Print

Mál nr. 609/2007

Lykilorð
  • Kynferðisbrot
  • Tilraun

                                     

Fimmtudaginn 23. október 2008.

Nr. 609/2007.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.

 Guðrún Sesselja Arnardóttir hdl.)

 

Kynferðisbrot. Tilraun.

X var ákærður fyrir tilraun til kynferðisbrots með því að hafa farið í íbúð að Ö í Reykjavík í því skyni að hafa samræði við 13 ára stúlku. Hafði X komist í kynni við stúlkuna í gegnum spjallrás á netinu en umrædd stúlka var í raun uppspuni sjónvarpsþáttarins Kompáss á Stöð 2. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar samskipti ákærða á spjallrásinni við svokallaða tálbeitu væru virt í heild benti allt til þess að hann hefði talið að hann myndi hitta þar 13 stúlku í því skyni að hafa við hana kynferðismök, enda yrði að telja skýringar hans á för sinni þangað afar ósennilegar. Gegn neitun ákærða og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms yrði sakfelling á honum hins vegar ekki reist á þeim gögnum einum sem ákæruvaldið byggði á í málinu og fengin voru með þeim hætti sem þar væri nánar lýst. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu X því staðfest.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson. 

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. október 2007 af hálfu ákæruvalds sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing.

Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.

Í málinu er ákærða gefin að sök tilraun til kynferðisbrots með því að hafa 10. janúar 2007 farið í íbúð að Öldugötu 7a í Reykjavík til að hafa kynferðismök við 13 ára stúlku, sem hann hafi gert ráð fyrir að hitta þar í því skyni í samræmi við samskipti við viðmælanda á spjallrás á netinu sama dag. Í raun hafi stúlkan verið uppspuni sjónvarpsþáttarins Kompáss á Stöð 2. 

Í héraðsdómi er nánar lýst aðdraganda, tilgangi og gerð sjónvarpsþáttarins, samskiptum ákærða á tiltekinni spjallrás við viðmælanda sinn, svo og komu ákærða í áðurnefnda íbúð. Þegar samskipti ákærða á spjallrásinni við svokallaða tálbeitu og símtal hans við hana örskömmu áður en hann fór inn í íbúðina eru virt í heild bendir allt til að hann hafi talið að hann myndi hitta þar 13 ára stúlku í því skyni að hafa við hana kynferðismök, enda eru skýringar hans á för sinni þangað afar ósennilegar. Gegn neitun ákærða og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður sakfelling á hendur honum hins vegar ekki reist á þeim gögnum einum sem ákæruvaldið byggir á og fengin voru með þeim hætti sem þar er nánar lýst. Verður niðurstaða héraðsdóms um að sýkna ákærða því staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest en allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður. 

Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 249.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. október 2007

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 1. júní 2007 á hendur: ,,X, kennitala og heimilisfang [...],

fyrir tilraun til kynferðisbrots með því að hafa, miðvikudaginn 10. janúar 2007, farið í íbúð í Öldugötu 7a, Reykjavík, í því skyni að hafa kynferðismök við 13 ára stúlku sem hann gerði ráð fyrir að hitta þar til kynferðismaka í samræmi við ráðagerðir í samskiptum við viðmælanda á spjallrás á netinu þann 10. janúar 2007, sem sagðist vera 13 ára stúlka. Í raun var stúlkan á spjallrásinni uppspuni sjónvarpsþáttarins Kompáss á Stöð 2.

Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 11. gr. laga nr. 61/2007, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“

Verjandi ákærða krefst sýknu og málsvarnarlauna úr ríkissjóði samkvæmt reikningi.

