Print

Mál nr. 514/2014

Lykilorð
  • Börn
  • Kynferðisbrot
  • Sifskaparbrot
  • Skaðabætur

Dómsatkvæði

                                 

Miðvikudaginn 22. apríl 2015.

Nr. 514/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Birki Má Ingimarssyni og

Davíð Páli Jónssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

(Einar Gautur Steingrímsson hrl. og

Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumenn)

Börn. Kynferðisbrot. Sifskaparbrot. Skaðabætur.

X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði við A, sem þá var 14 ára, og brotið gegn B, sem einnig var 14 ára, með því að hafa strokið kynfæri hans og nuddað kynfærum sínum og líkama upp við líkama hans. Þá var hann sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa veitt B, C, D og E aðgang að fíkniefnum og sifskaparbrot fyrir að hafa stuðlað að því að B, C og E komu sér undan valdi og umsjá foreldra sinna og dvöldu á heimili hans, sbr. 193. gr. almennra hegningarlaga. Ennfremur var X sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum barnaklám. Loks voru bæði X og Y sakfelldir fyrir að hafa áreitt C kynferðislega er hún var sofandi á þáverandi heimili X. Var brotið framið með þeim hætti að Y fletti niður um hana brjóstahaldara og bol og X tók myndir af athæfinu á farsíma sinn. Við ákvörðun refsingar var í héraðsdómi litið til þess að X hafði játað fimm ákæruliði af sjö, auk þess sem ákæra hafði ekki verið gefin út fyrir en rúmum þremur árum eftir að atvik áttu sér stað. Var refsing X ákveðin fangelsi í tvö ár og níu mánuði og hún skilorðsbundin að öllu leyti. Þá var refsing ákærða Y ákveðin skilorðsbundið fangelsi í tvo mánuði. Í dómi Hæstaréttar var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu staðfest, en í ljósi alvarleika brota X, svo og þess hvaða refsing væri lögð við þeim, var refsing hans ákveðin óskilorðsbundið fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Þá var refsing Y ákveðin fjögurra mánaða fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Eiríkur Tómasson og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. júní 2014. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærðu verði þyngd.  

Ákærði Birkir Már Ingimarsson krefst þess að hann verði sýknaður af ákæruliðum 3 og 5 í I. kafla ákæru og dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa vegna annarra ákæruliða.

Ákærði Davíð Páll Jónsson krefst staðfestingar héraðsdóms.

A krefst þess að ákærði Birkir Már verði dæmdur til að greiða sér 700.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

B krefst þess að ákærði Birkir Már verði dæmdur til að greiða sér 1.800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

C krefst þess að ákærðu verði dæmdir til að greiða sér sameiginlega 1.800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

  Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu.

Sakarferill ákærðu er rakinn í hinum áfrýjaða dómi. Verður refsing ákærða Birkis Más ákveðin að teknu tilliti til 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Er fallist á með héraðsdómi að hann eigi sér ekki aðrar málsbætur en að hafa játað brot sín að stærstum hluta. Við ákvörðun refsingar þessa ákærða verður einnig að líta til þess að brot hans eru mörg og sérlega alvarleg. Þannig hafði ákærði, sem þá var 23 og 24 ára, samræði við 14 ára stúlku í lok maí 2010 og 6. júní sama ár veitti hann tveimur stúlkum, 13 og 14 ára að aldri, aðgang að fíkniefnum. Þá beindist sifskaparbrot hans í byrjun september 2010 að þremur börnum á aldrinum 13 til 15 ára, er hann veitti jafnframt aðgang að fíkniefnum og skammtaði sjálfur ofan í smjörsýru, sem er stórhættulegt efni. Hafði hann  greint sinn önnur kynferðismök en samræði við eitt þeirra, 14 ára dreng. Auk þess að hafa 13. október 2010 haft í vörslu sinni myndir er sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt framdi ákærði 25. september það ár kynferðisbrot með þeim hætti að taka ljósmyndir af 13 ára stúlku sem var bjargarlaus eftir neyslu efna er ákærði hafði veitt henni, en meðákærði Davíð Páll fletti niður um hana brjóstahaldara og bol. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að síðastgreint brot frömdu ákærðu í félagi, sbr. 2 mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.

Eins og rakið er í héraðsdómi laut rannsókn lögreglu að brotum ákærða Birkis Más sem framin voru í maí, júní og september 2010. Lauk rannsókn hjá lögreglu í nóvember 2011, en ríkissaksóknara bárust ekki fyrr en í október 2012 málsgögn til ákvörðunar um frekari rannsókn eða saksókn, sbr. 57. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá var það fyrst í júlí 2013 að ríkissaksóknari óskaði eftir að kannað yrði til þrautar hvort unnt væri að framkvæma mannerfðafræðilega rannsókn á sýnum vegna gruns um að C hefði verið nauðgað á þeim tíma sem um ræðir í 7. lið II. kafla ákæru. Í október 2013 fékk ríkissaksóknari upplýsingar um að slík sýni væru ekki fyrir hendi og var ákæra gefin út í desember það ár.  

Samkvæmt framansögðu varð veruleg töf við meðferð málsins bæði hjá lögreglu og ákæruvaldi. Verður töf þessi hvorki rakin til ákærðu né hefur hún verið réttlætt á annan hátt. Er málsmeðferðin í andstöðu við ákvæði 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Sökum þess hversu brot ákærða Birkis Más voru alvarleg og með vísan til þess hvaða refsing er lögð við þeim er óhjákvæmilegt að þyngja refsingu ákærða frá því sem ákveðið var í héraði, auk þess sem ekki er tækt að skilorðsbinda hana. Þegar litið er til þess óhæfilega dráttar, sem orðið hefur á meðferð máls þessa og gerð hefur verið grein fyrir, verður þessum ákærða gert að sæta fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Refsing ákærða Davíðs Páls verður ákveðin fangelsi í fjóra mánuði og skal hún bundin skilorði eins og í dómsorði greinir.

Háttsemi ákærðu gegn þeim brotaþolum, sem hafa uppi einkaréttarkröfur í málinu, var eins og áður segir ófyrirleitin og til þess fallin að valda þeim miklum miska. Að því virtu og að teknu tilliti til framkominna gagna um afleiðingar þessarar háttsemi verður ákærði Birkir Már dæmdur til að greiða brotaþolanum B 1.500.000 krónur og brotaþolanum A 700.000 krónur, líkt og hún hefur krafist. Þá verður ákærðu báðum sameignlega gert að greiða brotaþolanum C 800.000 krónur. Skulu fjárhæðir þessar bera vexti eins og ákveðnir voru í hinum áfrýjaða dómi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra og þóknun skipaðra réttargæslumanna brotaþola, ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

            Ákærði, Birkir Már Ingimarsson, sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

            Ákærði, Davíð Páll Jónsson, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar hans og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

            Ákærði Birkir Már greiði B 1.500.000 krónur og A 700.000 krónur, með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

            Ákærðu greiði óskipt C 800.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

            Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði Birkir Már greiði 5/6 hluta áfrýjunarkostnaðar málsins en ákærði Davíð Páll 1/6 hluta hans, en kostnaðurinn er samtals 1.087.814 krónur að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda þeirra, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþolanna A og C, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, 310.000 krónur og réttargæslumanns brotaþolans B, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 16. maí 2014.

                Mál þetta, sem dómtekið var 3. apríl síðastliðinn, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara 20. desember 2013 á hendur Birki Má Ingimarssyni, kennitala [...],[...],[...], og Davíð Páli Jónssyni, kennitala [...],[...],[...], fyrir eftirgreind hegningarlagabrot:

I

                „Á hendur ákærða Birki Má fyrir eftirgreind brot framin á þáverandi heimili hans að [...] í [...]:

1.       Kynferðisbrot gegn A, kennitala [...], með því að hafa í lok maí 2010, er stúlkan var 14 ára, haft samræði við hana.

                Telst brot þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.       Brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa þann 6. júní 2010 veitt C, kennitala [...], þá 13 ára, og D, kennitala [...], þá 14 ára, aðgang að fíkniefnum.

                Telst þetta varða við 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

3.       Sifskaparbrot, með því að hafa frá kvöldi fimmtudagsins 9. september 2010 til aðfaranætur sunnudagsins 12. september 2010, stuðlað að því að E, kennitala [...], þá 15 ára, C, kennitala [...], þá 14 ára og C, kennitala [...], þá 13 ára, komu sér undan valdi og umsjá foreldra sinna, en börnin dvöldu á heimili hans þennan tíma.

                Telst þetta varða við 193. gr. almennra hegningarlaga.

4.       Brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa á sama tíma og stað sem tilgreindur er í ákærulið nr. 3 veitt börnunum sem þar eru tilgreind aðgang að fíkniefnum og smjörsýru.

                Telst þetta varða við 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

5.       Nauðgun, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 10. september 2010, gefið C, kennitala [...], þá 14 ára, fíkniefni og smjörsýru svo honum var ekki sjálfrátt, farið með hann inn í svefnherbergi sitt, afklætt hann úr fötum, strokið og nuddað á honum kynfærin, látið hann gera það sama við sig og nuddað kynfærum sínum og líkama upp við líkama hans.

                Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

6.       Kynferðisbrot með því að hafa miðvikudaginn 13. október 2010, og um nokkurt skeið fram til þess dags, á þáverandi heimili sínu að [...],[...], haft í vörslum sínum á Spire flakkara, borðtölvu og Nokia N92 farsíma 6 ljósmyndir og 13 hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, en tölvubúnaðurinn með myndefninu var haldlagður sama dag.

                Telst þetta varða við 1. mgr. 210. gr. a. almennra hegningarlaga.“

II

7.       Á hendur báðum ákærðu fyrir kynferðisbrot „með því að hafa laugardaginn 25. september 2010 í sameiningu áreitt C, þá 13 ára, kynferðislega er hún var sofandi á þáverandi heimili ákærða Birkis Más að [...],[...], en ákærði Davíð Páll fletti niður um hana brjóstahaldara og bol svo sást í bert brjóst hennar og ákærði Birkir Már tók ljósmyndir af athæfinu á farsíma sinn af gerðinni Nokia N92.

                Telst þetta varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Þess er jafnframt krafist að framangreint myndefni, Spire flakkari, borðtölva og Nokia N92 farsími, sem lögregla lagði hald á, verði gert upptækt samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 19/1940.“

                Í málinu gerir F, kennitala [...], vegna ólögráða dóttur sinnar, A, kröfu um að ákærði Birkir Már Ingimarsson verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.300.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2010 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. 

