Print

Mál nr. 298/2001

Lykilorð
  • Vinnusamningur
  • Kjarasamningur
  • Brottrekstur úr starfi
  • Læknisvottorð
  • Skaðabætur

Fimmtudaginn 28

 

Fimmtudaginn 28. febrúar 2002.

Nr. 298/2001.

Samkaup hf.

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

gegn

Lovísu Guðmundsdóttur

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Vinnusamningur. Kjarasamningur. Brottvikning. Læknisvottorð. Skaðabætur.

Deilt var um hvenær og með hvaða hætti starfslok verslunarstjórans L urðu hjá S hf. og hvort hún ætti rétt til launa í uppsagnarfresti. Þótt fallist væri á það með S hf. að margt benti til þess að vanræksla L í starfi hefði verið slík að réttlætt kynni að hafa brottvikningu hennar úr starfi að undangenginni áminningu, var ljóst að S hf. byggði uppsögn L í raun alls ekki á þessum ávirðingum og áminnti hana ekki þótt fundið hefði verið að störfum hennar. Brottvikning L yrði því ekki réttlætt með ávirðingum hennar fyrir tilgreint tímamark. Fallist varð á það með S hf. að eins og framlögð læknisvottorð voru úr garði gerð hefði L ekki sýnt fram á að veikindi hennar hefðu verið slík að þau réttlættu þá háttsemi hennar að fara fyrirvaralaust og án skýringa í veikindafrí og vera fjarvistum í 16 daga áður en S hf. réð nýjan verslunarstjóra og vék henni þannig úr starfi í raun. Þrátt fyrir fjarveru L gerði S hf. engan reka að því að krefja hana um læknisvottorð áður en félagið vék henni frá störfum og lá því ekki fyrir á þeirri stundu að um óheimila fjarveru væri að ræða. Talið var að eins og S hf. stóð að málum ætti L rétt á bótum vegna ólögmætrar uppsagnar. Bætur voru þó lækkaðar með tilliti til þess að L hafði ekki sinnt þeirri skyldu að reyna að takmarka tjón sitt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. ágúst 2001. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa hennar verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms, en þó þannig að um dráttarvexti af kröfu hennar fari frá 1. júlí 2001 samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá  krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

         Ágreiningur aðila máls þessa snýst um hvenær og með hvaða hætti starfslok stefndu urðu, en hún starfaði sem verslunarstjóri í verslun áfrýjanda við Vesturberg 76, Reykjavík, og hvort hún eigi rétt á greiðslu launa í uppsagnarfresti. Stefnda var í september 1999 ráðin til starfa í umræddri verslun, sem opnuð var 1. október sama árs. Heldur hún því fram að sér hafi verið sagt upp störfum fyrirvaralaust 26. maí 2000 án lögmætra ástæða, en um uppsögnina hafi sér ekki orðið kunnugt fyrr en 7. júní sama árs. Áfrýjandi mótmælir því að stefndu hafi verið sagt upp störfum. Verði hins vegar talið að svo hafi verið reisir áfrýjandi sýknukröfu sína á því að stefnda hafi orðið sek um margvíslegar og verulegar vanefndir á ráðningarsamningi sínum. Eru þær ávirðingar, sem á hana eru bornar, í fyrsta lagi taldar þær að hún hafi sýnt af sér stórfellda vanrækslu í starfi, í öðru lagi að hún hafi fyrirvaralaust og án leyfis farið í veikindafrí og í þriðja lagi óheimilar fjarvistir hennar frá þeim tíma vegna veikinda, sem stefnda hafi ekki gert fullnægjandi grein fyrir. 

II.

         Áfrýjandi kveður stefndu sjálfa hafa kosið að segja stöðu sinni lausri með því að leggja niður störf 10. maí 2000 og mæta ekki til vinnu eftir það. Stefnda hafi heldur ekki greint frá því er líða tók á veikindaleyfi, sem hún fór í áðurnefndan dag, hversu lengi það myndi vara. Hafi áfrýjandi því ráðið mann til að gegna stöðu hennar, sem hafi verið nauðsynlegt, og hafi sú ráðstöfun engan veginn jafngilt uppsögn stefndu.

         Við skýrslutöku fyrir héraðsdómi kvaðst stefnda hafa farið til heimilislæknis síns, Sveins Rúnar Haukssonar, síðari hluta aprílmánaðar 2000 þar sem hún hafi ekki getað sofið vegna áhyggna af verslunarrekstrinum. Læknirinn hafi ráðlagt sér að taka hvíld frá störfum á heilsuhæli, en það hafi hún ekki viljað. Í byrjun maí hafi hún ekki getað meira og að morgni 9. sama mánaðar hafi eiginmaður hennar sagt henni að hún skyldi fara í veikindafrí daginn eftir, sem hún hafi og gert. Fram er komið í málinu að um klukkustund fyrir lokun fyrrgreindan dag hringdi stefnda í starfsmannastjóra áfrýjanda, Skúla Þorberg Skúlason, og tilkynnti honum að hún væri að fara í veikindafrí daginn eftir og alls óráðið væri hve lengi hún yrði fjarverandi. Bað starfsmannastjórinn stefndu þá að gefa sér ráðrúm til að fá annan mann í hennar stað til afleysinga, en því sinnti hún ekki. Aðspurð um starfslokin kvaðst stefnda hafa ætlað að hefja störf á ný og í því skyni hringt í starfsmannastjórann 26. maí 2000. Hafi hann ekki minnst á uppsögn en ekki viljað að hún byrjaði aftur og boðað sig á fund nokkrum dögum síðar. Kvaðst stefnda fyrst hafa frétt á skotspónum 7. júní að áfrýjandi hafi ráðið verslunarstjóra í sinn stað. Kom fram í skýrslu framangreinds starfsmannastjóra fyrir dómi að verslunarstjórinn, sem ráðinn var í stað stefndu, tók ekki til starfa fyrr en 6. júní, en fram til þess dags gegndi annar maður starfinu til bráðabirgða.

         Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi sagði framkvæmdastjóri áfrýjanda, Guðjón Stefánsson, í skýrslu sinni við aðalmeðferð málsins í héraði, að hann vissi ekki hvort stefndu hefði verið vikið frá störfum þennan dag, en vísaði í því efni til starfsmannastjórans. Sá síðarnefndi bar fyrir dómi að hann hafi í símtali við stefndu 26. maí neitað því að henni hafi verið sagt upp, en lagt til að þau myndu hittast nokkrum dögum síðar, en af því hefði ekki orðið, svo sem nánar er rakið í héraðsdómi.

         Með bréfi lögmanns stefndu 20. júní 2000 til áfrýjanda var því haldið fram að stefndu hafi verið vikið úr starfi 7. sama mánaðar á ólögmætan hátt og skýringar krafist á brottvikningunni. Þessu bréfi svaraði lögmaður áfrýjanda í héraði 27. júní sama mánaðar. Segir þar meðal annars að ljóst sé af efni bréfs lögmanns stefndu að hún hafi ekki upplýst hann um ástæður þess „að henni var vikið frá störfum þann 26. maí sl. þegar nýr verslunarstjóri var ráðinn til starfa”. Hafi stefndu orðið kunnugt um þessa ráðningu í fyrrnefndu símtali við starfsmannastjórann. Ljóst er af bréfi þessu að áður en mál þetta var höfðað taldi áfrýjandi sig hafa sagt stefndu upp 26. maí 2000. Áfrýjandi hefur engum stoðum rennt undir það að hann hafi tilkynnt stefndu um brottvikninguna, enda byggir hann sýknukröfu sína fyrir Hæstarétti aðallega á að stefnda hafi sjálf kosið að fara fyrirvaralaust í veikindaleyfi, án þess að gefa vinnuveitanda sínum nokkrar skýringar, og ekki komið til starfa eftir það án þess að nokkur uppsögn hafi átt sér stað. Áfrýjandi greiddi stefndu laun athugasemdalaust fyrir maímánuð í lok þess mánaðar. Á þeim tíma gat stefnda því ekki reiknað með að henni hefði verið vikið úr starfi nokkrum dögum áður. Verður að leggja til grundvallar frásögn stefndu um það að henni hafi fyrst orðið ljóst 7. júní 2000 að henni hafi verið vikið úr starfi.  Ber því að miða við að brottvikning hafi tekið gildi þann dag.

III.

         Í greinargerð áfrýjanda í héraði eru raktar margvíslegar ávirðingar, sem stefndu eru gefnar að sök í starfi sínu. Er þar meðal annars vísað til þess að þegar um áramótin 1999/2000 hafi vaknað alvarlegar grunsemdir um að stefnda réði ekki við starf sitt og við uppgjör vegna vörutalningar sem þá fór fram og aftur í lok mars 2000 hafi komið í ljós 13-18% vörurýrnun. Eru í héraðsdómi nánar raktar þær ávirðingar, sem áfrýjandi telur að réttlætt hafi fyrirvaralausa uppsögn hennar vegna vítaverðrar vanrækslu í starfi samkvæmt ákvæði 3. mgr. 13.1 greinar í kjarasamningi þeim, sem átti við um kjör stefndu hjá áfrýjanda. Í áðurnefndri skýrslu starfsmannastjóra áfrýjanda kemur fram að hann hélt ásamt starfsmanni í markaðs- og þjónustudeild áfrýjanda fund með stefndu 2. maí 2000 vegna niðurstöðu vörutalningarinnar í lok mars sama árs. Sagði hann að þau hafi farið yfir niðurstöður talningarinnar og hafi áhersla verið lögð á „að við yrðum að finna skýringar á þessari talningu áður en til einhverra aðgerða yrði gripið, því að þetta væri óviðunandi að vita ekki í hverju þessi rýrnun lægi, þannig að það var skýrt rætt um það að fara ekki í neina drastískar að segja einhverjum upp eða eitthvað slíkt”.

         Þótt fallist sé á það með áfrýjanda að margt bendi til þess að vanræksla stefndu í starfi hafi verið slík að réttlætt kunni að hafa brottvikningu hennar úr starfi að undangenginni áminningu, er ljóst af framansögðu að áfrýjandi byggði uppsögn stefndu 26. maí í raun alls ekki á þessum ávirðingum og áminnti hana ekki, þótt fundið hafi verið að störfum hennar. Verður brottvikning hennar því ekki réttlætt með ávirðingum hennar í starfi  fyrir 10. maí 2000.

IV.

         Eins og að framan greinir tilkynnti stefnda áfrýjanda án nokkurs fyrirvara í lok starfsdags 9. maí 2000 að hún væri að fara í veikindafrí daginn eftir þar sem læknir hennar hafi ráðlagt henni seinni hluta aprílmánaðar að taka hvíld frá störfum. Skýrði stefnda svo frá í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hafi farið aftur til heimilislæknis síns 10. maí og hann þá sagt að hún yrði að taka sér veikindafrí í 3-4 vikur og ráðlagt henni að fara á tiltekið heilsuhæli. Hún hafi ekki getað það vegna heimilisaðstæðna. Kvaðst stefnda hafa spurt lækninn hvort hún þyrfti læknisvottorð, en hann sagt að hún þyrfti ekkert vottorð fyrr en að loknu veikindaleyfi. Hún hafi svo farið 5. júní til staðgengils heimilislæknisins, sem verið hafi í fríi, og fengið hjá þeim fyrrnefnda læknisvottorð. Óumdeilt er að starfsmannastjóri áfrýjanda fékk vottorðið sent í ábyrgðarpósti þennan dag. Í vottorðinu, sem dagsett er 7. júní 2000, kemur fram að skoðun á stefndu hafi farið fram 10. og 26. maí og 5. júní sama árs og hún talin óvinnufær með öllu vegna sjúkdóms á tímabilinu 10. maí til 7. júní 2000. Stefnda lagði fyrir Hæstarétt vottorð heimilislæknis síns 15. febrúar 2002. Kemur þar fram að hún hafi leitað til hans 17. apríl 2000. Hún hafi átt við andlega og líkamlega þreytu að stríða og borið þess merki „í útbreiddum vöðvaeymslum.” Hafi stefnda verið „sett á“ lyfjameðferð til að bæta svefn og henni ráðlögð hvíld. Hún hafi ekki verið reiðubúin að fara strax í frí, en komið til hans á stofuna á nýjan leik 26. maí. Tveimur vikum síðar hafi hún verið reiðubúin að mæta í vinnu og hafi staðgengill heimilislæknisins gefið henni læknisvottorð í fjarveru hans „fyrir fjarvistartímabilið 10/5- 7/6/00.” Í niðurlagi vottorðsins kemur fram að þetta sé staðfest í samræmi við sjúkradagbók. Við skýrslutöku fyrir héraðsdómi sagði stefnda að staðgengillinn hafi ekki skoðað hana, heldur hafi hann lesið sjúkraskýrslur Sveins Rúnars og hafi hún tjáð þeim fyrrnefnda að hún þyrfti að fá vottorðið til þess að senda áfrýjanda.