Með bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettu 23. janúar sl., til sjónvarpsstjóra Stöðvar 2 var þess farið á leit að lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu yrðu látin í té gögn er vörðuðu tiltekna Kompásþætti sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni. Þar á meðal voru gögn er varða sakarefni máls þessa. Í bréfi lögmanns Stöðvar 2 segir m.a. um erindi lögreglustjórans. ,,Tilgangurinn með vinnslu þáttarins var að fjalla með almennum hætti um ákveðna skuggahlið íslensks samfélags. Var það gert með tilliti til hlutverks fjölmiðla í samfélaginu, að afhjúpa það sem miður fer og upplýsa almenning. Tilgangur þáttarins var ekki að fletta ofan af nánar tilgreindum einstaklingum og verða þess valdandi að ríkisvaldið kynni hugsanlega að koma fram refsingu á hendur þeim, heldur var þetta liður í umfjölluninni almennt.“ Síðan segir í bréfinu að fréttastofa Stöðvar 2 hafi í þetta skiptið ákveðið að gera undantekningu frá vinnureglum sínum um að afhenda lögreglu umbeðin gögn sem var gert.

Umfjöllun Kompáss byggðist á auglýsingu sem fréttamenn Kompáss settu inn á vefsíðuna einkamál.is auglýsingin er svofelld ,,Hæ ég er sæt og vel vaxin stelpa, langar að kinnast eldri strák. Ég er samt mjög fullorðinsleg, en ég er eigilega bara 13. Sendu mail á addapink93@hotmail. com ekkert rugl samt“.

Á grunni þessara gagna hófst lögreglurannsókn gegn ákærða og var tekin af honum skýrsla 31. janúar sl. þar sem honum var kynnt sakarefnið sem var ,,tilraun til kynferðisbrots, en sunnudaginn 28. janúar 2007 birtist myndbrot af honum í fréttaskýringaþættinum Kompási á Stöð 2 þar sem hann mætti á Öldugötu 7 til að hitta 13 ára stúlku.“

Við rannsóknina og við skýrslutökuna hjá lögreglu 31. janúar sl. var ákærða ekki gefið að sök að hafa farið að Öldugötu 7a í því skyni að hafa kynferðismök við 13 ára stúlku eins og nú er ákært fyrir. 

Við skýrslutökunum neitaði ákærði að hafa farið að Öldugötu 7 í kynferðislegum tilgangi. Þá kvað hann sér hafa verið ljóst, eftir að hafa rætt við stúlkuna í síma að hún var eldri en 13 ára.

Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.

Ákærði neitar sök og kvað ekki hafa vakað fyrir sér með förinni að Öldugötu 7a hinn 10. janúar sl. að hafa kynferðismök við 13 ára gamla stúlku. Ákærði staðfesti að hafa haft samskipti á spjallrás á netinu við einstakling eftir auglýsingu á einkamál.is en hann kvaðst þekkja þá síðu nokkuð. Tók hann fram að allt að 90% af samskiptum þar væru ,,rugl og bull“. Ákærði kvað hafa vakað fyrir sér að athuga hvort það gæti verið rétt að 13 ára stúlka á bak við samskiptin en hann tók fram að auglýsingar á einkamál.is væru óheimilar yngra fólki en 18 ára. Ákærði staðfesti að útprentun af netsamskiptum meðal gagna málsins væru samskipti sín og einstaklingsins sem stóð að baki auglýsingunni sem að ofan greinir. Hann kvaðst, áður en hann fór að Öldugötu 7a, hafa rætt tvisvar eða þrisvar sinnum símleiðis við einstaklinginn sem hann átti netsamskiptin við og kvaðst hann þegar hafa gert sér grein fyrir því að hún var ekki 13 ára stelpa. Ekki hafi verið erfitt að gera greinarmun á 13 ára stelpu og fullorðinni konu að sögn ákærða. Hann kvaðst auk þess hafa verið búinn að átta sig á því áður að einstaklingurinn sem hann var í netsamskiptum við var ekki 13 ára gömul stelpa. Ákærði kvað tilganginn með för sinni að Öldugötu 7a hafa verið þann að sannreyna forvitni sína um það hvort það gæti hugsast að 13 ára einstaklingur stæði á bakvið auglýsinguna. Ákærði kvaðst þekkja hvernig netsamskiptin þar væru ,,fantasíur og rugl og sýndarveruleiki“ sem ekkert væri að marka. Hann hafi orðið þessa áskynja í netsamskiptum þar sem fólk kæmi fram undir fölskum forsendum og þess háttar.

