Print

Mál nr. 273/2002

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Tryggingarbréf

Mánudaginn 2

 

Mánudaginn 2. september 2002.

Nr. 273/2002.

Pétur Einarsson

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Sparisjóði Hafnarfjarðar

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Tryggingarbréf.

P gaf út tryggingarbréf, þar sem hann setti fasteignina F að veði til tryggingar hvers konar skuldum, sem hann stæði í við SH, að fjárhæð allt að 2.000.000 krónur. Þá gaf hann út tvö önnur tryggingarbréf til SH með veði í sömu fasteign og var hvort þeirra fyrir skuldum að fjárhæð allt að 2.500.000 krónur. P seldi fasteignina á árinu 2001 og tók kaupandinn að sér að standa SH skil á skuldum P að samanlagðri fjárhæð tryggingarbréfanna. SH höfðaði síðan mál á hendur P til greiðslu skuldar samkvæmt víxli að fjárhæð 4.000.000 krónur. Var stefnan árituð um aðfararhæfi kröfu SH, sem leitaði fjárnáms fyrir henni. Við gerðina benti P annars vegar á tryggingabréfin sem hann hafði gefið út til SH og hins vegar áðurnefnda fasteign, en hann taldi sig hafa heimild þinglýsts eiganda hennar fyrir ábendingunni. Hæstiréttur taldi sýslumann réttilega hafa lokið gerðinni án árangurs. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að við gerðina hafi ekki legið nægilega fyrir boð þinglýsts eiganda á fasteigninni til fjárnáms fyrir skuld P. SH hafi ekki leitað fjárnáms fyrir kröfu sinni hjá eiganda fasteignarinnar, svo sem SH hafi þó verið í lófa lagið með stoð í tryggingarbréfunum. Hafi því ekki komið til álita að gera fjárnám í fasteigninni eftir ábendingu P. Enn síður hafi getað komið til þess að fjárnám yrði gert í tryggingarbréfunum sem slíkum, enda hafi þau hvorki tilheyrt P né gætu þau talist hafa sjálfstætt fjárhagslegt gildi. Þá voru ákvæði 8. kafla laga nr. 90/1989 um aðför ekki talin standa í vegi fyrir því að árangurslaust fjárnám yrði gert hjá P þótt SH kynni vegna áðurgreindra veðréttinda að njóta tryggingar fyrir greiðslu þeirrar skuldar P, sem um ræddi í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júní 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að gerðar yrðu nánar tilgreindar breytingar á fjárnámi, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði hjá honum 24. janúar 2002 að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámsgerðinni verði breytt þannig að fjárnám sé gert í fasteigninni Fagrahvammi 16 í Hafnarfirði á grundvelli þriggja tryggingarbréfa, sem veiti varnaraðila 5., 6. og 7. veðrétt í henni. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins gaf sóknaraðili út 29. ágúst 1986 tryggingarbréf, þar sem hann setti fasteignina að Fagrahvammi 16 að veði til tryggingar hvers konar skuldum, sem hann stæði í við varnaraðila, að fjárhæð allt að 2.000.000 krónur. Þá gaf sóknaraðili út 7. nóvember 1990 tvö önnur tryggingarbréf til varnaraðila með veði í sömu fasteign og var hvort þeirra fyrir skuldum að fjárhæð allt að 2.500.000 krónur. Þessum tryggingarbréfum mun öllum hafa verið þinglýst og virðast þau nú hvíla sem áður segir á 5., 6. og 7. veðrétti í fasteigninni. Í málatilbúnaði sóknaraðila kemur fram að hann hafi á selt fasteignina á árinu 2001 og hafi kaupandinn tekið að sér að standa varnaraðila skil á skuldum sóknaraðila að samanlagðri fjárhæð þessara tryggingarbréfa.