         Áfrýjandi hefur við meðferð málsins vefengt gildi læknisvottorðs staðgengislsins, sem samkvæmt framansögðu mun vera frá 5. júní 2000, og fyrir Hæstarétti vísað í því efni til 3. gr. reglna nr. 586/1991 um gerð og útgáfu læknisvottorða, sem settar voru með stoð í 11. gr. læknalaga nr. 53/1988 með áorðnum breytingum. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. reglnanna skal læknir gæta fyllstu varkárni og nákvæmni við gerð læknisvottorðs og einungis votta þau atriði, er hann veit sönnur á. Í 3. mgr. sömu greinar eru síðan fyrirmæli um að læknir skuli ekki staðhæfa annað í vottorði, en það sem hann sjálfur hafi sannreynt, nákvæmlega skuli geta þeirra heimilda er vottorðið kunni að styðjast við og glögglega greina milli frásagnar annarra, eigin athugana læknis og álits hans. Í læknisvottorðinu 5. júní 2000, sem stefnda sendi áfrýjanda sama dag, var þess hvorki getið að læknirinn hafi ekki skoðað stefndu sjálfur né að vottorðið byggðist á sjúkraskrám annars læknis. Var efni þess því í andstöðu við framangreind ákvæði reglna nr. 586/1991 og gat því ekkert gildi haft er stefnda framvísaði því í lok tímabilsins, sem hún var fjarverandi. Í fyrrgreindu vottorði Sveins Rúnars Haukssonar er þess ekki getið að stefnda hafi verið óvinnufær á því tímabili sem þar er tíundað, heldur er þar sagt að mælst hafi verið til þess 17. apríl að stefnda athugaði með dvöl á tilteknu heilsuhæli, en hún hafi ekki verið reiðubúin til þess strax. Þremur vikum síðar hafi hún gefist upp og farið í veikindaleyfi, eins og áður hafi verið mælt fyrir um. Er á það fallist með áfrýjanda að eins og læknisvottorðin eru úr garði gerð hafi stefnda ekki sýnt fram á að veikindi hennar hafi verið slík að þau réttlættu þá háttsemi hennar að fara fyrirvaralaust og án skýringa í veikindafrí og vera fjarvistum í 16 daga áður en áfrýjandi réði nýjan verslunarstjóra og vék henni þannig úr starfi í raun. Var sú háttsemi hennar ennþá ámælisverðari í ljósi þess að hún var framkvæmdastjóri verslunar þeirrar, er hún starfaði við, og bar því ábyrgð á rekstri hennar. Þrátt fyrir fjarveru stefndu gerði áfrýjandi engan reka að því að krefja hana um læknisvottorð áður en hann vék henni frá störfum og lá því ekki fyrir á þeirri stundu að um óheimila fjarveru væri að ræða. Áfrýjanda bar við þessar aðstæður að leita eftir læknisvottorði eins og honum var skylt samkvæmt meginreglu 8. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms og slysaforfalla. Varð brottrekstri ekki beitt án þess að á það hefði reynt. Að auki greiddi hann henni laun fyrir maímánuð í lok mánaðarins án nokkurra athugasemda. Eins og áfrýjandi stóð að málum verður niðurstaðan sú að stefnda eigi rétt á bótum vegna ólögmætrar uppsagnar sem tók gildi, eins og áður segir, 7. júní 2000. Miðast uppsagnarfrestur við þrjá mánuði frá 1. júlí 2000, sbr. 1. mgr. greinar 13.1 í framangreindum kjarasamningi. Ekki er tölulegur ágreiningur um útreikning kröfunnar.

         Áfrýjandi reisir varakröfu sína um lækkun bóta á því að stefndu hafi borið að takmarka tjón sitt með því að leitast við að fá sér annað starf. Fyrir dómi kvaðst stefnda ekki hafa gert reka að því að leita eftir vinnu á uppsagnarfrestinum og hefur hún engar skýringar á því gefið. Hefur stefnda þannig ekki sinnt þeirri skyldu að reyna að takmarka tjón sitt.  Þegar allt þetta er virt og í ljósi þess að fram er komið að á þessum tíma var mjög mikil eftirspurn eftir vinnuafli eru bætur til hennar hæfilega ákveðnar með 800.000 krónum. Skal fjárhæðin bera dráttarvexti, eins og í dómsorði greinir.

         Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

         Áfrýjandi, Samkaup hf.,  greiði stefndu, Lovísu Guðmundsdóttur, 800.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 2000 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

         Áfrýjandi greiði stefndu samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2001.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var þriðjudaginn 19. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Lovísu Guðmundsdóttur, kt. 200162-3669, Álfheimum 38, Reykjavík, með stefnu birtri 26. október 2000 á hendur Samkaupum hf., kt. 571298-3769, Hafnargötu 62, Keflavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 1.298.484 með hæstu dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 2000 til greiðsludags og leggist dráttarvextir við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 1. október 2001.  Þá er krafizt málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu, eða að mati dómsins, auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, en til vara, að stefnukrafan verði lækkuð verulega, og málskostnaður verði felldur niður.

II.

Málavextir:

Málavextir eru þeir, að stefnandi var ráðin til starfa sem verzlunarstjóri í nýrri verzlun stefnda að Vesturbergi 76 í Breiðholti í september 1999, en um stöðuna hafði stefnandi sótt með bréfi þann 15. september.  Var verzlunin opnuð 1. október s.á.