Vitnið A, ritstjóri Kompáss, lýsti aðdraganda, tilgangi og gerð Kompásþáttarins sem hér um ræðir. Hann lýsti því að auglýsingin sem getið var um að framan hafi verið sett inn á netsíðuna einkamál.is. Hann kvað sérstakt leyfi hafa verið fengið hjá einkamál.is til að koma auglýsingunni þar inn. Þetta hafi þurft sökum þess að einstaklingurinn sem hlut á að máli er sagður 13 ára en 18 ára aldurstakmark sé fyrir sambærilegar auglýsingar. A lýsti því að ákærði hefði haft símsamband við 28 ára gamla konu sem Kompás hafði á sínum snærum í því skyni að hafa samband við ákærða bæði símleiðis og á netinu. A vildi ekki gefa upp nafn konunnar sem hann kallaði tálbeitu þar sem henni hafi verið lofað því fyrir fram auk þess sem hún hafi verið ,,verkfæri“ í þeim skilningi að vitnið og samstarfsmaður hans, B, hafi ákveðið framvinduna. A kvast vita að til væru einhvers konar reglur um tálbeitu við rannsókn sakamála en þessa vitneskju hafi hann fengið eftir viðtöl við lögreglu, fólk hjá saksóknara og fleiri. Hann kvað þáttagerðarmenn ekki hafa kynnt sér efni þessara reglna. Hann kvaðst ekki vita hvort það sem gert var við gerð þáttarins rúmaðist innan heimildar samkvæmt framangreindum reglum enda taldi hann sig ekki bundinn af þeim við gerð fréttaþáttar.

Vitnið B, framleiðandi Kompáss, lýsti tilgangi með gerð Kompásþáttarins og aðdraganda að honum. Hann lýsti aðferðinni sem notuð var og tilbúningi persóna sem settar voru á netið og að auglýsingin, sem getið er um að framan, hafi verið sett á einkamál.is. Fengist hafi leyfi til að hafa auglýsinguna þar inni. Leyfið hafi þurft vegna þess að einstaklingurinn í auglýsingunni er sagður vera 13 ára gamall, en 18 ára aldurstakmark sé fyrir sambærilegar auglýsingar. B kvað konuna, tálbeituna, sem kom fram sem 13 ára stúlku hafa verið 30 ára gamla konu. B kvað þáttagerðarmenn hafa hugleitt notkun tálbeitu eins og gert var og vita af takmörkuðum heimildum lögreglu til notkunar tálbeitu. Hann tók hins vegar fram að sjónvarpsþáttagerðarmennirnir væru ekki rannsakendur mála og reglur um tálbeitu ættu ekki við um þá. B neitaði að gefa upp nafn konunnar sem kom fram sem tálbeita af sömu ástæðum og vitnið A en vitnisburður hans um þetta var rakinn að ofan.

Niðurstaða

Framleiðandi og ritstjóri Kompásþáttarins, sem í ákæru greinir, lýstu tilgangi með gerð þáttarins og því hvernig tálbeita var notuð. Við flutning málsins var vikið að  lögmæti hluta framlagðra gagna, einkum þeirra sem til urðu við gerð sjónvarpsþáttarinns með aðstoð tálbeitu. Engin fyrirmæli eru í lögum um notkun tálbeitu við lögreglurannsóknir. Ríkissaksóknari gaf á árinu 1999 út fyrirmæli um notkun tálbeitu. Þar segir í 2. lið að heimilt sé að nota tálbeitu þegar sterkur grunur sé um að verið sé að fremja eða reynt verði að fremja alvarlegt afbrot. Þá segir í 8. lið reglnanna að ekki megi nota tálbeitu til þess að kalla fram refsiverða háttsemi sem ella hefði ekki verið framin. Þessi tvö sjónarmið eru meðal þeirra grundvallarsjónarmiða sem hafa þarf í huga við mat á lögmæti tálbeitu en þessi sjónarmið verða einnig leidd af hæstaréttarmálinu nr. 67/1993. Augljóst er að reglur um heimild til notkunar tálbeitu við lögreglurannsóknir eiga ekki við um fjölmiðla. Af framangreindum reglum ríkissaksóknara og af viðurkenndum óskráðum meginreglum í íslenskum rétti er ljóst að lögreglu hefði ekki, við rannsókn máls, verið heimilt að beita þeim aðferðum sem þáttagerðarmennirnir notuðu í samskiptum við ákærða. Það er því mat dómsins að verulegur vafi leiki á því hvort lögreglu hafi verið heimilt að nota gögn, sem aflað hefur verið á þann hátt sem raun ber vitni, sem grundvöll rannsóknar sakamáls. Yrði það heimilað myndi það af augljósum ástæðum skerða mjög réttaröryggi. Málsmeðferð og sakfelling, sem reist væri á gögnum sem aflað væri á viðlíka hátt, kynni að fara í bága við meginreglur sem lýst er í 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það er því mat dómsins að sönnunargildi gagnanna sem aflað var á þann hátt sem lýst var sé mjög takmarkað, ef nokkurt. Þessi gögn ber hins vegar að meta eins og öll önnur gögn málsins.

