Print

Mál nr. 768/2017

Sigmundur Hannesson (sjálfur)
gegn
Karli Emil Wernerssyni (Ólafur Eiríksson lögmaður)
Lykilorð
  • Kærumál
  • Innsetningargerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Hæstarétti
Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem K var heimilað að fá tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum S veðskuldabréf útgefið af K til SW. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að S hefði afhent skiptastjóra þrotabús SW frumrit skuldabréfsins, svo og að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefði tekið fyrir kröfu K um aðfarargerðina sem heimiluð var með hinum kærða úrskurði. Við þá fyrirtöku hefði verið bókað að S væri mættur og lýst því yfir að hann hefði látið skuldabréfið af hendi. Við svo búið hefði verið fært í gerðabók að bókun hefði verið lesin upp og samþykkt án athugasemda, en ekkert hefði verið þar frekar aðhafst. Var S því ekki lengur talinn hafa lögvarða hagsmuni af því að hinn kærði úrskurður kæmi til endurskoðunar. Var málinu því vísað frá Hæstarétti.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2017, þar sem varnaraðila var heimilað að fá tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila veðskuldabréf að fjárhæð 120.000.000 krónur, útgefið 26. maí 2011 af varnaraðila til Steingríms Wernerssonar. Kæruheimild var í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um aðfarargerð verði hafnað og jafnframt að „viðurkennt verði með dómi“ að sóknaraðili njóti haldsréttar yfir áðurnefndu skuldabréfi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum, sem sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt, var bú Steingríms Wernerssonar tekið til gjaldþrotaskipta 15. nóvember 2017, en óumdeilt virðist vera að Steingrímur hafi þá verið eigandi skuldabréfsins, sem krafa varnaraðila um aðfarargerð snýr að, og sóknaraðili verið vörslumaður þess í þágu Steingríms á grundvelli samnings þess síðastnefnda við varnaraðila frá 26. maí 2011, sem greint er frá í hinum kærða úrskurði. Liggur einnig fyrir að sóknaraðili hafi 1. desember 2017 afhent skiptastjóra í þrotabúi Steingríms frumrit þessa skuldabréfs, svo og að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi 6. sama mánaðar tekið fyrir kröfu varnaraðila um aðfarargerðina, sem heimiluð var með hinum kærða úrskurði. Við þá fyrirtöku var bókað að sóknaraðili væri mættur og lýsti því yfir að hann hefði látið skuldabréfið af hendi eins og að framan var getið. Við svo búið var fært í gerðabók að bókun hafi verið lesin upp og „samþykkt án athugasemda“, en ekkert var þar frekar aðhafst.

Samkvæmt framansögðu hefur þegar verið reynt að fullnægja með aðfarargerð réttindum varnaraðila í samræmi við hinn kærða úrskurð. Þótt sú fullnusta hafi ekki tekist af áðurgreindum ástæðum getur það engu um það breytt að sóknaraðili telst ekki hafa lengur lögvarða hagsmuni af því að hinn kærði úrskurður komi til endurskoðunar. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Sigmundur Hannesson, greiði varnaraðila, Karli Emil Wernerssyni, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2017.

Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjavíkur með beiðni 22. maí 2017. Málið var þingfest 9. júní sama ár og tekið til úrskurðar 14. nóvember 2017.

Sóknaraðili er Karl Emil Wernersson, Blikanesi 9, Garðabæ.

Varnaraðili er Sigmundur Hannesson, Frostaskjóli 33, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst í málinu dómsúrskurðar um að veðskuldabréf 26. maí 2011, að nafnvirði 120.000.000 krónur útgefið af sóknaraðila til Steingríms Wernerssonar, með veði á fyrsta veðrétti í fasteigninni Galtalækjarskógi, landnúmer 165042, og þeim eignum sem á jörðinni hvíla, verði með beinni aðfarargerð tekið úr umráðum varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann þess að viðurkennt verði að hann eigi haldsrétt í skuldabréfi því sem sóknaraðili krefst afhendingar á. Verði ekki fallist á framangreint er þess krafist að gerðinni verði frestað þar til niðurstaða æðri dóms liggi fyrir. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

 

