Print

Mál nr. 290/2001

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Kröfugerð
  • Miskabætur

Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. desember 2001.

Nr. 290/2001.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Kristni Óskarssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kynferðisbrot. Kröfugerð. Miskabætur.

K var sakfelldur í héraði fyrir nauðgun, en auk þess fyrir eignapjöll, húsbrot og gripdeild. Var málinu áfrýjað af hálfu ákæruvalds til endurskoðunar á ákvörðun refsingar til þyngingar en einnig til greiðslu þeirra miskabóta, sem krafist var í ákæru. Ákærði áfrýjaði ekki héraðsdómi fyrir sitt leyti og kom sýknukrafa hans því ekki til álita fyrir Hæstarétti. Þar sem ekki reyndi á ákvæði 2. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 snerist málið eingöngu um ákvörðun viðurlaga og skaðabóta. Ljóst þótti, að atlaga K að stúlkunni, sem var unnusta hans, hefði verið óvenju hrottafengin og ofbeldi hans og hótanir um frekari ófarnað hefðu staðið yfir á þriðju klukkustund. Þröngvaði K stúlkunni ítrekað til samræðis og annarra kynferðismaka, hrinti henni niður brattan stiga og veitti henni stórfellda líkamlega áverka. Af atlögunni hlaut stúlkan einnig andlegt áfall, sem hafði reynst henni erfitt viðfangs og þungbært. Jafnframt var talið, að henni hafi verið verulegur háski búinn á meðan á aðförinni stóð. Rúmri viku eftir atburðina hafði K sjö sinnum í alvarlegum hótunum við stúlkuna með SMS-skilaboðum um ofbeldi í garð hennar og nánustu ættingja hennar. K, sem átti sér engar málsbætur, átti að baki langan sakarferil. Refsing hans, sem tiltekin var samkvæmt 77. og 78. gr. sömu laga, þótti hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár og sex mánuði. Ákvörðun héraðsdóms um skyldu K til að greiða stúlkunni 1.000.000 krónur í miskabætur var staðfest um annað en vexti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. ágúst 2001 einvörðungu til endurskoðunar á ákvörðun refsingar til þyngingar en einnig til greiðslu þeirra miskabóta, sem krafist var í ákæru.

Af hálfu ákærða er í fyrsta lagi krafist sýknu af háttsemi, sem í ákæru 25. febrúar 2000 er talin varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992. Í öðru lagi er krafist sýknu af þeim sakargiftum í sömu ákæru að hafa valdið brotaþola áverkum við op legganga og á endaþarmi. Í þriðja lagi krefst ákærði sýknu af sakargiftum um húsbrot og eignaspjöll samkvæmt I. kafla ákæru frá 5. febrúar 2001. Að öðru leyti er þess krafist, að refsing verði milduð.

Ríkissaksóknari áfrýjaði málinu samkvæmt heimild í 148. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 8. gr. laga nr. 37/1994, þar sem hann taldi viðurlög í héraðsdómi að mun of væg, en ekki til endurskoðunar á sakarmati dómsins. Ákærði áfrýjaði ekki héraðsdómi fyrir sitt leyti, eins og honum var heimilt samkvæmt 1. mgr. 149. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 9. gr. laga nr. 37/1994. Kemur sýknukrafa hans ekki til álita fyrir Hæstarétti nema að því marki, sem efni kunna að vera til samkvæmt 2. mgr. 159. gr. laganna, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Þar sem ekki reynir á það ákvæði hér snýst málið einungis um ákvörðun viðurlaga og skaðabóta.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir verknaðarlýsingu beggja ákæruskjalanna og tildrögum mála auk læknisfræðilegra gagna. Það er ljóst, að atlaga ákærða að þáverandi unnustu sinni var óvenju hrottafengin og ofbeldi hans og hótanir um frekari ófarnað stóðu yfir á þriðju klukkustund. Hann þröngvaði henni ítrekað til samræðis og annarra kynferðismaka, hrinti henni niður brattan stiga og veitti henni stórfellda áverka, einkum í andliti og við op leganga og endaþarms. Í skýrslu sérfræðings í kvensjúkdómum og fæðingarhjálp á neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna nauðgunar, sem skráð var sama dag og umræddir atburðir gerðust, kemur meðal annars fram, að skoðun á stúlkunni komi heim og saman við þá lýsingu hennar, að ákærði hafi þvingað bollastandi úr tré upp í leggöng hennar. Þessa tækis er þó ekki getið í ákæru 25. febrúar 2000.

Brot ákærða 31. ágúst 1999 er réttilega heimfært til 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992. Það ákvæði tæmir hins vegar sök gagnvart 217. gr. laganna og verður henni ekki beitt samhliða við refsiákvörðun. Við mat á refsingu ákærða ber einkum að líta til 1., 2., 3., 5., 6. og 8. töluliða 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með langvinnri atlögu ákærða að stúlkunni, sem einungis var 17 ára gömul, var hún svipt kynfrelsi sínu á svívirðilegan hátt. Hún hlaut af henni stórfellda líkamlega áverka, eins og lýst hefur verið, og ekki síður andlegt áfall, sem hefur reynst henni erfitt viðfangs og þungbært. Jafnframt verður að telja, að stúlkunni hafi verið verulegur háski búinn, á meðan á aðförinni stóð. Rúmri viku eftir atburðina hafði ákærði sjö sinnum í alvarlegum hótunum við stúlkuna með SMS-skilaboðum um ofbeldi í garð hennar og nánustu ættingja hennar og hlaut fyrir lögregluáminningu 10. september 1999 samkvæmt 1. mgr. 232. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 16/1976.

