Print

Mál nr. 306/2001

Lykilorð
  • Tjáningarfrelsi
  • Friðhelgi einkalífs
  • Lögmaður
  • Málsbætur
  • Aðild
  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta

Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. mars 2002.

Nr. 306/2001.

Jón Steinar Gunnlaugsson

(Hákon Árnason hrl.)

gegn

X

(Sif Konráðsdóttir hrl.)

 

Tjáningafrelsi. Friðhelgi einkalífs. Lögmenn. Málsbætur. Aðild. Kröfugerð. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.

 

X höfðaði mál fyrir héraðsdómi gegn J vegna ummæla sem hann lét falla í opinberri umræðu um dóm Hæstaréttar í máli nr. 286/1999 en með þeim dómi var faðir X sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gegn X er hún var barn. Héraðsdómur taldi J hafa með ummælum sínum gert á hlut X í sjö tilvikum og ógilti úrskurð úrskurðarnefndar lögmanna, sem hafði hafnað því að J hafi brotið góða lögmannshætti. Kröfu X, um að viðurkennt yrði að J hafi brotið góða lögmannshætti „með háttsemi sinni og ummælum í fjölmiðlum“ á tilteknu tímabili um umrætt hæstaréttarmál, var vísað frá dómi, þar sem krafan þótti í senn of óljós og óákveðin til þess að efnisdómur yrði lagður á hana. Þá var tekið fram að X hefði ekki með réttu átt að beina dómkröfu um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar lögmanna að henni, heldur eingöngu að J, sem gagnaðila X fyrir nefndinni. Talið var að þegar leyst væri úr því hvort einstök ummæli J skyldu varða hann bótaábyrgð og valda því að úrskurður nefndarinnar yrði felldur úr gildi yrði að meta tjáningarfrelsi J gagnvart rétti X til friðhelgi einkalífs og æruverndar. Var talið að tiltekin ummæli J yrðu ekki skilin öðru vísi en svo að hann hafi með þeim borið X á brýn að hafa gegn betri vitund sett fram rangar sakir á hendur föður sínum. Í umræddum sýknudómi Hæstaréttar væri því hins vegar ekki slegið föstu að ásakanir X á hendur föður sínum hafi verið efnislega rangar. Þá hafi orðfæri J um kvartanir X yfir ósæmilegu atferli kennara er hún var 15 eða 16 ára gömul gefið til kynna að ásakanir X hafi varðað annars konar og alvarlegri athafnir en var í reynd. Þótti J hafa brotið gegn X með þessum ummælum og var hann dæmdur til greiðslu miskabóta vegna þeirra. Ekki var talið að J hafi gert á hlut X með ummælum sínum er vörðuðu efni bréfs er X hafði skrifað föður sínum þegar hann dvaldist í útlöndum haustið 1995. Við ákvörðun á fjárhæð miskabóta var tekið tillit til þeirra aðstæðna sem voru ríkjandi þegar J lét ummæli sín falla og markmiðs hans með þátttöku í umræðunni, en jafnframt til þess að þau bitnuðu á X, sem hafi á engan hátt gefið honum réttmætt tilefni til að vega að persónu sinni og æru. Þá var úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna felldur úr gildi að því leyti sem hann varðaði ummæli sem voru talin fela í sér ólögmæta meingerð gagnvart X.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður, Helgi I. Jónsson héraðsdómari, Ingveldur Einarsdóttir settur dómstjóri og Jónatan Þórmundsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. ágúst 2001. Hann krefst þess aðallega að vísað verði frá héraðsdómi kröfu stefndu um að viðurkennt verði að hann hafi brotið góða lögmannshætti með háttsemi sinni og ummælum í fjölmiðlum á tímabilinu frá 5. til 28. nóvember 1999 um hæstaréttarmálið nr. 286/1999, sem dómur gekk í 28. október sama árs, en hann verði að öðru leyti sýknaður af kröfum stefndu. Til vara krefst hann sýknu að öllu leyti af kröfum stefndu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem henni hefur verið veitt.

I.

Málið á rætur að rekja til þess að 28. febrúar 1997 kom stefnda, sem þá var á átjánda ári, fyrir rannsóknarlögreglu ríkisins og bar fram kæru á hendur föður sínum fyrir að hafa á nánar tiltekinn hátt misnotað sig kynferðislega allt frá því að hún var sex eða sjö ára að aldri. Að lokinni lögreglurannsókn höfðaði ríkissaksóknari opinbert mál á hendur föður stefndu með ákæru 12. ágúst 1997, þar sem krafist var að hann yrði dæmdur til refsingar fyrir ætluð brot, sem þar greindi, gegn 1. mgr. 200. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, svo sem þeim var breytt með 8. gr. og 10. gr. laga nr. 40/1992. Í málinu neitaði ákærði sök. Dómur var felldur á það í Héraðsdómi Reykjavíkur 1. apríl 1998, þar sem ákærði var sakfelldur og honum gerð refsing. Þeim dómi var áfrýjað. Með dómi Hæstaréttar 17. september sama árs var hann ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. Dómur gekk öðru sinni í málinu fyrir héraðsdómi 2. júlí 1999. Meiri hluti dómenda taldi þar að fram væri komin lögfull sönnun fyrir því að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi, sem greindi í ákæru, og dæmdi hann til að sæta fangelsi í 4 ár. Einn dómenda var þessu ósammála og taldi að sýkna bæri ákærða. Þessum dómi var áfrýjað til Hæstaréttar 8. júlí 1999. Þar var felldur dómur 28. október sama árs á málið, sem hafði hlotið númerið 286/1999. Í niðurlagi dómsins, sem þrír dómendur stóðu að, sagði meðal annars svo: „Þegar litið er til alls þess, sem fram er komið í málinu, verður ekki fallist á, að ákæruvaldinu hafi tekist, gegn eindreginni neitun ákærða, að færa fram vafalausa sönnun um sekt hans samkvæmt þeirri verknaðarlýsingu, sem fram kemur í ákæru. Eins og hún er úr garði gerð getur ekki til þess komið, að öðrum refsiákvæðum verði beitt um þá framkomu ákærða gagnvart dóttur sinni, sem hann hefur þó gengist við. Samkvæmt þessu verður ákærði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.“ Í sératkvæði tveggja dómenda var á hinn bóginn talið að staðfesta ætti niðurstöðu héraðsdóms.

Áfrýjandi, sem er starfandi hæstaréttarlögmaður, var skipaður verjandi föður stefndu í framangreindu máli þegar það var til meðferðar fyrir Hæstarétti í fyrra skiptið, svo og á báðum dómstigum upp frá því.

Af gögnum málsins verður séð að frásögn um niðurstöðu dóms Hæstaréttar í málinu birtist meðal annars í tveimur dagblöðum 29. október 1999. Í Morgunblaðinu 2. nóvember sama árs var birt grein með fyrirsögninni „Sekur – sekari“, þar sem deilt var á tiltekin atriði varðandi meðferð málsins fyrir Hæstarétti og niðurstöðu dómsins um sýknu föður stefndu. Höfundur greinarinnar var nafngreindur og sagt neðan við hana að hann væri „skyldmenni kæranda“. Áfrýjandi svaraði þessum skrifum með grein, sem birtist í sama blaði 5. nóvember 1999 undir fyrirsögninni „Saklaus uns sekt er sönnuð“. Í hönd fór mikil umræða í fjölmiðlum um niðurstöðu dómsmálsins, sem af fyrirliggjandi gögnum að dæma stóð yfir meira eða minna óslitið fram í desember 1999. Urðu þar ýmsir til að deila harkalega á dóm Hæstaréttar og halda því fram að faðir stefndu, sem að minnsta kosti í einu tilviki var nafngreindur, hafi ranglega verið sýknaður. Ekki verður séð að stefnda hafi tekið þátt í umræðunni eða að greint hafi verið þar frá nafni hennar. Áfrýjandi tók á hinn bóginn virkan þátt í þessari umræðu með frekari greinarskrifum, viðtölum í dagblöðum, útvarpi og sjónvarpi og flutningi erindis í útvarpi. Varð hann einn af fáum til að taka þar málstað föður stefndu og mæla fyrir réttmæti niðurstöðunnar í dómi Hæstaréttar. Í tengslum við þessa umræðu gaf faðir stefndu út til áfrýjanda svohljóðandi yfirlýsingu 9. desember 1999: „Allt frá því hæstaréttardómur í máli mínu var kveðinn upp 28. október 1999 hef ég orðið að sæta heiftúðugum árásum á persónu mína á opinberum vettvangi. Þessar árásir hafa sett verulegt mark á líf mitt og er nú svo komið að ég tel mig verða að flytjast brott af landinu til að geta fengið frið fyrir þessum árásum. Verjandi minn Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. hefur gengið fram og leitast við að verja mig fyrir þessum árásum og skýra mál mitt fyrir þeim almenningi sem dæmir mig svo ranglega og hart. Hann hefur fullt samþykki mitt við öllu því sem hann hefur borið fram í þessum umræðum. Sérstaklega tek ég fram, að ég óskaði gagngert eftir því við hann, að hann birti opinberlega tilvitnanir úr bréfi sem dóttir mín sendi mér haustið 1995.“

