Print

Mál nr. 401/2007

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Skattur
  • Fyrning

Mánudaginn 27

 

Mánudaginn 27. ágúst 2007.

Nr. 401/2007.

Magnús Axelsson

(Sigmundur Hannesson hrl.)

gegn

tollstjóranum í Reykjavík

(Guðfinna H. Þórsdóttir, fulltrúi)

 

Kærumál. Fjárnám. Skattar. Fyrning.

M krafðist þess að fellt yrði úr gildi fjárnám sem S gerði hjá honum vegna skuldar samkvæmt álagningu virðisaukaskatts. M hafði ekki leitast við að fá álagningunni hnekkt, en byggði á því að krafa T væri fyrnd. Ekki var fallist á að fyrningarfrestur hefði verið liðinn þegar fjárnámið var gert og var kröfu M því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. júlí 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fellt yrði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn á Selfossi gerði hjá honum 15. janúar sama ár fyrir kröfu varnaraðila að höfuðstól 882.000 krónur. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að fjárnám þetta verði fellt úr gildi og varnaraðila gert að greiða málskostnað í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti skattstjórinn í Reykjavík sóknaraðila 6. október 2004, að undangengnum fyrirspurnum og tilkynningum til hans 26. mars 2003 og 20. september 2004, að lagður hafi verið á hann virðisaukaskattur samkvæmt áætlun gjaldstofna vegna sex gjaldatímabila ársins 2001, að fjárhæð 147.000 krónur vegna hvers tímabils eða samtals 882.000 krónur. Fjárnámið, sem málið varðar, var gert fyrir skuld samkvæmt þessari álagningu, en henni mun sóknaraðili ekki hafa leitast við að fá hnekkt. Samkvæmt 6. mgr. 112. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 5. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, féllu gjöld samkvæmt þessari álagningu í gjalddaga tíu dögum eftir að sóknaraðila var tilkynnt um hana. Á þeim gjalddaga hófst fyrningarfrestur kröfu varnaraðila samkvæmt 3. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Sá frestur var ekki liðinn þegar fjárnámið, sem málið varðar, var gert. Samkvæmt því verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest á þann hátt, sem nánar greinir í dómsorði.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Magnúsar Axelssonar, um að fellt verði úr gildi fjárnám, sem sýslumaðurinn á Selfossi gerði hjá honum 15. janúar 2007 fyrir kröfu varnaraðila, tollstjórans í Reykjavík.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 4. júlí 2007.

Mál þetta barst Héraðsdómi Suðurlands 9. mars sl., með bréfi Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns fyrir hönd Magnúsar Axelssonar.

Krafa sóknaraðila  í málinu er „...að fjárnámsgerð sýslumannsins á Selfossi, nr. 033-2006-00855, sem fram fór þann 15. janúar sl. hjá Magnúsi Axelssyni, kt. 150945-4969, Miðengi 1, 800 Selfossi, verði ógilt/fellt úr gildi með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands.“  Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi varnaraðila.

Sóknaraðili vísar um lagarök til laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og 25. og 29. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Varðandi málskostnað vísar sóknaraðili til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 92. gr. laga nr. 90/1989.

Varnaraðili gerir þá kröfu að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að fjárnámsgerð sýslumannsins á Selfossi nr. 033-2006-00855, sem fram fór að kröfu varnaraðila þann 15. janúar sl., verði staðfest. Þá er krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að mati dómsins.

I.

Málsatvik eru þau að tollstjórinn í Reykjavík sendi fjárnámsbeiðni dagsetta 2. maí 2006 til sýslumannsins á Selfossi, sem móttók beiðnina 30. maí s.á. Var fjárnám gert hjá sóknaraðila án árangurs þann 15. janúar 2007 hjá sýslumanninum á Selfossi, að kröfu tollstjórans í Reykjavík að undangengnum boðunum, fyrst 13. júní 2006, aftur 26. október 2006 og síðast 4. janúar 2007. Var heildarkrafan samkvæmt aðfararbeiðninni samtals 1.941.122 krónur sem sundurliðast í höfuðstól, 882.000 krónur, dráttarvexti, reiknaða til 2. maí 2006, 1.046.422 krónur, og aðfarargjald í ríkissjóð, 12.700 krónur. Við fyrirtökuna var sóknaraðili sjálfur mættur og mótmælti kröfunni á þeim forsendum að hún væri fyrnd. Sýslumaður tók mótmæli sóknaraðila ekki til greina og framkvæmdi gerðina. Lýsti sóknaraðili því þá strax yfir að hann myndi skjóta ákvörðun sýslumanns til úrlausnar héraðsdómara.

