Print

Mál nr. 66/2005

Lykilorð
  • Ráðningarsamningur
  • Laun
  • Uppsagnarfrestur

Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. september 2005.

Nr. 66/2005.

Birgir Guðjónsson                              

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Impregilo SpA Íslandi

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

 

Ráðningarsamningur. Laun. Uppsagnarfrestur.

B, sem hafði sagt upp störfum hjá I, höfðaði mál á hendur fyrirtækinu og krafðist launa fyrir yfirvinnu, svonefnds frítökuréttar og launa á uppsagnarfresti. Höfðu aðilar ekki gert með sér skriflegan ráðningarsamning. Deildu þeir um hvort fjárhæð umsaminna mánaðarlauna hefði verið miðuð við dagvinnu eða verið heildarlaun óháð vinnuframlagi. Meðal annars með vísan til aðilaskýrslu B og þess að hann hafði ekki með sannanlegum hætti uppi kröfur um greiðslu fyrir yfirvinnu fyrr en alllöngu eftir starfslok varð ekki hjá því komist að telja að greiðsla fyrir yfirvinnu hafi verið innifalin í hinum föstu mánaðarlaunum. Forsenda þess væri hins vegar að vinnuálag á B væri innan venjulegra og hóflegra marka. Var talið í ljós leitt að vinna B hefði farið yfir þau mörk. Þá var talið að aðstæður hefðu verið slíkar að ákvæði kjarasamnings um frítökurétt ætti við. Í báðum þessum tilvikum var hins vegar enginn viðhlítandi grunnur lagður af hálfu B til að taka mætti afstöðu til þess hvað talist gæti tímakaup hans annars vegar fyrir yfirvinnu og hins vegar dagvinnu. Voru báðar þess kröfur svo vanreifaðar að ekki varð hjá því komist að vísa þeim frá dómi. Þá var í ljósi orðalags uppsagnarbréfs B talið að I hefði verið rétt að skilja það svo að B óskaði ekki eftir að vinna á uppsagnarfresti. Var I því sýknað af kröfu B um laun á uppsagnarfresti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. febrúar 2005. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.457.435 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. maí 2003 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

     Áfrýjandi, sem er viðskiptafræðingur að mennt, réði sig til starfa hjá stefnda í aprílmánuði 2003. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur milli aðila. Þeir eru sammála um að umsamin mánaðarlaun hafi verið 300.000 krónur en greinir á um, eins og síðar verður rakið, hvort það endurgjald hafi verið miðað við dagvinnu eða verið heildarlaun óháð vinnuframlagi. Starf áfrýjanda fólst í að annast innkaup fyrir stefnda. Hann hóf störf í Reykjavík og kvaðst í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi hafa unnið frá því milli klukkan átta og hálfníu að morgni og til sjö eða átta að kvöldi á því tímabili er hann starfaði þar.

Starfsstöð áfrýjanda fluttist snemma í maí 2003 í vinnubúðir við virkjunarsvæðið að Kárahnjúkum. Kvaðst áfrýjandi í skýrslu fyrir héraðsdómi fyrsta mánuðinn eftir það samhliða innkaupastarfi sínu hafa annast lagerhald fyrir stefnda. Taldi hann daglegan vinnutíma sinn hafa verið frá klukkan sjö til átta að morgni og langt fram eftir kvöldi. Framan af starfstíma áfrýjanda skráði stefndi ekki daglegan vinnutíma þess fyrrnefnda. Áfrýjandi hefur hins vegar lagt fram mánaðarleg yfirlit um daglegan vinnutíma sinn, sem hann kveður byggð á samtímaskráningu sinni, en um þá skráningu nýtur ekki annarra gagna í málinu. Vegna vinnu áfrýjanda frá ágústbyrjun 2003 og til loka starfstíma hans hjá stefnda eru hins vegar meðal gagna málsins mánaðarleg yfirlit er stafa frá stefnda þar sem daglegur vinnutími þess fyrrnefnda er skráður. Á grundvelli yfirlýsingar Helgu Jónsdóttur starfsmannastjóra stefnda og málflutnings hans fyrir Hæstarétti verður að miða við að þessi vinnutími hafi verið staðfestur af forráðamönnum stefnda. Meðal gagna málsins eru einnig mánaðarlegir launaseðlar áfrýjanda, sá fyrsti dagsettur 1. júní 2003. Kemur glöggt fram af þeim að áfrýjanda voru eingöngu greidd 300.000 króna mánaðarlaun og að engar greiðslur voru fyrir yfirvinnu.

 Aðilar eru sammála um að áfrýjandi hafi á starfstíma sínum gert athugasemdir um launakjör sín og er það að hluta staðfest með framburði vitna fyrir héraðsdómi. Hins vegar greinir aðila á um að hverju þessar athugasemdir hafi lotið. Áfrýjandi heldur því fram að hann hafi gert kröfu um greiðslu samkvæmt ráðningarsamningi þar sem á honum væru brotin umsamin kjör, en stefndi að hann hafi verið óánægður með umsamin kjör og án árangurs óskað endurskoðunar á þeim þar sem hann teldi yfirvinnu sína fara fram úr því sem eðlilegt gæti talist miðað við umsamin föst laun.

Meðal gagna málsins eru drög að ráðningarsamningi áfrýjanda. Er um að ræða staðlað samningsform stefnda á ensku, útfyllt að mestu, dagsett 30. júlí 2003 en óundirritað. Voru drögin afhent áfrýjanda í ágústmánuði 2003. Er starfsheiti áfrýjanda samkvæmt þeim „Assistant Buyer“ og vinnustaður Kárahnjúkar. Á samningseyðublaðinu er óútfyllt ákvæði um vinnutíma svohljóðandi: „Working hours: Regular working hours are ... but can vary considerably, especially during the initial phase of the Kárahnjúkar project, but the average weekly hours are expected to be between ... . Excessive contribution will be rewarded, especially.“ Um mánaðarlaun segir í samningsdrögunum: „Monthly salary, including all overtime is ISK 300.000.- or for regular hours as described above, ISK... Excessive work-load, out of the ordinary, will be reimbursed especially.“ Tekið er fram að stefndi muni annast tryggingar starfsmanna samkvæmt virkjanasamningi og að áfrýjandi hafi valið aðild að Verslunarmannafélagi Reykjavíkur.

Með bréfi 4. október 2003 sagði áfrýjandi upp starfi sínu. Í bréfinu, sem er á ensku, segir meðal annars: „My job took place at the site at Kárahnjúkar from 06.05.2003 to 03.10.2003. ... If Impreglio prefer, I am available to work the length of notice which is conventional.“  Með bréfi sama dag féllst stefndi á uppsögnina og tók fram að áfrýjandi hafi nefnt 3. október sem síðasta vinnudag. Myndi félagið ekki óska vinnuframlags hans eftir þann dag.

Með bréfi 20. apríl 2004 krafði áfrýjandi stefnda um greiðslu vegna vangreiddra launa. Hann höfðaði síðan mál þetta 14. september sama ár.

II.

