Print

Mál nr. 133/2006

Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Þjóðlenda
  • Afréttur
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. október 2006.

Nr. 133/2006.

Prestssetrasjóður

(Ólafur Björnsson hrl.                            

 Jón G. Valgeirsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.

 Jón Sigurðsson hdl.)

 

Eignarréttur. Fasteign. Þjóðlenda. Afréttur. Gjafsókn.

Með úrskurði 21. mars 2002, þar sem fjallað var um mörk þjóðlendna og eignarlanda í Hrunamannaafrétti og efstu löndum í Hrunamannahreppi, komst óbyggðanefnd meðal annars að þeirri niðurstöðu að Hrunaheiðar væru þjóðlenda, en afréttareign eigenda jarðarinnar Hruna. P krafðist þess að úrskurður nefndarinnar um landsvæðið yrði felldur úr gildi og reisti þá kröfu einkum á landamerkjabréfi fyrir Hrunakirkjujarðir frá 12. maí 1885. Í landamerkjabréfinu var sérstaklega tekið fram að kirkjan ætti Hrunaheiðar, en þau ummæli höfðu verið færð á bréfið af umráðamanni jarðarinnar neðan við undirskriftir þeirra sem höfðu áritað það um samþykki vegna aðliggjandi jarða. Af þessum sökum var ekki talið að bréfið gæti verið til marks um að eigendur þessara jarða hefðu ekki haft athugasemdir við tilkall kirkjunnar til Hrunaheiða, auk þess sem líta yrði til þess að ekki væri á valdi umráðamanns jarðarinnar að auka með bréfinu við land hennar eða annan rétt umfram það sem áður hefði verið. Var samkvæmt því ekki talið að landamerkjabréfið gæti eitt og sér nægt gegn andmælum Í til að sanna beinan eignarrétt P að landsvæðinu. Engar sögulegar heimildir voru um hvort landið, sem nú telst til Hrunaheiða, hefði við lok landnámstíma talist til eignarlands tiltekinnar jarðar eða jarða. Tekið var fram að samkvæmt máldaga Maríukirkju í Hruna, sem talinn var frá 1331, hafði eigandi Hörgsholts gefið henni Laxárgljúfur öll norður frá Kaldbakslandi og voru þau orð endurtekin í máldögum og vísitasíubókum biskupa sem á eftir komu. Ekki var talið unnt að draga haldbæra ályktun af þessu um að gjöfin hefði tekið til annars en gljúfranna sem slíkra með þeim hlunnindum sem í þeim voru fólgin, enda hefði svæðinu sem nú telst innan merkja Hrunaheiða vart verið lýst á þennan hátt. Að undanskildu landamerkjabréfi Hrunakirkjujarða var yngri heimildum almennt sammerkt að rætt var þar ýmist um ítaksréttindi Hrunakirkju í Laxárgljúfrum eða beitarréttindi á heiði. Þegar alls þessa var gætt var ekki talið að heimildir stæðu til þess að telja Hrunaheiðar til eignarlands P, en eins og afnotum landsins hefði verið háttað og umráðum yfir því gæti hann ekki hafa unnið eignarrétt að því fyrir hefð. Samkvæmt því og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms var niðurstaða hans um sýknu Í staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. mars 2006. Hann krefst þess að úrskurður óbyggðanefndar 21. mars 2002 í máli nr. 5/2000, Hrunamannaafréttur og efstu lönd í Hrunamannahreppi, verði felldur úr gildi að því leyti, sem þar var ákveðið að Hrunaheiðar með nánar tilgreindum merkjum sé þjóðlenda, og viðurkennt að enga þjóðlendu sé að finna á því landsvæði. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur gengu á vettvang 26. september 2006.

I.

Óbyggðanefnd, sem starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, gaf út tilkynningu 1. mars 1999 um að hún hefði ákveðið að taka til meðferðar landsvæði, sem afmarkað var til vesturs af mörkum Árnessýslu og Borgarfjarðarsýslu, svo og vestur- og suðurmörkum Þingvallalands, til austurs af Þjórsá og til norðurs af Hofsjökli og Langjökli, en milli þeirra af mörkum afréttar Biskupstungnahrepps og Auðkúluheiðar. Til suðurs réðst svæðið af suðurmörkum jarða, sem liggja að hálendi. Eftir að nefndinni höfðu borist kröfur stefnda um þjóðlendur á svæðinu ásamt kröfum þeirra, sem töldu til eignarréttinda yfir landi þar, ákvað hún í janúar 2000 að fjalla um það í sjö aðskildum málum. Eitt þeirra varð áðurnefnt mál nr. 5/2000. Svæðið, sem þar var til úrlausnar, var afmarkað að vestan af Hvítá og Jökulfalli að Blánípu í Hofsjökli, að norðan af jöklinum og að austan af Stóru-Laxá norður að Laxárdrögum, en þaðan af beinni línu um nyrðra Rjúpnafell að jöklinum. Að sunnan réðist svæðið af suðurmörkum nánar tilgreindra jarða.

Fyrir óbyggðanefnd gerði stefndi kröfu um að mörk þjóðlendu og eignarlanda á svæðinu yrðu dregin á nánar tiltekinn hátt úr vestri frá þeim stað, þar sem afréttargirðing á suðurjaðri Hrunamannaafréttar kemur að Hvítá, gegnum land innan merkja svokallaðrar Tungufellstorfu, en til hennar heyra jarðirnar Tungufell, Jaðar I eða Hamarsholt og Jaðar II. Þaðan yrði haldið í austur um land innan merkja jarðanna Hlíðar, Foss, Klufta og Kaldbaks að Stóru-Laxá við Hestabrekkur. Með þessu krafðist stefndi þess að hluti lands innan merkja þessara jarða að norðanverðu væri þjóðlenda, auk alls lands eyðijarðarinnar Hrunakróks ásamt Hrunaheiðum í heild og Hrunamannaafrétti. Að því er Hrunaheiðar varðar stóð til andsvara áfrýjandi, sem taldi þær heyra til eignarlands jarðarinnar Hruna. Óumdeilt er að merki Hrunaheiða séu að norðaustan frá þeim stað, þar sem Heiðará rennur í Stóru-Laxá, síðan eftir þeirri á til suðurs þar til Stiggil kemur að henni. Þaðan liggja merki á móti Hrunakróki í beinni línu vestur að vörðu við Vestri-Þverá og svo til suðurs eftir þeirri á þar til komið er að norðurmerkjum Kaldbaks, þar sem þau liggja ofan við Þverárgljúfur að Einbúa. Merki Kaldbaks ráða þaðan í vestur að Einbúa og síðan áfram í beinni línu að Kluftaá í stefnu að vörðu á Vörðuhól framan á Borgardalsás. Frá þeim stað ráða merki við Kluftir eftir Kluftaá til norðurs að norðausturhorni Launvatns og þaðan í beinni línu í vestur um vörðu á Moshól að Litlu-Laxá. Þar taka við merki við Foss norður eftir síðastnefndri á þangað sem Brúnkollugil kemur að henni, en þaðan í beinni línu til vesturs um Gráhól að Fossá. Frá þeim stað ræður Fossá merkjum við Tungufell norður að vörðu í Fossárdrögum, en þaðan sjónhending í vörðu við Melrakkaá framan við Stóraversöldu. Loks eru norðurmörk Hrunaheiða gegnt Hrunamannaafrétti frá síðastnefndum stað að upptökum Heiðarár og síðan eftir henni þar til hún rennur í Stóru-Laxá.

Í úrskurði óbyggðanefndar 21. mars 2002 var komist að þeirri niðurstöðu að Hrunaheiðar með fyrrnefndum merkjum og Hrunamannaafréttur allur væru þjóðlendur, en að öðru leyti væri land á svæðinu, sem málið tók til, innan eignarlands jarðanna, sem áður voru taldar. Skyldu Hrunaheiðar teljast í afréttareign eigenda Hruna og Hrunamannaafréttur jafnframt afréttareign Hrunamannahrepps, sbr. 5. gr. og c. lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Áfrýjandi undi ekki úrskurðinum að því er varðar niðurstöðu hans um Hrunaheiðar og höfðaði mál þetta 25. október 2002.

II.

Í Landnámabók er greint frá því að Bröndólfur og Már, synir Naddodds og Jórunnar Ölvisdóttur barnakarls, hafi numið Hrunamannahrepp svo vítt, sem vötn deila, og hafi sá fyrrnefndi búið að Berghyl. Þorbjörn jarlakappi hafi síðan keypt land af Mávi Naddoddssyni fyrir neðan Selslæk á milli Laxár og búið að Hólum. Jafnframt er sagt frá því að Þorbrandur Þorbjarnarson hins óarga og Ásbrandur sonur hans hafi síðla landnámstíðar fengið land í Haukadal úr námi Ketilbjörns, en farið þaðan og numið efri hluta Hrunamannahrepps frá merkjum í sjónhending úr Múla í Ingjaldsgnúp. Jörðin Berghylur er enn til, en talið er að Hólar hafi verið sama jörð og nú nefnist Hrepphólar. Nánari staðsetning og mörk þessara landnámssvæða hafa að öðru leyti þótt óljós, en sú ályktun mun þó almennt hafa verið dregin af Landnámabók að landnám í Hrunamannahreppi hafi náð langt inn til landsins og jafnvel lengra en víða annars staðar.

Jarðarinnar Hruna mun fyrst vera getið í heimildum frá 12. öld, en getum hefur verið leitt að því að hann hafi verið býli þegar á 10. öld og þá sennilega í eigu þess, sem átti jörðina Hörgsholt. Talið hefur verið að kirkja hafi verið reist í Hruna á 11. öld og jörðin verið orðinn kirkjustaður fyrir árið 1180. Í máldaga Maríukirkju í Hruna, sem talinn er frá 1331, var því lýst að hún ætti heimaland allt, svo og „kaldbak oc þorarinzstadi til forsia.“ Í niðurlagi máldagans, eftir að talin höfðu verið margvísleg ítaksréttindi kirkjunnar og gerð grein fyrir lausafé hennar, sagði eftirfarandi: „þetta gaf þorarinn rolfsson til runa stadar þa er hann atti horshollt laxar gliufur oll nordur frä kalldbakzlandi. skal sa þo er j horkzhollte byr fa ij. menn til safnnz um kall bakzheidar med runamonnum huertt haust thil allra logretta.“ Í Vilkinsmáldaga frá 1397 og Gíslamáldögum frá því um 1570 var greint efnislega á sama veg frá jarðeignum Hrunakirkju, svo og gjöf til hennar frá Þórarni Hrólfssyni í Hörgsholti. Það var einnig gert í vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar 1644, svo og í vísitasíubókum biskupanna Finns Jónssonar 1756 og Steingríms Jónssonar 1820, þar sem ekki var þó getið um að kirkjan hefði hlotið þetta að gjöf. Í skrá um eignir Hrunakirkju, sem presturinn þar gerði 5. júní 1839, sagði meðal annars eftirfarandi í lið um ítök og hlunnindi prestakallsins: „Laxárgljúfur: Af þeim hefur staðurinn þau not, að Hrunakrókur er bygður þar.“ Í sóknarlýsingu sama prests frá 1840 var hermt að afréttarlönd sóknarmanna væru almenningar „að fráteknum Hrunaheiðum, er liggja til Hrunastaðar“, en þær væru bak við Kaldbaksfjall og vestur að Litlu-Laxá, en Heiðará skildi þær frá afrétti. Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, mun þetta vera elsta heimildin, þar sem Hrunaheiðar eru sérstaklega nefndar meðal þess, sem eigandi Hruna telji til réttinda yfir. Hvorki var vikið að heiðunum eða gljúfrunum, sem að þeim liggja til austurs, í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín né jarðamati frá 1803. Það var heldur ekki gert í Jarðatali á Íslandi frá 1847 að öðru leyti en því að þess var getið að Hruni ætti ítak í Laxárgljúfrum, sem nýtt væri frá Hrunakróki. Í úrskurði óbyggðanefndar er þess getið að í úttektum prófasta frá 1905, 1930, 1941, 1944 og 1954 hafi Laxárgljúfur verið talin með ítökum Hrunakirkju, auk þess sem greint hafi verið í úttektinni 1930 undir lið um hlunnindi og ítök frá því að jörðin ætti beit í Laxárgljúfrum og „afréttarlandið Hrunaheiðar“, en gögn um þessar úttektir liggja ekki fyrir í málinu. Í mati á afgjaldi prestssetursins í Hruna 6. mars 1909 var hvorki vikið að Laxárgljúfrum né Hrunaheiðum. Ekki er að sjá að það hafi heldur verið gert í fasteignamati frá árinu 1916, en í gögnum varðandi undirbúning fasteignamats frá árinu 1922 var rætt um að ótiltekið „heiðarland“ fylgi jörðinni, frá árinu 1932 að „sérstakt upprekstrarland“ fylgi henni og sé aðeins notað fyrir heimafé og frá árinu 1942 að jörðinni fylgi „sérstök not“ af Hrunaheiðum.

