Mál nr. 401/2010
- Orlof
|
Fimmtudaginn 17. febrúar 2011. |
Nr. 401/2010. |
Óskar
Rúnar Harðarson (Guðmundur B. Ólafsson hrl.) gegn Eignamiðluninni
ehf. (Karl Axelsson hrl.) |
Orlof.
Í málinu greindi aðila á um
greiðsluskyldu E á orlofi vegna kaupaukagreiðslna til Ó sem hann naut á
starfstíma sínum hjá E á árunum 2003-2006. E byggði meðal annars á því að
kaupaukagreiðslurnar hefðu ekki verið hluti af ráðningarkjörum Ó, heldur inntar
af hendi samkvæmt ákvörðun E hverju sinni í því skyni að veita Ó hlutdeild í
velgengni fyrirtækisins. Í héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti, var
talið nægilega í ljós leitt að umræddar greiðslur hefðu ekki verið umsaminn
hluti af launakjörum Ó. Greiðslurnar hefðu því ekki verið tengdar ráðningar-
eða starfskjörum hans með þeim hætti að taka bæri tillit til orlofs vegna
þeirra á grundvelli 2. mgr. 7. gr. orlofslaga nr. 30/1987. Var E því sýknað af
kröfu Ó í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2010. Hann krefst að stefnda verði gert að greiða sér 2.074.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. maí 2004 til 1. maí 2007, en af 2.074.800 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Óskar Rúnar Harðarson, greiði stefnda, Eignamiðluninni ehf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 2010.
Mál þetta, sem dómtekið
var 4. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Óskari Rúnari
Harðarsyni, Andarhvarfi 9c, Kópavogi, gegn Eignamiðluninni ehf., Síðumúla 21,
Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 27. apríl 2009.
Dómkröfur stefnanda eru
þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 2.074.800, ásamt
dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af
kr. 266.000 frá 01.05.2004 til 01.05.2005, af kr. 744.800 frá 01.05.2005 til
01.05.2006, af kr. 1.489.600 frá 01.05.2006 til 01.05.2007 og af kr. 2.074.800
frá 01.05.2007 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi
málskostnaðar ásamt virðisaukaskatti úr hendi stefnda samkvæmt mati réttarins
eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem lagður yrði fram við aðalflutning
málsins, ef til hans kemur.
Dómkröfur stefnda eru
aðallega þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi
verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum
málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Stefndi krefst þess til vara að dómkröfur stefnanda verði
lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Málsatvik
Málsatvik eru þau að
stefnandi hóf störf fyrir stefnda í september árið 1997 og starfaði við sölu
fasteigna. Hann var starfsmaður stefnda allt þar til 19. janúar 2007, þegar
gerður var starfslokasamningur við stefnanda. Á starfstíma stefnanda var ekki
gerður skriflegur ráðningarsamningur við hann en mánaðarlaun hans voru kr.
450.000 þegar hann lét af störfum hjá stefnda.
Til
viðbótar föstum launum fékk stefnandi frá árinu 2003, eins og aðrir starfsmenn
stefnda, aukagreiðslur eða svokallaða bónusa í janúar ár hvert. Þannig fékk
stefnandi að sögn stefnda kr. 2.500.000,- í bónus vegna ársins 2003, kr.
4.700.000,- vegna ársins 2004, kr. 7.000.000,- vegna ársins 2005 og kr.
5.500.000,- vegna ársins 2006. Í tvö fyrstnefndu skiptin voru greiðslurnar
tilgreindar sem bónus á launaseðlum en í tvö síðarnefndu sem launauppbót.
Við
starfslok stefnanda hjá stefnda 19. janúar 2007 var gerður starfslokasamningur
sem fól í sér uppgjör á milli málsaðila. Með því samkomulagi var ákveðið að
stefnandi fengi full laun fyrir janúar, febrúar, mars og apríl 2007 ásamt áunnu
orlofi. Þá sömdu aðilar um að skipta söluþóknun og þóknun vegna kaupa á
tilteknum eignum með nánar tilgreindum hætti. Uppgjör vegna orlofs kemur fram á
launaseðli, dags. 31. maí 2007.
