Print

Mál nr. 632/2009

Lykilorð
  • Rangur framburður
  • Rangar sakargiftir

Fimmtudaginn 25. nóvember 2010.

Nr. 632/2009.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

Rangur framburður. Rangar sakargiftir.

X var ákærð fyrir rangar sakargiftir og rangan framburð með því að hafa með röngum framburði fyrir lögreglu og fyrir dómi leitast við að koma því til leiðar að fjórir menn A, B, C, D yrðu sakaðir um kynferðisbrot gegn henni, en X neitaði sök í málinu. Mennirnir neituðu allir að hafa átt kynferðismök við X gegn vilja hennar, en X bar því á hinn bóginn við að henni hafi verið þröngvað til kynferðismaka við mennina. X var 17 ára þegar umræddur atburður átti sér stað og mennirnir frá því að vera þremur til tíu árum eldri en hún. Hún hafði engin kynni haft af þeim áður og í málinu var upplýst að þeir hafi stundum verið fleiri en einn inni í herberginu á meðan hún hafði við þá kynmök. Mikið magn sterkra eiturlyfja mældist í blóði X skömmu eftir atburðinn, en styrkur amfetamíns í blóði hennar mældist langt yfir eitrunarmörkum. Talið var að atburðarás umrædda nótt benti eindregið til að skynjun X hafi verið orðin mjög brengluð vegna mikillar neyslu fíkniefna á skömmum tíma þegar kynmökin fóru fram. Jafnframt væru meiri líkur en minni á því að fíkniefnin væru komin frá mönnunum en ekki X sjálfri. Vitninu G hafi verið varnað inngöngu inn í herbergi þar sem kynmökin fóru fram og hafin væru yfir vafa  einhvers konar afskipti C af kynmökum annarra við ákærðu, að minnsta kosti með nærveru hans og dyravörslu. Aðstaða væri öll á þann veg að ókleift væri að útiloka að X hafi upplifað hana sem nauðung sem hún hafi mátt þola. Með vísan til þess og gegn eindreginni neitun X var ekki talin fram komin nægileg sönnun þess að hún hafi af ásetningi borið mennina röngum sökum eins og lýst væri  í ákæru. Var X því sýknuð.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. október 2009 af hálfu ákæruvaldsins. Hann krefst þess aðallega að ákærða verði sakfelld samkvæmt ákæru og henni dæmd refsing en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað aftur heim í hérað.

Ákærða krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, til vara að henni verði ekki gerð refsing, en að því frágengnu að hún verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa og refsingin bundin skilorði.

Með ákæru 13. júlí 2009 voru ákærðu gefnar að sök rangar sakargiftir og rangur framburður með því að hafa með rangri kæru og með röngum framburði fyrir lögreglu og fyrir dómi leitast við að koma því til leiðar að þeir A, fæddur [...], B, fæddur [...], C, fæddur [...] og D, fæddur [...], yrðu sakaðir um kynferðisbrot gegn henni, eins og nánar er lýst í ákæru.

I

Ákærða, sem var 17 ára er atvik málsins gerðust, hefur staðfastlega neitað sakargiftum. Málsatvikum er í meginatriðum lýst í héraðsdómi. Þar kemur meðal annars fram að ákærða og vinkona hennar G hittu þá B, C og D aðfaranótt 4. nóvember 2008 þar sem þeir voru í bifreið fyrir utan skemmtistað í [...] og fóru með þeim í [...] þar sem B og C höfðu dvalarstað, en húsráðandi þar var sá síðarnefndi. Ákærða og G kveðast hafa neytt nokkurra bjóra hvor, en mennirnir voru allsgáðir. Þær höfðu ekki áður haft kynni af þeim. Á hinn bóginn kannaðist G við A, sem síðar kom í [...], þar sem þau höfðu áður búið við sömu götu. Fram er komið að þeir notuðu ekki sín eigin nöfn í samskiptum við stúlkurnar, nema A. Þannig var B nefndur Ö, D Æ og C Þ.

Í hinum áfrýjaða dómi er lýst aðdraganda þess að ákærða kom sömu nótt á neyðarmóttöku, viðtali læknis við hana þar og gögnum sem þar var aflað. Við komu ákærðu þangað var tekið úr henni blóðsýni og þvagsýni. Samkvæmt matsgerð P, dósents við rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands mældist í blóði hennar 0.99 ‰ alkóhóls og 1.40 ‰ alkóhóls í þvagi auk 700 ng/ml af amfetamíni í blóði. P kom fyrir dóm og staðfesti matsgerð sína. Kom fram í framburði hans að áðurgreint magn amfetamíns í blóði sé langt yfir eitrunarmörkum, sem teljast vera 200 til 400 ng/ml. Væri því um mjög háan styrk amfetamíns að ræða, en rannsóknir sýndu að dómgreind væri farin að bila enda þótt amfetamín í blóði mældist undir 100 ng/ml. R sérfræðingur í lyflækningum kom einnig fyrir dóm og bar að miðað við þetta magn amfetamíns hafi ákærða verið mjög ,,vímuð“, en um væri að ræða tvöföld eða þreföld eitrunarmörk.

II

Ákærða hefur skýrt svo frá í skýrslum sínum hjá lögreglu 6. nóvember 2008 og fyrir dómi degi síðar svo og við aðalmeðferð málsins að þær G hafi setið að spjalli með þremur mannanna inni í stofu íbúðarinnar. Hundur C hafi farið að naga skóinn hennar og hún skammað hann, en C tekið því illa, rifið í hana, hrist og ýtt henni. Hún hafi orðið smeyk við C og í því hafi fjórði maðurinn, A, komið. Að nokkrum tíma liðnum hafi D beðið hana að koma með sér inn í herbergi að tala við sig og hún gert það og hallað hurðinni, en allt í einu hafi C komið inn og sagt henni að fara úr fötunum, en hún neitað því. Hafi D þá verið byrjaður að klæða sig úr. Lýsti hún því svo að hún hafi ekki þorað annað en að afklæðast þar sem hún hafi verið orðin hrædd við C. Hann hafi rifið í hár hennar og látið hana hafa munnmök við D og staðið yfir henni á meðan hún gerði það, en jafnframt hafi C sett fingurna inn í leggöng hennar. D hafi síðan haft við hana samræði. Hann hafi síðan farið út og hún ætlað að klæða sig, en C sagt að þetta væri ekki búið. Þá hafi A komið inn og hann hafi einnig klætt sig úr og C sagt henni að hafa munnmök við A, en hún neitað sem fyrr og það sama þá endurtekið sig, C rifið í hár hennar, haldið henni og látið hana hafa munnmök við A. Um leið hafi C stungið fingrum aftur í leggöng hennar og A síðan haft við hana samræði. Hún hafi hugsað með sér að hún yrði að gera þetta, því ef hún myndi neita eða rjúka út kynni þetta að verða miklu verra ,,af því að þessi Þ [C] hann var alveg snargeggjaður.“ Að þessu loknu hafi B komið inn og lagst upp í rúm til hennar, en í því hafi G opnað dyrnar en C sem þá hafi verið orðinn mjög reiður, rekið hana út og farið sjálfur út í smá stund en komið aftur. Stuttu seinna hafi þau B klætt sig í fötin. Hún kvaðst ekki minnast þess að eitthvað hafi gerst milli þeirra.

Ákærða sagði að C hafi gætt þess að G kæmist ekki inn í herbergið með því að halda við hurðarhúninn, en hún hafi sem fyrr segir einu sinni opnað dyrnar. Ákærða sagði aðspurð fyrir dómi 7. nóvember 2008 af hverju hún hafi verið hrædd við C að ,,eftir þetta með hundinn, hvernig hann brást við“ hafi hún ekki vitað hvernig hann myndi bregðast við ef hún neitaði og hugsað með sér að hún yrði að ,,klára þetta og þá kemst maður í burtu“.  Í sömu skýrslu lýsti ákærða því að C hafi gefið sér ,,spítt ... hann var alltaf með spítt þarna inni og bara jú fáðu þér meir, fáðu þér meir.“ Nánar spurð við þessa yfirheyrslu og við aðalmeðferð málsins um hvenær hann gaf henni fíkniefnið fyrst sagði hún að það hafi verið á meðan þau voru í herberginu, áður en kynmökin hófust með A. Hún hafi tekið efnið í báðar nasir. Kvaðst hún hafa neytt amfetamíns þrisvar til fjórum sinnum fyrir þetta atvik, en aldrei fyrr tekið svona mikið í einu. C hafi alltaf ,,skóflað“ efninu í sitt hvora nös hennar. Aðspurð hvort hann hafi þvingað hana til að taka efnið svaraði hún því neitandi, en í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins sagði hún ,, ... auðvitað saug ég þetta upp vegna þess að það var bara komið með þetta fyrir framan mig.“ Hún neitaði eindregið að hafa ,,strippað“ fyrir mennina, en kannaðist við að þegar þau voru að fara út hafi C ítrekað boðið henni peninga og hún tekið við 7.000 krónum. Hún gat ekki gefið aðra skýringu á því en að henni hafi liðið betur við að fá eitthvað fyrir það sem þeir hefðu gert henni.

