Print

Mál nr. 310/2006

Lykilorð
  • Gæsluvarðhald
  • Skaðabætur
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. desember 2006.

Nr. 310/2006.

Jón Óskar Júlíusson

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

 

Gæsluvarðhald. Skaðabætur. Gjafsókn.

J krafðist þess að Í yrði gert að greiða honum miskabætur þar sem hann hefði saklaus verið látinn sæta gæsluvarðhaldi frá 21. febrúar 2004 til hádegis 27. sama mánaðar. Tildrög málsins eru þau að í sendingu sem barst til landsins og stíluð var á J, fundust 10.102,66 grömm af hassi. J tók við sendingunni á heimili sínu, gegn greiðslu rúmlega 31.000 króna, og virtist sendingin ekki koma honum á óvart. J viðurkenndi að neyta fíkniefna og umbúðir utan af fíkniefnum fundust á heimili hans. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að ekki verið annað séð en að fullt tilefni hafi verið til þess að úrskurða J í gæsluvarðhald þar sem rökstuddur grunur hefði beinst að honum í skilningi 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Einnig var talið, með vísan til atvika málsins, nægjanlega fram komið að J hefði sjálfur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisti kröfu sína á í skilningi 175. gr. laga nr. 19/1991. Ekki var talið að gæsluvarðhaldið hefði staðið lengur en nauðsyn bar til. Var Í sýknað af kröfu J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. júní 2006. Hann krefst þess að stefndi greiði sér aðallega 11.000.000 krónur en til vara lægri fjárhæð með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. september 2004 til 23. desember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu áfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.

I.

Áfrýjandi krefst bóta samkvæmt 176. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála með áorðnum breytingum, sbr. 175. gr. sömu laga, og reisir kröfuna fyrir Hæstarétti á því að hann hafi saklaus verið látinn sæta gæsluvarðhaldi frá 21. febrúar 2004 til hádegis 27. sama mánaðar. Ríkissaksóknari ákvað 27. september sama ár að fella málið niður þar sem það er fram hefði komið við rannsókn þess væri ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis. Tildrög málsins eru þau að 18. febrúar 2004 stöðvaði tollgæslan á Keflavíkurflugvelli DHL-hraðsendingu stílaða á áfrýjanda frá Nara Bahadur Pun, Kalankhi, Kuleshwor Height, Khatmandu í Nepal. Sendingin var um 34 kíló og var samkvæmt farmskírteini sögð innihalda 21 útskorin skrautmun ætlaðan til gjafa, en munirnir voru ekki taldir hafa viðskiptalegt verðmæti. Sendingin var haldlögð og fengin starfsmönnum fíkniefnadeildar lögreglunnar í Reykjavík, sem komu henni til tæknideildar til rannsóknar, þar sem hún var talin innihalda fíkniefni. Við rannsókn kom í ljós að hass var falið í öllum skrautmununum og var það samtals 10.102,66 grömm. Áfrýjandi var eini maðurinn sem fannst í þjóðskrá með skráðu nafni viðtakanda. Hann hafði áður komið við sögu lögreglunnar vegna lítils háttar fíkniefnabrots.

Að lokinni rannsókn á sendingunni var af hálfu lögreglu svo gengið frá henni að unnt væri að afhenda hana skráðum móttakanda, eins og hún hefði ekki verið opnuð. Í sendinguna var settur hlerunarbúnaður og fengin heimild til að hlera síma áfrýjanda, svo sem nánar er lýst í héraðsdómi. Lögreglumenn gengu síðan inn í sendingarferlið í samvinnu við flutningafyrirtækið. Í héraðsdómi er þessu ferli lýst og afhendingu sendingarinnar til áfrýjanda. Reisir áfrýjandi kröfu sína einnig á því að lögreglan hafi gengið lengra við að afhenda sendinguna, en sendingarferli flutningafélagsins bauð. Með því hafi lögreglan seilst of langt í því skyni að gera áfrýjanda tortryggilegan og þannig brotið gegn 31. gr. laga nr. 19/1991. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að tilraunir lögreglunnar til að hafa upp á viðtakanda sendingarinnar hafi gengið lengra en venjulegt er við afhendingar sendinga sem hraðsendingarfyrirtæki annast. Með vísun til forsenda héraðsdóms verður hann staðfestur um að ósannað sé að lögregla hafi með aðgerðum sínum brotið gegn ákvæði 31. gr. laga nr. 19/1991.

II.

Þegar áfrýjanda hafði fengið skilaboð um að hann ætti sendingu hjá DHL-hraðsendingarþjónustu hringdi hann til fyrirtækisins 20. febrúar 2004 kl. 11.15. Var samtal hans og starfsmanns flutningaþjónustunnar tekið upp og liggur endurrit þess fyrir í gögnum málsins. Honum var þá kynnt að hann ætti þar 33,5 kílóa pakka. Af upptökunni verður ekki merkt að þetta hafi komið honum á óvart. Honum var boðið að sækja pakkann eða að honum yrði ekið til hans. Sagði hann það best að pakkanum yrði komið til hans, „það væri bara helvíti fínt”. Hann upplýsti að hann dveldist á heimilisfanginu, sem skráð væri á sendingunni. Honum var skýrt frá því að einhver aðflutningsgjöld væru af sendingunni. Hann hváði en spurði síðan hvað þau væru mikil og var svarað að þau væru um 31.000 krónur. Hann svaraði þá að það væri í lagi. Starfsmaðurinn og áfrýjandi komu sér síðan saman um að áfrýjandi yrði heima milli eitt og hálf tvö um daginn. Áður en af því varð var hringt í áfrýjanda og heyrðu lögreglumenn að vinkona hans bað hann um að „redda spítti” og sagðist ekki vera að „djóka”. Lögreglumaður fór síðan með sendinguna á uppgefið heimilisfang og var þá áfrýjandi að koma að húsinu með vinkonu sinni, annarri en áður er rætt um, og tók hann við sendingunni, kvittaði fyrir hana og greiddi uppgefinn kostnað. Þegar sendingin var komin inn í íbúð heyrðist af hlerunarbúnaðinum í henni að strax var farið að eiga við pakkann. Endurrit upptökunnar er meðal gagna málsins en hún er ógreinileg þótt skýrt heyrist að karlmannsrödd segir „það hlýtur að vera í kistlinum”, kvenmannsrödd segir „já, já”, karlmannsrödd segir „já” og í framhaldi af því sé bankað í kistilinn. Síðan heyrist sagt „flottur kistill maður geðveikt” en svo er eins og kistillinn sé dreginn eða eitthvað átt við hann. Í framhaldi af þessu réðust lögreglumenn til inngöngu í íbúðina. Við rannsókn í íbúðinni fundust tveir plastpokar sem lögreglan telur vera utan af fíkniefnum. Áfrýjandi viðurkennir að hafa stöku sinnum reykt marihuana.