Landamerkjabréf var gert fyrir Hrunakirkjujarðir 12. maí 1885, þar sem lýst var merkjum Hruna, Kaldbaks, Klufta, Hrunakróks, Hildarsels, Berghyls, Þórarinsstaða og Reykjadals, en auk sóknarprestsins í Hruna, sem þar var ábúandi, árituðu umráðamenn átta aðliggjandi jarða bréfið um samþykki sitt. Neðan við þessar áritanir gerði sóknarpresturinn viðbót við bréfið, þar sem sagði meðal annars: „En fremur á Hrunakirkja Hrunaheiðar, sem liggja milli afréttar og heimalanda, austan frá Stórulaxá norður að Heiðaá og Melrakkaá í upptökum þeirra beggja, og vestur að Fossá fyrir vestan Laxárklettsmýrar, allt fram að Gráhól.“ Í framhaldi af þessu var greint frá skógarítökum og beitarítökum kirkjunnar í landi annarra jarða.

Áfrýjandi reisir kröfur sínar í málinu einkum á þessu landamerkjabréfi. Hann telur það jafnframt eiga stoð í eldri heimildum um eignarrétt Hrunakirkju að Laxárgljúfrum og þar með jafnframt Hrunaheiðum allt aftur til fyrrnefndra máldaga og vísitasíubókar, þar sem getið var um gjöf Þórarins Hrólfssonar í Hörgsholti til kirkjunnar.

III.

Af þinglýsingarvottorði sýslumannsins á Selfossi, sem liggur fyrir í málinu, verður ekki ráðið að til sé þinglýst eignarheimild að jörðinni Hruna, en þess er þar getið að hún sé „ríkisjörð“. Samkvæmt 62. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar eru kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir, sem þeim fylgja, eign stefnda, að frátöldum prestssetrum og því, sem þeim fylgir. Í 1. gr. laga nr. 137/1993 um prestssetur er það hugtak skýrt þannig að það sé lögboðinn aðsetursstaður prests, en til prestssetra teljist meðal annars prestssetursjarðir. Óumdeilt er í málinu að Hruni sé aðsetursstaður prests og teljist þannig til prestssetra í þessum skilningi. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 137/1993 fer stjórn áfrýjanda með yfirstjórn prestssetra og hefur fyrirsvar þeirra vegna. Þótt hvorki séu í þessum lögum né í lögum nr. 78/1997 bein fyrirmæli, sem taka af tvímæli um eignarrétt að prestssetrum, verður að líta svo á að áfrýjandi hafi í skjóli þess ákvæðis, sem síðast var vísað til, það lögbundna forræði yfir prestssetrum að hann geti átt aðild að dómsmálum, sem þau varða, án tillits til þess hvort stefndi sé þar gagnaðili eða aðrir.

IV.

Landsvæðið, sem deilt er um í málinu, er að mestu í 400-500 m hæð yfir sjávarmáli. Það er nokkuð vel gróið, þótt jarðvegsrof sé víða. Í málinu eru hvorki heimildir um að byggð hafi verið á landinu né að það hafi fyrr eða síðar verið til annarra nota en sumarbeitar fyrir búfénað, ef frá er talin veiði í Stóru-Laxá í gljúfrum á austurmörkum þess. Mun landið ekki hafa verið girt af að öðru leyti en því að þvert yfir nyrsta hluta þess hefur verið reist afréttargirðing að mótum Heiðarár og Stóru-Laxár. Inn á landið mun lengi hafa gengið búfénaður af öðrum jörðum, en frá Hruna mun það lítið sem ekkert hafa verið nýtt um langan tíma. Landið er skilið frá heimalandi Hruna af allmörgum jörðum og voru sumar þeirra áður í eigu Hrunakirkju, svo sem Kluftir, Kaldbakur, Hrunakrókur, Þórarinsstaðir og Berghylur, en aðrar virðast af gögnum málsins ekki hafa verið það, svo sem Hörgsholt og Þverspyrna.

Í fyrrnefndu landamerkjabréfi fyrir Hrunakirkjujarðir frá 12. maí 1885 var sérstaklega tekið fram að kirkjan ætti Hrunaheiðar. Eins og áður var getið voru ummæli, sem að þessu lutu, færð á bréfið af umráðamanni jarðarinnar neðan við undirskriftir þeirra, sem árituðu það um samþykki vegna aðliggjandi jarða. Af þessum sökum getur bréfið ekki verið haft til marks um að eigendur þessara jarða hafi ekkert haft við tilkall kirkjunnar til Hrunaheiða að athuga. Án tillits til þessa er að auki til þess að líta að ekki var á valdi umráðamanns jarðarinnar að auka með bréfinu við land hennar eða annan rétt umfram það, sem áður hafði verið. Getur landamerkjabréf þetta því ekki eitt og sér nægt gegn andmælum stefnda til að sanna beinan eignarrétt áfrýjanda að Hrunaheiðum, heldur verða önnur atriði jafnframt að koma til, sem stutt geta sömu niðurstöðu, sbr. dóm Hæstaréttar 21. október 2004 í máli nr. 48/2004, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 3796.

Í málinu eru engar sögulegar heimildir um hvort landið, sem nú telst til Hrunaheiða, hafi við lok landnámstíma talist til eignarlands tiltekinnar jarðar, einnar eða fleiri. Samkvæmt fyrrnefndum máldaga Maríukirkju í Hruna, sem talinn er frá 1331, hafði eigandi Hörgsholts gefið henni fyrir þann tíma Laxárgljúfur öll norður frá Kaldbakslandi. Af orðum máldagans um þetta, sem efnislega voru endurtekin í máldögum 1397 og um 1570 og enn eftir það í vísitasíubókum biskupa, verður engin haldbær ályktun dregin um að gjöfin hafi tekið til annars en gljúfranna sem slíkra með þeim hlunnindum, sem í þeim voru fólgin. Verður í þessu sambandi ekki horft fram hjá því að vart hefði verið lýst á þennan hátt svæðinu, sem nú telst innan merkja Hrunaheiða, því þótt það fylgi vissulega Laxárgljúfrum að austan á um 8 km löngu bili, þá nær það þaðan um 3 til 4 km inn til landsins til vesturs, og frá þeim stað, sem merkin hætta að ráðast af Stóru-Laxá við mót hennar og Heiðarár, nær svæðið enn um 4 km til norðurs. Auk þess, sem hér um ræðir, var í máldaganum frá 1331 og þeim heimildum, sem á eftir fylgdu, einnig getið um að ábúanda Hörgsholts bæri að leggja Hrunamönnum til tvo menn á hverju hausti til að smala Kaldbaksheiðar. Síðastnefnt örnefni er ekki lengur þekkt, en án tillits til þess hvað kunni að hafa verið átt við með því verður ekki litið svo á að ummæli um þessa skuldbindingu geti hafa falið í sér gjöf á landinu, sem nú er kennt við Hrunaheiðar.

Að því frágengnu, sem að framan er getið, liggja ekki fyrir eldri heimildir en frá árinu 1840, þar sem vikið er að réttindum Hrunakirkju yfir Hrunaheiðum. Ef undan er skilið landamerkjabréf Hrunakirkjujarða frá 1885 er yngri heimildum, sem áður er getið, almennt sammerkt að rætt var þar ýmist um ítaksréttindi Hrunakirkju í Laxárgljúfrum eða beitarréttindi á heiði. Þegar alls þessa er gætt verður ekki litið svo á að heimildir standi til þess að telja Hrunaheiðar til eignarlands áfrýjanda, en eins og afnotum landsins hefur verið háttað og umráðum yfir því getur hann ekki hafa unnið eignarrétt að því fyrir hefð. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður niðurstaða hans staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Prestssetrasjóðs, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. desember 2005.

Mál þetta var tekið til dóms 8. desember 2005.

Stefnandi er Prestsetrasjóður, Laugavegi 31, Reykjavík.

Stefndi er fjármálaráðherra f.h. íslenska ríkisins.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru:

„Að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar í máli nr. 5/2000, ‘Hrunamannaafréttur og efstu lönd í Hrunamannahreppi,’ dags. 21. mars 2002, að því leyti að ‘Hrunaheiðar’ Hrunamannahreppi, svo sem það landsvæði er nánar afmarkað í úrskurði, teljist þjóðlenda.

Þess er krafist að enga þjóðlendu sé að finna á umræddu landssvæði sem nánar er afmarkað með eftirtöldum orðum í úrskurðinum bls. 226-227, sbr. landamerkjabréf Hrunakirkjujarða dags. 12. maí 1885, og meðfylgjandi uppdrátt:

Frá mörkum Hrunamannaafréttar og Hrunaheiða þar sem Heiðará kemur í Stóru-Laxá og eftir Stóru-Laxá þar til Stiggil fellur í hana við norðausturmörk Hrunakróks. Þaðan bein lína vestur að Vestri-Þverá, í vörðu sem við hana stendur. Síðan ræður Þverá niður að norðurmerkjum Kaldbaks þar sem þau liggja frá því fyrir ofan Þverárgljúfur að Einbúa. Frá þeim stað þar sem Þverá sker norðurmörk Kaldbaks ráða þau í vestur að Einbúa og þaðan beina línu vestur í Kluftaá í stefnu í vörðu á Vörðuhól framan á Borgardalsás. Eftir Kluftaá og síðan úr ánni í norðausturhorn Launvatns og þaðan beina línu í vörðu á Moshól. Úr Moshól í Litlu-Laxá, sem er á austurmörkum Foss, síðan eftir Litlu-Laxá þangað sem Brunnkollugil rennur í hana. Þaðan beina stefnu í Gráhól og í Fossá í austurmörkum Tungufells. Eftir Fossá að Vörðu í Fossárdrögum, þaðan sjónhending í vörðu við Melrakkaá framan við Stóraversöldu og í upptök Heiðarár. Síðan eftir Heiðará þar til hún kemur í Stóru-Laxá.

Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu vegna máls þessa, samkvæmt málskostnaðarreikningi“.

Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda auk málskostnaðar að mati réttarins.

Málavextir

Með auglýsingu er birtist 5. mars 1999 í Lögbirtingablaðinu var skorað á eigendur jarða og afrétta í uppsveitum Árnessýslu að lýsa kröfum sínum til lands fyrir óbyggðanefnd, auk þess að gera grein fyrir landamerkjum jarða, með vísan til laga nr. 58/1998. Hinn 21. mars 2002 var kveðinn upp úrskurður hjá óbyggðanefnd í máli nr. 5/2000 um þjóðlendumörk í Hrunamannahreppi. Varðaði úrskurðurinn Hrunamannaafrétt, Hrunaheiði og efstu jarðir í Hrunamannahreppi. Óbyggðanefnd úrskurðaði Hrunamannaafrétt og Hrunaheiði þjóðlendur og staðfesti þjóðlendumörk við landamerki efstu jarða í hreppnum. Hrunaheiðar voru hins vegar úrskurðaðar afréttareign stefnanda. Stefnandi féllst ekki á þessa niðurstöðu óbyggðanefndar að því er varðar Hrunaheiðar.

Stefnandi byggir á því að Hrunaheiðar, sem áður hafi heitið Kaldbaksheiðar, hafi fallið til Hrunastaðar með gjöf frá eiganda Hörgholts og vísar þar um til elsta máldaga Hrunakirkju frá 1331 og til Gíslamáldaga frá 1570. Telur hann landið allt liggja innan upphaflegs landnáms og vera heimaland í þeim skilningi sem heimamenn leggi í það orð. Einnig er m.a. vísað til nýtingar landsins, skattgreiðslna og hefðar.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að mikill vafi leiki á um það að nokkurn tíma hafi komist á beinn eignarréttur að þessu landsvæði og séu engar heimildir um að það hafi verið þannig nýtt. Landkostir, víðátta og gróðurfar, auk legu landsins yfir sjó mæli einnig gegn því að um eignarland sé að ræða. Viðurkennt er að landið sé afréttareign jarðarinnar Hruna.

Málsástæður stefnanda

Stefnandi bendir á að tilgangur Alþingis með setningu laga nr. 58/1998 um þjóðlendur hafi verið að kanna og skera úr um hvaða land teldist til þjóðlendna og hver væru mörk þeirra og eignarlanda, en ekki að að hrófla við þinglýstum eignarlöndum.

Jörðin Hruni hafi verið kirkjustaður allt frá Sturlungaöld, og sé elsti máldagi Hrunakirkju frá 1331. Þar komi fram að Hrunaheiðar hafi fallið til Hrunastaðar með gjöf frá þáverandi eiganda Hörgsholts, Þórarni Hrólfssyni. Um þetta er einnig vísað til Vilkinsmáldaga 1397 og Gíslamáldaga 1570 og vísitasíubóka biskupanna Brynjólfs Sveinssonar 1644, Finns Jónssonar 1756, Steingríms Jónssonar 1829 og Péturs Péturssonar 1874. Í sóknarlýsingum Jóns Steingrímssonar frá 1840 komi fram að landsvæðið liggi sunnan Hrunamannaafréttar.