Vinkona ákærðu, G, sem var með henni greint sinn, bar fyrir lögreglu að ákærða hafi farið með D inn í herbergi og þau svo komið fram, en C og D hafi einnig farið inn í herbergið aftur með ákærðu. Er framburður hennar óljós um það hvort ákærða hafi fyrst farið ein með D inn í herbergið. Seinna hafi A bæst við. G hafi alls ekki mátt koma inn, en þegar hún reyndi það hafi henni verið varnað þess og C tekið hana hálstaki og ýtt við henni. Er þetta í samræmi við upptöku úr síma A, þar sem hún segir ítrekað að C hafi tekið hana hálstaki. Í eitt skipti hafi henni tekist að opna dyrnar, eftir að hafa mistekist það í fyrstu, þar sem hurðarhúninum var haldið niðri. Þá hafi hún séð að B var í rúminu með ákærðu og C og A hafi einnig verið þarna. C hafi reiðst og henni verið sagt að ,,steinhalda kjafti“ og hann tekið hana hálstaki og ýtt við henni. Nokkru seinna hafi hann afsakað þessa framkomu. Ákærða hafi verið hrædd og sagt sér að bíða frammi. Framburður G fyrir dómi var í meginatriðum á sama veg. Hún tók þar fram að hún hafi ætlað að fara út að pissa, þar sem klósettið hafi verið bilað, en þá hafi einn mannanna sagt henni að skilja farsímann sinn eftir inni. C hefur staðfest að hann hafi ýtt við G.

Mennirnir fjórir voru yfirheyrðir hjá lögreglu 4. nóvember 2008 og fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Þeir neituðu allir að hafa haft kynmök við ákærðu gegn vilja hennar og báru í flestum atriðum á svipaðan veg um hverjir áttu kynmök við hana, að undanskildum B, sem í fyrstu kannaðist ekki við að nein kynmök hafi átt sér stað, en sá framburður breyttist síðar í sömu skýrslu. Hann kom hins vegar ekki fyrir dóm og verður framburður hans því ekki lagður til grundvallar í málinu. Þá kannaðist D ekki við að aðrir en hann hafi haft mök við ákærðu, en hafnaði því ekki aðspurður að rödd hans kæmi fram á mynd- og hljóðupptöku sem tekin var á síma hans meðan A hafði mök við ákærðu, eins og nánar er vikið að í héraðsdómi. A og D könnuðust báðir við að hafa haft kynmök við ákærðu, en að það hafi verið með hennar vilja. C neitaði hins vegar að hafa haft nokkur samskipti af kynferðislegum toga við ákærðu. Báru þeir allir að kynmökin hafi verið að frumkvæði hennar. D sagði ákærðu hafa beðið sig að fara með sér inn í herbergi og hún haft frumkvæði að mökunum og þau lokað hurðinni á meðan. Hann minntist ekki á að hann hafi séð hana ,,strippa“. A skýrði svo frá að þegar hann kom á staðinn hafi B og stúlkurnar verið þar, en C og D borið síðar að garði. Er það í samræmi við framburð annarra vitna, sem öll bera að þeir tveir hafi farið skamma stund til að sækja hund þess fyrrnefnda. A bar að eftir að hann kom hafi þau fjögur setið að spjalli í stofunni og D farið inn í herbergi ásamt ákærðu. Síðan hafi D farið út og þau tvö ,,verið eftir“ og haft kynmök. Vinkona ákærðu hafi þá bankað og ákærða sagt henni að fara. Eftir kynmökin við ákærðu hafi hann farið inn í stofu og B þá farið inn til ákærðu, en vinkona hennar opnað og séð þau og ,,verður eitthvað ósátt“. Þá hafi hann tekið upp á farsíma sinn samtalið við vinkonu ákærðu sem rakið er í héraðsdómi. Það hafi hann gert þar sem hann hafi fengið ,,einhverja leiðinda tilfinningu“. Skýrði hann þetta svo í lögregluskýrslu að ,,þessi æsingur í vinkonunni“ hafi gert hann ,,smá smeykan um að nákvæmlega eitthvað svona rugl mundi gerast“ og honum fundist hann geta ,,tryggt“ sig. Ákærða hafi rekið vinkonu sína í burtu og sú síðarnefnda farið að rífast við C. Í skýrslu sinni fyrir lögreglu lýsti A því á hinn bóginn að aðdragandi þess að hann hafði við hana kynmök hafi verið sá að ákærða hafi ,,strippað“ fyrir hann og D inni í herberginu. C hafi greitt henni 7.000 krónur fyrir, sem A hafi síðan endurgreitt honum. C skýrði svo frá við rannsókn málsins að eftir að þau komu heim til hans hafi ákærða farið með D inn í herbergi. Hann hafi kíkt þar inn og séð þau D hafa kynmök. Eftir það hafi þeir tveir farið að sækja hund C. Þegar þeir komu til baka hafi A verið kominn á staðinn og D ætlað að ,,taka annan snúning á stelpunni“ og farið inn í herbergi til ákærðu. D hafi beðið A að tala við sig og þá hafi ákærða endilega viljað ,,fá einhverja fleiri inn í þetta“. A hafi þá farið inn í herbergið í smá stund. Kvaðst C hafa séð ákærðu hafa munnmök við A þar sem hann hafi kíkt inn um opnar dyrnar. Að loknum munnmökunum við A hafi hún viljað meira. Þau A hafi þá átt samfarir. Hún hafi beðið sig að vera með en hann neitað því og hún orðið ,,alveg brjáluð“ og viljað meira. Aðspurður síðar í skýrslunni hvort hann hafi tekið einhvern þátt í þessu svaraði hann því neitandi, en nánar spurður sagðist hann hafa tekið upp örstutt hljóð- og myndskeið á farsíma sinn inni í herberginu á meðan ákærða hafði munnmök við B. Þegar hann var inntur eftir því hvort hann hafi einnig verið inni í herberginu á meðan ákærða og A voru þar að athafna sig svaraði hann því játandi og gaf þá skýringu á því að hann hafi verið þarna inni þar sem ákærða hafi ætlað að ,,strippa“ fyrir þá. Hún hafi verið ,,útúrflippuð“. Fyrir dómi neitaði hann því fyrst að hafa farið inn í herbergið, en sagði svo ,,ég fór þarna samt aðeins ... og ég labbaði framhjá“ og síðar að hann hafi tekið eina mynd af þessu þar sem honum hafi fundist þetta vera ,,svolítið grunsamlegt hvernig hún var að haga sér“. Hann hafi haft það á tilfinningunni að það yrði ,,eitthvað vesen“ og það myndi ekki koma honum á óvart að ,,við yrðum allt í einu bara kærðir fyrir eitthvað bull hérna í kvöld“.

III

Í frumskýrslu lögreglu er frásögn ákærðu um atvik skráð eins og nánar er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Þar er meðal annars sagt að haft sé eftir henni að hún hafi klætt sig eftir kynmökin við D, en ekki fundið brjóstahaldarann og farið fram þar sem aðrir voru. Eftir það hafi hún verið þvinguð til kynmaka við A og síðan hafi B ,,komið og hún verið þvinguð til að hafa munnmök við hann en hann hafi einnig sett getnaðarlim sinn að einhverju leyti inn í leggöng hennar.“ Ákærða kvaðst hins vegar í skýrslu sinni fyrir dómi 7. nóvember 2008 hvorki minnast þess að hafa farið út úr herberginu á meðan hún var þvinguð til kynmakanna við D og A né að B hafi haft við hana kynmök. Nánar spurð sagði hún að fyrst hafi hún farið inn í herbergi, en C hafi svo ekki viljað vera þar og þau því farið fram og í annað herbergi þar sem kynmökin hafi átt sér stað. Í skýrslu sinni fyrir dómi bar hún að C hafi allan tímann verið inni í herberginu. Af framburði vitna virðist mega ráða að þegar hún kom út úr herberginu með D hafi hún ekki borið þess merki að hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Þegar ofangreint misræmi í skýrslum ákærðu og vitna var borið undir ákærðu við aðalmeðferð málsins bar hún við minnisleysi um þessi atvik. Framburður sá sem skráður er í frumskýrslu og fullyrt er af ákæruvaldinu að eftir henni sé hafður er ekki undirritaður af ákærðu og hefur ekki þýðingu við mat á því hvort framburður hennar hafi verið reikull.

