Print

Mál nr. 386/2003

Lykilorð
  • Tollskrá
  • Aðflutningsgjald

Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. maí 2004.

Nr. 386/2003.

Íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn

MLGK hf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

og gagnsök

 

Tollskrá. Aðflutningsgjöld.

Samkvæmt ákvörðun tollstjóra voru aðflutningsgjöld 40 vörusendinga, sem M hafði flutt til landsins, endurákvörðuð þar sem varan hefði verið ranglega tollflokkuð við innflutning. Ríkistollanefnd staðfesti að allar sendingarnar hefðu verið ranglega tollflokkaðar en felldi niður endurákvörðun gjalda vegna 14 sendinga á grundvelli grandleysissjónarmiða. M stefndi þá Í og krafðist ógildingar úrskurðar nefndarinnar. Talið var að M hefði farið rangt að við tollflokkun allra sendinganna 26 og jafnframt að hann hafi ekki verið grandlaus um það vegna einu sendingarinnar þar af sem hlaut almenna tollmeðferð. Ákvæði 5. mgr. 99. gr. tollalaga um rafræna tollafgreiðslu þótti ekki verða túlkað öðruvísi en samkvæmt orðanna hljóðan og í samræmi við það var endurákvörðun gjaldanna talin heimil. Í var því sýknað af kröfum M.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 1. október 2003. Hann krefst sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 1. desember 2003. Krefst hann þess aðallega að úrskurður ríkistollanefndar 28. febrúar 2002, í máli nr. 10/2001, verði felldur úr gildi og aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða sér hærri málskostnað en ákveðinn var í héraðsdómi, svo og málskostnað fyrir Hæstarétti. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Nafni gagnáfrýjanda var breytt 5. desember 2002 í MLGK hf.

Málavextir eru ítarlega raktir í hinum áfrýjaða dómi, en eins og þar kemur fram skaut gagnáfrýjandi 12. október 2001 til ríkistollanefndar ákvörðun tollstjórans í Reykjavík 15. ágúst 2001 um að endurákvarða aðflutningsgjöld af 40 vörusendingum með nánar tilteknu byggingarefni er gagnáfrýjandi flutti til landsins á árunum 1996 til 2000. Taldi aðaláfrýjandi að varan hafi verið ranglega tollflokkuð við innflutning sem tilsniðin vara í mannvirki en hafi átt að vera tollflokkuð sem ósamsett vara í tilsvarandi tollnúmer. Með úrskurði ríkistollanefndar 28. febrúar 2002 var komist að þeirri niðurstöðu að allar umræddar vörusendingar hafi verið ranglega tollflokkaðar. Hins vegar var endurákvörðun tollstjóra felld niður vegna 14 vörusendinga þar sem þær munu hafa verið afgreiddar í almennri tollafgreiðslu án þess að gagnáfrýjandi hafi vitað eða mátt vita um rétta flokkun vörunnar í skilningi 2. tl. 5. mgr. 99. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 26. gr. laga nr. 69/1996. Deila málsaðila stendur þannig um réttmæti staðfestingar ríkistollanefndar á endurákvörðun tollstjóra á 26 vörusendingum.

Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á þá niðurstöðu hans að umræddar byggingavörur voru ekki tilsniðið efni til notkunar í mannvirki, sem heimilt var að samtolla sem ósamsetta vöru samkvæmt tollflokki 7308.9009 og að gagnáfrýjandi hafi farið rangt að við tollflokkun allra umræddra 26 vörusendinga.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi gerði aðaláfrýjandi ekki athugasemd við flokkun gagnáfrýjanda fyrr en með bréfi 27. mars 2000. Samkvæmt því bréfi var gagnáfrýjanda gert að breyta tollflokkun á tilgreindri vörusendingu í samræmi við þá athugasemd. Gagnáfrýjandi fór að tilmælum aðaláfrýjanda varðandi þessa einu vörusendingu en við tollflokkun síðari sambærilegra sendinga hélt hann uppteknum hætti og flokkaði í þann tollflokk sem hann áður hafði gert. Af þeim 26 vörusendingum sem um er fjallað í þessu máli voru sjö tollafgreiddar eftir 27. mars 2000, þar af ein í almennri tollmeðferð en sex með rafrænni tollmeðferð, svonefndri SMT. Hinar 19 vörusendingarnar voru allar afgreiddar í rafrænni tollmeðferð fyrir 27. mars 2000. Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er fallist á að gagnáfrýjandi hafi eftir 27. mars 2000 ekki verið grandlaus um rétta tollmeðferð vörunnar í skilningi 2. tl. 5. mgr. 99. gr. tollalaga og hafi tollstjóra því verið heimilt að endurákvarða gjöld vegna þeirrar vörusendingar er hlaut almenna tollmeðferð eftir 27. mars 2000.

Í hinum áfrýjaða dómi er tíundaður sá munur sem felst í almennri tollafgreiðslu og rafrænni og þau rök sem liggja að baki því að mismunandi skilyrði eru sett fyrir endurákvörðun aðflutningsgjalda eftir því hvorri tollmeðferðinni er beitt. Í 99. gr. tollalaga eru að finna ákvæði um hvenær tollstjóra er heimilt að endurákvarða aðflutningsgjöld, komi í ljós að þau hafi ekki verið rétt ákvörðuð við tollafgreiðslu. Í 2. mgr. greinarinnar segir að sé um að ræða almenna tollafgreiðslu skuli tollstjóri hafa lokið endurákvörðun aðflutningsgjalda innan 60 daga frá nánar tilgreindum tímamörkum. Samkvæmt 5. mgr. greinarinnar er þó í tilteknum tilvikum heimilt að endurákvarða aðflutningsgjöld sex ár aftur í tímann, talið frá tollafgreiðsludegi. Í fyrsta lagi ef framlögðum gögnum eða upplýsingum, sem látin voru í té við tollafgreiðslu, hafi verið áfátt, í öðru lagi ef innflytjandi vissi eða mátti vita um rétta tollmeðferð vöru og í þriðja lagi þegar um rafræna tollafgreiðslu er að tefla. Í tollalögum er ekki að finna annað ákvæði um tímamörk til handa tollstjóra til endurákvörðunar þegar um rafræna tollafgreiðslu er að ræða. Verður ekki heldur séð af athugasemdum með lögunum ráðagerð um að túlka skuli ákvæði þetta um rafræna tollafgreiðslu öðruvísi en eftir orðanna hljóðan. Samkvæmt þessu átti tollstjóri þess kost, óháð sjónarmiðum um grandsemi gagnáfrýjanda, að endurákvarða aðflutningsgjöld sex ár aftur í tímann vegna þeirra vörusendinga sem gagnáfrýjandi fékk tollafgreiddar með rafrænum hætti. Verður aðaláfrýjandi því samkvæmt framanrituðu sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda um ógildingu úrskurðar ríkistollanefndar.

