Print

Mál nr. 104/2009

Lykilorð
  • Meiðyrði
  • Ómerking ummæla
  • Tjáningarfrelsi
  • Prentréttur
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 18. febrúar 2010.

Nr. 104/2009.

Helga Haraldsdóttir

(Brynjar Níelsson hrl.)

gegn

Ólöfu Ósk Erlendsdóttur

Magnúsi Einarssyni og

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

Erlu Hlynsdóttur

(Þórður Bogason hrl.)

og

Erla Hlynsdóttir

gegn

Helgu Haraldsdóttur

Meiðyrði. Ómerking ummæla. Tjáningarfrelsi. Prentréttur. Skaðabætur. Gjafsókn.

H höfðaði mál til ómerkingar nánar tilgreindra ummæla í fjórtán stafliðum, sem birtust í grein í DV í ágúst 2007. Tilefni greinarinnar var rannsókn á málefnum G, eiginmanns H, sem var sakfelldur með dómi Hæstaréttar í desember 2008 fyrir að hafa ítrekað haft kynferðismök við konur, sem á þeim tíma voru vistmenn á meðferðarheimilinu B, sem G veitti forstöðu. Ein þessara kvenna var Ó. Til grundvallar sakfellingu G hafði meðal annars verið lagður framburður vitna sem báru jafnframt að H hefði verið þátttakandi í kynlífsathöfnum hans og vistkvennanna með hliðstæðum hætti og lýst var í þremur ummælum, sem höfð voru eftir M, fyrrum starfsmanni B, í greininni. Af þeim sökum var litið svo á að sönnur hefðu verið leiddar að þeim ummælum og var ómerking þeirra því ekki reist á 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ein ummæli til viðbótar voru höfð eftir M og var talið að í þeim fælist gildisdómur sem ekki varðaði við tilgreind ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga. Var því hafnað kröfu H um ómerkingu þeirra ummæla sem höfð voru eftir M. Önnur ummæli í greininni voru höfð eftir Ó, sem kvaðst muna óljóst eftir samtali við blaðamann DV en kannaðist hins vegar ekki við að hafa viðhaft þessi ummæli. Án tillits til þess hvort tekist hefði að leiða sönnur að ummælum í fjórum liðum, sem höfð voru eftir Ó, var talið að líta yrði til þess að talin voru sönnuð ummæli sem höfð voru eftir M og lutu á almennan hátt að þátttöku H í kynferðisathöfnum G með vistkonum í B. Að því virtu væri ekki séð að ummæli í þessum liðum hefðu verið til þess fallin að verða virðingu H frekari til hnekkis. Voru því ekki forsendur til ómerkingar þeirra samkvæmt 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga. Þá var hvorki talið að fimm önnur ummæli vörðuðu eftir efni sínu við 234. gr. né 235. gr. almennra hegningarlaga og var kröfu H um ómerkingu þeirra hafnað. Eftir stóðu tvíþætt ummæli í einum lið kröfunnar. Fyrri hluti þeirra var talinn fela í sér gildisdóm sem varðaði ekki við tilfærð ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga og voru þau því ekki ómerkt. Hins vegar var talið að með vísan til 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga bæri að ómerkja síðari hluta ummælanna: „... ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni við grunnskóla.“ Með þessum orðum væri gefið til kynna að H hefði gerst sek um refsivert athæfi, sem ekki hefði verið sannað. Þar sem ekki voru leiddar sönnur að því að þessi ummæli hefðu verið höfð eftir Ó var talið að E bæri skaðabótaábyrgð samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, enda hefði hún verið nafngreind með fullnægjandi hætti sem höfundur greinarinnar. Var E gert að greiða H 300.000 krónur í miskabætur og 100.000 krónur til þess að standa straum af kostnaði við birtingu dómsins.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. mars 2009. Hún krefst þess að eftirgreind ummæli, sem birtust á blaðsíðum 16 og 17 í 134. tölublaði DV árið 2007, sem kom út 31. ágúst á því ári, verði ómerkt:

a.    „Ólöf Ósk Erlendsdóttir ... segist hafa stundað kynlíf með þeim hjónum.“

b.    „Ólöf Ósk Erlendsdóttir ... segir Helgu hafa tekið þátt í kynlífsathöfnum með sér og Guðmundi.“

c.    „Ólöf Ósk Erlendsdóttir segir Helgu hafa verið virka í kynlífsleikjum þeirra Guðmundar til að byrja með en þegar líða tók á hafi Helga orðið mjög afbrýðisöm og þá hafi Guðmundur ekki lengur viljað hafa hana með.“

d.    „Hún tók þátt í fyrstu skiptunum okkar saman.“

e.    „Síðan fór hún að hringja í mig og senda mér skilaboð um að hún vildi hitti mig eina.“

f.      „Ólöf segir að Helga hafi leitað eftir kynferðislegu samneyti við hana í einrúmi.“

g.    „Hann laug hana líka fulla“.

h.    „Hann sagði líka að hann væri að skilja við konuna sína.“

i.      „... þessi manneskja er kolrugluð. Ég get ekki séð að hún hafi nokkuð að bjóða sem stuðningsfulltrúi eða í hjálparstarfi yfirhöfuð. Ég veit ekki hvað hún er að gera í þessum skóla. ... ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni í grunnskóla.“

j.       „... hafi dreift ljótum sögum um hana. „Konan hans gerði þetta líka. Þau komu jafnvel með nýjar sögur á hverjum degi.““

k.    „„Þær voru í þjálfun sem drottnarar í lesbísku kynlífi.“ Að sögn Magnúsar var kona hans þátttakandi í þessu.“

l.      „Að sögn Magnúsar Einarssonar ... var misnotkun Guðmundar á vistmönnum með fullri vitneskju hennar og tók hún á tíðum þátt í kynlífsleikjunum.“

m.  „Þau djöfluðust bæði á þeim með tólum og tækjum“.

n.    „Magnús telur undarlegt að kona í þessari stöðu vinni með börnum.“

Þá krefst aðaláfrýjandi þess að stefndu og gagnáfrýjanda verði óskipt gert að greiða sér 3.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. ágúst 2007 til 28. mars 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Hún krefst þess einnig að stefndu og gagnáfrýjandi verði á sama hátt dæmd til að greiða sér 800.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu í þremur dagblöðum. Loks krefst hún málskostnaðar úr hendi stefndu og gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu, Ólöf Ósk Erlendsdóttir og Magnús Einarsson, krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Gagnáfrýjandi, Erla Hlynsdóttir, áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 12. maí 2009. Hún krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Guðmundur Jónsson, eiginmaður aðaláfrýjanda, var forstöðumaður Byrgisins, kristilegs líknarfélags, sem frá árinu 1996 hafði rekið heimili til vímuefnameðferðar og endurhæfingar, þar af frá 2003 að Efri-Brú í Grímsnesi. Í árslok 2006 og ársbyrjun 2007 lögðu þrjár konur fram kærur á hendur honum fyrir kynferðisbrot á meðan þær voru vistmenn í Byrginu. Í kjölfar þess hófst lögreglurannsókn vegna ætlaðra brota Guðmundar. Stóð þessi rannsókn yfir þegar grein sú, sem er tilefni þessa máls, birtist í DV 31. ágúst 2007. Á þeim tíma sem greinin birtist mun aðaláfrýjandi hafa haft réttarstöðu sakbornings við rannsóknina. Að rannsókn lokinni var höfðað mál á hendur Guðmundi með ákæru 28. janúar 2008, en aðaláfrýjandi var ekki borin sökum um refsiverða háttsemi. Því lauk með dómi Hæstaréttar 4. desember 2008 í máli nr. 334/2008, þar sem Guðmundur var sakfelldur fyrir að hafa ítrekað haft kynferðismök við þrjár konur á þeim tíma, sem þær voru vistmenn í Byrginu til vímuefnameðferðar. Ein þessara kvenna er stefnda Ólöf Ósk.