Ákærða hefur á hinn bóginn ekki verið stöðug í framburði sínum um fíkniefnaneyslu sína þessa nótt. Hún minntist ekki á að henni hafi verið gefin fíkniefni í herberginu, hvorki er hún var innt eftir því hjá neyðarmóttöku né í skýrslu sinni hjá lögreglu 6. nóvember 2008, en þar sagðist hún ekki hafi verið ölvuð, en hafi verið ,,búin með svona fjóra, fimm bjóra.“ Hún skýrði sem fyrr segir fyrst frá fíkniefnaneyslunni fyrir dómi daginn eftir en einnig við aðalmeðferð málsins. Hún gaf þá skýringu á breyttum framburði um þetta að hún hafi ekki viljað að móðir hennar kæmist að því að hún hefði áður verið búin að ,,prófa“ fíkniefni. Vitnið G sagði fyrir dómi að hún kannaðist ekki við að ákærða hafi neytt fíkniefna áður en hún fór inn í herbergið, hún hafi verið ,,eiginlega út úr heiminum“ og ,,allt öðruvísi“ en þegar þær komu og í bifreiðinni á leið heim var ,,eiginlega ekkert hægt að ræða við hana“. D kvaðst fyrir dómi hafa séð ákærðu neyta fíkniefna í bifreiðinni á leið frá skemmtistaðnum og einnig í íbúðinni. Spurður hvaðan fíkniefnin komu sagði hann að ákærða hafi verið með þau. Ekkert hinna vitnanna kannast við að ákærða hafi haft fíkniefni undir höndum um nóttina. Um ástand ákærðu sagði D í yfirheyrslu hjá lögreglu að hún hafi orðið mjög rugluð eftir að hún hafði kynmök við hann. Fyrir dómi sagði hann að hún hafi verið ,,snarrugluð“ í íbúðinni ,,örugglega af því að hún var á eiturlyfjum eða eitthvað.“ C bar sem fyrr segir í lögregluskýrslu að ákærða hafi verið ,,útúrflippuð“ þegar hún var í herberginu og ætlað að ,,strippa“ fyrir þá. Hún hafi orðið ,,bara geðveik“ þegar þeir ætluðu að aka henni heim á undan vinkonu hennar. Hún hafi verið ,,alveg brjáluð“ þegar hann vildi ekki hafa við hana kynmök eftir að hún hafði mök við A. Hann sagði fyrir dómi að ákærða hafi verið drukkin er þeir hittu hana við skemmtistaðinn og þegar þeir D komu til baka eftir að hafa sótt hundinn hafi hún verið ,,bara stjórnlaus“. Fyrir dómi sagði C að ákærða hafi að minnsta kosti verið ,,full“. Í framburði A hjá lögreglu og fyrir dómi kom fram hún hafi talað mikið og sagði hann það vera eitt einkenni áhrifa neyslu amfetamíns eða kókaíns. Hann hitti mjög oft fólk undir slíkum áhrifum og kæmi það honum því ekki á óvart að ákærða hefði verið undir áhrifum annars hvors þessara eiturlyfja.

IV

Eins og að framan greinir hefur framburður ákærðu verið á reiki um fíkniefnaneyslu sína og hefur hún um tiltekin atriði borið fyrir sig við minnisleysi. Þennan framburð hennar verður að skoða í því ljósi að mjög mikið magn sterkra eiturlyfja mældist í blóði hennar skömmu eftir þá atburði, sem hér er fjallað um. Frásögn hennar fyrir dómi um að hún hafi ekki neytt fíkniefnanna fyrr en eftir að hún kom inn í herbergið, þar sem kynmökin áttu sér stað, fær samrýmst framburði G. Þá hefur enginn mannanna borið að hún hafi neytt fíkniefna í þeirra augsýn áður en hún kom í herbergið nema D. Bendir framburður G, A, C og D um ástand hennar til þess að hún hafi neytt efnanna eftir að hún kom inn í herbergið, og er það einnig í samræmi við frásögn ákærðu í skýrslum hennar fyrir dómi að skömmu síðar hafi minni hennar farið að bresta. Að þessu virtu verður að meta ummæli hennar sem fram koma á hljóðupptökum þeim sem lýst er í héraðsdómi, en tekið er undir með dóminum að ekki sé í ljós leitt annað en að þær hafi verið gerðar eftir að mennirnir höfðu kynmök við ákærðu.

Í málinu liggur fyrir að B, C og D óku ákærðu og G heim á leið eftir dvöl þeirra í íbúðinni. Fyrst var ekið að heimili G í [...] og bað hún ákærðu þar ítrekað að koma með sér heim þar sem henni leist ekki á að skilja hana eftir með mönnunum. Ákærða neitaði því hins vegar. Báru mennirnir að hún hafi fyrst sagt að hún ætti heima í [...], en er þangað kom hafi hún sagst búa í [...]hverfinu og nefnt ýmsar götur í því sambandi. Þeim hafi leiðst þófið og hún ekki viljað fara út úr bílnum. Hún hafi tryllst og ekki viljað segja þeim hvert þeir ættu að aka henni. Þeir hafi því skipað henni að fara út úr bílnum við verslunarmiðstöð við [...], en þaðan hringdi ákærða í lögreglu, sem stöðvaði för þeirra örskömmu síðar á [...] við [...] þar sem hún handtók mennina. Ákæruvaldið hefur lagt áherslu á að sú háttsemi ákærðu að fara ekki út úr bifreiðinni með vinkonu sinni þegar henni gafst færi á bendi eindregið til þess að framburður hennar um að hún hafi verið neydd til kynmakanna sé rangur. Ákærða var ekki spurð um þetta í skýrslu sinni fyrir lögreglu 6. nóvember, en í skýrslu fyrir dómi daginn eftir gaf hún þá skýringu að hún myndi lítið eftir þessu, en sagði síðan: ,,Ég vildi bara að hún kæmist úr bílnum, bara að það myndi ekki neitt ske fyrir hana“. Þá sagði hún spurð um það hvers vegna hún hafi viljað fara í [...], en ekki láta aka sér heim að hún vildi ekki að þeir vissu hvar hún ætti heima.

Ákærða hefur frá upphafi staðfastlega haldið því fram að hún hafi ekki sjálfviljug gengið til kynmakanna heldur hafi hún verið neydd til þeirra og ekki þorað annað en að láta að vilja mannanna. Þennan framburð hennar hefur héraðsdómur metið trúverðugan. Hafa ber í huga að ákærða var 17 ára, D þremur árum eldri og aðrir mannanna átta til tíu árum eldri en hún. Hún hafði engin kynni haft af þeim áður. Af því sem rakið hefur verið er ljóst að mennirnir voru stundum fleiri en einn inni í herberginu á meðan hún hafði við þá kynmök. Einn þeirra, C, sem ákærða hefur staðfastlega sagt að hafi meira og minna stjórnað henni og verið inni í herberginu, hefur slegið úr og í um hvort hann hafi verið viðstaddur kynmökin, en fram er komið að hann tók af henni myndskeið á meðan hún hafði mök við einn þeirra. Kveðst hann hafa gert það til að sýna fram á að þau hafi verið að vilja ákærðu, en ekki verður ráðið af myndskeiðinu hvort svo hafi verið. Mönnunum ber ekki saman um hvenær hún hafi ætlað að ,,strippa“ fyrir þá og fengið fyrir það greitt og framburður þeirra er einnig innbyrðis á reiki um þetta atriði. Að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að ákærða hljóti að hafa neytt fíkniefnanna á meðan hún var inni í herberginu með mönnunum, eins og hún hefur haldið fram, en af framburði þeirra og G er sýnt að ástand ákærðu var orðið mjög slæmt eftir kynmök hennar við A. Að því gættu og þess að ekkert vitnanna nema D hafa kannast við að hafa séð ákærðu neyta fíkniefna áður en hún fór inn í herbergið er framburður hennar um að miklu magni af amfetamíni hafi verið haldið að henni í herberginu ekki ósennilegur. Skömmu eftir að ákærða fór úr íbúðinni mældist mjög mikið magn amfetamíns í blóði hennar og verður ráðið af matsgerð P og framburði hans fyrir dómi að vegna áhrifa þess hafi dómgreind hennar verið mjög skert, þótt ekki verði með vissu fullyrt hvenær nákvæmlega svo hafi orðið. Lýsing mannanna og G á ástandi hennar um nóttina, eins og nánar var rakið hér að framan, ber með sér að ákærða hafi verið undir miklum vímuefnaáhrifum þegar hún viðhafði þau ummæli sem þeir A og C tóku upp á farsíma og ber að virða þau í því ljósi svo og þá háttsemi hennar að taka við peningum frá einum þeirra eftir kynmökin við A. Það sama á við um það hátterni hennar að yfirgefa ekki bifreið mannanna á meðan færi gafst.