Rétt þykir að hvor aðili um sig beri kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda MLGK hf.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2003.

         Mál þetta var höfðað 21. maí 2002, þingfest 28. sama mánaðar og dómtekið 4. júní 2003.

Stefnandi er Íslenska verslunarfélagið hf., kt. 660169-0599, Safamýri 61, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið og er fjármálaráðherra stefnt til fyrirsvars fyrir það.

Stefnandi krefst þess aðallega að úrskurður ríkistollanefndar frá 28. febrúar 2002, í máli nr. 10/2001, verði felldur úr gildi að öllu leyti, en til vara að sú endurákvörðun aðflutningsgjalda, sem þar var ákveðin, verði aðeins látin ná til vörusendinga til stefnanda sem afgreiddar voru eftir 27. mars 2000. Einnig krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi.

 

Málsatvik og helstu ágreiningsefni

Stefnandi er innflutningsfyrirtæki og hefur um árabil flutt til landsins loftaklæðningar til húsbygginga.

Mál þetta varðar 26 vörusendingar sem stefnandi flutti til landsins frá ágúst 1996 og fram í nóvember 2000. Um var að ræða innflutning á byggingarefni í svokölluð niðurhengd loft. Stefnandi tollflokkaði umrætt byggingarefni í tollskýrslum sem forsmíðuð loft í tollskrárnúmer 7608.9009, en undir þetta tollskrárnúmer falla meðal annars tilsniðnar vörur úr járni eða stáli í mannvirki. Á vörur sem undir þennan tollflokk falla er lagður virðisaukaskattur og 5% almennur tollur.

Af þessum vörusendingum hlaut ein almenna tollmeðferð en 25 hlutu rafræna tollmeðferð (SMT) sem er einfaldari tollmeðferð.

Af hálfu embættis tollstjórans í Reykjavík var 27. mars 2000 gerð athugasemd við tollflokkun stefnanda, samkvæmt tollskýrslu S HEG 22 030 NL RTM W007, og honum gert að breyta tollflokkuninni úr 7308.9009 í 6806.9009 loftaplötur og 7308.9009 festingar. Stefnandi breytti skýrslunni og greiddi aðflutningsgjöld af sendingunni í samræmi við þessa athugasemd. Svipaðar athugasemdir voru gerðar við tvær aðrar sendingar stefnanda 13. apríl 2000 og 21. febrúar 2001.

 Með bréfi 20. júní 2001 tilkynnti embætti tollstjórans í Reykjavík stefnanda að embættið hefði haft til skoðunar tilteknar 40 vörusendingar sem virtust hafa hlotið ranga tollmeðferð. Fram kom að stefnandi hefði ranglega flokkað vöruna undir tollskrárnúmer 7308.9009. Í stað þeirrar flokkunar skyldi nota tollskrárflokk nr. 6806.0009 fyrir innfluttar steinullarplötur sem á hvíldi virðisaukaskattur og 15% XC-vörugjald, flokk 7326.9019 fyrir festingar sem á hvíldi virðisaukaskattur og 10% almennur tollur, flokk 6216.0000 fyrir hanska sem á hvíldi virðisaukaskattur og 15% tollur og 2509.0000 fyrir kalk sem einungis hvíldi á virðisaukaskattur. Með vísan til 1. mgr. og 2. tl. 5. mgr. 99. gr. tollalaga nr. 55/1987 taldi embættið koma til álita að endurákvarða aðflutningsgjöld af þessum vörusendingum, en samkvæmt 2. tl. 5. mgr. 99. gr. tollalaga væri tollstjóra heimilt að endurákvarða aðflutningsgjöld af vörusendingum allt að sex ár aftur í tímann, talið frá tollafgreiðsludegi, hafi innflytjandi vitað eða mátt vita um rétta tollmeðferð vöru. Var stefnanda gefinn kostur á að gera grein fyrir sjónarmiðum sínum innan 15 daga frá póstlagningardegi bréfsins, en að þeim tíma liðnum tæki embættið ákvörðun um hvort gjöldin yrðu endurákvörðuð.

Stefnandi hafði þegar samband við tollstjóraembættið og benti á að tiltekinn starfsmaður þess hefði áður verið hafður í ráðum um tollflokkun slíkra sendinga og þess vegna hefðu stjórnendur stefnanda ávallt verið í góðri trú um að enginn ágreiningur væri um tollflokkun á þessum varningi. Með bréfi tollstjóraembættisins 12. júlí 2001 var upplýst að viðkomandi starfsmaður embættisins væri í sumarleyfi og fór embættið þess á leit við stefnanda að hann sækti skriflega um frest innan 7 daga. Stefnandi sendi þá skriflega beiðni um frest.

Með bréfi tollstjóraembættisins, dagsettu 15. ágúst 2001, var stefnanda tilkynnt um endurákvörðun umræddra aðflutningsgjalda. Sagði þar að umræddur starfsmaður væri kominn aftur til starfa og hafi farið yfir málin. Það hefði ekki leitt til breytinga á afstöðu eftirlitsdeildar tollstjóraembættisins, sem hefði komist að þeirri niðurstöðu að tollflokkun umræddra vörusendinga hefði verið röng. Vargreiðsla aðflutningsgjalda af umræddum 40 vörusendingum væri 7.785.856 krónur auk áfallinna dráttarvaxta að fjárhæð 4.599.471 krónu.