Krafa áfrýjanda er þríþætt. Hann krefst launa fyrir yfirvinnu, launa vegna svonefnds frítökuréttar og launa á uppsagnarfresti. Eru tölulegar forsendur kröfugerðar hans raktar í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar er rakið miðar kröfugerðin við að umsamin mánaðarlaun fyrir dagvinnu séu 300.000 krónur og eru laun fyrir hverja yfirvinnustund og laun vegna frítökuréttar leidd af þeim á grundvelli greina 1.8., 1.7.1.1. og 2.3.2. í kjarasamningi milli Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins. Verður að fallast á það með áfrýjanda að ráðningarkjör hans hafi byggst á þeim kjarasamningi í ljósi framangreinds ákvæðis um stéttarfélagsaðild í drögunum að ráðningarsamningi aðila, en þau stöfuðu frá  stefnda.

Fyrsti þáttur kröfu áfrýjanda lýtur að ógreiddri yfirvinnu og er að fjárhæð 1.979.582 krónur auk orlofs. Ágreiningur aðila um laun fyrir yfirvinnu snýst fyrst og fremst um hvað falist hafi í þeim 300.000 króna mánaðarlaunum sem ágreiningslaust er að um hafi samist við upphaf starfa áfrýjanda. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi sagðist áfrýjandi við ráðningu sína hafa rætt við forsvarsmann stefnda um að daglegur vinnutími sinn væri milli klukkan níu og fimm. Aðspurður af dómara um það hvort rætt hafi verið um að greitt yrði sérstaklega fyrir yfirvinnu svaraði stefndi því til að hann hafi gert ráð fyrir því að svo yrði. Í framhaldi af svörum um vinnutíma í upphafi starf síns í Reykjavík, sem var töluvert umfram dagvinnu eins og að framan er rakið, sagði áfrýjandi aðspurður af lögmanni sínum að rætt hafi verið um 300.000 krónur fyrir það starf. Samkvæmt þessu voru svör áfrýjanda í aðilaskýrslu hans ekki skýr um það hvort í upphafi hafi verið gert ráð fyrir einhverri yfirvinnu inni í hinum umsömdu mánaðarlaunum. Á mánaðarlegum launaseðlum kom skýrlega fram að ekki var greitt fyrir yfirvinnu. Gaf það áfrýjanda tilefni til að gera athugasemdir ef hann taldi í því felast samningsrof stefnda. Það gerði hann ekki með sannanlegum hætti. Þegar stefndi lagði framangreind drög að ráðningarsamningi fyrir áfrýjanda í ágústmánuði 2003 gat áfrýjanda hvað sem öðru leið ekki dulist að stefndi teldi greiðslu fyrir yfirvinnu eða að minnsta kosti hluta hennar innifalda í hinum föstu mánaðarlaunum. Engu að síður hélt hann áfram störfum um hríð og gerði ekki með sannanlegum hætti kröfu um tilteknar greiðslur vegna yfirvinnu fyrr en rúmu hálfu ári eftir að störfum hans lauk. Þegar allt þetta er virt og haft í huga að ekki tíðkaðist að greiða að fullu fyrir yfirvinnu samkvæmt ráðningarsamningum stefnda við starfsmenn hliðstæða áfrýjanda og að áfrýjanda hlaut að vera það ljóst er leið á starfstíma hans verður ekki hjá því komist að telja að greiðsla fyrir yfirvinnu hafi verið innifalin í hinum föstu mánaðarlaunum áfrýjanda.

Í gögnum málsins kemur fram að vinnuálag á áfrýjanda var mjög mikið allan þann tíma er hann starfaði við Kárahnjúka. Hvað sem líður sönnun fyrir fjölda yfirvinnustunda hans fyrri hluta þess tímabils liggur fyrir að frá og með ágústmánuði 2003 var vinnutími hans staðfestur af fulltrúum stefnda. Nam vinna hans umfram dagvinnu 125 klukkustundum í ágústmánuði og 89 í september. Enda þótt í samningi aðila verði samkvæmt framansögðu talið hafa falist að greiðsla fyrir yfirvinnu væri innifalin í föstum launum hlýtur forsenda þess að hafa verið sú að vinnuálag á áfrýjanda væri innan venjulegra og hóflegra marka. Sést það glöggt af framangreindum samningsdrögum að svo var. Fyrrnefnt óútfyllt ákvæði um vinnutíma er að vísu ekki skýrt og gat lögmaður stefnda við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti ekki útskýrt hvort eða með hvaða hætti það gæti átt við áfrýjanda. Hvað sem því líður gerir ákvæði samningsdraganna um mánaðarlaun ráð fyrir sérstakri greiðslu fyrir vinnuálag umfram hófleg mörk. Verður að telja í ljós leitt að vinna áfrýjanda fór fram yfir þau mörk. Fyrir vinnu umfram þessi mörk á áfrýjandi kröfu til greiðslu yfirvinnukaups, sem nemur á tímann 1,0385% af mánaðarlaunum fyrir dagvinnu samkvæmt grein 1.8. í fyrrnefndum kjarasamningi. Að framan var komist að þeirri niðurstöðu að umsamin 300.000 króna mánaðarlaun væru vegna dagvinnu og yfirvinnu innan hóflegra marka. Tímakaup fyrir yfirvinnu verður því ekki reiknað út frá þeim grunni. Í framangreindum kjarasamningi er ekki að finna launataxta fyrir dagvinnulaun er gætu átt við áfrýjanda. Áfrýjandi hefur heldur ekki í málatilbúnaði sínum haft uppi neinar málsástæður er lúta að því hver eðlileg viðmiðun væri í þeim efnum eða lagt fram gögn er hafa mætti til hliðsjónar við þá ákvörðun. Er málið svo vanreifað að þessu leyti að á það verður ekki lagður dómur og verður með vísan til 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki hjá því komist að vísa þeim þætti í kröfu áfrýjanda er lýtur að greiðslu yfirvinnukaups frá héraðsdómi.

Í grein 2.3. í fyrrgreindum kjarasamningi er fjallað um lágmarkshvíld. Þar er meðal annars kveðið á um að vinnutíma skuli haga þannig á hverjum sólarhring að starfsmaður fái að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld og að séu starfmenn sérstaklega beðnir að mæta til vinnu áður en 11 klukkustunda hvíld sé náð sé heimilt að fresta hvíldinni og veita síðar þannig að frítökuréttur, er samsvari 1,5 klukkustundar dagvinnu, safnist upp fyrir hverja klukkustund er hvíld skerðist. Þá segir að við starfslok skuli ónýttur frítökuréttur starfsmanns gerður upp. Annar þáttur kröfu áfrýjanda að fjárhæð 285.000 krónur er vegna slíks frítökuréttar. Eins og að framan er rakið er ljóst að vinnuálag á áfrýjanda var mjög mikið allan starfstíma hans við Kárahnjúka. Fyrir tímabilið frá ágústbyrjun 2003 til starfsloka hans liggja fyrir staðfestar tímaskýrslur er sýna að hvíldartími hans var alloft innan við 11 klukkustundir. Verður að telja í ljós leitt að aðstæður hafi verið slíkar að fyrrgreint ákvæði kjarasamningsins eigi við. Varðandi þennan þátt kröfu áfrýjanda er staðan hins vegar hin sama og varðandi kröfu hans vegna yfirvinnunnar. Enginn viðhlítandi grunnur hefur verið lagður af hálfu áfrýjanda til að taka megi afstöðu til þess hvað talist geti tímakaup hans fyrir dagvinnu. Er því einnig óhjákvæmilegt að vísa þessum þætti kröfu áfrýjanda frá héraðsdómi vegna vanreifunar.

