Print

Mál nr. 464/2014

Lykilorð
  • Vinnuslys
  • Veikindalaun
  • Tómlæti

                                     

Fimmtudaginn 12. febrúar 2015.

Nr. 464/2014.

ISS Ísland ehf.

(Jón R. Pálsson hrl.)

gegn

Jóhanni Atla Jóhannssyni

(Karl Ó. Karlsson hrl.)

Vinnuslys. Veikindalaun. Tómlæti.

J höfðaði mál gegn I ehf. og krafðist greiðslu launa í fjóra mánuði á grundvelli kjarasamnings vegna slyss sem hann varð fyrir á síðasta degi sínum í starfi hjá I ehf. í desember 2011. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ráðningarsamningur J við I ehf. hefði verið enn í gildi þegar slysið varð og því gæti hann að öðrum skilyrðum uppfylltum krafist launa samkvæmt ákvæðum kjarasamnings vegna óvinnufærni af völdum slyssins þótt tímabil hennar félli utan ráðningartíma hans hjá I ehf. Með vísan til fjölda læknisvottorða og matsgerðar var talið að J hefði nægilega sýnt fram á óvinnufærni sína á því tímabili sem krafa hans í málinu tók til. Þá var ekki fallist á með I ehf. að J hefði með athafnaleysi fyrirgert rétti til launa með því að félaginu hefði ekki verið tilkynnt um óvinnufærni hans fyrr en með bréfi í júlí 2012. Að lokum var talið að ekkert hefði komið fram í málinu sem benti til annars en að J hefði eftir lok ráðningartíma síns hjá I ehf. ætlað að verða sér úti um annað starf. Var því fallist á kröfu J.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júlí 2014. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi á málið rætur að rekja til þess að stefndi, sem réði sig til starfa hjá áfrýjanda 21. september 2010, slasaðist við störf sín 19. desember 2011 þar sem hann fékkst við þrif á vegum áfrýjanda í rækjuvinnslu Kampa ehf. á Ísafirði. Gerðist þetta með því að stefndi festi vinstri hönd sína í færibandi þegar hann mun hafa ætlað að fjarlægja rækju úr innanverðu færibandinu og hlaut hann af þessu áverka á hendinni. Slys þetta varð á síðasta starfsdegi stefnda hjá áfrýjanda og gerði lögregla skýrslu um það auk þess að tilkynna slysið til Vinnueftirlits ríkisins. Stefndi kveðst hafa orðið óvinnufær vegna slyssins um lengri tíma, en um það var áfrýjanda ekki tilkynnt fyrr en með bréfi 25. júlí 2012, sem Efling stéttarfélag ritaði honum í þágu stefnda. Í málinu krefst stefndi greiðslu launa í fjóra mánuði eftir slysið á grundvelli kjarasamnings, sbr. og 4. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla..

Þegar stefndi varð fyrir áðurgreindu slysi var ráðningarsamningur hans við áfrýjanda enn í gildi og getur stefndi að öðrum skilyrðum uppfylltum krafist launa samkvæmt ákvæðum kjarasamnings vegna óvinnufærni af völdum slyssins þótt tímabil hennar falli utan ráðningartíma hans hjá áfrýjanda. Í héraðsdómi er rakið efni læknisvottorða frá desember 2011 og janúar, apríl, ágúst og október 2012 um óvinnufærni stefnda, en að auki hefur verið lagt fram í málinu mat á örorku hans sökum slyssins, þar sem komist var meðal annars að þeirri niðurstöðu að tímabundið atvinnutjón hans hafi verið algert frá slysdeginum 19. desember 2011 til 16. apríl 2013. Með þessu er nægilega sýnt fram á að stefndi hafi verið óvinnufær af völdum slyssins á því tímabili, sem krafa hans í málinu tekur til. Þegar metið er hvort stefndi hafi með athafnaleysi allt til 25. júlí 2012 fyrirgert rétti til launa úr hendi áfrýjanda verður að líta til þess að slysið varð sem áður segir á lokadegi ráðningartíma stefnda og gafst honum því ekki tilefni til að tilkynna áfrýjanda um forföll af þessum sökum á sama hátt og ef vinnusamband þeirra hefði áfram verið við lýði. Áfrýjanda var og kunnugt um slysið. Þá verður einnig að gæta að því að áverkar, sem stefndi hlaut af slysinu, virðast framan af ekki hafa verið taldir alvarlegir eða fallnir til að valda teljandi óvinnufærni. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til annars en að stefndi hafi eftir lok ráðningartíma síns hjá áfrýjanda ætlað að verða sér úti um annað starf, en vegna óvinnufærni hans getur ekki skipt hér máli að ekki hafi verið sýnt fram á að slíkt starf hafi svo víst sé staðið honum til boða. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, ISS Ísland ehf., greiði stefnda, Jóhanni Atla Jóhannssyni, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2014.