Áfrýjandi neitaði sekt frá upphafi og bar því við að hann hefði tekið við sendingunni af forvitni og greitt aðflutningsgjöldin þar sem sig hafi ekkert munað um þau. Konan sem með honum var bar hjá lögreglu að sig minnti að áfrýjandi hefði sýnt sér nótur þar sem eitthvað stóð um Nepal. Hún hafi spurt hann hver væri að senda honum pakka frá Nepal og hafi hann ekkert sagst vita um það. Af hálfu lögreglunnar var þessu síðara ekki trúað. Skýringar áfrýjanda við yfirheyrslur hjá lögreglunni þóttu ótrúverðugar og var krafist gæsluvarðhalds yfir honum í þágu rannsóknarhagsmuna samkvæmt a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2004 var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi til 27. sama mánaðar kl. 16. Kærði hann úrskurðinn til Hæstaréttar en með dómi réttarins 25. febrúar 2004 var hann staðfestur.

Þegar atvik málsins eru virt eftir á, svo sem þeim er lýst hér að framan, verður ekki annað séð en fullt tilefni hafi verið til þess að úrskurða áfrýjanda í gæsluvarðhald þar sem rökstuddur grunur hafði beinst að honum í skilningi 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Ákæra var hins vegar ekki gefin út á hendur honum þar sem ekki þóttu nægar sannanir fram komnar sem nægja myndu til að fella á hann sök. Má því dæma honum bætur samkvæmt 176. gr. laga nr. 19/1991 nema talið verði að fella megi þær niður þar sem áfrýjandi hafi sjálfur valdið eða stuðlað að gæsluvarðhaldinu með hegðun sinni í skilningi niðurlags 175. gr. sömu laga.

III.

Að framan er því lýst að sendingin virtist ekki koma áfrýjanda á óvart þegar hann grennslaðist fyrir um hana hjá DHL-hraðsendingarþjónustu. Hann greiddi aðflutningsgjöld umyrðalaust og tók við sendingunni. Hann réðst strax í að taka hana upp og sá þá að minnsta kosti, hafi það ekki komið fram áður, hvaðan hún var komin og frá hverjum. Af viðbrögðum hans, sem koma fram í upptökum úr hlerunarbúnaði sem komið hafði verið fyrir í sendingunni, verður ekki annað ráðið en hann hafi átt von á henni, hvort sem hann átti það sem upphaflega var fólgið í skrautmununum eða ekki. Hann viðurkenndi að neyta fíkniefna og umbúðir utan af fíkniefnum fundust á heimili hans. Skýringarnar, sem hann gaf á hátterni sínu við skýrslugjöf hjá lögreglu, þar á meðal á ástæðum þess að hann hafi greitt aðflutningsgjöld af sendingunni, voru langsóttar. Verður af því sem hér hefur verið sagt talið nægjanlega fram komið að hann hafi sjálfur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á í skilningi 175. gr. laga nr. 19/1991. Áfrýjandi hafði verið yfirheyrður hjá lögreglu áður en hann var leiddur fyrir dómara við meðferð gæsluvarðhaldsmálsins. Rannsókninni var síðan fram haldið og var meðal annars aflað upplýsinga um fjárhag áfrýjanda og viðskipti, hann yfirheyrður og kannað um ferðir Nepalbúa hér á landi. Ekki er annað fram komið en að rannsókninni hafi verið fram haldið, svo sem kostur var, og hafi því gæsluvarðhaldið ekki staðið lengur en nauðsyn bar til.  Með því sem að framan er rakið og annars með vísun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber áfrýjanda að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði eins og nánar er sagt í dómsorði.

                                                         Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Jón Óskar Júlíusson, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningslaun lögmanns hans, 300.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2006.

Mál þetta var höfðað 18. mars 2005 og var dómtekið 20. febrúar sl.           

Stefnandi er Jón Óskar Júlíusson, Dofraborgum 21,  Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að íslenska ríkið verði dæmt til að greiða sér miskabætur að fjárhæð 11.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. september 2004 til 23. desember 2004 en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 9. gr. og 12. gr. sömu laga.

Þá er þess krafist að íslenska ríkið verði dæmt til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.                                                    

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

Málavextir

Hinn 18. febrúar 2004 tóku tollverðir tiltekna vörusendingu frá DHL-hraðflutningaþjónustu til skoðunar, en sendandi hennar var skráður Nara Bahadur Pun, Kalankhi Kulehwor Height, Kathmandu í Nepal.  Tilgreindur móttakandi vörunnar var stefnandi máls þessa, þar sagður til heimilis að Skipholti 51 í Reykjavík.  Gegnumlýsing benti til þess að taka þyrfti innihaldið til frekari skoðunar.  Kom þá í ljós að innan í skrautmunum sem þar voru var efni sem gaf þá svörum að vera hass.  Tók tæknideild lögreglunnar í Reykjavík við málinu og kom í ljós að sendingin innihélt alls um 10.102,66 grömm af hassi.  Lagði lögreglan hald á fíkniefnin, en líklegt var talið að þau væru ætluð til sölu og dreifingar hér á landi.                                        

Aðeins einn undir nafni stefnanda reyndist til samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá, að sögn stefnda.  Vegna rannsóknarinnar var fengin heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til símhlustunar þeirra símanúmera sem stefnandi væri notandi af þar sem hann var skráður móttakandi sendingarinnar.  Var einnig fenginn dómsúrskurður sem heimilaði lögreglu að koma fyrir búnaði í vörusendingunni sem næmi og tæki upp hljóð sem væru nærri fyrir tiltekið tímabil.

Gengið var þannig frá vörusendingunni að ekki sæist að hún hefði verið opnuð og litlum trékistlum komið fyrir í stað fíkniefnanna.  Var það gert svo að unnt væri að afhenda vörusendinguna til skráðs móttakanda og freista þess að upplýsa um hver eða hverjir myndu gera tilkall til fíkniefnanna.  Fór lögreglumaður, dulbúinn sem starfsmaður DHL-hraðflutningaþjónustunnar, þann 19. febrúar til að reyna að afhenda þar vörusendinguna til stefnanda sem skráður var móttakandi.  Nafn stefnanda var þar ekki skráð á póstkassa eða dyrabjöllur og ekki fengust upplýsingar um það hvort hann byggi í húsinu.  Er hins vegar upplýst í gögnum málsins að hann bjó þar og býr enn.  Eftir nokkra eftirgrennslan í því skyni að afhenda pakkann fékk lögregla upplýsingar um að stefnandi hefði búið þar en væri fluttur úr húsinu.  Haft var upp á skráðu lögheimili stefnanda á Sauðárkróki og þangað var hringt.  Upplýsingar fengust um að hann væri ekki búsettur þar, en gefið var upp símanúmer foreldra hans.  Til að hafa upp á honum var þá hringt í það númer. Aðspurð kvaðst móðir hans ekki vita hvar hann væri að finna en tók skilaboð til hans um að DHL-hraðflutningar væru að reyna að koma til hans pakka.  Aftur reyndi lögreglumaður, dulbúinn sem DHL-starfsmaður, að taka hús á stefnanda að Skipholti 51, en án árangurs.  Sendingunni var síðan komið til DHL og gerðar ráðstafanir til þess að hún yrði ekki afhent án vitneskju lögreglu og að fært yrði í ferilskrá DHL að reynt hefði verið að koma sendingunni til viðtakanda.

