Print

Mál nr. 247/2003

Lykilorð
  • Ríkisstarfsmenn
  • Áminning

Fimmtudaginn 18

 

Fimmtudaginn 18. desember 2003.

Nr. 247/2003.

Guðmundur Ragnar Ingvason

(Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

 

Ríkisstarfsmaður. Áminning.

Í málinu krafðist G ógildingar á áminningu sem S skipulagsstjóri veitti honum 1. júní 2002. Var þar vísað til ítrekaðra synjana G á að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanns, en G gegndi þá stöðu sviðsstjóra rekstrarsviðs Skipulagsstofnunar. Átti ágreiningur G og S rætur að rekja til samnings S við A um vinnuframlag A í þágu stofnunarinnar samhliða doktorsnámi í Svíþjóð. Í febrúar 2002 gaf S fyrirmæli um greiðslu yfirvinnu til A vegna desembermánaðar 2001. G neitaði þar sem umræddur starfsmaður hefði ekki skilað fullri dagvinnu fyrir mánuðinn í samræmi við fyrrnefndan samning. Ítrekaði S fyrirmæli sín með þeirri skýringu að yfirvinnan væri til komin vegna ákveðins verkefnis utan samningsins sem A hefði tekið að sér að beiðni S. G neitaði enn og var í kjölfarið veitt hin umdeilda áminning. Byggði G á því í málinu að fyrrnefndur samningur hafi verið ólögmætur og áminning til hans óréttmæt. Í dómi Hæstaréttar var talið að samningur S við A hafi verið óvenjulegur að efni og verulega til hagsbóta fyrir A, en þrátt fyrir það væri ekki fram komið að S hefði farið út fyrir valdheimildir sínar við gerð hans. G hafi ekki verið rétt að fenginni fyrrnefndri skýringu að bera brigður á heimildir yfirmanns síns til að ákveða A yfirvinnugreiðslur og þegar hann hafi neitað ítrekað að hlýða fyrirmælum um nefndar greiðslur hafi hann brotið gegn starfsskyldum sínum og áminningin því verið réttmæt.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. júní 2003. Hann krefst þess, að áminning, sem skipulagsstjóri ríkisins veitti honum 1. júní 2002 verði felld úr gildi og stefndi dæmdur til að greiða sér miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. ágúst 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara, að fjárkrafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Atvikum málsins og málsástæðum aðila er skilmerkilega lýst í héraðsdómi. Lýtur ágreiningur aðila annars vegar að lögmæti samnings skipulagsstjóra við aðstoðarskipulagsstjóra 30. maí 2001 um vinnufyrirkomulag þess síðarnefnda í þágu Skipulagsstofnunar á tímabilinu frá 1. ágúst 2001 til 31. júlí 2003 samhliða doktorsnámi í Stokkhólmi, en þessi samningur hefur nú verið framlengdur til 31. janúar 2004. Hins vegar er deilt um réttmæti áminningar, sem skipulagsstjóri veitti áfrýjanda 1. júní 2002 „vegna ítrekaðra synjana ... á að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanns ...“ um greiðslu til aðstoðarskipulagsstjóra vegna yfirvinnu í desember 2001 umfram skuldbindingar samkvæmt framangreindum samningi, en áfrýjandi gegndi þá stöðu sviðsstjóra rekstrarsviðs. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram, að áfrýjandi hefur með samkomulagi við Skipulagsstofnun látið þar af störfum.

Við úrlausn málsins ber að líta til þess, að í 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins kemur fram, að forstöðumaður ríkisstofnunar beri ábyrgð á, að hún starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf, sem ráðherra setur honum samkvæmt 1. mgr. Forstöðumaður beri einnig ábyrgð á því, að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Sé út af brugðið geti ráðherra veitt forstöðumanni áminningu samkvæmt 21. gr. laganna eða veitt honum lausn frá embætti, hafi hann gerst sekur um stórfellda eða ítrekað vanrækslu í starfi. Í 49. gr. laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins segir, að „forstöðumenn og stjórnir ríkisaðila bera ábyrgð á því að fjárhagsráðstafanir þeirra séu í samræmi við heimildir.“ Geti brot varðað „skyldur opinberra starfsmanna samkvæmt lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.“ Þá er þess og að gæta, að með bréfi 24. mars 1999 fól fjármálaráðuneytið Skipulagsstofnun framkvæmd kjarasamninga fyrir sína hönd samkvæmt heimild í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. 1. gr. laga nr. 119/1990. Sagði í bréfinu, að heimildin fæli það í sér, að stofnunin annaðist með öllu ráðningar- og launamál starfsmanna sinna í samræmi við lög, reglur, kjarasamninga og fyrirmæli þar að lútandi. Loks má nefna, að í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 70/1996 sagði, að það væri einn meginþátta tilgangs þess, að „auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnana og möguleika þeirra til að taka ákvarðanir er varða stjórnun og starfsmannahald, jafnframt því sem gerðar eru auknar kröfur til þeirra og ábyrgð þeirra aukin.“

Ekki verður fallist á með stefnda, að hinn umdeildi samningur fái sérstaka stoð í grein 10.1.1 í kjarasamningi Félags íslenskra náttúrufræðinga við stefnda eða 2. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 70/1996. Samningurinn var í senn óvenjulegur að efni og verulega til hagsbóta fyrir aðstoðarskipulagsstjóra. Þrátt fyrir það er ekki fram komið, að skipulagsstjóri hafi með gerð samningsins farið út fyrir framangreindar valdheimildir. Einnig liggur fyrir, að afrit af honum var sent umhverfisráðuneytinu, sem hreyfði engum athugasemdum. Þá er óumdeilt, að skipulagsstjóri fór ekki með þessari ráðstöfun út fyrir fjárheimildir stofnunarinnar.