Loks gerir áfrýjandi kröfu til launa í uppsagnarfesti að fjárhæð 900.000 krónur auk orlofs. Að framan er rakið meginefni uppsagnarbréfs áfrýjanda 4. október 2003. Þar tiltekur hann lokastarfsdag sinn 3. október 2003 en kveðst tilbúinn til að vinna á uppsagnarfresti ef stefndi óski þess. Verður í ljósi orðalags bréfsins að telja að stefnda hafi verið rétt að skilja það svo að áfrýjandi óskaði ekki eftir að vinna á uppsagnarfresti og því hafi honum verið heimilt að hafna vinnuframlagi áfrýjanda eftir tilgreindan lokastarfsdag. Stefndi verður því sýknaður af þessum þætti kröfu áfrýjanda.

Samkvæmt framansögðu verður þeim þáttum kröfu áfrýjanda er lúta að greiðslu fyrir yfirvinnu og greiðslu vegna frítökuréttar vísað frá héraðsdómi. Stefndi verður sýknaður af kröfu áfrýjanda um greiðslu launa á uppsagnarfresti.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað að málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Kröfum áfrýjanda, Birgis Guðjónssonar, um greiðslu vegna yfirvinnu og vegna frítökuréttar er vísað frá héraðsdómi.

Að öðru leyti er stefndi, Impregilo SpA Íslandi, sýkn af kröfu áfrýjanda.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2005.

          Mál þetta, sem var dómtekið 17. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Birgi Guðjónssyni, Skógarási 17, Reykjavík gegn Impregilo SpA-Iceland, Lynghálsi 4, Reykjavík með stefnu áritaðri um birtingu 14. september 2004.

          Stefnandi krefst þess, að hið stefnda félag verði dæmt til að greiða honum vangoldin laun, samtals að fjárhæð 3.457.435 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001, af 59.185 krónum frá 1. maí 2003 til 1. júní 2003, þá af 487.497 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2003, þá af 889.332 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2003, þá af 1.288.052 krónum frá þeim degi til 1. september 2003, þá af 1.675.870 krónum frá þeim degi til 1. október 2003, þá af 1.953.105 krónum frá þeim degi til 4. október og loks af 3.457.435 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu, að mati réttarins auk álags er nemi virðisaukaskatti af honum.

          Við aðalmeðferð málsins, krefst stefndi þess aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi. Til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I.

Málsatvik.

          Stefnandi, sem er viðskiptafræðingur að mennt, var ráðinn til starfa hjá stefnda með munnlegum samningi í apríl 2003 og var fyrsti starfsdagur hans 22. apríl. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur milli málsaðila, en ágreiningslaust er að laun stefnanda yrðu 300.000 krónur á mánuði. Fyrstu tvær vikurnar var starfsaðstaða stefnanda í Reykjavík, en  6. maí 2003 fluttist hún að Laugarási við Kárahnjúka.   Starf stefnanda fólst í því að annast um almenn innkaup fyrir stefnda, þar á meðal að kaupa inn handverkfæri og allt annað smálegt, auk þess sem ráðgert var að stefnandi myndi annast innkaup rekstrarvara meðan á framkvæmdum við Kárahnjúka stæði. Stefnanda mun einnig hafa verið falið að bera ábyrgð á lager fyrirtækisins í maí, þar sem ítalskur vöruhúsastjóri kom ekki til Kárahnjúka fyrr en í byrjun júní.

Í ágústmánuði 2003 fékk stefnandi afhent uppkast af samningi. Í því var gert ráð fyrir að laun stefnanda væru 300.000 krónur á mánuði, óháð vinnutíma og vinnuframlagi en jafnframt var tekið fram, að um réttindi og skyldur skyldi fara samkvæmt Virkjanasamningi, þ.e. kjarasamningi Landsvirkjunar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsins, Samiðnar, Rafiðnaðarsambandins og Verkamannasambands Íslands. Þá skyldu félagsgjöld stefnanda greiðast Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur. Stefnandi féllst ekki á þetta samningstilboð.

Fyrri part ársins, hélt stefndi ekki  sérstaklega utan um vinnutíma starfsfólks en á því varð breyting í ágústmánuði 2003. Óumdeilt er að um langan vinnudag var að ræða.  Unnið var sex daga vikunnar, fjórar vikur í senn og í fimmtu viku var frí.  Stefnandi gerði ekki skriflegar athugasemdir við það  fyrirkomulag sem haft var, útreikning launa eða launaseðla, né hlutaðist til um innheimtu yfirvinnugreiðslna á því tímabili er hann var starfsmaður stefnda.  Hins vegar hafði hann uppi það álit að hann væri ósáttur við laun sín miðað við það vinnuálag sem hann taldi sig búa við.

Stefnandi sagði upp starfi sínu með bréfi  4. október 2003 og  leysti stefndi  hann samdægurs undan vinnuskyldu á uppsagnarfresti og lét stefnandi strax af störfum í samræmi við þá ákvörðun.

Stefnandi leitaði til lögmanns um innheimtu kröfu sinnar. Í bréfi lögmanns stefnanda, 20. apríl 2004 var þess krafist að gerð yrðu upp hin vangreiddu laun við stefnanda, en sú krafa hefur ekki leitt til greiðslu og er málsókn þessi því nauðsynleg.

II.

Útlistun dómkröfu.

Kröfugerð stefnanda lýtur í fyrsta lagi að leiðréttingu launa fyrir starfstíma hans hjá stefnda frá aprílmánuði til októbermánaðar 2003. Þá er gerð krafa um laun í uppsagnar-fresti sem og vangoldið orlof auk frítökuréttar. Dómkrafan byggir á tímaskriftum stefnda, en útreikningur hennar hefur verið staðfestur af stéttarfélagi stefnanda, Verzlunar-mannafélagi Reykjavíkur. Forsendur kröfu stefnanda eru eftirfarandi:

Krafa um laun fyrir yfirvinnu.

Stefnandi krefst launa fyrir yfirvinnu samkvæmt tímaskriftum sínum en samkvæmt þeim vann stefnandi 635 tíma í yfirvinnu á starfstíma sínum hjá stefnda en fékk enga yfirvinnu greidda. Útreikningur á verðmæti yfirvinnustundar miðast við kjarasamning Verzunarmannafélags Reykjavíkur þ.e. 1,0385% af mánaðarlaunum, sem eru óumdeilt 300.000 krónur. 

Krafa um frítökurétt.

Krafa um greiðslu vegna frítökuréttar er í samræmi við ákvæði kafla 2.3 í kjarasamningi, þannig að frítökuréttur eða 1,5 stund í dagvinnu safnast fyrir hverja stund sem lágmarkshvíld skerðist. Uppsafnaður frítökuréttur stefnanda nam alls 152 stundum,  en dagvinnukaup er fundið með því að deila með tölunni 160 í föst mánaðarlaun stefnanda, skv. grein 1.7.1.1 í kjarasamningi, en þannig reiknað er verðmæti hverrar dagvinnustundar: 300.000/160= 1.875 krónur. 

 

Krafa um laun á uppsagnarfresti.