Samtöl stefnanda um síma voru hljóðrituð bæði 19. og 20. febrúar.  Er þeim lýst í gögnum málsins, bæði þar sem móðir hans lætur vita um erindið frá DHL og hvar stefnandi spyrst fyrir um pakkann.  Reyndist hann reiðubúinn að láta aka pakkanum til sín að Skipholti 51 20. febrúar 2004 kl. 12.30.  Kl. 13.00 kom stefnandi akandi.  Lögreglumaður, dulbúinn sem starfsmaður DHL-hraðflutninga­þjónustu í bifreið merktri fyrirtækinu, gaf sig þá að honum.  Er fundum þeirra bar saman spurði stefnandi hvort maðurinn vissi hvað væri í sendingunni, sem sá síðarnefndi svaraði neitandi, en sagði honum að greiða þyrfti 31.516 krónur í aðflutningsgjöld og sýndi reikning því til staðfestingar.  Greiddi stefnandi reikninginn og fékk pakkann.  Var stefnandi látinn kvitta á þar til gert eyðublað.

Að þessu loknu fóru stefnandi og konan, sem með honum var í för, með pakkann inn í íbúðina að Skipholti 51.  Var þá notast við búnaðinn sem komið hafði verið fyrir í pakkanum til að hlusta á hvað færi fram.  Heyrðist óskýrt en mátti þó greina blótsyrði og að verið var að banka í trékistlana og að þau sakni einhvers sem hafi átt að vera í sendingunni.  Heyrðist t.d. karlmannsrödd segja: „það hlýtur að vera í kistlinum“ og kvenmannsrödd svara því játandi.  Í framhaldi af því var haldið áfram að banka í kistlana.

Í framhaldi af þessu voru stefnandi og konan handtekin.  Stefnanda var kynntur húsleitarúrskurður og fram fór leit.  Var lagt hald á nokkra muni og pappíra sem gætu tengst rannsókninni frekar.  Teknar voru skýrslur af stefnanda og öðrum.  Krafist var gæsluvarðahalds yfir stefnanda þann 21. febrúar 2004 með vísan til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Var á því byggt að rannsóknin væri á frumstigi og greint frá helstu atriðum sem rannsaka þurfti, en tryggja þyrfti að stefnandi gæti ekki torveldað rannsóknina.  Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur var fallist á kröfu lögreglustjóra og stefnanda gert að sæta gæsluvarðhaldi til 27. febrúar 2004.  Stefnandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi þann 25. febrúar 2004. Skýrsla var tekin af stefnanda 25. febrúar. Á gæsluvarðhaldstíma meðal annars var unnið frekar að rannsókn málsins og skýrsla tekin af stefnanda, en hann var látinn laus 27. febrúar 2004.

Umrædd hraðsending var flutt til landsins af DHL hraðflutningum.  Stefnandi heldur því fram að hann hafi ekki haft hugmynd um að hann ætti von á slíkri sendingu þegar honum var tilkynnt um hana.  Stefnandi heldur því fram að þegar hann hafi opnað sendinguna í íbúð sinni og orðið þess áskynja að hún innihélt nokkra kistla, hafi hann haldið inn í eldhús ásamt vinkonu sinni sem þá var stödd hjá honum af tilviljun og hafi þau verið að reyna að átta sig á áritun á fylgibréfi sendingarinnar þegar lögreglan ruddist inn í íbúðina.  Áður hafði lögreglan tekið út úr sendingunni hin meintu fíkniefni og komið hljóðnema fyrir í staðinn. 

Allt frá upphafi hefur stefnandi neitað því að hann kannist við umrædda sendingu og kveðst ekki hafa átt von á sendingu frá Nepal.  Þá kveðst hann ekki kannast við sendandann.  Við rannsókn málsins heimilaði stefnandi lögreglu að kanna öll fjármál sín, símasamskipti auk þess sem símhlerunum var beitt við rannsóknina.  Þrátt fyrir þetta kveður stefnandi ekki hafa komið fram neinar sannanir sem tengi hann við málið annað en það að hann hafi tekið við póstsendingu af einskærri forvitni sem stíluð var á nafn hans.  Hann hafi allt frá upphafi staðfastlega neitað sakargiftum og hafi ekkert komið fram sem tengi hann við málið.

Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefnda verði gert að greiða sér miskabætur vegna handtöku og gæsluvarðhalds sem honum var gert að sæta tímabilið 21. febrúar 2004 til 22. febrúar sama ár.  Var stefnanda tilkynnt með bréfi ríkissaksóknara 21. september 2004 að mál á hendur honum hefði verið fellt niður með vísan til 112. gr. laga nr. 19/1991, þar sem ekki var talið nóg fram komið við rannsókn málsins til þess að líklegt væri til sakfellis hans.  Með bréfi dags. 23. desember 2004 var ríkislögmaður krafinn um bætur, fyrir hönd ríkisins, vegna handtöku og gæsluvarðhalds að ósekju.  Með bréfi ríkislögmanns, dags. 11. febrúar 2005, var kröfunni hafnað.

Stefnandi gerir ýmsar athugasemdir við vinnubrögð lögreglunnar við rannsókn málsins.  Bendir hann á að aðeins hafi verið tekin ein skýrsla af honum þá viku sem gæsluvarðhaldið stóð. 

Þá hafi  reikningur sá er stefnanda var gert að greiða við afhendingu vörusendingarinnar af dulbúnum lögreglumanni að fjárhæð 31.516 krónur verið tilbúinn sérstaklega svo málið liti eins eðlilega út og hægt væri og sé hann mun hærri en eðlilegt sé.  Samkvæmt upplýsingum frá Tollstjóranum í Reykjavík sé lagður 10% tollur á svokallað FOB-verð í íslenskum krónum.  Þá hafi í tilfelli stefnanda tollur einnig verið settur ofan á flutningsgjald  að fjárhæð 67.921 króna.  Sé það gert m.a. til að gera hlut stefnanda enn tortryggilegri en annars hefði verið.  Enda þegar í ljós kom að lögreglan hafði engar sannanir á stefnanda þá hafi það ítrekað komið upp hvers vegna stefnandi hafði greitt svo háa fjárhæð fyrir vörusendingu sem hann átti ekki von á.  Til skýringar á því  bendir stefnandi á að hann sé alls ókunnugur vörusendingum milli landa og hafi því ekki hugmynd um hvaða gjöld og hve há beri að greiða við slíka móttöku.  Þá hafi dóttir hans verið í Bandaríkjunum á þessum tíma og hafi þessi sending allt eins getað verið frá henni enda var afmæli stefnanda á næsta leiti eða þann 11. mars.  Samkvæmt minni stefnanda hafi það ekki komið fram á kvittun þeirri sem hann var látinn skrifa undir við afhendingu hvaðan pakkinn kom en þar sem kvittum sú hafi ekki enn fengist afhent frá lögreglu hafi ekki verið unnt að sannreyna það.  Þá hafi ítrekað verið óskað eftir því við lögreglu og flutningsaðilann DHL að kvittun sú sem stefnandi kvittaði undir við móttöku vörusendingarinnar verði afhent honum en ekki hafi hún enn verið afhent þó svo flest þau gögn málsins hafi verið afhent.  Forsvarsmaður DHL-flutninga hafi upplýst lögmann stefnanda um það að kvittun sú hafi verið afhent lögreglunni.  Þá hafi ítrekað verið óskað eftir að fá afrit af reikningi þeim sem greiddur var í Nepal fyrir umrædda vörusendingu, þar sem fram komi sundurliðun á kostnaði við flutning og opinber gjöld og hver greiddi.  Sá reikningur hafi enn ekki verið afhentur með gögnum málsins.

