Print

Mál nr. 74/2015

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Ólafur Eiríksson hrl.), V (Sigmundur Hannesson hrl.), U (Ragnar Tómas Árnason hrl.), W (Gísli Guðni Hall hrl., Hilmar Gunnarsson hdl.  1. prófmál), Y (Gestur Jónsson hrl.) og Z (Ragnar Halldór Hall hrl.)
Lykilorð
  • Umboðssvik
  • Bókhaldsbrot
  • Ársreikningur
  • Endurskoðandi
  • Einkahlutafélag
  • Réttindasvipting
  • Skilorð
Reifun

Ákærðu X, V og U voru bornir sökum um umboðssvik með því að hafa í störfum sínum sem stjórnendur M ehf. misnotað aðstöðu sína og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu þegar þeir létu það fjármagna efndir á samningum sem X og V gerðu í desember 2005 við A um sölu þeirrar síðarnefndu á hlutafé í þremur tilteknum félögum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt hljóðan sinni hefðu umræddir samningar engar skuldbindingar lagt á M ehf., heldur eingöngu á X og V. Þrátt fyrir það hefði M ehf. verið látið efna samninga þeirra við A og í því skyni greitt henni samtals 5.195.721.859 krónur. Hefðu ákærðu með þessu misnotað aðstöðu sína hjá M ehf. Þá var ekki fallist á að M ehf. hefði verið nægilega varið fyrir fjártjóni vegna þessara ráðstafana og sérstaklega vísað til þess að kröfuréttindi M ehf. á hendur MIE Ltd. hafi verið orðin tóm og því einskis virði. Samkvæmt þessu voru ákærðu X, V og U sakfelldir fyrir umboðssvik. Ákærðu X, V og U voru einnig sakfelldir fyrir meiri háttar brot gegn lögum nr. 145/1994 um bókhald með því að hafa ekki í tilteknum tilvikum hagað bókhaldi M ehf. á nægilega skýran, öruggan og aðgengilegan hátt á grundvelli áreiðanlegra og fullnægjandi gagna. Þá voru þeir sakfelldir fyrir meiri háttar brot gegn lögum nr. 3/2006 um ársreikninga með því að hafa í störfum sínum í sameiningu rangfært efnahagsreikninga, sem hafi verið hluti af ársreikningum M ehf. og samstæðureikningum fyrir samstæðu M ehf. fyrir árin 2006 og 2007, og hagað gerð þeirra þannig að reikningsskilin hafi ekki gefið glögga mynd af rekstrarafkomu og eignabreytingum á umræddum reikningsárum. Þannig hefðu ákærðu meðal annars talið til eignar í ársreikningum kröfur sem svöruðu til greiðslna til A án þess að fyrir lægi peningalán, viðskipti eða undirritaður lánssamningur. Ákærðu Y og Z voru sakfelld fyrir meiri háttar brot gegn lögum nr. 3/2006 og lögum nr. 18/1997 um endurskoðendur, sbr. lög nr. 79/2008 um sama efni, með því að hafa hagað störfum sínum við endurskoðun ársreikninga M ehf. og samstæðu félagsins fyrir árin 2006 og 2007 í ósamræmi við góða endurskoðunarvenju. Í dómi Hæstaréttar kom fram að vanræksla Y og Z að þessu leyti hefði leitt til þess að rangfærslur í reikningsskilum M ehf. um kröfur félagsins hafi staðið óátaldar. Ákærðu Y, Z og X voru aftur á móti sýknuð af þeim sakargiftum að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 18/1997 og 79/2008 með því að rækja ekki endurskoðunarstörf sín fyrir M ehf. eftir góðri endurskoðunarvenju og beita þar ekki viðurkenndum aðferðum eftir leiðbeinandi reglum alþjóðasamtaka endurskoðenda. Í dómi Hæstaréttar var rakið að þótt háttalag þeirra kynni að hafa strítt gegn góðri endurskoðunarvenju yrði í umræddum lögum ekki fundin tæk heimild til að leggja á refsingu fyrir þá háttsemi sem þeim var gefin að sök. Í þeim efnum væri enn síður fært að byggja á ótilgreindum leiðbeinandi reglum alþjóðasamtaka endurskoðenda.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2015 af hálfu ákæruvaldsins og krefst þess að ákærðu verði sakfelld fyrir þá háttsemi, sem þeim er gefin að sök í ákæru, og þau dæmd til refsingar. Einnig er þess krafist að ákærðu W, Y og Z verði svipt löggildingu til endurskoðunarstarfa.

Ákærði X krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi að því er sig varðar, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.

Ákærði V krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að sér verði gerð vægasta refsing sem lög leyfi.

Ákærði U krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærða W, Y og Z krefjast þess hvert fyrir sitt leyti aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að kröfu um sviptingu réttinda verði hafnað og viðurlög ákveðin svo væg sem lög leyfi.

I

Mál þetta á rætur að rekja til þess að Fjármálaeftirlitið beindi 25. mars 2009 tilkynningu til sérstaks saksóknara á grundvelli 1. mgr. 12. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, þar sem greint var frá því að Fjármálaeftirlitið teldi ástæðu til að ætla að forsvarsmenn Sjóvár-Almennra trygginga hf. og eftir atvikum fleiri, „svo sem fulltrúar Milestone og annarra tengdra aðila hafi með refsiverðum hætti gerst brotlegir við lög.“ Með vísan til 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008 um embætti sérstaks saksóknara, eins og ákvæðið hljóðaði á þeim tíma, leitaði hann 27. mars 2009 að fenginni þessari tilkynningu ákvörðunar ríkissaksóknara um hvort sérstakur saksóknari skyldi fara með málið. Ríkissaksóknari greindi í bréfi 31. sama mánaðar frá þeirri ákvörðun sinni að sérstakur saksóknari skyldi fara með málið, sem varðaði á þeim tíma aðeins vátryggingafélagið. Að þessu fengnu hófst rannsókn lögreglu, en á meðan hún stóð yfir barst sérstökum saksóknara 20. desember 2010 tilkynning skiptastjóra í þrotabúi Milestone ehf. samkvæmt 84. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um ætlaða refsiverða háttsemi fyrirsvarsmanna félagsins. Tók rannsókn málsins upp frá því jafnframt mið af þeirri tilkynningu, en að rannsókn lokinni höfðaði sérstakur saksóknari málið með ákæru 5. júlí 2013.

Á þeim tíma, sem ríkissaksóknari tók ákvörðunina 31. mars 2009, var verksvið sérstaks saksóknara afmarkað með 1. mgr. 1. gr. laga nr. 135/2008 á þann hátt að það tæki til rannsóknar á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar atburða, sem leiddu til setningar laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., og þess ástands sem þá skapaðist á fjármálamarkaði, hvort sem það tengdist starfsemi fjármálafyrirtækja, annarra lögaðila eða einstaklinga, og eftir atvikum að fylgja rannsókn eftir með saksókn. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laga nr. 135/2008, eins og þau hljóðuðu á þeim tíma, hafði sérstakur saksóknari stöðu og almennar heimildir lögreglustjóra samkvæmt lögreglulögum og ákæruvald í málum, sem féllu undir 1. gr. laganna. Átti það undir ríkissaksóknara samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna að taka ákvörðun um hvort sérstakur saksóknari færi með mál eða annar ákærandi ef háttsemin, sem málið tæki til, fól í sér annað eða önnur brot en þau, sem sérstaki saksóknarinn fór með eftir 1. gr. laganna, en jafnframt var ríkissaksóknara þar falið að leysa úr ágreiningi, sem kynni að rísa um valdsvið sérstaks saksóknara og annarra ákærenda. Meðan á lögreglurannsókn málsins stóð var 1. mgr. 1. gr. laga nr. 135/2008 tvívegis breytt, fyrst með 1. gr. laga nr. 52/2010 og síðan 1. gr. laga nr. 82/2011, en að orðnum þeim breytingum var valdsvið sérstaks saksóknara afmarkað þannig að undir hann ætti að rannsaka grun um refsiverða háttsemi, sem tengst hefði starfsemi fjármálafyrirtækja og þeirra sem átt hefðu hluti í þeim fyrirtækjum eða farið með atkvæðisrétt í þeim. Sömuleiðis grun um refsiverða háttsemi stjórnenda, ráðgjafa og starfsmanna fjármálafyrirtækja og þeirra annarra, sem komið hefðu að starfsemi fyrirtækjanna. Að auki ætti undir sérstakan saksóknara að rannsaka grun um alvarleg brot gegn 109. gr., 128. gr., 129. gr., 179. gr., 247. gr., 248. gr., 249. gr., 250. gr., 253. gr., 254. gr., 262. gr., 264. gr. og 264. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, alvarleg brot gegn skatta- og tollalögum, brot gegn lögum sem vörðuðu gjaldeyrismál, samkeppni, verðbréf, lánsviðskipti, umhverfisvernd, vinnuvernd, stjórn fiskveiða og grun um önnur alvarleg, óvenjuleg eða skipulögð fjármunabrot, sem tengdust atvinnurekstri eða verslun og viðskiptum. Fór sérstakur saksóknari jafnframt með ákæruvald í slíkum málum.

Þegar sérstakur saksóknari hóf eftir ákvörðun ríkissaksóknara rannsókn þessa máls, sem á þeim tíma sneri að öðrum atriðum en ákæran í málinu tekur til, hafði sérstakur saksóknari almennar heimildir lögreglustjóra til slíkra aðgerða. Meðan á rannsókninni stóð og áður en ákæra var gefin út var lögum nr. 135/2008 samkvæmt áðursögðu breytt á þann hátt að engin tvímæli geta leikið á að ákæruvald í málinu eigi undir sérstakan saksóknara. Þegar af þessum sökum verður hafnað aðalkröfu ákærða X um að málinu verði vísað frá héraðsdómi að því er hann varðar.

II

1

Af gögnum málsins verður ráðið að Milestone ehf. hafi verið stofnað á árinu 1988 og borið þá annað heiti, sem var breytt í þetta horf 2004. Við þá breytingu munu hluthafar í félaginu hafa verið bræðurnir ákærðu X og V og systir þeirra, A. Hlutafé í félaginu var á þeim tíma 50.000.000 krónur, en á aðalfundi 20. maí 2005 var það hækkað í 2.000.000.000 krónur ásamt því að stjórn félagsins var þar heimilað tímabundið til 30. apríl 2006 að hækka það enn frekar um allt að 900.000.000 krónur með útgáfu nýrra hluta. Á aðalfundinum 20. maí 2005 voru hluthafarnir þrír öll endurkjörin í stjórn, auk þess sem ákærði Z og vinnuveitandi hans, KPMG endurskoðun hf., var endurkjörinn endurskoðandi félagsins. Þá var á fundinum staðfest ráðning ákærða U í stöðu framkvæmdastjóra félagsins, en áður hafði verið gerður ráðningarsamningur við hann um það starf 24. desember 2004, sem síðar var leystur af hólmi með nýjum ráðningarsamningi 1. september 2006, þar sem starfsheiti ákærða var breytt í forstjóra. Á aðalfundinum 20. maí 2005 var jafnframt staðfest að ákærði X léti af starfi framkvæmdastjóra félagsins, en honum og ákærða U var þar veitt prókúruumboð fyrir það. Eins og nánar greinir hér síðar neytti stjórn Milestone ehf. 22. júní 2005 heimildarinnar, sem henni var veitt á aðalfundinum 20. maí sama ár, með því að ákveða að hækka hlutafé í félaginu um 857.000.000 krónur og var þannig hlutaféð upp frá því samtals 2.857.000.000 krónur.

Samkvæmt samþykktum fyrir Milestone ehf., sem staðfestar voru á hluthafafundi sem einnig mun hafa verið haldinn 20. maí 2005, var tilgangur félagsins „eignarhald í öðrum félögum og fjárfestingarstarfsemi, inn- og útflutningur, leigu- og lánastarfsemi, rekstur fasteigna og annar skyldur rekstur.“ Um þær mundir hafði Milestone ehf. keypt 66,7% hlutabréfa í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Í ársreikningi 2005, sem gerður var fyrir samstæðu Milestone ehf. 31. mars 2006, var Sjóvá-Almennar tryggingar hf. talið dótturfélag Milestone ehf., en tíu önnur félög voru þar nefnd hlutdeildarfélög, Fragrance Investments ehf., Íslensk endurtrygging hf., Klasi hf., Securitas hf., SJ-fasteignir ehf., SJ-fjármögnun hf., Tónlistarfélagið Litur ehf., Þáttur eignarhaldsfélag ehf. og 33 ehf. auk erlenda félagsins Inglewood Ltd. Að auki átti félagið á þeim tíma meðal annars 9,57% hlutabréfa í Íslandsbanka hf., sem síðar fékk heitið Glitnir banki hf., 5,79% hlutabréfa í HB Granda hf. og 2,63% hlutabréfa í Actavis hf., sem í gögnum málsins er jafnframt stundum nefnt Actavis Group hf. Eftir gögnum málsins keypti Milestone ehf. í maí 2006 síðan 33,3% hlutabréfa í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og í júní sama ár öll hlutabréf í L&H eignarhaldsfélagi ehf., sem mun hafa átt 99% hlutabréfa í Lyf og heilsu hf., auk þess að standa í desember 2006 að stofnun Askar Capital hf., þar sem Milestone ehf. mun hafa átt 85% hlutabréfa. Í árslok 2006 átti þannig Milestone ehf. öll hlutabréf í Sjóvá-Almennum tryggingum hf., svo og Sjóvá-Almennum líftryggingum hf. og Sjóvá fjármögnun hf. Á árinu 2007 seldi Milestone ehf. talsverðan hluta af hlutabréfum sínum í Glitni banka hf. auk allra hlutabréfa sinna í Actavis hf., en eignaðist gegnum dótturfélag sitt, Racon Holdings AB, sænskt vátryggingafélag og fjárfestingarbanka, Invik & Co. AB, ásamt dótturfélögum þess félags víða erlendis, sem síðar var gefið heitið Moderna Finance AB. Meðal annars vegna þessara viðskipta jukust heildareignir samstæðu Milestone ehf. á árinu 2007 þannig að bókfært verð þeirra í efnahagsreikningi í lok þess árs nam 391.627.000.000 krónum í stað 170.075.000.000 króna í byrjun ársins, en skuldir jukust á hinn bóginn úr 126.348.000.000 krónum í ársbyrjun í 322.114.000.000 krónur í árslok.

Þegar hér var komið sögu gegndi ákærði U sem fyrr starfi forstjóra Milestone ehf., en aðrir helstu starfsmenn félagsins voru þá B, sem gerðist aðstoðarforstjóri á árinu 2006 en hafði áður starfað sem hæstaréttarlögmaður og prófessor í lögum við Háskólann í Reykjavík, C, sem var fjármálastjóri félagsins frá 2006, D, sem hóf störf hjá félaginu snemma árs 2007 en hafði áður starfað sem endurskoðandi hjá KPMG endurskoðun hf., og E lögfræðingur, sem einnig hóf störf hjá Milestone ehf. í byrjun árs 2007 og hafði áður unnið hjá KPMG endurskoðun hf. Í málinu liggur fyrir að fáir aðrir hafi starfað hjá Milestone ehf., en ákærðu X og V hafi sem stjórnarmenn í félaginu báðir haft starfstöð í húsakynnum þess. Að öðru leyti ber að geta þess að F, sem starfaði hjá félagi í fullri eigu Milestone ehf. með heitinu Amarel ehf., annaðist færslu á bókhaldi Milestone ehf. á þeim tíma, sem málið varðar. D hafði í fyrra starfi sínu hjá KPMG endurskoðun hf. áritað ársreikninga Milestone  ehf. fyrir árið 2005 ásamt ákærða Z, en ársreikninga félagsins fyrir 2006 og síðar árituðu ákærðu Z og Y sem starfsmenn sama endurskoðunarfyrirtækis. Eins og nánar greinir hér síðar vann ákærða W jafnframt sem starfsmaður sama fyrirtækis ásamt ákærðu Z og Y að endurskoðun reikningsskila Milestone ehf. fyrir árið 2006 og síðar.

Síðar verður gerð grein fyrir rás ýmissa atburða í starfsemi Milestone ehf. á árunum frá 2005, en þess er hér að geta að á fundi stjórnar félagsins 7. janúar 2009 gerði forstjóri þess grein fyrir vinnu við „fjárhagslega endurskipulagningu sem staðið hefur yfir hjá félaginu frá því að íslensku bankarnir hrundu í október 2008.“ Í fundargerð sagði að eftir langar viðræður við skilanefnd Glitnis banka hf. og aðra kröfuhafa lægju fyrir drög að samkomulagi, en næði þessi endurskipulagning fram að ganga yrði að breyta samþykktum félagsins þannig að stjórnarmenn yrðu fimm, hlutafé yrði lækkað í 4.000.000 krónur og gefin yrðu út áskriftarréttindi. Tæki áætlun um þessa endurskipulagningu til allra lánardrottna. Á stjórnarfundi 26. febrúar 2009 var greint frá því að Glitnir banki hf. hafi horfið frá stuðningi við áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu Moderna Finance AB. Stjórnin hafi því samþykkt að taka fram komnum tilboðum í nánar tilgreind félög í eigu Moderna Finance AB, svo og að Milestone ehf. keypti Sjóvá-Almennar tryggingar hf. af Moderna Finance AB fyrir 1 sænska krónu og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. keypti Askar Capital hf. fyrir sömu fjárhæð. Loks hafi stjórnin samþykkt að bjóða lánardrottnum Milestone ehf. að „yfirtaka allt hlutafé“ í félaginu til að „fylgja eftir fjárhagslegri endurskipulagningu á Sjóvá og Askar Capital.“ Á fundi stjórnarinnar 15. mars sama ár var samþykkt að selja Moderna Finance AB til Glitnis banka hf. til uppgjörs á tiltekinni kröfu, svo og að hverfa frá því að Milestone ehf. keypti Sjóvá-Almennar tryggingar hf. Tíu dögum síðar voru kynnt á stjórnarfundi drög að frumvarpi til nauðasamnings fyrir Milestone ehf. og beiðni um heimild til nauðasamningsumleitana. Í frumvarpinu væri ráðgert að lánardrottnar fengju „u.þ.b. 6% af kröfum sínum greiddar“ með því að eignast allt hlutafé í Milestone ehf., en kröfur lægri en 1.000.000 krónur yrðu greiddar að fullu og væri sú fjárhæð jafnframt lágmarksgreiðsla upp í allar kröfur. Samþykkt var að leita nauðasamnings samkvæmt þessu. Á stjórnarfundi 20. apríl 2009 var fært í fundargerð að enn væri beðið afstöðu Glitnis banka hf. til nauðasamningsumleitana félagsins, en dráttur hafi orðið á svari bankans og hafi hann einnig „tekið yfir eignir Moderna Finance“. Um niðurstöðu bankans í þessum efnum liggur ekkert frekar fyrir í málinu, en samkvæmt kröfu stjórnar Milestone ehf. var félagið tekið til gjaldþrotaskipta 18. september 2009.

2

Milestone Import Export Ltd. var skráð 25. nóvember 2002 í fyrirtækjaskrá Bresku Jómfrúareyja, en þann dag var gerður stofnsamningur fyrir félagið, samþykktir þess undirritaðar af starfsmanni Caribbean Corporate Services Ltd. á Tortola og stofnfundur haldinn. Á þeim fundi mun Targus Managers Ltd., með aðsetur á Seychelleseyjum, hafa verið falin stjórn Milestone Import Export Ltd. Samkvæmt hlutaskrá í félaginu fengu ákærðu X og V ásamt A útgefin hlutabréf í félaginu 9. maí 2003, ákærði X að nafnverði 403 bandaríkjadalir, ákærði V að nafnverði 317 bandaríkjadalir og A að nafnverði 280 bandaríkjadalir, en þannig mun heildarhlutafé í félaginu hafa numið 1.000 bandaríkjadölum. Eftir hlutaskránni framseldu þau hlutabréf sín 2. janúar 2004, ákærði X til Nordic Pharma Invest Ltd., ákærði V til Pargo Inc. og A til Wiko S.A., en þessi þrjú félög voru samkvæmt hlutaskránni með aðsetur á Tortola og virðast þau hafa verið í eigu framseljendanna.

Á stjórnarfundi í Milestone Import Export Ltd. 9. maí 2003 hvarf Targus Managers Ltd. úr stjórn félagsins og tók þar sæti í staðinn G búsettur í Luxembourg. Sá maður sagði sig úr stjórninni 25. nóvember sama ár og komu í hans stað H og I, báðar með aðsetur á nánar tilgreindum stað í Panama. Þær undirrituðu 26. janúar 2004 sem stjórnarmenn í Milestone Import Export Ltd. umboð handa ákærðu X og V ásamt A til að geta í sameiningu og án takmarkana gert hvers kyns ráðstafanir í nafni félagsins. Samkvæmt gögnum um skráningu stjórnarmanna í félaginu gengu H og I úr stjórninni 30. september 2005 og tóku þá sæti þeirra J og K, bæði með aðsetur á sama stað í Panama og fyrri stjórnarmennirnir. Af gögnum málsins verður ekki annað séð en að stjórn félagsins hafi verið óbreytt upp frá þessu.

Í málinu liggur fyrir skjal með fyrirsögninni „Milestone Import Export Ltd. áætlaður efnahagsreikningur 02.02.2005“, en að öðru leyti var það ekki dagsett og ber það ekki með sér frá hverjum það stafaði. Samkvæmt þessum efnahagsreikningi voru heildareignir félagsins á þeim tíma að andvirði 19.089.859.000 krónur. Þar af var verðmæti eignarhluta í öðrum félögum talið 16.212.657.000 krónur, en samkvæmt sundurliðun á þeirri fjárhæð í skýringum við reikninginn var þar um að ræða alla hluti í L&H eignarhaldsfélagi ehf. og nánar tilgreindur fjöldi hluta í Actavis hf., Íslandsbanka hf., KB banka hf. og Atorku hf., sem í ýmsum gögnum málsins er einnig nefnt Atorka Group hf., auk félags með heitinu „BG Capital“. Að öðru leyti var talið til eignar skuldabréf útgefið af Milestone ehf. að andvirði 1.786.945.000 krónur, viðskiptakrafa á hendur L&H eignarhaldsfélagi ehf. að fjárhæð 249.807.000 krónur og 840.450.000 krónur vegna handveðsettrar innstæðu á bankareikningi. Skuldir voru samtals 9.996.184.000 krónur, þar af 7.849.070.000 krónur við nánar tilgreinda íslenska banka eða erlend útibú þeirra og skuldabréfalán að fjárhæð 2.147.114.000 krónur frá „Inglewood“. Eigið fé var sagt að fjárhæð 9.093.676.000 krónur, þar af 30.000.000 krónur í hlutafé.

Hér á eftir verður greint frá helstu atriðunum sem ráðin verða af gögnum málsins um starfsemi Milestone Import Export Ltd. á árunum frá 2005, en í ýmsum þessum gögnum var félagið nefnt Milestone Ltd. Með ákvörðun dómstóls á Bresku Jómfrúareyjum 11. apríl 2011 var félagið tekið til gjaldþrotaskipta samkvæmt kröfu þrotabús Milestone ehf. Samkvæmt skýrslu skiptastjóra í þrotabúi Milestone Import Export Ltd. til kröfuhafa 10. júní 2011 og bréfi hans 3. apríl 2012 virðast engar eignir hafa komið fram við gjaldþrotaskiptin, en um frekari framvindu þeirra liggur ekkert fyrir í málinu.

3

Leiftri Ltd. var fyrir atbeina Belmont Trust Ltd. á Tortola skráð í fyrirtækjaskrá Bresku Jómfrúareyja 25. maí 2005 og var þann dag gerður stofnsamningur fyrir félagið og samþykktir. Samkvæmt stofnsamningnum átti að stjórna starfsemi félagsins frá Jersey á Ermasundseyjum og var tekið þar fram að hlutafé í því skyldi vera að nafnverði 39.733 evrur. Í samþykktunum voru meðal annars ákvæði um stjórn félagsins, sem skyldi skipuð fimm mönnum, þremur „Executive Directors“ og tveimur „Non-Executive Directors“. Hlutverk þeirra síðarnefndu skyldi lúta að eftirliti ásamt því að þeir yrðu að samþykkja hvers kyns meiri háttar ráðstafanir eða fjárfestingar, en til þeirra töldust ráðstafanir eða fjárfestingar sem vörðuðu hagsmuni umfram 10.000 evrur. Gæti stjórn ekki tekið ákvörðun um slíka hagsmuni nema með atbeina að minnsta kosti eins „Executive Director“ og eins „Non-Executive Director“. Tekið var fram að stjórnarfundi mætti halda hvar sem hentugt væri fyrir stjórnarmenn, en þó ekki undir nokkrum kringumstæðum á Íslandi. Skyldi litið svo á að fundur, sem haldinn væri á Íslandi, hefði aldrei farið fram og skyldu allar ákvarðanir á slíkum fundi taldar ógildar.

Belmont Trust Ltd. gaf út yfirlýsingu 26. maí 2005, þar sem staðfest var að L, M og N hafi ásamt ákærðu X og U tekið sæti í stjórn Leiftra Ltd. Í fundargerð frá fyrsta fundi stjórnarinnar, sem haldinn var 2. júní 2005, kom fram að þrír fyrstnefndu stjórnarmennirnir væru „Executive Directors“ í félaginu, en þeir tveir síðastnefndu „Non-Executive Directors“. Af gögnum málsins verður ekki séð hvernig í öndverðu hafi verið háttað eignarhaldi að hlutabréfum í Leiftra Ltd., en með samningi 16. nóvember 2005 fólu ákærðu X og V ásamt A, sem þar voru nefnd eigendur félagsins, Basel Corporate Services Ltd. að fara með daglega stjórn þess.

Í nánari lýsingu atvika hér í framhaldinu verður vikið að breytingum sem urðu upp frá þessu á eignarhaldi að hlutabréfum í Leiftra Ltd. og stjórn félagsins, en þess er að geta að allir hlutir í félaginu munu í desember 2011 hafa verið framseldir manni, sem kemur að öðru leyti ekki við sögu í málinu. Ekkert liggur fyrir um afdrif félagsins eftir þann tíma.

III

1

Á fyrsta fundi stjórnar Leiftra Ltd., sem haldinn var 2. júní 2005 og áður var getið, var samþykkt að félagið gerði samning um lán ótiltekinnar fjárhæðar við Milestone Import Export Ltd. til að kaupa af því félagi fyrir ótilgreint verð hlutabréf í Atorku hf., Actavis hf. og Íslandsbanka hf. ásamt framvirkum samningum um kaup á hlutabréfum í síðastnefndum tveimur félögum, en einskis var nánar getið um fjölda hlutbréfa sem þessi viðskipti ættu að taka til. Jafnframt var samþykkt að þessi hlutabréf og framvirku samningarnir yrðu afhentir til að kaupa nýtt hlutafé í Milestone ehf. að nafnverði 857.000.000 krónur. Yrðu þessi verðmæti metin í þeim kaupum sem greiðsla á 3.430.101.744 krónum, en til viðbótar yrði greitt í reiðufé 4.204.246.608 krónur fyrir þetta nýja hlutafé. Ekki var minnst á hvaðan það reiðufé myndi koma, en tekið var fram að samningar félagsins við Milestone ehf. væru til skoðunar hjá lögmanni á Bresku Jómfrúareyjum og kynnu þeir að taka minni háttar breytingum eftir hana. Á næsta fundi stjórnar Leiftra Ltd. 22. júní 2005 var aftur fjallað um framangreind viðskipti. Þar var tilteknum stjórnarmönnum veitt umboð til að undirrita lánssamning við Milestone Import Export Ltd. auk þess sem samþykkt var að kaupa af því félagi 49.982.963 hluti í Actavis hf. fyrir 2.014.313.426 krónur, 45.286.234 hluti í Atorku hf. fyrir 276.246.027 krónur og 82.800.000 hluti í Íslandsbanka hf. fyrir 1.084.680.000 krónur.

Í málinu liggur fyrir samningur milli Leiftra Ltd. sem lántaka og Milestone Import Export Ltd. sem lánveitanda um lán að fjárhæð 7.634.348.352 krónur. Samkvæmt samningnum átti lánið að bera svonefnda LIBOR vexti án nánari tilgreiningar með 2,5% álagi og koma til endurgreiðslu í einu lagi innan árs frá dagsetningu samningsins. Samningurinn var undirritaður af hálfu Leiftra Ltd. 22. júní 2005, en á hinn bóginn af ákærða X einum fyrir hönd Milestone Import Export Ltd. 3. nóvember 2005. Samkvæmt yfirlýsingu 13. júní 2006, sem var undirrituð af C fyrir hönd síðastnefnds félags og ákærða U vegna Leiftra Ltd., var gildistími þessa lánssamnings framlengdur til 31. desember 2008.

2

Á fundi stjórnar Milestone ehf. 22. júní 2005 var sem fyrr segir ákveðið að neyta heimildar samkvæmt samþykktum félagsins til að hækka hlutafé í því um 857.000.000 krónur. Í fundargerð kom fram að samningur hafi verið gerður um kaup Leiftra Ltd. á þessum nýju hlutum, en fyrir þá yrði greitt „með reiðufé, að fjárhæð kr. 4.204.246.608, auk annarra verðmæta eins og skýrsla stjórnar ber með sér, samtals að verðmæti kr. 3.430.101.745.“ Hafi hlutirnir í Milestone ehf. verið „keyptir á genginu 8,91, sem samsvarar markaðsverði hlutanna.“ Skýrslan sem vísað var til í fundargerðinni bar fyrirsögnina: „Skýrsla stjórnar Milestone ehf. sbr. 26. gr., sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 138/1994“, en hún var undirrituð 22. júní 2005 eins og fundargerðin af tveimur stjórnarmönnum félagsins, ákærða X og A, og staðfest af ákærða Z sem endurskoðanda þess „um greiðslu hluta í félaginu með öðru en reiðufé.“ Í skýrslunni var tiltekið að greitt hafi verið með afhendingu hlutabréfa í Actavis hf., Atorku hf. og Íslandsbanka hf., auk þess sem afhentir hafi verið „framvirkir samningar – Actavis og Ísl.banki“. Greint var frá nafnverði hlutabréfanna og verðmæti þeirra á sama hátt og gert var á fundi stjórnar Leiftra Ltd. 22. júní 2005 sem áður var getið, en að auki var verðmæti framvirkra samninga sagt nema 54.862.290 krónum. Samtals væri því um að ræða eignir að andvirði 3.430.101.745 krónur og var tekið fram að við „verðmat ofangreindra verðmæta var stuðst við markaðsverð. Um er að ræða hlutabréf skráð í Kauphöll Íslands.“

Í tengslum við framangreint munu nýjar samþykktir fyrir Milestone ehf. hafa verið staðfestar á hluthafafundi 22. júní 2005. Þær virðast hafa verið efnislega eins og eldri samþykktir félagsins að öðru leyti en því að hlutafé nam orðið 2.857.000.000 krónum. Í framhaldi af þessu var fyrirtækjaskrá tilkynnt 21. júlí 2005 um hækkun hlutafjár í Milestone ehf. um 857.000.000 krónur og sagt að fyrir þá nýju hluti hafi verið greiddar 7.632.348.353 krónur.

Að gerðu þessu voru hluthafar í Milestone ehf. orðnir fjórir. Samkvæmt ársreikningi fyrir félagið vegna ársins 2005 var Leiftri Ltd. eigandi 31,6% hlutafjár, ákærði X 29,7%, ákærði V 23,4% og A 15,3%.

3

Ákærði V og A undirrituðu 14. nóvember 2005 skjal með fyrirsögninni: „Samkomulags- og umboðsskjal“. Þar sagði að A ætti „um 28% hlutafjár í Milestone ehf.“ og ákærði V um 32%. Þau væru sammála um að standa sameiginlega að sölu þessara eignarhluta ásamt eignarhlutum í öðrum félögum hér á landi og erlendis, sem þau ættu með ákærða X. Fælu þau O hæstaréttarlögmanni að koma fram fyrir sína hönd ásamt P endurskoðanda hjá KPMG endurskoðun hf. Hefðu þeir ótakmarkað umboð til viðræðna um sölu hlutanna, en þeim væri á hinn bóginn óheimilt að undirrita skjöl í því sambandi nema með sérstöku samþykki umbjóðenda sinna. Átti samkomulagið að gilda í sex mánuði og skuldbundu ákærði V og A sig til að ráðstafa ekki á þeim tíma hlutum sínum í Milestone ehf.

Ákærðu X og V gerðu 15. nóvember 2005 ítarlegan hluthafasamning vegna eignarhluta sinna í Milestone ehf. og Leiftra Ltd. Í upphafi samningsins var tekið fram að ákærði X ætti 28,2% og ákærði V 22,2% hlutafjár í Milestone ehf., svo og að sá fyrrnefndi ætti 40,3% og sá síðarnefndi 31,7% hlutafjár í Leiftra Ltd. Það félag ætti síðan 30% hlutafjár í Milestone ehf. Af þessu er að sjá að ákærði V hafi horfið frá þeim ráðagerðum, sem greindi í fyrrnefndu samkomulagi hans og A frá deginum á undan.