Með bréfi lögmanns stefnanda til stefnda, dags. 3. febrúar 2009, var
krafist greiðslu orlofs af þeim launauppbótargreiðslum, sem stefandi hafði
fengið í sinn hlut. Með bréfi lögmanns
stefnda, dags. 18. febrúar 2009, var kröfunni mótmælt með vísan til þess að
stefnandi ætti ekki rétt á orlofi vegna umræddra greiðslna. Krafan var ítrekuð
með bréfi, dags. 6. mars 2009, en stefndi mótmælti henni með bréfi, dags. 24.
sama mánaðar, með vísan til fyrri röksemda.
Mál þetta varðar
ágreining aðila um skyldu stefnda til greiðslu orlofs af umræddum
uppbótargreiðslum er greiddar voru stefnanda á árunum 2004 til 2007.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir
dómkröfur sínar á því að hann eigi lögbundinn rétt til orlofsgreiðslna af
heildarlaunum sínum vegna starfa fyrir stefnda, þ.m.t. launauppbótargreiðslum,
og að ekkert liggi fyrir um að stefnandi hafi afsalað sér slíkum rétti eða að
orlof hafi verið innifalið í umræddum launauppbótargreiðslum, hvorki með
samningum né öðrum viðlíka hætti.
Hvað varðar lögbundinn
rétt stefnanda til orlofsgreiðslna vísast til ákvæða laga nr. 30/1987 um orlof,
sbr. 1. gr. laganna þar sem kveðið sé á um að allir þeir sem starfi í þjónustu
annarra gegn launum eigi rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt reglum laganna,
sbr. og 8. gr. laganna sem kveði á um skyldu vinnuveitanda til að greiða
launþega öll áunnin orlofslaun við lok ráðningartíma. Í 2. mgr. 7. gr. laganna komi skýrlega fram
að orlofslaunahlutfall skuli reiknast af heildarlaunum viðkomandi starfsmanns
en með heildarlaunum sé átt við öll laun, hvort sem um sé að ræða föst laun,
yfirvinnu eða aðrar óreglulegar greiðslur sem teljist til launaliða. Hafi þessi
skilningur ítrekað verið staðfestur í dómum Hæstaréttar. Telur stefnandi ljóst
að launauppbótargreiðslur stefnda til stefnanda falli undir skilgreiningu
heildarlauna, enda hafi þær verið greiddar í tengslum við störf stefnanda fyrir
stefnda auk þess sem stefndi hafi gert grein fyrir þeim í launaseðlum stefnanda
og staðið skil á launatengdum gjöldum vegna þeirra.
Þó ekki sé um það kveðið
í lögum um orlof þá hafi almennt verið talið heimilt að aðilar semji um að
orlof sé innifalið í launum eða tilteknum launaliðum starfsmanns, og verði því
ekki greitt síðar. Slíkt sé þó háð því að vinnuveitandi geti sýnt fram á
samning eða samþykki starfsmanns þess efnis og beri hann sönnunarbyrði fyrir
því að slíkt fyrirkomulag hafi verið ákveðið. Í máli þessu liggi ekki fyrir
neitt slíkt samkomulag eða fyrirkomulag. Þvert á móti hafi stefndi skuldbundið
sig til að greiða stefnanda áunnið orlof, sbr. starfslokasamning þann er aðilar
gerðu sem sé í samræmi við áðurnefnda 8. gr. laga um orlof. Við það hafi stefndi
hins vegar ekki staðið þrátt fyrir áskoranir stefnanda.
Þá telur stefnandi rétt
að benda á að fyrningarfrestur orlofskrafna sé fjögur ár skv. 3. gr.