Stefnandi kærði álagninguna til ríkistollanefndar samkvæmt heimild í 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987 og krafðist þess að ákvörðun um álagninguna yrði felld úr gildi. Ríkistollanefnd felldi úrskurð í kærumálinu 28. febrúar 2002. var svohljóðandi:

Með vísan til 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, og með vísan til almennra reglna um túlkun tollskrár, sbr. l. og 6., staðfesti ríkistollanefnd endurákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 15. ágúst 2001 að því er varðar 26 vörusendingar í hinni kærðu endurákvörðun tollstjórans í Reykjavík. Í forsendum úrskurðarins sagði m.a.:

 

„Það er mat nefndarmanna að ekki sé hægt að fullyrða að kærandi hafi vitað eða mátt vita um rétta flokkun vörunnar í skilningi 2. tl. 2. mgr. (sic) 99. gr. tollalaga fyrir þann tíma sem athugasemd tollstjóra kemur fram, þ. e. 27. mars 2000. Á þeim grundvelli fellir ríkistollanefnd niður endurákvörðun af 14 eftirtöldum sendingum ... Þessar vörusendingar voru afgreiddar fyrir 27. mars 2000. Ein hinna 15 sendinga ... var afgreidd í almennri tollafgreiðslu eftir 27. mars 2000 og verða gjöld því endurákvörðuð af henni. Ríkistollanefnd staðfestir endurákvörðun 25 sendinga sem afgreiddar voru í ET (SMT) tollafgreiðslu með vísan til 2. mg.(sic) 3. tl. 99. gr. tollalaga."

 

Málsástæður og lagarök aðila

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að úrskurður ríkistollanefndar sé, samkvæmt 7. mgr. 101. gr. tollalaga, fullnaðarúrskurður um ágreiningsefni sem þetta á stjórnsýslustigi, en í þessu lagaákvæði sé beinlínis ráðgert að aðili sem ekki vilji una niðurstöðunni geti borið hana undir dómstóla. Umrædd aðflutningsgjöld renni í ríkissjóð og því sé íslenska ríkinu stefnt í málinu þótt embætti tollstjórans í Reykjavík annist innheimtu gjaldanna og sé almennt í fyrirsvari fyrir ríkissjóð um álagningu þeirra.

Stefnandi byggir kröfur sínar á málinu í fyrsta lagi á því að hin kærða ákvörðun sé byggð á rangri túlkun tollskrár. Umræddar vörusendingar hafi innihaldið loftaklæðningar sem séu fyrirfram tilsniðnar til uppsetningar í ákveðin mannvirki. Sendingarnar hafi innihaldið loftaplötur og nauðsynlegan búnað til að festa þær upp. Í þeim tilvikum sem stefnandi hafi flutt slíkar vörur inn til að eiga á lager, hafi hann flutt vöruna inn sem lagervöru og greitt af henni tilskilin gjöld.

Stefnandi leggur á það áherslu, að þessar vörur hafi verið fluttar inn um langt árabil og starfsmönnum tollstjóraembættisins margsinnis verið gefnar allar þær skýringar sem þeir hafi beðið um eða talið sig þurfa að fá um þessar sendingar. Við meðferð málsins fyrir ríkistollanefnd hafi stefnandi sýnt fram á að vörusendingar þessar hafi verið pantaðar fyrir ákveðin mannvirki hverju sinni og því uppfyllt skilyrðið um að vera „forsniðin". Eðli málsins samkvæmt sé ekki hægt að flytja loftaklæðningar inn samsettar, heldur verði þær aðeins fluttar inn í sem eru fyrirfram ákveðnum einingum, þannig að hægt sé að hengja þær upp á byggingarstað, t. d. í skólum, sjúkrahúsum o. s. frv.

Því er haldið fram að stefnandi hafi verið í góðri trú um að tollflokkun hans á umræddum vörusendingum væri rétt. Komist dómstólar að þeirri niðurstöðu að lagatúlkun hans um tollflokkun vörunnar hafi verið röng, sé fráleitt að endurákvarða gjöldin aftur í tímann með þeim hætti sem gert hafi verið í ákvörðun ríkistollstjóra, en þar sé komist að þeirri niðurstöðu að eftir 27. mars 2000 hafi stefnanda mátt vera það ljóst að tollflokkun hans væri ekki rétt.

Stefnandi mótmælir því sérstaklega að aðfinnslur sem hann hafi fengið 27. mars 2000, við tollskýrslu auðkennda S HEG 22 030 NL RTM W007, hafi verið þess efnis að tilefni hafi verið fyrir hann til að óska eftir bindandi áliti um tollflokkun vörunnar samkvæmt heimild í 142. gr. tollalaga. Samskipti stefnanda og viðkomandi starfsmanns tollstjóra, þegar þetta hafi verið ákveðið, hafi ekki gefið stefnanda ástæðu til að ætla að hann væri á rangri braut með tollflokkun þessara vara. Þvert á móti hafi stefnandi talið að þarna hefðu starfsmenn tollstjóraembættisins verið að fjalla um einangrað tilvik og stefnandi ákveðið að standa ekki í neinu stappi út af því. Enginn hafi heldur vakið athygli hans á því þá, að rétt kynni að vera fyrir hann að afla sér álits samkvæmt 142. gr. tollalaga og starfsmönnum stefnanda hafi ekki hugkvæmst það. Stefnandi eigi því ekki að bera hallann af því að hafa ekki leitað eftir slíku áliti og eigi ekki að sæta endurákvörðun vegna vörusendinga sem hann flutti til landsins síðar.

Fallist dómurinn ekki á þá röksemd stefnanda að hann hafi tollflokkað umræddar sendingar réttilega, er þess krafist að úrskurður ríkistollstjóra verði felldur úr gildi að hluta þannig að endurákvörðun aðflutningsgjalda samkvæmt úrskurðinum verði látin ná til færri vörusendinga en þar hafi verið ákveðið.

Í úrskurði ríkistollanefndar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi verið í góðri trú um að tollflokkun á umræddum vörusendingum væri rétt, að minnsta kosti til 27. mars 2000. Engu að síður hafi endurákvörðunin verið látin ná til 17 (á að vera 19) vörusendinga sem afgreiddar hafi verið fyrir þennan dag í ET tollafgreiðslu, 7 (á að vera 6) sendinga sem afgreiddar hafi verið eftir þennan dag með sams konar tollafgreiðslu, og einnar vörusendingar sem afgreidd hafi verið í almennri tollafgreiðslu eftir þetta tímamark. Stefnandi telur það ekki fá staðist að niðurstaða um endurákvörðun aðflutningsgjalda geti verið mismunandi eftir því hvaða aðferð sé notuð um meðferð tollskýrslna, í tilviki eins og þessu. Bendir stefnandi á, að ákvæði tollalaga um endurákvörðun sé heimildarákvæði og því beri að beita af fyllstu réttsýni og taka þá tillit til allra málsatvika. Engin rök standi til þess að beita endurákvörðunarheimildinni með mismunandi hætti eftir því hvort tollafgreiðsla hafi farið fram með ET eða SMT-aðferðum, þegar svo standi á að viðurkennt sé að innflytjandinn var eða mátti vera í góðri trú um að tollflokkun hans væri rétt.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að við ákvörðun málskostnaðar beri meðal annars að líta til þess að andmælaréttur hans hafi ekki verið virtur af tollyfirvöldum. Stefnandi ber þessa málsástæðu ekki fyrir sig að öðru leyti.