Síðdegis þann 9. maí 2000 tilkynnti stefnandi stefnda, að hún þyrfti að fara í veikindaleyfi að læknisráði og hvarf hún frá störfum samdægurs.

Þann 26. maí 2000 var ráðinn nýr verzlunarstjóri í stað stefnanda, en hann tók til starfa í fyrstu viku júnímánaðar.  Stefnandi lítur svo á, að henni hafi verið vikið fyrirvaralaust frá störfum þann 7. júní 2000.

Af hálfu stefnanda var brottvikningunni mótmælt með bréfi lögmanns, dags. 20. júní 2000 og krafizt skýringar.  Svarbréf lögmanns stefnda er dags. 27. júní 2000.  Þar kemur fram, að stefnanda hafi verið vikið frá störfum 26. maí, þegar nýr verzlunarstjóri var ráðinn, en jafnframt er því hafnað að stefnandi eigi rétt á skriflegri skýringu á brottvikningunni og vísað til munnlegrar vitneskju hennar þar um. 

Á fundi með aðilum þann 13. júní bauð stefndi stefnanda að ganga frá starfslokum sínum á þann hátt að stefnandi fengi greitt áunnið orlof.  Ekkert varð af starfslokasamningi.

Stefnandi kveður ástæður brottvikningarinnar ekki vera sér ljósar og kveðst hvorki fyrr né síðar hafa verið áminnt varðandi starfið, og því hafi uppsögnin komið henni algjörlega í opna skjöldu.  Gerir stefnandi í máli þessu kröfur um bætur vegna brottvikningarinnar.   Þá greinir aðila á um það í máli þessu, hvort stefnanda var vikið frá störfum eða hvort hún lét af störfum fyrirvaralaust og enn fremur við hvaða dagsetningu starfslok hennar miðast.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á hendur stefnda á reglum vinnuréttarins og kjarasamningi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur og Samtaka atvinnulífsins varðandi uppsögn starfsmanna.  Stefnandi hafi átt rétt til þriggja mánaða uppsagnarfrests miðað við mánaðamót.  Hún eigi því rétt til launa fyrir allan júnímánuð 2000 og síðan fyrir mánuðina júlí, ágúst og september 2000, þ.e. laun í þrjá mánuði á uppsagnarfresti.

Hin fyrirvaralausa uppsögn sé ólögmæt, bæði að formi og efni.  Samkvæmt kjarasamningi skuli uppsögn á vinnuréttarsambandi vera skrifleg.  Eftir þessu hafi stefndi ekki farið.  Stefndi hafi heldur ekki efnt vinnuréttarsambandið með því að greiða stefnanda uppsagnarfrestinn.

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á útreikningi Verzlunarmannafélags Reykjavíkur, dags. 16. júní 2000, sem nánar sundurliðast þannig:

Orlof vegna 20. september 1999 - 30. apríl 2000

Kr.    207.388

Mism. vegna maí launa

 "      10.725

Eingreiðsla v/kjarasamninga

  "     10.000

Laun vegna júní 2000

  "    285.725

Bætur vegna fyrirvaralausrar uppsagnar:

 

Laun vegna júlí 2000

  "    285.725

Laun vegna ágúst 2000

  "    285.725

Laun vegna september 2000

  "    285.725

Orlofsuppbót 2000

  "         9.400

Orlofsuppbót 2001 (9.600/12x5)

  "          4.000

Desemberuppbót 2000 (28.200/12x9)

 "         21.150

Orlof frá 1. maí 2000 - 30. september 2000

 "       145.291

 

Kr. 1.550.854

Inn á kröfu þessa hafi stefndi greitt kr. 252.370 vegna tímabilsins 12. júní til 30. júní 2000.  Eftir standi því kr. 1.298.484 (kr. 1.550.854 - kr. 252.370), sem sé stefnu­krafan.

Stefnandi vísar til kjarasamnings VR. og Samtaka atvinnu­lífsins, laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups og laga nr. 30/1987 um orlof.  Vaxtakrafan er studd við III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og málskostnaðarkrafan við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattsskyld.

 

Málsástæður stefnda:

Stefndi kveður stefnanda í upphafi hafa borið af sér góðan þokka og virzt áhugasöm og hafa þekkingu á verzluna­­rstjórastörfum, eins og starfsreynsla hennar sýndi, sbr. dskj. nr. 10.  Yfirmönnum stefnda hafi hún einnig alltaf gefið til kynna, að hún væri með fullt vald á málum verzlunarinnar.  Reglulega á næstu 5 mánuðum hafi yfirmenn stefnda verið tilbúnir að leiðbeina henni og aðstoða á allan mögulegan hátt.  Stefnandi hafi tekið við ábendingum og athugasemdum þeirra og sagzt myndu laga þetta og laga hitt, sem að var fundið, eða að hún væri búin að því, en annað hafi komið á daginn.

Eftir áramótin hafði ýmislegt gerzt í samskiptum milli stefnanda og yfirmanna og einnig vegna kvartana frá starfsmönnum og viðskiptavinum, sbr. dskj. nr. 11, sem hafi verið farið að vekja alvarlegar grunsemdir um, að stefnandi réði ekki við starf sitt.

Þann 31. marz hafi þess vegna verið ákveðið, að fram færi talning í verzluninni, sbr. dskj. nr. 12.  Bókum vegna þeirrar talningar hafi stefnandi skilað til stefnda meira en hálfum mánuði eftir að hún fór fram.  Ástæðan hafi verið léleg skipulagning.  Þá hafi komið í ljós við uppgjör aðalskrifstofu, að vörurýrnun í verzluninni hafi verið um 14%, eftir að tekið hafði verið tillit til ófærðrar rýrnunar í kjöti upp á kr. 1.500.000 fyrir tímabilið janúar-marz 2000.  Væri ekkert tillit tekið til þeirrar rýrnunar væri niðurstaða talningarinnar rýrnun upp á u.þ.b.18 %, sbr. dskj. nr. 15.