Af hálfu stefndu var 6. desember 1999 borin fram kvörtun við úrskurðarnefnd lögmanna, sem starfar á grundvelli ákvæða 4. gr. og V. kafla laga nr. 77/1998 um lögmenn, vegna „háttsemi hæstaréttarlögmannsins Jóns Steinars Gunnlaugssonar í tengslum við hæstaréttarmálið nr. 286/1999.“ Var þar lýst þeirri skoðun að áfrýjandi hafi brotið góða lögmannshætti samkvæmt siðareglum, sem um lögmenn gildi, og gegn ákvæðum laga nr. 77/1998 og laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Í fylgiskjali með kvörtuninni var sagt að hún beindist að „rekstri lögmannsins á málinu í fjölmiðlum, á háttsemi sem hann hefur sýnt opinberlega í tengslum við ofangreint sakamál.“ Ekki var þar greint frá einstökum atvikum, sem stefnda teldi þetta eiga við, en vísað var til tiltekinna greina eftir áfrýjanda og viðtala við hann í dagblöðum, viðtala við hann í útvarpi og sjónvarpi og útvarpserindis hans, sem þar var nefnd „málflutningsræða“. Þess var krafist að áfrýjanda yrðu gerð viðurlög eða að minnsta kosti fundið að „vinnubrögðum hans og háttsemi“ og honum veitt viðvörun eða áminning, auk þess sem honum yrði gert að greiða stefndu málskostnað. Í greinargerð til úrskurðarnefndarinnar 6. janúar 2000 voru færð fram svör áfrýjanda við þessari kvörtun. Að þeim fram komnum var stefndu gefinn kostur á að gera skriflegar athugasemdir, sem var gert í greinargerð hennar 11. febrúar 2000. Þar voru meðal annars tiltekin orðrétt í samtals 38 liðum ummæli, sem áfrýjandi hafði látið falla í fyrrnefndri umræðu og stefnda kvað kvörtun sína varða. Þessi ummæli voru tekin upp úr fimm greinum áfrýjanda og viðtölum við hann, sem birst höfðu í dagblöðum, og einu viðtali og einu erindi í útvarpi. Þessari greinargerð stefndu var svarað með annarri af hálfu áfrýjanda 27. febrúar 2000.

Úrskurðarnefnd lögmanna kvað upp úrskurð 22. maí 2000 um kvörtun stefndu. Meiri hluti nefndarinnar, sem þrír nefndarmenn mynduðu, komst að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hefði ekki „með ummælum sínum og háttsemi“ brotið á stefndu og hafnaði kröfu hennar um málskostnað. Í séráliti tveggja nefndarmanna var áfrýjandi á hinn bóginn í 10 tilvikum talinn hafa gert á hlut stefndu með ummælum sínum og brotið þannig gegn siðareglum Lögmannafélags Íslands. Taldi minni hluti nefndarinnar að veita bæri áfrýjanda áminningu og gera honum að greiða stefndu 150.000 krónur í málskostnað.

Með stefnu 6. júní 2000 höfðaði stefnda mál þetta gegn áfrýjanda og úrskurðarnefnd lögmanna. Þar var þess krafist í fyrsta lagi að áðurnefndur úrskurður nefndarinnar yrði ógiltur, í öðru lagi aðallega að áfrýjanda yrði veitt áminning og gert að greiða stefndu 150.000 krónur í málskostnað vegna meðferðar máls þeirra fyrir nefndinni en til vara að viðurkennt yrði að áfrýjandi hefði brotið góða lögmannshætti með háttsemi sinni og ummælum í fjölmiðlum á tímabilinu frá 5. til 28. nóvember 1999 um fyrrgreint dómsmál og í þriðja lagi að áfrýjandi yrði dæmdur til að greiða stefndu 500.000 krónur í miskabætur auk málskostnaðar. Í stefnunni kom fram að stefnda teldi áfrýjanda hafa brotið góða lögmannshætti með því að hafa opinberlega látið orð falla, sem þar greindi nánar í 10 liðum, en þetta væru sömu ummæli og minni hluti úrskurðarnefndar lögmanna hefði talið varða áfrýjanda viðurlögum. Þessi ummæli hafi að auki falið í sér ólögmæta meingerð, sem veiti stefndu rétt til miskabóta úr hendi áfrýjanda samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Áfrýjandi tók til varna í málinu ásamt úrskurðarnefnd lögmanna, sem krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi að því er hana varðaði, en áfrýjandi krafðist þess að kröfum stefndu, sem greindi hér áður í öðru lagi, yrði vísað frá dómi. Héraðsdómari hafnaði kröfum um frávísun með úrskurði 23. mars 2001. Í framhaldi af því lét úrskurðarnefnd lögmanna þingsókn í málinu falla niður. Með hinum áfrýjaða dómi, sem kveðinn var upp 6. júlí 2001, var vísað frá dómi kröfu stefndu um að áfrýjanda yrði veitt áminning. Þá var hafnað kröfu stefndu um að áfrýjanda yrði gert að greiða henni málskostnað fyrir úrskurðarnefndinni. Í dóminum voru á hinn bóginn teknar til greina kröfur stefndu um að úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna frá 22. maí 2000 yrði ógiltur og að viðurkennt yrði að áfrýjandi hafi brotið góða lögmannshætti með háttsemi sinni og ummælum í fjölmiðlum um hæstaréttarmálið nr. 286/1999, en þó þannig að það hafi gerst á tímabilinu frá 20. til 28. nóvember 1999. Auk þess var áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu 100.000 krónur í miskabætur, svo og til að greiða málskostnað.

Stefnda hefur ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti og unir því framangreindri niðurstöðu um dómkröfur sínar í héraði. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var því jafnframt lýst yfir að stefnda felli sig við niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að ummæli áfrýjanda í 3 af þeim 10 tilvikum, sem hún reisti kröfur sínar á fyrir héraðsdómi, hafi verið honum vítalaus.

II.

Eins og áður er fram komið leysti héraðsdómari að efni til úr dómkröfu stefndu, sem orðuð var á eftirfarandi hátt í héraðsdómsstefnu: „Að viðurkennt verði að stefndi Jón Steinar Gunnlaugsson hafi brotið góða lögmannshætti með háttsemi sinni og ummælum í fjölmiðlum á tímabilinu frá 5. nóvember 1999 til 28. nóvember 1999, um mál sem dæmt var í Hæstarétti þann 28. október 1999, í málinu nr. 286/1999.“

Í málatilbúnaði stefndu er hvergi að sjá viðhlítandi greinargerð um hver sú „háttsemi“ áfrýjanda hafi verið, sem um ræðir í þessari kröfu, en ljóst hlýtur að vera af orðalagi hennar að þar sé átt við eitthvað annað en þau ummæli, sem áfrýjandi lét falla í umræðu um niðurstöðu hæstaréttarmálsins nr. 286/1999. Meðal gagna málsins eru fjölmargar greinar um þetta málefni eftir áfrýjanda og viðtöl við hann um það, sem hafa birst í dagblöðum. Þá er einnig ritaður texti úr viðtölum við hann í útvarpi og sjónvarpi, svo og úr erindi hans um málið í útvarpi 28. nóvember 1999. Eins og framangreind dómkrafa stefndu er orðuð er hvergi afmarkað þar hvað af ummælum áfrýjanda, sem er að finna í öllum þessum gögnum málsins, teljist að mati hennar andstæð góðum lögmannsháttum. Þótt greint hafi verið í þeim kafla héraðsdómsstefnu, sem geymdi málsástæður stefndu, sérstaklega í 10 liðum frá ummælum áfrýjanda, sem hún taldi brotið á sér með, er hvorki beint né óbeint skírskotað til þeirrar talningar í orðalagi þessarar dómkröfu. Með því að fella efnisdóm á þessa kröfu stefndu, eins og hún hljóðar bókstaflega, yrði tekin afstaða til fjölmargra ummæla áfrýjanda, sem stefnda hefur þó hvergi haldið fram að brotið hafi verið á sér með. Þessi krafa stefndu er því í senn of óljós og óákveðin til þess að efnisdómur verði lagður á hana, sbr. meginreglu d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu verður fallist á með áfrýjanda að vísa verði þessari kröfu stefndu frá héraðsdómi.