Allt hafi verið reynt til að vekja athygli stefnanda á umræddri sendingu frá Nepal.  Hringt hafi verið á fyrra heimili stefnanda á Sauðárkróki og loks í móður hans og fjölskyldu, sem flutt sé til Reykjavíkur.  Séu þetta mjög svo ámælisverð vinnubrögð af hálfu lögreglu og engan veginn í samræmi við eðlilega starfshætti hjá hraðflutninga­þjónustum að ganga svo hart fram í því að koma pakka til móttakanda.  Hafi þeir farið langt út fyrir sitt hlutverk sem sé að draga fram hið sanna í málinu.  Á lögreglumenn  séu lagðar ríkar skyldar og mikil ábyrgð sem komi m.a. fram í 31. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.  Þá komi fram í símhlerun þann 2. mars 2004, kl. 10:26 milli stefnanda og Erlu Þorsteinsdóttur að hann hafi upplýst lögregluna um það að Erla hafi sagt að pakkinn hafi ekki átt að fara til hans.  Þetta ítreki hann svo í lögregluskýrslu þann 10. ágúst og málið sé ekki kannað frekar fyrr en með skýrslutöku yfir Erlu þann 17. ágúst 2004 eða fimm og hálfum mánuði eftir að lögreglan hafði fengið vitneskju um þetta samtal.  Rétt sé einnig að geta þess að stefnandi hafi fengið sent innheimtubréf frá lögfræðistofu vegna ógreidds reikning frá DHL flutningum, ásamt vöxtum og kostnaði.  Sé það auk annars til vitnis um þau vinnubrögð er fóru fram af hálfu lögregluyfirvalda í máli þessu.

Stefnandi hafi á umræddu tímabili leigt herbergi að Skipholti 51, Reykjavík.  Þegar mál þetta kom upp hafi stefnanda margítrekað verið hótað því að leigusamningi hans yrði rift og honum gert að yfirgefa herbergið.  Leigusali hans hafi orðið fyrir mjög miklum óþægindum vegna málsins en húsleit hafi farið fram í íbúðinni.  Þar hafi engin tæki eða tól fundist sem tengdust málinu.  Þá hafi ekkert komið fram við rannsókn á haldlögðum munum s.s. tölvuturni, gsm síma o.fl. er tengdist málinu. 

Meðan rannsókn málsins fór fram hafi stefnandi átt von á barni og hafi það gert honum enn erfiðara fyrir að hann lægi undir grun um stórfelldan fíkniefnainnflutning og hvort hann yrði í fangelsi við fæðingu barns síns eða ekki.  Þá hafi rannsókn málsins og gæsluvarðhaldið, er honum hafi verið gert að sæta, tekið  verulega á andlega heilsu hans, þar sem það hafi legið fyrir að verið var að refsa honum fyrir verknað er hann kom ekki nálægt.

Af hálfu stefnda er bent á að reikningurinn, sem stefnanda hafi verið gert að greiða við afhendingu, hafi lögregla fengið frá tolli/DHL með þeim upplýsingum að um rétta útreikninga og forsendur væri að ræða og reikningurinn skyldi fylgja sendingunni ef afhendingarferlið ætti að vera sem raunverulegast.  Er fullyrðingum stefnanda um annað mótmælt.  Hafi lögregla einnig fengið þær upplýsingar að í venjulegu afhendingarferli ætti viðtakandinn að greiða reikning nr. R0109409 svo sendingin fengist afhent.  Vegna þessa hafi stefnandi verið látinn greiða 31.516 krónur við móttöku en upphæðin sé nánar sundurliðuð á umræddum reikningi. Er því alfarið mótmælt að reikningurinn hafi ekki sýnt eðlilegan framgangsmáta.  Þá telur stefndi fullyrðingar, um að kvittun fyrir móttöku stefnanda á pakkanum hafi ekki fylgt rannsóknargögnum, rangar.  Umrædd kvittun hafi alltaf fylgt rannsóknargögnum málsins.  Hafi hún þar að auki verið send lögmanni stefnanda hinn 28. janúar síðastliðinn ásamt öðrum gögnum málsins.

Eins og fram komi í bréfi lögreglustjórans í Reykjavík frá 25. apríl 2005 hafi þær upplýsingar fengist frá DHL við rannsókn málsins að við útkeyrslu og afhendingu sendinga á vegum fyrirtækisins væru starfsmenn þess með útprentað blað yfir þær sendingar sem þeir væru með við útkeyrslu hverju sinni og móttakendur sendinga væru látnir staðfesta móttöku afhendingar á umrætt eyðublað.  Með þeim hætti hafi afhendingin til stefnanda verið gerð úr garði og notað tilbúið eyðublað til að líkja eftir þeim framgangi sem tíðkaður sé.  Umrætt blað hafi síðan fengist afhent frá DHL og við afhendingu sendingarinnar hafi stefnandi verið látinn kvitta á blaðið.  Hins vegar geymir kvittunin ekki upplýsingar um hvaðan sendingin var að koma en það komi fram á reikningi sem fylgt hafi sendingunni til stefnanda (þ.e. nafn sendanda, „Nara Bahaadur Pun“).

Stefndi mótmælir sem röngu að afrit þeirra reikninga sem greiddir voru í Nepal fyrir umrædda sendingu fylgi ekki rannsóknargögnum.  Í gögnum málsins sé að finna skjal frá DHL, „Shipment Airwaybill“, (dskj. nr. 3 - I. hluti, bls. 3) þar sem fram komi upplýsingar um að komið hafi verið með sendinguna hinn 15. febrúar 2004 til afgreiðslu DHL í Nepal og hún send þaðan til Íslands.  Á skjalinu sé yfirlýsing til tollyfirvalda um tollverðmæti, $192.  Þar komi einnig fram að flutningskostnaður hafi verið staðgreiddur með nepölskum peningum og skjalið tilgreini nafn og heimili sendanda og undirskrift hans.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir á því að fjármálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins beri að greiða honum skaðabætur vegna ólögmætrar frelsissviptingar og rangra sakargifta.  Þá byggir hann á því að greiða eigi honum miskabætur vegna mannorðsmissis.  Byggir hann á því að ekki hafi nægilegt tilefni verið til að hneppa hann í gæsluvarðhald.   Ljóst sé að lögreglan hafi undirbúið málið lengi áður en ráðist hafi verið til atlögu og ekkert hafi komið fram sem geti tengt stefnanda við málið.  Þá sé ljóst að rannsóknaraðgerðir lögreglu séu ámælisverðar en stefnandi hafi allt frá upphafi haldið fram sakleysi sínu og verið samstarfsfús.  Mannorðsmissir stefnanda sé mikill vegna máls þessa, en hann komi frá litlu bæjarfélagi utan af landi, þar sem erfitt geti verið að hreinsa menn sem bornir hafi verið röngum sökum.

