Print

Mál nr. 498/2015

Ákæruvaldið (Björn Þorvaldsson saksóknari)
gegn
Hreiðari Má Sigurðssyni (Hörður Felix Harðarson hrl.), Sigurði Einarssyni (Gestur Jónsson hrl.), Ingólfi Helgasyni (Grímur Sigurðsson hrl.), Einari Pálma Sigmundssyni (Gizur Bergsteinsson hrl.), Birni Sæ Björnssyni (Halldór Jónsson hrl.), Pétri Kristni Guðmarssyni (Vífill Harðarson hrl.), Magnúsi Guðmundssyni (Kristín Edwald hrl.), Bjarka H. Diego (Jóhannes Sigurðsson hrl.) og Björk Þórarinsdóttur (Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl.)
Lykilorð
  • Markaðsmisnotkun
  • Umboðssvik
  • Fjármálafyrirtæki
  • Verðbréfaviðskipti
  • Hlutdeild
  • Hegningarauki
  • Lögjöfnun
Reifun

Nokkrir starfsmenn og stjórnendur viðskiptabankans K og einn starfsmaður dótturfélags bankans voru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í starfsemi hans á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 8. október 2008. Í I. kafla ákæru voru H sem forstjóri bankans, S sem stjórnarformaður, I sem forstjóri bankans á Íslandi, E sem forstöðumaður deildar eigin viðskipta og BSB og P sem starfsmenn sömu deildar ákærðir fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr., sbr. 146. gr., laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með því að hafa í sameiningu í störfum sínum, með tilboðum og viðskiptum fyrir eigin reikning K með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í viðskiptakerfi kauphalla, tryggt óeðlilegt verð og búið til verð á hlutabréfunum sem gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð þeirra ranglega og misvísandi til kynna. Talið var að K sem fjármálafyrirtæki hefði verið óheimilt samkvæmt lögum nr. 108/2007 að stunda viðskipti með eigin hluti á skipulegum verðbréfamarkaði í því skyni að mynda markaði með hlutina eins og um viðskiptavakt væri að ræða. Viðskiptin hafi því verið ólögmæt. Með þeirri háttsemi hefðu H, S, I, E, BSB og P af ásettu ráði og á refsiverðan hátt brotið gegn a. lið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007. Framangreind háttsemi stjórnenda K þótti óhjákvæmilega hafa leitt til þess að hlutabréf í bankanum söfnuðust fyrir hjá honum. Vegna lögbundinna takmarkana á eignarhaldi, reglna um flöggunarskyldu og neikvæðra áhrifa á eiginfjárhlutfall hafi stjórnendur bankans afráðið að losa hann við hlutabréfin svo unnt væri að halda áfram hinum umfangsmiklu kaupum á hlutum í bankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Var það gert með sölu hlutabréfa í bankanum í stórum utanþingsviðskiptum til þriggja félaga fyrir tilstilli hlutabréfamiðlunar bankans með loforði til kaupenda um fulla fjármögnun bankans í viðskiptunum. Í II. kafla ákæru voru H, S, I og M, sem var forstjóri dótturfélags bankans í Luxemborg, ákærðir fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt 117. gr., sbr. 146. gr., laga nr. 108/2007, með því að hafa komið viðskiptunum á. Talið var að með því að standa að sölu hlutanna með þeim hætti sem gert var til félaganna þriggja hafi ranglega verið látið líta svo út að þau hefðu lagt fé til kaupanna og borið af þeim fulla markaðsáhættu þegar reyndin hafi verið sú að kaupin voru að fullu fjármögnuð með lánveitingum frá bankanum sem bar sem seljandi áfram fulla markaðsáhættu af hlutunum, enda voru ýmist litlar eða engar aðrar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánanna en hinir seldu hlutir. Þessi viðskipti hafi því byggst á blekkingum og sýndarmennsku og þannig verið líkleg til að gefa eftirspurn eftir hlutunum ranglega og misvísandi til kynna. Hefði því verið um markaðsmisnotkun að ræða við sölu eigin hluta í bankanum til umræddra þriggja félaga og var hún var talin varða við þau ákvæði sem tilgreind voru í ákæru. Voru H, S og I sakfelldir fyrir þá háttsemi og M sem hlutdeildarmaður í broti hinna þriggja í einu tilviki. Í III. kafla ákæru voru H, S, I og M ásamt BHD, sem var framkvæmdastjóri útlána hjá K, og BÞ, sem var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs K, gefin að sök umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 fyrir að hafa á árinu 2008 misnotað aðstöðu sína hjá K með lánveitingum til framangreindra þriggja félaga og KGS að auki en um var að ræða níu lánveitingar. Talið var að við allar lánveitingarnar hefðu reglur bankans verið brotnar og með því framin umboðssvik. Var ýmist að lánveiting og útgreiðsla láns var heimiluð þótt ekki hefði verið um endanlega og gilda lánakvörðun að ræða, að lán var veitt og greitt út þótt lántaki hefði ekki verið metinn til lánshæfis eða lán var veitt og það greitt út þótt engar eða alls ófullnægjandi tryggingar hefðu verið teknar fyrir endurgreiðslu lánanna. BHD var sakfelldur fyrir sjö lánveitingar, H fyrir tvær og hlutdeild í sjö, S fyrir hlutdeild í átta en sýknaður vegna einnar, I fyrir hlutdeild í átta lánveitingum, M fyrir hlutdeild í einni en sýknaður vegna sjö og BÞ sakfelld fyrir ónothæfa tilraun til umboðssvika vegna einnar lánveitingar. Refsing H og S var ákveðin sem hegningarauki við fyrri brot þeirra. Var H gert að sæta fangelsi í sex mánuði og staðfest niðurstaða héraðsdóms um að S skyldi sæta fangelsi í eitt ár. Eins hafði M áður sætt refsingu samkvæmt dómi í öðru máli en ekki þóttu efni til að auka nú við þá refsingu sem hann sætti þar. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að I skyldi sæta fangelsi í fjögur ár og sex mánuði. Einnig var staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu E, BSB og P en E var í héraði dæmdur í fangelsi í tvö ár og BSB og P í átján mánuði. Þegar litið var sérstaklega til þess hve langur tími var liðinn frá því brot þeirra voru framin og tímans sem meðferð málsins tók voru ákvæði héraðsdóms um skilorðsbindingu refsingu þessara þriggja látin standa óröskuð. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að BHD skyldi sæta fangelsi í tvö ár og sex mánuði. Þar sem BÞ var sakfelld fyrir tilraun til umboðssvika sem reyndist ónothæf var henni með lögjöfnun frá 3. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga ekki gerð refsing.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. júlí 2015 af hálfu ákæruvaldsins og í samræmi við yfirlýsingar ákærðu Hreiðars Más Sigurðssonar, Sigurðar Einarssonar og Bjarka H. Diego um áfrýjun. Af hendi ákæruvaldsins er gerð krafa um að þessir ákærðu verði sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og refsing þeirra þyngd. Þá krefst ákæruvaldið þess að sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að vísa frá ákæruliðum A og C í II. kafla ákæru á hendur ákærða Magnúsi Guðmundssyni verði felld úr gildi og þeir teknir til efnismeðferðar í héraðsdómi. Að öðru leyti krefst ákæruvaldið þess að ákærðu Ingólfur Helgason, Einar Pálmi Sigmundsson, Birnir Sær Björnsson, Pétur Kristinn Guðmarsson, Magnús Guðmundsson og Björk Þórarinsdóttir verði sakfelld fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru. Jafnframt verði ákærðu Magnúsi og Björk gerð refsing og refsing ákærðu Ingólfs, Einars Pálma, Birnis Sæs og Péturs Kristins þyngd.

Ákærði Hreiðar Már krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar en til vara krefst hann sýknu.

Ákærði Sigurður krefst aðallega sýknu en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Ákærði Ingólfur krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu en að því frágengnu að refsing hans verði milduð eða hún falli niður.

Ákærðu Einar Pálmi, Birnir Sær og Pétur Kristinn krefjast hver fyrir sitt leyti aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

Ákærði Magnús krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, til vara að dómurinn verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, að þessu frágengnu sýknu af öllum sakargiftum en að öðrum kosti vægustu refsingar.

Ákærði Bjarki krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu en að því frágengu að refsing verði milduð.

Ákærða Björk krefst þess aðallega að iii-lið A. liðar III. kafla ákæru verði vísað frá héraðsdómi hvað hana varðar, til vara staðfestingar héraðsdóms en að því frágengnu að refsing verði milduð.

I

Fjármálaeftirlitið beindi með bréfi 1. október 2009 kæru til sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á tímabilinu júní 2005 til október 2008. Í kærunni kom fram að Kauphöll Íslands hafi í október 2008 vakið athygli Fjármálaeftirlitsins „á grunsamlegum viðskiptum í aðdraganda falls viðskiptabankanna þriggja“ og sent minnisblað til stofnunarinnar í janúar 2009 „þar sem þessi viðskipti voru nánar útlistuð.“ Þegar Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á málinu í kjölfarið hafi verið „komnar fram vísbendingar um afmörkuð tilvik meintrar markaðsmisnotkunar sem áttu sér stað í aðdraganda bankahrunsins.“ Hins vegar hafi fljótlega vaknað grunur um að deild eigin viðskipta Kaupþings banka hf. „hafi verið beitt með skipulögðum hætti í þeim tilgangi að hækka eða styðja við gengi hlutabréfa sem gefin voru út af Kaupþingi, yfir margra ára tímabil en ekki einungis í aðdraganda bankahrunsins.“ Í kæru Fjármálaeftirlitsins til saksóknara voru tólf fyrrverandi starfsmenn Kaupþings banka hf., þeirra á meðal sex ákærðu í máli þessu, sakaðir um brot á lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti með framangreindri háttsemi.

Í hinum áfrýjaða dómi er þess getið að rannsókn sérstaks saksóknara hafi fljótlega beinst að tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 8. október 2008 þegar mikil aukning hafi orðið á kaupum Kaupþings banka hf. á eigin hlutabréfum. Að lokinni lögreglurannsókn gaf sérstakur saksóknari út ákæru 15. mars 2013 á hendur ákærðu og heldur ákæruvaldið því fram að á vegum Kaupþings banka hf. hafi deild eigin viðskipta keypt mikinn fjölda hlutabréfa í bankanum í þeim tilgangi að halda uppi verði þeirra og var því lýst í I. kafla ákæru. Þar var ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi, Einari Pálma, Birni Sæ og Pétri Kristni gefið að sök að hafa á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 8. október 2008 „í sameiningu stundað markaðsmisnotkun, með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum ... með því að setja fram tilboð og eiga viðskipti í viðskiptakerfi NASDAQ OMX Iceland hf. ... og NASDAQ OMX Stockholm AB ... sem tryggðu óeðlilegt verð, bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.“

Í ákærunni var markaðsmisnotkunin sögð „framkvæmd af ákærðu, Birni Sæ og Pétri Kristni, að undirlagi ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar, Ingólfs og Einars Pálma.“ Hefðu tveir hinir fyrstnefndu lagt fram fyrir hönd Kaupþings banka hf. „í upphafi hvers viðskiptadags röð stórra kauptilboða í hlutabréf í Kaupþingi með litlu innbyrðis verðbili í tilboðabækur kauphallanna. Þegar framboð á hlutabréfunum varð meira en eftirspurn annarra markaðsaðila en Kaupþings“ hefðu ákærðu Birnir Sær og Pétur Kristinn að jafnaði mætt auknu framboði „með því að bæta við nýjum kauptilboðum jafnharðan og fyrri tilboðum þeirra var tekið“ og þannig hægt á eða stöðvað verðlækkun hlutabréfanna. Þá hafi hlutfall kaupa þeirra í sjálfvirkum pörunarviðskiptum að jafnaði hækkað við lok viðskiptadags, það er við lok samfellda viðskiptatímabilsins og í lokunaruppboðum í kauphöllunum, og hafi ákærðu þannig haft áhrif á dagslokaverð hlutabréfanna.

Síðar sagði í ákæru að kaup „eigin viðskipta Kaupþings á hlutabréfum í Kaupþingi í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu voru umfangsmikil og kerfisbundin enda voru þau verulegur hluti af heildarveltu með hlutabréf í Kaupþingi í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu ... Með þessum umfangsmiklu kauptilboðum og kaupum, en óverulegu magni sölutilboða og sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, komu ákærðu ýmist í veg fyrir eða hægðu á lækkun á verði hlutabréfa í Kaupþingi og mynduðu þannig gólf í verðmyndun á hlutabréfunum. Um var að ræða ólögmæt inngrip í gangverk markaðarins sem höfðu áhrif á markaðsgengi hlutabréfa í Kaupþingi, tryggðu óeðlilegt verð á hlutabréfunum á tímabilinu, bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Með háttsemi sinni röskuðu ákærðu þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa bankans með ólögmætum hætti.“ Var framangreind háttsemi ákærðu talin varða við a. og b. liði 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007.

Af hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að þau hlutabréfakaup sem ákært var fyrir í I. kafla ákæru hafi valdið því að hlutabréf í Kaupþingi banka hf. hafi safnast fyrir hjá bankanum. Vegna lögbundinna takmarkana á eignarhaldi fjármálafyrirtækja á eigin hlutabréfum, reglna um flöggunarskyldu og neikvæðra áhrifa á eiginfjárhlutfall Kaupþings banka hf., hafi þurft að losa bankann við hlutabréfin, svo unnt yrði að halda áfram umfangsmiklum kaupum á hlutabréfum í bankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Það hafi verið gert með sölu á hlutabréfum í bankanum í stórum utanþingsviðskiptum fyrir tilstilli hlutabréfamiðlunar Kaupþings banka hf. Var ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi og Magnúsi, eins og nánar var lýst í II. kafla ákæru, gefin að sök „markaðsmisnotkun, með því að hafa í sameiningu komið á viðskiptum með hluti í Kaupþingi“ og ranglega látið líta svo út að félögin Holt Investment Group Ltd., skráð á Bresku Jómfrúareyjum, Fjárfestingafélagið Mata ehf. og kýpverska félagið Desulo Trading Ltd., hefðu, hvert fyrir sig í nánar tilgreindum viðskiptum, lagt fé til kaupa á ákveðnum fjölda hluta „í bankanum og borið af þeim fulla markaðsáhættu“ þegar kaup félaganna „voru í raun fjármögnuð að fullu með lánveitingum frá bankanum sem bar þannig, sem lánveitandi og seljandi hlutanna, áfram fulla markaðsáhættu af hlutunum“. Í tilviki Holt Investment Group Ltd. hafi mjög litlar eða engar aðrar tryggingar verið fyrir hendi en hinir seldu hlutir og í tilvikum Fjárfestingafélagsins Mata ehf. og Desulo Trading Ltd. hafi ekki verið fyrir hendi aðrar tryggingar en hinir seldu hlutir. Hafi öll viðskiptin, sem tilkynnt voru til kauphallar, byggst á blekkingum og sýndarmennsku og þannig verið líkleg til að gefa eftirspurn eftir hlutum í bankanum ranglega og misvísandi til kynna. Í tilviki Holt Investment Group Ltd. hafi eina eign þess verið Sýrey ehf., félag með lítil umsvif og neikvætt eigið fé í lok árs 2007, og í tilviki Fjárfestingafélagsins Mata ehf., sem hafi verið með neikvætt eigið fé að fjárhæð rúmlega 37.500.000 krónur í lok árs 2007, voru viðskiptin í ákæru sögð til komin vegna ákvörðunar ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar og Ingólfs um að selja skyldi hluti í bankanum með fullri fjármögnun hans. Að þeirra undirlagi hafi ákærði Magnús borið eigendum beggja félaganna tilboð um kaup á hlutunum með fullri fjármögnun bankans og Magnús þannig komið fram fyrir hönd Kaupþings banka hf. í viðskiptunum. Ákærði Ingólfur hafi í framhaldinu falið yfirmanni hlutabréfamiðlunar bankans að framkvæma viðskiptin og tilkynna þau til kauphallar. Í tilviki Desulo Trading Ltd., sem verið hafi eignalaust, voru viðskiptin í ákæru sögð til komin vegna ákvörðunar ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar og Ingólfs um að selja skyldi hluti í bankanum með fullri fjármögnun hans. Að þeirra undirlagi hafi ákærði Magnús látið starfsmann Kaupthing Bank Luxembourg S.A. bjóða eiganda félagsins að kaupa hluti í Kaupþingi banka hf. með fullri fjármögnun þess banka. Hafi Magnús þannig komið fram fyrir hönd Kaupþings banka hf. Ákærði Ingólfur hafi í framhaldinu falið yfirmanni hlutabréfamiðlunar hjá Kaupþingi banka hf. að framkvæma viðskiptin og tilkynna þau til kauphallar. Var framangreind háttsemi ákærðu talin varða við a. lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007.

Í III. kafla ákæru voru ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi, Magnúsi, Bjarka og Björk gefin að sök umboðssvik með því að hafa í nánar tilgreindum tilvikum á árinu 2008 misnotað aðstöðu sína hjá Kaupþingi banka hf. og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar þau hafi farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga. Um var að ræða lánveitingar til fjögurra aðila og tengdust þrjár þeirra þeim viðskiptum sem ákært var fyrir í II. kafla ákæru. Í A. lið III. kafla voru ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi, Magnúsi, Bjarka og Björk gefin að sök umboðssvik vegna lánveitinga til Holt Investment Group Ltd. í þremur nánar tilgreindum tilvikum. Í B. lið III. kafla voru ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi og Magnúsi gefin að sök umboðssvik vegna einnar lánveitingar til Fjárfestingafélagsins Mata ehf. Í C. lið III. kafla voru ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi, Magnúsi, Bjarka og Björk gefin að sök umboðssvik vegna fjögurra lánveitinga til Desulo Trading Ltd. og í D. lið III. kafla voru ákærðu Hreiðari Má og Sigurði gefin að sök umboðssvik vegna einnar lánveitingar til KGS.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi mótmæla ákærðu því ekki að deild eigin viðskipta Kaupþings banka hf. hafi keypt hlutabréf í bankanum í umtalsverðum mæli eins og fram komi í I. kafla ákæru. Á hinn bóginn byggja ákærðu á því að þetta hafi verið gert til þess að tryggja seljanleika hlutabréfanna og meðal annars valdið því að allir fjárfestar hafi hvenær sem er getað selt bréf sín. Þessi starfsemi bankans hafi verið fyllilega lögmæt og í samræmi við það sem hliðstæðar deildir banka hafi gert bæði hérlendis og erlendis um langt árabil. Þá er því ekki mótmælt af hálfu ákærðu að þau viðskipti með hlutabréf í bankanum hafi átt sér stað, sem um ræðir í II. kafla ákæru, og að Kaupþing banki hf. hafi lánað fyrir hlutabréfakaupum eins og rakið er í III. kafla hennar.

II

1

Aðalkrafa ákærða Ingólfs um frávísun málsins frá héraðsdómi að því er hann varðar er í fyrsta lagi á því reist að ákæruvaldið hafi ekki gætt að skyldu sinni til hlutlægni, hvorki við meðferð málsins í héraði né í greinargerð fyrir Hæstarétti, með því að hafa ítrekað tekið framburð ákærða úr samhengi og sett fram fullyrðingar sem eigi sér enga stoð í gögnum málsins. Í öðru lagi telur ákærði að brotið hafi verið gegn rétti sínum til að velja sér verjanda, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og c. lið 3. mgr. 6. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, þegar skipun fyrrum verjanda hans var felld niður með úrskurði héraðsdóms 21. febrúar 2014, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 25. sama mánaðar í máli nr. 131/2014. Vísar ákærði til þess að skipunin hafi verið felld niður af þeirri ástæðu að ákæruvaldið hygðist ekki draga til baka skýrslu um hljóðritað samtal verjandans við einn ákærða í málinu, auk þess sem ákæruvaldið gæti ekki útilokað að það myndi leiða verjandann sem vitni sökum þess. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014 telur ákærði ljóst að hlustun símtalsins af hendi lögreglu hafi verið ólögmæt og þar af leiðandi einnig grundvöllur þess að skipun verjandans hafi verið felld niður.

Um framangreindar röksemdir ákærða Ingólfs er þess fyrst að gæta að máli yrði ekki vísað frá dómi þótt leitt yrði í ljós að ákæruvaldið hafi ekki gætt skyldu til hlutlægni við meðferð þess, heldur kæmu slík atvik til skoðunar varðandi efnishlið máls. Í annan stað verður að líta til þess að samkvæmt 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 má ekki skipa þann mann verjanda sem kann að verða kvaddur til að gefa skýrslu í máli, en í fyrrnefndum dómi í máli nr. 131/2014 var lagt til grundvallar að svo hafi háttað til með lögmanninn sem upphaflega var skipaður verjandi ákærða. Við þeirri niðurstöðu verður ekki hreyft nú. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið byggt á því að brotið sé gegn rétti sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar með því að hlustað sé á símtöl hans í framhaldi af því að hann gefi skýrslu hjá lögreglu, þótt það sé gert á grundvelli dómsúrskurðar, sbr. áðurnefndan dóm í máli nr. 842/2014. Símtal fyrrum verjanda ákærða Ingólfs við einn ákærða í málinu, sem vikið var að hér að framan, fór fram 12. apríl 2010 en fyrir liggur að ákærði var fyrst boðaður í skýrslutöku 11. maí sama ár. Hvað sem því líður gætu rannsóknaraðgerðir lögreglu af þessum toga ekki leitt til þess að lögum að máli yrði vísað frá dómi, heldur yrði horft til atvika sem þessara við mat á sönnun auk þess sem virt yrðu að vettugi gögn sem hefði verið aflað þannig eða í tilefni af þeim atvikum. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi á grundvelli þeirra röksemda ákærða sem hér um ræðir. Aðrar röksemdir hans fyrir frávísun en hér hefur verið getið eru haldlausar.

2

Ákærði Bjarki byggir kröfu sína um að málinu verði gagnvart honum vísað frá héraðsdómi einkum á því að hlustuð hafi verið símtöl hans við annars vegar fyrrum verjanda sinn og hins vegar tvo aðra lögmenn og þau hljóðrituð. Þá hafi símtöl hans verið hlustuð á því tímabili sem lögregla tók skýrslur af honum sem vitni og sakborningi. Telur hann skilyrðum laga nr. 88/2008 ekki hafa verið fullnægt til þess að veita heimild til þessara aðgerða auk þess sem farist hafi fyrir að eyða hljóðritunum, en þetta stangist á við 70. og 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 6. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og beri að vísa málinu frá héraðsdómi af þeim sökum. Um þetta er auk þess sem að framan greinir til þess að líta að ekki liggur fyrir að hlustað hafi verið á símtöl ákærða við fyrrum verjanda sinn meðan á rannsókn málsins stóð, en ekki liggja fyrir endurrit eða útdrættir af slíkum símtölum eða skýrslur um efni þeirra. Orkar því ekki tvímælis að slík gögn hafa á engan hátt verið nýtt til sönnunarfærslu fyrir dómi. Með dómi Hæstaréttar 4. júní 2013 í máli nr. 362/2013 var staðfestur úrskurður héraðsdóms 21. maí sama ár þar sem ákæruvaldinu var heimilað að leggja fyrir dóm endurrit af hljóðrituðum símtölum ákærða við tvo nafngreinda lögmenn og var þar á því byggt að hvorugur þeirra hafi verið skipaður verjandi hans. Atvik hér eru ekki hliðstæð þeim sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar 8. október 2013 í máli nr. 408/2013, enda er ljóst að ákærði ræddi ekki við viðmælendur sína sem lögfræðinga heldur vini. Loks er þess að gæta að eftir gögnum málsins var ákærði fyrst boðaður til skýrslutöku hjá lögreglu 19. apríl 2010, en ekki hafa verið lagðar fram upptökur af símtölum hans frá því eftir þann tíma eða endurrit af slíkum upptökum. Verður aðalkröfu ákærða Bjarka um frávísun málsins frá héraðsdómi því hafnað.

3

Aðalkrafa ákærðu Bjarkar um að málinu verði að hluta vísað frá héraðsdómi hvað hana varðar er í fyrsta lagi reist á því að verulegt ósamræmi sé í málatilbúnaði ákæruvaldsins. Í iii-lið A. liðar III. kafla ákæru hafi háttsemi hennar verið efnislega lýst þannig að hún hafi misnotað aðstöðu sína hjá Kaupþingi banka hf. sem nefndarmaður í lánanefnd samstæðu og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar hún hafi farið út fyrir heimildir til lánveitinga og samþykkt með tölvubréfi 19. september 2008 útborgun láns til félagsins Holt Investment Group Ltd. að fjárhæð 2.563.293.785 krónur. Undir rekstri málsins í héraði hafi á hinn bóginn komið í ljós að atbeini hennar að þessari lánveitingu hafi ekki verið nauðsynleg forsenda fyrir útborgun lánsins. Í málatilbúnaði ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti sé nú byggt á því að ákærða hafi talið sig samþykkja útborgunina þegar hún hafi sent áðurnefnt tölvubréf og hafi hún þannig gerst sek um ónothæfa tilraun til brots. Slík breyting á málatilbúnaðinum sé andstæð c. lið 1. mgr. 152. gr. og 1. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal í ákæru meðal annars greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af og heimfærslu brots til laga. Þá segir í 1. mgr. 180. gr. sömu laga að ekki megi dæma ákærða fyrir aðra hegðun en þá sem í ákæru greinir. Hverju sinni verður að velta á atvikum máls og eðli brots hverjar kröfur verði gerðar til efnis ákæru samkvæmt fyrrnefnda lagaákvæðinu. Ekki verður annað ráðið en að ákærða Björk hafi staðið í þeirri trú þegar hún sendi tölvubréfið 19. september 2008 að hún væri með því að samþykkja fyrir sitt leyti að lánið yrði greitt út, en samkvæmt því yrði að telja að huglæg skilyrði til brots hafa verið fyrir hendi. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var fjallað um hvort háttsemi ákærðu gæti talist tilraun til brots gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var vörn hennar því ekki áfátt að þessu leyti, sbr. 4. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Verður kröfu hennar um frávísun málsins frá héraðsdómi á þessum grunni því hafnað.

Í öðru lagi er aðalkrafa ákærðu Bjarkar studd þeim rökum að ákæruvaldið hafi eytt hljóðritunum af símtölum sem hún hafi átt við ákærða Bjarka á nánar tilgreindu tímabili. Vísar hún til þess að símtöl þessi hefðu skipt máli fyrir varnir hennar þar sem þau hefðu gefið til kynna hver huglæg afstaða hennar hafi verið á þeim tíma, en vægi þessa atriðis sé nú aukið í ljósi þess að ákæruvaldið byggi orðið sakargiftir á hendur henni sem fyrr segir á því að um ónothæfa tilraun hennar til brots hafi verið að ræða. Telur ákærða að með þessu sé brotinn á henni réttur samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Án tillits til þess hvort atvik sem þessi gætu valdið því að máli yrði vísað frá dómi er þess að gæta að samkvæmt gögnum málsins fékk ákærða Björk 6. maí 2013 aðstöðu til að hlusta á upptökur af símtölum sínum við ákærða Bjarka, en þau munu hafa verið sex talsins á tímabilinu 8. til 19. apríl 2010. Í tölvubréfi embættis sérstaks saksóknara 7. maí 2013 til starfsmanns þáverandi verjanda ákærðu var bent á að ef „hún eða þið teljið eitthvert þeirra símtala sem hún hlustaði á hafa sönnunargildi getið þið látið okkur vita, við munum þá setja símtalið í endurritun og leggja endurritið fram í næstu fyrirtöku eftir að það er tilbúið.“ Í framhaldi af því munu ákærða og verjandi hennar hafa 16. maí 2013 hlustað á þessi símtöl og ritað hjá sér helstu efnisatriði sem þau hafi talið að komið gætu að gagni fyrir vörn hennar. Ákærða fór þess á hinn bóginn ekki á leit við sérstakan saksóknara fyrr en í apríl 2015 að gerð yrðu endurrit af hljóðritunum af þessum símtölum og þau lögð fram í þinghaldi í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008 er lögreglu skylt að eyða upptökum af hlustuðum símtölum jafnskjótt og þeirra er ekki lengur þörf, enda hafi þær ekki verið lagðar fyrir dóm. Að virtu þessu öllu verður ekki fallist á með ákærðu að brotið hafi verið gegn rétti hennar til réttlátrar málsmeðferðar.

Ekki eru efni til að vísa málinu frá héraðsdómi að því er ákærðu varðar af þeirri ástæðu að gögnum hafi verið haldið frá henni við rannsókn þess.

4

Aðalkrafa ákærða Hreiðars Más um ómerkingu héraðsdóms er í fyrsta lagi byggð á því að hann hafi ekki fengið aðgang að öllum haldlögðum gögnum þegar málið var til rannsóknar hjá lögreglu og við meðferð þess fyrir dómi og hafi hann þurft að sæta því að fá einungis aðgang að þeim gögnum sem ákæruvaldið teldi hafa sönnunargildi í málinu. Hafi með þessu verið brotið gegn réttindum ákærða samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 88/2008, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að því verður að gæta að gögn sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins munu vera gríðarleg að umfangi, en á meðal þeirra munu vera rafræn afrit af tölvubréfum, sem fóru um tölvukerfi Kaupþings banka hf. á tilteknu tímabili. Meðal slíkra tölvubréfa hljóta eðli máls samkvæmt að vera í ríkum mæli orðsendingar varðandi fjárhagsmálefni fjölmargra viðskiptamanna bankans sem leynd verður að ríkja um og að auki persónulegar orðsendingar sem starfsmenn félagsins fengu eða sendu og vörðuðu einkalíf þeirra. Ákærða hefur ekki verið neitað um að fá aðgang að tilteknum gögnum heldur eintaki af umfangsmiklu heildarsafni gagna. Samkvæmt þessu eru ekki efni til að ómerkja héraðsdóminn á grundvelli þeirra röksemda ákærða sem hér um ræðir.

Í annan stað hefur ákærði vísað til þess að uppvíst hafi orðið þegar liðið hafi á rannsókn málsins að á fyrri hluta árs 2010 hafi lögregla tekið upp símtöl hans og hafi í þeim upptökum meðal annars verið samtöl, sem hann hafi átt við verjanda sinn, bæði fyrir og eftir skýrslugjöf hjá lögreglu og eftir að gæsluvarðhaldsvist hans lauk. Starfsmenn lögreglu hafi fengið það viðfangsefni að hlýða á upptökur af símtölum og hljóti þeir að hafa þurft að hlusta á hvert samtal fyrir sig í heild eða að hluta þótt þeir hafi fengið fyrirmæli um að láta af slíku ef þeir yrðu þess varir að samtal væri við verjanda, svo sem ákæruvaldið hefur haldið fram. Á þennan hátt hafi verið brotið á rétti ákærða til trúnaðar um samtöl sín við verjanda, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 88/2008, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en lögreglu hefði borið að haga hlustun á annan veg til að tryggja þann trúnað, svo sem með því að aðrir en starfsmenn hennar hefðu gengið úr skugga um hvort samtöl væru við verjendur áður en lengra yrði haldið. Þá telur ákærði að með framangreindri framkvæmd við rannsókn málsins hafi verið brotið gegn réttindum hans til friðhelgi einkalífs.

Í málatilbúnaði ákæruvaldsins fyrir Hæstarétti hefur framangreindu verið andmælt. Í tengslum við þetta hefur meðal annars verið vísað til þess að í bréfi sérstaks saksóknara 20. mars 2013 til verjanda ákærða Hreiðars Más hafi verið greint frá því að vegna mistaka hafi upptökum af fjórum samtölum milli þeirra tveggja ekki verið eytt, en á þær hafi ekki verið hlustað. Gildi það síðastnefnda um allar aðrar upptökur af símtölum sem þessu marki hafi verið brenndar.

Í málinu liggja ekki fyrir endurrit af hljóðrituðum símtölum milli ákærða og verjanda hans, útdrættir úr slíkum símtölum eða skýrslur um efni þeirra. Er þannig ljóst að slík gögn hafa á engan hátt verið nýtt til sönnunar fyrir dómi. Að þessu frágengnu er þess að gæta að ekki verður séð hvernig lögregla gæti almennt hagað aðgerðum við hlustun síma sakbornings á annan hátt en gert var í þessu tilviki samkvæmt fyrrnefndu bréfi sérstaks saksóknara, enda verður hvorki séð fyrir hvort símtal sakbornings kunni að vera við verjanda fremur en annan né hefur lögregla heimild í XI. kafla laga nr. 88/2008 til að fela öðrum framkvæmd þess inngrips í friðhelgi einkalífs manna að hlusta á símtöl þeirra. Í málinu hafa engin rök verið færð fyrir því að upptökur, sem viðurkennt er að hafi orðið til af símtölum ákærða við verjanda, hafi í reynd haft áhrif á rannsókn málsins eða að raunhæf hætta geti hafa verið á því. Að þessu öllu virtu verður aðalkrafa ákærða ekki tekin til greina á þessum grunni.

Í þriðja lagi er krafa ákærða Hreiðars Más um ómerkingu héraðsdóms reist á því að hann hafi ekki getað verið viðstaddur aðalmeðferð málsins í héraði nema þegar hann gaf skýrslu fyrir dómi sökum þess að Fangelsismálastofnun hafi hafnað beiðni hans um að hann yrði færður daglega í húsakynni Héraðsdóms Reykjavíkur frá fangelsinu að Kvíabryggju, þar sem ákærði afplánaði refsingu samkvæmt öðrum dómi. Varakrafa ákærða Sigurðar um ómerkingu héraðsdóms er byggð á sömu rökum. Um þetta verður að líta til þess að eftir að ákærðu báru upp framangreindar óskir gaf Fangelsismálastofnun þeim samkvæmt gögnum málsins kost á að afplána refsingu í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg í Reykjavík á meðan aðalmeðferð fór fram í þessu máli. Ákærðu þáðu ekki það boð. Að þessu virtu verður kröfum þeirra um ómerkingu hafnað.

III

1

Búnaðarbanki Íslands var stofnaður með lögum nr. 115/1941 og var hann í eigu íslenska ríkisins. Með lögum nr. 50/1997 um stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands varð sú breyting að Búnaðarbanki Íslands hf. tók til starfa 1. janúar 1998, en hann var um sinn áfram í eigu ríkisins. Þeim lögum var svo breytt með 1. gr. laga nr. 70/2001 á þann hátt að ríkinu var heimilað að selja þann hlut, sem það þá átti enn í Búnaðarbanka Íslands hf., og var þeirrar heimildar endanlega neytt 16. janúar 2003. Síðar á því ári var félagið sameinað Kaupþingi hf. og fékk sameinaða félagið seinna heitið Kaupþing banki hf. Frá árinu 1998 mun Kaupþing hf. hafa átt dótturfélagið Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sem hafði á hendi starfsemi í því landi og varð dótturfélag Kaupþings banka hf. eftir fyrirgreinda sameiningu. Á þessum árum jókst starfsemi Kaupþings banka hf. mjög hér á landi og erlendis og mun hafa verið svo komið á árinu 2008 að félagið átti ýmist dótturfélög eða rak útibú í 15 löndum. Fjármálaeftirlitið neytti 9. október 2008 heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Kaupþingi banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd, en slit á félaginu, sem nú ber heitið Kaupþing ehf., hófust 22. apríl 2009 og hefur þeim nú verið lokið með nauðasamningi. Í framhaldi af þessari aðgerð Fjármálaeftirlitsins mun Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar og Banque Havilland S.A. síðar tekið yfir starfsemi félagsins.

2

Kaupþing banki hf. starfaði á grundvelli samþykkta sem Kaupþingi hf. voru upphaflega settar á stofnfundi félagsins 22. febrúar 1982, en á þeim voru gerðar ýmsar breytingar allt frá 1989 og síðast á aðalfundi félagsins 7. mars 2008. Samkvæmt 11. grein samþykktanna var æðsta vald í málefnum félagsins, innan þeirra marka sem samþykktirnar og landslög settu, í höndum lögmætra hluthafafunda. Í 19. grein samþykktanna sagði að stjórn félagsins skyldi skipuð níu mönnum kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn og kysi hún formann úr sínum hópi. Samkvæmt 21. grein fór stjórn félagsins með æðsta vald í málefnum þess milli hluthafafunda og skyldi annast um að skipulag félagsins og starfsemi væri jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórnin skyldi annast um að nægilegt eftirlit væri haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins. Hún skyldi ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti nema þau væru veruleg miðað við stærð félagsins og stjórnarmenn máttu ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti. Þá skyldi stjórnin setja reglur um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra þar sem fram kæmu mörk lánaheimilda framkvæmdastjóra og reglur varðandi ákvarðanir um fjárfestingar, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002. Í sömu grein samþykktanna sagði einnig að stjórn félagsins réði því framkvæmdastjóra og skyldi stjórnin setja sér starfsreglur þar sem nánar væri kveðið á um framkvæmd starfa hennar. Í 22. grein samþykktanna sagði að framkvæmdastjóri annaðist daglegan rekstur félagsins og skyldi í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórnin hefði gefið. Hinn daglegi rekstur tæki ekki til ráðstafana sem væru óvenjulegar eða mikilsháttar. Slíkar ráðstafanir gæti framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn nema ekki væri unnt að bíða ákvarðana hennar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skyldi félagsstjórn tafarlaust tilkynnt um ráðstöfunina. Þá skyldi framkvæmdastjóri sjá um að bókhald og fjárreiður félagsins væru í samræmi við lög og góðar venjur og að meðferð eigna þess væri með tryggilegum hætti.

3

Í samræmi við ákvæði samþykkta Kaupþings banka hf. samþykkti stjórn félagsins regluhandbók sem á ensku nefndist Internal Control and Procedural Handbook. Hún gegndi því hlutverki að vera „handbók innra eftirlits og verklagsreglna“ og markmiðið var að hún endurspeglaði jafnan nýjustu reglur og verklagsreglur sem í gildi væru í bankanum. Regluhandbókin skyldi í september ár hvert lögð fyrir stjórn félagsins til samþykktar og gefin árlega út í bókarformi í nóvember eða desember. Þá sagði að nýjasta útgáfa regluhandbókarinnar skyldi vera tiltæk á innra neti Kaupþings banka hf. á alþjóðavísu og þegar breytingar væru gerðar á reglum og verklagsreglum hans bæri að uppfæra regluhandbókina tafarlaust og birta uppfærslurnar á innra netinu. Sú regluhandbók sem í gildi var á ákærutímabilinu var samþykkt í stjórn Kaupþings banka hf. 27. september 2007. Um markaðsáhættu sagði í regluhandbókinni að deild eigin viðskipta hefði umsjón með stöðutökum móðurfélagsins, Kaupþings banka hf. Áhættu bæri að mæla með nánu eftirliti með stöðum og frammistöðu og daglegar frammistöðuskýrslur skyldu sendar yfirmönnum og bankastjóra. Skýrsla áhættustýringar með samantekt og mati á áhættum vegna stöðutöku bankans í hlutabréfum og skuldabréfum skyldi útbúin mánaðarlega og hún send bankastjóra og stjórn bankans. Áhættu væri stýrt með stöðugu eftirliti með heimildum og álagningu sekta fyrir brot á heimildum og sagði í regluhandbókinni að þessi aðferð hefði reynst mjög árangursrík. Þá sagði að stjórnin stýrði markaðsáhættu með því að tjá vilja sinn með tillögum um að draga úr áhættu, auka hana eða viðhalda óbreyttu ástandi, en á ábyrgð bankastjóra væri að upplýsa yfirmenn deildar eigin viðskipta og áhættustýringar um tillögur stjórnar til breytinga á heimildum. Stjórnin sæi síðar þau áhrif, sem tillögur hennar hefðu, í mánaðarlegu markaðsáhættuskýrslunni.

4

Í Kaupþingi banka hf. voru starfandi allmargar lánanefndir en um valdsvið þeirra voru ákvæði í regluhandbókinni. Þær þrjár lánanefndir sem koma við sögu málsins voru lánanefnd stjórnar, lánanefnd samstæðu og íslenska lánanefndin.

Lánanefnd stjórnar var skipuð fjórum mönnum, formanni stjórnar bankans, forstjóra samstæðunnar og tveimur fulltrúum kjörnum af stjórn bankans. Formaður stjórnar bankans var jafnframt formaður nefndarinnar og forstjóri samstæðunnar varaformaður hennar. Um nefndina sagði í regluhandbókinni að hún hittist eftir þörfum en yfirleitt mánaðarlega og tæki ákvarðanir um lán sem væru hærri en 165.000.000 evrur. Á reglulegum fundum hennar skyldu vera á dagskrá fundargerð síðasta fundar, nýjar eða breyttar útlánaákvarðanir, kynning útlánatillagna og umsókna, yfirlit yfir vaxtaákvæði lána, stærstu útlánaáhættur, samþjöppun geira og stærstu vanskilalán. Ákvarðanir nefndarinnar væru endanlegar og almennt þyrfti gild útlánaákvörðun að vera undirrituð af formanni nefndarinnar og tveimur öðrum nefndarmönnum. Í fjarveru formanns mætti samþykkja lánaákvörðun með undirskrift þriggja nefndarmanna. Ef um brýna lánatillögu væri að ræða, sem ekki gæti beðið næsta reglulegs fundar, mætti taka gilda og framkvæmanlega lánaákvörðun svo fremi hún væri undirrituð af nefndarmönnum sem gætu fullgilt hana á reglulegum fundi. Slík ákvörðun skyldi kynnt, skoðuð og skráð í fundargerð næsta reglulegs fundar. Nefndinni var heimilt að fela einstökum starfsmanni ákvörðunarvald undir sérstökum kringumstæðum. Lánanefnd stjórnar mátti mynda ákvörðunarbæran meirihluta að því gefnu að allir nefndarmenn hefðu verið boðaðir á fund með minnst tveggja daga fyrirvara, minnst þrír þeirra væru til staðar og viðstaddir og þeir hefðu vald til að samþykkja lánaákvörðun. Þátttaka á fundum í gegnum síma og fjarfundarbúnað taldist viðvera. Tölusett fundargerð skyldi skráð á fundi lánanefndar stjórnar og bæri að leggja hana fram og staðfesta á næsta fundi.

Lánanefnd samstæðu var skipuð þremur mönnum, forstjóra samstæðu Kaupþings banka hf., yfirmanni útlánasviðs og framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs. Yfirmaður áhættustýringar sat einnig fundi nefndarinnar og hafði þar málfrelsi en tók ekki þátt í lánaákvörðunum. Forstjóri samstæðunnar var formaður nefndarinnar og yfirmaður lánasviðs varaformaður. Lánanefnd samstæðu skyldi samkvæmt regluhandbókinni hittast eftir þörfum, en yfirleitt tvisvar í viku, og var henni heimilt að samþykkja ný lán til aðila sem næmu alls 165.000.000 evrum, þar á meðal til tengdra aðila. Á reglulegum fundum nefndarinnar skyldi meðal annars vera á dagskrá fundargerð síðasta fundar, lánaákvarðanir og kynning á lánatillögum og umsóknum. Ákvörðun nefndarinnar var endanleg. Lánaákvörðun var gild þegar allir viðstaddir fulltrúar samþykktu hana einróma. Ef um brýna lánatillögu var að ræða, sem ekki gat beðið næsta reglulegs fundar lánanefndar, mátti taka gilda og framkvæmanlega lánaákvörðun svo fremi hún væri undirrituð af nefndarmönnum sem gætu fullgilt hana á reglulegum fundi. Slík ákvörðun skyldi kynnt, skoðuð og skráð í fundargerð næsta reglulegs fundar. Lánanefndinni var heimilt að fela einstökum starfsmanni ákvörðunarvald undir sérstökum kringumstæðum. Þá var nefndinni heimilt að mynda ákvörðunarbæran meirihluta að því gefnu að allir nefndarmenn hefðu verið boðaðir á fundinn, minnst tveir þeirra væru viðstaddir og annar þeirra væri formaður eða varaformaður nefndarinnar. Þátttaka á fundum í gegnum síma eða fjarfundarbúnað taldist viðvera. Um ritun fundargerða og samþykkt þeirra voru sambærileg ákvæði og um lánanefnd stjórnar.

Íslensku lánanefndina skipuðu fjórir menn, forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi, yfirmaður útlánasviðs, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og framkvæmdastjóri sérverkefna. Forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi var formaður nefndarinnar og yfirmaður lánasviðs varaformaður. Nefndin skyldi hittast eftir þörfum, yfirleitt tvisvar í viku, og hafði heimild til að samþykkja ný lán að fjárhæð allt að 1.000.000.000 krónur. Á reglulegum fundum nefndarinnar skyldi meðal annars vera á dagskrá fundargerð síðasta fundar, yfirlit yfir nýjar eða breyttar ákvarðanir lánanefndar fyrirtækjasviðs, lánaákvarðanir íslensku lánanefndarinnar og kynning á lánatillögum og umsóknum. Ákvarðanir nefndarinnar voru endanlegar og lánaákvörðun taldist gild þegar allir nefndarmenn höfðu samþykkt hana einróma. Ef um brýna lánatillögu var að ræða, sem ekki gat beðið næsta reglulegs fundar lánanefndar, mátti taka gilda og framkvæmanlega lánaákvörðun svo fremi hún væri undirrituð af nefndarmönnum sem gætu fullgilt hana á reglulegum fundi. Slík ákvörðun skyldi kynnt, skoðuð og skráð í fundargerð næsta reglulegs fundar. Lánanefndinni var heimilt að fela einstökum starfsmanni ákvörðunarvald undir sérstökum kringumstæðum. Þá var nefndinni heimilt að mynda ákvörðunarbæran meirihluta að því gefnu að allir nefndarmenn hefðu verið boðaðir á fundinn, minnst tveir þeirra væru viðstaddir og annar þeirra væri formaður eða varaformaður nefndarinnar. Þátttaka á fundum í gegnum síma eða fjarfundarbúnað taldist viðvera. Um ritun fundargerða og samþykkt þeirra voru sambærileg ákvæði og um lánanefndir stjórnar og samstæðu.

Í regluhandbók Kaupþings banka hf. var að finna myndrænt yfirlit um ferli útlánaveitingar. Það skyldi hefjast með því að viðskiptamaður setti sig í samband við viðskiptastjóra sem útfyllti umsóknareyðublað og matsblað. Því næst skyldi svokallaður útlánagreinir fara yfir matið og samþykkja það. Að því búnu skyldi útlánastjóri leggja lánsumsókn fyrir útlánanefnd sem samþykkti eða hafnaði umsókn. Ef lánanefnd hafnaði lánsumsókn var um endanlega ákvörðun að ræða en samþykkti nefndin beiðnina var það hlutverk útlánastjóra að staðfesta að lánsákvörðun væri í samræmi við reglur bankans. Að því loknu skyldi lánið greitt út.

5

Á þeim tíma sem ákæra málsins tekur til starfaði Kaupþing banki hf. á samstæðugrunni. Samkvæmt skipuriti félagsins frá apríl 2008 var forstjóri yfir samstæðunni og heyrði hann undir stjórn félagsins. Undir forstjóra heyrði í fyrsta lagi áhættustýring samstæðunnar og í öðru lagi Kaupþing banki hf. á Íslandi. Undir yfirmann áhættustýringar samstæðunnar heyrði framkvæmdastjóri áhættustýringar á Íslandi og undir forstjóra Kaupþings banka hf. á Íslandi heyrðu sex svið, eignastýring og einkabankaþjónusta, fjárstýring, fyrirtækjaráðgjöf, fyrirtækjasvið, markaðsviðskipti og viðskiptabankasvið. Undir fjárstýringu heyrði deild eigin viðskipta og undir markaðsviðskipti heyrði deild hlutabréfamiðlunar. Er þetta sama skipurit og gilti í maí 2007 að því frátöldu að eignastýring og einkabankaþjónusta voru tvö sjálfstæð svið í eldra skipuritinu. Skipurit Kaupþings banka hf. mun hafa tekið nokkrum breytingum á árunum 2006 til 2008 og þá sérstaklega að því er varðaði eigin viðskipti sem var sjálfstætt svið í bankanum þar til í lok september 2006. Frá þeim tíma munu eigin viðskipti hafa verið án framkvæmdastjóra en í nóvember 2006 munu eigin viðskipti hafa verið færð undir fjárstýringu.

Ákærði Sigurður var á ákærutímabilinu formaður stjórnar Kaupþings banka hf. í fullu starfi og í stjórn félagsins sátu auk hans átta aðrir menn. Þá var Sigurður formaður lánanefndar stjórnar og sat ásamt forstjóra samstæðunnar og SPK yfirmanni áhættustýringar í óformlegri stjórn Kaupþings banka hf. á Íslandi. Ákærði Hreiðar Már var forstjóri samstæðunnar, formaður lánanefndar samstæðu og sat í óformlegri stjórn Kaupþings banka hf. á Íslandi. Undir honum starfaði ákærði Ingólfur sem forstjóri bankans á Íslandi, auk þess sem Ingólfur var formaður íslensku lánanefndarinnar.

Sex svið heyrðu sem fyrr segir undir ákærða Ingólf sem forstjóra Kaupþings banka hf. á Íslandi. Yfir eignastýringu og einkabankaþjónustu var framkvæmdastjóri sem ekki kemur við sögu málsins. Framkvæmdastjóri fjárstýringar var GÞG. Deild eigin viðskipta heyrði undir fjárstýringu og forstöðumaður hennar frá apríl 2007 var ákærði Einar Pálmi. Ákærðu Birnir Sær og Pétur Kristinn voru starfsmenn deildarinnar. Forstöðumaður hlutabréfamiðlunar var FRR. Ákærði Bjarki var framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi banka hf. og nefndarmaður í lánanefnd samstæðu en ákærða Björk var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og nefndarmaður í sömu nefnd. Ákærði Magnús var forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A., dótturfélags Kaupþings banka hf. Starfaði Magnús og var búsettur í Luxemborg.

Samkvæmt ódagsettum upplýsingum um starfsemi Kaupþings banka hf. á vefnum, sem stöfuðu frá bankanum sjálfum og eru meðal gagna málsins, bar svið fjárstýringar ábyrgð á stöðutöku bankans í hlutabréfum, skuldabréfum, vöxtum, afleiðum og gjaldeyri ásamt verðlagningu þeirra til annarra sviða bankans og dótturfélaga. Fjárstýring hafði með höndum stýringu á lausu fé og gjaldeyrisáhættu bankans og tók auk þess þátt í fjármögnun hans. Sviðið skiptist í afleiðuviðskipti, eigin viðskipti og millibankaviðskipti. Deild eigin viðskipta bar ábyrgð á stöðutöku bankans í hlutabréfum, skuldabréfum og skráðum afleiðum ásamt því að sinna viðskiptavakt með hlutabréf og skuldabréf. Stöðutaka bankans byggðist á því að kaupa og selja skráð hlutabréf og skuldabréf á Norðurlöndunum fyrir eigin reikning bankans. Deildin sá um viðskiptavakt í hlutabréfum fyrir á annan tug félaga á Íslandi en í skuldabréfum var hún með vakt í ríkisskuldabréfum, íbúðabréfum, fyrirtækjabréfum og eigin útgáfu Kaupþings banka hf. Markaðsmyndun deildarinnar fólst í því að greiða fyrir viðskiptum markaðsviðskipta við viðskiptavini Kaupþings banka hf. með skráð hlutabréf og skuldabréf. Hlutverk markaðsviðskipta var að annast viðskipti með hlutabréf, skuldabréf, gjaldeyri og afleiður á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum. Viðskiptavinir voru fyrst og fremst „fagfjárfestar á borð við fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóði, verðbréfasjóði, fjárfestingasjóði og fjársterka einstaklinga.“ Sviðið skiptist í miðlun hlutabréfa, miðlun skuldabréfa, gjaldeyris- og afleiðumiðlun og greiningardeild. Miðlun hlutabréfa sinnti miðlun fyrir fagfjárfesta, svo sem lífeyrissjóði, verðbréfasjóði, fjárfestingarfélög og efnameiri einstaklinga. Deildin skiptist í þrjár undirdeildir, innlenda hlutabréfamiðlun, erlenda hlutabréfamiðlun og miðlun skráðra hlutabréfaafleiðna. Í upplýsingunum sagði að innlend hlutabréfamiðlun væri í góðu sambandi við sem flesta fjárfesta sem hefðu áhuga á því að eiga viðskipti með innlend hlutabréf og keypti eða seldi hlutabréf fyrir þá. Um áhættustýringu sagði að hlutverk hennar væri meðal annars að greina, mæla, stýra og fylgjast með allri þeirri áhættu sem væri samfara starfsemi bankans og lögð væri áhersla á að hún ynni náið með öllum sviðum til að lágmarka áhættu hans. Svið áhættustýringar greindist í lánasýslu, rannsóknar- og hönnunardeild, útlánaeftirlit, rekstraráhættu, markaðsáhættu, útlánagreiningu, reiknistoð og útlánaáhættu.

6

Ákærði Hreiðar Már útskrifaðist frá Háskóla Íslands sem viðskiptafræðingur 1994 og hóf sama ár störf hjá Kaupþingi hf. á eignastýringarsviði. Árið 1998 varð hann aðstoðarforstjóri Kaupþings hf. og framkvæmdastjóri Kaupthing New York við stofnun þess félags í mars 2000. Í byrjun árs 2003 tók Hreiðar Már við starfi forstjóra Kaupþings banka hf. og gegndi því starfi á ákærutímabilinu. Þá átti hann á sama tímabili sæti í lánanefnd stjórnar bankans og var varaformaður hennar. Jafnframt átti hann sæti í lánanefnd samstæðu og var formaður hennar. Hreiðar Már mun hafa próf í verðbréfamiðlun og réttindi til verðbréfamiðlunar bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Ákærði Sigurður útskrifaðist sem þjóðhagfræðingur frá Kaupmannahafnarháskóla 1987 og mun hafa hlotið réttindi til verðbréfamiðlunar 1994. Hann hóf störf hjá Kaupþingi hf. í árslok 1994 og varð forstjóri fyrirtækisins 1997. Hann tók við starfi stjórnarformanns Kaupþings banka hf. í mars 2003 og gegndi því á ákærutímabilinu. Jafnframt var hann formaður lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf.

Ákærði Ingólfur útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1993 og mun hafa hlotið réttindi til verðbréfamiðlunar 1998. Hann hóf störf í einstaklingsráðgjöf hjá Kaupþingi hf. 1993 en tók fljótlega eftir það að starfa við miðlun skuldabréfa og hlutabréfa hjá félaginu og starfaði á tímabili á sviði eigin viðskipta. Hann var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta frá 1998 til 2005 en það ár varð hann forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og gegndi því starfi á ákærutímabilinu. Þá var hann formaður íslensku lánanefndar bankans, sat í stjórn Kauphallar Íslands og var um tíma varaformaður hennar.

Ákærði Einar Pálmi er viðskiptafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands og mun hafa hlotið réttindi til verðbréfamiðlunar árið 2000 eða 2001. Hann hóf störf sem forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings banka hf. í apríl 2007 og gegndi því starfi þar til í október 2008.

Ákærði Birnir Sær er viðskiptafræðingur að mennt og mun hafa hlotið réttindi til verðbréfamiðlunar árið 2009. Hann hóf störf hjá Kaupþingi banka hf. árið 2003 og starfaði í deild eigin viðskipta frá 2005 og þar til rekstur félagsins var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu.

Ákærði Pétur Kristinn er viðskiptafræðingur að mennt og mun hafa hlotið réttindi til verðbréfamiðlunar árið 2009. Hann hóf störf hjá Kaupþingi banka hf. árið 2005 og starfaði frá upphafi í deild eigin viðskipta þar til starfsemi félagsins var tekin yfir af Fjármálaeftirlitinu.

Ákærði Magnús lauk prófi frá Háskóla Íslands sem viðskiptafræðingur árið 1994 og hóf að námi loknu störf hjá Kaupþingi hf. Hann vann fyrst við einstaklingsráðgjöf hjá félaginu, varð fljótlega yfirmaður einstaklingsþjónustu þess, síðar einkabankaþjónustu, en hóf 1997 að undirbúa stofnun dótturfélags Kaupþings hf. í Luxemborg sem var stofnað sem verðbréfafyrirtæki árið eftir en hlaut svonefnt bankaleyfi árið 2000. Frá þeim tíma starfaði hann sem forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og gegndi því starfi á ákærutímabilinu.

Ákærði Bjarki lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1993. Hann starfaði sem framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi banka hf. á ákærutímabilinu og sat á sama tímabili í lánanefnd samstæðu bankans og íslensku lánanefndinni. Áður gegndi hann starfi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans.

Ákærða Björk lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1990. Hún hóf störf í Kaupþingi banka hf. 2003 og var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans frá 2007. Jafnframt sat hún í lánanefnd samstæðu bankans og í íslensku lánanefndinni.

IV

1

Í áðurgreindu minnisblaði Kauphallar Íslands til Fjármálaeftirlitsins, sem dagsett var 27. janúar 2009, kom fram að hún hefði haft til athugunar verðmyndun með hlutabréf stærstu viðskiptabanka Íslands, þar á meðal Kaupþings banka hf. Í minnisblaðinu sagði: „Kauphöllin hefur veitt því athygli að þegar skoðuð eru viðskipti þeirra miðlara innan bankanna sem áttu viðskipti fyrir hönd eigin reiknings (eigin viðskipti) á sl. mánuðum virðist sem það magn hlutabréfa sem keypt var í eigin félagi hafi verið umtalsvert meira heldur en það sem var selt. Á stundum þar sem mikill almennur söluþrýstingur var á hlutabréfamarkaði, innlendum sem erlendum, sérstaklega gagnvart bönkum og fjármálafyrirtækjum, og í kjölfar birtingar á fréttum sem undir eðlilegum kringumstæðum teldust neikvæðar, allt að því einokuðu eigin viðskipti bankanna kauphlið tilboðabókar eigin félags. Slíkur kaupþrýstingur getur eðli málsins samkvæmt haft talsverð áhrif á verðmyndun hlutabréfanna. Til þess að kanna viðskiptahætti eigin viðskipta bankanna nánar voru tekin saman öll viðskipti í Kauphöllinni með hlutabréf hvers banka fyrir sig, yfir tímabilið 02.05.2008 – 03.10.2008.“

Í minnisblaði kauphallarinnar sagði að framangreint tímabil hefði verið „valið með hliðsjón af þeim hremmingum sem höfðu átt sér stað á fjármálamörkuðum auk mikillar veltuhlutdeildar bankanna í hlutabréfum eigin félags á tímabilinu. Þó skal þess getið að þátttaka eigin viðskipta bankanna í tilboðabókum sinna félaga var einnig umtalsverð á fyrrihluta ársins. Að mati kauphallarinnar fæst í þessu tilviki skýrust mynd af hegðun viðkomandi kauphallaraðila með því fyrst og fremst að skoða viðskipti sem verða til við sjálfvirka pörun tilboða í viðskiptakerfi Kauphallarinnar (e. autotrades), eða m.ö.o. þegar horft er framhjá tilkynntum viðskiptum. Tilkynnt viðskipti hafa ekki áhrif á síðasta viðskiptaverð nema þau séu innan verðbils og eru verðáhrif slíkra viðskipta því takmörkuð ... Vankanturinn á þessari aðferðafræði er sá að þegar skoða á nettó kaup eða sölu á tímabilinu er vantalið það magn sem keypt er, eða selt, utan tilboðabókarinnar og tilkynnt síðan í viðskiptakerfið. Nánar verður þó vikið að þessum þætti hér á eftir.“

Í minnisblaði kauphallarinnar var síðan gerð grein fyrir viðskiptum hvers banka um sig, þar á meðal Kaupþings banka hf., í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á umræddu tímabili og þar að auki sérstaklega í viðskiptum þeirra í opnunar- og lokunaruppboðum. Að því búnu sagði: „Til þess að fá heilsteypta mynd af viðskiptaháttum eigin viðskipta bankanna er nauðsynlegt að líta ekki einungis til viðskipta sem verða til við pörun tilboða í viðskiptakerfi Kauphallarinnar heldur einnig til tilkynntra viðskipta. Eins og fram hefur komið hér að framan eru kaup bankanna umfram sölu umtalsverð, þegar einungis eru skoðuð viðskipti sem orðið hafa við pörun tilboða. Sá möguleiki er aftur á móti fyrir hendi að eigin viðskipti bankanna hafi smám saman, eða í nokkrum stórum viðskiptum, selt þá hluti sem keyptir voru á tímabilinu með því að semja við aðra aðila, hvort sem um viðskiptavini eða aðra kauphallaraðila er að ræða, utan tilboðabókanna og tilkynna viðskiptin í kjölfar þess í viðskiptakerfið ... Þegar viðskipti eru tilkynnt í viðskiptakerfi Kauphallarinnar kemur ekki fram hver sé kaupandi og seljandi heldur einungis auðkenni miðlarans. Í tilvikum þar sem mótaðili viðskiptanna er einnig kauphallaraðili og samið er um að hvor aðilinn tilkynni sinn legg viðskiptanna er aftur á móti hægt að sjá auðkenni hvors miðlara fyrir sig, en ekki upplýsingar um hinn endanlega viðskiptavin – sem getur allt eins verið annar miðlari. Tilkynni starfsmaður eigin viðskipta viðskipti eru því mjög takmarkaðar leiðir til þess að sjá hvort um kaup eigin viðskipta eða sölu sé að ræða. Að auki geta aðrir kauphallaraðilar, eða miðlarar hjá sama kauphallaraðila, tilkynnt viðskipti þar sem eigin viðskipti bankanna eru hinn endanlegi kaupandi eða seljandi, m.ö.o. þar sem eigin viðskipti bankanna væru viðskiptavinur viðkomandi miðlara.“

2

Eins og áður getur beindi Fjármálaeftirlitið kæru 1. október 2009 til sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar tólf fyrrverandi starfsmanna Kaupþings banka hf., þar á meðal sex ákærðu, með hlutabréf í félaginu á tímabilinu frá júní 2005 til október 2008. Í kærunni kom fram að Fjármálaeftirlitið hóf rannsókn á málinu í kjölfar framangreinds erindis frá kauphöllinni. Rannsóknin hafi meðal annars leitt í ljós að starfsmenn deildar eigin viðskipta bankans hafi á þessu rúmlega þriggja ára tímabili keypt umtalsvert af hlutabréfum útgefnum af Kaupþingi banka hf., bæði í kauphöllinni á Íslandi og í Svíþjóð. Samtals hafi þessi kaup numið um 217.000.000 hlutum nettó á tímabilinu, eða um 29% af útgefnu hlutafé bankans, og var þá miðað við útgefið hlutafé 30. júní 2008 sem hafi verið 740.400.000 hlutir. Umfang kaupanna hafi verið stór hluti af veltu bréfanna í mörgum mánaðanna á tímabilinu sem um ræði og var sem dæmi nefnt að frá júní 2008 til október sama ár hafi nettó kaup deildar eigin viðskipta, sem hlutfall af heildarkaupum í kauphöllinni, numið á bilinu 60 til 75% í hverjum mánuði. Fjármálaeftirlitið teldi að þessi umfangsmiklu kaup bankans hafi leitt til þess að röng mynd hafi verið gefin af eftirspurn, veltu og verði hlutabréfanna. Þá hafi kaupin verið vel skipulögð og kerfisbundin og haft þann tilgang í fyrstu að hækka gengi hlutabréfanna, síðan styðja við það og að lokum að tefja fyrir falli þess.