Ákærði, sem á sér engar málsbætur, á að baki langan sakarferil, eins og lýst er í héraðsdómi. Hann hlaut reynslulausn 9. ágúst 1999 á 230 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar, sem var dæmd með í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 1999 vegna umferðarlagabrota ákærða 27. júní og 15. ágúst 1999. Var honum þá gert að sæta fangelsi í 15 mánuði og hófst afplánun þeirrar refsingar 24. apríl 2001. Þá hlaut ákærði fjögurra mánaða fangelsisrefsingu í Svíþjóð 20. febrúar 2001 fyrir rangan framburð, rangar sakargiftir og umferðarlagabrot og var látinn laus 19. apríl sama ár og framseldur til Íslands, en hann hafði áður sætt gæsluvarðhaldi í Svíþjóð frá 28. janúar 2001. Samkvæmt þessu og þar sem ákærða er nú gerð refsing fyrir húsbrot, eignaspjöll og gripdeild 25. og 26. september 1999 samkvæmt ákæru 5. febrúar 2001 auk nauðgunar samkvæmt fyrri ákærunni verður refsingin ákveðin með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt öllu framansögðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár og sex mánuði.

Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður ákvörðun hans um miskabætur staðfest um annað en vexti. Bótafjárhæðin skal bera 4,5% ársvexti samkvæmt 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 1. september 1999 til 15. desember sama ár, er mánuður var liðinn frá framsetningu kröfunnar, dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvörðun héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, eins og nánar greinir í dómsorði.     

Dómsorð:

Ákærði, Kristinn Óskarsson, sæti fangelsi í fjögur ár og sex mánuði.

Ákærði greiði Z 1.000.000 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 1. september 1999 til 15. desember sama ár, dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns Z, Daggar Pálsdóttur hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2001.

Málið er höfðað með ákæruskjali dagsettu 25. febrúar 2000 á hendur:

Kristni Óskarssyni

fyrir: “nauðgun og líkamsmeiðingar, með því að hafa, aðfaranótt þriðjudagsins 31. ágúst 1999, í sumarhúsi að K, slegið með krepptum hnefum í andlit og víðsvegar í líkama sambýliskonu sinnar, X, fæddrar árið 1982, sparkað í hana og tekið hálstaki, hrint henni niður stiga og í nokkur skipti þröngvað henni, með ofbeldi og hótunum um ofbeldi, til kynmaka og annarra kynferðismaka, bæði í leggöng og endaþarm.  Af langvarandi atlögum ákærða, bólgnaði og marðist hún mikið í andliti, hlaut glóðaraugu, særðist og marðist á hálsi, hlaut marbletti víðar um líkamann og verulega áverka við op legganga og endaþarms.

Telst þetta varða við 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40, 1992, og við 217. gr. sömu laga, sbr. 10. gr. laga nr. 20, 1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.

Af hálfu X, Reykjavík, er þess krafist að ákærði greiði henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 frá 1.9. 1999 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar auk virðisaukaskatts.”

Með ákæru útgefinni 5. febrúar 2001 er ákærða gefið að sök:

I.

“húsbrot og eignaspjöll, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 25. september 1999, brotið upp þvottahúsglugga í íbúðarhúsinu Hólabergi 60, Reykjavík, og valdið tjóni í eldhúsi hússins við tilraunir til að baka vöfflur.  Þar sviðnuðu eldavélarhellur, vöfflujárn eyðilagðist og skemmdir urðu af völdum reyks.

Telst þetta varða við 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

II.

Fyrir gripdeild, með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 26. september 1999, þegar ákærða hafði verið vísað úr leigubifreiðinni, tekið á brott með sér úr bifreiðinni GSM greiðsluposavél, að verðmæti kr. 130.000, eign leigubifreiðastjórans Reynis Más Guðmundssonar.

Telst þetta varða við 245. gr. almennra hengingarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Verjandi gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af háttsemi er talin er varða við 194. gr. almennra hegningarlaga. 

Þá er krafist sýknu af I. kafla ákæru frá 5. febrúar 2001.  Að öðru leyti er þess krafist að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og að refsing verði dæmd sem hegningarauki við dóm frá 1. október 1999.  Þess er krafist að skaðabótakröfu X verði vísað frá dómi en til vara að hún verði stórlega lækkuð.  Að lokum er þess krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, auk verjandaþóknunar vegna verjandastarfa fyrir útgáfu ákæru, verði felldur á ríkissjóð að öllu leyti eða að stærstum hluta.

