Mál nr. 406/2012
- Sératkvæði
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Gæsluvarðhaldskröfu hafnað
|
Miðvikudaginn 13. júní 2012. |
Nr.
406/2012. |
Ákæruvaldið (Stefanía
G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Björgvin
Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhaldskröfu hafnað. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði.
X hafði sætt
gæsluvarðhaldi meðan á rannsókn og meðferð máls hans fyrir dómstólum stóð,
meðal annars á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 241/2012 var héraðsdómur í máli X ómerktur og
málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar að nýju. Litið var til þess
að í dómum Hæstaréttar hefði ítrekað verið lagt til grundvallar að það væri
sjálfstætt skilyrði fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi, á grundvelli
ofangreinds ákvæðis, að mál væri rekið með fullnægjandi hraða. Í ljósi þess að
mál X myndi dragast, af ástæðum sem honum yrði ekki kennt um, væri því skilyrði
ekki fullnægt og var niðurstaða héraðsdóms um að hafna áframhaldandi
gæsluvarðhaldi yfir X því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson
og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. júní
2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er
úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 7. júní 2012, þar sem hafnað var kröfu
sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi uns dómur
gengi á ný í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 5. júlí 2012 klukkan
16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð
sakamála. Sóknaraðili krefst þess að áðurgreind krafa hans verði tekin til
greina.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur varnaraðili sætt
gæsluvarðhaldi vegna ætlaðs kynferðisbrots gegn dóttur sinni frá 1. desember
2011 til 7. júní 2012. Frá 11. desember 2011 var gæsluvarðhald hans reist á 2.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 þar sem fram þótti kominn sterkur grunur um að
hann hefði framið brot það, sem hann var sakaður um, og önnur skilyrði
ákvæðisins voru talin fyrir hendi.
Með dómi héraðsdóms 28. mars 2012 var varnaraðili sakfelldur
fyrir brot það, sem hann var grunaður um, og hafði verið grundvöllur
gæsluvarðhaldsins. Var hann dæmdur til að sæta fangelsi í fjögur ár. Með dómi Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr.
241/2012 var dómurinn ómerktur vegna þess að verjanda varnaraðila hafði ekki
verið gefið nægilegt ráðrúm til þess að undirbúa sig fyrir endurflutning
málsins, svo að gagni gæti komið og til væri ætlast. Auk þess hafði héraðsdómur
hafnað beiðni verjandans um að leggja fram tiltekið gagn, sem talið var að gæti
hafa gefið tilefni til öflunar frekari gagna og þess að tekin yrði á ný skýrsla
af ætluðum brotaþola.
Að gegnum dómi Hæstaréttar var varnaraðili laus úr
gæsluvarðhaldi, en var þegar handtekinn og krafðist sóknaraðili þess að
varnaraðili sætti áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengi í máli hans en þó ekki
lengur en til 5. júlí 2012. Þessari kröfu var hafnað með hinum kærða úrskurði.
Eins og áður greinir hefur varnaraðili sætt gæsluvarðhaldi á
grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 frá 11. desember 2011 og þar til
áðurnefndur dómur Hæstaréttar gekk. Þótt skilyrði gæsluvarðhalds samkvæmt
framangreindu ákvæði kunni enn að vera fyrir hendi, hefur ítrekað verið lagt
til grundvallar í dómum Hæstaréttar að það sé sjálfstætt skilyrði fyrir
áframhaldandi gæsluvarðhaldi á þessum forsendum að mál sé rekið með
fullnægjandi hraða, þar með talið við áfrýjun, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 97.
gr. laga nr. 88/2008. Í ljósi þess að mál varnaraðila mun dragast af ástæðum,
sem honum verður ekki um kennt, er þessu skilyrði ekki fullnægt og verður
niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns
Steinars Gunnlaugssonar
Ég tel nú sem fyrr að skilyrðum 2.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé ekki fullnægt til þess að
varnaraðili verði látinn sæta gæsluvarðhaldi. Vísa ég um rökstuðning fyrir
þessu til sératkvæða minna í málum nr. 84/2012, 95/2012, 146/2012 og 217/2012.
Ég er því sammála niðurstöðu meirihlutans um að staðfesta beri hinn kærða
úrskurð.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 7.
júní 2012.
Ríkissaksóknari hefur gert þá kröfu
að ákærða, X, kt. og heimilisfang [...], verði gert
að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur á ný í máli hans, þó eigi
lengur en til fimmtudagsins 5. júlí 2012, kl. 16:00 á grundvelli 2. mgr. 95.
gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði mótmælir kröfunni og krefst
þess að henni verði hafnað.