Stefnandi kveður hefðbundinn búskap hafa verið stundaðan í Hruna af Hrunaprestum í gegnum aldirnar allt fram á þennan dag, og hafi heiðarnar jafnan verið nýttar af Hrunaprestum. Hin síðari ár hafi Hrunamannahreppur haft umráð landsins og í raun haft stöðu ábúanda á þessu svæði. Varðandi upphaf Hrunastaðar vísar stefnandi til greinar um sögu Hruna eftir Helga Þorláksson sagnfræðing í ritinu Árnesingi V, 1998, bls. 9-72 útg. Sögufélag Árnesinga. Við munnlegan málflutning vísaði stefnandi einnig til fleiri heimilda um sögu Hrunamannahrepps, meðal annars greinargerðar eftir Sigurjón Helgason, verkfræðing, en í grein Helga Þorlákssonar er fjallað um grein sem Sigurjón Helgason skrifaði um Hrunakrók í ritið Árnesing I, 1990, bls. 25-42.

Stefnandi telur bæði formlega og efnislega ágalla vera á úrskurði óbyggðanefndar sem leiði til þess að hann beri að fella úr gildi.

Að því er form úrskurðarins varðar byggir stefnandi á því að meginreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotnar. Nefnir hann til meðalhófs- og jafnræðisregluna og auk þess skorti á að rökstuðningur fyrir niðurstöðu nefndarinnar sé fullnægjandi.

Að því er varðar þá fullyrðingu að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglunni vísar stefnandi til þess að einungis eigendalaust svæði skuli teljast til þjóðlendna samkvæmt þjóðlendulögum. Allt land sem sé undirorpið eignarrétti á grundvelli þinglýstra eignaheimilda falli þar utan. Stefnandi hafi landamerkjabréf fyrir Hrunaheiðum sem þinglýst hafi verið án athugasemda. Líta verði til þess að ríkið geti ætíð tryggt, á grundvelli náttúruverndar, skipulags- og byggingarlaga, auk annarra sérlaga, að meðferð eignarlands sé með þeim hætti að land spillist ekki, og sé almenningi til umferðar og afnota eftir því sem almenn lög heimili á hverjum tíma.

Telur stefnandi með vísan til þessa að óbyggðanefnd hafi brotið meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar þegar hún hafi úrskurðað land Hrunaheiða þjóðlendu.

Þá fullyrðingu að ákvörðun óbyggðanefndar brjóti í bága við meginreglu stjórnsýsluréttar og stjórnarskrár um jafnræði borgaranna rökstyður stefnandi með eftirfarandi hætti.

Allir sem hafi undir höndum athugasemdalausa eignarheimild eigi að sitja við sama borð. Stefnandi hafi um 700 ára gamalt gjafaafsal fyrir landssvæðinu. Ákvörðun óbyggðanefndar sé illa unnin og illa ígrunduð og brjóti gróflega á rétti stefnanda til að fá sömu meðhöndlun og aðrir aðilar í sömu stöðu og hann. Þá hafi jafnræðisreglna ekki verið gætt þar sem sambærilegt land hafi af hálfu ríkisins verið viðurkennt sem eignarland, til dæmis Tunguheiði í Biskupstungum og Hellisheiði.

Stefnandi byggir ennfremur á því að í úrskurði óbyggðanefndar skorti fullnægjandi rökstuðning fyrir niðurstöðu nefndarinnar og fari úrskurðurinn því gegn 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 16. gr. laga nr. 58/1998.

Óbyggðanefnd hafi ekki tekið afstöðu til raka stefnanda fyrir því að hann hafi unnið eignarhefð að landinu. Í ljósi þess að stefnandi hafi um 700 ára gamalt gjafaafsal fyrir eigninni og landamerkjabréf frá árinu 1885 hafi óbyggðanefnd haft fullt tilefni til að fjalla um þetta. Almenn umfjöllun um hefð í úrskurðinum nægi hér ekki.

Stefnandi kveður efnisrök einnig hníga að því að úrskurður óbyggðanefndar verði felldur úr gildi.

Stefnandi byggir á því að hann sé eigandi hins umdeilda landsvæðis. Því til stuðnings vísar hann til þinglýsts landamerkjabréfs fyrir Hrunakirkjujarðir, dagsett 12. maí 1885, og veðbókarvottorðs. Eignarheimildir hans megi hins vegar rekja allt til gjafaafsals sem fyrst hafi verið staðfest í máldaga Hrunakirkju frá 1331, og síðan í Vilkinsmáldaga 1397 og Gíslamáldaga 1570, og einnig í síðari heimildum. Máldagar þessir hafi verið löggiltir af konungi og hafi því lagagildi. Á þessu tímabili hafi eignarheimild stefnanda aldrei verið vefengd. Í ljósi ofangreinds gjafaafsals hafi ríkisvaldið sönnunarbyrði um það, að landsvæði þetta hafi ekki verið numið í öndverðu.

Stefnandi kveður Hrunaheiðar vera heimaland jarðarinnar Hruna í þeirri merkingu sem heimamenn leggi í það orð. Landið sé nytjað allt árið eftir því sem tilefni gefi til. Landið liggi sunnan afréttar, samsíða landi annara jarða á þessu svæði. Allar nytjar séu bannaðar nema með leyfi landeiganda.

Land þetta sé um margt líkt Tunguheiði í Biskupstungum sem dæmt hafi verið eignarland Bræðratungukirkju árið 1980. Eigi að gæta jafnræðis verði Hrunaheiðar því vart úrskurðaðar þjóðlenda.

Kröfur ríkisins til eignarréttar verði ekki studdar með tilvísun til hæðarlínu, enda ekkert samræmi í því hjá ríkisvaldinu hvernig það meti hæðarlínur. Útilokað sé að menn missi eignarrétt á grundvelli huglægs mats stefnda að þessu leyti, enda ósannað, og engum rökum stutt, að land í vissri hæð geti ekki verið eignarland.

Stefndi færi ekki sönnur fyrir því, að land þetta hafi ekki verið innan landnáma í öndverðu, en fræðimenn séu þar á öðru máli. Óbyggðanefnd viðurkenni að landið sé væntanlega innan upphaflegs landnáms í Hrunamannahreppi. Í Landnámu komi fram, að Naddoddssynir hafi numið land í Hrunamannahreppi svo vítt sem vötn deili.

Stefnandi telur að land sem sé innan marka eignarlands samkvæmt merkjalýsingu verði ekki skert, nema stefndi geti sýnt fram á eignarrétt sinn að því, að lýsing landamerkja sé röng, og að auki að viðkomandi landeigandi hafi ekki unnið eignarhefð á landinu. Í ljósi þess sem fyrir liggi um eignarheimildir stefnanda á þessu svæði, þinglýstar merkjalýsingar sem og aðrar heimildir, geti stefndi ekki gert tilkall til landsvæðisins, enda hafi engar athugasemdir komið fram í gegnum tíðina við þinglýsingu á landamerkjabréfi því sem stefnandi hafi fyrir landinu, hvorki af hálfu sýslumanns né annars handhafa opinbers valds. Allir hlutaðeigendur hafi virt landamerki og eignartilkall landeigenda á grundvelli þeirra þinglýstu heimildarskjala er legið hafi fyrir vel á aðra öld.

Skattar hafi verið greiddir af öllu landi Hruna samkvæmt fasteignamati, bæði að fornu og nýju. Ekkert sérstakt afréttarmat sé á þessu landi. Algerlega sé úr lausu lofti gripið að land Hrunaheiða sé ekki metið með jörðinni Hruna í fasteignamati jarðarinnar, og mótmælir stefnandi hugleiðingum óbyggðanefndar þar um sem ósönnuðum.

Hér hafi einnig þýðingu sú viðurkennda og athugasemdalausa beiting á eignarráðum eiganda landsins og hagnýtingu þess, sem styðjist við eignarheimildir hans. Það skipti ótvírætt máli við mat á gildi og efni eignarheimildar stefnanda. Í þessu tilviki sé venjuréttur því ekki aðeins sjálfstæð eignarheimild heldur hafi einnig sönnunarlega þýðingu að því leytinu til að hún styðji að öllu leyti málsástæður og sjónarmið stefnanda að umrætt landsvæði hafi verið afhent til eignar á sínum tíma og að um eignarland sé að ræða. Sá sem haldi öðru fram hafi sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu sinni.

Stefnandi telur nýtingu landsins hafa verið eins og jarðir hafi verið nýttar, en ekki afréttir. Heimalönd jarða geti verið geysivíðfeðm. Hafi not jarðarinnar náð yfir alla jörðina Hruna, og þar með Hrunaheiðar. Stefndi hafi ekki sannað að neinir aðrir en landeigendur hafi nytjað landið, nema með leyfi landeigenda. Stefnandi hafi óskoraðan eignarrétt fyrir þessari eignarjörð sinni Hruna með öllum gögnum og gæðum, þ.m.t. svokölluðum Hrunaheiðum.

Upplýsingar um smölun bendi til fullkomins eignarréttar, en ekki séu gerð á þetta svæði lögbundin fjallskil, enda landið sunnan afréttargirðingar.

Þegar metið sé hvort landssvæði utan byggðar sé undirorpið fullkomnum eignarrétti þá skuli hafa í huga, að viðurkennt hafi verið af fræðimönnum og dómstólum að afréttarland geti verið fullkomið eignarland. Í ljósi þeirra fornu afréttarmarka sem liggi fyrir í Hrunamannahreppi þá telji stefnandi líkur á að kirkjan hafi eignast þetta land sem jörð. Vafann í þessum efnum beri að meta þinglýstum eiganda í hag.

Notkun lands geti gefið vísbendingar um, hvort land sé eignarland eða ekki, en ekki megi alhæfa út frá því. Sem dæmi megi nefna að mjög stór hluti lands á láglendi á Suðurlandi sé ekki í heilsársnotum. Yfir vetrartímann sé landið gegnfrosið og enginn noti það til beitar eða annarra búsþarfa.

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar þá verði ekki hróflað við eignarrétti manna nema með lögum. Í þjóðlendulögunum sé ekki að finna heimild til eignarnáms heldur sé þvert á móti hnykkt á því, að þjóðlendur séu utan eignarlanda. Óbyggðanefnd hafi því ekki lagaheimild til að úrskurða að til þjóðlendna skuli teljast land sem nú liggi innan þinglýstra landamerkja bújarða, eða afrétta þar sem lögaðilar hafi þinglýst afsal fyrir eignarrétti sínum, þar sem með þeim hætti væri í raun verið að taka eignarrétt af viðkomandi eiganda. Gagnrýnir stefnandi að landeiganda sé gert að höfða mál til viðurkenningar á eignarétti sínum innan sex mánaða frá úrskurði óbyggðanefndar, ella glati hann endanlega eignarrétti að umræddu landi. Stefnandi telur málsmeðferð þessa ekki standast 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, um réttláta málsmeðferð fyrir dómi, og því beri að fella úrskurð óbyggðanefndar úr gildi.

Þá kveður stefnandi eignarréttarkröfu sína einnig byggða á ákvæði l. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu. Sérstaklega er bent á að orðið eign hafi þar víðtæka merkingu sé horft til dómafordæma Mannréttindadómstólsins. Þannig skipti máli hvernig farið hafi verið með eignina í framkvæmd, ekki síst í lögskiptum, og hvaða traust menn hafi borið til þeirrar framkvæmdar. Einnig skipti máli hver afskipti, eða afskiptaleysi, ríkisvaldsins hafi verið varðandi þá framkvæmd. Í ljósi eignarheimilda stefnanda og viðurkenningar stefnda í verki á þeim, hafi stefnandi réttmætar væntingar til þess að fullkominn eignarréttur hans til ofangreinds lands sé fyrir hendi, og að sá eignarréttur sé varinn af mannréttindaákvæðum.

Loks byggir stefnandi á því að hann hafi unnið eignarhefð á umræddu landi. Hann kveðst hafa nýtt Hrunaheiðar á hverjum tíma til fulls með þeim hætti sem tíðarandi, tækifæri og möguleikar hafi verið til. Þannig hafi landið verið nýtt til beitar, grasatekju, veiða, og til landleigu. Viðurkennt sé af fræðimönnum að eignarréttur geti stofnast fyrir hefð, einnig á afréttarlandi. Hefð geti einnig stutt við aðra eignarheimild svo sem afsal. Með 1. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 séu tekin af tvímæli um það að hefð verði unnin á verðmæti jafnvel þó það hafi verið í opinberri eigu.