Atburðarás sú, sem að framan er rakin, bendir eindregið til að skynjun ákærðu hafi verið orðin mjög brengluð vegna mikillar neyslu fíkniefna á skömmum tíma þegar kynmökin fóru fram. Jafnframt eru meiri líkur en minni á því að fíkniefnin séu komin frá mönnunum en ekki ákærðu sjálfri. Fram er komið að C hafi beitt G ofbeldi og liggur ekki annað fyrir en að ákærða hafi orðið vitni að því. G var varnað inngöngu og hafin eru yfir vafa einhvers konar afskipti C af kynmökum annarra við ákærðu, að minnsta kosti með nærveru sinni og dyravörslu. Þessi aðstaða er öll á þann veg að ókleift er að útiloka að ákærða hafi upplifað hana sem nauðung sem hún hafi mátt þola. Þegar allt framangreint er virt telst ekki, gegn eindreginni neitun ákærðu, fram komin nægileg sönnun þess að hún hafi af ásetningi borið mennina röngum sökum eins og nánar er lýst í ákæru. Verður héraðsdómur því staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærðu, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins, samtals 589.081 króna, greiðist úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærðu, X, samtals 502.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. október 2009.

Málið er höfðað samkvæmt ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 13. júlí sl., á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir rangar sakargiftir og rangan framburð, með því að hafa með rangri kæru og með röngum framburði fyrir lögreglu á höfuðborgarsvæðinu þann 4. og 6. nóvember 2008, þann 1. desember sama ár og þann 5. mars 2009 og með röngum framburði fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þann 7. nóvember 2008, leitast við að koma því til leiðar að A, kennitala [...], B, kennitala [...], C, kennitala [...] og D, kennitala [...], yrðu sakaðir um kynferðisbrot gegn ákærðu. Ákærða lýsti því ranglega fyrir lögreglu aðfaranótt 4. nóvember 2008 að þeir hefðu nauðgað henni í húsi ofan við [...] í Reykjavík. Ítrekaði hún framburð sinn í framangreindum skýrslutökum en kvaðst telja að B hafi ekki haft við hana kynmök. Með þessu kom ákærða því til leiðar að B, C og Þ voru handteknir aðfaranótt 4. nóvember og A síðar sama dag og fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem þeir voru hafðir í haldi fram eftir degi og yfirheyrðir um sakarefnið auk þess sem þeir gengust undir líkamsrannsókn og voru síðan úrskurðaðir í gæsluvarðhald sem þeir þurftu að sæta til 6. nóvember.

Telst háttsemi ákærðu varða við 142. gr. og 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu A er krafist skaðabóta að fjárhæð 1.192.975 krónur með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 4. nóvember 2008 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 5. apríl 2009.

Af hálfu D er krafist skaðabóta að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta frá því að hið bótaskylda atvik átti sér stað í samræmi við II. kafla laga nr. 38/2001, en III. kafla sömu laga frá því að mánuður var liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar. Þá er krafist skaðabóta vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfu að fjárhæð 138.195 krónur. Er gerður áskilnaður um hækkun málskostnaðarkröfu komi til aðalmeðferðar.

Af hálfu C er krafist miskabóta að fjárhæð 300.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. nóvember 2008 þar til mánuður er liðinn frá því ákærðu var kynnt bótakrafan, en dráttarvaxta samkvæmt III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. laganna. Þá er krafist skaðabóta vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfu samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.

 Af hálfu ákærðu er aðallega krafist sýknu, til vara að ákærðu verði ekki gerð sérstök refsing, en til þrautavara að ákærðu verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að refsing verði alfarið bundin skilorði. Þá er þess krafist að bótakröfum verði vísað frá dómi, til vara að sýknað verði af bótakröfum, en til þrautavara að þær verði lækkaðar verulega. Loks er þess krafist að allur sakarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, verði felldur á ríkissjóð.

Málsatvik

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá aðfaranótt þriðjudagsins 4. nóvember 2008 barst lögreglu tilkynning kl. 3:37 um að ákærðu í máli þessu hefði verið nauðgað. Hefði henni verið „hent út úr“ bifreiðinni [...] á bifreiðastæði við verslanamiðstöð við [...] í Reykjavík en gerendur, sem væru þrír talsins, væru í bifreiðinni á leið brott úr [...]hverfinu. Örskömmu síðar var bifreiðin stöðvuð á [...] og reyndist ökumaður vera C, en með honum í bifreiðinni voru B og Þ. Voru mennirnir handteknir og færðir á lögreglustöð. Fóru lögreglumenn að [...] og hittu ákærðu sem þar stóð á bifreiðastæðinu. Var hún mjög ölvuð að sjá. Hún var ekki grátandi, en í nokkru uppnámi, talaði viðstöðulaust og fór úr einu í annað. Var erfitt að fá framburð hennar, en hún sagði fjóra menn hafa nauðgað sér í húsi sem væri í hverfinu ofan við [...]. Var ákærða flutt á Neyðarmóttöku Landspítala-háskólasjúkrahúss til aðhlynningar. Er þangað kom ræddu lögreglumennirnir E og F við ákærðu. Sagðist ákærða hafa verið að skemmta sér á bar í [...] um kvöldið, ásamt G vinkonu sinni. Hefðu þær hitt þrjá menn, þá Þ, Æ og Ö, en hún hefði aðeins kannast við Ö. Hefði Þ boðið þeim heim til sín og þær farið með þeim í bifreið. Eftir að þær hefðu verið í um hálftíma í samkvæminu heima hjá Þ hefði Æ beðið hana að koma með sér inn í herbergi, sem hún hefði gert. Hann hefði síðan byrjað að afklæðast og verið orðinn nakinn. Allt í einu hefði Þ einnig verið kominn inn í herbergið. Hann hefði þvingað hana til að hafa kynferðismök við Æ. Hún hefði fyrst haft munnmök við Æ, en hann síðan fengið sáðlát í leggöng hennar. Á meðan á þessu stóð hefði Þ staðið yfir þeim eins og stjórnandi og hefði hann verið með fingur í leggöngum hennar. Hún hefði ekki viljað þetta en verið hrædd við mennina, þar sem þeir voru tveir með henni einni. Þegar þetta var yfirstaðið hefði hún klætt sig og farið aftur fram. Þá hefði maður að nafni A komið og farið að káfa á henni. Hún hefði verið hrædd við hann og sérstaklega hefði hún verið hrædd við Þ. Hefði hún farið aftur inn í herbergi með A og Þ fylgt á eftir. Hefði Þ þvingað hana til að hafa kynferðismök við A. Hann hefði þvingað hana til að hafa munnmök við A og verið með fingur í leggöngum hennar á meðan, sem hefði verið mjög sársaukafullt. Hefði A fengið sáðlát í leggöng hennar. Síðan hefði Ö komið og hefði hún verið þvinguð til að hafa munnmök við hann, en hann hefði einnig sett getnaðarlim sinn að einhverju leyti inn í leggöng hennar. Hefði Þ staðið yfir þeim á meðan á þessu stóð og sem fyrr haft fingur í leggöngum hennar og stjórnað atburðarásinni. Sagðist hún hafa séð að Ö vorkenndi henni. Eftir þetta hefðu þeir ekið henni á brott, en hent henni út úr bifreiðinni sem fyrr greinir. Ákærða sagði mennina hafa verið með Rottweiler hund sem þeir hefðu sigað á hana og hefði hundurinn glefsað í hana. Í skýrslunni kemur fram að ákærða hafi verið í nokkru uppnámi og óðamála er hún ræddi við lögreglumennina, en framburður hennar hefði verið stöðugur og hún ekki virst eiga í neinum vandræðum með að lýsa atburðarásinni ítrekað og hefði það alltaf verið á sama hátt.

Ákærða gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun á Neyðarmóttöku um nóttina. Í skýrslu H kvensjúkdómalæknis um skoðunina er meðal annars haft eftir ákærðu að gerendur hafi verið þrír, Þ, I og A. Í hluta skýrslunnar, sem ber fyrirsögnina frásögn sjúklings, er höfð eftir ákærðu lýsing atvika sem er í meginatriðum samhljóða því sem greinir í frumskýrslu lögreglu að öðru leyti en því að fram kemur að ákærða hefði ekki haft kynferðismök við þann mann sem hún nefndi Ö. Kemur fram að vinkona ákærðu hefði komið inn í svefnherbergið og hneykslast á henni og ekki trúað að hún væri að þessu. Einhvern tíma á meðan á þessu stóð hefðu mennirnir rétt henni peninga sem hún hefði tekið við. Eftir að allt var yfirstaðið hefði Þ ætlað að aka þeim vinkonunum heim og hefðu Ö og I líka verið í bifreiðinni. Hefði G verið ekið fyrst heim, en ákærða setið í aftursæti að spjalla við Ö og gjarnan viljað aka aðeins um með þeim. Hefði verið ekið upp í [...], en þar hefði Þ skyndilega stöðvað bifreiðina í [...]hverfi, farið út úr bifreiðinni, opnað afturhurðina þar sem ákærða sat, gripið undir handakrikana á henni og hent henni út úr bifreiðinni þannig að hún fór í hálfhring og lenti á hnjánum. Hún hefði náð að sjá númer bifreiðarinnar og hringt í lögreglu, öskureið. Kemur fram að ákærða hafi verið með roða og fleiður á hægra hné, sem komi heim og saman við þá lýsingu að hún hafi lent á hnjánum er henni var kastað út úr bifreiðinni.