Næst var þess getið í kæru Fjármálaeftirlitsins að hlutabréf í Kaupþingi banka hf., sem deild eigin viðskipta keypti, hafi verið seld í gegnum verðbréfamiðlara bankans, oft í stórum utanþingsviðskiptum til viðskiptavina bankans og hafi kaupin í mörgum tilvikum verið fjármögnuð af bankanum sjálfum. Þessi háttsemi hafi verið bankanum mjög kostnaðarsöm, bæði vegna taps hans á stöðu deildar eigin viðskipta í hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. og vegna margra lánveitinga bankans sem hafi einungis verið tryggðar með veði í hlutabréfunum. Sem dæmi var nefnt að nettó kaup deildar eigin viðskipta á hlutum í bankanum hafi numið 96.000.000.000 krónum frá nóvember 2007 til október 2008. Þá hafi gengistap deildar eigin viðskipta árið 2008, af viðskiptum með hlutabréf útgefnum af bankanum, numið rúmlega 19.000.000.000 krónum. Við það bætist tap bankans vegna útlána til hlutabréfakaupa í bankanum sjálfum sem numið hafi tugum milljarða króna. Háttsemin hafi haft slæm áhrif á heildarvirkni verðbréfamarkaðarins á Íslandi, þar sem telja mætti að markaðurinn hafi gefið ranga mynd af eftirspurn, gengi og veltu hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. á áðurnefndu tímabili, en félagið hafi verið verðmætasta félagið á Íslandi á þessu tímabili og langstærsti einstaki hluti af úrvalsvísitölu kauphallarinnar. Fram komi í tölvubréfasamskiptum að yfirstjórnendum bankans hafi verið fullkunnugt um þessi kaup deildar eigin viðskipta, auk fjölmargra annarra starfsmanna sem áttu hlut að viðskiptunum. Fjármálaeftirlitið hafi ekki fundið gögn sem sýni að stjórn Kaupþings banka hf., að undanskildum stjórnarformanni, hafi verið upplýst um umfang þessara viðskipta.

Í kæru Fjármálaeftirlitsins var gerð grein fyrir sjálfvirkum pörunarviðskiptum á eftirfarandi hátt: „Sjálfvirk pörun verður til í viðskiptakerfi kauphallar þegar samsvörun verður milli tilboða kaupenda og seljenda í tilboðabók. Í kerfinu verða til skrár yfir æskilegt verð ... og magn í mismunandi kaup- og sölutilboðum sem miðlarar sem aðgang hafa að kerfinu setja inn. Þegar samsvörun verður milli tilboða kaupanda og seljanda verður til sjálfvirk pörun viðskiptanna og verðbréfin skipta um hendur. Sjálfvirk pörun viðskipta er því drifkrafturinn í að til verði markaðsverð verðbréfa á skipulegum verðbréfamarkaði. Þegar sjálfvirk pörun tekst verður til síðasta viðskipta- eða markaðsverð verðbréfsins og þar með einnig það verð sem notað er til útreikninga í verðbréfavísitölum. Í raun verður markaðsverð verðbréfa til við sjálfvirka pörun ... Til að hafa áhrif á markaðinn með sjálfvirkri pörun í kauphöll, þarf verðbréfasalinn stöðugt að uppfæra kauptilboð sitt svo það samsvari næsta sölutilboði í tilboðabókinni. Með því verður alltaf til kauptilboð sem samsvarar næsta sölutilboði og markaðsverðið, sem er síðasta greidda verð, ýmist hækkar, stendur í stað eða lækkar hægar en það hefði ella gert ef verðbréfasalinn hefði ekki verið til staðar. Án verðbréfasalans hefðu aðrir væntanlegir kaupendur að öllum líkindum ekki keypt hlutabréfin á því verði sem seljandinn bauð og verðið hefði lækkað til að mæta lægri kauptilboðum.“

Þá var í kærunni eftirfarandi lýsing á ferli viðskipta sem talið var að deild eigin viðskipta og miðlun Kaupþings banka hf. hefðu staðið að: „Það er álit Fjármálaeftirlitsins að þessi tvö svið ... hafi á árunum 2005 – 2008 unnið saman og búið til feril viðskipta í þeim tilgangi að hafa áhrif á markaðsverð hlutabréfa útgefnum af bankanum sjálfum. Fjármálaeftirlitið telur að ferillinn hafi falist í því að kaupa stöðugt hlutabréf á markaði og síðan selja þau utan markaðar. Þessi aðferð sem var bæði skipulögð og kerfisbundin virðist hafa verið notuð í þeim tilgangi að hafa áhrif á verð hlutabréfanna. Algengt var að verðbréfasalar EVK fóru af krafti inn á markaðinn og voru á kauphliðinni í mörgum viðskiptum og notuðu til þess fjármuni bankans, svo virðist í þeim tilgangi að hækka verð eða viðhalda verði hlutabréfa í Kaupþingi. Þessi aukna eftirspurn varð til þess að styðja við verðið (þegar verð lækkaði á markaði) eða hækka verðið (þegar verð var stöðugt eða hækkandi) þar sem það er fyrst og fremst við sjálfvirka pörun viðskipta í kauphöll sem markaðsverð verður til. Áhrifaríkasta leið verðbréfasala, sem vill styðja við eða hreyfa við hlutabréfaverði, er að vera á kauphliðinni í eins mörgum viðskiptum og hann getur í viðskiptakerfi kauphallar. Með því styður hann við verðið í hverjum viðskiptum fyrir sig. Það er álit Fjármálaeftirlitsins að verðbréfasalar EVK hafi haft þennan háttinn á ... Vandamálið við að kaupa ítrekað hlutabréf útgefin af fjármálafyrirtækjunum sjálfum er að þeim er óheimilt að eiga eða taka að veði meira en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins ... Þegar reynt er að hafa áhrif á hlutabréfaverð með miklum kaupum á hlutabréfum er því oftast sjálfhætt, þar sem líklegast er að tap myndist þegar reynt er að selja uppsöfnuðu hlutabréfin í kauphöll. Miðlun Kaupþings var að mati Fjármálaeftirlitsins hjálparhöndin í þessu ferli. Miðlunin hafði aðgang að viðskiptavinum sem sumir fengu óeðlilegar lánafyrirgreiðslur frá lánadeildum bankans. Miðlararnir gátu því selt mikið af þessum hlutabréfum til „útvalinna“ viðskiptavina. Margir þeirra tóku litla eða enga áhættu við kaupin þar sem kaupin voru fjármögnuð með lánum frá bankanum og voru án annarra trygginga en veða í sjálfum hlutabréfunum ... Hér virðist því vera um tvenns konar óeðlileg áhrif að ræða, fyrst umfangsmikil kaup á opnum markaði til að styðja við hlutabréfaverðið og síðan losun á þessum bréfum með sýndarviðskiptum á verði sem var undir áhrifum af kaupum EVK.“

Í kærunni var því nánar lýst hvernig hin ætlaða markaðsmisnotkun hefði verið byggð upp, bæði með kaupum og sölu Kaupþings banka hf. á hlutabréfum útgefnum af félaginu sjálfu. Þar sagði meðal annars um kauphliðina á grundvelli upplýsinga um kaup deildar eigin viðskipta bankans á slíkum hlutabréfum: „Frá janúar 2004 til og með nóvember 2005 má segja að viðskipti EVK með hlutabréf í Kaupþingi hafi verið eðlileg fyrir þessa starfsemi, þar sem EVK var virkt bæði á kaup- og söluhliðinni. Frá því í desember 2005 keypti EVK hins vegar í fleiri viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi en seldi. Eftir september 2007 var EVK nánast eingöngu á kauphliðinni ... virtist vera tilhneiging hjá EVK til að auka kaup sín á hlutabréfum í Kaupþingi þegar verð þeirra lækkaði ... Þessi tilhneiging endurtók sig aftur og aftur þar til lokað var fyrir viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi í kauphöllum ... Frá 2007 til 2008 er hægt að sjá ... að neikvæð fylgni er á milli verðþróunar hlutabréfa Kaupþings og hlutfalls kaupa EVK á hlutabréfum í bankanum. Fylgnin lýsir sér með þeim hætti að þegar gengi hlutabréfa í Kaupþingi lækkaði jók EVK kaup sín á hlutabréfum í bankanum í viðskiptakerfi Kauphallarinnar. Þegar gengið tók síðan við sér dró EVK úr kaupum á hlutabréfunum ... Séu sömu upplýsingar ... skoðaðar út frá heildarveltu í viðskiptakerfi Kauphallarinnar má sjá ... að jafnvel í þeim mánuðum þar sem heildarvelta viðskipta var töluvert mikil, t.d. í janúar, febrúar, september og hluta októbermánaðar 2008, keypti EVK stóran hluta af heildarveltunni. Framangreint sýnir að EVK keypti stöðugt stóran hlut af heildarveltu á markaði frekar en að kaupa svipað magn í hverjum mánuði ... Hlutabréf í Kaupþingi voru skráð bæði í kauphöllinni í Svíþjóð og á Íslandi ... Því var hægt að eiga viðskipti með þau í báðum kauphöllum. EVK virðist hafa beitt sér í sænsku kauphöllinni með sambærilegum aðferðum og í þeirri íslensku. Segja má að þátttaka EVK í sænsku kauphöllinni hafi verið „nauðsynlegur hluti“ af meintum aðgerðum bankans við að hækka eða viðhalda gengi hlutabréfa bankans. Ef hlutabréfaverðið hækkaði einvörðungu á Íslandi sköpuðust möguleikar á svonefndum áhættulausum högnunarviðskiptum ... á milli markaða með því að kaupa hlutabréf ódýrara í sænsku kauphöllinni og selja samtímis á hærra verði í íslensku kauphöllinni. Þar af leiðandi var nauðsynlegt að halda uppi kaupþrýstingi á báðum mörkuðum á sama tíma til að hin meinta markaðsmisnotkun virkaði.“

Um söluhliðina sagði í kærunni að ein leið til að sjá hver söluþrýstingur hafi verið á hlutabréfum í kauphöllinni væri að skoða framboð og eftirspurn hlutabréfanna. Nokkurt jafnvægi hafi verið „milli framboðs og eftirspurnar á árunum 2004 og 2005, en eftirspurnin var heldur meiri en framboðið. Í apríl 2006 snýst þróunin aftur á móti við. Um það bil 5 milljónir fleiri hluta skiptu um hendur að frumkvæði seljanda ... Í þeim mánuði má segja að það ferli hafi hafist þar sem framboðið var meiri en eftirspurnin. Sú þróun hélt áfram allt þar til lokað var fyrir viðskipti með hlutabréf Kaupþings. Á árinu 2008 var framboðið nærri tvöfalt meira en eftirspurnin og viðskipti að frumkvæði seljenda voru meiri en viðskipti að frumkvæði kaupenda í hverjum mánuði það ár. Söluþrýstingurinn náði nýjum hæðum í janúar og september 2008. Þá voru nærri 19 milljón hlutir umfram á seljendahliðinni en á kaupendahliðinni. Á tímabilinu þar á milli varð aldrei umsnúningur á söluþrýstingi. Þrátt fyrir þennan mikla söluþrýsting varð ekki algjört hrun á gengi hlutabréfa Kaupþings. Sem dæmi má nefna að á árinu 2008 lækkaði verðið ekki um meira en 25% ... úr 880 kr. á hlut í 654 kr. EVK kom inn sem mótaðili í mjög mörgum af þessum viðskiptum sem voru að frumkvæði seljenda.“

Hvað varðar viðskipti við opnun og lokun markaða sagði í kærunni: „Fjármálaeftirlitið telur að EVK hafi ítrekað haft áhrif á gengi hlutabréfa í Kaupþingi í bæði opnunar- og lokunaruppboðum með því að kaupa hlutabréfin á þessum verðmyndandi tímapunktum í viðskiptakerfi Kauphallarinnar. Í bréfi Kauphallarinnar kemur fram að Kauphöllin hafi skoðað tímabilið frá maí til október 2008. Í ljós kom að EVK stóð að baki meira en 71% af kaupveltu í opnunaruppboðunum og minna en 1% söluveltu. Sama á við um lokunaruppboðin, þar sem EVK stóð að baki meira en 61% af kaupveltunni og minna en 1% af söluveltunni. Árið 2008 var EVK nettókaupandi að hlutabréfum útgefnum af bankanum í 117 af 179 viðskiptadögum sem Kauphöllin hélt opnunar- og lokunaruppboð til að ákveða gengið. Frá júlí til október 2008 jókst hlutfallið í 54 af 63 dögum þar sem slík uppboð voru haldin. Kaupþing var suma þessara daga með 100% af uppboðsmarkaðinum. Segja má að mikil þátttaka í opnunar- og lokunaruppboðum sé áhrifarík leið til að hafa áhrif á gengi hlutabréfa. Ef skoðuð eru öll opnunar- og lokunaruppboð mánaðarlega kemur í ljós að EVK virðist hafa haft veruleg áhrif á markaðinn með þessum hætti síðan 2005. Tímabilin þar sem EVK keypti mikið magn við opnun og lok markaðar ... eru í megindráttum í takt við þau tímabil þegar EVK var með stóran hluta af heildarkaupum í Kauphöllinni.“

3

Í skýrslu sérstaks saksóknara um samantekt á rannsókn málsins var vísað til áðurnefndrar regluhandbókar Kaupþings banka hf., þar sem fram kæmi að mikilvægt væri að ábyrgð og hlutverk allra sem kæmu að ákvörðunum um fjárfestingarmörk deildar eigin viðskipta væru skýr. Þá sagði í skýrslunni: „Forstjóri bankans er ábyrgur fyrir sérstökum fjárfestingarmörkum fyrir stöður sem eru ætlaðar til meðallangs tíma og í öðrum tilfellum fyrir fjárfestingar sem hafa stefnumótandi tilgang. Þær fjárfestingar þurfa sérheimild frá forstjóra bankans og starfandi stjórnarformanni. Til að EVK gæti átt viðskipti fyrir eigin bók bankans þurfti að liggja fyrir samþykkt heimild. Sótt var um heimild til forstjóra, Hreiðars Más, í tölvubréfi og afrit sent til áhættustýringar. Forstjóri þurfti að samþykkja heimildina til að heimila EVK að eiga viðskipti fyrir hönd bankans. Í heimildarskýrslum ... kom fram að heimildir og breytingar hafi verið samþykktar af Hreiðari Má Sigurðssyni.“ Með fylgdi línurit sem sýndi að heimildir fóru stighækkandi frá 1. mars 2007 til 1. júlí 2008 en ekki voru upplýsingar um upphæð heimilda eftir það. Samkvæmt línuritinu fór nafnverð heimilda til kaupa á hlutum í félaginu úr rúmum 15.000.000 krónum 1. mars 2007 í 35.000.000 krónur 1. júlí 2008.

Í skýrslu sérstaks saksóknara eru línurit sem sýna nettó kaup deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. á hlutabréfum útgefnum af félaginu í sjálfvirkri pörun í Kauphöll Íslands á tímabilinu 1. júní 2005 til 8. október 2008 og í Svíþjóð á tímabilinu 1. apríl 2006 til 8. október 2008. Á þeim sést augljós fylgni milli þess hvernig gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. hreyfðist og þess hvernig deild eigin viðskipta bankans hagaði viðskiptum sínum í sjálfvirkri pörun í kauphöllunum. Þegar gengið hækkaði var dregið úr kaupunum en þegar það lækkaði jukust kaupin og urðu þeim mun meiri eftir því sem gengið féll meira.

Tvö önnur línurit í skýrslu sérstaks saksóknara sýna nettó kaup deildar eigin viðskipta, það er kaup umfram sölu, sem hlutfall af heildarveltu í sjálfvirkri pörun frá 1. nóvember 2007 til 8. október 2008. Á þessu tímabili voru nettó kaup deildarinnar á íslenska markaðnum 41% af heildarveltu. Keypti deildin nettó á tímabilinu 129.698.143 hluti í Kaupþingi banka hf. fyrir samtals 93.944.124.700 krónur. Í september 2008 voru nettó kaup deildarinnar 61% af heildarveltunni og í október 2008 var hlutfallið 74%. Á tímabilinu voru kaupin 23% af heildarveltunni á sænska markaðnum en í september 2008 voru þau 46% og í október sama ár var hlutfallið 57%.

Í opnunaruppboðum í íslensku kauphöllinni á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 8. október 2008 voru nettó kaup deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. 55% af heildarveltunni. Í september 2008 voru kaupin 69% af heildarveltu og í október 2008 var hlutfallið 77%. Á sama tíma voru nettó kaup deildarinnar 30% af heildarveltunni á sænska markaðnum. Í september 2008 voru kaupin þar 69% af heildarveltunni og í október var hlutfallið 27%. Í lokunaruppboðum voru á sama tímabili nettó kaup deildarinnar á íslenska markaðnum 43% af heildarveltunni, 71% í september 2008 og í október 2008 var hlutfallið 63%. Á sænska markaðnum var hlutfallið 34% af heildarveltu, 76% í september 2008 og í október 2008 var hlutfallið 35%.

Á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 8. október 2008 var nafnverð kauptilboða deildar eigin viðskipta á Íslandi 37% af heildarnafnverði kauptilboða í hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Á sama tímabili var nafnverð sölutilboða deildarinnar 3% af heildarnafnverði sölutilboða. Í september 2008 var hlutfall kauptilboðanna 56% og í október 2008 var það 69%. Á sama tímabili var nafnverð kauptilboða deildarinnar í Svíþjóð 30% af heildarnafnverði kauptilboða og nafnverð sölutilboða hennar 12%. Í september 2008 var hlutfall kauptilboðanna 44% og í október 2008 var það 51%.

Á sama tímabili og hér um ræðir, 1. nóvember 2007 til 8. október 2008, var fjöldi kauptilboða deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. 34% af heildarfjölda kauptilboða á Íslandi í hlutabréf í bankanum en fjöldi sölutilboða 5% af heildarfjölda þeirra. Í september 2008 var hlutfall kauptilboða deildarinnar 58% og í október 2008 var það 73%. Í september 2008 voru lögð fram 16 sölutilboð af hálfu deildarinnar en ekkert í október 2008. Á sama tíma var fjöldi kauptilboða deildarinnar á sænska markaðnum 10% af heildarfjölda kauptilboða í hlutabréf bankans en fjöldi sölutilboða var 4% af heildarfjölda þeirra. Í september 2008 var hlutfall kauptilboða deildarinnar 20% og 29% í október sama ár. Alls 208 sölutilboð voru lögð fram af hálfu deildar eigin viðskipta í hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á þessum tveimur mánuðum á móti 1319 kauptilboðum.

4

Eins og fyrr greinir tók kæra Fjármálaeftirlitsins til sérstaks saksóknara vegna ætlaðrar markaðsmisnotkunar með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. til tímabilsins frá júní 2005 til október 2008. Rannsókn sérstaks saksóknara beindist fljótlega að tímabilinu frá 1. nóvember 2007 til 8. október 2008 af ástæðum sem áður greinir og tekur ákæran til þess tímabils. Í málinu eru gögn sem varpa ljósi á samskipti stjórnenda bankans og starfsmanna eigin viðskipta hans á tímabilinu fyrir 1. nóvember 2007. Er rétt samhengisins vegna að rekja þau samskipti að nokkru.

Að morgni 14. mars 2006 hringdi þáverandi forstöðumaður eigin viðskipta Kaupþings banka hf. í ákærða Sigurð og ræddu þeir í upphafi samtalsins stuttlega um opnun markaða og kom fram að gengi hlutabréfa í félaginu hefði hækkað um 1,3%. Í lok samtalsins bað ákærði Sigurður forstöðumanninn um að „smassa“ á sig ef eitthvað gerðist. Forstöðumaðurinn hringdi í SPK síðar sama dag og kvaðst sá síðarnefndi vera með áhyggjur af því að þeir væru að verða „mjög þéttir í bankanum.“ Forstöðumaðurinn spurði þá hvað hann ætti að gera og svaraði SPK því til að hann ætti „bara að lauma þessu út“ og kvaðst sá fyrrnefndi ætla að „reyna að gera eitthvað í þessu.“

Ákærði Sigurður hringdi í starfsmann eigin viðskipta Kaupþings banka hf. síðdegis 24. mars 2006 og ræddu þau stöðuna í Kauphöll Íslands við lokun markaðar. Aftur hringdi ákærði Sigurður í sama starfsmann árdegis 28. mars 2006 og spurði hvað væri að gerast. Hún svaraði því til að „Kaupþing opnar í 830“ og síðar í samtalinu bað Sigurður hana um að láta sig vita „ef eitthvað gerist ... sérstaklega með okkar bréf“. Enn á ný hringdi ákærði Sigurður í sama starfsmann árdegis 29. mars 2006, spurði hvernig markaðir opnuðu og bað starfsmanninn að hringja í sig eða senda sér smáskilaboð ef eitthvað gerðist.

Fyrrnefndur forstöðumaður eigin viðskipta hringdi í ákærða Sigurð árdegis 30. mars 2006 og í samtalinu spurði Sigurður „hvað eigum við í KB eða Káinu?“ Forstöðumaðurinn svaraði því til að þeir ættu tvær milljónir bréfa og sagði stuttu síðar að ekkert hefði gengið að selja daginn áður. Sigurður kvaðst hafa séð það og sagði síðar að þeir skyldu halda sig til hlés og tók jafnframt fram að óskastaðan væri að „selja milljón bréf fyrir mánaðamót“ en ef það gengi ekki þá gengi það ekki. Undir lok samtalsins bað Sigurður forstöðumanninn um að hringja í sig strax eftir hálftíma þegar það væri komin einhver mynd. Einni og hálfri klukkustund síðar hringdi forstöðumaðurinn í ákærða Sigurð sem spurði hvort hann væri „búinn að kaupa eitthvað í dag af Kái?“ Forstöðumaðurinn svaraði því neitandi, Kaupþing banki hf. færi niður um 3,5% „og mér finnst alveg spurning hvort við eigum ekki að vera þarna inni?“ Því svaraði Sigurður með því að segja: „Fara á kauphliðina, já fara á kauphliðina ... Ég vil ekki að það sé yfir 5% niður í dag sko.“ Forstöðumaðurinn hringdi aftur í ákærða Sigurð stuttu síðar og sagði að „þetta fór niður í 790 hérna rétt áðan, og þetta er niður 4% núna“ og „menn eru að biðja okkur að kvóta.“ Sigurður spurði þá hver væri að biðja um það og svaraði forstöðumaðurinn að það væri miðlunin. Enn hringdi forstöðumaðurinn í Sigurð um tíu mínútum síðar og spurði sá síðarnefndi hvort þetta væri „4,20% niður núna?“ Forstöðumaðurinn svaraði því til að svo væri, hann ætlaði að gefa þessu tíma og þetta myndi ekki enda svona. Kvaðst Sigurður hafa trú á því.

Forstöðumaðurinn hringdi í ákærða Sigurð undir hádegi 18. apríl 2006 og kvað stöðuna vera dapra, þeir væru niður um 1,7%. Sigurður spurði þá á móti: „Hvað, þýðir ekkert að taka á móti þessu eða?“ Forstöðumaðurinn svaraði því þannig að hann væri ekkert að taka á móti þessu, hann ætlaði að bíða aðeins og sjá þessa holskeflu fara aðeins yfir. Undir lok símtalsins spurði Sigurður hvaða gengi væri á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. og sagði forstöðumaðurinn það vera 757.

Ákærði Sigurður sendi SPK, ákærðu Hreiðari Má og Ingólfi og fyrrgreindum forstöðumanni tölvubréf 20. maí 2006. Þar kvað hann markaði hafa fallið, eign bankans lækkað í verði og hann orðið fyrir tapi en þeir kveinkuðu sér ekki undan því. Alvarlegra væri að hann hefði ekki vitað af þeim stöðum sem verið væri að taka hjá eigin viðskiptum, fyrir utan stöðurnar í Storebrand, Granda og Kaupþingi, sem hefðu verið ræddar og kynntar í stjórn bankans. Hann kvaðst hafa hringt undanfarna mánuði, að minnsta kosti tvisvar á dag, og spurt frétta en ekki fengið upplýsingar um þessar stöður. Breyta þyrfti vinnureglum og lagði ákærði Sigurður til að þeir myndu hittast. Tveimur dögum síðar sendi hann sömu mönnum aftur tölvubréf og óskaði eftir því að fá sendar í tölvubréfi helstu stöður og upplýsingar um hagnað og tap í lok dagsins. Gögn málsins bera með sér að eftir þetta fengu ákærðu Sigurður, Hreiðar Már og Ingólfur ásamt SPK reglulega sendar upplýsingar um helstu stöður og hagnað og tap hjá eigin viðskiptum frá forstöðumanninum eða öðrum starfsmönnum eigin viðskipta.

Ákærði Sigurður sendi SPK og ákærðu Hreiðari Má og Ingólfi tölvubréf 13. júní 2006 þar sem hann sagðist ekki hafa fengið upplýsingar um hvað hefði verið keypt og selt hjá eigin viðskiptum Kaupþings banka hf. síðastliðna níu daga. Í framhaldi af tölvubréfi Sigurðar sendi fyrrgreindur forstöðumaður 15. júní 2006 tölvubréf á ákærðu Sigurð og Hreiðar Má þar sem hann óskaði eftir að fá að vita stefnu þeirra vegna stöðutöku bankans. Eins og mál hefðu þróast teldi hann sig ekki hafa umboð til að stýra veltubók bankans og spurði hvort þeir vildu leggja deildina niður. Sigurður svaraði tölvubréfi forstöðumannsins degi síðar og kvaðst þegar hafa lýst yfir vonbrigðum með þann dómgreindarbrest sem orðið hefði hjá eigin viðskiptum bankans og að eftirlitið hefði brugðist. Unnið væri að nýjum reglum þannig að eigin viðskipti þyrftu sérheimildir fyrir öllum stöðutökum.

Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Birni Sæ 1. nóvember 2006 og spurði sá síðarnefndi í samtalinu hvort ekki væri „rétt að fara að mæta þessu aðeins ... snúa vörn í sókn?“ Ingólfur játti því og sagði að það skyldi gert „bara svona með hæfilegum hætti. Þú talar náttúrulega við GÞG líka.“ Stuttu síðar hringdi ákærði Birnir Sær í GÞG framkvæmdastjóra fjárstýringar bankans og sagði að þeir færu „að mæta Kaupþingi af aðeins meiri festu, snúa vörn í sókn ... þurfum aðeins að ... vera agressívari í KAUP en passívir.“ GÞG svaraði því til að sér fyndist það allt í lagi og spurði hvort Birnir Sær væri búinn að fá einhver fyrirmæli um það. Stuttu síðar kom fram í símtalinu að ákærði Ingólfur hefði hringt í Birni Sæ.

Ákærði Einar Pálmi sendi tölvubréf til starfsmanna deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. að morgni sunnudagsins 21. október 2007 undir yfirskriftinni „válynd veður.“ Þar sagði meðal annars að „svo fremi sem töluverðar lækkanir gangi eftir í fyrramálið held ég að við ættum að vera óhræddir við að selja straum, lais, glb og fl. Við höngum auðvitað á kaupþingi og erfitt verður að losa exista“. Ákærði Pétur Kristinn hringdi í ákærða Einar Pálma um hádegi sama dag og ræddu þeir í upphafi samtalsins um erfiða stöðu á mörkuðum. Þegar talið barst að Kaupþingi banka hf. sagðist Einar Pálmi alveg geta trúað því að „ef við myndum ekki taka verulega á móti Kaupþingi þá myndi það bara lækka fimm prósent og sex prósent á punktinum“. Stuttu síðar sagði hann að þeir ættu bara að setja inn tilboð, finna markaðinn aðeins og „leyfa honum að koma aðeins niður, en taka svo einhvers staðar þétt við.“

5

Meðal gagna málsins eru tölvubréf og endurrit símtala milli stjórnenda Kaupþings banka hf. og starfsmanna eigin viðskipta bankans á ákærutímabilinu 1. nóvember 2007 til 8. október 2008 sem varpa ljósi á atvik málsins. Hið sama gera einnig tölvubréf og endurrit símtala milli starfsmanna hinna ýmsu sviða og deilda bankans og samtöl starfsmanna hans við starfsmenn annarra fjármálafyrirtækja.

Ákærði Einar Pálmi hringdi í ákærða Pétur Kristin snemma morguns 8. nóvember 2007. Þeir ræddu í upphafi um hvernig opnun Kaupþings banka hf. í Svíþjóð gengi og sagði Pétur Kristinn þetta vera „á svipuðu leveli og þar sem við ákváðum að setja niður hælana í gær.“ Einar Pálmi svaraði: „Já, en eins og hann var að segja í gær, við erum þannig lagað ekkert að setja niður hælana, bara svona við eigum að stoppa bara svona frjálst fall raunverulega.“ Einar Pálmi sagði stuttu síðar í símtalinu að það væri „ágætt að koma kannski sterkur inn bara rétt fyrir 10“. Fyrir dómi skýrði Einar Pálmi svo frá að „hann“ sem vísað væri til í samtalinu væri ákærði Ingólfur.

Ákærði Einar Pálmi hringdi í ákærða Pétur Kristinn snemma morguns 9. nóvember 2007 og ræddu þeir opnun markaða. Pétur Kristinn sagði: „Já, hérna, ég ákvað að matcha bara Kaupþing upp í 102.“ Því svaraði Einar Pálmi: „Já, ég var að pæla í því, það sem ég var að hugsa ef við myndum samt ekki reyna að hækka Kaupþing of mikið, sko ekki við að stuðla að því ... Við supportum það ef það myndi vanta eitthvað upp á það.“

Ákærðu Birnir Sær og Pétur Kristinn áttu símtal seint að kvöldi 19. nóvember 2007 og ræddu stöðu markaða. Birnir Sær spurði hvort Pétur Kristinn héldi „að það sé komin skipun um að setja stopp í þetta“. Því svaraði Pétur Kristinn: „Veit það ekki, málið er sko þeir verða náttúrulega að átta sig á því sko að við þurfum að taka upp, þeir létu okkur matcha þetta upp 915 eitthvað í dag“. Síðar í samtalinu sagði Birnir Sær: „Það ég held að það sé bara spurning um að mæta þessu í fyrramálið án þess að vera að kaupa einhverja hálfa milljón sko“. Stuttu síðar hringdi ákærði Einar Pálmi í ákærða Birni Sæ. Í símtalinu ræddu þeir um veðköll og að morguninn eftir yrði ansi ljótur. Birnir Sær sagði þá að þeir þyrftu að fá á hreint hvernig þeir ættu að mæta þessu og sagðist Einar Pálmi vera búinn að tala við Ingólf sem hefði hækkað heimildina upp í 20.000.000 hluti en viljað að þeir færu sparlega með það nema í samráði við sig. Birnir Sær sagði þá mega búast við holskeflu morguninn eftir og það þyrfti að mæta því eða „sjá stokkinn í 870.“

Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Birni Sæ síðdegis 20. nóvember 2007. Í samtalinu sagði Birnir Sær eitthvað framboð og stress hafa verið á markaðnum og hefði hann verið hræddur um að gengið yrði „matchað niður í 902-3.“ Hann hefði viljað fá leyfi til að „matcha þetta eins og maður.“ Ingólfur sagði Birni Sæ þá að „smassa urgent“, þá myndi hann hringja.

Starfsmenn innri endurskoðunar Kaupþings banka hf. tóku viðtal við ákærða Einar Pálma 20. nóvember 2007, sem var hljóðritað og síðar endurritað, en viðtalið var hluti af athugun innri endurskoðunar á starfsemi fjárstýringar bankans. Í viðtalinu sagði Einar Pálmi meðal annars að „aðalstaðan okkar í dag, 80% af stöðunni í dag er bara Kaupþing. Það helgast bara af því að Kaupþing hefur verið svona, hvað eigum við að segja, við höfum verið að sjá til þess að bréfin lækki ekki of mikið og of hratt ... Það er ekki út af því að okkur langi að kaupa Kaupþing svo mikið. Alls ekki ... Þegar krísan byrjaði 18. júlí, þá áttum við nánast ekkert í Kaupþingi en síðan eigum við allt í einu orðið marga milljarða.“ Aðspurður hvort tapið væri alltaf að aukast svaraði ákærði Einar Pálmi: „Já, í sjálfu sér, í þeirri stöðu ... og ég vinn það til dæmis bara með Ingólfi til dæmis og hann er þá bara í sambandi við Hreiðar og SPK.“ Spurður um hvort þeir gætu tæknilega séð haldið uppi verði þegar eigin viðskipti keyptu eða seldu í Kaupþingi, svaraði Einar Pálmi: „Tæknilega get ég það.“ Aðspurður í viðtalinu hvort markaðurinn væri þá tæknilega blekktur svaraði Einar Pálmi: „Já, ég get haldið ... og ...“. Þegar hann var spurður hvort ekki væri þá komið inn á grátt svæði var svarið: „Jú, jú, það, sko, hvað þú á ... Þetta eru allir að gera.“

Ákærðu Einar Pálmi og Birnir Sær áttu símtal saman að morgni 23. nóvember 2007 og ræddu stöðu markaða. Þegar leið á samtalið spurði Einar Pálmi: „Hefurðu eitthvað heyrt í Golla?“ Birnir Sær svaraði því neitandi og sagði þá Einar Pálmi: „Bara svona, það er ágætt að vera í ágætis sambandi við hann ... Þú getur sagt honum hvernig þetta liggur, er Svíþjóð eða sko kaup SS er, hvernig hefur það verið?“

Ákærði Pétur Kristinn hringdi í ákærða Einar Pálma síðdegis 23. nóvember 2007 og þegar talið barst að Kaupþingi banka hf. spurði Einar Pálmi hvað síðasta gengið væri. Pétur Kristinn kvað það vera 898, hann væri að dansa í kringum 900. Einar Pálmi spurði þá hvort þeir ættu ekki að láta þetta enda í 900 og sagði Pétur Kristinn það vera „helvíti flott.“ Undir lok símtalsins sagði Einar Pálmi að þeir gætu prófað að setja inn kauptilboð í Glitni, Landsbankanum, Straumi og FL og híft aðeins Kaupþing upp í 900. Pétur Kristinn sagði þá að ákærði Birnir Sær væri búinn að klára þetta. Ákærði Einar Pálmi hringdi í ákærða Pétur Kristin klukkustund síðar og þegar talið barst að Kaupþingi banka hf. spurði Einar Pálmi hvort það hefðu ekki verið þeir sem létu þetta enda vel og hvort það hefði kostað mikið. Pétur Kristinn kvað þá hafa verið nettó seljendur um 180.000 hluta og „þetta endaði í 900“ og sagði Einar Pálmi þá að það hefði kostað 200.000 til 300.000 að fá þetta upp.

Ákærði Pétur Kristinn hringdi í ákærða Einar Pálma snemma morguns 26. nóvember 2007. Þegar talið barst að Kaupþingi banka hf. sagði Einar Pálmi þá þurfa að vera svolítið sterka í byrjun og vera svo í sambandi við Ingólf. Jafnframt sagði hann: „Ekki láta þetta hækka en við ættum eiginlega að kannski að ... byrja á því að verja síðasta gengi er það ekki?“ Í framhaldinu ræddu þeir að gengi Kaupþings banka hf. væri komið niður í 89 í Svíþjóð og lagði Einar Pálmi til að þeir yrðu með kauptilboð í kringum 91,5 í opnuninni og engin sölutilboð.

Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Birni Sæ að morgni 5. desember 2007 og lýsti því í byrjun samtalsins að þetta gæti orðið áhugaverður dagur. Þegar Birnir Sær sagði að þeir ætluðu „að vera víðir á því, eins víðir og hægt er“ svaraði Ingólfur því játandi, og þegar Birnir Sær sagði: „opna niður og leyfum því að sunka ef það er í lagi“, svaraði Ingólfur: „Já, við ráðum ekki verðinu á svona degi það er ljóst maður.“

Undir hádegi 18. desember 2007 ræddu saman í síma ákærðu Birnir Sær og Einar Pálmi og spurði sá síðarnefndi: „Hvað er askið núna?“ Því svaraði Birnir Sær og sagði: „66 en það er 1.900 bréf, 20.000 bréf á 68.“ Einar Pálmi sagði þá að hann myndi „láta þetta fara ... selja þetta“ og bætti við: „Heyrðu þú getur gert eitt líka ef þú vilt ... Ef þú vilt fá second opinion, myndi ég tala við Golla, bara svona aðeins ... Ég hef ekkert rætt við hann um svona kannski hvernig hann vilji stjórna því en ég veit bara að menn vilja eiga sem minnst um áramót.“

Starfsmaður eigin viðskipta Kaupþings banka hf. sendi öðrum starfsmanni bankans, MSN að nafni, tölvubréf, með afriti á ákærða Einar Pálma og GÞG snemma dags 19. desember 2007 undir yfirskriftinni „lán“ og spurði hvaða bréf hún gæti „lánað okkur og hve mikið af hverju? Hlutabréf og ICEQ.“ Í öðru tölvubréfi sem fyrstnefndi starfmaðurinn sendi til ákærða Einars Pálma um sama leyti sagði: „Ég fór að lokum yfir til hennar MSN. Hún vildi lítið gefa upp og sagðist ekkert eiga nema mögulega í GLB. Nefndi líka Straum. MSN hafði miklar áhyggjur af því að við ætluðum að selja þetta út á markaðinn og þau væru undir fyrirmælum um að ekki leyfa slíkt. Ég útskýrði þá að við værum alltaf með leyfi frá yfirstjórn áður en við seldum bréf á markaði. Hún vildi tala frekar við HF.“

Ákærði Einar Pálmi hringdi í ákærða Ingólf 20. desember 2007 og sagði meðal annars: „Já ... ég ætlaði bara að segja þér hvernig þetta væri að ganga ... þetta er svona aðeins upp og ég ætlaði bara að heyra í þér hvernig að þú vildir að við myndum hafa ... Vaktina, Kaupþingi.“ Því svaraði Ingólfur með því að segjast hringja í Einar „eftir hálfa.“

Ákærði Birnir Sær hringdi í ákærða Einar Pálma eftir hádegi 27. desember 2007. Í samtalinu spurði Einar Pálmi hvað væri búið að gerast og sagði Birnir Sær það ekki vera neitt. Þá sagði Einar Pálmi: „Ókei, þið, Ingólfur hringdi í mig, þið megið vera bara mjög firm í Kaupþingi ... og leyfa þessu bara að hækka ef það eru einhverjir, ef að hérna svo ber undir.“

Ákærði Pétur Kristinn sendi ákærða Ingólfi tölvubréf eftir hádegi 28. desember 2007 undir yfirskriftinni „KAUP“. Í bréfinu sagðist Pétur vera búinn að kaupa 526.177 hluti, það væri að myndast smá stemmning en það væru þéttar söluhliðar.

Rétt fyrir hádegi 4. janúar 2008 ræddu saman í síma ákærðu Einar Pálmi og Pétur Kristinn. Einar Pálmi sagði: „Reyndu að þétta þetta aðeins ... Settu svona 100 kall heima og 50 úti ... Ég var að heyra í Golla.“

Ákærði Einar Pálmi hringdi í ákærða Pétur Kristin snemma að morgni 7. janúar 2008 og ræddu þeir í upphafi samtalsins um stöðu á mörkuðum. Síðan sagði Pétur Kristinn að Svíþjóð „er að fara að opna eftir 5 mínútur, þetta virðast ekki vera drastískar opnanir, þetta er að opna á svipað og lokaverði.“ Því svaraði Einar Pálmi með því að segja: „Ingólfur hafði samband ... þú átt að tryggja skynsama verðmyndun í Stokkhólmi, þannig að vertu bara svona firm ... eins og við vorum bara þarna á föstudaginn, koma bara einmitt ...við skulum bara segja ... þú veist, við skulum vera svolítið firm þarna á síðasta verði bara.“ Í tölvubréfi ákærða Ingólfs til ákærða Hreiðars Más í lok sama dags undir yfirskriftinni „KAUP“ sagði: „Eigum 7,8m hluti eftir daginn upp um ca 2,8 í dag.“

Snemma að morgni 8. janúar 2008 ræddu saman í síma ákærðu Einar Pálmi og Pétur Kristinn og spurði sá fyrrnefndi hvernig morguninn hefði byrjað. Því svaraði Pétur Kristinn og sagði: „Morguninn byrjar vel, allt bara iðagrænt.“ Sagði Einar Pálmi þá: „Þú verður bara firm með Kaupþing ... ekkert alltaf 25 kalla, það er ágætt að vera bara með 35 kalla núna, athuga hvort það dugi ekki“. Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Birni Sæ í hádeginu sama dag og spurði hvað hann væri búinn að taka inn. Birnir Sær svaraði: „Í dag er ég búinn að taka alltof mikið fimmhundruð sexhundruð kall.“ Þá sagði Ingólfur: „Láttu vaða aðeins inn í þetta, það kemur þá bara inn á okkur.“ Kvaðst Birnir Sær þá ætla að vera sterkur. Síðar sama dag hringdi ákærði Ingólfur í ákærða Einar Pálma og sagði í lok samtalsins: „Láttu söluhliðina vera áfram bara týnda.“

Ákærði Birnir Sær hringdi í ákærða Einar Pálma um morguninn 9. janúar 2008 og sagði: „Hæ, heyrðu við erum niður um 4,7 í Svíþjóð.“ Því svaraði Einar Pálmi: „Já, passaðu, settu, þéttu það.“ Upp úr hádegi sama dag ræddu saman í síma ákærðu Ingólfur og Birnir Sær. Sagði Ingólfur að „stemmningin er að verða ansi súr ... það er bara svona allir í húsinu hálf eitthvað deprimeraðir“ og spurði síðar í samtalinu hvort hann væri „orðinn einn eftir á kauphliðinni eða?“ Birnir sagði: „Já tuttugu og sex kall með mér hérna og tuttugu og fimm“ og sagðist vera bara einn. Þá sagði Ingólfur: „Já, já, haltu áfram að raða inn í þetta bara ... Jú jú við tökum þetta bara inn og svo bara dipp dipp dipp ... vertu bara sterkur á henni það kemur þá bara inn á hana“.

Ákærðu Einar Pálmi og Pétur Kristinn ræddu saman í síma að morgni 10. janúar 2008 og spurði Einar Pálmi hvort einhver viðskipti væru með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. og svaraði Pétur Kristinn því til að það væri ekkert að ráði, 3000 bréf. Þá spurði Einar Pálmi: „Erum við búnir að kaupa eitthvað?“ og svaraði Pétur Kristinn að það væru 18.700. Þá sagði Einar Pálmi: „Já, við skulum vera firm, prófaðu að vera svolítið aggressívur, en samt hægt og rólega bara ... og hérna við ætlum að koma inn þá sterkir, Ingólfur vill að við komum sterkir inn í Kaupþingi í dag ... þannig að þá skulum við bara, skulum vonast til þess að við getum, að markaðurinn verði í lagi, við getum verið komnir með, Kaupþing verði sterkari fyrir opnun.“ Ákærði Ingólfur sendi ákærða Hreiðari Má tölvubréf síðar þennan morgun undir yfirskriftinni „staða í lok dags eftir innlausn á ICEQ og pökkum frá Gnúp“. Þar sagði meðal annars: „fyi, þetta á að vera nokkuð nærri lagi, tæp 2% í KAUP og rúmt 1% í E.“

Ákærði Ingólfur sendi tölvubréf á ákærða Hreiðar Má um morguninn 11. janúar 2008 undir yfirskriftinni „EVK staða í lok dags.“ Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Pétur Kristin síðar sama dag og þegar talið barst að Kaupþingi banka hf. sagði Ingólfur að Pétur Kristinn skyldi vera „tiltölulega firm á kauphliðinni áfram ... og tekur inn þó eitthvað komi, kemur aftur inn á tikkunum og ekkert múður ... ekki út í það óendanlega náttúrulega, en svona ... veggur og engin sölutilboð.“

Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Einar Pálma að áliðnum morgni 21. janúar 2008 og ræddu þeir í upphafi erfiða stöðu á mörkuðum. Í framhaldinu spurði Einar Pálmi hvort þeir ættu að halda sömu línu. Ingólfur svaraði: „Já, já, við verðum bara að gera það, við verðum að sýna verðmyndun.“ Síðar í samtalinu sagði Einar Pálmi að það væri einhver svona heimskreppu faraldur í gangi og kvað Ingólfur það vera heimskrepputal og sagði: „Einmitt, við skulum bara mynda verðið eins og fyrri daginn ... og hérna vera svolítið þéttir á því.“ Játti Einar Pálmi því og kvaðst myndu gera það. Í lok sama dags ræddu saman í síma ákærðu Ingólfur og Pétur Kristinn meðal annars um hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Ingólfur sagði: „Heyrðu, við skulum bara svona styðja nett við bankann eða svona, við skulum ekkert vera að kippa í hann.“ Pétur Kristinn svaraði og sagði: „Nei, nákvæmlega, bara vera þéttir“ og því svaraði Ingólfur með orðunum: „Já, já, það er ekki mjög credible“.

Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Pétur Kristin snemma morguns 22. janúar 2008 og sagði: „En ég held það sé ljóst að við höldum ekki stíft við þetta eins og sakir standa.“ Pétur Kristinn kvað gengið komið í 700 í Svíþjóð og undir lok samtalsins sagði Ingólfur: „Já, við verðum að láta þetta dansa svolítið með markaðnum, kannski ekki alveg að sleppa því að ástæðulausu, en ég sé ekki að við séum að verja þetta mjög stíft eins og markaðirnir eru.“

Ákærði Einar Pálmi hringdi í ákærða Pétur Kristin árla morguns 24. janúar 2008 og ræddu þeir í upphafi um stöðu á mörkuðum. Í framhaldinu sagði Pétur Kristinn að „Golli“ hefði sagt að spara ætti púðrið og spurði Einar Pálmi þá hvort hann vildi ekki að þeir væru að setja fram há kauptilboð. Því svaraði Pétur Kristinn: „Já, hann sagði að aðeins að spara kúlurnar ... og hérna ... það sem ég ætla ... ég stillti mig með minni tilboð og aðeins víðara undir.“ Ákærði Ingólfur ræddi í síma við ákærða Pétur Kristin sama dag klukkan 9.36 og spurði meðal annars: „Hvar ætlið þið að stilla upp tilboðunum í bankanum? ... Hann er last hérna 715 í Stokkhólmi sko ... væri ekki sannfærandi ef kaup og sala væru einhvers staðar yfir 700? Prófa það ... Já, þið metið það. Ég held það væri sannfærandi að láta reyna á það hvort það gappi ekki aðeins upp eins og allur heimurinn.“ Pétur Kristinn kvað þá myndu gera það. Ákærði Ingólfur hringdi aftur í ákærða Pétur Kristin sama dag klukkan 14.10 og spurði Ingólfur hvað væri að frétta af „dauða kettinum.“ Pétur Kristinn sagði hann bara „lúra og mala“ og spurði Ingólfur þá hvort hann væri „ekki snöggur upp ef það er sparkað í hann?“ og kvaðst Pétur halda það. Í lok símtalsins ræddu þeir kauptilboð eigin viðskipta Kaupþings banka hf. í kauphöllinni og sagði Pétur Kristinn þá vera með tvö tilboð, þeir þyrftu að vera rólegir en tækju inn í þegar þörf væri á, þetta væri raunveruleg kauphlið. Ingólfur svaraði því til að þetta væri heilbrigt og flott í bili. Ákærði Einar Pálmi hringdi í ákærða Ingólf þennan sama dag klukkan 14.13 og spurði hvort þeir færu aðeins að leyfa sölur, litlar upphæðir inn á þingið. Ingólfur sagði að þeir skyldu bíða með það, þeir skyldu frekar leysa þetta „með því að moka út einhverjum pökkum.“ Sama dag klukkan 16.05 hringdi ákærði Ingólfur í ákærða Pétur Kristin og spurði hvar hann ætlaði „að loka kettinum í dag?“ Pétur Kristinn sagðist þá örugglega loka í 700 og ítrekaði að kauphliðarnar í bankanum væru fínar fyrir utan eigin viðskipti og þetta væri heilbrigt á að líta. Ákærði Pétur Kristinn hringdi sama dag klukkan 16.15 í starfsmann miðlunar Kaupþings banka hf. og þegar talið barst að bankanum spurði starfsmaðurinn hvað væri langt síðan þeir hefðu þurft „að styðja við kaupin í Kaupþingi.“ Pétur Kristinn sagði það góðan tíma síðan, þeir hefðu tekið aðeins í þarna um morguninn en ekki sést síðan. Kvað hann þetta vera mjög jákvætt og heilnæmt fyrir markaðinn.

Að morgni 25. janúar 2008 hringdi ákærði Ingólfur í ákærða Einar Pálma og lagði til að þeir myndu færa svolítið af hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. til Stokkhólms. Það væri „nett trikk“, þá sæist minni eign í hluthafaskránni. Í samtalinu ákváðu þeir að færa 10.000.000 hluti til Svíþjóðar og í lok samtalsins spurði Ingólfur hvort þetta sæist, einhverjar tilkynningar eða slíkt, en Einar Pálmi svaraði því til að svo væri ekki. Stuttu síðar hringdi ákærði Ingólfur aftur í ákærða Einar Pálma og spurði hvort hann væri búinn að senda eitthvað af stað. Í samtalinu velti Ingólfur vöngum yfir því hvort 10.000.000 hlutir væru „of mikið drop“ án þess að það sæjust viðskipti. Þeir ákváðu að koma 2% fyrir úti í Stokkhólmi eða 8.000.000 hlutum.

Ákærðu Einar Pálmi og Pétur Kristinn ræddu saman í síma að morgni 29. janúar 2008 um stöðu á mörkuðum og lét Einar Pálmi þau orð falla að Kaupþing banki hf. væri „bara í rólegheitum“. Pétur Kristinn kvað svo vera en sagði að reyndar væri félagið 1% upp. Þá sagði Einar Pálmi: „Já, já, já, við verðum að slá Kaupþing upp í dag, er það ekki?“ og sagði Pétur Kristinn þá að þeir yrðu að fá það upp áður en það færi aftur niður. Einar Pálmi sagði þá: „Við verðum að fá það mikið upp ... alltaf, og svo lækkar það og þá lækkar það minna ... þetta er, það er strategían.“

Í febrúar 2008 byrjaði ákærði Birnir Sær að senda yfirmönnum Kaupþings banka hf. reglulega tölvubréf sem höfðu að geyma upplýsingar um stöðu dagsins hjá eigin viðskiptum, annars vegar í viðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. hérlendis og hins vegar í Svíþjóð. Viðtakendur voru ákærðu Ingólfur og Hreiðar Már ásamt SPK og síðar í mánuðinum var ákærða Sigurði bætt í hóp viðtakenda.

Ákærði Birnir Sær hringdi í ákærða Pétur Kristin 6. febrúar 2008 klukkan 8.04 og sagðist Pétur Kristinn í samtalinu hafa sett „létt tilboð inn, svo leyfa mönnum að fara með þetta niður.“ Þetta væri komið 2,7% niður. Klukkan 10.44 sendi ákærði Einar Pálmi ákærða Ingólfi tölvubréf þar sem meðal annars kom fram að eigin viðskipti Kaupþings banka hf. ættu 23.000.000 hluti í félaginu og að þeir hafi sett „200 á 721“. Ingólfur svaraði Einari Pálma klukkan 11.13 og spurði: „refresh-staðan nú?“ Einar Pálmi svaraði Ingólfi klukkan 11.47 þar sem fram kom að gengi Kaupþings banka hf. hefði lækkað um 1,36%, þeir væru búnir að kaupa nettó 1.000.000 hluti og væru með „25 á 723, 100 á 722 og 200 á 721.“ Ingólfur svaraði Einari Pálma klukkan 11.49 og spurði hvert væri meðalkaupverð dagsins og hvort þeir ættu að „heyra í FRR og bjóða pakka.“ Einar Pálmi svaraði Ingólfi klukkan 11.54 og sagði meðalverðið vera 723 og að hann yrði í sambandi við FRR ef það væri áhugi. Aftur sendi Einar Pálmi tölvubréf til Ingólfs, klukkan 11.57, og sagði FRR hvorki vera með kaupendur né seljendur og markaðinn hafa róast. Ákærði Birnir Sær sendi ákærða Ingólfi tölvubréf klukkan 13.22 með yfirskriftinni „þrýstingur“. Þar kom fram að gengi Kaupþings banka hf. væri 718 og að Birnir Sær væri með kauptilboð á genginu 717 í 50.000 hluti og nokkuð þétt tilboð þar fyrir neðan. Ingólfur svaraði klukkan 13.23 og sagði: „ok“. Birnir Sær svaraði Ingólfi klukkan 13.29 og sagði: „710“, það væru allir að hamra á þeim og að eigin viðskipti væru búin að kaupa nettó 1.900.000 hluti. Ingólfur svaraði klukkan 13.30 og sagði: „skil“.

Ákærði Einar Pálmi hringdi í ákærða Pétur Kristin 7. febrúar 2008 klukkan 8.10 og sagði: „Þetta er mikilvægur, mikilvægur dagur. Við megum ekki tanka úr þessu.“ Framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Kaupþings banka hf. hringdi í FRR forstöðumann hlutabréfamiðlunar bankans klukkan 14.07 sama dag. Í samtalinu sagði FRR að þeir væru „að tappa af bókinni sko þú veist ... já og það er helvíti jákvætt sko, þá getur hún haldið áfram sínu“. Þeir ræddu áfram viðskipti morgunsins og spurði framkvæmdastjórinn hvort bókin hefði selt bréf í tilteknum viðskiptum um morguninn. FRR svaraði: „Já, við gerum það bara þannig þú veist, betra að tappa bara af þeim af því að þá eru þeir ... það er langbest sko.“ Ákærði Einar Pálmi hringdi klukkan 15.57 í ákærða Birni Sæ og sagði: „Við skulum enda í 720.“ Klukkan 16.03 hringdi Einar Pálmi aftur í Birni Sæ og spurði hvernig gengi. Því svaraði sá síðarnefndi með því að segja: „30 kall á, á 21“. Því svaraði Einar Pálmi og sagði: „Við endum í, endum í tuttugu.“ Sagði Birnir Sær þá að þeir yrðu fyrir ofan það. Einar Pálmi svaraði: „Já, glæsilegt, tuttugu, höldum því.“

Ákærði Birnir Sær og miðlari hjá Kaupþingi banka hf. ræddu saman í síma 8. febrúar 2008 og spurði miðlarinn hvað væri að þessum markaði. Birnir Sær kvað hann erfiðan og þetta væri mjög skrítið. Miðlarinn spurði þá hvort Birnir Sær væri orðinn neikvæður eins og hann, en því svaraði Birnir Sær neitandi og sagði: „Það kemur á óvart hvað þetta er mikið sem að hérna þarf að losa.“ Þá sagði miðlarinn: „Það kemur mér á óvart að þú sért búinn að taka inn á þig síðustu mánuði frá áramótum svona 25 milljónir í Kaupþingi fyrir utan það sem að þú veist geturðu dregið frá það sem er búið að koma út þarna til Svíþjóðar sko en þú veist, það er búið að dúndra inn á þig alveg geðveiku magni sko.“

Ákærði Ingólfur sendi tölvubréf til ákærða Hreiðars Más 11. febrúar 2008 klukkan 12.50 undir yfirskriftinni: „Staða EVK 10.02.2008“. Þar sagði: „Sæll, hér koma stöðurnar í EVK. Verðum í bandi á morgun. Ég stilli saman strengi í fyrramálið með Einari Pálma ... Boltinn er hjá mér þangað til ég sendi hann á þig eftir hádegið“. Klukkan 12.51 sendi ákærði Ingólfur annað tölvubréf til ákærða Hreiðars Más undir yfirskriftinni „EVK-símanúmer“ þar sem símanúmer starfsmanna eigin viðskipta komu fram. Í lok þessa dags sendi ákærði Einar Pálmi tölvubréf til ákærða Birnis Sæs þar sem sagði: „Varstu búinn að senda update? Mátt hafa ingólf, hreiðar og cc á mig og GÞG.“

Þann 12. febrúar 2008 klukkan 11.15 sendi ákærði Einar Pálmi tölvubréf til ákærða Ingólfs og sagði: „Ég heyrði í Hreiðari áðan, erum að kaupa KAUP en glb duglegur að selja.“ Klukkan 13.29 sendi ákærði Einar Pálmi tölvubréf á ákærðu Hreiðar Má og Ingólf undir yfirskriftinni „nýjasta nýtt.“ Þar sagði meðal annars: „kaup +1% 705/706 (svíþjóð á sama level). Kaup netto inn 1,5mio ... Krónan hefur algjörlega snúist og hefur nú styrkst um 0,8% í dag, 130,16.“ Einni mínútu síðar áframsendi ákærði Einar Pálmi þetta sama tölvubréf til ákærðu Birnis Sæs og Péturs Kristins og sagði: „Ég held þeim upplýstum einu sinni til tvisvar á dag.“ Klukkan 17.10 sama dag sendi ákærði Einar Pálmi tölvubréf til ákærðu Ingólfs og Hreiðars Más undir yfirskriftinni „dagurinn“. Þar sagði meðal annars: „Sælir. Góðar fréttir af sölu glb (2%) og kaup (1%) á eigin bréfum í dag ... Kaup +3,29%, Kaup SS +4,14% ... Við keyptum rúmlega 1,5 mio í dag og seldum 7 mio í Kaup.“

Ákærði Einar Pálmi hringdi í ákærða Pétur Kristin í lok dags 14. febrúar 2008 og sagðist hafa verið „að fá sms frá hérna Ingólfi ... hann langar til að fá stöðuna í lok dagsins ... þá er ágætt að, sendu honum bara þú veist stöðuna á okkur kannski, hvað við keyptum nettó ... og þú mættir líka senda kannski póst á Hreiðar, ég gleymdi þessu bara ... og hérna, það þarf eiginlega að vera sko bara póstur til Hreiðars og sms til Ingólfs, ég fer bara á vit.is yfirleitt.“ Innan klukkustundar hringdi ákærði Pétur Kristinn í ákærða Einar Pálma og sagði að ákærði Birnir hefði verið „búinn að senda á Hreiðar þannig að ég ætla ekki að senda á hann.“

FRR hringdi í ákærða Einar Pálma 15. febrúar 2008 og sagði greinilegt að einhver vildi lækka gengi Kaupþings banka hf., söluhliðin hefði verið löng en svo horfið allt í einu. Hann sagði Einari Pálma að taka „þetta upp í 734“ og láta þessa „menn skíta í sig.“ Því svaraði Einar Pálmi með því að segja: „Já, við gerum það.“

Starfsmaður eigin viðskipta Glitnis banka hf. hringdi í FRR í hádeginu 18. febrúar 2008 og spurði þann síðarnefnda hvort hann ætlaði „ekki að fara með þetta upp í gildin sem ég sagði eða?“ FRR svaraði: „Jú, verðum við ekki að gera það?“ Starfsmaðurinn sagði þá: „Farðu upp í 770, ég skal fara með Glitni í 18,50.“ FRR játti því og undir lok samtalsins sagði starfsmaðurinn: „Á ég, viltu að ég byrji kannski?“ og sagðist FRR ætla að skoða það. Ákærði Pétur Kristinn hringdi í ákærða Einar Pálma stuttu síðar. Í samtalinu spurði Einar Pálmi hvort þeir væru ekki bara „pósitívir“ og sagði Pétur Kristinn að sér litist vel á þetta. Því svaraði Einar Pálmi með því að segja: „Já, já. Taktu bara þátt í þessu með honum.“

Degi síðar hringdi ákærði Ingólfur í ákærða Einar Pálma og spurði hvað eigin viðskipti Kaupþings banka hf. væru búin að kaupa í lokunaruppboði dagsins og hvert lokagengi hans yrði. Einar Pálmi sagði það vera 743 og spurði Ingólfur þá hvað það kostaði að „tuttla því hærra.“ Einar Pálmi beindi þá máli sínu að ákærða Birni Sæ og spurði hvort hann gæti enn sett inn tilboð en þá var uppboðinu lokið. Ingólfur spurði þá hvernig staðan væri úti í Stokkhólmi og taldi Einar Pálmi það enda í 740. Ingólfur sagði þá að þeir skyldu láta það duga en bað um „report“.

Ákærði Hreiðar Már sendi ákærða Birni Sæ tölvubréf 20. febrúar 2008 þar sem sagði: „Hvernig eru markaðir?“

Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Birni Sæ undir lok dags 22. febrúar 2008 og spurði sá síðarnefndi hvort Ingólfur vildi loka bankanum á pari eða betur. Ingólfur spurði þá hvort hann ætti við bankadrusluna og kvað Birnir Sær svo vera. Þá sagði Ingólfur: „Tuttlum henni yfir par.“

Ákærði Birnir Sær sendi ákærðu Ingólfi, Hreiðari Má og Sigurði ásamt SPK tölvubréf snemma nætur 26. febrúar 2008. Þar sagði meðal annars: „Er ekki með nákvæma tölu yfir kaup í dag þar sem trading kerfið er úti sem stendur og ég sé þar af leiðandi ekki nettó tölur fyrir daginn. Samanlagt í KAUP IR + KAUP SS var eitthvað norður af 500k í dag.“

Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Einar Pálma að morgni 29. febrúar 2008 og spurði hvernig gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. væri í Stokkhólmi og sagði að þeir skyldu vera nokkuð „firm“. Því samsinnti Einar Pálmi og bætti við að kæmi smá gusa myndu þeir leyfa henni að ganga yfir og „koma svo.“ Ingólfur sagði þá: „Jú, jú, ég þori bara ekki að láta þetta toucha 700 sko.“ Þeir ættu að „testa 720 levelin.“ Einar Pálmi var sammála því og sagði að þeir létu þetta ekki fara þangað. Að kvöldi sama dags hringdi ákærði Birnir Sær í ákærða Einar Pálma og barst talið að sölu á 5.000.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. þann dag og að þeir þyrftu þá að „fara sparlega með“. Einar Pálmi sagði ákærða Ingólf hafa sagt að menn stæðu frammi fyrir tveimur vondum kostum, annars vegar að láta félagið sunka og yrði það „spírall“ sem tæki allt með sér, og hins vegar að fara „þessa leið, sem er auðvitað pínu hættuleg og hérna, reyna þá að halda genginu sæmilegu.“ Menn hefðu freistast til „að taka inn erfiða tíma“ vitandi að SÞ myndi kaupa hlut í bankanum. Einar Pálmi bætti stuttu síðar við að það væri enginn lengur á hliðarlínunni en kvaðst vona að eftir fyrsta árshlutauppgjörið „geti menn svona komið með nokkra pósitífa punkta ... og menn muni þá svona hætta að hamast á okkur ... og svo virðast vera einhverjir arabar, það sé verið að tala við einhverja araba ... já, já, það er verið að því ... ég veit ekkert, ég hef ekkert heyrt um það, nema bara á göngunum síðustu daga, en ég veit að það var alla vega, Hreiðar var ekkert að ljúga því ... þetta er ekkert smá búst fyrir okkur ... það hlyti að slá rosalega mikið á umræðu um það að við værum að fara á hausinn ... veistu það, að þetta er ekkert eðlilegt, góður vinur minn hringdi í mig í gærkvöldi ... hann er ... viðskiptafræðingur og allt þetta og fylgist vel með bara, og þú veist bara, er bara Kaupþing að fara á hausinn? ... þannig að það er spurningin, kannski bara verðum við að fá einhverja svona peninga, arabapeninga inn, dýra peninga og allt það ... til þess að slá bara á þetta.“ Undir lok símtalsins velti Einar Pálmi því upp hvað myndi gerast ef gengi Kaupþings banka hf. færi í 500, það myndi Ísland ekki þola. Birnir Sær bætti við að þá færi allt, Kaupþing banki hf. mætti ekki við 10 til 15% lækkun, þeir væru með skuldsetta aðila sem væru búnir að vera ef bankinn færi mikið niður og sérstaklega Exista hf.

Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Pétur Kristin að morgni 3. mars 2008. Þeir ræddu markaði og kom þar meðal annars fram að þeir væru á niðurleið og hefði gengi Kaupþings banka hf. lækkað um 1,82%. Stuttu síðar sagði Ingólfur: „Viltu ekki passa aðeins upp á þetta, að þetta fari ekki mikið neðar en eitt og hálft ... tvö“.

Ákærði Ingólfur sendi ákærða Hreiðari Má tölvubréf að kvöldi 6. mars 2008 undir yfirskriftinni: „Meira vol í KAUP SS í dag en KAUP IS“ þar sem sagði: „967k vs 888k.“ Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Pétur Kristin um morguninn 7. mars 2008 og sagði: „Þetta er hálf dapurt eitthvað, er það ekki?“ Því svaraði Pétur Kristinn játandi og sagði litla veltu í Kaupþingi banka hf., „1,12% niður ... Svo var ekkert, það er ekki mikið framboð þannig lagað séð.“ Þá sagði Ingólfur: „Nei, en hvernig er ... það er spurning hvort þið séuð kannski aðeins firm á kauphliðinni án þess að við séum eitthvað að tæta í þessu sko.“

Ákærði Ingólfur hringdi í ákærða Pétur Kristin síðdegis 11. mars 2008 og ræddu þeir gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. sem væri 735. Ingólfur spurði þá hvort ekki væri fínt að enda daginn á því og sagði Pétri Kristni að gá hvort hann héngi ekki inni á því. Í framhaldinu spurði Ingólfur hvort Svíþjóð héngi með honum og svaraði Pétur því til að meira framboð væri í Svíþjóð en á Íslandi og verðbilið væri „729/733“. Ingólfur lagði þá til að Pétur Kristinn yrði „pínu sterkur á kauphliðinni í restina þar“.

Að morgni næsta dags hringdi ákærði Ingólfur aftur í ákærða Pétur Kristin. Ingólfur sagði markaðinn vera bara góðan og samsinnti Pétur því. Þá sagði Ingólfur: „Þú verður bara neutral og flottur, er það ekki?“ Pétur svaraði: „Við reynum bara að vera aðeins á trade, við erum ekki að reyna að taka neitt inn á okkur eða“ og sagði Ingólfur þá: „Nei, nei, bara heilbrigð verðmyndun eins og alltaf ... en ég vil ekki selja úr stokknum heldur.“ Þá sagði Pétur Kristinn: „Nei, nei, það er móttekið“ og í framhaldinu sagði Ingólfur: „Vísa mönnum á kauphöllina.“

Eftir hádegi 19. mars 2008 ræddu saman í síma ákærðu Einar Pálmi og Pétur Kristinn. Einar sagði að velta væri ekki mikil og eitthvað af því utanþings og bætti við: „Eins og þarna hjá okkur, 700 og eitthvað milljónir, já já, en er sæmileg velta að myndast?“ Pétur Kristinn svaraði að veltan væri ágæt og „við erum aðeins að mæta þessu í 660.“ Einar Pálmi spurði þá hvort Pétur Kristinn væri búinn að heyra í ákærða Ingólfi og sagði Pétur Kristinn að ákærði Birnir Sær væri búinn að heyra í honum og bætti við: „Heyrðu, ég verð að koma til baka, ég var ekki búinn að heyra í honum nógu vel.“ Einar svaraði: „Já ok, og hann hefur viljað koma sæmilega sterkur inn?“ Pétur Kristinn játti því og sagði: „Við erum að koma sterkir inn í 660.“

Ákærði Hreiðar Már sendi tölvubréf til ákærða Birnis Sæs að morgni 20. mars 2008 og spurði: „Hvernig eru markaðir?“

Ákærði Sigurður sendi tölvubréf til ákærða Ingólfs 27. mars 2008 klukkan 16.01 og spurði „af hverju snéri markaðurinn skyndilega við?“ Ingólfur svaraði með tölvubréfi klukkan 16.44 og sagði: „Það urðu partýlok eða hlé sýnist mér – útlendingar mættu lítið á svæðið, stokkurinn stoppaði, einn byrjaði að selja og eitt leiddi af öðru.“ Þessu svaraði Sigurður með tölvubréfi klukkan 16.56 og sagði: „ok.“

Ákærði Pétur Kristinn hringdi í FRR snemma morguns 3. apríl 2008 og kom fram í samtalinu að Pétur hefði sofið yfir sig og sagði Pétur það vera rosalegt. Þá sagði FRR að „Kaupþing úti er komið 4% niður.“ Pétur Kristinn svaraði: „Ekki fokka í mér“ og kvaðst FRR ekkert vera að því og bætti við: „Ef karlinn er ekki með púlsinn á puttanum, að þá er bara stokkurinn dauður.“ Pétur Kristinn svaraði: „Heyrðu, skrúfaðu þetta upp“ og sagði FRR þá: „Já, er það ekki bara, hjóla í þetta?“ Því svaraði Pétur Kristinn með því að segja: „Jú, þú bara hérna setur þetta inn á mig bara, ég kaupi þetta“ og játti FRR því. Því næst sagði Pétur Kristinn: „Settu líka bara, þú veist skrúfaðu þetta upp og settu smá kauptilboð og hérna settu síðan bara eitt, tvö sölutilboð, 15 þúsund kall bara, eitt á einhverjum fimm tikkum bara til þess að hafa eitthvað.“

Að kvöldi 13. maí 2008 töluðu saman í síma ákærðu Pétur Kristinn og Birnir Sær. Sá síðarnefndi spurði þann fyrrnefnda hvort hann hefði ekkert selt af viti í Kaupþingi banka hf. og sagðist Pétur Kristinn ekki hafa gert það. Þá spurði Birnir Sær: „Heyrði Golli ekkert í þér?“ Pétur Kristinn svaraði því játandi og sagði: „Ég átti bara að vera firm ... Líklega er þetta að fara að gerast á morgun eða eitthvað ... Hann sagði líklegast á morgun, þeir eru svona líklega búnir að leggja lokahönd á þetta.“

Ákærði Einar Pálmi hringdi í ákærða Pétur Kristin 19. maí 2008 og spurði hvað félagi þeirra hefði sagt. Pétur Kristinn sagði hann hafa sagt „ekki kvóta út“ og „prófa að pumpa aðeins upp stemmninguna á eftir.“ Einar Pálmi sagði að yrði eftirspurn myndu þeir leyfa mönnum að kaupa. Fyrir dómi báru Einar Pálmi og Pétur Kristinn að „félaginn“ væri ákærði Ingólfur.

Síðdegis 28. maí 2008 ræddu saman í síma ákærði Einar Pálmi og IV framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Kaupþings banka hf. IV sagði: „Sæll, heyrðu IH fimm á 750.“ Einar Pálmi spurði þá: „Þú hefur áhuga á fimm?“ og játti IV því. Einar Pálmi sagði: „Já, ég sel þér fimm milljónir á 750 í Kaupþingi“ og þakkaði IV fyrir það og sagðist prenta það út. Stuttu síðar hringdi IV í Einar Pálma og sagði: „Sæll, heyrðu ég var ekki að hlusta nógu vel þegar Ingólfur hringdi í mig áðan ... Ert þú ekki örugglega að kaupa þetta eða ... varst þú að selja þetta?“ Einar Pálmi svaraði: „Ég seldi þér.“ Spurði IV þá: „Þú varst að selja?“ og játti Einar Pálmi því. Þá sagði IV: „Já, ókei, ég bara, út af þú veist, þetta voru 2%. Ég hélt að, ég skildi það ekki alveg, jæja. Ég þarf ekki að skilja allt“ og tók Einar Pálmi undir það. Þá sagði IV: „Ég hélt að þá væru, þess vegna fór ég að fá second thoughts. Þá hélt ég, nei andskotinn, er nú ekki að“. Einar Pálmi svaraði: „Já, nei, ég seldi“ og sagði IV þá: „Selja á því ... andskotinn, jæja.“ Sagði Einar Pálmi þá: „Við gerðum það“ og því svaraði IV þannig: „Já, já, okei, þá hérna þurfum við, ég þarf ekki að skilja þetta. Ókei.“

Ákærði Birnir Sær sendi ákærða Einari Pálma tölvubréf 18. júlí 2008 þar sem fram komu meðal annars upplýsingar um stöðu eigin viðskipta Kaupþings banka hf. í hlutabréfum í félaginu tveimur dögum áður og tók Birnir fram að eigin viðskipti væru aftur komin í 4%.

FRR hringdi í ákærða Einar Pálma 30. júlí 2008 og spurði hvort Einar Pálmi væri með „500 kall“ til sölu í Kaupþingi banka hf. og hvort hann væri til í að gefa sér verðtilboð. Einar Pálmi svaraði: „Æi, bara eftir ákveðinni forskrift“ og kvað hann ákærða Ingólf vilja hafa hönd í bagga með slíku. Þegar Einari Pálma varð ljóst í samtalinu að annar banki væri viðskiptavinurinn kvað hann Ingólf ekki hafa áhuga heldur vilja loka bókinni.

Ákærði Pétur Kristinn sendi ákærða Ingólfi tölvubréf 31. júlí 2008. Þar kom fram að staða eigin viðskipta Kaupþings banka hf. í hlutabréfum í félaginu væri 4,914% af útgefnu hlutafé í því og svigrúm eigin viðskipta til frekari kaupa áður en þyrfti að flagga væri 635.435 hlutir. Spurður um það fyrir dómi hvort yfirmenn hans á þessum tíma, ákærðu Hreiðar Már og Sigurður, hefðu verið upplýstir um þessa stöðu, kvaðst ákærði Ingólfur í fyrstu ekki þora að fara með það, vel gæti verið að einhver samskipti hafi átt sér stað. Þegar Ingólfi var bent á að hjá lögreglu hefði hann sagt að þeir hefðu örugglega verið upplýstir um stöðuna á þessum tíma eins og öðrum og hann spurður hvort það væri rétt, svaraði hann: „Já, það er rétt.“

Ákærði Pétur Kristinn sendi ákærða Ingólfi tölvubréf 1. ágúst 2008 þar sem fram kom að staða eigin viðskipta Kaupþings banka hf. með hlutabréf í félaginu væri 4,978% af útgefnu hlutafé og að svigrúm til frekari kaupa áður en þyrfti að flagga væri 163.886 hlutir.

Starfsmaður áhættustýringar Kaupþings banka hf. sendi starfsmanni eigin viðskipta bankans tölvubréf 5. ágúst 2008 klukkan 14.55 þar sem fram kom að Kaupþing banki hf. ætti 4,46% af útgefnu hlutafé bankans og að einungis 155.053 hluti vantaði upp á að 5% flöggunarmörkum yrði náð. Þetta bréf var framsent til ákærða Péturs Kristins sama dag klukkan 15.37 með orðunum: „Næmir á kaup“. Pétur Kristinn svaraði tölvubréfinu klukkan 16.56 og sagðist vita „reyndar með KAUP, það er búið að vera nokkuð erfitt erum tvisvar sinnum búnir að fara yfir en redduðum okkur aftur undir.“ Ákærði Pétur Kristinn hafði skömmu áður sent ákærða Ingólfi tölvubréf þar sem meðal annars kom fram að eigin viðskipti ættu 4,99% af útgefnu hlutafé Kaupþings banka hf. og að svigrúm deildarinnar til frekari kaupa áður en þyrfti að flagga væri 64.150 hlutir.

Ákærði Ingólfur sendi tölvubréf til regluvarðar Kaupþings banka hf. 6. ágúst 2008 klukkan 10.57 undir yfirskriftinni „HMS og SE.“ Þar sagði Ingólfur: „Hreiðar Már kom að máli við mig, hann og Sigurður ætla að nýta árlegan kauprétt sinn í dag. Mig minnir að þetta séu 812.000 hlutir á hvorn á verðinu 303,00. Þú þarft að hjálpa þeim að gera þetta rétt allt saman, sem og senda út viðeigandi tilkynningar. Farðu vel yfir þetta og leitaðu t.d. til AB. Passa upp á allar „jarðsprengjur“ í þessu. Ég geri þá ráð fyrir að 1.624.000 bréf verði seld af stöðu EVK í þessi viðskipti.“ Klukkan 15.10 hringdi ákærði Hreiðar Már í FRR og bað hann að afgreiða ein viðskipti fyrir sig „í því góða félagi, Kaupþingi banka hf. ... en ég ... undirritaður hefði viljað selja 812.000 hluti í bankanum ... bara á síðasta viðskiptaverði ... og kaupandi væri Hreiðar Már Sigurðsson ehf. ... Af því að ég er að nýta mér síðustu kauprétti mína ... Og ég kaupi þá í eigin nafni og svo sel ég þá yfir á bara gegn markaðsgenginu í dag yfir í félagið mitt.“ FRR svaraði: „Já, þannig að ég keyri bara þau viðskipti, ég þarf þá væntanlega ... Er búið að keyra hitt eða?“ Hreiðar svaraði því til að ákærði Ingólfur væri að klára það og bætti við: „Þú kannski bara synchronize-ar við Ingólf um að klára það fyrst og svo getur þú keyrt þessi viðskipti þá í kjölfarið.“

Ákærði Pétur Kristinn hringdi í fjármálastjóra Kaupþings banka hf. að morgni 7. ágúst 2008. Fjármálastjórinn var ekki við og svaraði ritari hennar símtalinu. Þar sagði Pétur Kristinn að viðskipti „strákanna okkar“ hefðu ekki haft sinn vanagang því þetta hefði gerst svo hratt, bréfin hefðu verið tekin strax út af safni eigin viðskipta. Svaraði ritarinn því til að ákærði Ingólfur hefði stýrt þessu.

Ákærði Ingólfur sendi tölvubréf á ákærða Sigurð 9. september 2008 og sagði þar: „ISV 169,75 (-2,14%) KAUP 696 SAMAS 17,17 (-1%) STB 41,75 (-1,75%)“.

Forstöðumaður gjaldeyris- og afleiðumiðlunar Kaupþings banka hf. hringdi í FRR 24. september 2008 klukkan 15.22 og spurði hvað væri að gerast. FRR svaraði að gengið væri komið í 700 í Svíþjóð og að einhverjir væru að „hjóla þetta niður.“ FRR hringdi í ákærða Pétur Kristin klukkan 15.23 og spurði hvort þeir væru að „éta þetta?“ Pétur sagðist vera að skoða þetta, þeir vissu ekki hvað væri í gangi. FRR spurði þá: „Af hverju éturðu þetta ekki allt?“ Ákærði Birnir Sær hringdi í ákærða Einar Pálma klukkan 19.48 og sagði meðal annars að „playerarnir“ væru að fara að tala við „Citi“ um kvöldið. Hann vísaði í tölvubréf sem ákærði Hreiðar Már hefði sent þess efnis og í framhaldinu ræddu þeir áfram viðskipti „Citi“ með hlutabréf Kaupþings banka hf.

6

Í hinum áfrýjaða dómi er í meginatriðum rakinn framburður ákærðu fyrir héraðsdómi. Hér á eftir verður vitnað til einstakra ummæla ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar, Ingólfs, Einars Pálma, Birnis Sæs og Péturs Kristins fyrir dómi til að varpa skýrara ljósi á þau atvik málsins sem varða I. kafla ákæru.

Ákærði Ingólfur kvaðst hafa fengið fyrirmæli frá ákærðu Hreiðari Má og Sigurði um að sjá um deild eigin viðskipta hjá Kaupþingi banka hf. og þar með að sjá um viðskipti með hlutabréf í bankanum sjálfum. Bankinn hafi ekki mátt eiga meira en 10% af eigin bréfum og ef hann hefði eignast meira en 5% hefði verið skylt að flagga þeirri stöðu. Á árinu 2006 hafi verið gerðar breytingar á skipulagi eigin viðskipta vegna mikils taps sem orðið hafði í starfseminni og hún færð undir fjárstýringu bankans. Jafnframt hafi verið sett á laggirnar óformleg stjórn yfir starfsemi Kaupþings banka hf. á Íslandi sem í hafi setið ákærðu Hreiðar Már og Sigurður ásamt SPK. Þessi óformlega stjórn hafi farið að fylgjast mjög vel með verkefnum deildar eigin viðskipta í framhaldinu og enn betur en áður hafi verið gert, því menn hafi ekki viljað misstíga sig aftur og tapa meiri peningum en þegar var orðið. Stefnan hafi verið klár í viðskiptum með bréf í bankanum sjálfum, deild eigin viðskipta hafi haft ákveðnar heimildir í þeim efnum, áhugi hafi verið á því að sinna viðskiptavakt og mynda þannig markað. Um þetta komst ákærði þannig að orði: „Þá var í rauninni ákveðið að við myndum fylgjast betur með þessari starfsemi, hafa kannski meira um hana að segja, fylgjast nánar með heimildum, ekki bara í hlutabréfum Kaupþings heldur öllum öðrum heimildum. Það var svona línan, já. Mér var falið ... að sinna þessu verkefni.“ Ákærði kvaðst hafa tekið allar stærri ákvarðanir um hvað bankinn ætti að eiga mikið af eigin bréfum hverju sinni og aðspurður hvort hann hefði leitað til yfirmanna sinna, ákærðu Hreiðars Más og Sigurðar, í því sambandi sagði ákærði: „Já, ég meina við ræddum þetta á þessum fundum, við ræddum þetta eitthvað þess á milli, dagleg afskipti þeirra af þessari starfsemi voru ekki mikil.“ Hann tók jafnframt fram að stærri ákvarðanir hafi að sjálfsögðu verið ræddar á einhverjum tímapunkti í stjórn bankans á Íslandi.

Ákærði Ingólfur kvað samskipti sín við forstjóra samstæðu Kaupþings banka hf., ákærða Hreiðar Má, hafa verið talsverð um þau verkefni sem ákærða var falið að sinna. Þeir hefðu oft talast við og ákærði að sjálfsögðu borið undir Hreiðar Má allar stærri ákvarðanir: „Það gat verið ýmislegt, stefnumótandi ákvarðanir, hvað varðar stefnu bankans í ýmsum málum, starfsemin á Íslandi.“ Stjórnarformaður bankans, ákærði Sigurður, hafi verið í hinni óformlegu stjórn yfir starfsemi bankans á Íslandi. Sú stjórn hafi hist með reglubundnum hætti og hafi það getað verið mánaðarlega eða á tveggja eða þriggja mánaða fresti. Þar fyrir utan kvaðst ákærði hafa átt tíð samskipti við alla þá sem sátu í hinni óformlegu stjórn. Aðspurður um hvort deild eigin viðskipta hefði í einhverjum tilvikum keypt hlutabréf í Kaupþingi banka hf. á markaði svo æðstu stjórnendur bankans, ákærðu Hreiðar Már og Sigurður, gætu síðan fundið fjárfesta sem keyptu í stærri skömmtum svaraði ákærði: „Þetta var svona samhangandi mynd ... Já, þeir eyddu talsverðum tíma í það í sínum störfum að finna fjárfesta, stækka hluthafahópinn, styrkja hluthafahópinn – langtímafjárfesta, það er bara eitt af verkefnum æðstu yfirmanna í hverju skráðu félagi.“

Um samskipti sín annars vegar við undirmenn sína og hins vegar við yfirmenn, ákærðu Hreiðar Má og Sigurð, svaraði ákærði Ingólfur að allir hafi verið „upplýstir um þetta dag frá degi eins og þú sérð. Þessar skýrslur, þessir póstar eru tíðir til mín frá eigin viðskiptum og mínir yfirmenn höfðu aðgang að þessum upplýsingum öllum, með eilítið mismunandi hætti kannski dag frá degi. Þetta liggur ljóst fyrir.“ Hann kvað ákærðu Hreiðari Má og Sigurði hafa verið kunnugt um hvað var að gerast í viðskiptum með hlutabréf í bankanum sjálfum hjá deild eigin viðskipta á öllu ákærutímabilinu. Ákærði Ingólfur kvaðst hafa verið í meiri samskiptum við ákærða Sigurð en ákærða Hreiðar Má og þá frekar daglega en vikulega. Hann hefði upplýst ákærða Sigurð um stóru myndina og þeir hefðu oft rætt um viðskipti bankans með eigin hlutabréf, það er að segja hina óformlegu viðskiptavakt. Aðspurður kvað ákærði það vera alveg klárt að ákærða Sigurði hafi verið kunnugt um hvernig viðskipti hefðu verið framkvæmd af deild eigin viðskipta. Þótt samskiptin við ákærða Sigurð hefðu verið tíðari en við ákærða Hreiðar Má hefði sá síðarnefndi einnig verið upplýstur um störf deildar eigin viðskipta. Hluthafafundur hefði ákveðið hámarkið sem bankinn mátti eiga. Ákærðu hefðu hins vegar sameiginlega ákveðið hvað þeir vildu að bankinn ætti að hámarki hverju sinni, burtséð frá heimildum, og markmiðið hafi verið að fara ekki yfir 5% eignarhlut, það hafi verið þessi stóra mynd sem ákærði kallaði svo. Nánar komst ákærði svo að orði um þetta: „Víkjum að eigin viðskiptum. Það hefur komið hér fram að eigin viðskipti máttu eiga allt, bankinn mátti eiga allt að 10% í sjálfum sér og eigin viðskipti voru sá vettvangur þar sem þau viðskipti fóru fram ... ég fékk fyrirmæli um að annast þessi viðskipti, það er hluthafafundur bankans sem ákveður stóra hámarkið um hvað bankinn má eiga í sjálfum sér. Það var markmið en í sjálfu sér ekki út í það óendanlega að eiga ekki meira en 5%, hefði komið upp sú staða þá hefðum við bara flaggað henni ef við hefðum ákveðið að eignast meira en 5%. Þessa stóru mynd fékk ég frá mínum yfirmönnum ... Við gátum farið hærra ef það hefði verið ákveðið að kaupa meira ... flaggað já að sjálfsögðu. Það var í rauninni ekkert að því, það var í sjálfu sér bara vinnuviðmið. Við höfðum ekki áhuga á að eiga meira en 5% í sjálfum okkur. Hefðum mátt eiga allt að 10%“.

Varðandi heimildir starfsmanna deildar eigin viðskipta til að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum sagði ákærði Ingólfur að deildin hafi sótt um heimild til sín og áhættustýring samþykkt hana í flestum tilvikum. Síðan hefði forstjóri samstæðunnar samþykkt þennan heimildarramma. Þetta hafi verið gert einu sinni í mánuði og oftar ef þurfti. Ákærði kvaðst hafa fylgst vel með hlutabréfamörkuðum og starfsemi deildar eigin viðskipta og verið í sambandi við starfsmenn hennar, ákærðu Einar Pálma, Pétur Kristin og Birni Sæ, ýmist í formi tölvubréfa eða símtala og lagt almenna línu um starfsemi deildarinnar. Fyrir hafi komið að ákærði hafi gefið fyrirmæli til starfsmanna deildarinnar um að ekki ætti að setja inn sölutilboð í pörunarviðskiptum.

Ákærði Einar Pálmi kvaðst í störfum sínum sem forstöðumaður deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. hafa haft mikil samskipti við ákærða Ingólf, þar á meðal hvað varðar kaup deildarinnar á bréfum í bankanum, og hefðu þau samskipti aukist eftir því sem leið á ákærutímabilið. Hins vegar kvaðst ákærði hafa haft mjög lítil samskipti við ákærðu Hreiðar Má og Sigurð. Hann kvað ákærða Ingólf hafa lagt línuna almennt varðandi viðskipti deildarinnar með bréf í bankanum og hefði Ingólfur verið í samskiptum við starfsmenn deildarinnar flesta daga og oft og tíðum gefið nákvæm fyrirmæli um hvernig haga skyldi kaupum og sölu. Undir ákærða var borið það sem í ákæru sagði að langflesta viðskiptadaga hafi starfsmenn deildar eigin viðskipta sett inn röð kauptilboða í upphafi dags, bæði í íslensku kauphöllinni og þeirri sænsku. Ákærði kvað ástæðu þessa hafa verið þá að það hafi verið greinilegur vilji til að vera með mjög öflugan seljanleika samkvæmt fyrirmælum frá ákærða Ingólfi. Einu sinni kvaðst ákærði hafa fengið slík fyrirmæli frá ákærða Hreiðari Má en þá hefði ákærði Ingólfur verið í fríi.

Ákærði Birnir Sær kvaðst hafa verið í miklum samskiptum við yfirmann sinn, ákærða Einar Pálma, en einnig hefði hann haft mikil samskipti við ákærða Ingólf. Um hafi verið að ræða samskipti í gegnum síma, tölvubréf og smáskilaboð. Þá kvaðst ákærði einnig hafa átt nokkur samskipti við forstjóra samstæðunnar, ákærða Hreiðar Má, og hafi þau verið tengd viðskiptum með svonefnt yfirstjórnarsafn hlutabréfa. Á hinn bóginn kvaðst ákærði engin samskipti hafa átt við ákærða Sigurð. Ákærði kannaðist við að hafa fengið bein fyrirmæli um hvernig hann skyldi haga tilboðum í hlutabréf og hefðu þau fyrirmæli þá komið frá ákærðu Einari Pálma eða Ingólfi og hefði það gerst oft. Þá kvað ákærði að hann og ákærði Pétur Kristinn hefðu oft fengið fyrirmæli um að selja ekki hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í sjálfvirkum pörunarviðskiptum.

Ákærði Pétur Kristinn kvað ákærða Einar Pálma hafa verið yfirmann sinn og hafi þeir verið í miklum samskiptum. Einnig kvaðst hann hafa verið í miklum samskiptum við ákærða Ingólf sem hefði gefið starfsmönnum deildar eigin viðskipta almenn fyrirmæli og jafnvel fyrirmæli um einstök viðskipti. Ákærði kvaðst á hinn bóginn hafa haft lítil sem engin samskipti við ákærða Hreiðar Má þótt sá síðarnefndi hefði fengið senda frá sér einhverja upplýsingapósta. Á sama hátt kynni ákærði Sigurður að hafa fengið afrit af einhverjum póstum. Ákærði Ingólfur hefði lagt línurnar um fjárfestingar deildar eigin viðskipta og fyrirmæli hefðu komið frá honum daglega og stundum oft á dag.

Ákærði Hreiðar Már kvaðst sem forstjóri Kaupþings banka hf. meðal annars hafa borið ábyrgð á stefnumótun og rekstri bankans, fjármögnun hans og fjárfestingum, útlánum, starfsmannamálum, eignastýringu, einkabanka- og fyrirtækjaþjónustu, markaðs- og sölumálum, áhættustýringu, rekstri upplýsingakerfa, dótturfélögum, samskiptum við lánshæfismatsfyrirtæki, greinendur og fjölmiðla og samskiptum við fjármálaeftirlit, seðlabanka og stjórnvöld í nokkrum löndum. Hann kvaðst hafa tekið við fyrirmælum frá stjórn bankans en ekki frá ákærða Sigurði öðru vísi en sem formanni stjórnarinnar. Hann kvað sig og ákærða Sigurð hafa haft mikil samskipti á þeim tíma sem þeir störfuðu í bankanum. Ákærði kvaðst hafa haft mjög lítil samskipti við starfsmenn deildar eigin viðskipta en sagðist á hinn bóginn hafa haft yfirsýn yfir hversu mikið deildin keypti af hlutabréfum í bankanum sjálfum. Einnig kvaðst hann hafa fylgst náið með þróun hlutabréfaverðs í bankanum. Hins vegar hafi ekki verið haft samráð við sig um kaup og sölu á hlutabréfum. Ákærði kvaðst enga aðkomu hafa haft að því hvernig deild eigin viðskipta bankans átti viðskipti í kauphöll. Hann hefði ekki þekkt til hvernig starfsemi deildarinnar var háttað á ákærutímabilinu og engin fyrirmæli gefið starfsmönnum deildarinnar um hvernig þeir ættu að hegða sér í starfi. Hann kvað aðkomu sína að eigin viðskiptum hafa verið litla sem enga. Hann hafi aldrei verið upplýstur um fjölda tilboða eða fjárhæð þeirra eða gefið starfsmönnum deildar eigin viðskipta fyrirmæli um viðskipti með hlutabréf í bankanum. Starfsmenn deildar eigin viðskipta hefðu á ákærutímabilinu starfað með sama hætti og eigin viðskipti höfðu gert frá skráningu bankans á hlutabréfamarkað. Áhættustýring bankans hafi haft eftirlit með því að starfsmenn deildar eigin viðskipta færu eftir heimildum. Ákærði hefði mánaðarlega staðfest heimildarramma deildarinnar sem hefði verið sendur til sín eftir á. Hann kvaðst hafa verið upplýstur um hversu mikið eigin viðskipti keyptu af hlutabréfum í bankanum og hafa fylgst ágætlega með þróun hlutabréfaverðs í bankanum á þessum tíma. Þegar undir ákærða var borinn sá framburður ákærða Ingólfs að samráð hafi verið milli þeirra þriggja, hans, ákærða Sigurðar og ákærða Ingólfs um að leggja línu varðandi starfsemi deildar eigin viðskipta svaraði ákærði: „Ég man ekki eftir því að hafa verið að ræða um einhverja línu sem hafði verið sett til að mæta söluþrýstingi ég kannast ekki við það ... Ég man bara ekki eftir að það hafi verið einhver fundur eða samráð um einhverja línu.“ Aðspurður um þann framburð ákærða Ingólfs að allar stærri ákvarðanir hafi Ingólfur borið undir hann og ákærða Sigurð svaraði ákærði Hreiðar Már: „Já það getur verið rétt, ég veit það ekki, skal ekki fullyrða.“ Aðspurður um hvort það hafi verið eðlilegt að deild eigin viðskipta ætti svo mikil viðskipti með hlutabréf í bankanum eins og raun bar vitni svaraði ákærði: „Við gerðum aldrei athugasemd við það. Ég man ekki eftir því.“

Ákærði Sigurður kvaðst sem stjórnarformaður Kaupþings banka hf. hafa stýrt fundum stjórnar bankans og tekið ákvarðanir þar með öðrum stjórnarmönnum. Hann kvaðst einnig hafa verið starfsmaður bankans með afmarkað og skilgreint hlutverk sem fólst í því að samræma starfsemi hans í einstökum löndum. Með því væri átt við stefnumótun bankans og framtíðarskipulag. Þá kvaðst ákærði hafa setið í lánanefnd stjórnar bankans og tekið ákvarðanir í málum sem borin voru undir þá nefnd. Hann hafi sem formaður stjórnar reynt að fylgjast með rekstri bankans alls staðar og þekkt til starfsemi deildar eigin viðskipta en hlutverk hennar hafi verið að stuðla að því að hluthafar og aðrir á markaðnum gætu keypt og selt hlutabréf í bankanum á markaðsverði. Hins vegar hefði hann ekkert vitað um hvernig þessi starfsemi var útfærð. Hann sagði samkomulag sitt og forstjóra samstæðu bankans hafa verið ágætt og kvaðst oft hafa átt samtöl við forstjóra bankans á Íslandi en ekkert frekar um eigin viðskipti bankans en önnur málefni hans. Um hlutverk hinnar óformlegu stjórnar yfir bankanum á Íslandi sem hann hefði setið í sagði ákærði: „Hún átti að vera til að auðvelda Ingólfi stjórn, eða auðvelda ... greiningu á afkomu Íslands. Átti að vera svona undirbúningur á frekara stjórnskipulagi bankans sem aldrei náðist.“ Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa fengið upplýsingar um heimildir eigin viðskipta til kaupa á hlutabréfum í bankanum sjálfum en bætti við: „Á stjórnarfundum var náttúrulega ... kom fram hverju sinni, hvað Kaupþing átti í eigin bréfum.“ Undir ákærða var borinn sá framburður ákærða Ingólfs að hann hefði haldið ákærðu Sigurði og Hreiðari Má vel upplýstum um tap á rekstri eigin viðskipta og svaraði hann þá: „Ég bara minnist þess nú ekki að það hafi verið eitthvað sérstaklega ógnvekjandi.“

V

1

Í I. kafla ákæru var ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi, Einari Pálma, Birni Sæ og Pétri Kristni gefið að sök að hafa í störfum sínum fyrir Kaupþing banka hf. „í sameiningu stundað markaðsmisnotkun, með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum, á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 8. október 2008, í samtals 229 viðskiptadaga á íslenska markaðnum og 234 viðskiptadaga á þeim sænska, með því að setja fram tilboð og eiga viðskipti í viðskiptakerfi NASDAQ OMX Iceland hf. ... og NASDAQ OMX Stockholm AB ... sem tryggðu óeðlilegt verð, bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.“

Þess er áður getið að í ákæru var því haldið fram að markaðsmisnotkunin hafi verið „framkvæmd af ákærðu, Birni Sæ og Pétri Kristni, að undirlagi ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar, Ingólfs og Einars Pálma.“ Í framhaldinu var í ákærunni rakin viðskiptahegðun tveggja hinna fyrstnefndu á hverjum degi á ákærutímabilinu en að því búnu var háttseminni sem ákært var fyrir lýst svo: „Kaup eigin viðskipta Kaupþings á hlutabréfum í Kaupþingi í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu voru umfangsmikil og kerfisbundin enda voru þau verulegur hluti af heildarveltu með hlutabréf í Kaupþingi í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu.“ Þá voru í ákærunni raktar tölulegar upplýsingar um umfang þeirra viðskipta sem um ræðir en um afleiðingar háttsemi ákærðu sagði svo: „Með þessum umfangsmiklu kauptilboðum og kaupum, en óverulegu magni sölutilboða og sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, komu ákærðu ýmist í veg fyrir eða hægðu á lækkun á verði hlutabréfa í Kaupþingi og mynduðu þannig gólf í verðmyndun á hlutabréfunum. Um var að ræða ólögmæt inngrip í gangverk markaðarins sem höfðu áhrif á markaðsgengi hlutabréfa í Kaupþingi, tryggðu óeðlilegt verð á hlutabréfunum á tímabilinu, bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Með háttsemi sinni röskuðu ákærðu þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa bankans með ólögmætum hætti.“

Af hálfu ákærða Ingólfs er því haldið fram að viðskipti deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. með hlutabréf í bankanum sjálfum hafi ekki verið markaðsmisnotkun í heild sinni. Því beri ákæruvaldinu að sanna að hver og ein viðskipti hafi verið markaðsmisnotkun í skilningi 117. gr. laga nr. 108/2007 og reglugerðar nr. 630/2005 um innherjaupplýsingar og markaðssvik. Slík sönnunarfærsla hafi ekki farið fram og því séu ætluð brot ósönnuð. Um þetta er þess að gæta að ekki leikur vafi á að framangreind lýsing á ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærðu tekur til þess, hvernig almennt var staðið af þeirra hálfu að viðskiptum í Kauphöll Íslands og sænsku kauphöllinni á ákærutímabilinu, enda þótt viðskiptin séu í ákæru rakin frá degi til dags til skýringar á eðli þeirra og umfangi, sbr. og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 4. febrúar 2016 í máli nr. 842/2014.

Ákærðu Hreiðar Már og Sigurður reisa vörn sína í málinu meðal annars á því að af lýsingu í ákæru verði hvorki ráðið hvernig þeir hafi stundað ætlaða markaðsmisnotkun, hvort heldur í sameiningu með öðrum ákærðu sem þar eru tilgreindir, né hvernig markaðsmisnotkun eigi að hafa verið stunduð að þeirra undirlagi. Hér er þess að gæta að með orðalaginu „í sameiningu“ er í íslensku máli átt við það sem menn gera saman eða sameiginlega. Eins og greinir í áðurnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 merkir orðalagið „að undirlagi“ að eitthvað sé gert að ráði eða frumkvæði annars. Fer samkvæmt þessu ekki á milli mála að ákærðu Hreiðari Má og Sigurði er ásamt ákærðu Ingólfi og Einari Pálma gefið að sök að hafa sameiginlega tekið ákvörðun og lagt á ráðin um hvernig almennt skyldi staðið að viðskiptunum sem ákærðu Birnir Sær og Pétur Kristinn önnuðust í íslensku og sænsku kauphöllunum á ákærutímabilinu fyrir deild eigin viðskipta Kaupþings banka hf. Samkvæmt c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 skal í ákæru meðal annars greina svo glöggt sem verða má hver sú háttsemi er sem ákært er út af. Verknaðarlýsing í ákæru á að vera gagnorð á sama hátt og þær röksemdir sem málsóknin er byggð á, sbr. d. lið áðurnefndrar málsgreinar. Samkvæmt þessu og með hliðsjón af fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 fullnægir verknaðarlýsing í ákæru þeim kröfum um skýrleika sem gerðar eru í c. lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærðu neita allir sök. Þótt þeir vefengi ekki að þau viðskipti, sem gerð er grein fyrir í I. kafla ákærunnar hafi átt sér stað og að þær tölur sem þar eru settar fram séu réttar, telja þeir aðkomu sína að viðskiptunum hvorki hafa falið í sér ólögmæta né refsiverða háttsemi. Þá telja þeir framsetningu sakargifta á hendur sér villandi sem og þær ályktanir sem af henni eru dregnar í ákærunni. Þá eru varnir ákærða Péturs Kristins að auki meðal annars á því reistar, að aðstæður hans og sjálfstæði í störfum í deild eigin viðskipta í Kaupþingi banka hf. hafi verið ólíkt því, sem tíðkaðist í deild eigin fjárfestinga í Landsbanka Íslands hf. Því geti dómur Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 ekki haft fordæmisgildi að því er hann varðar.

2

Í ákæru var háttsemi ákærðu samkvæmt I. kafla hennar talin varða við a. og b. liði 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 er eitt af helstu markmiðum þeirra laga að stuðla að eðlilegri verðmyndun á markaðstorgi fjármálagerninga með skipulegum verðbréfamarkaði, þar á meðal í kauphöll, en reglur um þá markaði er einkum að finna í IV. og XII. kafla laganna. Samkvæmt því á lögmál um framboð og eftirspurn að ráða þar ríkjum, þannig að sé framboð á tilteknum hlutabréfum meira en eftirspurn lækki verð þeirra, en sé eftirspurnin meiri en framboðið hækki verðið. Í samræmi við þetta markmið beinast mörg af ákvæðum laganna, svo og ákvæði laga nr. 110/2007 um kauphallir, að því að koma í veg fyrir að fjárfestar og aðrir sem hagsmuna hafa að gæta láti freistast til að hafa áhrif á þessa verðmyndun með ótilhlýðilegum hætti. Geri þeir það eru lögð ströng viðurlög við þeim brotum.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014 er gerð grein fyrir ákvæðum 27., 29., 93., 115., 116., 117. og 118. gr. laga nr. 108/2007 og ákvæðum 4. og 9. gr. viðauka við reglugerð nr. 630/2005. Þá er þess getið í dóminum að þegar eldri lög um verðbréfaviðskipti nr. 33/2003 tóku gildi, hafi í fyrsta skipti verið kveðið á um viðskiptavakt í lögum á sama hátt og gert er í 116. gr. gildandi laga. Þá eru raktar þær gagngeru breytingar sem gerðar voru á lögum nr. 33/2003 með lögum nr. 31/2005, þegar tilskipun Evrópusambandsins nr. 2003/6/EB um innherjaviðskipti og markaðsmisnotkun (markaðssvik) var innleidd hér á landi. Við það var skilgreiningunni á markaðsmisnotkun breytt í það horf sem nú er kveðið á um í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007, auk þess sem tekið var fram, eins og nú er gert í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna, að ákvæðin um markaðsmisnotkun ættu ekki við þegar um væri að ræða viðskipti með eigin hluti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga. Í framhaldinu er sú ályktun dregin um lögskýringu í dóminum, að eftir „þessar breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti verða ákvæði XII. kafla laga nr. 108/2007 um verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði skýrð á þann hátt með gagnályktun frá 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. og 116. gr. þeirra að fjármálafyrirtækjum, sem hafa heimild til verðbréfaviðskipta, sé óheimilt að stunda viðskipti með eigin hluti á slíkum markaði í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim, sbr. niðurlag 1. mgr. 116. gr., nema um sé að ræða viðskipti í endurkaupaáætlun eða við verðjöfnun fjármálagerninga, sbr. 1. tölulið 3. mgr. 115. gr.“ Þá segir í dóminum að rétt sé að skýra 1. tölulið 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007 svo „að það að eiga viðskipti eða gera tilboð, sem gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, teljist ekki markaðsmisnotkun ef sá, sem í hlut á, getur sýnt fram á að ástæður að baki viðskiptunum eða fyrirmælum um þau séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á skipulegum verðbréfamarkaði.“ Þessi lögskýring verður lögð til grundvallar við úrlausn um sakargiftir á hendur ákærðu í þessu máli. Þá er til þess að líta að samkvæmt 13. tölulið 2. gr. laga nr. 108/2007 er um viðurkennda markaðsframkvæmd að ræða í skilningi laganna, ef eðlilegt er að gera ráð fyrir að hún sé viðhöfð á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og Fjármálaeftirlitið hefur viðurkennt hana með þeim hætti, sem kveðið er á um í reglugerð sem sett skal á grundvelli 118. gr. þeirra. Slíkt reglugerðarákvæði hafði ekki verið sett á þeim tíma sem ákæran í máli þessu tekur til.

Samkvæmt 19. gr. laga nr. 110/2007 skal kauphöll setja reglur um aðild að skipulegum verðbréfamarkaði þar sem gerð er grein fyrir þeim skyldum sem hvíla á markaðsaðilum. Skulu reglurnar vera gagnsæjar, hlutlægar og byggðar á jafnræði. Í þeim reglum, sem giltu á þeim tíma er ákæran tekur til, var sjálfvirk pörun tilboða skilgreind þannig að með henni væri átt við „ferli í tilboðabók þar sem kaup- og sölutilboð eru pöruð sjálfkrafa þegar verð, magn og önnur skilyrði í tilteknu tilboði samsvara tilboði sem áður hefur verið skráð í tilboðsskrá.“ Í grein 4.6.1 í reglunum sagði að tilboð sem skráð væru í tilboðaskrá, viðskipti sem parast sjálfkrafa og tilkynnt kauphallarviðskipti skyldu „endurspegla gildandi markaðsverð viðkomandi verðbréfa og ... samanstanda af raunverulegum tilboðum og viðskiptum.“

3

Að framan eru raktar upplýsingar um kaup deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. á hlutabréfum útgefnum af félaginu, umfram sölu, sem hlutfall af heildarveltu í sjálfvirkri pörun í Kauphöll Íslands og sænsku kauphöllinni á tímabilinu frá júní 2005 til október 2008. Ef fyrri hluti tímabilsins fram til október 2007 er borinn saman við síðari hlutann frá nóvember 2007 til október 2008, en það er sá tími sem ákæran spannar, liggur fyrir að kaup umfram sölu voru oft lítil á fyrri hlutanum miðað við það sem síðar varð. Á hinn bóginn var allt frá upphafi og fram í október 2008 augljós fylgni milli þess hvernig gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. hreyfðist og þess hvernig deild eigin viðskipta bankans hagaði viðskiptum sínum í kauphöllunum. Þegar gengið hækkaði var dregið úr kaupunum en þegar það lækkaði jukust kaupin og urðu þeim mun meiri eftir því sem gengið féll meira. Af þessu verður dregin sú ályktun að eðli viðskiptanna sem hér um ræðir hafi verið það sama allt frá árinu 2005, þótt umfang þeirra hafi aukist til mikilla muna frá nóvember 2007.

Samkvæmt ákæru keypti deild eigin viðskipta Kaupþings banka hf. 134.455.761 hlut af þeim 318.115.120 hlutum í bankanum sem viðskipti voru með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á íslenska markaðnum á ákærutímabilinu, eða 42,3% af heildarveltu með hlutina í þess háttar viðskiptum. Þá keypti deildin 53.260.560 hluti af þeim 172.427.515 hlutum í félaginu sem viðskipti voru með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á sænska markaðnum á tímabilinu, eða 30,9% af heildarveltu með hlutina í þess háttar viðskiptum á þeim markaði. Í ákærunni segir að deildin hafi á þessu sama tímabili selt 4.757.618 hluti á íslenska markaðnum, eða 1,5% af heildarveltunni í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á þeim markaði, og 13.172.526 hluti á sænska markaðnum, eða 7,6% af heildarveltu á þeim markaði. Samkvæmt þessu hafi kaup deildarinnar umfram sölu á íslenska markaðnum verið 41% af heildarveltunni í sjálfvirkum pörunarviðskiptum en kaup umfram sölu á sænska markaðnum hafi numið 23% af heildarveltunni í slíkum viðskiptum. Í ákærunni eru jafnframt upplýsingar um skráð gengi hlutabréfanna í lok hvers viðskiptadags. Þar kemur fram að á íslenska markaðnum var gengið 1090 krónur á hlut 1. nóvember 2007, en lækkaði síðan og var komið niður í 654 krónur á hlut 3. október 2008. Á sænska markaðnum var dagslokagengið 117,50 sænskar krónur 1. nóvember 2007 og var komið niður í 25 sænskar krónur 8. október 2008.

4

Ákærði Hreiðar Már gagnrýnir framsetningu sakargifta á hendur sér meðal annars á þeim grundvelli að ákæruvaldið líti í málatilbúnaði sínum einvörðungu til sjálfvirkra pörunarviðskipta deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. með hluti í félaginu, án þess að taka jafnframt tillit til þeirra viðskipta bankans með hlutina sem fram fóru með öðrum hætti. Í því sambandi bendir hann á að í lögum sé enginn greinarmunur gerður á utanþingsviðskiptum og pöruðum viðskiptum og þegar horft sé til veltu á markaðnum eigi meiri hluti viðskipta sér stað í utanþingsviðskiptum. Í bréfi Kauphallar Íslands frá 30. september 2011 sé að finna samantektir sem sýni að tilkynnt viðskipti hafi numið á bilinu 53 til 73% af heildarveltu á ársgrundvelli á árunum 2004 og fram að falli viðskiptabankanna. Þá sé í umfjöllun kauphallarinnar jafnframt gerð grein fyrir áhrifum utanþingsviðskipta á verð á markaði.

Af gögnum máls þessa verður ráðið að viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í sjálfvirkri pörun í kauphöll hafi haft meiri áhrif á skráð gengi þeirra í lok dags en önnur hlutabréfaviðskipti. Eigi að síður er fallist á með ákærða Hreiðari Má að síðargreindu viðskiptin hafi einnig haft áhrif á markaðsverð bréfanna, að minnsta kosti til lengri tíma litið. Hins vegar er, eins og greinir í dómi Hæstaréttar í máli nr. 842/2014, einnig til þess að líta að sjálfvirk pörunarviðskipti í kauphöll eru annars eðlis en viðskipti sem gerð eru annars staðar, jafnvel þótt þau viðskipti séu tilkynnt þangað um leið eða skömmu eftir að þau eru gerð. Er það að rekja til þess að í fyrrnefnda tilvikinu geta margir komið að viðskiptunum í einu, án þess að vita hver af öðrum, og þau komast á við það að kaup- og sölutilboð, sem skráð hafa verið í tilboðaskrá, eru pöruð sjálfkrafa ef þau samsvara tilboði sem áður hefur verið skráð þar. Með þessu móti er leitast við að tryggja að viðskiptin séu gerð milli ótengdra aðila þannig að verð á hlutabréfum ráðist af raunverulegu framboði og eftirspurn á markaði. Engin slík umgjörð er um kaup og sölu hlutabréfa utan kauphallar eða skipulegs verðbréfamarkaðar. Slík viðskipti geta að vísu verið milli ótengdra aðila og endurspeglað raunverulegt framboð og eftirspurn bréfanna, en aftur á móti er engin trygging fyrir því að svo sé í reynd. Af þessum sökum er réttlætanlegt að gera greinarmun á þessum tvenns konar viðskiptum þegar skorið er úr um hvort markaðsmisnotkun hafi átt sér stað.

Þegar afstaða er tekin til sakargifta á hendur ákærðu skiptir ekki aðeins máli hvert var umfang viðskipta deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. með hluti í félaginu í sjálfvirkri pörun á ákærutímabilinu, heldur einnig sú staðreynd að þar var að langmestu leyti um kaup að ræða. Hlutirnir voru síðan að verulegu leyti seldir af bankanum utan skipulegs verðbréfamarkaðar í sjö stórum utanþingsviðskiptum. Í ákærunni og greinargerð með henni er því lýst að bankinn hafi á ákærutímabilinu fyrir tilstilli hlutabréfamiðlunar hans losað sig með eftirfarandi hætti við 132.952.833 hluti af þeim 187.716.321 hlut sem keyptur var: Í fyrsta lagi með sölu á 12.103.333 hlutum í bankanum til Giftar fjárfestingarfélags ehf. í utanþingsviðskiptum 11. desember 2007. Í öðru lagi með sölu á 25.700.000 hlutum til Holt Investment Group Ltd. í utanþingsviðskiptum 8., 12. og 29. febrúar 2008 og 11. september sama ár. Í þriðja lagi með sölu á 5.000.000 hlutum til Fjárfestingafélagsins Mata ehf. í utanþingsviðskiptum 25. mars 2008. Í fjórða lagi með sölu á 17.849.500 hlutum til Desulo Trading Ltd. í utanþingsviðskiptum í maí, júní, júlí, ágúst og september 2008. Í fimmta lagi með sölu á 18.500.000 hlutum til Crosslet Vale Ltd. í utanþingsviðskiptum 11. júní 2008. Í sjötta lagi með sölu á 16.700.000 hlutum til KGS í utanþingsviðskiptum 7., 8. og 11. ágúst 2008 og í sjöunda lagi með sölu á 37.100.000 hlutum til Q Iceland Finance ehf. í utanþingsviðskiptum 22. september 2008. Í greinargerð með ákærunni segir að öll þessi viðskipti hafi verið fjármögnuð að fullu með lánum frá Kaupþingi banka hf. Er í II. og III. kafla ákærunnar eins og fyrr segir ákært fyrir þau viðskipti og lánveitingar, ef frá eru talin tilvik Giftar fjárfestingarfélags ehf., Crosslet Vale Ltd. og Q Iceland Finance ehf. Ekki er ljóst hvernig verð á hlutunum var ákveðið í þeim sjö utanþingsviðskiptum, sem að framan eru talin, en víst er að sú ákvörðun var ekki háð raunverulegu framboði og eftirspurn á markaði.

Stjórnendur Kaupþings banka hf. báru ábyrgð á þeirri tilhögun viðskipta bankans með eigin hluti sem gerð hefur verið grein fyrir, en selja mátti þá hluti sem keyptir höfðu verið í kauphöll aftur á þeim vettvangi. Þess er áður getið að þetta gerði bankanum kleift að losna við hlutina, sem hann hafði áður eignast með hinum umfangsmiklu kaupum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, án þess að bjóða þá til sölu á skipulegum verðbréfamarkaði. Var þannig komið í veg fyrir að verð þeirra réðist af raunverulegu framboði og eftirspurn. Með skírskotun til þessa er, eins og í dómi réttarins í máli nr. 842/2014, rétt að horfa framhjá öðrum viðskiptum en hinum sjálfvirku pörunarviðskiptum, þegar leyst er úr því hvort viðskipti deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. með eigin bréf á ákærutímabilinu hafi falið í sér markaðsmisnotkun samkvæmt a. og b. liðum 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 108/2007.

5

Allir hafa ákærðu borið fyrir héraðsdómi að Kaupþing banki hf. hafi stundað viðskipti með hluti í félaginu með svonefndri óformlegri viðskiptavakt eða með því að mynda markað með hlutabréfin. Halda ákærðu því fram að aðrir viðskiptabankar hér á landi hafi stundað slík viðskipti með eigin hluti og komst ákærði Hreiðar Már svo að orði fyrir dómi „að allir fagfjárfestar á íslenskum verðbréfamarkaði á árunum 2005 til 2008 vissu að bankarnir stunduðu viðskipti með eigin bréf. Þetta var jafn útbreidd þekking meðal fjárfesta eins og lögmenn í Reykjavík í dag vita að héraðsdómur er til húsa við Lækjartorg.“ Um hið sama sagði ákærði Sigurður fyrir dómi að öllum, kauphöllinni og fagfjárfestum, hafi verið kunnugt um hina óformlegu viðskiptavakt og að hann gerði ráð fyrir að almennir fjárfestar hafi verið upplýstir um hið sama af sínum verðbréfafyrirtækjum. Ákærði Ingólfur komst svo að orði að það hafi verið almenn vitneskja „að við ættum viðskipti með eigin hluti á markaðinum ... Allir markaðsaðilar, fagfjárfestar, kauphöll, FME, lífeyrissjóðir ... Almennir fagfjárfestar eru örugglega eins margir og þeir eru misjafnir. Þeir kynntu sér örugglega markaðinn mjög vel margir og margir hverjir ekki ... Við lýstum því yfir til margra ára, við ætluðum að eiga viðskipti með þessi bréf, ég tel ekkert óeðlilegt við það.“ Um þetta sagði ákærði Einar Pálmi að allir hafi vitað af því að bankarnir væru óformlegir viðskiptavakar í sjálfum sér og: „Ég get fullyrt það, það getur verið að einhver einn hafi ekki vitað það, en ég hugsa að allir hafi vitað það.“

Þess er áður getið að fjármálafyrirtæki sem hefur heimild til verðbréfaviðskipta getur samkvæmt 116. gr. laga nr. 108/2007 með samningi við útgefanda fjármálagerninga skuldbundið sig til að vera viðskiptavaki í því skyni að greiða fyrir að markaðsverð skapist á þeim. Skal viðskiptavaki tilkynna um samninginn og sé samið um viðskipti fyrir reikning útgefanda skal tryggt að honum sé ekki unnt að hafa áhrif á ákvarðanir um viðskipti á grundvelli samningsins. Er fjármálafyrirtæki eins og áður segir með gagnályktun frá þessari lagagrein óheimilt að takast á hendur viðskiptavakt með eigin hluti. Þá er og áður fram komið að ákvæði laga nr. 108/2007 verða skýrð með þeim hætti að lagt sé bann við því að slík fyrirtæki stundi skipuleg viðskipti með eigin hluti í þeim tilgangi að greiða fyrir því að markaðsverð skapist á hlutunum nema í þeim tilvikum sem vísað er til í 1. tölulið 3. mgr. 115. gr. laganna og þá með því að tilkynna þær fyrirhuguðu ráðstafanir opinberlega.

Lögum samkvæmt var Kaupþingi banka hf. án samþykkis Fjármálaeftirlitsins ekki heimilt að eiga eða taka að veði eigin hlutabréf sem næmu hærri fjárhæð en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár og var skylt að flagga á grundvelli 93. gr. laga nr. 108/2007 ef farið var yfir 5% mörk í þeim efnum. Skjöl málsins benda til þess að leitast hafi verið við af hálfu bankans að halda hinum umfangsmiklu kaupum hans á eigin hlutabréfum leyndum fyrir þeim sem komu að viðskiptum með hlutina á skipulegum verðbréfamarkaði. Samkvæmt framburði ákærða Ingólfs var það sameiginleg ákvörðun þeirra sem sátu í hinni óformlegu stjórn bankans á Íslandi að bankinn ætti, hvað sem liði heimildum, ekki að fara yfir 5% mörkin. Tölvubréf og upptökur af símtölum sem rakin eru hér að framan gefa ótvírætt til kynna að það hafi ítrekað gerst að hlutfall eigin hlutafjár í Kaupþingi banka hf. af heildarhlutafé félagsins hafi verið komið nálægt þeim 5% mörkum, sem hefði kallað á flöggun, og virðist hlutfallið hafa oftar en einu sinni farið yfir mörkin, að minnsta kosti í skamman tíma. Engu að síður virðist það hafa verið einbeittur vilji ákærða Einars Pálma og undirmanna hans, ákærðu Birnis Sæs og Péturs Kristins, að hlíta fyrirmælum yfirstjórnar bankans um að forðast flöggun í lengstu lög. Engin haldbær skýring hefur fengist á því hvers vegna lögð var svo rík áhersla á að forðast flöggun, en með því var komið í veg fyrir að stórfelld kaup Kaupþings banka hf. á eigin hlutum í kauphöllum kæmust til vitundar almennings, þar á meðal þeirra þúsunda einstaklinga og félaga sem áttu hlutabréf í bankanum.

6

Samkvæmt skjölum málsins og framburði ákærðu Péturs Kristins og Birnis Sæs fyrir héraðsdómi er sannað að þeir lögðu fram í Kauphöll Íslands og sænsku kauphöllinni fyrir hönd Kaupþings banka hf. mikinn fjölda kauptilboða í hluti í félaginu og komu jafnframt á fjölmörgum viðskiptum með þá hluti flesta viðskiptadaga sem ákæran tekur til. Þá hafa allir ákærðu borið að þetta hafi verið gert í þeim tilgangi að mynda markað með hlutina eins og um viðskiptavakt væri að ræða.

Þess er áður getið að Kaupþingi banka hf. sem fjármálafyrirtæki, sem hafði með höndum verðbréfaviðskipti, var óheimilt samkvæmt lögum nr. 108/2007 að stunda viðskipti með eigin hluti á skipulegum verðbréfamarkaði eins og í kauphöllum í framangreindum tilgangi, nema í undantekningartilvikum sem ekki eiga við hér. Ekki leikur vafi á að sá mikli fjöldi tilboða sem ákærðu Pétur Kristinn og Birnir Sær gerðu og þau umfangsmiklu viðskipti sem þeir áttu þátt í að koma á, gáfu eða voru í það minnsta líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. ranglega eða misvísandi til kynna. Með þessari háttsemi brutu þeir því af ásettu ráði og á refsiverðan hátt gegn a. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007. Verður slík háttsemi hvorki skýrð með því að lögmætar ástæður hafi búið að baki henni né að hún hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á skipulegum verðbréfamarkaði. Er samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu Péturs Kristins og Birnis Sæs.

Ákærði Einar Pálmi var forstöðumaður deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. á ákærutímabilinu og undirmaður ákærða Ingólfs. Hann bar fyrir dómi að hann hafi gefið undirmönnum sínum, ákærðu Pétri Kristni og Birni Sæ, almenn fyrirmæli um störf þeirra auk þess sem þeir hefðu oft ráðfært sig við hann um einstök viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi banka hf. í kauphöllum. Þá fékk ákærði reglulega sendar upplýsingar um hlutabréfaeign deildar eigin viðskipta bankans í hlutabréfum í bankanum sjálfum. Með þessum skjölum og framburði ákærða sjálfs, svo og skýrslum ákærðu Péturs Kristins og Birnis Sæs fyrir dómi um samskipti þeirra við hann sem áður er gerð grein fyrir, er sannað að ákærði hafi gefið þeim almenn fyrirmæli um hvernig þeir skyldu standa að viðskiptunum með hluti í Kaupþingi banka hf. í kauphöllum og jafnframt að hann hafi fylgst náið með einstökum viðskiptum og lagt á ráðin um þau. Samkvæmt því og með vísan til þess sem áður greinir hefur hann af ásettu ráði gerst sekur um brot gegn a. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007.

Ákærði Ingólfur var forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og samkvæmt ráðningarsamningi 1. janúar 2006 bar hann ásamt óformlegri stjórn bankans á Íslandi sameiginlega ábyrgð á rekstri hans hér á landi. Í því fólst ábyrgð á daglegum rekstri og að framfylgja í þeim efnum fyrirmælum og stefnu stjórnar bankans. Undir Ingólf heyrðu sex svið í starfsemi bankans og var eitt þeirra svið fjárstýringar. Deild eigin viðskipta heyrði undir fjárstýringu og forstöðumaður hennar var ákærði Einar Pálmi en ákærðu Birnir Sær og Pétur Kristinn voru sem fyrr segir starfsmenn deildarinnar. Ingólfur fékk samkvæmt gögnum málsins reglulega sendar upplýsingar um stöðu eigin viðskipta Kaupþings banka hf. með hlutabréf í félaginu sjálfu. Deild eigin viðskipta þurfti að sækja um heimildir til að eiga viðskipti með eigin bréf einu sinni í mánuði til forstjóra samstæðu bankans en þess í milli hafði ákærði Ingólfur veitt slíkar heimildir. Samkvæmt framburði Ingólfs fyrir dómi sem samrýmist framburði undirmanna hans, ákærðu Einars Pálma, Péturs Kristins og Birnis Sæs, er sannað að Ingólfur gaf þessum undirmönnum sínum almenn fyrirmæli, auk þess sem þeir ráðfærðu sig oft við hann. Þá er og fram komið í málinu með tölvubréfum og endurritum símtala frá ákærutímabilinu, að auk þess að gefa undirmönnum sínum almenn fyrirmæli hafði ákærði Ingólfur beinlínis afskipti af einstökum viðskiptum sem ákærðu Pétur Kristinn og Birnir Sær sáu um að framkvæma í kauphöllum, stundum oft á dag, og lagði á ráðin um þau. Samkvæmt þessu og með vísan til þess sem áður greinir hefur ákærði Ingólfur af ásettu ráði gerst sekur um brot gegn a. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007.

Ákærði Hreiðar Már var forstjóri samstæðu Kaupþings banka hf. og samkvæmt ráðningarsamningi hans 18. desember 2006 bar hann ásamt stjórn bankans sameiginlega ábyrgð á rekstri hans. Meginhlutverk forstjóra var daglegur rekstur bankans á samstæðugrunni og samræming á starfsemi hinna fjölmörgu eininga innan samstæðunnar. Undir Hreiðar Má heyrði ákærði Ingólfur sem forstjóri bankans á Íslandi. Þá sat Hreiðar Már í óformlegri stjórn bankans á Íslandi en sú stjórn hélt reglulega fundi um starfsemina hér á landi allt frá árinu 2005 og þar til yfir lauk. Nánari fyrirmæli um starfsskyldur forstjóra voru í 22. gr. samþykkta Kaupþings banka hf. og er þeirra áður getið. Samkvæmt því sem áður er fram komið var það sammæli þeirra sem áttu sæti í hinni óformlegu stjórn Kaupþings banka hf. á Íslandi að stefnt skyldi að því markmiði að bankinn ætti ekki meira en 5% af eigin hlutafé. Deild eigin viðskipta bankans þurfti samkvæmt innri reglum hans að sækja um heimildir fyrir deildina einu sinni í mánuði til forstjóra samstæðunnar. Stjórn bankans á Íslandi fór samkvæmt framburði ákærða Ingólfs að fylgjast mjög vel með viðskiptum deildar eigin viðskipta með hlutabréf í bankanum eftir að forstöðumaður hennar lét af störfum á árinu 2006. Hreiðar Már fékk á ákærutímabilinu reglulega sendar upplýsingar um viðskipti deildar eigin viðskipta með hlutabréf í bankanum og dæmi eru þess að hann hafi kallað eftir slíkum upplýsingum að fyrra bragði ef þær höfðu ekki áður borist honum. Þá bar ákærði Einar Pálmi að hann hefði að minnsta kosti einu sinni fengið bein fyrirmæli frá Hreiðari Má um framkvæmd einstakra viðskipta í kauphöll en þá hefði ákærði Ingólfur verið í fríi. Þegar litið er til þess hver var staða ákærða Hreiðars Más innan Kaupþings banka hf., þar með talin seta hans í hinni óformlegu stjórn bankans á Íslandi, hafðar eru í huga þær reglur sem um starfsskyldur hans giltu og virt eru tölvubréf og endurrit símtala, sem rakin eru hér að framan, ásamt framburði ákærðu Ingólfs, Einars Pálma, Birnis Sæs og Péturs Kristins fyrir dómi, er hafið yfir skynsamlegan vafa að hin umfangsmiklu viðskipti deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. með hluti í félaginu gátu ekki farið fram án vitundar hans og vilja, en ákærði bar fyrir héraðsdómi að bankinn hafi verið með „viðskiptavakt“ í eigin bréfum. Samkvæmt þessu verður ákærði Hreiðar Már sakfelldur fyrir brot af ásetningi gegn a. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007.