Með tölvupósti 5. febrúar 2002 sendi skipulagsstjóri áfrýjanda yfirlit yfir yfirvinnu aðstoðarskipulagsstjóra í desember 2001, sem unnin hafi verið með fyrirfram samþykki hans, og nam heildarfjöldi yfirvinnutíma 71,5 klst. Sagði í bréfinu, að mikill fjöldi yfirvinnutíma skýrðist af því, að hallað hefði verulega á hlutfallið 25% - 75% milli þess tíma, sem aðstoðarskipulagsstjóri hefði unnið beint að verkefnum fyrir stofnunina annars vegar og rannsóknarverkefni hins vegar. Með tölvupósti 19. febrúar neitaði áfrýjandi að skrá þessar yfirvinnustundir í launakerfið, þar sem 6,5 klst. skorti á, að dagvinnu hefði verið náð í desember 2001. Í svari skipulagsstjóra til áfrýjanda 20. febrúar kom fram sú viðbótarskýring, að hann hefði sérstaklega óskað eftir því, að starfsmaðurinn ynni að umsögn um aðalskipulag Reykjavíkur, sem hefði falið í sér vinnu umfram það, sem ráðgert hefði verið í samkomulaginu 30. maí 2001 og því yrði greitt fyrir það sem yfirvinnu. Að þessum skýringum fengnum var áfrýjanda ekki rétt að bera brigður á heimildir yfirmanns síns til að ákveða þessum tiltekna starfsmanni yfirvinnugreiðslur fyrir sérstaklega umsamið verk, enda gat skipulagsstjóri einn borið starfslega ábyrgð á réttmæti ákvörðunar sinnar. Þegar áfrýjandi neitaði eftir þetta ítrekað að hlýða fyrirmælum yfirmanns síns um þessa greiðslu braut hann gegn starfsskyldum sínum samkvæmt 15. gr. laga nr. 70/1996. Áminning skipulagsstjóra var því réttmæt, sbr. 21. gr. sömu laga, og var undirbúningi hennar í engu áfátt.

Með þessum athugasemdum og annars með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er, að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. mars 2003.

         Mál þetta, sem dómtekið var 20. þessa mánaðar, er höfðað 26. ágúst 2002 af Guðmundi Ragnari Ingvasyni, Lindarbergi 88, Hafnarfirði, gegn Skipulagsstofnun, Laugavegi 166, Reykjavík.

         Stefnandi krefst þess, að áminning, sem stefndi veitti stefnanda með bréfi, dagsettu 1. júní 2002, verði dæmd ógild. Þá krefst hann, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá stefnu­birtingardegi til greiðsludags. Að lokum gerir stefnandi kröfu um málskostnað úr hendi stefnda.

         Stefndi gerir þá kröfu aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda, en til vara,  að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður falli niður.

I.

         Stefnandi hefur frá árinu 1997 verið starfsmaður stefnda, Skipulagsstofnunar, og frá 1. júní 1999 hefur hann gegnt starfi sviðsstjóra rekstrarsviðs. Meðal verkefna stefnanda samkvæmt starfslýsingu og skipuriti er að sinna kjara- og launamálum, en með bréfi fjármálaráðherra til stofnunarinnar, dagsettu 24. mars 1999, var stefnanda falið að annast ráðningar- og launamál starfsmanna sinna í samræmi við lög, reglur, kjarasamninga og fyrirmæli þar að lútandi. Sú ráðstöfun var heimiluð í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. l. gr. laga nr. 119/1990. Á vormánuðum 2001 ákvað skipulagsstjóri fyrir hönd stefnda að ganga til samninga við Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur, sviðsstjóra skipulags- og byggingasviðs og aðstoðarskipulagsstjóra, um að hún ynni að ákveðnum verkefnum fyrir stefnda samhliða doktorsnámi sínu í Stokkhólmi í Svíþjóð. Var á gert samkomulag 30. maí 2001 um vinnufyrirkomulag Ásdísar Hlakkar á tímabilinu frá 1. ágúst 2001 til 31. júlí 2003. Í samkomulaginu felst, að þann tíma, sem Ásdís Hlökk er í náminu, greiðir stofnunin henni full laun, ferðakostnað til og frá Stokkhólmi til Íslands, ferðakostnað (fargjald og dagpeninga) vegna ferða hennar á aðra fundi og ráðstefnur, hluta símakostnaðar og fartölvu. Segir í l. gr. samkomulagsins, að hún taki að sér rannsóknarverkefni, sbr. verkefni 3.11.1, 3.12.1 og 3.10.5 í ársáætlun Skipulagsstofnunar. Þá skuli hún vinna ýmis verkefni í fjarvinnslu, sbr. verkefnaáætlun skipulags­- og byggingasviðs og önnur verkefni samkvæmt ósk skipulagsstjóra. Þessi verkefni skuli unnin að mestu í Stokkhólmi. Auk þessa er ákveðið, að Ásdís Hlökk vinni í Reykjavík venjubundin störf aðstoðarskipulagsstjóra tiltekinn tíma ársins. Í 2. gr. er kveðið á um, að á því 24 mánaða tímabili, sem samkomulagið tekur til, skuli Ásdís Hlökk í aðalatriðum vera 16 mánuði í Stokkhólmi þar sem 3/4 hlutar vinnutíma fara í rannsóknarverkefnið og ¼ hluti í fjarvinnsluverkefni. Þá skuli hún vera 6 mánuði af tímanum í Reykjavík í starfi aðstoðarskipulagsstjóra. Samkvæmt samkomu­laginu er ekki gert ráð fyrir yfirvinnugreiðslum þann tíma, sem dvalið er í Svíþjóð, og skuli orlof tekið jafnóðum á viðkomandi orlofsári. Afrit af þessu samkomulagi, fullfrágengnu og undirrituðu, var sent umhverfisráðuneytinu með bréfi 5. júní 2001. Þegar samkomulagið lá fyrir, taldi stefnandi sér skylt að hlutast til um, að það væri efnt af hálfu stofnunarinnar, þar sem launamál voru á hans starfssviði.