Málsatvik

Hinn 26. maí 2011 gerði sóknaraðili samning við bróður sinn, Steingrím Wernersson, um kaup á eignarhlutum í nokkrum tilgreindum félögum. Meðal þeirra eignarhluta sem kaupsamningurinn tók til voru 250.000 hlutir í félaginu Váttur ehf.  Í grein 2.1.2 kaupsamningsins var kaupverð fyrir þá hluti ákveðið 120.000.000 krónur, sem greiðast skyldu með útgáfu þess skuldabréfs sem krafa sóknaraðila lýtur að. Í samningnum er kveðið svo á um að skuldabréfið skuli vera í vörslum varnaraðila og greiðast til baka á tíu árum eftir að greiðslur hefjist. Sóknaraðili skyldi hefja greiðslur á skuldabréfinu í janúar 2016 og greiða af því fjórum sinnum á ári með jöfnum greiðslum. Í grein 8.3 samningsins er svofellt ákvæði: ,,Seljandi skuldbindur sig til þess að tjá sig ekki við neinn aðila um málefni sem tengjast kaupanda og samskipti seljanda við kaupanda og félög og aðila er honum tengjast, þar með talið, en þó ekki tæmandi, við banka, fjölmiðla, yfirvöld, skiptastjóra Milestone ehf. ofl. Færi kaupandi fram lögfullar sannanir fyrir því að seljandi geri það samt sem áður fellur niður greiðsluskylda skv. lið 3.1, auk þess sem sala á Vætti ehf. gengur til baka, það er seljandi fær afhendan á ný eignarhluta sinn í Vætti ehf. Skal þá Sigmundur Hannesson hrl. afhenda kaupanda veðskuldabréf er hvílir á Galtalæk.“ Undir yfirlýsingu þess efnis að varnaraðili hefði skilið og samþykkt þær skuldbindingar sem á honum hvíldu samkvæmt samningnum ritaði varnaraðili. 

[...]

Með bréfi lögmanns sóknaraðila 17. október 2013 til Steingríms Wernerssonar var þess farið á leit að veðskuldabréf það sem mál þetta lýtur að og krafist er afhendingar á, yrði afhent, gegn afhendingu á eignarhlutnum i Vætti ehf., enda hefði Steingrímur brotið gegn ákvæðum 8.3 í samningi aðila 26. maí 2011 með því að tjá sig við [...]. Með bréfi 21. janúar 2016 var sú krafa ítrekuð og þess krafist að skuldabréfið yrði tekið úr innheimtu, en jafnframt upplýst að sóknaraðili myndi greiða þá gjalddaga sem á hann féllu þar til ágreiningi um afhendingu skuldabréfsins lyki. Afborganir yrðu greiddar með fyrirvara um endurkröfu þegar ágreiningur um afhendingu bréfsins hefði verið til lykta leiddur.

Varnaraðili, sem er starfandi hæstaréttarlögmaður mun hafa unnið lögfræði- og málflutningsstörf fyrir Steingrím Wernersson, bróður sóknaraðila, frá árinu 2010. Hann hefur lagt fram yfirlýsingu 5. september 2017, þar sem Steingrímur Wernersson staðfestir að eftir útgáfu veðskuldabréfs þess sem mál þetta lýtur að og hann sé eigandi að, hafi hann gert samning við varnaraðila og sett honum að handveði skuldabréfið til tryggingar uppgjöri fyrir störf hans á tímabilinu 2010 þar til störfum hans ljúki, sem vonir standi til að verði á árinu 2018.