II.

Í kröfubréfi sóknaraðila segir meðal annars svo en þar vísar lögmaður sóknaraðila til bókunar í gerðarbók sýslumanns: „Gerðarþoli mótmælir kröfu gerðarbeiðanda og telur hana niður fallna fyrir fyrningu, með vísan til 3. gr. laga um fyrningu nr. 14,1905 sé fyrningarfrestur skattkrafna 4 ár frá gjalddaga þeirra, gerðarþoli hefur kynnt sér framlögð gögn gerðarbeiðanda og telur hann að þau beri ekki með sér á nægilega skýran hátt að slit hafi orðið á fyrningu kröfunnar né hver raunverulegur gjalddagi krafnanna sé, eins vísar hann til þess að greiðsla inná umrædda kröfu árið 2004 hafi verið skuldajöfnuðuð án hans vitundar og teljist því ekki rjúfa fyrningu. Vísar gerðarþoli til 9. gr. sbr. 1. mgr. 27. gr. aðfararlaga um að óheimilt sé að halda gerðinni áfram. Með vísan til 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga ákveður fulltrúi sýslumanns að halda áfram umræddri gerð þar sem umrædd[ar] skattkröfur virðast hafa verið lagðar á þann 08.10.2004 og munu því fyrst hafa orðið gjaldkræfar þá, vísast einnig til dóms hæstaréttar í máli nr. 469/2002. Gerðarþoli segist engar eignir eiga, en honum er leiðbeint um í hverjum réttindum og eignum fjárnám verði gert og inntur svara sérstaklega um hvort honum tilheyri eitthvað slíkt, sem hann kveður ekki vera….“ Þá segir að hin umdeilda virðisaukaskattskrafa sé áætluð vegna tímabila 08, 16, 24, 32, 40 og 48 á árinu 2001, þ.e. kr. 147.000 fyrir hvert tímabil. Þá segir einnig í greinargerð sóknaraðila að hann byggist á því að krafa gerðarbeiðanda sé fallin niður vegna fyrningar og þegar af þeirri ástæðu beri að ógilda hina umdeildu aðfarargerð.

Sóknaraðili lagði fram við aðalmeðferð málsins afrit af skattframtali ársins 2002 vegna tekna 2001 og fylgdi þar með samanburðarskýrsla virðisaukaskatts, RSK 10.25, þar sem kemur fram að sóknaraðili hafi selt á árinu 2001 virðisaukaskattsskylda þjónustu að fjárhæð 500.421 króna og sé útskattur af þeirri fjárhæð 122.603 krónur en innskattur 16.726 krónur. Þá liggur fyrir í málinu leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts vegna ársins 2001 þar sem kemur fram að útskattur sé 122.604 krónur en innskattur 16.726 krónur og til greiðslu séu 105.877 krónur. Er sú skýrsla óundirrituð en varnaraðili bar ekki brigður á að skýrslan stafaði frá sóknaraðila. Þá liggur fyrir í gögnum málsins hreyfingarlisti úr tekjubókhaldskerfi ríkisins og kemur þar fram að vegna tímabils 08-2001 séu almenn skil útskatts 147.000 auk álags sem lagt er á 8. október 2004, 14.700 krónur. Í kerfinu er bókuð innborgun að fjárhæð 32.649 krónur sem sögð er vera vegna skuldajöfnuðar sem fram fór 13. október 2004. Þá kemur fram á yfirlitinu að virðisaukaskattur er lagður á vegna tímabils 16-2001 að fjárhæð 147.000 krónur auk álags og dráttarvaxta. Fyrir tímabil 24, 32, 40 og 48-2001 er virðisaukaskattur lagður á hvert tímabil fyrir sig þann 8. október 2004 að fjárhæð 147.000 á hvert tímabil auk álags og dráttarvaxta.