Með úrskurði dómsins upp kveðnum 1.
desember sl. var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála allt til laugardagsins 10.
desember sl. kl. 16:00 en hann hafði verið handtekinn 30. nóvember sl. grunaður um kynferðisbrot gagnvart 11 ára gamalli
dóttur sinni, B, kt. [...]. Úrskurðurinn var
staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands upp kveðnum 5. desember sl. Með
úrskurði dómsins upp kveðnum 11. desember sl. var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi
allt til 6. janúar sl. kl. 16:00 á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sömu laga og var
úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar upp kveðnum 14. desember sl. Gæsluvarðhald ákærða var enn framlengt á
grundvelli sama lagaákvæðis með úrskurði upp kveðnum 6. janúar sl. og var honum
gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 3. febrúar kl. 16:00. Úrskurðurinn
var staðfestur með dómi Hæstaréttar upp kveðnum 11. janúar sl. Enn var
gæsluvarðhald ákærða framlengt á sama grunni og fyrr með úrskurði upp kveðnum
4. febrúar s.l. og var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi til 2. mars sl..
Hæstiréttur staðfesti þennan úrskurð með dómi upp kveðnum 9. febrúar sl. Með úrskurði dómsins upp kveðnum 2. mars sl.
var gæsluvarðhald ákærða enn framlengt og var því markaður tími til 29. mars
sl. kl. 16:00. Úrskurðurinn var
staðfestur með dómi Hæstaréttar 7. mars sl. Þann 28. mars sl. var gæsluvarðhald
ákærða enn framlengt og var því markaður tími til 25. apríl nk. og staðfesti
Hæstiréttur þann úrskurð með dómi upp kveðnum 2. apríl sl. Þann 20. apríl sl.
var gæsluvarðhald ákærða enn framlengt og var því markaður tími til 15. júní
nk. og staðfesti Hæstiréttur þann úrskurð með dómi upp kveðnum 25. apríl sl.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur
fram að með ákæru útgefinni 5. janúar sl. hafi verið höfðað mál fyrir dóminum á
hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni, framin á tímabilinu maí
til júlí 2011 að [...]. Var ákærða gefið að sök að hafa ítrekað látið brotaþola
afklæðast, í fjögur aðgreind skipti látið hana sjúga á sér kynfærin uns hann
hafði sáðlát í munn hennar, í þrjú aðgreind skipti sleikt á henni kynfærin, í
eitt skipti reynt að hafa við hana endaþarmsmök og með því að hafa að minnsta
kosti í tvö aðgreind skipti þreifað með höndunum á berum brjóstum hennar og jafnframt
að hafa þá og í nokkur önnur skipti á sama ári spurt hana hvort brjóstin á
henni væru að stækka. Þessi háttsemi ákærða var talin varða við 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Málið hafi verið þingfest 17. janúar sl. og hafi aðalmeðferð farið fram
22. febrúar sl. Með dómi uppkveðnum 28. mars sl. hafi ákærði verið sakfelldur
og dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Hann hafi áfrýjað dóminum og málflutningur
hafi verið fyrirhugaður í gær en af því hafi ekki orðið. Hæstiréttur hafi í dag
kveðið upp dóm um formhlið málsins. Hér fyrir dómi hefur verið upplýst að
niðurstaða Hæstaréttar hafi orðið sú að hinn áfrýjaði dómur var ómerktur og
vísa bæri málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Ríkissaksóknari telur gæsluvarðhald vera nauðsynlegt áfram
vegna almannahagsmuna af sömu ástæðum og lagðar hafi verið til grundvallar í
fyrrgreindum Hæstaréttardómum. Um sé að ræða ætluð gróf og endurtekin
kynferðisbrot föður gegn dóttur.
Ríkissaksóknari telur að það særi réttarvitund almennings og valdi
almennri hneykslan í samfélaginu ef ákærði, sem liggi undir sterkum rökstuddum
grun um svo alvarleg kynferðisbrot gegn dóttur, gangi laus á meðan mál hans er
ólokið.
Eins og rakið hefur verið hér að
framan hefur ákærði setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga
nr. 88/2008. Í dómum Hæstaréttar sem gengið hafa um gæsluvarðhald ákærða hefur
verið fallist á með héraðsdómi að álykta megi af gögnum málsins að sterkur
grunur leiki á um að ákærði hafi framið afbrot, sem að lögum geti varðað 10 ára
fangelsi og að öðrum skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt.
Ákærði var með dómi Héraðsdóms Vesturlands sakfelldur fyrir þau brot sem honum
voru gefin að sök í ákæru og dæmdur í 4 ára fangelsi. Hann áfrýjaði dóminum til
Hæstaréttar sem með dómi upp kveðnum í dag ómerkti hinn áfrýjaða dóm og vísaði
málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar. Ríkissaksóknari krefst nú
framlengingar gæsluvarðhaldsins allt til föstudagsins 15. júní nk. kl. 16:00 á
grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði
mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.