 

Af hálfu stefnda er byggt á því að rangt hafi verið af stefnanda að flokka vörur í umræddum vörusendingum í einn tollflokk en einnig er byggt á því að stefnandi hafi ekki flokkað vörurnar réttilega í tollflokka.

Á því er byggt að stefnandi hafi átt að tollflokka byggingarefni til niðurhengdra lofta í þannig að steinullarplötur væru flokkaðar í  tollskrárnúmer 6806.9009, festingar í 7326.9019 hanskar í 6216.0000  og  kalk í 2509.0000

Af hálfu stefnda er byggt á því að almennar reglur um túlkun tollskrárinnar séu hluti tollskrárinnar í viðauka I við tollalög, sem hafi lagagildi, sbr. 4. gr. tollalaga nr. 55/1987. Tollskráin sé byggð á tollnafnaskrá Alþjóðatollasamvinnuráðsins, þ.m.t. almennu túlkunarreglur tollskrárinnar. Ísland eigi aðild að alþjóðlegum samningnum um samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá sem liggi til grundvallar tollnafnaskránni, sbr. auglýsingu nr. 25/1987 í C-deild Stjórnartíðinda og hafi þar með skuldbundið sig til þess að fara eftir alþjóðlegu tollnafnaskránni og almennum reglum um túlkun hennar, sbr. 3. gr. samningsins. Túlkunarreglurnar séu sex og skuli beita 1. reglunni fyrst og síðan þeim síðari í réttri númeraröð þegar ekki sé unnt að flokka vöru eftir fyrri reglum.

Alþjóðatollasamvinnuráðið gefi út skýringarrit við alþjóðlegu tollnafnaskrána. Ríkistollanefnd hafi nokkrum sinnum vísað til þeirra í úrskurðum sínum. Þetta skýringarrit hafi verið lagt fram í málinu á ensku og í íslenskri þýðingu. Stefndi byggir á því að rétt sé að leita leiðbeininga og túlkana í skýringarrit Alþjóðatollasamvinnuráðsins enda séu íslensku reglurnar um túlkun tollskrár settar að nákvæmri fyrirmynd túlkunarreglna alþjóðlegu tollnafnaskrárinnar.

Stefndi vísar til 1. og 6. túlkunarreglu við tollskrá þegar hann flokkar innfluttu vörurnar, sem um er deilt í máli þessu, í tollskrárnúmer í 25., 62., 68. og 73. kafla tollskrár.

Af hálfu stefnanda er bent á að í skýringum Alþjóðatollasamvinnuráðsins við túlkunarreglurnar sé áréttað að fyrst beri að líta til orðalags vöruliða og athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla þegar komi að tollflokkun vöru. Túlkunarreglunum sem á eftir komi verði því aðeins beitt að þær brjóti ekki í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda. Þær komi hins vegar til nánari leiðbeiningar um tollflokkun þegar 1. reglu sleppi. Af a-lið 2. túlkunarreglu leiði að vörur sem flokkist í ólíka vöruliði, á grundvelli l. túlkunarreglunnar, þegar þær eru virtar einar sér, verði aðeins flokkaðar saman í vörulið ef skilyrði þeirrar reglu séu uppfyllt.

Til þess að flokkun stefnanda í vörulið nr. 7308, sem tilsniðnar vörur í mannvirki, úr járni eða stáli, geti talist rétt, verði ósamsetta varan, í þessu tilviki hið niðurhengda loft, að uppfylla skilyrði tilvitnaðs a-liðs túlkunarreglu 2 við tollskrá. Síðari málsliður a-liðs reglu 2 lúti að ósamsettum eða sundurteknum vörum. Ósamsettir eða sundurteknir hlutar vöru megi ekki fá aðra aðvinnslu eftir innflutning þeirra til landsins en samsetningu með t.d. nöglum, skrúfum, boltum, hnoði eða logsuðu, til þess að úr verði hin fullgerða vara, eigi þeir að tollflokkast sem fullgerða varan. Stefndi telur ljóst að nauðsynlegt sé að sníða hluta hinna niðurhengdu lofta til við veggi ef hinar stöðluðu stærðir gangi ekki upp í stærð lofts á byggingarstað. Af skýringum Alþjóðatollasamvinnuráðsins verði ráðið að hlutar til niðurhengdra lofta verði ekki taldir ein einstök vara í skilningi tollskrár þótt þeir hafi verið fluttir inn til uppsetningar í tilteknar byggingar.

Af hálfu stefnda er vísað til ummæla stefnanda í greinargerð hans til ríkistollanefndar frá  14. janúar 2002 en þar segi: „Krítin fylgir vegna þess að klæðningin kemur í ákveðnum lit, en við uppsetningu verður nánast alltaf að skera þær plötur eitthvað til sem liggja með útveggjunum. Endanleg málsetning verður alltaf að ráðast af aðstæðum á byggingarstað, og þá þarf að bera lit í sárið þar sem skera þarf plöturnar til." Stefndi telur að slík aðvinnsla, þ.e. sníðavinna á byggingarstað, falli ekki innan ramma leyfilegrar aðvinnslu samkvæmt ofangreindum rökum.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að í þessu tilviki komi túlkunarregla 3 við tollskrá aðeins til skoðunar að uppfylltum skilyrðum túlkunarreglu 2, þ.e. hún komi til álita þegar flokka eigi eina vöru eða margar vörur sem heimilt sé að flokka sem eina með vísun til túlkunarreglu 2.