II

Greinin, sem hefur að geyma ummæli þau sem aðaláfrýjandi krefst að ómerkt verði, birtist á 16. og 17. blaðsíðu DV 31. ágúst 2007 undir fyrirsögninni „Árásir Satans“. Gagnáfrýjandi er tilgreind sem höfundur greinarinnar. Ummæli þau, sem tekin eru upp í stafliðum a. til j. í kröfugerð aðaláfrýjanda, eru að sögn gagnáfrýjanda höfð eftir stefndu Ólöfu Ósk, en ummælin í stafliðum k. til n. eftir stefnda Magnúsi, sem eftir gögnum málsins hafði lengi verið starfsmaður í Byrginu. Greininni fylgdi meðal annars ljósmynd af aðaláfrýjanda ásamt eiginmanni hennar og birtist hluti þeirra ummæla, sem krafist er að ómerkt verði í staflið i., feitletruð við hlið þeirrar myndar, en ummæli samkvæmt staflið a. voru ásamt öðru feitletruð í texta ofan við fyrirsögn greinarinnar. Sá hluti greinarinnar, sem hefur að öðru leyti að geyma ummæli þau sem krafist er ómerkingar á, er svohljóðandi og eru ummælin hér með breyttu letri: „Átta mánuðir eru síðan rannsókn hófst á málum Guðmundar Jónssonar, fyrrverandi forstöðumanns Byrgisins. Hann er sakaður um fjármálamisferli og hafa átta konur lagt fram kæru á hendur honum fyrir kynferðislega misbeitingu. Eiginkona Guðmundar, Helga Haraldsdóttir, hefur einnig haft réttarstöðu sakbornings í yfirheyrslum hjá lögreglunni á Selfossi. Ólöf Ósk Erlendsdóttir, fyrrverandi vistmaður Byrgisins, segir Helgu hafa tekið þátt í kynlífsathöfnum með sér og Guðmundi.

Að sögn Magnúsar Einarssonar, fyrrverandi starfsmanns Byrgisins, var misnotkun Guðmundar á vistmönnunum með fullri vitneskju hennar og tók hún á tíðum þátt í kynlífsleikjunum. „Þau djöfluðust bæði á þeim með tólum og tækjum,“ segir Magnús. Hilmar Baldursson, hæstaréttarlögmaður og lögfræðingur þeirra hjóna, segir þessar ásakanir fráleitar. Hann bendir einnig á að mjög algengt sé að fólk hafi réttarstöðu sakbornings í yfirheyrslum án þess að til ákæru komi. Því sé ekki sanngjarnt að bendla Helgu við afbrot af neinu tagi. Hilmar segir hvorugt þeirra hafa gerst brotlegt við lög og hefur enga trú á að ákæra verði gefin út.

Helga hóf nýverið störf sem stuðningsfulltrúi við grunnskólann Ljósaborg í Grímsnes- og Grafningshreppi. Magnús telur undarlegt að kona í þessari stöðu vinni með börnum. Hilmar Björgvinsson, skólastjóri Ljósaborgar, kannast ekki við að hafa fengið athugasemdir vegna ráðningar Helgu.

            ......

Ólöf Ósk Erlendsdóttir segir Helgu hafa verið virka í kynlífsleikjum þeirra Guðmundar til að byrja með en þegar líða tók á hafi Helga orðið mjög afbrýðisöm og þá hafi Guðmundur ekki lengur viljað hafa hana með. „Hún tók þátt í fyrstu skiptunum okkar saman. Síðan fór hún að hringja í mig og senda mér skilaboð um að hún vildi hitta mig eina.“ Ólöf segir að Helga hafi leitað eftir kynferðislegu samneyti við hana í einrúmi. „Allt í einu breyttist hún síðan og lét eins og ég væri að ofsækja manninn hennar. Hann laug hana líka fulla, alveg eins og hann laug að okkur hinum.“

Ólöf segist hafa frétt að Helga starfi sem stuðningsfulltrúi í grunnskóla. „Ég er hvorki sálfræðingur né geðlæknir en þessi manneskja er kolrugluð. Ég get ekki séð að hún hafi nokkuð að bjóða sem stuðningsfulltrúi eða í hjálparstarfi yfirhöfuð. Ég veit ekki hvað hún er að gera í þessum skóla. Miðað við hugaróra Guðmundar um stelpur á grunnskólaaldri finnst mér ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni í grunnskóla.

.......

„Ég hef aldrei hitt neinn svona illan,“ segir Ólöf um Guðmund. „Fyrir mér er hann eins og snákurinn í Edensgarðinum.“ Ólöf er trúuð og hefur það hjálpað henni í gegnum þá erfiðu reynslu sem hún varð fyrir. „Hann sagði okkur að við værum gjöf guðs til hans og að hann skyldi aldrei vera með annarri konu. Hann sagði líka að hann væri að skilja við konuna sína.“

Magnús segir að Guðmundur hafi tekið sumar stúlkurnar í lesbíuþjálfun, eins og hann orðar það. „Þær voru í þjálfun sem drottnarar í lesbísku kynlífi.“ Að sögn Magnúsar var kona hans þátttakandi í þessu.

Ólöf segir Guðmund hafa fylgst með þeim stúlkum sem hann var að hitta. „Eitt skiptið stóð hann fyrir utan gluggann hjá mér um miðja nótt. Ég vissi ekkert af þessu fyrr en daginn eftir þegar hann spurði mig af hverju ég hefði verið að brjóta saman þvott í kringum miðnætti.“

Til að fela samband sitt við Ólöfu segir hún að Guðmundur hafi dreift ljótum sögum um hana. „Konan hans gerði þetta líka. Þau komu jafnvel með nýjar sögur á hverjum degi. Ég tel mig oft hafa hitt þá verstu en þeir eru bara kettlingar miðað við hann,“ segir Ólöf. Magnús kannast við að Guðmundur hafi talað illa um stúlkurnar. „Hann rakkar þær niður um leið og einhver ný er komin í spilið. Síðan hefur hann verið að tala um að þær séu að fróa sér fyrir hann. Hann er bara ljótur í alla staði.““

III

Í héraðsdómsstefnu reisir aðaláfrýjandi kröfur sínar á hendur stefndu Ólöfu Ósk og Magnúsi á því að þau séu í greininni nafngreind sem viðmælendur gagnáfrýjanda og eftir þeim höfð tilgreind ummæli. Með því að hafa þannig í frammi ærumeiðandi aðdróttanir í garð aðaláfrýjanda gegn betri vitund hafi þau „unnið sér til sakar skv. 236. gr., sbr. 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“ Um ábyrgð gagnáfrýjanda er vísað til 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt og hún sögð hafa opinberað og borið út „tilhæfulausar og ærumeiðandi aðdróttanir sem fólu í sér meingerð gegn friðhelgi“ aðaláfrýjanda „gegn betri vitund eða án þess að hafa sennilega ástæðu til að halda aðdróttanirnar réttar.“ Beri gagnáfrýjandi því einnig ábyrgð samkvæmt 236. gr., sbr. 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Krafa um ómerkingu ummæla er í stefnu reist á 1. mgr. 241. gr., sbr. 234. gr. og 235. gr. sömu laga. Í stefnu eru stefndu og gagnáfrýjandi hvorki borin sökum um að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs aðaláfrýjanda samkvæmt 229. gr. almennra hegningarlaga né að hafa borið hana brigslum, sbr. 237. gr. laganna. Varnir stefndu og gagnáfrýjanda hafa því til samræmis verið bundnar við að verjast sökum um ærumeiðingar í garð aðaláfrýjanda með móðgunum, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga, eða aðdróttunum, sbr. 235. og 236. gr. sömu laga. Af þessum sökum kemur ekki til frekari skoðunar hvort stefndu eða gagnáfrýjandi hafi brotið gegn 229. gr. eða 237. gr. almennra hegningarlaga.