Stefnandi krefst launa í þrjá mánuði á uppsagnarfresti. Stefnandi hafði starfað í þágu stefnda frá 22. apríl eða í fimm mánuði og tvær vikur, þegar hann sagði starfi sínu lausu 4. október og var samdægurs leystur undan vinnuskyldu. Samkvæmt grein 2.3.2 í kjarasamningi skal frítökuréttur teljast hluti ráðningartíma starfsmanns við starfslok. Stefnandi átti rétt á 152 dagvinnustundum vegna frítökuréttar við starfslok. Samkvæmt grein 2.1.5 í kjarasamningi er dagvinnutími skrifstofufólks lengst 37,5 klukkustundir á viku og jafngilti því frítökuréttur stefnanda fjögurra vikna vinnu.  Að teknu tilliti til þessa hafði stefnandi náð samanlagt sex mánaða starfstíma við starfslok og öðlast þannig rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests. Krafan er því 3x300.000=900.000 krónur. 

Krafa um orlof.

Stefnandi krefst greiðslu orlofs af vangreiddri yfirvinnu og launum á uppsagnarfresti. Er orlofið reiknað í samræmi við ákvæði 4.1 fyrrnefnds kjarasamnings og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof, þ.e. 10,17%.

 

Dómkrafan sundurliðast á eftirfarandi hátt.

Vangreidd yfirvinna á starfstíma

            1.979.582,-

Vangreitt orlof af yfirvinnu

             201.323,-

Vangreiddur frítökuréttur 152 x 1875

             285.000,-

Vangreidd laun í uppsagnarfresti, alls 3 mánuði

             900.000,-

Vangreitt orlof á uppsagnarfresti

             91.530,-

Samtals

             3.457.435,-

 

Þá er gerð krafa um dráttarvexti frá gjalddaga hverrar kröfu stefnanda en krafa vegna launa í uppsagnarfresti, frítökuréttar og orlofs gjaldféllu við starfslok stefnanda þann 4. október 2003 vegna vanefnda stefnda.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því, að honum beri að fá greitt endurgjald fyrir þá vinnu sem hann innti af hendi og vísar til meginreglna vinnuréttar um rétt til greiðslu verkkaups og kjarasamninga  sem og meginreglu samningaréttarins um skuldbindingargildi samninga. Stefnandi áréttar að stefndi lét undir höfuð leggjast að gera skriflegan ráðningarsamning við hann og allan vafa varðandi einstök samningsákvæði í samningum aðila ber af þessum sökum að skýra og túlka stefnda í óhag, enda stóð það honum næst sem atvinnurekanda að tryggja sér sönnun um inntak ráðningarsamnings aðila vegna skyldu hans sem atvinnurekanda til þess að útbúa slíkan samning.

Krafa um laun fyrir yfirvinnu.

Stefnandi byggir kröfu um laun fyrir yfirvinnu á ráðningarsamningi aðila, enda aldrei verið samið um annað milli aðila. Á því er byggt að sá háttur, að greiða yfirvinnu að fullnægðri dagvinnuskyldu, sé grundvallarmeginregla í íslenskum vinnurétti sem ekki verði vikið frá nema með ótvíræðum samningi aðila á milli þar sem ljóst sé að þau laun sem greidd eru séu ekki lægri en heildarlaun samkvæmt dagvinnu- og yfirvinnutaxta yrðu að öðrum kosti. Enginn slíkur samningur hafi verið gerður milli aðila og því ber stefnanda að fá rétt upp gert fyrir yfirvinnstundir þær sem hann vann í samræmi við ákvæði greinar 1.8 í kjarasamningi.

Það hversu óvanalegt það samningsákvæði er sem stefndi vill bera fyrir sig er auk þess sjálfstæð málsástæða fyrir því að leggja málatilbúnað stefnanda til grundvallar í þessum efnum. Stefnandi telur fjarri öllu lagi að tíðkist í samningum á vinnumarkaði á Íslandi að starfsmaður taki að sér ómælt starf, nánast allan þann tíma sem hann er ekki beinlínis sofandi, án þess að áskilja sér annað og meira en föst laun. Í þeim tilvikum sem slíkt er þó gert, er yfirleitt ætíð um stjórnunarstöðu að ræða þar sem auk ríflegra launa er jafnframt samið um einhvern ágóðahlut starfsmanninum til handa í einhverju formi.

Loks þegar stefndi varð við áskorunum stefnanda í þessum efnum, þegar langt var komið fram á sumar, lagði hann fyrir stefnanda samningsuppkast, ritað á staðlað samningsform sem stefndi hafði útbúið, sem gerði ráð fyrir því að greidd laun væru heildarlaun. Í því uppkasti var að finna sérstakt ákvæði varðandi vinnutíma þar sem gert var ráð fyrir að unninn væri reglulegur vinnutími sem tilgreina skyldi í vinnustundafjölda, en svo var ekki gert, né tilgreint í tíma hver frávik gætu verið á þeim vinnustundafjölda þó svo að greinilega væri til þess ætlast samkvæmt eyðublaðinu. Samkvæmt samningsuppkasti þessu skyldi öll yfirvinna í ótilgreindum mæli vera innifalin í hinni mánaðarlegu greiðslu, 300.000 krónum, sem stefnandi taldi algerlega óásættanlegt. Í ljósi reynslu liðinna mánuða, þar sem yfirvinnufjöldi var langt umfram það sem stefnanda gat órað fyrir og honum í annan stað gert að inna verk sitt af hendi á virkjanasvæðinu norðan Vatnajökuls, var þessi tilætlan stefnda fjarri öllu lagi að mati stefnanda og leiddi í raun til uppsagnar af hans hálfu þegar fyrir lá að stefndi ætlaði ekki að bregðast við athugasemdum hans.

Þá er einnig á því byggt af hálfu stefnanda, að jafnvel þó svo hefði verið samið milli aðila, sem var ekki, þá sé sá háttur að greiða aðeins föst laun fyrir ótakmarkaða vinnu óheimill. Stefnandi heldur því fram að aðilar hafi í munnlegum ráðningarsamningi samið um að kjarasamningur VR gilti um vinnu stefnanda, eins og raunar er eðlilegt miðað við inntak starfs stefnanda. Með því að greiða stefnanda ekki laun fyrir vinnu utan dagvinnutíma eru lágmarksréttindi stefnanda samkvæmt þessum kjarasamningi skert, en slík ákvæði ráðningarsamnings eru ógild samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.  Slíkur samningur, ef gerður hefði verið, væri að mati stefnanda, einnig ógildanlegur enda bersýnilega gríðarlega ósanngjarn, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.

Við mat á því hvort slíkur samningur, ef sannað þætti að hann hefði verið gerður, væri ógildur samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 eða ógildanlegur samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 og mætti jafnframt líta til 2. gr. sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku. Samkvæmt þeim ákvæðum má aðeins víkja frá 40 stunda vinnuviku með samningum sem staðfestir hafa verið af heildarsamtökum vinnumarkaðarins, sem nánar eru tilgreind í lögunum. Stefnandi telur augljóst, að vikið hafi verið í verulegum atriðum frá 40 stunda vinnuviku í tilviki stefnanda og jafnframt er vart umdeilanlegt að slíku samþykki er ekki fyrir að fara um samning þann sem stefndi virðist byggja á, að hafi verið gerður sem gerði ráð fyrir ómældu vinnuframlagi stefnda gegn föstum launum.

