Print

Mál nr. 124/2015

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Skaðabætur
  • Skilorð

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 4. júní 2015.

Nr. 124/2015.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Adrian Gomez Jimenez

(Kristján Stefánsson hrl.)

(Þyrí Steingrímsdóttir hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Skaðabætur. Skilorð.

A var ákærður fyrir kynferðisbrot, annars vegar samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa fróað sér fyrir framan andlit B, þar sem hún lá í rúmi, og fá sáðfall yfir öxl hennar, hár og kodda sem hún lá á og hins vegar samkvæmt 199. gr. sömu laga með því að hafa skömmu síðar áreitt B kynferðislega, þar sem hún lá á fjórum fótum á gólfi svefnherbergisins og kastaði upp, með því að losa um brjóstahaldara hennar, þukla á brjóstum hennar og strjúka kynfæri hennar innanklæða. Með hliðsjón af framburði B og annarra vitna sem og gögnum málsins, meðal annars niðurstöðu DNA rannsóknar, var A sakfelldur fyrir fyrrgreint brot samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga. Á hinn bóginn var ekki talið að framburður B, að því er laut að seinni ákæruliðnum, hefði þá stoð í öðrum gögnum málsins að hann nægði til þess, gegn eindreginni neitun A, að ákæruvaldið hefði axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíldi samkvæmt 108. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var A því sýknaður af sakargiftum samkvæmt 199. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að brot A hefði verið ófyrirleitið og til þess fallið að niðurlægja B gróflega. Að því virtu var refsing A ákveðin fangelsi í níu mánuði en fullnustu sex mánaða hennar var frestað skilorðsbundið í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. janúar 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að fjárhæð hennar verði lækkuð.

B krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. apríl 2014 til 17. ágúst sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hún þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.

I

Með ákæru ríkissaksóknara 29. ágúst 2014 var ákærða gefið að sök kynferðisbrot samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 gegn B, hér á eftir nefnd brotaþoli, aðfaranótt 17. apríl sama ár, í svefnherbergi ákærða að [...] í [...], með því að fróa sér fyrir framan andlit hennar, þar sem hún lá í rúmi, og fá sáðfall yfir öxl hennar, hár og kodda sem hún lá á.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu 29. apríl 2014 skýrði ákærði svo frá að hann hafi haft samfarir við þáverandi vinkonu sína, C, aðfaranótt 17. apríl 2014 í svefnherbergi sínu að [...] í [...], en honum ekki orðið sáðlát. Í yfirheyrslu hjá lögreglu 17. júlí sama ár kvaðst hann ekki muna eftir hvort honum hafi orðið sáðlát við samfarirnar. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa haft mök við C, en ekki muna hvort honum hafi orðið sáðlát þó hann héldi að svo hafi verið „af því að ég fór svo að þrífa mig á klósettinu á eftir.“ Um þetta leyti hafi C verið farin að taka „pilluna“ og þau hætt að nota smokka við samfarir. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 30. apríl 2014 kvað C að þau hafi ekki haft samfarir umrædda nótt. Í yfirheyrslu hjá lögreglu 20. júlí sama ár kvaðst hún vilja breyta þeim framburði sínum og kvaðst þá ekki muna eftir hvort þau hafi haft samfarir um nóttina, en taldi líklegt að svo hefði verið af því að þau hafi bæði verið nakin og „allt á leiðinni þangað.“ Fyrir dómi kvað hún þau hafa haft samfarir undir sæng, en það hafi verið „alveg rosalega stutt“ þar sem brotaþoli hafi farið að toga í sængina. Þá kvað hún þau hafa notað smokka við samfarir á þessum tíma, þar sem þau hafi þá ekki verið búin að „hittast neitt rosalega lengi“.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið bar ákærði við fyrri yfirheyrslu hjá lögreglu að honum hafi ekki orðið sáðlát við samfarir sem hann kvaðst hafa átt við C umrædda nótt og fyrir dómi kvaðst hann ekki muna hvort svo hafi verið. Þá kvað hann að smokkur hafi ekki ekki verið notaður við samfarirnar, öndvert við framburð C þar um fyrir dómi. Jafnframt verður ráðið af framburði C, sem þó hefur verið á reiki um hvort þau hafi haft samfarir, að ákærða hafi ekki orðið sáðlát við þær, þar sem þær hafi staðið yfir í mjög stuttan tíma.