                Mál þetta var þingfest 11. september 2013 og tekið til dóms 13. mars sl. Stefnandi er Jóhann Atli Jóhannsson, Frostafold 21, Reykjavík, en stefndi er ISS Ísland ehf., Austurhrauni 7, Garðabæ.

                Stefnandi gerir þær kröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 911.696 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 227.924 krónum frá 1. febrúar 2012 til 1. mars 2012, af 455.848 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2012, af 683.772 krónum frá þeim degi til 1. maí 2012, af 911.696 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

                Stefndi krefst aðallega sýknu en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar.

I

                Stefnandi var ráðinn til starfa hjá stefnda 21. september 2010 sem var fyrsti starfsdagur hans. Hann starfaði við þrif í rækjuvinnslunni Kampa ehf. á Ísafirði. Þann 19. desember 2011 lenti stefnandi í vinnuslysi hjá stefnda er hann festi hönd sína í færibandi sem var í gangi. Stefnandi gat ekki losað sig og varð að taka færibandið í sundur til þess að losa hann. Í kjölfarið var stefnandi fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæslustöðina á Ísafirði þar sem í ljós komu áverkar á vinstri hendi. Lögregla kom á vettvang og tók ljósmyndir af vettvangi og gerði skýrslu um atvikið. Slysið var tilkynnt Vinnueftirliti. Slysið gerðist síðasta dag stefnanda í vinnu hjá stefnda en hann hafði sagt upp starfi sínu vegna þess að hann var að flytja suður. Sagði hann í skýrslu sinni fyrir dómi að hann hefði verið búinn að fá vilyrði fyrir annarri vinnu fyrir sunnan. Aðilar höfðu áður gert samkomulag um að stefnandi léti af störfum þennan dag er slysið varð.

                Stefnandi kveðst hafa verið óvinnufær frá því að slysið varð og fram á mitt sumar 2013. Hann leitaði til stéttarfélags síns, Eflingar-stéttarfélags, sem sendi stefnda bréf 25. júlí 2012 með áskorun um að greiða stefnanda laun í slysaforföllum í samræmi við ákvæði laga og kjarasamnings. Engin viðbrögð urðu við bréfinu og sendi stéttarfélagið því formlega launakröfu 15. ágúst 2012 þar sem gerð var krafa um greiðslu vangreiddra slysalauna vegna tímabilsins 20. desember 2011 til 20. apríl 2012.

                Fyrir liggur að stefnandi tilkynnti ekki veikindi sín til fyrirtækisins eða Heilsuverndar eins og áskilið er í ráðningarsamningi aðila. Engar athugasemdir komu til stefnda vegna vangreiddra launa fyrr en með bréfi Eflingar-stéttarfélags 25. júlí 2012. Stefnandi kveðst ekki hafa gert sér grein fyrir að hann ætti rétt á launum í slysa- og veikindaforföllum. Lögfræðingur stefnda svaraði bréfinu með netpósti 21. ágúst 2012 og benti á ósamræmi í áverkalýsingu og að stefndi gæti ekki tekið afstöðu til kröfunnar fyrr en aflað hefði verið nánari læknisfræðilegra gagna um þetta misræmi. Þá vantaði ennfremur upplýsingar um hvort slysið hefði breytt áformum stefnanda og leitt til tekjutaps. Trúnaðarlæknir stefnda skoðaði málið og er álit hans dagsett 26. nóvember 2012. Segir þar m.a. að vottorð í málinu séu ófullnægjandi og efast mætti um að slysið hafi leitt til algerrar óvinnufærni. Erfitt væri að ímynda sér að áverki á fingri stefnda hafi leitt til algerrar óvinnufærni um margra mánaða skeið.