Stefnandi byggir á því að samkvæmt íslenskum rétti eigi maður rétt á skaðabótum fyrir fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón ef hann er handtekinn og hafður í gæsluvarðhaldi að ósekju vegna þess að sú háttsemi, sem sakborningur var borinn, sé ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana.  Því aðeins komi til álita að lækka bætur eða fella þær niður hafi sakborningur stuðlað að handtöku eða gæsluvarðhaldi.  Skilyrði bóta séu fyrir hendi í þessu máli, enda hafi rannsókn máls á hendur stefnanda verið hætt og hafi hann hvorki valdið né stuðlað að aðgerðum ríkisvaldsins.  Þá er á því byggt að ekki hafi verið tilefni til handtöku og gæsluvarðhalds og hafi stefnandi ekkert tilefni gefið til slíkra aðgerða.  Allt frá því að stefnandi var handtekinn, hinn 20. febrúar 2004, hafi hann verið stimplaður, af þeim sem til hans þekkja, sem sakamaður.  Þá hafi liðið sjö mánuðir þar til stefnanda var tilkynnt um að málið hefði verið látið niður falla og allan þann tíma hafi hann mátt þola þær þjáningar sem því fylgi að eiga von á löngum fangelsisdómi vegna aðildar að fíkniefnainnflutningi.  Frelsissvipting sé alvarlegt mál og hafi ekki einungis í för með sér að viðkomandi sé sviptur möguleikanum á öflun tekna, heldur sé verulegt miskatjón falið í slíkri aðgerð.  Bæði vegna þeirrar andlegu þjáningar sem slík vistun hafi í för með sér og vegna þess skaða sem verði á mannorði viðkomandi.

Stefnandi byggir á því að frelsissvipting hans og einangrun, á meðan á rannsókn stóð, hafi verið ólögmæt þar sem skilyrði gæsluvarðhalds hafi ekki verið fyrir hendi í upphafi.  Því beri að greiða stefnanda bætur vegna rangra sakargifta en ekki aðeins bætur vegna frelsissviptingar.

Í 67. gr. stjórnarskrárinnar sé fjallað um rétt borgara til verndar fyrir frelsissviptingum og við framkvæmd þeirra. Í 1. - 4. mgr. sé vikið að efnislegum atriðum sem þetta varði.  Síðan sé í 5. mgr. kveðið svo á um að maður skuli eiga rétt til skaðabóta hafi hann verið sviptur frelsi að ósekju.  Ákvæði 5. mgr. hafi komið inn í stjórnarskrána með 5. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.  Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi að lögunum segi, meðal annars, að í orðin „verið sviptur frelsi að ósekju“ sé unnt að leggja þann almenna skilning að þau vísi til þess að maður hafi verið sviptur frelsi saklaus eða að ástæðulausu.  Með orðalagi ákvæðisins sé ætlunin að mönnum verði tryggður bótaréttur ef þeim hefur verið gert að sæta frelsissviptingu án þess að hafa til þess unnið.

Við skýringu þessa stjórnarskrárákvæðis verði að hafa í huga að það úrræði, að handtaka menn og loka þá inni, feli í sér afar íþyngjandi skerðingu á frelsi þeirra.  Heimild til þessa, án þess að staðreynt hafi verið hvort þeir hafi unnið til frelsisskerðingar, helgist fyrst og fremst af hagsmunum þjóðfélagsins af því að upplýsa afbrot í því skyni að geta beitt refsingum lögum samkvæmt.  Standi augljós rök til þess að maður sem þurft hafi að sæta sviptingu á frelsi sínu í þágu slíkra almannahagsmuna eigi rétt á bótum frá ríkinu ef niðurstaðan verði sú að rannsókn máls leiði ekki til málsóknar gegn honum eða ef hann verði, fyrir dómi, sýknaður af sakargiftum á þeim grundvelli að sök hans hafi ekki sannast.  Í slíkum bótarétti felist einungis að sá sem eigi þá hagsmuni sem krefjist frelsissviptingar, þ.e.a.s. almenningur, greiði bætur til þess einstaklings sem hafi þurft að fórna frelsi sínu tímabundið í þágu þeirra.  Samkvæmt þessu verði talið að stjórnarskráin verndi bótarétt þeirra sem sæta þurfa gæsluvarðhaldi, án þess að hafa sannanlega til frelsisskerðingar unnið, nema eitthvað sérstakt komi til sem skerði eða felli þann bótarétt niður.  Þá sé þessi réttur einnig varinn í 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Í XXI. kafla laga nr. 19/1991 sé að finna ákvæði um bætur handa sakborningi o.fl.  Þar sé í 1. mgr. 175. gr. kveðið svo á að kröfu um bætur megi taka til greina ef rannsókn hafi verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að háttsemi sem sakborningur var borinn hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana, eða sakborningur hafi verið dæmdur sýkn með óáfrýjuðum eða óáfrýjanlegum dómi af sömu ástæðu.  Þó megi fella niður bætur og lækka þær ef sakborningur hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfu sína á.  Í 176. gr. séu svo taldar upp rannsóknaraðgerðir sem leitt geti til bótaréttar og síðan sagt að bætur megi dæma: a. ef lögmæt skilyrði hefur brostið til aðgerða eða b. ef ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.

Skilyrði b. liðar í 176. gr. laga nr. 19/1991 geti leitt til þess að sakborningi verði synjað um bætur fyrir það eitt að nægilegt tilefni teljist hafa verið til þeirra aðgerða sem bótakrafa byggist á.  Ákvæðið gangi þannig lengra í að skerða bótarétt sakborninga en heimilt sé samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar.  Fullt tilefni geti hafa verið til aðgerða gegn sakborningi þótt hann hafi ekki að neinu leyti sjálfur átt sök á að skapa þær aðstæður sem leiði til aðgerðanna.  Verði það ekki talið standast að skerða rétt til bóta í slíkum tilvikum.

Á hinn bóginn sé ljóst að sakborningur geti sjálfur hafa valdið eða stuðlað að því að til rannsóknaraðgerða var gripið gegn honum.  Sé þá gert ráð fyrir í 175. gr. laga nr. 19/1991 að bætur til hans verði lækkaðar eða felldar niður eftir atvikum.  Ekki sé um slíkt að ræða í tilfelli stefnanda líkt og rakið hafi verið.

Stefnandi byggir á því að stefndi eigi að greiða stefnanda miskabætur vegna mannorðsmissis og atlögu gegn persónu og æru hans, sbr. 26. gr. skaðabótalaga.  Ásamt því að þola frelsissviptingu og gæsluvarðhald í tæplega 7 sólarhringa hafi athafnir lögreglunnar í Reykjavík valdið honum verulegum miska vegna mannorðs­missis og röskunar.  Strax eftir handtöku stefnanda hafi fréttamiðlar fengið upplýsingar um stórfellt fíkniefnamisferli.  Fyrirgangur lögreglunnar og rann­sóknar­at­hafnir allar hafi gert það að verkum að engum hafi dulist hver hinn meinti brotamaður hins mikla fíkniefnamisferlis væri.  Síðan hafi stefnandi ekki getað um frjálst höfuð strokið í sínum heimabæ og hann, og raunar öll fjölskylda hans, orðið fyrir aðkasti og samfélagslegri höfnun.  Þá sé kröfugerð stefnanda reist á því að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi að ósekju.  Frá upphafi rannsóknar málsins hafi stefnandi haldið fram sakleysi sínu og við rannsóknina hafi ekkert komið fram um það að hann ætti hlut að máli.  Þrátt fyrir þessar staðreyndir hafi stefnanda verið gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknarhagsmuna frá 21. febrúar 2004 til 27. febrúar s.á.  Miskabótakrafan sé áætluð og verði að telja hana síst of háa miðað við þann tíma sem stefnandi hafi sætt gæsluvarðhaldi svo og með tilliti til hinna alvarlegu sakargifta.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna skaðabóta- og refsiréttar auk meginreglna opinbers réttarfars og stjórnarskrár lýðveldisins um þvingunaraðgerðir. Þá vísar stefnandi til ákvæða laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, sérstaklega 175. og 176. gr.  Þá vísar hann til reglna skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum til 26. gr. um miskabætur.  Þá vísar stefnandi til 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 5. og 8. gr. laga nr. 97/1995 til stuðnings kröfu sinni.  Loks vísar hann til 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 með síðari breytingum.  Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Varðandi varnarþing vísast til 32. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi mótmælir málatilbúnaði stefnanda að öllu leyti og kröfum á honum reistum.  Byggir stefndi á því að tilefni hafi verið til handtöku og gæsluvarðhalds yfir stefnanda.  Rannsóknin hafi verið markviss, hlutlaus og í samræmi við lög og gæsluvarðhaldinu markaður eðlilegur tími miðað við aðstæður.