Framburður brotaþola hefur á hinn bóginn verið stöðugur um að ákærði hafi fróað sér fyrir framan andlit hennar, þar sem hún lá í rúmi í svefnherberginu, og fengið sáðlát yfir öxl hennar og hár. Framburður hennar um hið fyrrnefnda fær haldgóða stoð í niðurstöðu DNA rannsóknar, en samkvæmt henni greindist sæði úr ákærða í hárlokki úr brotaþola, sem hún lét lögreglu í té, og brjóstahaldara sem hún var í fyrrnefnda nótt. Þá er á það að líta að brotaþoli greindi kærasta sínum frá atburðum næturinnar strax eftir að hann sótti hana að morgni 17. apríl 2014 og var framburður hans fyrir dómi þar um að öllu leyti í samræmi við frásögn hennar um framangreint. Einnig skýrði hann frá því að þegar hann sótti brotaþola hafi hún verið skjálfandi og strax byrjað að gráta. Að lokum ber ákærða, brotaþola og C saman um að hin síðastnefnda hafi komist í mikið uppnám við að koma að ákærða kviknöktum fyrir framan brotaþola, þar sem hún lá uppi í rúmi í svefnherberginu. Að öllu framansögðu gættu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða samkvæmt ákæru fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga.

II

Þá er ákærða gefið að sök að hafa skömmu síðar sömu nótt áreitt brotaþola kynferðislega, þar sem hún lá á fjórum fótum á gólfi svefnherbergisins og kastaði upp, með því að losa um brjóstahaldara hennar, þukla á brjóstum hennar og strjúka kynfæri hennar innanklæða.

Eftir að héraðsdómur hafði komist að þeirri niðurstöðu að sakfella bæri ákærða fyrir áðurnefnt brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga segir svo í niðurstöðukafla dómsins: „Að öllu þessu virtu, og öðrum gögnum málsins, er sannað með trúverðugum vitnisburði B, sem fær stoð í vitnisburði sem rakin var að ofan og í öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi framið háttsemina sem í ákæru greinir. Eru brot hans rétt færð til refsiákvæða.“ Enda þótt hinn áfrýjaði dómur sé ekki svo skýr sem skyldi um sakfellingu ákærða fyrir brot samkvæmt ákæru gegn 199. gr. almennra hegningarlaga, sbr. f. lið 2. mgr. 183. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður að telja ljóst af fyrrgreindu orðalagi í niðurstöðukafla dómsins að ákærði var sakfelldur fyrir bæði þau brot sem honum eru gefin að sök í ákæru. 

Andspænis framburði brotaþola, sem metinn var trúverðugur í héraðsdómi, stendur afdráttarlaus neitun ákærða. Í hinum áfrýjaða dómi var framburður hans um ætlað brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga ekki metinn ótrúverðugur. Að því gættu verður að telja að framburður brotaþola hafi ekki þá stoð í öðrum gögnum málsins að hann nægi til þess, gegn eindreginni neitun ákærða, að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvílir samkvæmt 108. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr., laga nr. 88/2008. Verður ákærði því sýknaður af sakargiftum samkvæmt ákæru um kynferðislega áreitni gagnvart brotaþola.

Brot það, sem ákærði er sakfelldur fyrir í máli þessu, var ófyrirleitið og til þess fallið að niðurlægja brotaþola gróflega. Að því virtu verður staðfest refsing sú, sem ákærða var gerð í héraðsdómi, svo og skilorðsbinding hennar að hluta.

Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu B og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðast að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Adrian Gomez Jimenez, greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem í heild er 880.695 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Þyríar Steingrímsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2014.

                Málið er höfðað með ákæru  ríkissaksóknara, dagsettri 29. ágúst 2014, á hendur:

                ,,Adrian Gomez Jimenez, kennitala [...],

[...], [...]

fyrir kynferðisbrot gegn B aðfaranótt fimmtudagsins 17. apríl 2014, í svefnherbergi ákærða að [...], með því að særa blygðunarsemi hennar og áreita hana kynferðislega, en ákærði stóð og fróaði sér fyrir framan andlit hennar þar sem hún lá í rúmi og fékk sáðfall yfir öxl hennar og hár sem og kodda sem hún lá á. Ákærði káfaði skömmu síðar á B, þar sem hún lá á fjórum fótum á gólfi svefnherbergisins og kastaði upp, en ákærði stóð fyrir aftan hana, losaði brjóstahaldara hennar, þuklaði á brjóstum á hennar og strauk kynfæri hennar innanklæða.

Telst háttsemi ákærða varða við 209. og 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

B, kt. [...], gerir þá kröfu að ákærða verði gert að greiða skaða- og miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000. Krafist er vaxta af ofangreindri fjárhæð skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 17. apríl 2014, þar til mánuður er liðinn frá því að sakborningi var kynnt bótakrafa þessi, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 9. gr. sömu laga.

Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu og frávísun bótakröfu. Til vara er krafsist vægustu refsingar sem lög leyfa og sýknu af bótakröfu en til vara lækkunar. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóð að mati dómsins.

                Hinn 29. apríl 2014 lagði B fram kæru á hendur ákærða vegna háttseminnar sem í ákæru greinir. Við skýrslutöku af henni afhenti hún fatnað sem hún klæddist greint sinn og hárlokk úr sér sem hún kvað hafa að geyma sæði úr ákærða frá sama tíma. Vikið verður að rannsókn þessa síðar.

Teknar voru skýrslur af ákærða hjá lögreglunni 29. apríl, 22. maí og 17. júní 2014 og neitar hann ásökunum B.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi

Ákærði neitar sök. Hann kvað þau B og C, vinkonu sína, hafa farið á nokkra bari að kvöldi 16. apríl sl. Eftir það hefðu þau tekið leigubíl saman og haldið á heimili ákærða að [...]. Þar hafi þau haldið áfram drykkju auk þess sem þau hafi reykt maríjúana. Einni eða tveimur klukkustundum eftir komu á heimili ákærða hefðu B og C tekið að kyssast og fækka fötum en ákærði hefði á sama tíma leikið tónlist. Síðar um nóttina höfðu þau C samfarir en þá hefði B, sem áður var í símanum, komið að þeim C og sagt að ef þau ætluðu að hafa mök vildi hún horfa á og tók B þá sængina af þeim C. Ákærði kvaðst hafa fengið sáðlát er sængin var tekin af þeim C og þá lokið samförunum, vafið handklæði um mitti sér og farið á snyrtinguna. Hann kvað mögulegt að sæði hefði farið í sængina á þessum tíma. Síðar í skýrslutökunni kvaðst ákærði ekki viss um það hvort hann fékk sáðlát en hann taldi svo vera. Öll þrjú hefðu verið í herberginu allan tímann utan þá stund sem ákærði og C fóru á snyrtinguna. Er hann kom þaðan aftur inn í íbúð sína hefðu þau B verið þar tvö í eina mínútu uns C kom aftur þangað. Þegar hann kom af snyrtingunni hefði C verið þar fyrir framan. Þau hefðu rætt saman stutta stund og hún farið á snyrtinguna á eftir ákærða sem fór upp í íbúðina. Er hann kom þangað var B á fjórum fótum á gólfinu að kasta upp í ruslafötu. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hafði handklæðið vafið um mitti sér er hann aðstoðaði B en hann spurði hana hvernig henni liði en hún hefði ekki getað svarað ákærða. Ekki væri útlokað að hann hefði verið nakinn er hann aðstoðaði B. Í sömu andrá kom C af snyrtingunni og hefðu þau saman komið B fyrir í rúmi og C breytt yfir hana teppi sem var í rúminu sem þau C höfðu verið í auk þess sem C setti kodda undir höfuð B en koddinn kom einnig úr rúmi þeirra C. B sofnaði eftir þetta. Ákærði kvaðst ekki hafa snert B nema er hann tók um hönd hennar til að hjálpa henni. Þau C hefðu rætt saman stutta stund frammi á gangi þar sem þau ræddu um ýmislegt en C hefði verið í nokkru uppnámi við að sjá vinkonu sína kasta upp á gólfinu. Þau C gengu síðan bæði til náða. Er hann vaknaði daginn eftir voru B og C að tala saman. Þær fóru  síðan niður svo ákærði gæti haldið áfram að sofa. Hann fór svo niður og kvaddi þær. C fór eftir það að vinna og hann sá B ekki eftir þetta. Nokkrum dögum síðar kvaðst hann hafa frétt af ásökunum B gegnum unnusta hennar sem greindi C og ákærða frá þeim. Ákærði kvað þau B, unnusta hennar og C hafa hist á [...] en C hefði borið sér þau skilaboð B að hún væri ákærða mjög reið. Þau hefðu rætt ásakanirnar sem í ákæru greinir en þær B og C hefðu að mestu leyti rætt saman á íslensku og hann því ekki skilið það sem fram fór.