                Í málinu liggja frammi nokkur læknisvottorð varðandi stefnanda. Í samskiptaseðli Úlfs Gunnarssonar hjá Heilsugæslu Ísafjarðar, dags. 19. desember 2011, kemur fram að stefnandi festi vinstri hönd í flökunarvél og hlaut kramningsáverka lófamegin yfir löngutöng og hefði verki þar. Hann beygði og rétti fingurinn en var svolítið dofinn yfir fjærkjúku fingursins. Sinar voru því í lagi en spurning um mar á skyntaug í fingri. Röntgenrannsókn sýndi engin brot á fingrum eða handarbeinum. Búið var um sárið á löngutönginni. Stefnanda var ráðlagt að láta lækni líta á þetta þann 23. desember.

                Í læknabréfi Jóns Magnúsar Kristjánssonar, læknis í bráðalækningum á Landspítala, dags. 23. desember 2011, kemur fram að ástæður fyrir komu stefnanda hafi verið sár á löngutöng á hægri hendi. Við skoðun var töluverð bólga á fingrinum. Það sást sár lófamegin á fingrinum en var ekki sýkingarlegt. Stefnandi gat ekki rétt að fullu úr fingrinum. Vægur dofi en þó með snertiskyn alls staðar. Greining var tognun og ofreynsla á fingur og opið sár á fingri. Stefnandi fékk nýjar umbúðir og áframhaldandi sýkla- og verkjalyf.

                Í vottorði Önnu Björnsdóttur læknis 16. janúar 2012 segir að stefnandi sé óvinnufær með öllu frá 2. janúar 2012 til 20. janúar 2012. Í vottorði Karls Gauta Guðlaugssonar læknis 13. apríl 2012 segir að stefnandi sé óvinnufær frá 19. desember 2011 til 2. janúar 2012.

                Í vottorði Gísla Þórarnar Júlíussonar, læknis á Heilsugæslunni í Grafarvogi, dags. 14. ágúst 2012, kemur fram að stefnandi hafi lent í vinnuslysi þann 19. desember 2011 og slasast á tveimur fingrum, mest á löngutöng vinstri handar en minna á baugfingri vinstri handar. Hann hafi einnig slasast á vinstri framhandlegg. Hann hafi verið óvinnufær frá slysdegi. Hann hafi verið til rannsóknar og meðferðar hjá tveimur taugasjúkdómalæknum. Sé hann enn óvinnufær og horfur á fullum bata óvissar.           Í vottorði sama læknis 11. október 2012 kemur m.a. fram að stefnandi sé kominn með beygjukreppu í fjærkjúkuliðinn og mikilvægt að hann fari að hreyfa fingurinn almennilega og nota höndina. Aðeins bólga ofan við liðinn. Engin sýkingarmerki og ætti að geta farið að vinna fljótlega. Í vottorði Gísla 14. ágúst 2012 segir m.a. að stefnandi hafi verið í gúmmíhönskum þegar slysið varð og fests með vinstri hendi á milli tannhjóla í vinnsluvél. Tveir fingur hafi farið milli tannhjóla, langatöng og baugfingur. Einnig hafi komið járnstykki á móti framhandleggnum og þrýst þar inn í án þess að sár kæmi. Hann hafi hlotið tætt sár lófamegin á löngutöng og minna sár á baugfingri. Hann hafi verið hjá John Benedikz og Marinó Hafsteini taugasjúkdómalæknum. Í dag hafi hann óþægindi í löngutöng lófamegin. Hann fái mikinn sviða á áverkastað í kulda og hita. Hann nái ekki að beygja löngutöngina að fullu. Ef hann lyfti einhverju þungu fái hann ertingu í fingur. Þar sem  hann hafi fengið járnstöngina í framhandlegg finni hann fyrir greinilegri holu og óþægindum við þrýsting á framhandlegg.

                Í örorkumati Sigurðar Thorlaciusar læknis segir í niðurstöðukafla að í slysinu 19. desember 2011 hafi stefnandi hlotið áverka á vinstri löngutöng og baugfingri og vinstri framhandlegg þegar vinstri hönd hafi fest í færibandi sem hann var að þrífa. Hann hafi jafnað sig alveg í baugfingri en fái áfram sviðaverki og dofatilfinningu í löngutöng við álag og hitabreytingar og hafi dálitla eyðu og nokkur eymsli í vöðva þar sem járnstöngin þrýsti á í slysinu. Læknirinn metur tímabundna örorku stefnanda 100% frá slysdegi 19. desember 2011 til 16. apríl 2013 og varanlega örorku 5% frá þeim degi.