áðurgildandi laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, en
umrædd lög gildi um ágreining þennan hvað fyrningu varðar, sbr. 28. gr.
núgildandi laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Þá hafi Hæstiréttur
túlkað ákvæði 3. mgr. 7. gr. laga um orlof svo, að fyrningarfrestur
orlofskrafna hefjist ekki fyrr en ári eftir upphaf orlofsárs, þ.e.a.s. ári
eftir að það sé gjaldkræft. Þar sem gjalddagi orlofsgreiðslu vegna fyrstu
launauppbótargreiðslu stefnanda hafi verið 1. maí 2004, hófst fyrningarfrestur
þeirrar kröfu þann 1. maí 2005. Byggir stefnandi því á því að enginn hluti
kröfu hans sé niður fallinn sökum fyrningar, svo sem stefndi haldi fram, sbr.
bréf dags. 18. febrúar 2009.
Að sama skapi byggir
stefnandi á því að tómlætissjónarmið geti ekki átt við þegar um orlofskröfur sé
að ræða, enda byggi slíkar kröfur á lögbundnum lágmarksréttindum, sem óheimilt
sé að semja sig undan, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga um orlof, sbr. og 1. gr. laga
nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.
Til nánari skýringar
sundurliðast kröfufjárhæð stefnanda þannig:
Ógreitt orlof vegna launauppbótargreiðslna
Launauppbót greidd: |
1.1.2004 |
1.1.2005 |
1.1.2006 |
1.1.2007 |
Gjalddagi orlofs: |
1.5.2004 |
1.5.2005 |
1.5.2006 |
1.5.2007 |
Launauppbót: |
2.500.000 kr. |
4.500.000 kr. |
7.000.000 kr. |
5.500.000 kr. |
Orlofshlutfall 10,64% |
|
|
|
|
Ógreitt orlof: |
266.000 kr. |
478.800 kr. |
744.800 kr. |
585.200 kr. |
Samtals ógreitt orlof |
|
|
|
2.074.800 kr. |
Sem fyrr greinir hafi
stefndi ekki orðið við áskorunum um að afhenda stefnanda afrit launaseðla hans
vegna greiddra launauppbóta fyrir árin 2003 og 2004. Sé sem fyrr skorað á stefnda að leggja
umrædda launaseðla fram í máli þessu en ljóst megi vera að gögnin liggi fyrir
hjá stefnda. Skuli stefndi bera hallann af því verði umrædd gögn ekki lögð
fram.
Hvað ofangreint
orlofshlutfall varðar sé vísað til kjarasamninga VR og þess að stefnandi hafði
starfað fyrir stefnda í meira en 5 ár þegar til fyrstu launauppbótargreiðslunnar
kom. Dráttarvaxtakröfur stefnanda miðist við gjalddaga hverrar orlofsgreiðslu,
sbr. 1. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.
Kröfum sínum til
stuðnings vísar stefndi til laga nr. 30/1987 um orlof, einkum til 1. gr., 2.
gr., 7. gr. og 8. gr., sem og til 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör
launafólks. Um dráttarvexti sé vísað til III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti
og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. laganna. Um málskostnað
sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um varnarþing
sé vísað til 1. mgr. 33. gr. sömu laga..
Málsástæður
og lagarök stefnda
Stefndi
byggir á því að hugtakið orlof merki ákveðið hlutfall af launum fólks sem það
fær greitt út til þess að geta tekið sér frí frá vinnu. Um rétt til orlofs sé
fjallað í lögum nr. 30/1987 um orlof. Þar komi fram í 1. gr. að allir þeir sem
starfi í þjónustu annarra gegn launum eigi rétt á orlofi samkvæmt reglum sem
settar séu fram í öðrum ákvæðum. Um reiknireglur orlofs sé fjallað í 7. gr.
laganna. Orlof sé greitt af heildarlaunum starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr. sömu
laga. Markmið og tilgangur orlofslaga sé að launþegi njóti sömu launakjara í
orlofi og hann njóti þann tíma sem hann sé við vinnu. Þannig hafi háttað til um
stefnanda sem naut fullra launa þann tíma sem hann var í orlofi og sé raunar
ekki deilt um það í málinu. Verði fallist á kröfur stefnanda væri það í algjöru
ósamræmi við markmið orlofslaga.