Í gögnum málsins liggur fyrir bréf dagsett 6. október 2004 frá skattstjóranum í Reykjavík til sóknaraðila þar sem tilkynnt er um skráningu á grunnskrá virðisaukaskatts og áætlun virðisaukaskatts. Segir svo í bréfinu: „Tilkynning um skráningu á grunnskrá virðisaukaskatts og áætlun virðisaukaskatts. Með vísan til 25. og 26. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum og 96. gr laga nr. 75/1981 um tekju- og eignaskatt, með síðari breytingum. Vísað er til bréfs skattstjóra dags. 26. mars 2003, þar sem skorað var á yður að tilkynna starfsemi yðar til skattstjóra, þar sem þér höfðuð sent virðisaukaskattskýrslu fyrir uppgjörstímabilið árið 2001 og leggja fram afrit af útgefnum reikningum. Fyrirspurn skattstjóra var ekki sinnt og því sendi skattstjóri yður bréf þann 20. september 2004, þar sem yður var boðað að þér yrðuð úrskurðaðir á virðisaukaskattsskrá frá 1. janúar 2001 og áætlaður virðisaukaskattur fyrir árið 2001. Yður var gefinn 15 daga frestur til að andmæla fyrirhuguðum aðgerðum skattstjóra. Ekkert svar hefur [borist] við bréfi skattstjóra. Yður er því tilkynnt að áður boðaðar aðgerðir koma nú til framkvæmda. Skattstjóri hefur úrskurðað yður á virðisaukaskattskrá með vísan til 5. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt frá og með 1. janúar 2001. Yður hefur verið áætluð skattskyld velta og útskattur fyrir árið 2001 samanber eftirfarandi:“ Síðan er í bréfinu  sundurliðaðar áætlaðar tekjur, 600.000 krónur, fyrir hvert uppgjörstímabil á árinu 2001, útskattur 147.000 krónur og álag 14.700 krónur. Þá segir í lok bréfsins að meðfylgjandi séu tilkynningar um álagningu virðisaukaskatts fyrir árið 2001 og staðfesting á skráningu virðisaukaskattsskylds aðila. Í lokin kemur fram að kærufrestur til skattstjóra sé 30 dagar frá dagsetningu bréfsins. Sóknaraðili hefur ekki borið á móti því að hafa fengið ofangreinda tilkynningu í hendur. Þá liggur fyrir staðfesting frá Gunnari M. Erlingssyni, löggiltum endurskoðanda, þar sem hann staðfestir að krafa Tollstjórans í Reykjavík á hendur sóknaraðila sé vegna virðisaukaskatts og byggð á áætlun og málið sé í vinnslu hjá honum.

III.

Í greinargerð varnaraðila segir: „Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. l. nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, telst upphaf fyrningarfrests frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf, þ.e. upphaf fyrningarfrests miðast við gjalddaga skattkröfu sem eru lögbundnir skv. sérlögum um opinbera skatta og gjöld. Skv. 3. tl. 3. gr. sömu laga fyrnast kröfur sem lögtaksrétt hafa á 4 árum, sé þeim ekki viðhaldið. Skv. 9. tl. 1. mgr. 1. gr. l. nr. 90/1989 um aðför, má gera aðför til fullnustu kröfum um skatta og önnur samsvarandi gjöld, sem innheimt eru samkvæmt lögum af innheimtumönnum ríkissjóðs, sveitarfélögum og sameiginlegum gjaldheimtum ríkis og sveitarfélaga. Skv. 52. gr. sömu laga er fyrningu aðfararhæfrar kröfu slitið, ef aðfararbeiðni berst héraðsdómara eða sýslumanni fyrir lok fyrningartíma og gerðinni er síðan fram haldið án ástæðulauss dráttar. Upphaf fyrirngarfrests kröfu varnaraðila um virðisaukaskatt vegna ársins 2001 miðast við 8. október 2004, sbr. dskj. nr. 12, en það er sá dagur sem krafan varð fyrst gjaldkræf. Heimild skattstjóra til endurákvörðunar virðisaukaskatts er skýr og nær til skatts síðustu sex ára sem eru næst á undan því ári þegar endurákvörðun fer fram, sbr. 5. mgr. 26. gr. l. nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.“

IV.