                Þá gerir G, kennitala [...], vegna ólögráða sonar síns, C, kröfu um að ákærði Birkir Már Ingimarsson verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. september 2010 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

                Einnig er af hálfu H, kennitala [...], vegna ólögráða dóttur hennar, C, krafist að ákærðu, Birkir Már Ingimarsson og Davíð Páll Jónsson, verði dæmdir til að greiða henni miskabætur in solidum að fjárhæð 1.800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. september 2010 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði Birkir Már Ingimarsson krefst sýknu af sakargiftum samkvæmt ákæruliðum 3 og 5 í I. kafla ákærunnar, en vægustu refsingar sem lög leyfa að öðru leyti og að refsing verði skilorðsbundin. Þá krefst hann þess aðallega að bótakröfum brotaþolanna A og C verði vísað frá dómi, en til vara að bótakröfur þeirra og brotaþolans C sæti verulegri lækkun. Skipaður verjandi ákærða Birkis Más krefst málsvarnarþóknunar sér til handa.

                Ákærði Davíð Páll Jónsson krefst vægustu refsingar sem lög leyfa. Hann viðurkennir bótaskyldu en mótmælir fjárhæð kröfunnar og „solidariskri“ ábyrgð með meðákærða Birki Má. Þá krefst skipaður verjandi ákærða Davíðs Páls málsvarnarþóknunar sér til handa.

III

A

                Að fenginni afstöðu ákærðu til ákæruliða I.1, I.2, I.4, I.6 og II.7 er þarflaust að rekja málsatvik vegna þeirra liða frekar en gert er í ákæru. Í köflum B og C hér á eftir verða málsatvik og framburður ákærða og vitna reifuð vegna ákæruliða I.3 og I.5 eins og þurfa þykir, en ákærði Birkir Már hefur neitað sök samkvæmt þessum ákæruliðum.

                Með bréfi barnaverndar Reykjavíkur til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 12. október 2010 var þess óskað fyrir hönd forsjáraðila C að rannsókn lögreglu færi fram vegna gruns um að stúlkan hefði orðið fyrir refsiverðu athæfi. Forsaga málsins er sögð sú að tilkynning hafi borist til barnaverndar í lok september frá slysadeild Landspítala en þangað hafi stúlkan komið í fylgd móður sinnar 26. september 2010. Hún hafi þá verið nýkomin heim til sín eftir að hafa verið í neyslu eiturlyfja síðastliðinn sólarhring. Hafi stúlkan verið gestkomandi í húsi hjá neyslufélaga þegar hún hafi liðið út af og vaknað aftur eftir einhverja stund. Telji stúlkan að henni hafi verið gefið lyf sem hafi valdið því að hún hafi sofnað. Eftir að hún hafi vaknað hafi hún fundið til eymsla í endaþarmi og grunað að hún hafi verið misnotuð kynferðislega af neyslufélaga á meðan hún hafi verið sofandi. Grunur sé um að neyslufélagi stúlkunnar hafi brotið gegn henni og því sé málinu vísað til rannsóknar hjá lögreglu.

                Með skýrslu, sem lögregla tók af móður stúlkunnar 13. október 2010, var lögð fram kæra á hendur ákærða Birkir Má fyrir kynferðisbrot gagnvart C 25. september 2010. Fram kemur að C hafi þekkt ákærða í nokkurn tíma. Af MSN- samskiptum C við ákærða megi sjá að hann hafi látið hana fá eiturlyf án endurgjalds. Þá hafi C verið næturlangt hjá ákærða, meðal annars þegar hún hafi strokið að heiman. Stúlkan hafi greint frá því að ákærði hefði boðið henni í heimsókn laugardaginn 25. september 2010 og hefði hún farið til hans. Ákærði hafi boðið henni einhvern drykk sem hún hafi sofnað af. Hún hafi vaknað með verk í endaþarminum og haldið að sér hafi verið nauðgað, enda hafi hún fundið að átt hafði verið við fötin hennar. Hún hafi komið heim til sín upp úr miðnætti aðfaranótt laugardagsins 26. september 2010 og sagt frá þessu. Móðir stúlkunnar hafi sagt að ákærði hafi látið C fá fíkniefni og smjörsýru. Kvaðst hún meðal annars sjá það af þeim MSN- samskiptum sem C og ákærði hafi átt. Af þeim mætti einnig ráða að ákærði hefði vitað réttan aldur C.

                Ákærði Birkir Már Ingimarsson greindi frá því fyrir dómi að C hefði hringt í hann seint að kvöldi og spurt hvort tveir vinir hennar, C og E, mættu koma með henni heim til ákærða. Kvaðst ákærði hafa spurt C að því hvað þau væru gömul og hún sagt að þau væru fædd 1993. Bar ákærði að hann hefði sótt þau fimmtudagskvöldið 9. september. Eitthvað af eiturlyfjum hafi verið haft um hönd og allir í annarlegu ástandi. Ákærði bar að C hefði spurt hann hvort einhvers staðar væri næði af því að hún vildi fíflast með stúlkunni, en hann og B hefðu verið að kyssast frammi og hafi C stungið upp á því að þeir B myndu kíkja inn í herbergi en þær yrðu þá í stofunni. Greindi ákærði frá því að þeir hefðu farið inn í herbergið og klætt hvor annan úr fötunum og farið upp í rúm. Einhverjar strokur hefðu verið frá báðum aðilum en svo hafi þeir farið að sofa. Ákærði kvað B hafa viljað halda áfram en ákærði kvaðst hafa verið í of annarlegu ástandi til þess og hann langað að leggja sig. Þá hafi þeir báðir lagt sig og örugglega hafi klukkutími liðið eða einn og hálfur þangað til þeir hafi vaknað. Eftir það hafi þeir farið fram og haldið áfram neyslu fíkniefna. Þá hafi C sagt honum að þau væru að strjúka. Hafi það verið strax daginn eftir. Kvaðst ákærði þá hafa sagt að hann vildi ekki taka þátt í því og spurt hvort hann mætti ekki keyra þau þangað sem þau þyrftu að fara. Hafi hann skutlað þeim á Grensásveg um kvöldið, rétt eftir kvöldmat á föstudagskvöldinu. Daginn eftir hafi lögregla komið á heimili ákærða og sagt að borist hafi ábendingar um að þau hafi verið hjá ákærða. Kvaðst ákærði þá hafa hringt í C og spurt hvar þau væru og hafi hún sagt það og ákærði lögreglunni. Ákærði kvaðst aðspurður hafa vitað aldur Cen gert ráð fyrir að vinir hennar væru 16-17 ára. Ákærði kvaðst hafa komist að því dálitlu síðar að B væri undir aldri. Þá bar ákærði að C og vinir hennar hafi komið með gras en kvaðst hafa veitt þeim aðgang að fíkniefnum og smjörsýru. C hafi vitað hvar smjörsýran hafi verið geymd og boðið öðrum upp á hana en ákærði kvaðst hafa viljað skammta smjörsýruna sjálfur til að tryggja að þau fengju minna af henni. Áhrifin hafi verið kæruleysi og hamingjusemi og liði manni eins og maður væri að blómstra. Ákærði kvað B hafa verið í ástandi til að eiga samskipti, hlæja og spjalla. Hann hafi verið í vímu eins og þau öll. Aðspurður kvað ákærði B hafa viljað fara með honum inn í herbergið.

                Brotaþolinn B gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hann hefði komið á heimili ákærða með C og E. Þau hafi verið að strjúka að heiman og hafi C þekkt ákærða. Hafi ákærði vitað að þau voru að strjúka, enda hafi þau sagt honum það þegar í upphafi. Ákærði hafi gefið þeim fullt af fíkniefnum og honum smjörsýru. Vitnið kvaðst ekki muna atburði nákvæmlega en bar að hann hefði rankað við sér inni í herbergi ákærða og þá verið illt í endaþarminum. Vitnið kvaðst ekki muna hvernig hann hafi komist inn í herbergið og ekki muna eftir neinum samskiptum við ákærða inni í herberginu. Hann hafi verið 14 ára og mjög dópaður í umrætt sinn. Aðspurður kvaðst brotaþoli minnast þess að ákærði hefði verið með honum í rúmi þegar hann hafi rankað við sér en mundi ekki hvort þeir hefðu verið í fötum eða ekki. Brotaþoli kvaðst muna atburði óljóst og ekki minnast þess að þeir hafi rætt saman. Vitnið kvaðst muna óljóst eftir strokinu. Þau hafi verið í miðbænum þegar ákveðið hafi verið að fara til ákærða og kvaðst vitnið hafa fylgt með. Þá kom fram hjá vitninu að C hafi haft stjórnina og frumkvæðið og að þau hafi reykt gras áður en þau hafi komið til ákærða. Vitnið bar að ákærði hefði vitað hvað hann var gamall af því að hann hefði sagt ákærða það sjálfur. Þá kom fram hjá vitninu að því hefði liðið illa eftir atburðina. Vitnið kvaðst hafa tekið mikið af fíkniefnum, amfetamín, kannabis, einhverjar pillur auk smjörsýru og verið mjög dópaður. Ákærði hafi látið vitnið hafa fíkniefnin. Þá kvaðst vitnið ráma í að ákærði hafi leitt hann inn í herbergið. Vitnið tók fram að skýrsla hans fyrir dómi 22. október 2010 væri rétt.   