A gerði 16. nóvember 2005 skriflegt samkomulag við ákærðu X og V, þar sem hún skuldbatt sig til að selja og þeir sig til að kaupa hlutafé hennar í Milestone ehf., sem var sagt vera 19,6% hlutafjár í félaginu, og hlutafé hennar í „Milestone Ltd.“ og Leiftra Ltd., sem í hvoru tilviki væri 28% þess. Tekið var fram að ákærðu X og V væri heimilt að „tilgreina aðra aðila sem kaupendur, þ.m.t. Milestone ehf., Leiftra ltd. eða önnur stofnuð eða óstofnuð félög.“ Kaupverð hlutabréfanna í Milestone ehf. var ákveðið 3.550.540.000 krónur og hlutabréfanna í Milestone Import Export Ltd. og Leiftra Ltd. í einu lagi 2.228.027.000 krónur. Sagði að kaupverðið væri ákveðið með tilliti til þess „að bókfært eigið fé félaganna sé samtals kr. 18.115.000.000 í Milestone ehf. og kr. 8.203.339.000 í Leiftra Ltd./Milestone Ltd. miðað við uppgjör 30. september 2005, sem liggur fyrir í drögum.“ Var A veittur réttur til að fela áðurnefndum P að kanna eignir og skuldir félaganna, en ef leidd yrðu í ljós frávik frá því eigin fé þeirra, sem tilgreint var, skyldi kaupverð taka breytingum eftir nánar tilteknum reglum. Af kaupverði hlutabréfanna í Milestone ehf. átti að greiða 750.000.000 krónur við undirritun samkomulagsins, en eftirstöðvarnar, sem yrðu bundnar vísitölu neysluverðs miðað við grunntölu hennar í nóvember 2005, skyldu greiddar með 18 jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. desember sama ár. Kaupverð hlutabréfanna í Milestone Import Export Ltd. og Leiftra Ltd. skyldi jafnframt vera verðtryggt á sama hátt og greiðast með 18 jöfnum mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. júlí 2006. Stæðu hlutabréfin að handveði til tryggingar greiðslum þar til helmingur kaupverðs yrði greiddur. Þá var tekið fram að útfæra ætti kaupin nánar í kaupsamningum og skyldi stefnt að því að ljúka þeim ekki síðar en 25. nóvember 2005.

Í framhaldi af þessu samkomulagi gengu drög að samningum um kaupin í tölvubréfum milli O, sem kom fram af hálfu A, og B, sem kom fram af hálfu ákærðu X og V, en að slíkum bréfasendingum kom ákærði U einnig að nokkru leyti. Ekki varð af því að ljúka samningsgerð í síðasta lagi 25. nóvember 2005, en ætla má að ástæður þess kunni að einhverju leyti að skýrast af því sem sagði í svohljóðandi tölvubréfi B til O 24. þess mánaðar: „X var að ræða við P endurskoðanda um einhvern skattavinkil á þessu hjá A. Ef gengið er frá kaupunum öllum núna lendir hún í 500 milljóna skatti. Þeir eru að skoða hvort það sé rétt að stilla þessu upp sem kaupum að hluta og sölu og kauprétti á restinni. Ég læt þig vita þegar ég heyri frá þeim um það hvernig þeir vilja hafa þetta.“ Lyktir þessa urðu þær að 4. desember 2005 gerði A sex samninga við ákærðu X og V, sem nú verður nánar lýst.

Í fyrsta lagi gerðu A, sem nefnd var söluréttarhafi, og ákærðu X og V, sem sameiginlega voru nefndir kaupréttarhafi, „samning um kaup-/sölurétt að hlutabréfum“, þar sem mælt var svo fyrir í 1. grein að frá 2. til 6. janúar 2006 gæti söluréttarhafi krafist þess að kaupréttarhafi keypti og kaupréttarhafi krafist þess að söluréttarhafi seldi 10,306% hlutafjár í Milestone ehf. Skyldi telja tilkynningu söluréttarhafa réttilega komið á framfæri með afhendingu hennar á skrifstofu Milestone ehf. eða sendingu hennar á tiltekið tölvupóstfang ákærða U, en kaupréttarhafi mætti fyrir sitt leyti koma tilkynningu á framfæri við O fyrir hönd söluréttarhafa. Kveðið var á um að ekki yrði gerður sérstakur kaupsamningur nema annar hvor aðili óskaði eftir því, heldur skyldu ákvæði þessa samnings teljast kaupsamningur milli aðilanna þegar tilkynningu annars þeirra hefði samkvæmt framansögðu verið komið á framfæri. Í niðurlagi greinarinnar var tekið fram að kaupréttarhafa væri heimilt „að tilgreina aðra aðila sem kaupendur, þ.m.t. Milestone ehf., Leiftra Ltd., eða önnur félög, sem hann kann nú að eiga eða stofna.“ Samkvæmt 2. grein samningsins átti kaupverð að vera 1.867.026.667 krónur. Eftir 3. grein skyldi sú fjárhæð bundin vísitölu neysluverðs miðað við grunntölu hennar í nóvember 2005 og innt af hendi með tólf jöfnum afborgunum, í fyrsta sinn við „gildistöku kaupsamnings“ en síðan 1. hvers mánaðar. Í 4. grein var mælt fyrir um að seljandi skyldi njóta handveðs í hlutabréfunum til tryggingar greiðslu kaupverðs, en þau bæri þó að leysa úr veðböndum þegar helmingur þess hefði verið greiddur. Samkvæmt 5. grein áttu öll réttindi, sem fylgdu hlutabréfunum, að flytjast til kaupanda þegar kaupin gerðust, en frá sama tíma skyldi seljandi hverfa úr stjórn félagsins. Í öðrum greinum samningsins hétu aðilar hans síðan trúnaði um efni hans og ákváðu að mál um hann yrði ef til kæmi rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Í málinu liggur ekki fyrir að einhver aðilanna hafi á fyrrgreindum fresti krafist kaupa á grundvelli þessa samnings, en ljóst er af því, sem síðar greinir, að kaup þessi gengu eftir.

Í öðru lagi var sams konar samningur gerður um 9,33% hlutafjár í „Milestone Ltd.“ og 9,33% hlutafjár í Leiftra Ltd., en þó með þeim skilmála að aðilarnir gætu hvor fyrir sitt leyti krafist kaupa hvenær sem væri á tímabilinu frá 1. janúar til 1. júlí 2006. Kaupverð þessara hlutabréfa var ákveðið í einu lagi 742.675.667 krónur, það skyldi bundið vísitölu neysluverðs með grunntölu hennar í nóvember 2005 og greitt með sex jöfnum afborgunum 1. dag hvers mánaðar frá 1. júlí 2006 að telja. A tilkynnti 22. júní 2006 að hún neytti söluréttar samkvæmt þessum samningi.

Í þriðja lagi var sams konar samningur gerður um 18,67% hlutafjár í „Milestone Ltd.“ og 18,67% hlutafjár í Leiftra Ltd., en þó með þeim skilmála að aðilarnir gætu hvor fyrir sitt leyti krafist kaupa hvenær sem væri á tímabilinu frá 2. til 6. janúar 2007. Kaupverð þessara hlutabréfa var ákveðið í einu lagi 1.485.351.333 krónur, það skyldi bundið vísitölu neysluverðs með grunntölu hennar í nóvember 2005 og greitt með tólf jöfnum afborgunum, í fyrsta sinn við gildistöku kaupsamnings á tímabilinu 2. til 6. janúar 2007 en síðan 1. hvers mánaðar frá 1. febrúar 2007 að telja. Af hálfu A var tilkynnt 2. janúar 2007 að hún neytti söluréttar síns samkvæmt þessum samningi.

Í fjórða lagi var sams konar samningur gerður um 4,294% hlutafjár í Milestone ehf., en þó með þeim skilmála að aðilarnir gætu hvor fyrir sitt leyti krafist kaupa hvenær sem væri á tímabilinu frá 2. til 6. janúar 2007. Kaupverð þessara hlutabréfa var ákveðið 777.927.778 krónur, það skyldi bundið vísitölu neysluverðs með grunntölu hennar í nóvember 2005 og greitt með fimm jöfnum afborgunum, í fyrsta sinn við gildistöku kaupsamnings á tímabilinu 2. til 6. janúar 2007 en síðan 1. hvers mánaðar frá 1. febrúar 2007 að telja. A tilkynnti 2. janúar 2007 að hún neytti söluréttar síns samkvæmt þessum samningi.

Í fimmta lagi gerðu A sem seljandi og ákærðu X og V, sem voru í einu lagi nefndir kaupandi, kaupsamning um hlutabréf í Milestone ehf. að nafnverði 142.824.065 krónur, sem sagt var að hafi svarað til um 4,999% hlutafjár í félaginu, en tekið var fram að kaupandi mætti tilgreina aðra í sinn stað, þar á meðal Milestone ehf., Leiftra Ltd. eða önnur félög sem hann kynni að eiga eða stofna. Kaupverðið, 905.585.556 krónur, skyldi greitt 5. desember 2005. Áttu öll réttindi, sem fylgdu hlutabréfunum, að flytjast til kaupanda við greiðslu kaupverðs.

 Í sjötta lagi gerðu A og ákærðu X og V skriflegt samkomulag, þar sem meðal annars var mælt svo fyrir að A skyldi ekki fá greiddan fyrir árin 2005 til 2007 arð af hlutabréfunum, sem seld voru með hinum samningunum fimm, heldur skyldi hann greiddur öðrum hluthöfum. Einnig skuldbatt A sig til að greiða atkvæði á hluthafafundum í félögunum til að tryggja að þau greiddu arð samkvæmt þessu, en með því skilyrði að staðið hefði verið í skilum með greiðslu kaupverðs.

4

A sendi ákærðu X og V báðum tölvubréf 6. desember 2005, þar sem hún tiltók númer á bankareikningi við Íslandsbanka hf. til að leggja inn greiðslur til sín samkvæmt áðurnefndum samningum þeirra. Þetta tölvubréf framsendi ákærði V degi síðar til ákærða U, sem sendi það um hæl til C með eftirfarandi orðum: „Pay and smile ... kr. 905.585.556“.

Milestone ehf. lagði 7. desember 2005 síðastgreinda fjárhæð inn á þann reikning, sem A hafði gefið upp í tölvubréfinu, en hann mun hafa verið hjá Íslandsbanka hf. á nafni útibús hans í Luxembourg. Ljóst er að þetta var greiðsla til A fyrir kaupverð 4,999% hlutafjár í Milestone ehf. samkvæmt samningi hennar við ákærðu X og V, sem nefndur var í fimmta lagi hér að framan. Þá liggur fyrir að kvittun fyrir millifærslu þessarar fjárhæðar var síðan án frekari gagna notuð sem fylgiskjal vegna greiðslunnar í bókhaldi Milestone ehf. Þar var fjárhæðin færð á biðreikning, en flutt af honum í árslokafærslum miðað við 31. desember 2005 á þann hátt að í bókum félagsins voru 142.831.206 krónur færðar sem eigin hlutabréf og 762.754.350 krónur á yfirverðsreikning hlutafjár.

Ákærði U sendi C með tölvubréfi 30. desember 2005 skjal með heitinu: „Greiðsluplan ofl.xls“. Í því tölvuskjali var sundurgreint hvernig greiða ætti A mánaðarlega frá desember 2005 til desember 2007 einstakar fjárhæðir, sem samanlagt námu 5.778.567.000 krónum eða heildarkaupverði hlutabréfa í Milestone ehf., Milestone Import Export Ltd. og Leiftra Ltd. samkvæmt kaupsamningunum fimm sem lýst var hér að framan. Að auki var tilgreind þar skipting á kaupverði hlutabréfa í Milestone ehf., 905.585.556 krónum á árinu 2005, 1.867.026.667 krónum á árinu 2006 og 777.927.778 krónum á árinu 2007, milli þriggja dálka. Í þeim fyrsta var „Félagið“ með samtals 1.775.270.000 krónur, í öðrum dálkinum var „[X]“ með 1.153.925.500 krónur og í þeim þriðja „[V]“ með 621.344.500 krónur. Einnig var þar tilgreind skipting á kaupverði hlutabréfa í „Milestone ltd.“, 742.675.667 krónum á árinu 2006 og 1.485.351.333 krónum á árinu 2007, milli sams konar þriggja dálka. Í þeim fyrsta var „Félagið“ með samtals 891.210.800 krónur, í öðrum dálkinum var „[X]“ með 868.930.530 krónur og í þeim þriðja „[V]“ með 467.885.670 krónur. Ljóst má vera að með „[X]“ hafi hér verið átt við ákærða X og með „[V]“ ákærða V.

Í framhaldi af þessu fóru greiðslur til A fram eins og ráðgert var í þessari áætlun, að gættu því að fjárhæð einstakra greiðslna vegna kaupa á hlutabréfunum í félögunum þremur var svo sem áður segir bundin vísitölu neysluverðs, en einnig að gættu því að hluti af kaupverðinu, samtals 600.000.000 krónur, var greiddur með öðrum hætti í viðskiptum gegnum Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sem nánar verður greint frá hér síðar. Á tímabilinu frá og með 6. janúar til 3. október 2006 millifærði þannig Milestone ehf. af eigin bankareikningum eftirfarandi fjárhæðir inn á reikning á nafni útibús Íslandsbanka hf., síðar Glitnis banka hf., í Luxembourg í þágu A í samræmi við fyrirmæli hennar í áðurnefndu tölvubréfi 6. desember 2005: 155.898.731 krónu 6. janúar 2006, 156.399.812 krónur 9. febrúar, 156.274.542 krónur 3. mars, 158.028.324 krónur 5. apríl, 159.844.741 krónu 5. maí, 162.162.240 krónur 6. júní, 294.547.705 krónur 5. júlí, 295.897.293 krónur 11. ágúst, 146.909.485 krónur 5. september og 148.708.936 krónur 3. október 2006. Í kvittunum fyrir þessum tíu millifærslum komu engar upplýsingar fram um tilefni þeirra eða tengsl við A að öðru leyti en því að annars vegar í kvittunum fyrir greiðslunum 5. apríl, 11. ágúst og 3. október voru í reit með fyrirsögninni: „Stutt skýring“ ritaðir bókstafirnir „[…]“ og hins vegar höfðu sömu bókstafir verið handritaðir á kvittanir fyrir greiðslunum 3. mars og 5. maí. Á tímabilinu frá og með 6. nóvember 2006 til og með 6. desember 2007 millifærði síðan Milestone ehf. eftirfarandi fjárhæðir af eigin bankareikningum inn á innlendan bankareikning á nafni A í Glitni banka hf.: 149.383.730 krónur 6. nóvember 2006, 149.271.265 krónur 6. desember 2006, 299.383.730 krónur 8. janúar 2007, 300.170.990 krónur 6. febrúar, 301.408.113 krónur 6. mars, 300.395.922 krónur 10. apríl, 302.195.373 krónur 4. maí, 135.041.000 krónur 6. júní, 135.738.628 krónur 3. júlí, 136.037.612 krónur 3. ágúst, 136.087.443 krónur 6. september, 137.881.345 krónur 3. október, 138.578.974 krónur 5. nóvember og 139.475.925 krónur 6. desember 2007. Í kvittunum fyrir þessum fjórtán millifærslum frá 6. nóvember 2006 til 6. desember 2007 komu engar upplýsingar fram um tilefni þeirra eða tengsl við A að öðru leyti en því að fé var lagt inn í reikning á nafni hennar. Kvittanir fyrir öllum millifærslunum frá og með 6. janúar 2006 til og með 6. desember 2007 munu að auki hafa verið einu fylgiskjölin fyrir greiðslunum í bókhaldi Milestone ehf.

Í tengslum við þessar greiðslur skal þess að öðru leyti getið að Milestone ehf. lagði 844.163 krónur 17. febrúar 2006 inn á áðurnefndan reikning á nafni útibús Íslandsbanka hf. í Luxembourg. Á kvittun fyrir millifærslunni voru í reit fyrir stutta skýringu ritaðir bókstafirnir „[…]“, en að öðru leyti bar þessi kvittun, sem mun hafa verið eina fylgiskjalið vegna þessarar greiðslu í bókhaldi Milestone ehf., ekkert með sér um tilefni hennar. Óumdeilt virðist vera í málinu að þetta hafi verið greiðsla á dráttarvöxtum til A vegna tafa á fyrrgreindri greiðslu 9. sama mánaðar, en fjárhæðin mun hafa verið færð í bókum Milestone ehf. sem vaxtakostnaður félagsins sjálfs. Þá sendi C tölvubréf 2. október 2006 til ákærða U og kvað A hafa hringt í sig til að kvarta undan því „að Milestone greiddi alltaf of seint til sín.“ Í bréfinu vísaði C til þess að í „samningi við A“ væri kveðið á um gjalddaga og eindaga. Tafir gætu hafa orðið á því að A bærust greiðslur sökum þess að bankareikningur hennar væri erlendis, en þær væru lagðar inn á íslenskan reikning samkvæmt fyrirmælum hennar. Í niðurlagi bréfsins kvað C meðfylgjandi skjal sýna „greiðslur frá Milestone.“ Í því skjali var tekið fram að þrisvar hafi verið greitt of seint og skýrðist það í öllum tilvikum „af peningavandræðum“. Í febrúar 2006 hafi A verið greiddir dráttarvextir af þessum sökum, í júní sama ár hafi það ekki verið gert og heldur ekki í ágúst, en þá með samþykki hennar. Loks er þess að geta að R héraðsdómslögmaður sendi 13. apríl 2007 í þágu A tölvubréf til C og kvað greiðslu til hennar 10. sama mánaðar hafa borist of seint, en af þeim sökum krefðist hún dráttarvaxta af fjárhæðinni sem greidd var. Í framhaldi af þessu gengu tölvubréf milli lögmannsins og C, þar sem rökrætt var um hvernig skýra ætti ákvæði um gjalddaga og eindaga í samningum A við ákærðu X og V frá 4. desember 2005.

Framangreindar greiðslur til A á grundvelli samninganna frá 4. desember 2005 á tímabilinu 6. janúar 2006 til 6. desember sama ár voru eftir gögnum málsins allar færðar fyrst í stað á svonefndan biðreikning í bókhaldi Milestone ehf. án frekari skýringa en þeirrar að ýmist var nafn A tilgreint við færslu eða upphafsstafir hennar. Með árslokafærslu, sem dagsett var 31. desember 2006, var heildarfjárhæð greiðslnanna á árinu, 2.733.326.804 krónur, færð í einu lagi af biðreikningnum og inn á viðskiptareikning Milestone Import Export Ltd. Eins var farið að við færslu áðurnefndra greiðslna til A á tímabilinu frá 8. janúar til 6. desember 2007 og samtala þeirra, 2.462.395.055 krónur, færð með lokafærslu dagsettri 31. desember 2007 af biðreikningnum yfir á viðskiptareikning sama félags. Að þessum færslum verður vikið nánar hér síðar.

5

C sendi ákærða U tölvubréf 16. febrúar 2006, þar sem var „listi eftir fund með S í gær“. Á þessum lista, sem var í átta liðum en ekkert útskýrður frekar, voru eftirtalin atriði tilgreind meðal annarra: „Eigendamál (IW)“, „Leiftri (sala á Milestone hlut)“, „Breyta skuld Leiftra við Ltd. í hlutabréf“ og „M ehf. kaupir hlutabréf í Leiftra Ltd. yfir lengri tíma.“

Samkvæmt fundargerð frá fundi stjórnar Leiftra Ltd., sem sagt var að hafi verið haldinn 1. mars 2006 á Jersey, var samþykkt að ganga til samninga við Milestone ehf. um að Leiftri Ltd. keypti af því félagi 2.749.289 hluti í félaginu Inglewood Corporate Holdings Ltd. á Bresku Jómfrúareyjum fyrir 2.352.551.776 krónur. Yrði kaupverðið greitt með framsali á hlutabréfum Leiftra Ltd. í L&H Holding Company ehf. og Milestone ehf.

Í fundargerð frá fundi stjórnar Milestone ehf. 27. mars 2006 sagði meðal annars eftirfarandi: „Forstjóri félagsins gerði grein fyrir fjárhagslegri stöðu félagsins. Fram kom að þær sviptingar sem áttu sér stað á gengi krónunnar og lækkun á verði hlutabréfa hafi haft umtalsverð neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu félagsins. Forstjórinn gerði fundarmönnum grein fyrir því hvaða áhrif áframhaldandi gengislækkun á krónunni og hlutabréfum mundi hafa á fjárhag félagsins. Fram kom að félagið mundi standa af sér umtalsverðar lækkanir til viðbótar en engu að síður væri nauðsynlegt að grípa til tiltekinna ráðstafana til þess að bregðast við ástandinu ... Forstjóri félagsins kynnti meginþætti í aðgerðaráætlun fyrir félagið til þess að gera stöðu þess betri til þess að mæta erfiðleikum á fjármálamörkuðum.“

C sendi 28. mars 2006 tölvubréf til ákærða U, sem hófst með orðunum: „Eins og þú veist á MST ekki mikið af lausu fé þessa daga.“ Voru síðan taldar upp í sex liðum greiðslur, samtals „tæpar 600 mkr.“, sem þyrfti að inna af hendi „á næstunni“, þar á meðal 150.000.000 krónur til A. Lauk bréfinu með spurningunni: „Er von á einhverjum peningum inn vegna snúninga hjá þér?“ C sendi síðan ákærða U annað tölvubréf að kvöldi sama dags, þar sem sagði eftirfarandi: „Það vantar um 90 mkr. til þess að greiða vaxtagreiðslur til LÍ á morgun ... Eins og staðan er eigum við lítið af pening á lausu. Viltu að ég fjármagni þetta í gegnum LÍ/ISB eða ertu með betri hugmyndir?“

6

Í fundargerð frá stjórnarfundi í Milestone ehf. 30. mars 2006, sem ákærðu X og V sóttu einir sem stjórnarmenn, kom fram að forstjóri hafi gert grein fyrir drögum að ársreikningi fyrir 2005, fundarmenn hafi verið sammála um að afkoma hafi verið í samræmi við væntingar og samþykkt hafi verið að leggja reikninginn óbreyttan fyrir aðalfund næsta dag. Gerð hafi verið tillaga um að ákærðu X og V myndu skipa stjórn félagsins, ákærði Z yrði áfram endurskoðandi þess, hagnaði félagsins yrði ráðstafað í samræmi við tillögu í ársreikningi og yrði „arður til hluthafa“ 300.000.000 krónur, sem myndi „skiptast hlutfallslega milli hluthafanna X og V“, en engin þóknun yrði greidd stjórnarmönnum. Sagði ekkert um hvort stjórnin hafi samþykkt þessar tillögur.

Ársreikningur fyrir samstæðu Milestone ehf. vegna ársins 2005 var í samræmi við framangreint lagður fyrir aðalfund félagsins 31. mars 2006 og var hann áritaður af endurskoðendunum D og ákærða Z. Fremst í reikningnum var skýrsla stjórnar, sem nöfn ákærða X, ákærða V og A voru prentuð undir, og var tiltekið þar að hluthafar í félaginu væru með eignarhlut af „virku hlutafé“ sem hér segir: Leiftri Ltd. 31,6%, ákærði X 29,7%, ákærði V 23,4% og A 15,3%. Samkvæmt rekstrarreikningi var hagnaður ársins 13.998.700.000 krónur. Í efnahagsreikningi kom fram að andvirði eigna hafi í lok árs 2005 numið 83.821.067.000 krónum, en þar af var viðskiptavild talin að verðmæti 11.114.802.000 krónur. Skuldir voru samtals 57.949.250.000 krónur, en eigið fé 25.871.817.000 krónur.

Samkvæmt fundargerð frá aðalfundinum 31. mars 2006, sem var undirrituð af A og ákærðu X og V, var mætt til fundarins „fyrir hönd allra hluthafa í félaginu“. Samþykktir á fundinum voru í samræmi við tillögur, sem gerðar voru samkvæmt framansögðu á fundi stjórnar félagsins daginn áður, en þó þannig að tekið var fram að arður skyldi skiptast milli ákærðu X og V „í réttum hlutföllum við eignarhlutföll þeirra í félaginu“ og hafi „allir fundarmenn“ verið samþykkir þeirri arðsúthlutun. Á fundinum var jafnframt lagt til að samþykktum félagsins yrði breytt þannig að stjórnarmenn yrðu tveir í stað þriggja. Ekkert sagði í fundargerð um hvort þessi tillaga hafi verið samþykkt, en í kjölfarið voru þó kjörnir tveir stjórnarmenn, ákærðu X og V. Fyrirtækjaskrá var tilkynnt 15. október 2006 að samþykktum Milestone ehf. hafi verið breytt á framangreindan veg „á aðalfundi félagsins árið 2006“.

7

Í málinu liggur fyrir efnahagsreikningur miðaður við árslok 2005 fyrir Milestone Import Export Ltd., sem ætlaður var C til undirritunar 15. febrúar 2006, og sagði fremst í reikningnum að hann byggði „á gögnum úr bókhaldi og öðrum gögnum tengdum framsetningu hans.“ Samkvæmt þessum reikningi og skýringum með honum voru heildareignir félagsins 12.655.922.000 krónur, þar af eignarhlutar í Actavis hf., Íslandsbanka hf. og „Iceland“, samtals að andvirði 2.595.021.000 krónur, skuldabréf á hendur Leiftra Ltd., 9.323.862.000 krónur, viðskiptakröfur á hendur ákærða X, ákærða U og L&H eignarhaldsfélagi ehf., samtals 620.375.000 krónur, og innstæða á bankareikningi hjá Landsbanka Luxembourg S.A., 116.664.000 krónur. Skuldir voru samtals 3.925.703.000 krónur, þar af lán frá Íslandsbanka hf., 1.124.593.000 krónur, skuldabréfalán frá „Inglewood“, 2.348.467.000 krónur, og viðskiptaskuld við Milestone ehf., 452.644.000 krónur. Eigið fé nam 8.730.218.000 krónum, þar af 30.000.000 krónur í hlutafé.

Annar óundirritaður efnahagsreikningur fyrir Milestone Import Export Ltd. hefur einnig verið lagður fram í málinu, en fremst í honum var ráðgert að C myndi 15. febrúar 2006 undirrita svofelldan texta: „Meðfylgjandi er efnahagsreikningur fyrir Milestone Import Export Ltd. miðað við 31. maí 2006, en hann byggir á gögnum úr bókhaldi og öðrum gögnum tengdum framsetningu hans.“ Í reikningnum kom fram að eignir félagsins væru alls að andvirði 11.641.738.000 krónur, sem fælust í skuldabréfi Leiftra Ltd., 9.553.882.000 krónur, viðskiptakröfum, 1.615.881.000 krónur, og innstæðu hjá Landsbanka Luxembourg S.A., 471.976.000 krónur. Í skýringum með reikningnum var að finna sundurliðun á viðskiptakröfum, sem voru sagðar vera á hendur á hendur ákærðu X og U ásamt L&H eignarhaldsfélagi ehf., samtals 675.744.000 krónur, og til viðbótar því var þar talinn eignarhluti í „Iceland“ að andvirði 940.136.000 krónur, en samanlagt svara þessar fjárhæðir sem næst til fjárhæðar viðskiptakrafna samkvæmt efnahagsreikningnum. Eftir reikningnum námu skuldir félagsins 2.937.241.000 krónum og voru færðar sem skuldabréf. Í skýringum með honum var getið skuldar við „Inglewood“, sem var sömu fjárhæðar. Eigið fé var sagt að fjárhæð 8.704.498.000 krónur.

Einnig liggur fyrir ódagsettur ársreikningur fyrir Leiftra Ltd. vegna ársins 2005. Fremst í reikningnum var texti fyrir skýrslu stjórnar, sem nöfn ákærðu X og V voru prentuð undir ásamt nafni A, og kom þar fram að þau væru hluthafar í félaginu, ákærði X með 40,3% hlut, ákærði V með 31,7% hlut og A með 28%. Hagnaður ársins var sagður hafa numið 41.170.000 evrum. Eignir voru taldar samanlagt að andvirði 174.593.000 evrur, en þar af voru taldir allir eignarhlutir í L&H Group ehf. að verðmæti 15.304.000 evrur og 31,6% hlutur í Milestone ehf. að verðmæti 143.241.000 evrur auk hlutabréfa í tveimur öðrum félögum, skuldabréfs frá Fragrance Investments ehf. og innstæðu á bankareikningi. Skuldir væru alls að fjárhæð 133.403.000 evrur, þar af 123.024.000 evrur við Milestone Import Export Ltd. Eigið fé næmi þannig 41.190.000 evrum, þar af 40.000 evrur í hlutafé. Í málinu virðist ekkert liggja fyrir um hvenær þessi reikningur var saminn.

Varðandi framangreinda reikninga er þess að geta að maður að nafni T, sem virðist af gögnum málsins hafa starfað hjá fyrirtæki að nafni Arev Ltd. í London og fékk á síðari stigum á stjórnarfundi Milestone ehf. 27. nóvember 2006 umboð til að sinna tilteknum erlendum viðskiptum fyrir hönd félagsins, óskaði eftir því í tölvubréfi til C 27. júní 2006 að fá yfirlit um hvernig efnahagsreikningar tiltekinna félaga sem tengdust Milestone ehf., þar á meðal Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd., kynnu að hafa verið 31. maí sama ár. Í svari 28. júní 2006 kvaðst C að svo stöddu ekki geta orðið við þessari ósk, meðal annars varðandi síðastnefndu félögin tvö, og tók fram að það hafi orðið breytingar á þessum félögum, en sem dæmi um það var tekið að Milestone Import Export Ltd. hafi selt Milestone ehf. hlutabréf í Actavis hf. og Glitni banka hf. Í framhaldi af því spurði T í tölvubréfi síðastgreindan dag hvenær C teldi sig geta litið á þessi félög og um hversu mikla vinnu gæti verið að ræða. Að kvöldi sama dags svaraði C því til að hann myndi gera sitt besta til að sinna þessu næsta dag, en hann teldi þó viðtakanda bréfsins einblína um of á þessi félög. Leiftri Ltd. hafi verið stofnað 2005, en Milestone Import Export Ltd. væri vandamál, þar sem bókhald í því félagi hafi aldrei verið mjög gott. Fremur ættu þeir að einbeita sér að því að gera grein fyrir Milestone ehf. og reyna að tala sem minnst um Milestone Import Export Ltd. Í tölvubréfi T síðar þetta sama kvöld kvað hann C hafa rétt fyrir sér, því þessi félög væru „small/dormant“ og sneru flestar eignir og skuldbindingar þeirra innbyrðis að öðrum félögum tengdum Milestone ehf. Snemma nætur 29. júní svaraði C síðastgreindri orðsendingu með því að hann gæti án vandkvæða sinnt þessum óskum svo fljótt sem verða mætti. Í tölvubréfi af þessu tilefni næsta morgun kvað T það vera nauðsynlegt að geta um Milestone Import Export Ltd., því staðreynd væri að það félag hafi fram í desember 2005 verið notað til að halda um eignir, sem hafi svo verið færðar til Leiftra Ltd. og Milestone ehf. „under tax planning initiated by KPMG“. Það eina, sem stæði eftir hjá Milestone Import Export Ltd., væru inneignir og skuldbindingar gagnvart hinum félögunum. Teldi T sig skilja þetta svo að þessar eignir og skuldbindingar yrðu í fyllingu tímans eyddar út á hagstæðan hátt gagnvart skattalegum atriðum, hugsanlega með umbreytingu í hlutafé. Lauk hann svo orðsendingunni með spurningunni: „Why is mentioning Milestone Import Export such a concern?“ Ekki er að sjá af gögnum málsins að þeirri spurningu hafi verið svarað.