Stefndi
byggir kröfu sína um sýknu á því að stefnandi eigi ekki rétt á orlofi vegna
fyrrgreindra bónusgreiðslna þar sem ekki hafi verið um að ræða greiðslu launa
sem falli undir 2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof en stefnandi haldi því
fram í málinu að hann eigi tilkall til orlofsgreiðslna á grundvelli þess
ákvæðis. Sönnunarbyrði um að umræddar
greiðslur falli undir 2. mgr. 7. gr. orlofslaga hvíli á stefnanda. Umræddar bónusgreiðslur hafi einvörðungu
verið inntar af hendi vegna vilja stefnda til að veita starfsmönnum félagsins
hlutdeild í velgengni þess. Þær hafi því ekki verið tengdar vinnuframlagi
stefnanda eða ráðningarkjörum hans með neinum hætti. Fyrir það vinnuframlag
hafi stefnandi, eins og aðrir starfsmenn, fengið föst umsamin laun. Hefði
stefnandi því til að mynda enga kröfu átt á hendur stefnda ef stefndi hefði
ekki greitt honum bónusgreiðslur eins og stefndi hafi gert í raun. Að mati
stefnda hafi því verið um að ræða greiðslur sem stefndi reiddi fram að öllu
leyti umfram skyldu. Geti greiðslurnar ekki fallið undir 2. mgr. 7. gr. laganna
þar sem fram komi að reiknuð orlofslaun fyrir hvert launatímabil séu kauptryggð
þannig að deilt skuli í fjárhæð áunninna orlofslauna með dagvinnukaupi
starfsmanna. Stefnandi hafi í engu skýrt hvernig unnt sé að færa
bónusgreiðslur, sem greiddar séu umfram skyldu, undir reiknireglu 2. mgr. 7.
gr. orlofslaga, enda sé krafan í andstöðu við markmið og eðlilega skýringu
laganna.
Því
sé mótmælt sem röngu að dómaframkvæmd bendi til þess að greiða beri orlof vegna
bónusgreiðslna sem greiddar séu einu sinni á ári, enda hafi ekki reynt á slíka
skyldu fyrir Hæstarétti. Þar sem umræddar greiðslur teljist ekki til launa í
skilningi laga nr. 30/1987 verði að sýkna stefnda af kröfu stefnanda, enda hafi
stefnandi nú þegar fengið greitt það orlof sem hann eigi lögbundinn rétt til á
grundvelli laga nr. 30/1987. Þá sé það alrangt sem fram komi í stefnu að í 2.
mgr. 7. gr. orlofslaga komi fram að með heildarlaunum sé „átt við öll laun,
hvort sem um er að ræða föst laun, yfirvinnu eða aðrar óreglulegar greiðslur
sem teljast til launaliða.
Stefndi
byggir enn fremur á þeirri málsástæðu að krafa stefnanda fari í bága við ákvæði
laga nr. 30/1987 að því leyti að lögin eigi aðeins að tryggja launþegum rétt á
orlofi og hefðbundin launakjör á meðan á orlofstöku standi. Það verði hins
vegar ekki ráðið af lögunum að markmið þeirra sé að skylda vinnuveitendur til
að greiða orlof vegna greiðslna sem verði ekki raktar með beinum hætti til
starfa starfsmanna í þágu vinnuveitanda og sem inntar séu af hendi umfram
skyldu. Þessi skilningur sem stefnandi virðist leggja í orlofsrétt samkvæmt lögum
nr. 30/1987 sé því hvorki í samræmi við orðalag ákvæða laganna né í samræmi við
markmið þeirra. Verði fallist á kröfu stefnanda yrði það í fullkominni andstöðu
við það markmið laganna að launþegar missi einskis í launum sínum á meðan á
orlofi standi.