Stefndi telur huglæga afstaða innflytjanda um notkun vörunnar ekkert vægi hafa þegar tollflokkun sé gerð. Það sé varan sjálf sem skipti máli en í þessu tilviki sé um að ræða vörur sem séu afgreiddar í stykkjatali og hlaupandi lengdum og ólíkum útfærslum af lager hjá hinum erlenda seljanda. Það hafi ekkert vægi þótt vara sé pöntuð í passandi magni fyrir ákveðin rými og pöntunum sé safnað saman af hagkvæmnisástæðum vegna smæðar íslenska markaðarins.

Af hálfu stefnda er einkum vísað til 1. mgr. og 2. og 3. tl. 5. mgr. 99. gr. tollalaga nr. 55/1987 og til þeirra lagaraka og sjónarmiða sem búið hafi að baki ákvörðun tollstjóra og úrskurði ríkistollanefndar.

Á því er byggt að endurákvörðun hafi verið lögmæt og rétt að henni staðið að öllu leyti. Skilyrði endurákvörðunar hafi verið til staðar. Það hafi verið mat tollstjórans að stefnandi hafi vitað eða mátt vita um rétta tollmeðferð vöru. Það hafi hins vegar verið niðurstaða ríkistollanefndar að stefnanda hafi fyrst mátt vera ljóst að vafi léki á um rétta tollflokkun vöru þegar athugasemd hafi verið gerð við tollflokkun félagsins 27. mars 2000. Aðfinnslur þessar hafi verið þess efnis að tilefni hafi verið fyrir stefnanda að óska eftir bindandi áliti um tollflokkun vörunnar samkvæmt 142. gr. tollalaga en ákvörðun um tollflokkun samkvæmt greininni sé bindandi fyrir tollyfirvöld og fyrirspyrjanda.

Á því er byggt af hálfu stefnda að endurákvörðun hafi verið lögmæt hvað varðar allar  25 sendingarnar sem afgreiddar hafi verið með rafrænni tollafgreiðslu, sbr. 3. tl. 5. mgr. 99. gr. tollalaga og hvað varðar sendingu S HEG 05 04 0 NL RTM W024, sem afgreidd hafi verið almennri tollafgreiðslu eftir 27. mars 2000, sbr. 2. tl. 5.mgr. 99. gr. tollalaga. Þær 14 sendingar sem ríkistollanefnd hafi ekki talið tækt að beita endurákvörðun um hafi verið afgreiddar í almennri tollafgreiðslu fyrir 27. mars 2000.

Af hálfu stefnda er byggt á því að skyldan til þess að gefa upp tollflokk innfluttrar vöru í aðflutningsskýrslu hvíli á innflytjanda hennar eða umboðsmanni hans, samkvæmt 15. gr. tollalaga nr. 55/1987 og 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 228/1993, um tollskýrslur og fylgiskjöl þeirra. Innflytjandi, eða sá sem komi fram fyrir hans hönd, beri jafnframt ábyrgð á því að upplýsingar sem veittar séu við tollafgreiðslu séu réttar, sbr. 2. mgr. 16. gr. tollalaga.

Stefndi bendir á, að stefnandi hafi haft innflutning á vörum til landsins að atvinnu um langt skeið og telur að stefnandi hafi mátt vita að vörurnar væru ekki rétt tollflokkaðar. Lítill vafi hafi verið um tollflokkun í þessu tilviki. Stefnandi hafi áður leitað bindandi álita tollstjórans í Reykjavík á árunum 1988, 1990 og 1991 vegna annarra vara og því ljóst að hann þekkti umrædd úrræði tollalaganna, sbr. bindandi álit tollstjórans nr. A 881027 (trefjaplötur og milliveggir), A 900724 (gólfplötur) og A 910817 (mannvirki). Það hafi ekki verið skylda tollstjóra að vekja athygli á þessu heldur á ábyrgð stefnanda að leita bindandi álits.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að tiltekinn starfsmaður tollstjóra hafi verið með í ráðum um tollflokkun umræddra sendinga og að embætti tollstjóra hafi fallist á umræddan afgreiðslumáta Því er haldið fram að athugasemdir sem umræddur starfsmaður hafi þrívegis gert við tollafgreiðslu fyrirtækisins hafi verið sambærilegar þeim athugasemdum sem eftirlitsdeild tollstjórans í Reykjavík geri nú.

Stefndi kveður ástæðu þess að endurákvörðun sé heimil sex ár aftur í tímann, þegar um rafræna tollafgreiðslu (SMT) sé að ræða þá, að eftirliti verði ekki komið við í beinu framhaldi af slíkri tollafgreiðslu. Öll gögn, sem SMT-tollafgreiðsla sé byggð á, séu í vörslu innflytjenda og endurskoðun tollstjórans því nær eingöngu framkvæmd eftir á með úrtaksathugunum. Innflytjendur geti tryggt hagsmuni sína með því að leita eftir bindandi áliti um tollflokkun vöru.

Þegar um hinar svokölluðu pappírsafgreiðslur sé að ræða geti tollstjóri eingöngu leiðrétt tollafgreiðslu í 60 daga frá tollafgreiðsludegi ef fullnægjandi gögn hafa verið lögð fram. Að öðrum kosti sé endurákvörðun heimil í sex ár aftur í tímann, þ.e. ef gögn hafi verið ófullnægjandi eða innflytjandi vissi eða mátti vita um rétta tollmeðferð vöru, sbr. 1. og 2. tl. 5. mgr. 99. gr. tollalaga.

Stefndi mótmælir því að þessi háttur geti ekki staðist. Lögin mæli fyrir um mismunandi heimildir eftir því hvort um SMT- eða hefðbundna tollmeðferð sé að ræða og ólík úrræði helgist af því að tollstjóri eigi ekki jafn greiðan aðgang að gögnum í SMT-tollmeðferð.

Því er sérstaklega mótmælt að andmælaréttar stefnanda hafi ekki verið gætt við meðferð málsins í stjórnsýslunni og að ástæða sé að líta til þessa atriðis við ákvörðun málskostnaðar.

 

Niðurstaða

Viðauki I við tollalög nr. 55/1987 hefur að geyma tollskrá en samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laganna hefur hún lagagildi. Í tollskránni er vörur flokkaðar í samræmi við tollnafnaskrá Alþjóðatollsamvinnuráðsins. Tollskráin mælir fyrir um hvaða tollar leggist á innfluttar vörur.