                Í læknisvottorði Teits Guðmundssonar, trúnaðarlæknis stefnda, dags. 27. nóvember 2012, segir m.a. að læknisvottorð í málinu séu misvísandi og ferill málsins sérstakur. Hægt sé að efast um tengingu algerrar óvinnufærni stefnanda við þann áverka sem lýst er. Heimsóknir hans hafi verið stopular til læknis og ekki hafi verið markvisst brugðist við með frekara mati.

II

                Stefnandi byggir á því að hann hafi slasast síðasta dag sinn í vinnu hjá stefnda. Í ljósi þeirra áverka sem stefnandi hlaut og atvika í kjölfar slyssins hafi stefnda ekki getað dulist að slysið hafði afleiðingar fyrir stefnanda. Samkvæmt gr. 8.2. í aðalkjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins skuli starfsmaður, sem forfallast af völdum slyss við vinnu, halda dagvinnulaunum sínum í þrjá mánuði auk réttar til launa í veikindum. Samkvæmt gr. 8.1.2. hafi stefnandi átt eins mánaðar veikindarétt hjá stefnda í ljósi starfstíma hans. Samtals hafi stefnandi því átt rétt á að halda launum í fjóra mánuði í kjölfar slyssins.                

Samkvæmt framlögðum læknisvottorðum hafi stefnandi verið óvinnufær allan þann tíma. Vottorðin hafi öll verið afhent stefnda sem í kjölfarið hafi óskað eftir áliti trúnaðarlæknis síns. Með bréfi trúnaðarlæknis stefnda, dags. 26. nóvember 2012, hafi læknirinn talið að mat handarskurðlæknis ætti að liggja til grundvallar þeim áverkum sem stefnandi hlaut. Samkvæmt vottorði Gísla Þórarnar Júlíussonar heimilislæknis, dags. 11. október 2012, hafi stefnandi leitað til nokkurra lækna vegna slyssins, þar á meðal til John Benedikz og Marinós Hafsteins, sem báðir séu taugasjúkdómalæknar. Einnig hafi stefnandi leitað til Björns Péturs Sigurðssonar, sérfræðings í bæklunar- og handarskurðlækningum. Með vísan til framlagðra vottorða verði að telja að stefnandi hafi sannað óvinnufærni sína á því tímabili sem slysaforföll hans vörðu.

                Gerð sé krafa um greiðslu vangreiddra slysalauna frá 20. desember 2011 til 20. apríl 2012. Samkvæmt launaseðlum stefnanda hafi umsamin mánaðarlaun hans verið 206.884 krónur. Miðað við fjögurra mánaða tímabil sé krafa stefnanda samtals að fjárhæð 827.536 krónur. Þess beri að geta að launatímabil stefnda hafi verið frá 21. degi hvers mánaðar til 20. dags þess næsta.

                Þrátt fyrir að slysið yrði á síðasta degi stefnanda í vinnu hafi það haft fjárhagslegar afleiðingar í för með sér fyrir stefnanda. Stefnandi hafi fengið vilyrði um vinnu á skyndibitastað í Reykjavík og hafi þannig haft í hyggju að afla sér atvinnutekna á því tímabili sem krafa hans nær til. Sökum afleiðinga slyssins hafi hann ekki getað hafið störf í nýrri vinnu.

                Að gefnu tilefni sé meintu tómlæti stefnanda vísað á bug. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda sé réttur stefnanda til greiðslu launa í slysaforföllum lög- og kjarasamningsbundinn lágmarksréttur hans.

                Gerð er krafa um greiðslu orlofs á vangreidd slysalaun. Byggist krafan á ákvæðum laga nr. 30/1987 um orlof og 4. kafla gildandi kjarasamnings. Samkvæmt 1. gr. orlofslaganna eigi allir þeir sem starfa í þjónustu annarra gegn launum rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt reglum laganna. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna og ákvæði 4.1.1. í gildandi kjarasamningi skuli orlofslaun vera 10,17% af öllu kaupi. Samtals sé gerð krafa um greiðslu 84.160 króna vegna orlofs.