                Vitnið E gaf skýrslu fyrir dómi. Vitnið greindi frá því að það ætti erfitt með að muna atburði frá 9. september 2010, enda hefðu vitnið, C og B verið uppdópuð. Hún hafi ekki verið að hugsa um að fara ekki heim, en C hefði verið pirruð út í móður sína og B hafi verið áfjáður í að vera hjá ákærða sem hafi ýtt undir það þau yrðu hjá honum. Hann hafi sýnt þeim smjörsýru sem hann átti og vildi að þau tækju. Vitnið kvaðst ekki hafa viljað það í fyrstu en erfitt hafi verið að segja nei. Vitnið bar að B hefði varla getað staðið og hefði ákærði haldið í hann. Kvaðst vitnið hafa lognast út af eftir tvö skot af smjörsýrunni en þá hafi ákærði og B verið farnir inn í herbergi. Þegar B kom fram hafi þeim liðið illa og viljað fara. Aðspurt kvað vitnið ákærða hafa gefið þeim smjörsýru í staupglösum. Þau hafi komið til ákærða að kvöldi, um klukkan 11.00 eða 12.00, og verið hjá honum á föstudeginum. Ákærði hafi svo ekið þeim niður í bæ. Vitnið bar að eitthvað hefði verið rætt um aldur. Þau hafi strokið og hafi ákærði vitað af því frá því að þau komu til hans, enda hafi C talað um það, en vitnið kvaðst ekki muna þetta alveg. Spurð um það hvort B hefði sagt vitninu hvað hefði gerst inni í herberginu greindi vitnið frá því að hann hefði sagt að ákærði hefði gefið honum meira af smjörsýrunni og að þá hefði hann lognast út af og hefði ekkert munað eftir það. Þá bar vitnið aðspurt að það hefði verið C sem hefði hvatt hana til þess að taka smjörsýruna. Hana hafi ekki langað til þess en þær hafi farið saman inn á klósett með staupglas og þá hafi C sagt að ef þær drykkju ekki smjörsýruna myndi ákærði henda þeim út. Vitnið hafi orðið hrætt og drukkið smjörsýruna. Eftir það hafi þær farið fram og þá hafi vitnið séð ákærða og B en liðið pínulítið undarlega og allt hafi virst á sveimi. Hafi vitnið þá drukkið smjörsýru úr öðru staupglasi, byrjað að svitna mikið og síðan lognast út af. Vitnið taldi líklegt að ákærði hefði vitað um aldur þeirra en kvaðst ekki muna það fyrir víst.

                Vitnið H, móðir brotaþolans C, kom fyrir dóminn og greindi frá því að dóttir hennar og tvö önnur börn hafi strokið að heiman 9. september 2010. Hafi dóttir hennar sagt henni frá því að í þessu stroki hafi vinur hennar, B, orðið fyrir kynferðisofbeldi. Spurð um þetta nánar greindi vitnið frá því að börnin hafi strokið saman. Lýst hafi verið eftir vinum C ekki henni sjálfri af því að vitnið hafi haft við hana símasamband allan tímann, hún hafi látið vita af sér og að allt væri í lagi. Þegar vitnið hafi sótt C hafi henni verið mikið niðri fyrir og sagt vitninu upp og ofan frá því sem hafði gerst um helgina. Hafi það fyrst og fremst verið af því að C væri mjög miður sín yfir því að þá um nóttina hafi hún verið heima hjá ákærða ásamt B og ákærði hafi veitt þeim mjög mikið af sterkum eiturlyfjum og smjörsýru. Þau hafi verið komin í mjög alvarlegt ástand. Ákærði hafi leitt B inn í herbergi og hafi C heyrt samfarahljóð, stunur og þannig hljóð úr herberginu. Þeir hafi lokað að sér en þegar þeir hafi komið fram aftur hafi B verið mikið niðri fyrir og sagt C að þetta hefði hann ekki viljað gera. Þetta hafi C sagt henni eftir að hún kom heim, að vitnið minnti á sunnudegi. Í kjölfarið hafi vitnið sagt systur B frá þessu.

                Vitnið C bar fyrir dómi að hún hefði farið á heimili ákærða með E og B þegar þau hafi strokið að heiman.  Hafi þau viljað finna stað þar sem hægt væri að fá nóg af fíkniefnum. Því hafi verið ákveðið að fara heim til ákærða Birkis Más og þar hafi verið fíkniefni fyrir alla. Vitnið bar að ákærði Birkir Már hefði haldið fíkniefnum að B og E og hefðu þau bæði orðið mjög rugluð af neyslunni. Þá kvaðst vitnið muna eftir því að B og ákærði hefðu byrjað að kyssast og strjúka hvor öðrum. Þeir hafi svo farið inn í svefnherbergi og læst á eftir sér. Vitnið kvaðst hafa heyrt stunur og bankað á dyrnar. Eftir að stunurnar hættu hafi ekki náðst samband við þá í marga klukkutíma. Daginn eftir hafi B viljað fara en vitnið lagði til að þau yrðu áfram og kláruðu allt dópið sem væri þarna. Vitnið kvaðst ekki muna hvað þau hefðu verið lengi hjá ákærða, en það hefði alla vega verið einn sólarhringur, kannski tveir. Aðspurt bar vitnið að ákærði hefði skammtað smjörsýruna. Hann hefði búið hana til og geymt hana á litlum flöskum. Vitnið lýsti því að B hefði verið orðinn þvoglumæltur, rauður í augunum, átt erfitt með rökhugsun og hafi áreiðanlega ekki vitað hvað hann var að gera. Hann hafi þó getað gengið. Þannig hafi ástandið á B verið áður en hann og ákærði hafi farið inn í herbergið. Vitnið kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir því hvort samskipti B og ákærða hafi verið með samþykki B sem hafi tekið virkan þátt í athöfnunum. Þá bar vitnið að B hefði ekki talað um það „orðrétt“ hvað gerst hefði í herberginu, en vitnið kvaðst geta giskað á það sem gerst hefði miðað við að heyra stunur úr herberginu. Um ástæðu þess að B vildi fara bar vitnið að það hefði verið af því að hann hefði aldrei viljað sofa hjá ákærða Birki Má edrú af því að honum fyndist hann ógeðslegur. Þá bar vitnið að ákærði hefði vitað um aldur vitnisins en kvaðst ekki viss um að hafa sagt honum aldur B en kvað útlit hans samsvara aldri. Vitnið kvaðst ekki vera viss um að talað hefði verið um aldur þeirra. Hún hefði sjálf átt í samskiptum við ákærða frá því í maí eða júní sama ár en ákærði hefði verið að hitta B og E í fyrsta skipti. Vitnið taldi sig muna það að ákærði hefði frá upphafi vitað um að þau hefðu strokið.

                Vitnið G, móðir brotaþolans B, gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að B hefði strokið að heiman en hefði haft samband við vitnið. Þá höfðu C og E, sem voru með honum, stungið hann af. Vitnið kvaðst hafa náð í B í bæinn og hafi hann þá verið í mjög annarlegu ástandi og ekki viðræðuhæfur á heimleiðinni. Daginn eftir hafi hann enn verið skrýtinn og honum illt alls staðar. Móðir C hafi þá hringt í vitnið og sagt að C hafi sagt sér að hún héldi að B hafi verið nauðgað. Kvaðst vitnið hafa talað við B eftir samtalið og hafi hann sagt að það gæti alveg verið rétt. Vitnið hafi síðar sama dag farið með B á slysadeild til að láta athuga hann vegna þess að sá sem hefði átt að hafa nauðgað honum væri með lifrarbólgu C. Teknar hafi verið blóðprufur en meira kvaðst vitnið ekki muna. Aðspurt greindi vitnið frá því að B hefði sagt vitninu að honum hefði verið gefin smjörsýra og mikið af fíkniefnum sem vitnið kvaðst ekki vita hvort B hefði neytt. Spurt um það hver hefði gefið B smjörsýru bar vitnið að ákærði Birkir Már hefði gert það. Vitnið greindi frá því að B hefði verið í mikilli fíkniefnaneyslu í mörg ár og honum liði alltaf illa út af því þar á meðal vegna þessa atviks, en hann hafi einnig selt sig til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína.

C

                Samkvæmt gögnum málsins kom mál brotaþolans B til barnaverndarnefndar Akraneskaupstaðar 13. september 2010 með tilkynningu frá móður brotaþola. Þar kom fram að sonur hennar, B, hafi sagt henni að um helgina 10.-12. september hafi hann komið á heimili þar sem mikið magn eiturlyfja hafi verið. Fram er tekið að móðir stúlku, C að nafni, hafi haft samband við systur brotaþola og sagt henni að ákærði hafi nauðgað brotaþola. Í tölvubréfi 15. september sem móðir C sendi til móður brotaþola staðfesti hún að C hafi sagt sér að brotaþoli hafi tekið inn smjörsýru og orðið ruglaður af því. Þá hafi Birkir Már, ákærði í málinu, tekið brotaþola með sér inn í herbergi og læst að þeim. Hún gefi í skyn að þar hafi ákærði nauðgað brotaþola. Þá segi í tölvupósti 22. september frá móður brotaþola að brotaþoli hafi sagt sambýlismanni systur sinnar frá því að ákærði hafi nauðgað brotaþola. Með bréfi barnaverndarnefndar Akraneskaupstaðar 24. september 2010 var óskað eftir rannsókn lögreglu á grun um kynferðisbrot gagnvart brotaþola. 

                Brotaþolinn B var yfirheyrður vegna málsins í Barnahúsi 22. október 2010. Hann greindi frá því að hann hefði verið á heimili ákærða ásamt vinkonum sínum, þeim C og E, og hefðu þau strokið að heiman. Þau hafi verið að neyta fíkniefna. Ákærði hafi boðið brotaþola smjörsýru að drekka sem hann hafi þegið. Brotaþoli hafi síðan orðið alveg uppdópaður og ekki vitað hvað hann hafi verið að gera. Brotaþoli bar að hann hafi legið í sófanum heima hjá ákærða með lokuð augun en vaknað við það að ákærði var að kyssa hann á munninn. Brotaþoli kvaðst hafa frosið og ekki vitað hvað hann hafi átt að gera. Hann kvaðst ekki muna hvað hafi gerst en muni aðeins brot frá þessu kvöldi. Brotaþoli greindi frá því að ákærði hefði spurt hann hvort hann vildi koma inn í herbergi en hann hafi sagt nei við því. Þau hafi haldið áfram að neyta fíkniefna og ákærði gefið honum meiri og meiri smjörsýru og hafi það endað með því að hann hafi ekkert vitað hvað hann var að gera. Ákærði hafi farið með hann inn í herbergi og lokað hurðinni. Kvaðst brotaþoli ekki vita hvað hafi gerst nema að ákærði hafi klætt brotaþola úr fötunum og farið sjálfur úr fötunum. Eftir það kvaðst brotaþoli ekkert muna, hafa eiginlega bara farið í algjört „blackout.“ Spurður um það hvað hafi gerst í herberginu sagði brotaþoli að ákærði hefði tekið í hendurnar á sér og sett þær á typpið á sér en brotaþoli kvaðst ekki muna þetta alveg 100 % og gæti því ekki fullyrt þetta allt saman enda myndi hann ekki hvað hefði átt sér stað í herberginu. Spurður um það hvað ákærði hefði gert við hann kvaðst brotaþoli ekki muna það. Spurður um það hvort ákærði hefði verið kynferðislega örvaður þá játaði brotaþoli því og sagði að hann hefði verið með standpínu. Spurður um það hvort eitthvað annað hafi gerst en að hann hafi snert typpið á ákærða kvaðst brotaþoli muna að eitthvað hefði gerst en hann myndi bara ekki hvað. Þegar brotaþoli hafi rankað við sér hafi hann verið uppi í rúmi með ákærða og báðir verið naktir.