III.

Stefnda hefur sem áður segir meðal annars krafist þess í málinu að ógiltur verði úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna frá 22. maí 2000 um áðurgreinda kvörtun hennar á hendur áfrýjanda. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti var að gefnu tilefni tekið fram af hálfu stefndu að þessari kröfu hafi fyrir héraðsdómi verið beint bæði að áfrýjanda og úrskurðarnefnd lögmanna, en hér fyrir dómi væri henni haldið uppi gagnvart áfrýjanda einum, enda er nefndin ekki aðili að málinu á þessu dómstigi.

Stefnda lagði kvörtun sína á hendur áfrýjanda fyrir úrskurðarnefnd lögmanna með heimild í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Með úrskurðinum 22. maí 2000 leysti nefndin úr því erindi. Það gerði hún sem stjórnvald, sem fengið er með lögum vald til að leysa úr ágreiningsefni af þessum toga milli tveggja málsaðila. Þegar stefnda höfðaði þetta mál til að leita úrlausnar dómstóla um réttmæti niðurstöðu nefndarinnar var stefndu rétt að beina kröfu af því tilefni að áfrýjanda sem gagnaðila sínum við rekstur málsins fyrir nefndinni. Á hinn bóginn átti ekki með réttu að beina slíkri dómkröfu um leið að úrskurðarnefnd lögmanna, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í dómasafni 1997, bls. 643. Héraðsdómari leysti allt að einu efnislega úr kröfu stefndu um ógildingu úrskurðarins, bæði gagnvart áfrýjanda og úrskurðarnefnd lögmanna. Með því að nefndin er ekki aðili að málinu fyrir Hæstarétti verður ekki hreyft við þeirri niðurstöðu, sem fékkst með hinum áfrýjaða dómi um þessa kröfu, að því er nefndina varðar. Þetta fær því hins vegar ekki breytt að leyst verði óháð þessu úr kröfunni, sem stefnda heldur uppi gagnvart áfrýjanda um ógildingu úrskurðarins.

IV.

Með vísan til þess, sem áður greinir, stendur eftir til úrlausnar í máli þessu krafa stefndu á hendur áfrýjanda um miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, eins og henni var breytt með 13. gr. laga nr. 37/1999, svo og krafa stefndu gagnvart áfrýjanda um ógildingu úrskurðarins, sem úrskurðarnefnd lögmanna kvað upp 22. maí 2000.

Í 26. gr. skaðabótalaga er heimilað að dæma þann, sem ber skaðabótaábyrgð á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, til að greiða miskabætur þeim, sem misgert var við. Skilja verður málatilbúnað stefndu svo að hún reisi þessa málsókn á því að áfrýjandi hafi gerst sekur um slíka ólögmæta meingerð gagnvart sér með þeim ummælum, sem sérstaklega voru tilfærð í héraðsdómsstefnu. Sú ólögmæta meingerð eigi þó ekki aðeins að varða áfrýjanda bótaábyrgð, heldur hafi hún um leið falið í sér háttsemi, sem hafi verið andstæð siðareglum Lögmannafélags Íslands og getað varðað áfrýjanda þeim viðurlögum, sem um ræðir í fyrri málslið 2. mgr. 27. gr. laga nr. 77/1998. Með því að úrskurðarnefnd lögmanna hafi ekki í úrskurði sínum 22. maí 2000 fallist á að áfrýjandi hafi unnið til slíkra viðurlaga verði að ógilda úrskurðinn að því leyti, sem ummæli áfrýjanda kunna nú að verða talin varða hann bótaábyrgð samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga. Verður í þessu ljósi leyst í einu lagi úr því hvort einstök ummæli áfrýjanda, sem stefnda telur fyrir Hæstarétti að hafi falið í sér ólögmæta meingerð gagnvart sér, varði áfrýjanda bótaábyrgð og valdi því um leið að úrskurðurinn frá 22. maí 2000 verði felldur úr gildi að því er þau ummæli varðar.

Þegar leyst er úr því hvort einstök ummæli áfrýjanda hafi þær afleiðingar, sem áður greinir, verður að líta sérstaklega til þess að hann lét þau falla á opinberum vettvangi í umræðu um mikilsverð málefni, sem varðaði ekki eingöngu hvort skjólstæðingur hans í opinberu máli hafi verið sekur um refsiverða háttsemi, heldur fremur hver séu réttindi manns, sem sýknaður er með dómi af ákæru um slíka háttsemi, hvernig almenningi beri að virða þau réttindi og hvaða tillit almenningur verði að taka til dómsniðurstöðu þessa efnis. Til skoðana sinna um þessi málefni og þátttöku í umræðu um þau átti áfrýjandi rétt, sem varinn er af ákvæðum 1. mgr. og 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 11. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. einnig 10. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu með síðari breytingum. Samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar verða skorður ekki settar við frelsi áfrýjanda til skoðana sinna um þessi málefni og því aðeins samkvæmt 3. mgr. þeirrar greinar við frelsi hans til að tjá þær öðrum að nauðsyn beri til í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda sé það þá gert með lögum og samrýmanlegt lýðræðishefðum. Gagnstætt þessu tjáningarfrelsi áfrýjanda stendur réttur stefndu til friðhelgi einkalífs og æruverndar, sem í máli þessu varðar mikilsverð og viðkvæm atriði í tengslum við persónu hennar. Sá réttur stefndu er varinn af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, en samkvæmt 3. mgr. sömu greinar verður sá réttur því aðeins takmarkaður með lögum að brýna nauðsyn beri til þess. Þessi réttur stefndu, sem einnig er varinn af 8. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994, stendur jafnfætis rétti áfrýjanda til tjáningar og nýtur sömu lagaverndar, sbr. og ákvæði 17. gr. samningsins. Verður þannig að leggja mat á það með tilliti til einstakra ummæla áfrýjanda hvort gangi framar í hverju tilviki, frelsi hans samkvæmt 2. mgr., sbr. 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar til að láta þau uppi í opinberri umræðu eða réttur stefndu samkvæmt 1. mgr., sbr. 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar til friðhelgi einkalífs og æruverndar.

