um vexti eða dráttarvexti á málskostnað stefnanda fyrir óbyggðanefnd.

         Stefnandi fékk útgefið leyfi til gjafsóknar við meðferð málsins í héraði 19. febrúar 2004. Með hliðsjón af því að stefndi í málinu er íslenska ríkið þykir ekki ástæða til að dæma stefnda sérstaklega til að greiða málskostnað stefnanda.

         Það er meginregla við ákvörðun málskostnaðar samkvæmt 129. gr. laga nr. 91/1991 að taka tillit til umfangs máls. Aðili sem vinnur mál getur þannig ekki vænst þess að fá dæmdan málskostnað sem stofnað hefur verið til að þarflausu eða án tilefnis, sbr. 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Þessi sjónarmið eiga við ákvörðun kostnaðar fyrir flutning máls, sbr. a-lið 129. gr. laga nr. 91/1991, m.a. þegar þóknun umboðsmanns gjafsóknarhafa samkvæmt 2. mgr. 127. gr. er ákveðin.

         Samkvæmt málskostnaðaryfirliti hefur lögmaður stefnanda innt af hendi alls 1.254 vinnustundir vegna meðferðar málsins fyrir héraðsdómi. Að mati dómsins er þessi fjöldi vinnustunda langt úr hófi miðað við umfang málsins. Þá koma fram í málskostnaðaryfirliti kostnaðarliðir vegna kæru á úrskurði héraðsdóms 6. maí 2005 til Hæstaréttar sem ekki er heimilt að taka til. Samkvæmt framangreindu verður málskostnaðaryfirlit stefnanda ekki lagt til grundvallar við ákvörðun á þóknun lögmanns hans, Jóns Hjaltasonar hrl. Verður þóknun hans ákveðin eftir umfangi málsins og þykir hún hæfilega ákveðin 200.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar á meðal framangreind þóknun lögmanns hans, greiðist úr ríkissjóði í samræmi við 127. gr. laga nr. 91/1991. Er með þessu ekki tekin nein afstaða til upplýsinga stefnanda um útlagðan kostnað hans.

         Af hálfu stefnanda flutti málið Jón Hjaltason hrl.

         Af hálfu stefnda flutti málið Skarphéðinn Þórisson hrl.

         Eggert Óskarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan sem dómsformaður ásamt Hervöru Þorvaldsdóttur og Skúla Magnússyni héraðsdómurum.

D Ó M S O R Ð:

         Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Þorleifi Hjaltasyni, 536.060 krónur.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans Jóns Hjaltasonar hrl. að fjárhæð 200.000 krónur.