                Tekin var skýrsla af ákærða hjá lögreglu 13. október 2010. Greindi ákærði frá því að brotaþoli hefði komið til hans helgina 10.-12. september 2010 ásamt C og vinkonu hennar, E. Kvaðst ákærði hafa kynnst C, sem væri 14 ára, á Kaffi Rót fyrir um hálfu ári. Hann hefði ekki þekkt þau B og E. Hefðu þau komið til hans föstudagskvöldið 10. september og síðar um kvöldið greint honum frá því að þau hefðu strokið að heiman. Hefði hann þá ekið þeim, líklega um klukkan 01.00 aðfaranótt laugardagsins 11. september á Grensásveg og ekki séð B eða E eftir þetta en hitt C. Ákærði bar að þau hefðu reykt gras um kvöldið, en hann hefði sjálfur neytt fljótandi smjörsýru úr staupi. Hann kvaðst ekki geta sagt til um það hvort hin hefðu fengið sér af staupinu. Ákærði kvað stúlkurnar hafa kúrt undir teppi og hafi þau verið að horfa á sjónvarpið. Þá hafi stúlkurnar farið að mana þá B til að kyssast. Ákærði kvað B vera samkynhneigðan, það væri greinilegt á klæðnaði hans og almennu útliti. Hann væri algjörlega „streit“ en væri opinn í kynferðismálum. Bar ákærði að hann og B hafi farið að fíflast og kyssast. Hafi þeir þá verið á sófanum inni í stofu. Þeir hafi síðan farið saman inn í svefnherbergi hans og lokað að sér án þess að læsa. Þar hafi þeir afklæðst öllu nema bol og stuttbuxum og lagst upp í rúm. Hafi þeir haldið áfram að kyssast og síðan verið að þreifa á kynfærum hvor annars innan klæða. Spurður um það hvort þeir hafi verið að fróa hvor öðrum neitaði ákærði því, en sagði að þeir hefðu meira verið að strjúka kynfæri hvor annars. Þá kvaðst ákærði aðspurður ekki hafa séð kynfæri B þar sem myrkur hefði verið í herberginu. Kvaðst ákærði hafa sofnað eftir þetta og sofið í um tvær klukkustundir en ekki vita hvað B hafi gert á meðan. Skömmu eftir þetta hafi hann ekið B, C og E á Grensásveg. Þar hafi þau ætlað að hitta einhvern sem C þekkti. Daginn eftir hafi lögreglan haft samband við hann og spurt um ferðir þeirra C, B og E. Kvaðst ákærði hafa aðstoðað lögregluna við að hafa uppi á þeim. Spurður um það hvort hann hefði verið að bera í B, C og E eiturlyfin sem þau hafi verið að neyta kvað ákærði það ekki svo. Þau hafi reykt gras sem þau hafi sjálf komið með. Hann hafi sjálfur reykt gras sem hann hafi átt og verið einn að neyta smjörsýru. Þá kvað ákærði aðspurður að hann og B hefðu ekki haft samræði inn í herberginu. Þeir hafi snert hvorn annan kynferðislega eins og hann hafi lýst og síðan hafi hann sofnað. Þá bar ákærði að C hefði sagt honum rangt til um aldur E. Hafi hún sagt að hún væri 17 ára en hann væri núna búinn að átta sig á því að hún hefði verið yngri. Ákærði kvaðst aðspurður hafa talið að C væri 14 ára en ekki vitað um aldur B, talið hann vera 17-18 ára. Hann vissi núna að hann væri undir lögaldri.

                Í skýrslu, sem tekin var af vitninu C í Barnahúsi 22. október 2010 með vísan til a. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, greindi vitnið frá því að hún hafi farið sjálfviljug á heimili ákærða Birkis Más af því að hún hafi oft verið að dópa með honum og geti treyst honum. Kvaðst vitnið hafa verið með vinum sínum, B og E en þau hafi strokið að heiman. Ákærði hafi byrjað að vera mikið utan í B en vitnið hafi verið dópað og því ekki vitað hvað hafi verið að gerast. Síðan hafi hún áttað sig á því að þeir hafi verið að hafa kynmök og þegar B hafi vaknað hafi hann ekki verið sáttur við það. Spurð nánar um hvers konar kynmök ákærði og B hefðu átt kvaðst vitnið ekki vita það, þeir hafi bara farið inn í herbergi og vitnið heyrt „fullt af stunum“.

                Brotaþolinn B gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hann hefði komið á heimili ákærða með C og E. Þau hafi verið að strjúka að heiman og hafi C þekkt ákærða. Ákærði hafi gefið þeim fullt af fíkniefnum og honum smjörsýru. Vitnið kvaðst ekki muna atburði nákvæmlega en bar að hann hefði rankað við sér inni í herbergi ákærða og þá verið illt í endaþarminum. Vitnið kvaðst ekki muna hvernig hann hafi komist inn í herbergið og ekki muna eftir neinum samskiptum við ákærða inni í herberginu. Hann hafi verið 14 ára og mjög dópaður í umrætt sinn. Aðspurður kvaðst brotaþoli minnast þess að ákærði hefði verið með honum í rúmi þegar hann hafi rankað við sér en mundi ekki hvort þeir hefðu verið í fötum eða ekki. Brotaþoli kvaðst muna atburði óljóst og ekki minnast þess að þeir hafi rætt saman. Vitnið bar að ákærði hefði vitað hvað vitnið var gamalt af því að hann hefði sagt ákærða það sjálfur. Þá kom fram hjá vitninu að því hefði liðið illa eftir atburðina. Spurður um af hverju sagði vitnið orðrétt: „Af því að hann nauðgaði mér.“ Spurður nánar um það hvers vegna vitnið fullyrti þetta en myndi ekki atburði sagði vitnið orðrétt: „Af hverju ætti mér að vera illt í endaþarminum? – af því bara ... það er ekki svoleiðis.“ Vitnið kvaðst hafa tekið mikið af fíkniefnum, amfetamín, kannabis, einhverjar pillur auk smjörsýru og verið mjög dópaður. Ákærði hafi látið vitnið hafa fíkniefnin. Þá kvaðst vitnið ráma í að ákærði hafi leitt hann inn í herbergið. Vitnið tók fram að skýrsla hans fyrir dómi 22. október 2010 væri rétt   

                Ákærði Birkir Már Ingimarsson gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að C hefði hringt í hann seint að kvöldi og spurði hvort að tveir vinir hennar mættu koma með henni heim til ákærða. Bar ákærði að hann hefði sótt þau fimmtudagskvöldið 9. september. Eitthvað af eiturlyfjum hafi verið haft um hönd og allir í annarlegu ástandi. Ákærði bar að C hefði spurt hann hvort einhvers staðar væri næði af því að hún vildi fíflast með E, en hann og B hefðu kysst frammi. C hafi stungið upp á því að þeir B myndu kíkja inn í herbergi en þær yrðu þá í stofunni. Greindi ákærði frá því að þeir hefðu farið inn í herbergið og klætt hvorn annan úr fötunum og farið upp í rúm. Einhverjar strokur hefðu verið frá báðum aðilum en svo hafi þeir farið að sofa. Ákærði kvað B hafa viljað halda áfram en ákærði kvaðst hafa verið í of annarlegu ástandi til þess og langaði að leggja sig. Þá hafi þeir báðir lagt sig og örugglega hafi klukkutími liðið eða einn og hálfur þangað til þeir hafi vaknað. Eftir það hafi þeir farið fram og haldið áfram neyslu fíkniefna. Ákærði kvaðst aðspurður hafa vitað um aldur C en gert ráð fyrir að vinir hennar væru 16-17 ára. Ákærði kvaðst hafa komist að því dálitlu síðar að B væri undir aldri. Þá bar ákærði að C og vinir hennar hafi komið með gras en kvaðst hafa veitt þeim aðgang að fíkniefnum og smjörsýru. C hafi vitað hvar smjörsýran hafi verið geymd og boðið öðrum upp á hana en ákærði kvaðst hafa viljað skammta smjörsýruna sjálfur til að tryggja að þau fengju minna af henni. Áhrifin hafi verið kæruleysi og hamingjusemi og liði manni eins og maður væri að blómstra. Ákærði kvað B hafa verið í ástandi til að eiga samskipti, hlæja og spjalla. Hann hafi verið í vímu eins og þau öll. Aðspurður kvað ákærði að B hafi viljað fara með honum inn í herbergið. Þeir hafi klætt hvorn annan úr öllum fötunum og verið að kyssast. Báðir hafi verið æstir og strokið hvor öðrum um allan líkamann. Þeir hafi kysst og lagst upp í rúm. Ákærði kvaðst hafa verið þreyttur en vilji hafi verið hjá B til að gera meira en aðstæður hafi ekki verið til þess. Spurður kvaðst ákærði hafa strokið kynfæri B með höndunum og fróað honum mjúklega. Báðir hafi verið kynferðislega örvaðir. Hann hafi ekki haft önnur mök við B. Ákærði kvað lýsingu á háttsemi í ákæru vera rétta, það er að hann hafi strokið og nuddað kynfæri brotaþola, látið hann gera það sama við sig og nuddað kynfærum sínum og líkama upp við líkama hans. Ákærði kvaðst þó vilja taka fram að báðir hafi verið á sama stigi og liti hann svo á að brotaþoli hafi verið samþykkur þessari háttsemi sem ákærði kvað að staðið hefði í 10 mínútur eða tæplega það.

                Vitnið A gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hún hefði heyrt um það að ákærði hefði nauðgað brotaþola, B. Spurð um það hver hefði sagt vitninu frá þessu bar vitnið að það héldi að B hefði sagt vitninu þetta sjálfur 2010. Vitnið kvaðst ekki muna hvað hann hefði sagt og ekki vera viss um að það hefði verið B sem hefði sagt vitninu frá þessu.