Fyrir liggur að sæði úr ákærða fannst í hárlokk sem B afhenti lögreglu og einnig í brjóstahaldara sem hún klæddist þetta kvöld og afhenti lögreglu. Aðspurður kvaðst ákærði ekki geta skýrt þetta. Hann hefði ekki aðra skýringu en þá að sængin og koddinn, sem verið höfðu í rúminu þar sem þau C höfðu samfarir og einnig að munir í ruslafötunni, sem ákærði hefði notað til að þrífa sig, gætu skýrt þetta. Þá hefðu föt þeirra þriggja legið á gólfinu og B hafi aðeins verið í nærbuxum. Aðrar skýringar hefði hann ekki á sæðinu sem fannst í hárlokk B og brjóstahaldara. Nánar spurður kvaðst ákærði eiga við það að mögulega hefði sæði úr sænginni smitast á þennan hátt en ákærði hefði ekki notað smokk við samfarir þeirra C. Hann kvaðst telja þetta mögulega skýringu þrátt fyrir að B hefði tekið sængina af þeim C áður en samförunum lauk.

                Vitnið B kvað þær C, vinkonu sína, hafa farið í bæinn að skemmta sér á þessum tíma ásamt ákærða, unnusta C. Áður en hún fór lét hún unnusta sinn vita að hún fengi gistingu hjá ákærða og C. Hún lýsti ferð þeirra á ýmsa skemmtistaði í miðbænum og áfengisneyslu. Að því kom að öll þrjú voru orðin mjög ölvuð og fóru þau þá saman í leigubíl heim til ákærða að [...]. Eftir komu þangað dönsuðu þau og skemmtu sér og héldu áfram drykkju. Hún kvað ekkert hafa átt sér stað þar sem gæti skýrt það sem síðar gerðist. Eftir stutta stund hringdi hún í vin sinn og eftir það fór hún að sofa. Áður klæddi hún sig úr öllum fötum utan nærbuxum og brjóstahaldara. Hún kvaðst ekki hafa vitað að ákærði og C hefðu haft mök í herberginu er hún dvaldi þar. Stuttu síðar vaknaði hún og stóð ákærði þá nakinn yfir henni og fróaði sér eins og lýst sé í ákærunni. Hann fékk sáðlát yfir hana og fann hún sæði úr honum bæði í andliti og á öxl. Er þetta átti sér stað var C á snyrtingunni sem var á neðri hæð hússins. Er C kom til baka sá hún það sem gerðist en ákærði hafði þá nýlega fengið sáðlát. C hefði vitað hvað gerðist og brast hún í grát og hljóp fram aftur og ákærði á eftir henni. Á þessari stundu kvaðst B hafa kastað upp. Hún fór fram úr rúminu og kastaði upp en á meðan hefðu ákærði og C verið frammi og hún verið ein í herberginu. Er þau komu aftur inn skreið hún aftur upp í rúmið og C breiddi teppi yfir hana en teppið hafði áður verið til fóta í rúmi C og ákærða. Skömmu síðar fann hún að hún þurfti enn að kasta upp. Hún fór þá aftur á