8

Á fundi stjórnar Milestone ehf. 4. maí 2006 var meðal annars fært í fundargerð að hlutabréfamarkaður hafi verið „að hækka í dag og gengi krónunnar að styrkjast þannig að fjárhagur félagsins er að vænkast.“ Væri enn „óljóst hver þróun á mörkuðum verður en sýnt er að félagið hefur getað tekið á sig þessar sviptingar þrátt fyrir u.þ.b. 25 milljarða fjárfestingar á árinu með kaupum á 33% í Sjóvá af Glitni og hlutum í Glitni af Straumi.“ Þar sagði jafnframt eftirfarandi: „Forstjóri félagsins gerði grein fyrir megindráttum samningsins sem gerður var við Sjóvá. Farið var yfir hvernig fjármögnun viðskiptanna yrði háttað. Gert er ráð fyrir að uppgjör á samningnum fari fram þann 19. maí næstkomandi. Í stórum dráttum er fjárfestingin uppá 9,5 milljarða. Verður hún greidd með 2 milljarða láni frá JP Morgan, 2,8 milljarður með kaupum Sjóvá á eigin hlutum, sala eigna 2,7 milljarðar og 2 milljarðar með láni frá Sjóvá gegn veði í hlutabréfum í Dagsbrún. Vegna viðskiptanna var samþykkt að selja bréf í Actavis til Sjóvá, gera upp framvirka samninga í KB banka og Glitni um Glitnisbréf. Stjórnin samþykkti kaupin og fól forstjóra félagsins að ganga frá uppgjöri á samningnum.“ Þá var þess einnig getið að forstjóri félagsins hafi „bent á að reynslan af sviptingum á íslenska fjármálamarkaðinum á undangengnum mánuðum hefur sýnt að nauðsynlegt er að kynna félagið erlendis og vinna í fjármögnun á félaginu hjá erlendum bönkum.“

C sendi ákærða U tölvubréf 6. júlí 2006 og vísaði þar til meðfylgjandi greiðsluyfirlits, þar sem kæmi fram að 10. júlí þyrfti að greiða um það bil 318.000.000 krónur til Straums-Burðaráss fjárfestingarbanka hf. og 15. júlí 212.000.000 krónur til Glitnis banka hf. Að auki væri „brúarlánið“, um 1.830.000.000 krónur, á gjalddaga í komandi viku, en búið væri að ganga frá nýju láni vegna þessa að fjárhæð 1.700.000.000 krónur. Þyrfti enn fremur að losa „DB bréfin úr veði hjá Sjóvá“ til að nota þau sem veð hjá Glitni banka hf. Vantaði samkvæmt þessu 700.000.000 krónur „til þess að klára mánuðinn“, en eina leiðin til „að brúa þetta til skamms tíma er að fá peninga hjá Sjóvá.“ Yrði ákærði U að ræða við forstjóra þess félags til að tryggja að „þessir peningar“ yrðu tiltækir fyrir Milestone ehf. Með því að félagið skuldaði þegar Sjóvá-Almennum tryggingum hf. um 2.340.000.000 krónur myndi sú skuld hækka í um 3.000.000.000 krónur „sem kallar á arð upp á 3.300 mkr.“ Þetta myndi þó aðeins leysa „málin í þessum mánuði og því þarf að klára söluna á Iceland og Icecap“ til að leysa þau „a.m.k. næstu mánuðina“.

Áðurnefndur T sendi tölvubréf 24. ágúst 2006 meðal annars til ákærða X og B um fjármögnun á kaupverði tiltekinna erlendra hlutabréfa fyrir 5.000.000 sterlingspund. B framsendi þetta bréf degi síðar til ákærða U og C, en C svaraði þeim báðum með tölvubréfi 28. ágúst 2006. Þar kvaðst hann vera „búinn að kanna þetta lauslega hjá LÍ í Lux.“ sem gæti fengist til að „opna svona línu gegn ásættanlegri ábyrgð frá eigendum“, en slík ábyrgð gæti verið „peningar, hlutabréf osfrv.“ Hann bætti því svo við að bankinn væri ekki tilbúinn „að lána út á efnahagsreikning fyrirtækja eins og Leiftra.“

9

B sendi 3. júlí 2006 tölvubréf til A og lögmanns hennar, R, ásamt afriti til ákærðu X og U. Yfirskrift bréfsins var: „Víkjandi lán Sjóvá“ og vísaði B þar til þess að meðfylgjandi væri „form að lánasamningi og skjal með samanburði á ávöxtun ríkisskuldabréfa, bankabréfa ... og Sjóvábréfunum til upplýsingar.“ Í fylgiskjali með bréfinu voru ófullgerð drög að lánssamningi milli A og Sjóvár-Almennra trygginga hf., þar sem vantaði meðal annars fjárhæð láns og vaxtahæð.

Af gögnum málsins verður ekki séð að nokkuð frekar hafi verið aðhafst í tilefni af framangreindu fyrr en C sendi 4. september 2006 tölvubréf til B, þar sem sagði að það þyrfti „að ganga frá pappírum vegna víkjandi láns A til Sjóvá að fjárhæð 150 mkr.“ Ætti að framkvæma það næsta dag. Þessu svaraði B sama dag með tölvubréfi til C, sem einnig var sent ákærða U, og fylgdu því drög að lánssamningi, sem voru efnislega eins og þau sem B sendi frá sér 3. júlí 2006. Sagði B í bréfinu að huga þyrfti „að útfærslunni þar sem hún borgar þetta í nokkrum skömmtum.“ Spurði hann jafnframt hvort hafa ætti „eitt bréf í hvert skipti eða sameina þetta í einn pakka.“ Í tilefni af þessu svari sendi C tölvubréf 14. september 2006 til ákærða U og spurði hvort ákveðið hafi verið að víkjandi lán A yrði haft í einu lagi eða nokkrum bréfum, svo og hvort vextir hafi verið ákveðnir. Því svaraði ákærði U degi síðar með þeim orðum að hafa ætti „bréf með nokkrum innborgunum“, sem yrði verðtryggt með 8% vöxtum.

Áðurnefndur lögmaður A spurðist í tölvubréfi til B 22. september 2006 fyrir um hvort ekki væri „kominn tími á að klára lánssamn. milli A og SJÓVÁ.“ Því svaraði B sama dag á þann hátt að sér hefði skilist „að hugmyndin sé að gefa út fjóra samninga fyrir hlutagreiðslum sem við sameinum svo í einn samning.“ Sendi hann jafnframt drög að lánssamningi, sem virðast hafa verið samhljóða drögunum sem hann hafði áður sent lögmanninum 3. júlí 2006, að því frátöldu að fært hafði verið inn í textann að lánið bæri 8% ársvexti.

B sendi forstjóra Sjóvár-Almennra trygginga hf. tölvubréf 4. október 2006, þar sem sagði: „Hér koma drög að lánasamningi fyrir víkjandi lán sem A er tilbúin að kaupa af Sjóvá. Það þarf stjórnarsamþykkt á þessa útgáfu en mér skilst að hún muni vilja kaupa í fjórum bitum samtals kr. 600 milljónir. Fyrsta greiðslan er miðuð við 1/9 og önnur 1/10 osfr. Það þarf að færa þetta sem skuld Milestone við Sjóvá fyrst um sinn. Hugmyndin er síðan að sameina þetta í einn lánasamning í lokin.“ Þessu svaraði forstjórinn degi síðar á eftirfarandi hátt: „Hvað er verið að hugsa í þessu sambandi? Ég hef ekkert heyrt af þessu. Ég sé ekkert þessu til fyrirstöðu.“ B svaraði þessu stuttu síðar með eftirfarandi orðum: „Ég held að það sé fyrst og fremst verið að reyna að fá A til að setja peningana sína í vinnu til okkar í stað þess að vera með þá í ávöxtun annarsstaðar.“

Forstjóri Sjóvár-Almennra trygginga hf. sendi 10. október 2006 tölvubréf til stjórnarmanna í félaginu, þar sem hann sagðist þurfa að fá samþykki þeirra „fyrir útgáfu víkjandi lána sem mundi hljóða svo: Stjórn Sjóvá samþykkir að fela forstjóra félagsins að gefa út víkjandi lán skv. 4. tl. 29. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi. Heimilt er forstjóra að gefa út lán allt að tveimur milljörðum króna. Lánin verða verðtryggð til fimm ára, vaxtaafborganir á 3 til 6 mánaða fresti og vextir að hámarki 10% verðtryggt.“ Sagði hann jafnframt nægilegt að fá viðbrögð við þessu með tölvubréfum. Þau fékk hann jákvæð frá þremur stjórnarmönnum á næstu klukkustundum.

A gerði 1. nóvember 2006 þrjá samhljóða samninga við Sjóvá-Almennar tryggingar hf., þar sem hún lýsti sig í hverju tilviki samþykka því að veita félaginu lán að fjárhæð 150.000.000 krónur, sem skyldi endurgreitt í einu lagi 1. nóvember 2011. Vextir, 8% á ári, yrðu greiddir á sex mánaða fresti, en samkvæmt einum lánssamningnum skyldi það gert í fyrsta sinn 1. mars 2007, samkvæmt öðrum 1. apríl sama ár og samkvæmt þeim þriðja 1. maí sama ár. Yrði höfuðstóll skuldarinnar bundinn við vísitölu neysluverðs, sem í einum samningnum var miðuð við grunntölu hennar í september 2006, samkvæmt öðrum í október sama ár og eftir þeim þriðja í nóvember sama ár. Lánið yrði „víkjandi skv. ákvæðum 4. tl. 29. gr. laga nr. 60/1994“ og myndi skuldbindingin því víkja fyrir öðrum kröfum á hendur lántakanum ef hann yrði tekinn til gjaldþrotaskipta eða slita. Einum samningi enn af þessum toga var bætt við 1. desember 2006 og var hann samhljóða þeim fyrri að öðru leyti en því að gjalddagi var 1. desember 2011, vextir skyldu greiddir í fyrsta sinn 1. júní 2007 og grunnvísitala miðaði við desember 2006.

C sendi 8. janúar 2007 tölvubréf til F, sem annaðist eins og áður segir færslu á bókhaldi Milestone ehf., og sagði þar eftirfarandi: „Þú þarft að færa hjá Milestone 4*150 mkr. skuld við Sjóvá. Þetta fór til lækkunar á greiðslunni til [A] í sept-des 2006. Inga hjá Sjóvá er með pappíra vegna þessa, fáðu afrit hjá henni. Ekki segja henni af snúningnum með [A].“ F sendi samdægurs nefndum starfsmanni Sjóvár-Almennra trygginga hf. tölvubréf, þar sem sagði: „Mér skilst á [C] að þú sért með skjöl vegna 4 x 150 mkr. tilfærslna á milli Milestone og Sjóvá. Ég þarf að fá þau eða afrit af þeim.“ Starfsmaðurinn svaraði stuttu síðar með tölvubréfi, sem einnig var sent C, og kvaðst aðeins hafa undir höndum samninga um víkjandi lán til Sjóvár-Almennra trygginga hf. „en peningarnir fóru beint til Milestone.“ Væri ætlunin að færa þetta „sem kröfu á Milestone“, en spurning væri hvort búa ætti til lánssamning milli félaganna af þessu tilefni. C svaraði í beinu framhaldi að bíða skyldi með lánssamning „þar til við sjáum endanlega stöðu milli fyrirtækjanna“, en bað um að F yrðu send afrit af samningunum. Rakleitt á eftir sendi C tölvubréf til F, þar sem sagði: „Þú færir þetta svo sem lán frá Sjóvá og mótbókun inn á biðreikning vegna [A] (eins og vanalega).“ Af gögnum málsins verður ráðið að þetta hafi gengið eftir. Í tengslum við þetta má geta þess að F sendi fyrirspurn til C í tölvubréfi 25. maí 2007 um hvort ekki ætti að gera lánssamning við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. vegna víkjandi láns, en hjá Milestone ehf. væri þetta fært á „lánardrottnareikningi og vaxtareiknast ekki en Sjóvá vaxtareiknar MST á móti láni sem þeir tóku fyrir þessu.“ Þeir vextir hafi numið rúmlega 33.000.000 krónum. Af þessu tilefni sendi C tölvubréf til E og óskaði eftir að hann útbyggi lánssamning í samræmi við orðsendingu F, en skuldari yrði Milestone ehf. Í gögnum málsins virðist ekki vera að sjá svar við þessu.

10

Ákærði U sendi C tölvubréf 6. nóvember 2006 með yfirskriftinni: „Staða eigenda“ og spurði hvort sá síðarnefndi hafi lokið við að kanna þrennt: „Ógreidd þóknun til [X] vegna 2005 (200 mkr.) Var ekki [V] með einhverja þóknun? Ógreiddur arður fyrir 2005 (150 mkr.)“. Þessu svaraði C 9. sama mánaðar þannig að hann hafi farið „yfir þessi mál með [X] í gær.“ Hafi „þessar 150 mkr. í arð út úr MST Ltd.“ verið greiddar 2005 og hafi ákærði X fengið greidda þóknun að fjárhæð 80.000.000 krónur á árinu, en hann myndi ekki hvort ákærði V hafi átt að fá þóknun. Vísaði C jafnframt til fylgiskjals um stöðu þessara tveggja ákærðu gagnvart Milestone ehf. Þá sagði hann ákærða X vilja gera fernt, þar á meðal að greiða út arð frá félaginu, 270.000.000 krónur að frádregnum skuldum hluthafa á viðskiptareikningum, og nota hluta eða alla skuld félagsins við sig „til þess annars vegar að jafna hlutföllin milli hans og [V] (60/40) og hins vegar vegna [A]“. Myndu tillögur ákærða X „kosta Milestone um 1300 mkr. í peningum“, en hann gengi út frá því að „skuld Milestone við [X] núllist út vegna [A]“. Með bréfinu virðist meðal annars hafa fylgt yfirlit, sem að mestu svaraði til áðurnefndrar áætlunar sem send var með tölvubréfi 30. desember 2005 um greiðslur Milestone ehf. til A frá þeim mánuði til desember 2007, nema að því leyti að samkvæmt þessu yfirliti átti „Félagið“ að vísu að bera sömu fjárhæð af heildargreiðslum og í fyrra yfirlitinu, en skipting á greiðslum milli „[X]“ og „[V]“ var hér önnur, þannig að sá fyrrnefndi átti að bera stærri hlut en áður, samtals 2.187.796.599 krónur, og sá síðarnefndi minni hlut, alls 924.289.601 krónu.

Ákærði X sendi ákærða U tölvubréf 19. nóvember 2006 og lýsti í byrjun ánægju með uppgjör fyrir samstæðu Milestone ehf. miðað við 31. október 2006, sem hann hafi fengið sent. Í framhaldi af því greindi ákærði X í sjö liðum frá atriðum, sem þeir yrðu „að klára fljótlega“, en meðal þeirra væri að „formlega þarf [A] að selja sinn hlut núna í kringum áramótin (á að tilkynna það) eða hreinlega hætta að telja hana upp sem eiganda“, að taka „ákvörðun um á hvern hátt [X] og [V] koma að því að kaupa [A] út“ og „viðskiptastaða [X] við Milestone sbr. póst frá [C] hinum góða“, sem væntanlega mun hafa verið skírskotun til fyrrgreinds tölvubréfs C 9. nóvember 2006.

Milestone ehf. sem skuldari gerði 24. nóvember 2006 lánssamning við Leiftra Ltd. sem kröfuhafa um 2.955.000 sterlingspund, sem skuldarinn átti að greiða í einu lagi á gjalddaga 23. nóvember 2007 með LIBOR vöxtum að viðbættu 2,5% álagi. Samningur þessi var undirritaður af hálfu beggja félaganna af ákærða U. Ekki verður séð af gögnum málsins hvert hafi verið tilefnið fyrir lánveitingunni, en samkvæmt þeim virðist skuldin aldrei hafa verið greidd.

Ákærði U sendi tölvubréf til C 6. desember 2006 með yfirskriftinni: „[A]“, þar sem sagði: „I tilefni af thvi ad okkur hefur verid legid a halsi fyrir takmarkadar ardgreidslur vaeri gaman ef thu myndir taka saman thinar hugmyndir vardandi medferdina a greidslunum til [A]. Thurfum lika ad muna eftir vikjandi laninu I sjova. Min hugmynd er ad faera nidur hlutafed fra og med 1.7.2006, hvernig kaemi thad ut m.t.t. Eiginfjarhlutfalls, covenanta o.s.frv.? Er ad hugsa um ardsemi eigin fjar ad sjalfsogdu. Kemur hins vegar illa ef litid er a markmid um 60 mia eigid fe I lok arsins.“

Þá sendi ákærði U tölvubréf til C og B 28. desember 2006, þar sem sagði meðal annars: „Stöndum við klárir á tilfærslum vegna bréfaflækjunnar og bræðranna þ.e. [X] bréf eru eign MST, [V] bréf voru eign [X] os.frv. osfr. Osfrv. Töluðum um að vinda ofan af þessu samhliða tilkynningunni á morgun. Spurning hvort við ættum að setjast yfir eigendamál strax í fyrramálið. Læt fylgja með það skjal til gamans. Þeir vilja gera upp arð fyrri árs á móti viðskiptareikningi osfrv.“ Með bréfinu fylgdi meðal annars yfirlit um greiðslur til A, sams konar því sem fylgdi áðurnefndu tölvubréfi 9. nóvember 2006. Einnig fylgdi annað yfirlit, þar sem sýnd var „staða [X]/[V]“. Undir lið í yfirlitinu með fyrirsögninni: „Kaup á hlut [A]“ kom fram að „[X]“ ætti að bera samtals 2.187.796.598 krónur, „[V]“ 924.289.602 krónur, Milestone ehf. 1.775.270.001 krónu og „M / L Ltd.“ 891.210.800 krónur. Þar fyrir neðan var tilgreint að Milestone ehf. hefði „greitt nú þegar til [A]“ 2.889.641.094 krónur og var bætt við „víkjandi lán í gegnum Sjóvá - IW“, 450.000.000 krónur, þannig að út komu 3.339.641.094 krónur. Sagði loks: „Milestone ehf. er því búið að borga of mikið vegna [A] um ca. 1.892 mkr.“

Í fundargerð frá fundi stjórnar Milestone ehf. 29. desember 2006 var meðal annars fjallað í nokkru máli um endurfjármögnun á félaginu, sem stæði þá yfir. Var einnig kynnt að áætlað væri að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. greiddi til hluthafa allt að 12.000.000.000 krónur vegna arðs og lækkunar á hlutafé, meðal annars með eignarhlutum í AVP ehf. og Sjóvá fjármögnun hf. Þá var staðfestur hluthafasamningur við nánar tilgreind félög vegna Askar Capital hf., en hlutafé í því félagi að verðmæti 320.000.000 krónur yrði flutt í sérstök fjárfestingarfélög. Að öðru leyti var meðal annars samþykkt að „kaupa af Leiftra allt hlutafé þess í Iceland fyrir kr. 1.400.000.000“, svo og að „sameina dótturfélagið L&H eignarhaldsfélag við Milestone.“

Í málinu liggja fyrir drög að efnahagsreikningi fyrir Milestone Import Export Ltd., sem miðaður var við 31. desember 2006, en hvorki var hann undirritaður né bar hann með sér hver hefði gert hann eða hvenær. Honum fylgdu heldur ekki skýringar eða frekari sundurliðanir. Eignir voru sagðar vera að andvirði samtals 11.351.051.000 krónur, þar af skuldabréf, 9.727.133.000 krónur, og viðskiptakröfur, 1.623.918.000 krónur. Skuldir voru sagðar nema 2.615.958.000 krónum og færðar sem skuldabréf. Eigið fé var talið 8.735.093.000 krónur, þar af 30.000.000 krónur vegna hlutafjár.

11

Ákærði X sendi 11. janúar 2007 tölvubréf til ákærða U, sem hófst á eftirfarandi orðum: „Hér er listi að eventum sem við eigum að setja í loftið með reglulegu millibili og vekja athygli.“ Á eftir kom upptalning í ellefu liðum, þar sem meðal annars var að finna þetta: „[A] keypt út, brodrene einu eigendur, láta fylgja að kaup verðið sé að mestu greitt!!!!!!“

Ákærði U sendi ákærða X með tölvubréfi 13. janúar 2007 minnisblað með fyrirsögninni: „Staða mála“, en þar sagði meðal annars: „Starfsmenn: [E] hinn ungi er mættur á svæðið og vill láta til sín taka. Fyrsta verkefnið hans er að halda áfram með og loka MST/Leiftri/eigendur/[A] snúningnum.“ Verður að ætla að ummæli þessi hafi varðað E, sem tók sem fyrr segir um þetta leyti til starfa hjá Milestone ehf.

Starfsmaður Baker Tilly Ltd. á Tortola sendi tölvubréf 15. febrúar 2007 undir fyrirsögninni: „BVI Corporate Services“ til E. Vísaði sá fyrrnefndi til símtals þeirra þá um morguninn og óskaði eftir að E léti sér í té upplýsingar um tvö félög á Bresku Jómfrúareyjum, sem ætlunin væri að sameina. Í svari E sama dag kom fram að félögin hétu Milestone Import Export Ltd. og Leiftri Ltd. Hefði hann í hyggju að skipta Milestone Import Export Ltd. á þann hátt að einnig yrði til annað félag, Milestone Import Export 2 Ltd., og yrði síðarnefnda félagið sameinað Leiftra Ltd., en milli Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd. væri skuld, sem hann vildi losna við án þess að greiða hana. Leiftri Ltd. stæði í skuld við Milestone Import Export Ltd. að fjárhæð 5.000.000 evrur og vildi E flytja þá kröfu til Milestone Import Export 2 Ltd. Að þessu gerðu vildi hann slíta Milestone Import Export Ltd. Þegar Milestone Import Export 2 Ltd. hefði verið sameinað Leiftra Ltd. ætti að flytja síðarnefnda félagið til Íslands. Sagðist E mundu verða þakklátur ef unnt yrði að láta sér í té upplýsingar um hvort framkvæma mætti þetta og hvað það myndi kosta. Starfsmaður Baker Tilly Ltd. sendi E tölvubréf 16. febrúar 2007 og óskaði eftir frekari gögnum, en tók fram að stofna yrði Milestone Import Export 2 Ltd. sem nýtt félag og væru E send eyðublöð til útfyllingar í því skyni.

Ákærði U og C fengu send 19. febrúar 2007 með tölvubréfi frá KPMG endurskoðun hf. drög að ársreikningi. Ákærði U framsendi tölvubréfið skömmu síðar til B og tók eftirfarandi fram: „Það á eftir að taka tillit til arðsins frá sjóvá og breytingum á okkar eigin fé vegna [A]. Annars lítur þetta vel út. Einhverjar bókhaldsæfingar eru eftir.“

Í fundargerð frá fundi stjórnar Milestone ehf. 23. febrúar 2007 kom fram að forstjóri hafi gert grein fyrir drögum að ársreikningi fyrir 2006, fundarmenn hafi verið sammála um að afkoma hafi verið í samræmi við væntingar og samþykkt hafi verið að leggja reikninginn óbreyttan fyrir aðalfund sama dag. Gerð hafi verið tillaga um að ákærðu X og V myndu skipa stjórn félagsins, ákærði Z yrði áfram endurskoðandi þess, hagnaði félagsins yrði ráðstafað í samræmi við tillögu í ársreikningi og yrði „arður til hluthafa“ 300.000.000 krónur, sem myndi „skiptast hlutfallslega milli hluthafanna X og V“, en engin þóknun yrði greidd stjórnarmönnum. Sagði ekkert um hvort stjórnin hafi samþykkt þessar tillögur. Aðalfundur í félaginu var síðan haldinn sama dag, en í fundargerð, sem var undirrituð af ákærðu X og V, sagði meðal annars að mætt væri „fyrir hönd allra hluthafa í félaginu“. Ákvarðanir á fundinum voru í samræmi við tillögur á framangreindum fundi stjórnar félagsins, en þó þannig að tekið var fram að arður skyldi skiptast milli ákærðu X og V „í réttum hlutföllum við eignarhlutföll þeirra í félaginu“ og hafi „allir fundarmenn“ verið samþykkir þeirri arðsúthlutun. Ársreikningur félagins var jafnframt samþykktur.

12

Í málinu liggja fyrir svonefnd endurskoðunarfyrirmæli, sem starfsmenn KPMG endurskoðunar hf. settu sér vegna endurskoðunar á ársreikningi Milestone ehf. fyrir 2006, en þau voru færð inn á eyðublöð á ensku, sem virðast hafa stafað frá alþjóðlegri samsteypu endurskoðunarfyrirtækja undir merkjum KPMG. Í viðeigandi reiti var fært að ákærða W hafi undirbúið fyrirmælin 15. janúar 2007 og þau verið yfirfarin af ákærðu Y og Z 20. sama mánaðar. Þá var jafnframt innfært að svonefnd mikilvægismörk við endurskoðunina væru ákveðin 100.000.000 krónur. Að öðru leyti kom þar meðal annars fram að Milestone ehf. væri „í eigu þriggja systkina ásamt félaginu Leiftra Ltd. sem jafnframt er í eigu systkinanna. Það er þó verið að kaupa [A] út úr félaginu.“ Í umfjöllun um áhættur sagði meðal annars: „Stærsti hluthafi Milestone ehf. er starfandi stjórnarformaður félagsins. Hann er mjög domenerandi og allar stærri ákvarðanir fara í gegnum hann. Íhuga management override vegna hættu á Financial Statement level risk og skoða vel bókhaldsfærslur.“ Í kafla fyrirmælanna, sem laut að ráðagerðum um nálgun við endurskoðun mikilvægra reikninga, var varðandi útlán merkt í reiti sem munu hafa táknað að í verkinu skyldi gætt að heild, tilvist og nákvæmni. Í fyrirmælunum var jafnframt getið um eftirfarandi í lið sem varðaði „aðrar kröfur“: „Kröfur félagsins eru á fáa aðila svo auðvelt er að fylgjast með stöðu þeirra. Uppgjör eru gerð mánaðarlega og kröfurnar stemmdar af samhliða þeim uppgjörum. Samtals nema útlán og kröfur 4.344 millj. kr. í ársreikningi móðurfélagsins. Þar af nemur ... krafa á einn eigandann sem verið er að kaupa út, [A] ... 2.735 millj. kr.“ Á eyðublaði sem bar yfirskriftina: „Útlán og kröfur“ var endurtekið að meðal annarra væri krafa „á einn eigandann sem verið er að kaupa út, [A]“ að fjárhæð 2.735.000.000 krónur og var því bætt við að fenginn hafi verið „samningur vegna láns við [A] og hann borinn saman við ársreikning“. Neðst á því blaði var svo tekið fram að niðurstaða væri sú að „engar athugasemdir voru gerðar.“ Á yfirlitsblaði um samtölur úr einstökum reikningsliðum, sem teldust vera „Aðrar kröfur/Útlán“, kom meðal annars fram eftirfarandi við tiltekið reikningsnúmer: „Biðreikningur ([A]) 2.734.541.184“ og síðan um lokafærslur neðar á blaðinu: „Biðreikningur (hluti [A] færður á útlán) ... (2.733.326.804)“. Neðst á því undir fyrirsögninni: „Útlán“ var endurtekið: „Biðreikningur (hluti [A] færður á útlán) ... 2.733.326.804“, við þá fjárhæð var bætt lið vegna víkjandi láns, 59.032.235 krónum, og fengin loks niðurstaða um „Útlán samtals 2.792.359.039“. Var handritað þar við að fjárhæðin „stemmir við ársr.“

Við rannsókn málsins fékk lögregla úr vörslum KPMG endurskoðunar hf. skjal á eyðublaði frá félaginu, sem var meðal gagna um endurskoðun reikningsskila Milestone ehf. og auðkennt með upphafsstöfum ákærðu Z og Y, en dagsetning á því vísaði til þess að það varðaði ársreikning fyrir árið 2006. Skjal þetta bar fyrirsögnina: „Útlán Milestone ltd.“ og var svohljóðandi: „Skuldabréf útgefið af Milestone ltd. að fjárhæð ISK 2.733.326.804 með gjalddaga í árslok 2007 og ber 10% vexti. Skuldabréfið er bókfært á nafnverði undir útlán í bókum Milestone ehf. (M). Rætt við stjórnendur M um mat á skuldabréfinu: Um er að ræða viðskiptalán til M ltd., skuldabréfið er undirritað af hálfu M af [U] og fyrir hönd M ltd. af [E] samkv. umboði. Tilurð þess tengist sölu [A] á hlutabréfum í M, M ltd. og Leiftra ltd. M hefur séð um afgreiðslu greiðslnanna til [A] og fengið þær uppgerðar með þessu skuldabréfi. Það er mat stjórnenda M að þetta bréf sé öruggt og muni greiðast. Meðfylgjandi eru drög að efnahagsreikningi M ltd. sem stjórnendur M lögðu fram að kröfu endurskoðenda, þar kemur fram að eigið fé félagsins eru liðlega 8,7 milljarðar króna áður en þessi viðskipti félagsins eru færð í bækurnar. M ltd. á kröfu á Leiftra vegna viðskipta með hlutab. í Actavis og Glitni. Þegar Leiftri mun losa fé borga þeir þá kröfu. Skuldabréfið látið standa á bókfærðu verði.“ Í b. lið V. kafla ákæru er ákærðu W, Y og Z gefið að sök að hafa útbúið þetta skjal haustið 2009 og bætt því þá inn í endurskoðunargögn vegna Milestone ehf. Þess er hér að öðru leyti að geta að áður hefur verið lýst drögum að efnahagsreikningi fyrir Milestone Import Export Ltd., sem miðaði við 31. desember 2006, en vikið verður hér síðar að tilurð lánssamnings milli Milestone ehf. og Milestone Import Export Ltd., sem var dagsettur 30. desember 2006 og ranglega nefndur skuldabréf í textanum hér að framan. Eftir gögnum málsins liggur fyrir að það skjal var samið í tölvu 11. apríl 2007 og barst ekki KPMG endurskoðun hf. fyrr en 23. maí sama ár.

Í málinu liggur einnig fyrir önnur gerð af framangreindu skjali, sem hefur sömu umgjörð og það, meðal annars merkingu með upphafsstöfum ákærðu Z og Y, en meginmál þess er svohljóðandi: „Skuldabréf útgefið af Milestone ltd. að fjárhæð ISK 2.733.326.804 til greiðslu í árslok 2007 og ber 10% vexti. Skuldabréfið er bókfært á nafnverði undir útlán í bókum Milestone ehf. (M). Rætt við stjórnendur M um mat á skuldabréfinu: Um er að ræða viðskiptalán til M ltd. Það er mat stjórnenda M að þetta bréf sé öruggt og muni greiðast. M ltd. á kröfu á Leiftra vegna viðskipta með hlutab. í Actavis og Glitni. Þegar Leiftri mun losa fé borga þeir þá kröfu. Eignir Leiftra eru eignarhluti í Milestone ehf. og TIG sem rekur lyfjabúðakeðjur á Balkanskaga. Höfum ekki ástæðu til að ætla að stjórnendur séu með blekkingar gagnvart okkur enda hafa þeir undirritað staðfestingarbréf í tengslum við endurskoðunina. Skuldabréfið látið standa á bókfærðu verði.“ Við rannsókn lögreglu var leitt í ljós með athugun á gögnum úr tölvukerfi KPMG endurskoðunar hf. að þetta skjal hafi verið búið til 16. október 2009.

Meðal gagna málsins er skjal með fyrirsögninni: „Endurskoðunarskýrsla 2006“, dagsett 2. mars 2007, sem ákærðu Y og Z undirrituðu og beint var til ákærða X sem stjórnarformanns Milestone ehf. Í skýrslunni sagði meðal annars að við yfirferð efnahagsreiknings í ársreikningi 2006 hafi „tilvist eigna og eignarhald verið kannað“ og „kröfur félagsins ásamt tillögu að niðurfærslu þeirra“ verið „yfirfarnar með tilliti til innheimtanleika þeirra.“ Undir lið með fyrirsögninni: „Útlán“ var getið um eftirfarandi: „Meðal útlána er færð krafa á [A] að fjárhæð 2.733 millj. kr. og víkjandi lán að fjárhæð 59 millj. kr. Til staðfestingar á útlánunum var samningur milli [A] og félagsins yfirfarinn svo og gögn varðandi víkjandi lánið. Niðurstaðan var fullnægjandi.“

  Þess ber að geta að meðal gagna málsins er tölvubréf, sem ákærða W sendi ákærðu Y 13. maí 2007, þar sem sagði meðal annars að meðfylgjandi væri „það sem komið er af endurskoðunarskýrslu Milestone.“ Í niðurlagi bréfsins sagði síðan: „Viltu renna yfir skýrsluna og gefa mér ábendingar um framhaldið, ég hef gert mjög fáar skýrslur og aldrei frá grunni áður svo þetta tekur mig frekar langan tíma.“ Með bréfinu fylgdi skjal, sem hafði að geyma drög að framangreindri skýrslu. Í drögunum var liðurinn með fyrirsögninni: „Útlán“ svohljóðandi: „Sem útlán er færð krafa á [A] að fjárhæð 2.733 millj. kr. og víkjandi lán að fjárhæð 59 millj. kr. xxxxx fá samninginn um lánið við [A]. Til staðfestingar á útlánunum var samningur á milli [A] og Milestone skoðaður og gögn um víkjandi lánið. Niðurstaðan var fullnægjandi.“ Þá liggur einnig fyrir tölvubréf, sem ákærða Y sendi 22. maí 2007 til ákærðu Z og W með fyrirsögninni: „A1 – Endurskoðunarskýrsla 2006.doc“ og fylgdi bréfinu samnefnt tölvuskjal, sem hafði að geyma uppfærð drög að framangreindri skýrslu. Drögin voru samhljóða endanlegri gerð skýrslunnar um þau atriði, sem áður var vísað til, þar á meðal um dagsetningu hennar 2. mars 2007.