 Gagnáfrýjandi kvaðst í skýrslu fyrir héraðsdómi hafa rætt við stefnda Magnús í síma áður en greinin var rituð og er endurrit þess símtals meðal gagna málsins. Þá kvaðst gagnáfrýjandi hafa átt viðtal við stefnda daginn eftir og tekið það upp, en sú upptaka hafi ekki verið varðveitt. Af samanburði við framangreint endurrit er ljóst að þau ummæli, sem tilgreind eru í stafliðum k. til n., eru í meginatriðum efnislega rétt höfð eftir stefnda.

 Eins og að framan sagði lauk rannsókninni, sem var tilefni þeirra ummæla sem hér er deilt um, með dómi Hæstaréttar í máli nr. 334/2008. Í þeim dómi var meðal annars lagður til grundvallar sakfellingu Guðmundar Jónssonar framburður vitna sem báru jafnframt að aðaláfrýjandi hafi verið þáttakandi í kynlífsathöfnum hans og vistkvenna á meðferðarheimilinu með hliðstæðum hætti og lýst er í þeim ummælum sem höfð eru eftir stefnda Magnúsi í stafliðum k. til m. Af þeim sökum verður að líta svo á að sönnur hafi verið leiddar að þeim ummælum og verður ómerking þeirra því ekki reist á 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga. Þá felst í ummælum í n. lið í ómerkingarkröfu aðaláfrýjanda gildisdómur sem ekki varðar við tilgreind ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga. Samkvæmt framansögðu verður hafnað kröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu þeirra ummæla sem höfð eru eftir stefnda Magnúsi og tilgreind eru í stafliðum k. til n.

Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst gagnáfrýjandi hafa við undirbúning greinarinnar rætt við stefndu Ólöfu Ósk í síma. Símtalið hafi verið hljóðritað en upptakan ekki varðveitt. Kvað hún þau ummæli sem eignuð eru stefndu í greininni rétt eftir henni höfð. Stefnda Ólöf Ósk kvaðst í skýrslu fyrir héraðsdómi muna óljóst eftir samtali við blaðamann á DV þar sem rætt hafi verið „eitthvað um bara Byrgismálið“. Hún kannaðist hins vegar ekki við að hafa viðhaft þau ummæli við blaðamanninn sem um ræðir í stafliðum a. til j., en hver og einn liður var borinn undir hana. Þegar litið er til þess að ummæli, sem höfð eru eftir stefndu í liðum a., b., c., d. og h., eru samkvæmt forsendum héraðsdóms í fyrrgreindu sakamáli efnislega að miklu leyti í samræmi við það, sem hún bar fyrir lögreglu skömmu áður en greinin birtist, svo og að stefnda kannaðist við að hafa rætt við blaðamann DV um Byrgismálið en gat ekki skýrt frá því hvað hún teldi sig þá hafa sagt um það við blaðamanninn, verður að leggja til grundvallar að sannað sé að ummælin í þessum stafliðum séu eftir henni höfð. Ummælin í stafliðum e., f., g., i. og j. eiga sér á hinn bóginn ekki á sama hátt hliðstæðu í skýrslum, sem stefnda gaf við rannsókn málsins á hendur Guðmundi Jónssyni. Er því ekki unnt að líta svo á að gagnáfrýjanda hafi tekist sönnun um að þessi ummæli séu eftir stefndu höfð.

Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 334/2008 var Guðmundur Jónsson meðal annars sakfelldur fyrir að hafa átt kynferðismök við stefndu Ólöfu Ósk á meðan hún var vistmaður í Byrginu. Til grundvallar þeirri sakfellingu var þó ekki lagður sá hluti framburðar stefndu, sem laut að þátttöku aðaláfrýjanda í kynlífsathöfnum þeirra. Án tillits til þess hvort tekist hafi að leiða sönnur að þeim ummælum í lið a. til d., sem að þessu lúta, verður að líta til þess að hér að framan voru talin sönnuð ummæli, sem höfð voru eftir stefnda Magnúsi og lutu á almennan hátt að þátttöku aðaláfrýjanda í kynferðisathöfnum eiginmanns hennar með vistkonum í Byrginu. Að því virtu verður ekki séð að ummæli þau sem höfð voru eftir stefndu Ólöfu Ósk hafi verið til þess fallin að verða virðingu aðaláfrýjanda frekar til hnekkis. Eru því ekki forsendur til ómerkingar þeirra samkvæmt 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga.

Ummæli í stafliðum e., f., g., h. og j. varða eftir efni sínu hvorki við 234. gr. né 235. gr. almennra hegningarlaga og verður kröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu þeirra því hafnað. Ummælin í i. lið eru tvíþætt. Fyrri hluti þeirra, þar sem segir að „... þessi manneskja er kolrugluð. Ég get ekki séð að hún hafi nokkuð að bjóða sem stuðningsfulltrúi eða í hjálparstarfi yfirhöfuð. Ég veit ekki hvað hún er að gera í þessum skóla ...“, fela í sér gildisdóm sem ekki varðar við tilfærð ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga og verða þau því ekki ómerkt. Öðru máli gegnir um síðasta hluta ummælanna í i. lið, þar sem segir eftirfarandi: „... ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni við grunnskóla.“ Með þessum orðum var gefið til kynna að aðaláfrýjandi hafi gerst sek um refsivert athæfi, sem að engu hefur verið sannað að eigi við rök að styðjast. Verður því fallist á kröfu aðaláfrýjanda um ómerkingu þeirra með vísan til 241. gr., sbr. 235. gr. almennra hegningarlaga.

Eins og að framan er rakið hafa ekki verið leiddar sönnur að því að framangreind ummæli í staflið i. hafi verið höfð eftir stefndu Ólöfu Ósk. Gagnáfrýjandi var með fullnægjandi hætti nafngreind sem höfundur greinarinnar og ber því skaðabótaábyrgð á þessu efni hennar samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956. Í ummælunum fólst gróf aðdróttun að aðaláfrýjanda um refsiverðan verknað. Ummælin birtust með áberandi hætti í víðlesnu blaði og voru þau fallin til að hafa áhrif á æru og starfsheiður aðaláfrýjanda. Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá þeim áhrifum sem fyrrnefnt refsimál og umræða um það hljóta þegar að hafa haft í þeim efnum. Þegar til alls þessa er litið eru miskabætur til handa aðaláfrýjanda hæfilega ákveðnar 300.000 krónur.

Gagnáfrýjandi verður með vísan til 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga dæmd til að standa straum af kostnaði við birtingu dómsins. Aðaláfrýjandi hefur ekki stutt kröfu sína um greiðslu kostnaðar af slíkri birtingu neinum gögnum. Er hæfileg fjárhæð vegna þess kostnaðar 100.000 krónur.

Gagnáfrýjanda verður samkvæmt framansögðu gert að greiða aðaláfrýjanda samtals 400.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Rétt er að málskostnaður milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda falli niður í héraði og fyrir Hæstarétti. Aðaláfrýjandi verður dæmd til að greiða samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti vegna hvors stefndu og rennur hann í ríkissjóð. Gjafsóknarkostaður stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Eftirfarandi ummæli sem birtust í DV 31. ágúst 2007 eru ómerk: “...ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni í grunnskóla.“

Gagnáfrýjandi, Erla Hlynsdóttir, greiði aðaláfrýjanda, Helgu Haraldsdóttur, 400.000 krónur með vöxtum af 300.000 krónum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. ágúst 2007 til 28. mars 2008, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður milli aðaláfrýjanda og gagnáfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Aðaláfrýjandi greiði í ríkissjóð samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti vegna stefndu, Ólafar Óskar Erlendsdóttur og Magnúsar Einarssonar. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, samtals 300.000 krónur á báðum dómstigum vegna hvors um sig.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. desember 2008.

Mál þetta sem dómtekið var 11. nóvember 2008 var þingfest 28. febrúar 2008.

Stefnandi er Helga Haraldsdóttir, Háholti 11, Hafnarfirði.