Meðal gagna málsins er matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsett 10. desember sl., þar sem fram kemur að í blóðsýni sem tekið var úr ákærðu við læknisskoðun á Neyðarmóttöku mældist magn alkóhóls 0,99 ‰. Þá mældust 700 ng/ml af amfetamíni í blóði ákærðu. Magn alkóhóls í þvagsýni mældist 1,40 ‰.

Að lokinni læknisskoðun ræddi J rannsóknarlögreglumaður við ákærðu á lögreglustöð. Í skýrslu sem lögreglumaðurinn hefur ritað um samtalið er höfð eftir ákærðu lýsing á atvikum og er sú lýsing í meginatriðum á sama veg og það sem haft var eftir henni í frumskýrslu.

Samkvæmt skýrslu lögreglu var A handtekinn á heimili sínu síðdegis þann 4. nóvember. Gengust mennirnir fjórir undir réttarlæknisfræðilega skoðun í kjölfar handtöku. Sama kvöld úrskurðaði héraðsdómur mennina í gæsluvarðhald til 11. nóvember að beiðni lögreglu. Af gögnum málsins verður ráðið að þeir voru leystir úr gæsluvarðhaldi þann 6. nóvember. Þá kemur fram að með bréfum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til mannanna fjögurra, dagsettum 30. janúar sl., var þeim tilkynnt að lögregla hefði hætt rannsókn málsins þar sem ekki þætti lengur grundvöllur til að halda rannsókninni áfram, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Meðal gagna málsins er mynd- og hljóðupptaka sem lögregla fann í farsíma D. Á myndskeiðinu sjást karl og kona, sem þekkjast sem ákærða og A, nakin á rúmdýnu og virðast þau vera í einhvers konar kynlífsathöfnum. Þá heyrist ákærða ræða við einhvern sem virðist vera sá aðili sem er að taka upp myndskeiðið og kallar hún hann Æ.

Þá eru meðal gagna málsins tvær hljóðupptökur sem fundust í farsímum C og A. Á upptökunni í farsíma C heyrist kona segja eftirfarandi: „Ég ætla að fucking fá það, einhvern bónus skilurðu. Annars fæ ég fyrir málið og segi algjör nauðgun skilurðu.“

Á upptökunni í farsíma A heyrast þau G ræða saman og kemur fram hjá G að hún sé miður sín vegna þess að maður sem hún nafngreinir ekki hafi tekið hana hálstaki. A vísar þessu á bug og segist hafa séð að hann hafi aðeins ýtt við henni. Þá kemur fram hjá A að hún sé eitthvað miður sín yfir því að vinkona hennar sé að láta hafa við sig kynferðismök inni í herbergi, „en hún er að biðja um það og hún vill meira sko, þú hlýtur að hafa séð það, sástu það“. Þá spyr A G hvort hún haldi að „hún eigi eftir að fá móral yfir þessu á morgun“. G segir að sig langi bara að fara heim og biður strákana að spyrja hana hvort hún sé ekki að verða búin. Þá segist hún aldrei hafa séð X í svona slæmu ástandi áður. A svarar því til að G þurfi ekki að spinna neina lygasögu út frá þessu. Eftir þetta heyrist upptaka af samtali sem á sér stað í öðru herbergi á milli ákærðu, A og þriðja manns sem verður ráðið af gögnum málsins að er B. Segir A við ákærðu að vinkona hennar sé orðin óþolinmóð og virðist reyna að fá hana til að klæða sig í föt. Virðist ákærða ekki sinna þeirri málaleitan, en beina því til mannanna að hafa við sig kynferðismök. Heyrist ákærða meðal annars beina eftirfarandi orðum til A: „Ekki einu sinni fimm mínútur enn, fimm mínútur enn, það er allt sem ég þarf. Ég verð að fá að finna eitthvað fucking fyrir þér inni í mér, þú veist ég er búin að fucking totta ykkur í allt kvöld (...).“

Tekin var skýrsla af ákærðu hjá lögreglu þann 6. nóvember sl. Lýsti hún atvikum þá með svipuðum hætti og fyrr, en sagði þó þann mannanna sem síðastur var í herberginu með henni ekki hafa haft við hana kynferðismök. Var ákærðu kynnt fyrrgreind hljóðupptaka sem fannst í síma C og kannaðist hún við rödd sína á upptökunni. Var á henni að skilja að hún hefði í samtalinu verið að falast eftir peningagreiðslu svo að henni liði aðeins betur yfir því sem hefði gerst.

Ákærða gaf skýrslu fyrir dómi daginn eftir og lýsti atvikum með sama hætti og fyrr, en kvaðst þó ekki muna hvort hún hefði haft kynferðismök við þann mann sem hún nefndi Ö. Var ákærðu jafnframt kynnt fyrrgreind hljóðupptaka sem fannst í síma A. Sagðist hún ekki muna nákvæmlega eftir samtalinu. Hún hefði fengið „spítt“ hjá Þ og myndi miklu minna af því sem gerðist eftir það.

Ákærða gaf enn skýrslur hjá lögreglu þann 1. desember og 5. mars sl. Við fyrri skýrslutökuna var ákærða spurð út í fyrrgreindar upptökur úr símum A og C og jafnframt kynnt hljóðupptaka og myndskeið sem fundist hafði í síma D. Hélt ákærða fast við fyrri framburð um að hún hefði sætt kynferðisbroti af hálfu mannanna. Við síðari skýrslutökuna sagðist ákærða hafa fengið „blackout“, líklega vegna fíkniefnaneyslu og hefðu mennirnir misnotað sér ástand hennar.

Meðal gagna málsins er skýrsla L sálfræðings, dagsett 19. desember sl., sem að beiðni lögreglu lagði mat á þroska og heilbrigðisástand ákærðu. Í niðurlagi skýrslunnar kemur fram að um sé að ræða aldurssvarandi stúlku með eðlilegan þroska. Ekki mælist nein geðræn einkenni eða annað slíkt sem gefi tilefni til að ætla að hegðun og hugsun sé skert. Hún sé eðlilega greind og persónuleikaprófíll sýni einstakling sem sé í jafnvægi og vel aðlagaður samfélaginu. Helst komi fram að hún virðist vera undanlátssöm, sem styðji að hluta til þá frásögn hennar að hún hafi gert það sem henni var sagt og ekki þorað að standa fyrir sínu. Hins vegar styðji upplýsingar sem komi fram á upptökum það ekki, en líklegt sé að fíkniefna- og áfengisneysla geti hafa haft þau áhrif að hún hegðaði sér ekki í samræmi við það sem henni er vanalegt.

Þá er í gögnum málsins vottorð M sálfræðings, dagsett 19. september sl., sem átti viðtöl við ákærðu eftir tilvísun deildarstjóra á Neyðarmóttöku. Í niðurstöðukafla vottorðsins kemur fram að frásögn ákærðu sé trúverðug og tilfinningaleg ásýnd í samræmi við það sem um er rætt hverju sinni. Sálræn einkenni sem hún og móðir hennar lýsi, niðurstöður sjálfsmatskvarða, tilfinningaleg ásýnd í viðtölum og viðbrögð í sálrænni úrvinnslu samræmist vel og bendi til þess að ákærða hafi orðið fyrir alvarlegu sálrænu áfalli þann 4. nóvember sl. Þróun sálrænna einkenna sé í fullu samræmi við þróun áfallastreitueinkenna, sem hægt sé að rekja til kynferðislegs ofbeldis.

Verður nú rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærða sagðist hafa verið með G, vinkonu sinni, á veitingastað í [...] kvöldið sem um ræðir og hitt þar fyrir utan þrjá stráka sem kynntu sig sem Þ, Æ og Ö. Hefðu þær G farið með strákunum heim til eins þeirra. Þegar þangað kom hefðu þau farið að spjalla. Hundur sem Þ átti hefði verið þarna í íbúðinni og hefði hundurinn farið að naga skó hennar. Ákærða sagðist hafa skammað hundinn vegna þessa, en Þ tekið því illa, tekið í hana og hrist hana.  Sagðist ákærða hafa verið smeyk við Þ eftir þetta. Skömmu eftir þetta atvik hefði fjórði maðurinn, S, komið í íbúðina. Æ hefði beðið hana að koma með sér inn í herbergi og hefði hún fylgt honum þangað.  Hefði Þ komið inn í herbergið til þeirra. Þ hefði hjálpað henni úr fötunum og sagt henni að hafa munnmök við Æ. Hann hefði rifið í hár hennar, látið hana hafa munnmök við Æ og sett fingurna í leggöng hennar. Hún hefði ekki þorað annað en að gera þetta. Þegar það var afstaðið hefði Æ farið að klæða sig og hún ætlað að gera það sama, en Þ stöðvað hana og sagt að þetta væri ekki búið. Þá hefði A komið inn, afklæðst og lagst niður. Hefði Þ sagt henni að hafa munnmök við A en hún neitað því. Þ hefði þá rifið í hár hennar og síðan hefði allt gengið fyrir sig eins og í fyrra skiptið. Þegar þessu lauk hefði Ö komið inn í herbergið og lagst upp í rúmið. Í því hefði G opnað hurðina á herberginu og hefði Þ þá rokið út. Eftir smástund hefði Ö staðið á fætur og hefðu þau klætt sig og farið fram. Ákærða sagði að á meðan á þessu stóð inni í herberginu hefði Þ „mokað“ í hana amfetamíni. Hún hefði jafnframt verið búin að neyta áfengis, hefði hún drukkið um það bil fjóra bjóra fyrr um kvöldið. Ákærða sagðist ekki hafa orðið þess vör að verið væri að taka samskipti hennar við mennina upp á síma. Hún sagðist ekki vefengja þær upptökur sem lægju fyrir í málinu, en gæti lítið um þær sagt þar sem hún myndi ekki eftir þessu.