Ákærði Sigurður var formaður stjórnar Kaupþings banka hf. í föstu starfi. Um starfsskyldur hans gilti, auk ákvæða í samþykktum félagsins, sérstakur ráðningarsamningur þar sem Sigurður tókst á hendur ýmsar starfsskyldur, sem falla utan hefðbundinna starfa stjórnarformanns. Fólst það hlutverk meðal annars í því að samræma og samhæfa starfsemi bankans víðs vegar um heim og leita tækifæra og setja fram hugmyndir um hvernig bankinn sem heild gæti dafnað og þróast á þeim sviðum sem hann starfaði. Þá sat Sigurður í óformlegri stjórn bankans á Íslandi ásamt ákærða Hreiðari Má og SPK en samkvæmt framburði Sigurðar fyrir dómi hafði sú stjórn meðal annars það hlutverk að auðvelda ákærða Ingólfi að stjórna starfsemi bankans á Íslandi. Samkvæmt 21. gr. samþykkta Kaupþings banka hf. fór stjórn félagsins með æðsta vald í málefnum þess milli hluthafafunda og hennar hlutverk var að setja reglur um verkaskiptingu milli stjórnar og framkvæmdastjóra þar sem fram kæmu mörk lánaheimilda framkvæmdastjóra og reglur varðandi ákvarðanir um fjárfestingar, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002. Fram kom í framburði ákærða Ingólfs, sem styðst við önnur gögn málsins, að í hinni svokölluðu minni kreppu árið 2006 hafi Sigurður haft veruleg afskipti af starfsemi deildar eigin viðskipta. Þá fékk hann samkvæmt tölvubréfum reglulega sendar upplýsingar um stöðu viðskipta eigin deildar frá því í febrúar 2008 og út ákærutímabilið. Er haldlaus með öllu sú varnarástæða hans að þau bréf hafi hann ekki lesið. Þegar hafðar eru í huga starfsskyldur Sigurðar sem stjórnarformanns Kaupþings banka hf., hlutverk hans sem stjórnarmanns í óformlegri stjórn bankans á Íslandi og vitneskja hans um viðskipti deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. með eigin bréf í bankanum, er hafið yfir skynsamlegan vafa, að hin umfangsmiklu kaup deildarinnar á hlutum í félaginu sjálfu gátu ekki farið fram án vitundar hans og vilja, en ákærði bar fyrir héraðsdómi að bankinn hafi verið með „viðskiptavakt“ í eigin bréfum. Samkvæmt þessu verður ákærði Sigurður sakfelldur fyrir brot af ásetningi gegn a. lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007.

VI

1

Í II. kafla ákæru var eins og áður er rakið ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi og Magnúsi gefin að sök „markaðsmisnotkun, með því að hafa í sameiningu komið á viðskiptum með hluti í Kaupþingi“ og ranglega látið líta svo út að félögin Holt Investment Group Ltd., skráð á Bresku Jómfrúareyjum, Fjárfestingafélagið Mata ehf. og kýpverska félagið Desulo Trading Ltd., hefðu, hvert fyrir sig í nánar tilgreindum viðskiptum, lagt fé til kaupa á ákveðnum fjölda hluta „í bankanum og borið af þeim fulla markaðsáhættu“ þegar kaup félaganna hafi í raun verið „fjármögnuð að fullu með lánveitingum frá bankanum sem bar þannig, sem lánveitandi og seljandi hlutanna, áfram fulla markaðsáhættu af hlutunum“. Í tilviki Holt Investment Group Ltd. hafi mjög litlar eða engar aðrar tryggingar verið fyrir hendi en hinir seldu hlutir og í tilvikum Fjárfestingafélagsins Mata ehf. og Desulo Trading Ltd. hafi ekki verið fyrir hendi aðrar tryggingar en hinir seldu hlutir. Hafi öll viðskiptin, sem tilkynnt voru til kauphallar, byggst á blekkingum og sýndarmennsku og þannig verið líkleg til að gefa eftirspurn eftir hlutum í bankanum ranglega og misvísandi til kynna.

Í tilviki Holt Investment Group Ltd., sem hafi verið félag með lítil umsvif og neikvætt eigið fé í lok árs 2007, og tilviki Fjárfestingafélagsins Mata ehf., sem hafi verið með neikvætt eigið fé að fjárhæð rúmlega 37.500.000 krónur í lok árs 2007, voru viðskiptin í ákæru sögð til komin vegna ákvörðunar ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar og Ingólfs um að selja skyldi hluti í bankanum með fullri fjármögnun hans. Að þeirra undirlagi hafi ákærði Magnús borið eigendum beggja félaganna tilboð um kaup á hlutunum með fullri fjármögnun bankans og Magnús þannig komið fram fyrir hönd Kaupþings banka hf. í viðskiptunum. Ákærði Ingólfur hafi í framhaldinu falið yfirmanni hlutabréfamiðlunar bankans að framkvæma viðskiptin og tilkynna þau til kauphallar. Í tilviki Desulo Trading Ltd., sem verið hafi eignalaust, voru viðskiptin í ákæru sögð til komin vegna ákvörðunar ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar og Ingólfs um að selja skyldi hluti í bankanum með fullri fjármögnun hans. Að þeirra undirlagi hafi ákærði Magnús látið starfsmann Kaupthing Bank Luxembourg S.A. bjóða eiganda Desulo Trading Ltd. að kaupa hluti í Kaupþingi banka hf. með fullri fjármögnun þess banka. Hafi Magnús þannig komið fram fyrir hönd Kaupþings banka hf. Ákærði Ingólfur hafi í framhaldinu falið yfirmanni hlutabréfamiðlunar hjá Kaupþingi banka hf. að framkvæma viðskiptin og tilkynna þau til kauphallar. Var framangreind háttsemi ákærðu talin varða við a. lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007.

2

Félagið Holt Investment Group Ltd. var stofnað á Bresku Jómfrúareyjunum 17. febrúar 2005. Samkvæmt vottorði lögmannsstofunnar Mossack Fonseca & Co. Ltd. þann dag fóru félögin Allied Directors Corp., Global Managers Inc. og International Officers Ltd. með stjórn félagsins. Þeim félögum var samkvæmt vottorði sömu lögmannsstofu stjórnað af þremur starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg S.A., þeim AVS, MG og GDB. Holt Investment Group Ltd. var í eigu Holt Holding S.A., en það félag var í eigu SÞ. Með umsókn til fyrirtækjaskrár móttekinni 5. apríl 2005 sótti Holt Investment Group Ltd. um skráningu og útgáfu á kennitölu fyrir erlent fyrirtæki vegna bankaviðskipta á Íslandi og var ástæða þess í umsókninni sögð vera „fjárfesting í hlutabréfum og vegna bankaviðskipta“.

Holt Investment Group Ltd. átti eins og áður greinir einkahlutafélagið Sýrey en tilgangur þess mun hafa verið leiga á landi og landsréttindum. Það félag var með lítil umsvif og neikvætt eigið fé í lok árs 2007. Að öðru leyti átti Holt Investment Group Ltd. engar eignir áður en félagið hóf kaup á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. í febrúar 2008. SÞ var stór viðskiptavinur Kaupþings banka hf. og hafði verið í viðskiptum við dótturfélag bankans í Luxemborg frá stofnun þess árið 1998. Hann var jafnframt einn stærsti lántakandi samstæðu Kaupþings banka hf. og samkvæmt yfirliti 21. september 2008 námu heildarskuldir félaga tengdum SÞ við bankann tæpum 74.000.000.000 krónum. Fyrir dómi skýrði SÞ svo frá að hann hafi haft viðskiptastjóra hjá bankanum í Luxemborg, ÞEÓ, auk þess sem ákærði Magnús hafi gegnt því hlutverki að koma með hugmyndir að einstaka verkefnum. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst SÞ aðallega hafa verið í samskiptum við ákærða Magnús fram á mitt ár 2004 en eftir það við ÞEÓ sem þá hefði tekið við sem viðskiptastjóri sinn og félaga sér tengdum. Sagði SÞ við þá skýrslutöku að Magnús og ÞEÓ hefðu haft víðtækt umboð yfir reikningum hans og þeir „gátu nánast sko framkvæmt hlutina og sagt mér frá því eftir á“.

Kaupþing banki hf. seldi Holt Investment Group Ltd. samtals 22.000.000 hluti í bankanum í febrúar 2008 í þremur áföngum fyrir samtals 15.677.460.700 krónur með þóknunum. Var þar um að ræða sölu á 3% útgefins hlutafjár í félaginu. Í fyrsta lagi var um að ræða sölu 8. febrúar þegar seldir voru 10.000.000 hlutir á genginu 710 fyrir 7.128.400.350 krónur að meðtalinni söluþóknun. Í öðru lagi sölu 12. febrúar þegar seldir voru 7.000.000 hlutir á genginu 700 fyrir 4.919.600.350 krónur og í þriðja lagi sölu 29. febrúar þegar seldir voru 5.000.000 hlutir á genginu 723 fyrir 3.629.460.000 krónur. Um var að ræða utanþingsviðskipti og samkvæmt kaup- og sölunótum voru eigin viðskipti Kaupþings banka hf. seljandinn í öllum þremur tilvikum. FRR var skráður miðlari á umræddum kaup- og sölunótum og hann tilkynnti öll viðskiptin til kauphallarinnar. Kaupþing banki hf. fjármagnaði kaupin að öllu leyti og var það fyrst gert með peningamarkaðslánum og síðar með lánssamningi 25. júní 2008 að fjárhæð 16.325.962.087 krónur. Þá keypti Holt Investment Group Ltd. í fjórða lagi 3.700.000 hluti í Kaupþingi banka hf. 11. september 2008 á genginu 690 og var kaupverð þeirra með þóknun 2.563.212.000 krónur. Seljandi hlutanna var Kaupþing banki hf. og skráður miðlari í viðskiptunum FRR sem tilkynnti þau til kauphallarinnar. Til kaupanna fékk Holt Investment Group Ltd. lán að fjárhæð 2.563.293.785 krónur sem var greitt út 19. september 2008, fimm dögum áður en lánveitingin var samþykkt á fundi lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. Þegar lánið var greitt út var eigið fé Holt Investment Group Ltd. neikvætt. Þann 22. september 2008, þremur dögum eftir að lánið var greitt út og degi áður en lánsbeiðni vegna lánveitingarinnar fór fyrir lánanefnd stjórnar, voru þessi sömu hlutabréf seld og lánið endurgreitt. Bréfin voru seld á genginu 714 og við söluna myndaðist hagnaður sem notaður var til að greiða inn á eldri skuldir Holt Investment Group Ltd. við Kaupþing banka hf.

Engin skrifleg gögn eru fyrir hendi varðandi tilkomu framangreindra kaupa Holt Investment Group Ltd. á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf.

Fyrir dómi kvað SÞ ákærða Magnús hafa haft samband við sig í byrjun febrúar 2008 og viljað fá sig sem hluthafa að umtalsvert stórum hlut í Kaupþingi banka hf. og sagt „að bankinn óskaði eftir því að ég kæmi í hluthafahópinn og þeir væru til í að lána fyrir andvirði bréfanna og að ég yrði að leggja fram viðbótartryggingu sem voru bréf sem ég átti í Exista á sínum tíma sem voru tæpur milljarður að markaðsverðmæti á þeim tíma.“ SÞ kvaðst ekki hafa verið í sambandi við aðra ákærðu út af þessum viðskiptum og sagðist aðspurður ekki vita hvort Magnús hefði hringt í eigin nafni eða að undirlagi annarra og komst svo að orði: „Ekki hugmynd um það nei, hann sagði bara stjórnendur bankans ... Nei, hann nefndi engin nöfn.“ SÞ kvaðst ekki muna hver hefði átt hugmynd að hlutabréfakaupunum 11. september 2008 og treysti sér ekki til að fullyrða hvort bréfin hefðu ellefu dögum síðar verið seld aftur með sínu samþykki. Framburður SÞ fyrir dómi er í aðalatriðum í samræmi við það sem fram kom hjá honum við skýrslutöku hjá lögreglu. Þar kvað hann ákærða Magnús hafa hringt í sig 8. eða 9. febrúar 2008 og sagt að Kaupþing banki hf. hefði áhuga á að selja sér 3% hlut í bankanum en hann myndi ekki hvort Magnús hefði sagt hver það var hjá bankanum sem hefði tekið ákvörðun um að selja honum bréfin.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakinn framburður ákærða Magnúsar fyrir dómi varðandi aðkomu hans að framangreindum hlutabréfaviðskiptum. Eins og þar greinir sagði Magnús að hringt hefði verið í sig frá móðurfélaginu á Íslandi og hann spurður hvort hann héldi að SÞ vildi verða stærri hluthafi í Kaupþingi banka hf. Orðrétt sagði Magnús að því „fylgdi strax ... þau boð að ... bankinn myndi lána til viðskiptanna, að hann væri tilbúinn að lána til viðskiptanna gegn viðbótartryggingu frá SÞ, sem var 5% eignarhlutur hans í Símanum.“ Aðspurður um hvort það hafi verið ljóst frá upphafi að Kaupþing banki hf. myndi lána fyrir kaupunum svaraði Magnús: „Já, það er, þannig kynnti ég það fyrir SÞ, að hann myndi, að móðurfélagið myndi lána til viðskiptanna.“ Í framhaldinu kvaðst Magnús hafa hringt í SÞ og komið þessum boðum áleiðis til hans. Aðspurður um hver frá móðurfélaginu hafi hringt sagðist Magnús hafa nefnt tvo aðila í því sambandi hjá lögreglu og bætti við: „Ég nefndi þá hugsanlega tvo aðila. Ég útilokaði þriðja aðilann. En ég held að það sé langeðlilegast og réttast að segja að ég muni það ekki með óyggjandi hætti.“ Í framhaldinu var Magnús ítrekað spurður aftur þessarar sömu spurningar án þess að gefa nákvæmari svör. Við skýrslutökur hjá lögreglu bar Magnús að hann hefði sett sig í samband við SÞ eftir að móðurfélagið á Íslandi hefði haft samband við sig og spurt hvort SÞ hefði áhuga á að bæta við sig í bankanum. Hann kvaðst þar gera „ráð fyrir því að það hafi verið annað hvort Ingólfur, gæti hafa verið Sigurður“ sem hefði beðið sig um að hafa samband við SÞ. Hann sagðist við þá skýrslutöku ekki halda að það hafi verið ákærði Hreiðar Már.

Þegar ákærði Ingólfur var að því spurður fyrir dómi hver hefði tekið ákvörðun um að leita til Luxemborgar í þeim tilgangi að selja eigin bréf Kaupþings banka hf. svaraði hann: „Ég í einhverjum tilvikum og eflaust yfirmenn í einhverjum tilvikum ... ég var einkum í sambandi við Magnús Guðmundsson ... nær eingöngu“. Aðspurður hvort hann hafi verið beðinn um að hringja í ákærða Magnús til að finna kaupendur að hlutabréfunum svaraði Ingólfur: „Ég var ekkert beðinn um það sérstaklega, ég var bara beðinn um að vera hluti af þessu, taka þátt í þessu starfi, við vorum að leita að langtíma fjárfestum, bankinn, á þessum tíma eins og öðrum, þetta er bara þessi eðlilegi framgangur mála að laða fjárfesta að hlutafélagi.“ Þegar Ingólfur var spurður hvort hann hefði hringt í ákærða Magnús og beðið hann um að bjóða SÞ að kaupa hlutabréf í bankanum svaraði hann óljóst og sagðist hafa átt „mörg samtöl við Magnús, ég ræddi við hann um þessi Kaupþingsbréf hvort að hann væri með einhverja fjárfesta“. Þegar undir Ingólf var borinn sá framburður FRR fyrir dómi að Ingólfur hefði látið sig vita um viðskipti Holt Investment Group Ltd. bæði í febrúar og september 2008 og óskað eftir því að hann tilkynnti þau til kauphallar, svaraði Ingólfur: „Það er mjög líklegt að ég hafi upplýst FRR um verð og magn já ... það er mjög líklegt að ég hafi komið að þessum frágangi með FRR eins og hann lýsir. En ég vil ítreka ... að það er ekki endilega samhengi milli þess að ég hafi komið að viðskiptunum sjálfum, þó ég hafi komið að frágangi, ég er heldur ekki að útiloka það.“ Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist Ingólfur ekki muna hver hefði átt frumkvæði að þessum viðskiptum í febrúar 2008 en sagðist oft hafa átt „samtöl við Magnús Guðmundsson og hérna meðal annars bauð honum bréf til kaups í bankanum fyrir hönd sinna viðskiptavina.“ Aðspurður kvað hann útilokað að 3% hlutur í bankanum hefði verið seldur án vitneskju æðstu stjórnenda hans og þegar hann var spurður hver hefði getað haft umboð til að bjóða 3% hlutafjár í Kaupþingi banka hf. til sölu svaraði hann: „Já, það væri sjálfsagt bara æðstu stjórnendur ... stjórnarformaður og forstjóri. Ég hefði hugsanlega getað gert það með þeirra vitneskju líka.“ Hann kvaðst hins vegar ekki hafa getað gert það af sjálfsdáðum.

Ákærðu Hreiðar Már og Sigurður kváðust fyrir dómi ekki hafa haft neina aðkomu að kaupum Holt Investment Group Ltd. á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. á árinu 2008 og ekki þekkja til aðdraganda þeirra.Við skýrslutöku hjá lögreglu báru þeir mjög á sama veg. Fyrir dómi var borinn undir Sigurð sá framburður ákærða Ingólfs að Sigurður og Hreiðar Már hefðu sett mörkin á eignarhaldi Kaupþings banka hf. í eigin bréfum við 5%. Því svaraði Sigurður og sagði: „Í mínum huga var 5% aldrei neitt mikilvægt markmið.“ Þá var Sigurður spurður hvort hann kannaðist við umræðu um það og svaraði: „Ég minnist hennar ekki ... Við 5%, nei.“ Við skýrslutöku hjá lögreglu var Sigurður spurður almennt um 5% mörkin og sagði aðspurður um hvort einhvern tímann hefði verið rætt við hann um stöðu og heimildir Kaupþings banka hf. til að kaupa eigin bréf: „Ég minnist þess ekki. Ég veit náttúrulega að við höfðum heimild til þess að eiga 10% af eigin bréfum, samkvæmt ákvörðun hluthafafundar ... en hluthafafundur þarf samt að samþykkja það held ég sko ... ég minnist aldrei að við höfum átt yfir 5% af eigin bréfum.“ Við skýrslutöku hjá lögreglu um málefni Holt Investment Group Ltd. var Sigurður spurður hvort hann myndi eftir umræðu um að selja þyrfti bréf út í „stórum einingum“ og svaraði hann þá: „Nei, ég held að okkur hafi verið nákvæmlega sama hvort við seldum í stórum eða smáum einingum en ... það er hins vegar ljóst að við höfum engan áhuga á að safna upp eigin bréfum umfram þessi 5%.“

Upp úr hádegi 8. febrúar 2008 sendi GR starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. ákærða Magnúsi tölvubréf þar sem sagði: „As per your request: Holt holding owns on the insider acc 5,506,904 shs of Kaupthing Shall we wait until we have the price for the new shares we bought until we do this one? So we do it all at same level?“ Þessu svaraði ákærði Magnús skömmu síðar og sagði: „That should be ok for him Please just advice FRR of his intentions Mg.“ Þessu svaraði GR um hæl á eftirfarandi hátt: „Have already spoken to him, he is aware. They are waiting until the afternoon for the big one, because he needs to have clearance from his risk people in Iceland before he can print the trade.“ Ákærði Magnús svaraði þá: „U try to reduce the price if the market remains low“ og því svaraði GR: „Ok, will tell them to talk to me with a price before finalizing.“ Síðar sama dag ræddu saman í síma FRR og GR og sagðist FRR í samtalinu geta selt 10.000.000 hluti á genginu 710 og að uppgjör yrði „T+5.“ Sagði GR það vera „fine, perfect, done deal.“

GR og FRR ræddu aftur saman í síma 12. febrúar 2008 og sagðist FRR vilja staðfesta viðskiptin sem þeir hefðu rætt um áður. Um væri að ræða 7.000.000 hluti á genginu 700 fyrir hönd eins umbjóðanda GR sem játti því og sagði að þeir skyldu hafa sömu þóknun og síðast og að uppgjör yrði „T+5.“

FRR átti símtal við ákærða Bjarka 18. febrúar 2008 og vísaði FRR til þess að GR hefði hringt í sig. Sagði Bjarki þá að Holt Investment Group Ltd. væri „fyrirbæri sem keypti hlutina sem við vorum að ganga frá í síðustu viku“. FRR sagði að „þessi bréf eiga að fara frá Holt Holding SA yfir á hitt félagið, með peningagreiðslu á milli. Eða sem sagt, Holt Investment þarf að greiða Holt Holding fyrir bréfin. Þannig að, þess vegna er ég að velta fyrir mér hvort það sé klárt varðandi, ég veit ekki hvernig hitt er fjármagnað ... what the fuck, og lokar bara augunum“. Bjarki spurði hversu margir hlutir þetta væru og sagði FRR þá vera 5.506.904 og að þetta yrði „væntanlega fjármagnað hinum megin núna ... En þetta er þarna, þetta er einhver, stóð alltaf til. Ingólfur vissi af þessu líka. Og ég er bara að velta fyrir mér, ég nenni ekki að vera að gera þetta.“ Því svaraði Bjarki og sagði: „Bíddu, bíddu við. Holt Investment, það eru búnir að vera tveir skammtar þar“ og sagði FRR að keyptar hefðu verið „10 milljónir fyrst og svo sjö milljónir.“ Því svaraði Bjarki og sagði: „Og síðan á þetta að koma líka? ... og vera fjármagnað hérna ... á hvaða gengi á þetta að fara?“ FRR kvað gengið á markaði vera „bara 745 eða eitthvað. Ég meina, þetta félag í eigu sama aðila, og fjármagnað væntanlega hinum megin einhvern veginn, ég veit ekki hvernig.“ Bjarki svaraði og sagði: „En þá gæti hann verið að taka út sko, æ ég veit það ekki.“ FRR sagði þá: „Ég var að spyrja þá hvort þetta ætti að vera sko án peningahreyfinga sko, en það á ekki að vera þannig sögðu þeir, það á að vera með peningahreyfingum en ég nenni ekki að gera það, ef þú veist, ef það er síðan ekki allt klárt hérna megin.“ Sagði Bjarki þá að hann gæti „sagt þér það bara strax að það er ekkert klárt, þannig að við skulum aðeins, ég ætla að heyra í Magga með þetta.“

FRR og annar starfsmaður Kaupþings banka hf. ræddust við í síma 29. febrúar 2008. FRR spurði hvert væri gengið á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. og kvað starfsmaðurinn það vera 728. Þá sagði FRR: „Geturðu prentað fyrir mig 5 milljónir á 723?“ Starfsmaðurinn játti því og kvað það vera hið minnsta mál og sagði að verið væri að vinna í því. Síðar sama dag sendi FRR tölvubréf til ákærða Bjarka undir yfirskriftinni „Holt“ með fylgiskjali sem bar heitið „kaup.pdf“. Í texta bréfsins sagði: „Hér kemur einn skammtur.“

Þann 1. apríl 2008 ræddu saman í síma GÞ viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði Kaupþings banka hf. og HSK starfsmaður fjárstýringar bankans. GÞ sagðist vera á „hnoðunardeildinni“ og svaraði HSK þá og sagðist vera á „síðasta snúnings deildinni.“ Í framhaldinu sagðist GÞ vera að velta fyrir sér með „þessi félög öll, þetta eru Kjalar, Holt Investment Group ... og Nýrækt eða ... Mata það er sama félagið“ og ræddu þeir um gjalddaga lána þessara félaga. Síðar í samtalinu sagði GÞ: „Og síðan er hérna, hitt eru 5,5 milljarðar Holt ... Þetta er svona ... þetta er hluti af svona einu allsherjarmáli sko ... Við erum að losa þessi bréf nefnilega út úr húsi fyrir mánaðamót, það er það sem er stirt ... Svo þú vitir það.“ Þá spurði HSK á móti: „Er eitthvað meira sem við erum að fara að lána þessum djöflum, að senda eitthvað meira út af þessu?“ Því svaraði GÞ neitandi og sagði: „Nei, já, sko, við erum að reyna núna að moka þessu exposure-i út úr húsi og við náum ákveðnu núna fyrir mánaðamót og síðan erum við, höldum við bara áfram að losa þetta út.“

Ákærði Birnir Sær og FRR ræddu saman í síma 11. september 2008 klukkan 14.21. FRR spurði hvort Birnir Sær hefði heyrt í einhverjum og játti sá síðarnefndi því. Þá sagði FRR: „Ok. 3.700.000 ... á genginu 690. Þarna, ég læt, á ég ekki að láta strákana bara segja þér sekúndu áður en að þeir keyra þetta ... Þú tekur væntanlega markaðinn, eða eitthvað, er það ekki eða eitthvað?“ Birnir Sær sagði þá: „Ég tek markaðinn, jú.“ Sama dag klukkan 15.38 átti FRR símtal við starfsmann Kaupþings banka hf. og bað FRR hana um að fletta upp fyrir sig viðskiptum „Holt Holding“ á árinu 2008 með bréf í Kaupþingi banka hf. og hver þóknun hefði verið í þeim. Þau ræddu aftur saman í síma klukkan 15.47 um viðskipti Holt Investment Group Ltd. og sagði FRR: „Þeir eru að kaupa núna 3,7 milljónir á genginu 690, ég lét SJ keyra það fyrir mig ... Já, getur þú ekki keyrt þetta bara fyrir mig þar sem ég er miðlari ... þú veist þannig að ég, SJ ... við ætlum ekkert að láta strákana sjá þetta alveg strax sko þú veist ég læt hann bara eyða þessari pöntun.“

Tölvubréf fór milli tveggja starfsmanna Kaupþings banka hf. 23. september 2008 klukkan 10.01 og fékk FRR afrit af því. Þar sagði: „FRR setti inn viðskipti í gær fyrir: Holt Investment Group Ltd ... Þeir eru að selja í KAUP 3.700.000. Getur þú losað veðið?“ Annar starfsmaðurinn áframsendi tölvubréfið á RMJ og ákærða Bjarka og sagði: „Passar þetta ... eru þeir að selja hlutina sem við vorum að afgreiða lán fyrir á föstudag??“ RMJ svaraði þessu í tölvubréfi klukkan 10.26 og sagðist hafa heyrt „af því í gær að þeir myndu selja eitthvað – ég verð í sambandi við BHD með þetta á eftir.“ RMJ sendi síðan ÞEÓ viðskiptastjóra hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. tölvubréf klukkan 13.28 og spurði: „Andvirðið vegna sölu 3,7 millj. hlutanna á væntanlega að greiðast inn á lánið, er það ekki?“ Svaraði ÞEÓ því játandi klukkan 13.34.

3

Einkahlutafélagið Nýrækt var stofnað 20. desember 1996 og voru stofnendur félagsins þrír, GUG, GG og EÁG, og sátu þeir jafnframt í stjórn þess. Tilgangur Nýræktar ehf. var ræktun matjurta. Nafni félagsins var 25. mars 2008 breytt í Fjárfestingafélagið Mata ehf. Jafnframt voru gerðar breytingar á tilgangi félagsins og skyldi aðaláherslan vera „á fjárfestingar í verðbréfum og minni áhersla á verslunarrekstur.“ Samkvæmt ársreikningi sem samþykktur var á aðalfundi félagsins 10. september 2008 var eigið fé þess neikvætt í lok árs 2007 um 37.553.051 krónu. Fjárfestingafélagið Mata ehf. var í eigu Eignarhaldsfélagsins Mata hf. og Sundagarða hf. og átti hvort félag um sig 50% í fyrstnefnda félaginu. Félögin tvö, Eignarhaldsfélagið Mata hf. og Sundagarðar hf., voru í eigu GVE og fjölskyldu hans en hann var faðir þeirra GG og EÁG.

Kaupþing banki hf. seldi Fjárfestingafélaginu Mata ehf. 5.000.000 hluti í bankanum 25. mars 2008 á genginu 715. Kaupverðið með þóknun var 3.589.300.350 krónur og átti uppgjör að eiga sér stað 27. mars 2008. Um utanþingsviðskipti var að ræða og samkvæmt kaup- og sölunótum voru eigin viðskipti Kaupþings banka hf. seljandi bréfanna. FRR var skráður miðlari á nótunum og tilkynnti hann viðskiptin til kauphallar eftir að hafa fengið tölvubréf þar að lútandi frá ákærða Ingólfi. Daginn sem viðskiptin áttu sér stað hækkaði gengi hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. úr 680 í 744 eða um 9,4%.

Fjárfestingafélagið Mata ehf. átti engar teljandi eignir þegar það keypti hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. 25. mars 2008. Var fjárhagsstöðu félagsins þannig háttað að það hafði ekki burði til að kaupa hlutabréf í bankanum án utanaðkomandi fjár. Kaup Fjárfestingafélagsins Mata ehf. á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. voru að fullu fjármögnuð af bankanum. Upphaflega veitti bankinn félaginu í þessu skyni peningamarkaðslán og í lok mars 2008 var lánið endurfjármagnað, annars vegar með lánssamningi og hins vegar með peningamarkaðsláni. Í júní 2008 voru þessi lán félagsins sameinuð í einn lánssamning. Þá hafði seinna peningamarkaðslánið verið framlengt alls sex sinnum og lánið sem veitt var í mars 2008 verið í vanskilum frá því í lok apríl. Handveðsyfirlýsing var gerð í lok mars 2008 þar sem Fjárfestingafélagið Mata ehf. setti hina keyptu hluti til tryggingar láni félagsins frá Kaupþingi banka hf.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi kvað GG stjórnarmaður í Fjárfestingafélaginu Mata ehf. að fyrst hefði ákærði Magnús haft samband við sig og boðið sér bréf í Kaupþingi banka hf. til kaups. Í framhaldinu hefði ákærði Ingólfur haft samband við sig og þeir samið um magn og verð. Eftir þetta hafi hann aðeins átt samskipti við Ingólf vegna viðskiptanna. Við skýrslutöku hjá lögreglu bar GG að Magnús hefði haft samband við sig „og spurði hvort við hefðum áhuga á því að fjárfesta í Kaupþingi ... með þeim formerkjum að þeir gætu fjármagnað stóran eða allan hlutann af þessum viðskiptum.“ Aðspurður kvað hann Magnús hafa haft samband við sig að fyrra bragði og sennilega boðið „hátt í 100%“ fjármögnun.

Ákærði Magnús bar fyrir dómi að ákærði Ingólfur hefði hringt og spurt sig hvort hann teldi GG eða fjölskyldu hans hafa áhuga á að verða stærri hluthafi í Kaupþingi banka hf. Kvaðst Magnús hafa hringt í GG og spurt hvort hann hefði áhuga á því að kaupa bréf í bankanum. Í framhaldinu kvaðst Magnús hafa sent tölvubréf til ákærða Ingólfs 24. mars 2008. Fyrir dómi var Magnús spurður um fjármögnun kaupanna og hvort fyrirsvarsmanni Fjárfestingafélagsins Mata ehf. hefði í upphafi verið boðin fjármögnun. Sagðist Magnús enga heimild hafa haft „til að bjóða eitt eða neitt og ég held að hann lýsi því ágætlega að hann hafi ekki litið á þetta sem tilboð frá mér, ekki bindandi, og hann hafi gengið frá samskiptum sínum við Kaupþing banka á Íslandi og ekki verið í frekari samskiptum við mig. Enda liggur fyrir, ég átti bara eitt símtal við hann.“ Þegar Magnús var spurður hvort hann héldi að ákærði Ingólfur hefði boðið þessi kaup með fjármögnun svaraði Magnús: „Ég, það getur vel verið að við höfum rætt eitthvað mögulega, en nei.“

Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist ákærði Magnús hafa haft samband við GG og „bent honum á áhuga móðurfélagsins að selja hlutabréf í bankanum“. GG hefði síðan haft samband „beint við móðurfélagið eftir það.“ Magnús kvaðst ekki muna hver frá móðurfélaginu hefði hringt en þegar honum var sýnt tölvubréf frá honum sjálfum þar sem hann vitnaði til símtals síns og ákærða Ingólfs vegna hlutabréfaviðskiptanna sagði Magnús: „Það gæti verið þá Ingólfur.“ Í annarri skýrslutöku hjá lögreglu var Magnús spurður út í símtal sitt við GG og sagði hann þá: „Ég er að hringja fyrir mína hönd ... sem bankastjóri bankans í Lúxemborg þar sem að móðurfélagið hefur óskað eftir því að ég spyrji viðskiptavin hjá mér og ég gæti hagsmuna hans en ekki móðurfélagsins ... Ja, ég segi honum hver díllinn er, svo er það móðurfélagsins að gera samninginn við hann og ákveða hvernig það á að vera. Ég hef ekkert umboð frá móðurfélaginu, bara að segja að þeir séu tilbúnir að gera slíkan samning.“ Magnús var við skýrslutöku hjá lögreglu einnig spurður hvort fyrirsvarsmaður Fjárfestingafélagsins Mata ehf. hefði innt hann eftir því hvernig fjármögnun kaupanna yrði háttað, þegar Magnús hringdi í fyrirsvarsmanninn og bauð honum hlutabréf í bankanum til kaups. Því svaraði Magnús þannig: „Ég man ekki eftir að hafa farið í neinn detail um það ... Ég man það ekki sérstaklega.“ Við skýrslutöku rúmum fjórum mánuðum síðar var spiluð fyrir Magnús upptaka af skýrslutöku yfir GG þar sem sá síðarnefndi sagði að Magnús hefði boðið því sem næst fulla fjármögnun. Í framhaldinu var Magnús spurður um fjármögnunina og sagði hann þá: „Já ... ég er bara boðberi þarna á milli einhvers aðila sem vill eiga viðskipti við þriðja aðila sem ég þekki vel og ég er sá aðili sem segir: Heyrðu, ok, hefur þú áhuga á slíkum viðskiptum, hafðu samband við móðurfélagið og ég veit ekki hvernig þeir útfærðu það.“ Um þá fullyrðingu að hann hefði boðið hátt í 100% fjármögnun fyrir hönd móðurfélagsins hafði Magnús þetta að segja: „Ég er að hringja fyrir hönd mína sem bankastjóri bankans í Lúxemborg þar sem að móðurfélagið hefur óskað eftir því að ég spyrji viðskiptavin hjá mér og ég gæti hans hagsmuna en ekki móðurfélagsins ... Ég er ekki að bjóða honum hana, ég er að segja ... Ja, ég segi honum hver díllinn er, svo er það móðurfélagsins að gera samninginn við hann og ákveða hvernig það á að vera. Ég hef ekkert umboð frá móðurfélaginu, bara að segja að þeir séu tilbúnir að gera slíkan samning. Það er þeirra síðan að útkljá með hvaða hætti hann verður. Það er ekki eins og það hafi komið skuldbindandi samningur þegar ég hringdi í GG.“

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi kvaðst ákærði Ingólfur hafa átt samtal við ákærða Magnús og látið hann vita að bankinn hefði áhuga á að selja hluti í sjálfum sér. Þetta hafi verið sín aðkoma að málinu og í framhaldinu hafi viðskiptin komist á. Kvaðst Ingólfur eingöngu hafa átt samtöl við ákærða Magnús um þetta en engin við forsvarsmenn Fjárfestingafélagsins Mata ehf. Ítrekaði Ingólfur að hann hefði haft heimild til að bjóða hlutabréf til kaups en kvaðst ekki hafa haft heimild til að lána fyrir kaupunum. Nánar sagði Ingólfur um þessi viðskipti að hann hefði átt samtöl við Magnús „eða samtal og það er eitt af þessum samtölum þar sem ég býð honum hluti til kaups, læt vita að bankinn hafi áhuga á að selja í sjálfum sér, það er mín aðkoma að málinu og síðan koma þessi viðskipti í framhaldinu.“ Aðspurður um hvert hafi verið hans frumkvæði í þessu svaraði Ingólfur: „Ég man það ekki sérstaklega, þetta er eitt af þessum samtölum, þetta bar stundum á góma, það kann vel að vera að þetta hafi verið að frumkvæði mínu að bjóða Magnúsi bréf til kaups, í Lúxemborg sem sagt ... ég átti engin samskipti við fyrirsvarsmann Mata um þetta mál.“ Við skýrslutöku hjá lögreglu var Ingólfur spurður hvort hann hefði haft samband við Magnús og beðið hann að finna kaupendur og svaraði hann þá: „Í einhverjum tilvikum ... hef ég svona rætt við Magnús já og hérna og sagt honum að það væru bréf til sölu og ef hann hefði einhverja kaupendur að þá gætu orðið viðskipti.“ Aðspurður um hver hefði tekið endanlega ákvörðun um viðskipti af þessari stærðargráðu sagði Ingólfur: „Ég hef tekið þær eða mínir yfirmenn eða ég í samstarfi við þá. Öll ... stærri viðskipti sem voru seld út þau hafa ... það var þá spjallað um þau, ég tók ekki einn ákvörðun um slíkt.“

Ákærði Hreiðar Már kvaðst fyrir dómi ekki hafa komið að viðskiptum Fjárfestingafélagsins Mata ehf. og ekki þekkja hvernig þau komu til. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst hann ekki þekkja aðdraganda viðskiptanna og ekki vita hver hefði gefið ákærða Magnúsi heimild til að bjóða félaginu bréfin til kaups og bætti við: „Þið megið heldur ekki skilja mig þannig að það sé þá útilokað að ég hafi rætt við Magnús um þetta ... en þetta er bara eitthvað sem ég man ekki eftir.“ Ákærði Sigurður kvaðst fyrir dómi ekki hafa komið að þessum viðskiptum og ekki þekkja til aðdraganda þeirra og við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst hann ekki vita hver hefði beðið Magnús að bjóða fyrirsvarsmönnum Fjárfestingafélagsins Mata ehf. að kaupa bréfin.

FRR bar fyrir dómi að ákærði Ingólfur hefði hringt í sig og beðið sig að tilkynna viðskipti Fjárfestingafélagsins Mata ehf., Holt Investment Group Ltd., Desulo Trading Ltd. og KGS til Kauphallar Íslands.

el

 

 

 

Síðdegis 24. mars 2008 sendi GG tölvubréf til ákærða Magnúsar, sem bar yfirskriftina „Nýrækt ehf“. Þar voru upplýsingar úr fyrirtækjaskrá um það félag. Þá sagði: „Við sendum tilkynningu um breytt nafn í „Mata fjárfestingar ehf.“ á morgun og breytum tilganginum í eignarhaldsfélag.“ Stuttu síðar áframsendi ákærði Magnús tölvubréfið til ákærða Ingólfs með svofelldri orðsendingu: „sæll vinur í framhaldi af samtali okkar á fimmtudaginn um áhuga GG að kaupa, hér að neðan er félag í eigu fjölskyldu hans sem hann myndi vilja nota, hann mun síðan breyta nafni félagsins í vikunni kv maggi“.

Daginn eftir áframsendi ákærði Ingólfur framangreind tölvubréfaskipti til FRR og sagði: „Hér eru upplýsingar um kaupandann skv. samtali.“ Síðar þann dag sendi starfsmaður lögfræðisviðs bankans tölvubréf til GG með afriti meðal annars til FRR undir yfirskriftinni: „Stofnun vörslureiknings fyrir Nýrækt ehf.“ Þar sagði að FRR hefði beðið starfsmanninn að hafa samband við GG vegna „fyrirhugaðra viðskipta Nýræktar ehf. og Kaupþings banka hf.“ Var GG meðal annars beðinn um að fylla út meðfylgjandi eyðublað og senda henni skjölin skönnuð til baka. GG svaraði henni með tölvubréfi næsta dag og sagði að meðfylgjandi væru skjölin sem um hefði verið beðið. Þá sagði hann: „Ykkur til upplýsinga var í gær haldinn hluthafafundur í Nýrækt ehf. þar sem nafni félagsins var breytt í Fjárfestingafélagið Mata ehf. Tilkynning þess efnis verður send fyrirtækjaskrá seinna í dag.“ Þetta bréf var framsent milli starfsmanna bankans og GG loks sent svofellt tölvubréf: „Pappírarnir eru fullnægjandi, þú mátt senda mér frumritin. Vörslureikning er ekki hægt að stofna nema frumrit hafi borist – hefur þú tök á að koma þessu til mín í dag?“

4

Félagið Desulo Trading Ltd. var stofnað og skráð á Kýpur 11. október 2007. EÁ framkvæmdastjóri Íslensk-Ameríska verslunarfélagsins ehf. var 27. febrúar 2008 skráður eigandi Desulo Trading Ltd. og framkvæmdastjóri þess KVE. Félagið sótti um kennitölu á Íslandi í júní 2008 og voru bankaviðskipti tilgreind ástæða skráningarinnar. Í beiðninni kom fram að umboðsaðili og tengiliður félagsins hér á landi væri Kaupþing banki hf. Samkvæmt stofnsamningi Desulo Trading Ltd. var tilgangur félagsins margvíslegur, meðal annars viðskipti og fjárfestingar, og var hlutafé þess 1.000 evrur.

Samkvæmt ákæru keypti Desulo Trading Ltd. 17.849.500 hluti í Kaupþingi banka hf. á árinu 2008. Kaupþing banki hf. var seljandi stærsta hluta bréfanna en auk þess keypti félagið hlutabréf á sænska markaðnum. Kaupþing banki hf. fjármagnaði hlutabréfakaupin að öllu leyti með lánum að fjárhæð 11.335.116.319 krónur og 150.534.840 sænskar krónur, samtals 13.067.163.722 krónur, og voru þau öll á gjalddaga 13. desember 2008. Eins og nánar verður rakið hér á eftir lagði félagið ekki fram neitt eigið fé í tengslum við viðskiptin og einu tryggingar Kaupþings banka hf. voru hinir seldu hlutir.

Miðlun Kaupthing Bank Luxembourg S.A. keypti samtals 2.349.500 hluti í Kaupþingi banka hf. á sænska markaðnum á tímabilinu frá 14. til 21. maí 2008. Ekki liggur fyrir með óyggjandi hætti hver var seljandi bréfanna á sænska markaðnum og hvorki eru til sundurliðaðar upplýsingar um hvert gengi bréfanna var né hversu há þóknun var greidd vegna þeirra. Við upphaf aðalmeðferðar féll ákæruvaldið frá þeim hluta ákærunnar sem varðaði viðskipti með þessa hluti og tilkynnt voru til sænsku kauphallarinnar. Á hinn bóginn var í III. kafla ákæru ákært fyrir lánveitingu sem notuð var til að fjármagna þessi kaup eins og nánar greinir síðar.

Samkvæmt gögnum málsins voru óverulegar eignir og skuldir hjá Desulo Trading Ltd. þegar umfangsmikil kaup þess á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. hófust í maí 2008 en félagið mun áður hafa átt í skuldabréfaviðskiptum. EÁ mun hafa verið stór viðskiptavinur Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og verið í viðskiptum við þann banka frá árinu 2000. EÁ mun jafnframt hafa verið stór lántaki hjá síðastgreindum banka en samkvæmt útlánaskýrslu Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem unnin var af endurskoðunarfyrirtækinu KPMG 31. mars 2008, námu heildarskuldir EÁ og tengdra félaga við bankann 68.000.000 evrum og var eigið fé þeirra neikvætt um 16.000.000 evrur. Þann 20. nóvember 2009 mun Desulo Trading Ltd. hafa verið selt félagi í eigu EBS, sem hafði verið viðskiptastjóri fyrrnefnda félagsins hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A., fyrir 1 evru.

EÁ bar fyrir dómi að EBS hefði haft samband við sig og sagt að ákærðu Hreiðar Már og Magnús vildu fá sig í hluthafahóp Kaupþings banka hf. Sjálfur kvaðst EÁ aldrei hafa haft samband við ákærðu eða þeir við hann. EÁ skýrði svo frá að hann hefði ekki haft hug á að kaupa hlutabréf í bankanum á þessum tíma en þá hefði viðskiptastjórinn boðið sér til kaups hlutabréf með veði í bréfunum sjálfum og sagt að hann þyrfti ekki að leggja fram aðrar tryggingar. EÁ kvað viðskiptastjórann hafa séð um þessi mál að öllu leyti og hefði hann sjálfur ekki skrifað undir neitt, engin yfirlit fengið og yfirhöfuð ekkert vitað um félagið. Á sama hátt hefði hann engin afskipti haft af lánamálum félagsins. Vitneskju um hlutabréfaviðskiptin 2008 hefði hann fyrst fengið við lestur skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við skýrslutöku hjá lögreglu bar EÁ á sama veg og sagði EBS hafa haft samband við sig og spurt hvort hann hefði áhuga á að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. án áhættu af sinni hálfu og tekið fram að hann „hefði verið beðinn um þetta eftir því sem mér skildist af Magnúsi, ég man ekki hvers son, Guðmundsson held ég að hann sé, bankastjóri og Hreiðari Má að bjóða mér þetta eða falast því eftir að ég yrði sem sagt mundi taka stöðu eins og það er kallað í Kaupþingi.“

Í hinum áfrýjaða dómi er rakinn framburður EBS fyrir dómi. Hann kvað frumkvæði að viðskiptum Desulo Trading Ltd. með hluti í Kaupþingi banka hf. hafa komið frá ákærðu Magnúsi og Hreiðari Má. EBS kvaðst hafa verið í sambandi við starfsmenn Kaupþings banka hf. á Íslandi út af lánamálum og hefði enginn annar en ákærði Magnús getað veitt sér upplýsingar um við hverja hann hefði átt að vera í sambandi. Nánar lýsti EBS aðdragandanum þannig að fyrri hlutinn hefði verið „um vorið þar sem að Magnús hringir í mig þar sem að ég er í fríi og hérna nefnir að þeir vilji bjóða EÁ að kaupa 1% í Kaupþingi ... og svo seinni þátturinn þegar að sem sagt Magnús biður mig að ræða við EÁ um að kaupa meira.“ Aðspurður hverjir „þeir“ væru sagði EBS að eina „nafnið sem ég heyrði var Hreiðar en ég í rauninni bara, mig rámar í það en annað nafn heyrði ég ekki.“ Inntur eftir því hver hefði ákveðið hversu mikið skyldi keypt sagði hann það hafa verið Magnús en „upphæðir sem slíkar sáust ekki hjá mér.“ Við skýrslutöku hjá lögreglu bar EBS á sama veg og sagði að Magnús hefði hringt í sig og sagt að „þeir vilji bjóða eiganda félagsins honum EÁ að kaupa bréf í Kaupþingi og hérna það yrði þá bréf allt að 1% í félaginu og hérna báðu mig að hafa samband við hann og sjá hvort að hann hefði áhuga á þessu. Nú, ég geri það og hérna, og sem sagt hann spyr hvort að það sé, hvaða veð og annað séu menn að hafa orð á og samkvæmt Magnúsi þá vorum við ekki að horfa á nein veð en að þetta átti bara að vera fjármagnað og hýst á Íslandi.“

Ákærði Magnús kvað ákærðu Hreiðar Má og Sigurð hafa setið í stjórn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Magnús kvaðst í störfum sínum ekki hafa fengið fyrirmæli frá forsvarsmönnum móðurbankans á Íslandi og að einu yfirmenn sínir hafi verið stjórn bankans í Luxemborg. Hann kvaðst aldrei hafa talað við EÁ fyrirsvarsmann Desulo Trading Ltd. Hvað varðar hlutabréfakaup þess félags sagði Magnús að hringt hafi verið í sig frá Kaupþingi banka hf. og hann spurður hvort hann teldi að eigandi fyrirtækisins hefði áhuga á gerast hluthafi í bankanum. Þar sem Magnús hefði ekki þekkt EÁ hefði hann ekki treyst sér til að hringja beint í hann heldur beðið viðskiptastjóra EÁ hjá bankanum að gera það. Magnús kvaðst ekki muna með öruggum hætti hver hefði hringt í sig frá bankanum á Íslandi. Sagði hann þetta vera „með mjög sambærilegum hætti og ég greindi frá með Holt. Ég get ekki sagt frá því með óyggjandi hætti.“ Fyrir dómi var Magnúsi bent á að við skýrslugjöf hjá lögreglu hefði hann sagt að annar hvor ákærðu, Ingólfur eða Hreiðar Már, hefði haft samband við sig út af viðskiptum Desulo Trading Ltd. en hann myndi ekki hvor þeirra það hefði verið. Ítrekaði Magnús þá fyrra svar. Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist Magnús aldrei hafa talað „við EÁ út af þessum viðskiptum. Og mig minnir að það hafi tilkomið að, því sem ég best man að Ingólfur Helgason frekar en Hreiðar hafi hringt og spurt hvort ég teldi að EÁ hefði áhuga á viðskiptum við félagið. Og ég bað EBS sjóðsstjóra að hafa samband við EÁ út af þessu og það var nánast mín eina aðkoma að því máli.“

Ákærði Ingólfur bar fyrir héraðsdómi að ákærðu Hreiðar Már og Sigurður hefðu verið mikið erlendis og þeirra tími að einhverju leyti farið í að kynna Kaupþing banka hf. og leita að erlendum fjárfestum. Sín aðkoma að þessum málum hefði hins vegar aðallega verið hér á landi þar sem hann hefði átt fundi með fjárfestum og ýmsum forstöðumönnum fjármálafyrirtækja. Ingólfur kvaðst ekki hafa haft yfirsýn yfir lánveitingar bankans til hlutabréfakaupa en það hafi hins vegar forstjórinn, ákærði Hreiðar Már, og stjórnarformaðurinn, ákærði Sigurður, haft. Ingólfur kvaðst hafa rætt þessi mál við þá Hreiðar Má og Sigurð enda hefðu þeir verið yfirmenn sínir. Einnig kvaðst hann hafa átt fjölmörg samtöl við ákærða Magnús um þetta og boðið honum eftir atvikum hlutabréf til sölu. Þá tók Ingólfur fram að Hreiðar Már og Sigurður hefðu vitað af þeim sölum á hlutabréfum sem hann annaðist. Ingólfur kvaðst ekki hafa átt þá hugmynd að bjóða eiganda Desulo Trading Ltd. að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. með fullri fjármögnun bankans. Kvaðst hann ekki muna eftir því að hafa rætt þessi viðskipti við Hreiðar Má og ekki vita hvort Sigurður hafi haft einhverja aðkomu að þessum viðskiptum. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst Ingólfur ekki hafa verið í „samskiptum við þessa aðila ... Þetta er væntanlega EÁ eða hvað? ... Nei, ég er ekki í neinum beinum samskiptum við hann.“ Aðspurður um hver hafi haft samskipti við EÁ svaraði Ingólfur: „Ég geri ráð fyrir að það sé Kaupþing Luxemborg. Hvort það er Magnús eða einhver annar veit ég ekki ... Já, ég geri ráð fyrir því að ég hafi átt samtöl við Magnús að bjóða honum bréf til kaups.“ Þegar Ingólfur var spurður hvort Hreiðar Már hafi komið að þessum viðskiptum sagði hann: „Ja, ef það var verið að selja bréf í þessum upphæðum að þá hafði hann örugglega að minnsta kosti vitneskju um það. Ég veit ekki hvort hann kom, ég veit ekki hans beinu aðkomu.“

Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi kvaðst ákærði Sigurður fyrir dómi ekkert hafa vitað um hlutabréfaviðskipti Desulo Trading Ltd. og við skýrslutöku hjá lögreglu bar hann á sama veg. Fyrir dómi bar ákærði Hreiðar Már að hann vissi ekki hver hefði átt frumkvæði að þessum viðskiptum en vel gæti verið að hann hefði vitað af þeim þegar þau komu inn á borð lánanefndar. Við skýrslutöku hjá lögreglu sagðist hann ekki vita hver hefði ákveðið viðskiptin en aðspurður hvort hann gæti útilokað að það hafi verið hann svaraði Hreiðar Már: „Nei, ég get líklegast ekkert útilokað að það hafi verið ég, en ég bara man það ekki.“

Í tölvubréfi um miðjan dag 14. maí 2008 til GR starfsmanns í verðbréfamiðlun Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sagði ákærði Magnús: „Desulo“. Því svaraði GR nokkru síðar og sagðist hafa keypt „1 mill at 60.681“ og var þar að líkindum að vísa til kaupa bankans á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. á sænska markaðnum þann sama dag. Í tölvubréf ákærða Magnúsar skömmu síðar til tveggja starfsmanna Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sagði samkvæmt framlagðri þýðingu: „Ég hef samþykkt stutta skammtímafestingu á hlutum í Kaupþingi sem Desulo kaupir, félag í eigu EÁ, hann kaupir í nokkra daga og þá verða hlutirnir fjármagnaðir á Íslandi, við gætum séð nálægt 15 m evra teknar út af reikningnum á nokkrum dögum.“ Að vörmu spori sendi annar starfsmaðurinn tölvubréf á ákærða Magnús og sagðist hafa upplýst lánaeftirlit bankans um þetta.

Ákærði Magnús sendi tölvubréf til ákærða Bjarka í hádeginu 21. maí 2008 og spurði: „Er credit line klar fyrir felagið hans EÁ i sænskum krónum?“ Því svaraði Bjarki að bragði og sagði: „Nei það er ekkert klárt en ég geri ekki ráð fyrir að málið mæti mikilli andstöðu. Mig vantar hins vegar allar upplýsingar til að geta tekið málið áfram fyrir lánanefnd – þ.e. heiti á félaginu, umbeðna lánsfjárhæð og tryggingar.“ Magnús svaraði Bjarka stuttu síðar og sagði: „Beidnin er ad kaupa milli 1 og 2%. Ef thetta fer ekki i gegn tha er betra ad vita thad strax.“ EBS sendi tölvubréf til ákærða Bjarka sama dag, með afriti til ákærða Magnúsar, undir yfirskriftinni „Félag“ og sagði: „Magnús bað mig að senda þér nafn og heimilisfang á félaginu hans EÁ. Þetta er legal address. Postal address er hérna hjá okkur ... Ef fleira vantar þá heyri ég frá þér.“ Með fylgdu upplýsingar um heimilisfang Desulo Trading Ltd. á Kýpur. Bjarki sendi tölvubréf á Magnús síðdegis sama dag og sagði: „OK – nafnið komið, en er hægt að fá nánari upplýsingar um lánabeiðni og fjölda undirliggjandi hluta?“ Því svaraði Magnús stuttu síðar og sagði: „1,5% i felaginu.“ Bjarki spurði þá í tölvubréfi í beinu framhaldi: „kaupverð?“ og því svaraði Magnús að bragði: „Vid erum ad kaupa nuna Segjum 65.“

Kaupþing banki hf. seldi Kaupthing Bank Luxembourg S.A. 5.000.000 hluti í Kaupþingi banka hf. 28. maí 2008 á genginu 750 og var söluverðið 3.750.000.000 krónur. Uppgjörsdagur viðskiptanna var 2. júní 2008 og var um utanþingsviðskipti að ræða. IV og ákærði Einar Pálmi ræddu sem fyrr segir saman í síma þennan dag klukkan 15.10 og sagði IV: „Sæll, heyrðu IH fimm á 750“ og Einar Pálmi svaraði: „Þú hefur áhuga á fimm?“ Því svaraði IV játandi og sagðist Einar Pálmi þá selja honum „fimm milljónir á 750 í Kaupþingi.“ Klukkan 15.56 ræddu þeir aftur saman í síma og sagði IV þá: „Sæll, heyrðu, ég var ekki að hlusta nógu vel þegar Ingólfur hringdi í mig áðan ... Ert þú ekki örugglega að kaupa þetta eða ... varst þú að selja þetta?“ Einar Pálmi svaraði: „Ég seldi þér.“ IV spurði þá: „Þú varst að selja?“ og játti Einar Pálmi því. Þá sagði IV: „Já, ókei, ég bara, út af þú veist, þetta voru 2%. Ég hélt að, ég skildi það ekki alveg, jæja. Ég þarf ekki að skilja allt“ og tók Einar Pálmi undir það. Þá sagði IV: „Ég hélt að þá væru, þess vegna fór ég að fá second thoughts. Þá hélt ég, nei andskotinn er nú ekki að“. Einar Pálmi svaraði: „Já, nei, ég seldi“ og sagði IV þá: „Selja á því ... andskotinn, jæja.“ Þá sagði Einar Pálmi: „Við gerðum það“ og því svaraði IV þannig: „Já, já, okei, þá hérna þá hérna þurfum við, ég þarf ekki að skilja þetta. Ókei.“

IV sendi tölvubréf til ákærða Bjarka daginn eftir, 29. maí 2008, þar sem hann sagði: „Veist þú, verður þetta tekið í gegnum Kaupþing Lúx eða beint á félagið og er þetta ekki örugglega bréf í isk ekki sek eins og var um daginn, en IH bað um þetta í isk í gær, bara að tryggja að það sé rétt.“

EBS sendi tölvubréf til ákærða Bjarka 30. maí 2008 undir yfirskriftinni „Desulo“ og sagði: „Varðandi lán til félagsins þá höfum við keypt í SEK 2.349.500 bréf á 63 og 5.000.000 bréf á 754,5. Þetta eru eignir og samsvarandi skuldir félagsins.“

EBS sendi aftur tölvubréf til ákærða Bjarka 2. júní 2008 undir sömu yfirskrift og spurði: „Vantar eitthvað fleira til að ganga frá láninu? Hvenær getum við keyrt viðskiptin til Íslands?“ Ákærði Bjarki svaraði EBS næsta dag og sagði: „Held ég sé kominn með allt frá ykkur – það þarf að ganga frá samþykki lánanefndar áður en við getum keyrt viðskiptin. Geri ráð fyrir að það liggi fyrir í vikunni.“ Þá sendi Bjarki tölvubréf til RMJ undir yfirskriftinni „Desulo“ og sagði: „fyi þyrftum að ganga frá beiðni til lánanefndar vegna þessa.“

Þann 4. júní 2008 seldi Kaupþing banki hf. 1.500.000 hluti í bankanum til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á genginu 760 og var söluverðið 1.140.000.000 krónur. Uppgjörsdagur viðskiptanna var 9. júní 2008 og var FRR skráður miðlari vegna kaupanna. Um utanþingsviðskipti var að ræða. Þann dag sendi framkvæmdastjóri á lögfræðisviði Kaupthing Bank Luxembourg S.A. tölvubréf undir yfirskriftinni „Desulo (Cyprus company)“ til starfsmanns á sjóða- og fyrirtækjasviði sama banka með afriti til EBS og annars starfsmanns bankans og sagði: „Can you please arrange all the account opening for this company in Kaupthing Iceland. According to EBS DR had already started to work on this, but she is not in today. It is important that this file will be completed today, as there will be a big transaction tomorrow. An Icelandic kennitala needs to be applied for as well and I can assist you with that one.“ Nokkru síðar sama dag ræddu saman í síma FRR og EBS vegna kaupa á 1.500.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. FRR kvaðst hafa talað við „Magga“ og hefðu þeir 13 eða 12 mínútur til að „keyra áður en það er lokað. Réttara sagt við höfum ekki nema 8 mínútur vegna þess það fer í lokunaruppboð, þannig þetta þarf að ganga svolítið hratt.“ EBS spurði þá hvort keyra ætti þessar „5 milljónir eða?“ og FRR svaraði: „Já er það núna, er það 5? Ég var ekki búinn að heyra upphæðina. Nei það var ekki svo mikið það er 1 milljón held ég.“ EBS spurði hvort þeir hefðu verið „búnir að ganga frá 5, eða?“ og því svaraði FRR: „Já það var gengið á 5 einhvern tímann um daginn þegar ég var úti, vorum að spá í að taka 1 í viðbót held ég ... Talaðu við Magga.“ Stuttu síðar ræddu þeir aftur saman í síma þar sem EBS sagði þetta vera staðfest. FRR svaraði: „Já 1,5 á 760, þú kaupir ... Ok. Keyri það.“ FRR og RMJ ræddu í framhaldi af þessu saman í síma og spurði FRR hvort RMJ væri „að fara að lána pening ... honum EÁ.“ RMJ kvað svo vera og sagði: „Það fer á morgun fyrir lánanefnd útlána.“ FRR sagði þá: „Ok þessi viðskipti voru í dag ... Ég get haft það t+5 eða 6 eða hvað þú þarft.“ RMJ svaraði og sagði: „Bara what ever.“ Áfram ræddu þeir viðskiptin og FRR sagði: „Þetta sem hann tók um daginn er ekki heldur búið að græja það eða?“ og svaraði RMJ því neitandi. FRR sagði að væntanlega væri „ekki búið að keyra value-ið ég var úti, á reyndar eftir að fá upplýsingar, fæ þær bara í fyrramálið ... Þannig að jú bara fínt að fá báðum sama value“ og því svaraði RMJ með því að segja: „Sama value á báðum, já, segjum það bara“. Ákærði Magnús sendi í lok þessa dags tölvubréf til GR með afriti til EBJ og sagði: „Hi One more million for EÁ in kaup ir.“ EBJ svaraði: „FRR said 1,5m is that correct?“ Ákærði Magnús svaraði að bragði og sagði: „Sorry yes 1,5.“

Eins og nánar verður rakið síðar samþykkti lánanefnd samstæðu Kaupþings banka hf. á fundi 5. júní 2008 að veita Desulo Trading Ltd. lán til að fjármagna hlutabréfakaup félagsins á tímabilinu 14. maí til 4. júní 2008. GR sendi tölvubréf þann dag til ákærða Magnúsar og spurði: „Just the confirmation, Iceland didn´t take 0.4% like the others but just 0.1%, do you want us to take a different one than last time 0.1+0.1?“ og því svaraði Magnús játandi.

FRR og EBS ræddu saman í síma 10. júní 2008 og sagðist FRR vera „með eina í viðbót fyrir þig.“ EBS spurði á móti hvort væri „bara búið að go-a það eða?“ Því svaraði FRR: „Jaaa, ég var að fá símtal hérna frá aðila sem var ekki búinn, aa þarna. Sem var ekki búinn að ná í félaga þinn en sagði að ég ætti að tala við þig og að þetta væri klárt. Hann myndi klára.“ EBS svaraði: „Ok. Djíses kræst ... Djös magn er þetta maður.“ Svaraði FRR því játandi. Fyrir dómi sagði FRR að „aðilinn“ sem hann vísaði til í símtalinu væri væntanlega ákærði Ingólfur og hann gerði ráð fyrir að „félaginn“ væri ákærði Magnús.