  Stefndi byggir á því að lögmætt og réttmætt tilefni hafi verið til að handtaka stefnanda.  Með því að sending sem innihélt fíkniefni í stórum stíl kom til landsins merkt stefnanda, sem áður hafði hlotið dóm fyrir fíkniefnamisferli, hafi augljóslega verið uppi rökstuddur grunur um að hann hefði framið brot sem sætt gæti ákæru.  Handtakan hafi einnig verið nauðsynleg við þessar aðstæður til að tryggja návist hans og til að koma í veg fyrir að hann spillti sönnunargögnum.  Stefnandi hafi greitt rúmlega 31 þúsund krónur óhikað og fengið pakkann afhentan.  Þeim útskýringum sem fram komi í stefnu um hugsanlegan uppruna pakkans hafi ekki verið borið við í skýrslum stefnanda hjá lögreglu.  Þá sé ítrekað að við hljóðupptöku hafi heyrst að hann saknaði einhvers og hafi sagt: „það hlýtur að vera í kistlinum“ og konan sem með honum hafi játt því.  Þá hafi heyrst hvar bankað virtist í kistlana.  Við þetta hafi augljóslega stigmagnast sá grunur lögreglu að hann ætti aðild að þessum innflutningi fíkniefna.  Auk þessa hafi stefnandi átt brotasögu tengda fíkniefnum.  Byggir stefndi með vísan til framangreinds og þess sem fram komi í málsgögnum að öðru leyti á 1. mgr. 97. gr. laga nr. 19/1991.

Stefndi byggir á því að allar rannsóknaraðgerðir sem fyrr sé lýst og fram komi nánar í málsgögnum hafi verið nauðsynlegar og réttmætar.  Hafi þær verið lögmætar og til þess fallnar að leita eftir megni eftir grundvallarupplýsingum strax í upphafi máls. Eðlilegt hafi verið að lögregla líkti eftir starfsaðferðum DHL-hraðflutningaþjónustu og verði að ætla að slík fyrirtæki leiti allra venjulegra leiða til að hafa sem fyrst upp á ætluðum móttakanda.  Engar aðgerðir lögreglu hafi gengið lengra en eðlilegt verði að teljast við þær aðstæður.  Því er mótmælt að lögregla hafi gengið óeðlilega langt og þannig brotið gegn hlutlægnisskyldu samkvæmt 31. gr. laga nr. 19/1991.  Hafi lögreglan fylgt eðlilegu verklagi við sambærilegar aðstæður þegar ekki næst í skráðan viðtakanda sendingar og óvissa er um heimilisfang hans.  Nafn stefnanda, sem hafi verið það eina í þjóðskrá, hafi hvorki verið skráð á dyrabjöllu né á póstkassa í anddyri hússins.  Á staðnum hafi fengist þær upplýsingar frá íbúa að stefnandi væri líklega fluttur burt.  Hafi því ekki verið rétt að skilja tilkynningu þar eftir um að hann ætti sendingu hjá DHL heldur hafi verið reynt að afla upplýsinga um dvalarstað stefnanda.  Eðlilegt hafi verið að hringja á skráð lögheimili þar sem tjáð var að hann byggi ekki og bent á foreldra hans.  Hafi lögreglan vegna þessarar málsóknar leitað sérstaklega upplýsinga um sambærilegt verklag, svo sem fram komi í greinargerð hennar á dskj. nr. 16.  En það samræmist þessu í öllum atriðum enda sé um hraðflutningaþjónustu að ræða og sérstakt keppikefli slíkra fyrirtækja að ná að afhenda beint til móttakanda sem fyrst ella þurfi að senda sendinguna til baka á kostnað fyrirtækisins.

Við skýrslutöku yfir stefnanda eftir að hann var handtekinn hafi þessi grunur magnast enn frekar enda hafi hann upplýst að konan sem með honum var hefði neytt með honum fíkniefna og upplýst var að fundist hefðu plastpokar í hans fórum sem notaðir hefðu verið undir fíkniefni.  Þá hafi framburður konunnar einnig ýtt undir grunsemdir um aðild stefnanda.  Eins og vísað hafi verið til í kröfu lögreglu um gæsluvarðhald hafi rannsóknin verið á frumstigi og eftir var að vinna úr ýmsum upplýsingar og leita nýrra, meðal annars um fjármál og hvernig stefnandi tengdist hugsanlega öðrum vitorðsmönnum og hverjir stæðu að sendingunni.  Þá þótti framburður stefnanda ekki trúverðugur og ekki í samræmi við framburð konunnar sem handtekin var á sama tíma.  Um lögmæti gæsluvarðhaldsins vísast einkum til a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en fyrir liggi að Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu lögreglustjóra og Hæstiréttur Íslands einnig í dómi sínum hinn 25. febrúar 2004, án þessa að varðhaldinu yrði markaður skemmri tími en í úrskurði héraðsdóms.

Stefndi byggir á því að varðhaldið og tilhögun þess hafi verið lögmæt og réttmæt í ljósi aðstæðna og þeirra upplýsinga við rannsóknina sem fyrir lágu.  Varðhaldið hafi alls ekki staðið í of langan tíma, einkum þegar þess sé gætt að hún hafi verið á algeru frumstigi og hafi átt eftir að vinna úr margvíslegum gögnum, meðal annars um fjármál stefnanda, skýrsluna af honum og öðrum, auk þess sem leita þurfti upplýsinga um annað fólk.  Höfðu á þessum tíma borist upplýsingar um ferðir tiltekinna nepalskra manna sem búsettir voru hér á landi og gátu hugsanlega tengst málinu.  Á frumstigi rannsóknarinnar og dögunum þar á eftir hafi verið ótækt að stefnandi gengi laus eða honum gert kleift að hafa samband við aðra, eftir atvikum þá sem ættu aðild að málinu.