gólfið í því skyni að kasta upp í fötu sem þar var. Þá hefði ákærði komið aftan að henni og sagst vera að hjálpa henni en á meðan losaði hann brjóstahaldara hennar, auk þess sem hann fór inn undir nærföt hennar og snerti kynfæri hennar. Hún kvað C hafa verið sofandi á þessari stundu. Hún lýsti varnarleysi sínu á þessari stundu en ákærði hefði ekki hætt þrátt fyrir að hún hefði beðið hann um það. Hún hefði síðan sest á gólfið svo ákærði kæmist ekki að henni. Þá hefði hún ákveðið að fara aftur upp í rúmið og breiddi teppið yfir sig. Hún vaknaði síðan við það er ákærði reyndi að taka teppið af henni og fannst henni eins og ákærði væri enn að fróa sér. Hún hefði togað teppið yfir sig, hún hefði ekki vitað hvað hún ætti að gera svo hún reyndi að hringja í kærastann sinn og sendi honum SMS skilaboð um að hún yrði sótt. Þrátt fyrir ölvun kvaðst B muna vel það sem gerðist. Hún sofnaði eftir þetta og vaknaði um átta-leytið morguninn eftir og klæddi sig en þorði ekki að vekja ákærða og C. Hún sofnaði síðan aftur og vaknaði er C var sest upp í rúmið hjá henni. Hún hefði fengið lánaðan síma C og hringt í kærasta sinn en sími hennar hafði áður orðið rafmagnslaus. Hún tók föt sín og allt dót og fór niður og beið þess að verða sótt. Er hún kom inn í bíl kærastans hefði hún titrað og grátið og lýsti hún því fyrir dóminum. Hún hefði greint kærastanum frá því sem gerðist og brást hann illur við. Hún lýsti því að við heimkomu hefði hún vitað af sæði úr ákærða í hári sínu. Hún hefði klippt hárlokk úr sér til að geyma og leggja fram sem sönnun fyrir máli sínu ákvæði hún að kæra. Hún kvaðst síðar hafa greint C frá því að hún ætlaði að kæra en þá hefðu þau ákærði farið í uppnám enda vissi ákærði hvað hann hefði gert þótt hann neitaði. Hún skýrði hvers vegna það tók hana ákveðinn tíma að kæra en það helgist af óvissu sem hún upplifði vegna þessa. Hún kvað C og ákærða hafa viljað hitta sig og ræða málið og úr varð að þau hittust á [...]. Hún viti að tilgangurinn hafi verið sá að fá sig til að falla frá kærunni en þær C hefðu rætt mest saman og hún greindi C frá ætlan sinni. Hún kvað ákærða stöðugt hafa beðist fyrirgefningar en hún hefði spurt hann hvers vegna hann væri að biðjast fyrirgefningar þar sem hann viðurkenndi ekki að hafa gert neitt á hennar hlut. Hún lýsti fundinum og hvernig honum lauk en hún hafi ekki haft nein samskipti við ákærða eftir þetta.