Með fyrirkalli, útgefnu 2. mars 2000, var ákærða gert að mæta í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. s.m.  Ekki tókst birting fyrirkallsins né heldur fyrirkalls um mætingu 10. maí 2000 enda reyndist ákærði hafa farið af landi brott og fór huldu höfði um tíma.  Þann 30. maí 2000 var að beiðni ríkissaksóknara gefin út handtökuskipun á ákærða þar sem hann var talinn með óþekktan dvalarstað í Danmörku.  Í kjölfar þess var af hálfu ákæruvaldsins ítrekað reynt að hafa upp á ákærða.  Þann 24. apríl sl. var ákærði færður til landsins frá Svíþjóð.  Hann kom fyrir dóm vegna málsins þann 25. apríl sl. og var það þá þingfest.

Ákæruskjal dagsett 25. febrúar 2000.

Þriðjudaginn 31. ágúst 1999 kl. 5.26, barst boð frá neyðarlínu til lögreglunnar í U um að X hefði orðið fyrir líkamsárás við K.  Þegar lögreglumenn voru á móts við bæinn S um 6.00 mættu þeir kæranda, sem hafði komið fótgangandi frá K og var hún tekin upp í lögreglubifreiðina.  Bar hún sýnileg merki þess að hún hefði orðið fyrir líkamsárás, þar sem hún var mjög bólgin í andliti og með glóðaraugu.  Kvað hún sambýlismann sinn, ákærða í málinu, hafa barið sig og misþyrmt í einn til tvo klukkutíma.  Henni var ekið á heilsugæslustöðina í U til læknisrannsóknar. Kl. 10.20 var ákærði handtekinn í húsinu að K, en þar svaf hann í herbergi á neðri hæð hússins og var hann þá nakinn í rúminu með sæng yfir sér.  Ákærði hafði sýnilega farið í sturtu og var stórt handklæði blautt á gólfinu fyrir framan rúmið sem hann svaf í.  Var hann færður á lögreglustöðina í U.  Frekari rannsókn málsins fór fram í samvinnu við Ríkislögreglustjóra og tæknideild lögreglunnar í Reykjavík.

Sama dag fór fram vettvangsrannsókn að K auk þess sem teknar voru ljósmyndir af vettvangi.  Samkvæmt lögregluskýrslu var sýnilegt að átök höfðu átt sér stað í húsinu á báðum hæðum, þar sem blóð var á veggjum og rúmum og einnig voru kvennærföt á gólfi í stofunni rétt við rúmið, þar sem mestu átökin höfðu sýnilega átt sér stað. 

Brotaþoli var að ráði heilsugæslulæknis á U flutt samdægurs á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur þangað sem hún kom um kl. 10.  Í vottorði Arnbjörns H. Arnbjörnssonar læknis, dagsettu 4. maí 2001, kemur fram að brotaþoli hafi kvartað yfir eymslum í andliti, höfði, hálsi og í baki.  Við skoðun hafi hún verið verulega marin í andliti og með glóðaraugu báðumegin.  Hún hafi verið aum viðkomu víða á höfði og á líkama en röntgenmynd hafi ekki sýnt merki um beinbrot.  Hún hafi verið marin á höfði og á baki og tognun hafi verið á hnakka.  Fram kemur í skýrslunni að brotaþoli hafi sagt svo frá að sambýlismaður hennar hafi ráðist á hana um nóttina, lamið hana og nauðgað henni.  Um kl. 19.30 sama dag var kærandi flutt á neyðar-móttöku sama sjúkrahúss vegna frásagnar hennar um kynferðislegt ofbeldi þar sem Vildís Bergþórsdóttir hjúkrunarfræðingur gerði skýrslu um ástand hennar.  Þar kemur fram að brotaþoli sé með verki í öllum skrokknum og sé mjög marin og bólgin í andliti en skýr í frásögn.  Samkvæmt skýrslu neyðarmóttöku um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola, sem Ósk Ingvarsdóttir kvensjúkdómalæknir framkvæmdi við komu þangað, var hún illa útleikin, einkum í andliti og höfði og fann til mjög víða auk þess sem hún átti bágt með að tala.  Var brotaþoli í losti og nánast dofin við skoðun, sagði lítið að fyrra bragði, en gaf skýr svör.  Hún grét mikið og skalf og var vöðvaspennt.  Upplýsti hún að á meðan á þessu stóð hafi hún haldið að hún myndi ekki sleppa lifandi. 

Um aðra áverka segir í skýrslunni […]. Í niðurstöðu skýrslunnar segir: ,,Brotaþoli er 17 ára gömul og kemur frá Gæsludeild Borgarspítala, þar sem hún liggur eftir skoðun og meðferð vegna líkamsárásar.  Jafnframt kynferðislegt ofbeldi.  Er í losti og mikill dofi í viðbrögðum, fjarræn og hrædd.  Lýsir því að hún óttist um líf sitt og eina leiðin til að losna frá árásarmanni hafi verið sú að reyna að skera sig á púls.  Er með mikla líkamlega áverka og má varla nokkurs staðar koma við hana vegna eymsla.  Lýsir kynferðislegu ofbeldi með nauðgun, með grófu áhaldi úr tré og er að sjá […] og lítinn aðskotahlut í leggöngum, sem þarf nánari athugunar við, en gæti verið tréflís. […] Skoðun kemur þannig heim og saman við lýsingu bþ.  Sýni eru tekin til frekari rannsóknar síðar meðal annars DMA auk sýna m.t. til smitsjúkdóma og er niðurstöðu að vænta síðar. Fær neyðargetnaðarvörn.”