Við mat á einstökum ummælum áfrýjanda, sem til athugunar eru í máli þessu, verður auk þess, sem áður segir, að líta sérstaklega til þess að í umræðunni, sem þau féllu í, var vegið harkalega að föður stefndu, sem skömmu áður hafði verið sýknaður af alvarlegum sakargiftum í opinberu máli. Hann veitti jafnframt eins og áður greinir samþykki sitt til allra gerða áfrýjanda í þeirri umræðu. Í henni var þó ekki aðeins vegið að föður stefndu, heldur einnig öðrum þræði að áfrýjanda vegna starfa hans sem verjanda þess fyrrnefnda. Í umræðunni gætti og að nokkru marki misskilnings um hvert úrlausnarefni dómstóla hafi nákvæmlega verið í málinu. Með þátttöku sinni í umræðunni veitti áfrýjandi tilsvör í þágu föður stefndu og sína, leitaðist við að leiðrétta misskilning um efni málsins og hafði jafnframt uppi réttmætar ábendingar um nauðsyn þess að hafa í heiðri réttindi manns, sem dæmdur hefur verið sýkn í refsimáli. Á hinn bóginn verður að taka tillit til þess að áfrýjandi hefur áratuga reynslu af málflutningsstörfum. Verður í því ljósi að ætla að orð, sem hann lét falla í umræðu um þjóðfélagsmál á sviði, sem tengdist störfum hans, hafi vegið þyngra gagnvart almenningi en ef einhver annar ætti í hlut. Af þeim sökum og vegna stöðu hans sem lögmanns mátti ætlast til að hann fjallaði á þeim vettvangi af nærfærni um atriði, sem vörðuðu viðkvæm einkamálefni stefndu. Auk þessa alls verður að taka tillit til þess að áfrýjandi átti samkvæmt því, sem áður greinir, ekki upptökin að þeirri umræðu, sem málið varðar. Hann gætti þess jafnframt að greina ekki frá nafni stefndu í umfjöllun sinni, en fram hjá því verður þó ekki horft að í umræðunni urðu aðrir til að nafngreina föður stefndu og einnig til að lýsa yfir skyldleika við hana. Virðing áfrýjanda fyrir nafnleynd stefndu gat þannig ekki ein veitt henni vernd fyrir því að ummæli hans kynnu að verða tengd við persónu hennar. Andspænis þessum atriðum, sem áhrif geta haft við mat á frelsi áfrýjanda til að tjá sig á þann hátt, sem um ræðir í málinu, standa hagsmunir stefndu af vernd einkalífs síns og æru. Hún var tvítug að aldri þegar umræðan um mál föður hennar stóð hæst. Þótt áðurgreind kæra hennar á hendur föður sínum hafi leitt til saksóknar þurfti hún ekki að búast við því að persóna hennar og einkahagir yrðu gerðir að umtalsefni í almennri umræðu að gengnum dómi í málinu. Hvorki átti stefnda upptök að umræðunni né tók hún þátt í henni, en ekki getur hún þurft að gjalda þess gagnvart áfrýjanda að skyldmenni hennar eða aðrir, sem töldu á hana hallað með dómi um sýknu föður hennar, hafi hleypt umræðunni af stað og átt síðan stóran hlut að henni.

V.

Ummæli áfrýjanda, sem stefnda telur hafa að geyma ólögmæta meingerð gagnvart sér, sneru í þremur tilvikum að því, sem hún kveður vera aðdróttanir í sinn garð um að hún hafi borið á föður sinn rangar sakir. Þessi ummæli, sem tilfærð eru í liðum 7, 8 og 10 í hinum áfrýjaða dómi, komu öll fram í erindi áfrýjanda, sem útvarpsstöðin Bylgjan sendi út 28. nóvember 1999. Samkvæmt málatilbúnaði stefndu, sem hefur ekki að þessu leyti sætt andmælum af hendi áfrýjanda, voru ummælin svofelld:

„Þetta voru auðvitað kringumstæður sem gátu falið í sér skýringu á því hvers vegna rangar sakir komu fram og gátu líka falið í sér eins konar réttlætingar stúlkunnar gagnvart sjálfri sér fyrir því að koma fram með þær ásakanir.

.....

... viðurkennt í fræðum um rangar sakargiftir að þetta sé eitt af einkennum á þeim ... blasti það auðvitað við að viðurkenning ákærða á því að hafa misboðið dóttur sinni ... getur hafa orðið fóður hennar í þessar ásakanir. Þetta getur hafa magnast upp af kringumstæðum málsins. Eftir að af stað er farið er kannski engin leið til baka. Það kemur hvatning frá umhverfinu því auðvitað ... allir sem nálægt málinu koma fyllast samúð með henni og reyna að greiða fyrir henni og framburði hennar.

.....

Málið þarf ekki að vera svo einfalt að stúlkan sé einfaldlega blygðunarlaust að skrökva þessum sökum upp á föður sinn ... kann hún að hafa fengið fóður í ásakanir sínar í því sem hann hafði áður viðurkennt. Hún fann að hann var sakbitinn ... Svo koma þessar hvatningar allar saman og það verður erfitt að bakka ... það sem hún eykur í frásagnir sínar kunni að þróast þannig að hún sé meira og minna farin að trúa því sjálf. Allt mun þetta vera þekkt úr þessum fræðum.“

Við mat á framangreindum ummælum áfrýjanda verður að líta sérstaklega til þess að í upphafi þeirra ræðir hann um að fram hafi komið „rangar sakir“ og aftur, í upphafi 2. málsgreinarinnar hér að ofan, víkur hann að frásögn stefndu í beinum tengslum við það, sem hann telur viðurkennt í fræðum um „rangar sakargiftir“. Þetta orðfæri áfrýjanda verður ekki skilið öðru vísi en svo að með því hafi hann borið stefndu á brýn að hafa gegn betri vitund sett fram við lögreglu og fyrir dómi rangar sakir á hendur föður sínum, en slík háttsemi getur varðað refsingu samkvæmt 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga. Þótt leggja megi þann skilning í ýmis önnur áðurgreind ummæli að áfrýjandi leitist þar við að færa fram skýringar á gerðum stefndu, orka þessi ummæli þó í reynd til ítrekunar á því að stefnda hafi af ásetningi borið rangar sakir á föður sinn. Þá verður heldur ekki litið fram hjá því að fyrrgreind ummæli áfrýjanda í 2. og 3. málsgrein voru tengd umfjöllun hans um að stefnda hafi á fyrri stigum borið kennara sökum, eins og nánar greinir hér síðar.

Útvarpserindi áfrýjanda, þar sem hann lét þessi ummæli falla, var sent út réttum mánuði eftir að dómur Hæstaréttar gekk í refsimálinu á hendur föður stefndu, þar sem hann var sýknaður af kröfum ákæruvalds. Með þeirri niðurstöðu var ekki slegið föstu að ásakanir stefndu á hendur föður sínum um kynferðisbrot væru efnislega rangar. Þótt áfrýjandi hafi samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar verið frjáls að þeirri skoðun að draga mætti slíka ályktun af niðurstöðunni, verður ekki litið fram hjá því að með framangreindum ummælum hagaði hann ekki orðum eins og um væri að ræða slíkan gildisdóm sinn, heldur þvert á móti eins og staðreyndin væri sú að stefnda hafi af ásetningi borið föður sinn röngum sökum. Fyrir því er ekki hald. Þessi framsetning áfrýjanda var jafnframt ástæðulaus þótt gætt sé fyllilega að réttmætu markmiði með þátttöku hans í umræðunni, sem hér stóð yfir, enda var honum í lófa lagið að halda fram skoðunum sínum berum orðum sem gildisdómi. Þá voru þær skýringar, sem áfrýjandi færði fram sem hugsanlega ástæðu fyrir framferði stefndu, að auki á ýmsan veg niðrandi í hennar garð. Réttur stefndu til friðhelgi einkalífs og æruverndar verður í þessu efni að ganga framar rétti áfrýjanda til að viðhafa þessi ummæli um hana í almennri umræðu. Er óhjákvæmilegt að meta þau í heild sem ólögmæta meingerð gagnvart stefndu í skilningi 26. gr. skaðabótalaga, en samrýmanlegt er skilyrðum 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að dæma áfrýjanda til greiðslu miskabóta af þeim sökum.

VI.

Í tveimur tilvikum lutu ummæli áfrýjanda, sem stefnda telur að feli í sér ólögmæta meingerð í sinn garð, að því að stefnda hafi áður borið öðrum en föður sínum á brýn kynferðisbrot gagnvart sér. Þessi ummæli eru tilgreind í liðum 2 og 9 í héraðsdómi.