Fyrir dóminum gerði sóknaraðili sömu dómkröfur og gerðar voru í greinargerð en til vara að fjárnámsgerð verði staðfest fyrir lægri fjárhæð eða 105.877 krónur og að dráttarvextir eldri en fjögurra ára væru fyrndir.

Sóknaraðili kvaðst hafa skilað virðisaukaskattsskýrslu með skattframtali árið 2002 vegna tekna 2001. Kvað hann þá virðisaukaskattsskýrslu ekki finnast, hvorki hjá sér né varnaraðila, og því hafi ekki verið hægt að leggja hana fram í málinu. Hins vegar hafi samræmingarblað og leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts verið lagðar fram hjá varnaraðila. Kom fram hjá sóknaraðila að eingöngu skýrslunni hafi verið skilað en ekki greiðslu. Kvað sóknaraðili að virðisaukaskattsskuld gjaldfalli mánuði eftir álagningu og því hefði virðisaukaskattsskuld hans við varnaraðila gjaldfallið í febrúar 2002 og við það tímamark bæri að miða upphaf fyrningarfrests á skuldina en sóknaraðili hafi verið með ársskil þar sem velta hans var svo lítil. Mótmælti sóknaraðili því að upphaf fyrningarfrests gæti verið 8. október 2004 eins og varnaraðili héldi fram  því þá hafi varnaraðili eingöngu ákvarðað áætlun á sóknaraðila eins og gögn málsins bæru með sér. Kvað sóknaraðili varnaraðila vera að búa til nýjan fyrningarfrest fyrir skattkröfur sínar með því að leggja skatta á eftir á. Benti sóknaraðili á að bréf varnaraðila dags. 6. október 2004 til sóknaraðila sé áætlun en ekki endurákvörðun. Þá mótmælir sóknaraðili því að skuldajöfnun sem bókuð var sem greiðsla á skuld hans þann 13. október 2004 geti rofið fyrningu þar sem hún hafi farið fram án vitundar og vilja sóknaraðila.

Varnaraðili kvað sóknaraðila hafa skilað virðisaukaskattsskýrslu með skattframtali ársins 2002. Þá hefði sóknaraðili ekki verið á virðisaukaskattsskrá eins og skylt er samkvæmt 5. gr. laga nr. 50/1988 og því ekki haft virðisaukaskattsnúmer. Því hefði hann ekki haft heimild til að innheimta virðisaukaskatt. Til að hægt væri að skrá innlagða skýrslu í bókhaldskerfi tollstjóra varð sóknaraðili að hafa rétta skráningu og virðisaukaskattsnúmer. Öðruvísi væri ekki hægt að taka við og skrá innsenda virðisaukaskattsskýrslu né innheimta hana. Kvað varnaraðili að í framhaldi að skattstjóri tók við skýrslu sóknaraðila, hefði sóknaraðili verið krafinn um afrit reikninga sem skýrslan byggðist á. Hefði því ekki verið hægt að úrskurða skýrsluna rétta fyrr en umbeðin gögn lægju fyrir. Í bréfi skattstjórans í Reykjavík til sóknaraðila dagsettu 6. október 2004 segir að sóknaraðila hafi verið sent bréf þann 26. mars 2003 þar sem skorað var á sóknaraðila að tilkynna starfsemi sína til skattstjóra og leggja fram reikninga. Því erindi hefði sóknaraðili ekki sinnt. Þá segir í nefndu bréfi að sóknaraðila hafi verið tilkynnt með bréfi þann 20. september 2004 að hann yrði úrskurðaður á virðisaukaskattsskrá frá 1. janúar 2001 og virðisaukaskattur yrði áætlaður á hann og hafi sóknaraðili fimmtán daga til að andmæla fyrirhuguðum aðgerðum skattstjóra. Við þessu hafi ekkert svar borist. Var sóknaraðila síðan með bréfinu dags. 6. október 2004 tilkynnt um að hann hafi verið skráður í grunnskrá virðisaukaskatts og um áætlun skattsins vegna tekjuársins 2001. Var kærufrestur til skattstjóra tilgreindur þrjátíu dagar frá dagsetningu bréfsins. Þá kvað sóknaraðili engin gögn staðfesta í þessu máli að áður hafi verið reynt að fá upplýsingar frá sóknaraðila eins og greinir í bréfi skattstjóra, það séu bara fullyrðingar í bréfi.  Byggir varnaraðili á því að fyrningarfrestur hafi byrjað að líða þegar endanleg áætlun virðisaukaskatts hafi verið komin til framkvæmda, sem sé 8. október 2004. Aðfarargerð hafi verið móttekin hjá  sýslumanninum á Selfossi þann 30. maí 2006 og sé því innan fyrningartímans.