Þann 2. maí sl. hafi starfsmannastjóri stefnda, Skúli Skúlason, haldið fund með stefnanda vegna þessarar niðurstöðu.  Stefnanda hafi verið gerð grein fyrir því, að stefndi yrði að fá viðhlítandi skýringar á þessari gífurlegu vörurýrnun.  Stefnandi hafi lítil svör haft þá, og enn hafi engar viðhlítandi skýringar komið frá henni um ástæður rýrnunarinnar.  Stefnanda hafi, í samtalinu, verið gerð grein fyrir því, að hún væri ábyrg fyrir rekstri verzlunarinnar sem verzlunarstjóri, og hafi hún viðurkennt það.

Þann 9. maí sl. hafi stefnandi síðan hringt í Skúla Skúlason og tilkynnt honum, að hún væri á leið í veikindafrí vegna of hás blóðþrýstings.  Læknir hafi ráðlagt henni að fara í veikindafrí.  Samkvæmt læknisvottorði hafi fyrsta læknisskoðun þó farið fram þann 10. maí, eða daginn eftir, en vottorðið hafi verið gefið út þann 7. júní sl. og borizt í ábyrgðarpósti þann 5. júní, sbr. dskj. nr. 14.  Skúli hafi beðið stefnanda um að gefa sér a.m.k. eina klst. til þess að fara yfir stöðu málsins og gera viðeigandi ráðstafanir, þar sem ljóst hafi verið, að leysa þyrfti hana af sem stjórnanda á vinnustaðnum.  Hálfri klukkustund síðar, þegar Skúli hringi aftur í stefnanda, hafi hún verið farin úr verzluninni og verið á heimleið.  Daginn eftir hafi Ómar Valdimarsson verið sendur til þess að stýra verzluninni vegna fjarveru stefnanda.

Stefnandi hafi ekkert samband haft við Skúla aftur fyrr en þann 26. maí, og hafi Skúli þá verið staddur á fundi erlendis.  Hann hafi því beðið stefnanda að koma á fund sinn strax eftir helgina.  Af þeim fundi hafi þó ekki getað orðið að ósk stefnanda fyrr en þann 13. júní sl.  Á fundinum hafi starfsmannastjóri Samkaupa farið yfir alvarlega stöðu og ástand í verzluninni með stefnanda og ástæður þess, að nýr verzlunarstjóri hefði verið ráðinn.  Hann hafi einnig óskað eftir skýringum hennar á fjölmörgum atriðum í stjórnun hennar á verzluninni undangengna mánuði.  Í lok fundarins hafi stefnanda verið boðið að ganga frá starfslokum sínum með sátt, þrátt fyrir augljósar vanefndir hennar á ráðningarsamningi sínum, sem hún hafi ætlað að hugleiða.  Stefnandi hafi þó ekki haft frekara samband við stefnda, en skömmu síðar hafi stefndi fengið bréf frá lögmanni stefnanda, dags. 20. júní.  Bréfinu hafi verið svarað með bréfi lögmanns stefnda, dags. 27. júní, sbr. dskj. nr. 5, þar sem fullyrðingum stefnanda um, að henni væru ekki kunnar ástæður starfslokanna, hafi m.a. verið mótmælt.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína á því, að kröfur stefnanda hafi hvorki stoð í lögum, kjarasamningi né ráðningarsamningi.  Stefnandi hafi látið af störfum vegna brota á ráðningarsamningi og starfskyldum gagnvart stefnda við verzlunarstjórn í verzlun stefnda að Vesturbergi.  Brot stefnanda á starfskyldum hafi leitt til gífurlegs fjártjóns fyrir stefnda, m.a. vegna vörurýrnunar, sbr. dskj. nr. 15 og 16, og óþarfa launa­kostnaðar, sbr. dskj. nr. 18.  Eðlileg og skýranleg rýrnun í verzlunarrekstri sé talin vera um 2%, en vörurýrnun í verzlunni í Vesturbergi, sem stefnandi stjórnaði, hafi verið 18%.

Í störfum sínum hafi stefnandi ítrekað brotið trúnaðar-, hollustu-, heiðarleika- og hlýðniskyldu gagnvart stefnda, m.a. vegna athafnaleysis í störfum sem verzlunarstjóri.  Þessar skyldur séu forsendur fyrir starfi samkvæmt ráðningarsamningi, og sérstaklega ríkar kröfur megi gera til stjórnenda eins og verzlunarstjóra um að framfylgja þeim gagnvart stefnda.  Stefnandi hafi leynt yfirmenn stefnda raunverulegu ástandi verzlunarinnar og þeirri óstjórn, sem þar hafi verið á öllum hlutum, sbr. dskj. nr. 11., 13., 16. og 17.

Stórfelld brot starfsmanns á starfsskyldum réttlæti fyrirvaralausa uppsögn úr starfi.  Þetta komi fram í 3. mgr. 12. gr. kjarasamnings verzlunarmanna á dskj. nr. 11, þar sem segi, að uppsagnarákvæði kjarasamningsins gildi ekki, ef starfsmaður sýni vítaverða vanrækslu í starfi sínu.  Ákvæðið geri enga kröfu um undanfarandi áminningu.  Stefnandi hafi þó ítrekað verið áminnt vegna misfellna í starfi, m.a. vegna brota á starfsreglum.  Hún hafi samt ítrekað afþakkað aðstoð, sem yfirmenn hafi boðið.

Vanræksla stefnanda hafi verið stórfelld og falizt m.a. í óstjórn á vöruinnkaupum og birgðastjórnun verzlunarinnar.  Skipulagsleysi hafi verið á lagerhaldi, sem hafi verið í ólestri, þannig að vörur hafi eyðilagzt, eða þurft að henda þeim vegna þess að þær hafi runnið út.  Þegar nýr verzlunarstjóri hafi komið til afleysingastarfa í verzluninni þann 11. maí, hafi t.d. frystir verzlunarinnar verið fullur af vörum, frosnu svínakjöti, hryggjum, lærum og bógum (300-400 kg), þannig að ekki hafi verið hægt að komast inn í hann.  Tveir kassar af rjúpum í hamnum og talsvert magn af pizzum hafi verið innst í klefanum.  Mikið af þessum pizzum hafi verið illa farnar, eftir að vatn úr frystibúntinu hafði lekið yfir kassana og þeir frosið saman.  Verst hafi umgengnin samt verið, og ekki hafi verið spáð í, hvort viðkvæm vara væri undir þungum svínahryggjum.  Eins hafi ekki verið passað upp á, að umbúðir væru góðar og talsvert hafi verið um frostþurrkaða vöru.