Varnaraðili þingfesti fyrir Héraðsdómi Reykjaness 12. september 2001 mál á hendur sóknaraðila meðal annarra til greiðslu skuldar samkvæmt víxli að fjárhæð 4.000.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 19. ágúst sama árs og málskostnaði. Mun stefnan hafa verið árituð um aðfararhæfi kröfu varnaraðila, sem leitaði fjárnáms fyrir henni með beiðni 13. nóvember 2001. Sýslumaðurinn í Hafnarfirði tók beiðnina fyrir 11. desember sama árs, en samkomulag tókst með aðilunum um að fresta gerðinni. Henni var síðan fram haldið 23. janúar 2002. Lýsti sóknaraðili þá yfir að hann hefði ekkert við kröfu varnaraðila að athuga. Kvaðst hann vilja benda á til fjárnáms „tryggingarbréf á 5., 6. og 7. veðrétti í fasteigninni Fagrihvammur 16, Hafnarfirði“, svo sem segir í endurriti af gerðinni. Varnaraðili mótmælti þessari ábendingu og frestaði sýslumaður gerðinni til næsta dags til að taka afstöðu til hennar. Þegar gerðin var tekin fyrir á ný 24. sama mánaðar kvaðst sóknaraðili hafa heimild þinglýsts eiganda fasteignarinnar fyrir ábendingu sinni, en hann gæti þó ekki að svo stöddu framvísað skriflegri yfirlýsingu um það. Sýslumaður hafnaði ábendingu sóknaraðila og lauk gerðinni að kröfu varnaraðila án árangurs.

Sóknaraðili lagði 20. mars 2002 fyrir Héraðsdóm Reykjaness tilkynningu um að hann leitaði úrlausnar um ágreining við varnaraðila um hvort fjárnám mætti gera í samræmi við fyrrgreinda ábendingu hans og var mál þetta þingfest af því tilefni 27. sama mánaðar. Undir rekstri þess í héraði lagði sóknaraðili fram yfirlýsingu eiganda fasteignarinnar að Fagrahvammi 16 frá 19. mars 2002, þar sem staðfest var að sóknaraðila væri heimilt að benda á hana í skjóli áðurnefndra tryggingarbréfa til fjárnáms fyrir kröfum varnaraðila á hendur sér.

II.

Varnaraðili beindi sem áður segir kröfu sinni um fjárnám að sóknaraðila. Samkvæmt þeirri meginreglu, sem fram kemur í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1989, gat sýslumaður af þessum sökum ekki gert fjárnám í eignum annarra en sóknaraðila eða þess, sem byði sjálfur eign sína fram í því skyni. Óumdeilt er í málinu að fasteignin að Fagrahvammi 16 tilheyrði ekki sóknaraðila þegar fjárnám var gert 24. janúar 2002. Við framkvæmd gerðarinnar lá ekki nægilega fyrir af hendi þinglýsts eiganda boð á fasteigninni til fjárnáms fyrir skuld sóknaraðila og fær síðbúin yfirlýsing hans þess efnis, sem áður er getið, engu breytt við úrlausn málsins. Varnaraðili leitaði ekki fjárnáms fyrir kröfu sinni hjá eiganda fasteignarinnar, svo sem honum hefði þó verið í lófa lagið með stoð í tryggingarbréfunum frá 29. ágúst 1986 og 7. nóvember 1990. Að þessu öllu athuguðu gat ekki komið til álita að gera fjárnám í fasteigninni eftir ábendingu sóknaraðila, sem sýslumaður virti þannig réttilega að vettugi. Enn síður gat komið til þess að fjárnám yrði gert í tryggingarbréfunum sem slíkum, svo sem málatilbúnaður sóknaraðila virðist að einhverju marki hafa snúist um fyrir sýslumanni og dómi, enda hvorki tilheyra þau sóknaraðila né geta þau talist hafa sjálfstætt fjárhagslegt gildi.

Vegna áðurgreindra veðréttinda í fasteigninni að Fagrahvammi 16 kann varnaraðili að njóta tryggingar fyrir greiðslu þeirrar skuldar sóknaraðila, sem um ræðir í málinu. Þótt þetta geti girt fyrir að varnaraðili fái bú sóknaraðila tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., stóðu ákvæði 8. kafla laga nr. 90/1989 því ekki í vegi að árangurslaust fjárnám yrði gert hjá sóknaraðila án tillits til þessa. Verður því ekki fallist á varnir, sem sóknaraðili hefur fært fram í málinu á þessum grunni.

Samkvæmt framangreindu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest. Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Pétur Einarsson, greiði varnaraðila, Sparisjóði Hafnarfjarðar, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 5. júní 2002.

Mál þetta var þingfest 27. mars 2002 og tekið til úrskurðar 29. maí sl.  Sóknaraðili er Pétur Einarsson, kt. 220750-4269, Fagrahvammi 16, Hafnarfirði en varnaraðili er Sparisjóður Hafnarfjarðar, Strandgötu 8-10, Hafnarfirði.