13

Ársreikningur fyrir samstæðu Milestone ehf. vegna ársins 2006 var undirritaður 23. febrúar 2007 af stjórn félagsins, ákærðu X og V, ásamt forstjóra þess, ákærða U, og áritaður af endurskoðendunum ákærðu Z og Y. Í skýrslu stjórnar var þess meðal annars getið að hluthafar hafi verið fjórir í lok ársins 2006 eins og í byrjun þess, en þeir hafi verið Leiftri Ltd., sem hafi átt 31,6% hlutafjár, ákærði X, sem hafi átt 29,7% hlutafjárins, ákærði V, sem hafi átt 23,4%, og A 15,3%. Samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður félagsins 21.444.000.000 krónur á árinu 2006. Í efnahagsreikningi var heildarandvirði eigna talið 170.075.000.000 krónur, en skuldir samtals 126.348.000.000 krónur og eigið fé þannig 43.727.000.000 krónur. Meðal eigna voru taldar óefnislegar eignir að verðmæti 21.311.000.000 krónur og útistandandi kröfur vegna lána að fjárhæð samtals 11.651.000.000 krónur, en samkvæmt skýringum með ársreikningnum námu veðtryggð útlán samtals 4.514.000.000 krónum og önnur útlán 7.137.000.000 krónum. Þá er þess að geta að af eigin fé félagsins voru 2.714.000.000 krónur vegna hlutafjár, en eftir skýringum við reikninginn voru eigin hlutir félagsins því til viðbótar að nafnverði 143.000.000 krónur.

Ársreikningur fyrir Milestone ehf. sem móðurfélag samstæðunnar var jafnframt dagsettur 23. febrúar 2007. Í skýrslu stjórnar var greint frá hluthöfum á sama hátt og í áðurnefndum samstæðureikningi. Samkvæmt rekstrarreikningi varð hagnaður móðurfélagsins 20.295.000.000 krónur á árinu 2006, en í efnahagsreikningi kom fram að heildarandvirði eigna í lok ársins hafi verið 101.544.000.000 krónur, samtala skulda 57.961.000.000 krónur og eigið fé 43.583.000.000 krónur. Meðal eigna voru talin útlán að fjárhæð samtals 2.792.000.000 krónur.

Meðal gagna málsins er bréf 23. febrúar 2007 til KPMG endurskoðunar hf. með yfirskriftinni: „Staðfestingarbréf stjórnenda“, sem ákærði U og C undirrituðu fyrir hönd Milestone ehf. Í bréfinu sagði meðal annars: „Staðfestingarbréf þetta er skrifað í tengslum við endurskoðun ykkar og áritun á samstæðuársreikning Milestone ehf. og dótturfélaga þess ... Við höfum aflað okkur nauðsynlegra upplýsinga frá stjórnendum og starfsmönnum félagsins sem búa yfir viðeigandi þekkingu og reynslu. Í samræmi við framangreint viljum við staðfesta eftirfarandi samkvæmt okkar bestu vitund: ... Við gerum okkur ljósa ábyrgð okkar á því að ársreikningurinn ... sé í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla ... Við höfum veitt ykkur aðgang að öllum bókhaldsgögnum og öðrum gögnum sem tengjast bókhaldi ... Við staðfestum að: ... Við gerum okkur ljóst að orðið „sviksemi“ nær bæði yfir skekkjur sem eru tilkomnar vegna vísvitandi rangfærslna í reikningsskilum félagsins og þess að misfarið sé með eignir þess. Skekkjur sem eru til komnar vegna vísvitandi rangfærslna í reikningsskilum ná til upplýsinga sem af ásettu ráði er sleppt eða bætt við í þeim tilgangi að blekkja notendur reikningsskilanna. Skekkjur sem til eru komnar vegna þess að misfarið er með eignir félagsins ná til þjófnaðar eða veðsetningar sem oft fylgja fölsuð eða villandi gögn sem ætlað er að hylma yfir þjófnaðinn ... Það er mat okkar að ekki sé hætta á verulegum annmörkum í reikningsskilum vegna sviksamlegs athæfis ... Félagið er lögformlegur eigandi allra eigna sem tilgreindar eru í efnahagsreikningi“.

14

Í tölvubréfi 6. mars 2007 frá ákærðu W til C, sem bar yfirskriftina „[A]“, sagði eftirfarandi: „Er búið að gera samninginn um breytingu á kröfunni á [A] og færa hana á Milestone Ltd.? Ég þarf að fá þann samning þegar hann er tilbúinn.“ Þessu svaraði C sama dag með tölvubréfi, þar sem sagði: „Þarf ekki nýjan samning. Okkur er heimilt að gera þetta skv. núverandi samningi → [Z] þekkir málið.“

Ákærða W sendi 27. mars 2007 tölvubréf með yfirskriftinni „[A]“ til D, þar sem sagði: „Skv. [C] þá nær samningurinn við [A] sem á að breyta í Milestone Ltd. yfir breytinguna. Ég veit hins vegar ekki alveg hvaða samningur þetta er við [A]. Er með einn samning á milli [A] og Milestone vegna Netjets en finn ekki aðra samninga á milli þeirra. Veist þú vegna hvers krafan er sem er á [A]?“ Þessu svaraði D að kvöldi sama dags á eftirfarandi hátt: „Já, ég veit hvaða samning hann er að ræða um en ég hef ekki séð hann (það er ekki þessi Netjets samningur). Samningurinn er um kaup á henni út úr batteríinu. Ég skal reyna að muna að nefna þetta við hann.“

D sendi 2. apríl 2007 tölvubréf til C, þar sem sagði: „KPMG þarf gögn á bakvið lán til Milestone Ltd. (áður [A]) um 2,7 milljarða sem backup í sína vinnumöppu fyrir árið 2006. Áttu eitthvað handa mér til að senda þeim?“ C svaraði sama dag í svohljóðandi tölvubréfi: „Nei, getur thu ekki utbuid eitthvad fallegt.“ D sendi til baka tölvubréf stuttu síðar og sagði að sér dytti í hug „afrit af þessum samningi við [A]“ og spurði hvað C segði um það. Í svari C í beinu framhaldi taldi hann það hljóma ágætlega, en þó yrði betra „að hafa samning milli MST og MST Import Export.“ Af því tilefni sendi D strax á eftir tölvubréf til E og afrit til C, þar sem sagði: „Getur þú útbúið lánasamning á milli MST ehf. og MST import export vegna viðskiptastöðu á milli félaganna í árslok 2006 um 2,7 milljarðar. Varðandi nánari útfærslu á kaupum og kjörum þá verður þú að fá okkur C í lið með þér.“ Svaraði E um hæl með tölvubréfi þar sem aðeins stóð „ok“.

Samkvæmt gögnum málsins samdi E 11. apríl 2007 í tölvu texta lánssamnings á ensku milli Milestone ehf. og Milestone Import Export Ltd. Samkvæmt samningnum tók Milestone Import Export Ltd. að láni hjá Milestone ehf. 2.733.326.804 krónur, sömu fjárhæð og síðarnefnda félagið hafði greitt á árinu 2006 til A vegna fyrrnefndra samninga frá 4. desember 2005, og ætti að greiða skuldina í einu lagi 15. desember 2007 ásamt 10% ársvöxtum. Í málinu liggja fyrir eintök af þessum samningi undirrituð af ákærða U af hálfu Milestone ehf. og E fyrir hönd Milestone Import Export Ltd. Þau eintök eru dagsett 30. desember 2006.

Ákærða W sendi 12. maí 2007 tölvubréf með yfirskriftinni „[A]“ til D, þar sem sagði: „Ég man ekki til þess að ég hafi verið búin að fá samninginn við [A]vegna þessarar tæplega þriggja milljarða kröfu. Finn hann alla vega ekki hér, gætir þú fundið afrit af honum og sent mér.“ Þessu svaraði D 15. sama mánaðar á eftirfarandi hátt: „Er með samninginn á borðinu en vantar undirskrift U forstjóra. Hann er erlendis og er væntanlegur í lok vikunnar. Reyni að afgreiða þetta þegar hann kemur til baka. Annars var þessu breytt þannig að kröfunni var breytt á Milestone Import Export Ltd. í stað [A](þ.e. [A]á þá kröfu á Milestone Import Export Ltd. í stað Milestone ehf.).“ Loks sendi D ákærðu W tölvubréf 23. maí 2007, þar sem sagði: „Hérna færðu loks undirritaðan lánasamning.“ Með bréfinu fylgdi tölvutæk mynd af samningnum sem áður var lýst.

                                                                   15      

C sendi 3. apríl 2007 tölvubréf til ákærða U, sem hófst með eftirfarandi orðum: „Svo það sé skjalfest þá þarf að borga um 900 mkr. nk. þriðjudag.“ Því næst voru taldar upp fjórar væntanlegar greiðslur, þar á meðal „[A]300 m“, en að endingu sagði: „Eins og staðan er akkúrat núna vantar 900 mkr.“ Þessu bréfi fylgdi C síðan eftir með öðru til ákærða U 9. sama mánaðar, þar sem hann kvaðst hafa rætt við nafngreindan mann hjá Askar Capital hf. og gæti það félag ef til vill lánað Milestone ehf. fé í eina viku.

Á fundi stjórnar Milestone ehf. 4. apríl 2007 var eftirfarandi meðal annars fært í fundargerð: „Fyrir fundinum lágu ... drög að samningi um sölutryggingu á hlutum í Glitni sem eru í eigu Milestone og tengdra aðila svo og hlutum í eigu AA og tengdra aðila. Samningurinn gerir ráð fyrir að þessir aðilar muni selja alla sína hluti í Glitni nema 7% sem haldið verður eftir í sérstöku félagi sem mun verða áfram í eigu þeirra aðila sem selja. Kaupgengið skv. samningsdrögunum er 27,82. Stjórn félagsins samþykkti að ganga til samninga við Kaupþing um sölutryggingu á hlutum í Glitni á grundvelli þeirra draga sem liggja fyrir. Stjórnarformanni félagsins var veitt fullt umboð til þess að skrifa undir nauðsynlega samninga vegna samningsins.“ Á öðrum stjórnarfundi 17. sama mánaðar gerði forstjóri Milestone ehf. grein fyrir könnun á kaupum á fjármálafyrirtækinu Invik AB í Svíþjóð, en á grundvelli óskuldbindandi tilboðs hafi Milestone ehf. fengið heimild til að gera frekari áreiðanleikakönnun og leggja fram bindandi tilboð og rynni frestur til þess út þennan dag. Væri ráðgert að fyrst yrðu keypt 26% hluta í Invik AB „með 65% af atkvæðisrétti“, en síðar yrði gert yfirtökutilboð í aðra hluti. Hafi starfsmenn og ráðgjafar Milestone ehf. gert áreiðanleikakönnun og væri fjármálafyrirtækið Bear Sterns tilbúið að veita „brúarfjármögnun“, en Morgan Stanley Bank International Ltd. hafi bréflega lýst yfir áhuga á fjármögnun kaupanna. Væri miðað við að af kaupverðinu yrðu 500.000.000 evrur „greiddar með peningum frá Milestone fyrirtækjum“, en 250.000.000 evrur með lánsfé. Hafi eftir umræður verið samþykkt að gera tilboð um kaup á Invik AB í heild fyrir 807.000.000 evrur, svo og að veita forstjóra Milestone ehf. heimild til að ganga til samninga um lántökur í því sambandi.

Í tölvubréfi 26. apríl 2007 til E kvaðst BB, starfsmaður Basel Trust Corporation Ltd. á Ermasundseyjum, vera að leitast við að fylla út eyðublöð, sem E hafi sent til samstarfsmanns hennar í tengslum við fyrirhuguð kaup Milestone ehf. á vátryggingafélagi. Óskaði hún eftir að E staðfesti af þessu tilefni að Leiftri Ltd. ætti enn 857.000.000 af 2.857.000.000 hlutum í Milestone ehf. eða sem svaraði 30% hlutafjár. Í svari E sama dag kvaðst hann staðfesta þetta og tók fram að síðar um daginn myndi hann senda samþykkt hluthafa um hlutabréf í Leiftra Ltd. í eigu A, en þau hafi verið seld ákærðu X og V. Í samræmi við þetta sendi E síðar um daginn til Basel Trust Corporation Ltd. tvö eintök af samþykkt hluthafa í Leiftra Ltd., þar sem fram kom að A hafi átt 28% hluta í félaginu, en frá 3. mars 2007 væru þessi hlutabréf í eigu ákærðu X og V, þannig að sá fyrrnefndi ætti orðið 60% hluta í félaginu og sá síðarnefndi 40%. Annað eintakið af þessari staðfestingu var undirritað af ákærðu X og V, en hitt af A og ákærða X. Jafnframt sendi E sama dag undirritaða samþykkt ákærðu X og V sem hluthafa í Leiftra Ltd. um að taka til greina afsögn L sem stjórnarmanns í félaginu og fela CC að taka sæti í stjórninni.

Í yfirlýsingu á ensku frá ákærða U 26. apríl 2007, þar sem hann kvaðst vera bær til að rita firma Leiftra Ltd., staðfesti hann að samkvæmt hlutaskrá fyrir félagið ætti ákærði X 23.839,8 hluti í því eða 60% og ákærði V 15.893,2 hluti eða 40%. Sams konar yfirlýsingu gerði áðurnefndur CC 30. sama mánaðar. Þá gerði ákærði U síðastgreindan dag vottorð á ensku, þar sem hann kvaðst hafa heimild til að rita firma Milestone ehf. og staðfesti að samkvæmt hlutaskrá félagsins ætti ákærði X 1.114.301.400 af 2.857.000.000 hlutum í félaginu eða 39%, ákærði V 742.867.600 hluti eða 26% og Leiftri Ltd. 857.000.000 hluti eða 30%, en sjálft ætti félagið 142.831.000 hluti eða 5%. Í tengslum við þetta er þess að geta að eignarhald Milestone ehf. á eigin hlutum samkvæmt þessu vottorði samrýmist ekki öðru skjali, sem virðist eiga uppruna sinn í gagnasafni félagsins, en þar kom fram að 31. desember 2006 hafi eigin hlutir Milestone ehf. verið 99.239.021 eða 3,47% og hlutir í eigu Sáttar ehf., félags sem mun hafa verið í eigu ákærða U, 43.591.979 eða 1,53%.

Í tölvubréfi til F 7. maí 2007 innti C hann eftir því hver væri staða óafgreiddra mála. Í svari F daginn eftir var upptalning í sex liðum og var einn þeirra „[A] vs. bræðurnir“. Í framhaldi af þessu sendi C svör til F um einstaka liði, en um þann sem hér var nefndur sagði: „Í vinnslu, klárast vonandi fyrir 6 mánaða uppgjör (a.m.k. hluti af þessu)“.

16

Starfsmaður KPMG endurskoðunar hf. sendi E í tölvubréfi 14. maí 2007 fyrirspurn um 24 atriði, sem hann þyrfti að fá upplýsingar um í tengslum við gerð skattframtals fyrir ákærða X. Meðal þess, sem spurt var um, var hlutafjáreign ákærða X í Milestone ehf. í árslok 2006, breytingar á henni á árinu og skuld hans við félagið, svo og hlutafjáreign í „Milestone Ltd.“ og Leiftra Ltd. í árslok og breytingar á henni á árinu. Sami maður sendi síðan D tölvubréf 30. sama mánaðar með fyrirsögninni: „Skattframtal [A]“, þar sem sagði: „Getur þú fengið staðfestingu fyrir mig á því að [A] eigi óbreytta eignarhluta frá árinu 2005 í Milestone Ltd. og Leiftra Ltd. í árslok 2006. Ef þetta hefur eitthvað breyst þá vantar mig upplýsingar um það.“ D sendi næsta dag tölvubréf til ákærða U og C undir yfirskriftinni: „[A] og framtalsmál“, þar sem sagði: „Búinn að fara yfir málið aftur með [Z] og Leiftra fléttan verður fyrir valinu. Áður en við setjum „go“ á það þá verður „[U]“ að gera [A] og Co. grein fyrir þessari smávægilegri breytingu á upphaflegri áætlun. Það þarf að gerast sem fyrst, í síðasta lagi á morgun.“ Stuttu síðar sendi ákærði Z tölvubréf til P, framkvæmdastjóra KPMG endurskoðunar hf. og var yfirskrift þess: „Sbr. samtal okkar í morgun.“ Í því sagði eftirfarandi: „Fyrir liggur að stjórnendur í Milestone hafa ekki gengið fullkomlega frá greiðslu til [A] á sl. ári fyrir um 2,7m. Í bókum Milestone liggur fyrir lánasamningur á milli Milestone ehf. og Milestone ltd. fyrir sömu fjárhæð. Eftir var að ganga frá eiginlegum formsatriðum um sölu á þessum 2,7 milj. En fyrir liggur að sala [A] er á eignarhlutum í Milestone og tengdum félögum. [U] verður til vinnu á morgun en þá liggur endanlega fyrir um málið. Eins og staðan er núna verður svo á litið að um sé að ræða sölu á eignarhlut í Leiftra Ltd. og Milestone Ltd.“

Í skattframtali A 2007 voru talin fram sem eign í árslok 2006 hlutabréf í Milestone ehf. að nafnverði 415.267.826 krónur. Á fylgiblaði með framtalinu kom fram að A hafi í byrjun árs 2006 átt hlutabréf í „Milestone Ltd.“ að nafnverði 280 án tilgreinds gjaldmiðils og hafi stofnverð þeirra verið 8.400.000 krónur, en þau hafi verið seld á árinu fyrir 250.000.000 krónur. Þá hafi hún í ársbyrjun átt hlutabréf í Leiftra Ltd. að nafnverði 280 án tilgreinds gjaldmiðils og hafi stofnverð þeirra verið 580.104 krónur, en þau hafi verið seld á árinu fyrir 2.483.326.804 krónur. Í hvorugu tilviki var tekið fram hver kaupandi hafi verið.

D sendi 6. júní 2007 starfsmanni KPMG endurskoðunar hf., sem hafði eftir fyrri bréfaskiptum unnið að gerð skattframtals A, svohljóðandi tölvubréf: „Hvernig skiptir þú aftur söluverðinu, 2,7 milljörðum, á Milestone Ltd. annars vegar og Leiftra Ltd. hins vegar á framtalinu hjá [A]? Þarf að tryggja að um sömu fjárhæðir verði að ræða í uppgjörum þessara félaga.“ Þessu svaraði starfsmaðurinn um hæl með eftirfarandi orðum: „Söluverð Milestone Ltd. 250.000.000 kr. Söluverð Leiftra Ltd. 2.483.326.804 kr.“ Í framhaldi af þessu sendi D tölvubréf til E og C, þar sem sagði meðal annars: „Nokkrar breytingar þurfa að eiga sér stað í einstökum félögum í kjölfar einstaklingsframtala: Það var niðurstaðan að [A] seldi eignarhlut sinn í Leiftra Ltd. og Milestone Ltd. fyrir 2,7 milljarða eða sama fjárhæð og lánasamningur milli Milestone ehf. og Milestone Ltd. hljóðaði upp á í bókhaldi Milestone ehf. Kaupandi að bréfunum er Leiftri og Milestone Ltd. (eigin bréf). Keypt í árslok 2006. Síðan kaupa bræðurnir bréfin af félögunum á árinu 2007. Hvað lánasamninginn á milli MST ehf. og MST Ltd. varðar þá þurfum við að gera samning á milli Leiftra og MST Ltd. fyrir kaupverðinu á eigin bréfum í Leiftra (eða splitta samningum frá MST ehf. í Leiftra annars vegar og MST Ltd. hins vegar) ... Við höfum þetta bakvið eyrað og græjum þetta við tækifæri.“

                                                                   17      

D sendi C tölvubréf 29. maí 2007 og sagði þar að meðfylgjandi væru fyrstu drög að ársreikningum Leiftra Ltd. fyrir 2006. Í þeim drögum kom fram að á árinu 2006 hafi hagnaður félagsins numið 67.511.305 evrum. Í efnahagsreikningi voru heildareignir félagsins í lok árs 2006 taldar 261.216.882 evrur. Þar af voru hlutabréf í Milestone ehf. að andvirði 211.213.588 evrur og kröfur á hendur því félagi að fjárhæð 6.622.437 evrur, en meðal skulda, sem alls námu 152.516.228 evrum, var talin langtímaskuld við Milestone Import Export Ltd. að fjárhæð 137.726.763 evrur, sem hafði hækkað úr 123.024.188 evrum á árinu 2006. Eigið fé var talið 108.660.921 evra að meðtöldu hlutafé í félaginu, 39.733 evrum. Af fylgigögnum með þessum drögum má sjá að Leiftri Ltd. hafi á árinu 2005 keypt hlutabréf í Milestone ehf. fyrir 102.200.112 evrur, en í bókum Leiftra Ltd. hafi verið bætt við þá fjárhæð hlutdeild í hagnaði Milestone ehf. 2005, 41.040.821 evru, og 2006, 67.972.655 evrum, og fengust þá út fyrrnefndar 211.213.588 evrur. Af yfirliti um skuldir Leiftra Ltd. við Milestone Import Export Ltd., sem einnig fylgdi þessum drögum, verður ráðið að þar hafi ekki verið talin skuld vegna viðskipta með hlutabréf í Milestone ehf. Þá er þess að geta að í málinu liggur einnig fyrir óundirritaður og ódagsettur ársreikningur fyrir Leiftra Ltd. vegna ársins 2006, sem hafði efnislega að geyma sömu fjárhæðir og framangreind drög, að frátöldu því að skuld við Milestone Import Export Ltd. var sögð vera að fjárhæð 142.814.000 evrur, en heildarfjárhæð skulda var allt að einu sú sama.

  Í málinu er einnig að finna aðra útgáfu að drögum að efnahagsreikningi Leiftra Ltd. miðað við 31. desember 2006, en þau bera hvorki með sér dagsetningu né frá hverjum þau hafi stafað. Samkvæmt þeim drögum voru heildareignir félagsins að andvirði 220.909.759 evrur, þar af hlutabréf í Milestone ehf. að andvirði 211.213.588 evrur. Skuldir voru sagðar samtals að fjárhæð 33.154.324 evrur, þar af 29.091.864 evrur við Milestone ehf., en engin skuld við Milestone Import Export Ltd. Eigið fé var sagt vera 187.755.435 evrur, en til frádráttar hlutafé í félaginu, 39.733 evrum, sem var meðtalið í heildarfjárhæð eigin fjár, komu án frekari skýringa eigin hlutir að nafnverði 11.125 evrur. Varðandi framangreinda skuld við Milestone ehf. samkvæmt þessum drögum er þess að geta að þeim virðist hafa fylgt útskrift af viðskiptareikningi Milestone Import Export Ltd. í bókhaldi Milestone ehf., dagsett 9. nóvember 2007, en eftir yfirlitinu stóð Milestone Import Export Ltd. í skuld við Milestone ehf. í árslok 2006 að fjárhæð 2.744.817.402 krónur að meðtalinni skuld samkvæmt áðurnefndum lánssamningi dagsettum 31. desember 2006, 2.733.326.804 krónum. Við fyrrgreinda heildarfjárhæð skuldar Milestone Import Export Ltd. var handritað á yfirlitið að deilt væri í hana með „94,35“ og fengust þá út „EUR 29.091.864“. Af þessu virðist ekki aðeins mega ráða að þessi drög hafi í fyrsta lagi verið gerð þann dag, sem útskrift þessi var dagsett, heldur einnig að við gerð þeirra hafi verið gengið út frá því að skuldir Leiftra Ltd. við Milestone Import Export Ltd. yrðu eyddar út og Leiftri Ltd. tæki að sér skuldbindingu þess félags við Milestone ehf. samkvæmt lánssamningnum.

  Þriðju útgáfuna af reikningsskilum Leiftra Ltd. vegna ársins 2006 er þó einnig að finna í málinu, en þar er um að ræða ársreikning, sem undirritaður var af ákærðu X og V sem hluthöfum í félaginu. Reikningur þessi var ekki dagsettur, en samkvæmt framlagðri fundargerð eru ákærðu X og U sagðir hafa haldið 25. júní 2007 í Reykjavík stjórnarfund í Leiftra Ltd., þar sem samþykktur hafi verið ársreikningur félagsins fyrir 2006 sem gerður hafi verið af „KPMG“. Einnig liggur fyrir fundargerð frá aðalfundi Leiftra Ltd., sem hermt var að ákærðu X og V hafi haldið sama dag, en samkvæmt henni var ársreikningur félagsins fyrir 2006 samþykktur þar. Í skýrslu ákærðu X og V fremst í ársreikningnum, sem ekki var áritaður af endurskoðanda, var tiltekið að í lok ársins 2006 hafi hluthafar í félaginu verið þeir tveir, ákærði X með 40,3% hlut og ákærði V með 31,7%, en félagið ætti sjálft 28% hluta. Samkvæmt ársreikningnum var hagnaður félagsins 172.886.000 evrur, en meðal annars myndaðist hann með tekjufærslu vegna afskriftar ótilgreindrar skuldar félagsins að fjárhæð 75.028.000 evrur. Samkvæmt efnahagsreikningi voru eignir samtals 214.487.000 evrur, þar af hlutabréf í Milestone ehf. að andvirði 211.214.000 evrur. Skuldir voru 26.731.000 evrur, þar af 22.671.000 evrur við Milestone ehf., en eigið fé var samkvæmt þessu talið nema 187.756.000 evrum. Á einu af nokkrum eintökum af þessum ársreikningi, sem hafa verið lögð fram í málinu, hefur við fjárhæð skuldar Leiftra Ltd. við Milestone ehf., áðurnefndar 22.671.000 evrur, án frekari skýringa verið handritað „2.744.817 þús“.

Eins og málið liggur fyrir verður engu slegið föstu um hvenær einstök afbrigði reikninga fyrir Leiftra Ltd., sem að framan var lýst, hafi í raun verið gerð, ef frá eru talin fyrstnefndu drögin, sem fylgdu tölvubréfi D 29. maí 2007. Um undirritaða ársreikninginn, sem getið var hér síðast, er til þess að líta að þar var sem fyrr segir tekjufærsla vegna afskriftar á skuld Leiftra Ltd. Í málinu er að finna „útprentun á ljósmynd af tússtöflu sem tekin var á síma C“, sem svo er nefnd af hendi ákæruvaldsins í efnisyfirliti með málsgögnum, og virðist ljósmyndin hafa verið tekin 21. nóvember 2007. Á myndinni má sjá eftirfarandi handritaðan texta: „1) MST LTD → Gefur eftir kröfu á Leiftra 31/12 ´06 2) Leiftri tekjufærir hjá sér 31/12 ´06 3) Leiftri gjaldfærir Inglewood + Fragrance 4) Stjórn Leiftra flutt til Hollands“. Verður jafnframt að gæta að því að í málinu liggja fyrir tölvubréf, sem D sendi 24. og 28. september 2007 til starfsmanns Basel Trust Corporation Ltd., en í því fyrra greindi D frá því að lokið yrði við reikningsskil fyrir Leiftra Ltd. vegna 2006 innan fárra daga ásamt því að spyrja hvort hann ætti að senda þau til þessa starfsmanns eða endurskoðenda. Með því síðara kvaðst D senda ársreikning fyrir Leiftra Ltd. vegna 2006. Um þetta verður heldur ekki horft fram hjá því að hér á eftir verða meðal annars rakin atvik, sem gerðust 25. júní 2007 og síðar, varðandi gerð skjala um ætlaða skuld Leiftra Ltd. við Milestone Import Export Ltd., en hún virðist þó allt að einu hafa verið afskrifuð samkvæmt ársreikningi Leiftra Ltd., sem á að hafa verið samþykktur þann dag á aðalfundi félagsins.

18

D sendi 25. júní 2007 tölvubréf til E með fyrirsögninni: „Samningagerð vegna Leiftra“, þar sem sagði: „Samningarnir eru þrenns konar: ... Leiftri kaupir eigin bréf af [A] í árslok 2006. Kaupverð í ISK er 2.483.326.804. Milestone Import Export lánar Leiftra fyrir andvirði kaupverðsins. Búa þarf til lánasamninginn. Við skulum hafa samninginn í EUR og sömu vaxtakjör og í hinum samningunum þ.e. LIBOR 12 mán + 2,5% álag. Ég þarf síðan að fá hjá þér aftur afritin af samningunum og það væri alveg brilljant ef hægt væri að láta undirrita samningana.“ Í málinu liggur fyrir lánssamningur á ensku milli Leiftra Ltd. sem skuldara og Milestone Import Export Ltd. sem lánveitanda, þar sem Leiftri Ltd. var sagt taka að láni hjá Milestone Import Export Ltd. 26.320.369 evrur, sem skyldu endurgreiddar í einu lagi 31. desember 2008 ásamt 10% ársvöxtum. Samningurinn, sem var dagsettur 31. desember 2006, var undirritaður af ákærða U fyrir hönd Leiftra Ltd. og C fyrir hönd Milestone Import Export Ltd. Samkvæmt gögnum úr tölvu, sem lögregla aflaði við rannsókn málsins, var þessi samningur saminn af E 29. ágúst 2007.

Meðal gagna málsins eru drög að efnahagsreikningi fyrir Milestone Import Export Ltd., sem var miðaður við 30. júní 2007, en hvorki var hann undirritaður né bar hann með sér hver hafi gert hann eða hvenær. Fylgdu honum heldur ekki skýringar eða frekari sundurliðanir. Eignir voru sagðar vera að andvirði samtals 13.546.401.892 krónur, þar af ótilgreind skuldabréf að fjárhæð 13.178.854.288 krónur. Skuldir voru sagðar nema 2.784.091.933 krónum, þar af við Milestone ehf., 2.783.542.402 krónum. Eigið fé var talið 10.762.309.959 krónur.

19

Á áðurnefndum hluthafafundi í Leiftra Ltd., sem ákærðu X og V héldu samkvæmt fundargerð 25. júní 2007, voru gerðar breytingar á ákvæðum samþykkta félagsins um stjórn og jafnframt samþykkt ósk CC, N og M um að verða leyst frá setu í stjórninni. Var tekið fram að eftir það sætu ákærðu X og U einir í stjórn félagsins. Breytingarnar á samþykktunum lutu einkum að því að stjórnarmenn skyldu hvorki verða færri en einn né fleiri en sjö, auk þess sem felld voru brott ákvæði í upphaflegum samþykktum um greinarmun á „Executive Directors“ og „Non-Executive Directors“. Þá voru felld brott eldri ákvæði um töku ákvarðana innan stjórnarinnar, sem tóku mið af þessum tvenns konar stjórnarmönnum, svo og fyrirmæli um bann við því að stjórnarfundir yrðu haldnir á Íslandi.

E gerði á ensku yfirlýsingu 7. júlí 2007 meðal annars um að ákærði U væri annar tveggja stjórnarmanna í Leiftra Ltd., en væri ekki hluthafi í félaginu. Þá gerði E yfirlýsingu 15. sama mánaðar um að C, N og M hafi 25. júní 2007 sagt sig úr stjórn Leiftra Ltd., en eftir það hafi ákærðu U og X einir átt þar sæti. Var einnig tekið fram að eftir þetta hefði Basel Trust Ltd. ekki lengur tengsl við Leiftra Ltd. að öðru leyti en til að veita þjónustu varðandi bókhald og önnur slík atriði. Þá undirritaði ákærði U 1. ágúst 2007 yfirlýsingu á ensku, þar sem sagði að hann staðfesti í skjóli heimildar sinnar til að rita firma Leiftra Ltd. að samkvæmt hlutaskrá félagsins ætti ákærði X 23.839,8 hluti í því eða 60% og ákærði V 15.893,2 hluti eða 40%.

Samkvæmt framlagðri fundargerð héldu ákærðu X og V hluthafafund í Leiftra Ltd. 17. ágúst 2007, þar sem C, N og M voru aftur kjörin í stjórn félagsins ásamt ákærðu X og U, sem urðu „Non-Executive Directors“. Verður þó ekki séð af gögnum málsins að samþykktum félagsins hafi verið breytt til að taka upp á ný þá tilhögun á stjórn félagsins. Um dagsetningu þessarar fundargerðar verður að gæta að því að ekki verður betur séð en að starfsmaður Basel Trust Corporation Ltd. hafi sent ófullgerðan texta hennar til E með tölvubréfi 1. október 2007.