Ástandið á klefanum hafi verið svona, þrátt fyrir að stefnandi hafi fyrir páska hringt í starfsmannastjóra og tilkynnt, að hún væri búin að fara í klefann og koma honum í gott lag og losa þá vöru, sem hún þyrfti til annarra verzlana innan Samkaupa.  Allt of mikið af vörum hafi verið til á lager og öll vinnuaðstaða erfið út af því.  Mikið hafi t.d. verið af páskasælgæti, sem hafi átt eftir að skila til birgja.  Á lager hafi einnig verið mikið af útrunninni vöru, sem átti eftir að skila.  Frammi í verzluninni hafi einnig verið mikið af stöndum, sem þrengdu að viðskiptavinum.  Margir þessara standa hafi verið búnir að vera í verzluninni vikum og mánuðum saman.  Greinilegt hafi verið, að sölumenn heildsölufyrirtækja höfðu átt mjög greiða leið inn í búðina með vörur, því úrvalið hafi í sumum tilvikum verið gríðarlegt.  Mikið hafi verið um útrunnar vörur í hillum frammi í búðinni, og hafi um 10 körfur af vörum verið teknar úr hillum.  Eftir því sem starfsfólk segði hafi nýjar vörur verið teknar, þegar þær komu, og settar beint fram í búð og ekki verið hugað að stimplum á þeirri vöru, sem var á lager eða frammi í búð.  Verðmerkingum hafi verið mjög ábótavant.  Mikið hafi verið um, að vörur væru ekki verðmerktar, jafnvel rangt verð, og mikið af vörum hafi verið óskráð.  Umgengni umhverfis búðina hafi verið slæm.  Portið hafi verið eins og svínastía; sígarettustubbar, pappi, vörubretti og jafnvel 2 ruslapokar með úrgangi úr kjötborði hafi legið þar.  Úrgangurinn, sem var í pokunum, hafi verið farinn að maðka.  Fánar hafi verið orðnir slitnir og búðinni til skammar.  Á bifreiðaplaninu hafi enn verið Volvo bifreið, sem stefnandi hafði ítrekað verið beðin um að láta fjarlægja.  Bifreið verzlunarinnar hafi verið óþrifin og illa útlítandi.  Bifreiðinni hafi verið ekið 7000 km, en líti út fyrir að vera árinu eldri (sic í grg.).

Starfsmannamál hafi verið í upplausn og starfsmenn að hætta vegna óánægju með stefnanda og vinnubrögð hennar og framkomu í þeirra garð.  Starfsmenn hafi verið reknir án vitneskju yfirmanna stefnda, sbr. dskj. nr. 13, og á aðra hafi verið bornar sakir, sem ekki stóðust.  Ekki hafi verið til nein vaktaplön, og hafi nýr verzlunarstjóri fyrst þurft að reyna að finna út, hvaða fólk ætti að vinna og hvenær (unglingar á kvöld- og helgarvöktum).  Stjórnun á sjóðvélum hafi verið í ólagi, og hafi flestir unglinganna notað sama starfsmannanúmer á kassana, nr. 100, sem veitti fulla aðgangsheimild að kössum, (gátu veitt fullan afslátt, eytt færslu og fleira í þeim dúr).  Þetta hafi verið gert, þrátt fyrir að skýrt sé í starfssviði verzlunarstjóra að takmarka aðgang starfsfólks að möguleikum sjóðvéla.  Sama hafi gilt um lyklavöld að verzluninni, sem aðeins verzlunarstjóri og vaktstjóri hafi átt að hafa, sbr. dskj. nr. 17.

Frágangur stefnanda vegna uppgjöra á kvöldin hafi verið ófullnægjandi, þrátt fyrir fyrri athugasemdir vegna þess, m.a. um frestaðar færslur, sem hafi verið orðnar 7 og enginn hafi vitað, hvaða færslur þetta væru, hversu háar, eða hvenær þeim hafi verið frestað og hver hefði gert það.  Umgengni um pappíra á skrifstofu hafi verið mjög slæm; gamlir innkaupareikningar hafi legið þar í skúffum, jafnvel frá því í nóvember 1999.  Endursendingarbók hafi verið með mörgum ófrágengnum nótum.  Afskriftabækur hafi ekki verið sjáanlegar og eftir því sem starfsfólk sagði, hafi það ekki tíðkazt að afskrifa vörur í búðinni, þeim einfaldlega verið hent í ruslagáminn.  Meðal þess, sem fannst á skrifstofu, hafi verið reikningar og gíróseðlar frá DV frá því í febrúar 2000., vegna sjómoksturs frá því í nóvember 1999, og reikningar frá ýmsum heildsölum og birgjum.  Vinnusloppar hafi legið eins og hráviðri í starfsmannaaðstöðunni.

Stefnandi hafi oft verið áminnt vegna slælegra vinnubragða, m.a. vegna skila á dagsuppgjörum, sem oft á tíðum hafi komið í einum haug í poka til aðalskrifstofu og því þurft að flokka þar.  Ítrekuð loforð um rétt skil á dagsuppgjörunum hafi ekki verið efnd, sérstaklega fyrir mánaðamót.  Innsláttur á reikningum hafi greinilega aldrei verið gerður reglulega, sem sé nauðsynlegt.  Frágangur hafi verið slæmur og mjög seint skilað, eða ekki skilað.  Það hafi komið fyrir að taka þyrfti alla reikninga óinnfærða, svo hægt væri að færa vörukaup.  Þetta hafi tafið bókhaldsvinnu aðalskrifstofunnar mjög mikið.  Stefnandi hafi ekki sinnt áminningum um eindaga á skilum á pappírum til skrifstofu.  Jafnvel hafi peningakassi, sem sendur var til stefnanda milli jóla og nýárs, verið skilinn eftir úti í porti á kafi í skafli með lykilinn og talnaupplýsingarnar límdar ofan á skápinn.  Þessi skápur hafi kostað á annað hundrað þúsund krónur.  Þegar yfirmenn stefnda komu einu sinni sem oftar í verzlunina, sennilega hálfum mánuði eftir að peningakassinn hafði verið sendur henni, hafi hann enn verið úti í porti í snjóskafli.  Þeir hafi strax fært hann inn í verzlunina.  Þennan sama dag hafi ekki verið búið að moka frá anddyrinu og í raun erfitt fyrir viðskiptavini að komast inn í verzlunina.  Svörin frá stefnanda hafi verið þau, að þetta hafi verið einhverjum öðrum að kenna.