Í fyrra tilvikinu er um að ræða ummæli áfrýjanda í viðtali í dagblaðinu Degi 20. nóvember 1999. Á forsíðu blaðsins var vísað til viðtalsins með orðunum „Nýjar upplýsingar verjanda“, en í viðtalinu var síðan eftirfarandi haft eftir honum:

„Það kom einnig fram í þessu máli, að stúlkan hafði orðið uppvís að því að bera kennara sinn röngum sökum um kynferðislega áreitni. Um þetta var ekki margt sagt í hinum birtu dómum, sjálfsagt af tillitssemi við stúlkuna og aðra sem því máli tengdust. Eins og múgæsingin gegn manninum hefur þróast er nauðsynlegt að dómararnir á götunni fái að vita um þetta.“

Í seinna tilvikinu vísar stefnda til ummæla, sem áfrýjandi lét frá sér fara um sama efni í áðurnefndu erindi í útvarpsstöðinni Bylgjunni 28. nóvember 1999. Þau ummæli hefur hún eftir áfrýjanda eins og hér segir:

   „Þetta var ekki eina tilvikið þar sem stúlkan hafði komið fram með ásakanir um að sér hefði verið misboðið kynferðislega ... Við rekstur málsins ... komu fram ... upplýsingar um að hún hefði borið kennara sökum af þessu tagi. Þessar ásakanir voru hreint með ólíkindum. Og svo einnig frásögn stúlkunnar frá viðbrögðum geðlæknis á eftir, sem móðir hennar hafði látið hana leita til.“

Í málinu liggur fyrir hluti af endurriti skýrslu, sem stefnda gaf fyrir dómi við meðferð refsimálsins á hendur föður hennar. Aðspurð þar hvort einhver vandamál hafi komið upp hjá henni í skóla sagði stefnda frá því að eitt sinn hafi hún, 15 eða 16 ára gömul, ásamt tveimur öðrum stúlkum greint frá „ósæmilegu atferli hjá smíðakennara þarna við skólann“. Þetta atferli hafi verið fólgið í „snertingum“ og að auki hafi hann verið „eitt sinn ... í sjálfsfróun þegar bekkurinn var að labba inn.“ Af þessu hafi orðið „heljarinnar mál“, sem hafi lokið með því að stefndu og hinum stúlkunum tveimur hafi verið „sagt að biðjast afsökunar. Annars yrðum við reknar úr skólanum.“ Í beinu framhaldi af þessari frásögn stefndu var hún spurð hvort hún hafi leitað sér aðstoðar eftir að „þetta mál“ kom upp og svaraði hún því til að hún hefði leitað til geðlæknis á árinu 1996 að frumkvæði móður sinnar. Um afskipti þessa læknis af sér sagðist stefnda hafa talið að „það hafi bara verið eitthvað að honum. Hann sagði bara: Fannst þér þetta gott?“

Í áðurnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 1999 í máli ákæruvaldsins á hendur föður stefndu, sem birtur hefur verið opinberlega með dómi Hæstaréttar 28. október sama árs, var vikið þrívegis að því atviki, sem að framan greinir. Var það nánar tiltekið fyrst í reifun skýrslu, sem faðir stefndu gaf fyrir dómi, því næst í frásögn af framburði stefndu og loks þegar rakin voru atriði úr framburði móður hennar. Efnislega kom þar ekkert nánar fram um þetta atvik en ráðið verður af því, sem áður segir um framburð stefndu, en þó er í dóminum haft eftir móðurinni að stefndu hafi verið vikið úr skóla í eina viku af þessum sökum. Í dóminum var haft eftir föður stefndu að hún hafi sakað kennara um „einhvers konar einkennilegt athæfi“, en eftir móður hennar að hún hafi sakað kennara um „ósæmilegt athæfi“.

Svo sem áður greinir var haft eftir áfrýjanda í viðtali í dagblaði 20. nóvember 1999 að stefnda hefði orðið uppvís að því að bera kennara röngum sökum um „kynferðislega áreitni“. Ætla verður að ummæli á forsíðu blaðsins, sem fyrr er getið, hafi skírskotað til þessarar frásagnar áfrýjanda. Í útvarpserindi 28. sama mánaðar ræddi hann um að við rekstur refsimálsins hafi komið fram að stefnda hafi áður borið kennara sökum um að hafa misboðið henni kynferðislega. Stefnda lýsti ekki atvikinu, sem hér um ræðir, með slíkum orðum í áðurgreindum framburði sínum fyrir dómi og það virðast foreldrar hennar ekki hafa gert. Þótt háttsemin, sem stefnda kvað kennarann hafa sýnt af sér, mætti vissulega telja kynferðislega, er hvergi í gögnum málsins að finna stoð fyrir því að hún hafi sakað hann um kynferðislega áreitni við sig eða að hafa misboðið sér kynferðislega. Orðfæri áfrýjanda um þetta, sem ekki fylgdi nánari skýring, var fallið til að vekja þann skilning að ásakanir stefndu hafi varðað annars konar og alvarlegri athafnir en hér um ræðir. Ekkert liggur fyrir í málinu um hvernig forráðamenn skólans hafi rannsakað þær ásakanir, sem stefnda hefur gengist við að hafa borið á kennarann ásamt tveimur öðrum stúlkum, og heldur ekki hvort þær hafi reynst rangar, svo sem áfrýjandi fullyrti, þótt álykta megi af orðum móður stefndu um tímabundinn brottrekstur hennar úr skóla að svo geti hafa verið. Þá verður að líta til þess að í niðurlagi ummæla áfrýjanda í útvarpserindinu, sem greinir hér að framan, var vikið að því að stefnda hafi leitað til geðlæknis, en af samhengi orða áfrýjanda verður ekki annað ráðið en að þetta eigi að hafa gerst að frumkvæði móður stefndu í framhaldi af ásökunum hennar í garð kennarans. Verður vart fundin stoð fyrir slíkum skilningi í þeim framburði stefndu, sem áður er getið, en í því sambandi verður að gæta að því að stefnda, sem er fædd 1979, kvað atvikið varðandi kennarann hafa gerst þegar hún var 15 eða 16 ára, en til geðlæknis hafi hún leitað 1996.

Þegar þessi atriði eru virt í heild fólu áðurgreind ummæli áfrýjanda í sér fullyrðingar umfram það, sem gögn málsins gátu gefið réttmætt tilefni til. Ummæli áfrýjanda færðu atvikið, sem hér um ræðir, jafnframt í verulega neikvæðari búning fyrir stefndu en efni stóðu til. Þess verður og sérstaklega að gæta að frásögn áfrýjanda um að stefnda hafi gengið til geðlæknis í kjölfar þessa atviks styðst ekki nægilega við fyrirliggjandi gögn og hefur sætt andmælum af hálfu stefndu. Hvað sem líður sannleiksgildi þeirrar frásagnar gekk þó áfrýjandi með henni að ófyrirsynju á friðhelgi einkalífs stefndu. Réttur stefndu til friðhelgi einkalífs og æruverndar verður í þessu efni að ganga framar rétti áfrýjanda til að viðhafa áðurgreind ummæli um hana í almennri umræðu. Að þessu athuguðu er óhjákvæmilegt að meta þau sem ólögmæta meingerð gagnvart stefndu í skilningi 26. gr. skaðabótalaga, en samrýmanlegt er skilyrðum 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar að dæma áfrýjanda til greiðslu miskabóta af þeim sökum.

VII.

Loks telur stefnda áfrýjanda hafa í tveimur tilvikum gert á sinn hlut með ummælum, sem vörðuðu efni bréfs, sem hún sendi föður sínum þegar hann dvaldist í útlöndum haustið 1995. Þessi ummæli eru tekin upp í liðum 3 og 6 í hinum áfrýjaða dómi, en annars vegar birtust þau í viðtali við áfrýjanda í dagblaðinu Degi 20. nóvember 1999 og hins vegar hefur stefnda þau eftir honum í áðurgreindu útvarpserindi 28. sama mánaðar.

Ummælin í fyrrnefnda tilvikinu voru svohljóðandi:

„Í málinu lá fyrir að faðirinn átti góð samskipti við heimilið eftir að hann flutti út í maí 1995 og þar til hann tók saman við aðra konu haustið 1996. Meðal annars hafði stúlkan sent honum einkar ástúðleg bréf til útlanda haustið 1995 („elsku pabbi minn“, „jæja gamli kallinn okkar“, „við hlökkum allar ofboðslega mikið til að sjá þig“, „við elskum þig allar og bíðum spenntar eftir þér“, „þúsund milljón kossar“). Þegar hún var spurð um þetta, sagði hún að móðir sín hefði látið sig skrifa bréfin. Aðspurð fyrir rétti kannaðist móðirin ekki við að hafa hvatt hana til að skrifa ástúðlegri bréf heldur en hún sjálf hafi verið tilbúin að skrifa. Í lok júlí 1996 gerðu hjónin skilnaðarsamning, þar sem maðurinn fékk umgengnisrétt ...“.