E sendi C og ákærða U tölvubréf 22. ágúst 2007 með fyrirsögninni: „Project Forward – skuldastaða og aðgerðir“ ásamt fylgiskjölum. Í bréfinu sagði: „Hér meðfylgjandi er skjal sem sýnir skuldir í samstæðunni milli MIE, Milestone, Leiftra og L&H eignarhaldsfélags o.fl. ... hægt er að breyta skuld Leiftra við Milestone í hlutafé og við það þynnist út hlutur [X] og [V]. Afleiðing þess er krosseignarhald milli Leiftra og Milestone. Það hverfur síðan með sameiningu Milestone hins gamla og Leiftra. Mitt mat er að við eigum að keyra á þetta og byrja á því að biðja um bindandi álit ASAP. Legg til að skjal KPMG verði sent til ríkisskattstjóra með þeirri breytingu að við segjum þeim ekki frá því að það séu einungis íslenskir stjórnarmenn í félaginu.“ Af fylgiskjölum með þessu tölvubréfi virðist sem ráðagerðir að baki þessu hafi verið á sömu lund og þær, sem E lýsti í áðurnefndu tölvubréfi sínu 15. febrúar 2007 til starfsmanns Baker Tilly Ltd. Í einu af þessum fylgiskjölum, sem virðist hafa borið auðkennið: „Krossskuldir i samstaedunni.xls“, voru meðal annars taldar nokkrar kröfur milli Milestone ehf., Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd., þar á meðal skuld síðastnefnda félagsins við Milestone ehf. að fjárhæð 2.783.542.402 krónur. Við hana var ritað til skýringar að þetta væri „í raun söluverð [A] á eignarhlutum í Leiftra og Milestone ltd.“ Neðar á þessu skjali sagði eftirfarandi: „Síðan verða greiddar í kringum 2 milljarðar til [A] á árinu 2007, sem þá kemur í formi arðs til Leiftra (sem kaupir bréfin af [A]) á árinu 2006. Þurfum reyndar að hugsa það til enda því ég er ekki viss um að menn vilja lækka eigið fé mjög mikið.“

E sendi þeim sömu annað tölvubréf 24. ágúst 2007 með fyrirsögninni: „Beiðni um bindandi álit um flutning á Leiftra heim“, en þar kom fram að hann hafi átt fund með nafngreindum starfsmanni KPMG endurskoðunar hf., sem myndi koma beiðni um þetta á framfæri við ríkisskattstjóra. Þá sendi E einnig tölvubréf 11. september sama ár til ákærða U, B og C með tillögu um að fjölga stjórnarmönnum í Leiftra Ltd. aftur í fimm með því að bæta við þremur „Jersey stjórum“, sem yrði betra þegar unnið yrði að því að „flytja Leiftra heim“, en að fengnu bindandi áliti ríkisskattstjóra mætti fækka aftur í stjórninni. C svaraði því til síðar sama dag að hann væri þessu sammála, en sem fyrr greinir virðist þessu hafa verið hrundið í framkvæmd með ákvörðun hluthafafundar í Leiftra Ltd., sem eftir fundargerð var haldinn 17. ágúst 2007.

Í málinu liggja fyrir ýmis gögn um samskipti milli einstakra manna um framangreindar ráðagerðir, en svo virðist sem á þeim hafi orðið afturkippur um þær mundir sem E sendi ákærða U og C tölvubréf 1. október 2007 með fyrirsögninni: „Leiftri og MIE og fl.“ Þar kvaðst E hafa nokkrar „hugleiðingar um samruna MIE og Leiftra (+flutning á Leiftra heim) en hann er hugsaður til að laga skuldastöður milli félaganna.“ Teldi hann ekkert í lögum standa til þess að „einungis samrunar innan Íslands væru skattfrjálsir“, en aðstæður hér væru á hinn bóginn þannig að „um er að ræða nærri 10 yarda söluhagnað (ef RSK lætur reyna á samrunann í skattalegu tilliti) og [X] og [V] gætu lent í að þurfa að greiða 1y í fjármagnstekjuskatt hér á landi.“ Væri því ekki ráðlegt að gera þetta „nema með samþykki RSK.“ Væru þrír kostir í stöðunni. Í fyrsta lagi að sleppa samruna, en þá væri „hægt að tappa til [X] og [V] fjármunum þegar Exit á Project Underground verður að veruleika.“ Í öðru lagi að „láta MIE gefa eftir skuldir“ á fyrri hluta ársins 2007, en með því að Leiftri Ltd. væri undanþeginn skattskyldu myndi það hvorki hafa áhrif á Leiftra Ltd. né Milestone Import Export Ltd. Í þriðja lagi að fá bindandi álit um „samruna Leiftra við BVI félag.“ Bætti E því við að hann teldi varhugavert að selja hlut Leiftra Ltd. í „MIE ehf.“ því það gæti gefið „skattstjóra á sterum möguleika að leggja margra yarda skatt á [X] og [V] – þá væri ég afhausaður með berum höndum.“

20

F sendi 7. júlí 2007 tölvubréf til D og C með fyrirsögninni: „Milestone; biðreikningur og fyrirframgr. kostnaður“, þar sem sagði: „Meðf. er sundurliðun á þessum tveim lyklum. Taka þarf ákvörðun um hvað eigi að gera við þessar tölur.“ Í öðru af tveimur fylgiskjölum með bréfinu var yfirlit um færslur á biðreikning á fyrri helmingi ársins 2007, en af þeim voru sex færslur vegna mánaðarlegra greiðslna til A samkvæmt samningunum frá 4. desember 2005. Þessu svaraði C samdægurs með tölvubréfi, þar sem sagði: „[A] klarast a seinni hluta arsins.“

Á stjórnarfundi Milestone ehf. 10. ágúst 2007 voru auk stjórnarmanna, ákærðu X og V, mættir ákærði U, B, C og D, en jafnframt endurskoðendur félagsins, ákærðu Z og Y. Samkvæmt fundargerð voru lögð þar fram drög að uppgjöri félagsins vegna fyrri helmings ársins 2007, sem forstjóri hafi gert grein fyrir, en stjórnarmenn hafi síðan gert „harða hríð að forstjóranum með spurningum um ýmsa þætti“ í reikningnum, forstjórinn hafi varist „fimlega með aðstoð endurskoðenda félagsins“ og hafi allir skilið „sáttir eftir þá umræðu.“ Í fundargerðinni sagði jafnframt að ákærði X hafi beint spurningum til endurskoðendanna „um ástand á bókhaldi og uppgjörsmálum félagsins“ og hafi ákærði Z sagt „að ástandið væri almennt gott“. Á fundinum var að auki greint frá því að samþykkt hafi verið yfirtökutilboð, sem borist hafi í hlutabréf félagsins í Actavis hf., svo og að hlutabréf í eigu „félagsins í Iceland hafi verið seld með umtalsverðum hagnaði.“

D sendi C tölvubréf 4. september 2007 með fyrirsögninni: „Milestone borrowings June 30“ ásamt fylgiskjölum. Meðal þessara fylgiskjala var yfirlit um lántökur „Milestone Group“ miðað við 30. júní 2007, þar sem í einum lið af 21 var talin skuld að fjárhæð 626.069.059 krónur, sem var auðkennd „[A]“, en ætla má að þar hafi verið um að ræða skuld Sjóvár-Almennra trygginga hf. vegna áðurnefndra víkjandi lána frá A. Ekki verður séð að í yfirlitum þessum hafi verið getið um aðrar kröfur hennar.

E sendi C og ákærða U tölvubréf 23. október 2007 með fyrirsögninni: „Útreikningur á eignarhlutum“ og vísaði til þess að meðfylgjandi væri „skjalið góða endurreiknað og endurskoðað af [D]“, en bætti svo við að „það sem skiptir mestu máli er útreikningurinn á Leiftrahlutnum“. Þessu svaraði C 24. sama mánaðar með tölvubréfi, þar sem sagði: „Af hverju leidrettum vid thetta ekki allt i gegnum Leiftra, thad er beinn hlutur [X] og [V] i Milestone breytist ekki heldur adeins hlutur theirra i Leiftra.“ Við þessu brást E með tölvubréfi að kvöldi sama dags með fyrirsögninni: „Útreikningur á eignarhlutum – Nú kaupir Leiftri allt!“ Í bréfinu sagði: „Meðfylgjandi eru nýir útreikningar þar sem gert er ráð fyrir að Leiftri kaupi alla hluti af A. Sjá hér að neðan teikningu af stöðunni í dag ef allir eru þessu sammála!“ Í fylgiskjali með þessu tölvubréfi var sýnt hvernig hlutabréf í Milestone ehf. skiptust hlutfallslega milli hluthafa áður en A seldi sín bréf. Því næst sagði: „[A]hlutur fer til Leiftra“ og var þá sýnd ný hlutfallsleg skipting á hlutabréfum í Milestone ehf. milli ákærða X, ákærða V, Leiftra Ltd. og eigin bréfa Milestone ehf. Þar á eftir kom fram að A seldi hlut sinn í Milestone ehf. og Leiftra Ltd., sem „kaupir þetta árið 2006 sem eigin bréf – vísun í stóra samninginn við A – skriflega er þetta gert í lok árs 2005??“ Eftir þau kaup væri „eignarhald í Leiftra“ þannig að ákærði X ætti 64,55% og ákærði V 35,45%. Að teknu tilliti til þess virðist loks sem niðurstaða þessara útreikninga hafi orðið sú að beint og í gegnum Leiftra Ltd. færi ákærði X með 59,05% af virku eignarhaldi í Milestone ehf., ákærði V með 39,37% og Sáttur ehf., áðurnefnt félag ákærða U, með 1,58%.

Ákærði U gerði 24. október 2007 yfirlýsingu á ensku í skjóli heimildar sinnar til að rita firma Leiftra Ltd., þar sem fram kom að samkvæmt hlutaskrá félagsins ætti ákærði X 25.647,65 hluti eða 64,55% og ákærði V 14.085,35 hluti eða 35,45%. Samanlagt var hér um að ræða 39.733 hluti og var því ekki gert ráð fyrir að Leiftri Ltd. ætti eigin hluti. Á þessu tímabili átti E í tölvubréfaskiptum við starfsmann Basel Trust Corporation Ltd., sem snerust að nokkru um hlutaskrá í Leiftra Ltd. og misræmi sem sá síðarnefndi taldi að gætti í gögnum um hana. Í tölvubréfi 30. október 2007 lýsti E því að sér hafi orðið á mistök í þessum efnum, því þegar A hafi selt hlut sinn hafi Leiftri Ltd. verið kaupandinn, en ekki ákærðu X og V. Hann bætti því svo við í öðru tölvubréfi sama dag að samningur um þessi kaup hafi verið undirritaður í lok árs 2005 og hafi hlutabréfin átt að skipta um hendur þegar viðskiptunum hafi lokið 31. desember 2006.

21

Samkvæmt fundargerð frá stjórnarfundi í Milestone ehf. 1. nóvember 2007 var farið þar „yfir mánaðarskýrslu samstæðunnar og dótturfélaga fyrir fyrstu níu mánuði ársins“ og hafi „fjórðungurinn ... verið frekar erfiður vegna óróleika á fjármálamörkuðum“. Jafnframt sagði eftirfarandi: „Forstjóri félagsins fór yfir kynningar á áætlun um að endurskipuleggja samstæðuna í þeim tilgangi að skrá félagið á sænskum verðbréfamarkaði. Áætlunin gerir ráð fyrir að allar eignir Milestone verði færðar undir Invik og nafni þess félags breytt í Moderna Finance Group ... Fyrirhugað er að þessar breytingar á skipulagi samstæðunnar verði gerðar um áramót. Áætlað er að félagið yrði skráð á fyrsta eða öðrum ársfjórðungi 2008. Stjórnin samþykkti að hrinda áætluninni í framkvæmd á þeim grundvelli sem kynnt var.“

Starfsmaður Basel Trust Corporation Ltd., CC, sem átti sem fyrr segir sæti í stjórn Leiftra Ltd., sendi tölvubréf 9. nóvember 2007 til starfsmanns Belmont Trust Ltd. á Bresku Jómfrúareyjum og beindi afriti af því til E. Fyrirsögn bréfsins var „Leiftri Limited“ og var þar greint frá því að það félag stæði í skuld við annað félag á Jómfrúareyjum að fjárhæð 83.000.000 evrur. Félagið, sem ætti kröfuna, hygðist selja hana nýju félagi á sama stað. Þetta nýja félag myndi síðan breyta kröfunni í hlutabréf í Leiftra Ltd. þannig að hlutum þar myndi fjölga um 11.180 eða 28,14%. Leitaði hann upplýsinga um hvað þyrfti að gera til að koma þessu í kring. Með tölvubréfi 21. sama mánaðar til ákærða U og C boðaði E að á tilteknum tíma næsta dag yrði fundur „með þeim Svarta um breytingu á skuld í hlutabréf í Leiftra.“

D sendi E tölvubréf 22. nóvember 2007 með fyrirsögninni: „Samningsgerð Leiftri“, þar sem sagði: „Samningar sem þarf að græja fyrir Leiftra: Lánasamningur milli Leiftra og MST ehf. þar sem MST ehf. er að lána ISK 2,744,817,402 kr. til Leiftra Ltd. Lánið er tekið í árslok 2006 og vextir reiknast frá þeim tíma. Spurning með vaxtaprósentuna 10-12%? Síðan þarf að gera nýjan samning í byrjun desember á milli Leiftra og Milestone þegar búið er að greiða allt til [A].“ Þessu svaraði E með svohljóðandi tölvubréfi 26. sama mánaðar: „Here it comes – skoðaðu kvikindið og láttu mig vita!“ Meðfylgjandi bréfinu var texti samnings milli Leiftra Ltd. og Milestone ehf., með dagsetningunni 31. desember 2006, um lán Milestone ehf. til Leiftra Ltd. að fjárhæð 2.744.817.402 krónur, sem greiða ætti í einu lagi 31. desember 2008 ásamt 10% ársvöxtum. Samkvæmt gögnum, sem aflað var við rannsókn lögreglu, samdi E þetta skjal í tölvu 26. nóvember 2007, en í málinu virðist ekki liggja fyrir undirritað eintak af því. Um fjárhæð lánsins samkvæmt þessum samningi er þess að geta að hún er sú sama og fram kom í gögnum að baki einum af fleiri óundirrituðum drögum að efnahagsreikningi fyrir Leiftra Ltd. miðað við 31. desember 2006, sem áður var lýst, þar sem niðurstöðufjárhæð um skuld Milestone Import Export Ltd. samkvæmt viðskiptareikningi hjá Milestone ehf. í lok sama árs, 2.744.817.402 krónur, virðist hafa verið umreiknuð í evrur til færslu í efnahagsreikningnum.

Starfsmaður Basel Trust Corporation Ltd. sendi 22. nóvember 2007 tölvubréf til E, þar sem vísað var til þess að ákærði X væri sem stæði stjórnarmaður í Leiftra Ltd. og spurt hvort rétt væri skilið að leysa þyrfti hann frá því starfi næsta dag eins og stjórnarmenn í Leiftra Ltd., sem kæmu frá Basel Trust Corporation Ltd. Þessu svaraði E játandi og fékk hann í framhaldi af því sendan texta fundargerðar fyrir hluthafafund í Leiftra Ltd. næsta dag. Samkvæmt þeirri fundargerð, sem var dagsett 23. nóvember 2007 og ákærðu X og V undirrituðu, var samþykkt á fundinum að leysa CC, N og M frá stjórnarstörfum, svo og ákærða X frá setu sinni í stjórninni sem „Non-Executive Director“. Í staðinn voru kjörin í stjórn DD og EE.

E sendi 23. nóvember 2007 tölvubréf til EE og Cmeð fylgiskjölum, sem voru fundargerðin frá hluthafafundi í Leiftra Ltd. sama dag og áðurnefndur undirritaður ársreikningur félagsins fyrir 2006 ásamt yfirlýsingu ákærða Z fyrir hönd KPMG endurskoðunar hf. frá sama degi. Í þeirri yfirlýsingu staðfesti ákærði Z sem endurskoðandi Milestone ehf. að innborgað hlutafé í Leiftra Ltd. væri meira en 18.000 evrur, svo sem almennt væri áskilið í Hollandi.

D sendi tölvubréf 27. nóvember 2007 til C og E, þar sem hann kvaðst láta fylgja með „skjal varðandi breytingar á eignarhaldi í Milestone og Leiftra frá 2004.“ Þar sagði einnig: „Niðurstaðan hér er að það vantar færslur á milli bræðranna sem nemur 4,03% eða sama og við leiddum út á töflunni um daginn, til að skiptingin verði 60/40.“

E sendi að kvöldi 29. nóvember 2007 tölvubréf til ákærða U, C og B, þar sem sagði að „Leiftri Ltd. er nú skráður í Hollandi sáttur og sæll.“ Væru stjórnarmenn í félaginu EE, „aðalmaðurinn í Moderna í Hollandi“, DD, ritari hans, og ákærði U. Samþykktir félagsins væru óbreyttar og því óheimilt „að gera neitt án þess að [U] samþykki.“ Halda yrði „alla stjórnarfundi í „Hollandi“ ... til að gulltryggja hina skattalegu heimilisfesti sem er tengd því að við stjórnum félaginu frá Hollandi.“

E sendi D og C tölvubréf 6. desember 2007 með fyrirsögninni: „Lánasamningur við Leiftra vegna [A] – tölur?“, þar sem sagði: „Vantar þessar tölur til að klára samninginn – eða vilt þú sjálfur fylla inn í meðfylgjandi skjal? og koma aftur til mín“. Með þessu fylgdi enskur texti lánssamnings milli Leiftra Ltd. sem lántaka og Milestone ehf. sem lánveitanda, dagsettur 31. desember 2006, sem virðist hafa verið samhljóða áðurnefndum drögum að samningi, sem E sendi D 22. nóvember 2007, að öðru leyti en því að fjárhæð lánsins kom ekki fram.

Þá sendi E tölvubréf 19. desember 2007 til starfsmanns Askar Capital hf. og afrit til C í tilefni af fyrirspurn starfsmannsins um hvort ákærði V ætti 13,65% hlutbréfa í Milestone ehf. Svaraði E því til að ákærði V ætti „beint“ 22,99%, en að viðbættu því sem hann ætti „óbeint (í gegnum Leiftra)“ væri hlutur hans 39,37%.

22

Á fundi stjórnar Milestone ehf. 3. desember 2007 var samþykkt að í tengslum við „Project Supergood“, sem svo var nefnt í fundargerð án frekari skýringa, yrðu hlutabréf félagsins í ellefu tilteknum félögum seld Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og „SJ1“ í þeim mánuði. Jafnframt yrðu þeim sömu seldar kröfur Milestone ehf. vegna lána til sex nánar tilgreindra félaga og réttindi samkvæmt framvirkum samningi um hluti í Teymi hf. Ekki var tiltekið nánar hvert væri verðmæti þess sem talið var upp.

Samkvæmt fundargerð frá því, sem virðist hafa verið annar fundur stjórnar Milestone ehf. 3. desember 2007, var samþykkt að í samræmi við áðurnefnt „Project Supergood“ yrðu allar eignir og skuldbindingar félagsins færðar til dótturfélags þess, Invik AB í Svíþjóð, en að því gerðu myndi Milestone ehf. eiga öll hlutabréf í dótturfélaginu gegnum Þátt ehf., Racon AB og Racon II AB. Áður en þetta yrði gert yrði þó uppbygging samstæðunnar á Íslandi einfölduð með því meðal annars að eignir og skuldbindingar yrðu framseldar á markaðsverði til Sjóvár-Almennra trygginga hf., Askar Capital hf., L&H eignarhaldsfélags ehf. eða dótturfélaga þeirra. Þá liggur fyrir í málinu fundargerð frá hluthafafundi í Milestone ehf. sama dag, þar sem þessar sömu ráðstafanir voru samþykktar. Þá fundargerð undirrituðu ákærðu X og V ásamt ákærða U fyrir hönd Sáttar ehf. og Leiftra Ltd.

23

Í málinu liggur fyrir ófullkominn efnahagsreikningur fyrir Milestone Import Export Ltd., sem var sagður miðast við 31. desember 2007, en hvorki var hann undirritaður né dagsettur og bar ekki með sér frá hverjum hann hafi stafað. Í reikningnum voru eignir sagðar vera samtals að andvirði 21.282.675.000 krónur, skuldir 13.593.908.000 krónur og eigið fé, sem einungis væri hlutafé, 7.688.767.000 krónur. Þessir liðir í reikningnum voru ekki sundurgreindir með skýringum.

Einnig liggja fyrir ódagsett og óundirrituð drög að efnahagsreikningi Leiftra Ltd. miðað við árslok 2007. Í drögunum voru eignir sagðar að andvirði samtals 362.341.514 evrur, þar af 362.053.836 evrur vegna hlutabréfa í Milestone ehf. Skuldir voru taldar 53.658.204 evrur, þar af 50.771.165 evrur við Milestone ehf. Af eigin fé, 308.683.310 evrum, var hlutafé sagt vera 28.627 evrur.

Við rannsókn málsins mun lögregla hafa fundið við húsleit hjá KPMG endurskoðun hf. lánssamning, sem mun ekki hafa verið til í gögnum Milestone ehf., milli þess félags og Milestone Import Export Ltd. með dagsetningunni 31. desember 2007. Samkvæmt texta þessa samnings viðurkenndi Milestone Import Export Ltd. að hafa tekið að láni hjá Milestone ehf. 2.462.395.055 krónur, sem endurgreiða ætti í einu lagi með 15% ársvöxtum 31. desember 2008. Þetta skjal var undirritað af ákærða U fyrir hönd Milestone ehf., en á hinn bóginn óundirritað af hálfu lántakans. Fjárhæðin sem hér um ræðir var sú sama og heildarfjárhæð greiðslna frá Milestone ehf. til A á árinu 2007 vegna samninganna frá 4. desember 2005.

D sendi tölvubréf til F 30. janúar 2008 með fyrirsögninni: „Uppgjörsmál – MST“, þar sem sagði meðal annars: „Staðan við Milestone Ltd. og [A] (sem verður breytt í Leiftra). Reiknaðu 10% vexti á þá stöðu á árinu þ.e. 10% á stöðuna sem er óhreyfð frá 1/1 og síðan eftir því sem greiðslurnar eiga sér stað á árinu 2007 til [A].“ Þessu svaraði F sama dag með eftirfarandi orðum: „Það eru hreyfingar á M ltd. viðskiptareikningnum á árinu 2007. Á ég að vaxtareikna þær eins og [A] hreyfingarnar?“

Í fundargerð frá stjórnarfundi í Milestone ehf. 7. febrúar 2008 sagði meðal annars eftirfarandi: „Forstjóri félagsins gerði grein fyrir stöðu á lánum félagsins hjá Morgan Stanley. Brúarlánið vegna kaupa á Invik fellur í gjalddaga þann 1. mars næstkomandi. Vegna lækkunar á verði hlutabréfa í Glitni hefur Morgan Stanley gjaldfellt lán til Þáttar international ehf. sem tryggt er með veðum í bréfum í Glitni. Þáttur international er í sameiginlegri eigu Milestonefélaga og Engeyingafjölskyldunnar. Milestone hefur að öllu leyti staðið við efni lánasamningsins en markaðsaðstæður hafa leitt til þess að Morgan Stanley getur krafist uppgreiðslu. Félagið hefur verið í viðræðum við Glitni um aðkomu að endurfjármögnun á þessum tveimur lánum.“ Í framhaldi af þessu var því lýst að niðurstöður þeirra viðræðna hafi orðið þær að Glitnir banki hf. myndi lána nýju félagi „í eigu Milestone og Engeyinga“ 100.000.000 evrur til að greiða upp lán frá Morgan Stanley Bank International Ltd. til Þáttar International ehf., en hluthafar myndu láta nýja félaginu í té nánar tilgreindar eignir. Brúarlánið svonefnda yrði greitt með því að Invik AB, Sjóvá-Almennar tryggingar hf. eða Milestone ehf. gæfi út skuldabréf eða víxla að fjárhæð samtals 100.000.000 evrur, en Landsbanki Íslands hf. kynni að framlengja hlut, sem hann ætti í því láni, gegn veði í hlutabréfum í Glitni banka hf. Eftir endurfjármögnun og „sölu eignarhluta í Macau og Kcaj svo og peningum úr Invikfélögum“ myndu skuldir samstæðu Milestone ehf. lækka um allt að 150.000.000 evrur. Eftir umfjöllun um þetta gerði forstjóri félagsins stjórninni grein fyrir áætluðum niðurstöðum ársreiknings þess fyrir 2007.

24

Á sama hátt og áður var lýst varðandi endurskoðun á ársreikningi Milestone ehf. fyrir árið 2006 settu starfsmenn KPMG endurskoðunar hf. sér endurskoðunarfyrirmæli vegna endurskoðunar ársreiknings Milestone ehf. fyrir 2007. Í fyrirmælunum kom meðal annars fram að ákærða W hafi útbúið þau 15. janúar 2008 og ákærði Z yfirfarið þau 13. febrúar sama ár. Þessu sinni voru svonefnd mikilvægismörk ákveðin 250.000.000 krónur við endurskoðunina. Í fyrirmælunum kom meðal annars fram að Milestone ehf. væri „að mestu í eigu tveggja bræðra ásamt félaginu Leiftra Ltd. sem jafnframt er í eigu þeirra bræðra en í ársbyrjun var systir þeirra keypt út úr félaginu.“ Í umfjöllun um áhættur sagði með sömu orðum og í endurskoðunarfyrirmælum vegna ársreiknings fyrir árið 2006 að stærsti hluthafinn í félaginu væri „starfandi stjórnarformaður“ þess, hann væri „mjög domenerandi“ og færu allar stærri ákvarðanir í gegnum hann. Þyrfti að íhuga „management override vegna hættu á Financial Statement level risk og skoða vel bókhaldsfærslur.“ Þá var eftirfarandi tekið þar fram: „Starfandi stjórnarformaður félagsins hefur mikil áhrif um öll stærri viðskipti innan félagsins ... Ekki verður gripið til sérstakra aðgerða. Þrátt fyrir að fjármálastjóri hafi aðgang að öllu og að [X] sé mjög ríkjandi þá er [D] sem er löggiltur endurskoðandi mjög inn í öllum málum og teljum við hann heiðarlegan. Teljum við að [D] myndi koma með ábendingu væri eitthvað óeðlilegt í gangi í bókum félagsins.“ Um nálgun við endurskoðun mikilvægra reikninga var varðandi útlán sem fyrr merkt í reiti sem munu hafa táknað að í verkinu skyldi gætt að heild, tilvist og nákvæmni. Í fyrirmælunum var jafnframt getið um eftirfarandi í sambandi við „aðrar kröfur“: „[F] sér um að bóka allar kröfur. [D] sér þó um að fara yfir kröfurnar og flokka þær í viðskiptakröfur, útlán og aðrar kröfur.“ Varðandi „aðrar kröfur“ var einnig ráðgert að raktar yrðu „allar stærri fjárhæðir í undirgögn“ og var merkt í viðeigandi reit að því hafi ákærða W lokið 7. febrúar 2008.

  Í tengslum við þetta skal þess getið að við rannsókn málsins fékk lögregla úr vörslum KPMG endurskoðunar hf. skjal á eyðublaði frá félaginu, sem var meðal gagna um endurskoðun reikningsskila Milestone ehf. og auðkennt með upphafsstöfum ákærðu Z og Y, en dagsetning á því vísaði til þess að það varðaði ársreikning fyrir árið 2007. Í skjali þessu, sem bar fyrirsögnina: „Útlán Milestone ltd.“, sagði eftirfarandi: „Skuldabréf útgefið 30. des. 2006 af Milestone ltd. að fjárhæð ISK 2.733.326.804 að viðbættum áf. vöxtum í árslok 2007 kr. 428.772.931. Að sögn stjórnenda M var gjalddagi þessa skuldabréfs færður til 30. desember 2008 ásamt því að gefið var út viðbótarskuldabréf með sama gjalddaga að fjárhæð ISK 2.462.395.055 sem ber 15% vexti. (Höfum ekki fengið undirritað eintak af þessu skuldabréfi af hálfu M ltd.) Krafa M á M ltd. í árslok 2007 nemur samtals 5.624.494.790. Skuldabréfið er bókfært á nafnverði undir útlán í bókum Milestone ehf. (M). Rætt við stjórnendur M um mat á kröfunni: Stjórnendur vísa í fyrra mat sem fram kemur á wp frá árinu 2006. Þeir eru þess fullvissir að þessi krafa verði greidd að fullu og telja ekki ástæðu til niðurfærslu á henni. Á árinu 2007 eru tekjufærðir vextir 429 millj. kr. vegna kröfunnar. Stjórnendur afhenda milliuppgjör mv. 30. júní 2007 þar sem eigið fé nemur liðlega 10,7 milljörðum króna en uppgjörsvinnu vegna ársins 2007 hjá M ltd. er ekki lokið. Skuldabréfið látið standa á bókfærðu verði.“ Í b. lið V. kafla ákæru er ákærðu W, Y og Z gefið að sök að hafa útbúið þetta skjal haustið 2009 og bætt því þá inn í endurskoðunargögn vegna Milestone ehf.

  Í málinu liggur einnig fyrir önnur gerð af framangreindu skjali, sem hefur að geyma annan texta í meginmáli, en það er svohljóðandi: „Skuldabréf útgefið af Milestone ltd. að fjárhæð ISK 5.693.060.388 til greiðslu í árslok 2008 og ber 10% vexti. Skuldabréfið er bókfært á nafnverði undir útlán í bókum Milestone ehf. (M). Rætt var við stjórnendur M um mat á skuldabréfinu: Um er að ræða viðskiptalán til M ltd. Það er mat stjórnenda M að þetta bréf sé öruggt og muni greiðast. M ltd á kröfu á Leiftra vegna viðskipta með hlutab. í Actavis og Glitni. Þegar Leiftri mun losa fé borga þeir þá kröfu. Eignir Leiftra eru eignarhluti í Milestone ehf. og TIG sem rekur lyfjabúðakeðjur á Balkanskaga. Höfum ekki ástæðu til að ætla að stjórnendur séu með blekkingar gagnvart okkur enda hafa þeir undirritað staðfestingarbréf í tengslum við endurskoðunina. Skuldabréfið látið standa á bókfærðu verði.“ Við rannsókn lögreglu var leitt í ljós með athugun á gögnum úr tölvukerfi að þetta skjal hafi verið búið til 16. október 2009.

  Í gögnum KPMG hf. varðandi endurskoðun ársreiknings fyrir 2007 virðist einnig hafa legið fyrir sundurliðun, sem handrituð var inn á útprentun úr stöðulista viðskiptamanna Milestone ehf. frá 4. febrúar 2008, á samanlagðri fjárhæð útlána móðurfélagsins samkvæmt efnahagsreikningi þess 31. desember 2007, 7.577.000.000 krónum. Meðal fjárhæða í þeirri sundurliðun voru 5.693.060.388 krónur með merkingunni „MST Ltd.“

Meðan á vinnu við endurskoðun ársreikningsins stóð sendi ákærða W 11. febrúar 2008 svohljóðandi tölvubréf til C og D: „Getur annar hvor ykkar sent mér upplýsingar um eftirfarandi v. Milestone: - Er ekki með nein gögn á bakvið kröfu á Milestone Ltd. 5.693.060.000 kr.“ Í gögnum málsins er ekki að sjá svar við þessu.

Fyrir liggur í málinu endurskoðunarskýrsla frá KPMG endurskoðun hf. vegna Milestone ehf., sem dagsett var 14. febrúar 2008, en á henni voru prentuð nöfn endurskoðendanna, ákærðu Z og Y. Í skýrslunni sagði meðal annars að fjárhæðir í efnahagsreikningi hafi verið „að mestu staðfestar í árslok með gögnum frá 3ja aðila, s.s. bankastofnunum“, en að öðru leyti verður ekki séð að þar hafi nokkuð komið fram sem sérstaklega varðar mál þetta.

25

Ársreikningur fyrir samstæðu Milestone ehf. vegna ársins 2007 var undirritaður 14. febrúar 2008 af stjórn félagsins, ákærðu X og V, ásamt ákærða U sem forstjóra þess og áritaður af endurskoðendum, ákærðu Z og Y. Í skýrslu stjórnar var þess meðal annars getið að hluthafar hafi verið fjórir í lok ársins 2007 eins og í ársbyrjun, en þrír þeirra hafi átt meira en 10% hlutafjár, Leiftri Ltd. með 44,6%, ákærði X með 28,2% og ákærði V með 22,2%. Samkvæmt rekstrarreikningi var hagnaður félagsins 21.322.000.000 krónur á árinu 2007. Í efnahagsreikningi var heildarandvirði eigna í lok ársins talið 391.627.000.000 krónur, en skuldir voru samtals 322.114.000.000 krónur. Eigið fé var þannig talið nema 69.513.000.000 krónum. Meðal eigna voru talin óefnisleg verðmæti að andvirði 88.312.000.000 krónur og útistandandi kröfur vegna lána að fjárhæð samtals 63.040.000.000 krónur. Samkvæmt skýringum við ársreikninginn voru einstakir liðir í síðastnefndri fjárhæð útlán til fjármálafyrirtækja 45.465.000.000 krónur, fjármögnunarleigusamningar 15.327.000.000 krónur og svonefnd önnur lán 2.969.000.000 krónur, en til frádráttar kom niðurfærsla lána, 721.000.000 krónur.

Ársreikningur fyrir Milestone ehf. sem móðurfélag samstæðunnar vegna ársins 2007 var jafnframt dagsettur 14. febrúar 2008, en undirritað eintak af honum liggur ekki fyrir í málinu. Í skýrslu stjórnar var greint frá hluthöfum á sama hátt og í áðurnefndum samstæðureikningi. Samkvæmt rekstrarreikningi var hagnaður móðurfélagsins 39.849.000.000 krónur á árinu 2007, en í efnahagsreikningi kom fram að heildarandvirði eigna í lok ársins hafi verið 133.094.000.000 krónur, samtala skulda 48.962.000.000 krónur og eigið fé þannig 84.132.000.000 krónur. Meðal eigna voru talin útlán að fjárhæð samtals 7.577.000.000 krónur, en í dálki, þar sem liðir í ársreikningi 2006 voru sýndir til samanburðar, kom fram að í lok þess árs hafi útlán numið 2.792.000.000 krónum. Í skýringum með ársreikningnum fyrir 2007 sagði það eitt um þennan lið að um væri að ræða önnur lán að fjárhæð 7.577.000.000 krónur.