Lovísu hafi verið fullkomlega ljósar allar framangreindar o.fl. ástæður, sem leitt hafi bæði til skyndilegs brotthvarfs hennar af vinnustað í óþökk stefnda og síðar starfsloka hennar.  Útilokað sé að rekja þær í greinargerð með tæmandi hætti.  Um þær muni því bera vitnaskýrslu fyrir dómi fyrrverandi yfirmenn og samstarfsmenn stefnanda á starfstíma hennar.

Mótmælt sé útreikningi stefnanda á launakröfu og dráttarvöxtum og gildi læknis­vottorðs um veikindafjarvistir.

Varakröfu sinni til stuðnings vísi stefndi einnig til þess, að stefnandi hafi, eða hefði getað, unnið launuð störf á uppsagnarfresti, sem koma eigi til frádráttar bótakröfu.

Kröfu sína um málskostnað styðji stefndi við 130. og 131. gr. l. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

VI.

Forsendur og niðurstaða:

Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar auk stefnanda Skúli Þorbergur Skúlason, starfsmannastjóri hjá stefnda, Guðjón Stefánsson, framkvæmdastjóri stefnda, Ómar Valdimarsson, markaðs- og þjónustufulltrúi stefnda, Sturla Gunnar Eðvarðsson, rekstrarstjóri stefnda, og Jón Bjarni Baldursson, fjármálastjóri hjá stefnda.

Ágreiningur er um tildrög starfsloka stefnanda og dagsetningu þeirra.

Telja verður sannað, með bréfi lögmanns stefnda, dags. 27.06.2000, að stefnanda var vikið frá störfum fyrirvaralaust og án skýringa.  Hins vegar er ósannað, að henni hafi verið starfslokin ljós fyrir en 7. júní s.á., sbr. framburð starfsmannastjóra stefnda, Skúla Þorbergs Skúlasonar, fyrir dómi, þar sem hann segir, að hún hafi spurt hann að því þann 26. maí, hvort búið væri að víkja henni frá störfum, þar sem hún hefði heyrt, að búið væri að ráða mann í staðinn fyrir hana.  Kvaðst starfsmannastjórinn hafa svarað því til, að þetta væri ekki rétt og hann væri ekki í aðstöðu til að ræða þetta við hana og hafi lagt til við hana, að þau myndu hittast eftir helgina, 30. eða 31. maí.  Þeim fundi hafi hins vegar verið frestað til 7. júní og aftur til 13. júní.  Þann 13. júní hafi hann boðið stefnanda upp á starfslok, en henni hafi aldrei verið vikið formlega frá störfum. 

Guðjón Stefánsson, framkvæmdastjóri stefnda, skýrði svo frá, að hann vissi ekki, hvort stefnanda hefði verið vikið frá störfum 26. maí.  Hann hafi ekki haldið, að hún hefði verið rekin, en vísaði um það til starfsmannastjórans.

Með vísan til framangreinds þykir mega leggja fullyrðingar stefnanda um starfslok hennar til grundvallar í máli þessu varðandi dagsetningu starfsloka hennar.

Það er ljóst, að stefnanda var vikið frá störfum, án þess að henni væri gerð formlega grein fyrir ástæðum brottvikningarinnar, og með áðurgreindu bréfi lögmanns stefnda er henni beinlínis synjað um skriflegar skýringar. 

Í greinargerð byggir stefndi á því, að stefnandi hafi látið af störfum vegna brota á ráðningarsamningi og starfsskyldum sínum.  Hún hafi ítrekað brotið trúnaðar-, hollustu-, heiðarleika- og hlýðnisskyldu við yfirmenn sína.  Rekur stefndi ýmsar meintar ávirðingar stefnanda þessu til stuðnings.  Segir síðan í greinargerð um brotthvarf stefnanda, að stefnanda hafi verið ljósar allar framangreindar og fleiri ástæður, sem leitt hafi bæði til skyndilegs brotthvarfs hennar af vinnustað “í óþökk stefnanda og síðar til starfsloka hennar.”  Málatilbúnaður stefnda er ekki ljós að þessu leyti.  Annars vegar hverfur stefnandi af vinnustað í óþökk stefnda, sem felur í sér, að stefndi hafi ekki haft í hyggju að segja henni upp störfum, en hið skyndilega brotthvarf hafi síðan verið tilefni uppsagnarinnar, að því er virðist.  Þessi skilningur er studdur framburði Skúla Þorbergs Skúlasonar fyrir dómi, þar sem hann segir, að á fundi með stefnanda þann 2. maí, ásamt Ómari Valdimarssyni þjónustustjóra, hafi stefnanda verið gerð grein fyrir því, að afkoma verzlunarinnar væri óviðunandi og ábyrgðin væri hennar, en á þeim tíma hefðu engin áform verið um að segja henni upp störfum, heldur gefa henni tækifæri til að bæta sig.  Það tækifæri hafi hún ekki fengið, þar sem hún hafi horfið úr verzluninni fyrirvaralaust.