                Vitnið I, kærasti systur brotaþola, gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að þegar B hafi verið á leið á Vog fyrir um tveimur árum hafi hann sagt vitninu nokkurn veginn frá því sem gerst hefði. Hafi B verið í gleðskap með vinkonu sinni og fleirum og verið að drekka en sofnað vegna þess að honum hafi verið byrluð smjörsýra. Hann hafi rankað við sér uppi í rúmi með buxurnar niður um sig og kvartað undan eymslum í endaþarmi, en hafi ekki munað eftir nauðguninni sjálfri.

IV

A

                Samkvæmt læknisvottorði J, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítalans, 12. desember 2010, kom brotaþolinn B á bráðamóttöku 12. september 2010 og greindi frá því að hann hefði verið í töluverðri neyslu blandaðra fíkniefna dagana á undan og lítið nærst. Hefði hann verið með kviðverki, svima og höfuðverk en neitað hjartsláttarköstum, breytingum á hægðum og þvagi, hósta eða hita. Þá segir í vottorðinu að brotaþoli sé ekki bráðveikindalegur að sjá og hjarta- og lungnahlustun sé eðlileg. Væg eymsli séu yfir lifrarstað. Einnig að teknar hafi verið blóðprufur sem hafi reynst eðlilegar. Greining sé „eitrun af öðrum og ótilgreindum lyfjum, meðulum og lífrænum efnum ...“ Loks segir í vottorðinu að brotaþoli hafi fengið tvær parkódín verkjatöflur á bráðamóttökunni og líði nokkuð betur við það. Hann lýsi ekki frekari einkennum eða því sem gerst hafi dagana á undan. Brotaþoli hafi verið útskrifaður heim eftir nokkurra tíma eftirlit á bráðamóttöku með ráðleggingar um að leita til geðdeildar morguninn eftir til að fá hjálp með sína neyslu.

                Í vottorði K, sálfræðings hjá Barnahúsi 12. mars 2014, segir meðal annars að brotaþolinn B hafi alla tíð haldið því fram í viðtölum að vanlíðan hans og andlegir erfiðleikar tengdust fyrst og fremst meintu kynferðisbroti ákærða Birkis Más. Þá segir að þótt önnur kynferðisbrot hafi haft slæm áhrif á líðan brotaþola og að vandi hans sé fjölþættur tengi hann þann vanda sem önnur kynferðisbrot hafi haft á hann einkum við lélegt sjálfstraust, sjálfsmynd og slaka sjálfsvirðingu. Hafi brotaþoli haft mikla þörf fyrir að ræða þau áhrif sem hann telji að meint brot ákærða Birkis Más hafi haft á hann. Segist hann ekki hafa haft neina stjórn á aðstæðum sökum þess ástands sem hann hafi verið í en brotaþoli haldi því fram að ákærði hafi byrlað sér smjörsýru. Hafi hann lýst mikilli vanlíðan vegna meints brots og sýnt mörg einkenni sem þekkt séu meðal þolenda kynferðislegs ofbeldis. Til að mynda hafi hann átt erfitt með að takast á við stöðugar og óvelkomnar hugsanir um atburðinn. Í viðtali 23. febrúar 2014 hafi brotaþoli sagt að hann geti aldrei sofið um nætur vegna hugsana um meintan geranda og allt sem tengist honum. Segist hann muna ótrúlegustu hluti í smáatriðum eins og hvernig heimili ákærða Birkis Más líti út, kynlífsleikföng sem hann kveður ákærða hafa sýnt sér og „viðbjóðslegar myndir í tölvunni hans af honum nöktum með öðrum strákum og/eða stelpum“. Segi brotaþoli að slíkar hugsanir sæki á sig í tíma og ótíma en samt eigi hann í erfiðleikum með að muna nákvæmlega hvað hafi gerst. Brotaþoli sýni því fjölmörg einkenni áfallastreituröskunar. Tengi hann þessa vanlíðan fyrst og fremst við meint kynferðisbrot af hálfu ákærða Birkis Más. Loks segir í vottorðinu að viðtalsmeðferð sé ekki lokið og ljóst að brotaþoli muni sækja viðtöl um óákveðinn tíma. Ekki sé unnt að segja til um það að svo stöddu hvort brotaþoli muni ná sér eftir hið kynferðislega ofbeldi sem hann kveðst hafa sætt.

                Í vottorði K, sálfræðings hjá Barnahúsi, 12. mars 2014 segir meðal annars að vandi brotaþolans C sé fjölþættur og glími hún við flóknar afleiðingar endurtekinna kynferðisbrota. Erfitt sé að segja til um það með vissu hvaða áhrif þau meintu kynferðisbrot sem um ræði hafi haft á líðan brotaþola en í samtölum við hana og móður hennar komi fram að vanlíðan brotaþola tengist að langmestu leyti því broti sem um ræði. Ljóst sé að fyrir þann atburð hafi sjálfsmynd brotaþola verið mjög veik og sjálfstraust lítið. Megi það að einhverju leyti rekja til þess að hún hafi ung komist í kynni við kynferðislegar athafnir sem hún hafði vegna ungs aldurs og þroskaleysis ekki forsendur til að takast á við. Þá hafi brotaþoli verið í afar slöku andlegu jafnvægi vegna langvarandi fíkniefnaneyslu þegar meintur gerandi hafi brotið gegn henni, auk þess að vera einungis rétt tæplega 14 ára. Slík kynferðisbrot, sem framin séu gegn ungum börnum sem þegar eigi við andlega erfiðleika að stríða, séu til þess fallin að hafa afar neikvæð áhrif á líðan þeirra. Enn fremur segir að erfitt sé að segja til um meðferðarþörf brotaþola þegar til lengri tíma sé litið en algengt sé að þolendur kynferðislegs ofbeldis og áreitni glími við afleiðingarnar fram á fullorðinsár, einkum í tengslum við kynlíf, meðgöngu, fæðingu og í tengslum við áföll síðar á lífsleiðinni.

B

                Vitnið K sálfræðingur gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að brotaþolinn B ætti langa sögu í Barnahúsi, alveg frá því í febrúar 2010 þegar hann hafi verið tæplega 14 ára og kom fyrst í skýrslutöku vegna gruns um að ókunnir aðilar hafi verið að greiða honum fyrir kynlíf. Ekkert hafi komið fram við skýrslutökuna eða mjög lítið og hann hafi ekki mætt í bókuð viðtöl á þeim tíma. Í október 2010 hafi B farið aftur í skýrslutöku og þá vegna þess máls sem nú væri til meðferðar nú. Í kjölfarið var honum aftur vísað í meðferðarviðtöl sem hann mætti í mjög reglulega. Síðan hafi hann verið kallaður í viðtöl vegna dómsmála í apríl og júní 2011, en á þeim tíma hafi verið gerð stutt hlé á viðtölunum en síðan þá og þar til nú hafi hann komið reglulega í viðtöl. Á þessu fjögurra ára tímabili hafi hann fallið aftur í viðjar fíkniefna og þá hætt að koma. Eftir áramótin hafi hann viljað byrja í viðtölum aftur og kvaðst vitnið hafa hitt brotaþola þrisvar á þessu ári og muni halda áfram að hitta brotaþola um óákveðinn tíma. Vitnið kvaðst hafa hitt brotaþola í alls 42 skipti, vandi hans væri flókinn og hafi hann lent í endurteknum kynferðisbrotum. Rauði þráðurinn hafi alla tíð verðið mál það sem sé nú til meðferðar og hafi brotaþoli talið að það hefði haft mest áhrif á sig andlega. Hafi brotaþoli greinst með áfallastreituröskun sem hann hafi náð ágætum tökum á að einhverju leyti en ekki öllu. Vitnið kvað brotaþola hafa verið með miklar sjálfsásakanir og sektarkennd og sett ábyrgðina á sjálfan sig og hafi verið unnið mikið með það. Brotaþoli sjái það í dag, þegar hann sé að verða 18 ára, hversu mikla yfirburði viðkomandi gerandi hafi haft gagnvart honum þegar hann hafi verið rétt nýorðinn 14 ára. Hafi brotaþoli sýnt mjög alvarleg einkenni sem séu þekkt meðal barna sem hafi orðið fyrir kynferðisbrotum. Hann hafi tengt flest þessara einkenna við þetta brot og það hafi vitnið líka gert í sinni vinnu. Vitnið staðfesti fyrir dóminum vottorð sem það vann um viðtöl við brotaþolann B um mat á afleiðingum vegna ætlaðra kynferðisbrota ákærða gegn honum.  

                Vitnið kvaðst einnig hafa tekið viðtöl við C vegna málsins. Hafi hún einnig glímt við fjölþættan vanda og lent í öðrum kynferðisbrotum. Hún hafi verið í harðri fíkniefnaneyslu sem hún hafi náð tökum á og hafi hún nú verið edrú í nær þrjú ár. Hún hafi unnið vel úr afleiðingum brotsins en á meðan á viðtölum stóð greindist hún með áfallastreituröskun yfir klínískum mörkum. Hafi vinnan fyrst og fremst farið í að vinna hana út úr því og hefði það tekist ágætlega þó að hún væri ennþá viðkvæm og tætt. Vitnið staðfesti fyrir dóminum vottorð sem það vann um viðtöl við C um mat á afleiðingum vegna ætlaðra kynferðisbrota ákærða gegn henni.

                Vitnið J læknir gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að brotaþolinn B hafi komið á bráðamóttöku Landspítalans 12. september 2010 rétt fyrir miðnætti en honum hafði þann dag liðið nokkuð illa, verið með kviðverki, svima og höfuðverk og sagt svo frá að hann hefði verið í töluverðri blandaðri neyslu dagana þar á undan og nærst lítið. Skoðun hafi leitt í ljós væg eymsli í kviðnum en annars ekkert athugavert að finna. Blóðprufur hafi reynst eðlilegar. Hann hafi fengið verkjameðferð með parkódín verkjatöflum og liðið betur eftir það. Hann hefði verið í eftirliti í nokkra klukkutíma á bráðamóttökunni en lýsti ekki frekari einkennum þegar hann útskrifaðist og vildi ekki ræða frekar það sem gerst hefði dagana á undan. Þá kom fram hjá vitninu að brotaþola hafi verið ráðlagt að leita eftir aðstoð til að hætta þeirri neyslu sem hann hefði verið í þegar hann útskrifaðist. Einnig að ekki hefði verið gerð leit að fíkniefnum með blóðprufunum. Vitnið bar að brotaþoli hefði ekki minnst á að hann hefði orðið fyrir kynferðisbroti. Vitnið staðfesti vottorð sem það ritaði 12. desember 2010.