Með yfirlýsingu 17. maí 2017 framseldi sóknaraðili og afsalaði 250.000 hlutum í félaginu Vætti ehf. til Steingríms Wernerssonar. Í yfirlýsingunni segir að framsalið verði virkt samkvæmt efni sínu um leið og aðför sóknaraðila á hendur varnaraðila samkvæmt aðfararbeiðni um veðskuldabréf 26. maí 2011 að nafnvirði 120.000.000 krónur, útgefið af sóknaraðila til Steingríms Wernerssonar, fari fram. Engra frekari athafna sé þörf af hálfu aðila í kjölfar þess að framsalið verði virkt og skuli aðilaskipti að bréfunum miða við þann dag. Með bréfi til Váttar ehf. sama dag var tilkynning sama efnis send og óskað eftir að Steingrímur Wernersson yrði skráður eigandi hlutanna í hlutaskrá Váttar  ehf. þegar í kjölfar þess að framsalið verði virkt. Með bréfi Váttar ehf. sama dag var staðfest að ofangreint framsal hefði borist og það staðfest að stjórn félagsins hefði fallið frá forkaupsrétti vegna framsalsins.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir á því að varnaraðila beri skýlaus skylda til að afhenda sér hið umkrafða veðskuldabréf. Ákvæði greinar 8.3 kaupsamnings sóknaraðila og Steingríms Wernerssonar sé skýrt. Tjái hinn síðarnefndi sig um málefni sem tengist sóknaraðila virkist ákvæði greinarinnar. Meðal þeirra sé ákvæði lokamálsliðar greinarinnar, þess efnis að varnaraðili skuli afhenda sóknaraðila veðskuldabréf það sem mál þetta taki til. Engin frávik séu frá skyldunni og hún sé ekki háð neinu  mati. Þá undirriti varnaraðili samninginn sérstaklega fyrir sitt leyti, með staðfestingu á að hann skildi og samþykkti þær skuldbindingar sem á honum hvíldu samkvæmt samningnum. Sóknaraðili byggi á því að skylda varnaraðila sé aðgreind og óháð öðrum lögfylgjum brots gegn grein 8.3 í kaupsamningnum sem kveðið sé á um í greininni, þ.e. niðurfellingu greiðsluskyldu samkvæmt grein 3.1 samningsins og afhendingu seljanda á eignarhlutum í Vætti ehf. Byggi sóknaraðili það á þeirri staðreynd að skyldurnar séu ekki beintengdar í ákvæðinu sjálfu og skyldan til að afhenda skuldabréfið hvíli á varnaraðila, óháð aðilum samningsins. Steingrími Wernerssyni sé hins vegar í lófa lagið að krefjast efnda annarra lögfylgja ákvæðisins, telji hann ástæðu til. Verði talið að ákvæðin séu tengd, þannig að skylda varnaraðila sé háð því að skil á 250.000 eignarhlutum í Vætti ehf. fari fram, leggi sóknaraðili fram, meðfylgjandi kröfunni, framsalsyfirlýsingu, undirritaða af sinni hálfu sem virkist er aðför samkvæmt aðfararbeiðninni fari fram. Að auki hafi sóknaraðili sent bréf til stjórnar félagsins, þar sem tilkynnt sé um framsalið og óskað eftir því að Steingrímur Wernersson verði skráður eigandi hlutanna í hlutaskrá félagsins er aðför hafi átt sér stað. Stjórn Váttar ehf. og sóknaraðili, sem hluthafi félagsins, hafi síðan staðfest móttöku á framsalinu og afsalað sér forkaupsrétti til hlutanna. Um leið og aðför fari fram virkist því framsalið samkvæmt efni sínu og þurfi þá ekki frekari atbeina við, hvorki sóknaraðila né yfirvalda.

Sóknaraðili byggir á því að réttur hans til veðskuldabréfsins sé svo skýr sem verða megi og ákvæði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eigi því við samkvæmt efni sínu. Fyrir liggi skjalleg sönnunargögn sem staðfesti annars vegar skýra samningsskyldu varnaraðila, sem hann hafi undirgengist og hins vegar virkjun samningsskuldbindingar varnaraðila þess efnis að afhenda hið umkrafða veðskuldabréf.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili kveður sóknaraðila einkum byggja á grein 8.3 í samningi hans og bróður síns, Steingríms, sem tekin sé orðrétt upp í aðfararbeiðninni. Til þess að freista þess að færa fram lögfullar sannanir fyrir því að Steingrímur hafi virt grein 8.3 að vettugi og þar með fyrirgert rétti sínum til frekari greiðslna samkvæmt greininni og samningi aðila, leggi sóknaraðili annars vegar fram [...] 12. ágúst 2011 og hins vegar útprentun fréttar í Fréttatímanum, 22. september 2016, þar sem Steingrímur sé sagður hafa veitt Fréttatímanum viðtal þann dag. Við frágang á samningi þeirra bræðra hafi verið sérstaklega rætt að Steingrími væri skylt að gefa [...] þrátt fyrir orðalag greinar 8.3 þar sem kveðið er meðal annars á um það að Steingrímur skuldbindi sig til þess að tjá sig ekki við neinn aðila um málefni sem tengist sóknaraðila.