                Krafa stefnanda sundurliðast þannig:

                Vangreidd laun vegna slysaforfalla             

                Janúar 2012                                        kr.           206.884,-

                Febrúar 2012                                      kr.           206.884,-

                Mars 2012                                           kr.           206.884,-

                Apríl 2012                                           kr.           206.884,-

                Samtals                                kr.           827.536,-             

                Orlof                                    

                827.536 kr. * 10,17%                        kr.           84.160,-

                Samtals                                kr.          911.696,-

                Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar. Stefnandi hafi verið félagsmaður í Eflingu-stéttarfélagi á því tímabili er krafa hans stofnaðist. Vísað sé til meginreglu vinnu-, kröfu- og samningaréttar um að laun beri að greiða í samræmi við umsamda launataxta samkvæmt gildandi ráðningar- og kjarasamningi. Vísist um réttindi hans aðallega til 1., 2., 3., 4. og 12. kafla kjarasamnings félagsins. Jafnframt sé vísað til laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl., aðallega 1. gr., laga nr. 28/1930 um greiðslu verkkaups, laga nr. 30/1987 um orlof, aðallega 1., 7., og 8. gr. og laga nr. 19/1979 um rétt launafólks til uppsagnarfrests o.fl. Byggt er á því að stefndi hafi vanefnt bindandi ráðningarsamning við stefnanda með því að greiða ekki umsamin laun og uppfylla aðrar samningsskyldur sínar. Samkvæmt framangreindum réttarheimildum og samningum sé greiðsluskylda stefnda ótvíræð. Um sönnun er jafnframt vísað til stjórnunarréttar stefnda og þess að hann er bókhaldsskyldur að lögum.

                Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur III. og V. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðst við XXl. kafla laga 91/1991 um meðferð einkamála.

III

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að stefndi skuldi stefnanda ekki stefnufjárhæðina, enda hafi stefnandi þegar fengið greidd laun í samræmi við unninn starfstíma hjá stefnda. Óumdeilt sé að stefnandi slasaðist á síðasta starfsdegi í vinnu þann 19. desember 2011. Stefnandi hafi gert samkomulag við stefnda um að fá að hætta þennan dag án þess að vinna uppsagnarfrest sinn. Enginn ráðningarsamningur hafi þannig verið í gildi milli aðila eftir 19. desember 2011. Almennt gildi sú regla að sé ráðningarsamningi slitið með samkomulagi eða uppsögn áður en veikindi eða slys verða losni báðir aðilar, atvinnurekandinn og starfsmaðurinn, undan skyldum sínum að loknum uppsagnarfresti. Ráðningarslitin höggvi á öll réttindi og skyldur aðila, þ.m.t. veikinda- og slysaréttindi. Vinnu- eða ráðningarsamningurinn hafi runnið sitt skeið sem sé forsenda réttinda og skyldna milli aðila.

                Laga- og kjarasamningsákvæði um slysa- og veikindalaun séu bundin því ófrávíkjanlega skilyrði að starfsmaður hafi forfallast frá vinnu og hafi orðið fyrir tekjutapi vegna slyssins. Ljóst sé af atvikalýsingu stefnanda sjálfs að stefnandi hafði ekki ráðið sig í aðra vinnu þegar hann slasaðist. Sú fullyrðing að hann hafi ætlað að hefja störf fljótlega eftir áramót komi fyrst fram í stefnu og í læknisvottorði sem stefndi hafi fyrst séð við þingfestingu málsins. Ekkert hafi verið minnst á vinnutap stefnanda í bréfum Eflingar-stéttarfélags sumarið 2012. Í nýju læknisvottorð, dags. 14. ágúst 2012, segi að hann hafi fengið vilyrði fyrir vinnu hjá Hlöllabátum fljótlega eftir áramót.