Stefnandi telur að stefnda geti ekki borið fyrir sig að stefnandi hafi sjálfur skipulagt vinnutíma sinn með þeim hætti sem raun ber vitni. Slíkt á ekki við rök að styðjast enda stefnanda falið verkefni sem leysa varð af hendi til þess að tugmilljarðaframkvæmd stefnda að Kárahnjúkum myndi ekki raskast t.d. vegna skorts á handverkfærum. Til þess var ætlast af hálfu stefnda að stefnandi leysti verkefni sín af hendi og það gerði stefnandi þó það þýddi svo langan vinnudag sem raun ber vitni.

Krafa um frítökurétt.

Stefnandi telur að fjöldi yfirvinnutíma hans  hafi verið 635 klst. á starfstíma hans frá 22. apríl til 4. október 2003. Með þessum mikla vinnustundafjölda var réttur stefnanda til lágmarkshvíldar iðulega brotinn, en vinnudagur stefnanda hófst jafnan kl. 7 eða 8 að morgni en lauk iðulega ekki fyrir en kl. 22 eða jafnvel síðar,  sbr. 53. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2000/34/EB um skipulag vinnutíma, en sú tilskipun telst innleidd með ákvæðum kjarasamninga og þannig lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði, sbr. auglýsingu félagsmálaráðuneytis nr. 285/1997. Enn fremur var með þessari miklu vinnu farið gegn 55. gr. laga nr. 46/1980, en samkvæmt því skal hámarksvinnutími starfsmanns á viku að yfirvinnu meðtalinni ekki fara fram yfir 48 klukkustundir á hverju fjögurra mánaða meðaltali. Réttur stefnanda til lágmarkshvíldar var þannig gróflega brotinn án þess að á móti kæmi greiðsla í samræmi við kjarasamning VR og SA sem gildir um þessi tilvik, nánar tiltekið ákvæði kafla 2.3 í kjarasamningi.

Krafa um laun í uppsagnarfresti.

Stefnandi byggir kröfu um laun í uppsagnarfresti á ákvæðum 13. kafla kjarasamnings og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks. Stefnandi var leystur undan vinnuskyldu á uppsagnarfresti án fyrirvara. Stefnandi telur að það leysi hins vegar stefnda ekki undan greiðsluskyldu sinni gagnvart stefnanda, skv. skýrum ákvæðum kjarasamnings um rétt stefnanda til uppsagnarfrests, enda hafði stefnandi lýst yfir vilja sínum til að vinna uppsagnarfrestinn en stefndi kosið að afþakka það. Stefnandi sem hafði starfað í þágu stefnda í fimm mánuði og tvær vikur þegar hann sagði starfi sínu lausu og að teknu tilliti til áunnins frítökuréttar eða 152 dagvinnustunda, hafði stefnandi starfað í rúma sex mánuði hjá stefnda og því öðlast rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests, sbr. gr. 2.3.2.

Krafa um orlof.

Kröfu sína um greiðslu orlofs á vangoldin laun og laun í uppsagnarfresti byggir stefnandi á 4. kafla kjarasamnings sem og lögum nr. 30/1987 um orlof. Samkvæmt því ber að reikna starfsmanni orlofslaun af heildarlaunum að lágmarki sem nemur 10,17%. Stefnanda ber að fá greitt orlof af vangoldnum launum sem og launum í uppsagnarfresti og vegna vangoldins frítökuréttar. 

Varðandi lagarök um greiðsluskyldu stefnda er vísað  til meginreglna vinnuréttar um greiðslu verkkaups og meginreglna samningaréttar um skyldu til efnda samninga auk laga nr. 7/1936 og laga nr. 30/1987 um orlof. Þá styður stefnandi kröfu sína við lög nr. 55/1980, lög nr. 19/1979, lög nr. 80/1938 og lög nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku. Kröfu  um frítökurétt byggir stefnandi á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 með síðari breytingum. Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjast við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988 en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

IV.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir á því, að málsaðilar hafi gert munnlegan ráðningarsamning.  Sá samningur sé samsvarandi í öllum meginatriðum því samningstilboði er stefnandi fékk í ágúst en vildi ekki undirrita. Stefndi heldur því fram, að í því staðfesti hann  ráðningarkjör stefnanda skriflega og telur því að skjalið gangi til jafns við skriflega staðfestingu skv. kjarasamningum og eða ráðningarbréfi. Stefnandi hafði valið að  greiða félagsgjöld til Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, en það segir ekkert um það hvaða kjarasamningur væri ákvarðandi um lágmarkskjör í því starfi sem hann réð sig til, né gat það staðið í vegi fyrir því, að aðilar sömdu um 300.000 krónur sem  heildarmánaðarlaun. Stefndi heldur því fram, að það eitt og sér, að ráðningarsamningur skuli ekki hafa verið undirritaður af stefnanda í upphafi geri það ekki að verkum, að einhver óvissa hafi ríkt um ráðningarkjör.  Stefndi telur að ráðningarkjör við stefnanda hafi verið skýr og afdráttarlaus við upphaf vinnusambands þeirra og launaseðlar til stefnanda og útgreidd laun í samræmi við framangreint frá upphafi vinnusambands.

Stefndi byggir einnig á því, að samningsdrög þau er lögð voru fram í ágúst, og sem stefndi hafi með formlegum hætti leitast við að staðfesta skriflega, séu þau ráðningarkjör sem um var samið í upphafi við stefnanda.  Það að stefnandi lét undir höfuð leggjast að undirrita samninginn gerir þau ráðningarkjör ekki ógild eða ómerk.   Stefndi mótmælir þeim málatilbúnaði stefnanda, að samið hafi verið um töku  launa í samræmi við kjarasamning Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins.  Jafnframt er mótmælt að einu gildi hvort miðað sé við þann samning eða hinn svonefnda Virkjunarsamning; kjarasamning Landsvirkjunar, Samtaka atvinnu­lífsins og Alþýðu­sambandsins, Samiðnar, Rafiðnaðar­sambandsins og Verkamanna­sambands Íslands.  Stefndi telur að ekkert liggi fyrir sem rennir stoðum undir þær fullyrðingar stefnanda að samist hafi um að kjarasamningur Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins hafi verið lagður til grundvallar í ráðningarsamningi aðila.  Þvert á móti telur stefndi, að samningurinn sem lagður var fyrir stefnanda í ágúst 2003 sé til staðfestu því, að ráðningarkjörin voru byggð á áðurnefndum virkjanasamningi og því samkomulagi um kaup og vinnutíma sem í ráðningarsamningi fólst.   Stefndi telur að þótt lögbundin lágmarkskjör verslunar- og skrifstofufólks taki mið af kjarasamningum verslunarmanna,  þá raski það ekki þeirri staðreynd, að stefndi hefur ekki samið við neinn starfsmann á þeim grundvelli einum, hvorki fyrr né síðar.  Ráðningarkjörin hafa ráðist af virkjunarsamningi, þótt um einstök afmörkuð ákvæði sé þar vísað til almennra kjarasamninga hlutaðeigandi starfsstétta. Stefndi telur að það hafi aldrei verið í boði hvorki fyrir stefnanda né aðra að semja um töku launa samkvæmt þeim samningi einum og sér.