Stefndu eru Ólöf Ósk Erlendsdóttir, Möðrufelli 11, Reykjavík, Magnús Einarsson, Heiðarási 16, Reykjavík og Erla Hlynsdóttir, Ægissíðu, 105, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda í málinu eru eftirfarandi:

1. Að eftirfarandi ummæli, í stafliðum a til j, sem stefnda Ólöf og stefnda Erla viðhöfðu og birtu um stefnanda á blaðsíðum 16 og 17 í 134. tbl., 97. árgangs DV, 2. ágúst 2007, verði ómerkt:

a. „Ólöf Ósk Erlendsdóttir, ..., segist hafa stundað kynlíf með þeim hjónum.“

b. „Ólöf Ósk Erlendsdóttir, ..., segir Helgu hafa tekið þátt í kynlífsathöfnum með sér og Guðmundi.“

c. „Ólöf Ósk Erlendsdóttir segir Helgu hafa verið virka í kynlífsleikjum þeirra Guðmundar til að byrja með en þegar líða tók á hafi Helga orðið mjög afbrýðisöm og þá hafi Guðmundur ekki lengur viljað hafa hana með.“

d. „Hún tók þátt í fyrstu skiptunum okkar saman.“

e. „Síðan fór hún að hringja í mig og senda mér skilaboð um að hún vildi hitta mig eina.“

f. „Ólöf segir að Helga hafi leitað eftir kynferðislegu samneyti við hana í einrúmi.“

g. „Hann laug hana líka fulla, ...“

h. „Hann sagði líka að hann væri að skilja við konuna sína.“

i. „... þessi manneskja er kolrugluð. Ég get ekki séð að hún hafi nokkuð að bjóða sem stuðningsfulltrúi eða í hjálparstarfi yfirhöfuð. Ég veit ekki hvað hún er að gera í þessum skóla ... ... ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni í grunnskóla.“

j. „ ...hafi dreift ljótum sögum um hana. „Konan hans gerði þetta líka. Þau komu jafnvel með nýjar sögur á hverjum degi.““

2. Að eftirfarandi ummæli, í stafliðum k til n, sem stefndi Magnús og stefnda Erla viðhöfðu og birtu um stefnanda á blaðsíðum 16 og 17 í 134. tbl., 97. árgangs DV 31. ágúst 2007, verði ómerkt:

k. „Þær voru í þjálfun sem drottnarar í lesbísku kynlífi. Að sögn Magnúsar var kona hans þáttakandi í þessu.“

l. „Að sögn Magnúsar Einarssonar, ..., var misnotkun Guðmundar á vistmönnum með fullri vitneskju hennar og tók hún á tíðum þátt í kynlífsleikjunum.“

m. „Þau djöfluðust bæði á þeim með tólum og tækjum“

n. „Magnús telur undarlegt að kona í þessari stöðu vinni með börnum.“

3. Að stefndu verði dæmd til refsingar vegna ofangreindra ummæla og birtingar þeirra, samkvæmt 234., 235. og 236 gr. almennra hegningarlaga.

4. Að stefndu greiði stefnanda 3.000.000 króna, in solidum, í miskabætur og beri dómkrafan vexti skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 31. ágúst 2007 til 28. mars 2008, en dráttarvexti frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

5. Að stefndu greiði stefnanda 800.000 krónur, in solidum, til að kosta birtingu dóms í málinu, þ.e. forsendna og dómsorðs, í þremur dagblöðum.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndu gera þær kröfur að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og til vara að fjárhæðir verði lækkaðar verulega. Þá krefjast öll stefndu málskostnaðar sér til handa.

Með úrskurði 14. júlí s.l. var hafnað kröfum stefndu um frávísun í málinu, en í upphaflegri kröfugerð kröfðust stefndu Ólöf Ósk og Magnús þess að refsikröfu stefnanda yrði vísað frá dómi, en stefnda Erla krafðist þess að öllum kröfum á hendur sér yrði vísað frá dómi.

Málavextir:

Í stefnu er málsatvikum lýst þannig að í helgarblaði DV 31. ágúst – 2. september 2007 hafi birst grein á bls. 16 og 17 um eiginmann stefnanda. Stefnda Erla sé nafngreind sem höfundur greinarinnar og stefndu Ólöf og Magnús séu nafngreind sem viðmælendur. Greinin sé að mestu byggð á ummælum og sögum viðmælenda um eiginmann stefnanda en þar séu einnig alvarlegar fullyrðingar þar sem vegið sé að persónu, æru og starfsheiðri stefnanda. Þá sé stefnandi einnig sökuð um háttsemi sem geti talist refsiverð samkvæmt íslenskum lögum. Í fyrirsögn greinarinnar, sem beri heitið Árásir satans, sé m.a. nafn stefnanda feitletrað ásamt upplýsingum um starfsstað hennar og starfsheiti. Í greininni sem nái yfir tvær heilar blaðsíður dagblaðsins, séu fjórar myndir en ein þeirra sé af heimili stefnanda og önnur af stefnanda inni á heimili sínu.

Málsástæður og lagarök stefnanda:

Stefnandi byggir, að því er varðar aðild stefndu Ólafar Óskar og Magnúsar, á nafngreiningu þeirra sem viðmælenda höfundar. Þau hafi með því að hafa haft í frammi ærumeiðandi aðdróttanir í garð stefnanda, gegn betri vitund, unnið sér til sakar samkvæmt 236. gr. samanber 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Aðild stefndu Erlu og ábyrgð hennar á ummælum í kröfugerð byggir stefnandi á nafngreiningu hennar sem höfundar á nefndri blaðagrein, samkvæmt 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Stefnda hafi opinberað og borið út tilhæfulausar og ærumeiðandi aðdróttanir sem hafi falið í sér meingerð gegn friðhelgi stefnanda, gegn betri vitund, eða án þess að hafa sennilega ástæðu til að halda aðdróttanirnar réttar. Stefnda Erla beri því einnig ábyrgð samkvæmt 236. gr. samanber 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Stefnandi byggir á því að öll ummælin sem krafist er ómerkingar á séu tilhæfulaus meingerð, þar sem vegið sé að persónu, æru og faglegum heiðri stefnanda. Í þeim felist gróf aðdróttun sem sé til þess falin að verða virðingu hennar til hnekkis. Ummælin teljist því óviðurkvæmileg og beri að ómerkja þau á grundvelli 1. mgr. 241. gr., samanber 234. gr. og 235. gr. laga nr. 19/1940.

Að því er varðar ummælin í stafliðum a til d sérstaklega, er þar haft eftir stefndu Ólöfu Ósk að stefnandi hafi tekið þátt í kynlífi með Ólöfu Ósk og eiginmanni stefnanda. Ummæli þessi séu ósönn og órökstudd og tilgangur þeirra virðist vera sá einn að sverta ímynd stefnanda með persónulegum árásum er tengjast kynferðislegum samskiptum. Þá hafi óviðurkvæmilegar og ósannaðar fullyrðingar einnar manneskju ekkert fréttagildi og eigi ekki erindi til blaðamanns eða til almennings.

Í ummælum í stafliðum e og f séu hafðar eftir stefndu Ólöfu Ósk fullyrðingar um að stefnandi hafi leitað eftir kynferðislegum samskiptum við hana eina, án eiginmanns stefnanda. Þetta sé úr lausu lofti gripið og með öllu órökstutt og geti tilgangur með slíkum fullyrðingum ekki verið annar en að koma af stað ósönnum orðrómi um persónu stefnanda, kynhneigð hennar og fjölskyldulíf. Stefnandi sé ekki þjóðþekkt persóna og hafi umfjöllun um hennar persónulegu hagi ekki fréttagildi eða eigi erindi til almennings.

Fullyrðingar sem koma fram í stafliðum g og h um að eiginmaður stefnanda ljúgi að henni og vilji skilja við hana séu órökstuddar og ósannaðar, enda séu þau enn gift. Tilgangur þessa geti ekki verið annar en sá að koma óorði á og sverta ímynd stefnanda án þess að hún hafi til sakar unnið. Slíkar fullyrðingar hafi ekki fréttagildi og eigi ekki erindi til almennings.