Þá
sé byggt á því að þar sem stefnandi hafi tekið sér orlof þau ár sem krafa hans
taki til og þannig notið óskertra launa í samræmi við samkomulag málsaðila um
ráðningarkjör hans á þeim tíma, þá geti stefnandi ekki gert tilkall til
orlofsgreiðslna. Varðandi þessa málsástæðu sé enn fremur vísað til þess sem að
framan sé rakið um markmið og tilgang orlofslaga, sem sé m.a. sá að launþegi
njóti óskertra kjara í orlofi en stefnandi hafi ekki sýnt fram á annað. Verði talið, þrátt fyrir allt sem
að framan sé rakið, að greiða beri orlof vegna greiðslna af þessu tagi, sé
vísað til þess að staðfest hafi verið í dómaframkvæmd að málsaðilar geti samið
um að orlof sé innifalið í tilteknum launagreiðslum. Stefndi telur einsýnt,
hvað sem öðru líði, að samkomulag hafi komist á milli aðila við starfslok
stefnanda um að hvorugur ætti neina greiðslu á hinn. Öll háttsemi aðila bendi
enn fremur til þess að þessi skilningur stefnda sé réttur.
Stefndi
byggir á því að stefnandi hafi samþykkt þá tilhögun að greiðsla orlofs kæmi ekki
ofan á bónusgreiðslur til hans. Hafi því komist á samningur þess efnis að ekki
yrði greitt sérstakt orlof vegna bónusgreiðslna heldur bæri að líta svo á að
orlofið væri innifalið í greiðslunum. Þannig hafi það verið skilningur stefnda
og starfmanna hans að ekki bæri að greiða orlof vegna bónusgreiðslnanna en ef
svo skyldi vera væri orlofið innifalið í fjárhæð greiðslnanna. Þessu til
stuðnings sé vísað til fyrirliggjandi yfirlýsinga nítján starfsmanna stefnda,
sem liggi fyrir í málinu. Hér sé um að ræða alla starfsmenn stefnda sem þegið
hafa bónusgreiðslur frá félaginu. Þar komi fram að það hafi ætíð verið
skilningur viðkomandi starfsmanna að hvorki hafi átt að greiða orlof vegna
umræddra bónusgreiðslna né hafi það staðið til. Þá sé staðfestur sá skilningur
viðkomandi starfsmanna að um greiðslur utan venjulegra launa hafi verið að ræða
og ef greiða ætti orlof vegna þeirra væri það innifalið í fjárhæð viðkomandi
greiðslna. Hafi þeir starfsmenn stefnanda sem notið hafa bónusgreiðslna því
staðfest að samkomulagi hafi verið náð um þetta atriði. Hið sama hafi
endurskoðandi félagsins gert. Veki það óneitanlega furðu að einungis stefnandi,
af öllum starfsmönnum stefnda, skuli ekki kannast við slíkt, enda hefði aldrei
komið til greina að stefnandi semdi með öðrum hætti við hann en aðra starfsmenn
sína. Ef skilningur stefnanda fái staðist kunni að hafa stofnast tugmilljóna
króna krafa á hendur stefnda vegna þess að félagið tók þá ákvörðun umfram
skyldu að láta starfsmenn þess njóta velgengni í rekstri þess.
Samkvæmt
framansögðu telji stefndi að sýnt hafi verið fram á að það hafi legið fyrir
samningur á milli aðila um að ekki bæri að greiða sérstakt orlof vegna
bónusgreiðslnanna, en ef talið væri að greiða ætti orlof væri fjárhæð þess
innifalin í greiðslunum. Allt hátterni aðila sýni að þetta samkomulag hafi
verið í gildi.
Stefndi
byggir jafnframt á því að með því að skrifa undir samning um starfslok, dags.