Samkvæmt vottorði Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði, dagsettu 7. janúar 2000, var niðurstaða rannsóknar á sýni, sem tekið var úr leggöngum brotaþola, sú að ekki væri um að ræða viðarflís heldur þunnt skæni með lítilsháttar áfastri ló.  Þetta væri framandefni í leggöngum en ekki yrði fullyrt hver uppruni þess væri né hvers vegna það var þangað komið.

Samkvæmt vettvangsrannsókn tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík sem gerð var, svo og vettvangsteikningum, er um að ræða tvílyft hús.  „Á efri hæð eru tvö herbergi, forstofa og gangur en á neðri hæð er eldhús og herbergi.  Í viðbyggingu, sem er á vesturgafli hússins, er salerni, sturtuklefi og þvottahús.  Aðalinngangur er á norðurhlið á efri hæð hússins og er gengið upp tröppur þar sem er stór trépallur.  Gengið er inn í forstofu en á hægri hönd er herbergi í vestur sem hugsanlega er notað sem stofa í bústaðnum.  Þarna inni voru tveir sófar (annar svefnsófi og rúm, borð var á milli sófanna og á því tvær áfengisflöskur (Kaptain Morgan), önnur tóm (lítersflaska) en hin með rétt rúmlega botnfylli, auk þess voru gosflöskur og öskubakki með sígarettustubbum.  Á rúmi, sem var við norðurvegginn í herberginu, var talsvert af blettum í dýnuáklæðinu (hugsanlega saur).  Tekið var sýni af áklæðinu og það sérmerkt.  Við suðurvegginn var sjónvarp og hljómflutningstæki á borði.  Á gólfinu við vesturvegginn við rúmið var ostaskeri sem var haldlagður til frekari rannsóknar, undir stól við innganginn á herberginu (stofunni) lágu nærbuxur (hvítar kvennærbuxur með mynstri).  Frá forstofu var gengið í suður inn í gang, þar var brotið barnarúm (rimlarúm).  Í norðausturhluta hússins, frá gangi, var herbergi sem í voru fjórar kojur, í þeim voru rúmföt og fatnaður (gallabuxur og peysa).  Á austurvegg efri hæðar við stigaopið var brúnleitt handafar sem sýni var tekið af.

Frá ganginum var gengið niður mjög brattan tréstiga.  Tréstiginn liggur niður í eldhús, þar mátti sjá óhreint leirtau í eldhúsvaski en þar ofaná var tréstandur (bollahengi) en búið var að taka festingu undan því.  Bollahengið var haldlagt til frekari rannsóknar.  Matarleifar voru á pönnu á eldavél.  Á gólfinu var koddi, sundurslitið kvenhálsmen og eyrnalokkar.  Nokkrir blettir voru á eldhúsgólfi og tekið var sýni af því.  Frá eldhúsi var gangur í vestur, þar inn af er svefnherbergi.  Tvö rúm voru í herberginu.  Á gólfinu var rakt baðhandklæði.  Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að ákærði hafi verið sofandi í umræddu herbergi og handklæðið á gólfinu.

Frá gangi er gengið inn í viðbyggingu en þar var þvottaaðstaða.  Klósett og vaskur eru í sérherbergi og þar við hliðina sturtuklefi.  Á hillunni þar var fatnaður (kvenbolur og brjósthaldari) og var það tekið til frekari rannsóknar.  Utan á handlauginni voru brúnir blettir og var sýni tekið af blettunum.  Á veggnum í sturtuklefanum var brúnn blettur sem sýni var tekið af.  Á gólfinu voru skartgripir og hárspenna sem tekið var til frekari rannsóknar. Augsjáanlegt var á vettvangi að átök hafi átt sér stað þarna en auk óreiðu á staðnum var talsvert um brúna bletti (líklega saurbletti).”

Föstudaginn 10. september 1999 var ákærða veitt lögregluáminning og þess krafist að hann léti þegar í stað af ónæði og hótunum, sem hann hafði haft í frammi við brotaþola, en fram kom í áminningunni að ákærði hefði hringt sex sinnum í talhólf brotaþola og verið með hótanir um að beita hana og fjölskyldu hennar ofbeldi. 

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna.

Ákærði gaf skýrslu 31. ágúst 1999 hjá lögreglunni í U og kvaðst umrætt kvöld hafa verið við drykkju ásamt brotaþola og manni að nafni Á. að K.  Hafi hann um kl. 2 verið búinn að drekka úr 1 líters flösku af Captain Morgan og að mestu einn.  Kvað ákærði að þau hefðu farið að rífast um tiltekið mál og ekki muna hvort hann hafi tekið í brotaþola, eða barið hana þá um nóttina, en kvaðst aldrei hafa ætlað sér að leggja hendur á hana til að meiða hana.  Aðspurður kvaðst hann ekki vita hvernig brotaþoli hefði fengið áverka þá, sem hún bar merki um, en mundi eftir að hún hefði legið á eldhúsgólfinu á bænum K skömmu eftir að Á. fór þaðan.  Hann hafi fylgt Á. út í bifreið og þá séð hvar brotaþoli lá í aftursæti bifreiðarinnar.  Hún hafi síðan farið úr bifreiðinni og með honum inn í húsið og eftir það hafi hann ekki munað neitt fyrr en hann sá brotaþola, þar sem hún lá á gólfinu.  Ákærði gaf aftur skýrslu hjá lögreglu og kvaðst telja að hann hafi ekki nauðgað brotaþola en lítið muna eftir atburðum næturinnar.