                Af framangreindu sé ljóst að stefnandi hafi ekki haft í hyggju að vinna neitt seinni hluta desember, eftir 19. desember eða fyrstu daga í janúar 2012. Stefnandi hafi ekki fengið loforð um vinnu og virðist ekki hafa skráð sig hjá vinnumiðlun í atvinnuleit. Stefnandi hafi einfaldlega ekki ætlað að vera á vinnumarkaði á þessu tímabili. Veikindalaunakrafa stefnanda, sem sé fyrir tímabilið janúar, febrúar, mars og apríl 2012, staðfestir þetta. Stefnandi hafi ekki samið um launalaust leyfi seinni hluta desember 2011, heldur hafi hann einfaldlega hætt störfum og ekki ætlað strax í aðra vinnu. Af málatilbúnaði stefnanda sé jafnframt ljóst að stefnandi hafi ekki skuldbundið sig til að hefja störf neins staðar þegar hann slasaðist. Krafa vegna veikindalauna frá og með janúar 2102 og næstu 3 mánuði fái því ekki staðist.

                Það sé jafnframt forsenda fyrir kröfu um veikindalauna að óvinnufærni vegna slyss sé án tafar tilkynnt til fyrirtækisins og læknisvottorðum skilað, sjá 8. grein laga nr. 19/1979 og gr. 8.4.3. í kjarasamningi Eflingar-stéttarfélags. Skylda til greiðslu veikindalauna sé háð því að tilkynning um veikindi hafi borist með réttum hætti og án tafar. Samkvæmt ráðningarsamningi hafi stefnanda borið að tilkynna strax öll veikindi, bæði til fyrirtækisins og til Heilsuverndar. Fyrirtækið hafi enga vitneskju fengið um óvinnufærni stefnanda vegna afleiðinga slyssins þann 19. desember 2012 fyrr en með bréfi Eflingar-stéttarfélags 25. júlí 2012. Engar skýringar hafi verið gefnar á því af hverju stefnandi hafði ekkert samband við stefnanda og af hverju hann tilkynnti ekki meinta óvinnufærni sína vegna slyssins. Stefnanda hafi verið skylt að tilkynna án tafar veikindi sín ef hann ætlaði að virkja veikindalaunarétt sinn. Formleg og tafarlaus tilkynning um veikindi eða óvinnufærni sé sönnunargagn um að starfsmaður sé í raun veikur, óvinnufær vegna slyss. Slík tilkynning gefi um leið móttakanda hennar, fyrirtækinu, tækifæri til að ganga úr skugga um raunverulega óvinnufærni og setja trúnaðarlækni sinn inn í málið. Fyrirtækið geti þá kannað hagi starfsmanns nánar. Stefndi hafi verið sviptur þessum rétti til að kanna hagi stefnanda nánar og sannreyna óvinnufærni stefnanda á tímabilinu janúar til aprílloka 2012 vegna vanrækslu stefnanda á að tilkynna óvinnufærni sína á þessu tímabili.

                Stefnandi hafi aðeins orðið fyrir minni háttar áverka þann 19. desember 2011. Hann hafi ekki verið í læknismeðferð á því tímabili sem veikindalaunakrafan tekur til og heimsóknir hans á þessum tímabili til lækna verið stopullar. Hann hafi aðeins mætt tvisvar til læknis á þessu tíma. Næsta heimsókn stefnanda til læknis sé síðan ekki fyrr en 14. ágúst 2012. Þá séu afleiðingar slyssins allt í einu orðnar allt aðrar og meiri en áður hafði verið lýst. Heimsóknir hans til læknis í janúar til aprílloka 2012 séu undarlega fáar miðað við alvarleika slyssins eins og þeim sé síðar lýst af stefnanda. Engin læknisheimsókn sé í febrúar og mars 2012. Á þessu sé engin skýring gefin.

                Ósannað sé með öllu að stefnandi hafi verið óvinnufær í janúar 2012 til aprílloka 2012 en til þess tímabils taki veikindalaunakrafan.

                Það sé ávallt forsenda sérstaks þriggja mánaða vinnuslysaréttar að starfsmaður hafi orðið óvinnufær vegna afleiðinga vinnuslyss. Það sé með öllu ósannað í þessu máli. Atvik málsins og aðgerða- og athafnaleysi stefnanda um að láta stefnda vita af afleiðingum vinnuslyssins á heilsu hans séu undarlegar í ljósi þess hversu alvarlegar þær eru nú orðnar.