 

Sóknaraðili gerir þá kröfu að fjárnám Sparisjóðs Hafnarfjarðar frá 24. janúar sl. verði fellt úr gildi og breytt þannig að fjárnám verði gert í réttindum samkvæmt þremur tryggingarbréfum í eigu Sparisjóðs Hafnarfjarðar, tryggðum með 5. 6. og 7. veðrétti í fasteigninni Fagrihvammur 16 í Hafnarfirði að höfuðstól 2.000.000, útgefið 29. ágúst 1986, 2.500.000 króna, útgefið 7. janúar 1990 og 2.500.000 krónur, útgefið 7. nóvember 1990.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði árangurslaust fjárnám sýslumannsins í Hafnarfirði sem gert var 24. janúar 2002 hjá sóknaraðila.  Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.

I.

Þann 24. janúar 2002 fór fram aðför hjá sýslumanninum í Hafnarfirði í aðfararmálinu Sparisjóður Hafnarfjarðar gegn Pétri Einarssyni.  Aðfararheimildin er árituð stefna í málinu Sparisjóður Hafnarfjarðar gegn Móteli ehf., Pétri Einarssyni og Hildi Jónsdóttur fyrir höfuðstól 4.000.000 króna auk dráttarvaxta frá 19. ágúst 2001 og málskostnaðar.  Málið var þingfest 12. september 2001 og stefna árituð 13. september 2001.  Dómkröfur voru gerðar aðfararhæfar ásamt málskostnaði.  Ekki er deilt um aðfarargrundvöll. 

Þegar aðfararbeiðnin var tekin fyrir hjá sýslumanni í Hafnarfirði þann 23. janúar 2002 gerði sóknaraðili kröfu um að fjárnám yrði gert í rétti varnaraðila samkvæmt þremur þinglýstum tryggingabréfum á 5., 6. og 7. veðrétti í fasteigninni Fagrihvammur 16, Hafnarfirði.  Bréf þessi eru að höfuðstól 2.000.000 krónur, útgefið 29. ágúst 1986, 2.500.000 krónur, útgefið 7. janúar 1990 og að fjárhæð 2.500.000 krónur, útgefið 7. nóvember 1990.  Þessi tryggingabréf eru öll fyrir skuldum sóknaraðila við varnaraðila.  Lögmaður varnaraðila mótmælti ábendingu sóknaraðila og gerði kröfu um að gerðinni yrði lokið án árangurs.  Sýslumaður hafnaði ábendingu gerðarþola með vísan til 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/1989, sbr. 1. mgr. 36. gr. sömu laga.  Var gerðinni því lokið án árangurs með vísan til 8. kafla laga nr. 90/1989.

II.

Sóknaraðili segir að hann hafa selt fasteignina Fagrahvamm 16 á síðasta ári til Jóns R. Steindórssonar. Samkvæmt kaupsamningi hafi kaupandi tekið að sér að greiða áhvílandi kvöð samkvæmt þremur tryggingabréfum til sóknaraðila.  Kaupandi fasteignarinnar hafi lýst því yfir og samþykkt að fjárnámskrafan verði tryggð með nefndum tryggingabréfum.

Sóknaraðili vísar til 37. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 máli sínu til stuðnings.  Ofangreind tryggingabréf uppfylli þau skilyrði að hafa fjárhagslegt gildi og sé því unnt að benda á þau til tryggingar.  Þá styður sóknaraðili kröfu sína einnig við 39. gr. aðfararlaga þar sem tryggingarrétturinn sé hans eign. 

Sóknaraðili heldur því fram að veðtrygging sé verðmæti fyrir varnaraðila og hann eigi ekki frjálst val um ráðstöfun hennar óháð vilja eða hagsmunum sóknaraðila.  Órökrétt sé að gera árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila og gera hann gjaldþrota á sama tíma og varnaraðili hafi veðtryggingu til að ganga að. 

Varnaraðili heldur því fram að 1. mgr. 36. aðfararlaga taki af öll tvímæli um að sóknaraðila sé ekki heimilt að benda á eign varnaraðila til fjárnáms.  Sóknaraðili geti ekki bent á þessa eign varnaraðila frekar en aðrar eignir varnaraðila.