Í tengslum við gerð framangreindra ársreikninga rituðu ákærði U og C fyrir hönd Milestone ehf. undir svonefnt staðfestingarbréf stjórnenda 14. febrúar 2008 til KPMG endurskoðunar hf. Hér áður voru rakin nokkur atriði úr sams konar bréfi frá 23. febrúar 2007 vegna endurskoðunar á ársreikningi Milestone ehf. 2006, en þau áttu sér í flestu efnislega samsvörun í staðfestingarbréfinu þessu sinni og er því ekki þörf á að rekja efni þess hér frekar.

Aðalfundur Milestone ehf. var haldinn 29. febrúar 2008 og var samkvæmt óundirritaðri fundargerð mætt þar „fyrir hönd allra hluthafa í félaginu“. Ársreikningur félagsins fyrir árið 2007, áritaður af endurskoðendum þess, hafi verið samþykktur, en síðan sagði: „Stjórn félagsins hefur gert tillögu um að greiddur verði arður til hluthafanna [X] og [V] að fjárhæð kr. 2.000.000.000,-. Arðurinn skal skiptast á milli þeirra í réttum hlutföllum við eignarhlutföll þeirra í félaginu. Allir fundarmenn eru samþykkir framangreindri arðsúthlutun.“

26

D sendi E og C tölvubréf 18. febrúar 2008, þar sem sagði meðal annars: „Við eigum eftir að senda KPMG og F eftirfarandi gögn vegna uppgjörsins: ... Undirritaður lánasamningur milli Leiftra og Milestone ([E], það getur verið að þú sért þegar búinn að drafta þennan upp).“ Þessu atriði svaraði C sama dag með eftirfarandi orðum: „Á borðinu hjá mér liggur samningur milli Leiftra og MST.“

Í málinu liggur fyrir útskrift af viðskiptareikningi Milestone Import Export Ltd. hjá Milestone ehf. miðað við stöðu hans 4. mars 2008. Inn á þetta skjal hefur sitthvað verið handritað, en ekki verður séð hvenær það var gert. Þannig hafði verið strikað yfir prentaða textann: „Milestone ltd.“ efst á blaðinu og skrifað þar aftan við: „Leiftri“. Upphafsstaðan á yfirlitinu, sem miðaði við 1. janúar 2007, sýndi skuld Milestone Import Export Ltd. að fjárhæð 2.744.817.402 krónur og var handritað þar við: „Leiftri yfirtekur 1/1 ´07“. Neðar á blaðinu var sama fjárhæð handrituð og skrifað þar við: „Leiftri yfirtók þessa skuld í árslok 2006 sbr. bókhald Leiftra“. Tvær neðstu prentuðu færslurnar á skjalinu voru 2.462.395.055 krónur og 428.772.931 króna, en við þær var handritað „Leiftri“. Þessar tvær fjárhæðir voru síðan handritaðar fyrir neðan áðurnefndar 2.744.817.402 krónur og var skrifað aftan við 2.462.395.055 krónur: „Kaup á viðbót í Milestone ehf.“ en framan við 428.772.931 krónu: „vx“. Tölurnar þrjár voru svo lagðar saman og fengin útkoman 5.635.985.388 krónur. Þar fyrir neðan var skrifað: „Láta [F] færa af MST LTD yfir á Leiftra þegar allt er niðurneglt.“

Samkvæmt fundargerð frá fundi stjórnar Milestone ehf. 30. apríl 2008 urðu umræður um „framtíðaráætlun félagsins um skráningu á Invik/Moderna Finance á sænskum markaði á árinu 2009.“ Sagði síðan meðal annars eftirfarandi: „Lokið hefur verið við niðurfærslu eigna frá Milestone til Invik/Moderna Finance. Hafnar eru viðræður við nokkra alþjóðlega fjárfestingabanka um ráðgjöf við fjármögnun, sölu á hlutafé fyrir skráningu og skráningu Invik/Moderna Finance. Miklar umræður urðu um möguleika á sameiningum og kaupum á fyrirtækjum áður en til skráningar kemur ... Forstjóri félagsins gerði fundarmönnum grein fyrir endanlegum útfærslum á eignum og skuldum frá Milestone til Invik. Verðið á eignunum var ákveðið u.þ.b. kr. 53,783 milljarðar á grundvelli mats frá KPMG og PWC. Skuldir Milestone voru ekki færðar niður til dótturfélagsins ... Fjármálastjóri félagsins gerði grein fyrir stöðu á fjármögnun félagsins. Lokið hefur verið við uppgjör við Morgan Stanley og hefur Glitnir komið í auknum mæli inní fjármögnun félagsins. Framundan er endurfjármögnun á víxlaútgáfu að fjárhæð kr. 8 milljarða. Þá liggur fyrir að ljúka þarf kaupum á eftirstöðvum á Invik ca. 1,7 milljarður. Viðbótarfjármögnunar er þörf vegna nokkurra fjárfestinga í maí og fram á sumarið.“

Í ódagsettu skattframtali A árið 2008 var ekki greint frá hlutabréfum í Milestone ehf., Milestone Import Export Ltd. eða Leiftra Ltd. sem eign í árslok 2007. Á fylgiskjali með framtalinu var á hinn bóginn tiltekið að A hafi í byrjun árs 2007 átt hlutabréf í Milestone ehf. að nafnverði 415.267.826 krónur og hafi stofnverð þeirra verið það sama, en á árinu hafi hún selt þessi bréf fyrir 2.462.396.310 krónur. Kaupanda var þar ekki getið.

Ákærði U gaf út yfirlýsingu 11. júní 2008 á ensku, þar sem hann staðfesti með vísan til heimildar sinnar til að rita firma Leiftra Ltd. að samkvæmt hlutaskrá félagsins, sem hefði skrifstofu á nánar greindum stað í Barendrecht í Hollandi, ætti ákærði X 25.647,65 hluti eða 64,55% og ákærði V 14.085,35 hluti eða 35,45%.

27

Í tölvubréfi ákærðu Y 22. júlí 2008 bað hún D um að útvega fyrir sig „nýjasta uppgjör Leiftra helst 6 mán. uppgjör, sem allra fyrst.“ Í gögnum málsins er ekki að sjá svar við þessu.

Ákærða W sendi F tölvubréf 22. ágúst 2008 með fyrirsögninni „MST Ltd.“, þar sem sagði: „Áttu einhver gögn á bak við kröfu á Milestone Ltd. að fjárhæð 6.106.806.000 kr. (bókuð meðal lánadr.)?“ F svaraði henni á eftirfarandi hátt 25. sama mánaðar: „Ekki annað en greiðslukvittanir. Ég sendi þér reikningsyfirlitið á faxið.“ Þá sendi ákærða W tölvubréf til D 25. ágúst 2008, þar sem hún spurði hvort hann ætti „einhverjar upplýsingar um kröfuna á Milestone Ltd. 6.106.805.971 kr.“

Við rannsókn málsins mun lögregla hafa fengið í hendur frá KPMG endurskoðun hf. úr vinnugögnum vegna endurskoðunar reikningsskila Milestone ehf. útskrift dagsetta 25. ágúst 2008 úr bókhaldi síðastnefnda félagsins á viðskiptareikningi Milestone Import Export Ltd., sem náði yfir tímabilið frá 5. desember 2006 til 28. maí 2008. Lokastaðan á útskriftinni var skuld Milestone Import Export Ltd. að fjárhæð 6.106.805.971 króna. Meðal fjárhæða, sem þar höfðu verið færðar því félagi til skuldar, voru 2.733.326.804 krónur við dagsetninguna 31. desember 2006 og 2.462.395.055 krónur við dagsetninguna 31. desember 2007, svo og 428.772.931 króna við sömu dagsetningu, en síðastgreind fjárhæð var auðkennd sem vextir. Hinar fjárhæðirnar tvær svara til skulda samkvæmt fyrrnefndum lánssamningum milli félaganna, sem dagsettir voru annars vegar 30. desember 2006 og hins vegar 31. desember 2007. Lögregla fékk jafnframt í hendur úr vörslum KPMG endurskoðunar hf. blað, sem ætla verður að hafi verið útbúið með ljósritun þessarar sömu útskriftar, en þar hafði verið afmáð dagsetning hennar, 25. ágúst 2008, og jafnframt huldar færslur á yfirlitinu sem voru yngri en frá 31. desember 2007. Neðarlega á því blaði hafði verið handritað: „HF 5/2/08“. Í b. lið V. kafla ákæru er ákærðu W gefið að sök að hafa rangfært þetta blað á þennan hátt og hún jafnframt borin sökum ásamt ákærðu Z og Y um að hafa lagt það innan um endurskoðunargögn varðandi ársreikning Milestone ehf. fyrir árið 2007.

Í tengslum við gerð uppgjörs fyrir Milestone ehf. vegna fyrstu sex mánaða ársins 2008 var gert hjá KPMG endurskoðun hf. blað með lokafærslum. Blað þetta var merkt upphafsstöfum ákærðu W og dagsett 26. ágúst 2008. Þar var meðal annars gert ráð fyrir að flutt yrði á reikningslið fyrir lánveitingar krafa á hendur Milestone Import Export Ltd. að fjárhæð 6.106.805.971 króna. Í athugasemd út af þessu var ritað: „Er í raun krafa á Leiftra vegna kaupa á [A] út úr félaginu, var um áramót 5.693.060 þús.kr.“

Á fundi stjórnar Milestone ehf. 29. ágúst 2008 mættu meðal annarra endurskoðendur félagsins, ákærðu Z og Y, og voru þar lögð fyrir drög að uppgjöri fyrir það vegna fyrri helmings ársins 2008. Fram kom að endurskoðendurnir hafi gert grein fyrir áritun sinni á reikning samstæðu Milestone ehf., sem væri hefðbundin að öðru leyti en því að bent væri á að „virðisrýrnunarpróf hefur ekki farið fram á Moderna.“ Tap samstæðunnar hafi á þessu tímabili numið um 35.000.000.000 krónum, en eigið fé hafi lækkað um 14.000.000.000 krónur og væri því orðið 54.500.000.000 krónur. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar væri þannig 10,6%. Tap móðurfélagsins hafi á hinn bóginn numið um 13.500.000.000 krónum, eigið fé þess 69.000.000.000 krónum og eiginfjárhlutfall 51%. Reikningarnir voru samþykktir á fundinum.

E sendi D tölvubréf 3. september 2008 ásamt afriti til C, þar sem E sagði sig vanta reikninga fyrir Leiftra Ltd. og spurðist um leið fyrir um hvort þeir væru endurskoðaðir. Þessu svaraði D með eftirfarandi orðum: „Þetta er það eina sem við höfum upp á að bjóða fyrir Leiftrann í dag. Þetta er enn sem komið óendurskoðað en það stendur til að gera það ... Eigum við ekki að segja að endurskoðaður reikningur fyrir Leiftra 2007 liggi fyrir í október.“ Með þessu tölvubréfi fylgdu drög að ársreikningi Leiftra Ltd. fyrir árið 2007. Í rekstrarreikningi kom fram að hagnaður ársins hafi numið 106.641.443 evrum, en samanburður var þar sýndur við árið 2006, þar sem fram kom tekjufærsla á því ári vegna afskrifaðra skulda að fjárhæð 83.392.768 evrur. Á efnahagsreikningi voru eignir í árslok 2007 sagðar að andvirði 522.488.405 evrur, skuldir 211.356.022 evrur og eigið fé 311.132.383 evrur, þar af vegna hlutafjár 39.733 evrur. Af efnahagsreikningnum virðist annars ekkert verða ráðið, sem hefur gildi fyrir málið, en engar skýringar eða sundurliðanir fylgdu honum.

F sendi C tölvubréf 5. september 2008 og spurðist fyrir um hvað gera ætti við greiðslur til þriggja nafngreindra manna frá 22. júlí sama ár að fjárhæð samtals 360.000 krónur. C svaraði því til að það myndu ekki „koma reikningar fyrir þessu“ og spurði hvort ekki mætti færa „þetta á einhvern lykil sem við notum svo ekki skattalega“. Í tölvubréfi næsta dag sagðist F helst vilja fá skýringar, því sér fyndist ekki gott „af félagi eins og Milestone að greiða til einstaklinga án þess að gera grein fyrir því“, en bætti svo við að „auðvitað ráðið þið ferðinni.“ Þessu svaraði C 7. september 2008 á eftirfarandi hátt: „Þetta er eitthvað skemmtilegt rugl Færðu þetta á M Import Export.“

Starfsmaður KPMG endurskoðunar hf. sendi tölvubréf 27. nóvember 2008 til F, þar sem spurt var hvort hann gæti „snarað snöggvast þessum lokafærslum 30/9 hjá MST“. Á skjali fyrir þessar lokafærslur, sem fylgdi tölvubréfinu, sagði meðal annars eftirfarandi: „Færð niður varúðarniðurfærsla v. kröfu á MST Ltd. 6.105.359.386“. Samkvæmt útskrift úr bókhaldi Milestone ehf. gekk þessi færsla eftir með dagsetningunni 30. september 2008.

IV

1

Í I. kafla ákæru eru ákærði U sem forstjóri Milestone ehf., ákærði X sem stjórnarformaður félagsins og ákærði V sem stjórnarmaður bornir sökum um umboðssvik, sem varði við 249. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa í störfum sínum í sameiningu misnotað aðstöðu sína og valdið félaginu verulegri fjártjónshættu þegar þeir hafi látið það fjármagna efndir á samningum, sem ákærðu X og C gerðu 4. desember 2005 við A um sölu hennar á 14,6% hlutafjár í Milestone ehf., 28% hlutafjár í Leiftra Ltd. og 28% hlutafjár í Milestone Import Export Ltd., en þetta hafi verið Milestone ehf. óviðkomandi. Hafi þeir í þessu skyni látið Milestone ehf. inna af hendi til A samtals 2.133.326.804 krónur með tólf mánaðarlegum greiðslum á árinu 2006 og 2.462.395.055 krónur með jafnmörgum greiðslum á árinu 2007 auk þess að skuldbinda félagið á árinu 2006 til að greiða Sjóvá-Almennum tryggingum hf. 600.000.000 krónur vegna þátttöku þess félags í efndum samninganna. Hafi þetta verið gert í fullkominni óvissu um hvort, hvernig eða hver myndi endurgreiða Milestone ehf. þetta fé, samtals 5.195.721.859 krónur, og án þess að endurheimt þess hafi verið tryggð með veði eða öðrum ráðstöfunum.

2

Þegar greiðslurnar, sem um ræðir í þessum kafla ákærunnar, voru inntar af hendi voru ákærðu X og V ásamt A og Leiftra Ltd. framan af einu hluthafarnir í Milestone ehf., sem átti þó nærri 5% sem eigin hluti frá því í desember 2005, en vegna samninganna frá 4. þess mánaðar hvarf A þegar frá leið úr röðum hluthafa, sem Sáttur ehf., félag í eigu ákærða U, virðist á hinn bóginn hafa bæst í með litlum eignarhlut í félaginu. Leggja verður til grundvallar að Leiftri Ltd. hafi framan af verið með öllu í eigu ákærða X, ákærða V og A, en á síðari stigum eingöngu í eigu þessara tveggja ákærðu. Þótt hagsmunir hluthafa í Milestone ehf. hafi þannig að öllu leyti verið beint og óbeint á hendi ákærðu X, V og U þegar A var gengin úr röðum hluthafa með fullri greiðslu söluverðs hluta hennar, verður að gæta að því að einkahlutafélög eru eftir ákvæðum laga um þau nr. 138/1994 sjálfstæðar persónur að lögum. Einkahlutafélag lýtur að vísu forræði hluthafa, sem hafa hagsmuni af hlutafjáreign sinni og réttindum sem hún veitir, en slíkt félag tengist ekki að öðru leyti fjárhag hluthafanna vegna takmörkunar á ábyrgð þeirra á skuldbindingum þess samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 138/1994. Fjárhagslegir hagsmunir af einkahlutafélagi snúa á hinn bóginn síst minna að lánardrottnum þess og hvílir sú meginskylda á slíku félagi að haga ráðstöfunum sínum á þann veg að hagsmunir lánardrottna séu virtir og afla ekki hluthöfum ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins, sbr. 1. mgr. 51. gr. laganna. Á þessum grunni verður við mat á því, hvort menn sem eru í aðstöðu til að ráða gerðum einkahlutafélags hafi misnotað þá aðstöðu þannig að varði við 249. gr. almennra hegningarlaga, að horfa til hagsmuna félagsins sem sjálfstæðrar einingar og þar með einnig lánardrottna þess, en ekki að samsama félagið við hluthafa í því.

Auk þess, sem að framan segir, verður sérstaklega að gæta að því við úrlausn málsins að Milestone ehf. var í engum skilningi öðrum en varðandi fjölda starfsmanna lítið félag, heldur átti það á þeim tíma, sem atvik málsins gerðust, gríðarlegar eignir sem áður hefur verið getið, en meðal þeirra voru vátryggingafélög og fjármálafyrirtæki, sem báru víðtækar skyldur út á við. Milestone ehf. átti þó ekki aðeins eignir, sem samkvæmt efnahagsreikningi félagsins 31. desember 2007 voru taldar að andvirði samtals 391.627.000.000 krónur, heldur hvíldu einnig á þeim tíma skuldir á því alls að fjárhæð 322.114.000.000 krónur. Mismunurinn á þessum tveimur fjárhæðum, 69.513.000.000 krónur sem myndaði eigið fé Milestone ehf., var lægri en bókfært verðmæti óefnislegra réttinda, 88.312.000.000 krónur, sem talið var meðal eigna félagsins í efnahagsreikningnum. Gagnvart stöðu lánardrottna félagsins hefðu slík réttindi lítið gildi ef til greiðsluþrots kæmi. Hvíldi í þessu ljósi langt um fremur en almennt gerðist rík skylda á ákærðu X, V og U að virða ákvæði 1. mgr. 51. gr. laga nr. 138/1994 með því að haga ráðstöfunum Milestone ehf. þannig að hagsmunir félagsins sem slíks og lánardrottna þess yrðu að fullu virtir og ekki síður en þeirra eigin hagsmunir.

3

Á aðalfundi Milestone ehf. 20. maí 2005 var sem fyrr segir staðfest ráðning ákærða U í stöðu framkvæmdastjóra félagsins samkvæmt samningi frá 24. desember 2004, en starfsheiti hans var breytt í forstjóra með nýjum ráðningarsamningi 1. september 2006. Á aðalfundinum 20. maí 2005 var jafnframt staðfest að ákærði X léti af starfi framkvæmdastjóra félagsins, en honum og ákærða U var þar veitt prókúruumboð fyrir það. Samkvæmt fundargerð frá aðalfundi Milestone ehf. 31. mars 2006 var samþykktum félagsins breytt þannig að stjórnarmenn yrðu tveir í stað þriggja áður og voru þá í stjórn þess kjörnir ákærðu X og V, sem áttu þar sæti uns yfir lauk. Samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir 2007 skiptist hlutafé í lok þess árs þannig að Leiftri Ltd. átti 44,6% þess, ákærði X 28,2% og ákærði V 22,2%, en þeir tveir síðastnefndu höfðu eins og áður greinir gert hluthafasamning 15. nóvember 2005 um eignarhluti sína í Milestone ehf. og Leiftra Ltd.

Samkvæmt 249. gr. almennra hegningarlaga getur sá maður gerst sekur um brot gegn ákvæðinu sem fengið hefur aðstöðu til að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við. Ákærðu X og U höfðu á hendi prókúruumboð fyrir Milestone ehf. og höfðu þeir því gagnvart félaginu aðstöðu til slíkra athafna sem hér um ræðir, auk þess sem ákærði U hafði vegna starfs síns umboð til ráðstafana í nafni félagsins eftir ákvæðum 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Samkvæmt áðursögðu átti ákærði V stóran hlut í Milestone ehf. og sat að auki í stjórn félagsins, en ekki fór hann með framkvæmdastjórn þess eða prókúrurumboð fyrir það. Hann var því ekki í skilningi 249. gr. almennra hegningarlaga í aðstöðu til að gera ráðstafanir, sem Milestone ehf. yrði bundið af, þótt hann hafi sem stjórnarmaður getað tekið um þær ákvarðanir, sbr. 44. gr. laga nr. 138/1994. Eins og áður var getið hefur á hinn bóginn komið fram í málinu að ákærði V hafði starfstöð í húsakynnum félagsins og báru starfsmenn þess, sem komu fyrir dóm, að hann hafi sem stjórnarmaður og hluthafi átt þátt í ýmsum ákvörðunum um starfsemi þess. Að því er varðar ákærða V verður að þessu virtu að leggja mat á sakargiftir á hendur honum samkvæmt I. kafla ákæru með tilliti til þess hvort hann hafi verið hlutdeildarmaður í ætluðum brotum annarra gegn 249. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 22. gr. laganna, en til þess er unnt að taka afstöðu samkvæmt 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, enda hefur vörnum hans ekki verið áfátt að þessu leyti.

4

Ákærðu X og V gerðu sem fyrr segir fjóra samninga 4. desember 2005 við A, þar sem þeim tveimur var veittur kaupréttur og henni söluréttur að hlutum í Milestone ehf., Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd. Einn samninganna tók til kaupa á 10,306% hlutafjár í Milestone ehf. fyrir 1.867.026.667 krónur, sem mátti virkja á tímabilinu frá 2. til 6. janúar 2006, annar tók til kaupa á 9,33% hlutafjár í Leiftra Ltd. og 9,33% hlutafjár í Milestone Import Export Ltd. fyrir 742.675.667 krónur, sem mátti hrinda í framkvæmd frá 1. janúar til 1. júlí 2006, sá þriðji snerist um kaup á 18,67% hlutafjár í Leiftra Ltd. og 18,67% hlutafjár Milestone Import Export Ltd. fyrir 1.485.351.333 krónur, sem mátti virkja frá 2. til 6. janúar 2007, og sá fjórði var um kaup á 4,294% hlutafjár í Milestone ehf. fyrir 777.927.778 krónur, sem heimilt var að krefjast frá 2. til 6. janúar 2007. Í öllum tilvikum var samið um að kaupverðið yrði bundið á nánar tilgreindan hátt við vísitölu neysluverðs og ráðgert að greiðslur eftir öllum samningunum myndu dreifast yfir lengri tíma þannig að kaupverðið yrði í heild innt af hendi á tímabilinu frá janúar 2006 til desember 2007. Þessir fjórir samningar áttu hver um sig að skoðast sem kaupsamningur frá þeim tíma, sem tilkynnt yrði um að neytt væri kaupréttar eða söluréttar samkvæmt þeim. Í málinu liggur ekki fyrir tilkynning af þessum toga um fyrstnefnda samninginn, en greiðslur á grundvelli hans hófust 6. janúar 2006 og verður því að líta svo á að slík tilkynning hljóti í einhverri mynd að hafa talist koma fram fyrir þann tíma. Á hinn bóginn liggja fyrir í málinu skriflegar tilkynningar um að A neytti söluréttar síns samkvæmt hinum samningunum eða nánar tiltekið frá 22. júní 2006 varðandi samninginn, sem annar var nefndur hér að framan, og 2. janúar 2007 vegna tveggja síðastnefndu samninganna.

Þessir fjórir samningar, sem urðu þannig sjálfkrafa kaupsamningar um hlutabréfin sem um ræddi í hverju tilviki, lögðu eftir hljóðan sinni engar skuldbindingar á Milestone ehf., heldur eingöngu á ákærðu X og V. Þeir gátu þó eftir ákvæðum allra samninganna tilgreint „aðra aðila sem kaupendur, þ.m.t. Milestone ehf., Leiftra Ltd., eða önnur félög“ sem þeir kynnu þá að eiga eða myndu stofna. Ekkert liggur fyrir í málinu skjalfest um að slík aðilaskipti hafi verið gerð. Eftir almennum reglum fjármunaréttar er ekki unnt að líta svo á að þessi heimild ákærðu X og V geti hafa staðið lengur en til þess tímamarks, sem kaupsamningur taldist kominn á hverju sinni samkvæmt framansögðu, þótt þeim hafi á hinn bóginn verið frjálst hvenær sem var frá þeim tíma að framselja hlutabréfin sem keypt voru.

Þegar metið er hvort réttindi og skyldur kaupanda samkvæmt þessum fjórum samningum hafi með stoð í fyrrgreindum ákvæðum þeirra færst til annarra en ákærðu X og V verður að líta til þess að ákærði U sendi C 30. desember 2005 áðurnefnda áætlun um greiðslur samkvæmt samningunum, þar sem meðal annars virðist hafa verið lagt til grundvallar að kaupverði eftir hverjum þeirra yrði skipt á tiltekinn hátt milli hlutaðeigandi félaga annars vegar og ákærðu X og V hins vegar. Í tölvubréfi C til ákærða U 9. nóvember 2006 kom fram að ákærði X vildi nýta skuld Milestone ehf. við sig „til þess annars vegar að jafna hlutföllin milli hans og [V] ... og hins vegar vegna [A]“, svo og að gengið væri út frá því að skuldin „núllist út vegna [A]“. Með þessu bréfi mun hafa fylgt sams konar áætlun og að framan var getið um skiptingu kaupverðsins milli viðkomandi félaga, ákærða X, sem virðist hafa verið ætlað að bera af því samtals 2.187.796.599 krónur, og ákærða V, sem ætti að bera alls 924.289.601 krónu. Í tölvubréfi ákærða X til ákærða U 19. nóvember 2006 voru talin upp atriði, sem þeir þyrftu „að klára fljótlega“, þar á meðal að „formlega þarf A að selja sinn hlut núna í kringum áramótin“ og taka þyrfti „ákvörðun um á hvern hátt [X] og [V] koma að því að kaupa [A] út“. Í tölvubréfi til C 6. desember 2006 óskaði ákærði U eftir hugmyndum hans um „medferdina a greidslunum til [A]“ og bætti svo við: „Min hugmynd er ad faera nidur hlutafed fra og med 1.7.2006, hvernig kaemi thad ut m.t.t. Eiginfjarhlutfalls, covenanta o.s.frv.?“ Með fyrrnefndu tölvubréfi ákærða [U] 28. desember 2006 til C og B fylgdi enn á ný áætlun um greiðslur samkvæmt samningunum frá 4. desember 2005, þar sem kom meðal annars fram að á ákærða X ættu að falla samtals 2.187.796.598 krónur, ákærða V 924.289.602 krónur, Milestone ehf. 1.775.270.001 króna og „M / L Ltd.“ 891.210.800 krónur, svo og að Milestone ehf. hefði „greitt nú þegar til [A]“ alls 3.339.641.094 krónur og væri „því búið að borga of mikið vegna [A] um ca. 1.892 mkr.“ Verður jafnframt að minnast tölvubréfs ákærða X 11. janúar 2007 til ákærða U, þar sem rætt var um að koma á framfæri opinberlega að A hafi verið „keypt út, brodrene einu eigendur, láta fylgja að kaup verðið sé að mestu greitt“. Þá er þess að geta að ákærði U gerði yfirlýsingu 30. apríl 2007, þar sem hann staðfesti að samkvæmt hlutaskrá Milestone ehf. ætti ákærði X 1.114.301.400 af 2.857.000.000 hlutum í félaginu eða 39%, ákærði V 742.867.600 hluti eða 26% og Leiftri Ltd. 857.000.000 hluti eða 30%, en sjálft ætti félagið 142.831.000 hluti eða 5%.

Til þess verður og að líta að með tölvubréfi 26. apríl 2007, sem áður var getið, sendi E starfsmanni Basel Trust Corporation Ltd. skjöl um samþykkt hluthafa í Leiftra Ltd., þar sem fram kom að A hafi áður átt 28% hluta í félaginu en frá 3. mars sama ár hafi ákærði X átt 60% af hlutunum og ákærði V 40%. Þessi skjöl voru undirrituð af ákærða X, ákærða V og A. Í yfirlýsingu frá sama degi staðfesti ákærði U að samkvæmt hlutaskrá fyrir Leiftra Ltd. ætti ákærði X 23.839,8 hluti í félaginu eða 60% og ákærði V 15.893,2 hluti eða 40%. Á sama veg var greint frá eignarhaldi að hlutum í félaginu í yfirlýsingu CC um efni hlutaskrárinnar 30. sama mánaðar og yfirlýsingu ákærða U um það sama 1. ágúst 2007. Gagnstætt þessu gerði ákærði U tvær aðrar yfirlýsingar, 24. október 2007 og 11. júní 2008, um að ákærði X ætti 25.647,65 hluti í Leiftra Ltd. eða 64,55% og ákærði V 14.085,35 hluti eða 35,45%

Eins og áður var lýst sendi starfsmaður KPMG endurskoðunar hf. í tengslum við gerð skattframtals fyrir A fyrirspurn til D 30. maí 2007 um hvort hann gæti staðfest „að [A] eigi óbreytta eignarhluta frá árinu 2005 í Milestone Ltd. og Leiftra Ltd. í árslok 2006“, en í framhaldi af því sendi D tölvubréf til ákærða U og C, þar sem sagði: „Búinn að fara yfir málið aftur með Z og Leiftra fléttan verður fyrir valinu. Áður en við setjum „go“ á það þá verður „[U]“ að gera A og Co. grein fyrir þessari smávægilegri breytingu á upphaflegri áætlun.“ Þá kom eftirfarandi fram í tölvubréfi ákærða Z til framkvæmdastjóra KPMG endurskoðunar hf. 31. maí 2007: „Fyrir liggur að stjórnendur í Milestone hafa ekki gengið fullkomlega frá greiðslu til [A] á sl. ári fyrir um 2,7m. ... Eftir var að ganga frá eiginlegum formsatriðum um sölu á þessum 2,7 milj. En fyrir liggur að sala [A] er á eignarhlutum í Milestone og tengdum félögum ... Eins og staðan er núna verður svo á litið að um sé að ræða sölu á eignarhlut í Leiftra Ltd. og Milestone Ltd.“ Í skattframtali A 2007, sem var gert um þessar mundir, var greint frá því að hún hafi í lok árs 2006 átt hlutabréf í Milestone ehf. að nafnverði 415.267.826 krónur, en á árinu hafi hún selt öll hlutabréf sín í Milestone Import Export Ltd. fyrir 250.000.000 krónur og í Leiftra Ltd. fyrir 2.483.326.804 krónur. Í tölvubréfi, sem D sendi 6. júní 2007 til E og C, sagði síðan: „Nokkrar breytingar þurfa að eiga sér stað í einstökum félögum í kjölfar einstaklingsframtala. Það var niðurstaðan að [A] seldi eignarhlut sinn í Leiftra Ltd. og Milestone Ltd. fyrir 2,7 milljarða ... Kaupandi að bréfunum er Leiftri og Milestone Ltd. (eigin bréf). Keypt í árslok 2006. Síðan kaupa bræðurnir bréfin af félögunum á árinu 2007.“ Í öðru tölvubréfi, sem D sendi E 25. sama mánaðar, kom meðal annars eftirfarandi fram: „Leiftri kaupir eigin bréf af [A] í árslok 2006. Kaupverð í ISK er 2.483.326.804. Milestone Import Export lánar Leiftra fyrir andvirði kaupverðsins. Búa þarf til lánasamninginn.“

Áður var greint frá tölvubréfi, sem E sendi C og ákærða U 23. október 2007 með fyrirsögninni: „Útreikningur á eignarhlutum“, sem C svaraði á eftirfarandi hátt næsta dag: „Af hverju leidrettum vid thetta ekki allt i gegnum Leiftra, thad er beinn hlutur [X] og [V] i Milestone breytist ekki heldur adeins hlutur theirra i Leiftra.“ Þessu svaraði E í tölvubréfi 25. sama mánaðar með fyrirsögninni: „Útreikningur á eignarhlutum – Nú kaupir Leiftri allt!“, en þar sagði: „Meðfylgjandi eru nýjir útreikningar þar sem gert er ráð fyrir að Leiftri kaupi alla hluti af [A]. Sjá hér að neðan teikningu af stöðunni í dag“. Í fylgiskjali með bréfinu var sýnt eins og áður var lýst að A seldi hlut sinn í Leiftra Ltd., sem „kaupir þetta árið 2006 sem eigin bréf – vísun í stóra samninginn við A – skriflega er þetta gert í loks árs 2005“, en eftir það væri „eignarhald í Leiftra“ þannig að ákærði X ætti 64,55% og ákærði V 35,45%. Á þeim grunni færi ákærði X með 59,05% af virku eignarhaldi í Milestone ehf., ákærði V með 39,37% og Sáttur ehf. með 1,58%. Á sama hátt greindi E frá eignarhlut ákærða V í Milestone ehf. í tölvubréfi 19. desember 2007, þar sem kom fram að ákærði V ætti „beint“ 22,99%, en að viðbættu því sem hann ætti „óbeint (í gegnum Leiftra)“ væri hlutur hans 39,37%.

Loks er þess að geta að samkvæmt fylgiskjali með skattframtali A árið 2008 hafði hún í byrjun árs 2007 átt hlutabréf í Milestone ehf. að nafnverði 415.267.826 krónur, en á árinu hafi hún selt þessi bréf fyrir 2.462.396.310 krónur.