Í máli þessu er deilt um tollflokkun vara í alls 26 vörusendingum sem stefnandi flutti til landsins á tímabilinu ágúst 1988 til nóvember 2000. Stefnandi flokkaði vörur í öllum sendingunum saman í tollflokk 7308.9009 og tilgreindi í tollskýrslu að um væri að ræða forsmíðuð eða forsniðin loft.  Samkvæmt tollskrá falla undir tollflokk 7308 mannvirki (þó ekki forsmíðaðar byggingar í nr. 9406) og hlutar til mannvirkja (t.d. brýr og brúarhlutar, lokur (lock-gates), turnar, súlnagrindur, þök, þakgrindur, hurðir og gluggar og karmar til þeirra og þröskuldar fyrir hurðir, hlerar, handrið, stöplar og súlur), úr járni eða stáli; plötur, stengur, prófílar, leiðslur og þess háttar, tilsniðið til notkunar í mannvirki, úr járni eða stáli. Undirliðurinn 9009 er almennur liður sem aðeins er auðkenndur sem „Annars”.

Af hálfu stefnda er á því byggt að Ísland eigi aðild að alþjóðlegum samningum um samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá, sem liggi til grundvallar tollnafnaskránni, sbr. auglýsingu nr. 25/1987 í C-deild Stjórnartíðinda og hafi þar með skuldbundið sig til að fara eftir alþjóðlegu tollnafnaskránni og almennum reglum um túlkun hennar.

Þessar almennu túlkunarreglur hafa verið lagðar fram í málinu á ensku og í íslenskri þýðingu þýðingarmiðstöðvar utanríkisráðuneytisins. Fyrir liggur að starfsmenn embættis tollstjórans í Reykjavík fóru yfir þýðinguna og gerðu við hana athugasemdir.

 Af hálfu stefnanda því haldið fram að þessar reglur séu að engu hafandi þar sem þær hafi hvergi verið birtar. Þá telur stefnandi þýðinguna sérstaklega ótrúverðuga vegna þess hvernig að henni hafi verið staðið. Ekki verður fallist á með stefnanda að það geri þýðingu reglnanna ótrúverðuga að hún var unnin í samráði við tollyfirvöld. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að þýðingin sé röng í einstökum atriðum.

Með vísan til þess að gildandi tollskrá hér á landi er byggð á tollnafnaskrá Alþjóðatollsamvinnuráðsins og að teknu tilliti til þess hvernig umræddar almennar reglur um túlkun tollskrárinnar eru til komnar þykir mega styðjast við þær við túlkun íslensku tollskrárinnar.

Sem fyrr segir valdi stefnandi þá leið að láta samtolla ýmsar ólíkar vörur úr ýmsum efnum sem forsmíðuð- eða forsniðin loft og felldi þessar vörur undir almennan lið í tollflokki 7308. Samkvæmt almennri lýsingu tollskrár falla undir þennan tollflokk meðal annars tilsniðnar vörur, úr járni eða stáli, til notkunar í mannvirki.

Fyrir liggur að nokkur hluti af því byggingarefni sem stefnandi flutti inn var úr málmi. Í greinargerð tollstjórans í Reykjavík til ríkistollanefndar er því haldið fram að meginuppistaðan í vörusendingunum hafi verið steinullarplötur og hefur því ekki verið mótmælt sérstaklega af hálfu stefnanda.

Í úrskurði ríkistollanefndar var umræddum vörusendingum stefnanda lýst þannig:

 

„Vara sú sem hér er deilt um flokkun á eru svonefnd niðurhengd loft. Plöturnar liggja ofan á grind sem fest er í loft byggingar. Sérstök aðalgrind hengist í loftið og festigrind fyrir plötur er sett í aðalgrind. Plöturnar eru ýmist framleiddar með falsi sem leggst á grind, brún sem sest á grind eða einfaldar plötur sem leggjast ofan á brún. Í sumum tilfellum, allt eftir hönnun platanna og burðargrindar, er hægt að fjarlægja/taka niður plötur úr loftinu. Ýmiss staðlaður aukabúnaður fæst við kanta/enda auk þess sem gert er ráð fyrir mishæðóttum loftum. Plöturnar er því mögulegt að aðlaga aðstæðum hverju sinni. Stærðir platanna og litir er staðlað.

Loftið samanstendur því af grind úr málmi sem sett er saman þannig að plöturnar passa ofan í hana eða plötunum er rennt í grindina, stillanlegum upphengjum sem festast í loft byggingar og/eða bita og plötunum sjálfum. Um er að ræða nokkrar útfærslur af plötum sem viðkomandi grindur passa við. Plöturnar og grindur eru í stöðluðum stærðum þannig að nauðsynlegt er að sníða kanta við veggi ef hinar stöðluðu stærðir ganga ekki upp í stærð loftsins.”

 

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu þeir Kristmann Hjartarson, sem var framkvæmdastjóri stefnanda í 16 ár en hætti um síðustu áramót, og Magnús Jóhannsson  framkvæmdastjóri stefnanda. Kristmann bar að kaupendum hér á landi hafi verið gerð tilboð á grundvelli lýsingar frá þeim. Málsetningar á loftum hafi ekki verið nákvæmar heldur hafi verið sniðið af einingum á byggingarstað og þær felldar saman. Efnið hafi þó nánast verið tilsniðið. Hann kvað hafa komið fyrir að teikning hefðu verið send með pöntun og unnið úr henni erlendis. Hann kvað hlutföll járns og platna hafa verið mismunandi í sendingum. Í sumum sendingum hafi eingöngu verið loftaplötur í tilteknum gámi en fylgihlutir þá í öðrum gámi. Magnús bar á svipaðan veg og Kristmann. Hann kvað hafa komið fyrir að einingar kæmu í nákvæmum lengdum, t.d. þegar um hefði verið að ræða loftaklæðningu í ganga. Báðir báru þeir að embætti tollstjóra hefði einungis tekið til endurskoðunar sendingar með loftaplötum úr steinull en sendingar með loftaplötum úr öðrum efnum svo sem áli, stáli og glerull hefðu fengið aðra tollmeðferð.

Framburður framangreindra manna um byggingarefni það sem var í umræddum vörusendingum þykir í aðalatriðum í nokkuð góðu samræmi við framangreinda lýsingu á vörunni í úrskurði ríkistollanefndar.