Það land sem hér sé um ræði sé afgirt gagnvart afrétti. Enginn hafi nýtt landið annar en eigandinn nema með samþykki hans. Stefndi hafi ekki sýnt fram á annað. Stefnandi hafi sýnt fram á fullkomin umráð með því að banna öðrum not eignarinnar, og með því að ráðstafa eigninni með löggerningi. Skilyrði hefðar séu því fyrir hendi.

Niðurstaða óbyggðanefndar um að stefnandi hafi ekki sýnt fram á eignarhefð á landinu sé algerlega órökstudd og röng.

Þá byggir stefnandi einnig á því að meginreglur íslensks réttar um traustfang og traustnám leiði til þess að staðfesta beri eignarrétt stefnanda yfir umdeildu landssvæði.

Stefnandi ítrekar að samkvæmt ofangreindum heimildum eigi hann óskoraðan eignarrétt á Hrunaheiðum með öllum gögnum og gæðum. Stefndi hafi margsinnis viðurkennt, þannig að bindandi sé, að umrætt land innan ofangreindra landamerkja, sé undirorpið fullkomnum eignarrétti. Þessu verði ekki hnekkt nú, mörg hundruð árum síðar. Hafi stefndi átt rétt til landsins sé hann löngu fallinn niður fyrir tómlæti. .

Sá sem hafi þinglýsta eignarheimild teljist eiga tilsvarandi rétt þar til annað sannist. Stefndi hafi því sönnunarbyrðina fyrir því að landið sé ekki undirorpið fullkomnum eignarrétti stefnanda.

Stefnandi vísar til stuðnings kröfum sínum til 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins, sbr. 1. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignarréttarins, sbr. lög nr. 62/1994 um lögfestingu sáttmálans.

Málsástæður stefnda

Stefndi segir að við kröfugerð og skilgreiningu þjóðlendulínu í Hrunamannahreppi fyrir óbyggðanefnd hafi af hálfu stefnda að meginstefnu til verið byggt á landnámsmörkum við tiltekna hæðarlínu og talið að með þeim hætti væri hægt að greina heimalönd frá sumarbeitilöndum. Sami grundvöllur sé fyrir sýknukröfum stefnda í þessu máli. Hafi óbyggðanefnd úrskurðað þjóðlendumörk við merki jarða við afréttina Hrunamannaafrétt og Hrunaheiði. Stefndi hafi fallist á þann úrskurð og byggi í þessu máli á því að sunnan þjóðlendulínu séu eignarlönd sem numin hafi verið til eignar.

Ofan og norðan þjóðlendulínu hafi ennfremur verið landsvæði sem numin hafi verið í öndverðu neðantil, aðallega við Hvítá þar sem láglent sé, en annað land norðar hafi ekki verið numið. Því hafi og verið haldið fram að norðan þjóðlendulínu hafi beinn eignarréttur fallið niður á hinum numdu svæðum en afnotaréttur ákveðinna aðila staðið eftir. Á þessi sjónarmið hafi óbyggðanefnd fallist og ekki sé ágreiningur um þau svæði í þessu máli.

Stefndi kveður nám hafa verið þann hátt sem hafður hafi verið á frumstofnun eignarréttar að landi hérlendis og hafi dómstólar og óbyggðanefnd viðurkennt og staðfest að svo hafi verið í samræmi við tilteknar fornar heimildir.

Landnámi Hrunamannahrepps sé lýst svo í Landnámu: „Bröndólfur og Már Naddoddssynir og Jórunnar dóttur Ölvis barnakarls, komu til Íslands snemma landsbyggðar. Þeir námu Hrunamannahrepp svo vítt sem vötn deila“. Síðar hafi feðgarnir Þorbrandur og Ásbrandur komið utan úr Haukadal „og námu hinn efri hluta Hrunamannahrepps“, að líkindum ofan jarðanna Lauga og Jötu.

Í bókinni Árnesþing á landnáms- og söguöld segi Einar Arnórsson: „Takmörk landnáms þeirra eru glögg. Að austan og sunnan er Stóra Laxá, að vestan Hvítá og að norðan austurhluti Langjökuls, Kjalhraun og Kerlingarfjöll. Nú eru efstu byggð ból í landnámi þeirra bræðra Tungufell og Hamarsholt að vestan, en Kluftir og Kaldbakur að austan. En byggðin hefur náð allmiklu lengra upp á hálendið fyrrum.“

Stefndi kveður afar ólíklegt að nám hafi náð eins langt og Einar Arnórsson telji. Lýsingin í Landnámu gefi ekkert tilefni til svo víðtækrar ályktunar og ekki sé ástæða til að ætla að landnámsmörk séu þarna á öðrum stað en annars staðar á landinu. Allar heimildir um 400 landnám hérlendis og búsetusaga landsins bendi ekki til annars, en aðeins þau landsvæði sem byggð hafi festst á hafi verið numin í öndverðu.

Stefndi telur að það sem Einar Arnórsson átti sig ekki á sé lýsingin í Landnámu um að Hrunamannahreppur hafi verið numinn svo vítt sem vötn deila. Hér sé ekki átt við það landsvæði sem í dag sé innan marka þess sveitarfélags sem nafnið beri. Á ritunartíma Landnámu hafi nafnið hreppur verið notað yfir ákveðið afmarkað landsvæði, sem byggð hafi verið á, ekki hafi verið átt við óbyggðir, og því nái landnámið ekki til austurhluta Langjökuls, Kjalhrauns og Kerlingarfjalla, heldur líklega miklu skemur. Frásagnir landnámu um nám Hrunamannahrepps verði því að túlka með hliðsjón af þessu. Þannig séu engar heimildir um að nám hafi náð upp fyrir byggðina, sem þar hafi verið á landnámstíma.

Einungis fyrstu landnámsmennirnir hafi komist upp með nám stórra landsvæða. Þegar fleiri landnemar hafi farið að sækja út hingað hafi verið settar reglur um hve vítt hver mætti nema. Ætla megi að þegar feðgarnir Þorbrandur og Ásbrandur hafi komið yfir Hvítá til landnáms, hafi verið komnar í gildi þessar landnámsreglur, sem takmörkuðu hve vítt mætti nema. Útilokað sé að þeir hafi kveikt elda á einum degi umhverfis þá víðáttu sem landflæmið upp til KerlingafjaIla, Kjalhrauns og að austurhluta Langjökuls sé, eins og Einar Arnórsson hafi ályktað.

Stefndi kveðst byggja á því, að beinn eignarréttur að jörð nái einungis til heimlands hennar. Það sé allt land sem nauðsynlegt sé til búrekstrar á ársgrundvelli og verði það talið fylgja jörðinni og vera undirorpið beinum eignarrétti. Heimaland sé öndvert við útlendi jarðar, afrétti og almenninga, er nú kallist þjóðlendur, hvort sem útlendið sé landfræðilega tengt jörðinni eða ekki. Telur hann stefnanda fallast á þetta með því að í stefnu sé byggt á því, að Hrunaheiðar séu heimaland jarðarinnar Hruna í merkingu þess orðs sem heimamenn leggi í það. Hins vegar sé í engin gögn vísað til stuðnings þessari fullyrðingu um að heimamenn líti á landið með þessum hætti.

Hugtakið heimaland hafi ekki haft neina skilgreiningu í lögum. Þó hafi orðið heimaland strax í Jónsbók verið notað í öndverðri merkingu við úthaga, sem einungis hafi verið notaðir til sumarbeitar. Benda megi í þessu sambandi á Jónsbók Llb. 53 „Um afréttarfé, ef þat gengur í heimaland.“

Í máldögum kirkna frá fyrstu tíð sé notað orðið heimaland og án skilgreiningar. Máldagi hafi verið samningur milli þriggja aðila, kirkjubónda, biskups og safnaðar. Þar hafi verið taldar upp eignir kirkna. Engin eign hafi verið kirkju mikilvægari en grunnurinn sem hún stóð á og þess vegna hafi jafnan verið byrjað á að tilgreina hversu stóran hlut í heimalandi kirkjan ætti. Aðrar fasteignir eins og útjarðir og afréttarland hafi aldrei getað myndað þann grundvöll, sem kirkja hafi þurft til að geta talist myndug og sjálfstæð í skilningi kirkjulaga. Þetta hafi verið fært fram þeirri skoðun til stuðnings að grunneignarréttur hafi aðeins fylgt heimalandi, en dregið í efa að afréttareign kirkna hafi falið í sér grunneignarétt.

Í 1. gr. landskiptalaga nr. 46/1941 segi að eftir lögum þessum geti komið til skipta eða endurskipta að nokkru eða öllu leyti heimalönd sveitajarða og afréttarlönd, sem jöfnum höndum séu notuð til vetrarbeitar. Landskiptagerðir séu þannig matsgerðir um hvaða land teljist til heimalands og hvaða land geti verið í heilsársnotum vegna vetrarbeitar. Þannig vegi landskiptagerðir vitanlega þungt um mörk heimalanda og væntanlega þyngra en önnur gögn. Landskiptagerð sé bindandi um þetta atriði milli aðila, ef skiptagerð hafi ekki verið skotið til dómstóla. Þannig sé skiptagerð svipuð og úrskurður óbyggðarnefndar um þjóðlendumörk.

Í lögum um afréttarmálefni, fjallskil o.fl. nr. 6/1986 hafi verið ákvæði um heimalönd án skilgreiningar. Í þessu sambandi megi benda á að í 3. gr. 1. mgr. laganna segi þetta: „Í fjallskilasamþykkt, er héraðsnefnd setur, skal kveðið á um réttindi manna og skyldur að því er varðar afnot afrétta og annarra sameiginlegra sumarbeitilanda, fjallskil, smalanir heimalanda vor og haust, svo og um önnur atriði, er að framkvæmd fjallskila lúta.“

Sumir sem ritað hafi um afréttarmál eins og Bragi Sigurjónsson í bókunum „Göngur og réttir“ hafi skilgreint heimaland sem land jarðar öndvert við annað land sem jörð hafi átt aðgang að, t.d. á sameignarafrétti. Þetta sé vafalaust ekki réttur skilningur. Í þessu sambandi megi benda á Þingvallajörðina. Þar séu heimildir um heimaland, en samt sé landsvæði jarðarinnar eitt stórt svæði með afréttarlöndum innlimuðum í landamerkjalýsingu og enginn samnotaafréttur að heitið geti. Í þessu sambandi megi benda á að stór hluti af Þingvallajörðinni hafi af óbyggðanefnd verið úrskurðaður þjóðlenda, þ.e. svæðið umhverfis Skjaldbreið.

Stefndi telur ljóst að sé land jarðar allt heimland væri engin þörf á að nefna heimaland, nægilegt væri að tala um land jarðarinnar eða jörðina sjálfa.

Í ritsmíð sinni Almenningar og afréttir fjalli Bjarni Jónsson frá Vogi um heimalönd (bls. 41). Hann segi það ekki heyra undir verksvið sitt að segja hverjar afréttir sem nú kallist séu úr heimalandi einhverrar jarðar til orðnar og því einstaklingseign.

Þorgeir Örlygsson, fyrrum prófessor, riti í afmælisrit Gauks Jörundssonar grein um eignarhald að landi. Hann segi eignarlönd vera landsvæði sem lúti einstaklingseignarrétti tiltekins aðila og hann tiltaki sérstaklega að til eignarlanda teljist heimalönd jarða í sveitum. Í þessu sambandi segi Þorgeir að hafa verði í huga að heimalönd jarða geti verið mjög víðáttumikil og náð langt upp af byggð. Slíku landi sé oft skipt í heimaland annars vegar og afrétt hins vegar. Í þessum skilningi sé með heimalandi almennt átt við land sem ekki sé afréttarland. Úrlausn um þetta atriði segi Þorgeir velta á skýringu eignarheimilda. Hann segi heimaland eins og því sé lýst í landamerkjabréfum eignarland, en fyrirvara verði að gera um fjarlægar óbyggðir og land sem notað sé sem afréttur.

Sami skilningur komi fram í grein Páls Sigurðssonar „Hver á prestsetursjarðirnar“ en þar segi hann að draga þurfi mörk milli heimalands og útlendis jarða.

Stefndi telur þessar tilvitnuðu heimildir styðja þá skoðun, að beinn eignarréttur sé að heimalandi í þrengri merkingu og að skilgreina þurfi í mörgum tilvikum með sérstakri sönnunarfærslu og heimildarsöfnun hvar skil milli þessara tveggja landgerða liggi. Hvað Hrunaheiðar varði sé því alfarið mótmælt, að um geti verið að ræða heimaland Hruna. Heiðin sé fjarri heimalandi Hruna og jarðir á milli.