Ákærði kom fyrir dóm 25. apríl 2001 þar sem hann var inntur eftir afstöðu til sakarefnisins.  Ákærði var þá nýkominn til landsins og hafði óskað þess að honum yrði skipaður verjandi.  Þrátt fyrir að honum væri bent á að fá frest til að ráðfæra sig við skipaðan verjanda sinn, sem ekki var mættur vegna hins stutta fyrirvara sem málið hafði, óskaði hann að tjá sig og viðurkenndi brot sín afdráttarlaust.  Að ósk verjanda kom ákærði að nýju fyrir dóminn 16. maí sl. og neitaði nauðgun.  Hann kvaðst hins vegar ekki neita því að hafa orðið valdur að þeim líkamsmeiðingum sem honum eru gefnar að sök í ákærunni.

Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að hann hefði verið ofurölvi umrætt sinn og myndi ekki hvað gerst hafði.  Ítrekað aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir að hafa slegið brotaþola eða misþyrmt henni á annan hátt.  Hann taldi að hann hefði byrjað áfengisneyslu um kl. 23 um kvöldið og kvaðst muna að hafa verið að ræða við Á. við bíl hans þegar hann var að fara.  Það væri það síðasta sem hann myndi.  Ákærði kvað áfengisneyslu sína hafa verið óvenju slæma síðastliðna tvo mánuði fyrir þetta atvik.  Þá hafi hann iðulega drukkið þrjú kvöld í viku, en oftast bjór. Kvaðst hann hafa verið glaður og kátur undir áhrifum en frekar fljótur að reiðast.  Ákærði taldi sig ekki hafa verið við áfengisdrykkju daginn fyrir atvikið.  Ákærði kvaðst ekki muna eftir orðaskiptum eða átökum milli sín og brotaþola en þó muna eftir einhverju rifrildi.  Ítrekaði ákærði að hann væri ekki að þræta fyrir að þetta hefði gerst en hann myndi þetta einfaldlega ekki.  Þá mundi hann ekki eftir neinum kynferðislegum samskiptum þeirra.  Ákærði kvað ástarlíf hans og brotþola hafa verið kraftmikið en ekki hefði komið fyrir að ofbeldi væri beitt.  Ákærði viðurkenndi að hafa sent brotaþola hótanir á símboða hennar eftir atvikið og hlotið lögregluáminningu fyrir.

Þann 22. september 1999 var tekin vitnaskýrsla af brotaþola fyrir dómi skv. a-lið 1. mgr. 74. gr. a, laga nr. 19/1991, sbr. 23. gr. laga nr. 36/1999.  Þar kom fram að brotaþoli hefði kynnst ákærða næstum tveimur og hálfu ári fyrir atvikið og þau byrjað að búa saman upp úr því.  Hann hafi farið í fangelsi í 1 ár á þeim tíma er þau bjuggu saman og þau hætt sambúð í tvo mánuði eftir að hann kom þaðan.  Þau hafi hins vegar hafið sambúð aftur tveimur vikum áður en til atburðarins kom og viku áður hafi þau flutt til U.  Kvöldið, sem atvikið átti sér stað, hafi verið á staðnum strákur, Á., en hann hafi síðan farið.  Brotaþoli kvaðst hafa drukkið um tvö glös af áfengi en ákærði meira eða um lítersflösku af rommi frá kl. 22 til 24 um kvöldið.  Þau hafi farið að rífast, en brotaþoli mundi ekki hvert tilefnið hefði verið, en þegar líkamsárás ákærða byrjaði hefði hann vænt hana um framhjáhald.  Brotaþoli sagði að ákærði hefði byrjað að lemja hana um leið og Á. fór og hefðu barsmíðarnar staðið yfir til kl. um 5 um morguninn.  Hann hafi byrjað að lemja hana þegar þau voru stödd uppi á lofti og taldi hann að Á. hefði hringt einu sinni en ákærði sagt að allt væri í lagi, hann væri búinn að biðja hana fyrirgefningar.  Ákærði hafi lamið hana með hnefum og skóm auk þess að sparka í hana um allan líkamann.  Hann hafi klætt hana úr fötum og sagt við hana að ef hún reyndi að flýja þá myndi hann mölbrjóta á henni báðar lappirnar.  Mökin hafi staðið yfir um þrjá tíma og hafi ákærði nauðgað henni í eldhúsinu, svefnherberginu uppi og svefnherberginu niðri, bæði í endaþarminn og með venjulegum hætti.  Þá hafi ákærði troðið tréglasahaldara upp í leggöng hennar þar sem þau voru stödd í eldhúsinu.  Hún hafi reynt að mótmæla kynmökum, en ákærði lamið hana í hvert skipti sem hún reyndi að segja eitthvað og haldið henni fastri.  […].  Hann hafi hótað að fletta húðinni af henni með ostaskera, en hún mundi ekki hvort hann hefði notað ostaskerann á hana, samt hefði verið eitthvert far á hálsinum á henni.  Þá hafi hún síðan sagt að hún þyrfti að fara í sturtu […].  Ákærði hafi þá hent henni inn í brennandi heita sturtuna og barið hana á meðan. 