                Vitnið L geðlæknir gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að ákærði Birkir Már hefði talsverða neyslusögu. Hann hafi verið greindur með geðhvarfasýki og væri í lyfjameðferð og eftirliti á heilsugæslustöðinni á Siglufirði. Vitnið kvaðst mest hafa haft með ákærða Birki Má að gera haustið 2011 þegar hann hafi tvívegis lagst inn eftir sjálfsvígstilraun. Hann hafi ekki verið þunglyndur á þeim tíma en það hafi greinilega verið álagstengt. Hann hafi verið kvíðinn yfir yfirheyrslum hjá lögreglu og í framhaldinu hafi þyrmt yfir ákærða sem hafi gert sjálfsvístilraunir. Vitnið kvaðst ekki hafa gögn um fyrri lyfjameðferð ákærða en bar að meðferðin hefði verið svipuð frá því að hann hitti ákærða fyrst. Þá bar vitnið að ákærði gæti orðið alvarlega veikur ef hann hætti að taka lyfin. Samkvæmt gögnum sem vitnið kvaðst hafa undir höndum hafi ákærði fengið greiningu um geðhvarfasýki haustið 2008. Vitnið staðfesti vottorð sem það vann fyrir ákærða Birki Má í málinu, dagsett 1. apríl 2014.

V

Ákæruliður I. 1:

                Ákærða Birki Má Ingimarssyni er gefið að sök kynferðisbrot gegn A, með því að hafa í lok maí 2010, er stúlkan var 14 ára, haft samræði við hana. Telst það varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ákærði játaði sök við fyrirtöku málsins 10. febrúar 2014 en gat þess að samræðið hefði verið með fullu samþykki brotaþola. Brotaþoli bar um það bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að hún og ákærði hefðu stundað kynlíf saman með hennar vilja. Fyrir dómi staðfesti ákærði að honum hefði verið kunnugt um það að brotaþoli hefði verið 14 ára þegar samræðið átti sér stað. Játning ákærða verður ekki dregin í efa. Þykir sannað með játningu ákærða, sem á sér stoð í gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir. Verður ákærði sakfelldur fyrir háttsemina. Brot ákærða er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæruskjali ríkissaksóknara.

Ákæruliður I. 2:

                Ákærða er gefið að sök brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa 6. júní 2010 veitt C, þá 13 ára, og D, þá 14 ára, aðgang að fíkniefnum. Er þetta talið varða við 2. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Ákærði játaði sök við fyrirtöku málsins 10. febrúar 2014. Játning ákærða verður ekki dregin í efa. Þykir sannað með játningu ákærða, sem á sér stoð í gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir. Verður ákærði sakfelldur fyrir háttsemina. Brot ákærða er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæruskjali ríkissaksóknara.

 Ákæruliður I. 3:  

                Samkvæmt þessum ákærulið er ákærða gefið að sök sifskaparbrot með því að hafa frá kvöldi fimmtudagsins 9. september 2010 til aðfaranætur sunnudagsins 12. september 2010 stuðlað að því að E, þá 15 ára, B, þá 14 ára, og C, þá 13 ára, komu sér undan valdi og umsjá foreldra sinna, en börnin dvöldu á heimili hans þennan tíma. Ákærði neitaði sök við fyrirtöku málsins 10. febrúar 2014. Hann tók fram að brotaþolar hefðu dvalið hjá honum eina nótt á þessu tímabili en honum hafi ekki verið ljóst að þau hefðu strokið frá foreldrum. Þá hefði hann fengið þær upplýsingar frá C að þau E og B væru fædd 1993.

                Fyrir dómi bar vitnið C að hún myndi ekki hvað þau hefðu verið lengi heima hjá ákærða Birki Má, en það hefði alla vega verið einn sólarhringur, kannski tveir. Vitnið fullyrti að ákærði hefði vitað um aldur hennar en var ekki viss um að hafa sagt honum aldur B eða E. Þá taldi vitnið sig muna það að ákærði hefði frá upphafi vitað um að þau hefðu strokið að heiman. Vitnið E bar fyrir dómi að þau hefðu komið til ákærða Birkis Más að kvöldi um klukkan 11.00 eða 12.00 og verið hjá honum á föstudeginum. Eftir það hefði ákærði ekið þeim í bæinn. Hjá vitninu kom einnig fram að ákærða hefði verið kunnugt um aldur þeirra. Þá fullyrti brotaþolinn B fyrir dómi að ákærða hefði verið kunnugt um að þau hefðu strokið. Hefði ákærði vitað þetta frá upphafi enda hefði honum verið sagt frá því. Í skýrslu, sem tekin var af vitninu í Barnahúsi 22. október 2010, greindi vitnið frá því að það hefði sagt ákærða frá því að vitnið væri 14 ára. Framburður ákærða um að hann hafi talið þau E og B vera 16-17 ára þykir ótrúverðugur og verður ekki á honum byggt í málinu.  

                Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið þykir sannað með framburði C, B og E þannig að hafið er yfir skynsamlegan vafa að ákærða var kunnugt um aldur brotaþola og að þau voru að koma sér undan valdi foreldra sinna þegar þau komu á heimili hans að [...] í [...]. Ráða má af framburði ákærða, sem fær stoð í gögnum málsins, að E, B og C hafi komið á heimili ákærða fimmtudagskvöldið 9. september 2010 og að þau hafi dvalið þar í að minnsta kosti einn sólarhring. Má ráða það af framburði C sem bar fyrir dómi að þau hefðu dvalið á heimili ákærða „alla vega í sólarhring, kannski tvo“. Hjá E kom fram fyrir dómi að þau hefðu komið að kvöldi um klukkan 11.00 eða 12.00 og verið föstudaginn. Samkvæmt þessu þykir nægilega sannað að brotaþolar hafi dvalið hjá ákærða í um sólarhring en ekki í þrjá sólarhringa eins og lýst er í ákæruskjali ríkissaksóknara, það er frá því fimmtudagskvöldið 9. september og fram á kvöld föstudagsins 10. september 2010. Hefur ákæruvaldinu að mati dómsins ekki tekist sönnun um að framangreind börn hafi dvalið hjá ákærða frá því að kvöldi fimmtudagsins 9. september til aðfaranætur sunnudagsins 12. september 2010, eins og fullyrt er í 3. tölulið í I. kafla ákærunnar. Hafa verður í huga að samkvæmt framburði ákærða, sem þykir ekki að þessu leytinu til ótrúverðugur, kom lögregla á heimili ákærða og spurðist fyrir um afdrif brotaþola einhvern tíman eftir að þau höfðu yfirgefið heimilið. Stóð það ákæruvaldinu nær en ákærða að sýna fram á hvaða dag það var, en það var ekki upplýst í málinu og verður ákæruvaldið að bera hallann af því. 

                Samkvæmt þessu verður ákærði Birkir Már sakfelldur fyrir sifskaparbrot með því að hafa frá kvöldi fimmtudagsins 9. september og föstudaginn 10. september 2010 stuðlað að því að E, þá 15 ára, B, þá 14 ára, og C, þá 13 ára, komu sér undan valdi og umsjá foreldra sinna, en þau dvöldu á heimili ákærða þennan tíma. Er háttsemi ákærða réttlega heimfærð til refsiákvæða almennra hegningarlaga.

Ákæruliður I. 4:

                Samkvæmt þessum ákærulið og framhaldsákæru útgefinni 13. mars 2014 er ákærða gefið að sök brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa á sama tíma og greinir í ákærulið 3 veitt börnum sem þar eru tilgreind aðgang að fíkniefnum og smjörsýru. Ákærði játaði sök við fyrirtöku málsins 10. febrúar 2014. Játning ákærða verður ekki dregin í efa. Þykir sannað með játningu ákærða, sem á sér stoð í gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir. Verður ákærði sakfelldur fyrir háttsemina. Brot ákærða er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæruskjali ríkissaksóknara.

Ákæruliður I. 5:

                Samkvæmt þessum ákærulið er ákærða Birki Má gefin að sök nauðgun, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 10. september 2010, gefið B, þá 14 ára, fíkniefni og smjörsýru svo að honum varð ekki sjálfrátt, farið með hann inn í svefnherbergi sitt, klætt hann úr fötum, strokið og nuddað á honum kynfærin, látið hann gera það sama við sig og nuddað kynfærum sínum og líkama upp við líkama hans.

                Ákærði neitar sök. Hann viðurkennir að hafa strokið og nuddað kynfæri brotaþola, látið hann gera það sama við sig og nuddað kynfærum sínum og líkama upp við líkama brotaþola. Kvað ákærði lýsingu á háttsemi í 5. tölulið í I. kafla ákærunnar vera rétta að því leyti en neitaði því að hafa haft önnur mök við brotaþola. 

                Í skýrslu sem tekin var af brotaþolanum B í Barnahúsi 22. október 2010 greindi hann frá því að ákærði Birkir Már hefði farið með hann úr stofunni og inn í svefnherbergi og lokað hurðinni. Kvaðst brotaþoli ekki vita hvað hafi gerst nema að ákærði hafi klætt brotaþola úr fötunum og farið sjálfur úr fötunum. Eftir það kvaðst brotaþoli ekkert muna, eiginlega bara farið í algjört „blackout“. Spurður um það hvað hafi gerst í herberginu sagði brotaþoli að ákærði hefði tekið í hendurnar á honum og sett þær á typpið á sér en brotaþoli kvaðst ekki muna þetta alveg 100 % og gæti því ekki fullyrt þetta allt saman enda myndi hann ekki hvað hefði átt sér stað í herberginu. Spurður um það hvað ákærði hefði gert við hann kvaðst brotaþoli ekki muna það. Spurður um það hvort eitthvað annað hafi gerst en að hann hafi snert typpið á ákærða kvaðst brotaþoli muna að eitthvað hefði gerst en hann myndi bara ekki hvað. Þegar brotaþoli hafi rankað við sér hafi hann verið uppi í rúmi með ákærða og báðir verið naktir.