Verjandi ákærða hefur á fyrri stigum
máls þessa afhent dóminum mynddisk þar sem fram kemur að dóttir ákærða lýsir
yfir sakleysi föður síns. Það athugast að sami mynddiskur var lagður fyrir
Hæstarétt er fjallað var um kröfu um gæsluvarðhald á hendur ákærða en
upplýsingar sem þar komu fram leiddu ekki til þess að meirihluti réttarins sæi
ástæðu til þess að hafna kröfu um framlengingu gæsluvarðhaldsins. Verjandi
ákærða hefur nú lagt fyrir dóminn álitsgerð A, sérfræðings í almennum
barnalækningum og sérfræðings í barna- og unglingageðlækningum, en hún er
dagsett 1. júní sl. Þar kemur fram að
sérfræðingurinn hafi rætt við dóttur ákærða og hafi hún sagt að hún hafi búið
til sögu um pabba sinn að gera eitthvað ljótt. Hafi það verið liður í leik þar
sem hún og vinkonur hennar mönuðu hvor aðra til einhverra athafna og hefði hún
átt að segja þeim frá því hvert væri mesta leyndarmál hennar. Hafi hún skýrt
frásögn sína með þeim hætti að hún hefði nýlega þar á undan átt í samskiptum á skype við 2 stelpur og væri það leyndarmálið. Hún hafi
tekið efni úr þeim samræðum og því sem þær hafi leitt til og gert að söguefni
en ekki þorað að segja frá því í smáatriðum vegna þess að hún væri hrædd um að
hún yrði sögð lesbía. Hún hafi því sett þessa skype
reynslu sína saman við það að hafa séð föður sinn a.m.k. einu sinni fyrir
framan tölvu að skoða klámefni þegar hún hafi komið heim úr skóla. Að mati sérfræðingsins er þessi
saga stúlkunnar trúverðug og þá gerir hann alvarlegar athugasemdir við
framkvæmd vitnaleiðslu fyrir dómi í Barnahúsi, en hann segir þó þá sögu um
margt trúverðuga.
Ákærði hefur eins og að framan er rakið
sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 3. mgr.
97. gr. sömu laga, en hann hefur í héraði verið sakfelldur og dæmdur í 4 ára
fangelsi fyrir framangreinda háttsemi. Hæstiréttur hefur ítrekað staðfest
úrskurði sem gengið hafa vegna kröfu um gæsluvarðhald á hendur ákærða, síðast
með dómi réttarins frá 25. apríl sl. Með dómi upp kveðnum í dag var málinu hins
vegar vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Í dóminum kemur fram að
verjanda ákærða hafi ekki verið gefið nægilegt ráðrúm til að búa sig undir
endurflutning málsins í héraði svo að gagni gæti komið og til sé ætlast. Þá
bendir rétturinn á að á mynddiski sem verjandi hafi óskað eftir að leggja fram
í þinghaldi 28. mars sl. hafi brotaþoli lýst því yfir að ákærði hafi ekki
framið þann verknað sem hún hafi borið á hann í skýrslu í Barnahúsi þann 30.
nóvember 2011. Hafi því verið tilefni til að brotaþoli yrði kvödd fyrir dóm til
frekari skýrslugjafar og dómurinn gæfi sakflytjendum eftir atvikum kost á að
afla matsgerðar dómkvadds manns um þroska og heilbrigðisástand brotaþolans áður
en dómur yrði felldur á málið.
Það er
skilyrði gæsluvarðhalds á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laganna að sterkur grunur
leiki á að sakborningur hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára
fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með
tilliti til almannahagsmuna. Með hliðsjón af framangreindri álitsgerð sérfræðingsins
A verður að telja að verulegur vafi leiki á því hvort frásögn dóttur ákærða í
Barnahúsi fái staðist og þá telur hann trúverðuga þá frásögn hennar að hún hafi
í svokölluðum mönunarleik með vinkonum sínum spunnið
upp sögu um föður sinn að gera eitthvað ljótt eins og hún komst að orði. Verður
því að fallast á með ákærða að ekki sé lengur fyrir hendi sterkur grunur um að
hann hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök og því eru ekki lengur
fyrir hendi skilyrði 2. mgr. 95. gr. laganna fyrir því að halda ákærða í
gæsluvarðhaldi. Verður kröfu ríkissaksóknara um framlengingu gæsluvarðhalds
ákærða þegar af þeirri ástæðu því hafnað.
Hjörtur O.
Aðalsteinsson dómstjóri kvað upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r
ð a r o r ð:
Kröfu
ríkissaksóknara um að ákærði, X, kt. [...], sæti
áfram gæsluvarðhaldi uns dómur gengur á ný í máli hans, er hafnað.