Í þessu sambandi megi benda á landamerkjabréf Hrunakirkjujarða frá 1885, en þar sé eftirfarandi ritað: „En(n) fremur á Hrunakirkja Hrunaheiðar, sem liggja miIli afréttar og heimalanda, austan frá Stóru Laxá norður að Heiðará og Melrakkaá í upptökum þeirra beggja og vestur að Fossá fyrir vestan Laxárklettsmýrar, aIlt fram að Gráhól.“

Að því er greint landamerkjabréf varðar sé í stefnu byggt á því, að land sem sé innan marka eignarlands samkvæmt merkjalýsingu verði ekki skert, nema stefndi geti sýnt fram á eignarrétt sinn að umræddu landi eða að lýsing landamerkja sé röng.

Stefndi kveður þessa fullyrðingu stefnanda rétta svo langt sem hún nái. Eignarland verði ekki skert, en málið fyrir óbyggðanefnd hafi ekki snúist um skerðingu á eignarrétti, heldur um hvar mörkin væru milli eignarlanda og þjóðlendu. Stefndi hafi ekki reynt að sýna fram á eignarrétt sinn heldur sé byggt á því að Hrunaheiðar séu þjóðlenda í skilningi þjóðlendulaga. Þjóðlenda sé öndvert eignarform við eignarlönd og þess vegna þurfi óbyggðanefnd alveg jafnt að skilgreina eignarlönd í eigu ríkisins frá þjóðlendum, eins og gert hafi verið til dæmis við jörðina Hrunakrók.

Stefndi kveðst byggja á því, að landamerkjabréf séu ekkert annað en yfirlýsing um yfirráðasvæði á sama hátt og landamæri ríkja, sveitarfélaga og stjórnsýsluumdæma sýslumanna. Þar sem landamörk eignarlanda liggi saman sé landamerkjabréf samningur milli hlutaðeigandi um þessi mörk eignarjarða innbyrðis eftir að réttir eigendur eða umboðsmenn hafi ritað undir bréfið samþykki sitt við lýsingu þess á landamerkjum. Í landamerkjabréfi felist á engan hátt að allt land innan merkja skuli vera óskorað eignarland. Almennar sönnunarreglur ráði hér eins og annars staðar. Fyrst og fremst skilgreini landamerkjabréfið takmörk nýtingarréttar að landi. Á það megi benda í þessu sambandi að landamerkjabréf séu jafnt til fyrir jarðir, sem afrétti sem séu innan þjóðlendu.

Ekki hafi verið lagaskylda að gera landamerkjabréf að jörðum fyrr en lög hafi verið samþykkt um það ofarlega á 19. öld. Fyrstu landamerkjalögin íslensku séu frá 17. mars 1882. Samkvæmt 1. gr. þeirra hafi hver landeigandi verið skyldur til að halda við glöggum landamerkjum fyrir jörð sinni. Samkvæmt 3. gr. hafi eigandi eða umráðamaður verið skyldur til að skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar. Merkjalýsingu þessa hafi hann átt að sýna hverjum þeim, er land hafi átt til móts við hann, sem og eigendum þess lands er hann teldi jörð sína eiga ítak í og skyldu þeir rita á lýsinguna samþykki sitt, hver fyrir sína jörð. Að svo búnu hafi átt að þinglýsa landamerkjabréfinu. Væri ágreiningur um landamerki hafi merkjadómur átt að skera úr og hafi niðurstaða hans þá verið jafngild, sem landamerkjabréf.

Samningur eins og landamerkjabréf bindi einungis þá, sem aðilar séu að samkomulaginu og íslenska ríkið eigi engan hlut að þeim samningum sem í íslenskum landamerkjabréfum felist. Sammerkt öllum landamerkjabréfum fjalljarða, sé að þau séu einhliða ákveðin inn til óbyggða og óbyggðamörkin oftast geðþóttaákvörðun jarðeiganda á líðandi stund, frekar en að þau styðjist við eldri rétt. Á það megi jafnframt benda að við engan hafi verið að semja árið 1882 og það hafi ekki verið fyrr en 116 árum síðar að slíkt var hægt, eftir að íslenska ríkinu hafi með lögum verið fengið forræði yfir þjóðlendum.

Stefndi telur tilvísun stefnanda til landamerkjabréfs nokkuð sérkennilega hvað Hrunaheiðar varði, þar sem ekki sé til sérstakt landamerkjabréf fyrir svæðið, heldur sé þess einungis getið á landamerkjabréfi Hrunastaðar. Auk þess sé bréfið haldið þeim ágalla að vera ekki áritað af hálfu annarra aðliggjandi landsvæða og fyrirsvarsmaður Hrunakirkjujarða áriti ekki landamerkjabréf þeirra. Þá megi einnig benda á það, að lýsingin á landamerkjum Hrunaheiða virðist alfarið vísa til landamerkjalýsinga aðliggjandi jarða.

Annað atriði sem hafi verið umdeilt í þjóðlendumálum, og virðist vera það einnig í þessu máli samanber stefnu, sé gildi þinglýsingar landamerkjabréfs. Því sé haldið fram af stefnanda, að með þinglýsingu landamerkjabréfs sé búið að tryggja eignarréttinn.

Því sé til að svara að enginn öðlist meiri rétt en viðsemjandi geti veitt. Á sama hátt þinglýsi enginn meiri rétti en hann eigi. Þinglýsing heimildarskjals um fasteign sé lagaskylda og sé til að tryggja öryggi í viðskiptum og skapa eigendum réttarvernd gagnvart grandlausum viðsemjendum og lánardrottnum.

Spurning sé hvort þegjandi eða jákvæðar athafnir ýmissa umboðsmanna ríkisins geti falið í sér samþykki valdstjórnar eða ríkis vegna lands, sem nái inn í þjóðlendu. Þetta geti verið í tengslum við mótmælalausa móttöku og þinglýsingu landamerkjabréfa sem hafi haft að geyma lýsingu í átt að óbyggðum, eða einfaldlega með afsalsbréfum ríkisins yfir tilteknum lendum. Af Landmannaafréttardómi síðari megi ráða þá reglu, að löggjafinn einn sé bær til að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Af því leiði að athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar geti ekki leitt af sér slík yfirráð nema heimild í almennum lögum hafi verið fyrir hendi.

Þá hafnar stefndi þeim rökum stefnanda að hann hafi unnið eignarhefð á landinu. Í skjölum málsins sé ekki að finna þeim fullyrðingum stefnanda stoð, að hann hafi sýnt fram á fullkomin umráð yfir landinu með því að banna aðilum not eignarinnar og með því að ráðstafa eigninni með löggerningi.

Um það hafi verið ágreiningur í meðförum þjóðlendumála, hvort hefð gæti komið til álita á grundvelli óslitins eignarhalds í þeim tilvikum að beinn eignarréttur hafi ekki verið að öllu landi innan merkja samkvæmt landamerkjabréfi er það hafi verið ritað eftir landamerkjalögin 1882.

Talið sé að hefðarréttur hafi ekki verið í okkar fornlögum, að minnsta kosti ekki í þeirri mynd sem við þekkjum hann. Lagaákvæði í bæði Grágás og Jónsbók um að almenningar skyldu vera sem að fornu hafi verið, hafi verið nefnd sem óræk sönnun þess, að nám landa utan byggðar hafi verið óheimilt og sömuleiðis hafi hefðarréttur verið andstæður þessu lagaákvæði. Í þessu sambandi megi benda á Jónsbók Llb. 52. Ef menn vitu eigi, hvárt eru almenningar eða afréttir. Þar segi: „Svá skulu almenningar vera, sem at fornu hafa verit, bæði hit efra og hit ytra.“

Stefndi kveður fyrsta lagaákvæði um hefð vera í Norsku lögum frá 1687, V. bók 5. kap. Í 7. gr. laganna segi svo: „Enginn á að fá eignardóm að nokkurri fasteign, nema hann leiði lögfulla sönnun að heimild sinni, með erfðum, kaupum, eignaskiptum, gjöf eða 20 ára hefð, án þess að átalið hafi verið og að hann hafi þannig öðlast hana ákærulaust af öllum er kynnu að hafa haft einhverjar athugasemdir við það.“

Þegar þessi lög hafi verið sett hafi enn verið í gildi ákvæði Jónsbókar um að almenningar skyldu vera sem að fornu hafi verið og hafi þessi hefðarlög ekki afnumið Jónsbókarákvæðið, þess sé að minnsta kosti ekki getið. Einnig sé talið að orðið fasteign beri að túlka á þann veg, að það merki eignarjörð með byggingum, eða bara byggingu eða hús.

Næstu lög um hefð séu nr. 46 frá 1905. Í 1. gr. þeirra segi að hefð megi vinna á hverjum hlut, jafnt fasteign sem lausafé, er geti verið eign einstakra manna, án tillits til þess, hvort hann hafi áður verið einstaks manns eign eða opinber eign. Samkvæmt gagnályktun sé ekki heimilt að hefða eign, sem ekki geti verið eign einstakra manna, eins og grunnréttinn að afréttum og almenningum, sem nú heiti þjóðlendur. Þessi svæði hafi verið eigandalaus (með hliðsjón af Landmannaafréttardómi síðara) þar til ríkisvaldinu hafi verið veitt forræði fyrir þeim með þjóðlendulögum árið 1998. Í núgildandi lögum um þjóðlendur sé þessi regla lögfest í niðurlagsákvæði 3. greinar, en þar segi: „Frá og með gildistöku laga þessara er ekki unnt að öðlast eignarréttindi innan þjóðlendna fyrir nám eða hefð.“

Þá sé óslitið eignarhald skilyrði hefðar. Hefðandi þurfi því að hafa haft umráð sem bendi til eignarréttar og jafnframt þurfi hann að hafa útilokað aðra frá því að ráða yfir eigninni. Í þessu sambandi skipti miklu máli hvernig afnot séu og ekki síst girðingar umhverfis landareign. Hrunaheiðar séu ógirtar og langt frá móðurjörðinni, reyndar séu aðrar jarðir á milli. Afnot í formi beitar virðast vera frá öllum efstu bæjunum í hreppnum, þar sem sauðfjárbúskapur sé og eigandinn láti ekki smala landið, heldur sé það gert að frumkvæði sveitarfélagsins. Stefndi telur alls ekki vera hægt að vísa til hefðarréttar í þessu samhengi.

Stefnandi segi skatta hafa verið greidda af öllu landi samkvæmt fasteignamati, bæði að fornu og nýju, en ekkert sérstakt afréttarmat sé á Hrunaheiðum. Stefnandi rangtúlki úrskurð óbyggðanefndar varðandi þetta atriði. Það sem segi í úrskurði nefndarinnar sé að ekki sé að sjá að Hrunaheiðar séu sérstaklega skráðar í fasteignamatsbækur eins og þó séu dæmi um varðandi önnur heiðarlönd (Tunguheiði) og ekki heldur í afsals- og veðmálabækur sýslumanns. Stefndi bendir á að í fasteignamatsbók 1918 sé þó sagt að heiðaland fylgi Hruna, sem ekki sé notað vegna erfiðleika og í fasteignamatsbókum frá 1932 og 1942 sé getið Hrunaheiða eða upprekstrarlands Hruna. Að mati stefnda hafi stefnandi sönnunarbyrði fyrir því að óbyggðanefnd hafi rangt fyrir sér að þessu leyti.

Nú á dögum sé ekki sérstakt fasteignamat á afréttum í þjóðlendum, en auðvitað eigi að meta afrétti í eignarlöndum til fasteignamats. Í gömlum matsreglum jarða hafi verið mismunur á eignarlandi og afrétti og hafi verið farið eftir því þegar jarðabækur voru samdar og jarðir metnar til hundraða. Þá hafi afréttareign verið metin að hálfu á við beit í heimalandi. Benda megi á lög, sem áður hafi gilt um fasteignamat og fasteignaskráningu nr. 28/1963, 12. gr., en þar sé sagt, að afréttarlönd, sem séu eign sveitarfélaga eða sameign fleiri jarða og notuð séu aðallega til upprekstrar, skuli ekki meta sérstaklega, en taka skuli upprekstrarréttinn til greina við mat þeirra jarða, sem hann eiga. Í þessu ákvæði sé ekki gert ráð fyrir því, að afréttarlönd séu metin á sama hátt og venjuleg eignarlönd, til dæmis heimalönd, og megi jafnvel skilja það svo, að afréttareignin sé í raun ekkert annað en ítak.

Því sé haldið fram í stefnu, að ekki séu gerð lögbundin fjallskil á Hrunaheiðar og bendi þær upplýsingar til fullkomins eignarréttar.

Stefndi telur ljóst, að þegar einstakar sönnunarreglur séu skoðaðar megi greina ýmis atriði úr lögum og dómaframkvæmd, sem gefi ákveðnar vísbendingar um inntak eignarréttar að landsvæði. Til dæmis sé talið að greina megi í sundur eignarlönd og afréttarlönd í þjóðlendu á nýtingu þeirra. Eignarlönd séu nýtt allt árið til búrekstrar, en afréttir til sumarbeitar. Allt frá Jónsbók hafi þau lagaákvæði verið í gildi, að eigandi smali sitt land, en allt annað land sé smalað sameiginlega af fjallskilastjórn. Hinar ýmsu nýtingarreglur hafi ennfremur verið settar um landsvæði, sem nú kallist þjóðlendur, en engar um eignarlönd, nema það sem grenndarréttur hafi krafist.