V.

Í 5. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt segir að hver sá, sem skattskyldur sé samkvæmt 3. gr., sbr. 4 gr., skuli ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefjist, tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem hann sé heimilisfastur. Í 2. mgr. segir að skattstjóri gefi út staðfestingu til skráningarskylds aðila um að skráning hafi átt sér stað. Í 4. mgr. segir að hafi aðili, sem að mati skattstjóra hafi borið að tilkynna um atvinnurekstur sinn eða starfsemi samkvæmt 1. mgr., ekki sinnt umræddri tilkynningarskyldu, skuli skattstjóri þá úrskurða hann sem skattskyldan aðila samkvæmt ákvæðum 3. gr. og tilkynna aðilanum þar um.  Þá segir í 6. mgr. að fjármálaráðherra sé heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skráningu, þar með talið um afturvirka skráningu til allt að sex ára og um tryggingu vegna skráningar skv. 2. málsl. 5. mgr. Er hér um úrræði að ræða hjá skattayfirvöldum til að tryggja að allir þeir sem reka virðisaukaskattsskylda starfsemi sitji við sama borð og jafnræðis sé gætt við skil og innheimtu á virðisaukaskatti.

Líkur eru á að skattstjóranum í Reykjavík hafi ekki verið kunnugt um skattskylda starfsemi sóknaraðila á árinu 2001 þegar sóknaraðili innheimti virðisaukaskatt vegna starfsemi sinnar og fyrst orðið ljóst um starfsemi sóknaraðila, sem innheimta bæri virðisaukaskatt af, með innsendu skattframtali á árinu 2002 þar sem samanburðarskýrsla virðisaukaskatts var fylgjandi. Í bréfi skattstjórans dags. 6. október 2004 eru talin upp tvö bréf sem skattstjóri kveðst hafa sent sóknaraðila og skorað á sóknaraðila þann 26. mars 2003 að tilkynna starfsemi sína til skattstjóra en því hafi ekki verið sinnt. Þá kemur fram í sama bréfi að skattstjóri hafi sent sóknaraðila bréf dags. 20. september 2004 og tilkynnt honum um að hann yrði úrskurðaður á virðisaukaskattsskrá frá 1. janúar 2001 og virðisaukaskattur yrði áætlaður fyrir árið 2001. Sóknaraðili kveðst nú ekki hafa fengið þau bréf eða svo mátti skilja málflutning hans. Sóknaraðili mótmælir því hins vegar ekki að hann hafi fengið bréf skattstjóra dags. 6. október 2004 þar sem honum var tilkynnt um áætlunina en í því bréfi var sóknaraðila gefinn 30 daga frestur til að kæra umrædda ákvörðun skattstjóra. Hafi sóknaraðila þá ekki verið kunnugt um að skattstjórinn í Reykjavík hafði reynt að krefja hann um skýringar og gögn, þá mátti honum með því bréfi vera kunnugt um það frá þeim degi. Hafði sóknaraðili þá þrjátíu daga frest til að kæra þá ákvörðun skattstjóra ef hann taldi hana ranga. Sóknaraðili hefur ekki borið brigður á að hann hafi fengið umrætt bréf og verður það því lagt til grundvallar við frekari umfjöllun.