Ákærða kannaðist við að G hefði spurt hana í bifreiðinni á leiðinni heim hvort hún vildi ekki koma með sér heim. Hún hefði hins vegar aðeins viljað komast heim til sín. Síðar bar ákærða því við að hún hefði látið mennina aka sér upp í [...] þar sem hún hefði ekki viljað að þeir vissu hvar hún ætti heima. Þá svaraði hún því til að hún hefði ekki viljað yfirgefa bifreiðina með G þar sem hún hefði viljað að vinkona hennar slyppi og ekkert kæmi fyrir hana.

Ákærða sagði minni sitt hafa verið orðið lélegt þegar Ö kom inn í herbergið til hennar í lokin. Hún myndi ekki eftir samskiptum við hann. Upptökurnar sem um ræðir væru frá því eftir þetta þegar hún hélt að allt væri yfirstaðið.

Ákærða sagði þessa atburði hafa haft mikil áhrif á líf sitt. Hún hefði hætt með kærasta sínum stuttu síðar, lokað sig af og lent í óreglu um tíma.

Vitnið D sagðist í umrætt sinn hafa hitt ákærðu utan við skemmtistað í [...] þar sem hann hefði verið ásamt B og C. Hefðu ákærða og önnur stúlka komið með þeim heim til C í íbúðina við [...]. Ákærða hefði verið „snarrugluð“. Hún hefði haft fíkniefni meðferðis sem hún neytti í bifreiðinni á leiðinni og heima hjá C. Vitnið sagðist hafa „sofið hjá“ ákærðu í herbergi C. Enginn hefði verið með þeim meðan á þessu stóð og allt verið í góðu á milli þeirra. Hann sagðist halda að B hefði einnig sofið hjá ákærðu, en mundi ekki með A. Hann myndi ekki eftir því að hafa tekið myndir á farsíma sinn af stúlkunni með einhverjum mönnum. Þeir hefðu ekki haft áhuga á því að ákærða vissi hvað þeir hétu. Hún hefði spurt þá hvort þeir hétu ákveðnum nöfnum og hefðu þeir svarað því játandi. Vitnið sagðist hafa verið með í bifreiðinni þegar ákærðu og vinkonu hennar var ekið heim. Ákærða hefði ekki viljað yfirgefa bifreiðina. Hún hefði í fyrstu sagst eiga heima í [...] og síðar í [...], en alltaf þegar komið var þangað sem hún vísaði sagðist hún eiga heima einhvers staðar annars staðar. Þessu hefði lokið með því að þeir hefðu „hent“ henni út úr bifreiðinni.  

Vitnið sagðist minna að þau ákærða hefðu farið fram eftir að hafa verið saman í herberginu. Hann sagðist ekki hafa séð hana með neinum öðrum þarna. Hann vísaði því á bug að ákærða hefði ekki viljað hafa kynferðismök við hann. Hún hefði reynt ítrekað að fá hann aftur inn í herbergi eftir að þau höfðu verið saman. Hún hefði óskað eftir kynferðismökum við þá og „blaðrað og blaðrað“. Er vitninu var sýnt myndskeið sem vistað var í síma hans þar sem A og ákærða sjást í kynmökum sagðist hann ekki kannast við að hafa séð þetta á sínum tíma, en vel gæti verið að rödd hans kæmi þarna fram á hljóðupptöku og að hann væri sá maður sem heyrðist að ákærða kallaði Æ.  

Vitnið sagði það hafa fengið mjög á sig að vera handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald. Hann hefði aldrei verið lokaður inni svona lengi. Þá hefði hann vitað að allir myndu halda að hann hefði nauðgað stúlku, þar með talið kærasta hans.  

Vitnið C sagði þá B og D hafa hitt ákærðu utan við veitingastað í [...] og hefði hún fljótlega farið að láta vel að D. Ákærða og vinkona hennar hefðu komið með þeim í íbúðina í [...] þar sem hann bjó. Þar hefðu strákarnir verið með ákærðu. Fyrst hefði D farið með ákærðu inn í herbergi. Vitnið neitaði að hafa verið með þeim þar inni, en sagðist hafa gengið fram hjá herberginu og séð hvað var að gerast, þ.e. að D var með ákærðu. Vitnið sagðist hafa yfirgefið íbúðina um skeið og farið að sækja hundinn sinn. Um þetta leyti hefði A komið á staðinn. Vitnið sagði að þegar hann kom til baka hefði ákærða verið alveg stjórnlaus. Hún hefði viljað hafa kynferðismök við þá alla og verið að káfa á þeim. Hún hefði verið með öllum inni í herbergi. Sagðist vitnið hafa tekið eina mynd á síma sinn af því sem átti sér stað. Honum hefði fundist eitthvað grunsamlegt hvernig ákærða hagaði sér, haft á tilfinningunni að einhver vandræði hlytust af þessu og viljað „hafa þetta svart á hvítu“.  Hann sagðist ekki hafa séð ákærðu neyta fíkniefna, en kæmi ekki á óvart að svo hefði verið. Hann neitaði því alfarið að hafa látið ákærðu fá fíkniefni.

Vitnið sagði að þegar þeir voru að aka ákærðu heim hefði hún fyrst sagst eiga heima í [...]. Þegar þau komu í hverfið sem hún nefndi hefði hún hins vegar sagst eiga heima í [...]. Þegar þangað kom hefði hún svo sagst eiga heima í [...]. Vitnið sagðist þá hafa togað ákærðu út úr bifreiðinni. Hún hefði sturlast og hent bjór í bílinn. Hann taldi verið geta að ákærða hefði dottið aðeins þegar hann togaði hana út.

Vitnið kannaðist við að þeir hefðu ekki kallað sig sínum nöfnum, en þeir hefðu ekki viljað að þessi stúlka þekkti þá, meðal annars vegna þess að D átti kærustu. Hann kannaðist við að hann hefði kallað sig Þ og sagði geta verið að D hefði kallað sig Æ og B Ö.

Vitnið sagði sér ekki hafa fundist að ákærða hefði verið beitt misnotkun, eða að hún hefði verið fórnarlamb. Þetta hefði verið „siðlaust en alveg löglegt“. Ákærða hefði viljað fá að vera þarna áfram um nóttina hjá honum. Spurður um það hvað hann ætti við með „siðlaust en löglegt“ sagði vitnið að hún hefði viljað þetta. Hann neitaði því að hafa beitt ákærðu ofbeldi. Þá sagðist hann ekki hafa tekið G hálstaki, heldur hefði hann ýtt við henni.

Spurður um afleiðingar og áhrif þess að vera handtekinn vegna málsins sagðist vitnið hafa verið handtekinn áður en aldrei verið niðurlægður svona mikið af „íslenska kerfinu“. Þá hefði það sem gerðist haft slæm áhrif á einkalíf hans, þ.e. samskipti hans við kærustu og foreldra hennar. 

Vitnið A sagðist hafa komið í heimsókn til C um klukkan eitt umrædda nótt og hefðu þá C, B og D verið þar fyrir ásamt stúlkunum tveimur. Þau hefðu setið inni í stofu í einhvern tíma, en síðan hefðu þeir D farið með ákærðu inn í herbergi og hann haft kynferðismök við hana. Hefði D farið út úr herberginu á meðan á þessu stóð. Vinkona ákærðu hefði bankað á dyrnar, en ákærða sagt henni að fara. Hann hefði síðan farið aftur inn í stofu, en B farið inn til ákærðu. Vinkonan hefði opnað dyrnar á herberginu og séð ákærðu og B þar saman. Hefði hún orðið mjög ósátt við það, en ákærða rekið hana í burtu. Eftir það hefði vinkonan komið inn í stofu og farið að rífast við C, sem hefði endað með því að hann ýtti henni utan í dyrnar.  Hún hefði þá byrjað að æsa sig við þá og haft orð á því að þetta væri ekki í lagi. Vitnið sagðist hafa fengið leiðinda tilfinningu og ákveðið að taka upp á símann sinn samræður þeirra við stúlkurnar. C hefði verið orðinn pirraður og viljað losna við fólkið og hefði hann því drifið sig heim.