B lýsti áhrifum þessa atburðar á sig og vanlíðan sinni vegna þessa og viðbrögðum sínum og ráðaleysi. Hún kvað atburðinn hafa leitt til þess að hún hætti námi og lýsti hún ástæðunum. Hún kvaðst hafa leitað sálfræðiaðstoðar og reikna með að áframhald verði á því.

                Vitnið C kvaðst hafa verið kærasta ákærða á þeim tíma sem um ræðir. Hún kvað þau ákærða og B hafa farið að skemmta sér í miðbænum og farið á nokkra skemmtistaði. Eftir það tóku þau leigubíl að heimili ákærða að [...]. Þar héldu þau áfram að drekka auk þess að reykja gras. Þær B hefðu dansað meðan ákærði var í símanum. Að því kom að B klæddi sig úr öllum fötum utan nærbuxum en vitnið kvaðst hafa klætt hana aftur í brjóstahaldarann. Hún lýsti því að þau ákærðu hefðu farið undir sæng og haft samfarir en B var þá inni í herberginu. B kom þá að þeim ákærða og togaði af þeim sængina en hún taldi B ekki hafa séð þau ákærða hafa samfarir. Hún viti ekki hvort ákærði fékk sáðlát. Hún hafi þá klætt sig og ákærði þá farið á snyrtinguna og C á eftir. Ákærði hefði síðan farið upp í herbergið aftur en vitnið hafði orðið eftir á snyrtingunni og eftir það farið aftur upp í íbúðina. Er þangað kom hafi B hallað sér fram úr öðru rúmanna sem þar voru og ákærði staðið nakinn yfir henni. Hún hefði ekki séð ákærða fróa sér yfir B. C hefði orðið reið og ekki skilið hvers vegna ákærði var nakinn. Hún hefði þá farið fram og verið í dyragættinni en ákærði komið til hennar og hún þá spurt hvað væri í gangi og spurt ákærða hvers vegna hann væri nakinn. Ákærði hefði sagt að B hefði þurft að kasta upp og hann hefði ætlað að rétta henni fötu til að nota í því skyni. Er þau ákærði ræddu saman í dyragættinni hefði B kastað upp í fötu inni í herberginu. Eftir að hafa rætt við ákærða um stund gengu þau til náða en áður breiddi hún teppi yfir B og lét hana hafa kodda en hvort tveggja var úr rúmi þeirra ákærða. Hún kvaðst viss um að ákærði fór ekki fram úr rúminu aftur þessa nótt. Hún kvaðst hafa vakið B daginn eftir þar sem kærasti hennar var að hringja í hana. B hefði síðan beðið stutta stund eftir að unnustinn sótti hana og kvaðst C hafa sest hjá henni á meðan hún beið. Hún hefði spurt B hvort eitthvað hefði gerst um nóttina en hún sagt svo ekki vera. B hefði síðan hringt einhverjum dögum síðar og greint sér frá því að eitthvað hefði gerst um nóttina. Hún kvað skilaboð á facebook, frá kærasta B, hafa orðið til þess að fundurinn var haldinn á [...] sem áður var vikið að. Þær B töluðu mest saman á íslensku svo ákærði skildi ekki það sem fram fór. B hefði þarna greint sér frá því að hún ætlaði að kæra ákærða.

Vitnið D kvaðst hafa búið að [...] á þessum tíma. Hann mundi að hafa hitt B og C þar að morgni 17. apríl 2014 en þær ræddu saman í herbergi C. D kvaðst hafa tekið ruslafötu sem var í herbergi ákærða en kastað hafði verið upp í hana auk þess sem í henni voru notaðir smokkar að hans sögn. Hann kvaðst hafa heyrt af ásökunum B í garð ákærða um einum mánuði eftir atburðinn en C og ákærði greindu honum frá því. Hann kvaðst hafa farið með ákærða og C á fundinn við B á [...] sem lýst var að framan. Hann hefði setið við annað borð og hann heyrði ekki á tal þeirra C og B.