Í 25. gr. virðisaukaskattslaga segir í 2. mgr. að skattstjóri skuli rannsaka virðisaukaskattsskýrslur og leiðrétta þær ef þær eða einstakir liðir þeirra eru í ósamræmi við lög eða fyrirmæli sem sett verða samkvæmt þeim. Þá skuli skattstjóri áætla skatt af viðskiptum þeirra aðila sem ekki senda skýrslur innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant. Áætlun skuli vera svo rífleg að eigi sé hætt við að skattfjárhæð sé áætluð lægri en hún er í raun og veru. Skattstjóri skuli síðan tilkynna innheimtumanni og skattgreiðanda um áætlanir og leiðréttingar sem gerðar hafa verið.

Í 1. mgr. 26. gr. virðisaukaskattslaga kemur fram að komi í ljós annmarkar á virðisaukaskattsskýrslu, fyrir eða eftir ákvörðun skv. 25. gr., eða telji skattstjóri frekari skýringa þörf á einhverju atriði varðandi virðisaukaskattsskil aðila skuli hann skriflega skora á aðila að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýringar og þau gögn sem skattstjóri telur þörf á að fá. Fái skattstjóri fullnægjandi skýringar og gögn innan frestsins ákvarðar hann eða endurákvarðar virðisaukaskatt samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu og fengnum skýringum og gögnum. Ef eigi er bætt úr annmörkum á virðisaukaskattsskýrslu, svar aðila berst ekki innan tiltekins tíma, skýringar hans eru ófullnægjandi eða eigi eru send þau gögn sem óskað er eftir er skattstjóra heimilt að áætla virðisaukaskatt aðila.

Þá segir í 2. mgr. 26. gr. að skattstjóra sé heimilt að áætla virðisaukaskatt ef í ljós komi að virðisaukaskattsskýrsla styðjist ekki við tilskilið bókhald samkvæmt lögum um bókhald, samkvæmt ákvæðum virðisaukaskattslaga eða ákvæðum reglugerða settra samkvæmt þeim. Jafnframt sé skattstjóra heimilt að áætla virðisaukaskatt aðila ef í ljós kemur að færsla á innskatti eða útskatti, eða öðrum þáttum sem virðisaukaskattsskýrsla byggist á, styðjist ekki við lögmæt gögn. Þá segir að enn fremur sé heimilt að áætla virðisaukaskatt aðila ef ekki er lagt fram bókhald eða þau gögn sem skattyfirvöld kunna að biðja um til að sannprófa virðisaukaskattsskýrslu. Áætlun skuli vera svo rífleg að eigi sé hætt við að skattfjárhæð sé áætluð lægri en hún er í raun og veru.

Samkvæmt bréfi skattstjóra til sóknaraðila þann 6. október 2004 var sóknaraðila sannanlega tilkynnt um þá vankanta sem skattstjóri taldi vera á skýrsluskilum sóknaraðila. Eins og kemur fram í 2. mgr. 26. gr. laganna þá er skattstjóra heimilt, verði aðili ekki við áskorun um að leggja fram bókhald eða gögn til að sannprófa virðisaukaskattsskýrslu, að áætla virðisaukaskattinn. Hafa skattyfirvöld því lögformlega heimild til að beita slíku úrræði verði aðilar ekki við kröfu eða beiðni um skýringar. Þó svo að allir frestir samkvæmt fyrri bréfum, sem skattstjóri kveðst hafa sent sóknaraðila, hafi verið útrunnir, þá hafði sóknaraðili enn þrjátíu daga frest frá 6. október 2004 til að fá tilkynnta áætlun fellda niður eða leiðrétta. Til þess þurfti hann að leggja fram umbeðna reikninga eins og kemur fram í ofangreindu bréfi. Engin gögn í málinu sýna eða styðja það að sóknaraðili hafi nýtt sér þann frest eða komið gögnum til skattstjóra. Samkvæmt því getur skattstjóri ekki innheimt aðra fjárhæð hjá sóknaraðila en þá sem ákvörðuð er með áætlun.

Sóknaraðili hefur byggt á því í máli sínu að virðisaukaskattsskýrsla sú sem send var með skattframtali hans árið 2002 hafi fengið lögformlega kærumeðferð hjá skattyfirvöldum en innsenda skýrslu sóknaraðila skuli taka sem kæru samkvæmt 29. gr. virðisaukaskattslaga. Þá sé um áætlun skattstjóra að ræða en ekki endurákvörðun, en endurákvörðun verði ekki framkvæmd fyrr en eftir að búið sé að ákvarða (ath). Áætlun sé ekki ákvörðun í skilningi virðisaukaskattslaga. Því geti fyrningarfrestur ekki byrjað að líða þegar skattstjóri áætlaði á sóknaraðila. Engin ákvörðun samkvæmt 25. gr. laganna hafi farið fram og því sé krafan fyrnd en hún hafi verið gjaldkræf í byrjun árs 2002. Hafi fyrningarfrestur hennar þá byrjað að líða samkvæmt 4. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu.