Þá bendir varnaraðili einnig á að sóknaraðili sé í mikilli skuld við varnaraðila.  Tryggingabréfin fjögur sem varnaraðili eigi í Fagrahvammi 16 séu samtals að höfuðstól 7.700.000 krónur.  Uppreiknuð með ítrasta rétti veðhafa gætu þau staðið til tryggingar fjárhæð allt að 9.110.000 krónur.  Þrjú þessara bréfa standi eingöngu til tryggingar kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila en eitt þeirra, að fjárhæð 2.000.000 króna, standi einnig til tryggingar skuldum Mótels ehf., sem sé félag í eigu sóknaraðila. Heildarskuldir Mótels ehf. við varnaraðila nemi í dag 9.072.935 krónum.  Sóknaraðili beri persónulega ábyrgð á þessum skuldum með tveimur tryggingavíxlum, samtals að höfuðstól 6.900.000 krónur.  Í öðru lagi sé skuld samkvæmt víxli útgefnum 7. mars 2001 af sóknaraðila, samþykktur til greiðslu á Móteli ehf.  Heildarkrafan samkvæmt þessum víxli nemi 3.771.991 krónum.  Í þriðja lagi skuldi Mótel ehf. á tékkareikningi sínum nr. 1357, 30.334.725 krónur.  Í fjórða lagi skuldi G.P. verk ehf. varnaraðila samkvæmt veðskuldabréfi útgefnu 12. ágúst 1998 með veði í bifreiðinni PH-366.  Þetta veðskuldabréf sé með ábyrgð sóknaraðila.  Veðið hafi verið selt og nemi eftirstöðvar skuldabréfsins nú 5.731.057 krónum og séu í vanskilum.

Af þessu megi sjá að áhvílandi tryggingabréf á Fagrahvammi 16, Hafnarfirði í eigu varnaraðila nægi engan veginn sem trygging fyrir greiðslum skulda sóknaraðila við varnaraðila.  Það hafi því verið sjálfsagt og eðlilegt af hálfu varnaraðila að krefjast fjárnáms hjá sóknaraðila fyrir tryggingakröfum sínum sem ekki séu tryggðar með veði í fasteign hans. 

III.

Það er málsástæða af hálfu sóknaraðila að ótækt sé að kröfuhafi geti knúið fram árangurslaust fjárnám vegna skuldar og krafist gjaldþrots á sama tíma og hann eigi allsherjarveð fyrir skuldinni.  Kröfuhafa beri undir þessum kringumstæðum að leita fyrst fullnustu í veðinu.

Með framlagningu gagna eftir þingfestingu málsins þykir varnaraðili hafa sýnt nægilega fram á að skuldir sóknaraðila við varnaraðila eru langt umfram þá fjárhæð sem áhvílandi tryggingabréf tryggja.  Þá hefur varnaraðili ennfremur sýnt fram á að hann hefur hafið innheimtu þessara skulda. 

Deilt er um ábendingarrétt sóknaraðila, hvort hann geti bent á umrædd tryggingabréf til fjárnáms vegna skulda sóknaraðila við varnaraðila.

Veðréttindi eru takmörkuð eignaréttindi. Í þessum eignarétti felst fyrst og fremst réttur veðhafa til þess að leita fullnustu tiltekinnar peningagreiðslu af andvirði veðsins. Ekki er unnt að fallast á með sóknaraðila að hann geti við fjárnám bent á þessi eignaréttindi varnaraðila. Er það í andstöðu við 1. mgr. 36. gr. laga nr. 90/1989 sem segir að gera megi fjárnám í eignum sem tilheyra gerðarþola eða öðrum, sem sjálfur býður þær fram til fjárnáms.  Varnaraðili hefur ekki boðið fram til fjarnáms þessi réttindi sín áhvílandi að Fagrahvammi 16, Hafnarfirði. Verður því að hafna kröfu sóknaraðila.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðili dæmdur til þess að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega áveðinn 100.000 krónur og er þá meðtalinn virðisaukaskattur.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Péturs Einarssonar, um að fellt verði úr gildi fjárnám varnaraðila, Sparisjóðs Hafnarfjarðar, frá 24. janúar 2002, án árangurs hjá sóknaraðila.  Einnig er hafnað þeirri kröfu sóknaraðila að hann hafi heimild til þess að benda á tryggingabréf til fjárnáms, áhvílandi á 5., 6. og 7. veðrétti í fasteigninni Fagrihvammur 16, Hafnarfirði.

  Sóknaraðili greiði varnaraðila 100.000 krónur í málskostnað.