Brotaþoli kom að nýju fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og gaf frekari vitnaskýrslu.  Skýrði hún svo frá að húsráðandinn, Á., hefði komið með þeim að K og ákærði þá byrjað að drekka áfengi.  Hafi hann drukkið næstum eina lítersflösku af Kaptain Morgan rommi en hafi ekki verið mjög drukkinn.  Þau hafi síðan farið að rífast út af einhverju lítilfenglegu atriði en það hafi síðan leitt til þess að brotaþoli hafi farið út úr húsinu.  Úti hafi verið rigning og rok og þegar hún hafi verið orðin blaut hafi hún farið inn í bíl Á.s og lagst þar fyrir.  Þegar ákærði og Á. fundu hana síðan þar hafi hún farið aftur inn.  Á. hafi farið á bílnum en ákærði komið inn og verið alveg brjálaður.  Hafi hann byrjað á því að henda henni niður stiga af efri hæð og síðan barið hana.  Því næst hafi hann þvingað hana til kynferðismaka í nokkur skipti, a. m. k. tvisvar eða þrisvar.  Ákærði hafi aldrei fyrr beitt hana ofbeldi og kvaðst hún ekki geta gert sér grein fyrir því af hverju hann hagaði sér eins og hann gerði umrætt sinn en hann hafi verið mjög reiður þegar hann kom aftur inn í húsið.  Hafi svipur hans verið eins og það væri ekki allt í lagi með hann.  Ákærði hafi, þegar hann fór að hafa við hana kynmök, rifið hana úr einverjum fötum en hún hafi farið sjálf úr einhverju.  Hún hafi reynt að tala um fyrir honum en í hvert skipti sem hún hafi ætlað að segja eitthvað eða beðið hann um að hætta, þá hafi hann barið hana.  Þá hafi hann sagst myndu mölbrjóta á henni lappirnar ef hún reyndi að flýja frá honum.

Vitnið, Vildís Bergþórsdóttir, hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku, skýrði svo frá fyrir dóminum að brotaþoli hefði verið mjög illa útleikinn þegar hún kom á neyðarmóttökuna.  Ekki hafi verið unnt að taka utan um hana þar sem hún hafi fundið alls staðar til.  Andlitið hafi verið mjög bólgið og augun sokkin.  Áverkarnir hafi verið svo miklir að þetta hafi verið eitt það hrikalegasta tilvik sem hún hafi séð á neyðarmóttöku. Brotaþoli hafi legið á gæsludeildinni áður en hún kom á neyðarmóttöku um kvöldið og hafi verið talin ástæða til að hafa vörð yfir henni vegna ákærða. Þrátt fyrir ástand brotaþola hafi hún getað tjáð sig skilmerkilega og yfirvegað, en grátið inn á milli og skolfið.

Vitnið, Ragnheiður Indriðadóttir sálfræðingur, sem annaðist brotaþola eftir atvikið, skýrði svo frá fyrir dóminum að brotaþoli hefði komið til hennar í tvö viðtöl en andleg líðan hennar verið mjög slæm eftir atvikið.  Hún hafi átt í erfiðleikum með svefn auk þess að fá þrálátar og erfiðar martraðir.  Þá hafi hún verið mjög óörugg og átt erfitt með að fara út á meðal fólks.  Hún hafi dvalið í Kvennaathvarfinu á þessum tíma til að hlífa systkinum sínum við útliti sínum.  Þegar hún fór heim til sín hefði hún dvalið meira og minna innandyra í marga mánuði.  Brotaþoli þurfi augljóslega á frekari meðferð að halda en hún treysti sér ekki til þess og vilji helst gleyma, sem séu algeng viðbrögð fórnarlamba nauðgunar.  Það sé hins vegar líklegt að atvikið komi til með að valda varanlegu sári í sálarlífi hennar ef hún vinni ekki úr þessu.

Vitnið, Á., skýrði svo frá fyrir dóminum að hann hefði búið á K.  Hann hafi kynnst ákærða við vinnu í U og þeir orðið ágætir kunningjar.  Þegar ákærði og brotaþoli misstu íbúð sína þar hefði vitnið boðið þeim að gista að K.  Hann kvað það rétt, sem fram kæmi í lögregluskýrslu, að hann hafi hætt vinnu umrætt kvöld um kl. 23 og þá farið akandi ásamt ákærða og brotaþola að K.  Þá geti verið rétt að hann hafi farið aftur til U um kl. 3 en hann mundi ekki glögglega tímasetningar.  Þegar að K kom hefði ákærði fengið sér í glas og síðan drukkið hratt.  Ákærði og brotþoli hafi síðan farið að rífast og vitnið séð að hann tók í hár hennar en vitnið þá gengið í milli.  Vitnið kvaðst minnast þess að brotaþoli hefði verið mjög hrædd og síðan farið út úr húsinu.  Ákærði hafi leitað hennar um allt húsið og reynt að fá vitnið til að aka sér upp á þjóðveg, af því að hann hélt að brotaþoli hefði farið á puttanum.  Ákærði hafi síðan farið með vitninu út í bíl þegar vitnið var að fara og þá hafi komið í ljós að brotaþoli var þar í aftursætinu, greinilega mjög hrædd.  Ákærði hafi orðið reiður en brotaþoli farið inn í húsið.  Vitnið kvaðst hafa spurt ákærða hvort ekki væri nóg komið og hann fullyrt að þetta væri allt í lagi.  Þegar vitnið var komið í U kvaðst hann hafa hringt að K og hafi ákærði svarað í símann og verið að heyra mjög rólegur.  Hafi hann sagt að allt væri orðið gott hjá honum og brotaþola. Vitnið staðfesti framburð sinn úr lögregluskýrslu þess efnis að um kl 1.30 hefði ákærði verið orðinn mjög ölvaður og um svipað leyti hefðu hann og brotþoli farið að rífast og ákærði átt frumkvæðið að því.  Hafi ákærði orðið mjög æstur og reiður og skyndilega tekið í hár brotaþola og vitnið þá gengið á milli. 