                Við aðalmeðferð málsins greindi brotaþoli frá því að ákærði hefði gefið honum fíkniefni og smjörsýru. Vitnið kvaðst ekki muna atburði nákvæmlega en bar að það hefði rankað við sér inni í herbergi ákærða og þá verið illt í endaþarminum. Vitnið kvaðst ekki muna hvernig hann hafi komist inn í herbergið og ekki muna eftir neinum samskiptum við ákærða inni í herberginu. Hann hafi verið 14 ára og mjög dópaður í umrætt sinn. Vitnið kvaðst minnast þess að ákærði hefði verið með honum í rúmi þegar hann hafi rankað við sér en mundi ekki hvort þeir hefðu verið í fötum eða ekki. Vitnið kvaðst muna atburði óljóst og ekki minnast þess að þeir hafi rætt saman. Þá bar vitnið að því hefði liðið illa eftir atburðina. Spurður um af hverju sagði vitnið orðrétt: „Af því að hann nauðgaði mér“. Spurður nánar um það hvers vegna vitnið fullyrti þetta en myndi ekki atburði sagði vitnið orðrétt: „Af hverju ætti mér að vera illt í endaþarminum? – af því bara ... það er ekki svoleiðis.“ Vitnið kvaðst hafa tekið mikið af fíkniefnum, amfetamín, kannabis, einhverjar pillur auk smjörsýru og verið mjög dópað. Hefði ákærði látið vitnið hafa fíkniefnin. Þá kvaðst vitnið ráma í að ákærði hafi leitt vitnið inn í herbergið.

                Vitnið C greindi frá því fyrir dómi að hún myndi eftir því að ákærði Birkir Már og brotaþolinn B hefðu byrjað að kyssast og strjúka hvor öðrum. Þeir hafi svo farið inn í svefnherbergi og læst á eftir sér. Vitnið kvaðst hafa heyrt stunur og bankað á dyrnar. Eftir að stunurnar hættu hafi ekki náðst í þá í marga klukkutíma. Vitnið lýsti því að brotaþoli hefði verið orðinn þvoglumæltur, rauður í augunum og átt erfitt með rökhugsun og hafi áreiðanlega ekki vitað hvað hann var að gera. Hann hefði þó getað gengið. Þannig hafi ástandið á brotaþolanum B verið áður en hann og ákærði hafi farið inn í herbergið. Vitnið kvaðst ekki geta gert sér grein fyrir því hvort samskipti B og ákærða Birkis Más hafi verið með samþykki B sem hafi tekið virkan þátt í athöfnunum. Þá bar vitnið að brotaþoli hefði ekki talað um það „orðrétt“ hvað gerst hefði í herberginu, en vitnið kvaðst geta giskað á það sem gerðist miðað við að heyra stunur úr herberginu.

                Vitnið E gaf skýrslu fyrir dómi og greindi frá því að hún ætti erfitt með að muna atburði frá 9. september 2010, enda hefði vitnið, C og B öll verið uppdópuð. Fram kom hjá vitninu að B hefði varla getað staðið og hefði ákærði haldið í hann. Kvaðst vitnið hafa lognast út af eftir tvö staup af smjörsýru en þá hafi ákærði og B verið farnir inn í herbergi. Þegar B hafi komið fram hafi þeim liðið illa og viljað fara. Spurð um það hvort B hefði sagt vitninu hvað hefði gerst inni í herberginu greindi vitnið frá því að hann hefði sagt að ákærði hefði gefið honum meira af smjörsýrunni og að þá hefði hann lognast út af og hefði ekkert munað eftir því.

                Fram er komið að ákærði kveður verknaðarlýsingu ákærunnar samkvæmt 5. tölulið vera rétta að því leyti að hann játar án undanbragða að hafa strokið og nuddað kynfæri brotaþola, látið hann gera það sama við sig og nuddað kynfærum sínum og líkama upp við líkama brotaþola. Spurður um það í skýrslutöku í Barnahúsi 22. október 2010 hvað hefði gerst í svefnherberginu greindi brotaþoli frá því að ákærði hefði tekið í hendurnar á honum og sett þær á typpið á sér en kvaðst síðan ekki muna þetta alveg og gæti því ekki fullyrt þetta allt saman, enda myndi hann ekki hvað hefði gerst í herberginu. Kvaðst brotaþoli muna að eitthvað hefði gerst en hann myndi ekki hvað. Spurður um það í sömu skýrslu hvort brotaþoli hafi viljað eiga kynferðisleg samskipti við ákærða svaraði brotaþoli því neitandi en að hann hefði ekki þorað annað en að fara með ákærða. Þá greindi brotaþoli frá því að þegar þeir hafi verið í svefnherberginu hefði vitnið C bankað á hurðina til að reyna að fá þá fram til að hjálpa E sem hafi „overdosað“ af smjörsýru.

                Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrgði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag. Þá metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn, sbr. 1. mgr. 109. gr. laganna. Einnig metur dómari, ef þörf krefur, hvert sönnunargildi þær staðhæfingar hafa sem varða ekki beinlínis það atriði sem sanna skal, en ályktanir má leiða um það, sbr. 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008.

                Upplýst er í málinu að ákærði og vitnin C, E og B neyttu öll fíkniefna og smjörsýru á heimili ákærða aðfaranótt föstudagsins 10. september 2010 og að ákærði og brotaþolinn B fóru saman inn í svefnherbergi ákærða og dvöldu þar í einhvern tíma. Eru þeir einir til frásagnar um það sem þar gerðist en um það ber þeim ekki saman. Ákærði viðurkennir eins og fram er komið þá háttsemi að hafa strokið og nuddað kynfæri brotaþola, látið hann gera það sama við sig og nuddað kynfærum sínum og líkama upp við líkama brotaþola. Hefur ákærði borið um þessi atvik málsins með svipuðum hætti hjá lögreglu og fyrir dómi. Brotaþolinn B greindi frá því í skýrslu í Barnahúsi rúmum mánuði eftir þessi atvik að ákærði hafi tekið í hendurnar á honum og sett þær á typpið á sér en kvaðst þó ekki muna það alveg örugglega. Þá bar hann einnig að meira hafi gerst en gat ekki borið um það hvað það hefði verið. Hann greindi einnig frá því að bankað hefði verið á hurðina á meðan þeir voru þar inni. Þá liggur fyrir að við skoðun á bráðamóttöku Landspítala 12. september 2010 lýsti brotaþolinn ekki ofbeldi gegn sér samkvæmt því sem greinir í vottorði J og skýrslu hans fyrir dómi. Við aðalmeðferð málsins fullyrti brotaþoli á hinn bóginn að ákærði hefði nauðgað honum í umrætt sinn og dró þá ályktun sína af því honum hafi verið illt í endaþarminum. Vitnið C lýsti því fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að hún hefði séð ákærða og B vera að kyssast í stofunni áður en þeir fóru inn í svefnherbergið. Hún kvaðst ekki vita hug brotaþola en lýsti því að hann hefði tekið virkan þátt í athöfnum þeirra. Um ástandið á brotaþola áður en hann og ákærði fóru inn í svefnherbergið bar vitnið að brotaþoli hafi verið þvoglumæltur og rauður í augunum en hann hefði þó getað gengið. Hvorki verður ráðið af framburði brotaþolans B né vitnanna C og E að ákærði hafi beitt B nauðung með þeim hætti sem ákært er fyrir samkvæmt þessum ákærulið og að því virtu sem að framan er rakið er það mat dómsins að framburður brotaþola hafi ekki þá stoð í öðrum gögnum málsins að nægi, gegn eindreginni og staðfastri neitun ákærða, til þess að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrgði sem á því hvílir, sbr. ákvæði 108. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Að mati dómsins þykir því ósannað að ákærði hafi brotið gegn brotaþolanum B með þeim hætti að háttsemin eigi undir 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ákærði hefur gengist við þeim sakargiftum að hafa strokið og nuddað kynfæri brotaþola innan klæða, látið hann gera það sama við sig og nuddað kynfærum sínum og líkama upp við líkama brotaþola. Þykir sá framburður einnig fá nokkra stoð í framburði brotaþola í Barnahúsi og við aðalmeðferð málsins sem rakið er að framan. Þá hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu, sbr. umfjöllun hér að framan um ákærulið I.3 að sannað þyki að ákærði hafi frá upphafi vitað aldur brotaþola, það er þegar hann kom á heimili ákærða fimmtudaginn 9. september 2010. Í 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir að hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 15 ára skuli sæta fangelsi, ekki skemur en í eitt ár og allt að 16 árum. Lækka má refsinguna eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi. Brotaþoli var 14 ára þegar atvikið átti sér stað og ákærði 24 ára. Samkvæmt því og öðru framangreindu hefur ákærði að mati dómsins gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Ekki hefur verið sýnt fram á að fyrrgreind refsilækkunarheimild eigi við í málinu. Verður ákærði sakfelldur fyrir framangreinda háttsemi sem heimfærð er til refsiákvæða í 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

 Ákæruliður I, 6:

                Í þessum ákærulið er ákærða Birki Má gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa miðvikudaginn 13. október 2010, og um nokkurt skeið fram til þess dags, á þáverandi heimili sínu að [...],[...], haft í vörslum sínum á Spire-flakkara, borðtölvu, Nokia N92 farsíma, 6 ljósmyndir og 13 hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, en tölvubúnaðurinn með myndefninu var haldlagður sama dag.

                Ákærði játaði sök við fyrirtöku málsins 10. febrúar 2014. Einnig samþykkti ákærði upptökukröfu ákæruvaldsins. Játning ákærða verður ekki dregin í efa. Þykir sannað með játningu ákærða, sem á sér stoð í gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem ákært er fyrir. Verður ákærði sakfelldur fyrir háttsemina. Brot ákærða er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæruskjali ríkissaksóknara. Með vísan til 1. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður samþykkt krafa ákæruvaldsins um upptöku á ýmsum tölvubúnaði, farsíma og myndefni eins og nánar er lýst í dómsorði. 

Ákæruliður II, 7: 

                Samkvæmt þessum ákærulið er báðum ákærðu, Birki Má Ingimarssyni og Davíð Páli Jónssyni, gefið að sök kynferðisbrot „með því að hafa laugardaginn 25. september 2010 í sameiningu áreitt C, þá 13 ára, kynferðislega er hún var sofandi á þáverandi heimili ákærða Birkis Más að [...],[...], en ákærði Davíð Páll fletti niður um hana brjóstahaldara og bol svo sást í bert brjóst hennar og ákærði Birkir Már tók ljósmyndir af athæfinu á farsíma sinn af gerðinni Nokia N92.“

                Ákærðu hafa báðir játað sök án undanbragða. Verður játning þeirra ekki dregin í efa. Þykir sannað með játningu ákærðu, sem á sér stoð í gögnum málsins, að ákærðu hafi gerst sekir um þá háttsemi sem lýst er í ákæruskjali ríkissaksóknara. Verða ákærðu sakfelldir fyrir þessa háttsemi. Brot ákærðu er réttilega heimfært til refsiákvæða í ákærunni.