                Stefnandi beri sjálfur alla ábyrgð á vinnuslysinu eins og hann hafi sjálfur greint frá í lögregluskýrslu. Ekkert hafi verið að vélbúnaði á vinnustaðnum og öryggisbúnaður virkað fullkomlega eftir að stefnandi festi sig í færibandinu þegar hann fór að fikta í því. Slysið megi rekja til áhættutöku stefnanda og eigin sakar stefnanda sjálfs. Þegar af þessari ástæðu beri stefnda ekki skylda til að greiða stefnanda veikindalaun.

                Hvað varðar varakröfu sína um lækkun stefnukröfunnar vísar stefndi til sömu málsástæðna og fram koma í aðalkröfu. 

                Sérstakur réttur í kjarasamningum, gr. 8.2. og lögum nr. 19/1979 vegna vinnuslysa, sé réttur til „dagvinnulauna“ í þrjá mánuði en veiti stefnanda engan rétt til „yfirvinnulauna“ þeirra sem hann fékk greidd hjá stefnda. Hugtakið dagvinnulaun sé skilgreint í kjarasamningi Eflingar, gr. 8.3.3. Stefnandi hafi ekki fengið greitt dagvinnukaup fyrir vinnu sína heldur hafi hann verið á ákvæðisvinnutaxta, með 21% álagi. Stefnandi hafi ekki reiknað út raunveruleg dagvinnulaun stefnanda eins og honum hafi verið skylt að gera.

                Ósannað sé með öllu að stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni vegna starfsloka sinna hjá stefnda. Þess sé krafist að laun eða tekjur, þ.m.t. bætur og styrkir, sem stefnandi aflaði eða hefði getað aflað í desember 2011 og í janúar, febrúar, mars og apríl 2012 komi til frádráttar kröfu hans. Ljóst sé að stefnandi tilkynnti vinnuslysið til sjúkratrygginga og aflaði læknisvottorðs til að fá sjúkradagpeninga frá sjúkrasjóði og sótti um styrk frá sjúkrasjóði Eflingar-stéttarfélags. Þegar launamaður eigi ekki rétt til veikindalauna, t.d. á hendur fyrrverandi atvinnurekanda sínum vegna starfsloka, eins og í þessu tilviki, eigi hann skýlausa kröfu til bóta eða styrkja úr sjúkrasjóði stéttarfélags síns. Tilgangur sjúkrasjóða sé beinlínis að greiða veikinda- og slysalaun til launafólks þegar veikindaréttur launamanns er ekki lengur til staðar, m.a. vegna starfsloka eða af öðrum ástæðum. Atvinnurekendur fjármagni sjúkrasjóðina með sérstöku gjaldi sem nemi 1% af öllum launagreiðslum.

IV

                Sem áður sagði slasaðist stefnandi í vinnu sinni hjá stefnda 19. desember 2011 er hann festi hönd sína í færibandi. Þetta var síðasti dagur stefnanda í vinnu hjá stefnda en aðilar höfðu áður samið um starfslok stefnanda þennan dag. Stefnandi telur að hann eigi samkvæmt kjarasamningi rétt á eins mánaðar veikindalaunum og þriggja mánaða launum vegna slyssins. Af hálfu stefnda er því haldið fram að enginn ráðningarsamningur hafi verið í gildi og að stefnandi hafi ekki verið á leið í aðra vinnu og því ekki orðið fyrir tekjutapi. Þá byggir stefndi á því að kröfu um veikindalaun verði að tilkynna án tafar til vinnuveitanda og jafnframt á því að veikindi stefnanda séu ósönnuð.

                Hér að framan eru rakin læknisvottorð sem lögð hafa verið fram í málinu. Í vottorði Kára Gauta Guðlaugssonar læknis 13. apríl 2012 segir að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu vegna slyssins frá 19. desember 2012 til 2. janúar 2013 og í læknisvottorði Önnu Geirsdóttur læknis 16. janúar 2012 segir að stefnandi hafi verið óvinnufær með öllu frá 2. janúar 2012 til 20. janúar 2012. Í vottorði Gísla Þórarnar Júlíussonar læknis 14. ágúst 2012 segir að stefnandi sé enn að glíma við afleiðingar slyssins, sé óvinnufær og horfur á fullum bata óvissar. Í örorkumati Sigurðar Thorlaciusar læknis 28. október 2013 segir að afleiðingar slyssins hafi verið 100% tímabundin örorka frá slysdegi 19. desember 2011 til 16. apríl 2012 en frá þeim degi 5% varanleg örorka.