Ljóst þykir að umrædd vara er byggingarefni sem notað er við gerð niðurhengdra lofta og tiltölulega lítið þarf að sníða það til eða fullvinna eftir að það er flutt til landsins. Í málinu hafa hins vegar ekki verið lagðir fram teikningar eða önnur gögn sem benda til þess að umrætt byggingarefni hafi verið sérsmíðað eða tilsniðið af erlendum framleiðanda til uppsetningar í tilteknum mannvirkjum hér á landi. Af framlögðum gögnum verður þvert á móti ráðið að umrædd vara hafi verið framleidd í stöðluðum lengdum og stærðum. Á framlögðum reikningum hinna erlendu aðila er nákvæmlega tilgreindur einingafjöldi af hverri tegund eininga en varan ekki seld eftir stærð lofts. Að innflutningi var í meginatriðum staðið með þeim hætti að stefnandi tók við pöntunum frá íslenskum aðilum og pantað og flutti inn þann einingafjölda sem passaði í tiltekna stærð og gerð af lofti. Í hagræðingarskyni flutti stefnandi síðan saman í gámi fleiri eða færri sendingar eftir því sem á stóð. Jafnframt liggur fyrir að þegar varan var komin á byggingarstað þurfti að sníða einingar til út við veggi, í hornum og víðar. Samkvæmt framangreindu var um að ræða nánast fullunnið byggingarefni sem framleitt var í stöðluðum stærðum og einingum en ekki sérstaklega tilsniðið fyrir tiltekin mannvirki.

Með vísan til framangreinds þykja vörur í umræddum vörusendingum ekki falla vel að hinni almennu skilgreiningu fyrir tollflokk 7308 eins og hún verður skilin eftir orðanna hljóðan. Með tilliti til þess að hluti af vörunum voru grindur úr málmi þykir þó rétt að taka til skoðunar hvort líta megi á vöruna sem ósamsetta vöru sem samtolla megi í tollflokk 7308.

Túlkunarregla 1 í framangreindum almennu reglum um túlkun tollskrár þykir ekki veita aðra vísbendingu sem að gagni kemur við túlkun í þessu tilviki en að tollflokkun skuli byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla en að fylgt skuli túlkunarreglunum ef það brjóti ekki í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda.

Í 2. málslið a-liðs 2. túlkunarreglu segir að þegar talað sé um tilteknar vörur í vörulið taki það til þessara vara fullgerðra eða heilla þegar þeim er framvísað ósamsettum eða sundurteknum. Í skýringum á túlkunarreglunni segir að „vörur sem er framvísað ósamsettum eða sundurteknum”, merki vörur þar sem setja eigi saman hluta, annað hvort með festingum (skrúfum, boltum, róm o.s.frv.) eða með því að hnoða saman eða logsjóða svo dæmi sé tekið að því tilskildu að einungis sé um aðgerðir til samsetningar að ræða. Ekkert tillit sé tekið til þess hversu flókin samsetningaraðferðin sé að því er þetta varði. Þó skuli hlutarnir ekki háðir frekari vinnslu til þess að varan geti talist fullgerð.

Þar sem umræddar byggingarvörur voru framleiddar og fluttar til landsins í stöðluðum stærðum og einingum og sníða þurfti vöruna til á byggingarstað mælir framangreind túlkunarregla mjög gegn því að líta megi á umrædda vöru sem ósamsetta, tilsniðna hluti til mannvirkja.

Í niðurlagi b-liðs 2. túlkunarreglunnar segir að um tollflokkun blandaðra og samsettra vara fari eftir meginreglum 3. túlkunarreglunnar. Í þessu tilviki virðist b-liður 3. túlkunarreglu eiga best við en þar segir að blöndur, samsettar vörur úr ýmsum efnivörum eða hlutum svo og vörusamstæður í smásöluumbúðum, sem eigi verði flokkaðar eftir a-lið 3. reglu, skuli flokka eftir þeirri efnivöru eða þeim hluta sem helst einkennir vörurnar, enda verði slíku mati komið við.

Svo sem að framan er rakið þykir í ljós leitt að loftaplötur úr steinull sé sú efnivara sem einkenni helst þær vörusendingar sem hér um ræðir. Teldist skilyrði samtollunar fyrir hendi bæri að fella alla vörusendinguna undir tollflokk 6806.9009, sem steinullarplötur flokkast í.

Ekki þykir skipta máli við úrslausn þessa máls þótt stefnandi kunni um árabil að hafa tollflokkað sendingar með loftaplötum úr áli, stáli og glerull í tollflokk 7308 án athugasemda tollyfirvalda. Þessar sendingar eru ekki til skoðunar í málinu og því verður ekki tekin afstaða til þess hvort þær teljist sambærilegar þeim vörusendingum sem hér er um fjallað.

Samkvæmt framangreindu, framlögðum vörureikningum og öðrum fyrirliggjandi upplýsingum um vörur í þeim 26 vörusendingum sem um ræðir, verður að leggja til grundvallar að umræddar byggingarvörur hafi ekki verið tilsniðið efni til notkunar í mannvirki, sem heimilt hafi verið að samtolla sem ósamsetta vöru samkvæmt tollflokki 7308.9009. Verður því fallist á með stefnda að stefnandi hafi farið rangt að við tollflokkun allra 26 vörusendinganna.

Fyrir liggur að embætti tollstjórans í Reykjavík gerði 27. mars 2000 athugasemd við tollflokkun á vörusendingu stefnanda. Athugasemd tollendurskoðandans var þess efnis að tollflokkunin væri röng og ætti að vera loftaplötur 6806.9009 og festingar í 7308.9009. Af athugasemdinni verður ráðið að um hafi verið að ræða sambærilega vörusendingu og þær sem um er fjallað í þessu máli. Stefnandi breytti þá tollskýrslu sinni til samræmis við athugasemdina og greiddi aðflutningsgjöld samkvæmt því. Kristmann Hjartarson, fyrrverandi framkvæmdastjóri stefnanda, bar fyrir dómi að hann hefði ekki verið sammála túlkun tollstjóra í umræddu tilviki en ákveðið hafi verið að halda friðinn.