Eins og nánar verður rakið hér á eftir voru undirritaðir tveir lánssamningar milli Kaupþings banka hf. og Desulo Trading Ltd. 11. júní 2008. Var annar að fjárhæð 4.994.883.619 krónur og hinn að fjárhæð 150.534.840 sænskar krónur. Gjalddagi beggja lánanna var 13. desember 2008. Veðsamningur dagsettur 11. júní 2008 var gerður milli Kaupþings banka hf. og Desulo Trading Ltd. vegna lánveitinga bankans til félagsins. Í samningnum var mælt fyrir um að Kaupþing banki hf. tæki að handveði 6.500.000 hluti í bankanum af íslenska markaðnum og 2.349.500 hluti af þeim sænska. Eins og nánar verður rakið síðar benda gögn málsins ekki til þess að neitt annað en hlutabréfin hafi átt að vera til tryggingar fyrir umræddum lánveitingum. Lánin voru greidd 13. júní 2008 inn á reikning Desulo Trading Ltd.

Þann 11. júní 2008 seldi Kaupþing banki hf. 1.000.000 hluti í bankanum til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á genginu 750 og var kaupverðið 753.000.000 krónur með þóknun. Sama dag voru 754.500.500 krónur greiddar út af reikningi Desulo Trading Ltd. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. vegna kaupanna. Uppgjörsdagur viðskiptanna, sem voru utanþingsviðskipti, var 16. júní 2008 og samkvæmt kaup- og sölunótum voru eigin viðskipti bankans seljandi bréfanna og miðlari FRR. Hlutabréfin voru 1. júlí 2008 færð inn á vörslureikning Desulo Trading Ltd. hjá Kaupþingi banka hf. Meðal gagna málsins eru tölvubréfasamskipti þennan dag milli regluvarðar Kaupþings banka hf., ákærða Einars Pálma og tveggja annarra starfsmanna bankans. Þar óskaði regluvörðurinn eftir upplýsingum um hvort eignarhlutur bankans í eigin bréfum næmi meira en 5%. Annar þessara starfsmanna svaraði skömmu síðar og sagði eignarhlut bankans vera 5,01%. Einar Pálmi svaraði og sagði að FRR ætti eftir að bóka sölu á 1.000.000 hlutum og því væri þessi tala ekki nákvæm. Stuttu síðar staðfesti starfsmaðurinn að sala FRR hefði gengið í gegn og væri eignarhlutur bankans orðinn 4,88%.

Framkvæmdastjóri á lögfræðisviði Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sendi 12. júní 2008 tölvubréf til starfsmanns á lögfræðisviði Kaupþings banka hf. með afriti til EBS og yfirlögfræðings Kaupþings banka hf., og sagði að skjalagerð vegna viðskipta Desulo Trading Ltd. hefði dregist. Þá bætti hann við: „Svo að umrædd viðskipti lenda ekki í uppnámi út af nokkrum forms atriðum, og á þeirri forsendu að við útvegum félagið og sjáum um samskipti við þjónustuaðilann á Kýpur, að þá óska ég eftir að reikningur Desulo verði opnaður á þeirri forsendu að ég ábyrgist að öll þau atriði sem út af standa verði komin í hús til þín á næstu dögum.“

EBS og FRR ræddu saman í síma 13. júní 2008 og þegar nokkuð var liðið á samtalið sagði EBS: „En heyrðu hérna, þessi milljón þarna aukalega í Kaupþingi ... Þarna varstu búinn að senda miðann, eða?“ FRR kvaðst hafa gert það og spurði hvort miðinn hefði ekki skilað sér. Í framhaldinu sagðist hann skyldu finna nótuna og spurði hvort hann ætti að senda hana beint á EBS. Þá sagði EBS: „Sendu hana ... á mig og GR ... Út af því að ég er búinn að græja allt þetta þarna gamla sukkið, núna þarf ég að búa til einn snák í kringum þetta dæmi ... En verður eitthvað meira af þessu, er þetta ekki búið í bili. Hefurðu eitthvað heyrt um meira með Kaupþing?“ FRR svaraði og sagði: „Ég held þetta gæti orðið jafnvel eitthvað meira.“ EBS sagði jafnframt að það kæmi „eitthvað meira ... Einhverjir nýir túlipanar.“

Þann 16. og 18. júní 2008 voru hlutabréf, alls 8.849.500 hlutir, lögð inn á vörslureikning Desulo Trading Ltd. og varð félagið þar með eigandi að 1,2% útgefins hlutafjár í Kaupþingi banka hf.

Þann 25. júní 2008 ræddu RMJ og starfsmaður Arion verðbréfavörslu saman í síma um hvernig unnt væri að færa hlutabréfin, sem Desulo Trading Ltd. hafði keypt, á safnreikning, en í samtalinu tók RMJ fram að „þeim er illa við að þetta sjáist á hluthafalistanum hjá Kaupþingi ... Þeir myndu helst vilja þetta færi bara. Bara Arion myndi fronta þetta.“ Starfsmaðurinn spurði þá hvort RMJ væri að tala um safnreikning og játti hann því og spurði hvernig það virkaði. Sagði starfsmaðurinn að það þyrfti að stofna nýtt safn, losa handveðið og færa eignirnar á milli. Síðar í samtalinu sagði RMJ að þetta væri bara kúnni hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. „sem er með lán hjá okkur. Og þetta er bara veðsett hjá okkur. Þetta ... er bara vörslureikningur hjá okkur hérna ... nei þeir vilja ekki að þetta sjáist á hluthafalistanum sko ... Þeir nefndu bara að þetta færi undir Arion ef það væri séns sko ... Er það ekki, þá myndi sem sagt koma Arion sem hluthafi sko.“ Í framhaldi af þessu símtali sendi RMJ svohljóðandi tölvubréf til starfsmannsins með afriti til EBS: „Viltu vinsamlegast færa eignir Desulo Trading ... af vörslusafni ... yfir á safnreikning Arion? Þú lætur svo vita þegar þú vilt að ég losi handveðið fyrir flutninginn.“

Kaupþing banki hf. seldi 1.000.000 hluti í bankanum 31. júlí 2008 til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á genginu 710 og var kaupverð þeirra 712.840.000 krónur með þóknun. Sama dag voru 714.260.000 krónur greiddar út af reikningi Desulo Trading Ltd. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. vegna kaupanna. Uppgjörsdagur viðskiptanna var 8. ágúst 2008. Í símtali fyrrgreinda daginn klukkan 15.17 lét FRR EBS vita að hann væri búinn að „klára milljón“ á hann. EBS spurði í framhaldinu hvort eitthvað meira yrði „af þessu“ og kvaðst FRR telja að svo yrði ekki. Sagði EBS þá að þetta væri orðið „alveg dágott.“ Í símtalinu sagðist FRR „keyra það beint á Lúx. Ekki það náttúrulega, ekki af hluthafaskránni. Hins vegar kemur þetta náttúrulega héðan.“ EBS svaraði og sagði: „Þannig að þetta var fyrst keypt á Lúx, og svo færðum við þetta heim til Íslands. En ég veit alveg hvað þú átt við, færðu þetta bara sams konar undir Arion þegar þetta fer heim síðan sko ... Keyrðu þetta beint á Lúx. En hringdu fyrst í GR, og hérna. Þannig að sko, ég var eitthvað að treida með SÁ í byrjun vikunnar, það varð allt vitlaust. Maður má ekki gera neitt lengur. Maður má ekki eiga nein viðskipti ... Þetta er einhver fóðrun, við skulum orða það þannig.“ Í tölvubréfi klukkan 15.28 til GR sagði FRR: „As we discussed I bought for you Kaupthing 1.000.000 shares @ 710,0.“

Þann 1. ágúst 2008 seldi Kaupþing banki hf. 1.000.000 hluti til Kaupthing Bank Luxembourg S.A. á genginu 710 og var kaupverðið 712.840.000 krónur með þóknun. Sama dag voru 714.260.000 krónur teknar út af reikningi Desulo Trading Ltd. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. vegna kaupanna. Uppgjörsdagur viðskiptanna var 8. ágúst 2008. Um utanþingsviðskipti var að ræða og samkvæmt kaup- og sölunótum voru eigin viðskipti Kaupþings banka hf. seljandinn og skráður miðlari FRR.

RMJ sendi 7. ágúst 2008 tölvubréf meðal annars til EBS undir yfirskriftinni „Desulo díllinn“. Þar sagði: „Á morgun þarf að greiða fyrir hlutabréfaviðskipti (2 millj. hluta í Kaupþingi) sem skráð eru á nafni Kaupthing Lúx. Raunverulegur kaupandi er hins vegar Desulo Trading Ltd. ... og erum við að lána þeim fyrir kaupunum ... Það er þannig að þegar samningarnir hafa borist undirritaðir ... þá er lánsfjárhæðin ... lögð inn á reikning Desulo hjá okkur ... Það þarf að millifæra peningana inn á vörslureikning Kaupþing Lúx ... því Kaupþing Lúx er skráð fyrir kaupunum. Bréfin (2 nom. í KAUP) verða keyrð inn á það safn og það skuldfært fyrir þessari fjárhæð ... Þegar búið er að keyra viðskiptin og bréfin komin inn á safn KÞ Lúx þarf að færa bréfin þaðan yfir á vörslusafn Desulo Trading ... Þeir eiga að vera með nominee reikning hjá Arion og tryggja þarf að bréfin fari á þann reikning“.

FRR ræddi 8. ágúst 2008 við annan starfsmann Kaupþings banka hf. í síma og sagði að passa yrði að Desulo Trading Ltd. kæmi ekki inn á hluthafalista bankans vegna hlutabréfakaupanna. Í samtalinu sagði FRR: „Heyrðu, það er eitt sem ég vil passa, ég man ekki hvernig við gerðum þetta síðast. Málið er, við keyrðum þetta fyrst, eða síðast þá keyrðum við þetta á Desulo og þá duttu þeir inn á hluthafalistann ... Við viljum það ekki, þess vegna færum við þetta yfir á.“ Því svaraði starfsmaðurinn og sagði: „Þess vegna keyrum við viðskiptin núna í gegnum Kaupþing Lúx.“ Þá sagði FRR: „Já, ég er búinn að því“ og bætti starfsmaðurinn við: „Já, þá sést þetta hvergi, en síðan kemur.“ Þann 12. ágúst 2008 voru hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. sem keypt voru 31. júlí og 1. ágúst sama ár færð inn á vörslureikning Desulo Trading Ltd. hjá bankanum.

Kaupþing banki hf. seldi Desulo Trading Ltd. samtals 6.500.000 hluti í bankanum á tímabilinu frá 16. til 19. september 2008 í fimm áföngum. Þannig keypti Desulo Trading Ltd. 16. september 3.000.000 hluti á genginu 675, 17. september 1.000.000 hluti á genginu 683, 17. september 1.000.000 hluti á genginu 685, 18. september 1.000.000 hluti á genginu 680 og 19. september 500.000 hluti á genginu 716. Samtals var kaupverðið með þóknun 4.447.296.750 krónur. Um var að ræða utanþingsviðskipti og samkvæmt kaup- og sölunótum voru eigin viðskipti Kaupþings banka hf. seljandi og skráður miðlari FRR. Hlutabréfin voru öll lögð inn á vörslureikning Desulo Trading Ltd. hjá Kaupþingi banka hf. Þessi kaup voru eins og fyrri kaup Desulo Trading Ltd. fjármögnuð af Kaupþingi banka hf. og nú með lánssamningi dagsettum 26. september 2008 að fjárhæð 4.130.000.000 krónur.

Í tölvubréfi sem starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sendi ákærða Magnúsi síðdegis 18. september 2008 undir yfirskriftinni „EÁ“ sagði meðal annars samkvæmt framlagðri þýðingu: „Ég botna í alvöru ekki í þessu ... 05.09 var heildarskuld samstæðunnar EUR 72.2 milljónir. 17.09 var heildarskuld samstæðunnar EUR 92.3 milljónir. Aukningin er EUR 20.1 milljónir!!! Enn furðulegra ... aukningin hefur verið notuð til að kaupa KAUP hluti (sem við getum ekki samþykkt sem veð)!!!!! Ég vil ganga úr skugga um að þér sé algerlega kunnugt um þetta. Gætirðu vinsamlegast staðfest samþykki þitt á ofangreindri stöðu.“ Magnús svaraði í tölvubréfi stuttu síðar og sagði: „Hæ, þetta hljóta að vera mistök. Ég hringi í þig.“

Að morgni 19. september 2008 ræddi FRR í síma við starfsmann Kaupþings banka hf. um viðskipti Desulo Trading Ltd. FRR sagði: „Heyrðu, ég er búinn að kaupa líklegast 6 milljónir bréfa í Kaupþingi síðustu 3 daga ... Allt á Kaupþing Lúx ... Einu sinni 3 milljónir og þrisvar sinnum ein milljón. Kaupandinn á þessu er, heitir Desulo, en ég keyrði þetta á Kaupþing Lúx ... við gerðum það einu sinni bakfærðum það og keyrðum á Kaupþing Lúx. En nú vilja menn þetta sé keypt sko hérna heima bara. Ekki á Kaupþing Lúx ... Og mér skilst að ÍB, hún geti hjálpað okkur við það að keyra þetta á Desulo beint, en samt undir þetta safn sem þetta er á í dag. Þeir eiga meira af bréfum sko, þannig að þetta sjáist ekki í hluthafaskránni ... Hún veit þetta. EBS var í þessu. Við keyptum eitthvað af bréfum fyrir nokkrum mánuðum síðan ... Þetta á að fara inn á sama safn. En, en, að vera sem sagt undir sama hatti. En að vera sem sagt keyrt beint á þá en ég vil ekki að þetta sjáist í hluthafaskránni.“

Forstöðumaður lánastýringar Kaupþings banka hf. sendi 19. september 2008 tölvubréf til RMJ undir yfirskriftinni: „Ytri endurskoðendur – fundur í næstu viku.“ Afrit var sent meðal annars til ákærðu Bjarka og Bjarkar. Í tölvubréfinu sagði: „Ytri endurskoðendur bankans (KPMG) óska eftir að ræða við þig um tryggingar og virði þeirra vegna“ fjögurra nafngreindra félaga. Einnig „um það hvernig Desulo Trading ehf. ætli að greiða upp lán í desember 2008.“ Þessu svaraði ákærði Bjarki og sagði: „Good luck RMJ, það verður auðvelt fyrir þig að svara þessu!“ Því svaraði RMJ og sagði: „hehe ... Það kemur víst alltaf að skuldadögum – ég segi bara líkt og Nick Leeson sagði við endurskoðendur Barings banka: „ég var að vona að þið mynduð ekki fatta þetta ...“. Annars sýnist mér að ég þurfi að láta taka oftar úr mér tennur m.v. hvernig markaðirnir eru í dag (ég væri til í að fórna öllu stellinu ef það er það sem þarf ...:-)“.

Þann 22. september 2008 seldi Desulo Trading Ltd. 500.000 hluti í Kaupþingi banka hf. til bankans á genginu 714 og var söluverðið samkvæmt sölunótu 355.571.650 krónur með þóknun. Var þarna um að ræða sömu hluti og félagið hafði keypt af bankanum 19. september 2008 svo sem áður er lýst. Miðlari viðskiptanna var FRR. Sama dag, klukkan 17.15, sendi RMJ tölvubréf til EBS undir yfirskriftinni „Desulo.“ Þar sagði: „Ég var að fá nýjar nótur frá FRR þar sem viðskipti Desulo eru keyrð beint inn á safn Desulo en ekki inn á safn KÞ-Lúx. Á þetta að vera svona? Þá læt ég leggja beint inn á safn Desulo í stað þess að peningurinn millilendi inn á safni KÞ Lúx.“ Í framhaldinu velti RMJ því upp hver þóknun ætti að vera í viðskiptunum. EBS svaraði klukkan 18.31 og sagði: „Já við höfum þetta svona og slepptu okkur í þóknun“.

EBS sendi tölvubréf til RMJ 23. september 2008 klukkan 13.41 og sagði: „Geturðu keyrt á mig nýja stöðu þegar viðskiptin value 26/09 eru komin í gegn“. RMJ svaraði klukkan 13.46 og sagði: „Já, geri það. Er ekki rétt að það hafi verið seld 500.000 bréf af eign Desulo sem verði greidd á fimmtudaginn?“ Því svaraði EBS klukkan 13.47 og sagði: „Ég vissi að það færi eitthver hluti, en hversu mikið var ekki á hreinu. Ég heyri í FRR“. RMJ svaraði síðan EBS með tölvubréfi sama dag klukkan 13.48 og sagði: „Jú, FRR nefndi þessa tölu. Þá er það á hreinu.“

Í tölvubréfi RMJ 25. september 2008 til ákærða Bjarka undir yfirskriftinni „V/fundar með endurskoðendum í dag“ sagði: „Ég held það væri ágætt ef við næðum að stilla saman strengi okkar vegna fundarins með endurskoðendunum ... í dag. Ég ræddi þetta aðeins við Björk í gær og það væri ágætt að við værum öll sammála um hvernig ég svara fyrir t.d. Desulo o.fl.“

Lánin sem Kaupþing banki hf. veitti Desulo Trading Ltd. á tímabilinu 11. júní til 26. september 2008 fengust ekki greidd á gjalddaga 13. desember sama ár. Samkvæmt minnisblaði innri endurskoðunar til skilanefndar Kaupþings banka hf. 7. júní 2009 voru öll lánin í vanskilum.

5

Kaupþingi banka hf. var án samþykkis Fjármálaeftirlitsins ekki heimilt að eiga eða taka að veði eigin hluti sem næmu hærri fjárhæð en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár í bankanum, sbr. þágildandi ákvæði 1. mgr. 29. gr. laga nr. 161/2002, og var honum skylt að flagga á grundvelli 93. gr. laga nr. 108/2007 ef farið var yfir 5% mörk í þeim efnum. Samkvæmt framburði ákærða Ingólfs fyrir dómi, sem fær stoð í framburði ákærða Sigurðar og öðrum gögnum málsins, var það sammæli þeirra sem sátu í hinni óformlegu stjórn Kaupþings banka hf. á Íslandi, að hvað sem liði lagaheimildum skyldi stefnt að því að bankinn færi ekki yfir framangreind 5% mörk hvað varðar eignarhald og veð í eigin hlutum.

Vegna þeirrar háttsemi ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar og Ingólfs, sem þeir ásamt ákærðu Einari Pálma, Birni Sæ og Pétri Kristni voru hér að framan sakfelldir fyrir samkvæmt I. kafla ákæru, söfnuðust upp hjá Kaupþingi banka hf. eigin hlutir í bankanum. Varð hann óhjákvæmilega að losa sig við þá, ef ætlunin var að halda áfram hinum umfangsmiklu kaupum eigin hluta í bankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í kauphöllum, en halda sig jafnframt innan flöggunarmarka. Tölvubréf og endurrit af upptökum símtala frá ákærutímabilinu, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, gefa ásamt öðrum gögnum málsins ótvírætt til kynna að það hafi ítrekað gerst að hlutfall eigin hluta í Kaupþingi banka hf. af heildarhlutafé félagsins hafi verið komið nálægt 5% mörkunum, sem hefði kallað á flöggun, og virðist hlutfallið oftar en einu sinni hafa farið yfir þau mörk, að minnsta kosti í skamman tíma.

Þegar sú staða var uppi í rekstri Kaupþings banka hf. á ákærutímabilinu að hann var kominn nálægt 5% flöggunarmörkum eða yfir þau var af bankans hálfu gripið til þess ráðs að selja eigin hluti í bankanum í stórum utanþingsviðskiptum, eins og nánar er lýst hér að framan, í stað þess að selja þá aftur á sama vettvangi og þeir höfðu verið keyptir. Er engin haldbær skýring komin fram á því hvers vegna svo rík áhersla var lögð á það að forðast flöggun í lengstu lög. Þó má ganga út frá því að með sölu hlutanna í umræddum utanþingsviðskiptum hafi bankinn komið í veg fyrir að hin stórfelldu kaup hans á eigin hlutum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í kauphöllum kæmust til vitundar almennings, þar á meðal þeirra þúsunda einstaklinga og félaga sem áttu hluti í bankanum. Liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að reynt var að leyna umræddum hlutabréfakaupum með flókinni færslu hinna seldu hluta milli reikninga í Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og Kaupþingi banka hf., þannig að hlutafjáreign félaganna þriggja í síðarnefnda bankanum sæist ekki á skrá yfir hluthafa hans, andstætt ákvæðum þágildandi 30. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og 7. greinar samþykkta bankans. Á það sérstaklega við í tilviki Desulo Trading Ltd. og verður ekki séð af gögnum málsins að eigandi þess félags hafi þar átt hlut að máli. Jafnframt gerði sala hlutanna í stórum utanþingsviðskiptum bankanum kleift að ráða verði þeirra án tillits til raunverulegs framboðs og eftirspurnar á markaði. Eiga framangreindar ályktanir sér ótvíræða stoð í tölvubréfum og endurritum símtala frá ákærutímabilinu, sem rakin hafa verið, og samrýmast framburðum ákærðu og vitna fyrir dómi. Þannig bar ákærði Ingólfur aðspurður um hvort Kaupþing banki hf. hefði í einhverjum tilvikum keypt eigin hluti á skipulegum markaði, svo æðstu stjórnendur hans gætu síðan fundið fjárfesta sem keyptu hlutina í stærri skömmtum, að þetta hefði verið samhangandi mynd. Æðstu stjórnendurnir hefðu eytt talsverðum tíma í að finna fjárfesta til að stækka og styrkja hluthafahópinn sem væri eitt af hlutverkum æðstu yfirmanna skráðra félaga. Jafnframt bar Ingólfur að þegar bankinn hefði verið kominn nálægt 5% flöggunarmörkunum hefðu stjórnendur hans verið virkari í leit að fjárfestum. Er þetta í samræmi við það sem fram kom hjá Ingólfi við skýrslutöku hjá lögreglu en þar bar hann að þegar bankinn var kominn nærri 5% mörkunum hefði verið þrýstingur á að selja bréfin í utanþingsviðskiptum. Orðrétt sagði hann um þau úrræði sem gripið var til: „Það var pressa á að selja bréf til þess að fara ekki yfir 5%. Það er svarið ... það er ekkert launungarmál, er ekkert launungarmál. Það liggur fyrir, þið sjáið það í tölunum.“

Fyrir dómi var borið undir ákærða Hreiðar Má að ákærði Ingólfur hefði við skýrslutöku hjá lögreglu sagt „að á sama tíma og eigin viðskipti söfnuðu eigin bréfum þá hafi yfirmenn hans farið sérstaklega í það, með hans yfirmenn hafi hann átt við þig og Sigurð, farið sérstaklega í að selja bréf og jafnframt að reyna að fá erlenda fjárfesta að banka, er það rétt?“ Því svaraði Hreiðar Már þannig: „Að fá erlenda fjárfesta að banka það er rétt og var nokkuð algengt.“ Þá var Hreiðar Már í framhaldinu spurður að því hver innan bankans hefði haft yfirsýn yfir bæði kaup eigin viðskipta á bréfum í bankanum og síðan lánveitingar bankans til hlutabréfakaupa í Kaupþingi banka hf. Því svaraði Hreiðar Már þannig: „Það hefur verið áhættustýring, hún hefur haft yfirsýn yfir þetta, ég í mínu starfi hef haft yfirsýn yfir þetta. Nú reikningshaldið hefur líklega haft yfirsýn yfir þetta líka.“ Spurður um hvort hann teldi að ákærði Sigurður hefði haft slíka yfirsýn svaraði Hreiðar Már: „Þessar lánveitingar sem fóru í gegnum lán eins og ... það náttúrulega [fór] ekki fram hjá honum.“ Fyrir dómi var hið sama borið undir ákærða Sigurð og kvað hann það rétt að hann hefði unnið mikið að því að kynna bankann fyrir mögulegum fjárfestum. Aðspurður um hver innan bankans hefði haft „yfirsýn bæði yfir kaup og eigin eign eigin viðskipta á bréfum í bankanum og lánveitingar bankans til hlutabréfakaupa í Kaupþingi“ svaraði Sigurður: „Ja, stjórnin hefur náttúrulega yfirsýn yfir starfsemi bankans“ og gagngert spurður um hvort hann hefði haft þessa yfirsýn sagði Sigurður: „Sem stjórnarmaður, já, já. Alveg eins og aðrir stjórnarmenn.“

Samkvæmt gögnum málsins fór alltaf af stað sama atburðarás þegar Kaupþing banki hf. greip til þess ráðs að losa sig við eigin hluti í þeim utanþingsviðskiptum sem II. kafli ákæru tekur til. Stjórnendur hans settu sig í samband við forstjóra Kaupthing Bank Luxembourg S.A., sem eins og áður er fram komið var dótturfélag bankans, og fólu honum að kanna afstöðu fyrirsvarsmanna félaga, sem yfirleitt voru stórir viðskiptavinir dótturfélagsins, til þess að gerast hluthafar í Kaupþingi banka hf. eða auka við hlutafjáreign sem fyrir var. Er fram komið að þau boð voru jafnframt borin frá stjórnendum bankans að hann myndi að öllu leyti fjármagna kaupin með lánveitingum og að einu tryggingarnar yrðu veð í hlutunum sjálfum ef frá er talið eitt tilvik. Var þá ýmist að forstjóri dótturfélagsins setti sig sjálfur í samband við fyrirsvarsmenn viðkomandi félaga eða fól starfsmanni sínum að gera það. Í framhaldinu hófust umfangsmikil kaup félaganna á hlutum í Kaupþingi banka hf., þar sem ákvörðun um fjölda hluta og verð þeirra réðist samkvæmt gögnum málsins í samskiptum starfsmanna dótturfélagsins og Kaupþings banka hf. en án beinnar aðkomu og afskipta fyrirsvarsmanna félaganna, að minnsta kosti hvað varðar félögin Holt Investment Group Ltd. og Desulo Trading Ltd. Er eins og áður greinir ekki ljóst hvernig verð hlutanna var ákveðið í þeim utanþingsviðskiptum, sem II. kafli ákæru tekur til, en víst er samkvæmt gögnum málsins að sú verðákvörðun réðist ekki af raunverulegu framboði hlutanna á markaði og eftirspurn.

Stjórnendur Kaupþings banka hf. báru ábyrgð á þeirri tilhögun á sölu eigin hluta sem áður er lýst. Með því að standa að sölu hlutanna á þann hátt sem var gert var ranglega látið líta svo út að félögin Holt Investment Group Ltd., Fjárfestingafélagið Mata ehf. og Desulo Trading Ltd. hefðu lagt fé til kaupa á hlutum í Kaupþingi banka hf. og borið af þeim fulla markaðsáhættu, þegar reyndin var sú að kaupin voru að fullu fjármögnuð með lánveitingum frá bankanum, sem bar sem seljandi og lánveitandi áfram fulla markaðsáhættu af hlutunum, enda voru ýmist litlar eða engar aðrar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánanna en hinir seldu hlutir. Þau viðskipti með hluti í bankanum á ákærutímabilinu sem hér um ræðir byggðust því á blekkingum og sýndarmennsku og voru þannig líkleg til að gefa eftirspurn eftir hlutum í bankanum ranglega og misvísandi til kynna. Er samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að um markaðsmisnotkun hafi verið að ræða í starfsemi Kaupþings banka hf. hvað varðar sölu eigin hluta í bankanum til félaganna Holt Investment Group Ltd., Fjárfestingafélagsins Mata ehf. og Desulo Trading Ltd. og að hún varði við þau lagaákvæði sem tilgreind eru í ákæru. Kemur þessu næst til úrlausnar hverjum verður virt til sakar sú refsiverða háttsemi.

Ákærði Ingólfur var forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og heyrðu sex svið í skipuriti félagsins undir hann. Meðal þeirra var fjárstýring og undir því sviði starfaði deild eigin viðskipta en hún var skráður seljandi í öllum þeim utanþingsviðskiptum sem II. kafli ákæru tekur til. Um starfsskyldur Ingólfs giltu auk ákvæða í samþykktum félagsins ráðningarsamningur frá 1. janúar 2006. Í honum sagði að Ingólfur væri „forstjóri/bankastjóri Kaupþings Bank á Íslandi ... Hann ber ábyrgð á rekstri Kaupþings banka á Íslandi ásamt stjórn bankans á Íslandi ... Forstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri og framfylgja við það fyrirmælum og stefnu stjórnar. Daglegur rekstur felur ekki í sér óvenjulegar eða sérlegar aðgerðir. Forstjóri grípur einungis til slíkra aðgerða að fenginni sérstakri heimild stjórnar bankans, nema ómögulegt reynist að bíða ákvarðana stjórnar án þess að rekstur bankans hljóti verulegan skaða af. Í slíkum tilvikum skal tafarlaust tilkynna stjórn bankans um slíkar aðgerðir ... Forstjóri situr stjórnarfundi og að gera stjórnarmönnum grein fyrir öllum atvikum í rekstri bankans er þeir telja máli skipta ... Forstjóri getur ávallt verið fulltrúi félagsins í þeim málum er undir hann heyrir. Ingólfur heyrir undir stjórn Kaupþings Banka á Íslandi og forstjóra Kaupþings Banka samstæðunnar ... Að öðru leyti fer um starfssvið hans eftir samþykktum bankans.“

Fram er komið og óumdeilt að stjórnendur Kaupþings banka hf. settu sig í samband við ákærða Magnús sem forstjóra Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og fólu honum að kanna hug fyrirsvarsmanna áðurgreindra þriggja félaga til þeirra hlutabréfakaupa sem II. kafli ákæru lýtur að. Er framburður Magnúsar fyrir dómi ótvíræður um það atriði en á hinn bóginn óljósari um hvaða stjórnendur Kaupþings banka hf. það voru sem fólu honum erindreksturinn. Þó liggur fyrir samkvæmt framburði Magnúsar og ákærða Ingólfs að í tilviki Fjárfestingafélagsins Mata ehf. var það Ingólfur sem hringdi í Magnús og bað hann að reka erindið gagnvart félaginu. Í tilviki Holt Investment Group Ltd. bar Magnús fyrir dómi að haft hefði verið samband við sig „frá móðurfélaginu“ eins og hann komst að orði en hann kvaðst ekki muna með óyggjandi hætti hver það hefði verið. Við skýrslutöku hjá lögreglu bar Magnús að hann gerði ráð fyrir því að það hefði verið annað hvort ákærði Ingólfur eða ákærði Sigurður, en hann útilokaði ákærða Hreiðar Má. Ákærði Ingólfur kvaðst fyrir dómi almennt hafa átt mörg samtöl við Magnús um sölu eigin hluta Kaupþings banka hf. til stórra fjárfesta og sagðist ekki geta útilokað aðkomu sína að viðskiptum Holt Investment Group Ltd. Er sá framburður Ingólfs í samræmi við það sem fram kom hjá honum við skýrslutöku hjá lögreglu. Um viðskipti Desulo Trading Ltd. liggur fyrir að ákærði Magnús fól viðskiptastjóra þess félags hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. að kanna hug eiganda félagsins til kaupa á hlutum í Kaupþingi banka hf. Kvaðst Magnús fyrir dómi ekki muna með öruggum hætti hver frá bankanum hefði hringt í sig þessara erinda en við skýrslutöku hjá lögreglu bar hann að það hefði verið annar hvor ákærðu, Ingólfur eða Hreiðar Már.

Þegar það er virt sem hér var rakið, höfð er í huga staða ákærða Ingólfs innan Kaupþings banka hf. og þess gætt hvernig staðið var að þeim utanþingsviðskiptum, sem II. kafli ákæru tekur til, er óhugsandi að viðskiptin hafi átt sér stað án vitundar og vilja ákærða Ingólfs sem forstjóra bankans á Íslandi. Er samkvæmt því sannað að hann hafi átt beinan þátt í því að koma á þeim viðskiptum með hluti í Kaupþingi banka hf. sem II. kafli ákæru lýtur að. Er samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að sakfella beri ákærða Ingólf fyrir markaðsmisnotkun sem honum er gefin að sök í II. kafla ákæru, að undanskildum þeim hluta hennar sem ákæruvaldið hefur fallið frá, og er brot hans rétt fært til refsiákvæðis í ákærunni.

Að fenginni þeirri niðurstöðu að sakfella beri ákærða Ingólfi fyrir sakargiftir samkvæmt II. kafla ákæru kemur næst til úrlausnar hvort aðrir þeir, sem þar eru bornir sökum, hafi átt hlut að máli og þá hver þáttur þeirra var.

Héraðsdómur sýknaði ákærðu Hreiðar Má og Sigurð af sakargiftum samkvæmt II. kafla ákæru, svo og ákærða Magnús samkvæmt B. lið sama kafla. Var sú niðurstaða hvað ákærðu Hreiðar Má og Sigurð varðar reist á því að forsvarsmenn kaupenda og starfsmenn bankanna, Kaupþings banka hf. og Kaupthing Bank Luxembourg S.A., hefðu ekki borið um aðkomu þeirra að kaupum félaganna Holt Investment Group Ltd., Fjárfestingafélagsins Mata ehf. eða Desulo Trading Ltd. á hlutum í Kaupþingi banka hf. Þá væru heldur ekki gögn í málinu sem sýndu að þeir hefðu komið að sölu á hlutabréfum til félaganna sem um ræddi. Hér að framan hafa verið rakin gögn málsins frá þeim tíma er umrædd viðskipti áttu sér stað en þau bera með sér að ákærðu Hreiðar Már og Sigurður áttu hlut að viðskiptum félaganna. Samkvæmt því stendur ákvæði 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 því ekki í vegi að Hæstiréttur meti á grundvelli þessara gagna hvort ákærðu Hreiðar Már og Sigurður hafi með þessu gerst sekir um refsiverða háttsemi. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Magnúsar af sökum samkvæmt B. lið II. kafla ákæru var á því reist að þáttur hans í viðskiptum Fjárfestingafélagsins Mata ehf. hefði einungis falist í því að bera boð milli manna. Sú niðurstaða var ekki reist á mati á trúverðugleika framburðar hans og vitna heldur á túlkun samtímagagna. Af þessari ástæðu stendur fyrrnefnt lagaákvæði því heldur ekki í vegi að Hæstiréttur endurmeti niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti.

Ákærði Sigurður var formaður stjórnar Kaupþings banka hf. og ákærði Hreiðar Már forstjóri bankans á samstæðugrunni. Samkvæmt 22. grein samþykkta Kaupþings banka hf., sem áður er gerð grein fyrir, fóru félagsstjórn og framkvæmdastjóri saman með stjórn bankans. Framkvæmdastjóri, sem í þessu tilviki nefndist forstjóri, annaðist daglegan rekstur og skyldi í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hafði gefið. Hinn daglegi rekstur tók samkvæmt samþykktunum ekki til ráðstafana sem voru óvenjulegar eða mikilsháttar. Slíkar ráðstafanir gat framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild stjórnar, nema svo hagaði til að ekki væri unnt að bíða ákvarðana hennar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi félagsins. Í slíkum tilvikum skyldi félagsstjórn tafarlaust tilkynnt ráðstöfunin. Auk samþykktanna giltu um starfsskyldur Hreiðars Más ákvæði ráðningarsamnings, sem ritaður var á ensku, þar sem fram kom að hann bæri ásamt stjórn bankans sameiginlega ábyrgð á rekstri hans. Í því fólst ábyrgð á daglegum rekstri og skyldi forstjóri í þeim efnum fylgja stefnu og fyrirmælum stjórnar bankans. Jafnframt var í ráðningarsamningnum tekið fram að til daglegs rekstrar heyrðu ekki óvenjulegar eða sérlegar aðgerðir. Forstjóra var einungis heimilt að grípa til slíkra aðgerða að fenginni sérstakri heimild stjórnar, nema ómögulegt reyndist að bíða ákvarðana hennar án þess að rekstur bankans hlyti verulegan skaða af. Í slíkum tilvikum skyldi tafarlaust tilkynna stjórn bankans um slíkar ráðstafanir. Þá sagði að forstjóri sæti fundi stjórnar bankans og skyldi gera stjórnarmönnum grein fyrir öllum atvikum í rekstri bankans sem hann teldi máli skipta.

Utanþingsviðskipti þau sem II. kafli ákæru tekur til voru umfangsmikil og vörðuðu gríðarlega fjárhagslega hagsmuni. Í tilviki Holt Investment Group Ltd. var um að ræða sölu á 25.700.000 hlutum í Kaupþingi banka hf., sem var 3,5% hlutafjár í bankanum, og var samanlagt söluverð hlutanna 18.240.672.700 krónur. Í tilviki Fjárfestingafélagsins Mata ehf. var um að ræða sölu á 5.000.000 hlutum, sem var 0,68% hlutafjár í bankanum, og var söluverðið 3.589.300.350 krónur. Í tilviki Desulo Trading Ltd. var samkvæmt ákæru um að ræða sölu á 17.849.500 hlutum, sem var 2,4% hlutafjár í bankanum, og var kaupverðið annars vegar 11.133.000.000 krónur og hins vegar 146.306.379 sænskar krónur. Samkvæmt þessu taldist sala Kaupþings banka hf. á umræddum hlutum í bankanum til hvers kaupandans fyrir sig ekki til þess sem heyrði daglegum rekstri hans til, og voru viðskiptin hvort tveggja í senn óvenjulegar, mikilsháttar og sérlegar ráðstafanir í skilningi samþykkta félagsins og ráðningarsamnings ákærða Hreiðars Más. Í þessu sambandi er til þess að líta að meðal gagna málsins eru þær ellefu fundargerðir stjórnar sem ritaðar voru frá nóvember 2007 til október 2008. Þær bera hvorki með sér að stjórnarmönnum í Kaupþingi banka hf. hafi verið kynnt þau viðskipti sem hér um ræðir né að samþykkis stjórnar fyrir þeim ráðstöfunum hafi verið aflað svo sem reglur bankans kváðu á um.

Þess er áður getið að ákærðu Sigurður og Hreiðar Már fengu samkvæmt tölvubréfum reglulega sendar upplýsingar um stöðu viðskipta deildar eigin viðskipta Kaupþings banka hf. með bréf í bankanum á ákærutímabilinu. Þá liggur og fyrir samkvæmt tölvubréfum sem rakin hafa verið að dæmi eru þess að Hreiðar Már hafi kallað eftir slíkum upplýsingum að fyrra bragði ef þær höfðu ekki borist honum. Þá er þess einnig dæmi að ákærði Sigurður hafi í tölvubréfi sem áður er gerð grein fyrir leitað að fyrra bragði eftir slíkum upplýsingum. Fyrir dómi bar ákærði Ingólfur að almennt hefði hann haldið yfirmönnum sínum, Hreiðari Má og Sigurði, upplýstum um allar stærri og meiriháttar ákvarðanir sem hann tók í rekstri bankans eða leitað samþykkis þeirra. Þá kvaðst hann hafa verið í meiri samskiptum við Sigurð en Hreiðar Má. Fyrir dómi var borinn undir Hreiðar Má sá framburður Ingólfs að hann hefði borið allar stærri ákvarðanir undir Hreiðar Má og Sigurð og svaraði Hreiðar Már þá: „Já, það getur verið rétt, ég veit það ekki, skal ekki fullyrða.“ Þegar undir Sigurð var borinn sá framburður Ingólfs að hann hefði haldið þeim Hreiðar Má og Sigurði vel upplýstum um tap á rekstri deildar eigin viðskipta svaraði Sigurður: „Ég bara minnist þess nú ekki að það hafi verið eitthvað sérstaklega ógnvekjandi.“

Um aðdraganda viðskipta Holt Investment Group Ltd. og hvort yfirmenn ákærða Ingólfs, ákærðu Sigurður og Hreiðar Már, hefðu haft vitneskju um þau sagði hann: „Það kann vel að vera, viðskipti af einhverri stærðargráðu, þeir voru ýmist upplýstir eða ég leitaði samþykkis þeirra“. Nánar aðspurður um vitneskju yfirmanna sinna um viðskipti með 3% hlut í bankanum svaraði Ingólfur: „Þeir höfðu klárlega vitað af þeim.“ Þessi framburður Ingólfs fyrir dómi er í samræmi við það, sem hann bar við skýrslutöku hjá lögreglu, en þar var hann spurður hver innan bankans hefði haft umboð til að bjóða 3% hlut í honum til sölu og svaraði hann þá með eftirfarandi hætti: „Já, það væri sjálfsagt bara æðstu stjórnendur ... stjórnarformaður og forstjóri. Ég hefði hugsanlega getað gert það með þeirra vitneskju líka“. Spurður um hvort hann hefði getað gert það af sjálfsdáðum svaraði hann: „Nei, ég hefði ekki gert það.“ Um viðskipti Desulo Trading Ltd. sagði Ingólfur fyrir dómi að hann vissi ekki neitt um aðkomu Hreiðars Más og Sigurðar að þeim, en við skýrslutöku hjá lögreglu sagði hann um þátt Hreiðars Más: „Já, ef það var verið að selja bréf í þessum upphæðum að þá hafði hann örugglega að minnsta kosti vitneskju um það. Ég veit ekki hvort hann kom, ég veit ekki hans beinu aðkomu.“

Ákærði Sigurður var sem fyrr segir formaður stjórnar Kaupþings banka hf. og ákærði Hreiðar Már forstjóri bankans og voru þeir sem slíkir æðstu stjórnendur hans. Þá áttu þeir báðir sæti í óformlegri stjórn Kaupþings banka hf. á Íslandi en hlutverk hennar var, eins og fram kom hjá Sigurði fyrir dómi, að auðvelda ákærða Ingólfi stjórn bankans hér á landi. Sala Kaupþings banka hf. á hlutabréfum til félaganna Holt Investment Group Ltd., Fjárfestingafélagsins Mata ehf. og Desulo Trading Ltd. sem um ræðir í II. kafla ákæru, var í ljósi magns og fjárhæða augljóslega langt utan marka þeirra ráðstafana sem ákærði Ingólfur hafði samkvæmt reglum Kaupþings banka hf. heimild til að taka einn ákvörðun um og heyrði daglegum rekstri bankans til. Þegar þessa er gætt, höfð er í huga vitneskja ákærðu Hreiðar Más og Sigurðar samkvæmt samtímagögnum og yfirsýn um stöðu Kaupþings banka hf. á ákærutímabilinu hvað varðar eigin hluti, starfsskyldur þeirra beggja samkvæmt lögum nr. 2/1995, samþykktum bankans og ráðningarsamningi og að gættri setu þeirra í óformlegri stjórn Kaupþings banka hf. á Íslandi, er hafið yfir skynsamlegan vafa að hin umfangsmikla sala hluta í bankanum til félaganna Holt Investment Group Ltd., Fjárfestingafélagsins Mata ehf. og Desulo Trading Ltd. hafi ekki getað farið fram án vitundar þeirra og vilja. Í því sambandi er einnig til þess að líta hver var hlutur beggja ákærðu að lánveitingum til félaganna þriggja í tengslum við hlutabréfakaupin, svo sem nánar verður rakið við úrlausn sakargifta samkvæmt III. kafla ákærunnar, en þær lánveitingar voru í beinum efnislegum tengslum við kaup hlutanna og í reynd forsenda þeirra. Er samkvæmt þessu sannað að ákærðu Hreiðar Már og Sigurður hafi í sameiningu með ákærða Ingólfi komið á viðskiptum milli Kaupþings banka hf. og félaganna þriggja með umrædda hluti. Verða ákærðu Sigurður og Hreiðar Már því sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun sem þeim er gefin að sök í ákæru að undanskildum þeim hluta hennar sem ákæruvaldið hefur fallið frá, og eru brot þeirra rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni.

Með hinum áfrýjaða dómi var liðum A og C í II. kafla ákæru á hendur ákærða Magnúsi vísað frá dómi. Ákvæði í dómi um frávísun máls að hluta sætir kæru og er ekki unnt að fá þá niðurstöðu endurskoðaða við áfrýjun héraðsdóms. Getur niðurstaða um frávísun þessara ákæruliða hvað varðar ákærða Magnús því ekki komið til endurskoðunar hér fyrir dómi. Í B. lið II. kafla ákæru er ákærða Magnúsi gefin að sök markaðsmisnotkun með því að hafa í sameiningu með ákærðu Hreiðari Má, Sigurði og Ingólfi komið á þeim viðskiptum Fjárfestingafélagsins Mata ehf. með hluti í Kaupþingi banka hf. 25. mars 2008 sem áður er frá greint. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða Magnúsar af þeim sökum getur samkvæmt áðursögðu komið til endurskoðunar hér fyrir dómi. Hér að framan er lýst þeirri atburðarás sem jafnan fór af stað þegar Kaupþing banki hf. losaði sig við eigin hluti í bankanum í þeim utanþingsviðskiptum sem II. kafli ákæru tekur til, hver var þáttur Magnúsar í atburðarásinni og hver var gagngert aðkoma hans að viðskiptum Fjárfestingafélagsins Mata ehf. Hlutur hans að þeim viðskiptum var samkvæmt samtímagögnum sem rakin hafa verið langt umfram það eitt að bera boð milli manna. Er þvert á móti hafið yfir allan vafa að Magnús hafi tekið fullan þátt í skipulagningu þessara viðskipta, undirbúningi þeirra og framkvæmd, jafnt þeim þáttum sem Kaupþing banki hf. átti að hafa á hendi og þeim sem Kaupthing Bank Luxembourg S.A. átti að sinna. Telst Magnús því að undirlagi ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar og Ingólfs hafa komið fram fyrir hönd Kaupþings banka hf. í viðskiptunum. Hins vegar kom Magnús hvorki beint að sölu hlutabréfanna né tilkynningu um hana til Kauphallar Íslands. Samskipti hans við fyrirsvarsmann Fjárfestingafélagsins Mata ehf. voru þó forsenda þess að af viðskiptunum gæti orðið og þáttur í framkvæmd þeirra og átti Magnús þannig hlut að því með liðsinni sínu að framið var brot það sem ákærðu Hreiðar Már, Sigurður og Ingólfur hafa verið sakfelldir fyrir vegna þeirra viðskipta. Hlaut Magnúsi í ljósi þeirra boða sem hann bar frá Kaupþingi banka hf. um viðskiptin og fjármögnun þeirra að vera ljóst að hlutabréfin komu úr eigin safni bankans og þar með að viðskiptin með þau gæfu ranga mynd af verði bréfanna eða væru líkleg til að gera það. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga verður ákærði Magnús sakfelldur fyrir hlutdeild í broti gegn a. lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr., laga nr. 108/2007. Sú niðurstaða er samrýmanleg 4. málslið 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008, enda hefur vörn ákærða ekki verið áfátt að þessu leyti.

VII

1

Málatilbúnaður ákæruvaldsins var á því reistur að þrátt fyrir skiptingu ákærunnar í þrjá kafla hafi í reynd verið um samfellda atburðarás og brotastarfsemi að ræða hjá Kaupþingi banka hf. á ákærutímabilinu. Fyrst hafi æðstu stjórnendur bankans lagt á ráðin og mælt fyrir um stórfelld kaup eigin viðskipta bankans í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Um hafi verið að ræða ólögmæt inngrip í gangverk markaðarins sem hafi haft áhrif á markaðsgengi hlutabréfa í bankanum, tryggt óeðlilegt verð á hlutabréfunum á tímabilinu, búið til verð á þeim og gefið eða verið líklegt til að gefa eftirspurn og verð þeirra ranglega til kynna. Laut I. kafli ákæru að þessu og hafa stjórnendur bankans verið sakfelldir fyrir þá háttsemi eins og áður greinir ásamt þremur starfsmönnum deildar eigin viðskipta hans.

Framangreind háttsemi stjórnenda Kaupþings banka hf. leiddi óhjákvæmilega til þess að hlutabréf í bankanum söfnuðust fyrir hjá honum. Vegna lögbundinna takmarkana á eignarhaldi fjármálafyrirtækja á eigin hlutabréfum, reglna um flöggunarskyldu og neikvæðra áhrifa á eiginfjárhlutfall bankans var afráðið að losa hann við hlutabréfin svo unnt væri að halda áfram hinum umfangsmiklu kaupum á hlutum í bankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Það var gert með sölu á hlutabréfum í bankanum í stórum utanþingsviðskiptum fyrir tilstilli hlutabréfamiðlunar hans með loforði til kaupenda um fulla fjármögnun bankans í viðskiptunum. Laut II. kafli ákæru að þessu og hafa stjórnendur bankans verið sakfelldir fyrir þá háttsemi eins og framan greinir.

Í III. kafla ákæru voru ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi, Magnúsi, Bjarka og Björk gefin að sök umboðssvik með því að hafa í nánar tilgreindum tilvikum á árinu 2008 misnotað aðstöðu sína hjá Kaupþingi banka hf. og stefnt fé hans í verulega hættu þegar þau hafi farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga. Hafi það meðal annars verið gert í samræmi við fyrirheit, sem gefin hafi verið samhliða þeirri háttsemi sem lýst var í II. kafla ákærunnar, og hafi lánveitingarnar í raun verið forsenda þess að utanþingsviðskiptin kæmust á. Um var að ræða lánveitingar til fjögurra aðila og tengdust þrjár þeirra með þessum hætti þeim viðskiptum sem ákært var fyrir í II. kafla ákæru. Að auki var lánveiting til KGS en fyrir viðskiptin sem voru undanfari lánveitingarinnar var ekki ákært.

2

Í A. lið III. kafla ákæru voru ákærðu gefin að sök umboðssvik í þremur lánveitingum til Holt Investment Group Ltd. í tengslum við sölu Kaupþings banka hf. á 25.700.000 hlutum í honum til félagsins. Er þeim viðskiptum nánar lýst hér að framan. Nánar segir um A. lið III. kafla í ákæru að málið sé höfðað á hendur ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi, Magnúsi, Bjarka og Björk fyrir umboðssvik með því að hafa árið 2008 misnotað aðstöðu sína hjá bankanum, Hreiðar Már sem forstjóri hans og nefndarmaður lánanefndar samstæðu, Sigurður sem starfandi stjórnarformaður bankans, Ingólfur sem forstjóri bankans á Íslandi, Magnús sem forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A., Bjarki sem framkvæmdastjóri útlána og nefndarmaður í lánanefnd samstæðu og Björk sem nefndarmaður í sömu nefnd. Með því hafi þau „stefnt fé bankans í verulega hættu þegar þau fóru út fyrir heimildir til lánveitinga og veittu félagi með takmarkaðri ábyrgð skráðu á Bresku Jómfrúaeyjum, Holt Investment Group Ltd. ... lán til að fjármagna að fullu kaup á hlutum í Kaupþingi, án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar, án þess að endurgreiðslur lánanna væru tryggðar í samræmi við ákvæði reglubókar bankans um töku trygginga fyrir útlánum og án þess að meta á nokkurn hátt greiðslugetu og eignastöðu lánþegans.“

3

Um fyrstu lánveitinguna til Holt Investment Group Ltd. segir í A. lið III. kafla ákæru að ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi, Magnúsi og Bjarka sé gefið að sök að hafa 15. febrúar 2008 í sameiningu veitt félaginu peningamarkaðslán að fjárhæð 12.050.000.000 krónur en því hafi verið varið til að fjármagna að fullu kaup félagsins á hlutum í Kaupþingi banka hf. dagana 8. og 12. febrúar 2008. Lánið var greitt út 15. febrúar 2008 og á gjalddaga 25. sama mánaðar en framlengt fimm sinnum, 26. febrúar og 3., 10., 17. og 26. mars 2008. Hinn 31. mars sama ár var láninu skipt upp með þeim hætti að annars vegar var gerður samningur milli félagsins og bankans um lán að fjárhæð 5.500.000.000 krónur sem var á gjalddaga 30. apríl 2008 og hins vegar veitt peningamarkaðslán að fjárhæð 6.841.324.836 krónur sem var á gjalddaga 3. sama mánaðar.

Um aðdraganda lánveitingarinnar er þess að geta að meðal gagna málsins er lánsbeiðni vegna Holt Investment Group Ltd. Hún var dagsett 13. febrúar 2008 en bar ekki með sér hver annaðist gerð hennar. Í beiðninni kom fram að félagið óskaði eftir láni að fjárhæð 12.300.000.000 krónur að meðtalinni þóknun og kostnaði til að kaupa 17.000.000 hluti í Kaupþingi banka hf. Lánstími yrði eitt ár, vextir „L/R + 2,75%“, umsýslukostnaður 2%, veð yrðu 17.000.000 hlutir í bankanum og 142.938.276 hlutir í Skiptum ehf., heildarvirði veða yrði 13.800.000.000 krónur, veðþekja yrði 112%, veðkall yrði við 100% og væri félagið að fullu í eigu SÞ. Fram kom að félagið væri með eitt lán hjá bankanum að fjárhæð 231.043.900 krónur sem væri á gjalddaga 21. apríl 2008. Um lánshæfiseinkunn sagði að lagt væri til að félagið yrði sett á undanþágulista hjá áhættustýringu. Að öðru leyti sagði að engar fjárhagslegar upplýsingar væru fyrir hendi um félagið.

 Lánanefnd samstæðu Kaupþings banka hf. fjallaði um lánveitingu til Holt Investment Group Ltd. á fundi 14. febrúar 2008. Í fundargerð kom fram að „RMJ“ hefði kynnt lánsbeiðni félagsins sem óskaði eftir láni til eins árs að fjárhæð 12.200.000.000 krónur til að fjármagna kaup á 17.000.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. og innifalið væri þóknun miðlara og umsýslugjald. Eftirfarandi kom einnig fram: „Lagðir eru til vextir L/R+2,75% og 1% umsýslugjald. Veð yrðu 17.000.000 hlutir í Kaupþingi banka + 142.938.276 hlutir í Skiptum ehf.“ Þá sagði í fundargerðinni að lánanefndin hefði samþykkt málið, að gefnu samþykki lánanefndar stjórnar. Fundinn sátu lánanefndarmenn samstæðu, ákærðu Hreiðar Már, Bjarki og Björk, og auk þeirra þrír aðrir starfsmenn bankans. Gögn málsins bera ekki með sér að fjallað hafi verið um lánveitinguna á fundi lánanefndar stjórnar þrátt fyrir bókun lánanefndar samstæðu þar um.

RMJ sendi 15. febrúar 2008 klukkan 10.35 tölvubréf til HSK, með afriti til ákærða Bjarka, undir yfirskriftinni „Money market lán – Holt Investment Group Ltd.“ Þar sagði: „Í dag eru á gjalddaga kr. 12.050.000.000 hjá Holt Investment Group Ltd. ... vegna verðbréfaviðskipta. Það þarf að lána þeim money market lán í 10 daga fyrir þessu. Lánið á að vera í ISK og kjörin R+2,75% (ekkert lántökugjald). Lánið skal greiðast inn á vörslureikning félagsins ... Bjarki, viltu vinsamlegast staðfesta (HSK, þú hinkrar með að klára þetta þar til Bjarki hefur staðfest).“ Stuttu eftir að RMJ sendi þetta tölvubréf, eða klukkan 10.43, sendi hann lánsbeiðni vegna Holt Investment Group Ltd. í tölvubréfi til lánavinnslu Kaupþings banka hf. með afriti til ákærða Bjarka. Beiðnin var dagsett tveimur dögum fyrr og í henni kom fram að félagið óskaði eftir láni að fjárhæð 12.300.000.000 krónur til að kaupa 17.000.000 hluti í bankanum. Í tölvubréfinu sagði RMJ að um væri að ræða uppfærða kynningu fyrir næsta fund lánanefndar stjórnar. RMJ og HSK ræddu saman í síma klukkan 13.38 og spurði sá fyrrnefndi hvort búið væri að staðfesta við þann síðarnefnda „money market lánið“. Kvað HSK svo ekki vera. Sagðist RMJ þá ætla að ýta á staðfestinguna „frá honum Bjarka.“ Í beinu framhaldi sendi ákærði Bjarki tölvubréf til RMJ og HSK undir yfirskriftinni „Money market lán – Holt Investment Group Ltd.“ og sagði þar: „Staðfest.“ Í kjölfar þessa var lánið greitt út og því ráðstafað sama dag inn á reikning félagsins hjá Kaupþingi banka hf. Lánsfjárhæðin, 12.050.000.000 krónur, samsvaraði nokkurn veginn kaupverði hlutabréfanna frá 8. og 12. febrúar 2008 ásamt þóknun og öðrum gjöldum. Samkvæmt gögnum málsins hafði þegar hér var komið sögu engin skjalagerð farið fram vegna lánveitingarinnar ef frá er talin skrifleg staðfesting þar sem helstu skilmálar lánsins komu fram. Þá lá á þessu tímamarki heldur ekkert fyrir um tryggingar vegna lánsins en það var eins og áður greinir á gjalddaga 25. febrúar 2008 eða 10 dögum eftir að það var greitt út.

Ákærði Magnús sendi 17. febrúar 2008 fyrirspurn í tölvubréfi til ákærða Bjarka undir yfirskriftinni „Holt Investment“ sem hljóðaði svo: „er þetta klárt fyrir SÞ?“ Bjarki svaraði samdægurs: „Á eftir að klára að fara með lánsbeiðnina formlega fyrir lánanefnd stjórnar – en afgreitt að öðru leyti. Hvernig er með hlutabréfin í Skiptum – hvenær getum við fengið þau afhent inná vörslusafn hjá okkur ... og er einhver hjá ykkur sem hefur heimild til að skuldbinda Holt Investment?“

Ákærði Bjarki sendi RMJ tölvubréf 22. febrúar 2008, viku eftir að lánið frá 15. sama mánaðar var greitt út, undir yfirskriftinni „Holt Inv.gr._ ósk um lán 12,2 ma. feb 2008“. Þar sagði: „Gætirðu nokkuð uppfært þessa beiðni, þ.e. dagsetningar og fjárhæðir (aðallega að teknu tilliti til gengis Kaupþings) og sent síðan aftur á Credit Admin og cc á mig.“ Peningamarkaðslánið var sem fyrr segir á gjalddaga 25. sama mánaðar. Þann dag sendi RMJ ákærða Bjarka tvö tölvubréf undir sömu yfirskrift og áður, annað klukkan 10.35 og hitt 10.39. Var þar um að ræða uppfærða lánsbeiðni vegna Holt Investment Group Ltd. og kvaðst RMJ hafa breytt dagsetningum miðað við þann dag. Hann hafi ekki breytt genginu en „svo hækkaði ég lánsupphæðina um 50 milljónir til að hafa borð fyrir báru varðandi vextina af MM láninu.“ Kvaðst hann myndu senda þetta „svona á Credit Admin.“ RMJ sendi einnig tölvubréf sama efnis til lánavinnslu bankans og var uppfærð lánsbeiðni vegna Holt Investment Group Ltd. í fylgiskjali með því. Þar kom fram að félagið óskaði eftir láni að fjárhæð 12.350.000.000 krónur til kaupa á 17.000.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. Í lánsbeiðninni kom jafnframt fram að upphafleg veðþekja væri 111% og veðkallsmörk við 100%.

Ákærði Bjarki svaraði fyrrgreindum tölvubréfum RMJ snemma morguns næsta dag og sagði: „Ok-gott mál. Ágætt væri að senda kynninguna á Hreiðar áður en hún fer fyrir lánanefnd stjórnar.“ HSK sendi RMJ tölvubréf síðar þann morgun, með afriti til ákærða Bjarka, undir yfirskriftinni „Money market lán – Holt Investment Group Ltd.“ Minnti hann þar á að lánið hefði verið á gjalddaga deginum áður og spurði hvort ætti að framlengja það. Svaraði Bjarki síðdegis sama dag og sagði: „Ja - framlengja í viku.“

Eftir framlenginguna 25. febrúar 2008 var peningamarkaðslánið næst á gjalddaga 3. næsta mánaðar. Síðdegis þann dag sendi starfsmaður í fjárstýringu Kaupþings banka hf. tölvubréf til ákærða Bjarka. Þar sagði: „Holt Investment Group Ltd. er á gjalddaga í dag (ISK 12.106.065.972) Á að framlengja?“ Því svaraði Bjarki um hæl: „Framlengja í viku.“ Eftir þetta var lánið þrisvar framlengt, 10., 17. og 26. mars 2008, en síðastnefnda daginn var það framlengt til 31. sama mánaðar.

Þann 31. mars 2008 var peningamarkaðslánið frá 15. febrúar sama ár endurfjármagnað eins og áður er fram komið. Annars vegar var það gert með lánssamningi nr. 7374 milli bankans og félagsins um lán að fjárhæð 5.500.000.000 krónur sem var á gjalddaga mánuði síðar, 30. apríl 2008, og virðist lánsfjárhæðin hafa verið notuð til að greiða inn á peningamarkaðslánið. Hins vegar veitti bankinn félaginu peningamarkaðslán að fjárhæð 6.841.324.836 krónur sem var á gjalddaga 3. apríl 2008. Lánið sem veitt var með lánssamningi nr. 7374 var í vanskilum frá gjalddaga 30. apríl 2008 þar til það var endurfjármagnað síðari hluta júní sama ár. Starfsmaður Kaupþings banka hf. sagði í tölvubréfi til ákærða Bjarka 12. júní 2008 að Holt Investment Group Ltd. hefði verið í vanskilum í 43 daga og spurði hver væri að vinna í þeim málum. Þá sendi annar starfsmaður bankans tölvubréf til RMJ 25. júní 2008 og vakti athygli á að Holt Investment Group Ltd. væri með 5.700.000.000 krónur í vanskilum. RMJ svaraði um hæl og sagði að lánið færi í skil fyrir mánaðamót. Peningamarkaðslánið frá 31. mars 2008 var á hinn bóginn sameinað öðru sams konar láni til félagsins frá 3. apríl sama ár eins og nánar greinir í næsta kafla hér á eftir.

4

Um aðra lánveitingu Kaupþings banka hf. til Holt Investment Group Ltd. sem ákært var fyrir sagði í III. kafla ákæru að ákærðu Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi, Magnúsi og Bjarka væri gefið að sök að hafa 10. mars 2008 í sameiningu veitt félaginu peningamarkaðslán að fjárhæð 3.629.460.000 krónur en „láninu var varið til að fjármagna að fullu kaup félagsins á hlutum í Kaupþingi hinn 29. febrúar 2008.“ Uppgjörsdagur viðskiptanna var 7. mars 2008.

Um aðdraganda lánveitingarinnar er þess að geta að 29. febrúar 2008 klukkan 15.03 sendi FRR tölvubréf til ákærða Bjarka undir yfirskriftinni „Holt“. Þar sagði: „Hér kemur einn skammtur.“ Bjarki spurði í kjölfarið klukkan 17.57 hvort Holt Investment Group Ltd. hefði verið að bæta við sig og staðfesti FRR það í tölvubréfi daginn eftir klukkan 11.49 og sagði: „Holt var að bæta við og uppgjör á föstudaginn næsta eða T+5.“ Bjarki svaraði klukkan 11.59 og spurði FRR hvort hann ætlaði að lána fyrir þessu. Því svaraði FRR klukkan 12.01: „Nei takk. Kemur fra IH, ef thu vilt ekki lana verður hann ad gera thad.“ Í beinu framhaldi sendi FRR þessi tölvubréfaskipti til ákærða Ingólfs og sagði: „Ekki áframsenda en samt til upplýsingar fyrir þig ... Sýnist hann hafa farið öfugu megin framúr í morgun. Ég er búinn að svara honum og sagðist ekki ætla að lána og hann yrði að tala við þig ef eitthvað stendur út af.“

Meðal gagna málsins er ódagsett skjal um staðfestingu lánveitingarinnar ritað á stöðluðu formi Kaupþings banka hf. Þar koma fram heiti bankans og Holt Investment Group Ltd., að uppgjörsdagur viðskipta og fyrsti vaxtadagur væri 7. mars 2008, lánið væri að fjárhæð 3.629.460.000 krónur, vextir 17,50% og „dagregla ACT/360“, gjalddagi 14. mars 2008 og skuld á gjalddaga yrði 3.641.810.246 krónur. Form skjalsins gerði ráð fyrir undirritun þess af hálfu bæði lánveitanda og lántaka en það var eingöngu undirritað af tveimur starfsmönnum Kaupthing Bank Luxembourg S.A. fyrir hönd lántaka.