                Með framangreindum vottorðum lækna, sem skoðuðu stefnanda og önnuðust hann, er komin fram fullkomin sönnun fyrir veikindum stefnanda vegna slyss hans í vinnu hjá stefnda á því tímabili sem krafa stefnanda í málinu tekur til. Efasemdir trúnaðarlæknis stefnda, sem ekki skoðaði stefnanda, um algera óvinnufærni stefnanda breyta ekki þessari niðurstöðu.

                Ekki verður fallist á með stefnda að ráðningarsamningi aðila hafi verið slitið og réttindi og skyldur aðila hafi fallið niður. Stefnandi var enn að störfum hjá stefnda er slysið varð og voru því réttindi og skyldur aðila samkvæmt samningnum enn í fullu gildi. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á að til hafi staðið hjá stefnanda að hætta að stunda vinnu og afla sér tekna eins og stefndi heldur fram. Hefur ekkert komið fram í málinu sem styður þá staðhæfingu stefnda. Gegn andmælum stefnanda telst því þessi fullyrðing stefnda ósönnuð.

                Fyrir liggur í málinu að stefnda var ekki tilkynnt um kröfur stefnanda í málinu fyrr en með bréfi stéttarfélags stefnanda 25. júlí 2012. Telur stefndi að stefnandi hafi með því fyrirgert rétti sínum sökum tómlætis við að halda honum fram. Fyrir dómi hefur stefnandi borið að hann hafi ekki gert sér grein fyrir réttarstöðu sinni fyrr en hann leitaði til stéttarfélagsins. Fyrirsvarsmönnum stefnda gat hins vegar ekki dulist er slysið varð að stefnandi yrði frá vinnu um tíma en upplýstu hann ekki um rétt hans til launa samkvæmt kjarasamningi aðila og lögum nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms og slysaforfalla. Því verður það ekki talið stefnanda til réttarspjalla að hafa ekki tilkynnt stefnda fyrr um óvinnufærni sína.

                Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á með stefnanda að hann eigi rétt á launum í slysaforföllum sínum. Samkvæmt gr. 8.2. í aðalkjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins skal starfsmaður sem forfallast af völdum slyss við vinnu halda dagvinnulaunum sínum í þrjá mánuði auk réttar til launa í veikindum. Samkvæmt gr. 8.1.2. átti stefnandi eins mánaðar veikindarétt í ljósi starfstíma síns. Samtals átti stefnandi því rétt á launum í fjóra mánuði í kjölfar slyssins.

                Í kjarasamningi málsaðila, grein 8.2.1., segir að í slysaforföllum skuli starfsmaður halda dagvinnulaunum sínum í þrjá mánuði. Í grein 8.3.3. eru dagvinnulaun skilgreind sem föst laun miðað við dagvinnu án hvers konar álagsgreiðslna. Stefnandi fékk hins vegar ekki greitt dagvinnukaup fyrir vinnu sína heldur var hann á ákvæðisvinnutaxta með 21% álagi. Stefnandi átti því rétt á staðgengislaunum í einn mánuð, 206.884 krónum, en síðan rétt á dagvinnulaunum í næstu þrjá mánuði. Miðað við uppfærða kaupgjaldsskrá 1. febrúar 2012 átti stefnandi rétt á 176.306 krónum á mánuði í þrjá mánuði (151,55 yfirvinnutíma x 1.163,35 krónur). Krafa stefnanda verður því samkvæmt framansögðu tekin til greina með þessum breytingum. Stefndi verður því dæmdur til þess að greiða stefnanda 735.802 krónur (206.884+176.306+176.306+176.306) að viðbættu 10,17% orlofi að fjárhæð 74.831 króna eða samtals 810.633 krónur. Krafan ber dráttarvexti frá 25. ágúst 2012 en innheimtubréf er dagsett 25. júlí 2012.

                Eftir þessari niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

                Stefndi, ISS Ísland ehf., greiði stefnanda, Jóhanni Atla Jóhannssyni, 810.633 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. ágúst 2012 til greiðsludags og 350.000 krónur í málskostnað.