Að virtu því, sem hér var greint frá, var á öllum stigum eftir gerð samninganna 4. desember 2005 mjög á reiki hver ætti að teljast hafa keypt hlutabréf A í Milestone ehf., Leiftra Ltd. og Milestone Import Export Ltd., hvenær það hafi gerst og fyrir hvaða verð. Ýmist virðist hafa verið lagt til grundvallar að ákærðu X og V hafi einir keypt bréfin, þeir tveir ásamt félögunum einhverjum eða öllum eða eingöngu Leiftri Ltd. Síðastnefndi kosturinn virðist þó ekki hafa komið upp að ráði fyrr en í tölvubréfum 23. og 24. október 2007 eftir að skylda til greiðslu kaupverðs hafði þegar verið efnd að nær öllu leyti. Útilokað er að líta svo á að ákærðu X og V hafi á einhverju stigi í orði eða verki neytt heimildar samkvæmt samningunum frá 4. desember 2005 til að flytja réttindi sín og skyldur vegna kaupanna yfir á eitthvert tiltekið félag á sínum vegum. Verður þannig að leggja til grundvallar að ákærðu X og V hafi að lögum í raun verið kaupendur hlutabréfanna, svo sem leiddi einnig af meginefni þessara samninga eftir orða þeirra hljóðan. Skuldbinding ákærðu X og V til að greiða kaupverðið, sem mælt var fyrir um í samningunum, hvíldi aldrei á Milestone ehf. Verður því litið svo á að ákærðu X og U hafi misnotað aðstöðu sína hjá Milestone ehf. með því að láta félagið greiða þetta kaupverð og notið í því efni liðsinnis ákærða V, sem í hlutverki stjórnarmanns í félaginu gat ekki dulist hvernig staðið var að verki, en lét það allt að einu viðgangast.

5

Milestone ehf. greiddi kaupverð samkvæmt samningunum fjórum við A frá 4. desember 2005 með því að millifærðar voru á tímabilinu frá 6. janúar til 6. desember 2006 af bankareikningi félagsins annars vegar samtals 1.834.671.809 krónur inn á reikning á vegum útibús Íslandsbanka hf. í Luxembourg í þágu A og hins vegar samtals 298.654.995 krónur inn á bankareikning á nafni hennar. Auk þessara greiðslna í reiðufé, alls 2.133.326.804 krónur, var á áðurgreindan hátt búið svo um hnúta að A taldist með fjórum samningum 1. nóvember og 1. desember 2006 hafa veitt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. lán að fjárhæð samtals 600.000.000 krónur, en Milestone ehf. var í bókhaldi, án þess að sérstakur lánssamningur hafi verið gerður um þetta, talið af þessum sökum standa í skuld sömu fjárhæðar við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. samhliða því að fjárhæðin var færð til eignar á biðreikningi. Greiðslur Milestone ehf. til A á árinu 2006 töldust að þessu öllu gættu alls 2.733.326.804 krónur. Á tímabilinu frá 8. janúar til 6. desember 2007 greiddi síðan Milestone ehf. kaupverð samkvæmt samningunum fjórum að öðru leyti með því að millifæra af bankareikningi félagsins inn á reikning á nafni A samtals 2.462.395.055 krónur.

Svo sem fram er komið hvíldi á engu stigi skylda á Milestone ehf. til að inna af hendi til A þessar greiðslur á samtals 5.195.721.859 krónum, annars vegar 4.595.721.859 krónur með reiðufé og hins vegar 600.000.000 krónur með því að takast á hendur skuldbindingu við Sjóvá-Almennar tryggingar hf., sem gekkst undir skuld sömu fjárhæðar við A. Þá hefur jafnframt verið komist að þeirri niðurstöðu að ákærðu X og U hafi með hlutdeild ákærða V misnotað aðstöðu sína til að binda Milestone ehf. með því að hafa látið félagið inna af hendi þessar greiðslur og gangast undir þessar skuldbindingar. Þegar metið er hvort lögð hafi verið með þessu á Milestone ehf. veruleg hætta á fjártjóni verður að líta til þess að eftir almennum reglum fjármunaréttar eignaðist félagið á engan hátt kröfu á hendur A vegna þessara greiðslna og skuldbindinga sinna, enda fólu þær ekki annað í sér en að félagið hafi án skyldu vísvitandi og án nokkurra mistaka verið látið efna gagnkvæma samninga annarra við A. Þá samninga efndi hún að fullu fyrir sitt leyti að gættu því að ekki verður annað séð af gögnum málsins en að hlutabréfin í Milestone Import Export Ltd., sem hún seldi samkvæmt tveimur af samningunum frá 4. desember 2005, hafi ekki tilheyrt henni, heldur áðurnefndu félagi, Wiko S.A., sem mun þó hafa verið á forræði hennar. Í þessu ljósi stendur þannig eftir að gæta að því hvort Milestone ehf. hafi á annan hátt verið varið nægilega fyrir fjártjóni af þessum ráðstöfunum.

Eins og þegar hefur verið vikið að var fjárhæð greiðslna, sem Milestone ehf. innti af hendi til A á árinu 2006, og skuldbindingar, sem félagið gekkst undir við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. vegna láns A til þess félags, færð jafnharðan til eignar í bókhaldi Milestone ehf. á biðreikning, þar sem heildarfjárhæð þeirra stóð óhreyfð fram á árið 2007. Af fyrrgreindum tölvubréfum, sem fóru milli ákærða U og tiltekinna annarra starfsmanna Milestone ehf. 6. og 28. desember 2006 og milli ákærðu U og X 13. janúar 2007, verður ekki ráðið að á þeim tíma hafi nokkuð verið komið fram um hvað gera ætti vegna hagsmuna félagsins af þeim stórfelldu fjárútlátum, sem það hafði verið látið bera á þennan hátt frá janúar 2006 til janúar 2007. Til þess sama hníga einnig fyrrgreind orð í skjali í svonefndum endurskoðunarfyrirmælum KPMG endurskoðunar hf., sem dagsett var 12. febrúar 2007, þegar rætt var um að Milestone ehf. ætti kröfu „á einn eigandann sem verið er að kaupa út, A, að fjárhæð 2.735 millj. kr.“ Hafði þannig félagið þegar á því stigi verið sett í verulega hættu á fjártjóni vegna útborgunar úr sjóðum þess og skuldbindingar, sem það hafði verið látið taka á sig, án þess að hafa að lögum eignast af því tilefni kröfu á hendur öðrum.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið hver hafi verið aðdragandinn að því að ákærða W bar á hinn bóginn upp fyrirspurn til C í fyrrnefndu tölvubréfi 6. mars 2007 um hvort búið væri „að gera samninginn um breytingu á kröfunni á [A] og færa hana á Milestone Ltd.“, en þessu svaraði C þannig að það þyrfti „ekki nýjan samning“, því heimilt væri „að gera þetta skv. núverandi samningi“ og þekkti ákærði Z „málið.“ Ákærða W fylgdi þessu sem áður segir frekar eftir með tölvubréfi til D 27. mars 2007, þar sem hún kvaðst ekki vita við hvaða samning C hafi átt og spurði hvort D vissi „vegna hvers krafan er sem er á [A]“. Í svari D kom fram að hann vissi hvaða samningur þetta væri þótt hann hafi ekki séð samninginn, sem væri „um kaup á henni út úr batteríinu.“ Upp úr þessu spunnust síðan 2. apríl 2007 tölvubréfaskipti milli D og C og á síðari stigum E, sem áður voru rakin og lauk með því að sá síðastnefndi tók að sér að gera lánssamning milli Milestone ehf. og Milestone Import Export Ltd. „vegna viðskiptastöðu á milli félaganna í árslok 2006 um 2,7 milljarðar.“ Á þeim grunni samdi E 11. apríl 2007 samning dagsettan 30. desember 2006, þar sem kom fram að Milestone Import Export Ltd. tæki að láni hjá Milestone ehf. 2.733.326.804 krónur, sem bæri að endurgreiða 15. desember 2007. Ekki var þó lokið strax við þennan samning, svo sem sést af því að ákærða W ítrekaði erindi sitt við D, sem kvaðst í tölvubréfi til hennar 15. maí 2007 hafa „samninginn á borðinu en vantar undirskrift U forstjóra“ og bætti því svo við að „kröfunni var breytt á Milestone Import Export Ltd. í stað [A]“. D sendi síðan ákærðu W með tölvubréfi 23. sama mánaðar mynd af samningnum, sem bar orðið undirritun ákærða U af hálfu Milestone ehf. og E fyrir hönd Milestone Import Export Ltd.

Á framangreindan hátt höfðu 23. maí 2007 loks verið gerð skilríki fyrir kröfu Milestone ehf. með fjárhæð, sem svaraði til tólf mánaðarlegra greiðslna og skuldbindingar við Sjóvá-Almennar tryggingar hf. sem félagið hafði fram til 6. desember 2006 tekið á sig til að efna samninga ákærðu X og V við A. Fram hjá því verður ekki með öllu litið að hefði Milestone ehf. eða lánardrottnar félagsins leitast við að fylgja eftir réttindum samkvæmt lánssamningnum, sem hér um ræðir, liggur ekkert fyrir í málinu um að E hafi að réttu lagi fengið heimild til að skuldbinda á þennan hátt Milestone Import Export Ltd. með sannanlegu umboði úr hendi þeirra, sem eftir áðursögðu gátu talist bærir til að gera slíka ráðstöfun. Í sama skyni og að framan greinir greiddi Milestone ehf. jafnframt A frá 8. janúar til 6. desember 2007 samtals 2.462.395.055 krónur, en farið var á sama hátt og áður var lýst með þær greiðslur í bókhaldi félagsins, þar sem fjárhæð þeirra var jafnharðan færð til eignar á biðreikningi. Við húsleit hjá KPMG endurskoðun hf. fann lögregla eins og fyrr segir lánssamning dagsettan 31. desember 2007, sem mun ekki hafa komið fram annars staðar, milli Milestone ehf. og Milestone Import Export Ltd. um lán til síðarnefnda félagsins frá því fyrrnefnda að fjárhæð 2.462.395.055 krónur, sem skyldi endurgreitt með 15% ársvöxtum 31. desember 2008. Þetta skjal var undirritað af ákærða U fyrir hönd lánveitandans, en óundirritað af hálfu lántakans. Skjal þetta hefði af þeim sökum vart komið að haldi ef Milestone ehf. eða lánardrottnar félagsins hefðu leitast við að innheimta þá kröfu. Án tillits til þessara annmarka á báðum lánssamningunum, sem voru einu skilríkin fyrir hugsanlegri kröfu Milestone ehf. í tilefni af greiðslunum til A, eru þó jafnframt efni til að gæta að því hvers virði krafa á hendur Milestone Import Export Ltd. gæti hafa verið eftir 23. maí 2007.

Um þetta verður í fyrsta lagi að líta til þess að Milestone Import Export Ltd. var félag með takmarkaðri ábyrgð, sem hafði aðsetur á Bresku Jómfrúareyjum, og virðist hlutafé í því hafa verið að nafnvirði 1.000 bandaríkjadalir. Í áðurgreindum tölvubréfaskiptum, sem C átti við mann að nafni T dagana 27. til 29. júní 2006, kom meðal annars fram að bókhald félagsins hafi aldrei verið í góðu horfi, félagið væri lítið, starfsemin væri engin og eignir þess hafi verið færðar til Leiftra Ltd. í tengslum við skattalegar ráðstafanir, en þessum bréfaskiptum lauk síðan með því að síðarnefndi maðurinn spurði hvers vegna það vekti áhyggjur að minnst væri á Milestone Import Export Ltd. Má í því sambandi minnast þess einnig að C skiptist á fyrrnefndum tölvubréfum 5. til 7. september 2008 við F um hvernig færa ætti í bókum Milestone ehf. greiðslur til þriggja manna, sem reikningar væru ekki fyrir, og lauk þessum samskiptum með þeim orðum C að þetta væri „eitthvað skemmtilegt rugl“ og fyrirmælum hans til F um að færa „þetta á M Import Export.“

Í öðru lagi er þess að gæta að af fábrotnum reikningsskilum Milestone Import Export Ltd., sem liggja fyrir í málinu og áður hefur verið lýst, verður ráðið að félagið hafi fram á árið 2005 átt verulegar eignir, sem einkum voru hlutabréf í ýmsum íslenskum félögum, en eftir fundargerðum stjórnar Leiftra Ltd. keypti það félag í júní 2005 mestan hluta þessara eigna gegn láni frá seljandanum og lét þær svo af hendi sem hluta af greiðslu nýs hlutafjár til Milestone ehf. Efnahagsreikningar fyrir Milestone Import Export Ltd. á árunum þar á eftir gáfu til kynna að eignir félagsins fælust einkum í skuldabréfi frá Leiftra Ltd., sem ýmist var sagt vera að andvirði 9.323.862.000 krónur, 9.553.882.000 krónur, 9.727.133.000 krónur eða 13.178.854.288 krónur, en sem fyrr segir gerði Leiftri Ltd. samning dagsettan 22. júní og 3. nóvember 2005 um lán frá Milestone Import Export Ltd. að fjárhæð 7.634.348.352 krónur, sem var óviðkomandi atvikum að baki sakargiftum í máli þessu. Eftir þessum efnahagsreikningum nam eigið fé félagsins ýmist 8.730.218.000 krónum, 8.704.498.000 krónum, 8.735.093.000 krónum eða 7.688.767.000 krónum. Þetta eigið fé hefur samkvæmt þessu að öllu leyti verið háð tilvist kröfu félagsins á hendur Leiftra Ltd.

Um þessa kröfu Milestone Import Export Ltd. á hendur Leiftra Ltd., sem eins og fram er komið var að minnsta kosti að stærstum hluta á gjalddaga 31. desember 2008, er þess þá í þriðja lagi að geta að í fyrrnefndum fyrstu drögum að ársreikningi fyrir Leiftra Ltd. vegna ársins 2006 var gert ráð fyrir skuld við Milestone Import Export Ltd. að fjárhæð 137.726.763 evrur, sem eftir sundurliðun tengdist þó ekki kaupverði hluta í Milestone ehf. á því ári. Í öðrum fyrirliggjandi drögum að sama ársreikningi var tilgreind skuld Leiftra Ltd. við Milestone Import Export Ltd. að fjárhæð 142.814.000 evrur, en í þeim þriðju var engin slík skuld nefnd. Í ársreikningi fyrir Leiftra Ltd. vegna ársins 2006, sem var undirritaður af ákærðu X og V og hermt var í fundargerð frá aðalfundi félagins 25. júní 2007 að hafi verið staðfestur þar, var ekki gert ráð fyrir nokkurri skuld við Milestone Import Export Ltd., en á hinn bóginn voru í rekstrarreikningi færðar til tekna 75.028.000 evrur vegna afskriftar ótilgreindra krafna á hendur Leiftra Ltd. Loks virðist í tvennum drögum að efnahagsreikningi fyrir Leiftra Ltd. í árslok 2007 einskis getið um að félagið stæði í skuld við Milestone Import Export Ltd.

Í fjórða lagi er auk þess, sem að framan greinir, til þess að líta að hér áður hafa verið rakin margvísleg gögn frá árinu 2007, sem gefa til kynna að áætlanir hafi verið uppi um að stofna nýtt félag á Bresku Jómfrúareyjum til hliðar við Milestone Import Export Ltd., flytja þangað á óútskýrðan hátt kröfu félagsins á hendur Leiftra Ltd. og sameina síðan nýja félagið Leiftra Ltd. til að losna þannig við kröfuna án þess að greiða hana, svo sem fram kom í tölvubréfi E 15. febrúar 2007, eða breyta henni í hlutafé í Leiftra Ltd., eins og minnst var á í tölvubréfi CC 9. nóvember sama ár. Þessar ráðagerðir virðast ekki hafa náð fram að ganga, en af þeim kann þó eitthvað að mega ráða um með hverjum hug bókfærð hafi verið krafa Milestone Import Export Ltd. á hendur Leiftra Ltd., þótt einnig liggi fyrir gögn í málinu, sem benda til að hugað hafi verið að því að stofna til skuldar Leiftra Ltd. við Milestone ehf. sem kæmi í stað ætlaðrar kröfu síðarnefnda félagsins á hendur Milestone Import Export Ltd.

Þegar framangreind atriði eru virt í heild er óhjákvæmilegt að líta svo á að í raun hafi kröfuréttindi Milestone ehf. á hendur Milestone Import Export Ltd. samkvæmt ætluðum lánssamningum dagsettum 30. desember 2006 og 31. desember 2007 verið orðin tóm og því einskis virði. Með því að búið var á þennan hátt um réttindi Milestone ehf. vegna greiðslna félagsins til A og skuldbindinga þess í hennar þágu á tímabilinu frá 6. janúar 2006 til 6. desember 2007 var ekki aðeins sköpuð augljós og stórfelld hætta á fjártjóni félagsins, heldur varð sú hætta að auki að veruleika með því að Milestone Import Export Ltd. var tekið til gjaldþrotaskipta 11. apríl 2011, en ekkert í málinu bendir til að þrotabú félagsins hafi getað eða muni nokkuð geta greitt upp í kröfu þrotabús Milestone ehf. af þessu tilefni. Í ljósi þess, sem að framan er rakið, verður að líta svo á að þetta hafi á engan hátt getað dulist ákærðu U, X og V. Í samræmi við þetta verða þeir sakfelldir fyrir þau brot, sem þeim eru gefin að sök í I. kafla ákæru, en ákærði V þó fyrir hlutdeild í brotum ákærðu U og X. Sakir þeirra allra eru jafnframt mjög miklar í skilningi niðurlagsorða 249. gr. almennra hegningarlaga.

V

1

Í II. kafla ákæru eru ákærði U sem forstjóri Milestone ehf., ákærði X sem formaður stjórnar félagsins og ákærði V sem stjórnarmaður sakaðir um meiri háttar brot gegn lögum nr. 145/1994 um bókhald með því að þeir hafi ekki hagað bókhaldi Milestone ehf. á nægilega skýran, öruggan og aðgengilegan hátt á grundvelli áreiðanlegra og fullnægjandi gagna og í samræmi við góða bókhaldsvenju með þeim afleiðingum að bókhaldið hafi gefið ranga mynd af viðskiptum og notkun fjár. Um þetta hafi þeir gerst sekir samkvæmt a. lið þessa kafla ákærunnar með því að haga bókhaldsfærslum vegna tólf greiðslna til A á árinu 2006 að fjárhæð samtals 2.133.326.804 krónur og jafnmargra greiðslna til hennar 2007 að fjárhæð alls 2.462.395.055 krónur með þeim hætti að ekki hafi verið unnt að rekja á skýran og aðgengilegan hátt hvað búið hafi að baki greiðslunum og notkun fjármuna, þar sem færslurnar hafi ekki verið reistar á áreiðanlegum og fullnægjandi gögnum. Gögnin að baki þeim hafi verið greiðslukvittanir vegna bankafærslna, sem hafi ekki haft að geyma upplýsingar sem hafi getað nægt til réttmætrar skráningar í bókhaldið. Samkvæmt b. lið þessa kafla ákærunnar hafi þeir gerst sekir um það sama með því að haga nánar tilgreindri færslu á 2.733.326.804 krónum, sem hafi verið uppsöfnuð staða á biðreikningi vegna greiðslna til A á árinu 2006 og skuldbindingar Milestone ehf. við Sjóvá-Almennar tryggingar hf., af biðreikningnum yfir á viðskiptareikning Milestone Import Export Ltd. miðað við 31. desember 2006. Eina gagnið að baki þeirri færslu hafi verið útprentun úr bókhaldinu, sem hafi sýnt færsluna en ekki haft að geyma upplýsingar sem hafi getað nægt til réttmætrar skráningar í bókhaldið. Samkvæmt c. lið þessa kafla ákærunnar hafi þeir enn gerst sekir um það sama með því að haga nánar tilgreindri færslu á 2.462.395.055 krónum, sem hafi verið uppsöfnuð staða á biðreikningi vegna greiðslna til A á árinu 2007, af biðreikningnum yfir á viðskiptareikning Milestone Import Export Ltd. miðað við 31. desember 2007. Eina gagnið að baki þessari færslu hafi verið útprentun af tölvubréfi frá D til F frá 30. janúar 2008, sem hafi ekki haft að geyma upplýsingar sem nægt hafi til réttmætrar skráningar í bókhaldið.

Í ákærunni er framangreind háttsemi talin varða við 1. mgr. 6. gr. og 8. gr., sbr. 36. gr., 3. tölulið 1. mgr. 37. gr. og 2. tölulið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 145/1994 og 2. mgr., sbr. 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 145/1994 er mælt svo fyrir að haga skuli bókhaldi þannig að á skýran og aðgengilegan hátt megi rekja viðskipti og notkun fjármuna. Skuli bókhaldið veita svo sundurliðaðar upplýsingar um rekstur og efnahag sem þarfir eigenda, lánardrottna og hins opinbera krefjast og nauðsynlegar eru til að meta megi tekjur og gjöld, eignir og skuldir. Í 1. mgr. 8. gr. sömu laga segir að sérhver færsla í bókhaldi skuli byggð á áreiðanlegum og fullnægjandi gögnum, sem rekja megi til viðskiptanna, en ytri sem innri gögn skuli fela í sér upplýsingar, sem nægi til réttmætrar skráningar í bókhaldið. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er tiltekið að með ytri frumgögnum sé átt við gögn frá þeim, sem viðskipti séu gerð við, svo sem reikning, greiðslukvittun eða samning, og skuli þau bera með sér auðkenni útgefanda og viðtakanda og aðrar upplýsingar, sem kunni að vera nauðsynlegar til að sannreyna megi viðskiptin. Í 3. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að innri frumgögn séu gögn, sem verði til hjá þeim bókhaldsskylda sjálfum, svo sem reikningar, greiðslukvittanir eða samningar, og öll önnur gögn sem gerð séu til að skrá breytingar eða millifærslur innan bókhaldsins. Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 37. gr. laganna telst það ætíð meiri háttar brot gegn lögunum ef fyrirsvarsmaður lögaðila rangfærir bókhald eða bókhaldsgögn, býr til gögn sem eiga sér ekki stoð í viðskiptum við aðra eða hagar bókhaldi með öðrum hætti þannig að það gefi ranga mynd af viðskiptum og notkun fjármuna. Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 38. gr. laganna gerist fyrirsvarsmaður lögaðila sekur um refsivert brot gegn þeim ef hann hagar ekki bókhaldi lögaðilans á nægilega skýran, öruggan og aðgengilegan hátt, á grundvelli fullnægjandi gagna og í samræmi við góða bókhaldsvenju. Í 36. gr. laganna er kveðið á um refsingar fyrir brot gegn þeim, sem framin eru af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, en brot gegn 37. gr. þeirra og önnur meiri háttar brot gegn 38. gr. varði refsingu samkvæmt 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

2

Um sakargiftir í II. kafla ákæru er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 ber stjórn einkahlutafélags að sjá til þess að skipulag félagsins og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Í 3. mgr. sömu lagagreinar er mælt svo fyrir að stjórn einkahlutafélags skuli annast um að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna þess. Sé ráðinn framkvæmdastjóri skal hann sjá um að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur. Sakargiftum samkvæmt þessum kafla ákæru er þannig réttilega beint að ákærðu X og V sem stjórnarmönnum í Milestone ehf. og ákærða U sem framkvæmdastjóra félagsins, þótt hann hafi frá 1. september 2006 borið starfsheitið forstjóri.

Því hefur áður verið lýst í einstökum atriðum hvernig hagað var færslum í bókhaldi Milestone ehf. á 24 greiðslum, sem félagið innti af hendi til A á tímabilinu frá 6. janúar 2006 til 6. desember 2007, og skuldbindingu, sem félagið gekkst undir gagnvart Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna efnda á hluta af greiðslum til A á grundvelli samninganna fjögurra frá 4. desember 2005. Því hefur og verið lýst hvaða fylgiskjöl lágu fyrir í bókhaldsgögnum Milestone ehf. vegna greiðslna til A, en í öllum tilvikum var aðeins um að ræða einfalda kvittun fyrir millifærslu af bankareikningi félagsins inn á annan bankareikning, sem í tíu tilvikum var á nafni annars en A og í fjórtán tilvikum á hennar nafni. Af þeim tíu tilvikum, sem greiðslur voru lagðar inn á reikning sem ekki var á nafni A, voru í fimm skipti settir upphafsstafir hennar til auðkenningar. Þótt ákærðu X, V og U myndu í öllum tilvikunum 24 hafa mátt vita hvað búið hafi að baki greiðslunum, hefði það verið fyrirmunað öðrum á grundvelli þessara fylgiskjala, hvort heldur lánardrottnum félagsins eða því opinbera, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 145/1994. Ekki hefði heldur stoðað að byggja á því að hverjum sem væri hefðu mátt verða ljósar ástæður fyrir þessum greiðslum með því að kynna sér eintök samninganna fjögurra frá 4. desember 2005, sem hvorki í eitt einasta skipti höfðu þó verið lagðir í ljósriti með kvittun fyrir millifærslu sem fylgiskjal í bókhaldinu né hafði verið vísað til í slíkum kvittunum, enda lögðu þessir samningar enga skyldu á Milestone ehf. til að greiða A nokkurn hlut. Færslurnar í bókhaldi félagsins á þessum grunni voru því í andstöðu við 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr., sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 145/1994.

Því hefur einnig verið lýst hér áður hvernig staðið var að því að færa umræddar greiðslur til A og skuldbindingu í tengslum við hana fyrst í stað sem eign á biðreikningi í bókhaldi Milestone ehf., en síðan að flytja fjárhæð, sem þannig hafði safnast upp á biðreikningnum, í tveimur áföngum yfir á annan bókhaldsreikning sem eign félagsins vegna útlána, annars vegar miðað við árslok 2006 og hins vegar lok ársins 2007. Fylgiskjöl í bókhaldi félagsins að baki þessum tveimur færslum milli biðreiknings og reiknings vegna útlána voru alls ófullnægjandi, enda báru þau á engan hátt með sér hvert hafi verið tilefni færslu né að fyrir hendi væri nokkurt útlán eða viðskipti. Þessar færslur voru því í andstöðu við 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr., sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. laga nr. 145/1994.

Framangreind háttsemi, sem ákærðu X, V og U báru ábyrgð á, var í senn brot gegn 3. tölulið 1. mgr. 37. gr. og 2. tölulið 1. mgr. 38. gr. laga nr. 145/1994 og telst hún þannig meiri háttar brot gegn þeim lögum, sem varðar refsingu samkvæmt 2. og 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Verða þessir ákærðu því sakfelldir samkvæmt II. kafla ákæru.

VI

1

Í III. kafla ákæru eru ákærða U sem forstjóra Milestone ehf., ákærða X sem stjórnarformanni félagsins og ákærða V sem stjórnarmanni gefin að sök meiri háttar brot gegn lögum nr. 3/2006 um ársreikninga með því að hafa í störfum sínum í sameiningu rangfært efnahagsreikninga, sem hafi verið hluti af ársreikningum félagsins og samstæðureikningum fyrir samstæðu Milestone ehf. fyrir árin 2006 og 2007, og hagað gerð þeirra þannig að reikningsskilin hafi ekki gefið glögga mynd í samræmi við settar reikningsskilareglur af rekstrarafkomu og eignabreytingum á þessum reikningsárum og efnahag í lok þeirra. Samkvæmt a. lið þessa kafla ákærunnar eru þeir bornir sökum um að hafa gert þetta með því að færa sem eign kröfu að fjárhæð 2.733.326.804 krónur í efnahagsreikningi Milestone ehf., sem hafi verið hluti af ársreikningi félagsins fyrir árið 2006 og þar með hluti af samstæðureikningi, en þessir ákærðu hafi staðfest ársreikninginn með undirritun sinni 23. febrúar 2007, þótt engin gögn hafi þá legið fyrir um tilvist kröfunnar eða sem unnt hefði verið að byggja á mat um hvort líklegt væri að félagið hefði fjárhagslegan ávinning af kröfunni. Af þeim sökum hafi ekki verið unnt að meta virði kröfunnar með áreiðanlegum hætti. Í b. lið þessa kafla ákærunnar eru þessir ákærðu bornir sökum um að hafa gert það sama með því að færa framangreinda fjárhæð sem eign í efnahagsreikningi Milestone ehf., sem hafi verið hluti ársreiknings og samstæðureiknings fyrir árið 2007. Ákærðu hafi staðfest þessa reikninga með undirritun sinni 14. febrúar 2008, þótt þessi eign, sem í bókhaldi félagsins hafi verið færð sem krafa á hendur Milestone Import Export Ltd., ætti ekki rætur að rekja til láns eða annarra viðskipta milli félaganna og hún hafi verið gjaldfallin og í vanskilum. Engin gögn hafi legið þá fyrir til að byggja á mat um hvort líklegt væri að Milestone ehf. hefði fjárhagslegan ávinning af þessari kröfu og hafi þar með ekki verið unnt að meta virði hennar með áreiðanlegum hætti. Í c. lið þessa kafla ákæru er þessum ákærðu enn fremur gefið að sök að hafa gert það sama með því að færa sem eign í efnahagsreikningi Milestone ehf., sem hafi verið hluti af ársreikningi félagsins fyrir 2007 og þar með hluti af samstæðureikningi sem ákærðu hafi staðfest með undirritun sinni 14. febrúar 2008, kröfu að fjárhæð 2.462.395.055 krónur. Engin gögn hafi þá legið fyrir um tilvist kröfunnar, sem í bókhaldi félagsins hafi verið talin á hendur Milestone Import Export Ltd., eða sem unnt hefði verið að byggja á mat um hvort líklegt væri að Milestone ehf. hefði fjárhagslegan ávinning af kröfunni. Þar með hafi ekki verið unnt að meta virði hennar með áreiðanlegum hætti.

Í ákærunni er þessi háttsemi talin varða við 1., 2. og 4. mgr. 14. gr., 30. gr. og 35. gr., sbr. 120. gr., 2. mgr. 121. gr. og 1. tölulið 1. mgr. 122. gr. laga nr. 3/2006 og 2. mgr., sbr. 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 3/2006 er meðal annars kveðið á um að á efnahagsreikning skuli færa eignir og skuldir, en samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar skal færa eign á efnahagsreikning þegar líklegt sé að félag hafi af henni fjárhagslegan ávinning í framtíðinni og meta megi virði hennar með áreiðanlegum hætti. Við útreikning og mat á eignum ber eftir 4. mgr. sömu greinar að taka tillit til allra aðstæðna, þar á meðal áhættu og taps sem komi í ljós eða sé fyrirsjáanlegt áður en ársreikningur er saminn. Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. og 35. gr. laganna skulu áhættufjármunir, langtímakröfur og skammtímakröfur sæta niðurfærslu ef markaðsverð slíkra eigna eða raunvirði er lægra en bókfært verð, svo sem vegna hættu á að kröfur muni ekki innheimtast. Í 120. gr. laga nr. 3/2006 er kveðið á um refsingu fyrir brot gegn lögunum, sem framin eru af ásetningi eða stórfelldu gáleysi, en brot gegn 121. gr. og önnur meiri háttar brot gegn 122. gr. laganna varða samkvæmt fyrstnefnda ákvæðinu við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Til brota samkvæmt 121. gr. laga nr. 3/2006 telst meðal annars eftir 2. mgr. þeirrar greinar sú háttsemi stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra félags að rangfæra ársreikning, samstæðureikning eða einstaka hluta þeirra. Þá telst til brota gegn 122. gr. laganna meðal annars eftir 1. tölulið 1. mgr. þeirrar greinar sú háttsemi stjórnarmanns eða framkvæmdastjóra félags að haga gerð ársreiknings eða samstæðureiknings andstætt ákvæðum laganna þannig að reikningsskilin gefi ekki glögga mynd í samræmi við settar reikningsskilareglur af rekstrarafkomu eða eignabreytingu á reikningsárinu eða efnahag í lok þess.

2

Að því er varðar a. lið III. kafla ákærunnar hefur þess áður verið getið að ársreikningur fyrir samstæðu Milestone ehf. vegna ársins 2006 var undirritaður 23. febrúar 2007 af ákærðu X og V sem stjórnarmönnum í félaginu og ákærða U sem forstjóra þess. Í efnahagsreikningi kom þar fram að andvirði eigna í lok árs 2006 hafi numið 170.075.000.000 krónum, en meðal þeirra voru samkvæmt skýringum með reikningnum útistandandi kröfur vegna lána að fjárhæð samtals 11.651.000.000 krónur, þar af önnur útlán, 7.137.000.000 krónur. Ársreikningur fyrir Milestone ehf. sem móðurfélag samstæðunnar var dagsettur sama dag, en í málinu liggur ekki fyrir undirritað eintak af honum. Samkvæmt efnahagsreikningi var verðmæti eigna móðurfélagsins í árslok 2006 samtals 101.544.000.000 krónur, en meðal þeirra voru talin útlán að fjárhæð 2.792.000.000 krónur.