          Stefndi mótmælir einnig þeirri staðhæfingu stefnanda að engu skipti hvor samningurinn í raun sé lagður til grundvallar, þar sem í raun megi finna greinarmun milli ákvæða samninga Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins og Virkjunarsamningsins, svo sem um atriði er varða frítöku, fæðishlunnindi, tryggingar og húsnæði o. fl. Stefndi telur óumdeilt, að stefnandi hafi notið þessara ákvæða samkvæmt Virkjunarsamningnum og fært sér þau í nyt meðan á ráðningartíma stóð.

          Þá mótmælir stefndi sem rangri og ósannaðri þeirri forsendu stefnanda, að umsamin heildarlaun hans, 300.000 krónur, hafi einungis verið fyrir dagvinnu. Stefndi telur að launaseðlar þeir sem stefnandi tók við um sex mánaða skeið án athugasemda séu glögg vísbendingu um, að þessi greiðsla var fyrir heildarvinnuframlag, enda engin önnur laun greidd stefnda þann tíma.  Stefndi telur fjarstæðu, að unnt sé að leggja þessa fjárhæð til grundvallar útreikningi á tímalaunum, eins og stefnandi gerir.  Tímalaun eru skv. kjarasamningum reiknuð út frá mánaðarlaunum fyrir dagvinnu en ekki heildarlaunum, hvort heldur þau eru endurgjald fyrir dagvinnu ellegar ótilgreinda eða tilgreinda yfirvinnu.  Í tilfelli stefnanda var um ótakmarkaða yfirvinnu að ræða og því enginn reikningslegur grundvöllur finnanlegur fyrir tímakaupi í yfirvinnu.  Ef tilefni hefði verið til sérstakra greiðslna fyrir vinnuframlag umfram það sem vænta mátti, hefðu aðilar þurft að koma sér saman um fjárhæð fyrir slíkt.

Stefndi telur ekki rétt að óheimilt hafi verið að semja um föst heildarlaun fyrir þá vinnu sem stefnandi innti af hendi.  Jafnframt að með því að greiða stefnanda ekki sérstaklega laun fyrir vinnu utan dagvinnutíma séu lágmarksréttindi stefnanda skert. Stefndi telur það vel þekkt á almennum vinnumarkaði, að samið sé um tiltekin laun fyrir tiltekið vinnuframlag, hvort sem það er á dagvinnu- eða yfirvinnutímabili.  Atvinnurekandi og launamaður hafa fullt frelsi til að víkja frá hinum  ýmsu ákvæðum kjarasamnings, en kjör starfsmanns metin í heild mega þó ekki vera lakari en kjarasamningur kveður á um. Stefndi ítrekar að ekki var samið um ráðningarkjör stefnanda á grundvelli kjarasamnings Verzlunar­manna­félags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins, heldur byggðust ráðningarkjör á grundvelli hins svonefnda Virkjunarsamnings.  Samkvæmt þeim kjarasamningi eru dagvinnutími og kjör í fullu samræmi við ákvæði 1. gr. l. nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Stefndi bendir einnig á, að engu breyti þótt dagvinnulaun og sú yfirvinna sem haldið er fram að stefnandi hafi innt af hendi væri reiknuð samkvæmt þeim lágmarkstaxta sem tilgreindur er í kjarasamningi VR og SA, því launatekjur hans hjá stefnda voru til muna hærri en orðið hefði samkvæmt þeim forsendum. Kjör stefnanda stóðust því fyllilega lágmarksákvæði kjarasamninga, hvort heldur miðað er við kjör samkvæmt nefndum Virkjanasamningi eða kjarasamningi Verslunarmannafélags Reykjavíkur.

          Stefndi bendir sérstaklega á að í heildarlaunakjörum stefnanda fólst, að hann hefði eina viku sem launaða frídaga eftir hverjar fjórar í vinnu.  Þessi frítökuréttur svarar til 25% álags á umsamnin heildarlaun. Þessi réttur grundvallast ekki á kjarasamningi heldur er hluti af ráðningarkjörum starfsmanna með föst laun fyrir skilgreindan og óskilgreindan vinnutíma. Væri fallist á þann skilning stefnanda að hann hafi verið ráðinn skv. kjarasamningi VR, þá er ljóst að hann  ætti enga kröfu til launaðra frídaga samkvæmt þessu.  Við útreikning á kröfum stefnda byggðum á þeim skilningi eru því ekki efni til að reikna umrædda daga sem launaða frídaga.

Krafa um yfirvinnu.

Aðalkrafa stefnda um sýknu byggir á því að almennt hafa launamenn ekki sjálftöku um yfirvinnu né greiðslur vegna yfirvinnu.  Stefndi telur þá venju hafa skapast á vinnumarkaði að séu launamenn beðnir um að vinna yfirvinnu umfram það sem telja má að falli innan almennra fastlaunakjara, svo sem stefnandi hafði samið um, sé samið um fjölda tíma og greiðslna í samræmi við það vinnuframlag.  Starfsmenn ákveða ekki uppá sitt eindæmi vinnuframlag umfram það sem samið er um, né ákveða fjölda vinnustunda.

          Í samningsdrögunum frá ágúst  er vísað til þess að sé unnið sérstaklega umfram það sem eðlilegt má teljast, sbr. orðalagið: “Excessive contribution will be rewarded, especially”, skuli sérstaklega greitt fyrir það vinnuframlag.  Ekki hafi því staðið annað til af hálfu stefnda, en að greiða fyrir slíkt vinnuframlag, enda styðji vinnuskýrslur/stimplanir slíkt og óskað hafi verið eftir slíku vinnuframlagi. Ekkert samkomulag varð um það að vinnuframlag stefnda gæfi tilefni til slíkra aukagreiðslna áður en hann lét af störfum.

Í þessu máli er því haldið fram af stefnanda að hann hafi unnið yfirvinnu  og er hann einn til frásagnar um þann fjölda vinnutíma sem hann kveðst hafa unnið.  Stefndi telur ástæðu til að ætla að eigin skráning stefnanda á vinnutímum hans hafi verið með frjálslegasta móti og ekki endurspeglað raunverulegan vinnutíma hans á umræddu tímabili.  Styður stefnandi þetta við frásagnir hans sjálfs á meðan á vinnu hans stóð svo og upplýsingar um viðveru á vinnustað.  Ekki er sýnt fram á að stefnandi hafi sérstaklega verið beðinn um að vinna yfirvinnu umfram það sem umsamið var við hann við upphaf starfs, né framvísar stefndi staðfestum og, eða árituðum tímaskýrslum um fjölda vinnustunda.  Kröfu stefnanda um yfirvinnu er því mótmælt sem ósannaðri.

Stefndi telur ljóst, að stefnandi hafi í kröfugerð sinni blandað saman yfirvinnu við  þann vinnutíma sem samið var um í ráðningarsamningi, þ.e. að jafnaði skyldi unnið frá 07.00 á morgnana til kl. 18.00 á kvöldin með klukkutíma í mat, 6 daga vikunnar.  Þannig eru laun hans uppbyggð að hluta til á dagvinnukaupi og að hluta til á yfirvinnukaupi eða vaktakaupi, sem vegin eru saman í föst laun.  Staðhæfingum hans og málsástæðum um yfirvinnu er því einnig mótmælt.