Starfsmaður áhættustýringar Kaupþings banka hf. sendi 10. mars 2008 klukkan 11.09 tölvubréf til annars starfsmanns bankans undir yfirskriftinni „Vörslureikn. í mínus.“ Gaf hún upp númer á vörslureikningi Holt Investment Group Ltd., stöðu hans sem var „-3.627.463.200 kr.“ og spurði: „Getur þú sagt mér hver staðan er hér.“ Þetta tölvubréf var áframsent til FRR klukkan 11.19 og hann beðinn að skoða málið þar sem „varslan er í mínus fyrir þessum kaupum.“ FRR svaraði þessu í tölvubréfi klukkan 12.00 með afriti til ákærða Bjarka og sagði: „bjarki ætlar að borga þetta úr eigin vasa.“ Því svaraði Bjarki í tölvubréfi til FRR, með afriti til RMJ, klukkan 12.05: „Við þurfum að fá MM- línu fyrir þessu í viku, með sjálfsskuldarábyrgð FRR. Afgreiðum það í dag.“ RMJ sendi ákærða Bjarka tölvubréf klukkan 14.06 og sagði: „Viltu vinsamlegast staðfesta að við veitum Holt Investment Group Ltd money market lán frá og með 07/03/08 í viku vegna kaupa á hlutabréfum. Upphæðin á láninu er 3.629.460.000 (kaup á bréfum + miðlunarþóknunin).“ Þessu bréfi svaraði Bjarki klukkan 14.30 og sagði: „Stadfest“. Þennan dag var peningamarkaðslán til Holt Investment Group Ltd. greitt út til lántaka með því að 3.629.460.000 krónur voru millifærðar í fernu lagi inn á reikning félagsins. Gjalddagi lánsins var 14. mars 2008 og var það framlengt þrisvar, 19., 26. og 31. sama mánaðar.

Kaupþing banki hf. veitti Holt Investment Group Ltd. 31. mars 2008 peningamarkaðslán að fjárhæð 3.296.598.059 krónur sem var á gjalddaga 3. apríl sama ár. Var þar um að ræða framlengingu á peningamarkaðsláninu að fjárhæð 3.629.460.000 krónur sem greitt var út 10. mars sama ár. Virðist sem arður að fjárhæð 374.000.000 krónur, sem félagið fékk af hlutabréfum sínum í bankanum, hafi verið greiddur inn á peningamarkaðslánin tvö 31. mars 2008, sem veitt höfðu verið félaginu, og virðist það skýra lækkun á heildarstöðu þeirra.

Kaupþing banki hf. veitti Holt Investment Group Ltd. peningamarkaðslán 3. apríl 2008 að fjárhæð 10.153.763.399 krónur með gjalddaga 25. sama mánaðar. Virðist sem með því hafi framangreind tvö peningamarkaðslán til félagsins frá 31. mars 2008 verið sameinuð í eitt. Nýja lánið var framlengt sex sinnum, 28. apríl, 5., 19. og 30. maí og 9. og 19. júní 2008. Framlengingar voru í öllum tilvikum samþykktar eða staðfestar af ákærða Bjarka í tölvubréfum. Á seinasta gjalddaga lánsins 24. júní 2008 stóð það í 10.584.617.670 krónum með áföllnum vöxtum og degi síðar var formi útistandandi lána til félagsins breytt í lánssamning að fjárhæð 16.325.962.087 krónur með gjalddaga 2. júlí 2009.

Samkvæmt gögnum málsins leið í einhverjum tilvikum nokkur tími frá því lánið 3. apríl 2008 féll í gjalddaga og þar til það var framlengt með nýju peningamarkaðsláni. Þannig kom til dæmis fram í tölvubréfi HSK 17. apríl 2008 til ákærða Bjarka og RMJ: „Þann 3. apríl var Holt Investment með lán á gjalddaga upp á 10.153.763.399 ISK. Átti að greiða þetta upp eða átti að framlengja þessu?“ Bjarki svaraði skömmu síðar og sagðist hafa haldið að „þetta væri allt komið í lengri tíma fjármögnun“ en það gæti hafa tafist og því skyldi „ýta þessu áfram þar til búið er að ganga frá lánssamningum“. HSK sagðist í kjölfarið myndu framlengja lán félagsins til 25. apríl 2008. Af tölvubréfasamskiptum starfsmanna bankans verður helst ráðið að vikum saman hafi staðið til að færa lán félagsins úr skammtímafjármögnun yfir í lengri tíma lán. Þannig sendi ákærði Bjarki tölvubréf til RMJ og GÞ 15. maí 2008 þar sem fram kom að færa þyrfti Holt Investment Group Ltd. „úr MM í lánssamninga sem fyrst“. Þrátt fyrir það var enn haldið áfram að framlengja peningamarkaðslán félagsins.

5

Þriðja lánveiting Kaupþings banka hf. til Holt Investment Group Ltd., sem ákært var fyrir í III. kafla ákæru, var vegna láns sem veitt var til hlutabréfakaupa í september 2008 og verður um hana fjallað hér síðar. Áður en að því kemur er rétt samhengisins vegna að rekja það sem fram kemur í gögnum málsins um samskipti bankans og félagsins á tímabilinu frá mars og fram í júní 2008.

Þann 11. mars 2008 sendi RMJ tölvubréf til ákærða Bjarka undir yfirskriftinni: „Holt Inv.gr._ósk um lán 12,35 ma. + 3,7 ma. feb 2008.“ Með fylgdi lánsbeiðni dagsett 25. febrúar 2008 þar sem óskað var eftir láni að fjárhæð 16.100.000.000 krónur fyrir Holt Investment Group Ltd., ásamt þóknun og kostnaði, til að kaupa 22.000.000 hluti í Kaupþingi banka hf. Upphafleg veðþekja var sögð 105% og veðkallsmörk 100%.

Lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. fjallaði um þessa lánsumsókn á fundi 18. mars 2008. Lánsbeiðnin sem lögð var fyrir þann fund var sú sama og RMJ hafði sent ákærða Bjarka 11. sama mánaðar en með örlitlum breytingum. Fram kom í henni að félagið óskaði eftir láni að fjárhæð 16.100.000.000 krónur en í sviga var þess getið að fjárhæðin tæki meðal annars til vaxta á peningamarkaðslánum. Dagsetningin hafði verið uppfærð og upphafleg veðþekja var sögð 104% og veðkallsmörk 100%. Þá kom fram í beiðninni að til tryggingar láninu væru 22.000.000 hlutir í Kaupþingi banka hf., 142.938.276 hlutir í Skiptum ehf. og að heildarmarkaðsvirði trygginga væri 16.750.000.000 krónur. Í útreikningum á veðþekju var hins vegar miðað við að verðmæti trygginga væri 17.050.000.000 krónur en tekið var fram að engar fjárhagsupplýsingar lægju fyrir um lántakann þar sem „félagið hafi verið stofnað nýlega.“ Í beiðninni voru upplýsingar um fjárhagsstöðu SÞ en samkvæmt þeim námu heildareignir hans 351.314.647 evrum en skuldir 216.266.641 evru. Lánanefnd stjórnar samþykkti beiðnina á fundinum en hann sátu ákærði Hreiðar Már, BHÓ og GPP. Fjórði lánanefndarmaðurinn, ákærði Sigurður, var fjarverandi samkvæmt fundargerð. Þrátt fyrir þessa samþykkt lánanefndar stjórnar var lánafyrirgreiðslu bankans til félagsins áfram haldið í því formi sem áður var lýst þar til í lok júní sama ár.

Með handveðsyfirlýsingu 3. apríl 2008 fékk Kaupþing banki hf. veð í 9.100.000 hlutum Holt Investment Group Ltd. í bankanum til tryggingar láni að fjárhæð 5.500.000.000 krónur. Samningur um það lán var sem áður segir undirritaður 31. mars 2008.

Þann 3. júní 2008 sendi RMJ tölvubréf til ritara lánanefnda Kaupþings banka hf. Í fylgiskjali með tölvubréfinu var að finna lánsbeiðni vegna Holt Investment Group Ltd., sem dagsett var í maí sama ár, þar sem kom fram að félagið væri með tvö útistandandi skammtímalán hjá fyrirtækjasviði, annars vegar að fjárhæð 5.600.000.000 krónur og hins vegar að fjárhæð 10.300.000.000 krónur. Þá var tekið fram að til tryggingar umræddum lánum væru 22.000.000 hlutir í Kaupþingi banka hf. og 94.000.000 hlutir í Exista hf. Lánsbeiðnin var lögð fyrir fund lánanefndar samstæðu 5. júní 2008 en hann sátu ákærðu Bjarki og Björk. Í fundargerð nefndarinnar kom fram að hún vísaði málinu til lánanefndar stjórnar. Er hér var komið sögu hafði lánanefnd stjórnar þegar samþykkt áðurnefnda lánsbeiðni vegna Holt Investment Group Ltd. á fundi 18. mars 2008. Af gögnum málsins verður ekki séð að lánanefnd stjórnar hafi tekið þessa nýju lánsbeiðni fyrir en næsti fundur hennar var haldinn 24. september sama ár.

RMJ óskaði í tölvubréfi 6. júní 2008 til starfsmanns í fjárstýringu Kaupþings banka hf. eftir upplýsingum um heildarstöðu peningamarkaðslána Holt Investment Group Ltd. hjá bankanum og sagði að verið væri að klára lánssamninga. Dagana á eftir virðist sem vinna innan bankans við skjalagerð í tengslum við endurfjármögnun lána félagsins hafi hafist en 25. júní 2008 var lánssamningur að fjárhæð 16.325.962.087 krónur undirritaður. Ákærði Bjarki og RMJ undirrituðu samninginn fyrir hönd lánveitanda og lögfræðingur hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. fyrir hönd lántaka. Í samningnum kom fram að tilgangur lánsins væri að greiða upp skuldir félagsins við bankann. Nýja lánið, sem átti að endurgreiða í einu lagi 2. júlí 2009, var greitt út 27. júní 2008. Í tölvubréfi til ákærða Bjarka þann dag spurði RMJ hvort í lagi væri að „greiða þetta út í dag“ þrátt fyrir að peningaþvættisathugun væri ólokið. Bjarki staðfesti það og sagðist þekkja vel til lántaka.

Þann 25. júní 2008 var einnig undirritaður veðsamningur milli Kaupþings banka hf. og Holt Investment Group Ltd. þar sem bankinn tók að veði hjá félaginu 93.971.303 hluti í Exista hf. og 22.000.000 hluti í Kaupþingi banka hf. Fram kom í veðsamningnum að hlutabréfin í Exista hf. væru geymd á vörslureikningi veðsala hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A., en bréfin í Kaupþingi banka hf. væru geymd á vörslureikningi veðsala hjá síðarnefnda bankanum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er ljóst að hlutabréfin í Exista hf. voru ekki á vörslureikningi Holt Investment Group Ltd., þegar upphaflegar lánveitingar til félagsins áttu sér stað í febrúar og mars 2008 og heldur ekki þegar lánin voru endurfjármögnuð eftir það á tímabilinu fram í júní sama ár.

SÞ sendi tölvubréf 30. júní 2008 til ÞEÓ viðskiptastjóra síns hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. þar sem sagði: „You have my full consent in providing Kaupthing H.F. with all the necessary information they need regarding Holt Investment Group.“ Þetta tölvubréf áframsendi viðskiptastjórinn til samstarfsmanns síns stuttu síðar og sagði: „Here you go“.

ÞEÓ sendi tölvubréf 29. júlí 2008 til starfsmanns Kaupthing Bank Luxembourg S.A. undir yfirskriftinni „Holt Group intra changes“ og sagði þar meðal annars: „I will do the following changes in Holt Group tomorrow. Imis ehf 401.445-0 will sell all Exista hf nominal 93.971.303 to Holt Investment Group.“ ÞEÓ sendi síðan RMJ 14. ágúst sama ár tölvubréf undir yfirskriftinni „Valuation report 14-08-2008.pdf“. Í fylgiskjali með tölvubréfinu var yfirlit yfir stöðu á vörslureikningi Holt Investment Group Ltd. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Samkvæmt því yfirliti höfðu 93.971.303 hlutir í Exista hf. verið færðir inn á þann reikning.

6

Holt Investment Group Ltd. keypti eins og áður greinir 3.700.000 hluti í Kaupþingi banka hf. 11. september 2008. Kaupverðið með þóknun var 2.563.212.000 krónur og uppgjörsdagur viðskiptanna 19. sama mánaðar. Til kaupanna fékk félagið lán hjá bankanum að fjárhæð 2.563.293.785 krónur. Segir í ákæru að málið sé höfðað á „hendur ákærðu, Hreiðari Má, Sigurði, Ingólfi, Magnúsi, Bjarka og Björk, fyrir að hafa í september 2008 í sameiningu veitt félaginu lán að fjárhæð 2.563.293.785 krónur. Skrifað var undir lánssamning þess efnis 18. september 2008 og var lánið greitt út 19. september 2008. Var láninu varið til að fjármagna að fullu kaup félagsins á hlutum í Kaupþingi hinn 11. september 2008.“

Um aðdraganda lánveitingarinnar er þess að geta að 18. september 2008 tók lánanefnd samstæðu Kaupþings banka hf. fyrir beiðni um lán til Holt Investment Group Ltd. að fjárhæð 2.570.000.000 krónur. Fram kom í beiðninni að um væri að ræða lán til að fjármagna kaup félagsins á 3.700.000 hlutum í bankanum með gjalddaga 2. júlí 2009 og að til tryggingar endurgreiðslu þess yrðu allar eignir lántaka. Þá kom jafnframt fram að veðþekja á lánum félagsins væri 94% en færi í 95% við nýju lánveitinguna. Fund nefndarinnar sátu ákærðu Hreiðar Már í gegnum fjarfundarbúnað og ákærðu Bjarki og Björk. Nefndin samþykkti að vísa málinu til lánanefndar stjórnar.

Þrátt fyrir framangreinda bókun lánanefndar samstæðu var 18. september 2008 gerður samningur um lán Kaupþings banka hf. til Holt Investment Group Ltd. að fjárhæð 2.563.293.785 krónur með gjalddaga 2. júlí 2009. Samninginn undirrituðu RMJ og ákærði Bjarki fyrir hönd lánveitanda en starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. fyrir hönd lántaka. Lánið var greitt inn á reikning lántaka hjá Kaupþingi banka hf. 19. september 2008. Sama dag og lánssamningurinn var undirritaður var gerður viðauki við handveðssamninginn frá 25. júní 2008 og með honum fékk Kaupþing banki hf. veð í hinum nýju hlutum sem Holt Investment Group Ltd. keypti 11. september sama ár.

Þann 18. september 2008 klukkan 13.42 sendi RMJ tölvubréf til ritara lánanefnda og bað hana að senda sér „bókunina fyrir Holt Investment um leið og hún er klár.“ Ritarinn svaraði klukkan 13.58 og sagði að málinu hefði verið vísað til lánanefndar stjórnar. Klukkan 14.21 sendi RMJ tölvubréf til ákærðu Bjarka og Bjarkar þar sem fram kom að viðskipti Holt Investment Group Ltd. væru á gjalddaga daginn eftir. Spurði RMJ hvort þau Bjarki og Björk gæfu samþykki sitt fyrir því að lánið yrði greitt út þrátt fyrir að það ætti eftir að bóka það hjá lánanefnd stjórnar. Bjarki svaraði mínútu síðar og veitti samþykki sitt. Sama dag klukkan 14.21 sendi ritari lánanefnda tölvubréf til RMJ sem hafði að geyma bókun lánanefndar samstæðu. Þar sagði meðal annars að málinu væri vísað til lánanefndar stjórnar. Klukkan 14.23 sendi RMJ tölvubréf til lögfræðings á fyrirtækjasviði Kaupþings banka hf. þar sem sagði: „Hér kemur bókunin – þessu er vísað til bókunar á BCC. Ég er búinn að biðja BHD og BÞ að staðfesta að það sé í lagi að greiða þetta út á morgun.“ Björk svaraði tölvubréfi RMJ morguninn eftir klukkan 10.27 með orðunum: „Samþykkt fyrir mitt leyti.“ Lánið var sem fyrr segir greitt út 19. september 2008.

Hlutabréfin í Kaupþingi banka hf., sem Holt Investment Group Ltd. keypti 11. september 2008, voru seld 22. sama mánaðar og lán til félagsins vegna kaupanna endurgreitt. Við söluna myndaðist hagnaður sem var notaður til að greiða inn á eldri skuldir félagsins við bankann. Í tölvubréfasamskiptum RMJ og viðskiptastjóra SÞ hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. 23. september 2008 kom fram að söluandvirði bréfanna ætti að greiðast inn á lánið. Í kjölfarið var handveðinu af bréfunum aflétt. Samkvæmt því sem fram kom hjá SÞ við skýrslutöku hjá lögreglu var það annað hvort ákærði Magnús eða viðskiptastjórinn sem sá um að bréfin yrðu seld og kvaðst SÞ ekkert hafa komið að þeirri ákvörðun. Fyrir dómi kvaðst SÞ ekki geta fullyrt neitt um það hvort bréfin hefðu verið seld með sínu samþykki.

Lánveitingin til Holt Investment Group Ltd. var tekin fyrir á fundi lánanefndar stjórnar Kaupþings banka hf. 24. september 2008, tveimur dögum eftir að lánið var endurgreitt. Í lánsbeiðni kom fram að félagið væri þá þegar með útistandandi lán að fjárhæð um 17.000.000.000 krónur sem væri tryggt með öllum eignum félagsins. Þá var tekið fram að nýja lánið væri vegna kaupa lántaka á 3.700.000 hlutum í bankanum og að félagið væri á undanþágulista hvað varðar lánshæfismat. Í lánsbeiðninni kom fram að með nýjum útlánum færi heildarskuldbinding SÞ og tengdra félaga gagnvart bankanum upp í 83.000.000.000 krónur. Fundinn sátu ákærðu Sigurður og Hreiðar Már, BHÓ og GPP og að auki ákærði Bjarki og SPK. Lánanefndin samþykkti lánveitinguna.

Daginn eftir fund lánanefndar stjórnar var haldinn stjórnarfundur Kaupþings banka hf. Á honum var árleg kynning á stórum áhættuskuldbindingum við bankann en þær voru skilgreindar sem útlán yfir 45.000.000 evrur. Fjallað var um málefni Holt Investment Group Ltd. í glærukynningu og kom þar fram að félagið skuldaði bankanum 138.600.000 evrur sem væri á gengi þess dags 18.900.000.000 krónur. Jafnframt sagði að veðþekja á lánum félagsins væri 96%, það væri á athugunarlista og erfitt gæti reynst að koma tryggingum í verð við ríkjandi markaðsaðstæður. Þá kom einnig fram á glærunni að ekki hafi verið gert veðkall á félagið.

7

Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að um markaðsmisnotkun í starfsemi Kaupþings banka hf. hafi verið að ræða í þeim utanþingsviðskiptum sem ákært var fyrir í II. kafla ákæru varðandi sölu hlutabréfa í bankanum til Holt Investment Group Ltd., Fjárfestingafélagsins Mata ehf. og Desulo Trading Ltd. Voru ákærðu Hreiðar Már, Sigurður og Ingólfur sakfelldir fyrir að hafa í sameiningu komið öllum viðskiptunum á og ákærði Magnús í einu tilviki sakfelldur sem hlutdeildarmaður í brotum þeirra. Sakargiftir í A. lið III. kafla ákæru beinast að þremur lánveitingum Kaupþings banka hf. til Holt Investment Group Ltd. í febrúar, mars og september 2008. Lúta þau ákæruatriði í öllum tilvikum að því að umrædd lán hafi verið veitt „án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar, án þess að endurgreiðslur lánanna væru tryggðar í samræmi við ákvæði reglubókar bankans um töku trygginga fyrir útlánum og án þess að meta á nokkurn hátt greiðslugetu og eignastöðu lánþegans.“ Verður hér á eftir fjallað um hverja lánveitingu fyrir sig og þátt ákærðu í þeim.

Í i-lið A. liðar III. kafla ákæru voru ákærðu Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur, Magnús og Bjarki bornir sökum um umboðssvik með því að hafa 15. febrúar 2008 í sameiningu veitt félaginu Holt Investment Group Ltd. peningamarkaðslán að fjárhæð 12.050.000.000 krónur vegna hlutabréfakaupa sem áttu sér stað 8. og 12. sama mánaðar. Eins og áður er rakið sagði í lánsbeiðni dagsettri 13. febrúar 2008 að engar fjárhagslegar upplýsingar væru fyrir hendi um lántakann og lagt væri til að hann yrði settur á undanþágulista hjá áhættustýringu. Lánveitingin var samþykkt á fundi lánanefndar samstæðu Kaupþings banka hf. 14. febrúar 2008 með fyrirvara um samþykki lánanefndar stjórnar. Var lánið greitt út næsta dag í kjölfar þess að ákærði Bjarki sendi RMJ og HSK tölvubréf sem bar yfirskriftina „Money market lán – Holt Investment Group Ltd.“ þar sem sagði: „Staðfest.“

Áður er gerð grein fyrir tilvist regluhandbókar Kaupþings banka hf. sem gegndi því hlutverki að vera „handbók innra eftirlits og verklagsreglna“ og átti hún jafnan að endurspegla nýjustu reglur og verklagsreglur sem í gildi voru í bankanum. Þá er áður fjallað um lánanefndir bankans en reglur um valdsvið þeirra komu fram í handbókinni. Þar var hins vegar ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu peningamarkaðslán þótt gert væri ráð fyrir tilvist þeirra. Af gögnum málsins má ráða að það lánsform hafi verið notað af fjárstýringu Kaupþings banka hf. við lausafjárstýringu bankans en almennt tíðkuðust slík lán fyrst og fremst milli fjármálafyrirtækja og voru notuð við lausafjárstýringu þeirra og ætluð til skamms tíma. Það sem greindi þessi lán frá öðrum tegundum útlána var meðal annars að lítil skjalavinnsla var að baki þeim og voru þau almennt veitt án nokkurra trygginga. Ástæða þessa var ekki síst sú að þetta lánsform var ætlað fyrir trausta aðila á borð við fjármálafyrirtæki og eftir atvikum stærri rekstrarfélög með gott lánshæfismat og var lánveitingin reist á því að viðkomandi lántaki hefði fjárhagslegan styrk til að standa undir endurgreiðslu lánsins.

Um útlána- og mótaðilaáhættu almennt var fjallað í kafla 3.3 í regluhandbók Kaupþings banka hf. Þar sagði í framlagðri þýðingu á grein 3.3.1 að útlánaáhætta væri skilgreind „sem mögulegar vanefndir mótaðila á skuldbindingum sínum samkvæmt samningi. Þessar reglur ættu að gilda um alla starfsemi sem skapar útlánaáhættu fyrir bankann.“ Þá sagði að almenn útlán „eru helsti uppruni útlánáhættu, en útlánaáhætta (mótaðilaáhætta) er einnig innbyggð í öðrum tegundum eigna, svo sem skuldabréfum, skammtímaskuldaverðbréfum, afleiðum og í skuldbindingum eins og ónýttum lánalínum eða mörkum og ábyrgðum. Uppgjörsáhætta telst einnig vera útlánaáhætta.“

Um innlána- og afleiðuáhættuskuldbindingar gagnvart fjármálastofnunum sagði í þýðingu á grein 3.3.3.1.5 í regluhandbókinni að allar „áhættuskuldbindingar gagnvart fjármálastofnunum þurfa samþykki til þess bærrar lánanefndar sem notast við sama ramma og mörk fyrir lán til almennra viðskiptamanna. Innlán og áhættuskuldbindingar vegna peningamarkaðsgerninga fá sömu meðferð og venjuleg útlán en með tilvísunarmörkum á grundvelli mats á mótaðila sem byggt er á innra matslíkani fyrir fjármálastofnanir. Ef innra mat er ekki til staðar má nota mat frá Moody´s, S&P eða Fitch til viðmiðunar.“ Í framhaldinu voru sett fram viðmiðunarmörk fyrir óveðtryggð innlán og peningamarkaðsáhættuskuldbindingar. Þar kom fram að til þess að fjármálastofnun gæti fengið peningamarkaðslán allt að 10.000.000.000 krónur þyrfti hún að hafa lánshæfiseinkunnina „11-13“ hjá Kaupþingi banka hf. eða ytra lánshæfismatið „A+ – A-“. Ef efri mörk láns væru 25.000.000.000 krónur skyldi innra lánshæfismat viðkomandi fjármálastofnunar vera „14-17“ eða ytra lánshæfismatið „AAA – AA“. Þá sagði í grein 3.3.3.8 að engar „greiðslur, að hluta eða fullu eru heimilar áður en gild útlánaákvörðun hefur verið tekin. Öll lánaskjöl sem þarf fyrir lánaákvörðunina verða að liggja fyrir, réttilega undirrituð af lántaka, ábyrgðaraðilum og öðrum viðkomandi aðilum. Skuldarinn hefur lagt fram veðið sem þarf samkvæmt lánaákvörðuninni og útlánastýring ... hefur staðfest að gild lánaákvörðun hafi verið tekin.“

Um kröfur til veðtrygginga voru ákvæði í grein 3.3.6 í regluhandbókinni. Þar sagði í framlagðri þýðingu á grein 3.3.6.1 að veð bæri að taka á grundvelli lánstíma og lánshæfiseinkunnar lántaka og að allar ákvarðanir um lán án veða skyldu teknar af viðeigandi lánanefnd. Þá sagði að allar undanþágur frá reglum greinarinnar skyldu háðar ákvörðun framkvæmdastjóra útlánasviðs eða útlánanefndar í samræmi við upphæð umsóknar. Í grein 3.3.6.2 voru ákvæði um svonefnt veðvirði og veðfrádrag. Þar sagði að reiðufé skyldi metið að fullu sem veð en verðbréf að hluta. Veðvirði væri áhættujafnað mat á verðbréfum viðskiptamanns sem tekin væru sem veð og væri veðvirði verðbréfa lægra en markaðsvirði þeirra. Sérhvert verðbréf hefði veðvirði sem færi eftir veðfrádragi þess þar sem veðfrádragið táknaði áhættujöfnun markaðsvirðis. Í framhaldinu voru í greininni reglur um útreikning veðfrádrags og reglur um það fyrir helstu gerninga. Um veðfrádrag hlutabréfa sagði að það væri „fastsett við 33%.“ Lágmarksfrádrag samkvæmt reglum um hlutabréf sem skráð væru í helstu vísitölum væri 15% og 25% fyrir önnur hlutabréf skráð í viðurkenndum kauphöllum. Veðfrádrags- og veðskrá kynni að gera kröfur um hærra lágmarks veðfrádrag fyrir tiltekin hlutabréf og yfirmaður áhættustýringar gæti í undantekningartilvikum lækkað veðfrádrag hlutabréfa en aldrei niður fyrir lágmarks veðfrádrag samkvæmt reglum. Þá sagði að veð „er ekki viðurkennt nema veðsamningur hafi verið undirritaður. Ef veðið er í formi verðbréfa, skal veðsamningurinn tilgreina hvert einstakt verðbréf sem veðsett er með samningnum.“

Eins og áður getur lúta ákæruatriði vegna lánveitingar samkvæmt i-lið A. liðar III. kafla ákæru að því að peningamarkaðslánið til Holt Investment Group Ltd. 15. febrúar 2008 að fjárhæð 12.050.000.000 krónur hafi verið veitt án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar, án þess að endurgreiðsla þess væri tryggð í samræmi við reglur Kaupþings banka hf. og án þess að greiðslugeta og eignastaða lánþegans væri á nokkurn hátt metin. Samþykkt lánanefndar samstæðu Kaupþings banka hf. á fundinum 14. febrúar 2008 um að veita Holt Investment Group Ltd. umrætt lán var bundin því skilyrði að lánanefnd stjórnar bankans samþykkti lánveitinguna. Því skilyrði hafði ekki verið fullnægt þegar lánið var greitt út til lántaka degi síðar og var ákvörðun lánanefndar samstæðu því ekki endanleg í skilningi greinar 3.3.3.1.3 í regluhandbókinni. Þá er heldur ekkert í gögnum málsins sem sýnir að um hafi verið að ræða gilda samþykkt lánanefndar stjórnar milli funda samkvæmt ákvæðum greinar 3.3.3.1.2 í regluhandbókinni en þar sagði um millifundasamþykktir: „Ef um brýna lánatillögu er að ræða sem ekki getur beðið næsta reglulega fundar lánanefndarinnar, má taka gilda og framkvæmanlega lánaákvörðun, svo fremi að hún sé undirrituð af aðilum sem myndu geta fullgilt hana á reglulegum fundi. Slík ákvörðun skal kynnt, skoðuð og skráð í fundargerð næsta reglulega fundar lánanefndar stjórnar.“ Var þegar af þeim ástæðum sem hér greinir óheimilt samkvæmt ákvæðum greinar 3.3.3.8 í regluhandbókinni að greiða lánið út en þar kom fram að engar greiðslur mætti heimila, hvorki að hluta né að fullu, nema gild útlánaákvörðun hefði verið tekin.

Ákvæði regluhandbókar Kaupþings banka hf. um peningamarkaðslán án veðtrygginga tóku fyrst og fremst mið af því að slík lán væru veitt fjármálafyrirtækjum. Til þess að svo mætti verða þurfti að lánshæfismeta væntanlegan lántaka og hann annað hvort að hafa lánshæfiseinkunnina 14 til 17 samkvæmt lánshæfismati bankans sjálfs eða ytra lánshæfismatið AAA til AA ef lán var hærra en 10.000.000.000 krónur og efri mörk þess 25.000.000.000 krónur. Ákvæði regluhandbókarinnar stóðu því á hinn bóginn ekki í vegi að veita mætti öðrum aðilum eins og eignarhaldsfélögum slík lán. Í hlutarins eðli liggur að við slíka lánveitingu var, með sama hætti og þegar fjármálafyrirtæki áttu í hlut, óheimilt að veita lánið án þess að fram færi lánshæfismat á lántaka enda ekki heimilt að víkja frá fyrirmælum regluhandbókarinnar í þeim efnum. Fyrir liggur samkvæmt lánsbeiðni þeirri sem gerð var í tilefni lánsumsóknar Holt Investment Group Ltd. um fyrrgreint lán að fjárhæð 12.050.000.000 krónur að engar fjárhagslegar upplýsingar voru fyrir hendi um lántakann og fór því ekkert lánshæfismat fram á honum í samræmi við reglur bankans. Verður yfirliti því um eigna- og skuldastöðu félaga tengdum SÞ, sem fram kom í lánsbeiðninni, með engu móti jafnað til lánshæfismats og heldur ekki því að Holt Investment Group Ltd. hafði verið sett á svokallaðan undanþágulista áhættustýringar bankans, en útlánareglur hans höfðu ekki að geyma ákvæði um slíkan lista. Var ákvörðun um veitingu lánsins og útgreiðsla þess daginn eftir samþykkt lánanefndar samstæðu því einnig óheimil af þessari ástæðu. Er í þessu sambandi og til þess að líta að rúmum mánuði síðar, þegar lánanefnd stjórnar Kaupþings banka hf. samþykkti á fundi sínum 18. mars 2008 að veita Holt Investment Group Ltd. lán að fjárhæð 16.100.000.000 krónur, hafði slíkt lánshæfismat enn ekki farið fram og var tekið fram í lánsbeiðni sem þá var lögð fyrir nefndina að engar fjárhagsupplýsingar væru fyrir hendi um félagið þar sem það væri nýstofnað.

Í samþykkt lánanefndar samstæðu 14. febrúar 2008 kom samkvæmt fundargerð fram að veð yrðu „17.000.000 hlutir í Kaupþingi banka + 142.938.276 hlutir í Skiptum ehf.“ Var samþykkt lánanefndarinnar þannig bundin því skilyrði að framangreind hlutabréf yrðu sett að veði til tryggingar endurgreiðslu lánsins. Fyrir liggur samkvæmt því sem áður er rakið að þegar lánið var greitt út hafði Holt Investment Group Ltd. ekki sett framangreindar tryggingar. Meðan þessu skilyrði lánanefndarinnar fyrir lánveitingunni var ekki fullnægt var útgreiðsla lánsins til félagsins óheimil samkvæmt grein 3.3.3.8 í regluhandbókinni, en þar kom fram eins og áður er rakið að engar greiðslur mætti inna af hendi fyrr en öll lánsskjöl hefðu verið réttilega undirrituð af lántaka, ábyrgðaraðilum og öðrum viðkomandi og útlánastýring hefði staðfest að tekin hefði verið gild ákvörðun um lán. Fær samkvæmt þessu ekki staðist sú staðhæfing ákærða Bjarka fyrir dómi að hann hafi í ljósi þess hverjir sátu fund lánanefndar samstæðu með réttu mátt líta svo á að hann hafi fengið „staðfestingu svona á milli funda, að þetta komi til með að fara til lánanefndar stjórnar og verða samþykkt þar.“

Að fenginni þeirri niðurstöðu að veiting lánsins 15. febrúar 2008 til Holt Investment Group Ltd. hafi verið brot á lánareglum Kaupþings banka hf. kemur næst til úrlausnar hvort með lánveitingunni hafi verið framin umboðssvik samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga og ef svo er hverjum verði virt sú háttsemi til sakar, eftir atvikum með hlutdeild, sbr. 1. mgr. 22. gr. sölu laga, en málið hefur verið flutt með tilliti til þáttar hvers og eins ákærðu í ætluðum brotum, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærði Bjarki var framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi banka hf. og nefndarmaður í lánanefnd samstæðu. Var hann einn þriggja nefndarmanna sem samþykkti lánveitinguna til Holt Investment Group Ltd. á fundi nefndarinnar 14. febrúar 2008 og veitti hann eins og áður er rakið samþykki fyrir útgreiðslu lánsins degi síðar þegar RMJ leitaði til hans eftir slíku samþykki. Eins og áður getur var umsýsla peningamarkaðslána á sviði fjárstýringar bankans. Samkvæmt framburði HSK fyrir dómi hélt það svið bankans utan um peningamarkaðslán í viðskiptakerfi sínu og var það liður í því hlutverki við lausafjárstýringu að fylgjast með „hvað fór inn í bankann og hvað út úr bankanum“ eins og hann komst að orði. Eftir að peningamarkaðslán hafi verið sett inn í kerfi fjárstýringar hafi það farið til bakvinnslu bankans sem í framhaldinu hafi séð um frágang láns. Fyrirmæli um veitingu peningamarkaðslána hafi ýmist komið frá útlánasviði eða fyrirtækjasviði í tölvubréfum eða síma og fjárstýringin fylgt þeim fyrirmælum. Þeir einstaklingar á fyrirtækja- og útlánasviði sem fjárstýringin hafi fengið fyrirmælin frá hafi meðal annars verið ákærði Bjarki, GÞ og RMJ og hafi fjárstýringin þá gengið út frá því að í fyrirmælum þeirra fælist samþykki yfirmanns. Fær framburður HSK að þessu leyti stoð í framburði forstöðumanns lögfræði- og skjaladeildar á fyrirtækjasviði fyrir dómi, svo og framburði RMJ og GÞ. Tölvubréf það sem ákærði Bjarki sendi RMJ og HSK 15. febrúar 2008 undir yfirskriftinni „Money market lán – Holt Investment Group Ltd.“, þar sem sagði: „Staðfest“, kvað HSK hafa verið dæmigert tölvubréf um staðfestingu á veitingu peningamarkaðsláns og gerði hann ráð fyrir því að beðið hafi verið með útgreiðslu lánsins þar til slík staðfesting lægi fyrir. Sem framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi banka hf. og nefndarmaður í lánanefnd samstæðu var ákærði Bjarki samkvæmt framansögðu í aðstöðu til skuldbinda bankann. Með því að samþykkja veitingu láns að fjárhæð 12.050.000.000 krónur til Holt Investment Group Ltd. á fundi lánanefndar samstæðu 14. febrúar 2008 í andstöðu við lánareglur bankans og heimila síðan útgreiðslu þess degi síðar misnotaði ákærði Bjarki stöðu sína sem nefndarmaður í lánanefndinni og framkvæmdastjóri útlánasviðs bankans. Er af tölvubréfi ákærða Bjarka til ákærða Magnúsar 17. febrúar 2008, sem áður er rakið, ljóst að hann gerði sér fyllilega grein fyrir því að ákvörðun lánanefndar samstæðu um lánveitinguna var ekki endanleg og því ekki heimilt að greiða lánið út. Með þeirri misnotkun aðstöðu var fjármunum bankans stefnt í verulega hættu þar sem um var að ræða gífurlega háa lánveitingu til nýstofnaðs félags sem var með takmarkaðri ábyrgð eiganda síns, átti nánast engar eignir og hafði hvorki verið metið til lánshæfis né hafði verið gengið eftir því að félagið setti tryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins í samræmi við reglur bankans. Meta verður þessa háttsemi ákærða Bjarka honum til ásetnings, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga, og var brot hans fullframið við útgreiðslu lánsins. Er því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sakfella hann fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

Héraðsdómur sýknaði ákærðu Hreiðar Má, Sigurð, Ingólf og Magnús af sakargiftum samkvæmt i-lið A. liðar III. kafla ákæru þar sem ekki yrði af gögnum málsins ráðið að aðrir en ákærði Bjarki hefðu komið að þessari lánveitingu. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Með því að niðurstaða héraðsdóms um þátt ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar, Ingólfs og Magnúsar í þessari lánveitingu var ekki reist á mati á trúverðugleika framburðar þeirra og vitna heldur á túlkun samtímagagna stendur fyrrgreint lagaákvæði því ekki í vegi að Hæstiréttur endurmeti niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti.

Ákærði Hreiðar Már var forstjóri samstæðu Kaupþings banka hf. og formaður lánanefndar samstæðunnar og var sem slíkur í aðstöðu til að skuldbinda bankann. Með því að samþykkja veitingu láns að fjárhæð 12.050.000.000 krónur til Holt Investment Group Ltd. á fundi lánanefndar samstæðu 14. febrúar 2008 í andstöðu við lánareglur bankans misnotaði ákærði Hreiðar Már stöðu sína sem nefndarmaður í lánanefndinni. Hann var í niðurstöðu dómsins um ákæruatriði II. kafla ákæru sakfelldur fyrir að hafa ásamt öðrum komið á viðskiptum með þá hluti, sem Holt Investment Group Ltd. keypti í Kaupþingi banka hf. í febrúar 2008 og með þeim kjörum sem þá samdist um, en liður í viðskiptunum var að bankinn lánaði að fullu fyrir kaupunum. Vegna aðkomu ákærða Hreiðars Más að viðskiptunum sem fram fóru 8. og 12. febrúar 2008, stöðu hans sem forstjóri bankans og í ljósi margra ára reynslu hans sem bankamanns og æðsta stjórnanda í stórum alþjóðlegum banka, var honum samkvæmt gögnum málsins ljóst hvernig uppgjöri viðskiptanna yrði hagað. Jafnframt var honum ljóst, að væri ætlunin að gera þau upp á réttum tíma væri borin von að samþykki lánanefndar stjórnar bankans fengist áður en að uppgjöri kæmi, þar sem næsti fundur nefndarinnar var ekki haldinn fyrr en rúmum mánuði síðar, en þar átti ákærði Hreiðar Már einnig sæti. Var honum sem öðrum tveggja æðstu stjórnenda Kaupþings banka hf. og í ljósi þekkingar á verkferlum og vinnulagi innan bankans ljóst að útgreiðsla lánsins færi fram í því sem næst beinu framhaldi af samþykkt lánanefndar samstæðu. Með þeirri misnotkun ákærða Hreiðars Más á aðstöðu sinni sem hér var lýst var fjármunum bankans stefnt í verulega hættu þar sem um var að ræða gífurlega háa lánveitingu til nýstofnað félags sem var með takmarkaðri ábyrgð eiganda síns, átti nánast engar eignir og hafði hvorki verið metið til lánshæfis né hafði þá verið gengið eftir því að félagið setti tryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins í samræmi við reglur bankans. Verður ákærði Hreiðar Már því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

Ákærði Sigurður var formaður stjórnar Kaupþings banka hf. og formaður lánanefndar stjórnar og sem slíkur í aðstöðu til að skuldbinda bankann. Þegar metið er hvort hann hafi misnotað þá aðstöðu í tengslum við umrædda lánveitingu til Holt Investment Group Ltd. er þess fyrst að geta að á honum hvíldi sú skylda samkvæmt 21. grein samþykkta bankans að sjá til þess ásamt öðrum stjórnarmönnum að skipulag bankans og starfsemi væri jafnan í réttu og góðu horfi og annast um að nægilegt eftirlit væri með bókhaldi og fjármunum hans. Í annan stað að í niðurstöðu dómsins um ákæruatriði II. kafla ákæru var ákærði Sigurður sakfelldur fyrir að hafa í sameiningu með öðrum komið á viðskiptum með þá hluti, sem Holt Investment Group Ltd. keypti í bankanum í febrúar 2008 og með þeim kjörum sem um samdist, en liður í þeim var að bankinn lánaði að fullu fyrir kaupunum. Í þriðja lagi að þótt ákærði Sigurður hafi ekki átt sæti í lánanefnd samstæðu fékk hann samkvæmt því sem hann bar sjálfur fyrir dómi iðulega send tölvubréf með dagskrá funda lánanefndar samstæðu og gögn sem lögð voru fyrir nefndina og „gerði stundum athugasemdir, sérstaklega ... ef að ég sá að menn voru svona ... að fara út í eitthvað sem mér leist mjög illa á, þá bað ég menn um að skoða nánar hvort þeir vildu gera þetta.“ Á svipaðan veg bar fyrir dómi ritari lánanefnda en hún kvað það hafa verið venju að senda ákærða Sigurði gögn vegna funda lánanefndar samstæðu. Vegna þáttar ákærða Sigurður í viðskiptum Holt Investment Group Ltd., stöðu hans sem formaður stjórnar bankans og í ljósi margra ára reynslu hans sem bankamaður og æðsti stjórnandi í stórum alþjóðlegum banka, var honum samkvæmt gögnum málsins ljóst hvernig uppgjöri viðskiptanna yrði hagað. Jafnframt var honum sem formanni lánanefndar stjórnar ljóst, að væri ætlunin að gera viðskiptin upp á réttum tíma væri borin von að samþykki þeirrar lánanefndar fengist áður en að uppgjöri kæmi, þar sem næsti fundur nefndarinnar var ekki haldinn fyrr en rúmum mánuði síðar. Var ákærða Sigurði sem öðrum tveggja æðstu stjórnenda Kaupþings banka hf. og í ljósi þekkingar á verkferlum og vinnulagi innan bankans ljóst að útgreiðsla lánsins færi fram í því sem næst beinu framhaldi af samþykkt lánanefndar samstæðu. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veitti ákærði Sigurður atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots ákærðu Bjarka og Hreiðars Más. Verður hann því sakfelldur fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi hans við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Ingólfur var forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og formaður íslensku lánanefndarinnar og var hann sem slíkur í aðstöðu til að skuldbinda bankann. Með ákærða Ingólfi í íslensku lánanefndinni sátu ákærðu Bjarki og Björk og var Ingólfur samkvæmt skipuriti bankans yfirmaður þeirra. Hann var í niðurstöðu dómsins um ákæruatriði II. kafla ákæru sakfelldur fyrir að hafa ásamt öðrum komið á viðskiptum með þá hluti, sem Holt Investment Group Ltd. keypti í Kaupþingi banka hf. í febrúar 2008 og með þeim kjörum sem þá samdist um, en liður í viðskiptunum var að bankinn lánaði að fullu fyrir kaupunum. Vegna aðkomu ákærða Ingólfs að viðskiptunum sem fram fóru 8. og 12. febrúar 2008 og tengsla þeirra við viðskiptin 29. sama mánaðar, sem fjallað verður um í næsta kafla dómsins, stöðu hans sem forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og í ljósi margra ára reynslu hans sem bankamaður og æðsti stjórnandi í stórum banka var honum samkvæmt gögnum málsins ljóst hver uppgjörsdagur viðskiptanna var enda átti hann þátt í ákvörðun um uppgjörsdaginn. Jafnframt var honum ljóst, að væri ætlunin að gera viðskiptin upp á réttum tíma væri borin von að fá samþykki lánanefndar stjórnar bankans áður en að uppgjöri kæmi, þar sem næsti fundur nefndarinnar var ekki haldinn fyrr en rúmum mánuði síðar. Er með ólíkindum að honum hafi ekki í ljósi þekkingar á verkferlum og vinnulagi innan bankans verið ljóst að greiðsla á láni að fjárhæð 12.050.000.000 krónur úr þeirri fjármálstofnun sem hann stýrði færi fram í því sem næst beinu framhaldi af samþykkt lánanefndar samstæðu. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veitti ákærði Ingólfur atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots ákærðu Bjarka og Hreiðars Más. Verður hann því sakfelldur fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi hans við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Magnús var forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. dótturfélags Kaupþings banka hf. Þótt gögn málsins beri með sér að ákærði Magnús hafi gegnt veigamiklu hlutverki við að koma á viðskiptum Holt Investment Group Ltd. með hlutabréf 8. og 12. febrúar 2008 og sú aðkoma hans hafi í reynd verið forsenda þeirra verður að gæta að því að sem forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. var hann ekki í aðstöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf. Þótt hann hafi haft mikla reynslu sem bankamaður og þekkti gjörla til vinnulags og verkferla innan Kaupþings banka hf. er ekki hægt að telja sýnt að hann hafi samkvæmt gögnum málsins mátt gera sér það ljóst að við ákvörðun um lánveitinguna 14. febrúar 2008 og eftirfarandi útgreiðslu lánsins yrði farið á svig við lánareglur bankans. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu hans af sakargiftum samkvæmt þessum ákærulið.

8

Í ii-lið A. liðar III. kafla ákæru voru ákærðu Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur, Magnús og Bjarki bornir sökum um umboðssvik með því að hafa 10. mars 2008 í sameiningu veitt félaginu Holt Investment Group Ltd. peningamarkaðslán að fjárhæð 3.629.460.000 krónur vegna kaupa félagsins á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. 29. febrúar 2008. Uppgjörsdagur þeirra viðskipta var 7. mars 2008 og var lánið greitt út 10. sama mánaðar.

Aðdraganda lánveitingarinnar og atvikum í tengslum við útborgun lánsins er lýst hér að framan. Eins og þar kemur fram heimilaði ákærði Bjarki útborgun lánsins í tölvubréfi 10. mars 2008 til RMJ en þá lá samkvæmt gögnum málsins ekki fyrir beiðni frá Holt Investment Group Ltd. um lánveitinguna og um hana hafði ekki verið fjallað í lánanefndum Kaupþings banka hf. svo sem skylt var samkvæmt reglum hans. Félag þetta var eins og áður er fram komið nýstofnað, með takmarkaðri ábyrgð eiganda síns, átti nánast engar eignir og hafði hvorki verið metið til lánshæfis á þessu tímamarki né hafði það sett tryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins. Með því að heimila útgreiðslu lánsins við þessar aðstæður í andstöðu við lánareglur Kaupþings banka hf. misnotaði ákærði Bjarki stöðu sína sem framkvæmdastjóri útlánasviðs bankans og nefndarmaður í lánanefnd samstæðu og stefndi með því fjármunum hans í verulega hættu. Er því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sakfella ákærða Bjarka fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og er hún þar rétt færð til refsiákvæðis.

Héraðsdómur sýknaði ákærðu Hreiðar Má, Sigurð, Ingólf og Magnús af sakargiftum samkvæmt þessum lið ákæru þar sem ekki yrði af gögnum málsins ráðið að aðrir en ákærði Bjarki hefðu komið að lánveitingunni. Með því að niðurstaða héraðsdóms um þátt ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar, Ingólfs og Magnúsar í þessari lánveitingu var ekki reist á mati á trúverðugleika framburðar þeirra og vitna heldur á túlkun samtímagagna standa ákvæði 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 því ekki í vegi að Hæstiréttur endurmeti niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti.

Áður er lýst stöðu ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar og Ingólfs hjá Kaupþingi banka hf. og samkvæmt því sem þar er rakið voru þeir í aðstöðu til að skuldbinda hann. Þeir voru í niðurstöðu dómsins um ákæruatriði í II. kafla ákæru sakfelldir fyrir að hafa í sameiningu komið á viðskiptum með þá hluti, sem Holt Investment Group Ltd. keypti 29. febrúar 2008 og með þeim kjörum sem þar samdist um, en liður í viðskiptunum var að bankinn lánaði að fullu fyrir kaupunum. Í ljósi aðkomu sinnar að viðskiptunum vissu þeir hvernig uppgjöri viðskiptanna yrði hagað. Vegna þekkingar þessara ákærðu, sem voru þrír æðstu stjórnendur Kaupþings banka hf., á verkferlum og vinnulagi innan hans er með ólíkindum að þeim hafi ekki verið ljóst að lán það sem veitt yrði fyrir kaupunum kæmi til útgreiðslu á uppgjörsdegi viðskiptanna eða því sem næst. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veittu ákærðu Hreiðar Már, Sigurður og Ingólfur atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots ákærða Bjarka. Verða þeir því sakfelldir fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi þeirra við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Magnús var sem forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. ekki í aðstöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf. Með sömu rökum og greinir í niðurstöðu dómsins um i-lið A. liðar III. kafla ákæru verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu hans af þessum ákærulið.

9

Í iii-lið A. liðar III. kafla ákæru voru ákærðu Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur, Magnús, Bjarki og Björk borin sökum um umboðssvik með því að hafa í september 2008 í sameiningu veitt Holt Investment Group Ltd. lán að fjárhæð 2.563.293.785 krónur vegna kaupa félagsins á hlutum í Kaupþingi banka hf. 11. þess mánaðar sem áður er lýst.

Aðdraganda lánveitingarinnar og atvikum í tengslum við útborgun lánsins er nánar lýst hér að framan. Uppgjörsdagur viðskipta Holt Investment Group Ltd. í fyrrgreindum hlutabréfakaupum var eins og þar kemur fram 19. september 2008. Lánanefnd samstæðu Kaupþings banka hf. tók á fundi 18. sama mánaðar fyrir beiðni um lán til félagsins vegna kaupanna, en fundinn sátu ákærðu Hreiðar Már, Bjarki og Björk, og var þar ekki tekin ákvörðun um lánveitinguna heldur samþykkt að vísa málinu til lánanefndar stjórnar. Sama dag var eigi að síður gerður samningur milli bankans og félagsins um veitingu lánsins og undirrituðu hann fyrir hönd bankans ákærði Bjarki og RMJ og var lánið greitt út degi síðar. Lánanefnd stjórnar samþykkti lánveitinguna 24. september 2008 en tveimur dögum áður hafði lánið verið endurgreitt.

Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu Hreiðar Már og Sigurður sakfelldir fyrir umboðssvik vegna lánveitingarinnar þar sem þeir hefðu samþykkt hana á fundi lánanefndar stjórnar en ákærðu Ingólfur, Magnús, Bjarki og Björk sýknuð. Sýkna Ingólfs og Magnúsar var á því reist að þeir hefðu ekki átt þátt í lánveitingunni en ákærðu Bjarki og Björk voru sýknuð með því að þau hafi ekki átt sæti í lánanefnd stjórnar þar sem ákvörðun um lánveitinguna hafi verið tekin. Með því að niðurstaða héraðsdóms um aðkomu ákærðu Ingólfs, Magnúsar, Bjarka og Bjarkar að þessari lánveitingu var ekki reist á mati á trúverðugleika framburðar þeirra og vitna heldur á túlkun samtímagagna stendur 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 því ekki í vegi að Hæstiréttur endurmeti niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti.

Ákærði Bjarki undirritaði lánssamninginn sem fyrr segir 18. september 2008. Hann samþykkti í tölvubréfi til RMJ þann dag að útgreiðsla lánsins færi fram og var það greitt út degi síðar. Lánanefnd samstæðu hafði þegar þar var komið sögu ekki samþykkt lánveitinguna heldur ákveðið að vísa lánsbeiðninni til lánanefndar stjórnar. Meðan ákvörðun þeirrar nefndar lá ekki fyrir hafði endanleg lánsákvörðun í skilningi greinar 3.3.3.1.3 í regluhandbók Kaupþings banka hf. ekki verið tekin enda er ekkert í gögnum málsins sem sýnir að um hafi verið að ræða gilda samþykkt lánanefndar stjórnar milli funda samkvæmt grein 3.3.3.1.2 í handbókinni. Var þegar af þeim ástæðum sem hér greinir óheimilt samkvæmt ákvæðum greinar 3.3.3.8 í regluhandbókinni að greiða lánið út. Með því að samþykkja lánveitinguna og heimila útgreiðslu lánsins í andstöðu við lánareglur Kaupþings banka hf. misnotaði ákærði Bjarki aðstöðu sína sem framkvæmdastjóri útlánasviðs bankans og nefndarmaður í lánanefnd samstæðu. Með þeirri misnotkun aðstöðu var fjármunum bankans stefnt í verulega hættu, þar sem hér var um að ræða háa lánveitingu til nýstofnaðs félags með takmarkaðri ábyrgð eiganda síns, eignir þess voru takmarkaðar í samanburði við fjárhæð skulda, félagið hafði ekki verið metið til lánshæfis og fjarri fór að það legði fram fullnægjandi veðtryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins í samræmi við lánareglur bankans. Verður ákærði Bjarki því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis. Getur engu breytt um refsinæmi háttsemi ákærða Bjarka að lánið var endurgreitt 22. september 2008 og heldur ekki sú ákvörðun lánanefndar stjórnar bankans 24. sama mánaðar að veita lánið, enda var brot ákærða þá þegar fullframið.

Áður er lýst stöðu ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar og Ingólfs hjá Kaupþingi banka hf. og samkvæmt því sem þar er rakið voru þeir í aðstöðu til að skuldbinda hann. Þeir voru í niðurstöðu dómsins um ákæruatriði í II. kafla ákæru sakfelldir fyrir að hafa í sameiningu komið á viðskiptum með þá hluti, sem Holt Investment Group Ltd. keypti 11. september 2008 og með þeim kjörum sem þar samdist um, en liður í viðskiptunum var að bankinn lánaði að fullu fyrir kaupunum. Í ljósi aðkomu sinnar að viðskiptunum vissu þeir hvernig uppgjöri viðskiptanna yrði hagað. Vegna þekkingar þessara ákærðu, sem voru þrír æðstu stjórnendur Kaupþings banka hf., á verkferlum og vinnulagi innan hans er með ólíkindum að þeim hafi ekki verið ljóst að lán það sem veitt yrði til kaupanna kæmi til útgreiðslu á uppgjörsdegi viðskiptanna eða því sem næst. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veittu ákærðu Hreiðar Már, Sigurður og Ingólfur atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots ákærða Bjarka. Verða þeir því sakfelldir fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi þeirra við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Magnús var sem forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. ekki í aðstöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf. Með sömu rökum og greinir í niðurstöðu dómsins um i og ii-lið A. liðar III. kafla ákæru verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Magnúsar af þessum ákærulið.

Ákærða Björk var framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kaupþings banka hf. og nefndarmaður í lánanefnd samstæðu og sem slík í aðstöðu til að skuldbinda bankann. Hún samþykkti á fundi lánanefndarinnar 18. september 2008 ásamt öðrum nefndarmönnum að vísa lánsbeiðni Holt Investment Group Ltd. til lánanefndar stjórnar, en veitti degi síðar í tölvubréfi til RMJ fyrir sitt leyti samþykki fyrir því að greiða lánið út, þótt henni væri fullkunnugt að lánanefnd stjórnar hafði á því tímamarki ekki tekið ákvörðun um lánveitinguna. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að RMJ var ekki í vinnu 19. september 2008 og mun svar ákærðu Bjarkar til hans ekki hafa verið sent áfram til annarra starfsmanna bankans. Samþykki ákærðu Bjarkar var því í reynd ekki óhjákvæmileg forsenda fyrir útgreiðslu lánsins sem fram fór þennan dag, heldur var það greitt út á grundvelli tölvubréfs ákærða Bjarka til RMJ sem sent var degi fyrr. Það fær því á hinn bóginn ekki breytt að með sendingu tölvubréfsins að morgni 19. september 2008 taldi ákærða Björk sig samþykkja útgreiðslu lánsins, sem var eins og áður getur í andstöðu við lánareglur bankans. Eins og málið var í pottinn búið gerðist hún með þessu sek um ónothæfa tilraun til brots gegn 249. gr. almennra hegningarlaga. Varðar þessi háttsemi ákærðu Bjarkar við sama ákvæði, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna.

VIII

1

Í B. lið III. kafla ákæru voru ákærðu Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur og Magnús bornir sökum um umboðssvik með því að hafa í mars 2008 misnotað aðstöðu sína hjá Kaupþingi banka hf. og stefnt fé hans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga og veittu í sameiningu Fjárfestingafélaginu Mata ehf. 3.592.875.350 króna peningamarkaðslán til að fjármagna að fullu kaup á hlutum í Kaupþingi banka hf. án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar, án þess að endurgreiðsla væri tryggð í samræmi við ákvæði regluhandbókar bankans um töku trygginga fyrir útlánum og án þess að meta á nokkurn hátt greiðslugetu og eignastöðu lánþegans en eiginfjárstaða félagsins hafi verið neikvæð.

Í ákærukaflanum sagði að lánveiting bankans hafi verið „hærri en sem nam fjárþörf félagsins vegna hlutabréfakaupanna og myndaðist því handbært fé á reikningum þess að fjárhæð 3.575.000 krónur. Var fénu komið fyrir í peningamarkaðssjóði í nafni félagsins hjá bankanum. Peningamarkaðslánið var greitt út hinn 27. mars 2008 og var á gjalddaga 31. mars 2008. Á gjalddaga var því skipt upp í tvö lán. Annars vegar var gerður lánssamningur á milli félagsins og Kaupþings að fjárhæð 3.000.000.000 krónur. Lánssamningurinn var á gjalddaga 30. apríl 2008 en þann dag lenti lánið í vanskilum. Hins vegar var afgangurinn hafður áfram í formi peningamarkaðsláns að fjárhæð 615.410.507 krónur. Það var framlengt sex sinnum: 3. apríl 2008, 5. maí 2008, 13. maí 2008, 30. maí 2008, 9. júní 2008 og 19. júní 2008. Hinn 25. júní 2008 voru skuldir Fjárfestingafélagsins Mata ehf. við Kaupþing settar saman í einn lánssamning að fjárhæð 3.775.253.345 krónur en það lán var kúlulán á gjalddaga 2. júlí 2009. Lánið hefur frá þeim degi verið í vanskilum að frátalinni innborgun þegar framangreind eign félagsins í peningamarkaðssjóði var innleyst við fall bankans. Verður að telja lánið Kaupþingi að öðru leyti að fullu glatað.“

Aðdraganda viðskiptanna þegar Fjárfestingafélagið Mata ehf. keypti 5.000.000 hluti í Kaupþingi banka hf. og tengslum þeirra við þá lánveitingu sem hér um ræðir er nánar lýst að framan. Þar á meðal er rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi og við skýrslutöku hjá lögreglu og gerð grein fyrir tölvubréfasamskiptum GG og ákærða Magnúsar, ákærðu Magnúsar og Ingólfs, ákærða Ingólfs og FRR ásamt tölvubréfasamskiptum GG við starfsmann lögfræðisviðs Kaupþings banka hf. og FRR.

Um aðdraganda lánveitingar þeirrar sem B. liður III. kafla ákæru snýr að er þess að öðru leyti fyrst að geta að FRR sendi HSK tölvubréf í hádeginu 27. mars 2008 undir yfirskriftinni: „Nýrækt ehf kt 701296-5249“ og spurði hvort HSK kannaðist við að eiga að lána félaginu 3.592.875.350 krónur. Í svari hans stuttu síðar kom fram að hann hefði ekki heyrt af því ennþá. Í beinu framhaldi hringdi FRR í GÞ og spurði hvort hann kannaðist við Nýrækt ehf. Svaraði GÞ því játandi. Jafnframt spurði FRR hvort það ætti „ekki að vera money market eitthvað?“ GÞ svaraði því játandi með orðunum: „Money market í viku.“ Þá sagði FRR: „Í viku, ok. Hann HSK kannaðist ekki við það, á ég bara að biðja hann um að gera það?“ Því svaraði GÞ játandi, lýsti síðan helstu skilmálum lánsins og sagði FRR að gjalddaginn skyldi vera „hérna bara föstudaginn eftir viku ... þá erum við búnir að hreinsa þetta upp.“ Rakleitt eftir þetta sendi FRR annað tölvubréf á HSK og sagði: „GÞ er með málið og bað mig um að biðja þig um þetta með 350 punkta álagi og uppgjör á föstudaginn eftir viku. Þetta þarf að koma í dag inn á vörslureikninginn þeirra. Ok?“ Framangreind lánsfjárhæð var greidd inn á vörslureikning Fjárfestingafélagsins Mata ehf. 27. mars 2008. Í gögnum málsins er eina skjalið um lánveitinguna óundirritað blað á stöðluðu formi Kaupþings banka hf. dagsett þann dag þar sem fram komu heiti Nýræktar ehf. og bankans, að samningsdagur væri 27. mars 2008, lánsfjárhæðin 3.592.875.350 krónur og að gjalddagi lánsins væri 4. apríl sama ár.

Daginn eftir útgreiðslu lánsins fengu FRR og GÞ sent tölvubréf frá starfsmanni í bakvinnslu Kaupþings banka hf. sem bar yfirskriftina: „Staðfesting á peningamarkaðsinnláni.“ Í fylgiskjali var staðfesting á skilmálum peningamarkaðsláns og voru FRR og GÞ beðnir um að afla undirritunar en eftir gögnum málsins virðist það ekki hafa verið gert. Í beinu framhaldi sendi GÞ tölvubréf á FRR og spurði hvort hann væri í sambandi við GG. Því svaraði FRR samstundis neitandi.

Peningamarkaðslánið frá 27. mars 2008 stóð 31. sama mánaðar í 3.600.360.507 krónum með áföllnum vöxtum og var þá endurfjármagnað. Í fyrsta lagi var þann dag gerður samningur nr. 7376 milli Fjárfestingafélagsins Mata ehf. og Kaupþings banka hf. um lán að fjárhæð 3.000.000.000 krónur sem átti að endurgreiða í einu lagi 30. apríl 2008. Samningurinn var undirritaður af ákærða Bjarka og GÞ fyrir hönd lánveitanda. Í lánssamningnum kom fram að tilgangur lántökunnar væri að „endurfjármagna skuldir lántaka við bankann (money market lán).“ Í öðru lagi var félaginu 31. mars 2008 veitt peningamarkaðslán að fjárhæð 615.410.507 krónur með gjalddaga 4. næsta mánaðar. Forsvarsmenn félagsins undirrituðu yfirlýsingu 31. mars 2008, þar sem Kaupþingi banka hf. voru settir að handveði 5.000.000 hlutir í bankanum til tryggingar láni nr. 7376, en þar var um að ræða hlutabréfin sem keypt voru 25. sama mánaðar. Peningamarkaðslánið var framlengt alls sex sinnum, í mislangan tíma í senn, en það var síðast á gjalddaga 24. júní 2008.