Ummælin í síðarnefnda tilvikinu voru svofelld:

„... bréf frá dóttur sinni sem þá var orðin 16 ára gömul. Þar sendi hún honum kveðjur sem voru alveg sérstaklega ástúðlegar ... „Hæ, hæ, elsku pabbi minn. Takk æðislega fyrir öll kortin, það var rosalega gaman að fá þau. Jæja, gamli kallinn okkar, nú fer að styttast í heimkomuna. Við hlökkum allar ofboðslega mikið til að sjá þig. Vonum að þú hafir það gott þangað til. Við elskum þig allar og bíðum spenntar eftir þér. Þúsund milljón kossar. Þín dóttir. P.S. Líka ástar- og saknaðarkveðju frá mömmu og litlu systur. Hvernig gengur að hætta að reykja?“ ... Þetta er auðvitað atriði sem hlýtur að skipta máli við mat á þeirri sönnunarfærslu sem hér var leitast við að fara fram með.“

Við mat á heimild áfrýjanda til að vísa á þennan hátt til ummæla, sem stefnda lét falla í einkabréfi til föður síns, verður að gæta að því að bréfið var lagt fram sem sönnunargagn í refsimálinu á hendur þeim síðastnefnda. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í því máli 2. júlí 1999 var meðal annars í sératkvæði vitnað til þessa bréfs á þann hátt að stefnda hafi um haustið 1995 ritað föður sínum „ástúðleg bréf“, en þetta var fært fram sem ein af fleiri röksemdum fyrir þeirri afstöðu dómarans að sýkna ætti föður stefndu. Í dómi Hæstaréttar 28. október 1999 var jafnframt vikið að þessu bréfi með eftirfarandi ummælum: „Þá skrifaði kærandi honum ástúðleg bréf haustið 1995, sem ekki þykir unnt að horfa framhjá við sönnunarmat, þrátt fyrir skýringar hennar, sem greint er frá í héraðsdómi.“ Hafði efni bréfsins þannig sýnilega vægi þegar komist var að þeirri niðurstöðu að faðir stefndu yrði sýknaður í refsimálinu.

Framangreind ummæli í dómum um bréf stefndu voru birt opinberlega, en það var lagt fram í héraðsdómi sem sönnunargagn í máli, sem var rekið fyrir luktum dyrum. Það eitt breytir því ekki að bréfið var sent til föður stefndu, sem bar ekki af framangreindri ástæðu ríkari þagnarskyldu um efni þess en annars hefði verið. Hann óskaði sem áður segir gagngert eftir því við áfrýjanda að hann birti opinberlega tilvitnanir úr bréfinu. Orðin, sem stefnda beindi þar til föður síns, voru að sönnu ástúðleg, svo sem komið var fram í úrlausnum dómstóla. Með opinberun þeirra orða var að öðru leyti ekki greint frá atriðum, sem sérstaklega vörðuðu einkalíf stefndu. Áfrýjandi fór að engu leyti niðrandi orðum um efni bréfsins. Verður ekki litið svo á að áfrýjandi hafi gert á hlut stefndu með ummælum sínum, sem vörðuðu efni þessa bréfs.

VIII.

Í V. og VI. kafla þessa dóms er komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjandi hafi bakað sér bótaábyrgð samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga gagnvart stefndu með þeim ummælum, sem þar um ræðir. Þegar ákveðin er fjárhæð miskabóta, sem dæma verður áfrýjanda til að greiða stefndu af þessum sökum, verður sérstaklega að taka tillit til þeirra aðstæðna, sem voru ríkjandi þegar hann lét ummæli sín falla, og áðurgreinds markmiðs hans með þátttöku í almennri umræðu, en jafnframt til þess að þau bitnuðu á stefndu, sem hafði á engan hátt gefið honum réttmætt tilefni til að vega að persónu sinni og æru. Að því virtu eru miskabæturnar hæfilega ákveðnar 100.000 krónur í hinum áfrýjaða dómi. Verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu þá fjárhæð með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Til samræmis við þessa niðurstöðu verður jafnframt tekin til greina krafa stefndu um að úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna 22. maí 2000 verði felldur úr gildi, en þó aðeins að því leyti, sem hann varðar ummæli áfrýjanda, sem um ræðir í V. og VI. kafla þessa dóms.

Stefnda hefur notið gjafsóknar í málinu á báðum dómstigum. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir, en við þá ákvörðun er tekið tillit til ákvæðis fyrri málsliðar 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað stefndu skal vera óraskað. Um gjafsóknarkostnað hennar fyrir Hæstarétti fer samkvæmt því, sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Vísað er frá héraðsdómi kröfu stefndu, X, um að viðurkennt verði að áfrýjandi, Jón Steinar Gunnlaugsson, hafi brotið góða lögmannshætti með háttsemi sinni og ummælum í fjölmiðlum á tímabilinu frá 5. til 28. nóvember 1999 um hæstaréttarmálið nr. 286/1999, sem dómur var felldur á 28. október það ár.

Úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna 22. maí 2000 um kvörtun stefndu á hendur áfrýjanda er felldur úr gildi að því leyti, sem greinir í forsendum þessa dóms.

Áfrýjandi greiði stefndu 100.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. mars 2002 til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði í ríkissjóð samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 400.000 krónur.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. júní sl., var höfðað með stefnu, birtri 9. júní 2000 og áritaðri um birtingu 13. júní. Málið var þingfest 15. júní 2000.

Stefnandi er A, kt. […], […], Reykjavík.

Stefndu eru úrskurðarnefnd lögmanna samkvæmt 3. gr. laga nr. 77/1998, Álftamýri 9, Reykjavík og Jón Steinar Gunnlaugsson, kt. 270947-4179, Stigahlíð 63, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda:

1.                Að úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna frá 22. maí 2000 í málinu nr. 25/1999

verði ógiltur.

2.                Aðallega:

Að Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl., verði veitt áminning og honum gert að

greiða stefnanda 150.000 kr. í málskostnað fyrir úrskurðarnefndinni og

til vara:

Að viðurkennt verði að stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson, hafi brotið góða

lögmannshætti með háttsemi sinni og ummælum í fjölmiðlum á tímabilinu frá 5.

nóvember 1999 til 28. nóvember 1999, um mál sem dæmt var í Hæstarétti þann

28. október 1999, í málinu nr. 286/1999.

3.                Krafist er miskabóta úr hendi Jóns Steinars Gunnlaugssonar að fjárhæð 500.000

kr. auk dráttarvaxta frá því að mál þetta er höfðað til greiðsludags.

4.                Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum dæmdir til að greiða honum

málskostnað að skaðlausu skv. málskostnaðarreikningi eins og mál þetta væri

ekki gjafsóknarmál, en stefnandi fékk gjafsókn við rekstur málsins með leyfi

dómsmálaráðherra, dags. 6. okt. 2000.

Dómkröfur stefnda, Jóns Steinars Gunnlaugssonar:

Aðallega að kröfu stefnanda skv. 2. tl. í stefnu verði vísað frá dómi og stefndi sýknaður af öðrum kröfum stefnanda.

Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Jafnframt krefst stefndi í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.

Dómkröfur stefnda, úrskurðarnefndar lögmanna:

Þessi stefndi krafðist aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi að því er sig varðar en til vara sýknu af öllum dómkröfum stefnanda í málinu.

Með úrskurði, uppkveðnum 23. mars sl., var frávísunarkröfum stefndu hafnað.

Við munnlegan málflutning 1. júní sl. hélt stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson, fast við frávísunarkröfu sína.

Undir rekstri málsins féll niður þingsókn af hálfu stefnda, úrskurðarnefndar lögmanna. Ber því samkvæmt 3.  mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um  meðferð einkamála að dæma málið að því er þennan stefnda varðar eftir fram komnum kröfum og gögnum.