Með hliðsjón af þessu telur stefndi rétt að fjalla um hvað heimildir segi um smölun og beitarafnot á þjóðlendumörkum í Hrunamannahreppi og norðan og austan þjóðlendumarka.

Í skjali sem samið sé af Lofti Þorsteinssyni 4. maí 2000 og heiti „Minnisblað vegna nota heimalanda í Hrunamannahreppi sem liggi að afrétti Hrunamanna og Hrunaheiðum“ segi þetta:

„Allar þessar jarðir eru ógirtar og gengur sauðfé frá þessum fjalljörðum saman í sumarhögum. Allmargt sauðfé var á þessum jörðum öllum fyrir nokkrum árum og var samvinna bænda við smölun. Sauðfé er ekki á jörðunum Jaðar, Hlíð, Foss og Kluftum nú í dag og hafa aðliggjandi bændur skipulagt og framkvæmt sameiginlega smölun á þessum jörðum með sínum heimalöndum. Hrunamannahreppur hefur lagt til 3-4 smala til smölunar á Hrunaheiðum að öðru leyti eru þær smalaðar af nærliggjandi bændum. Landamerki þessara jarða hafa verið algjörlega ágreiningslaus og samvinna um smölun til fyrirmyndar.“

Upplýsingar þessar um smölum og afnot af Hrunaheiðum bendi síður til þess að verið sé að umgangast eignarland.

Hrunaheiðar liggi fyrir norðan Kluftir og Hrunakrók og hafi um langan aldur fylgt Hruna. Þeirrar jarðar sé fyrst getið í heimildum undir lok 12. aldar. Talið sé að Hruni hafi orðið staður, það er sjálfstæð og myndug kirkjueign, fyrir lok 12. aldar. Samkvæmt elsta máldaga Hrunakirkju 1331 eigi kirkjan heimaland allt og Kaldbak og Þórarinsstaði. Í lok máldagans segi:

„Þetta gaf Þórarinn Hrólfsson til Hrunastaðar, þá er hann átti Hörgsholt, Laxárgljúfur öll norður frá Kaldbakslandi. Skal þó sá er í Hörgsholti býr fá 2 menn til safns um Kaldbaksheiðar með Hrunamönnum hvert haust til allra lögrétta.“

Þessi yfirlýsing hafi verið tekin upp í Vilkinsmáldaga 1397, máldaga Gísla biskups 1570 og í vísitasíubækur eftir það og sé þetta meginheimildin um eignarráð Hruna yfir þessum heiðum. Þegar talað sé um öll Laxárgljúfur sé álitið að rætt sé um land meðfram Stóru-Laxá á núverandi Hrunaheiðum. Óljóst sé hvað felist í þessari gjöf, hvort gefinn hafi verið veiðiréttur eða einhver önnur ótiltekin hlunnindi eða jafnvel landsvæðið án skilgreindrar afmörkunar. Það sé þó ólíklegt því hér sé á engan hátt leitast við að lýsa landamerkjum.

Í Jarðabók Árna og Páls sé ekki getið Hrunaheiða, en vísað í máldaga Hrunakirkju um ítök hennar. Í jarðatali Johnsens 1847 sé Laxárgljúfur beinlínis talið með ítökum brauðsins Hruna. Í úttektum prófasts frá 1905 til 1954 sé Laxárgljúfur jafnan talið með ítökum Hrunakirkju og í úttekt 1930 segi undir liðnum hlunnindi og beit: „Beit í Laxárgljúfrum og afréttarlandið Hrunaheiðar.“

Hvergi komi fram, að Hrunaheiðar hafi fyrrum verið jörð eða landsvæðið notað sem slíkt á einhvern hátt. Eins og legu landsins sé varið hljóti að vera augljóst, að einungis megi hafa af landsvæðinu beitarafnot. Um þetta vitni staðhættir, víðátta, gróðurfar og hæð yfir sjó. Hér sé augljóslega einungis um að ræða beitarítak.

Ráða megi þá reglu af máldögum að gögn og gæði lands hafi einungis fylgt heimajörð kirkju, en ekki öðrum löndum hennar og því aðeins að öll heimajörðin væri eign kirkju. Þessi regla að gögn og gæði fylgi heimajörð kirkju aðeins sé helsta skýringin á því að stór afréttarlandsvæði hafi smátt og smátt farið að safnast að kirkjujörðum, en ekki öðrum jörðum.

Á suðurmörkum á kröfusvæði um þjóðlendumörk í Hrunamannahreppi séu nokkur landsvæði sem öll eigi það sammerkt að hafa á einhverjum tíma orðið eign kirkjunnar í Hruna, án þess að nokkur hluti þessara svæða hafi haft landfræðilega samtengingu við móðurjörðina. Þetta séu Kluftir, Kaldbakur, Hrunakrókur og Hrunaheiðar. Ekkert þessara svæða verði með neinni vissu talið numið í öndverðu. Til þess þyrfti að liggja fyrir að þar hafi verið byggt á landnámstíma, en eins og fyrr hafi verið minnst á miðist landnámsmörk í Hrunamannahreppi við það svæði sem byggðist þá og alla vega yrði það að hafa gerst fyrir gildistöku Jónsbókar 1281, en þá sé með öruggri vissu talið að nám hafi ekki lengur verið heimilt.

Ekki sé að sjá mun á Hrunaheiðum og heiðalöndum Auðkúlu og Eyvindarstaða sem hafi þó verið landfræðilega samtengd jörðunum, eða að einhver munur sé á þessum löndum og Geitlandi sem fyrrum hafi tilheyrt Reykholtskirkju samkvæmt máldaga. Varla sé nokkur munur á þessum heiðalöndum og til dæmis Jökuldalsheiði, þar hafi og verið reist býli sem hafi staðið í stuttan tíma. Eða þá að einhver munur sé á þessum löndum og löndum Sandfellshaga á Öxarfjarðarheiði. Þau heiðarlönd hafi áður tilheyrt Munkaþverárklaustri og þar hafi verið reist býli sem staðið hafi í stuttan tíma.

Árið 1746 hafi komið út erindisbréf handa biskupum og samkvæmt 16. gr. þessa bréfs séu Vilkins og Gíslamáldagar taldir áreiðanlegir og löggiltir og skuli allar þrætur um eignir kirkna, réttindi og kúgildi, er standi á jörðum léns- og bændakirkna dæmd og útkljáð eftir þeim.

Á þessum tíma hafi Hrunakirkja verið orðin lénskirkja og þetta erindisbréf konungs, gert á einveldistíma, hafi lagagildi um eignarhald að heimajörð og eignum þar, en þetta erindisbréf hafi ekki verið skilið þannig að lagasetningarvald konungs næði til þess að stofna beinan eignarrétt að afréttarsvæðum, vegna þess að þau standi ekki á jörðum léns- eða bændakirkna.

Stefndi kveður óbyggðanefnd benda á nokkur aðriði, sem skipti máli við skoðun á eignarréttarlegri stöðu Hrunaheiða.

Um gjöf Laxárgljúfra til Hrunastaðar segi nefndin að þau séu einungis lítið brot af því landi sem liggi til Hrunaheiða. Stefndi segir niðurstöðuna um þetta atriði vera að beinn eignarréttur verði ekki byggður á umfjöllun í máldögum um rétt Hruna til Laxárgljúfra.

Þá segi í niðurstöðum óbyggðanefndar, að hvergi komi fram í heimildum að búseta hafi verið á Hrunaheiðum, sjálfstæð jörð eða hjáleiga. Hrunaheiðar séu ekki nefndar í máldögum Hrunakirkju og engin sérstök rök mæli með því að heiðarnar hafi verið reiknaðar með í fasteignamati.

Stefndi bendir á að árið 1912 hafi verið reist afréttargirðing yfir Hrunaheiðar án þess að greiðsla hafi komið fyrir, svo sem verið hafi vegna lands úr Tungufelli og Jaðri.

Óbyggðanefnd telji frekar líkur til þess að Hrunaheiðar séu a.m.k. að einhverju leyti innan upphaflegs landnáms í Hrunamannahreppi. Vera kunni að réttur Hruna til Hrunaheiða, þ.m.t. Laxárgljúfra, eigi rætur að rekja til framsals á beinum eignarrétti, en í því efni bresti hins vegar sönnun. Eigandi Hruna sé ekki talinn hafa sýnt fram á að land innan tilgreindra landamerkja Hrunaheiða sé eignarland, hvorki fyrir nám löggerninga né með öðrum hætti. Eins og notkun landsins hafi verið háttað hafi ekki heldur verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því. Rannsókn óbyggðanefndar hafi einnig leitt til þeirrar niðurstöðu að Hrunaheiðar væru þjóðlenda. Fyrirliggjandi gögn bendi hins vegar til þess að jörðin Hruni hafi átt þar upprekstrarrétt.

Stefndi hafnar loks þeim málsástæðum stefnanda að ógilda beri úrskurð óbyggðanefndar varðandi Hrunaheiðar vegna meintra brota óbyggðanefndar á ýmsum reglum stjórnsýsluréttar.

Stefndi kveður meðalhófsreglu íslensks stjórnsýsluréttar vera orðaða þannig, að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt, verði ekki náð með öðru og vægara móti. Skuli þess þá gætt að fara ekki strangar í sakirnar, en nauðsyn beri til.

Stefndi kveður verkefni óbyggðanefndar vera að skilgreina mörk þjóðlendna og eignarlanda. Við þetta verk eigi að gæta almennra lagasjónarmiða og sönnunarreglna. Landamerkjabréf séu að lögum ekki sönnunargögn um beinan eignarrétt, enda séu slík merkjabréf jafnt til fyrir eignarlönd og afrétti. Verkefni óbyggðanefndar sé ekki að fjalla um réttindi og skyldur borgaranna heldur skilgreiningu á eignarrétti. Komi þetta ákvæði þannig ekki til álita og hafi ekki verið brotið við málsmeðferð í þjóðlendumálinu.

Stefndi tekur undir að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Óbyggðanefnd hafi í meginmáli úrskurða sinna í fyrstu málunum sett sér ákveðnar reglur varðandi hinar ýmsu heimildir og hafi leitast við að samræma niðurstöður í einstökum málum við meginreglurnar. Hafi nefndin lýst því yfir að sambærileg mál í framtíðinni yrðu úrskurðuð með sama hætti. Þetta sé sama regla og gildi í íslenskum rétti um fordæmisgildi dóma Hæstaréttar Íslands.

Stefnandi haldi því fram að sambærilegt land hafi af hálfu ríkisins verið viðurkennt sem eignarland, til dæmis Tunguheiði í Biskupstungum og Hellisheiði. Óbyggðanefnd hafi þrátt fyrir kröfugerð ríkisins um þjóðlendu úrskurðað Tunguheiði sem eignarland. Þessum úrskurði hafi ríkið skotið til héraðsdóms til ógildingar. Ummæli um Hellisheiði í stefnu séu vandskýrð. Ríkið hafi ekki viðurkennt neitt eignarland þar og óbyggðanefnd hafi ekki tekið þar land til úrskurðar.

Tunguheiði og Hrunaheiðar séu hvað heimildarskjöl varði með talsvert ólíka stöðu og verði þessum löndum vart jafnað saman. Grundvöllur eignarhalds á Tunguheiði sé til dæmis eignardómur og svo sé landið sérstaklega metið til verðs í fasteignamati.

Stefnandi byggi á því að í úrskurði óbyggðanefndar skorti fullnægjandi rökstuðning fyrir niðurstöðu nefndarinnar og fari úrskurðurinn því gegn 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þessu sambandi sé því haldið fram að af hálfu óbyggðanefndar hafi ekki verið tekið til skoðunar hvort stefnandi hafi unnið eignarhefð á landinu. Þessi fullyrðing orki mjög tvímælis í ljósi þess að í niðurstöðu óbyggðanefndar um þetta atriði segi, að eins og notkun landsins hafi verið háttað hafi ekki verið sýnt fram á að eignarhefð hafi verið unnin á því.