GÞ sendi síðdegis 1. apríl 2008 tölvubréf til fjármálastjóra Kaupþings banka hf. með afriti meðal annars á ákærða Bjarka undir yfirskriftinni: „Nokkrir samningar sem þurfa að fara inn fyrir lokun.“ Þar sagði: „Meðfylgjandi eru helstu skilmálar fyrir þessi 4 lán. Þetta þarf að keyrast inn m.v. value 31.03.2008. Þú getur bent lánavinnslunni á að hafa samband ... ef þau hafa frekari spurningar. Við erum einnig með drög að lánssamningum sem við getum sent á þau. Er ekki að þreyta þig með því skjalaflóði.“ Fjármálastjórinn sendi að vörmu spori tölvubréf undir sömu yfirskrift á starfsmann bankans og sagði: „Þetta er það sem ég þarf að koma inn í kerfin og gengst í ábyrgð fyrir að lánasamningar muni skila sér með öllum undirskriftum. GÞ þekkir þau smáatriði ef eitthvað vantar inn á.“ Starfsmaðurinn sendi hálfri klukkustund síðar tölvubréf á GÞ með afriti á fjármálastjórann og sagði: „Var ekki búið að greiða þessa samninga út á reikninga lántaka? Var búið að draga þóknanirnar frá?“ GÞ svaraði að bragði með orðunum: „Nei og nei. Þ.e. hvorki búið að borga þetta út né draga þóknunina frá.“ Starfsmaðurinn sendi undir lok vinnudags tölvubréf á GÞ með afriti meðal annars á fjármálastjórann. Þar sagði: „Skv. samtali – þá voru eftirfarandi upphæðir millifærðar inná safnreikninga lánavinnslu ... ISK 2.984.950.000,- inná 300-26-1033 Við þurfum að fá upplýsingar hvert þessi peningur eigi að fara þar sem það lá ekki ljóst fyrir hvort búið væri að greiða þetta út.“ Á sama tíma sendi starfsmaðurinn tölvubréf á fjármálastjórann og sagði: „Ég skildi það þannig á okkar samtali að búið væri að gera þetta upp – það þyrfti bara að skrá samningana inní Libru. Ég reyndi að hafa samband við þig í síma en náði ekki í þig. Eftir samtal við GÞ ákváðum við að greiða þetta inná safnreikninga lánavinnslu og bíða frekari upplýsinga.“ Starfsmaðurinn sendi síðan fjármálastjóranum að morgni næsta dags tölvubréf þar sem sagði: „Þetta var validerað m.v. 31/03/2008.“

Stuttu eftir hádegi 2. apríl 2008 sendi GÞ tölvubréf á HSK með afriti á fjármálastjórann og ákærða Bjarka þar sem sagði: „Það þarf að greiða MM lán inná eftirfarandi aðila m.v. 31.3.2008: ... ISK 2.984.950.000, - inná 300-26-1033 - Fjárfestingafélagið Mata ehf. Þú sérð hér að neðan hvaðan taka á aurinn.“ Þremur klukkustundum síðar sendi RMJ tölvubréf á GG með afriti á GÞ. Þar sagði: „Meðfylgjandi eru lánasamningar og handveðssamningur fyrir Fjárfestingafélagið Mata ehf. Vinsamlegast sendu mér til baka tvö undirrituð eintök.“

Í tengslum við framlengingu peningamarkaðslánsins 3. apríl 2008 er þess að geta að RMJ sendi starfsmanni fjárstýringar Kaupþings banka hf. tölvubréf síðdegis þann dag þar sem sagði: „Nýrækt ehf er með MM lán hjá ykkur á gjalddaga á morgun.Viltu vinsamlegast framlengja því um einn mánuð.“ Starfsmaðurinn svaraði stuttu síðar og sagðist vera „búinn að framlengja frá 4.4. til 5.5. @ 18,75%“.

Ákærði Magnús sendi tölvubréf 14. apríl 2008 á GÞ þar sem sagði: „Hi getur þú sent mér við hvern GG á að tala ... hjá ykkur varðandi Nýrækt, núna mata fjárfestingar, vegna skulda félagsins, hann vill vera öruggur að öll lán séu í skilum.“ GÞ svaraði þessu næsta dag í tölvubréfi til ákærða Magnúsar með afriti til RMJ og sagði: „RMJ hefur reyndar verið í sambandi við GG en ég skal biðja hann um að hafa samband við hann.“ Í framhaldi af þessu sendi RMJ tölvubréf á GÞ og sagði: „Ég sé að lánið er aðeins til eins mánaðar – gjalddagi 30.04 nk. Verður þessu framlengt eða gerir hann þetta upp þá?“ Því svaraði GÞ stuttu síðar og sagði: „Við þurfum væntanlega að framlengja því sem ekki er unnt að koma í fjármögnun hjá öðrum bönkum.“ RMJ sendi GG tölvubréf 16. apríl 2008 með afriti á GÞ og sagði: „Varðandi peningamarkaðslánið sem við ræddum í símann fyrr í dag, þá er það á gjalddaga 05.05.2008. Við munum verða í sambandi fyrir þann tíma til að ákveða hvernig við höfum framhaldið á því.“

Starfsmaður Kaupþings banka hf. sendi tölvubréf á samstarfskonu sína um miðjan dag 23. apríl 2008 undir yfirskriftinni „veist þú hvað þetta er?“ Því svaraði hún fjórum mínútum síðar: „Þetta er Money Market lán – þú getur fengið kvittun ... í frágangi viðskipta“. Starfsmaðurinn sendi að bragði tölvubréf á annan starfsmann bankans og spurði: „Veistu hver er kontakt aðili við nýrækt ehf., þessar isk liggja á vörslunni.“ Hann fékk stuttu síðar svofellt svar: „Meðfylgjandi er kvittun fyrir þessu, ég sendi þetta alltaf á GÞ og FRR.“ Starfsmaðurinn sendi tíu mínútum síðar tölvubréf á GÞ og sagði: „Sæll, þessir aurar liggja inn á vörslu Nýræktar. Eigum við að henda þessu í peningamarkaðssjóð?“ GÞ sendi þá tölvubréf á RMJ með afriti til starfsmannsins og sagði: „RMJ er með þetta.“ Í beinu framhaldi sendi starfsmaðurinn tölvubréf á RMJ og spurði: „Hvað segirðu RMJ, pmsj?“ Því svaraði RMJ að bragði: „Já, takk – PMSJ.“

Lán nr. 7376 var á gjalddaga 30. apríl 2008. Þann dag var það hvorki endurgreitt né endurfjármagnað. Tilkynning um vanskil var send Fjárfestingafélaginu Mata ehf. 7. maí 2008 og ítrekun 30. sama mánaðar.

Starfsmaður í fjárstýringu Kaupþings banka hf. sendi tölvubréf til RMJ og GÞ 6. maí 2008 og minnti þar á að „Nýrækt ehf var á gjalddaga 5.5. Á að framlengja því?“ RMJ svaraði með tölvubréfi til þeirra sömu og spurði: „GÞ, eigum við að rúlla þessu í viku?“ Því svaraði GÞ játandi síðar sama dag.

Ákærði Bjarki sendi tölvubréf á RMJ síðdegis 15. maí 2008, með afriti til GÞ, og spurði: „RMJ, Ert þú nokkuð með stöðuna á þessum málum – og hvað hefur verið selt út af þeim?“ RMJ svaraði ákærða Bjarka stuttu síðar, með afriti á GÞ, og sagði lán Fjárfestingafélagsins Mata ehf. „á Ft.sviði: 3.000 millj Lán í Fjárstýringu: 630 millj. Verðmæti bréfa á vörslureikningi félagsins: Nom. 5.000.000 – mv 3.915.000. SPKEF tekur 1.500 millj og greiðir samsv. niður af láni á Ft.sviði.“ Ákærði Bjarki svaraði og sagði meðal annars: „Þyrftum síðan að færa ... Mata/Nýrækt úr MM í lánssamninga sem fyrst.“ RMJ sendi ákærða Magnúsi tölvubréf um líkt leyti og sagði: „GÞ bað mig um að gefa þér update á stöðunni hjá Fjárf.félaginu Mata. Lánið á Fyrirtækjasviði er 3 milljarðar. MM lán í Fjárstýringu er 630 milljónir. SPKEF mun svo taka 1.500 millj. sem fer í að greiða niður stöðuna á Fyrirtækjasviði.“

RMJ fékk tölvubréf frá starfsmanni í lánaumsýslu Kaupþings banka hf. 26. maí 2008 þar sem minnt var á að lán nr. 7376 „er fallið síðan 30.04.2008, er von á framlengingu eða verður þetta greitt á næstunni?“ RMJ svaraði sama dag: „Það er von á framlengingu – verður vonandi tekið fyrir í þessari viku.“

Þann 30. maí 2008 sendi HSK tölvubréf á RMJ undir yfirskriftinni: „Holt og Nýrækt á gjalddaga í dag“ og spurði: „Á að framlengja þessu eitthvað?“ RMJ svaraði stuttu síðar með afriti til ákærða Bjarka og sagði: „Jú, framlengjum um 10 daga. Bjarki, viltu staðfesta?“ Það gerði ákærði Bjarki þegar í stað.

Starfsmaður Kaupþings banka hf. sendi 2. júní 2008 tölvubréf á GÞ og FRR undir yfirskriftinni: „Staðfesting á peningamarkaðsinnláni“ og sagði: „Vinsamlega undirritið meðfylgjandi skjöl og sendið til baka með tölvubréfi eða á fax“. GÞ svaraði þessu með tölvubréfi til þeirra sömu þar sem fram kom að því fylgdi skjal með auðkenninu „446130“ en peningamarkaðslánið sem framlengt var 30. maí 2008 var nr. 395131/446130.

Þann 3. júní 2008 sendi starfsmaður Kaupþings banka hf. tölvubréf meðal annars á ákærðu Ingólf, Bjarka og Björk undir yfirskriftinni: „ICC fundargögn 05.06.2008.“ Afrit fengu ákærðu Hreiðar Már og Sigurður ásamt SPK. Tölvubréfið hafði að geyma dagskrá fundar íslensku lánanefndarinnar og bar 7. dagskrárliður heitið „Project Draupnir (RMJ).“ Í fylgiskjali voru fundargögn og þar á meðal vegna „Draupnir overview.pdf ... Fjárfestingafélagið Mata ehf.“ Síðar sama dag sendi ritari lánanefnda tölvubréf á ákærðu Hreiðar Má, Sigurð, Bjarka og Björk ásamt SPK með dagskrá fundar lánanefndar samstæðu Kaupþings banka hf. 5. júní 2008. Þar var dagskrárliður sem bar heitið „Draupnir (RMJ) Eik Bank, Icebank, Keflavik Saving Bank, Mata Investment & Holt Investment.“ Í fylgiskjali voru gögn vegna Fjárfestingafélagsins Mata ehf. Ákærði Hreiðar Már svaraði tölvubréfi ritarans degi síðar og sagðist verða í London fyrir hádegi daginn eftir og ekki geta hringt inn.

Málefni Fjárfestingafélagsins Mata ehf. voru tekin fyrir á fundum lánanefnda Kaupþings banka hf. í byrjun júní 2008 eða rúmum tveimur mánuðum eftir að félagið fékk upphaflegt peningamarkaðslán 27. mars sama ár. Í lánsbeiðni dagsettri 19. maí 2008, sem RMJ útbjó, kom fram að félagið væri með skammtímalán hjá fyrirtækjasviði bankans að fjárhæð 3.050.000.000 krónur, og peningamarkaðslán að fjárhæð 650.000.000 krónur en til tryggingar lánum félagsins væru 5.000.000 hlutir í bankanum. Þá kom fram að Sparisjóður Keflavíkur hefði samþykkt að taka yfir 1.500.000.000 krónur af lánsfjárhæðinni. Óskað væri eftir láni að fjárhæð 2.200.000.000 krónur til eins árs til að fjármagna kaup á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. Í lánsbeiðninni kom fram að eiginfjárhlutfall félagsins væri 3% en gerð yrði krafa um eiginfjárhlutfall á bilinu 3 til 10%. Var það á því reist að heildarskuldir félagsins væru 3.700.000.000 krónur og að markaðsvirði hlutabréfanna í Kaupþingi banka hf. þann dag væri 3.810.000.000 krónur. Einnig kom fram að félagið væri á undanþágulista í áhættustýringu hvað varðaði lánshæfismat.

Framangreind lánsbeiðni var tekin fyrir á fundi íslensku lánanefndar Kaupþings banka hf. 5. júní 2008 en fund hennar sátu ákærðu Ingólfur, Bjarki og Björk. Fjallað var um lánveitinguna undir liðnum „Project Draupnir“ en samkvæmt fundargerð óskaði félagið eftir láni að fjárhæð 2.200.000.000 krónur. Lánanefndin vísaði málinu til lánanefndar samstæðu. Fundur lánanefndar samstæðu hófst samkvæmt gögnum málsins strax að loknum fundi íslensku lánanefndarinnar. Hann sátu ákærðu Bjarki og Björk en ákærði Hreiðar Már var samkvæmt fundargerð fjarverandi. SPK sat einnig fundinn. Samkvæmt fundargerð var ekki óskað eftir láni að fjárhæð 2.200.000.000 krónur til handa Fjárfestingafélaginu Mata ehf. eins og gert var á fundi íslensku lánanefndarinnar, heldur allt að 3.800.000.000 krónur. Fram kom að félagið væri á undanþágulista í áhættustýringu og að tilgangur lánsins væri að fjármagna kaup þess á hlutabréfum í skráðum félögum. Samkvæmt fundargerð var sett skilyrði um lágmarks eiginfjárhlutfall félagsins og að til tryggingar láninu yrðu eins og sagði í framlagðri þýðingu fundargerðarinnar: „Allar eignir lántaka, sem samanstanda af hlutum í Kaupþingi banka hf. – og/eða veðsetningarbann á öllum eignum Mata.“ Lánanefndin samþykkti lánsbeiðnina og hófst í kjölfarið vinna á fyrirtækjasviði við að afgreiða lánið. Það varð þó ekki að veruleika fyrr en 25. júní 2008 en í millitíðinni voru peningamarkaðslán framlengd og lán nr. 7376 í vanskilum.

RMJ sendi tölvubréf á HSK og starfsmann fjárstýringar Kaupþings banka hf. 5. júní 2008 undir yfirskriftinni „Mata og Holt“ og bað þá að senda sér stöðu félaganna „í MM m.v. lokastöðu dagsins í dag“. Starfsmaðurinn svaraði samdægurs og sagði höfuðstól láns nr. 446130 vera 635.051.083 krónur, vextir væru 19,25% og gjalddagi 9. júní 2008. Degi síðar sendi RMJ tölvubréf á starfsmanninn undir sömu yfirskrift og sagðist þurfa að fá „heildarstöðuna á MM lánunum með áföllnum vöxtum m.v. lok gærdagsins. Við erum að klára lánasamninga sem munu miðast við að MM lánin verði greidd upp m.v. lokastöðu gærdagsins.“

Ritari lánanefnda sendi tölvubréf á RMJ 10. júní 2008 um mál sem verið höfðu á dagskrá síðasta fundar lánanefndar samstæðu. Þar sagði meðal annars að vegna „tímaleysis á síðasta fundi GCC var aðeins tæpt á Eik og Icebank og ákveðið að skoða það nánar og svo farið í næsta mál. Það var bara samþykkt að vinna málið áfram eða þannig skildi ég það ... Mata Investment Félagið er á undanþágulista varðandi lánshæfismat. Tilgangur beiðninnar er að fjármagna kaup á hlutum í Kaupþingi banka. Mata er núna með skammtímalán á fyrirtækjasviði (eins mánaðar) sem nemur ISK 3.050 milljónum (ásamt áföllnum vöxtum í einn mánuð) og PM (MM) lán að fjárhæð 650 milljónir. Heildarskuld er 3.700 milljónir. Sparisjóður Keflavíkur hefur samþykkt að yfirtaka 1.500 milljónir af lánsfjárhæðinni. Þetta lán verður með veði í 2.625.000 hlutum í Kaupþingi banka. Farið er fram á eftirfarandi: Lánsfjárhæð: ISK 2.200.000.000 Lánstími: 1 ár ... Vextir: R+3 Veð: 2.375.000 hlutir í Kaupþingi banka. Veðsetningarbann: Eiginfjárhlutfall >3%-10%“.

Þann 11. júní 2008 sendi RMJ tölvubréf á ákærða Bjarka með afriti meðal annars til GÞ og sagði: „Eins og ég nefndi við þig, þá þarf að breyta bókuninni fyrir Project Draupni: 1) Fá endanlegt samþykki fyrir Eik og ICEBANK (taka út úr bókuninni „...to analyse the case further“) 2) Holt og Mata. Þurfum að fá samþykki fyrir því að Kaupþing láni til að byrja með fyrir heildarfjárhæðunum og svo þegar lánin hafa verið seld, þá greiðist inn á lánin hjá okkur. Bóka þarf eftirfarandi: ... b) Mata Loan amount: ISK 3,8 billions Loan Period: 1 year Interests: R+3% Pledge: 5.000.000 shares in Kaupthing Bank Covenant: Equity ratio >3% Stefnt er að því að lánin séu greidd út 25/6 nk. Það þarf að bóka að lánanefnd samþykki að falla frá dráttarvöxtum sem safnast hafa á lán Holt og Mata frá gjalddaga lánanna á Fyrirtækjasviði (síðan 30/4).“ Þessu tölvubréfi svaraði ákærði Bjarki samdægurs og sagði: „OK.“

Starfsmaður fyrirtækjasviðs sendi GÞ tölvubréf síðdegis 16. júní 2008 undir yfirskriftinni: „Holt Investment og Nýrækt (fjárfestingafélagið Mata)“ og sagði félögin enn vera í vanskilum og spurði hvort GÞ væri að vinna í þeirra málum. Því svaraði GÞ neitandi í tölvubréfi rúmri klukkustund síðar og sagði RMJ vera að vinna í málunum. Fimm mínútum síðar sendi starfsmaðurinn tölvubréf á RMJ og spurði hvernig málin stæðu. Því svaraði hann síðdegis 18. júní 2008: „Erum að berjast við að klára þetta fyrir mánaðamót – á ekki von á öðru en að það náist.“ RMJ sendi síðan tölvubréf á ákærða Bjarka rúmri klukkustund síðar og spurði hvort búið væri „að laga bókunina vegna Holt og Mata“ eins og rætt hafi verið um í fyrrnefndu tölvubréfi hans 11. sama mánaðar.

Starfsmaður Kaupþings banka hf. sendi snemma morguns 24. júní 2008 tölvubréf á HSK og tvo aðra starfsmenn bankans undir yfirskriftinni „ófrágengið.“ Þar sagði meðal annars: „nýrækt 641.860.759 kr númer 446364 síðan 19. júní.“ HSK framsendi tölvubréfið stuttu síðar til RMJ og spurði hvort hann mætti framlengja lánið. Því svaraði RMJ um hæl og sagði: „Hugmyndin er að greiða lánið upp á fimmtudaginn m.v. síðasta gjalddaga, þ.e. 19. júní. Er ekki best að hafa þetta í vanskilum þangað til svo það ruglist ekki fjárhæðin sem verður greidd (ég er búinn að fá stöðuna ... m.v. 19. sl.).“ HSK svaraði RMJ nokkrum mínútum síðar og sagði: „Jú best þannig – takk.“ Fjármálastjóri bankans sendi síðar sama dag tölvubréf meðal annars til RMJ, undir yfirskriftinni „Í sambandi við nýrækt og holt investment“ og sagði: „Af hverju má ekki gera það strax, því þarf að bíða eftir næsta fimmtudag þegar að talan liggur fyrir og 19. er liðinn?“ RMJ svaraði fjármálastjóranum stuttu síðar og sagði: „Ástæðan er sú að lánin voru á gjalddaga 19/6 og ákváðum við að setja þá tölu inn í samningana sem var á gjalddaga þá. Skv. þeim upplýsingum sem ég fékk, þá er ekkert mál að validera greiðsluna aftur í tímann ef greiðsla berst innan 10 daga. Þar sem upphæðin sem er til greiðslu þarf að vera tilgreind í samningi, þá fannst mér ágætt að miða við þessa dagsetningu því að það tekur alltaf einhvern tíma að klára skjalagerð og fá undirritanir. Ég er hins vegar að átta mig á því að þetta er ekki gott fyrirkomulag. Ég læt þess vegna framlengja lánunum m.v. daginn í dag og senda út nýja samninga í fyrramálið og greiði þetta vonandi á morgun (ef allar undirritanir nást).“ Fjármálastjórinn svaraði svo um hæl: „Gott mál, það að validera aftur í tímann er neyðarúrræði og á að notast sem slíkt.“

Skuldir Fjárfestingafélagsins Mata ehf. við Kaupþing banka hf. voru endurfjármagnaðar 25. júní 2008 með lánssamningi nr. 8104 að fjárhæð 3.775.253.345 krónur sem átti að endurgreiða í einu lagi 2. júlí 2009. Í samningnum sagði að tilgangur lántökunnar væri að greiða að fullu upp lán Fjárfestingafélagsins Mata ehf. hjá Kaupþingi banka hf. Ákærði Bjarki og RMJ undirrituðu samninginn fyrir hönd lánveitanda. Sama dag var gerður viðauki við handveðsyfirlýsinguna frá 31. mars 2008 þar sem fram kom að Fjárfestingafélagið Mata ehf. setti bankanum að handveði 5.000.000 hluti í Kaupþingi banka hf. til tryggingar þessu nýja láni.

RMJ sendi tölvubréf á ákærða Bjarka 27. júní 2008 undir yfirskriftinni „Holt og Mata“ og sagði: „Það er enn ólokið AML athugun á Holt og Mata. Pappírarnir liggja hjá GG í Mata og ÞEÓ í Lúx. GG er farinn í frí og ÞE hefur ekki enn skilað þessu inn. Við þyrftum helst að greiða þetta út í dag - viltu vinsamlegast staðfesta að það sé í lagi að greiða þetta út þrátt fyrir að AML athugun sé ólokið? (við höfum svo sem bæði veitt Mata og Holt lán á Ft sviði og MM lán án þess að AML athugun hafi verið gerð).“ Því svaraði Bjarki sama dag og sagði: „Samþykki fyrir mitt leyti – þekki vel til lántaka.“

2

Héraðsdómur sýknaði ákærðu Hreiðar Má, Sigurð, Ingólf og Magnús af sakargiftum samkvæmt B. lið III. kafla ákæru. Hvað varðar ákærðu Hreiðar Má og Sigurð var sú niðurstaða reist á því að ósannað væri að þeir hefðu veitt lán til Fjárfestingafélagsins Mata ehf. eins og þeim var gefið að sök í ákærukaflanum og gagnvart ákærðu Ingólfi og Magnúsi var niðurstaðan reist á því að þeir hefðu ekki haft umboð til að skuldbinda Kaupþing banka hf. með þeim hætti sem í ákærukaflanum greindi. Með því að niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærðu var ekki reist á mati á trúverðugleika framburðar þeirra og vitna heldur á túlkun samtímagagna stendur 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 því ekki í vegi að Hæstiréttur endurmeti niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti.

Fjárfestingafélagið Mata ehf. keypti eins og áður greinir í einum viðskiptum 5.000.000 hluti í Kaupþingi banka hf. 25. mars 2008 og var uppgjörsdagur þeirra tveimur dögum síðar. Bankinn fjármagnaði kaupin að öllu leyti með peningamarkaðsláni 27. mars 2008 að fjárhæð 3.592.875.350 krónur og samsvaraði lánsfjárhæðin verði hlutabréfanna ásamt þóknun og öðrum útgjöldum. Lánsfjárhæðin var sama dag greidd inn á reikning félagsins í framhaldi af tölvubréfaskiptum og símtölum milli FRR, HSK og GÞ sem áður hefur verið gerð grein fyrir. Á þessu tímamarki lá samkvæmt gögnum málsins ekki fyrir lánsbeiðni vegna Fjárfestingafélagsins Mata ehf., lánanefndir bankans höfðu ekki samþykkt lánveitinguna, félagið hafði ekki verið metið til lánshæfis og það setti engar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins. Útgreiðsla lánsins var því með öllu óheimil og var sá verknaður brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga.

Í samræmi við vinnulag og verkferla innan Kaupþings banka hf. í sambandi við útgreiðslu peningamarkaðslána, sem áður hefur verið lýst, verður að ganga út frá því að fjárstýring bankans hafi heimilað útgreiðslu lánsins 27. mars 2008 í framhaldi af tölvubréfasamskiptum og símtölum HSK við FRR og GÞ. Eins og áður greinir voru ákærðu Hreiðar Már, Sigurður og Ingólfur þrír æðstu stjórnendur Kaupþings banka hf., sátu í lánanefndum hans og voru sem slíkir í aðstöðu til að skuldbinda hann. Þeir voru í niðurstöðu dómsins um ákæruatriði í II. kafla ákæru sakfelldir fyrir að hafa í sameiningu komið á viðskiptum með þá hluti, sem Fjárfestingafélagið Mata ehf. keypti 25. mars 2008 í bankanum og með þeim kjörum sem þar samdist um, en liður í viðskiptunum var að bankinn lánaði að fullu fyrir kaupunum. Í ljósi aðkomu sinnar að viðskiptunum vissu ákærðu Hreiðar Már, Sigurður og Ingólfur hvernig uppgjöri viðskiptanna yrði hagað. Þá vissu þeir gjörla hver fyrir sig vegna setu sinnar í lánanefndum bankans að þær höfðu á þessu tímamarki ekki samþykkt lánveitingu til Fjárfestingafélagsins Mata ehf. Vegna þekkingar þessara ákærðu á verkferlum og vinnulagi innan bankans er útilokað að þeim hafi ekki verið ljóst að lán það sem veitt yrði til kaupanna kæmi til útgreiðslu á uppgjörsdegi viðskiptanna eða því sem næst. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veittu ákærðu Hreiðar Már, Sigurður og Ingólfur atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots. Verða þeir því sakfelldir fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi þeirra við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Getur engu breytt um refsinæmi verknaðar þeirra að lánanefnd samstæðu samþykkti rúmum tveimur mánuðum síðar lánveitingu til félagsins, enda voru brot ákærðu þá þegar fullframin.

Ákærði Magnús var sem forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. ekki í aðstöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf. Hann var í niðurstöðu dómsins um II. kafla ákæru sakfelldur fyrir hlutdeild í brotum ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar og Ingólfs við að koma á viðskiptum Fjárfestingafélagsins Mata ehf. um kaup á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. 25. mars 2008. Var sú niðurstaða reist á því að samskipti hans við fyrirsvarsmann Fjárfestingafélagsins Mata ehf. hefði verið forsenda þess að af viðskiptunum gæti orðið og þáttur í framkvæmd þeirra. Þótt gögn málsins beri þetta með sér um hlutverk Magnúsar við að koma viðskiptunum á verður að gæta að því sem fyrr segir að hann var ekki í aðstöðu til að skuldabinda Kaupþing banka hf. Þótt hann hafi haft mikla reynslu sem bankamaður og þekkti gjörla til vinnulags og verkferla innan bankans er ekki sýnt að hann hafi mátt gera sér það ljóst að við lánveitingu þá sem hér um ræðir yrði farið á svig við lánareglur bankans. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Magnúsar af sakargiftum samkvæmt þessum ákærulið.

IX

1

Í C. lið III. kafla ákæru voru ákærðu Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur, Magnús, Bjarki og Björk borin sökum um „umboðssvik með því að hafa í júní, ágúst og september 2008 misnotað aðstöðu sína hjá Kaupþingi og stefnt fé hans í verulega hættu þegar þau fóru út fyrir heimildir til lánveitinga og veittu í sameiningu kýpversku félagi með takmarkaðri ábyrgð, Desulo Trading Limited, alls fimm lán til að fjármagna að fullu kaup á hlutum í Kaupþingi, án þess að endurgreiðsla lánanna væri tryggð í samræmi við ákvæði reglubókar bankans um töku trygginga fyrir útlánum og án þess að meta á nokkurn hátt greiðslugetu og eignastöðu lánþegans.“ Sakargiftum á hendur ákærðu Björk samkvæmt þessum lið ákærunnar var vísað frá héraðsdómi 13. júní 2013.

2

 Hvað fyrstu tvær lánveitingarnar til Desulo Trading Ltd. varðar var sakargiftum nánar lýst þannig í i-lið C. liðar III. kafla ákæru að Kaupþing banki hf. hefði veitt félaginu tvö „lán, annað að fjárhæð 150.534.840 sænskar krónur en hitt að fjárhæð 4.994.883.619 krónur sem bæði voru samþykkt af ákærðu, Bjarka og Björk, í lánanefnd samstæðu hinn 5. júní 2008, og veitt að undirlagi og með samþykki meðákærðu, Hreiðars Más, Sigurðar, Ingólfs og Magnúsar. Skrifað var undir lánssamninga við Desulo Trading Limited hinn 11. júní 2008, og voru lánin greidd inn á reikninga félagsins hjá Kaupþingi banka hf. hinn 13. júní 2008 og þaðan inn á reikning félagsins hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hinn 16. júní 2008. Var lánið í sænsku krónunum notað til að greiða fyrir viðskipti félagsins með hluti í Kaupþingi í sænsku kauphöllinni á tímabilinu 14. maí 2008 til 21. maí 2008 en lánið í íslensku krónunum var notað til að greiða fyrir viðskipti félagsins með hluti í Kaupþingi í íslensku kauphöllinni dagana 28. maí 2008 og 4. júní 2008, hvort tveggja að meðtöldum lántökukostnaði. Bæði lánin voru á gjalddaga hinn 13. desember 2008. Lánin hafa frá þeim degi verið í vanskilum og verður að telja þau Kaupþingi að fullu glötuð.“

 Um aðdraganda lánveitinganna tveggja er þess fyrst að geta að Kaupþing banki hf. seldi Desulo Trading Ltd. 8.849.500 hluti í bankanum á tímabilinu 14. maí til 4. júní 2008 með þeim hætti sem nánar er rakið hér að framan. Bankinn fjármagnaði kaupin að öllu leyti með tveimur lánssamningum sem dagsettir voru 11. júní 2008, öðrum að fjárhæð 4.994.883.619 krónur og hinum 150.534.840 sænskar krónur, og var gjalddagi beggja lánanna 13. desember 2008. Samningarnir voru báðir undirritaðir af KVE fyrir hönd lántaka og ákærðu Bjarka og Björk fyrir lánveitanda. Samkvæmt kvittun Kaupþings banka hf. voru lánin greidd inn á reikning Desulo Trading Ltd. hjá bankanum 13. júní 2008, annars vegar 4.994.859.783 krónur og hins vegar 149.025.491 sænsk króna.

Uppgjörsdagar hlutabréfakaupanna 28. maí og 4. júní 2008 voru 2. og 9. júní sama ár. Af gögnum málsins verður ekki séð af hverju uppgjörsdagar og útborgunardagar lánanna voru ekki þeir sömu. Staðan á reikningi Desulo Trading Ltd. var því neikvæð þar til lánin voru greidd út. Svo er að sjá að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi brúað bilið með fjármögnun því í tölvubréfi sem ákærði Magnús sendi tveimur starfsmönnum útlánasviðs þess banka eftir hádegi 14. maí 2008 sagði: „I have approve, short term placing on kaupthing shares to be bought by Desulo, company owned by EÁ, he buy for few days and then the shares will be funded in Iceland. we could see close to -15m eur drawn on the account over few days.“ EBS sendi tölvubréf til tveggja starfsmanna bankans að kvöldi sama dags og sagði: „Can you urgently finalize an account opening for Desulo with Kaupthing in Iceland.“ Þessu tölvubréfi svaraði annar starfsmannanna næsta morgun og sagði: „I would like to but I don´t have any templates to fill in. Please provide it to me.“

Áður eru rakin tölvubréfasamskipti ákærðu Magnúsar og Bjarka og EBS 21. maí 2008 þar sem þeir skiptust á upplýsingum um „nafn og heimilisfang á félaginu hans EÁ“ eins og þar var komist að orði ásamt upplýsingum um fjölda hluta í Kaupþingi banka hf. sem það félag keypti og verð hlutanna. Í tölvubréfi ákærða Magnúsar til ákærða Bjarka um hádegisbil þann dag spurði Magnús hvort lánalína í sænskum krónum væri tilbúin fyrir „felagid hans EÁ.“ Bjarki svaraði að bragði og kvað svo ekki vera, sig vantaði upplýsingar um heiti félagsins, umbeðna lánsfjárhæð og tryggingar til að geta tekið málið áfram fyrir lánanefnd. Magnús svaraði þá: „Ef thetta fer ekki i gegn tha er betra ad vita thad strax.“

IV sendi tölvubréf til starfsmanns Kaupþings banka hf. að morgni 29. maí 2008 með upplýsingum um heimilisfang Desulo Trading Ltd. á Kýpur og spurði hvort þetta væri „til í Libra og höfum við eitthvað keyrt á þetta félag.“ Hún svaraði strax og sagði: „Þetta er ekki til í vog, þannig að við getum ekki hafa keyrt neitt á þetta félag, a.m.k. ekki undir þessu nafni.“ IV sendi tölvubréf á ákærða Bjarka um líkt leyti undir yfirskriftinni „kaup 5@750“ og spurði: „Veist þú, verður þetta tekið í gegnum Kaupþing Lúx eða beint á félagið og er þetta ekki örugglega bréf í isk ekki sek eins og var um daginn, en IH bað um þetta í isk í gær, bara að tryggja að það sé rétt.“

Snemma næsta dags sendi IV tölvubréf á ákærða Bjarka undir sömu yfirskrift og sagði: „Þar sem þetta er ekki til í okkar kerfum keyrði ég þetta á Kaupþing Lúx. Þú sérð um að aurar komi inn fyrir þessu, ræddi við Magga í morgun vegna þessa. Láttu mig vita ef þú vilt gera þetta á annan hátt.“ Síðdegis þann dag sendi EBS tölvubréf til ákærða Bjarka og sagði: „Varðandi lán til félagsins þá höfum við keypt í SEK 2.349.500 bréf á 63 og 5.000.000 bréf á 754,5. Þetta eru eignir og samsvarandi skuldir félagsins.“

EBS sendi tölvubréf til ákærða Bjarka eftir hádegi 2. júní 2008 og sagði: „Vantar eitthvað fleira til að ganga frá láninu? Hvenær getum við keyrt viðskiptin til Íslands?“ Í svari morguninn eftir sagðist Bjarki halda að hann væri „kominn með allt frá ykkur – það þarf að ganga frá samþykki lánanefndar áður en við getum keyrt viðskiptin. Geri ráð fyrir að það liggi fyrir í vikunni.“ Um líkt leyti sendi ákærði Bjarki tölvubréf til RMJ undir yfirskriftinni „Desulo“ og lét hann vita að ganga þyrfti frá beiðni til lánanefndar vegna kaupanna.

Framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sendi að morgni 4. júní 2008 tölvubréf til EBS og tveggja annarra starfsmanna bankans undir yfirskriftinni „Desulo (Cyprus company).“ Þar sagði: „Can you please arrange all the account opening for this company in Kaupthing Iceland. According to EBS DR had already started to work on this, but she is not in today. It is important that this file will be completed today, as there will be a big transaction tomorrow. An Icelandic kennitala needs to be applied for as well and I can assist you with that one.“

Í lánsbeiðni sem RMJ útbjó og bar með sér að vera dagsett 4. júní 2008 kom fram að Desulo Trading Ltd. óskaði eftir tveimur lánum frá Kaupþingi banka hf., annars vegar að fjárhæð 4.912.500.000 krónur til að fjármagna kaup á 6.500.000 hlutum í bankanum og hins vegar 148.018.500 sænskar krónur vegna kaupa á 2.349.500 hlutum á sænska markaðnum. Í beiðninni sagði að félagið væri í eigu EÁ, viðskiptavinurinn hefði ekki áður sótt um lán hjá bankanum og væri félagið á undanþágulista í áhættustýringu varðandi lánshæfiseinkunn. Fram kom að veðþekjan yrði 99% að loknum lánveitingunum og það sem helst mælti gegn þeim væri að veðþekja félagsins væri mjög þunn. Í beiðninni var gert ráð fyrir heimild til veðkalls við 90 til 100% veðþekjumörk. Lagt var til að veitt yrðu lán til eins árs að fjárhæð 140.382.625 sænskar krónur og 4.912.500.000 krónur.

Lánanefnd samstæðu samþykkti báðar lánsbeiðnirnar á fundi 5. júní 2008. Hann sátu nefndarmennirnir ákærðu Bjarki og Björk auk SPK. Meðal gagna málsins eru nokkrar útgáfur af fundargerð þessa fundar lánanefndar. Í einni sagði samkvæmt framlagðri þýðingu: „Desulo Trading Limited. Félagið er á undanþágulista varðandi lánshæfismat. Beðið er um SEK 140,4 m og ISK 4.9 ma til að fjármagna kaup á hlutum í Kaupþingi Banka. Desulo er eignarhaldsfélag í eigu EÁ ... sem hefur verið viðskiptamaður bankans. Lagt er til eftirfarandi: Lánsfjárhæð: SEK 140.382.625 Lánstími: 1 ár Vextir: R+3-4% Umsýsluþóknun: 0-1% Veð: 2.349.500 hlutir í Kaupþingi Banka (SEK) Veðþekja: 90%-100% Lánsfjárhæð: ISK 4.912.500.000. Lánstími: 1 ár Vextir: R+3-4% Umsýsluþóknun: 0-1% Veð: 6.500.000 hlutir í Kaupþingi Banka. Veðþekja: 90-100% Útlánanefnd samstæðunnar samþykkti beiðnina með fyrirvara um breytt ákvæði. Lánstími verður 6 mánuðir, vextir R+3%, umsýsluþóknun 1.0% Veðkall við 90% og engin veðþekja.“

Í annarri útgáfu fundargerðarinnar sagði: „Desulo Trading Limited. Félagið er á undanþágulista varðandi lánshæfismat. Heildaráhættuskuldbinding verður 6.9 ma. Beðið er um SEK 150 m og ISK 5 ma til að fjármagna kaup á hlutum í Kaupþingi Banka. Desulo er eignarhaldsfélag í eigu EÁ ... sem er vel þekktur í bankanum.“ Lánstími var sagður sex mánuðir og um tryggingar sagði: „Lánið verður tryggt með öllum eignum lántaka sem eru hlutir í Kaupþingi Banka hf. – og/eða veðsetningarbann yfir öllum eignum Desulo Trading Limited. Útlánanefnd samstæðunnar samþykkti beiðnina. Lánstími verður sex mánuðir, vextir R+3%, umsýsluþóknun 1.0%.“

Þriðja útgáfa fundargerðarinnar var efnislega samhljóða annarri útgáfunni nema hvað þar sagði að lánstími væri eitt ár og veðkall yrði við 90%. Fundargerðin var fylgiskjal með tölvubréfi ákærða Bjarka til ákærðu Bjarkar og tveggja annarra starfsmanna Kaupþings banka hf. 26. júní 2008. Sagðist Bjarki í tölvubréfinu hafa farið yfir þá útgáfu. Í henni kom fram að lánanefndin samþykkti að veita Desulo Trading Ltd. tvö lán, annars vegar að fjárhæð 150.000.000 sænskar krónur og hins vegar 5.000.000.000 íslenskar krónur. Í þeirri fundargerð kom einnig fram að allar eignir félagsins yrðu til tryggingar lánunum, auk þess sem mælt var fyrir um veðsetningar- og sölubann á eignum lántaka. Í tölvubréfinu setti Bjarki þann fyrirvara að RMJ þyrfti að staðfesta að þær tölur sem fram komu í þessari útgáfu fundargerðarinnar væru réttar. Undirrituð fundargerð frá þessum fundi er ekki meðal gagna málsins.

Sem fyrr segir voru undirritaðir tveir lánssamningar milli Kaupþings banka hf. og Desulo Trading Ltd. 11. júní 2008, annar að fjárhæð 4.994.883.619 krónur og hinn 150.534.840 sænskar krónur. Veðsamningur dagsettur 11. júní 2008 var einnig gerður milli Kaupþings banka hf. og Desulo Trading Ltd. vegna framangreindra tveggja lána og sagði þar að lánveitandi tæki að handveði 6.500.000 hluti í bankanum keypta á íslenska markaðnum og 2.349.500 á þeim sænska. Samninginn undirrituðu KVE fyrir hönd veðsala og ákærðu Bjarki og Björk fyrir veðhafa. Eins og áður greinir voru lánin sem veitt voru með samningunum 11. júní 2008 greidd inn á reikning Desulo Trading Ltd. hjá Kaupþingi banka hf. 13. sama mánaðar.

3

Um þriðju lánveitingu Kaupþings banka hf. til Desulo Trading Ltd. sagði í ii-lið C. liðar III. kafla ákæru að bankinn hefði veitt félaginu lán „að fjárhæð 767.680.000 krónur sem samþykkt var af ákærðu, Hreiðari Má, Bjarka og Björk, í lánanefnd samstæðu hinn 19. júní 2008, og veitt að undirlagi og með samþykki meðákærðu, Sigurðar, Ingólfs og Magnúsar. Skrifað var undir lánssamning við Desulo Trading Limited hinn 20. júní 2008, og var lánið greitt inn á reikning félagsins hjá Kaupþingi banka hf. hinn 25. júní 2008 og þaðan inn á reikning félagsins hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hinn 3. júlí 2008. Var lánið notað til að greiða fyrir viðskipti félagsins með hluti í Kaupþingi hinn 11. júní 2008, að meðtöldum lántökukostnaði. Var lánið á gjalddaga hinn 13. desember 2008. Lánið hefur frá þeim degi verið í vanskilum og verður að telja það Kaupþingi að fullu glatað.“

Sem fyrr greinir keypti Desulo Trading Ltd. 1.000.000 hluti í Kaupþingi banka hf. 11. júní 2008 og er aðdraganda viðskiptanna áður lýst. Uppgjörsdagur þeirra var 16. sama mánaðar og nam kaupverðið með þóknun 753.000.000 krónum. Fyrrnefnda daginn voru 754.500.000 krónur greiddar út af reikningi Desulo Trading Ltd. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og varð staðan á honum með því neikvæð.

RMJ gekk frá lánsbeiðni vegna Desulo Trading Ltd. í tilefni þeirra hlutabréfaviðskipta sem hér um ræðir og bar hún með sér að vera dagsett 4. júní 2008. Fram kom að Desulo Trading Ltd. óskaði eftir láni með einum gjalddaga að fjárhæð 770.000.000 krónur til að fjármagna kaup á 1.000.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. Gert væri ráð fyrir að lánið yrði til sex mánaða og tekið var fram að lántaki væri á undanþágulista í áhættustýringu í tengslum við lánshæfiseinkunn. Veðþekja á lánum félagsins var sögð 98% að lokinni lánveitingunni og það sem helst mælti gegn henni væri hversu þunn veðþekjan væri. Gert var ráð fyrir veðkalli færi veðþekjan undir 90%. Í lánsbeiðninni kom fram hvaða fyrirgreiðsla hafði verið samþykkt áður til félagsins. Dagana 12. og 13. júní 2008 áttu starfsmenn Kaupþings banka hf. símtöl og voru í tölvubréfaskiptum við starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. vegna opnunar reikninga fyrir Desulo Trading Ltd. og eru þau samskipti áður rakin.

Að morgni 18. júní 2008 sendi starfsmaður Kaupþings banka hf. tölvubréf til ákærðu Hreiðars Más, Bjarka og Bjarkar og SPK, með afriti til ákærða Sigurðar, undir yfirskriftinni „GCC fundargögn 19.06.2008.“ Í tölvubréfinu var boðað til fundar lánanefndar samstæðu á hádegi næsta dag. Síðdegis fyrrnefnda daginn sendi starfsmaðurinn annað tölvubréf á sömu viðtakendur og sagði meðal annars: „Óskað hefur verið eftir að taka eftirfarandi undir önnur mál á GCC fundinum á morgun: ... 2. Desulo Trading Limited, ISK 770m lán til viðbótar til kaupa á bréfum í Kaupþingi.“

Lánanefnd samstæðu hélt fund 19. júní 2008 og í fundargerð kom fram að nefndin hefði samþykkt að veita lán til Desulo Trading Ltd. að fjárhæð 770.000.000 krónur „til að kaupa hluti í Kaupþingi Banka. Desulo er eignarhaldsfélag í eigu EÁ ... sem hefur verið viðskiptamaður bankans.“ Fundinn sátu ákærðu Hreiðar Már, Bjarki og Björk. Í ódagsettri lánssamþykkt kom fram að lánsfjárhæðin væri 767.680.000 krónur að meðtalinni miðlaraþóknun, lántökugjaldi og skjalagerðargjaldi. Starfsmaður bankans sendi RMJ tölvubréf sama dag með bókunum frá fundi lánanefndarinnar. RMJ sendi tölvubréfið áfram síðar sama dag til tveggja annarra starfsmanna bankans og sagði að þarna kæmu bókanirnar. Í framhaldinu voru þær sendar fleiri starfsmönnum Kaupþings banka hf. sem virðast hafa átt að sjá um skjalagerð.

Lánssamningur milli Kaupþings banka hf. og Desulo Trading Ltd. var gerður 20. júní 2008. KVE undirritaði hann fyrir lántaka og fyrir lánveitanda RMJ og ákærði Bjarki. Samkvæmt samningnum var lánsfjárhæðin 767.680.000 krónur og gjalddagi 13. desember 2008. Þá sagði að til að „tryggja skjóta og skaðlausa greiðslu skuldarinnar samkvæmt lánssamningi þessum veðsetur lántaki bankanum hluti í Kaupþingi banka hf. ... 6.500.000 hluti (ISK) (KAUP) og 2.394.500 hluti (SEK) (KAUP SS), sbr. handveðssamning sem er dagsettur 11. júní 2008 og 1.000.000 hluti (ISK) (KAUP) samkvæmt breytingum á ofangreindum handveðssamningi.“ Ef virði veðsins yrði að mati bankans „lægra en nemur 90% af eftirstöðvum láns þessa á einhverjum tíma og lána á einhverjum tíma samkvæmt tveimur lánssamningum milli lántaka og bankans sem báðir eru dagsettir 11. júní 2008, upphafleg fjárhæð SEK 150.534.840 og ISK 4.994.893.619, ber lántaka innan 3 daga að leggja fram viðbótarveð sem bankinn telur fullnægjandi. Ef nægilegt veð er ekki lagt fram að mati bankans, er bankanum heimilt að rifta láninu einhliða og án tilkynningar.“

Samkvæmt kvittun Kaupþings banka hf. var lánsfjárhæðin, 759.923.200 krónur, greidd inn á reikning Desulo Trading Ltd. hjá bankanum 25. júní 2008. Hún var 3. júlí sama ár millifærð inn á reikning Desulo Trading Ltd. hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. með viðskiptadag bókaðan 25. júní 2008. Síðdegis 3. júlí 2008 sendi RMJ tölvubréf til annars starfsmanns Kaupþings banka hf. með afriti til EBS og sagði: „Viltu vinsamlegast færa eignir Desulo Trading ... af vörslusafni ... yfir á safnreikning Arion? Þú lætur svo vita þegar þú vilt að ég losi handveðið fyrir flutninginn.“ Starfsmaðurinn svaraði þessu með tölvubréfi til RMJ tveimur dögum síðar og sagði: „Þú mátt láta aflétta handveðinu núna.“ RMJ sendi í framhaldi þessa tölvubréf til annars starfsmanns með ósk um að hún myndi „vinsamlegast losa handveðið af Desulo“ meðan nafngreindur starfsmaður bankans „færir þetta til.“ Sá starfsmaður krafði RMJ um skýringu á þessu og sendi hann af því tilefni henni annað tölvubréf þar sem sagði: „Erum að koma því þannig fyrir að nafn Desulo komi ekki fram á hluthafalista Kaupþings – við sjáum engan mun en Arion færir þetta á milli undirreikninga hjá sér.“ Í tölvubréfi sem fór stuttu síðar milli starfsmannanna og RMJ sagði síðan: „Bréfin eru komin inn aftur á safnreikninginn. Nú má læsa þeim aftur.“

Ákærði Bjarki sendi meðal annars ákærðu Björk og ritara lánanefnda síðdegis 26. júní 2008 tölvubréf undir yfirskriftinni „Minutes of 604 meeting 05 06 2008“ og sagði: „Meðf. er yfirlesin fundargerð vegna 604. fundar GCC. Það væri rétt að láta RMJ staðfesta tölur vegna Holt, Mata og Desulo áður en við undirritum fundargerðina.“ Hlutabréfin í Kaupþingi banka hf. sem Desulo Trading Ltd. keypti 11. júní 2008 voru 1. júlí sama ár færð inn á vörslureikning félagsins hjá bankanum.

4

Um fjórðu lánveitingu Kaupþings banka hf. til Desulo Trading Ltd. sagði í iii-lið C. liðar III. kafla ákæru að bankinn hefði veitt félaginu lán „að fjárhæð 1.442.552.700 krónur sem samþykkt var af ákærðu, Bjarka og Björk, í lánanefnd samstæðu hinn 7. ágúst 2008, og veitt að undirlagi og með samþykki meðákærðu, Hreiðars Más, Sigurðar, Ingólfs og Magnúsar. Skrifað var undir lánssamning við Desulo Trading Limited hinn 8. ágúst 2008, og var lánið greitt inn á reikning félagsins hjá Kaupþingi banka hf. hinn 8. ágúst 2008 og þaðan inn á reikning félagsins hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hinn 12. ágúst 2008. Var lánið notað til að greiða fyrir viðskipti félagsins með hluti í Kaupþingi dagana 31. júlí 2008 og 1. ágúst 2008 að meðtöldum lántökukostnaði. Var lánið á gjalddaga hinn 13. desember 2008. Lánið hefur frá þeim degi verið í vanskilum og verður að telja það Kaupþingi að fullu glatað.“ Aðdraganda lánveitingarinnar er áður lýst en eins og þar kemur fram seldi Kaupþing banki hf. Desulo Trading Ltd. samtals 2.000.000 hluti í bankanum 31. júlí og 1. ágúst 2008 í tveimur áföngum. Samanlagt kaupverð hlutanna með þóknunum var 1.425.680.000 krónur og voru kaupin fjármögnuð af bankanum með lánssamningi dagsettum 8. ágúst 2008 að fjárhæð 1.442.552.700 krónur.

RMJ útbjó lánsbeiðni vegna lánsins og bar hún eins og fyrri beiðnir með sér að vera dagsett 4. júní 2008. Þar sagði að Desulo Trading Ltd. óskaði eftir láni að fjárhæð 1.450.000.000 krónur til að fjármagna kaup á 2.000.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. Gjalddagi lánsins yrði 13. desember 2008 og veðkall gert færi veðþekja niður fyrir 85 til 90%. Tekið var fram að veðþekjan eftir lánveitinguna yrði 89% og helst mælti gegn lánveitingunni hversu þunn hún væri. Þá sagði að viðskiptavinurinn hefði síðast verið til umfjöllunar hjá nefndinni í júlí 2008 í tengslum við kaup á 7.500.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. á íslenska markaðnum og 2.300.000 hlutum á sænska markaðnum.

 Forstöðumaður í útlánaáhættu áhættustýringar sendi 6. ágúst 2008 tölvubréf meðal annars á SPK og ákærðu Hreiðar Má, Sigurð, Bjarka og Björk og sagði: „Meðfylgjandi er Group Credit Risk Report fyrir lok júní sem og sundurliðun fyrir grúbbur sem fara yfir 800 m ISK í heildar exp.“ Með tölvubréfinu var fylgiskjal frá 30. júní sama ár þar sem fram mun hafa komið að skuldastaða EÁ og tengdra félaga í Luxemborg væri 8.490.000.000 krónur. Svo virðist sem skuldir Desulo Trading Ltd. hafi ekki verið færðar undir stöðu EÁ, því annars staðar í skjalinu mun hafa komið fram að þær væru 7.792.000.000 krónur.

Íslenska lánanefndin tók lánsbeiðni Desulo Trading Ltd. fyrir á fundi 7. ágúst 2008 og vísaði henni til lánanefndar samstæðu. Fund íslensku nefndarinnar sátu ákærðu Ingólfur, Bjarki og Björk. Á fundi lánanefndar samstæðu sem haldinn var stuttu síðar sama dag var samþykkt að veita Desulo Trading Ltd. lán að fjárhæð 1.500.000.000 krónur. Ákærða Björk sat fundinn og í gegnum síma ákærði Bjarki sem lánanefndarmenn og SPK. Í fundargerð sagði að félagið væri á undanþágulista varðandi lánshæfismat. Heildaráhættuskuldbinding væri 9.300.000.000 krónur. Þá sagði: „Félagið fer fram á lán til að kaupa 2.000.000 hluti í Kaupþingi Banka (ISK). Mælt er með að samþykkja eftirfarandi: Lánsfjárhæð: ISK 1.500.000.000 Gjalddagi: 13.12.2008 Vextir: R+3% Umsýsluþóknun: 1.00% Veð: Allar eignir lántaka sem eru hlutir í Kaupþingi Banka hf. - og/eða veðsetningarbann yfir öllum eignum Desulo Trading Limited. Útlánanefnd samþykkti beiðnina.“ Í fundargerðinni kom ekki fram hvenær veðkall mætti gera vegna lánsins.

Ritari lánanefnda sendi RMJ tölvubréf skömmu eftir hádegi 7. ágúst 2008 undir yfirskriftinni „GCC áðan.“ Með fylgdu drög að bókun vegna ákvörðunar lánanefndar samstæðu um lánveitinguna til Desulo Trading Ltd. RMJ sendi tölvubréfið áfram til annars starfsmanns Kaupþings banka hf. stuttu síðar. Sá sendi tölvubréfið áfram til ákærðu Bjarka og Bjarkar rúmri klukkustund síðar og sagði: „Í bókun fyrir Desulo Trading er gert ráð fyrir margin call í 85%. Þrír núverandi samningar eru með margin call í 90% ... Þekja miðast við eftirstöðvar allra samninganna. Til að gæta samræmis skilst mér að það hafi verið ákveðið að gera viðauka við fyrri samninga og lækka þekju á þeim öllum í 85%. Þar sem þessi lækkun á þekjum á eldri samningum kemur ekki fram í neðangr. bókun bið ég ykkur, Björk og Bjarki að staðfesta þetta við mig með því að svara þessum pósti.“ Það gerðu þau hvort fyrir sig í tölvubréfum stuttu síðar.

Undir lok þessa sama dags sendi RMJ tölvubréf til samstarfsmanns síns, með afriti til EBS, undir yfirskriftinni „Desulo díllinn“ og sagði meðal annars: „Á morgun þarf að greiða fyrir hlutabréfaviðskipti (2 millj. hluta í Kaupþingi) sem skráð eru á nafni Kaupthing Lúx. Raunverulegur kaupandi er hins vegar Desulo Trading Ltd. ... og erum við að lána þeim fyrir kaupunum ... 2. Ferlið. Það er þannig að þegar samningarnir hafa borist undirritaðir ... þá er lánsfjárhæðin ... lögð inn á reikning Desulo hjá okkur ... Þaðan þarf að millifæra peningana inn á vörslureikning Kaupþing Lúx ... því Kaupþing Lúx er skráð fyrir kaupunum. Bréfin (2 nom. í KAUP) verða keyrð inn á það safn og það skuldfært fyrir þessari fjárhæð ... 3. Þegar búið er að keyra viðskiptin og bréfin komin inn á safn KÞ Lúx þarf að færa bréfin þaðan yfir á vörslusafn Desulo Trading ... Þeir eiga að vera með nominee reikning hjá Arion og tryggja þarf að bréfin fari á þann reikning“.

Fyrrnefndur lánssamningur milli Kaupþings banka hf. og Desulo Trading Ltd. 8. ágúst 2008 var undirritaður af KVE fyrir hönd lántaka en ber ekki með sér að hafa verið undirritaður fyrir lánveitanda. Samkvæmt samningnum lánaði bankinn Desulo Trading Ltd. 1.442.552.700 krónur með gjalddaga 13. desember 2008. Þá sagði í samningnum samkvæmt framlagðri þýðingu að til að „tryggja skjóta og skaðlausa greiðslu skuldarinnar samkvæmt lánssamningi þessum veðsetur lántaki bankanum hluti í Kaupþingi banka hf. ... 9.500.000 hluti (ISK) (KAUP) og 2.349.500 hluti (SEK) (KAUP SS), sbr. handveðssamning sem er dagsettur 11. júní 2008, með áorðnum breytingum þann sama dag og með breytingum sem gerðar voru um svipað leyti og lánssamningur þessi.“ Einnig sagði að yrði „virði veðsins (að mati bankans) ... lægra en nemur 85% af eftirstöðvum láns þessa á einhverjum tíma og lána á einhverjum tíma samkvæmt lánasamningum milli lántaka og bankans nr. 0358-35-8026 dags. 11. júní 2008, upphafleg fjárhæð SEK 150.534.840, nr. 0358-35-8026, dags. 11. júní 2008, upphafleg fjárhæð ISK 4.994.883.619 og nr. 0358-35-8028 dags. 20. júní 2008, upphafleg fjárhæð ISK 767.680.000, ber lántaka innan 3 daga að leggja fram viðbótarveð sem bankinn telur fullnægjandi. Ef nægilegt veð er ekki lagt fram að mati bankans, er bankanum heimilt að rifta láninu einhliða og án tilkynningar samkvæmt kafla 7.“ Samkvæmt kvittun Kaupþings banka hf. var lánið greitt inn á reikning lántaka hjá bankanum 8. ágúst 2008 og 12. sama mánaðar var sama fjárhæð millifærð á reikning lántaka hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A.

5

Um fimmtu lánveitingu Kaupþings banka hf. til Desulo Trading Ltd. sagði í iv-lið C. liðar III. kafla ákæru að bankinn hefði veitt félaginu lán „að fjárhæð 4.130.000.000 krónur sem samþykkt var af ákærðu, Bjarka og Björk, í lánanefnd samstæðu hinn 25. september 2008, og veitt að undirlagi og með samþykki meðákærðu, Hreiðars Más, Sigurðar, Ingólfs og Magnúsar. Skrifað var undir lánssamning við Desulo Trading Limited hinn 26. september 2008 og var lánið greitt inn á reikning félagsins hjá Kaupþingi banka hf. hinn 30. september 2008. Var lánið notað til að greiða fyrir viðskipti félagsins með hluti í Kaupþingi dagana 16., 17. og 18. september 2008, að meðtöldum lántökukostnaði. Var lánið á gjalddaga hinn 13. desember 2008. Lánið hefur frá þeim degi verið í vanskilum og verður að telja það Kaupþingi að fullu glatað.“ Aðdraganda viðskipta með hlutabréfin er áður lýst og eins og þar kemur fram seldi Kaupþing banki hf. Desulo Trading Ltd. samtals 6.500.000 hluti í bankanum á tímabilinu frá 16. til 22. september 2008 í fimm áföngum. Kaupverðið með þóknunum var samtals 4.447.296.750 krónur og voru kaupin fjármögnuð að fullu af bankanum.

RMJ gerði lánsumsókn vegna Desulo Trading Ltd. og bar hún með sér eins og fyrri lánsbeiðnir félagsins að vera dagsett 4. júní 2008. Þar kom fram að félagið óskaði eftir láni að fjárhæð 4.140.000.000 krónur til að fjármagna kaup á 6.000.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. Gert var ráð fyrir að gjalddagi lánsins yrði 13. desember 2008 og veðkall gert færi veðþekja niður fyrir 90%. Tekið var fram að veðþekjan yrði eftir lánveitinguna 95% en í beiðninni kom fram eins og fyrr að það sem helst mælti gegn lánveitingunni væri hve þunn veðþekjan væri.

EBS sendi að morgni 18. september 2008 tölvubréf til RMJ undir yfirskriftinni „Desulo“ og sagði: „Við verðum að græja aðeins meira lán á þá 5m nom keyptar á 685 + 0,6% þóknun.“ RMJ svaraði stuttu síðar: „Þú ert að meina þessi viðskipti, er það ekki (sjá viðhengi)?“ Síðdegis sama dag sendi starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. tölvubréf til ákærða Magnúsar undir yfirskriftinni „EÁ“ og sagði þar meðal annars samkvæmt framlagðri þýðingu: „Ég botna í alvöru ekki í þessu ... 05.09 var heildarskuld samstæðunnar EUR 72.2 milljónir. 17.09 var heildarskuld samstæðunnar 92.3 milljónir. Aukningin er EUR 20.1 milljónir!!! Enn furðulegra ... aukningin hefur verið notuð til að kaupa KAUP hluti (sem við getum ekki samþykkt sem veð)!!! Ég vil ganga úr skugga um að þér sé algerlega kunnugt um þetta. Gætirðu vinsamlegast staðfest samþykki þitt á ofangreindri stöðu.“ Magnús svaraði í tölvubréfi stuttu síðar og sagði: „Þetta hljóta að vera mistök. Ég hringi í þig.“

Sami starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sendi EBS tölvubréf snemma morguns 19. september 2008, með afriti til ákærða Magnúsar þar sem sagði í framlagðri þýðingu: „Strákar, ég treysti því að þetta sé grín!!! Meðan allt gengur vel og „vandamál“ eru sköpuð án þess að Útlánadeildin komi að þeim fyrirfram er þetta ykkar og um leið og þetta verður erfitt, eruð þið hættir ... hvað er þetta? Til dæmis þetta: Skuldastaða Desulo er núna EUR 25 milljónir!!! án þess að það sé nefnt við okkur einu orði. (Ég veit að greiðslan er sett á 26/9 en þetta skapar mikinn yfirdrátt ... auðvitað ósamþykktan ... og jafnmikla skortstöðu. Þetta er notað til að kaupa hluti í Kaupþingi!!!).“ EBS svaraði þessu stuttu síðar í tölvubréfi, með afriti til ákærða Magnúsar og sagði þar í framlagðri þýðingu: „Þú varst ekki ósáttur þegar ég útskýrði fyrir þér í gær að virðisdagurinn og greiðslan væri á sama degi, 26. Er það yfirdráttur ef viðskiptin og greiðslan fara fram á sama tíma, segðu mér það? ... Það er ekki við hæfi að senda svona tölvupósta, stundum er betra að taka upp símann og tala.“ Ákærði Magnús svaraði einnig tölvubréfi starfsmannsins stuttu síðar og hvatti hann til að láta staðar numið, það væri ekki þess virði að fara þessa leið, en kvaðst skilja hann fullkomlega. Starfsmaðurinn svaraði síðan ákærða Magnúsi og sagðist hafa talað við EBS og halda að andrúmsloftið hafi verið hreinsað, að minnsta kosti hvað sig varðaði.

Hinn 25. september 2008 voru 355.571.650 krónur, sem voru afrakstur af sölu Desulo Trading Ltd. á 500.000 hlutum í Kaupþingi banka hf., lagðar inn á reikning félagsins en degi síðar voru 4.447.296.750 krónur teknar út af honum vegna kaupa félagsins á 6.500.000 hlutum í bankanum. Í lok þess dags var reikningurinn yfirdreginn um 4.091.725.100 krónur og var sú staða óbreytt allt til 30. september 2008 þegar Kaupþingi banki hf. lagði lánsfé inn á reikninginn eins og greinir hér á eftir.