Í 25. gr. laganna segir að skattstjóri skuli ákvarða virðisaukaskatt skráðs aðila á hverju uppgjörstímabili. Hann skuli rannsaka skýrslur og leiðrétta þær ef þær eða einstakir liðir þeirra séu í ósamræmi við lög og fyrirmæli. Þá skuli skattstjóri áætla skatt af viðskiptum þeirra aðila sem ekki senda skýrslur innan tilskilins tíma, senda enga skýrslu eða ef skýrslu eða fylgigögnum er ábótavant.

Í 26. gr. laganna segir að komi í ljós annmarkar á virðisaukaskattsskýrslu, fyrir eða eftir ákvörðun samkvæmt 25. gr. eða telji skattstjóri frekari skýringa þörf á einhverju atriði varðandi virðisaukaskattsskil aðila skuli hann skriflega skora á aðila að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té skriflegar skýringar og þau gögn sem skattstjóri telji þörf á að fá. Þá segir að fái skattstjóri fullnægjandi skýringar og gögn innan frests ákvarði hann eða endurákvarði virðisaukaskatt samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu og fengnum skýringum og gögnum.

Af 1. mgr. 26. gr. laganna verður ekki annað ráðið en að sú afstaða sem skattstjóri tekur við álagningu virðisaukaskatts samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna, hvort sem það sé í formi ákvörðunar eða áætlunar, þá sé það ákvörðun sem framhald meðferðar byggist á. Áætlun getur því verið lokaákvörðun við álagningu virðisaukaskatts og ber aðilum að greiða hana verði henni ekki breytt með úrskurði. Er því ekki fallist á það með sóknaraðila að áætlun virðisaukaskatts sem slík sé ekki ákvörðun í skilningi laganna og því geti ekki hafa verið um endurákvörðun að ræða hjá skattyfirvöldum sem hafi verið gjaldkræf 8. október 2004. Við áætlun skattstjórans í Reykjavík hækkaði skuld sóknaraðila við varnaraðila verulega. Í dómi Hæstaréttar nr. 346/2000 segir að endurákvörðun geti ekki leitt af sér nýjan gjalddaga og fyrningartíma skuldar nema að því leyti sem skuldin verður með henni hærri en upphaflegri álagningu nam.

Verður, með vísan til þess sem að ofan segir, krafa varnaraðila um að fjárnámsgjörð sýslumannsins á Selfossi verði staðfest, tekin til greina.

Samkvæmt  27. gr. l. nr. 50/1988 skal beita álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum sé virðisaukaskattur áætlaður. Með vísan til þess er álag hluti viðeigandi skattaskuldar svo og dráttarvextir.

Með vísan til þess sem að ofan segir, hefur sóknaraðila ekki tekist að sýna fram á að krafa varnaraðila hafi verið fyrnd þegar hún var móttekin hjá sýslumanninum á Selfossi þann 30. maí 2006, sbr. 52. gr. laga nr. 90/1989, 3. tl. 3. gr., sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905. Verður því kröfu sóknaraðila hafnað og staðfest fjárnámsgerð sýslumannsins á Selfossi nr. 033-2006-00855, sem fram fór að kröfu varnaraðila 15. janúar 2007, til tryggingar 1.941.122 krónum svo sem nú er krafist.

Málskostnaður fellur niður. 

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er kröfum sóknaraðila, Magnúsar Axelssonar.  Staðfest er fjárnámsgerð sýslumannsins á Selfossi nr. 033-2006-00855, sem fram fór að kröfu varnaraðila, tollstjórans í Reykjavík, 15. janúar 2007, eins og krafist er fyrir dómi, til tryggingar 1.941.122  krónum.

Málskostnaður fellur niður.