         Hinn 4. desember 2001 sendi Ásdís Hlökk tölvupóst frá Svíþjóð til allra starfsmanna Skipulagsstofnunar, þar sem hún upplýsti, að hún myndi gera tilraun til að nýta viðverukerfi stofnunarinnar, þrátt fyrir að hún væri í Svíþjóð. Kveðst stefnandi hafa litið á þessar daglegu tímaskráningar hennar í viðverukerfið frá Svíþjóð sem tæmandi vinnutíma­skráningar og yfirfarið þær sem slíkar. Vinnutímaskráningar Ásdísar Hlakkar í viðveruskrána í desember 2001 reyndust vera alls 65,5 klukkustundir. Þegar bætt hafði verið við 24 klukkustundum í vinnuferð til Brussel 5. - 7. desember 2001 svo og 40 klukkustundum í teknu orlofi í desember 2001 samkvæmt upplýsingum Ásdísar Hlakkar, námu vinnustundir hennar í desember 2001 samtals 129,5 klukkustundum. 

         Þann 5. febrúar 2002 sendi skipulagsstjóri stefnanda tölvupóst, þar sem hann lagði fyrir stefnanda að greiða Ásdísi Hlökk 71,5 yfirvinnustundir í desembermánuði 2001. Með fylgdi skjal úr töflureikni, sem Ásdís Hlökk hafði útbúið. Bar skjalið með sér, að  vinnustundir Ásdísar Hlakkar í desember hefðu verið 71,5. Er þar og gefið til kynna, að um yfirvinnu sé að ræða. Stefnandi leit hins vegar svo á, að við einfalda skoðun á skjalinu sæist, að þarna væri um að ræða allar þær vinnustundir, sem Ásdís Hlökk vann í mánuðinum, ef til vill að undanskilinni vinnuferðinni til Brussel. Sæist það best af því, að þessar 71,5 vinnustundir beri að mestu leyti upp á sömu daga og hún hafði skráð viðveru í vinnuskráningarkerfi stofnunarinnar. Taldi stefnandi sér því  óheimilt að greiða þessar 71,5 stundir sérstaklega sem yfirvinnu, og væri slíkt í andstöðu við lög, reglur og góðar starfsvenjur. Þar fyrir utan væri það í andstöðu við skriflegar starfsreglur stefnda, settar 6. janúar 1999. Kveðst stefnandi því hafa séð sig knúinn til þess að hafna að skrá og greiða Ásdísi 71,5 klukkustundir vegna unninnar yfirvinnu í desember 2001. Í framhaldi af þessari niðurstöðu sinni sendi stefnandi skipulagsstjóra tölvupóst síðla dags 19. febrúar 2002 og upplýsti um afstöðu sína. Skipulagsstjóri var ósáttur við þessa afstöðu stefnanda og 20. febrúar 2002 áttu sér stað tölvupóstsamskipti, þar sem skipulagsstjóri reyndi að fá stefnanda ofan af þessari afstöðu. Stefnandi hélt fast við sitt og benti skipulagsstjóra enn fremur á, að hann gæti greitt Ásdísi Hlökk þessa fjármuni án atbeina stefnanda.

         Vegna framangreindrar synjunar stefnanda sendi skipulagsstjóri bréf til Ríkisendurskoðunar 25. febrúar 2002 og óskaði eftir, að stofnunin legði mat á lögmæti samkomulagsins frá 30. maí 2001 við Ásdísi Hlökk. Einnig sendi hann bréf til umhverfisráðuneytisins 25. febrúar 2002. Var erindið það sama og til Ríkisendurskoðunar, en að auki var ráðuneytið innt eftir áliti á því, hvort ástæða væri til að veita stefnanda formlega áminningu.

         Áður en svarbréf bárust skipulagsstjóra frá ríkisendurskoðanda og umhverfis-ráðuneyti sendi hann stefnanda bréf, sem dagsett er 20. mars 2002. Upplýsti skipulagsstjóri þar, að þrátt fyrir að svör hefðu ekki borist frá ríkisendurskoðanda og umhverfisráðuneyti, sæi hann sér ekki fært að bíða lengur með viðbrögð sín við neitun stefnanda. Þá ítrekaði hann fyrirmæli til stefnanda um að skrá og greiða 71,5 klukkustunda yfirvinnu Ásdísar Hlakkar, þannig að hún kæmi til greiðslu 1. apríl 2002. Yrði stefnandi ekki við því, yrði litið á það sem ótvírætt brot á starfsskyldum hans samkvæmt 15. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og gæti gæti það leitt til formlegrar áminningar samkvæmt 21. gr. sömu laga. Stefnandi ritaði skipulagsstjóra bréf 30. mars 2002, þar sem hann neitaði að verða við þessu. Þá ritaði stefnandi bréf til Ríkisendurskoðunar og umhverfisráðuneytis 31. mars 2002 vegna málsins.

         Í bréfi ríkisendurskoðanda til skipulagsstjóra, dagsettu 2. maí 2002, var fjallað um lögmæti samningsins. Taldi ríkisendurskoðandi, að samningurinn ætti stoð í 4. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997, ákvæði 10.1.1. í gildandi kjarasamningi FÍN við ríkið, 2. mgr. 9. gr. og 13. gr. laga nr. 70/1996. Taldi hann því, að samningurinn væri lögmætur. Þrátt fyrir þetta, taldi hann, að ekki yrði fram hjá því litið, að samningurinn væri á margan hátt nokkuð vilhallur starfsmanninum. Vegna yfirvinnustundanna 71,5 í desember komst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu, að greiðsla þeirra væri tæpast ólögleg.

         Í framhaldi af ofangreindu bréfi ríkisendurskoðanda ritaði skipulagsstjóri stefnanda bréf 7. maí 2002 og bauð honum að koma að skriflegum athugasemdum vegna áminningar, sem hann hefði í huga að veita stefnanda samkvæmt áðurnefndri lagagrein. Með bréfi, dagsettu 14. maí 2002, ritaði lögmaður stefnanda skipulagsstjóra bréf og kom á framfæri athugasemdum við fyrirætlanir hans um að áminna stefnanda. Taldi lögmaðurinn óhjákvæmilegt að óska svara um, hvort milli skipulagsstjórans og Ásdísar Hlakkar væri samband af persónulegum toga, annað hvort fjölskyldutengsl eða annars konar persónuleg tengsl, sem hafi verið til þess fallin að gera hann lítt hæfan til að fjalla af hálfu Skipulagsstofnunar um hagsmunamál hennar. Hefur skipulagsstjóri eindregið neitað, að um slíkt hafi verið að ræða. Áður, eða með bréfi 13. maí 2002, hafði umhverfisráðuneytið komið þeirri skoðun á framfæri, að það teldi ekki vera í sínum verkahring að fjalla um málið. Beindi ráðuneytið þeim tilmælum til skipulagsstjóra, að málið yrði leyst með samkomulagi, væri þess nokkur kostur.