Stefndi leggur áherslu á að rannsókn sem þessi sé tímafrek á frumstigi og úrvinnsla gagna einnig sem og upplýsingaöflun hvers konar.  Vanda hafi þurft til við að undirbúa skýrslutöku af stefnanda sem fram fór 25. febrúar 2004 en hún hafi verið ítarleg.  Ekki hafi þótt tímabært að yfirheyrsla færi fram fyrr en gagnaöflun og gagnaúrvinnslu, sem fram fór á gæsluvarðhaldstímabilinu, væri lokið.  Umrædd yfirheyrsla, sem fram fór, hafi síðan verið talin nægjanleg þar sem þá hafi verið farið yfir öll þau gögn er talin voru skipta máli fyrir rannsóknina og Jón Óskar yfirheyrður að öðru leyti um málið.  Ekki hafi verið talin ástæða til að óska eftir framlengingu á varðhaldinu, en nauðsynlegt þótti að afla heimildar til símhlustunar sem kæmi til framkvæmda þegar stefnandi yrði látinn laus auk þess sem aflað hafi verið heimildar til öflunar símaupplýsingagagna með úrskurðum Héraðsdóms hinn 26. febrúar.  Stefnandi hafi síðan verið látinn laus daginn eftir með því að lögreglumenn sóttu hann í fangelsið upp úr kl. 11 um morguninn og óku honum til Reykjavíkur.

Eins og fram komi í gögnum málsins sé rækilega gerð grein fyrir öllum forsendum og ráðstöfunum rannsóknar vegna einfalds misskilnings sem hafi orðið vegna ógreiddra opinberra gjalda sem stefnandi hafi verið krafinn um með innheimtubréfi.  Mistökin sem strax hafi verið leiðrétt rýri á engan hátt rannsókn málsins eða réttmæti aðgerða.  Geti þetta atriði á engan hátt orðið kröfum stefnanda til stuðnings.

Stefndi byggir á því með vísan til framangreinds að handtaka, gæsluvarðhald og aðrar rannsóknaraðgerðir hafi verið nauðsynlegar og lögmætar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 25. febrúar 2004.  Verði þá einnig að líta til eðlis brotsins og þeirra úrræða sem lögregla hafi almennt til að upplýsa slík brot.  Eins og að framan greini hafi komið upp mörg atriði sem hafi gert það líklegt, meðan á rannsókn stóð, að stefnandi kynni að eiga hlut að innflutningnum.  Því er mótmælt að lögregla hafi borið rangar sakir á stefnanda meðan á rannsókn stóð.  Auk þess verði að gera greinarmun á „röngum sakargiftum“ og rökstuddum grun sem leitt geti til þvingunarúrræða og annarra rannsóknaraðgerða lögum samkvæmt eins og framan sé lýst.

Stefndi byggir á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 175. gr. eða 176. gr. laga nr. 19/1991 til greiðslu bóta.  Lögmætt og réttmætt tilefni hafi verið til allra aðgerða lögreglu og þær hafi á engan hátt verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.  Stefndi telur að dómaframkvæmd sýni að heimildir þessar séu í samræmi við þau ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfest séu og vitnað sé til í stefnu.  Sjálfstæður réttur til bóta verði því ekki byggður á þeim umfram það sem greini í nefndum ákvæðum laga um meðferð opinberra mála.  Þá er mótmælt að byggt verði á öðrum heimildum sem greinir í stefnu og sé að mati stefnda í engu uppfyllt skilyrði 26. gr. laga nr. 50/1993.  Á engan hátt hafi verið um að ræða atlögu eða ólögmæta meingerð gegn persónu stefnanda.

Stefndi mótmælir að hann geti borið ábyrgð á umfjöllun fjölmiðla um málið, en gögn um það séu ekki lögð fram.  Sé ekki vitað um neina þá umfjöllun gegn stefnanda sem komið hafi fram fyrir tilstilli starfsmanna stefnda.  Engin gögn séu til stuðnings fullyrðingum um mannorðsmissi, aðkasti eða höfnun gagnvart stefnanda eða aðstandendum hans og sé málsástæðum þar að lútandi mótmælt.  Þótt gæsluvarðhald sé þungbært alla jafna hafi stefnandi engin gögn lagt fram um að andlegri heilsu hans hafi hrakað svo sem haldið sé fram í stefnu og sé óhjákvæmilegt að mótmæla því.  Þá telur stefndi að ekki hafi liðið óhóflega langur tími uns rannsókn var lokið eða uns ríkissaksóknari tilkynnti um að málið félli niður.  Ekki verði þó með góðu móti séð að bótakröfur stefnanda byggi á því sérstaklega.

Stefndi byggir á því að framburður stefnanda hafi ekki verið trúverðugur um nokkra þætti og hafi hann breytt framburði sínum við rannsókn málsins meðan hann sat í gæsluvarðhaldi.  Þannig hafi hann, í skýrslu hinn 20. febrúar, borið að engin fíkniefnatengsl væru milli sín og konunnar H, en hafi breytt framburði sínum hinn 25. febrúar á þá lund að hann hefði e.t.v. reykt marihuanavindling með henni.  Þá hafi ekki verið samræmi í framburði stefnanda um orðaskipti við konuna sem með honum var þegar pakkinn var tekinn upp.  Hafi þar verið um að ræða veigamikil atriði sem stefnandi hafi breytt í framburði sínum síðar, meðal annars um hverju það sætti að konan E hefði greint frá því að stefnandi hefði sagt að hann væri að taka á móti sendingu og nefnt í því samhengi gras eða hass.  Stefnandi hafi líka verið tvísaga um það hvort hann hefði bankað í kistlana sem í pakkanum voru.  Gagnvart rannsóknurum hafi þessi atriði ljóslega borið keim af því að stefnandi hagræddi framburði sínum.  Enn fremur verði ekki fram hjá því litið að framburður stefnanda um að forvitnin ein hafi rekið hann til að taka við pakka og greiða rúmlega 31 þúsund krónur fyrir séu mjög ótrúverðugar, enda hafi samtöl hans við DHL ekki borið þess merki að hann væri undrandi á sendingunni.  Skuli ítrekað að skýringum þeim sem um geti í stefnu um hugsanlegan uppruna pakkans hafi ekki verið borið við hjá lögreglu.

Stefndi bendi einnig á að í hljóðrituðu samtali við rannsóknarlögreglumann þann 1. mars 2004, kl. 13:21, sem fyrir liggi í málinu, komi fram hvar stefnandi greindi frá því að konurnar EÞ og JG kynnu að vera reiðubúnar til að gefa skýrslu.  Hafi stefnandi talið að þær hefðu vitneskju um að sendingin hefði verið send á nafn sitt fyrir misskilning og að annar maður H kynni að vera tengdur málinu.  Komi fram í samtalinu að rannsóknarlögreglumaðurinn hvatti stefnanda til að láta þær, og/eða aðra sem stefnandi teldi að hefðu upplýsingar um málið, hafa samband við rannsóknara og kvaðst stefnandi ætla að sjá til þess að það myndi gerast.  Eins og fram komi í greinargerð lögreglustjóra á dskj. nr. 16 hafi enginn haft samband við lögreglu vegna þessa.  Að mati lögreglu hafi á þessum tíma fyrst og fremst verið um að ræða ágiskanir stefnanda um meinta aðild H, sem ekki hafi verið studdar neinum gögnum.  Vegna þessa hafi ekki þótt fram kominn nægjanlegur grundvöllur til að yfirheyra konurnar um meinta vitneskju þeirra um hugsanlega aðild H að málinu og enn síður að yfirheyra H vegna þess.  Við yfirheyrslu þann 10. ágúst 2004 hafi hið hljóðritaða samtal stefnanda og lögreglumannsins verið borið undir stefnanda og þá hafi hann gefið framburð sem lögregla taldi gefa tilefni til upplýsingaöflunar frá EÞ.  Í viðtali lögreglu við hana hafi hún vísað framburði stefnanda alfarið á bug og kvaðst aldrei hafa haft eða fengið neinar upplýsingar sem tengst gætu umræddri sendingu og/eða rannsókninni.