16. janúar 2007, hafi stefnandi samþykkt ofangreindan skilning. Þar með hafi
með endanlegum hætti verið samið um þær greiðslur sem stefnda bar að greiða
stefnanda. Í samningnum sé tiltekið að stefnandi fái full laun fyrir tímabilið
janúar til apríl 2007 ásamt áunnu orlofi. Með ,,áunnu orlofi“ sé átt við það
orlof sem stefnandi hafi átt rétt til vegna fastra launa sinna og hafi á þessu
tímamarki verið ógreitt. Stefndi hafi að öllu leyti staðið skil á þessum
greiðslum. Þeim skilningi stefnanda að tilvísun til áunnins orlofs vísi til
orlofs vegna bónusgreiðslna sé mótmælt, enda eigi hann sér enga stoð í orðalagi
samningsins eða því sem fór málsaðila á milli við gerð samningsins. Með því að
undirrita þennan samning án nokkurs fyrirvara hafi stefnandi samþykkt að hann
ætti ekki rétt til frekari greiðslna úr hendi stefnda, enda hafi samningurinn
verið gerður í tilefni af starfslokum stefnanda. Eðli máls samkvæmt sé fjallað
um allar kröfur aðila í starfslokasamningi. Sé það sérstaklega augljóst í þessu
tilviki þar sem samningurinn sé mjög nákvæmur að öllu efni til. Sé útilokað að
líta svo á að aðilar hafi talið að orlofsmál stefnanda væru óútkljáð, eins og
stefnandi kjósi fyrst að byggja á, rúmum tveimur árum eftir undirritun
samningsins og fimm árum eftir fyrstu bónusgreiðsluna.
Verði
samkvæmt framansögðu að telja næsta augljóst að stefnandi sé bundinn af þessu
samkomulagi í samræmi við meginreglur samningaréttar. Þá verði að hafa í huga
að stefnandi hafi sjálfur samið samninginn sem hér um ræðir og verði í samræmi
við hefðbundnar túlkunarreglur að skýra vafa honum í óhag hvað þetta varðar.
Hér verði enn fremur að líta til menntunar og reynslu stefnanda sem að framan
sé rakin en ljóst sé af dómaframkvæmd hér á landi að gerðar séu ríkari kröfur
en endranær til manna undir slíkum kringumstæðum sem hér um ræðir en stefnandi
sé löggiltur fasteignasali og héraðsdómslögmaður. Enn fremur sé einsýnt að
áralangt tómlæti stefnanda við að hafa kröfur sínar uppi bendi til þess að hann
taldi sig ekki eiga rétt til umþrættra greiðslna.
Verði
ekki talið að bindandi samkomulag hafi komist á milli aðila sé byggt á því að
um venju í samskiptum málsaðila og í samskiptum stefnda við aðra starfsmenn
hafi verið að ræða, enda hafi ekki verið gerð athugasemd við bónusgreiðslur án
sérstaks orlofs í rúmlega fimm ár af hálfu stefnanda eða annarra starfsmanna.
Loks
byggir stefndi kröfu sína um sýknu á því að krafa stefnanda hljóti, hvað sem
öðru líði, að vera fallin niður fyrir tómlæti. Á meðan stefnandi gegndi störfum
hjá stefnda hafi aldrei komið til umræðu að greiða bæri orlof vegna umræddra
bónusgreiðslna. Hafi stefnandi talið slíkt skylt megi ætla að hann hafi strax
gert sér grein fyrir því, enda sé stefnandi löglærður. Hafi honum því borið að
vekja athygli á þessari kröfu sinni án ástæðulauss dráttar frá því að hann
fyrst fékk bónusgreiðslur vegna ársins 2003. Það hafi hann hins vegar ekki gert
fyrr en rúmlega tveimur árum eftir að gerður var við hann starfslokasamningur
eða rúmum fimm árum eftir að honum barst fyrsta greiðslan. Í þessu felist
verulegt tómlæti af hálfu stefnanda og ætti það eitt og sér að leiða til sýknu
stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Ef ekki verður fallist á
sýknukröfu stefnda sé gerð krafa um verulega lækkun bóta. Í stefnukröfu sé
misfarið með þær fjárhæðir sem greiddar hafa verið til stefnanda og verulegt
innbyrðis ósamræmi sé í málatilbúnaði stefnanda að því er varðar stofnun og gjalddaga
krafna hans.