Íslenska lánanefndin tók lánsbeiðni vegna Desulo Trading Ltd. fyrir á fundi að morgni 25. september 2008 en þann fund sátu ákærðu Bjarki og Björk ásamt einum manni öðrum. Samþykkti nefndin að vísa lánsbeiðninni til lánanefndar samstæðu. Á fundi þeirrar nefndar sem hófst á hádegi sama dag var samþykkt að veita Desulo Trading Ltd. lán að fjárhæð 4.140.000.000 krónur. Í fundargerð sagði að ákveðið hafi verið að samþykkja beiðnina þar sem áhættuskuldbinding félagsins myndi minnka eða verða endurgreidd á næstunni. Fundinn sátu ákærðu Bjarki og Björk en áhættustýring bankans átti þar ekki fulltrúa. Í fundargerðinni kom ekki fram hvenær gera mætti veðkall vegna lánsins en tekið var fram að heildaráhættuskuldbinding lántaka gagnvart bankanum fyrir lánveitinguna væri 9.800.000.000 krónur. Í samþykkt nefndarinnar var lánsfjárhæðin handskrifuð 4.130.000.000 krónur og var það sama fjárhæð og var síðan tilgreind í lánssamningnum. Í samþykktinni sem var bæði ódagsett og óundirrituð var auk þess handskrifað að veðkall skyldi gert færi veðþekjan undir 85%. Svo virðist sem lánsfjárhæðin hafi verið miðuð við kaup á 6.000.000 hlutum þar sem Desulo Trading Ltd. seldi eins og fyrr segir 500.000 hluti áður en til uppgjörs kom á kaupunum.

Ritari lánanefnda sendi síðdegis 25. september 2008 tölvubréf meðal annars til RMJ. Þar var að finna bókun frá fundi lánanefndar samstæðu vegna Desulo Trading Ltd. og tekið fram að „Security margin“ væri 90%. RMJ sendi stuttu síðar tölvubréf á ákærðu Bjarka og Björk og sagði: „Það er ein lítil vitleysa í kynningunni fyrir Desulo. Security margin átti að vera 85% en ekki 90% (sem sagt, 85% er það sem var í síðasta samningi). Samþykkið þið að breyta þessu?“ Það gerðu þau bæði í tölvubréfi í framhaldinu.

Lánssamningur að fjárhæð 4.130.000.000 krónur milli Kaupþings banka hf. og Desulo Trading Ltd. var undirritaður 26. september 2008 af KVE fyrir hönd lántaka og RMJ og ákærðu Björk fyrir lánveitanda. Gjalddagi lánsins var 13. desember 2008. Samkvæmt kvittun Kaupþings banka hf. var andvirði lánsins, 4.109.275.000 krónur að teknu tilliti til lántökugjalds, greitt inn á reikning Desulo Trading Ltd. hjá bankanum 30. september 2008. Sama dag var fjárhæðin millifærð yfir á annan reikning Desulo Trading Ltd. hjá bankanum.

6

Stjórnarfundur í Kaupþingi banka hf. var haldinn 25. september 2008. Á dagskrá hans var meðal annars umfjöllun um þá viðskiptamenn sem höfðu áhættuskuldbindingar gagnvart bankanum yfir 45.000.000 evrum og virðist sem allmargir starfsmenn bankans hafi komið að gerð kynningar á því fundarefni. Starfsmaður á fyrirtækjasviði mun 23. sama mánaðar hafa sent ákærða Bjarka til yfirlestrar glærur sem sýna átti í kynningunni. Síðar sama dag mun Bjarki hafa sent kynninguna yfirfarna til tveggja annarra starfsmanna bankans en þá mun hafa verið búið að fjarlægja fjórar glærur úr kynningunni og meðal annars eina sem bar yfirskriftina „Desulo Trading ltd.“ Í henni hafði komið fram að eigandi félagsins væri EÁ, það skuldaði Kaupþingi banka hf. 77.200.000 evrur og veðþekja vegna lána félagsins væri 88%. Þá var tekið fram að félagið væri undir eftirliti þar sem erfitt gæti reynst að koma veðum þess í verð vegna aðstæðna á mörkuðum. Jafnframt sagði að fjárhagsstaða félagsins væri mjög háð verðþróun hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. þar sem slík hlutabréf væru eina eign þess. Í endanlegri glærukynningu var á hinn bóginn glæra undir yfirskriftinni: „EÁ (Kaupthing Luxembourg)“ þar sem fram kom að EÁ og tengd félög skulduðu bankanum 77.700.000 evrur og væri veðhlutfall vegna lána félagsins 152%. Í glærunni var minnst á helstu félög í eigu EÁ sem væru í viðskiptum hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. en Desulo Trading Ltd. var ekki getið þar.

7

Héraðsdómur sýknaði ákærðu Sigurð, Ingólf og Magnús af sakargiftum samkvæmt C. lið III. kafla ákærunnar og jafnframt ákærða Hreiðar Má af i, iii og iv-lið C. liðar þessa kafla. Var sú niðurstaða reist á því að atbeini þeirra að sölu hluta í Kaupþingi banka hf. til Desulo Trading Ltd. jafngilti því ekki á einhvern hátt að þeir hafi jafnframt átt þátt í að lána félaginu fyrir kaupunum. Með því að niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærðu var ekki reist á mati á trúverðugleika framburðar þeirra og vitna heldur túlkun samtímagagna stendur 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 því ekki í vegi að Hæstiréttur endurmeti niðurstöðu héraðsdóms að þessu leyti.

Lánin tvö til Desulo Trading Ltd. sem veitt voru með lánssamningunum 11. júní 2008 voru að fjárhæð 4.994.883.619 krónur og 150.534.840 sænskar krónur og voru lánveitingarnar samþykktar á fundi lánanefndar samstæðu 5. júní 2008. Eins og áður getur eru þrjár útgáfur af fundargerð þessa fundar í gögnum málsins og ber þeim ekki saman um hvað var samþykkt á fundinum en efni ofangreindra lánssamninga er þó ágreiningslaust. Lánin voru greidd út 13. júní 2008 en tveimur dögum áður, samhliða gerð lánssamninganna, setti Desulo Trading Ltd. Kaupþingi banka hf. að veði þá 8.849.500 hluti sem félagið hafði keypt í bankanum á tímabilinu frá 14. maí til 4. júní 2008.

Ákærði Bjarki sat fund lánanefndar samstæðu Kaupþings banka hf. 5. júní 2008 og samþykkti lánveitingarnar til Desulo Trading Ltd. ásamt ákærðu Björk. Sem framkvæmdastjóri útlánasviðs bankans og nefndarmaður í lánanefndinni var hann sem fyrr segir í aðstöðu til að skuldbinda bankann. Desulo Trading Ltd. var stofnað árið 2007 og þegar það hóf hin umfangsmiklu kaup á hlutum í Kaupþingi banka hf. munu eignir þess og skuldir hafa verið óverulegar. Þegar lánin voru samþykkt og þau greidd út hafði félagið ekki verið metið til lánshæfis, sem var í andstöðu við reglur bankans, og það setti engar aðrar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánanna en hina keyptu hluti í bankanum. Voru þær tryggingar allsendis ófullnægjandi og í engu samræmi við reglur bankans, sem áður er gerð grein fyrir. Þar við bætist að skýrlega var tekið fram í lánsumsókn félagsins að það mælti gegn lánveitingunni hve þunn veðþekja þess væri. Var ákærða Bjarka ljóst að félagið hafði enga aðra starfsemi með höndum en eignarhald á hinum keyptu hlutabréfum og að greiðslugeta þess væri takmörkuð við tekjur af þeim bréfum einum. Með því að samþykkja lánveitingarnar við þessar aðstæður í andstöðu við reglur bankans misnotaði ákærði Bjarki aðstöðu sína til að skuldbinda hann. Með þeirri misnotkun aðstöðu var fjármunum bankans stefnt í verulega hættu enda var um að ræða mjög háar lánveitingar til félags sem var með takmarkaðri ábyrgð eiganda síns og hafði óvissar tekjur. Verður ákærði Bjarki því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

Ákærðu Hreiðar Már, Sigurður og Ingólfur voru þrír æðstu stjórnendur Kaupþings banka hf., sátu í lánanefndum hans og voru sem slíkir í aðstöðu til að skuldbinda hann. Þeir voru í niðurstöðu dómsins um ákæruatriði II. kafla ákæru sakfelldir fyrir að hafa í sameiningu komið á viðskiptum með þá hluti, sem Desulo Trading Ltd. keypti í bankanum á tímabilinu frá maí og fram í september 2008, en liður í viðskiptunum var að bankinn lánaði að fullu fyrir kaupunum. Sem formaður lánanefndar samstæðu fékk ákærði Hreiðar Már send gögn, sem voru lögð fyrir þá nefnd, og áður er fram komið að þau fékk ákærði Sigurður einnig sem formaður stjórnar bankans og formaður lánanefndar stjórnar. Hafði hann eftir atvikum afskipti af störfum lánanefndar samstæðu og greip inn í ákvarðanir hennar teldi hann þess þörf. Samkvæmt þessu og vegna þáttar ákærðu Hreiðar Más og Sigurðar í því að koma viðskiptum Desulo Trading Ltd. á fóru umræddar tvær lánveitingar 5. júní 2008 ekki fram hjá þeim. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingarnar færu fram í samræmi við reglur bankans veittu ákærðu Hreiðar Már og Sigurður atbeina sinn til þeirra og þar með fyrrgreinds brots ákærða Bjarka. Verða þeir því sakfelldir fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi þeirra við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Þótt ákærði Ingólfur sæti ekki í lánanefnd samstæðu Kaupþings banka hf. verður af gögnum málsins ráðið að auk þátttöku í því að koma á kaupum Desulo Trading Ltd. á hlutum í bankanum var þáttur hans í þeim lánveitingum sem hér um ræðir einnig verulegur. Þannig kom fram í tölvubréfi IV til ákærða Bjarka 29. maí 2008 að ákærði Ingólfur hefði degi fyrr beðið um að lánin yrðu í íslenskum krónum en ekki sænskum. Þá hafði ákærði Ingólfur sem forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og yfirmaður ákærða Bjarka þeim skyldum að gegna að sjá til þess að fjármunir þeir sem hér um ræðir færu ekki út úr bankanum nema fullnægt væri reglum hans. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingarnar færu fram í samræmi við reglur bankans veitti ákærði Ingólfur atbeina sinn til þeirra og þar með fyrrgreinds brots ákærða Bjarka. Verður hann því sakfelldur fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi hans við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Magnús var forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og sem slíkur ekki í aðstöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf. Samkvæmt gögnum málsins sem áður eru rakin átti hann verulegan þátt í því að koma á þeim viðskiptum með hluti í Kaupþingi banka hf. sem Desulo Trading Ltd. keypti á tímabilinu frá maí og fram í september 2008 og voru afskipti hans í reynd forsenda þess og þáttur í því að af viðskiptunum gæti orðið. Þá ákvað hann sem forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. að sá banki veitti Desulo Trading Ltd. lán til að brúa fjármögnun hlutabréfakaupanna, meðan ekki hafði verið gengið frá stofnun reikninga félagsins hjá Kaupþingi banka hf., og rak í framhaldinu á eftir því að síðarnefndi bankinn lánaði félaginu til kaupanna. Þá veitti hann í skjóli stöðu sinnar sem forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. með ýmsum öðrum hætti, sem áður er gerð grein fyrir, atbeina til lántöku félagsins hjá Kaupþingi banka hf. samkvæmt þessum ákærulið. Átti ákærði Magnús þannig verulegan þátt í því með liðsinni sínu að brot það var framið sem ákærði Bjarki er sakfelldur fyrir vegna þeirra lánveitinga sem þessi ákæruliður tekur til. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga verður ákærði Magnús sakfelldur fyrir hlutdeild í broti þessu.

8

Lánið sem veitt var Desulo Trading Ltd. með samningi 20. júní 2008 var að fjárhæð 767.680.000 krónur og var lánveitingin samþykkt á fundi lánanefndar samstæðu degi fyrr. Lánið var notað til að greiða fyrir 1.000.000 hluti sem félagið keypti í Kaupþingi banka hf. 11. júní 2008 og var uppgjörsdagur viðskiptanna 16. sama mánaðar. Lánið var greitt inn á reikning félagsins hjá Kaupþingi banka hf. 25. sama mánaðar og þaðan inn á reikning félagsins hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Með lánssamningnum setti félagið Kaupþingi banka hf. að veði hlutina í bankanum sem keyptir höfðu verið í viðskiptunum og er áður gerð grein fyrir því.

Fund lánanefndar samstæðu 19. júní 2008 sátu ákærðu Hreiðar Már, Bjarki og Björk. Ákærðu Hreiðar Már og Bjarki voru sem fyrr segir í aðstöðu til að skuldbinda bankann. Þegar lánið var samþykkt og það greitt út hafði félagið ekki verið metið til lánshæfis, sem var í andstöðu við reglur bankans, og það setti engar aðrar tryggingar fyrir endurgreiðslu lánsins en hina keyptu hluti í bankanum. Þær tryggingar voru allsendis ófullnægjandi og í engu samræmi við reglur bankans, sem áður er gerð grein fyrir. Þar við bætist að skýrlega var tekið fram í lánsumsókn félagsins að gegn lánveitingunni mælti hve þunn veðþekja þess væri. Með því að samþykkja lánveitinguna við þessar aðstæður í andstöðu við reglur bankans misnotuðu ákærðu Hreiðar Már og Bjarki aðstöðu sína til að skuldbinda hann og stefndu fjármunum hans í verulega hættu. Verða þeir því sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í þessum ákærulið og eru brot þeirra þar rétt færð til refsiákvæðis.

Ákærði Sigurður fékk 18. júní 2008 send gögn vegna fundar lánanefndar samstæðu sem haldinn var degi síðar þar sem lánveitingin var samþykkt. Með sömu rökum og greinir í næsta kafla dómsins hér á undan bar honum í samræmi við starfsskyldur sínar sem stjórnarformaður bankans að sjá til þess að við lánveitinguna væri fylgt réttum reglum. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veitti ákærði Sigurður atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots ákærðu Bjarka og Hreiðars Más. Verður hann því sakfelldir fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi hans við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Ingólfur var í niðurstöðu dómsins um II. kafla ákæru sakfelldur fyrir að hafa átt þátt í að koma á viðskiptum með þá hluti í Kaupþingi banka hf. sem Desulo Trading Ltd. keypti á tímabilinu frá maí og fram í september 2008. Sem forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og formaður íslensku lánanefndarinnar var hann í aðstöðu til að skuldbinda bankann. Vegna aðkomu ákærða Ingólfs að viðskiptunum, stöðu hans sem forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og í ljósi margra ára reynslu hans sem bankamaður og æðsti stjórnandi í stórum banka er með ólíkindum að honum hafi ekki í ljósi þekkingar á verkferlum og vinnulagi innan bankans verið ljóst að greiðsla á láni að fjárhæð 767.680.000 krónur úr þeirri fjármálastofnun, sem hann stýrði, færi fram í því sem næst beinu framhaldi af samþykkt lánanefndar samstæðu. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veitti ákærði Ingólfur atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots ákærðu Bjarka og Hreiðars Más. Verður hann því sakfelldur fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi hans við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Magnús var forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og var sem slíkur ekki í aðstöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf. Eins og áður segir er ljóst að ákærði Magnús átti verulegan þátt í því að koma á þeim viðskiptum með hluti í Kaupþingi banka hf. sem Desulo Trading Ltd. keypti á tímabilinu frá maí og fram í september 2008 og voru afskipti hans í reynd forsenda þess og þáttur í því að af viðskiptunum gæti orðið. Þótt gögn málsins beri þetta með sér um hlutverk Magnúsar við að koma viðskiptunum á verður að gæta að því sem fyrr segir að hann var ekki í aðstöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf. og í þessu tilviki hafði Kaupthing Bank Luxembourg S.A. ekki veitt tímabundna fyrirgreiðslu vegna lánveitingarinnar. Þótt ákærði Magnús hafi haft mikla reynslu sem bankamaður og þekkti gjörla til vinnulags og verkferla innan Kaupþings banka hf. er ekki sýnt að hann hafi gert sér það ljóst að við lánveitingu þá sem hér um ræðir yrði farið á svig við reglur bankans. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Magnúsar af sakargiftum samkvæmt þessum ákærulið.

9

 Lánið sem veitt var Desulo Trading Ltd. með samningi 8. ágúst 2008 var að fjárhæð 1.442.552.700 krónur og notað til að greiða fyrir kaup félagsins á 2.000.000 hlutum í Kaupþingi banka hf. 31. júlí og 1. ágúst sama ár. Lánsbeiðni félagsins var tekin fyrir á fundi íslensku lánanefndarinnar 7. ágúst 2008 og var þar samþykkt að vísa henni til lánanefndar samstæðu, sem samþykkti lánsbeiðnina á fundi síðar sama dag. Lánið var greitt inn á reikning félagsins hjá Kaupþingi banka hf. sama dag og það var veitt og þaðan inn á reikning félagsins hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. 12. ágúst 2008. Með lánssamningnum setti lántaki að veði annars vegar 9.500.000 hluti og hins vegar 2.349.500 hluti í Kaupþingi banka hf. til tryggingar skuld sinni eins og áður hefur verið gerð grein fyrir.

Fund lánanefndar samstæðu Kaupþings banka hf. 7. ágúst 2008 sátu ákærðu Bjarki og Björk. Ákærði Bjarki var sem fyrr getur í aðstöðu til að skuldbinda bankann sem framkvæmdastjóri útlánasviðs og nefndarmaður í lánanefnd samstæðu. Þegar lánið til Desulo Trading Ltd. var samþykkt og greitt út hafði félagið ekki verið metið til lánshæfis, sem var í andstöðu við reglur bankans, og það setti engar aðrar tryggingar fyrir endurgreiðslu þess en hina keyptu hluti í bankanum. Voru þær tryggingar allsendis ófullnægjandi og í engu samræmi við reglur bankans. Þar við bætist að skýrlega var tekið fram í lánsumsókn félagsins að gegn lánveitingunni mælti hve þunn veðþekja þess væri. Með því að samþykkja lánveitinguna við þessar aðstæður í andstöðu við reglur bankans misnotaði ákærði Bjarki aðstöðu sína til að skuldbinda bankann og stefndi fjármunum hans í verulega hættu. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

Ákærðu Hreiðar Már og Sigurður voru tveir æðstu stjórnendur Kaupþings banka hf., sátu í lánanefndum hans og voru sem slíkir í aðstöðu til að skuldbinda hann. Þeir voru í niðurstöðu dómsins um ákæruatriði II. kafla ákæru sakfelldir fyrir að hafa í sameiningu komið á viðskiptum með þá hluti sem Desulo Trading Ltd. keypti í bankanum á tímabilinu frá maí og fram í september 2008. Sem formaður lánanefndar samstæðu fékk ákærði Hreiðar Már send gögn, sem voru lögð fyrir þá nefnd, og áður er fram komið að þau fékk ákærði Sigurður einnig sem formaður stjórnar bankans og formaður lánanefndar stjórnar. Hafði hann eftir atvikum afskipti af störfum lánanefndar samstæðu og greip inn í ákvarðanir hennar teldi hann þess þörf. Samkvæmt þessu og vegna þáttar ákærðu Hreiðars Más og Sigurðar í því að koma á viðskiptum Desulo Trading Ltd. fór umrædd lánveiting ekki fram hjá þeim og bar þeim við þær aðstæður að sjá til þess að við framkvæmd hennar væri í hvívetna fylgt reglum bankans. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veittu ákærðu Hreiðar Már og Sigurður atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots ákærða Bjarka. Verða þeir því sakfelldir fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi þeirra við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Ingólfur átti sæti í íslensku lánanefndinni og á fundi hennar 7. ágúst 2008 samþykkti hann ásamt öðrum nefndarmönnum að vísa lánsbeiðni vegna Desulo Trading Ltd. til lánanefndar samstæðu. Þar átti ákærði Ingólfur ekki sæti en vegna umfjöllunar íslensku lánanefndarinnar um beiðnina var honum án nokkurs vafa kunnugt um hana. Ákærði Ingólfur var í niðurstöðu dómsins um II. kafla ákæru sakfelldur fyrir að hafa átt þátt í að koma á viðskiptum með þá hluti í Kaupþingi banka hf. sem Desulo Trading Ltd. keypti á tímabilinu frá maí og fram í september 2008. Sem forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og formaður íslensku lánanefndarinnar var hann í aðstöðu til að skuldbinda bankann. Vegna aðkomu ákærða Ingólfs að viðskiptunum, stöðu hans sem forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og í ljósi margra ára reynslu hans sem bankamaður og æðsti stjórnandi í stórum banka er með ólíkindum að honum hafi ekki í ljósi þekkingar á verkferlum og vinnulagi innan bankans verið ljóst að greiðsla á láni að fjárhæð 1.442.552.700 krónur úr þeirri fjármálastofnun sem hann stýrði færi fram í því sem næst beinu framhaldi af samþykkt lánanefndar samstæðu. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veitti ákærði Ingólfur atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots ákærða Bjarka. Verður hann því sakfelldur fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi hans við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Magnús var forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og var sem slíkur ekki í aðstöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf. Eins og áður segir er ljóst að ákærði Magnús átti verulegan þátt í því að koma á þeim viðskiptum með hluti í Kaupþingi banka hf. sem Desulo Trading Ltd. keypti á tímabilinu frá maí og fram í september 2008 og voru afskipti hans í reynd forsenda þess og þáttur í því að af viðskiptunum gæti orðið. Þótt gögn málsins beri þetta með sér um hlutverk Magnúsar við að koma viðskiptunum á verður að gæta að því sem fyrr segir að hann var ekki í aðstöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf. og í þessu tilviki hafði Kaupthing Bank Luxembourg S.A. ekki veitt tímabundna fyrirgreiðslu vegna viðskiptanna. Þótt ákærði Magnús hafi haft mikla reynslu sem bankamaður og þekkti gjörla til vinnulags og verkferla innan Kaupþings banka hf. er ekki sýnt að hann hafi gert sér það ljóst að við lánveitingu þá sem hér um ræðir yrði farið á svig við lánareglur bankans. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Magnúsar af sakargiftum samkvæmt þessum ákærulið.

10

Lánið sem veitt var Desulo Trading Ltd. með lánssamningi 26. september 2008 var að fjárhæð 4.130.000.000 krónur og notað til að greiða fyrir kaup félagsins á hlutum í Kaupþingi banka hf. 16., 17. og 18. september 2008. Lánsbeiðni félagsins var tekin fyrir á fundi íslensku lánanefndarinnar að morgni 25. september 2008 en fundinn sátu ákærðu Bjarki og Björk ásamt einum öðrum manni. Þar var samþykkt að vísa lánsbeiðninni til lánanefndar samstæðu og á fundi hennar á hádegi sama dag var lánsbeiðnin samþykkt. Lánið var greitt inn á reikning félagsins hjá Kaupþingi banka hf. 30. september 2008.

Fund lánanefndar samstæðu 25. september 2008 sátu ákærðu Bjarki og Björk. Ákærði Bjarki var sem fyrr getur í aðstöðu til að skuldbinda bankann sem framkvæmdastjóri útlánasviðs og nefndarmaður í lánanefnd samstæðu. Þegar lánið til Desulo Trading Ltd. var samþykkt og greitt út hafði félagið ekki verið metið til lánshæfis, sem var í andstöðu við reglur bankans, og það setti engar aðrar tryggingar fyrir endurgreiðslu þess en hina keyptu hluti í bankanum. Voru þær tryggingar allsendis ófullnægjandi og í engu samræmi við reglur bankans. Þar við bætist að skýrlega var tekið fram í lánsumsókn félagsins að gegn lánveitingunni mælti hve þunn veðþekja þess væri. Þá er þess að gæta að á einni af áðurnefndum glærum, sem gerðar voru í tilefni fyrirhugaðrar umfjöllunar á stjórnarfundi Kaupþings banka hf. 25. september 2008 um þá viðskiptamenn hans sem voru með stórar áhættuskuldbindingar, kom fram að Desulo Trading Ltd. skuldaði honum 77.200.000 evrur, veðþekja vegna lána félagsins væri 88%, það væri undir eftirliti þar sem erfitt gæti reynst að koma veðum þess í verð vegna aðstæðna á mörkuðum og fjárhagsstaða félagsins væri mjög háð verðþróun hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. Með því að samþykkja lánveitinguna við þessar aðstæður í andstöðu við reglur bankans misnotaði ákærði Bjarki aðstöðu sína til að skuldbinda bankann og stefndi fjármunum hans í verulega hættu. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.

Ákærðu Hreiðar Már og Sigurður voru tveir æðstu stjórnendur Kaupþings banka hf., sátu í lánanefndum hans og voru sem slíkir í aðstöðu til að skuldbinda bankann. Þeir voru í niðurstöðu dómsins um ákæruatriði II. kafla ákæru sakfelldir fyrir að hafa í sameiningu komið á viðskiptum með þá hluti sem Desulo Trading Ltd. keypti í bankanum á tímabilinu frá maí og fram í september 2008. Sem formaður lánanefndar samstæðu fékk ákærði Hreiðar Már send gögn, sem voru lögð fyrir þá nefnd, og áður er fram komið að þau fékk ákærði Sigurður einnig sem formaður stjórnar bankans og formaður lánanefndar stjórnar. Hafði hann eftir atvikum afskipti af störfum lánanefndar samstæðu og greip inn í ákvarðanir hennar teldi hann þess þörf. Með ólíkindum væri ef ákærðu Hreiðari Má og Sigurði voru ekki kunnar þær staðreyndir sem fram komu á ofangreindri glæru sem til stóð að leggja fyrir fund stjórnar Kaupþings banka hf., sem haldinn var sama dag og lánanefnd samstæðu samþykkti að veita Desulo Trading Ltd. lán það, sem þessi ákæruliður tekur til. Samkvæmt þessu og vegna þáttar ákærðu Hreiðars Más og Sigurðar í því að koma á viðskiptum Desulo Trading Ltd. fór umrædd lánveiting ekki fram hjá þeim. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veittu ákærðu Hreiðar Már og Sigurður atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots ákærða Bjarka. Verða þeir því sakfelldir fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi þeirra við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Ingólfur var í niðurstöðu dómsins um II. kafla ákæru sakfelldur fyrir að hafa átt þátt í að koma á viðskiptum með þá hluti í Kaupþingi banka hf. sem Desulo Trading Ltd. keypti á tímabilinu frá maí og fram í september 2008. Sem forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og formaður íslensku lánanefndarinnar var hann í aðstöðu til að skuldbinda bankann. Vegna aðkomu ákærða Ingólfs að viðskiptunum, stöðu hans sem forstjóri Kaupþings banka hf. á Íslandi og í ljósi margra ára reynslu hans sem bankamaður og æðsti stjórnandi í stórum banka er með ólíkindum að honum hafi ekki í ljósi þekkingar á verkferlum og vinnulagi innan bankans verið ljóst að greiðsla á láni að fjárhæð 4.130.000.000 krónur úr þeirri fjármálastofnun sem hann stýrði færi fram í því sem næst beinu framhaldi af samþykkt lánanefndar samstæðu. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veitti ákærði Ingólfur atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots ákærða Bjarka. Verður hann því sakfelldur fyrir hlutdeild í því broti og varðar háttsemi hans við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Magnús var forstjóri Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og var sem slíkur ekki í aðstöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf. Eins og áður segir er ljóst að ákærði Magnús átti verulegan þátt í því að koma á þeim viðskiptum með hluti í Kaupþingi banka hf. sem Desulo Trading Ltd. keypti á tímabilinu frá maí og fram í september 2008 og voru afskipti hans í reynd forsenda þess og þáttur í því að af viðskiptunum gæti orðið. Þótt gögn málsins beri þetta með sér um hlutverk Magnúsar við að koma viðskiptunum á verður að gæta að því sem fyrr segir að hann var ekki í aðstöðu til að skuldbinda Kaupþing banka hf. og í þessu tilviki hafði Kaupthing Bank Luxembourg S.A. ekki veitt tímabundna fyrirgreiðslu vegna viðskiptanna. Þótt ákærði Magnús hafi haft mikla reynslu sem bankamaður og þekkti gjörla til vinnulags og verkferla innan Kaupþings banka hf. er ekki sýnt að hann hafi gert sér það ljóst að við lánveitingu þá sem hér um ræðir yrði farið á svig við lánareglur bankans. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Magnúsar af sakargiftum samkvæmt þessum ákærulið.

X

1

Í D. lið III. kafla ákæru voru ákærðu Hreiðari Má og Sigurði gefin að sök umboðssvik vegna lánveitinga til KGS í ágúst 2008. Í ákæru sagði að ákærðu hafi „misnotað aðstöðu sína hjá Kaupþingi og stefnt fé hans í verulega hættu þegar þeir fóru út fyrir heimildir til lánveitinga og veittu í sameiningu KGS ... búsettum í Bretlandi, 12.445.518.000 króna peningamarkaðslán til að fjármagna að fullu kaup á hlutum í Kaupþingi án þess að fyrir lægi samþykki þar til bærrar lánanefndar bankans og án þess að endurgreiðsla lánsins væri tryggð í samræmi við ákvæði reglubókar bankans um töku trygginga fyrir útlánum þótt þeir vissu að fjárhagsstaða lánþegans væri slæm. Lánið var veitt hinn 19. ágúst 2008 og lánsfjárhæðin sama dag lögð inn á reikning lánþega í Kaupthing Bank Luxembourg S.A. til uppgjörs á viðskiptum með hluti í Kaupþingi. Peningamarkaðslánið var á gjalddaga 2. september 2008. Það var þá framlengt til 30. september 2008 og síðan til 30. október 2008. Lánið hefur síðan verið í vanskilum og verður að telja það Kaupþingi að fullu glatað.“

Samkvæmt gögnum málsins var KGS stór viðskiptavinur Kaupthing Bank Luxembourg S.A. og einn stærsti lántakandinn þar. Á yfirliti sem kynnt var á stjórnarfundi Kaupþings banka hf. 25. september 2008 kom fram að skuldir hans við samstæðu bankans námu 520.000.000 evrum. Hann mun hafa verið í viðskiptum við Kaupþing banka hf. á árinu 2000 en látið af þeim 2001 og skipt eftir það við Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Á árinu 2004 mun hann hafa keypt hlutabréf í Kaupþingi banka hf. og þau kaup verið fjármögnuð af Landsbanka Íslands hf.

Um aðdraganda lánveitingarinnar, sem þessi liður ákæru tekur til, er þess að geta að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. keypti samkvæmt gögnum málsins í eigin nafni 17.300.000 hluti í Kaupþingi banka hf. í fernu lagi í ágúst 2008, en þau viðskipti munu hafa farið fram í þágu KGS. Stærsti hluti bréfanna, 16.700.000 hlutir, var keyptur af eigin viðskiptum Kaupþings banka hf. í þrennum utanþingsviðskiptum. Í fyrsta lagi 6.000.000 hlutir 7. ágúst á genginu 710 og var kaupverð með þóknun 4.270.650.000 krónur. Í öðru lagi 5.000.000 hlutir 8. ágúst á genginu 715 og var kaupverð með þóknun 3.583.937.500 krónur. Í þriðja lagi 5.700.000 hlutir 11. ágúst á genginu 722 og var kaupverðið með þóknun 4.125.688.500 krónur. Samtals var kaupverðið í þessum þrennum viðskiptum því 11.980.276.000 krónur. Uppgjörsdagur allra viðskiptanna var 18. ágúst 2008. Samkvæmt nótum voru eigin viðskipti Kaupþings banka hf. seljandi bréfanna, FRR var miðlari en nafn KGS kom ekki fram á þeim. Fjórðu viðskiptin munu hafa farið fram 11. ágúst 2008 með því að Kaupthing Bank Luxembourg S.A. hafi keypt 600.000 hluti í Kaupþingi banka hf. af H.F. Verðbréfum hf. í þágu KGS.

Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst KGS hafa sent ákærðu Hreiðari Má og Magnúsi tölvubréf í febrúar 2008 þar sem hann hafi lýst áhuga á að kaupa fleiri hlutabréf í Kaupþingi banka hf. Hann hefði ekki fengið svar frá Hreiðari Má fyrr en 6. ágúst 2008, en þá hefði Hreiðar Már hringt í sig og boðið sér að kaupa hlutabréf í bankanum. Kvaðst KGS hafa verið reiðubúinn til að kaupa þá hluti sem bankinn hefði verið tilbúinn til að selja sér. Ákærði Hreiðar Már greindi frá því fyrir dómi að KGS hefði um vorið 2008 lýst við sig áhuga á kaupum á hlutabréfum í bankanum og hafi Hreiðar sagt bankann vilja ganga til slíkra viðskipa „með fjármögnun“.

FRR hringdi um hádegisbil 7. ágúst 2008 til starfsmanns Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Sagðist FRR hafa 6.000.000 hluti í Kaupþingi banka hf. til sölu á genginu 710 og kvaðst starfsmaðurinn mundu kaupa þá. Í beinu framhaldi af því hringdi FRR í ákærða Pétur Kristin og sagðist ætla að kaupa af honum 6.000.000 hluti í bankanum á genginu 710. Spurði þá Pétur Kristinn: „Ætlarðu að bjóða mér yfirverð“ og sagðist FRR vera að spá í það. Síðar þennan dag sendi ákærði Magnús tölvubréf meðal annars til fyrrnefnds starfsmanns Kaupthing Bank Luxembourg S.A. þar sem fram kom að bankinn myndi á næstu dögum kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. fyrir samtals 100.000.000 evrur fyrir KGS og kæmi fjármögnun frá Íslandi. Nokkrum mínútum síðar svaraði starfsmaðurinn því til að þeir hefðu þegar keypt 6.000.000 hluti og yrðu þeir færðir á vörslureikning í eigu KGS. Spurði þá ákærði Magnús hvort nokkuð væri á þeim reikningi, sem starfsmaðurinn kvað ekki vera, og svaraði þá Magnús með orðinu: „Cool“.

Annar starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. sendi tölvubréf 8. ágúst 2008 til FRR og spurði hvort hann hafi fundið einhvern til að hjálpa sér „regarding the KAUP trade“. Eftir ítrekun frá starfsmanninum svaraði FRR því til í tölvubréfi 11. sama mánaðar að GÞ væri með málið. Í kjölfarið óskaði starfsmaðurinn eftir því að GÞ veitti sér upplýsingar um fjármögnun kaupa hlutabréfa í Kaupþingi banka hf. Næsta dag átti GÞ símtal við FRR til að fá upplýsingar um hlutabréfaviðskiptin. Í framhaldi af því ræddi síðan GÞ í símtali við starfsmann Kaupthing Bank Luxembourg S.A. um viðskiptin og kom þá fram að þau væru fyrir  KGS, svo og að ákærða Magnúsi væri kunnugt um þau. Ætti að leggja lán fyrir þessum viðskiptum inn á reikning KGS hjá Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Eftir þetta samtal sendi starfsmaðurinn GÞ tölvubréf, en í fylgiskjali með því komu fram sundurliðaðar upplýsingar um kaup á 17.300.000 hlutum í Kaupþingi banka hf., sem erlendi bankinn hefði staðið að í þágu KGS 7. til 11. ágúst 2008. Í tölvubréfi 18. sama mánaðar til GÞ spurðist starfsmaður Kaupthing Bank Luxembourg S.A. fyrir um það hvort hann gæti staðfest að greiðsla vegna viðskiptanna bærist þann dag. Stuttu síðar sendi GÞ tölvubréf til tveggja starfsmanna fjárstýringar Kaupþings banka hf., með afriti á ákærða Bjarka, þar sem sagði: „Vinsamlegast veita KGS ... lán í tvær vikur að upphæð ISK 12.445.518.000. Lánið á að greiðast inn á ISK reikning Kaupþing Lux með textann „favour acc 100977-1“ í reference.“ Eftir gögnum málsins fór greiðslan fram næsta dag.

KGS sendi tölvubréf 18. ágúst 2008 til ákærða Magnúsar, þar sem hann kvaðst ekki gera sér ljóst hvar þeir stæðu í kaupum á hlutabréfum. Þessu svaraði Magnús um hæl og sagði þá hafa keypt 17.300.000 hluti og væri meðalgengi þeirra 719,4.

Ákærði Bjarki sendi tölvubréf til ákærða Hreiðars Más snemma morguns 21. ágúst 2008 undir yfirskriftinni: „Nokkur mál“ og kvaðst mundu hringja til hans stuttu síðar. Í fylgiskjali með bréfinu var yfirlit í níu liðum, þar á meðal um málefni sem þyrftu að fara fyrir lánanefnd stjórnar og var þar getið um KGS. Gögn málsins bera ekki með sér að af þessu hafi orðið eða að lánveitingin sem hér um ræðir hafi verið lögð fyrir aðra lánanefnd Kaupþings banka hf., en síðasti fundur lánanefndar stjórnar var haldinn 24. september 2008.

Í málinu liggur fyrir óundirritað skjal dagsett 19. ágúst 2008 um peningamarkaðslán Kaupþings banka hf. til KGS að fjárhæð 12.445.518.000 krónur. Lánið var á gjalddaga 2. september 2008 og bar 19,8% ársvexti. Ekkert kom fram um tryggingar vegna lánsins og verður ekki séð af gögnum málsins að KGS hafi undirritað skjöl í tengslum við það. Á gjalddaga var peningamarkaðslánið síðan framlengt til 30. september 2008 samkvæmt tilmælum GÞ í tölvubréfi til HSK. Síðastnefndan dag var lánið aftur framlengt til 30. október sama ár og áttu þá að koma til greiðslu 12.945.134.866 krónur. Fyrir þann dag hafði Fjármálaeftirlitið sett skilanefnd yfir Kaupþing banka hf.

2

Eins og greinir hér að framan keypti Kaupthing Bank Luxembourg S.A. dagana 7. til 11. ágúst 2008 samtals 17.300.000 hluti í Kaupþingi banka hf. í þágu KGS, þar af 16.700.000 hluti af eigin viðskiptum síðarnefnda bankans sem veitti síðan 19. sama mánaðar peningamarkaðslán að fjárhæð 12.445.518.000 krónur til að standa straum af kaupverði allra hlutanna. Í samræmi við vinnulag og verkferla innan Kaupþings banka hf. í sambandi við útgreiðslu peningamarkaðslána, sem áður hefur verið lýst, verður að ganga út frá því að fjárstýring bankans hafi heimilað útgreiðslu lánsins síðastnefndan dag í framhaldi af fyrrgreindum tölvubréfaskiptum og símtölum GÞ við starfsmenn Kaupthing Bank Luxembourg S.A. Á þessu tímamarki lá samkvæmt gögnum málsins ekki fyrir lánsbeiðni frá KGS, lánanefndir Kaupþings banka hf. höfðu ekki samþykkt lánveitinguna, lántakandinn hafði ekki verið metinn til lánshæfis, hann undirritaði engin skjöl um þessi lánsviðskipti og engar tryggingar voru settar fyrir endurgreiðslu lánsins. Útgreiðsla lánsins stangaðist á við reglur bankans um lánveitingar og var því með öllu óheimil. Sá verknaður var því brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði Hreiðar Már kvaðst sem fyrr segir fyrir dómi hafa átt samtal við KGS og samþykkt þar ósk hans um að kaupa hlutabréf í Kaupþingi banka hf. með fjármögnun af hendi bankans. Vegna þekkingar ákærða Hreiðars Más á verkferlum og vinnulagi innan bankans og að teknu tilliti til tölvubréfs ákærða Bjarka til hans 21. ágúst 2008 getur ekki annað staðist en að ákærða Hreiðari Má hafi verið kunnugt um að þessi stórfelldu viðskipti hafi náð fram að ganga. Vegna setu sinnar í lánanefndum bankans vissi hann gjörla að lánveiting til KGS hafði ekki verið samþykkt þar. Með því að sjá ekki þrátt fyrir þetta til þess að lánveitingin færi fram í samræmi við reglur bankans veitti ákærði Hreiðar Már atbeina sinn til hennar og þar með fyrrgreinds brots. Hann verður vegna þessa sakfelldur fyrir hlutdeild í því og varðar háttsemi hans við 249. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

Í málinu liggur ekkert fyrir um að ákærði Sigurður hafi átt hlut að fyrrgreindri lánveitingu til KGS eða að honum hafi verið kunnugt um að hún hafi farið fram í andstöðu við reglur Kaupþings banka hf. Samkvæmt því verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærða Sigurðar af sakargiftum samkvæmt þessum lið ákæru.

XI

Samkvæmt því sem að framan greinir er ákærði Hreiðar Már sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt I. kafla og A., B. og C. lið II. kafla ákærunnar og umboðssvik samkvæmt i-lið A. liðar og ii-lið C. liðar III. kafla hennar. Þá er hann sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum samkvæmt ii og iii-lið A. liðar, B. lið, i, iii og iv-lið C. liðar og D. lið III. kafla ákærunnar.

Ákærði Sigurður er sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt I. kafla og A., B. og C. lið II. kafla ákæru. Jafnframt er hann sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum samkvæmt i, ii og iii-lið A. liðar, B. lið og i, ii, iii og iv-lið C. liðar III. kafla ákærunnar. Hann er á hinn bóginn sýknaður af sakargiftum um umboðssvik samkvæmt D. lið III. kafla ákæru.

Ákærði Ingólfur er sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt I. kafla og A., B. og C. lið II. kafla ákæru. Þá er hann sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum samkvæmt i, ii og iii-lið A. liðar, B. lið og i, ii, iii og iv-lið C. liðar III. kafla ákærunnar.

Ákærði Magnús er sakfelldur fyrir hlutdeild í markaðsmisnotkun samkvæmt B. lið II. kafla ákæru og umboðssvikum samkvæmt i-lið C. liðar III. kafla hennar. Hann er á hinn bóginn sýknaður af sakargiftum um umboðssvik samkvæmt  i, ii og iii-lið A. liðar, B. lið og ii, iii og iv-lið C. liðar III. kafla ákærunnar. Þá standa óröskuð ákvæði hins áfrýjaða dóms um frávísun málsins að hluta vegna sakargifta á hendur ákærða Magnúsi samkvæmt A. og C. lið II. kafla ákæru.

Ákærðu Einar Pálmi, Birnir Sær og Pétur Kristinn eru sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun samkvæmt I. kafla ákæru.

Ákærði Bjarki er sakfelldur fyrir umboðssvik samkvæmt i, ii og iii-lið A. liðar og i, ii, iii og iv-lið C. liðar III. kafla ákæru.

Ákærða Björk er sakfelld fyrir tilraun til umboðssvika samkvæmt iii-lið A. liðar III. kafla ákæru.

Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að brot samkvæmt I. og II. kafla ákæru voru umfangsmikil, þaulskipulögð og drýgð í samverknaði og af einbeittum ásetningi. Beindust þau í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðnum hér á landi í heild og verður tjónið sem leiddi af þeim beint og óbeint ekki metið til fjár. Voru brotin með þeim alvarlegustu sem dæmi eru um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot. Jafnframt ber að líta til þess að ákærðu Hreiðar Már sem forstjóri Kaupþings banka hf., Sigurður sem stjórnarformaður bankans og Ingólfur sem forstjóri hans á Íslandi voru yfirmenn ákærða Einars Pálma, forstöðumanns deildar eigin viðskipta. Undir þann síðastnefnda heyrðu svo ákærðu Birnir Sær og Pétur Kristinn. Brotin samkvæmt III. kafla ákæru voru framhald þeirrar markaðsmisnotkunar sem I. og II. kafli ákærunnar tóku til og snerust brotin um gífurlegar fjárhæðir en lánin sem þar um ræddi námu samtals á fimmta tug milljarða króna og hafa samkvæmt gögnum málsins ekki nema rúmlega 3.000.000.000 krónur fengist endurgreiddar af þeim. Fól háttsemi ákærðu samkvæmt III. kafla ákæru í sér alvarleg trúnaðarbrot gagnvart stóru hlutafélagi sem skráð var í kauphöllum, þau voru framin af ásetningi í auðgunarskyni og leiddu til stórfellds fjártjóns. Sakir voru því mjög miklar í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga.

Með dómi Hæstaréttar 12. febrúar 2015 í máli nr. 145/2014 var ákærði Hreiðar Már dæmdur í fangelsi í 5 ár og 6 mánuði, ákærði Sigurður í 4 ár og ákærði Magnús í 4 ár og 6 mánuði. Refsing þeirra nú verður ákveðin sem hegningarauki samkvæmt 78. gr. almennra hegningarlaga eins og brotin hefðu verið dæmd í einu lagi, sbr. 77. gr. sömu laga. Að gættu þessu og teknu tilliti til fyrirmæla um hámarksrefsingu samkvæmt þeim lagaákvæðum sem þessir ákærðu hafa brotið verður ákærði Hreiðar Már dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði, refsing ákærða Sigurðar samkvæmt héraðsdómi verður látin standa óröskuð, en ákærða Magnúsi ekki gerð frekari refsing.

Refsing ákærða Ingólfs skal vera óbreytt frá því sem ákveðið var í héraði.

Við ákvörðun refsingar ákærðu Einars Pálma, Birnis Sæs og Péturs Kristins verður jafnframt því sem að framan greinir að líta til þess að þeim hefur ekki áður verið gerð refsing, brot þeirra voru framin með framferði í starfi sem þeir áttu ekki sjálfir þátt í að móta og lutu þeir í þeim efnum boðum yfirmanna sinna. Að þessu virtu er refsing þessara ákærðu hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. Þegar litið er sérstaklega til þess hversu langur tími er liðinn frá því að brot þessi voru framin og tímans sem meðferð málsins hefur tekið verða ákvæði hins áfrýjaða dóms um skilorðsbindingu refsingar þessara ákærðu látin standa óröskuð.

Varðandi ákærða Bjarka verður að gæta að því að hann framdi brot sín í starfi sem framkvæmdastjóri útlána hjá Kaupþingi banka hf. og var hann sem slíkur meðal æðstu yfirmanna bankans. Brot hans voru á hinn bóginn fólgin í háttsemi sem fyrst kom til á síðari stigum samfelldra atburða í tengdum brotum sem aðrir hrundu af stað. Hann hefur ekki áður sætt refsingu og verður því ákvörðun refsingar hans í hinum áfrýjaða dómi staðfest.

Ákærða Björk er hér sakfelld fyrir tilraun til umboðssvika sem reyndist ónothæf. Með lögjöfnun frá 3. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga verður henni ekki gerð refsing.

Sakarkostnaður fyrir héraðsdómi fólst eingöngu í málsvarnarlaunum verjenda og eftir atvikum þóknun verjanda á rannsóknarstigi. Við ákvörðun fjárhæðar þeirra launa og þóknunar verður ekki hreyft, en um greiðslu þeirra fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Um áfrýjunarkostnað fer jafnframt eftir því sem segir í dómsorði, en málsvarnarlaun verjenda eru ákveðin þar að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Ákærði Hreiðar Már Sigurðsson sæti fangelsi í sex mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærðu Sigurðar Einarssonar, Ingólfs Helgasonar, Einars Pálma Sigmundssonar, Birnis Sæs Björnssonar, Péturs Kristins Guðmarssonar og Bjarka H. Diego skulu vera óröskuð.

Ákærðu Magnúsi Guðmundssyni og Björk Þórarinsdóttur er ekki gerð refsing.

Ákvæði héraðsdóms um fjárhæð málsvarnarlauna og þóknunar verjenda ákærðu skulu vera óröskuð. Ákærðu Hreiðar Már, Sigurður, Ingólfur, Einar Pálmi, Birnir Sær, Pétur Kristinn og Bjarki skulu hver fyrir sitt leyti greiða þær fjárhæðir að fullu, en ákærðu Magnús og Björk hvort um sig að fjórðungi.

Um sakarkostnað fyrir Hæstarétti fer sem hér segir: Ákærði Hreiðar Már greiði 12.958.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Harðar Felix Harðarsonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Sigurður 6.485.200 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Ingólfur 16.678.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Gríms Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Einar Pálmi 5.301.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Gizurar Bergsteinssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Birnir Sær 6.330.200 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Halldórs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Pétur Kristinn 6.262.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Vífils Harðarsonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Bjarki 5.580.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Jóhannesar Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði Magnús 2.517.200 krónur, sem eru fjórðungur málsvarnarlauna verjanda hans, Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns, og ákærða Björk 1.395.000 krónur, sem eru fjórðungur málsvarnarlauna verjanda hennar, Helgu Melkorku Óttarsdóttur hæstaréttarlögmanns. Úr ríkissjóði skal greiða ¾ hluta málsvarnarlauna verjanda ákærða Magnúsar, 7.551.600 krónur, og ¾ hluta málsvarnarlauna verjanda ákærðu Bjarkar, 4.185.000 krónur. Annan áfrýjunarkostnað, 3.589.871 krónu, skulu ákærðu greiða óskipt, en ákærðu Magnús og Björk þó að fjórðungi hvort.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. júní 2015.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var 22. maí síðastliðinn, var höfðað með ákæru sérstaks saksóknara, útgefinni 15. mars 2013, á hendur eftirtöldum:

„Hreiðari Má Sigurðssyni, kt. [...], með lögheimili í Lúxemborg,

Sigurði Einarssyni, kt. [...], með lögheimili í Bretlandi,

Ingólfi Helgasyni, kt. [...], með lögheimili í Lúxemborg,

Einari Pálma Sigmundssyni, kt. [...], Hrísrima 36, Reykjavík,

Birni Sæ Björnssyni, kt. [...], Haustakri 7, Garðabæ,

Pétri Kristni Guðmarssyni, kt. [...], Tröllateigi 51, Mosfellsbæ,

Magnúsi Guðmundssyni, kt. [...], með lögheimili í Lúxemborg,

Bjarka H. Diego, kt. [...], Lálandi 5, Reykjavík, og

Björk Þórarinsdóttur, kt. [...], Lóuási 17, Hafnarfirði,

fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um verðbréfaviðskipti:

I

Á hendur ákærðu Hreiðari Má sem forstjóra Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 19, 105 Reykjavík (hér eftir einnig Kaupþing), Sigurði sem starfandi stjórnarformanni bankans, Ingólfi sem forstjóra bankans á Íslandi, Einari Pálma sem forstöðumanni eigin viðskipta bankans og Birni Sæ og Pétri Kristni sem starfsmönnum eigin viðskipta bankans, fyrir að hafa í sameiningu stundað markaðsmisnotkun, með hlutabréf útgefin af bankanum sjálfum, á tímabilinu frá og með 1. nóvember 2007 til og með 8. október 2008, í samtals 229 viðskiptadaga á íslenska markaðnum og 234 viðskiptadaga á þeim sænska, með því að setja fram tilboð og eiga viðskipti í viðskiptakerfi Nasdaq OMX Iceland hf. (hér eftir Kauphöllin) og Nasdaq OMX Stockholm AB (hér eftir kauphöllin í Svíþjóð) sem tryggðu óeðlilegt verð, bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna.

Markaðsmisnotkunin var framkvæmd af ákærðu, Birni Sæ og Pétri Kristni, að undirlagi ákærðu Hreiðars Más, Sigurðar, Ingólfs og Einars Pálma. Lögðu ákærðu, Birnir Sær og Pétur Kristinn, fyrir hönd Kaupþings, fram í upphafi hvers viðskiptadags röð stórra kauptilboða í hlutabréf í Kaupþingi með litlu innbyrðis verðbili í tilboðabækur kauphallanna. Þegar framboð á hlutabréfunum varð meira en eftirspurn annarra markaðsaðila en Kaupþings mættu ákærðu, Birnir Sær og Pétur Kristinn, því að jafnaði með því að bæta við nýjum kauptilboðum jafnharðan og fyrri tilboðum þeirra var tekið og hægðu þannig á eða stöðvuðu verðlækkun hlutabréfanna. Þá hækkaði að jafnaði hlutfall kaupa þeirra á hlutabréfunum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum við lok viðskiptadags, þ.e. við lok samfellda viðskiptatímabilsins og í lokunaruppboðum í kauphöllunum, og höfðu ákærðu þannig áhrif á dagslokaverð hlutabréfanna.

Kaup eigin viðskipta Kaupþings á hlutabréfum í Kaupþingi í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu voru umfangsmikil og kerfisbundin enda voru þau verulegur hluti af heildarveltu með hlutabréf í Kaupþingi í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu. Eigin viðskipti Kaupþings keyptu 134.455.761 hlut af þeim 318.115.120 hlutum í Kaupþingi sem viðskipti voru með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á íslenska markaðnum á tímabilinu, sem eru 42,3% af heildarveltu með hlutabréf í Kaupþingi á íslenska markaðnum. Þá keyptu eigin viðskipti Kaupþings 53.260.560 hluti af þeim 172.427.515 hlutum í Kaupþingi sem viðskipti voru með í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á sænska markaðnum á tímabilinu, sem eru 30,9% af heildarveltu með hlutabréf í Kaupþingi á sænska markaðnum. Á sama tímabili seldu eigin viðskipti Kaupþings 4.757.618 hluti eða sem nemur 1,5% af heildarveltu með hlutabréf í Kaupþingi á íslenska markaðnum og 13.172.526 hluti eða sem nemur 7,6% af heildarveltu með hlutabréf í Kaupþingi á þeim sænska.

Kaup eigin viðskipta umfram sölu á íslenska markaðnum námu 41% af heildarveltunni í sjálfvirkum pörunarviðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi, eða samtals 129.698.143 hlutum sem voru að verðmæti samtals 93.944.124.700 krónur að markaðsvirði. Þar af voru kaup umfram sölu í opnunaruppboðum 55% af heildarveltunni með hlutabréf í Kaupþingi í opnunaruppboðum og 43% af heildarveltunni í lokunaruppboðum en í lokunaruppboðum er unnt að hafa mikil áhrif á verðmyndun hlutabréfa með tiltölulega litlum viðskiptum. Á sama tímabili var nafnverð kauptilboða eigin viðskipta Kaupþings í hlutabréf í Kaupþingi 37% af heildarnafnverði kauptilboða í hlutabréfin en nafnverð sölutilboða eigin viðskipta Kaupþings í hlutabréf í Kaupþingi aðeins 3% af heildarnafnverði sölutilboða í hlutabréfin.

Kaup umfram sölu á sænska markaðnum námu 23% af heildarveltunni í sjálfvirkum pörunarviðskiptum með hlutabréf í Kaupþingi, eða samtals 40.088.034 hlutum sem voru að verðmæti samtals 2.549.389.845 sænskar krónur að markaðsvirði. Þar af voru kaup umfram sölu í opnunaruppboðum 30% af heildarveltunni með hlutabréf í Kaupþingi í opnunaruppboðum og 34% af heildarveltunni í lokunaruppboðum. Á sama tímabili var nafnverð kauptilboða eigin viðskipta Kaupþings í hlutabréf í Kaupþingi 30% af heildarnafnverði kauptilboða í hlutabréfin en nafnverð sölutilboða eigin viðskipta Kaupþings í hlutabréf í Kaupþingi 12% af heildarnafnverði sölutilboða í hlutabréfin.

Með þessum umfangsmiklu kauptilboðum og kaupum, en óverulegu magni sölutilboða og sölu í sjálfvirkum pörunarviðskiptum, komu ákærðu ýmist í veg fyrir eða hægðu á lækkun á verði hlutabréfa í Kaupþingi og mynduðu þannig gólf í verðmyndun á hlutabréfunum. Um var að ræða ólögmæt inngrip í gangverk markaðarins sem höfðu áhrif á markaðsgengi hlutabréfa í Kaupþingi, tryggðu óeðlilegt verð á hlutabréfunum á tímabilinu, bjuggu til verð á hlutabréfunum og gáfu eða voru líkleg til að gefa eftirspurn og verð hlutabréfanna ranglega og misvísandi til kynna. Með háttsemi sinni röskuðu ákærðu þeim forsendum og lögmálum sem liggja að baki eðlilegri verðmyndun á skipulegum verðbréfamarkaði með því að auka seljanleika hlutabréfa bankans með ólögmætum hætti.

Framangreindum viðskiptum og tilboðum eigin viðskipta Kaupþings með hlutabréf í Kaupþingi í sjálfvirkum pörunarviðskiptum á tímabilinu er lýst í eftirfarandi töflum, annars vegar fyrir íslenska markaðinn og hins vegar þann sænska (neikvæð gildi merkja nettó sölu, þ.e. sölu umfram kaup, eigin viðskipti Kaupþings eru skammstöfuð EVK):

 

Tímabil

Ísland

Nettó viðskipti EVK

(fjöldi hluta)

Nettó viðskipti EVK sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti EVK í opnunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti EVK í lokunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nafnverð kauptilboða EVK sem hlutfall af heildarnafnverði kauptilboða

Nafnverð sölutilboða EVK sem hlutfall af heildarnafnverði sölutilboða

nóv.´07

5.394.002

15%

28%

16%

21%

9%

des.´07

4.468.069

30%

20%

48%

30%

7%

jan.´08

19.473.454

41%

43%

33%

38%

1%

feb.´08

19.390.233

49%

71%

55%

39%

1%

mar.´08

5.926.105

19%

30%

23%

22%

2%

apr.´08

1.693.771

7%

7%

25%

15%

7%

maí´08

7.093.466

37%

46%

33%

33%

4%

jún.´08

11.571.840

60%

72%

55%

52%

3%

júl.´08

9.226.966

58%

78%

69%

54%

3%

ágú.´08

7.949.768

67%

99%

69%

51%

3%

sep.´08

25.778.983

61%

69%

71%

56%

0%

okt.´08

11.731.486

74%

77%

63%

69%

0%

Alls

129.698.143

41%

55%

43%

37%

3%

 

Tímabil

Svíþjóð

Nettó

viðskipti

EVK

(fjöldi hluta)

Nettó viðskipti EVK sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti EVK í opnunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti EVK í lokunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nafnverð kauptilboða EVK sem hlutfall af heildarnafnverði kauptilboða

Nafnverð sölutilboða EVK sem hlutfall af heildarnafnverði sölutilboða

nóv.´07

1.963.816

8%

30%

-2%

29%

27%

des.´07

1.043.032

12%

42%

-12%

30%

30%

jan.´08

7.134.533

36%

56%

55%

40%

8%

feb.´08

8.600.124

40%

22%

39%

40%

4%

mar.´08

4.425.649

18%

34%

27%

20%

4%

apr.´08

-12.057

0%

-58%

17%

11%

10%

maí.´08

-1.084.598

-8%

14%

20%

19%

19%

jún.´08

1.419.731

18%

27%

17%

26%

9%

júl.´08

2.421.888

35%

91%

31%

32%

10%

ágú.´08

1.664.000

46%

64%

26%

41%

13%

sep.´08

7.929.069

46%

69%

76%

44%

3%

okt.´08

4.582.847

57%

27%

35%

51%

1%

Alls

40.088.034

23%

30%

34%

30%

12%

Viðskiptum og tilboðum ákærða Birnis Sæs fyrir hönd eigin viðskipta Kaupþings í hlutabréf í Kaupþingi á íslenska og sænska markaðnum á tímabilinu er lýst í eftirfarandi töflum (nafn hans er skammstafað BSB):

Tímabil

Ísland

Nettó viðskipti BSB (fjöldi hluta)

Nettó viðskipti BSB sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti BSB

í opnunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti BSB í lokunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nafnverð kauptilboða BSB sem hlutfall af heildarnafnverði kauptilboða

Nafnverð sölutilboða BSB sem hlutfall af heildarnafnverði sölutilboða

nóv.´07

4.432.426

12%

24%

13%

16%

7%

des.´07

3.173.609

21%

20%

27%

22%

7%

jan.´08

18.584.719

39%

42%

26%

36%

1%

feb.´08

16.319.263

41%

59%

56%

32%

0%

mar.´08

5.331.741

17%

31%

22%

19%

1%

apr.´08

1.775.515

8%

-7%

25%

14%

5%

maí.´08

1.965.450

10%

15%

7%

9%

1%

jún.´08

9.375.207

49%

72%

47%

39%

2%

júl.´08

6.720.152

42%

75%

56%

37%

2%

ágú.´08

5.276.414

45%

64%

57%

34%

2%

sep.´08

24.602.226

58%

69%

70%

53%

0%

okt.´08

11.731.486

74%

77%

63%

68%

0%

Alls

109.288.208

34%

49%

37%

30%

2%

 

Tímabil

Svíþjóð

Nettó viðskipti BSB

(fjöldi hluta)

Nettó

viðskipti BSB sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti BSB í opnunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti BSB í lokunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nafnverð kauptilboða BSB

sem hlutfall af heildarnafnverði kauptilboða

Nafnverð sölutilboða BSB sem hlutfall af heildarnafnverði sölutilboða

nóv.´07

489.289

2%

0%

0%

2%

0%

des.´07

25.000

0%

0%

0%

0%

0%

jan.´08

326.400

2%

0%

0%

2%

0%

feb.´08

369.830

2%

0%

0%

1%

0%

mar.´08

151.718

1%

0%

0%

1%

0%

apr.´08

-162.500

-1%

0%

0%

1%

1%

maí.´08

53.800

0%

28%

-3%

1%

0%

jún.´08

584.390

7%

13%

10%

6%

2%

júl.´08

0

0%

0%

0%

0%

0%

ágú.´08

672.944

19%

0%

16%

13%

3%

sep.´08

1.311.085

8%

0%

2%

6%

0%

okt.´08

392.137

5%

0%

0%

4%

0%

Alls

4.214.093

2%

1%

1%

2%

0%

 

Viðskiptum og tilboðum ákærða Péturs Kristins fyrir hönd eigin viðskipta Kaupþings í hlutabréf í Kaupþingi á íslenska og sænska markaðnum á tímabilinu er lýst í eftirfarandi töflum (nafn hans er skammstafað PKG):

Tímabil

Ísland

Nettó viðskipti PKG

(fjöldi hluta)

Nettó viðskipti PKG sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti PKG í opnunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti PKG í lokunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nafnverð kauptilboða PKG sem hlutfall af heildarnafnverði kauptilboða

Nafnverð sölutilboða PKG sem hlutfall af heildarnafnverði sölutilboða

nóv.´07

911.496

3%

4%

2%

4%

2%

des.´07

1.001.210

7%

0%

21%

6%

0%

jan.´08

758.070

2%

1%

7%

2%

0%

feb.´08

2.696.231

7%

12%

0%

6%

0%

mar.´08

621.077

2%

0%

2%

2%

0%

apr.´08

-73.906

0%

0%

0%

0%

0%

maí.´08

4.856.341

25%

31%

28%

23%

2%

jún.´08

1.733.804

9%

0%

8%

9%

0%

júl.´08

2.423.019

15%

3%

13%

16%

1%

ágú.´08

2.678.354

23%

35%

12%

17%

1%

sep.´08

1.101.757

3%

0%

2%

2%

0%

okt.´08

0

0%

0%

0%

0%

0%

Alls

18.707.453

6%

6%

6%

6%

1%

 

Tímabil

Svíþjóð

Nettó

viðskipti PKG

(fjöldi hluta)

Nettó viðskipti PKG sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti PKG í opnunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nettó viðskipti PKG í lokunaruppboðum sem hlutfall af heildarveltu

Nafnverð kauptilboða PKG sem hlutfall af heildarnafnverði kauptilboða

Nafnverð sölutilboða PKG sem hlutfall af heildarnafnverði sölutilboða

nóv.´07

1.525.157

6%

30%

-2%

28%

26%

des.´07

964.732

11%

32%

-12%

28%

30%

jan.´08

6.808.133

34%

56%

55%

38%

8%

feb.´08

7.938.594

37%

22%

39%

38%

4%

mar.´08

4.273.931

17%

34%

27%

19%

4%

apr.´08

135.443

1%

-58%

17%

10%

8%

maí.´08

-1.318.198

-10%

-14%