Þrátt fyrir þessa skýru athugasemd hélt stefnandi áfram að tollflokka sambærilegar vörusendingar með sama hætti og áður. Aðfinnsla þessi þykir hafa verið þess efnis að tilefni hafi verið fyrir stefnanda að óska eftir bindandi áliti um tollflokkun vörunnar samkvæmt 142. gr. tollalaga nr. 55/1987 ef hann var enn í óvissu um rétta tollflokkun. Með vísan til framangreinds verður að fallast á með stefnda að líta beri svo á að stefnandi hafi frá þeim degi vitað eða mátt vita um rétta tollmeðferð slíkrar vöru.

Af hálfu stefnda er á því byggt að rétt hafi verið að endurákvarða aðflutningsgjöld af vörusendingum stefnanda sex ár aftur í tímann á grundvelli 5. mgr. 99. gr. tollalaga. Umrætt ákvæði felur einungis í sér heimild til endurákvörðunar að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Dómstólar þykja bærir til að endurskoða mat tollayfirvalda á því hvort og hvernig sé rétt að beita þessari endurákvörðunarheimild. Þar sem ljóst þykir að stefnandi vissi eða mátti vita um rétta tollmeðferð vörunnar eftir 27. mars 2000 er skilyrði 2. tl. 5. mgr. 99. gr. fullnægt og þykja engin rök standa til annars en að fallast á með stefnda að endurákvörðun hafi verið heimil hvað varðar þær sjö vörusendingar sem stefnandi flutti inn eftir þann tíma. Með vísan til þess ber að sýkna stefnda af aðalkröfu stefnanda.

Af þeim 26 vörusendingum sem um er fjallað í þessu máli voru sjö tollafgreiddar eftir 27. mars 2000, þar af ein í almennri tollmeðferð en sex með rafrænni tollmeðferð. Hinar 19 vörusendingar sem mál þetta varðar voru allar afgreiddar í rafrænni tollmeðferð fyrir 27. mars 2000. Stefndi telur að heimilt hafi verið og rétt að endurákvarða aðflutningsgjöld af þeim á grundvelli 3. tl. 5. mgr. 99. gr. tollalaga þar sem slíkt sé heimilt allt að sex ár aftur í tímann þegar um sé að ræða SMT-tollafgreiðslu, án tillits til þess hvað innflytjandi vissi eða mátti vita um rétta tollflokkun.

Af hálfu stefnda er sem fyrr segir byggt á því að stefnandi hafi haft vitneskju um rétta tollflokkun umræddrar eftir að hann fékk athugasemd frá embætti tollstjórans í Reykjavík 27. mars 2000. Þótt ekki sé tekið mið af öðru en framlögðum almennum túlkunarreglum þykir ljóst að tollskráin getur verið villugjörn og reynst getur nokkuð flókið að komast að réttri niðurstöðu um tollflokkun í einstökum tilvikum. Þegar litið er til þeirra ákvæða í tollskrá sem hér er um fjallað verður ekki fallist á með stefnda að lítill vafi hafi verið um tollflokkun umræddra vörusendinga.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hafi, frá því í nóvember 1996 og fram í nóvember 1998, fengið tollafgreiddar í almennri tollafgreiðslu 14 sambærilegar vörusendingar og fjallað er um í þessu máli. Um það leyti hafi hann tekið upp rafræna tollmeðferð en þó fengið eina vörusendingu afgreidda í almennri tollmeðferð síðar. Eins og fram er komið í málinu er verulegur munur á almennri tollafgreiðslu og rafrænni tollafgreiðslu og felst hann aðallega í því að við almenna tollafgreiðslu eru embætti tollstjóra sendir vörureikningar og önnur fylgiskjöl með tollskýrslu og þessi gögn því aðgengileg tollyfirvöldum til skoðunar áður en vara er tollafgreidd. Við rafræna tollmeðferð heldur innflytjandi öllum gögnum en eftirlit er framkvæmt eftirá t.d. með úrtaksathugunum. Þeim sem fá heimild til rafrænnar tollmeðferðar er því sýnt talsvert traust. Að framangreindu virtu þykja gild rök liggja því til grundvallar að mismunandi skilyrði séu sett fyrir endurákvörðun aðflutningsgjalda eftir því hvorri tollmeðferðinni er beitt.

Fyrir liggur að stefnandi hafði um langan tíma tollflokkað sambærilega vöru með sama hætti. Fram á síðari hluta ársins 1998 höfðu umræddar vörusendingar sætt almennri tollmeðferð en eftir þann tíma að mestu rafrænni tollmeðferð. Ekki verður séð að mismunandi tollmeðferð hafi haft nokkur áhrif á tollflokkun stefnanda eða nokkru breytt í reynd varðandi eftirlit og endurskoðun stefnda. Hin sérstöku rök fyrir því að beita hinni ströngu endurákvörðunaraðferð samkvæmt 3. tl. 5. mgr. 99. gr. tollalaga, hvað varðar þær vörusendingar stefnanda sem sættu rafrænni tollmeðferð fyrir 27. mars 2000, þykja því ekki vera fyrir hendi í þessu tilviki.

Með vísan til þess að ekki er byggt á því að stefnandi hafi vitað eða mátt vita um rétta tollflokkun umræddra vörusendinga fyrr en 27. mars 2000 og þess að áður en stefnandi fékk heimild til rafrænnar tollmeðferðar höfðu sams konar vörusendingar hans um langt skeið sætt almennri tollmeðferð, án athugasemda tollyfirvalda um tollflokkunina, þykja efnisleg rök ekki hafa verið fyrir hendi til að endurákvarða aðflutningsgjöld, á grundvelli heimildarákvæðis 5. mgr. 99. gr. tollalaga nr. 55/1987, af umræddum 19 vörusendingum stefnanda, sem afgreiddar voru í SMT-tollmeðferð fyrir 27. mars 2000. Samkvæmt því þykir rétt að fallast á varakröfu stefnanda með því orðalagi sem fram kemur í dómsorði.

Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Ragnar H. Hall hrl. en af hálfu stefnda Óskar Thorarensen hrl.

Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.

 

D ó m s o r ð

Felldur er úr gildi úrskurður ríkistollanefndar, frá 28. febrúar 2002, í máli nr. 10/2001, að því er varðar staðfestingu á endurákvörðun tollstjórans í Reykjavík, frá 15. ágúst 2001, á aðflutningsgjöldum af þeim 19 vörusendingum stefnanda, Íslenska verslunarfélagsins hf., sem tollafgreiddar voru fyrir 27. mars 2000.

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.