Stefnandi byggir á því að með ummælum í staflið i séu stefndu Ólöf Ósk og Erla að vega með svívirðilegum hætti að starfsheiðri stefnanda. Af samhenginu sé ljóst að þarna sé verið að fullyrða að stefnandi nýti stöðu sína sem starfsmaður í grunnskóla til að ginna ungar stúlkur til eiginmanns síns til kynferðislegra samskipta. Til viðbótar sé, af hálfu stefndu Erlu, síðari hluti þessara ummæla tekinn út og settur með stórum rauðum stöfum fyrir ofan texta greinarinnar í þeim tilgangi að vekja athygli á greininni. Slíkar fullyrðingar séu með eindæmum svívirðilegar og ásökun um háttsemi sem sé refsiverð og siðferðislega ámælisverð. Stefnandi geti ekki verið látin sæta slíkum röngum og órökstuddum ásökunum sem viðhafðar séu í þeim eina tilgangi að koma höggi á persónu hennar og vega að starfi hennar og siðferðisvitund. Við því sé búist að höfundar blaðagreina vinni í góðri trú og byggi á traustum staðreyndagrunni. Ljóst sé að slíkar ásakanir geti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir alla þá sem ummælin varða, einkum stefnanda og möguleika hennar á því að sinna starfi sínu. Með þessari háttsemi hafi stefnda Erla sérstaklega lagt sig í líma við að dreifa grafalvarlegum og órökstuddum ásökunum í þeim eina tilgangi að níðast á mannorði stefnanda. Skoðun Ólafar á stefnanda og hæfni hennar til að sinna starfi sínu sé ekki fréttnæm, en hvorug þeirra sé þjóðþekkt persóna né almennt nafntogaður einstaklingur og eigi því ummælin ekkert erindi við almenning.

Í staflið j hafi stefnda Erla eftir stefndu Ólöfu Ósk að stefnandi dreifi ljótum sögum um hana. Séu ummælin ósönn og órökstudd og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda, séu gróf aðdróttun um heiðarleika stefnanda og eigi ekkert erindi til almennings.

Í stafliðum k, l, og m, hefur stefnda Erla eftir stefnda Magnúsi, að stefnandi hafi haft vitneskju um og tekið þátt í kynferðislegri misnotkun eiginmanns hennar á vistmönnum meðferðarstofnunar. Þessi ósmekklegu ummæli eigi sér enga stoð í raunveruleikanum, enda liggi ekkert þeim til staðfestingar. Stefnandi sé þarna ásökuð um refsiverða háttsemi, en gera verði þá kröfu til höfunda greina í jafnvíðlesnu dagblaði og DV, að gerð sé óháð könnun á staðreyndum á ásökunum um kynferðislega misnotkun áður en þeim er dreift til almennings eins og sannleika. Hugarórar stefnda Magnúsar um meinta refsiverða hegðun stefnanda eigi ekkert erindi til almennings, enda tilhæfulausir með öllu.

Ummælin í staflið n hafi stefnda Erla eftir stefnda Magnúsi um skoðanir hans á stefnanda og starfi hennar. Magnúsi sé fullfrjálst að hafa skoðanir á stefnanda og starfi hennar, en í því samhengi sem stefnda Erla setji skoðanir hans fram, sé opinberuð svívirðing á stefnanda og hæfni hennar til að sinna starfi sínu sem auk þess sé byggð á hinum röngu ummælum í stafliðum k, l og m. Slíkt eigi ekkert erindi til almennings.

Refsikröfu sína kveðst stefnandi byggja á því að ummæli stefndu og birting þeirra hafi verið mjög alvarleg árás á friðhelgi einkalífs stefnanda. Þá séu ummælin þess efnis að beinlínis sé verið að bera á stefnanda refsiverða háttsemi, m.a. kynferðisbrot sem teljist til allra alvarlegustu brota. Þegar svo alvarlegar ásakanir séu hafðar uppi sé ekki hjá því komist að krefjast fullrar refsingar samkvæmt ákvæðum 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga.

Miskabótakröfu sína byggi stefnandi á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda beri stefndu ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn stefnanda í skilningi ákvæðisins. Af hálfu stefnanda sé á því byggt að öll þau ummæli sem krafist sé ómerkingar á og refsingar fyrir séu ærumeiðandi með þeim hætti að þau feli í sér móðgun í orðum og með þeim sé dróttað að stefnanda þannig að það verði virðingu hennar til hnekkis. Beri stefndu því fébótaábyrgð vegna tjóns sem þau hafi valdið stefnanda með háttsemi sinni. Stefndu hafi mátt vera ljóst að ummæli þeirra gætu valdið hættu fyrir orðspor, æru, persónu, einkalíf og starfsheiður stefnanda og hefði þeim verið í lófa lagið að kanna frekar sannleiksgildi ummælanna áður en þeim var dreift til almennings. Þrátt fyrir ábendingar frá lögmanni stefnanda, sem stefnda Erla hafi leitað til vegna skrifa sinna, um að ummælin væru röng, hafi hún tekið ákvörðun um að opinbera þau almenningi. Slík vinnubrögð beri vott um einbeittan vilja til að rógbera stefnanda gegn betri vitund.

Athafnir stefndu sem hafi ráðist ítrekað á fjölskyldulíf, kynferðislega friðhelgi og starfsheiður stefnanda, hafi valdið verulegum skaða á tilfinninga- og sálarlífi stefnanda og fjölskyldu hennar, sem hafi orðið fyrir verulegri röskun, óþægindum og ýmiskonar þjáningum. Stefnandi eigi erfitt með að sækja vinnu og verði við ákvörðun miskabóta að líta til þeirra röskunar á umhverfi stefnanda sem stefndu beri ábyrgð á. Aldrei hafi verið gerður reki að því að leita álits stefnanda á þeim rætnu og andstyggilegu staðhæfingum sem opinberaðar hafi verið um hana. Framsetning efnis og ítrekaðar ásakanir um óheilindi og refsiverða háttsemi hafi verið með þeim hætti að almenningi hafi verið gert auðvelt að trúa ósönnuðum fullyrðingum um stefnanda. Líta verði til þess að DV sé í mikilli útbreiðslu um allt land og auk þess á Netinu og hafi fullyrðingar stefndu um stefnanda þannig náð til fjölda fólks, auk þess sem greinin hafi verið forsíðugrein, en DV birti gjarnan forsíðu sína í auglýsingaskyni. Brot gegn stefnanda hafi verið framin í atvinnustarfsemi stefndu Erlu og í því skyni að afla tekna og hvatinn að baki greininni þar sem ummælin birtust aukin hagnaðarvon. Telur stefnandi að miskabætur verði að miðast við þessar staðreyndir.

Varðandi kröfu sína um greiðslu á 800.000 krónum til að kosta birtingu dóms í málinu í þremur dagblöðum, vísar stefnandi til 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefndu verði að bæta stefnanda þann kostnað sem hljótist af réttmætum tilraunum hennar til að draga úr andstyggilegum og röngum fullyrðingum sem hafi verið opinberaðar almenningi.

Stefnandi byggir á því að tjáningarfrelsi stefndu sem byggist á 73. gr. stjórnarskrár, takmarkist af réttindum og mannorði annarra samkvæmt 3. mgr. sömu greinar. Tjáningarfrelsi sé ávallt á ábyrgð þess sem það nýti samkvæmt 2. mgr.; ærumeiðingar, aðdróttanir og rógburður stefndu eigi ekkert skylt við tjáningarfrelsi.

Stefnandi vísar til 234., 235., 236. og 1. og 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og grunnraka þeirra sem búa að baki þeim. Til laga nr. 57/1956 um prentrétt, einkum 2. mgr. 15. gr. og 22. gr. og til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra skaðabótareglna, svo sem sakarreglunnar.