Með vísan til framanritaðs byggir stefndi á því að fyrir hendi séu ástæður til að fella niður bætur með vísan til 1. mgr. 175. gr. laga nr. 19/1991, sérstaklega sökum þess að misræmi og tvísögli hafi verið í framburði stefnanda sem að auki hafi verið ótrúverðugur um marga þætti.

Að öðru leyti en að framan greini sé málatilbúnaði stefnanda mótmælt.  Stefndi telji sig hafa leiðrétt þann misskilning sem endurspeglist í áskorunum í stefnu.  Að öðru leyti sé þeim mótmælt sem þýðingarlausum og óljósum.

Stefndi krefst til vara lækkunar verði fallist á bótaskyldu.  Krafa stefnanda sé með öllu óraunhæf og í raun fjarstæðukennd miðað við tilefni og dómaframkvæmd í þeim tilvikum þegar til bótaábyrgðar hafi komið vegna handtöku og/eða gæsluvarðhalds.  Sé því krafist verulegrar lækkunar með hliðsjón af dómum sem gengið hafi þegar til bótaskyldu hafi komið.  Enn fremur sé til stuðnings lækkunarkröfu vísað til þess sem við eigi til stuðnings sýknukröfu að framan.

Stefndi mótmælir vaxtakröfum stefnanda og dráttarvaxtakröfum, einkum upphafstíma þeirra.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísast í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Samkvæmt 175. gr. laga nr. 19/1991 má taka til greina kröfu um bætur ef rannsókn hefur verið hætt eða ákæra ekki gefin út vegna þess að sú háttsemi sem sakborningur var borinn hafi talist ósaknæm eða sönnun hafi ekki fengist um hana.  Þó má samkvæmt ákvæðinu fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.  Bæta skal fjártjón eða miska, ef því er að skipta.

Samkvæmt 176. gr. sömu laga má dæma bætur vegna handtöku, leitar á manni eða í húsi, halds á munum, rannsóknar á heilsu manns, gæsluvarðhalds og annarra aðgerða sem hafa frelsisskerðingu í för með sér, aðrar en fangelsi, sbr. 177. gr. laganna.  Skilyrði bótagreiðslu eru þau að lögmæt skilyrði hafi brostið til slíkra aðgerða eða ef ekki hefur, eins og á stóð, verið nægilegt tilefni til slíkra aðgerða eða þær hafa verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.

Eins og áður greinir kom sending sem innihélt fíkniefni til landsins og var sendingin merkt stefnanda.  Af hálfu lögreglu var gengið frá sendingunni eins og hún hefði ekki verið opnuð til þess að unnt væri að afhenda vörusendinguna til skráðs móttakanda og freista þess þannig að upplýsa um hver eða hverjir væru eigendur fíkniefnanna.  Stefnandi var handtekinn skömmu eftir að hann hafði móttekið  og opnað hraðsendinguna. 

Eins og áður greinir var nafn stefnanda ekki skráð á dyrabjöllu né póstkassa á heimili hans og gat lögregla ekki afhent sendinguna fyrr en eftir nokkra eftirgrennslan.  Ekki verður talið að óeðlilegum aðferðum hafi verið beitt af lögreglu til að hafa upp á stefnanda í ljósi þess að um hraðsendingu var að ræða sem vænta má að reynt sé að afhenda hratt og vel.  Skilaboðum var komið til stefnanda um sendinguna og hafði hann samband við DHL hraðflutninga og spurðist fyrir um sendinguna sem síðan var afhent á heimili hans.  Er ekki fallist á að lögreglan hafi með aðgerðum sínum að þessu leyti brotið ákvæði 31. gr. laga nr. 19/1991.

Fyrir liggur að stefnandi tók við sendingunni athugasemdalaust.  Á reikningi sem fylgdi kom fram hver var sendandi vörunnar.  Þá greiddi stefnandi rúmar 31.000 krónur í aðflutningsgjöld til þess að fá pakkann afhentan.  Telja verður eðlilegt í ljósi þessarar atburðarásar, og þess að stefnandi hafði áður hlotið dóm fyrir fíkniefnamisferli, að rökstuddur grunur hafi á hann fallið um að hann hefði framið brot sem sætt gæti ákæru og réttmætt hafi verið að handtaka stefnanda við þessar aðstæður.  Ekki hefur verið sýnt fram á annað en að uppfyllt hafi verið lagaskilyrði til þess að kveða á um gæsluvarðhald yfir stefnanda og eru dómsúrlausnir í þá átt þar af leiðandi reistar á lögmætum grunni og í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála, stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt 2. mgr. 105. gr. laga nr. 19/1991 skal gæsluvarðhaldi markaður ákveðinn tími.  Sá sem krafist hefur gæsluvarðhalds skal láta sakborning lausan þegar ástæður til gæslu eru ekki lengur fyrir hendi.

Samkvæmt gögnum málsins var stefnandi yfirheyrður eftir handtöku hinn 20. febrúar 2004.  Gæsluvarðhaldsúrskurður var kveðinn upp síðdegis 21. febrúar 2004.  Rannsókn var á frumstigi.  Vinna þurfti upp gögn er sneru að símhlustun sem fram hafði farið fyrir handtöku, hlustun á upptöku er pakkinn var opnaður, skoða gögn er komu fram við húsleit, skoða framburð stefnanda og konu, sem var í för með honum og var handtekin um leið og stefnandi, aflað var upplýsinga um fjármál stefnanda og undirbúa þurfti ítarlega yfirheyrslu er fram fór yfir stefnanda 25. febrúar 2004.  Eftir þá yfirheyrslu var farið yfir málið og tekin ákvörðun um framhald málsins og var þá farið fram á úrskurð um símahlustun.  Var stefnandi síðan leystur úr haldi um hádegi 27. febrúar 2004.  Þegar þetta er virt verður að telja að rannsókn málsins hafi verið fram haldið með eðlilegum hætti þá daga sem stefnandi sat í gæsluvarðhaldi og þykir ekki sýnt fram á að honum hafi verðið haldið lengur í gæsluvarðhaldi en nauðsynlegt gat talist vegna rannsóknarinnar.

Samkvæmt framansögðu er ekki sýnt fram á að stefndi hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart stefnanda á grundvelli 175. gr. eða 176. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Stefnandi reisir miskabótakröfu sína einnig á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Þykir ekki sýnt fram á í málinu að stefndi beri ábyrgð á umfjöllun fjölmiðla um umrætt mál eða að stefndi beri ábyrgð á meintum mannorðsmissi stefnanda.  Er ekki sýnt fram á að stofnast hafi bótaábyrgð stefnda gagnvart stefnanda á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga.

Samkvæmt framansögðu ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

                                                                  D Ó M S O R Ð

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Jóns Óskars Júlíus­sonar.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Sveins Andra Sveins­­sonar hrl., 300.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.