Varakrafa um lækkun á stefnukröfum vegna yfirvinnu byggir stefndi á því að yfirvinnu­greiðslur skuli miða við lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningi Verzlunar-mannafélags Reykjavíkur og Samtaka Atvinnulífsins eða Virkjunarsamningnum.

Krafa um frítökurétt.

Krafa um greiðslu vegna frítökuréttar byggir að öllu leyti á kröfu stefnanda um greiðslur vegna yfirvinnu.  Þar sem bornar eru brigður á hina meintu yfirvinnu og að mati stefnda hafa ekki verið færðar sönnur á yfirvinnu er kröfum um frítökurétt mótmælt sem ósönnuðum.

Útreikningur stefnanda á frítökurétti byggir á þeim forsendum að  dagvinnukaup stefnanda hafi verið 300.000 krónur og því sé sú upphæð lögð til grundvallar á útreikningi á verðmæti hverrar dagvinnustundar.  Þessum forsendum og útreikningum er mótmælt sem röngum.

Krafa um laun á uppsagnarfresti.

Aðalkrafa stefnda byggir á sýknu á eftirfarandi grundvelli:  Stefnandi sagði upp starfi sínu með bréfi 4. október 2003 og tiltók þar sérstaklega að síðasti starfsdagur væri 3. október 2003. Í bréfinu gat hann þess, að hann væri reiðubúinn til þess að vinna út hinn hefðbundna uppsagnarfrest og mátti þá skilja það sem svo að fyrirtækið yrði að svara þeirri málaleitan.  Uppsagnarréttur er gagnkvæmur réttur starfsmanns og atvinnurekanda.  Stefndi telur að starfsmaður verði því að hlíta sömu formskilyrðum og atvinnurekandi við uppsögn ráðningarsamnings.  Uppsögn er ekki annað en tilkynning um fyrirhuguð starfslok, sem í þessu tilfelli voru tilgreind 3. október.  Mátti því skýrlega ráða af bréfi stefnanda að krafa hans væri sú að leggja niður störf þá þegar.  Boð um að vinna uppsagnarfrest verður ekki talin fela í sér annað en ósk um tafarlaus starfslok, sem stefnda var gert að þekkjast eða ekki, enda var það ljóst á sínum tíma að það var ósk stefnanda að starfa ekki í þágu fyrirtækisins í uppsagnarfresti.  Stefndi telur að sú staðreynd að hann ákvað að samþykkja kröfu stefnanda og þar með að leysa hann undan lög- og samningsbundnum skyldum til að vinna út umsaminn uppsagnarfrest, geti með engu móti  leitt til þess að stefnandi öðlist kröfu til  launa úr hendi stefnda í uppsagnarfresti.  Þar sem ekki var tiltekið í bréfinu um ráðningarslit að loknum uppsagnarfresti tók uppsögnin þegar gildi.  Með bréfi dagsettu sama dag leysti stefndi stefnanda undan því boði og tók því uppsögnin þá þegar gildi. Voru því báðir aðilar ráðningarsamningsins lausir frá öllum samningsskuldbindingum sínum frá og með 4. október 2003, enda leit stefndi svo á að með bréfi sínu væri verið að koma til móts við óskir stefnanda um slíka kröfu. Kröfu stefnanda um laun í uppsagnarfresti er því mótmælt og krafist er sýknu af hálfu stefnda þar eð samkomulag lá fyrir milli aðila um lok allra efnda ráðningarsamnings frá og með 4. október 2003.

Varakrafa þess efnis að krafa stefnanda sæti lækkun byggir á því að í  uppsagnar-fresti hóf stefnandi störf í fyrirtæki í eigu hans sjálfs (Hedra ehf., Skógarási 17, Reykjavík) og þáði þar laun.  Með vísan til fjölmargra dómafordæma Hæstaréttar koma því slík laun til frádráttar launum í uppsagnarfresti.  Stefndi skorar á stefnanda að upplýsa um skattskyld laun sem hann þáði þá þrjá mánuði eftir að ráðningarsamningi hans lauk við stefnda, að því gefnu að litið verði til þess tíma sem uppsagnarfrests.  Þar sem um einkahlutafélag stefnanda er að ræða, krefst stefndi þess að ekki verði miðað við lægri fjárhæð en sem svarar viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald af eigin atvinnustarfsemi, samanber reglur ríkisskattstjóra þar um.

Krafa um orlof.

Krafa um greiðslur vegna orlofs er byggð á vangreiðslu af hálfu stefnda á yfirvinnu og launum í uppsagnafresti.  Þeim kröfum, sem og kröfu vegna orlofs, er mótmælt sem ósönnuðum.  Aðalkrafa stefnda er því sýkna á greiðslu orlofs. Varakrafa stefnda byggir á því að stefndi hafi tekið orlof, 12 daga, samkvæmt hans eigin tímaskráningu.  Þess er því krafist að þeir dagar komi til frádráttar útreikningi á orlofi.  

          Varðandi lagarök vísar stefndi til almennra reglna vinnuréttar og meginreglu samningaréttar um skyldu til að efna samninga.  Málskostnaðarkrafan styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

V.

Forsendur og niðurstaða.

          Stefnandi starfaði hjá stefnda frá 22. apríl 2003 þar til hann lét af störfum 3. október sama ár.  Er hann hóf störf var gerður munnlegur ráðningarsamningur við hann og yrðu laun hans 300.000 krónur á mánuði. Sú fjárhæð er ágreiningslaus.  Kröfur stefnanda lúta meðal annars að því, að honum verði sérstaklega greitt fyrir yfirvinnu, en stefndi telur að um föst laun sé að ræða, það er að með tilgreindum launum 300.000 krónum, sé greitt fyrir allt vinnuframlag stefnanda.         

Samkvæmt gögnum málsins voru launasamningar þeir sem stefndi gerir þrenns konar.  Í fyrsta lagi var um almenna samninga að ræða með föstum mánaðarlaunum fyrir minnst 10 klukkustunda vinnu 6 daga vikunnar og vinna umfram það yrði greidd skv. yfirvinnutaxta.  Í öðru lagi var um almennan samning að ræða með föstum mánaðarlaunum óháð vinnuframlagi og í þriðja lagi stjórnunarsamning með föstum mánaðarlaunum óháð vinnuframlagi. Þá liggur það fyrir í málinu, að samstarfsmenn stefnanda voru á þannig kjörum, að þeir fengu 200.000 krónur fyrir 60 klukkustunda vinnuviku og greidda yfirvinnu umfram nefnda tíma og féllu því undir fyrst nefnda samningstegundina.

Það liggur fyrir í málinu, að skriflegur ráðningarsamningur var ekki gerður á milli aðila.  Hins vegar hafa verið lögð fram samningsdrög er afhent voru stefnanda í ágústmánuði.  Þau bera það með sér að um föst laun sé að ræða að fjárhæð 300.000 krónur og sérstaklega tekið fram að yfirvinna sé innifalin í mánaðarlegri greiðslu.  Í samningsdrögunum er ekki tilgreint hver daglegur/vikulegur vinnutími sé. Þá er tekið fram að til aukagreiðslna geti komið, sé unnið meira en eðlilegt megi teljast.