         Með bréfi skipulagsstjóra til stefnanda, dagsettu 1. júní 2002, var stefnanda veitt áminning með vísan til 15. og 21. gr. laga nr. 70/1996. Af því tilefni ritaði lögmaður stefnanda skipulagsstjóra bréf 28. júní 2002 og krafðist þess, að áminningin yrði afturkölluð fyrir 15. júlí 2002, en ella yrði mál höfðað til ógildingar hennar. Við því var ekki orðið, og hefur stefnandi því höfðað mál þetta.

II.

         Stefnandi byggir málsóknina á því, að skilyrði hafi skort til að veita honum áminninguna 1. júní 2002.  Til að áminning geti komið til greina, þurfi boð yfirmanns að vera lögleg, sbr. 15. og 21. gr. laga nr. 70/1996. Í málinu reyni því einkum á, hvort  fyrirskipanir skipulagsstjóra hafi verið löglegar:

         1. Stefnandi telur, að samningsgerð skipulagsstjóra við Ásdísi Hlökk brjóti í bága við 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beri öll samningagerðin þess merki, að hagsmunir Ásdísar Hlakkar séu látnir ganga framar hagsmunum stefnda. Beri hún þess merki, að um persónuleg tengsl milli hans og Ásdísar Hlakkar hafi verið að ræða. Hafi stefnanda þannig verið óskylt að hlíta fyrirmælum skipulagsstjóra um efndir samningsins.

         2. Þá byggir stefnandi á því, að skipulagsstjóra hafi skort allar viðhlítandi heimildir í lögum fyrir gerð samkomulagsins við Ásdísi Hlökk. Leiði slíkur skortur þegar í stað til þess að fyrirmæli skipulagsstjóra á grundvelli samkomulagsins hafi að engu verið hafandi.

         2.1. Það verði að telja meginreglu, að verkefni stjórnsýslunnar séu unnin hér á landi. Hæstiréttur hafi dæmt, að ákvörðun um staðsetningu ríkisstofnunar sé þess eðlis, að um hana skuli mælt í lögum. Af því hafi jafnframt verið talið leiða, að til flutnings stofnunar frá Reykjavík þurfi lagafyrirmæli, sbr. hrd. 1998, 4552. Í þessu felist, að forstöðumönnum ríkisstofnana sé alls óheimilt, án heimilda í lögum, að ákveða, að starfsemi stofnunar skuli fara fram annars staðar en í Reykjavík. Í lagaákvæðum um stefnda sé hvergi að finna fyrirmæli, sem heimili skipulagsstjóra að taka ákvarðanir um starfsemi utan Reykjavíkur. Enn síður sé þar að finna ákvæði, sem heimili skipulagsstjóra ákvörðun um varanlegt aðsetur starfsmanna erlendis. Skorti því heimild til samningsgerðarinnar við Ásdísi.

         2.2. Verði ekki á framangreint fallist, sé ljóst, að forstöðumanni hljóti að vera óheimilt að senda starfsmenn til langdvalar erlendis að vinna verkefni, nema í þeim tilvikum, þegar telja megi óheppilegt að vinna verkefnið hér á landi. Megi telja þetta hluta þeirrar almennu skyldu að gæta ráðdeildar með fjármuni ríkisins. Ljóst sé, að þau verkefni, sem Ásdís Hlökk sé sögð eiga að vinna við öðru fremur í dvöl sinni í Stokkhólmi, séu ekki þess eðlis, að hentugra sé að vinna þau í Stokkhólmi en hér á landi. Sé augljóslega hentugra að vinna þau hér á landi. Skorti því heimild til samningsgerðarinnar við Ásdísi Hlökk.

         3. Taka beri fram, að samningur skipulagsstjóra við Ásdísi Hlökk beri þess öll merki, að hann hafi talið sig skorta heimildir til þess að styrkja námsdvöl hennar með beinum hætti jafn rausnarlega og samningurinn ráðgeri. Hefði hann álitið sér það heimilt, hefði engin ástæða verið til að skilgreina verkefni í þágu stofnunarinnar og þess háttar. Eftir að málið kom upp, virðist skipulagsstjóri hins vegar ætla sér að halda því fram, að sér hefði verið heimilt að styrkja námið beint. Hafi verið vitnað til ýmissa heimilda því til stuðnings og skuli nú að því vikið:

         3.1. Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996 sé forstöðumönnum heimilað að ákveða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum samkvæmt kjarasamningum vegna sérstakrar hæfni, er nýtist í starfi, eða sérstaks álags í starfi, svo og fyrir árangur í starfi. Þetta ákvæði eigi alveg örugglega ekki við um samkomulag skipulagsstjóra við Ásdísi. Það liggi fyrir, að á þeim tíma, sem launagreiðslur til Ásdísar Hlakkar fara fram, sé hún í námi í Svíþjóð. Sé því einfaldlega ekki rétt að líta á greiðslurnar sem laun. Mun fremur sé um námsstyrk að ræða. Enn síður sé til að dreifa einhverri sérstakri hæfni Ásdísar Hlakkar, sem nýtist í starfi, enda starfi hún fyrst og fremst í þágu eigin náms. Um álag í þessum skilningi geti vart verið að ræða og árangur í þágu annarra en hennar sjálfrar sé ekki annar en óbeinn. Miðist ákvæðið miklu fremur við, að starfsmaður fái mánaðarlega greidd hærri laun en myndi leiða af ákvæðum kjarasamnings. Veiti ákvæðið ekki forstöðumönnum heimild til að verðlauna starfsmenn eftir á með því að veita þeim styrki, sem þeir annars ættu ekki rétt á.