VI

                Ákærði Birkir Már Ingimarsson er fæddur á árinu 1986. Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann undir sátt 12. janúar 2004 um greiðslu sektar fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Þann 21. janúar 2010 gekkst ákærði undir sátt um greiðslu sektar fyrir brot gegn vopnalögum nr. 16/1998. Með dómi 28. febrúar 2011 var ákærði dæmdur til greiðslu 160.000 sektar fyrir brot gegn umferðarlögum nr. 50/1987 og lögum um ávana- og fíkniefni. Var ákærði sviptur ökurétti í 12 mánuði. Loks var ákærði dæmdur 15. júní 2011 til greiðslu 500.000 króna sektar fyrir brot gegn vopnalögum nr. 16/1998, umferðarlögum nr. 50/1987 og lögum um ávana- og fíkniefni. Sá dómur var hegningarauki við fyrrnefndan dóm frá 28. febrúar sama ár. Brot ákærða Birkis Más samkvæmt ákæru 20. desember 2013 voru framin áður en fyrrnefndir dómar gengu á hendur honum í febrúar og júní 2011 og ber því að gera ákærða hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Samkvæmt því sem að framan greinir og rakið er í kafla V hér að framan verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í 3. og 5. tölulið í I. kafla ákæru ríkissaksóknara, auk þeirra fimm töluliða þar sem ákærði hefur játað sakargiftir. Við ákvörðun refsingar ákærða Birkis Más verður litið til 1. og 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði á sér ekki aðrar málsbætur en þær að hafa játað fimm ákæruliði af sjö. Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að mál þetta hefur dregist úr hófi fram. Rannsókn lögreglu á málinu virðist hafa lokið í nóvember 2011, eða rúmu ári eftir að atvik þau sem eru tilefni ákærunnar gerðust. Ákæra í málinu var ekki gefin út fyrr en rúmum tveimur árum síðar eða rúmur þremur árum eftir að umrædd atvik áttu sér stað. Engu breytir í þessu sambandi þótt lögregla hafi óskað eftir DNA rannsókn í júlímánuði 2013 á sýnum teknum í september 2010, enda er engar upplýsingar að finna í málsgögnum um tilefni svo síðbúinnar rannsóknar. Samkvæmt því liggur fyrir að óhóflegur og óútskýrður dráttur varð á málinu fyrir útgáfu ákæru sem ákærða verður í engu um kennt. Er það í andstöðu við ákvæði 2. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, svo og 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár og níu mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

                Ákærði Davíð Páll Jónsson er fæddur á árinu 1988. Samkvæmt sakavottorði hans gekkst hann undir sátt 29. september 2011 um 170.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í 12 mánuði fyrir brot gegn umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Sátt þessi hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu, en við ákvörðun refsingar fyrir brot ákærða verður litið til þess að hann játaði brotið greiðlega og samþykkti bótaskyldu í málinu. Hins vegar verður ekki litið fram hjá því að mál þetta hefur dregist úr hófi fram svo sem áður er rakið. Fyrir liggur að óhóflegur og óútskýrður dráttur varð á málinu fyrir útgáfu ákæru sem ákærða verður í engu um kennt. Þykir refsing ákærða Davíðs Páls hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

VI

                Í málinu gerir F, vegna ólögráða dóttur sinnar, A, kröfu um að ákærði Birkir Már Ingimarsson verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð 1.300.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2010 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfunnar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði krefst þess aðallega að bótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að krafan verði lækkuð. Brotaþoli á rétt til miskabóta úr hendi ákærða vegna hinnar ólögmætu meingerðar sem fólst í broti ákærða sem hann er sakfelldur fyrir, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og þykja bæturnar hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Verður ákærði dæmdur til að greiða þær með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Ákærða var birt bótakrafan 24. nóvember 2011 og miðast upphaf dráttarvaxta við það þegar 30 dagar eru liðnir frá þeim degi.   

                Þá er af hálfu G, vegna ólögráða sonar hennar, B, gerð krafa um að ákærði Birkir Már Ingimarsson verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð 1.800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. september 2010 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu þessarar en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Ákærði krefst þess aðallega að bótakröfunni verði vísað frá dómi, en til vara að krafan verði lækkuð. Brotaþoli á rétt til miskabóta úr hendi ákærða vegna hinnar ólögmætu meingerðar sem fólst í broti ákærða sem hann er sakfelldur fyrir, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og þykja bæturnar hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Verður ákærði dæmdur til að greiða þær með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Ákærða var birt bótakrafan 24. nóvember 2011 og miðast upphaf dráttarvaxta við það þegar 30 dagar eru liðnir frá þeim degi.

                Einnig krefst H, vegna ólögráða dóttur sinnar, C, þess að ákærðu Birkir Már Ingimarsson og Davíð Páll Jónsson verði dæmdir til að greiða henni miskabætur in solidum að fjárhæð 1.800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. september 2010 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfunnar en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr.,  laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Ákærðu gera þá kröfu að bótakrafan verði lækkuð. Brotaþoli á rétt til miskabóta úr hendi ákærðu vegna hinnar ólögmætu meingerðar sem fólst í broti ákærðu sem þeir eru sakfelldir fyrir, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, og þykja bæturnar hæfilega ákveðnar 150.000 krónur. Verða ákærðu dæmdir til að greiða þær in solidum með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Ákærða Davíð Páli var birt bótakrafan 15. september 2011, en ákærða Birki Má 24. nóvember 2011. Rétt þykir með vísan til heimildar í 2. málslið 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu að ákveða að upphaf dráttarvaxta verði miðað við það þegar 30 dagar eru liðnir frá síðarnefnda deginum.

VII

                Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærðu til að greiða allan sakarkostnað málsins. Samkvæmt yfirliti sækjanda nemur þegar útlagður sakarkostnaður 222.945 krónum. Er það vegna læknisvottorðs Neyðarmóttöku að fjárhæð 32.000 krónur; læknisvottorðs vegna brotaþolans B að fjárhæð 30.050 krónur, matsgerðar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði að fjárhæð 125.382 krónur. Loks er um að ræða útlagðan kostnað vegna þóknunar verjanda Davíðs Páls Jónssonar fyrir vinnu á rannsóknarstigi málsins að fjárhæð 34.513 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Hvorki verður séð að kostnaður vegna læknisvottorðs Neyðarmóttöku né matsgerðar Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði varði sakargiftir samkvæmt ákæru ríkissaksóknara 20. desember 2013 eða framhaldsákæru 13. mars 2014 og því eru ekki efni til að dæma ákærðu til að greiða þennan kostnað.

                Ákærði Birkir Már Ingimarsson verður dæmdur til að greiða kostnað við öflun læknisvottorðs vegna brotaþolans B að fjárhæð 30.050 krónur sem og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, vegna vinnu hans fyrir dómi og sem tilnefndur verjandi ákærða við lögreglurannsókn málsins. Þykir þóknun verjandans, sem ákveðin er í einu lagi, hæfilega ákveðin 941.250 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, auk ferðakostnaðar, 30.600 krónur, og kostnaðar vegna læknisvottorðs Karls R. Einarssonar geðlæknis, 51.000 krónur. Þá ber ákærða enn fremur að greiða hluta af þóknun réttargæslumanns brotaþolanna A, B og C, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, sem þykir í heild hæfilega ákveðin 627.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Af þeirri fjárhæð greiði ákærði Birkir Már 552.000 krónur. Ákærði Birkir Már greiði því samtals 1.604.900 krónur í sakarkostnað.

                Ákærði Davíð Páll Jónsson verður samkvæmt framangreindu dæmdur til að greiða áfallinn sakarkostnað að fjárhæð 34.513 krónur vegna vinnu Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða á rannsóknarstigi málsins, sem og málsvarnarþóknun vegna vinnu verjandans við málið fyrir dómi, sem þykir hæfilega ákveðin 125.500 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Þá ber ákærða enn fremur að greiða hluta af þóknun réttargæslumanns brotaþolans C, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum. Ákærði Davíð Páll greiði því samtals 235.013 krónur í sakarkostnað. 

                Ákæruvaldið krefst upptöku á Spire-flakkara, borðtölvu, Nokia N92 farsíma, sex ljósmyndum og 13 hreyfimyndum sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt, en tölvubúnaður með myndefninu var haldlagður á þáverandi heimili ákærða Birkis Más Ingimarssonar að [...], 13. október 2010, samkvæmt heimild í 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði Birkir Már samþykkti kröfu ákæruvaldsins og verður því fallist á hana samkvæmt greindu ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og nánar greinir í dómsorði.

                Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

                Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Af hálfu ákæruvalds, réttargæslumanns brotaþola, verjenda ákærðu og dómara var ekki talin þörf á að málið yrði flutt að nýju.

                Málið dæma héraðsdómararnir Jón Höskuldsson, sem dómsformaður, Kristinn Halldórsson og Ragnheiður Bragadóttir.

Dómsorð:

                Ákærði Birkir Már Ingimarsson sæti fangelsi í tvö ár og níu mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Ákærði Birkir Már greiði A, 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. maí 2010 til 24. desember 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærði Birkir Már, B, 600.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. október 2010 til 24. desember 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laganna frá þeim degi til greiðsludags. Loks greiði ákærði Birkir Már, C, 150.000 krónur in solidum með ákærða Davíð Páli Jónssyni, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. september 2010 til 24. desember 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laganna frá þeim degi til greiðsludags.

                Upptækir skulu vera eftirtaldir munir í eigu ákærða Birkis Más Ingimarssonar: Spire-flakkari, borðtölva, Nokia N92 farsími, sex ljósmyndir og 13 hreyfimyndir sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.

                Ákærði Birkir Már greiði sakarkostnað, samtals 1.604.900 krónur, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefán Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, 941.250 krónur, og hluta af þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 522.000 krónur.

                Ákærði Davíð Páll Jónsson sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

                Ákærði Davíð Páll greiði C, 150.000 krónur in solidum með ákærða Birki Má Ingimarssyni, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. september 2010 til 24. desember 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

                Ákærði Davíð Páll greiði sakarkostnað, samtals 235.013 krónur, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur og hluta af þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.