Vitnið, Ósk Ingvarsdóttir kvensjúkdómalæknir, skýrði svo frá að henni væri það minnisstætt er hún skoðaði brotaþola umrætt sinn.  Brotaþoli hafi verið með fjöláverka, ekki eingöngu áverka eftir kynferðislegt ofbeldi, heldur einnig líkamlega áverka almennt og illa haldin af verkjum.  Hún hafi átt nokkuð erfitt með að tjá sig vegna bólguáverka í andliti og eins þar sem hún hafi verið í losti og dofin í tilfinningasvörun.  Aðspurð um áverka á kynfærum, með tilliti til eðlilegra kynmaka, kvað vitnið slíka áverka hugsanlega ef eitthvað hefði verið á milli sem ylli því að húðin rifnaði.  Slíkt orsaki hins vegar svo mikil óþægindi að ekki sé að sjá að slíkt gæti gerst við samfarir sem ættu sér stað með fúsum og frjálsum vilja konunnar.  Brotaþoli hafi verið óvenjulega aum neðarlega í leggöngum við leggangaop sem ætla mætti að hafi stafað af einhverjum þrýstingi.  Vitnið staðfesti að marblettir hafi verið nýlegir og áverkar ferskir.  Vitninu voru sýndar tvær ljósmyndir af kynfærum og endaþarmsopi brotaþola og kvað hún áverka þá sem lýst er í skýrslu og merkt er við á teikningu ekki koma vel fram á þeim.  Vitnið kvaðst telja útilokað að þessir áverkar hefðu myndast við eðlileg en hörð kynmök eingöngu.

Forsendur og niðurstaða.

Ákærði hefur játað að hafa valdið brotaþola líkamsmeiðingum með því að hafa, eins og í ákæru greinir, slegið hana með krepptum hnefum í andlit og víðsvegar í líkama, sparkað í hana og tekið hálstaki auk þess að hrinda henni niður stiga.  Afleiðingar þessa atferlis ákærða voru miklir líkamlegir áverkar brotaþola, svo sem fram kemur í ákæruskjali, og eru þeir í samræmi við læknisvottorð Arnbjörns H. Arnbjörnssonar læknis. 

Ákærði neitar að hafa þröngvað brotaþola til kynmaka og annarra kynferðismaka sem honum er gefið að sök í ákæru.  Ákærði hefur lítið tjáð sig um þann þátt málsins og ber við minnisleysi vegna ölvunar.  Þrætir hann ekki fyrir kynmök við brotaþola umrætt sinn en telur framburð hennar um það með hvaða hætti það gerðist ótrúlegan.  Engum vitnum er til að dreifa um þennan þátt málsins. 

Samkvæmt framburði brotaþola reiddist ákærði henni áður en vitnið, Á., yfirgaf húsið að K fyrir kl. 3 umrædda nótt.  Staðfesti vitnið þetta og bar að brotaþoli hefði farið út úr húsinu og komið sér fyrir í aftursæti bifreiðar hans eftir að ákærði hafði lagt á hana hendur.  Hafi hún greinilega verið mjög hrædd þegar ákærði fann hana þar.  Þótti vitninu ástæða til að hringja að K skömmu síðar til að huga að ástandinu, sem þá virtist vera í lagi, en vitninu heyrst ákærði vera orðinn rólegur. 

Brotaþoli hefur lýst því fyrir dómi hvernig líkamsárás ákærða byrjaði þegar eftir brottför Á.  Í kjölfar þess hafi ákærði klætt hana úr einhverjum fötum en sjálf hafi hún farið úr einhverju.  Ákærði hafi þá verið alveg brjálaður á að líta og hótað að brjóta á henni báða fætur, reyndi hún að flýja.  Hann hafi síðan misþyrmt henni kynferðislega lengi víðs vegar um húsið bæði með samförum í leggöng og endaþarm.  Hafi hann m.a. […] eins og rakið hefur verið hér að framan.  Hún hafi reynt að mótmæla framferði hans en ákærði hafi lamið hana í hvert skipti sem hún hafi reynt að segja eitthvað og hótað henni limlestingum.  Brotaþoli hefur upplýst að slíkt hafi ákærði aldrei gert áður.  Við læknisskoðun komu í ljós nýlegir áverkar neðarlega í leggöngum við leggangaop og við endaþarmsop.  Kvaðst vitnið, Ósk Ingvarsdóttir kvensjúkdómalæknir, telja útilokað að þeir áverkar hafi myndast við eðlileg en hörð kynmök.