Niðurstaða

Hrunaheiðar er landsvæði sem liggur norðan lands ríkisjarðarinnar Hrunakróks og að suðurmörkum Hrunamannaafréttar, eða að Heiðaá, og á milli Tungufellslands í vestri og Stóru-Laxár í austri. Afréttargirðing, sem reist var árið 1912, liggur yfir þetta svæði norðarlega. Það svæði sem liggur norðan hennar hefur þó ekki formlega verið lagt til afréttarins. Mörk Hrunaheiða eru óumdeild. Jörðin Kaldbakur liggur vestan Hrunakróks og á norðurmörk að Hrunaheiðum. Í fornum heimildum er stundum talað um Kaldbaksheiðar, en það örnefni er ekki til í dag. Margt bendir til þess að Kaldbaksheiðar og Hrunaheiðar séu sama svæðið. Helgi Þorláksson, sagnfræðingur, telur þó að örnefnið Kaldbaksheiðar vísi aðeins til fjallsins Kaldbaks. Jörðin Hruni liggur ekki að landi Hrunaheiða eða Hrunakróks,  aðrar jarðir eiga land þar á milli. Heimildir, sagnfræðilegar og fornleifarannsóknir, benda til þess að forn byggð hafi verið upp með Stóru-Laxá og inn á Hrunamannaafrétt. Tilgátur eru um að Hrunakrókur hafi þar verið mesta býlið, en að landkostir hafi spillst þar verulega vegna Heklugosa og uppblásturs. Fræðimenn hafa leitt líkur að því að kirkja hafi verið að Hrunakróki og Hrunastaður hafi upphaflega verið þar, en óyggjandi heimildir þar um hafa ekki fundist. Í safnritinu Chorographica Islandica, sem er greinasafn tekið saman og ritað af Árna Magnússyni, er þáttur um Hrunamannahrepp eftir Daða Halldórsson, sem var prestur 1671-1717. Þar kemur fram að Hrunakrókur hafi áður verið nefndur Forni-Hruni. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín er árið 1709 fjallað um Hruna og Hrunakrók. Þar stendur: „Hrunakrókur heitir norðarlega í Hrunalandareign, og eru óviss munnmæli, að Hrunastaður hafi þar fyrrum staðið, og síðan fluttur verið þangað, sem nú stendur hann.“ Þá er þess getið að hjáleiga hafi verið í Hrunakróki frá elstu manna minnum þar til jörðin lagðist í eyði vegna goss í Heklu. Fleiri af efstu bæjum sveitarinnar hafa tilheyrt Hruna á einhverjum tíma, svo sem Kaldbakur.

Í Landnámu segir um upphaf byggðar í Hrunamannahreppi að Bröndólfur og Már Naddoddssynir hafi numið þar land „svá vítt sem vötn deila.“ Már er talinn hafa búið að Másstöðum, en ekki er vitað hvar þeir voru. Meðal ýmissa tilgáta fræðimanna er að þeir hafi verið þar sem Hrunakrókur er nú, en Helgi Þorláksson telur landnámsbæinn hafa verið í Hörgsholti. Hörgsholt átti land á milli Hrunakróks og Hruna.

Í elsta máldaga Hrunakirkju sem talinn er vera frá 1331 segir að Þórarinn Hrólfsson í Hörgsholti hafi gefið „Laxárgljúfur öll norður frá Kaldbakslandi“ til Hrunastaðar. Gjöfinni fylgdi það skilyrði að ábúandi í Hörgsholti „skuli fá tvo menn til safns um Kaldbaksheiðar með Hrunamönnum hvert haust“. Gjafar Þórarins er einnig getið í Vilkinsmáldaga frá 1397, máldaga Gísla biskups Jónssonar frá 1570 og í vísitasíubókum fjögurra biskupa á 17., 18. og 19. öld. Í máldaganum frá 1331 segir að kirkjan eigi „heimaland allt og Kaldbak og Þórarinsstaði og Forsjá.“ Einnig er getið um tiltekið beitarítak Hruna í Hörgsholti. Um það er deilt hvort Hrunaheiðar hafi fylgt með í gjöfinni og eru fræðimenn ekki á einu máli um það. Orðalag máldagans „norður frá Kaldbakslandi“ getur bent til þess að svo hafi verið, en einnig er því haldið fram, að af orðalaginu verði ekki dregin víðtækari ályktun en sú að þarna hafi Hruna verið gefin gljúfrin sjálf. Ekki er vitað um aðrar gleggri heimildir um gerning þennan. Vísað var til gjafar þessarar á 19. öld vegna deilna við Flóa- og Skeiðamenn um slægjuland austan árinnar sem Hrunakrókur nýtti. Þeirri deilu lauk með því að Hruni afsalaði sér nýtingarrétti gegn bótagreiðslu.

Hrunaheiða er ekki getið í Jarðabókum frá 1686, 1695, 1709, 1803, 1847 og 1861. Í fasteignamati er þrisvar á síðustu öld, 1918, 1932 og 1942, minnst á heiðarnar í tengslum við ítök eða afnot. Í lýsingu Jóns Steingrímssonar prests í Hruna- og Tungufellssóknum árið 1840 segir að afréttarlönd hreppsins séu almenningur „að fráteknum Hrunaheiðum sem liggja til Hrunastaðar.“

Í landamerkjabréfi Hrunastaðar frá 12. maí 1885 er því lýst að Hrunastaður telji til eignar m.a. yfir Kaldbak og Hrunakróki og merkjum þeirra lýst. Er sú lýsing í samræmi við lýsingu landamerkja aðliggjandi jarða. Um Hrunaheiðar segir: „Enn fremur á Hrunakirkja Hrunaheiðar, sem liggja á milli afréttar og heimalanda, austan frá Stórulaxá norður að Heiðaá og Melrakkaá í upptökum þeirra beggja, og vestur að Fossá fyrir vestan Laxárklettsmýrar, allt fram að Gráhól.“ Landamerkjabréf þetta var þinglesið 10. júní 1885 og innfært í landamerkjabók sýslumanns. Framangreind lýsing á Hrunaheiðum er neðan við meginmál og undirskriftir bænda á Kópsvatni, Bryðjuholti, Laugum, Hörgsholti, Sólheimum, Grafarbakka, Þverspirnu og Högnastöðum. Þessir bæir eiga ekki land að Hrunaheiðum. Neðanmáls er jafnframt lýst ýmsum ítökum Hrunastaðar.

Landamerkjabréfi Hrunakirkju og fjárskilareglugerð, nr. 75/1895, sem tekur til Hrunamannaafréttar, ber saman um að Heiðaá skilji á milli afréttar og Hrunaheiða. Lýsing hreppsnefndar Hrunamannahrepps á landamerkjum milli afréttarlanda Flóa- og Skeiðamanna og Hrunamannaafréttar frá 18. apríl 1890, þinglesin 2. júní 1890, var ágreiningslaus og staðfest. Getur hún samræmst þeirri lýsingu í landamerkjabréfi Hrunakirkju að mörk Hrunaheiða og afréttar Flóa- og Skeiðamanna séu í Stóru-Laxá. Suðurmörk Hrunaheiða liggja að landi jarðanna Hrunakróks, Klufta og Kaldbaks, en er einungis þannig lýst í landamerkjabréfinu, að heiðarnar liggi á „milli afréttar og heimalanda“. Vestan megin liggja Hrunaheiðar að landi Tungufells, sem staðfest hefur verið að sé utan þjóðlendulínu. Að því er næst verður komist sýnist merkjum Hrunaheiða því vera rétt lýst í landamerkjabréfi Hrunajarða frá 12. maí 1885 og sú lýsing vera ágreiningslaus. Fjárskilareglugerðin frá 1895 var opinberlega birt sem og reglur síðar til komnar. Hrunaheiðar hafa alla tíð verið skýrt afmarkaðar frá Hrunamannaafrétti og hefur uppsetning afréttargirðingar yfir norður hluta svæðisins 1912 ekki haft áhrif þar á.

Sá formgalli er á framangreindri lýsingu landamerkja heiðanna, að hún er ekki árituð og staðfest af eigendum aðliggjandi jarða. Þar sem lýsingum merkja ber hins vegar vel saman, þær hafa verið þinglesnar án athugasemda og hafa alla tíð verið ágreiningslausar, svo best er vitað, er fallist á það með óbyggðanefnd að formgalli þessi hafi ekki efnislega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.

Í úrskurði óbyggðanefndar er lagt til grundvallar að hvergi komi fram að búseta hafi verið á Hrunaheiðum, að þeirra sé ekki getið í afsals- og veðmálabókum og að þær hafi ekki verið metnar sjálfstætt í fasteignamati. Einnig er niðurstaða nefndarinnar studd þeim rökum að heimildir bendi til þess að Hrunastaður hafi einungis átt ítök í Hrunaheiðum og í Laxárgljúfrum, þar sem í úttektum prófasta á 19. og 20. öld hafi Laxárgjúfur verið talin til ítaka og í úttekt frá 1930 sé beit í Laxárgljúfrum og afréttarlandið Hrunaheiðar talið með hlunnindum og ítökum staðarins. Ekki hafi komið greiðsla fyrir þegar afréttargirðingin var reist 1912. Hrunaheiða sé að engu getið sem rétthafa vegna veiði í Stóru-Laxá í eldri samþykktum Veiðifélags Árnesinga og eftir atvikum arðskrám þess félags. Það hafi fyrst gerst í samþykkt fyrir Veiðifélag Árnesinga nr. 38/1961, en með gildistöku 5. gr. lax- og silungsveiðilaga nr. 53/1957, í kjölfar dóms Hæstaréttar um Landmannaafrétt árið 1955, hafi verið tekin af tvímæli um það, að veiði í vötnum á afrétti tilheyrði búendum sem upprekstrarrétt ættu á afréttinn þó svo ekki lægi fyrir sönnun um eignarrétt að viðkomandi landsvæði.

Einnig er á því byggt af óbyggðanefnd, að ekki séu heimildir um önnur afnot af Hrunaheiðum en til sumarbeitar. Ábúendur í Hruna hafi að vísu einir rekið fé til sumarbeitar á Hrunaheiðar, en fé frá efstu bæjum hafi runnið þangað. Hafi Hrunamenn þurft að reka yfir land annarra jarða sem liggi á milli Hruna og heiðanna. Er þessi nýting talin hafa staðið til 1942 eða 1944 og einu sinni á árunum 1968-1972, en um upphaf hennar sé ekki vitað. Óumdeilt er talið að Hrunaheiðar og lönd efstu bæja séu smöluð sameiginlega og að Hrunamannahreppur leggi menn til þess. Niðurstaða óbyggðanefndar er sú, að fullnægjandi sönnun bresti fyrir beinum eignarétti Hruna að Hrunaheiðum, þó að ekki sé útilokað að þær hafi verið innan upphaflegs landnáms í Hrunamannahreppi og vera kunni að réttur Hruna til heiðanna kunni að eiga rætur að rekja til framsals beins eignarréttar.

Dómurinn gekk á vettvang ásamt lögmönnum og skoðaði Hrunaheiðar og kennileiti í góðu veðri undir leiðsögn Ásgeirs Gestssonar. Var farið inn á heiðarnar frá Hrunamannafrétti. Liggja þær alllangt frá Hrunastað inn til landsins og eru lönd annarra jarða á milli svo sem fram hefur komið. Upplýst var að heiðarnar eru ekki afgirtar að sunnanverðu og rennur fé aðliggjandi jarða inn á þær. Er það niðurstaða dómsins að lega landsvæðis þessa sé með þeim hætti, að það verði ekki talið til heimalands Hrunastaðar.

Í ýmsum heimildum kemur fram að Hruni telji til eignar yfir Hrunaheiðum. Hér er þó fyrst og fremst um að ræða munnmæli, ályktanir eða fullyrðingar í staðarlýsingum sem ekki eiga sér skjalfesta stoð aðra en frásögn máldagans frá 1331 um gjöf Þórarins Hrólfssonar og endurtekningu þessa í síðari heimildum. Svo sem rakið hefur verið er umdeilt hvort sú gjöf hafi aðeins tekið til Laxárgljúfra eða einnig til allra heiðanna vestan þeirra, sem nú nefnast Hrunaheiðar. Hruni kann og að hafa eignast Hrunaheiðar með öðrum hætti, til dæmis með jörðunum Hrunakróki eða Kaldbak, en engin skjalfest gögn eru um það í málinu. Samkvæmt landamerkjabréfinu frá 12. maí 1885 tilheyrir svæðið Hrunastað. Hrunaheiðar eru sérstaklega nefndar í bréfinu eftir að lýst hefur verið merkjum ýmissa jarða Hrunastaðar og undirskriftum forsvarmanna aðliggjandi eigna. Þar á eftir eru taldir þeir skógar sem kirkjan á og skilgreind beitarréttindi Hruna í landi annarra jarða. Það að Hrunaheiða er getið á þessum stað í bréfinu og samhliða eignum sem augljóslega eru ítök, bendir til þess að frekar sé þar vísað til óbeins eignarréttar. Á 20. öld var aðeins í takmörkuðum mæli rekið á heiðarnar, en þeirra er getið í fasteignamati einungis sem nytjalands. Í framburði vitna fyrir óbyggðanefnd kom skýrt fram að Hrunamannahreppur lætur smala Hrunaheiðar og lönd efstu bæja í sveitinni. Ekki er til þess vitað að Hruni hafi tekið endurgjald fyrir beitarnot annarra á heiðunum.