Vitnið E, unnusti B, kvaðst hafa sótt hana á [...] að morgni 17. apríl síðastliðinn. Hann hefði séð að eitthvað var að auk þess sem hún hefði sent sér SMS skilaboð um nóttina og beðið um að verða sótt. B hefði skolfið og grátið er hún kom inn í bílinn og greint sér frá því sem gerðist. Hann hefði orðið mjög reiður og lýsti hann því. Hann lýsti vanlíðan B eftir þetta og að hún hefði einangrað sig og ekki viljað út úr húsi. Eftir heimkomu klippti B hárlokk úr sér og geymdi. Hann kvað B hafa sagt sér frá því sem gerðist um kvöldið eftir komu á [...]. Þau þrjú sem þar voru hefðu haldið áfram drykkju og skemmt sér. B sagðist hafa vaknað með ákærða nakinn yfir sér þar sem hann fróaði sér yfir hana og fengið sáðlát á öxl og á hár B og í kodda hennar. C hefði séð þetta og brostið í grát. B sofnaði síðan en vaknaði aftur og þurfti að kasta upp. Ákærði hefði þá komið að henni og þóst hjálpa henni en káfað á henni á meðan. Í þriðja skiptið hefði hún vaknað við það að ákærði reyndi að færa hana úr nærbuxunum. Hann lýsti því að B hefði hringt í C nokkru síðar og greint frá því að til stæði að kæra atburðinn. Úr varð að þau hittust á fundi á [...] en bróðir ákærða og systir komu með. Hann kvað þau B hafa setið við sama borð og C. B hefði spurt hvernig ákærði hefði getað gert henni það sem hann gerði. Ákærði hefði stöðugt beðist fyrirgefningar en ekki gefið ástæðu. Hann hafi síðan neitað ásökununum.

Vitnið F kvað B hafa greint sér svo frá að hún hefði á þessum tíma verið að skemmta sér ásamt C og ákærða og hún hefði fengið gistingu hjá þeim á eftir. C og Adrian hefðu haft samfarir en B lá þá í öðru rúmi. Að því kom að C fór og tók ákærði þá að áreita B og kvað hún B hafa greint sér frá því að ákærði hefði fengið sáðlát á hana, í hár hennar og á brjóstahaldara. F fór á fundinn á [...] sem lýst var en gat ekki borið um það sem fram fór milli ákærða og B.

Vitnið G, sérfræðingur við tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, kom fyrir dóminn. Hann lýsti rannsókninni á hárlokk úr B og brjóstahaldara hennar. Hann lýsti rannsókn sinni sem staðfesti að hárlokkurinn, sem hann fékk til skoðunar, væri úr B og lýsti hann rannsókninni nánar. Hann greindi sáðfrumur í brjóstahaldara og á hárlokk sem hann fékk afhent. Hárlokkurinn og brjóstahaldarinn voru send til DNA greiningar. Niðurstaðan var sú að DNA snið sýnanna var hið sama og DNA snið ákærða. Hann skýrði og staðfesti niðurstöðu og rannsókn sína.

Vitnið H kvað C hafa greint sér frá máli þessu morguninn eftir hinn meinta atburð. Síðar kvaðst hún ekki viss um það hvenær C greindi henni frá þessu. C hefði sagt þau ákærða og B hafa farið út að skemmta sér og eftir það farið öll heim til ákærða að [...]. Hún kvað C hafa rætt ásakanir í garð ákærða við sig. C hefði sagt sér að hún hefði ekki séð neitt gerast en hún sagst hafa farið út úr herberginu og verið fjarverandi í tvær mínútur. C hefði greint sér frá því að er hún kom til baka í herbergið hefði ákærði staðið yfir B sem var að kasta upp í fötu á gólfinu en þetta hefði C sagt sér daginn eftir atburðinn sem í ákærunni greinir. Hún var á fundinum á [...] sem rakinn var en honum lauk með því að B hefði ætlað að kæra.