Framburður brotaþola um þessi atriði hefur verið staðfastur og greinargóður. Að mati dómsins er ekkert það í framburði brotaþola sem veikir hann eða gerir hann ótrúverðugan heldur fær hann þvert á móti stoð í öðrum gögnum málsins, svo sem vettvangslýsingu, læknisvottorði og framburði Óskar Ingvarsdóttur læknis og Vildísar Bergþórsdóttur hjúkrunarfræðings.

Verjandi hefur haldið því fram að brotaþoli og ákærði hafi lifað miklu og hörðu kynlífi og kunni það að vera skýring á áverkum á kynfærum brotaþola.  Í þessu sambandi skal áréttað að brotaþoli bar öll merki alvarlegs líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis.  Að mati dómsins eru engin tengsl milli kynlífs, sem á sér stað með samþykki beggja, og þess atferlis ákærða sem brotaþoli hefur lýst hér fyrir dóminum.  Samkvæmt því hafnar dómurinn með öllu þessari varnarástæðu verjanda.  Með vísan til þess, sem hér að framan hefur verið rakið, ber að sakfella ákærða fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ákæruskjal dagsett 5. febrúar 2001.

Ákærði viðurkenndi fyrir dómi þann 16. maí sl. að hafa brotist inn í íbúðarhúsið að Hólabergi 60 og valdið þar tjóni svo sem greinir í ákærulið I samkvæmt ákærunni.  Hann kvaðst ekki draga í efa að afleiðingar þessa hafi verið þær, sem í ákæru greinir, en kveðst ekki vita „í hverju það tjón sé fólgið.”  Þá viðurkenndi hann brot sitt samkvæmt ákærulið II í sömu ákæru.

Sannað er með játningu ákærða, sem er í samræmi við önnur gögn málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali þessu.  Þykja brot hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Sakaferill.

Ákærði á að baki langan sakaferil en hann hefur frá árinu 1992 hlotið 20 refsidóma fyrir ýmis konar afbrot.  Um er að ræða fjölda umferðarlagabrota og nytjastuld þeim tengdum auk dóma fyrir rangar sakargiftir, líkamsárás og þjófnað.  Nemur óskilorðsbundin refsivist ákærða samkvæmt dómunum meira en 7 ára fangelsi.  Ákærði hlaut reynslulausn 9. ágúst sl. á 230 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar sem hann rauf.  Var hann dæmdur í október 1999 í 15 mánaða fangelsi þar sem reynslulausnin var dæmd með og afplánar ákærði nú þann dóm. 

Til refsiþyngingar ber að líta til þess að atlaga ákærða var mjög hrottafengin, stóð lengi yfir og taldi brotaþoli sig um tíma í lífshættu.  Að mati dómsins eru engin atriði fram komin sem virða beri ákærða til málsbóta.  Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár.

Steinunn Guðbjartsdóttir hdl. hefur lagt fram skaðabótakröfu fyrir hönd brotaþola að fjárhæð 2.000.000 króna, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. september 1999 til greiðsludags.  Þá er krafist kostnaðar vegna aðstoðar lögmanns auk virðisaukaskatts.  Þess er krafist að dráttarvextir leggist á höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 1. september 1999.  Bótakrafan er rökstudd með því að ljóst sé að brotaþoli hafi átt í verulegum andlegum erfiðleikum, bæði á meðan á háttsemi ákærða stóð og allt til þessa dags.  Hún hafi verið í meðferð hjá sálfræðingi og félagsráðgjafa og muni að öllum líkindum þurfa á sérfræðihjálp að halda næstu árin ef ekki alla ævi.  Hafi hún beðið miskatjón vegna verknaðarins sem ákærði beri bótaábyrgð á skv. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Með vísan til niðurstöðu málsins og atvika þess þykir brotaþoli X, eiga rétt á miskabótum samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga úr hendi ákærða.  Ljóst er að meingerð ákærða gegn X var mikil og hefur verið og kemur til með að vera henni þungbær.  Þykja hæfilegar miskabætur henni til handa vera 1.000.000 krónur og skal sú upphæð bera dráttarvexti frá 15. desember 1999 til greiðsludags, í samræmi við ákvæði III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur héraðsdómslögmanns, við rannsókn og dómsmeðferð málsins þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur.

Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talin þóknun við réttargæslu og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin samtals 200.000 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Sigríði Jósefsdóttur saksóknara.

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari sem dómsformaður og Helgi I. Jónsson og Kristjana Jónsdóttir héraðsdómarar sem meðdómendur kváðu upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Kristinn Óskarsson, sæti fangelsi í 3 ár.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin þóknun vegna réttargæslu og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinunnar Guðbjartsdóttur héraðsdómslögmanns, 150.000 krónur.

Ákærði greiði X 1.000.000 krónur í miskabætur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr 25/1987 frá 15. desember 1999 til greiðsludags.