         3.2. Í 13. gr. laga nr. 70/1996 sé kveðið á um, að starfsmaður eigi rétt á sveigjanlegum vinnutíma. Þetta geti ekki heimilað það vinnufyrirkomulag, sem felist í samkomulaginu. Það gefi auga leið, að þetta ákvæði geti aldrei leitt til þess, að starfsmaður geti gert kröfu til þess að fá að vera erlendis í framhaldsnámi á kostnað stofnunar, hvað þá að starfsmaður geti átt kröfu til þess að vinna verkefni í fjarvinnslu erlendis frá, vera einungis á skrifstofu stofnunar í 3 mánuði á ári o.s.frv.

         3.3. Samkvæmt ákvæði 10.1.1 í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs annars vegar og Félags íslenskra náttúrufræðinga hins vegar, sem sé í gildi 1. júlí 2001 til 30. nóvember 2004, haldi starfsmaður launum og fái greiddan ferða- og dvalarkostnað, sem unnið hafi í fjögur ár hjá sama launagreinda og stundi framhaldsnám. Lengd leyfis samkvæmt þessu sé allt að tveir mánuðir á fjögurra ára fresti. Heimilt sé að veita lengri eða skemmri námsleyfi á lengra eða skemmra tímabili. Þegar þetta sé haft í huga, sé ljóst, að námsleyfi Ásdísar Hlakkar sé langt umfram það, sem hún eigi rétt til samkvæmt kjarasamningnum. Þó að heimilt sé samkvæmt kjarasamningnum að veita lengra eða skemmra námsleyfi á lengra eða skemmra tímabili, sé ljóst, að fyrirgreiðslan við Ásdísi Hlökk sé langt umfram það, sem hún eigi rétt til. Eins sé ljóst, að hugsunin með þessum ákvæðum kjarasamningsins sé alveg örugglega sú, að hnika megi tímamörkunum lítillega til, ef henta þykir, t.d. ef nám er aðeins lengra en tveir mánuðir, eða ef starfsmaður hefur ekki unnið nema í tæplega fjögur ár. Stoð fyrir samkomulagi Ásdísar Hlakkar og skipulagsstjóra verði því ekki sótt til kjarasamningsins.

         4. Fyrir liggi, að áminningin, sem málið snúist um, hafi eingöngu byggst á synjun stefnanda á greiðslu yfirvinnu. Það hafi verið alveg skýrt í starfsreglum Skipulagsstofnunar og kjarasamningum, að einungis skuli greiða yfirvinnu, þegar dagvinna hefur verið unnin. Ekki hafi verið um það að ræða í þessu tilviki. Hafi stefnanda af þeim sökum verið óheimilt að verða við fyrirmælum um að greiða yfirvinnuna sérstaklega til Ásdísar Hlakkar, enda hafi hún ekki verið búin að standa skil á dagvinnu. Þar að auki hafi þetta brotið í bága við almenn fyrirmæli við stofnunina um, að samið væri fyrirfram um yfirvinnu.

         5. Fallist dómurinn ekki á neitt af framangreindu, sé vísað til þess, að verulegur vafi hljóti að leika á heimildum skipulagsstjóra til gerðar samkomulagsins og greiðslu á yfirvinnu til Ásdísar. Hér sé með öðrum orðum teflt á tæpasta vað. Geti skipulagsstjóri ekki álasað starfsmönnum sínum fyrir að vilja ekki taka þátt í afgreiðslum af þessum toga. Hafi skipulagsstjóra verið í lófa lagið að afgreiða yfirvinnuna sjálfur, og hafi hann sjálfur gert á endanum. Af þessari ástæðu sé rétt að ógilda áminninguna.

         6. Krafa stefnanda um miskabætur byggi á þeirri aðför, sem skipulagsstjóri hafi gert að starfsheiðri hans. Á stefnanda hafi verið bornar sakir um brot í starfi, sem eigi ekki við rök að styðjast. Sé sú fjárhæð, sem krafist er, hóflega metin með hliðsjón af því. Um lagarök sé vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

         Af hálfu stefnda er á því byggt, að Ásdís Hlökk starfi nú að rannsóknarverkefni við Tækni­háskólann í Stokkhólmi um áætlanir um landanotkun á landsvísu og umhverfis­mat áætlana. Rannsóknarverkefni þetta tengist ákvæðum 4. gr. og 11. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Samkvæmt nefndum ákvæðum beri stefnda að sjá um, að upplýsingar um áætlanir um landnotkun á landsvísu séu fyrir hendi og stuðla að innbyrðis samræmi þeirra. Komi þar enn fremur til, að slíkar áætlanir verði framvegis unnar af hlutaðeigandi ráðuneytum, en áður en svo verði, þyki nauðsynlegt að samræma aðferðir við gerð þeirra. Stefndi hafi í ljósi framangreindrar lagaskyldu gert um það tillögu við gerð fjárlaga síðastliðin þrjú ár, að ráðist verði til þessa verkefnis. Komi þar enn fremur til nýleg tilskipun Evrópusambandsins, sem ætla megi, að komi til með að hafa áhrif á alla áætlanagerð. Verkefni þetta sé því í reynd bæði lögboðið, sbr. 4. gr. og 11. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem og rannsóknar-verkefni samkvæmt g-lið 4. gr. laganna. Ásdís Hlökk starfi nú við þetta verkefni og felist það m.a. í fræðilegri úttekt á aðferðum og kostum við skráningu og samanburð áætlana um landnotkun á landsvísu og umhverfis­mat áætlana hér á landi. Megi segja, að sá einbeitti vilji og áhugi Ásdísar Hlakkar á að sameina rannsóknarverkefni annars vegar og doktorsverkefni hins vegar, hafi í reynd gert stofnuninni kleyft að uppfylla lögboðnar skyldur mun fyrr en ella og með minni tilkostnaði. Í samræmi við ákvæði samnings aðila frá 30. maí 2001 njóti stefndi allra rannsóknarstyrkja, sem til rannsóknarverkefnis verða veittir. Sé áætlað, að slíkir styrkir muni nema um 4.000.000 krónum.