Vitnið I sálfræðingur lýsti komu B til sín vegna málsins. Hún hitti hana tveimur mánuðum eftir atburðinn sem í ákæru greinir og lýsti hún mikilli vanlíðan eftir atburðinn. B hefði lokað sig af og fleira. Hún lýsti því sem fram kom í viðtalinu.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök. Eins og rakið var hefur framburður ákærða verið breytilegur um sumt. Til dæmis það hvenær hann fékk sáðlát en við skýrslutöku hjá lögreglunni 29. apríl 2014 kvaðst ákærði ekki hafa fegið sáðlát er hann hafði samfarir við C greint sinn. Fyrir liggur DNA rannsókn sem staðfesti að sæði úr ákærða greindist í hárlokk B og í brjóstahaldara hennar. Skýringar ákærða á því hvernig sæði úr honum gat borist í hár B og á brjóstahaldara hennar eru mjög ótrúverðugar. Vitnisburður B er trúverðugur og fær stoð í niðurstöðu DNA rannsóknar sem rakin var. Þá fær vitnisburður hennar einnig stoð í vitnisburði C sem kom að ákærða nöktum yfir B er hún kom aftur í íbúðina eftir ferð á snyrtinguna. Þá er vitnisburður E, unnusta B, til þess fallinn að styðja vitnisburð hennar en hún greini honum frá atburðum strax morguninn eftir efnislega á sama veg og hún lýsti fyrir dómi. E lýsti slæmu ástandi og geðshræringu B þá um morguninn og síðar. Þá fær vitnisburður B stoð í vitnisburði I. Að öllu þessu virtu, og öðrum gögnum málsins, er sannað með trúverðugum vitnisburði B, sem fær stoð í vitnisburði sem rakinn var að ofan og í öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi framið háttsemina sem í ákæru greinir. Eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða.

Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Ákærði hefur sætt farbanni frá 30. apríl 2014. Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 9 mánuði en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið eins og í dómsorði greinir.

B á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 500.000 krónur auk vaxa svo sem í dómsorði greinir. Dráttarvextir reiknast frá 17. ágúst 2014 en þá var liðinn mánuður frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða.

Ákærði greiði 301.733 krónur í útlagaðan sakarkostnað ákæruvaldsins. Endurritun lögregluskýrslna hefur aldrei verið talin hluti sakarkostnaðar sem ákærða verður gert að greiða. Að færa kostnað vegna þessa á reikning yfir sakarkostnað eins og gert er fær ekki stoð í XXXIV. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði veður því ekki dæmdur til greiðslu þess kostnaðar.

Ákærði greiði 263.550 króna réttargæsluþóknun Kolbrúnar Garðarsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns B.

Ákærði greiði 878.500 króna þóknun Jóns Bjarna Kristjánssonar héraðsdómslögmanns en lögmaðurinn var skipaður verjandi ákæra undir rannsókn málsins.

Ákærði greiði 878.500 króna málsvarnarlaun Guðbrands Jóhannessonar héraðsdómslögmanns. Við ákvörðun þóknana lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Guðjóni St. Marteinssyni, sem dómsformaður, Ragnheiður Harðardóttir og Jón Finnbjörnsson.

Dómsorð:

Ákærði, Adrian Gomez Jimenez, sæti fangelsi í 9 mánuði en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli sá hluti refsingarinnar niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði B kt. [...], 500.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 17. apríl 2014 til 17. ágúst 2014 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði 301.733 krónur í útlagaðan sakarkostnað ákæruvaldsins.

Ákærði greiði 263.550 króna réttargæsluþóknun Kolbrúnar Garðarsdóttur héraðsdómslögmanns.

Ákærði greiði 878.500 króna málsvarnarlaun Jóns Bjarna Kristjánssonar héraðsdómslögmanns vegna vinnu undir rannsókn málsins.

Ákærði greiði 878.500 króna málsvarnarlaun Guðbrands Jóhannessonar héraðsdómslögmanns.