Stefndi byggir á því að
lækka verði kröfu stefnanda þar sem bónusgreiðslur honum til handa fyrir árið
2003 hafi numið kr. 2.500.000, en ekki kr. 3.500.000 eins og fram komi í
stefnu. Hefur stefnandi lækkað fjárkröfur sínar til samræmis við það.
Þá sé krafa stefnanda að
hluta til fyrnd en fyrningarfrestur kaupkrafna sé fjögur ár samkvæmt 1. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrningu skulda og annarra
kröfuréttinda sem gildi um kröfur stefnanda, sbr. 14. gr. orlofslaga. Öllum
sjónarmiðum stefnanda um gjalddaga krafna hans sé sérstaklega mótmælt. Sé
umfjöllunin í innbyrðis ósamræmi og geri raunar ráð fyrir þeirri einkennilegu
stöðu, sem vandséð sé að fái staðist, að stefnandi geti átt tilkall til
dráttarvaxta af fjárkröfum sínum áður en þær áttu að hafa fallið í gjalddaga.
Þannig segi til að mynda, í kafla 2.4 í stefnu, að fyrningarfrestur hafi ekki
hafist fyrr en 1. maí 2005. Í kafla 2.6 sé á hinn bóginn talað um að gjalddagi
kröfunnar hafi verið 1. maí 2004 og dráttarvaxta krafist frá því tímamarki
samkvæmt dómkröfu í stefnu.
Stefndi bendir einnig á
að samkvæmt launaseðlum þá hafi bónus vegna ársins 2003 verið inntur af hendi
vegna almanaksársins 2003 en ekki vegna orlofsársins frá 1. maí 2003 til 30.
apríl 2004. Hið sama gildi um aðrar greiðslur sem stefndi kaus að inna af hendi
til stefnanda, þær taki ekki til orlofsársins í hverju tilviki heldur
almanaksársins. Framsetning krafna stefnanda geri á hinn bóginn ráð fyrir að
bónusgreiðslurnar hafi verið inntar af hendi vegna orlofsársins í hverju
tilviki fyrir sig. Stefndi bendir á að bónusgreiðslur vegna ársins 2003 séu
allt eins vegna orlofsmánaðanna janúar til apríl 2003 og vegna orlofsmánaðanna
maí 2003 til apríl 2004. Sé því rétt að miða hverja bónusgreiðslu við hluta af
árinu á undan en ekki allt árið eins og stefnandi virðist telja rétt. Hvað sem
öðru líði þá hafi að minnsta kosti hluti af kröfu vegna ársins 2003 gjaldfallið
í síðasta lagi 1. maí 2004 og var hún því fyrnd þegar mál þetta var höfðað.
Því orlofshlutfalli sem
miðað sé við í kröfugerð stefnanda sé mótmælt. Stefnandi krefjist 10,64%
orlofshlutfalls en enginn reki sé gerður að því að skýra þetta hlutfall og
byggir stefndi á því að enginn samningur hafi verið gerður þar að lútandi.
Stefnandi vísi einungis til kjarasamninga VR. Óljóst sé hvers vegna miða beri
við slíka kjarasamninga og hvort þeir taki yfir höfuð til stefnanda. Ekki liggi
fyrir að stefnandi hafi greitt nein gjöld til VR. Þá sé óljóst nákvæmlega hvaða
kjarasamning átt sé við og frá hvaða ári. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir
því að miða beri við hærra orlofshlutfall en áskilið sé í lögum nr. 30/1987, en
eins og hér sé ástatt telur stefndi ekki unnt að miða við hærra hlutfall en
10,17%, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna.