Vitnið sagðist ekki hafa séð ákærðu neyta fíkniefna, en ekki geta útilokað að hún hefði gert það. Ákærða hefði ekkert haft á móti því að hafa kynferðismök við hann og C hefði ekki haft nein afskipti af þeim samskiptum.

Vitnið sagði þetta mál hafa haft ömurlegar afleiðingar fyrir sig. Það hefði gengið nærri honum að gangast undir læknisrannsókn. Þá hefði fjölskylda hans heyrt af þessu máli og áreiðanlegt væri að margir héldu að hann hefði gert það sem ákærða hefði haldið fram. 

Vitnið G sagðist hafa verið með ákærðu á veitingastað í [...] og hitt þrjá menn sem kölluðu sig Þ, Ö og Æ. Hefðu þær farið með mönnunum í bifreið í íbúð við [...] og sest þar inn í stofu. Ákærða hefði farið með Æ inn í herbergi. Þau hefðu svo komið aftur fram, en vitnið sagðist ekki vita hvað þeim fór á milli í herberginu. Hún sagðist halda að Þ hefði einnig farið inn í herbergið, en komið fram aftur. Hún sagðist ekki hafa tekið eftir neinu skrýtnu í fari ákærðu þegar hún kom aftur út úr herberginu, allt hefði verið í góðu. Í kjölfarið hefði hundurinn hans Þ farið að naga skó ákærðu og hefði Þ tekið í hana fyrir að skamma hundinn. Eftir þetta hefði ákærða farið á salernið og ekki komið aftur inn í stofu. Vitnið sagðist hafa áttað sig á því að tveir mannanna voru komnir með ákærðu inn í herbergi, þeir Æ og Þ. Svo hefði A komið í heimsókn og hann líka farið inn í herbergið. Vitnið sagðist í raun hafa verið ein með Ö í stofunni nánast allt kvöldið, en hin fjögur hefðu verið inni í herberginu. Hún sagðist ítrekað hafa spurt hvað væri í gangi í herberginu og hefði henni verið sagt að það væri bara „trúnó“. Loks hefði hún ætlað að ganga úr skugga um hvað ætti sér stað þarna, en þá hefði Æ, sem hefði verið kominn fram, sagt henni að hún mætti ekki fara inn í herbergið. Hún hefði farið út til að pissa vegna þess að salernið hefði verið bilað, en þá hefði henni verið sagt að skilja símann sinn eftir og minnti hana að það hefði verið Æ sem lét hana gera það. Henni hefði ekkert litist á blikuna þegar þarna var komið og fundist þetta eitthvað skuggalegt. Þá hefði A verið kominn fram úr herberginu, en Ö farinn þangað inn. Hún hefði ákveðið að fara inn í herbergið og reynt að opna hurðina, en það hefði verið einhver fyrirstaða eins og streist væri á móti. Loks hefði Þ rifið upp hurðina og hún þá séð hvar ákærða lá nakin í rúmi og Ö þar hjá henni með buxurnar dregnar niður fyrir hné. Hún hefði sagt ákærðu að koma sér í fötin og að þær skyldu koma sér út. Henni hefði fundist ákærða eins og út úr heiminum og allt öðruvísi en þegar þær komu í íbúðina. Þ hefði brugðist illa við og sagt vitninu að halda kjafti. Því næst hefði hann tekið hana hálstaki og haldið henni þannig upp við vegg í dágóðan tíma áður en hann sleppti. Hún sagðist hafa verið í sjokki eftir þetta og gengið inn í stofu. Hún hefði sagt við A og Æ að hún skyldi ekki hvað væri að þessum mönnum. Hvernig þeir gætu lagt hendur á kvenfólk og hvernig þeir gætu gert stelpunni þetta í þessu ástandi. Þ hefði komið fram og hún hefði spurt þá hvað væri í gangi þarna inni og hvað þeir væru að gera. Þeir hefðu svarað því til að vinkona hennar væri að „bjóða upp á þetta“. Hún hefði spurt á móti hvort ekki væri í lagi með þá. Ákærða hefði komið fram úr herberginu. Hún hefði verið fámál, en sagst ætla að tala við vitnið síðar. Þau hefðu farið út í bifreið og hefðu þær ákærða ekki fengið að sitja saman þar. Vitnið sagðist hafa beðið ákærðu að koma með sér heim því að henni hefði ekki fundist þetta vera öruggt. Ákærða hefði neitað því og sagst ætla heim til sín að sofa. Það hefði eiginlega ekkert verið hægt að ræða við hana. Morguninn eftir hefði móðir ákærðu hringt og sagt henni að ákærðu hefði verið nauðgað. Vitnið sagði það ekki hafa komið sér  á óvart þar sem hún hefði ekki fengið að fara inn í herbergið. Hins vegar treysti hún sér ekki til að segja til um það hvort eitthvað á vettvangi benti til þess að ákærðu hefði verið nauðgað. Vitnið giskaði á að þær hefðu verið í um tvær klukkustundir í íbúðinni. Ákærða hefði verið nær allan tímann inni í herbergi á meðan þær voru þarna.

Vitnið L sálfræðingur sagði ákærðu hafa í viðtölum við sig lýst einkennum sem væru þekkt sem afleiðingar áfallastreitu. Hún hefði lýst martröðum, svefntruflunum og óöryggi. Ótvírætt væri að þessi einkenni tengdust þessum atburði, en þau hefðu komið fram í kjölfarið. Hins vegar segðu þau ekkert um orsakir, hvort hún hefði gert eitthvað rangt eða einhver annar henni.  Þeir sem brjóti af sér geti fengið áfallastreitueinkenni. Þekkt sé að ef fólk geri hluti sem samræmist ekki þeirra „karakter“ reyni það að útskýra það sem gerðist, jafnvel með því að búa til nýjar minningar. Ekki væri víst að ákærða hefði verið með á nótunum þetta kvöld þar sem mikið magn amfetamíns og áfengi mældist í blóði hennar. Hún hefði sagst ekki muna allt sem gerðist. Þegar svo háttaði reyndi fólk oft að fá botn í það sem gerðist eftir á. Það gæti skýrt það að ákærða upplifði að henni hefði verið nauðgað. Minni fólks sé þannig að það geti búið til nýjar minningar sem það trúir. Þetta sé vel þekkt hjá fólki sem verði fyrir áfalli. Vitnið sagðist telja að það sem gerðist umrætt kvöld hefði verið „mjög ólíkt hennar karakter“.

Vitnið sagði jafnframt að einkenni áfallastreituröskunar gætu samrýmst því að ákærða hefði þolað kynlíf án þess að vilja það. Yfirleitt kæmu svona einkenni fram í kjölfar eins atviks og yfirleitt vegna þess að viðkomandi yrði hræddur, upplifði mikla ógn eða skelfingu. Það gæti verið vegna atburðanna um kvöldið, en einnig sökum þess að hún áttaði sig á því daginn eftir hvað hefði gerst. Ekkert í hans könnun hefði gefið til kynna að hún hefði lent í öðru óhappi sem skýrt gætu þessi einkenni. Einkennin hefðu líka komið fram strax daginn eftir. Því teldi hann þau afleiðingar atburðarásarinnar um nóttina.

Vitnið N, móðir ákærðu, sagðist hafa orðið vör við miklar breytingar á hegðun dóttur sinnar eftir þennan atburð. Hún hefði verið mjög ábyrg, dugleg og samviskusöm og venjulegur unglingur í alla staði. Eftir þetta áfall hefði hún verið eins og „lifandi dauð“. Líðan hennar fyrst á eftir hefði einkennst af ótta, áhugaleysi og depurð. Hún hefði lokað sig af og um tveimur mánuðum síðar hefði hún lent í mikilli óreglu, sem hún hefði aldrei átt við að stríða áður. Öll gleði hefði horfið úr henni. Vitnið sagði líðan stúlkunnar þó hafa batnað á síðustu vikum.

 Vitnið O, móðursystir ákærðu, sagði hana hafa verið venjulega og lífsglaða unga stúlku fyrir þetta atvik. Hún hefði verið dugleg með systkini sín og kát og glöð heima fyrir. Eftir þetta hefði ekkert líf verið í augunum hennar. Hún hefði lokað sig af, verið taugaveikluð og ekki farið út í langan tíma. Að undanförnu væri hún byrjuð að brosa aftur og virtist öruggari með sig.