Stefndi vefengir gildi læknisvottorðs í greinargerð.  Ekkert liggur fyrir um það í málinu, að stefndi hafi dregið gildi þess í efa, fyrr en þá.  Vottorðið barst stefnda í byrjun júní.  Skúli Þorbergur bar fyrir dómi, að fyrirtækið hefði ekki krafið stefnanda um læknisvottorð.  Stefnandi bar fyrir dómi, að læknirinn, sem gaf vottorðið út, hafi ekki skoðað hana, heldur hafi hann, í forföllum heimilislæknis hennar, gert vottorðið á grundvelli sjúkraskýrslna frá honum.  Þá kom fram hjá stefnanda, að misritun er á dagsetningu í vottorðinu.  Þar segi, að skoðun hafi farið fram 26. maí, en eigi að vera 26. apríl.  Læknirinn var ekki kvaddur fyrir dóminn til að staðfesta vottorðið.  Þá reyndi stefndi ekki að grennslast fyrir um það hjá lækni hennar, hvort um raunveruleg veikindi hefði verið að ræða eða ekki.  Með því að veikindi stefnanda voru ekki dregin í efa á starfstíma hennar, verður stefndi að bera hallann af því að hafa ekki kallað eftir ítarlegra læknisvottorði eða fengið trúnaðarlækni eða annan lækni, sem hann treysti, til að staðreyna veikindin.

Svo sem fyrr er rakið byggir stefndi á því, auk framangreinds brotthvarfs úr starfi, að stefnandi hafi brotið svo gegn starfsskyldum sínum, að réttlæti fyrirvaralausa uppsögn. 

Stefnandi hefur viðurkennt að hafa borið ábyrgð á rekstri verzlunarinnar, en kveður ýmis atriði, önnur en meinta óstjórn hennar, hafa átt þátt í slæmri afkomu verzlunarinnar.  M.a. hafi miklu verið stolið, kjötborðið hafi verið mikið vandamál, hún hafi veri óheppin með starfsfólk, frystikista hafi hrunið, þarna hafi verið framið rán og stolið miklu magni af sígarettum, tilboðssölur hafi ekki gengið sem skyldi, m.a. svínakjötsútsala, sem ákveðin hafi verið í kjölfarið á hliðstæðri útsölu hjá öðrum verzlunarkeðjum.  Þá hefur hún mótmælt öðrum þeim ávirðingum, sem henni eru gefnar að sök í greinargerð, svo sem ókurteisi við starfsfólk, slælegum skilum á uppgjöri og vanrækslu í starfi.               

Með hliðsjón af framburði aðila og vitna er ljóst, að rekstrartölur verzlunar þeirrar, sem stefnandi veitti forstöðu voru slæmar, rýrnunarhlutfall óeðlilega hátt og ýmislegt, sem hefði mátt betur fara.  Hluti þess verður efalaust að einhverju leyti rakinn til stjórnunarhátta stefnanda eða aðstæðna, sem hún bar stjórnunarlega ábyrgð á, en einnig sýnast rangar ákvarðanir hafa verið teknar, svo sem varðandi útsölur og annað, sem var ekki á ákvörðunarvaldi stefnanda, sem og rekstur kjötborðs, sem aðilar eru sammála um, að hafi verið óhagkvæmur.  Hálfu ári eftir að stefnandi lauk störfum var rýrnun enn um 7%, án þess að stefndi kunni skýringar á því.  Stefnanda voru aldrei veittar skriflegar áminningar.  Þá er ósannað, að hún hafi verið áminnt munnlega um brot í starfi, og er ekki fallizt á, að slíkar áminningar hafi falizt í lélegum afkomutölum verzlunarinnar, svo sem fyrirsvarsmenn stefnda héldu fram fyrir dómi.  Svo sem að framan er rakið, voru engin áform uppi um að segja stefnanda upp störfum í byrjun maí, þrátt fyrir rýrnunartölur úr talningu í lok marz.  Þessi áform voru heldur ekki uppi, þegar hún fór í veikindaleyfi 9. maí.  Þau áform virðast fyrst hafa vaknað, þegar veikindaleyfi hennar dróst á langinn.  Engin formleg brottvikning fór fram, þrátt fyrir fyrirspurnir stefnanda í kjölfar orðróms, sem hún hafði heyrt.  Henni var aldrei gefin ákveðin skýring á brottvikningunni og beinlínis synjað um það í bréfi lögmanns stefnda, svo sem fyrr er rakið.  Skýringar í greinargerð eru engum haldbærum rökum studdar utan afkomutalna verzlunarinnar.  Það, að rýrnunartölur voru áfram háar, eftir að stefnandi lét af störfum, sýnir, að slæm afkoma var ekki eingöngu stjórnun stefnanda að kenna, en hugsanlega einnig því skipulagi, sem stefnanda var gert að vinna undir. 

Með hliðsjón af öllu framansögðu verður ekki fallizt á, að sannað sé, að stefnandi hafi í starfi gerzt sek um þær ávirðingar að réttlæti uppsögn samkvæmt 3. mgr. gr. 13.1 í kjarasamningi aðila, eða að stefnanda hafi mátt vera ljósar ástæður uppsagnarinnar.  Samkvæmt þessu á stefnandi rétt til launa í uppsagnarfresti.  Þar sem uppsögn miðast við 7. júní, svo sem fyrr er rakið, á hún rétt til launa fyrir þann mánuð, auk júlí, ágúst og septembermánaða, svo sem hún gerir kröfu um.  Hluti launa júnímánaðar hefur þegar verið greiddur og hefur verið tekið tillit til þess í kröfugerð.

Stefnandi hefur borið, að hún hafi ekki stundað launaða atvinnu á uppsagnarfresti.  Er ekki fallizt á, að lækka beri kröfu hennar, þótt hún hafi ekki leitað eftir vinnu á þessum tíma.

Stefndi mótmælir útreikningi stefnanda á launakröfu.  Þau mótmæli eru ekki rökstudd, og hefur stefndi ekki lagt fram nein gögn um launakjör stefnanda.  Ber því að byggja á útreikningum stefnanda.  Dráttarvextir dæmast eins og greinir í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 300.000 og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Samkaup hf., greiði stefnanda, Lovísu Guðmundsdóttur, kr. 1.298.484 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 25/1987 frá 1. október 2000 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, og leggjast dráttarvextir við höfuðstól skv. 12. gr. s.l., í fyrsta skipti 1. október 2001.  Enn fremur greiði stefndi stefnanda kr. 300.000 í málskostnað.