Málsástæður og lagarök stefndu:

Af hálfu stefndu Ólafar Óskar og Magnúsar er byggt á því að því er varðar refsikröfu stefnanda að krafan sé of óskýr til þess að hægt sé að leggja á hana dóm. Þegar refsikrafa sé höfð uppi í ærumeiðingarmáli þurfi að heimfæra hana með nákvæmari hætti undir ákveðið hegningarlagaákvæði. Almenn tilvísun til ærumeiðingarákvæða almennra hegningarlaga sé ekki fullnægjandi. Þegar af þeirri ástæðu beri að vísa refsikröfu stefnanda frá dómi. Verði ekki fallist á frávísunarkröfu sé krafist sýknu með vísan til sömu röksemda.

Stefndu Ólöf Ósk og Magnús byggja sýknukröfur sínar fyrst og fremst á því að ekki sé lagastoð fyrir aðild þeirra að málinu og beri að sýkna þau vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í máli þessu hafi stefnda Erla nafngreint sig sem höfund greinarinnar sem hér er fjallað um og beri hún því ábyrgð á efni hennar samkvæmt prentlögum, sbr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.

Í öðru lagi byggja stefndu Ólöf Ósk og Magnús sýknukröfur sínar á því að stefnda Erla hafi ekki haft rétt eftir þeim ummæli, frásagnir og lýsingar sem fram koma í greininni og stefnandi krefst að verði dæmd dauð og ómerk. Stefndu hafi ekki viðhaft ummælin sem krafist sé verið að dæmd verði dauð og ómerk og geti því ekki borið refsi- eða fébótaábyrgð á þeim eins og þau birtust í umræddri grein í DV. Að því er varðar stefnda Magnús sérstaklega, þá hafi ekki komið fram í samtali hans og stefndu Erlu að samtalið væri hljóðritað, hvað þá heldur að það yrði grundvöllur að opnuumfjöllun og forsíðufrétt í DV þar sem stefndi yrði nafngreindur sem heimildarmaður.

Í þriðja lagi byggja stefndu Ólöf Ósk og Magnús sýknukröfur á því að ummælin feli ekki í sér ærumeiðingu eða brot gegn friðhelgi einkalífsins í skilningi 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Túlka beri framangreind ákvæði almennra hegningarlaga með hliðsjón af  ákvæði stjórnarskrár um tjáningarfrelsi og mannréttindasáttmála Evrópu. Í því felist að sérhver maður eigi rétt á tjáningarfrelsi sem feli í sér frelsi til að hafa skoðanir  og lýsa reynslu sinni af mönnum og málefnum á opinberum vettvangi. Stefndu byggi á því að umrædd ummæli hafi byggst á reynslu þeirra og upplifun og feli hvorki í sér refsiverða móðgun né aðdróttun gagnvart stefnanda, né hafi þau verið látin falla gegn betri vitund. Um hafi verið að ræða lýsingu stefndu Ólafar Óskar á staðreyndum og upplifun á þeim raunveruleika sem hún hafi þurft að búa við sem skjólstæðingur eiginmanns stefnanda á meðferðar­stofnun og lýsingu stefnda Magnúsar á staðreyndum sem hann taldi vera fyrir hendi á þeim tíma og upplifun hans á þeim raunveruleika sem hann varð vitni að þegar hann starfaði með eiginmanni stefnanda á meðferðarstofnun. Því beri að telja að ummælin séu ekki óviðurkvæmileg eða sönn og beri að sýkna stefndu þar sem þau hafi ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis.

Hvað varðar miskabótakröfu stefnanda, byggja stefndu Ólöf Ósk og Magnús sýknu­kröfu sína á sömu sjónarmiðum og fram koma að framan varðandi ómerkingu ummæla, stefndu beri ekki ábyrgð á ummælunum og ekki séu til staðar skilyrði b- liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til greiðslu miskabóta. Þá sé meintur miski stefnanda ósannaður. Ef ekki verði fallist á sýknu krefjast stefndu þess að miskabótakrafa verði lækkuð verulega.

Stefndu Ólöf Ósk og Magnús byggja kröfu sína um sýknu af kröfu um greiðslu kostnaðar vegna birtingar dóms í málinu í fjölmiðlum á því að stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á kostnað, fjölmiðlar á Íslandi sýni dómum í meiðyrðamálum yfirleitt það mikinn áhuga að ekki sé þörf á að vekja sérstaka athygli þeirra á niðurstöðum slíkra mála með auglýsingum. Þá sé til þess að líta að þegar dæmdur hafi verið kostnaður hjá dómstólum, hafi þær fjárhæðir í fæstum tilvikum verið nýttar til þess að kosta birtingu dómsforsendna í fjölmiðlum. Verði ekki fallist á sýknukröfu, krefjast stefndu þess að greiðsla vegna þessa kostnaðar verði lækkuð verulega.

Þá mótmæla stefndu vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda sérstaklega og krefjast þess að ef til kemur verði vextir dæmdir frá dómsuppsögu.

Stefnda Erla Hlynsdóttir byggir sýknukröfu sína á því að hvorki beri hún ábyrgð á hinum umstefndu ummælum á grundvelli laga um prentrétt, nr. 57/1956, né hafi hún gerst brotleg við 234., 235. eða 256. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, hvorki með beinum eða óbeinum hætti. Löggjafinn hafi ásamt dómstólum játað fjölmiðlum verulegt svigrúm til almennrar umfjöllunar um menn og málefni, enda sé tjáningarfrelsi í landinu varið af stjórnarskrá, sbr. 73. gr. laga nr. 33/1944, sbr. 11. gr. laga nr. 97/1995.

Viðtal það sem er grundvöllur þessa máls hafi verið hluti af almennri umfjöllun, sem farið hafi fram í flestum íslenskum fjölmiðlum, um málefni meðferðarstofnunarinnar Byrgisins. Orð viðmælenda hafi í viðtalinu verið tekin upp og endursögð og séu viðtöl sem þessi í engu frábrugðin því þegar viðtal sé tekið upp á myndavél og sýnt í sjónvarpi eða ummælum sem sögð séu í útvarp, miðillinn sé einungis annar. Stefnda Erla hafi ekkert lagt efnislega sjálfstætt til ummælanna sem stefnt er vegna og séu öll ummæli í viðtalinu sem hafi verið innan gæsalappa komin beint frá meðstefndu og birt óbrengluð og geti hún ekki borið ábyrgð á þeim.

Að því er varðar dómkröfu nr. 1, um ómerkingu nánar tilgreindra ummæla í stafliðum a til j, byggir stefnda Erla sýknukröfu sína á því að hún sé ekki höfundur ummælanna og beri ekki ábyrgð á þeim á grundvelli 15. gr. laga nr. 57/1956. Ómögulegt sé að líta á blaðamann, sem semur blaðagrein og nafngreinir sig, sem höfund ummæla sem séu réttilega höfð eftir nafngreindum viðmælendum. Í nefndri lagagrein felist hlutlæg ábyrgðarregla, ekki sé skýrt hver eigi að teljast höfundur samkvæmt greininni, en í ljósi kröfu um skýrleika sem verði að gera til hlutlægra ábyrgðarreglna sé útilokað að fella ábyrgð á ummælum nafngreindra viðmælenda á stefndu sem blaðamann. Um skilgreiningu á því hver skuli teljast höfundur sé einnig til 8. gr. höfundarlaga nr. 73/1972 að líta. Telur stefnda að með hliðsjón af þessum lagaákvæðum sé ljóst að blaðamaður skuli teljast höfundur ummæla ef enginn annar er lýstur höfundur að þeim. Því er mótmælt að nafngreining stefndu Erlu feli það sjálfkrafa í sér að hún teljist höfundur. Að mati stefndu skuli sá sem raunverulega leggur til efnið í formi ummæla, bera refsi- og bótaábyrgð á grundvelli 15. gr. laga nr. 57/1956, enda sé hann hinn eiginlegi höfundur ummælanna.