         Skipulagsstjóri hafi ótvírætt haft fulla heimild til að gera umræddan samning við Ásdísi Hlökk. Áður sé að því vikið, að rannsókn hennar sé í samræmi við lögbundið hlutverk Skipulagsstofnunar. Nægar fjárheimildir hafi verið fyrir hendi, þegar samningur var gerður. Í kjarasamningi, sem gildi um laun Ásdísar Hlakkar, sé að finna ákvæði um endurmenntun, sem sé í ætt við það, sem finna megi í mörgum kjarasamningum ríkisins við háskólamenntaða starfsmenn, og sé það á valdi stjórnenda stofnunar að nota heimildir. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 70/1996 eigi starfsmenn rétt á sveigjanlegum vinnutíma, og sé á þeim grundvelli hægt að semja um útfærslu á því, hvernig starfsmenn rækja vinnuskyldu sína með ýmsum hætti. Þá vísi stefndi jafnframt til 2. mgr. 9. gr. s.l. Á því sé byggt, að skipulagsstjóri hafi haft nægar stöðuheimildir til að gera umræddan samning, og vísist í því sambandi til stöðu hans sem skipulagsstjóra, 5. gr., 17. gr. og 2. mgr. 38. gr. laga nr. 70/1996 og til 49. gr. fjárreiðulaga nr. 88/1997. Þá sé vísað til þess tilgangs að baki lögum nr. 70/1996 að auka vald og sjálfstæði forstöðumanna varðandi stjórnun og starfsmannahald. Einnig vísi stefndi til þess, að lögmæti samningsins hafi verið borið undir Ríkisendurskoðun, sem sé endurskoðunaraðili Skipulagsstofnunar, sbr. lög nr. 86/1997, og hafi Ríkisendurskoðun ekki talið samninginn ólögmætan. Einnig bendi stefndi á, að afrit af samningnum hafi verið  sent til umhverfisráðu­neytisins, en engin viðbrögð komið þaðan. Hafi skipulagsstjóri lagt þann skilning í það, að ekki væru gerðar athugasemdir við samninginn. Þá sé vísað til VII. kafla laga nr. 70/1996. Samningurinn skipti stefnda miklu máli og rannsóknarverkefni það, sem Ásdís Hlökk vinni að, tengist ákvæðum 4. gr. og 11. gr. laga nr. 73/1997. Þannig sé verkefnið bæði lögboðið, sbr. framangreindar lagagreinar, og rannsóknarverkefni skv. g. lið 4. gr. laganna. 

         Í desember 2001 hafi farið fram viðræður milli skipulagsstjóra og Ásdísar Hlakkar um störf og fyrirkomulag starfa hennar. Nokkur veigamikil mál, sem Ásdís Hlökk hafi þekkt vel til, hafi beðið úrlausnar og þurft að ljúka þeim innan tilskilins frests, sem stofnunin hafi haft. Hafi verið um að ræða umsögn um tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2002 - 2024 fyrir auglýsingu og umsögn um tillögu að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001 - 2024 eftir auglýsingu. Hafi Ásdís Hlökk lýst sig reiðubúna að vinna að þessum verkefnum og skipulagsstjóri samþykkt, að það yrði gert í yfirvinnu. Stefnandi starfi sem sviðsstjóri rekstrarsviðs og hafi m.a. með höndum reikningshald, launagreiðslur o.þ.h. Yfirmaður stefnanda sé skipulags-stjóri. Fyrirskipun hafi borist frá skipulagsstjóra til stefnanda um greiðslu á 71,5 klst. yfirvinnu. Vegna misskilnings milli skipulagsstjóra, stefnanda og Ásdísar Hlakkar hafi  samþykki skipulagsstjóra vegna þessa ekki borist, fyrr en í tölvupósti þann 5. febrúar 2002. Synjun stefnanda að fara að löglegum fyrirskipunum forstöðumanns hafi verið  ólögmæt. Hafi stefnandi þannig brotið gegn starfsskyldum sínum og hlýðniskyldu, sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 2l. gr. s.l. Einnig vísist til meginreglna vinnuréttar um stjórnunarrétt vinnuveitanda. Vísist í þessu sambandi til samskipta skipulagsstjóra og stefnanda í tölvupósti og bréfum milli þeirra. Með bréfi stefnda 20. mars 2002 hafi verið ítrekuð krafa um, að stefnandi greiddi framangreinda yfirvinnu til Ásdísar Hlakkar. Í bréfinu hafi komið fram verulegar athugasemdir við framkomu og afstöðu stefnanda. Þá kom þar fram, að yrði stefnandi ekki við fyrirmælum þessum, yrði litið á það sem ótvírætt brot á starfsskyldum stefnanda skv. 15. gr. laga nr. 70/1996, og að það gæti leitt til formlegrar áminningar skv. 2l. gr. s.l., en slík áminning gæti verið undanfari uppsagnar, ef brot væru ítrekuð.

         Þá hafi skipulagsstjóri sent ríkisendurskoðanda málið til umsagnar, en hann sé  lögbundinn endurskoðunaraðili Skipulagsstofnunar, sbr. lög nr. 86/1997, enda til þess bær. Í niðurlagi svarbréfs Ríkisendurskoðunar segi, að stofnunin geti ekki fallist á þann skilning stefnanda, að skipulagsstjóri hafi verið að leggja fyrir hann að framkvæma löglausa athöfn með því að skrá umrædda yfirvinnu.