Varnaraðili kveður aðfararbeiðni sóknaraðila vera án sérstakra tilvísana í ofangreinda [...]. Hann heldur því fram að efni [...] falli ekki undir grein 8.3 í samningi þeirra bræðra þar sem Steingrími hafi verið skylt að gefa [...]. Ekki hafi hvarflað að varnaraðila að ummæli Steingríms í þessari [...], þar sem Steingrímur hafi haft [...], kynnu að varða við grein 8.3 í samningi þeirra bræðra. Sóknaraðila hafi verið fullkunnugt um [...] Steingríms [...] frá árinu 2009. Ekkert nýtt komi fram í [...] sem sóknaraðila hafi ekki verið fullkunnugt um áður.

Þá kveður varnaraðili ekkert liggja fyrir um að Steingrímur hafi farið í viðtal við blaðamann Fréttatímans 22. september 2016. Hafi hann hins vegar gert það geti hann hvorki borið ábyrgð á því að viðkomandi blaðamaður hafi haft rétt eftir honum, eða borið ábyrgð á skrifum blaðamannsins.

Jafnframt bendir varnaraðili á að samningur þeirra bræðra hafi kveðið á um það hvað selt sé, og sé kaupverðið tiltekið. Samninginn beri að skoða heildstætt og séu ekki forsendur til þess að taka einn þátt samningsins úr samhengi og líta algjörlega fram hjá öðrum þáttum hans. Sóknaraðili hafi greitt undirskriftargreiðsluna samkvæmt samkomulaginu. Erfiðlega hafi hins vegar gengið að fá sóknaraðila til að standa við greiðslur af skuldabréfunum sem samkomulagið kvað á um.  

Steingrímur hafi falið Gjaldheimtunni ehf. innheimtu þess skuldabréfs sem mál þetta lýtur að. Lánstími hafi verið 10 ár með fjórum afborgunum á ári og fyrsta afborgun 10. janúar 2016, það er rúmum fjórum og hálfu ári eftir útgáfudag veðskuldabréfsins. Hafi sóknaraðili greitt fjórar fyrstu afborganir bréfsins, en ekkert eftir það. Varnaraðili kveður að sóknaraðila hafi verið í lófa lagið að fylgja eftir kröfu um afhendingu veðskuldabréfsins eftir að hann fékk vitneskju um [...] Steingríms hjá [...] síðla árs 2012. Það hafi hann ekki gert fyrr en nú og sé það tómlæti af hans hálfu. Hafi varnaraðili verið í góðri trú um að sóknaraðili hafi hætt við áform sín um að fá veðskuldabréfið afhent sér, einkum í ljósi þess að sóknaraðili hafi greitt af veðskuldabréfinu í upphafi ársins 2016 og síðan alla gjalddaga ársins 2016.

Varnaraðili kveður að sóknaraðila hafi ekki tekist að færa sönnur á að Steingrímur Wernersson hafi brotið gegn samningi þeirra bræðra er varði við grein 8.3 í samningnum. Kveður varnaraðili að réttur sóknaraðila til hins umkrafða veðskuldabréfs sé mjög óskýr og óljós og geti sóknaraðili ekki krafist þess að sér verði afhent umkrafið veðskuldabréf með beinni aðfarargerð, þar sem skilyrði 78. gr. laga nr.90/1989 séu ekki uppfyllt, en ágreiningur um eignarhald að hinu umkrafða veðskuldabréfi verði ekki leystur í máli sem rekið er samkvæmt 12. kafla laga nr. 90/1989.

Þá vísar varnaraðili til þess að á grundvelli handveðssamnings varnaraðila og Steingríms Wernerssonar eigi hann haldsrétt í veðskuldabréfinu. Varnaraðili hafi haft vörslur bréfsins óslitið frá þeim degi að sóknaraðili og Steingrímur bróðir hans hafi undirritað samninginn 26. maí 2011. Varnaraðili krefst þess að viðurkennt verði með dómi að hann eigi haldsrétt í umkröfðu veðskuldabréfi.

Jafnframt krefst varnaraðili þess að í úrskurði dómsins verði kveðið svo á um að gerðinni verði frestað þar til niðurstaða æðra dóms liggi fyrir.