Dómurinn lítur svo á, að hinn munnlegi samningur milli aðila málsins hafi verið á þá lund, að stefnandi fengi 300.000 krónur á mánuði fyrir vinnuframlag sitt og að ekki hafi verið gert ráð fyrir, að yfirvinna yrði greidd sérstaklega. Lítur dómurinn hér fyrst og fremst til framburðar stefnanda og aðgerðaleysis hans.  Aðspurður fyrir dómi kvaðst stefnandi ekki muna, hvort sérstaklega hafi verið rætt við samningsgerðina hvort hann fengi yfirvinnu greidda, en hann hafi vænst þess. Þó var honum ljóst, að um byrjunar-framkvæmdir var að ræða, og þar af leiðandi gat verið um mikla vinnu að ræða.   Þá er einnig að líta til þess, að launaseðlar stefnanda, er hann fékk fyrst 1. júní 2003 og síðan mánaðarlega, bera það með sér að um mánaðarlaun er að ræða.  Gera þeir ekki ráð fyrir að greitt sé samkvæmt tímavinnu.  Stefnandi hreyfði ekki mótmælum við móttöku launaseðlanna,  svo sannað sé.  Hefði slíkt þó verið eðlilegt, ef ráðningarsamningurinn hefði verið á þá lund, að greitt yrði sérstaklega fyrir yfirtíð.  Þá er hér einnig til þess að líta, að fyrst rúmu hálfu ári eftir að stefnandi lætur af starfi hjá stefnda krefur hann stefnda með sannanlegum hætti um að fá greidda yfirvinnu, en bréf lögmanns hans til stefnda er frá 20. apríl 2004. Þannig líða tæpir ellefu mánuðir frá því, að stefnandi fékk fyrsta launaseðilinn í hendurnar, sem ber með sér að um mánaðarlaun sé að ræða og þar til hann hefst handa.  Að mati dómsins verður stefnandi að bera hallann af aðgerðarleysi sínu.   Hér telur dómurinn einnig rétt að líta til þess ráðningarforms sem stefndi hefur upplýst að hafi viðgengist hjá honum.  Stefndi upplýsti að enginn starfsmaður hafi verið ráðinn á hans vegum með því fyrirkomulagi er stefnandi krefur um í máli þessu og hefur því ekki verið mótmælt af hálfu stefnanda.  Í ljósi framanritaðs lítur dómurinn svo á, að málsaðilar hafi samið um föst laun sín á milli sem sé þóknun fyrir alla vinnu stefnanda.  Þótt vinnuframlag stefnanda hafi verið mun meira en hann gerði ráð fyrir, þá breytir það því ekki, að um samning var að ræða milli málsaðila, sem báðir voru bundnir af.  Að mati dómsins hefur stefnanda ekki tekist að sýna fram á að honum beri greiðsla vegna yfirvinnu.  Þá hefur stefnandi ekki sýnt fram á, að samningurinn sé ósanngjarn þannig að hann sé ógildur skv. 36. gr. laga nr. 7/1936 og er þeirri málsástæðu hafnað.

Þá er að líta til þess, hvort laun samkvæmt hinum munnlega samningi aðila séu stefnanda jafn hagstæð eða betri, en kveðið er á um í kjarasamningi Verzlunarmanna-félags Reykjavíkur, en samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 80/1938 er samningur milli launamanna og atvinnurekanda ógildur, ef samið er um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar gera ráð fyrir.  Eini lágmarkstaxtinn sem tilgreindur er í samningi Verzlunarmannafélags og notaður er í viðmiði stefnda eru 104.967 krónur sem mánaðarlaun fyrir dagvinnu, en þessi taxti er of lágur að mati dómsins.  Er þá litið til menntunar og starfsreynslu stefnanda.  Um aðra viðmiðun er ekki að ræða í samningnum, en samkvæmt grein 1.2.2 kjarasamningsins skuli launin vera persónubundin og endurspegla meðal annars vinnuframlag, hæfni, menntun og færni viðkomandi starfsmanns.  Hér er um huglægt mat að ræða.  Heildarlaun stefnanda námu 375.000 krónum og er þá tekið mið af því, að stefnandi hafði eina viku sem launaða frídaga fyrir hverja fjórar vikur sem hann vann. Varðandi mat á vinnuframlagi stefnanda verður að líta til þess, að stefndi hefur véfengt skráningu stefnanda á yfirvinnutíð sinni hluta tímabilsins, en stefndi tók ekki upp tímaskráningu fyrr en í ágústmánuði.  Einnig verður að líta til þess að ósannað er, að yfirmenn stefnanda hafi óskað eftir vinnuframlagi hans, við þær aðstæður að lágmarkshvíldartími stefnanda skertist. Að þessu athuguðu lítur dómurinn  svo á, að ósannað sé að samningur málsaðila um laun stefnanda séu lakari en kveðið er á í kjarasamningi Verzlunarmannafélagsins.  

Stefnandi heldur því fram, að þar sem stefndi hafi ekki gert skriflegan ráðningarsamning við sig þrátt fyrir skyldu þar um, sbr. tilskipun Evrópusambandsins nr. 91/533/EBE,  beri hann hallann af skorti á sönnun varðandi rétt stefnanda til yfirvinnugreiðslna.  Ekki verður séð, að tilvitnuð tilskipun skipti neinu við úrlausn málsins. Í ljósi aðgerðarleysis stefnanda í málinu og vitnisburðar hans fyrir dómi telur dómurinn  það liggja fyrir, að ekki hafi verið samið sérstaklega um greiðslur fyrir yfirvinnu.

          Með vísan til þess sem að framan er ritað er það niðurstaða dómsins, að ósannað er að málsaðilar hafi samið um annað en föst laun fyrir allt vinnuframlag stefnanda.  Ber því að sýkna stefnda af kröfu um greiðslu á yfirvinnu.  Í þessu felst að stefnandi á ekki heldur rétt til greiðslu vegna frítökuréttar eða orlofs. 

          Varðandi kröfu stefnanda til launa í uppsagnarfresti þá liggur það fyrir, að stefnandi sagði upp starfi sínu 4. október 2003.  Daginn áður hafði hann verið kallaður á fund hjá Erick Colon starfsmannastjóra, þar sem honum var afhent áminningarbréf, en fyrir dómi upplýsir stefnandi, að hann hafi þá tilkynnt að hann myndi koma með uppsagnarbréf daginn eftir.   Þann dag afhenti stefnandi uppsagnarbréf sitt.  Þar tilgreinir hann að starfstími sinn hjá stefnda að Kárahnjúkum hafi verið frá 6. maí 2003 til 3. október sama ár.  Þannig tilgreinir stefnandi lokadag starfs síns.  Stefnandi vann ekki uppsagnarfrestinn og í ljósi þessa,  lítur dómurinn svo á að stefnandi eigi ekki rétt til launa í uppsagnarfresti.  Er stefndi því sýknaður af kröfu stefnanda um laun í uppsagnarfresti.

          Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur dómurinn að sýkna eigi stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.  Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þykir rétt að hvor aðilinn beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Björn Bergsson hrl.

          Af hálfu stefnda flutti málið Þórarinn V. Þórarinsson hdl.

          Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

          Stefndi, Impregilo SpA-Icland, er sýkn af kröfum stefnanda, Birgis Guðjónssonar.

          Málskostnaður fellur niður.