Dráttarvaxtakröfu
stefnanda, þar á meðal upphafstíma dráttarvaxta, sé mótmælt. Sé vísað til fyrri
umfjöllunar að framan um gjalddaga krafna stefnanda og að greiðslur orlofs hafi
náð til almanaksársins en ekki orlofsársins í hverju tilviki. Því sé mótmælt að
dráttarvextir geti lagst á orlofsgreiðslur 1. maí 2004, 2005, 2006 og 2007 og
að slíkt eigi sér stoð í dómaframkvæmd. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar verði
þvert á móti ráðið að gjalddagi orlofsgreiðslna sé í lok næsta orlofsárs eftir
að krafa stofnaðist, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987. Verði þrátt fyrir
allt talið að stefnandi eigi lögmætt tilkall til orlofsgreiðslna úr hendi
stefnanda sé rétt að miða upphafstíma dráttarvaxta í fyrsta lagi frá
dómsuppsögu.
Um lagarök vísar stefndi
einkum til tilgreindra ákvæða laga nr. 30/1987 um orlof og meginreglna
samningaréttar. Um dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og
verðtryggingu. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála.
Niðurstaða
Svo sem fram kemur í starfslokasamningi
stefnanda lét hann af störfum hjá stefnda 19. janúar 2007. Samkvæmt grein 2 í
starfslokasamningnum er tekið fram að stefnandi skyldi fá full laun fyrir
mánuðina janúar, febrúar, mars og apríl ásamt áunnu orlofi. Samkvæmt sérstökum
launaseðli, dags. 31. maí 2007, var orlof þetta gert upp með 519.151 krónu. Með
þeirri greiðslu var lokið uppgjöri gagnvart stefnanda vegna starfsloka hans hjá
stefnda.
Í
málinu er ágreiningur með aðilum um greiðsluskyldu stefnda á orlofi sem
stefnandi telur sig eiga tilkall til vegna bónus- eða kaupaukagreiðslna sem
stefnandi naut á starfstíma sínum hjá stefnda. Ágreiningur málsins lýtur að
greiðslum, sem voru inntar af hendi
vegna áranna 2003-2006, en fyrir liggur að þær höfðu einnig átt sér stað fyrir
þann tíma. Af gögnum máls verður ráðið að ekki hafi komið til álita, hvorki hjá
stefnda, né þeim starfsmönnum hans, sem þessar greiðslur fengu, að til viðbótar
þeim skyldi reikna orlof. Sú krafa var fyrst sett fram af hálfu stefnanda rúmum
tveimur árum eftir starfslok hans hjá stefnda.
Samkvæmt
2. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1987 um orlof kemur fram sú meginregla að reikna
skuli orlof af heildarlaunum. Við það verður að miða í þessu efni að um sé að
ræða laun eða greiðslur sem beinlínis leiðir af ráðningarsamningi aðila. Ekki
var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda og af hálfu stefnda er
því haldið fram að bónusgreiðslur þær sem hér um ræðir hafi ekki verið hluti af
ráðningarkjörum stefnanda. Greiðslur þessar hafi eingöngu verið inntar af hendi
samkvæmt ákvörðun stefnda hverju sinni í því skyni að veita starfsmönnum
stefnda hlutdeild í velgengni fyrirtækisins þ.á. m. stefnanda. Af gögnum máls
þykir nægilega í ljós leitt, m.a. af skýrslutökum fyrir dómi, að greiðslur
þessar hafi ekki verið umsaminn hluti af launakjörum starfsmanna stefnda.
Verður því fallist á það með stefnda að greiðslur þessar hafi ekki verið
tengdar ráðningar- eða starfskjörum stefnanda með þeim hætti að taka beri
tillit til orlofs vegna þeirra á grundvelli 2. mgr. 7. gr. orlofslaga. Ber
þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu, en eftir
atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson
héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Eignamiðlunin
ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Óskars Rúnars Harðarsonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur
niður.