Ákærða er gefið að sök ,,tilraun til kynferðisbrots með því að hafa, miðvikudaginn 10. janúar 2007, farið í íbúð í Öldugötu 7a, Reykjavík, í því skyni að hafa kynferðismök við 13 ára stúlku sem hann gerði ráð fyrir að hitta þar til kynferðismaka í samræmi við ráðagerðir í samskiptum við viðmælanda á spjallrás á netinu þann 10. jánúar 2007, sem sagðist vera 13 ára stúlka.“ Ákærði hefur borið að hann hafi ekki farið að Öldugötu 7a í þessu skyni. Ákærði hefur fyrir dómi og hjá lögreglu borið að hann hafi gert sér grein fyrir því að viðmælandinn hafi ekki verið 13 ára stúlka heldur fullorðin kona eins og hann bar um. Þetta kvaðst ákærði m.a. hafa ráðið af símtölum sínum við konuna. Konan sem hér um ræðir hefur ekki komið fyrir dóm og ekki liggur fyrir hver hún er. Hins vegar liggur fyrir vitnisburður þáttagerðarmannanna um að konan sé um þrítugt. Samkvæmt þessu gat ákærði ekki fullframið brot það sem honum er gefið að sök að hafa gert tilraun til að fremja. Hafi verið um tilraun að ræða var hún ónothæf. Það eitt leysir ákærða þó ekki undan sök. Meta verður ásetning ákærða eins og hér stendur á. Það er mat dómsins, að netsamskipti ákærða við þáttagerðarmennina eða tálbeituna, geti ekki talist sönnun um það að ákærði hafi haft ásetning til þess að fremja brotið sem hann er ákærður fyrir. Helgast þetta álit dómsins af því hvernig stofnað var til samskiptanna og að gögnin, sem til urðu við gerð þáttarins, hafi lítið sönnunargildi í máli þessu. Vikið var að þessu að framan. Þá geta samskipti á netinu, eins og hér um ræðir, þar sem ýmislegt er sagt, sem ekki á neitt skylt við raunveruleikann, ekki orðið grundvöllur sakfellingar í opinberu máli. Þá er ekkert fram komið í málinu sem leiðir til þess að hafna eigi framburði ákærða um það að hann hafi gert sér grein fyrir því að hann hafði símsamband við fullorðna konu áður en hann fór að Öldugötu 7a en ekki 13 ára stúlku.

Samkvæmt þessu er ósannað, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi haft ásetning til að fremja brotið sem í ákæru greinir og ber því að sýkna hann.

Eftir þessum úrslitum skal allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði þar með taldar 404.625 krónur í málsvarnarlaun til Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns. Þóknunin er fyrir vinnu á rannsóknarstigi og undir dómsmeðferð málsins og hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.  

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara, flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með taldar 404.625 krónur í málsvarnarlaun til Guðrúnar Sesselju Arnardóttur héraðsdómslögmanns.