Í gögnum úr fyrrnefndum endurskoðunarfyrirmælum frá KPMG endurskoðun hf., sem sneru að endurskoðun ársreiknings Milestone ehf. fyrir árið 2006 og undirbúin voru 15. janúar 2007, kom meðal annars fram undir lið, sem varðaði „aðrar kröfur“, að ein þeirra væri á hendur eiganda að Milestone ehf. „sem verið er að kaupa út, [A] ... 2.735 millj. kr.“ Á eyðublaði um útlán og kröfur var þetta endurtekið með þeim orðum að meðal þeirra væri krafa „á einn eigandann sem verið er að kaupa út, [A]“ að fjárhæð 2.735.000.000 krónur. Á yfirlitsblaði í þessum gögnum um samtölur úr einstökum reikningsliðum, sem áður var lýst, kom glöggt fram að í heildarfjárhæð útlána móðurfélagsins, 2.792.359.039 krónur, væru innifaldar 2.733.326.804 krónur, sem væri „hluti [A]“ af fjárhæð sem hafi áður verið færð á biðreikning. Var einnig tekið fram að þetta „stemmir við ársr.“ Með því að síðastnefnd fjárhæð myndaði hluta af heildarfjárhæð útlána samkvæmt efnahagsreikningi Milestone ehf. sem móðurfélags hlýtur hún jafnframt að hafa verið hluti af heildarfjárhæð útlána í efnahagsreikningi samstæðunnar. Þá er þess og að geta að í endurskoðunarskýrslu vegna ársreiknings Milestone ehf. fyrir árið 2006, sem ákærðu Z og Y undirrituðu og bar dagsetninguna 2. mars 2007 en var samkvæmt því sem áður var rakið í fyrsta lagi gerð 22. maí sama ár, var vikið sérstaklega að því að meðal útlána væri „færð krafa á A að fjárhæð 2.733 millj. kr.“

Eins og þegar hefur komið fram í úrlausn um sakargiftir samkvæmt I. kafla ákæru átti Milestone ehf. aldrei nokkra kröfu á hendur A vegna greiðslna til hennar eða skuldbindinga, sem félagið var látið taka á sig vegna efnda á samningunum fjórum frá 4. desember 2005 um kaup á hlutabréfum hennar. Var því með öllu haldlaust að telja slíka kröfu að fjárhæð 2.733.326.804 krónur meðal eigna Milestone ehf. í efnahagsreikningi 31. desember 2006. Á þeim tíma gat Milestone ehf. heldur ekki talist eiga kröfu þessarar fjárhæðar á hendur Milestone Import Export Ltd., þegar af þeirri ástæðu að undirritaður samningur um lán fyrrnefnda félagsins á þessari fjárhæð til þess síðarnefnda, sem hefði verið eini hugsanlegi grundvöllurinn fyrir færslu slíkrar kröfu á efnahagsreikningnum, lá ekki fyrir fyrr en 23. maí 2007, þremur mánuðum eftir undirritun ársreikningsins. Efnahagsreikningurinn, sem miðaðist við 31. desember 2006, var af þessum sökum rangfærður að þessu leyti.

Sakargiftir samkvæmt b. lið þessa kafla ákæru snúa sem fyrr segir að því að áðurgreind fjárhæð, 2.733.326.804 krónur, hafi aftur verið talin meðal eigna Milestone ehf. á efnahagsreikningi 31. desember 2007, sem hafi verið hluti ársreikninga móðurfélagsins og þar með samstæðunnar fyrir það ár. Samkvæmt ársreikningi samstæðunnar fyrir 2007, sem var undirritaður 14. febrúar 2008 af ákærðu X og V sem stjórnarmönnum og ákærða U sem forstjóra Milestone ehf., voru eignir taldar að samanlögðu andvirði 391.627.000.000 krónur, þar af kröfur vegna útlána að fjárhæð samtals 63.040.000.000 krónur. Samkvæmt skýringum við ársreikninginn voru einstakir liðir í síðastnefndri fjárhæð meðal annarra útlán til fjármálafyrirtækja, 45.465.000.000 krónur, og önnur lán, 2.969.000.000 krónur. Ársreikningur fyrir móðurfélagið var einnig dagsettur 14. febrúar 2008, en undirritað eintak af honum liggur ekki fyrir í málinu. Í efnahagsreikningi kom þar fram að andvirði eigna í árslok 2007 hafi verið 133.094.000.000 krónur, en meðal þeirra voru talin útlán að fjárhæð 7.577.000.000 krónur. Af samanburði í efnahagsreikningnum við stöðu einstakra liða í ársreikningi fyrir 2006 verður ráðið að fyrrnefndar 2.733.326.804 krónur hljóti að hafa verið meðtaldar í fjárhæðinni 7.577.000.000 krónur. Af gögnum málsins er á hinn bóginn ekki ljóst hvernig sú fjárhæð skilaði sér inn í efnahagsreikning samstæðunnar. Fyrir liggur að þegar þessi reikningsskil voru gerð var í bókhaldi Milestone ehf. færð til eignar krafa á hendur Milestone Import Export Ltd. að fjárhæð 2.733.326.804 krónur, sem var sögð styðjast við lánssamning milli félaganna dagsettan 30. desember 2006. Að baki þeirri kröfu bjó hvorki raunverulegt peningalán milli félaganna né viðskipti þeirra. Í úrlausn um sakargiftir samkvæmt I. kafla ákæru var hér að framan komist að þeirri niðurstöðu að krafa samkvæmt þessum lánssamningi hafi verið Milestone ehf. einskis virði. Á það sama við hér og var efnahagsreikningur félagsins, sem miðaðist við 31. desember 2007, því rangfærður að þessu leyti.

Í c. lið III. kafla ákæru eru sem fyrr segir einnig bornar sakir á ákærðu X, V og U í tengslum við sama efnahagsreikning, sem var hluti af ársreikningi Milestone ehf. fyrir árið 2007, en í þessu tilviki fyrir að færa þar til eignar 2.462.395.055 krónur vegna kröfu á hendur Milestone Import Export Ltd., sem hafi myndast á því ári. Byggja verður á því að sú fjárhæð hafi verið innifalin í áðurgreindri heildarfjárhæð vegna útlána Milestone ehf. í efnahagsreikningnum, bæði fyrir móðurfélagið og samstæðuna. Að baki þessari kröfu í bókhaldi Milestone ehf. bjó ekkert raunverulegt peningalán, viðskipti milli félaganna eða undirritaður lánssamningur. Þegar af þessum ástæðum var færsla um þessa eign í efnahagsreikningnum haldlaus og hann því rangfærður að þessu leyti.

Á þessum rangfærslum í ársreikningum Milestone ehf. báru ákærðu X, V og U refsiábyrgð eftir upphafsorðum 2. mgr. 121. gr. og 1. mgr. 122. gr. laga nr. 3/2006. Þeir verða því sakfelldir fyrir þá háttsemi, sem þeim er gefin að sök í III. kafla ákæru, en þó að gættu því sem áður kom fram að ekki liggur fyrir í málinu að þeir hafi undirritað ársreikninga fyrir Milestone ehf. sem móðurfélag vegna áranna 2006 og 2007. Þessi brot þeirra eru rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

VII

1

Í IV. kafla ákæru eru ákærða Y sem endurskoðandi ársreikninga Milestone ehf. og ákærði Z sem kjörinn endurskoðandi félagsins borin sökum um meiri háttar brot gegn lögum nr. 3/2006 og lögum nr. 18/1997 um endurskoðendur, sbr. nú lög nr. 79/2008 um sama efni, með því hafa hagað störfum sínum við endurskoðun ársreikninga Milestone ehf. og samstæðu félagsins fyrir árin 2006 og 2007 í ósamræmi við góða endurskoðunarvenju. Samkvæmt a. lið þessa kafla ákæru eru þau sökuð um að hafa gert þetta með því að hafa 23. febrúar 2007 áritað þessa reikninga vegna ársins 2006 án athugasemda, þrátt fyrir að þar hafi í efnahagsreikningi verið færð til eignar krafa að fjárhæð 2.733.326.804 krónur. Engin gögn hafi legið fyrir, sem hafi sýnt fram á tilvist kröfunnar eða gert kleift að meta virði hennar með áreiðanlegum hætti. Í b. lið eru þau sökuð um að hafa gert það sama með því að hafa 14. febrúar 2008 áritað þessa reikninga vegna ársins 2007 án athugasemda, þrátt fyrir að þar hafi í efnahagsreikningi verið færð krafa að fjárhæð samtals 5.195.721.859 krónur, sem engin gögn hafi legið fyrir um til að unnt yrði að meta virði hennar með áreiðanlegum hætti. Að auki hafi hluti kröfunnar, 2.733.326.804 krónur, þegar verið gjaldfallinn og í vanskilum og um fjárhæð hennar að öðru leyti, 2.462.395.055 krónur, hafi engin gögn legið fyrir til að sýna fram á tilvist kröfu. Í c. lið þessa kafla ákærunnar eru þau jafnframt sökuð um að hafa gert það sama með því að hafa áritað ársreikningana bæði umrædd ár með yfirlýsingu um að þeir gæfu sanna og rétta mynd af fjárhagslegri stöðu samstæðu Milestone ehf. og um leið móðurfélagsins og látið hjá líða að geta um mikilsverð atriði varðandi efnahag félagsins. Kröfurnar, sem um ræðir í a. og b.lið þessa kafla ákærunnar, hafi verið langt umfram mikilvægismörk, sem ákærðu Y og Z hafi skilgreint við endurskoðunina. Í ákæru er framangreind háttsemi talin varða við 8. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 18/1997, sbr. nú 9. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. og ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 79/2008, 1. mgr. 102. gr., sbr. 120. gr. og 2. mgr. og 3. mgr. 123. gr. laga nr. 3/2006 og 2. mgr., sbr. 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Í 8. gr. laga nr. 18/1997, sem voru í gildi þegar atvik samkvæmt þessum kafla ákæru gerðust, kom fram að áritun endurskoðanda á reikningsskil þýddi, kæmi þar ekki annað fram, að hann hafi endurskoðað þau í samræmi við góða endurskoðunarvenju og gæfu þau að hans mati glögga mynd af hag og afkomu félags í samræmi við góða reikningsskilavenju, en í 20. gr. voru ákvæði um viðurlög við brotum gegn lögunum. Í lögum nr. 79/2008, sem tóku gildi 1. janúar 2009 og komu þá í stað fyrrnefndu laganna, segir í 9. gr. að endurskoðandi skuli rækja störf sín í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla og alþjóðlega staðla um gæðaeftirlit, sem teknir hafi verið upp í íslenskan rétt, en í 1. mgr. 28. gr. er mælt fyrir um viðurlög við brotum gegn lögunum. Í ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 79/2008 er tekið fram að á meðan alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar hafa ekki verið teknir upp í íslenskan rétt skuli endurskoðun samkvæmt 9. gr. laganna fara eftir góðri endurskoðunarvenju, en með henni sé átt við að endurskoðað sé með viðurkenndum aðferðum í samræmi við leiðbeinandi reglur um endurskoðun, sem gefnar hafi verið út af alþjóðasamtökum endurskoðenda. Í 1. mgr. 102. gr. laga nr. 3/2006 segir að endurskoðendur skuli endurskoða ársreikning í samræmi við lög um endurskoðendur. Í 2. og 3. tölulið 123. gr. laga nr. 3/2006, sem sýnilega er átt við í tilvísunum til þeirrar lagagreinar í ákæru, kemur fram að endurskoðendur gerist sekir um refsiverð brot gegn þeim lögum með athöfnum eða athafnaleysi ef þeir haga störfum sínum andstætt ákvæðum laganna eða í ósamræmi við góða endurskoðunarvenju eða ef þeir með áritun sinni gefa rangar eða villandi upplýsingar eða láta hjá líða að geta um mikilsverð atriði, sem snerta efnahag félags. Samkvæmt 120. gr. sömu laga varða meiri háttar brot gegn 123. gr. þeirra við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

2

Í niðurstöðum um sakargiftir í III. kafla ákæru á hendur ákærðu X, V og U hefur verið slegið föstu að ársreikningar fyrir Milestone ehf. og samstæðu þess félags fyrir árin 2006 og 2007 hafi verið rangfærðir að því leyti að í efnahagsreikningi 31. desember 2006 hafi verið talin meðal eigna ætluð krafa að fjárhæð 2.733.326.804 krónur og í efnahagsreikningi 31. desember 2007 tvær ætlaðar kröfur, annars vegar sú sama og hér á undan greinir og hins vegar önnur að fjárhæð 2.462.395.055 krónur eða samtals 5.195.721.859 krónur. Sakargiftir í IV. kafla ákærunnar á hendur ákærðu Y og Z, sem nú eru til úrlausnar, snúa að þessum sömu atriðum í ársreikningunum fyrir 2006 og 2007. Þessi ákærðu eru á hinn bóginn sökuð sem áður segir í meginatriðum um að hafa hagað störfum sínum við endurskoðun þessara reikningsskila í ósamræmi við góða endurskoðunarvenju þegar þau árituðu reikningsskilin án athugasemda, þótt í þeim hafi verið fólgnar þessar rangfærslur. Í þessu ljósi þarf ekki nú að fjalla frekar um að efnahagsreikningarnir hafi verið rangfærðir á þennan hátt.

Það hefur áður verið rakið að í endurskoðunarfyrirmælum, sem ákærðu Y og Z settu sér og öðrum starfsmönnum KPMG endurskoðunar hf. í tengslum við endurskoðun á ársreikningi Milestone ehf. fyrir 2006 með því að árita þessi fyrirmæli 20. janúar 2007, voru mikilvægismörk í því verki ákveðin 100.000.000 krónur. Þar kom ítrekað fram að sú breyting hafi þá staðið yfir hjá Milestone ehf. að verið væri „að kaupa A út úr félaginu.“ Getið var um það sem áhættu að „starfandi stjórnarformaður félagsins“, ákærði X, væri „mjög domenerandi og allar stærri ákvarðanir fara í gegnum hann“, svo og að íhuga þyrfti „management override vegna hættu á Financial Statement level risk og skoða vel bókhaldsfærslur.“ Þá var tekið fram að við endurskoðun á reikningum varðandi útlán þyrfti að gæta að heild, tilvist og nákvæmni. Í skjölum, sem virðast hafa verið fyllt út við framkvæmd endurskoðunarinnar varðandi „aðrar kröfur“, kom sem fyrr segir fram að meðal þeirra væri „krafa á einn eigandann sem verið er að kaupa út, [A] ... 2.735 millj. kr.“ og var það síðan endurtekið á öðrum stað með þeirri viðbót að fenginn hafi verið „samningur vegna láns við A og hann borinn saman við ársreikning“, en þess var svo getið að „engar athugasemdir voru gerðar.“ Á yfirlitsblaði um samtölur kom síðan glöggt fram að 2.733.326.804 krónur af fjárhæð, sem hafi áður staðið í reikningslið með heitinu: „Biðreikningur ([A])“, hafi verið flutt yfir á reikningslið fyrir útlán.

Ársreikningur Milestone ehf. fyrir árið 2006 var eins og áður segir áritaður af ákærðu Y og Z 23. febrúar 2007. Eftir þann tíma gerðu þau endurskoðunarskýrslu, sem beint var til ákærða X sem stjórnarformanns félagsins, en fyrir liggur að hún var ranglega dagsett 2. mars 2007, enda sendi ákærða W drög að henni til ákærðu Y með tölvubréfi 13. maí sama ár og sendi sú síðarnefnda endurbætt drög til ákærða Z 22. sama mánaðar. Í fyrrnefndu drögunum sagði meðal annars eftirfarandi í lið varðandi útlán: „Sem útlán er færð krafa á [A] að fjárhæð 2.733 millj. kr. ... xxxxx fá samninginn um lánið við [A]. Til staðfestingar á útlánunum var samningur á milli [A] og Milestone skoðaður ... Niðurstaðan var fullnægjandi.“ Bæði í síðarnefndu drögunum og lokagerð skýrslunnar sagði eftirfarandi um þetta: „Meðal útlána er færð krafa á [A] að fjárhæð 2.733 millj. kr. ... Til staðfestingar á útlánunum var samningur milli [A] og félagsins yfirfarinn ... Niðurstaðan var fullnægjandi.“

Þetta efni endurskoðunarskýrslunnar verður að skoða með hliðsjón af því að ákærða W bar sem fyrr segir upp fyrirspurn við C í tölvubréfi 6. mars 2007, að liðnum tíu dögum eftir að ársreikningarnir fyrir 2006 höfðu verið áritaðir og samþykktir á aðalfundi Milestone ehf., um hvort búið væri „að gera samninginn um breytingu á kröfunni á [A] og færa hana á Milestone Ltd.“, sem C svaraði með því að ekki þyrfti nýjan samning, en „Z þekkir málið.“ Í tölvubréfi ákærðu W 27. sama mánaðar til D vísaði hún til þess að samkvæmt „C þá nær samningurinn við [A] sem á að breyta í Milestone Ltd. yfir breytinguna“, en hún vissi „hins vegar ekki alveg hvaða samningur þetta er við [A] .“ Spurði hún jafnframt hvort D vissi „vegna hvers krafan er sem er á [A] “, en hann svaraði á þann veg að C væri að ræða um samning „um kaup á henni út úr batteríinu.“ Eins og áður hefur verið rakið í einstökum atriðum leiddu þessar fyrirspurnir til þess að E var 2. apríl 2007 falið að gera texta samnings milli Milestone ehf. og Milestone Import Export Ltd. um lán að fjárhæð 2.733.326.804 krónur, sem hafði ekki enn verið undirritaður 15. maí sama ár, en barst loks til ákærðu W 23. þess mánaðar.

Af framansögðu verður ekki annað séð en að byggt hafi verið á því í vinnu við endurskoðun á ársreikningi Milestone ehf. fyrir 2006, sem ákærðu Y og Z árituðu 23. febrúar 2007, að fjárhæðin 2.733.326.804 krónur, sem myndaði hluta heildarfjárhæðar vegna útlána í efnahagsreikningi og fór margfalt upp fyrir mikilvægismörk við endurskoðunina, ætti rætur að rekja til kröfu á hendur A. Gögn um endurskoðunina bera einnig með sér að þessum ákærðu var kunnugt um að A hafi selt eða væri að selja eignarhlut sinn í Milestone ehf. og tengdum félögum. Svo sem margoft hefur komið fram hér áður var engin slík krafa á hendur A til og enn síður samningur um hana, en í gögnum um framkvæmd endurskoðunarinnar og í endurskoðunarskýrslu var þó allt að einu fullyrt að slíkur samningur hafi verið skoðaður. Hefðu þeir samningar, sem fyrir lágu og gerðir voru 4. desember 2005, í reynd verið skoðaðir hefði sést að færslurnar að baki þessari ætluðu kröfu væru komnar til vegna greiðslna, sem Milestone ehf. var á engan hátt skylt að inna af hendi og hafði ranglega verið látið bera. Hafi ákærðu Y og Z staðið í þeirri trú þegar þau árituðu ársreikninginn 23. febrúar 2007 að til væri krafa Milestone ehf. framangreindrar fjárhæðar á hendur A, sem þau hafa þá greinilega látið hjá líða að kanna frekar, var að minnsta kosti komið fram áður en þau undirrituðu endurskoðunarskýrsluna með dagsetningunni 2. mars sama ár að þessar greiðslur hafi verið inntar af hendi til að standa A skil á söluverði hlutabréfa hennar. Það hafi verið dulið í bókhaldsgögnum félagsins að baki ársreikningnum með því að klæða greiðslurnar í búning láns til Milestone Import Export Ltd., sem engin stoð var fyrir í raunverulegum viðskiptum. Hefðu ákærðu Y og Z kannað færslurnar að baki þessu efni reikningsskilanna og gögn sem áttu að geta stutt þær, hefði þeim ekki að getað dulist að þessar færslur voru haldlausar og gerðar í því skyni að slá ryki yfir að hér hafi verið um ólögmætt athæfi að ræða.

Af framangreindu er að auki ljóst að skjalfestar upplýsingar um bakgrunn þessa eignarliðar í efnahagsreikningi 31. desember 2006 lágu beinlínis fyrir í gögnum KPMG endurskoðunar hf. þegar ákærðu Y og Z árituðu 14. febrúar 2008 ársreikning Milestone ehf. fyrir árið 2007, en við endurskoðun hans höfðu þau ákveðið að mikilvægismörk yrðu 250.000.000 krónur. Þessi vitneskja fékk þó engu breytt um það að áðurnefndar 2.733.326.804 krónur voru ekki aðeins látnar standa aftur í þessum ársreikningi meðal krafna félagsins vegna lánveitinga, heldur var bætt þar við samanlagðri fjárhæð greiðslna af sama tilefni á árinu 2007, 2.462.395.055 krónum, undir þeim merkjum að þar væri einnig um að ræða lán Milestone ehf. til Milestone Import Export Ltd. Án tillits til þess hvenær texti samnings um þessa síðastgreindu lánveitingu, sem var dagsettur 31. desember 2007 og lögregla fann eins og áður segir við húsleit hjá KPMG endurskoðun hf., kann í raun að hafa verið festur á blað, er ljóst að á honum hefðu ákærðu Y og Z hvað sem öðru líður ekkert getað byggt við endurskoðun ársreikningsins fyrir 2007, enda var samningurinn ekki undirritaður af hálfu ætlaðs lántaka. Var því að öllu leyti ótækt að láta við færslu þessara verulegu fjárhæða sitja meðal eigna í efnahagsreikningi Milestone ehf. 31. desember 2007.

Þegar af þeim ástæðum, sem að framan greinir, hafa ákærðu Y og Z ótvírætt gerst sek um þá háttsemi, sem um ræðir í a. og b. lið IV. kafla ákæru, með því að haga ekki störfum sínum við endurskoðun ársreikninga Milestone ehf. fyrir árin 2006 og 2007 í samræmi við góða endurskoðunarvenju, en af þeirri vanrækslu þeirra leiddi að fyrrgreindar rangfærslur stóðu óátaldar í reikningsskilum félagsins, sem ákærðu höfðu áritað 23. febrúar 2007 og 14. febrúar 2008 með því inntaki sem greindi í 8. gr. laga nr. 18/1997. Þessi háttsemi þeirra er réttilega færð til refsiákvæða í ákæru, enda eru þessi brot þeirra meiri háttar í skilningi 120. gr. laga nr. 3/2006, sbr. 2. og 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Um þær sakir, sem færðar eru fram í c. lið þessa kafla ákærunnar, er á hinn bóginn engin þörf að fjalla frekar, enda verður ekki séð að þar sé efnislega að finna sjálfstæðar sakargiftir umfram þær, sem í raun eru fólgnar í fyrri stafliðunum tveimur.

VIII

Í V. kafla ákæru eru ákærðu W, Y og Z sem endurskoðendur í þjónustu KPMG endurskoðunar hf. sökuð um að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 18/1997 og nr. 79/2008 með því að rækja ekki endurskoðunarstörf sín fyrir Milestone ehf. eftir góðri endurskoðunarvenju og beita þar ekki viðurkenndum aðferðum eftir leiðbeinandi reglum alþjóðasamtaka endurskoðenda. Þetta hafi þau gerst sek um samkvæmt a. lið þessa kafla ákæru með því að hafa í sameiningu í maí 2007, eftir að lokið var endurskoðun ársreiknings Milestone ehf. fyrir árið 2006, bætt inn í svonefnda endurskoðunarmöppu lánssamningi milli þess félags og Milestone Import Export Ltd., sem hafi verið dagsettur 30. desember 2006 en í raun undirritaður í maí 2007. Hafi þau einnig bætt við efni nánar tilgreinds skjals, sem hafi þegar legið fyrir í endurskoðunarmöppu, tilvísun til þessa lánssamnings og breytt þannig skjalinu, en með þessu tvennu hafi ákærðu látið líta svo út að lánssamningurinn hafi legið fyrir við endurskoðun ársreikningsins. Í b. lið þessa kafla ákærunnar er sömu ákærðu gefið að sök að hafa í sameiningu síðla árs 2009, eftir að lokið var endurskoðun ársreiknings Milestone ehf. fyrir 2007 og bú félagsins hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta, bætt inn í endurskoðunarmöppu „tveimur mismunandi skjalaknippum“. Í öðru þeirra hafi verið að finna hreyfingarlista úr bókhaldi félagsins frá því í ágúst 2008, en ákærða W hafi með ljósritun afmáð færslur á listanum frá árinu 2008 og dagsetningu hans. Í staðinn hafi hún skrifað á þetta breytta skjal dagsetninguna 5. febrúar 2008 og sett þar aðra niðurstöðutölu. Þessu skjali hafi fylgt eintök af lánssamningunum milli Milestone ehf. og Milestone Import Export Ltd., sem hafi borið dagsetningarnar 30. desember 2006 og 31. desember 2007. Í hinu skjalaknippinu hafi verið að finna skjöl, sem hafi verið búin til haustið 2009. Þetta hafi nánar tiltekið verið tvö vinnuskjöl um samtöl ákærðu Y og Z við stjórnendur Milestone ehf. um lán félagsins til Milestone Import Export Ltd., annað þeirra miðað við árslok 2006 og hitt við lok ársins 2007. Hafi jafnframt verið breytt tilteknum hreyfingarlista úr bókhaldi Milestone ehf. frá 4. febrúar 2008 með því að bæta þar inn á tilvísun í þessi gögn. Með þessu hafi ákærðu ranglega látið líta svo út að könnun hafi farið fram á tilvist kröfu Milestone ehf. á hendur Milestone Import Export Ltd. við endurskoðun ársreikninga fyrrnefnda félagsins fyrir árin 2006 og 2007. Í ákæru er þessi háttsemi ákærðu W, Y og Z samkvæmt a. lið V. kafla talin varða við 2. mgr. 7. gr. og 8. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 18/1997, sbr. nú 1. mgr. 8. gr. og 9. gr., sbr. 1. mgr. 28. gr. og ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 79/2008. Háttsemi samkvæmt b. lið V. kafla er á hinn bóginn talin varða við síðastgreind ákvæði laga nr. 79/2008.

Í umfjöllun um IV. kafla ákæru var lýst efni framangreindra ákvæða laga nr. 18/1997 og nr. 79/2008 að öðru leyti en því að ekki var þar vikið að efni 2. mgr. 7. gr. fyrrnefndu laganna og 1. mgr. 8. gr. þeirra síðarnefndu, sem er á sama veg um að endurskoðendur skuli rækja störf sín af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og fylgja ákvæðum þeirra laga og reglna sem gilda um störf þeirra.

Eins og sakargiftum samkvæmt V. kafla ákæru er lýst eiga ætluð brot ákærðu W, Y og Z, sem þar er rætt um, að hafa verið fólgin í því að þau hafi á árunum 2007 og 2009 með tilteknum hætti ýmist bætt nýjum gögnum inn í svonefnda endurskoðunarmöppu vegna endurskoðunar á ársreikningum Milestone ehf. eða breytt gögnum, sem þar hafi verið fyrir. Reglur um meðferð gagna um endurskoðun og bann við háttsemi sem þessari var hvorki að finna berum orðum í lögum nr. 18/1997 né verða þær nú fundnar í lögum nr. 79/2008. Þótt vera kunni að háttalag af þessum toga stríði gegn góðri endurskoðunarvenju og skyldu endurskoðanda til að rækja starf sitt af kostgæfni og samviskusemi er ekki unnt að líta svo á að með því verði fundin í fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 18/1997 og nr. 79/2008 tæk heimild til að leggja á refsingu fyrir það. Í þeim efnum er enn síður fært að byggja á ótilgreindum leiðbeinandi reglum alþjóðasamtaka endurskoðenda. Sakargiftirnar, sem hér um ræðir, lúta í raun að veikburða viðleitni ákærðu W, Y og Z til að dylja brot samkvæmt IV. kafla ákærunnar. Þótt það hafi verið gert að nokkru með bersýnilega rangfærðum eða tilbúnum gögnum getur sú háttsemi ekki varðað við þau lagaákvæði, sem ákæruvaldið heimfærir hana til í V. kafla ákæru, en þar eru þessi ákærðu ekki sökuð um að hafa brotið með þessu gegn ákvæðum XVII. kafla almennra hegningarlaga. Verður að þessu virtu að staðfesta ákvæði hins áfrýjaða dóms um sýknu ákærðu W, Y og Z af sakargiftum í V. kafla ákærunnar.

IX

Samkvæmt framangreindu eru ákærðu X, V og U allir sakfelldir fyrir brot, sem þeim voru gefin að sök í fyrstu þremur köflum ákæru, en ákærði V þó þannig að brot hans, sem um ræðir í fyrsta kaflanum, telst hlutdeild í broti gegn 249. gr. almennra hegningarlaga. Þá eru ákærðu Y og Z sakfelld fyrir þá háttsemi, sem a. og b. liðir IV. kafla ákæru tóku til, en á hinn bóginn sýknuð af sökum samkvæmt V. kafla hennar. Ákærða W er jafnframt sýknuð af sakargiftum eftir síðastnefndum kafla ákærunnar og þar með af kröfum ákæruvaldsins á hendur henni.

Við ákvörðun refsingar ákærðu X, V og U er til þess að líta að brot þeirra samkvæmt I. kafla ákæru snerust um mjög háar fjárhæðir, sem lánardrottnar Milestone ehf. fóru þegar upp var staðið á mis við að fá notið til greiðslu krafna sinna. Brot þessi voru skipulögð og drýgð í samverknaði af óskammfeilni. Fyrir ákærðu X og V voru stórfelldir fjárhagslegir hagsmunir tengdir broti samkvæmt I. kafla ákærunnar, en í því telst sá síðarnefndi þó sem fyrr segir hafa verið hlutdeildarmaður. Beinan ábata hafði ákærði U á hinn bóginn ekki af því broti. Brot ákærðu samkvæmt II. og III. kafla ákæru vörðuðu jafnframt háar fjárhæðir og voru stórfelld bæði af þeirri ástæðu og vegna aðferða sem beitt var. Þessir ákærðu eiga sér engar málsbætur, en þeir hafa ekki áður sætt refsingu. Að þessu virtu og með tilliti til þess að þáttur þessara ákærðu í brotunum er misjafn er refsing ákærða X ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði, refsing ákærða U fangelsi í þrjú ár og refsing ákærða V fangelsi í tvö ár.

Við ákvörðun refsingar ákærðu Y og Z er þess að gæta að þau hafa gerst sek um stórfellda vanrækslu í starfi, sem þarf löggildingu úr hendi stjórnvalda til að rækja og hefur verulega víðtæk áhrif á mikilvæga hagsmuni einkaaðila og hins opinbera. Þau eiga sér engar málsbætur vegna brota sinna, en ekki hafa þau áður sætt refsingu. Verður þeim hvoru um sig gert að sæta fangelsi í níu mánuði, en sú refsing verður bundin skilorði svo sem í dómsorði greinir. Með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 79/2008, sbr. áður 20. gr. laga nr. 18/1997, hefur af hálfu ákæruvaldsins verið krafist að ákærðu Y og Z verði svipt löggildingu til endurskoðunarstarfa, sbr. og 2. mgr. 68. gr. almennra hegningarlaga. Þótt ekki liggi annað fyrir en að þessi ákærðu hafi frá því að þau frömdu brotin, sem þau eru hér sakfelld fyrir, starfað óáreitt áfram í fjölda ára í skjóli þessara starfsréttinda sinna eru brot þeirra með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að verða við kröfu ákæruvaldsins í þessu efni. Verður réttindasvipting ákærðu Y og Z þó tímabundin á þann hátt sem segir í dómsorði.

Um sakarkostnað í héraði og fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir, en málsvarnarlaun verjenda ákærðu eru ákveðin þar að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dómsorð:

Ákærði X sæti fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Ákærði V sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði U sæti fangelsi í þrjú ár.

Ákærða Y og Z sæti hvort um sig fangelsi í níu mánuði, en fullnustu þeirrar refsingar skal frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms haldi þau hvort fyrir sitt leyti almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærðu Y og Z eru hvort um sig svipt löggildingu til endurskoðunarstarfa í sex mánuði frá uppsögu þessa dóms.

Ákvæði héraðsdóms um sýknu ákærðu W af kröfum ákæruvaldsins er staðfest.

Ákærðu X, V, U, Y og Z greiði hvert um sig í sakarkostnað í héraði sömu fjárhæð og þá, sem verjanda hvers þeirra var með hinum áfrýjaða dómi ákveðin í málsvarnarlaun. Þá greiði þau hvert um sig áfrýjunarkostnað í málinu sem hér segir: Ákærði X 3.100.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Ólafs Eiríkssonar hæstaréttarlögmanns, ákærði V 2.480.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, ákærði U 3.100.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Ragnars Tómasar Árnasonar hæstaréttarlögmanns, ákærða Y 2.480.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hennar, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, og ákærði Z 2.480.000 krónur, sem eru málsvarnarlaun verjanda hans, Ragnars Halldórs Hall hæstaréttarlögmanns. Annan áfrýjunarkostnað, samtals 643.183 krónur, greiði þessi ákærðu óskipt.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað ákærðu W skal vera óraskað. Úr ríkissjóði skal greiða málsvarnarlaun verjanda hennar fyrir Hæstarétti, Gísla Guðna Hall hæstaréttarlögmanns, 2.480.000 krónur.