Stefnda Erla mótmælir því sérstaklega að með því að hafa ummælin eftir stefndu Ólöfu Ósk hafi þær báðar haft uppi ásakanir  á hendur stefnanda, með vísan til þess að ummælin séu höfð eftir stefndu Ólöfu Ósk og engu af því sem felst í ummælunum sem stefnt sé út af, sé haldið fram af stefndu Erlu. Ákvæði prentlaga geti með engu móti breytt því hver teljist höfundur ummæla ef fyrir liggi hver hafi látið hin umstefndu ummæli falla. Í málinu sé viðurkennt af hálfu stefnanda að hin umstefndu ummæli séu frá stefndu Ólöfu Ósk og eigi hún því að bera ábyrgð á þeim.

Varðandi dómkröfu nr. 2 um tilgreind ummæli í stafliðum k til n, krefst stefnda Erla sýknu með vísan til allra sömu málsástæðna sem fram koma varðandi dómkröfu nr. 1 í kaflanum hér á undan.

Í dómkröfu nr. 3 er þess krafist að stefnda Erla verði dæmd til refsingar vegna ummælanna í stafliðum a til n, á grundvelli 236. gr., sbr. 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Stefnda vísar varðandi sýknukröfu sína að þessu leyti, til sömu málsástæðna sem taldar voru hér á undan varðandi dómkröfur nr. 1 og 2. Hún geti með engu móti talist höfundur ummælanna eða borið ábyrgð á þeim og því útilokað að gera henni refsingu vegna þeirra. Þá geti hún sem blaðamaður aldrei borið ábyrgð á útbreiðslu ummælanna, slíkri refsikröfu verði að beina að útgefanda eða ritstjóra. Verði ekki fallist á sýknukröfu á þessum forsendum, krefst stefnda þess að hún verði sýknuð á grundvelli refsileysis sannaðra ummæla. Þar sem allt sem fram hafi komið í umræddri blaðagrein sé satt og rétt verði stefndu ekki gerð refsing vegna þeirra. Í þriðja lagi krefst stefnda Erla sýknu á þeim grundvelli að því hafi ekki verið slegið föstu að meintar ærumeiðandi aðdróttanir hafi verið viðhafðar eða birtar gegn betri vitund stefndu. Refsing á grundvelli 236. gr. almennra hegningarlaga hljóti að þurfa að byggjast á ásetningi, sem ekki hafi verið, stefnda hafi talið og telji enn að öll ummælin hafi verið og séu sönn og rétt, enda hafi komið fram að stefnandi í máli þessu hafi haft réttarstöðu sakbornings við opinbera rannsókn á kynferðisbrotamáli. Það hvíli á stefnanda að sanna að stefnda hafi brotið gegn ákvæðum almennra hegningarlaga af ásetningi, sem stefnandi hafi ekki sannað eða gert líklegt og verði því að sýkna stefndu. Þá telur stefnda ekki koma til greina að gera refsingu með vísan til 234. gr. almennra hegningarlaga, þar sem það ákvæði eigi ekki við þegar krafist sé refsingar á grundvelli 236. gr. laganna.

Sýknukröfu sína að því er varðar miskabótakröfu stefnanda á grundvelli b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, byggir stefnda Erla á því að þar sem hún sé ekki höfundur ummælanna í dómkröfum 1 og 2, geti hún ekki borið á þeim bótaábyrgð. Í tilvitnuðu ákvæði sé gert ráð fyrir að um ólögmæta meingerð gegn friði, frelsi, æru eða persónu manns sé að ræða og geti það þannig ekki átt við þátt stefndu í málinu.

Verði stefnda þrátt fyrir þetta talin ber ábyrgð á einhverjum þeim ummælum sem um ræðir, byggir hún sýknukröfu sína á því að með ummælunum hafi hún ekki farið út fyrir stjórnarskrárbundinn rétt til tjáningarfrelsis og vísar til 73. gr. stjórnarskrár Íslands.

Varakröfu um verulega lækkun miskabóta frá því sem krafist er byggir stefnda Erla á því að kröfufjárhæðin sé ekki í neinu samræmi við dómvenju, tilefni hafi verið til umfjöllunarinnar og hún átt erindi til almennings.

Varakröfu um verulega lækkun á fjárhæð dómkröfu nr. 6, ef ekki verði fallist á sýknukröfu, byggir stefnda Erla á því að krafan sé alltof há miðað við þann kostnað sem fylgja myndi birtingu dómsins.

Niðurstaða:

Í dómkröfu nr. 1 er krafist ómerkingar 10 aðskilinna ummæla sem stefnda Erla hafi birt um stefnanda og haft eftir stefndu Ólöfu Ósk og eru þau talin í stafliðum a til j.

Að því er varðar ummæli í stafliðum a, b og d, þar sem haft er eftir stefndu Ólöfu Ósk að stefnandi hafi tekið þátt í kynlífsathöfnum með henni og eiginmanni stefnanda, er til þess að líta að í dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli ákæruvaldsins gegn eiginmanni stefnanda, Guðmundi Jónssyni, er að finna skýrar lýsingar stefndu og fleiri aðila á því að stefnandi hafi tekið þátt í slíkum athöfnum ásamt eiginmanni sínum og skjólstæðingum hans. Þetta fær einnig stoð í vitnisburði þriggja vitna sem komu fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og staðfestu lögregluskýrslur sem teknar voru af þeim við rannsókn og/eða framburði fyrir dómi í tengslum við sakamálið sem er til umfjöllunar í ofangreindum dómi Héraðsdóms Suðurlands. Þó að ofangreindur dómur þar sem eiginmaður stefnanda var sakfelldur, hafi verið kveðinn upp eftir að viðtalið birtist í DV í ágúst 2007, er til þess að líta að rannsókn málsins var í gangi á þessum tíma og fram hefur komið að stefnandi hafði á þessum tíma stöðu sakbornings í málinu. Ekki verður því litið svo á að stefndu hafi brotið gegn tilvitnuðum ákvæðum almennra hegningarlaga með því að viðhafa og birta ummælin í stafliðum a, b og d.

Varðandi staflið c, þá kemur þar fram auk þess sama og í stafliðum a og b, að stefnandi hafi orðið afbrýðisöm og maður hennar þá ekki lengur viljað hafa hana með í kynlífsleikjum hans og stefndu Ólafar Óskar lengur.

Í stafliðum e og f er gefið í skyn að stefnandi hafi sýnt áhuga á að hitta stefndu Ólöfu Ósk eina og hafa kynferðisleg samskipti við hana í einrúmi. Ekki verður litið svo á að þessi ummæli, í framhaldi af því sem áður greindi um samskipti aðila, feli í sér slíka móðgun eða aðdróttun í garð stefnanda að fella megi undir 234. eða 235. gr. laga nr. 19/1940.

Ummælin í stafliðum g og h eru um að eiginmaður stefnanda hefði logið hana fulla og sagt að hann væri að skilja við hana. Þrátt fyrir að stefnandi og eiginmaður hennar séu ennþá gift og hafi ekki skilið, eins og fram kom í skýrslutöku af stefnanda við aðal­meðferð málsins, verður ekki séð að þessi ummæli feli í sér aðdróttun eða móðgun í garð stefnanda þannig að eigi undir 234. eða 235. gr. laga nr. 19/1940. Sama verður talið eiga við um ummæli í staflið j.