 

Málavextir

Í máli ákæruvaldsins gegn föður stefnanda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem sakarefnið voru meint kynferðisafbrot föður stefnanda gagnvart stefnanda, var faðir stefnanda sakfelldur. Tveir héraðsdómarar af þremur, sem fóru með málið, töldu sekt föður stefnanda sannaða og dæmdu hann til fjögurra ára fangelsisvistar, en einn dómaranna vildi sýkna vegna skorts á sönnun. Dómurinn var kveðinn upp 2. júlí 1999.

Hæstiréttur klofnaði í afstöðu sinni til sakarefnisins. Meirihluti réttarins sýknaði föður stefnanda vegna skorts á sönnunum en minnihlutinn vildi sakfella hann. Dómur Hæstaréttar var kveðinn upp 28. okt. 1999.

Í kjölfar hæstaréttardómsins urðu miklar umræður í fjölmiðlum um niðurstöðuna og urðu margir til að gagnrýna hana. Stefndi, Jón Steinar, sem verið hafði verjandi ákærða, tók þátt í þeirri umræðu með greinaskrifum og viðtölum, auk þess sem hann fjallaði um málið í sérstökum þætti á útvarpsstöðinni Bylgjunni 28. nóvember 1999.

Umfjöllun stefnda, Jóns Steinars, um sýknudóminn, á opinberum vettvangi varð stefnanda tilefni til að kæra stefnda fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Hinn 22. maí 2000 kvað úrskurðarnefndin upp úrskurð sinn og sagði í úrskurðarorði að kærði, Jón Steinar Gunnlaugsson, teldist ekki með ummælum  sínum og háttsemi hafa gert á hlut kæranda. Málskostnaðarkröfu kæranda var hafnað. Niðurstaða minnihluta nefndarinnar var að veita bæri kærða áminningu og úrskurða hann til að greiða kæranda 150.000 kr. í málskostnað.

Málsástæður og rökstuðningur stefnanda

Í stefnu segir að kröfugerð stefnanda í máli þessu sé í samræmi við álit og niðurstöðu þeirra tveggja nefndarmanna í úrskurðarnefnd lögmanna sem skiluðu sératkvæði í úrskurði nefndarinnar þann 22. maí 2000.

Stefnandi telur að stefndi, Jón Steinar, hafi brotið góða lögmannshætti með því að hafa viðhaft tiltekin ummæli opinberlega og eru þau ummæli tilgreind hér á eftir í tíu liðum.

1. Þann 5. nóvember 1999 í grein í Morgunblaðinu.

"Fyrir hendi voru í málinu margháttaðar kringumstæður sem gerðu ásakanir stúlkunnar tortryggilegar og gátu falið í sér skýringu á því, að stúlkan bæri föður sinn röngum sökum. Sumra er getið í forsendum meirihluta Hæstaréttar. Frá öðrum löndum eru þekkt dæmi um hræðilega harmleiki sem hlotist hafa af röngum sakargiftum í málum af þessu tagi."

Stefnandi telur að þessi ummæli séu meiðandi fyrir hana. Stefndi, Jón Steinar, gefi í skyn með ummælunum að stefnandi hafi borið föður sinn röngum sökum, þótt ekki segi hann það berum orðum í þessum ummælum. Stefnandi telur að ummælin séu andstæð 1. og 2. gr. Codex Ethicus og að þau verði hvorki réttlætt með vísan til 5. gr. þágildandi né núgildandi Codex. Stefnandi hafi ekkert tilefni gefið til ummælanna, ekkert hafi legið fyrir um að stefnandi hefði borið föður sinn röngum sökum og engir réttmætir hagsmunir stefnda eða fyrrum skjólstæðings hans hafi réttlætt meingerðina.

2.  Þann 20. nóvember 1999 í opnuviðtali í dagblaðinu Degi.

"Nýjar upplýsingar frá verjanda" [fyrirsögn á forsíðu]

"Það kom einnig fram í þessu máli, að stúlkan hafði orðið uppvís að því að bera kennara sinn röngum sökum um kynferðislega áreitni. Um þetta var ekki margt sagt í hinum birtu dómum, sjálfsagt af tillitssemi við stúlkuna og aðra sem því máli tengdust. Eins og múgæsingin gegn manninum hefur þróast er nauðsynlegt að dómararnir á götunni fái að vita um þetta."

Stefndi, Jón Steinar, staðhæfi hér í viðtali að stefnandi hafi orðið uppvís að því að bera kennara sinn röngum sökum um kynferðislega áreitni. Ekki sé að finna stoð fyrir þessu í dómunum, heldur komi það fram að þrjár stúlkur, þ. á m. stefnandi, hafi sakað kennara um ósæmilegt athæfi, en málið hafi ekki verið til lykta leitt. Ekkert liggi fyrir um að þessar sakir hafi verið rangar og í dómunum segi ekkert um að hin ósæmilega háttsemi hafi verið kynferðisleg áreitni. Kunni ummæli stefnda, Jóns Steinars, að fela í sér rangar sakargiftir auk þess sem þær fara gróflega í bága við skyldur hans sem lögmanns. Hafi hann því brotið gegn 1. og 2. gr. Codex og eigi þessi háttsemi að varða hann viðurlögum.

3.  Þann 20. nóvember 1999 í opnuviðtali í dagblaðinu Degi:

"Í málinu lá fyrir að faðirinn átti góð samskipti við heimilið eftir að hann flutti út í maí 1995 og þar til hann tók saman við aðra konu haustið 1996. Meðal annars hafði stúlkan sent honum einkar ástúðleg bréf til útlanda haustið 1995 (" elsku pabbi minn", "jæja gamli kallinn okkar", "við hlökkum allar ofboðslega mikið til að sjá þig", "við elskum þig allar og bíðum spenntar eftir þér", "þúsund milljón kossar"). Þegar hún var spurð um þetta, sagði hún að móðir sín hefði látið sig skrifa bréfin. Aðspurð fyrir rétti kannaðist móðirin ekki við að hafa hvatt hana til að skrifa ástúðlegri bréf heldur en hún sjálf hafi verið tilbúin að skrifa. Í lok júlí 1996 gerðu hjónin skilnaðarsamning, þar sem maðurinn fékk umgengnisrétt..."

Stefnandi ritaði persónulegt bréf til föður síns til útlanda haustið 1995, skömmu eftir að hann hafði flutt af heimilinu eftir að hin kynferðislega misnotkun hans kom þar til umræðu. Stefnandi var 16 ára og hafði að eigin sögn enn ekki náð því stigi að treysta sér til að standa undir því álagi sem það hefði í för með sér fyrir hana og fjölskylduna alla að tilkynna athæfið til lögreglu. Stefnandi telur efni bréfsins ekki eign fyrrum skjólstæðings stefnda, Jóns Steinars, í þeim skilningi að hann gæti óheft heimilað birtingu efnisins í tengslum við kynferðisbrotamálið er síðar komst í hámæli. Efni bréfsins hafi ekki verið rakið í dómunum. Engin nauðsyn hafi réttlætt það athæfi að lesa upp úr þessum persónulegu bréfum stefnanda til föður síns. Efni þess hafi ekki varðað það hvernig sönnunarstöðu er háttað í opinberum málum. Það hafi verið ámælisvert af stefnda, Jóni Steinari, að vitna orðrétt til hinna persónulegu bréfa stefnanda er lögð höfðu verið fram af skjólstæðingi hans í refsimálinu. Sé það meingerð gegn stefnanda. Þetta hafi brotið gegn 2. gr. Codex auk þess sem það hafi verið í andstöðu við l. og 6. gr. Codex, 2. mgr. 10. gr. og lokamálslið 3. mgr. 41. gr. laga nr. 19/1991, 22. gr. lögmannalaga og 230. gr. og grunnreglur 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Háttsemin eigi að varða stefnda, Jón Steinar, viðurlögum.