Stefnandi hefur ekki rennt neinum stoðum undir þá fullyrðingu sína að hann hafi sérstaklega nýtt þetta land til annars en beitar, og hann hefur ekki nefnt nein dæmi um það eða lagt fram gögn sem styðja þá fullyrðingu hans að hann hafi meinað öðrum að nota það, eða sérstakt leyfi til þess að nota það hafi verið sótt til hans.

Jörðin Hruni eignaðist ýmsar jarðir í hreppnum, m.a. þær sem liggja að suðurmörkum Hrunaheiða. Heiðarnar liggja frá byggð og inn til landsins að afréttinum. Vegna legu sinnar og skorts á frekari heimildum verða þær ekki taldar til heimalands Hruna. Af því leiðir að meiri kröfur eru gerðar til sönnunar fyrir beinum eignarrétti að svæðinu. Ekki er nægilega skýrt hvað fólst í gjöf Þórarins Hrólfssonar og heimildir um hana eru ekki aðrar en frásagnir í máldögum. Landamerkjabréf getur stutt það að eign sé undirorpin beinum eignarrétti en fyrst og fremst er það þó sönnun um mörk á milli eigna. Uppsetning landamerkjabréfs Hrunajarða frá 1885 bendir frekar til þess að fjallað sé um óbeinan eignarrétt að því er Hrunaheiðar varðar. Aðrar óyggjandi heimildir um eignarrétt að Hrunaheiðum hafa ekki komið fram. Þær upplýsingar sem fyrir liggja í málinu um notkun þessa landsvæðis benda ekki til þess að ábúendur á Hruna hafi séð um smölun á þessu svæði. Þvert á móti virðist Hrunamannahreppur hafa annast hana. Er í stefnu vísað til þess að hreppurinn hafi nánast stöðu ábúanda á heiðunum, en ekki hefur verið vísað til neinna samninga á milli stefnanda og hreppsins eða annarra um notkun þeirra.

Ekki er fallist á að stefnandi hafi unnið til beins eignarréttar yfir landinu með hefð. Hann þykir ekki hafa sýnt fram á að notkun hans á landinu hafi verið með þeim hætti að sambærileg teljist eignaryfirráðum. Landið hefur ekki verið afgirt af ábúendum Hruna, ekki hefur verið innheimt endurgjald fyrir nytjar eða neinar sönnur færðar á beitingu yfirráðaréttar, svo sem með veitingu leyfa til afnota eða banni við nýtingu landsins. Rekstur á landsvæðið á ákveðnu tímabili getur ekki hafa stofnað til beins eignaréttar yfir því, og tilhögun smölunar á síðari árum, eins henni er lýst af vitnum fyrir óbyggðanefnd, er ekki til merkis um beitingu eignaryfirráða. Stefnandi þykir samkvæmt þessu ekki hafa sannað að skilyrðum eignarhefðar á svæðinu hafi verið fullnægt.

Sá sem telur til eignarréttinda yfir landi skal færa fram heimildir fyrir eignatilkalli sínu samkvæmt almennum sönnunarreglum, sé það dregið í efa. Af hálfu óbyggðanefndar voru allar aðstæður og gögn könnuð ítarlega og lagt mat á þau. Ekki er sjálfgefið að ólík niðurstaða nefndarinnar varðandi svipuð svæði bendi til þess að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Heimildir geta verið ólíkar sem og lega lands, landshættir og nytjar. Stefnandi nefnir það að Tunguheiði hafi verið úrskurðuð eignarland, sem dæmi um það að jafnræðis hafi ekki gætt við það að úrskurða Hrunaheiðar þjóðlendu. Hér er ekki um sambærilega stöðu að ræða, þar sem óáfrýjaður dómur héraðsdóms um eignarrétt að Tunguheiði var fyrir hendi.

Þau rök er stefnandi setur fram um að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin snýr frekar að löggjafanum en óbyggðanefnd eða dómstólum. Skýrt er tekið fram í athugasemdum með þjóðlendulögum að utan þjóðlendumarka skuli falla þau lönd sem háð séu beinum eignarrétti. Mál þetta snýst um það hvort svo hátti til um Hrunaheiðar.

Stefnandi féll frá þeirri málsástæðu við aðalmeðferð málsins að með lögum nr. 58/1998 séu ekki uppfylltar kröfur um réttláta málsmeðferð og að með því hafi verið brotin 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Er samkvæmt framangreindu ekki fallist á það með stefnanda að óbyggðanefnd hafi brotið stjórnsýslureglur við meðferð málsins.

Af hálfu stefnda er því haldið fram, og niðurstaða óbyggðanefndar byggir á því, að hið umdeilda landssvæði hafi ekki verið háð beinum eignarrétti og teljist því þjóðlenda. Það er niðurstaða dómsins að þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu veiti ekki fullnægjandi sönnun fyrir beinum eignarrétti stefnanda að Hrunaheiðum. Einnig að gróðurfar þar og landfræðileg lega, sérstaklega með hliðsjón af staðsetningu Hrunajarðar, sem og nýting heiðanna, styðji ekki heldur fullyrðingu stefnanda um að hann eigi beinan eignarrétt að Hrunaheiðum. Á hinn bóginn þykir greint landamerkjabréf og aðrar heimildir sýna að Hrunastaður eigi óbeinan eignarrétt á Hrunaheiðum.

Með vísan til alls þess sem hér að framan hefur verið rakið er hafnað kröfu stefnanda um að ógilda úrskurð óbyggðanefndar í máli nr. 5/2000 að því varðar Hrunaheiðar og skal hann standa óraskaður.

Samkvæmt framangreindri niðurstöðu þykir eftir atvikum rétt að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kveða upp Hjördís Hákonardóttir dómstjóri, Arngrímur Ísberg héraðsdómari og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.

D ó m s o r ð

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, prestsetrasjóðs, um að úrskurður óbyggðanefndar 21. mars 2002 í máli nr. 5/2000 verði felldur úr gildi að því leyti að Hrunaheiðar í Hrunamannahreppi teljist þjóðlenda.

Málskostnaður fellur niður.

 

 

Sératkvæði Hjördísar Hákonardóttur

Upplýst þykir í máli þessu, að innan sveitarfélagsins hafi ætíð verið litið á Hrunaheiðar sem eignarland Hrunastaðar. Landamerkjabréfum Hruna og aðliggjandi jarða og afrétta að Hrunaheiðum hefur borið saman og hafa þau verið ágreiningslaus.

Landsvæði það sem kallað er Hrunaheiðar er nokkuð gróið og samkvæmt hæðarlínum í um 400 m hæð. Það liggur frá heimalöndum nokkurra efstu jarða í Hrunamannahreppi, sem hafa allar verið í eigu Hruna á einhverjum tíma, inn til landsins að Hrunamannaafrétti. Líkur eru fyrir því að Hrunaheiðar séu innan upprunalegs landnáms í Hrunamannahreppi. 

Í lögum nr. 58/1998 um þjóðlendur er skýrt tekið fram að þjóðlenda sé land sem ekki sé háð einkaeignarrétti. Í athugasemdum löggjafans með þjóðlendulögum segir að ekki hafi staðið til að hrófla við þinglýstum eignarlöndum. Eignarréttur nýtur verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var með samnefndum lögum nr. 62/1994.

Stefnandi byggir fullyrðingu sína um að Hrunaheiðar séu bein eign hans á heimildum um gjöf Þórarins Hrólfssonar í Hörgsholti og á þinglesnu landamerkjabréfi frá 12. maí 1885. Niðurstaða máls þessa veltur að verulegu leyti á því hvernig heimildir þessar verða túlkaðar. Einnig kann nýting landsins að gefa vísbendingu um hvernig eignarrétti þar er háttað.

Gjafabréf Þórarins virðist glatað en þess er getið í fyrsta máldaga Hrunakirkju um 1331 og síðan í Vilkinsmáldaga 1397 og máldaga Gísla Jónssonar biskups um 1570. Þessir tveir síðasttöldu máldagar skyldu teljast áreiðanleg og löggilt kirkjuregistur samkvæmt 16. gr. erindisbréfs konungs 1746, sbr. konungsbréf frá 5. apríl 1749. Gjafabréfsins er einnig getið í vísitasíubókum biskupa á 17., 18. og 19. öld. Hrunaheiða er ekki getið í Jarðabókum. Árið 1840 segir séra Jón Steingrímsson í sóknarlýsingu að afréttur hreppsins séu almenningar „að fráteknum Hrunaheiðum, er liggja til Hrunastaðar“. Í fasteignabókum á tuttugustu öld er heiðanna þrisvar getið í tengslum við upprekstur. Heimildir um smölun benda ekki til þess að um samnota afrétt sé að ræða á Hrunaheiðum, en þær benda heldur ekki til mikillar nýtingar ábúenda í Hruna. Hreppurinn hefur í einhvern tíma séð um smölun þar.

Rök hafa verið færð fyrir því að Hörgsholt hafi verið landnámsjörð í Hrunamannahreppi. Sé það rétt hafa Laxárgljúfur og Hrunaheiðar væntanlega verið innan þess náms. Líklegt er að framangreind gjöf hafi haft þann tilgang að styrkja Hrunastað sem hafði ekki víðfeðm heimalönd. Í greindu gjafabréfi segir: „Þetta gaf Þórarinn Hrólfsson til Hrunastaðar, þá er hann átti Hörgsholt, Laxárgljúfur öll norður frá Kaldbakslandi. Skal þó sá er í Hörgsholti býr fá 2 menn til safns um Kaldbaksheiðar með Hrunamönnum hvert haust til allra lögrétta.“ Nærtækast er að líta svo á að nefndar Kaldbaksheiðar og Hrunaheiðar séu sama landsvæði. Orðalagið „norður frá Kaldbakslandi“ hlýtur eðli máls samkvæmt að vísa til Hrunaheiða. Alltraustar heimildir geta ítrekað um gjöf þessa allt frá 14. öld. Eigendur Hruna virðast síðan hafa litið svo á að gjöf Þórarins hafi tekið til Hrunaheiða.

Samkvæmt landamerkjalögum nr. 5/1882 var landeigendum gert að gera landamerkjabréf og var þessum fyrirmælum fylgt af eigendum Hruna með landamerkjabréfinu frá 1885. Þar segir að Hrunakirkja eigi Hrunaheiðar. Bréfið var þinglesið og hefur ekki sætt andmælum svo vitað sé. Merkjum aðliggjandi jarða og afrétta ber saman við lýsingu á mörkum Hrunaheiða í landamerkjabréfinu, verða þau því vart ómerkt vegna þess eins að staðfest samþykki forráðamanna þessara svæða vantar, enda eru þau óumdeild. Landamerkjabréfið er þannig upp byggt að fyrst eru taldar þær jarðir er á þeim tíma heyrðu undir Hruna og merkjum hverrar fyrir sig lýst og síðan skrifar forráðamaður Hrunastaðar þar undir og a.m.k. einhverjir eigendur aðliggjandi eigna staðfesta þá lýsingu með undirskrift sinni. Þar fyrir neðan er ofangreind fullyrðing um að Hrunakirkja eigi Hrunaheiðar ásamt lýsingu á merkjum þeirra. Þar á eftir eru taldir þeir skógar sem Hruni á og beitarítök. Þegar litið er til efnis bréfsins er ekki óeðlilegt að fjallað sé um Hrunaheiðar neðan undirskrifta enda skrifa þar engir rétthafar þeirra eigna er land eiga að heiðunum. Yfirlýsingin um eignarétt Hruna að Hrunaheiðum er hins vegar afdráttarlaus: „Enn fremur á Hrunakirkja Hrunaheiðar, sem liggja á milli afréttar og heimalanda“.

Þó að Hrunaheiðar liggi ekki að landi Hruna liggja þær að landi efstu byggðar og sunnan afréttar. Þegar sögulegar heimildir eru virtar ásamt greindu landamerkjabréfi og þær væntingar sem stefnandi hefur haft á grundvelli þessara gagna til eignarréttar síns til heiðanna, þá þykja ekki verða gerðar kröfur til þess að hann færi frekari sönnur fyrir eignarrétti sínum að Hrunaheiðum. Það að nýting lands sé nú eingöngu til beitar er ekki fullnægjandi ástæða til þess að ákveða að beinn eignarréttur sé ekki til staðar eða hafi fallið niður. Eignarréttur stefnanda að landsvæði þessu, sem ætíð hefur verið skýrt afmarkað, hefur ekki verið dreginn í efa fyrr en með kröfulýsingu stefnda fyrir óbyggðanefnd.

Þegar allt framangreint er haft í huga þykir ekki hafa verið hnekkt þeirri fullyrðingu stefnanda að hann eigi beinan eignarrétt að Hrunaheiðum eins og mörkum þeirra er lýst í stefnu. Ég er að öðru leyti sammála forsendum og niðurstöðu meirihluta dómsins.