Þá standa eftir ummælin í staflið i: . „...þessi manneskja er kolrugluð. Ég get ekki séð að hún hafi nokkuð að bjóða sem stuðningsfulltrúi eða í hjálparstarfi yfirhöfuð. Ég veit ekki hvað hún er að gera í þessum skóla... ... ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni í grunnskóla.“

Þessi ummæli eru nokkuð annars eðlis en hin, að því leyti að þarna er fjallað um atriði sem ekki er að finna sambærilega umfjöllun um í dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. S-15/2008. Þó að stefnandi hafi um tíma haft stöðu sakbornings í rannsókn þess máls, var hún ekki ákærð og þó að skilja megi af lestri dóms í því máli að stefnandi hafi tekið þátt í kynlífi með eiginmanni sínum og fleiri aðilum, verður ekki séð að það leiði af sjálfu sér að það feli í sér að hún sé kolrugluð eða hafi nauðsynlega áhrif á starfshæfni hennar. Þá er ljóst að ekki hefur verið sýnt fram á að hún hafi „veitt“ fyrir eiginmann sinn, en í því orðalagi er óneitanlega að finna aðdróttun um að stefnandi hafi tekið þátt í ólöglegum athöfnum, refsiverðu athæfi, að minnsta kosti að mati viðmælandans í viðtalinu eins og orð hans eru þar fram sett. Verður því að samþykkja kröfu stefnanda um ómerkingu ummæla í staflið i.

Í dómkröfu 2 er krafist ómerkingar ummæla  í stafliðum k til n, sem stefndu Magnús og Erla hafi viðhaft og birt um stefnanda.

Að því er varðar ummælin í stafliðum k, l og m, er vísað til þess sem segir hér á undan í umfjöllun um stafliði a, b og d. og verður því ekki orðið við kröfu um ómerkingu þeirra.

Að því er varðar ummælin í staflið n, má segja að um þau eigi við að nokkru leyti það sama og að ofan greinir í umfjöllun um staflið i, en hins vegar er til þess að líta hér að stefndi Magnús er hér einungis að lýsa skoðun sinni og ekki er að finna í þessum ummælum aðdróttun um refsivert athæfi, eins og áður hefur komið fram varðandi staflið i. Verður því ekki talið að hér hafi verið gengið það  langt með tjáningarfrelsi að eigi undir áðurnefnd ákvæði í XXV. kafla laga nr. 19/1940 og er því heldur ekki unnt að verða við kröfu stefnanda um ómerkingu þessara ummæla.

Að því er varðar kröfu stefnanda um refsingu stefndu samkvæmt ákvæðum 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verður í ljósi ofangreindrar niðurstöðu að sýkna stefnda Magnús af refsikröfu, en auk þess þykir rétt að sýkna aðra stefndu af refsikröfu, meðal annars með vísan til þess að reifun stefnanda á refsi­kröfunni er mjög almenns eðlis; einstök ummæli eru ekki tengd við tiltekin ákvæði laganna og ekki er fjallað um þátt hvers og eins hinna stefndu og hvernig þau og meint ummæli þeirra tengist einstökum ákvæðum.

Stefnandi krefst miskabóta úr hendi stefndu á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í ljósi þess að engin þeirra ummæla sem krafist var ómerkingar á og rakin eru til stefnda Magnúsar, verða dæmd dauð og ómerk, verður að sýkna hann af þessum kröfum stefnanda einnig. Hins vegar verður ekki hjá því komist að skoða hvaða rétt stefnandi á til miskabóta úr hendi stefndu Ólafar Óskar og Erlu, vegna ummæla í staflið i, en eins og að framan er rakið verða þau dæmd dauð og ómerk. Líta verður svo á að stefnda Erla beri sem blaðamaður og nafngreindur höfundur greinar þeirrar, sem hin umstefndu ummæli birtust í, ábyrgð á ummælunum. Þau ummæli sem birtust í staflið i, birtust innan gæsalappa í greininni og eru þar sögð höfð eftir stefndu Ólöfu Ósk. Við skýrslutöku af stefndu Erlu við aðalmeðferð málsins kom fram að hún hefði hljóðritað samtal sitt við stefndu Ólöfu Ósk og haft beint eftir henni, en hins vegar hefði hún ekki geymt hljóðritaða samtalið. Stefnda Ólöf Ósk kannaðist aðspurð í aðalmeðferð við að hafa átt samtal við stefndu Erlu og vitað að hún væri blaðamaður og væri að undirbúa grein um Byrgismálið, en hún neitaði því hins vegar fyrir dómi að hafa sagt orðrétt það sem eftir henni var haft, þar á meðal þau ummæli sem rakin eru í staflið i. Ekki verður talið nægilega sannað, gegn neitun stefndu Ólafar Óskar, að hún hafi viðhaft ummælin orðrétt, þannig að dæma megi hana til greiðslu miskabóta vegna þeirra. Er það því niðurstaða málsins varðandi miskabótakröfu stefnanda, að stefnda Erla verður ein dæmd til að greiða stefnanda miskabætur. Með hliðsjón af því að lítið hefur komið fram um raunverulegt tjón stefnanda vegna ummælanna, en sú hætta fyrir orðspor, æru og starfsheiður stefnanda sem ummælin geta hafa haft í för með sér getur varla hafa verið veruleg, umfram það sem hlýtur að hafa verið afleiðing af áðurnefndu dómsmáli og þeim atburðum sem þar er fjallað um, þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 100.000 krónur, með dráttar­vöxtum eins og segir í dómsorði.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd til að greiða henni 800.000 krónur til að kosta birtingu dóms í málinu í dagblöðum. Engin gögn eru lögð fram til stuðnings kröfunni og hafa stefndu mótmælt fjárhæð hennar sem of hárri, auk þess sem þau krefjast aðallega sýknu af henni. Með hliðsjón af því að einungis lítill hluti þeirra ummæla sem krafist er ómerkingar á verða nú dæmd dauð og ómerk og í ljósi þess að dómar héraðsdóms eru birtir opinberlega, þykir ekki ástæða til að verða við þessari kröfu stefnanda. Verða stefndu því sýknuð af henni.

Eins og atvikum máls þessa er háttað og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þykir rétt að málskostnaður falli niður á milli stefnanda Helgu Haraldsdóttur og stefndu Erlu Hlynsdóttur, en stefnandi greiði stefndu Ólöfu Ósk og Magnúsi helming málskostnaðar þeirra. Stefndu Ólöf Ósk og Magnús fengu gjafsóknarleyfi vegna málsins 2. júlí 2008 og greiðist því kostnaður þeirra af málinu úr ríkissjóði og telst hann hæfilega ákveðinn 600.000, vegna hvors þeirra um sig og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Við ákvörðun máls­kostnaðar­fjárhæðar er meðal annars tekið mið af því að vörn stefndu Magnúsar og Ólafar Óskar var til að byrja með sameiginleg og einnig er haft í huga að af hálfu stefndu var í málinu höfð uppi frávísunarkrafa, sem var hafnað.

Dóminn kveður upp Anna M. Karlsdóttir, settur héraðsdómari.

Dómsorð:

Eftirfarandi ummæli, sem birtust í 134. tölublaði DV árið 2007, eru dæmd dauð og ómerk: „ ...þessi manneskja er kolrugluð. Ég get ekki séð að hún hafi nokkuð að bjóða sem stuðningsfulltrúi eða í hjálparstarfi yfirhöfuð. Ég veit ekki hvað hún er að gera í þessum skóla ... ... ekki við hæfi að sú sem veiðir fyrir hann vinni í grunnskóla.“

Stefndu, Ólöf Ósk Erlendsdóttir, Magnús Einarsson og Erla Hlynsdóttir, eru sýknuð af refsikröfu stefnanda.

Stefndu Ólöf Ósk Erlendsdóttir og Magnús Einarsson eru sýknuð af miskabótakröfu stefnanda.

Stefnda Erla Hlynsdóttir, greiði stefnanda, Helgu Haraldsdóttur 100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 31. ágúst 2007 til 28. mars 2008, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

Stefndu eru öll sýknuð af kröfu um greiðslu fjárhæðar til að kosta birtingu dóms.

Stefnandi, Helga Haraldsdóttir, greiði stefndu Ólöfu Ósk Erlendsdóttur og Magnúsi Einarssyni, 300.000 krónur hvoru um sig í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskatt, sem rennur í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður stefndu Ólafar Óskar og Magnúsar, 600.000 krónur til hvors um sig, þ.m.t. virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði. Máls­kostnaður milli stefnanda og stefndu Erlu Hlynsdóttur fellur niður.