         Áminning skipulagsstjóra hafi verið fyllilega lögmæt og réttmæt, bæði að formi til og efni, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996, enda fullt tilefni til að veita hana og það í raun skylt. Vísist í því sambandi einnig m.a. til 15. gr. laga nr. 70/1996, enda hafi stefnandi brotið gegn skýrri hlýðniskyldu. Efnislegar athugasemdir stefnanda við fyrirskipun forstöðumanns um greiðslur fyrir yfirvinnu hafi verið rangar, og sé þeim mótmælt. Aðalatriði sé, að forstöðumaður hafi fallist á að greiða þær stundir, sem Ásdís Hlökk innti af hendi. Bent sé á ákvæði í nefndum samningi, þar sem segi, að ekki sé að öðru leyti gert ráð fyrir yfirvinnugreiðslum, nema skipulagsstjóri óski sérstaklega eftir vinnuframlagi og samkomulag náist um það. Þar fyrir utan sé fráleit sú afstaða stefnanda að neita að greiða 71,5 klst. yfirvinnu í heild, þar sem vanti nokkra klukkutíma upp á dagvinnu. Bent sé og á, að greiðslan hafi að endingu verið innt af hendi af hálfu ríkisbókhalds.

         Á því sé byggt, að stefnandi eigi ekki aðild að umfjöllun um ákvörðun um yfirvinnu þá, sem skipulagsstjóri tók, m.a. hvort greidd sé yfirvinna eða ekki. Það mat skipulagsstjóra sé tekið á grundvelli faglegs mats fyrir stofnunina. Þar taki aðeins forstöðumaður ábyrgð. Á því sé og byggt, að allar aðgerðir og ákvarðanir skipulagsstjóra í þessu máli hafi verið lögmætar. Bent sé á, að nám Ásdísar Hlakkar varði starf hennar sérstaklega hjá stefnda og samningurinn því hagstæður stofnuninni. Samningurinn sé langt frá því að vera óvenjulegur eða óeðlilegur. Algengt sé, að fjallað sé um námsleyfi í kjarasamningum. Allur réttur, sem leiddur sé af kjarasamningi, sé lágmarksréttur, og sé sjónarmiðum stefnanda um annað mótmælt sem röngum.

         Því sé mótmælt sem röngu, að samningsgerð skipulagsstjóra við Ásdísi Hlakkar brjóti í bága við 6. tl. l. mgr. 3. gr. laga nr. 37/1993. Séu fráleitar ályktanir dregnar fram í stefnu um þetta atriði og þeim mótmælt sem röngum. Þá sé mótmælt öðrum málsástæðum stefnanda.

         Að lokum byggir stefndi á því, að ekki séu lagaskilyrði til að dæma stefnanda miskabætur. Því sé einnig mótmælt, að aðför hafi verið gerð að starfsheiðri stefnanda. Það sé hann sjálfur, sem hafi komið málinu af stað og í þann farveg, sem það sé í í dag, Hafi stefnandi ekki orðið fyrir neinu tjóni eða miska.

III.

         Telja verður nægilega fram komið í málinu, að raunveruleg ástæða þess, að stefnandi neitaði að greiða umræddar yfirvinnustundir Ásdísar Hlakkar Theodórsdóttur samkvæmt fyrirmælum skipulagsstjóra var sú, að 6,5 klukkustundir vantaði upp á, að hún hefði fullnægt dagvinnuskyldu sinni. Segir svo um þetta í rafbréfi stefnanda til skipulagsstjóra, dagsettu 19. febrúar 2002 :

         ,,Þegar ég fór nú yfir tímaskráningar Hlakkar vegna desember 2001, en þær framkvæmdi hún sjálf í tímaskráningarkerfið í desember 2001, þá kemur eftirfarandi í ljós: Skráðir vinnutímar hennar í desember 2001 eru alls 65,5 klst. Þegar bætt er við vinnutímum vegna ferðar hennar til Brussel 5. – 7.12.2001 svo og teknir með skráðir orlofstímar hennar í desember, þá verða vinnutímar hennar til skráningar og útreiknings í desember 2001 alls 129,5 klst.

         Dagvinnu, orlof og aðra vinnu í desember 2001 á skv. launakerfinu að reikna í a.m.k. 17 daga * 8,0 klst á dag eða alls á dagvinna, orlof og annað í desember 2001 að vera samtals a.m.k. 136,0 klst. Ekki er reiknuð eða greidd yfirvinna fyrr en dagvinnutímum viðkomandi tímabils hefur verið skilað. Í tilfelli Hlakkar vantar 6,5 klst. uppá að dagvinnu sé náð í desember 2001.

         Hlökk nýtur fullra mánaðarlauna skv. samkomulagi ykkar frá 30. maí 2001. Skipulagsstofnun á að fá fulla dagvinnu í hverjum mánuði innta af hendi af Hlakkar hálfu áður en yfirvinna er reiknuð eins og aðrir starfsmenn verða að skila. Það skiptir engu máli hvernig tímaskiptingin er á milli unninna verkefna í hverjum mánuði. Annað er einfaldlega rangt og hróplegt óréttlæti gagnvart meðhöndlun á dagvinnustundum og yfirvinnuútreikningi vegna annarra starfsmanna stofnunarinnar.

         Með vísan til framanritaðs, þá get ég hvorki reiknað né skráð í launakerfið þessar 71,5 klst sem yfirvinnu vegna desember, sem Hlökk fór fram á að fá greiddar í tölvupósti til þín 01.02.2002 og sem þú hefur samþykkt með tölvupósti til mín 05.02.2002. Féllist ég á slíkt þá tel ég ótvírætt að ég væri vísvitandi að mismuna starfsfólki stofnunarinnar jafnframt því að brjóta reglur og starfsskyldur mínar”.

         Í máli þessu byggir stefnandi hins vegar á ýmsum öðrum málsástæðum en þeirri, er að framan greinir.

         Ekkert hefur komið fram í málinu til stuðnings þeirri málsástæðu stefnanda, að samningsgerð skipulagsstjóra við Ásdísi Hlökk Theodórsdóttur brjóti í bága við 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.