Vitnið sagði ákærðu hafa sagt sér og móður sinni að hún hefði orðið fyrir „hópnauðgun“ þar sem þrír eða fjórir menn hefðu verið að verki. Hún hefði ekki lýst þessu í smáatriðum og þær ekki gengið á hana. Hún hefði þó sagt að mennirnir hefðu haft við hana kynmök og hún hefði vitað að þeir myndu beita hana ofbeldi ef hún færi að vera með læti. Hún hefði verið komin í einhverjar aðstæður sem hún gat ekki komist út úr og verið hrædd.

                Vitnið M sálfræðingur sagði ákærðu hafa sýnt einkenni sem samræmdust því að hún hefði mátt þola kynferðislegt ofbeldi. Þessi einkenni væru þekkt hjá þeim sem hefðu verið í aðstæðum þar sem þeir upplifðu sig bjargarlausa og óttaslegna. Hegðun ákærðu hefði verið mjög trúverðug miðað við að hún hefði upplifað eitthvað skelfilegt sem sæti í henni.

Vitnið H, sérfræðingur í kvenlækningum, sem annaðist læknisskoðun ákærðu á Neyðarmóttöku, sagði að hún hefði virst áberandi ölvuð, en hún hefði ekki greint að ákærða væri undir annarlegum áhrifum. Ákærða hefði virst áttuð og í tengslum við umhverfi sitt, lýst því sem hefði gerst og tímasetningum. Hún sagði ákærðu hafa verið mjög reiða og fannst það aðallega vera vegna þess að henni hefði verið kastað út úr bifreiðinni.

Vitnið P, dósent við Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, staðfesti að mjög hár styrkur amfetamíns hefði mælst í blóði ákærðu, eða 700 ng/ml. Lækningalegir skammtar miðist yfirleitt við minna en 100 ng/ml og í öllum tilvikum væru þeir lægri en sem næmi 150 ng/ml. Eitrunarmörk væru miðuð við 200 til 400 ng/ml og í öllum tilvikum myndi talið um eitrun að ræða ef magnið færi yfir 400 ng/ml. Ef meira en 1.000 ng/ml mælist í blóði látins manns og krufning leiði ekki aðra dánarorsök í ljós, sé talið að skýra megi andlát með amfetamíneitrun eingöngu. Vitnið sagði amfetamín hafa bæði líkamleg áhrif og áhrif á miðtaugakerfi, svo sem hækkaðan blóðþrýsting, aukinn hjartslátt o.fl. Sá sem þess neytti yrði gjarnan mjög ör, hugsanir væru ekki í góðu samhengi, líkur væru á ofskynjunum og ofsjónum. Ekki skipti máli í þessu sambandi þótt mælst hefði áfengi í blóði. Menn skynjuðu ekki umhverfi sitt með réttum hætti. Rannsóknir sýndu að dómgreind væri farin að bila þegar mældist undir 100 ng/ml amfetamíns í blóði, menn tækju meiri áhættu og slíkt. Hugsanlegt væri að um meiri áhrif en ella væri að ræða hjá 17 ára stúlku, þar sem minni líkur væru á að svo ungur einstaklingur hefði myndað mikið þol gegn amfetamíni en þeir sem eldri væru. Vitnið sagði að miðað við líklegan brotthvarfstíma amfetamíns myndi einhverjum tugum ng/ml hærri styrkur hafa mælst í blóði ákærðu tveimur klukkustundum áður en blóðsýni var tekið. Þá staðfesti vitnið að magn amfetamíns sem mældist í blóði ákærðu væri slíkt að um eitrun í klínískum skilningi hefði verið að ræða.

Vitnið R, sérfræðingur í lyflækningum, sagði að miðað við það magn amfetamíns sem mældist í blóði ákærðu hefði hún augljóslega verið mjög „vímuð“. Þarna væri um að ræða tvöföld eða þreföld eitrunarmörk. Þetta mikla magn amfetamíns hefði mjög mikil áhrif á hugarástand og ölvunarástand. Líkaminn væri allur í örvunarástandi, aukin hvatvísi, skert dómgreind, sem hefði mikil áhrif á ákvarðanatöku. Áhrifin væru meiri hjá ungum einstaklingum þar sem þol myndist með tímanum. Auknar líkur væru á því að hægt væri að misnota einstakling í þessu ástandi. Þá hefði inntaka amfetamíns þau áhrif að auka kynhvöt. Vitnið sagði áfengi og amfetamín hafa samverkandi áhrif. Um væri að ræða vímuefni sem auki virkni hvors annars. Miðað við að hafa tekið inn svo stóra skammta af amfetamíni hlyti ákærða að hafa komið fyrir sjónir sem mjög ör, hvatvís og upptendruð. Áhrif á hegðun hennar og útlit myndu hafa verið augljós þeim sem þekktu hana.

Lögreglumennirnir E, J og F komu fyrir dóminn og báru vitni um aðkomu sína að málinu. Verður framburður þeirra ekki rakinn frekar.

Niðurstaða

Ákærðu eru gefnar að sök rangar sakargiftir með því að hafa með röngum framburði fyrir lögreglu og fyrir dómi leitast við að koma því til leiðar að fjórir menn yrðu sakaðir um kynferðisbrot gegn henni. Ákærða neitar sök. Hafa A, C og D borið fyrir dómi að ákærða hafi átt kynferðismök við  A, D og B af fúsum og frjálsum vilja. Ákærða hefur á hinn bóginn borið að vilji hennar hafi ekki staðið til þess að hafa kynferðismök við mennina og hafi henni verið þröngvað til kynferðismaka. Hefur ákærða verið staðföst í framburði sínum um atvik að þessu leyti í skýrslutökum hjá lögreglu og fyrir dómi og var framburður hennar trúverðugur að mati dómsins. Þá er lýsing á atvikum sem höfð er eftir ákærðu í skýrslu um læknisskoðun á Neyðarmóttöku í fullu samræmi við skýrslur hennar hjá lögreglu og fyrir dómi.

Ákærða hefur borið að hún muni ekki eftir öllu sem gerðist og hafi minni hennar farið að bresta eftir að hún neytti amfetamíns inni í herberginu þar sem atvik áttu sér stað. Fyrir liggur að eftir atvikið mældust 700 ng/ml af amfetamíni í blóði ákærðu. Kom fram hjá vitninu P að um mjög háan styrk amfetamíns væri að ræða, en eitrunarmörk væru miðuð við 200 til 400 ng/ml og rannsóknir sýndu að dómgreind væri farin að bila þegar mældist undir 100 ng/ml amfetamíns í blóði. Vitnið R lýsti því að svo mikið magn amfetamíns hefði örvandi áhrif á líkamann og fylgdi því aukin hvatvísi og skert dómgreind, sem hefði mikil áhrif á ákvarðanatöku. Þá hefði inntaka amfetamíns þau áhrif að auka kynhvöt.

Vitnið L sagði ákærðu hafa lýst einkennum sem væru þekkt sem afleiðingar áfallastreitu og hefðu þessi einkenni komið í kjölfar þess atburðar sem hér um ræðir. Vitnið sagði vel þekkt að þeir, sem aðhefðust eitthvað sem samræmdist ekki þeirra „karakter“, reyndu að útskýra það sem gerðist, jafnvel með því að búa til nýjar minningar. Þeir sem muni ekki allt sem gerst hefur reyni oft að fá botn í það eftir á. Það sé vel þekkt hjá fólki sem hefur orðið fyrir áfalli að það búi til minningar sem það trúir. Þá bar vitnið M að ákærða hefði sýnt einkenni sem samræmdust því að hún hefði mátt þola kynferðislegt ofbeldi. Þessi einkenni væru þekkt hjá þeim sem hefðu verið í aðstæðum þar sem þeir upplifðu sig bjargarlausa og óttaslegna. Hefði hegðun ákærðu verið mjög trúverðug miðað við að hún hefði upplifað eitthvað skelfilegt sem sæti í henni.

Dómurinn telur að hljóðupptökur sem liggja frammi í málinu verði að virða í því ljósi að ákærða var undir miklum áhrifum amfetamíns þegar hún lét þau orð falla sem þar koma fram. Þá eru hljóðupptökur sem fundust í símum C og A af samtölum sem áttu sér stað eftir að ákærða hafði haft kynferðismök við mennina. Verður ekkert af upptökunum ráðið hvað átti sér stað á milli þeirra þar á undan.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið, og með vísan til 108. og 109. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er það mat dómsins að ekkert sé fram komið sem hnekki staðhæfingu ákærðu um að hún hafi skynjað atvik með þeim hætti sem hún hefur lýst. Er því ósannað að ákærða hafi haft ásetning til að bera mennina fjóra röngum sökum svo sem henni er gefið að sök í ákæru. Verður ákærða sýknuð af kröfum ákæruvaldsins.

Skaðabótakröfum A, C og D er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður málsins, 2.001.597 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 846.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari.

Ragnheiður Harðardóttir, settur héraðsdómari, Arngrímur Ísberg héraðsdómari og Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kváðu upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærða, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Skaðabótakröfum A, C og D er vísað frá dómi.

Allur sakarkostnaður málsins, 2.001.597 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 846.600 krónur.