Niðurstaða

 Um rétt sinn til afhendingar á veðskuldabréfi því sem mál þetta lýtur að, hefur sóknaraðili vísað til greinar 8.3 í samningi um kaup á hlutafé milli hans og Steingríms Wernerssonar, þar sem fram kemur að ef hinn síðarnefndi tjáir sig um málefni sem tengjast sóknaraðila og samskipti sín við sóknaraðila og félög og aðila er honum tengist, gangi sala á Vætti ehf. til baka og Steingrímur fái afhentan á ný eignarhluta sinn í einkahlutfélaginu. Skuli þá varnaraðili afhenda sóknaraðila veðskuldabréf það er mál þetta lýtur að. Ritaði varnaraðili undir ákvæði samningsins þess efnis að hann hefði skilið og samþykkt þær skuldbindingar sem á honum hvíldu samkvæmt samningnum. 

Í málinu hefur verið lögð fram [...] 12. ágúst 2011 og útprentun úr Fréttatímanum 22. september 2016. Enginn efi er um að þar tjáði  Steingrímur Wernersson sig um málefni sem tengjast sóknaraðila og samskipti sín við hann. Af hálfu varnaraðila hafa ekki verið færðar sönnur á að viðtal þetta í Fréttatímanum hafi ekki átt sér stað, eða að rangt sé haft eftir Steingrími í viðtalinu, líkt og varnaraðili hefur haldið fram.

Eins og að framan er rakið liggur fyrir að með því að tjá sig um sóknaraðila og málefni sem honum tengdust við þá aðila sem greindir eru í ákvæði 8.3 í samningi sóknaraðila og Steingríms 26. maí 2011 varð virkt það ákvæði samnings þeirra um að sala á 250.000 eignarhlutum í Vætti ehf. til sóknaraðila gengi til baka. Hefur sóknaraðili þegar afsalað og framselt þá eignarhluta sína í félaginu til Steingríms með yfirlýsingu þar um 17. maí 2017, að því tilskildu að fallist verði á aðfararbeiðni hans. Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er réttur sóknaraðila ljós og sönnur hafa verið færðar á hann með þeim gögnum sem heimilt er að afla samkvæmt 83. gr. laga nr. 90/1989. Eiga sjónarmið varnaraðila um tómlæti ekki við í málinu, enda gerði sóknaraðili reka að því með bréfi sínu til Steingríms Wernerssonar  17. október 2013 að veðskuldabréf það sem málið lýtur að yrði afhent. Þá stendur ætlaður haldsréttur varnaraðila ekki aðför í vegi, enda hefur varnaraðili ekki í málatilbúnaði sínum vísað til neinna atvika sem að lögum gætu leitt af sér haldsrétt í veðskuldabréfi því sem um er deilt í málinu. Yfirlýsing varnaraðila og Steingríms Wernerssonar, gerð 5. september 2017, löngu eftir að til umþrætts samnings sóknaraðila og Steingríms Wernerssonar var stofnað, breytir engu í því sambandi. 

 Er samkvæmt öllu framangreindu fullnægt skilyrðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 fyrir því að umbeðin aðfarargerð nái fram að ganga.

Varðandi kröfu varnaraðila um að gerðinni verði frestað þar til niðurstaða æðri dóms liggi fyrir, ber að horfa til þess að ákvæði 3. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 er undantekningarákvæði sem einkum á við, ef hagsmunir þeir, sem um er deilt eru ófjárhagslegs eðlis og hugsanlegt tjón gerðarþola vegna framgangs gerðarinnar verður ekki bætt með fégreiðslu. Þeir hagsmunir sem um er deilt í máli þessu eru einvörðungu fjárhagslegs eðlis og eru því ekki efni til að fallast á þessa kröfu varnaraðila. Verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Sóknaraðila, Karli Emil Wernerssyni, er heimilt að fá tekið með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila, Sigmundar Hannessonar, veðskuldabréf útgefið 26. maí 2011, að nafnvirði 120.000.000 krónur, útgefið af sóknaraðila til Steingríms Wernerssonar með veði á fyrsta veðrétti í fasteigninni Galtalækjarskógi.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 500.000 krónur í málskostnað.