         Samkvæmt samningi stefnda og Ásdísar Hlakkar frá 30. maí 2001 skyldu verkefni hennar í þágu stefnda vera meðal annars rannsóknarverkefni, sbr. verkefni 3.11.1, 3.12.1 og 3.10.5 í ársáætlun stefnda. Verkefni 3.11.1 felst í fræðilegri úttekt á aðferðum og kostum við skráningu og samburði áætlana um landnotkun á landsvísu og umhverfismati áætlana hér á landi. Verkefni 3.12.1 snýst um söfnun upplýsinga frá ráðuneytum og stofnunum um áætlanagerð á þeirra vegum í gagnagrunn um áætlanagerð um landnotkun á landsvísu. Er verkefnið fyrsti áfangi í framkvæmd hlutverks stefnda samkvæmt 11. gr. skipulags- og byggingarlaga og getur tengst ýmsum verkefnum, svo sem verkefni umhverfisráðuneytisins varðandi landnýtingar-áætlanir, verkefni Landmælinga Íslands við gagnagrunn umlandupplýsingar og innleiðingu umhverfismats áætlana. Verkefni 3.10.5 er fólgið í  kynningu og undirbúningi vegna tilskipunar Evrópusambandsins um umhverfismat áætlana í samstarfi við umhverfisráðuneytið. Samkvæmt samningnum skyldi vinna verkefnin að mestu í Stokkhólmi. Þá skyldu ýmis verkefni unnin í fjarvinnslu, sbr. verkefnaáætlun skipulags- og byggingarsviðs, og önnur samkvæmt ósk skipulagsstjóra. Í samningnum er kveðið á um, að þann tíma, sem Ásdís Hlökk gegnir störfum aðstoðarskipulagsstjóra í Reykjavík, gildi 35 tíma yfirvinnuþak, en að öðru leyti sé ekki gert ráð fyrir yfirvinnugreiðslum, nema skipulagsstjóri óski sérstaklega eftir vinnuframlagi og samkomulag náist um það.   

         Með vísan til framanskráðs er fallist á með stefnda, að ofangreint verkefni sé í reynd bæði lögboðið, sbr. 4. gr. og 11. gr. skipulags- og byggingarlaga, sem og rannsóknarverkefni samkvæmt g-lið 4. gr. laganna. Var það mat skipulagsstjóra, að með því að Ásdís Hlökk sameinaði rannsóknarverkefni annars vegar og doktorsverkefni hins vegar, hafi það í reynd gert stefnda kleyft að uppfylla lögboðnar skyldur mun fyrr en ella og með minni tilkostnaði. Því mati hefur ekki verið hnekkt og heldur ekki því mati hans, að Ásdís Hlökk sé sérstaklega hæfur starfsmaður. Þá verður ekki talið, að það skipti máli, með tilliti til eðlis þeirra verkefni, sem hér um ræðir, hvort þau eru unnin hérlendis eða á erlendri grundu. Engar athugasemdir hafa heldur verið gerðar við þessa ráðstöfun af hálfu umhverfisráðuneytisins. Var skipulagsstjóra samkvæmt því rétt að álykta, að ráðuneytið hefði ekkert við samninginn að athuga. Er og fallist á með stefnda, að samningurinn fái stoð í gr. 10.1.1. í gildandi kjarasamningi Félags íslenskra náttúrufræðinga við ríkið, svo og 2. mgr. 9. gr. og 13. gr. laga nr. 70/1996. Einnig er óumdeilt, að samningurinn er innan fjárlagaheimilda stefnda.

         Samkvæmt framansögðu er það því mat dómsins, að umræddur samningur stefnda við Ásdísi Hlökk hafi fullnægjandi lagastoð.

         Fram er komið í málinu, að í desember 2001 fól skipulagsstjóri Ásdísi Hlökk, með samþykki hennar, að semja umsögn um tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 2002-2024 fyrir auglýsingu og umsögn um tillögu að svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 eftir auglýsingu. Samþykkti skipulagsstjóri, að  Ásdís Hlökk ynni að verkefnunum í yfirvinnu. Fær sú ákvörðun stoð í umræddum samningi frá 30. maí 2001, þar sem fram kemur, að skipulagsstjóri geti sérstaklega óskað eftir yfirvinnu, náist samkomulag þar um. Fyrir misskilning milli skipulagsstjóra, Ásdísar Hlakkar og stefnanda barst samþykki skipulagsstjóra vegna umræddrar yfirvinnu Ásdísar Hlakkar í desember 2001 ekki stefnanda, fyrr en með rafbréfi 5. febrúar 2002. Svo sem fyrr greinir synjaði stefnandi um að fara að fyrirmælum skipulagsstjóra og greiða yfirvinnuna, þar sem 6,5 klukkustundir vantaði upp á, til að Ásdís Hlökk hefði fullnægt dagvinnuskyldu sinni í desember 2001.

         Skipulagsstjóri er yfirmaður stefnanda. Tók hann sem forstöðumaður stefnda ákvörðun um, að yfirvinnan skyldi greidd. Verður að gera ráð fyrir, að sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli faglegs mats á því, að umrædd yfirvinna hafi verið í þágu hagsmuna stefnda, enda ber hann ábyrgð á, að svo sé. Var því að áliti dómsins ekkert tilefni af hálfu stefnanda að óhlýðnast fyrirmælum yfirmanns síns um, að Ásdísi Hlökk yrði greitt fyrir vinnu sína. Skipulagsstjóri ítrekaði fyrirskipun sína um greiðslu yfirvinnunnar með bréfi 20. mars 2002 og gerði athugasemdir við framkomu og afstöðu stefnanda, en í svarbréfi stefnanda frá 30. sama mánaðar áréttaði hann fyrri afstöðu sína. Braut stefnandi þannig með háttsemi sinni gegn starfsskyldum sínum og hlýðniskyldu, sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996, að skipulagsstjóra var rétt samkvæmt 21. gr. sömu laga að áminna stefnanda, svo sem hann gerði með bréfi 1. júní 2002, eftir að stefnanda hafði verið veittur lögboðinn andmælaréttur.

         Að virtu öllu framangreindu er það niðurstaða dómsins, að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu, en eftir atvikum þykir mega ákveða, að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

         Dóminn kvað upp Helgi I. Jónsson héraðsdómari.

Dómsorð:

         Stefndi, Skipulagsstofnun, er sýkn af kröfum stefnanda, Guðmundar Ragnars Ingvasonar, í máli þessu.

         Málskostnaður fellur niður.