4.                Þann 23. nóvember 1999 í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2:

"Síðan lágu líka fyrir vitnisburðir tveggja ungra stúlkna um að hann hefði haft óviðurkvæmileg afskipti af þeim (...] Framburður þessara 2ja stúlkna, það er nú rétt að taka það fram, að hann varð nú til auðvitað eftir að stríðið var skollið á eins og ég orða það. Það er að segja málið var komið upp og miklar deilur komnar upp um það innan fjölskyldunnar. Að þær, þessar frásagnir gerðu í raun og veru ekkert meira heldur en bara að staðfesta það að hann væri haldinn þessari gægjuhneigð sinni [...] Nema kannski þetta sem að þessar 2 stúlkur báru og það voru nú reyndar svona dálítið ja torkennilegar frásagnir [...] Og ég segi nú bara það að það hafa orðið miklir harmleikir stafandi af því að rangar ásakanir hafa komið fram og menn verið dæmdir hér í nágrannalöndunum [...] Nei, nei, nei, móðirin var ekki vitni að neinu. Hún þvert á móti hafði hún sofið inni á heimilinu, þetta átti að hafa gerst á nóttunni um 10 ára skeið... Það fór fram athugun á yngra barninu af sérstöku tilefni sem að leiddi ekkert í ljós [...] Já hún sagði það. (þ.e. móðirin um athugaverða háttsemi mannsins gagnvart yngri dóttur hjónanna, innskot] En það er eftir að deilur eru komnar upp. Það er nú kannski ekki ástæða til þess að eyða löngum tíma í þetta [...] það var enginn sem komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn væri neitt ótrúverðugur sko [...] mjög greinileg samúð með þeim sem ber sakirnar fram [...] Sérfræðingarnir sem tjáðu sig um stúlkuna þeir sýndu mjög greinilega hlutdrægni henni í vil [...] Ég er hættur í starfi mínu sem verjandi mannsins og farinn að taka þátt í umræðu um þjóðfélagsmál [...] maður sem að mínu mati er að öllum líkindum saklaus um þá glæpi [...] Það er reyndar margt fleira sem mælir með því að hann sé saklaus [...] það var mjög, mjög margt í yfir 3ja klukkutíma ræðu minni í Hæstarétti, þá fór ég yfir alveg gríðarlega mikið efni í þessu máli sem benti til þess, eða gat gefið skýringar á því, hvers vegna hún væri að bera rangar sakir á föður sinn [...] En ég vil taka það fram af því við erum að tala um þetta í tengslum við þetta mál að það eru yfirgnæfandi líkur á því ef að farið er í gegnum það að skjólstæðingur minn í því máli hafi verið saklaus af þeim alvarlegu sakargiftum sem hann var sýknaður af."

Stefndi, Jón Steinar, gefi hér í skyn að sakargiftir í málinu hafi verið rangar, eins og hann hafi áður gert. Síðan gangi hann lengra, og verði ummælin ekki skilin á annan veg en þann að stefnandi hafi borið föður sinn röngum sökum. Þessi ummæli stefnda, Jóns Steinars, kunni að fela í sér rangar sakagiftir á hendur stefnanda og séu meiðandi í hennar garð. Þau hafi ekki verið réttlætanleg og þau hafi ekki verið nauðsynleg til að gæta réttmætra hagsmuna einhvers annars. Hafi stefndi, Jón Steinar, brotið 1. og 2. gr. Codex með þessum ummælum án þess að þau verði réttlætt af þágildandi eða núgildandi 5. gr. Codex. Ummælin séu brot gegn æru stefnanda og feli í sér alvarlegar aðdróttanir í hennar garð, sbr. grunnrök 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Beri að gera stefnda, Jóni Steinar, að sæta viðurlögum vegna ummælanna.

5.  Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni:

"Enn skal það nefnt til sögunnar að rangar sakargiftir eru vel þekktar innan fjölskyldna [...] bornar fram í tengslum við ágreiningsefni sem þar geta orðið mjög illvíg til uppgjörs á alls konar erfiðum [...] menn höfðu reynst vera saklausir [...] tekið líf sitt með eigin hendi."   [Og í beinu framhaldi af því, um þetta mál:]

"…voru alls konar aðstæður sem gerðu það sérstaklega ólíklegt að ásakanirnar hefðu við rök að styðjast [...] þetta varð auðvitað að telja með hreinum ólíkindum ef sakargiftirnar voru sannar."

Stefnandi telur ummælin fela í sér ráðagerð um að stefnandi hafi borið föður sinn röngum sökum í málinu. Fyrir því hafi stefndi, Jón Steinar, ekki haft stoð. Í niðurlagi ummælanna tengi stefndi, Jón Steinar, umfjöllun sína um rangar sakargiftir við stefnanda. Hann hafi framið meingerð gegn stefnanda og brotið gegn 1. og 2. gr. Codex án þess að unnt sé að réttlæta ummælin með vísan til 5. gr. þágildandi eða núgildandi Codex.

6.  Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni:

"[...] bréf frá dóttur sinni sem þá var orðin 16 ára gömul. Þar sendi hún honum kveðjur sem voru alveg sérstaklega ástúðlegar [...] "Hæ, hæ, elsku pabbi minn. Takk æðislega fyrir öll kortin, það var rosalega gaman að fá þau. Jæja, gamli kallinn okkar, nú fer að styttast í heimkomuna. Við hlökkum allar ofboðslega mikið til að sjá þig. Vonum að þú hafir það gott þangað til. Við elskum þig allar og bíðum spenntar eftir þér. Þúsund milljón kossar. Þín dóttir. P.S. Líka ástar- og saknaðarkveðju frá mömmu og litlu systur. Hvernig gengur að hætta að reykja?" [...] Þetta er auðvitað atriði sem hlýtur að skipta máli við mat á þeirri sönnunarfærslu sem hér var leitast við að fara fram með."

Er þessi ummæli voru flutt í útvarpsræðu stefnda, Jóns Steinars, hafði fyrrum skjólstæðingur hans verið sýknaður í Hæstarétti mánuði áður, nafn skjólstæðings hans hafði verið gert opinbert, en stefnandi hafði engan þátt tekið í neinum opinberum umræðum um málið. Að áliti stefnanda gátu engir lögmætir hagsmunir réttlætt opinbera birtingu á orðréttum tilvitnunum úr persónulegu bréfi stefnanda til föður síns frá því áður en hún kærði föður sinn. Með birtingu orðréttra tilvitnana á þessum vettvangi hafi verið gengið afar nærri persónu, friði og æru stefnanda, og eigi að gera stefnda, Jóni Steinari, viðurlög fyrir hana, með vísan til 2. gr. Codex, til grunnraka 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga, til 16. gr. Codex, til 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 19/1991 og til 230. gr. almennra hegningarlaga. Engu máli skipti, hvorki að lögum né með vísan til siðferðisraka, þótt fyrrum skjólstæðingur stefnda, Jóns Steinars, kunni að hafa átt bréfið. Um birtingu efnis þess hafi skjólstæðingurinn verið bundinn af lögum eins og stefndi, Jón Steinar.

7.  Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni:

"Þetta voru auðvitað kringumstæður sem gátu falið í sér skýringu á því hvers vegna rangar sakir komu fram og gátu líka falið í sér eins konar réttlætingar stúlkunnar gagnvart sjálfri sér fyrir því að koma fram með þær ásakanir."

Í þessum ummælum, sem sett eru fram sem fullyrðing, felst að mati stefnanda ein alvarlegasta háttsemi lögmannsins, þar sem hann annars vegar beinlínis sakar stúlkuna um rangar sakargiftir og setur hins vegar fram tilgátur um hugsanlega skýringu á þeim meintu röngu sakargiftum. Hér sé um alvarlega meingerð að ræða gangvart stefnanda, sem feli í sér brot gegn 1. og 2. gr. Codex auk þess sem ummælin kunni að fela í sér rangar sakargiftir og vera refsiverð.

8.                Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni:

"[...] viðurkennt í fræðum um rangar sakargiftir að þetta sé eitt af einkennum á þeim [...] blasti það auðvitað við að viðurkenning ákærða á því að hafa misboðið dóttur sinni [...] getur hafa orðið fóður hennar í þessar ásakanir. Þetta getur hafa magnast upp af kringumstæðum málsins. Eftir að af stað er farið er kannski engin leið til baka. Það kemur hvatning frá umhverfinu því auðvitað [...] allir sem nálægt málinu koma fyllast samúð með henni og reyna að greiða fyrir henni og framburði hennar."

Ummælin feli í sér ásökun á hendur stefnanda um að hún hafi borið föður sinn röngum sökum. Hér setji stefndi, Jón Steinar, enn fram tilgátu um það sem gæti hafa gerst og fullyrðingar um hlutdrægni þeirra er komu að málinu. Þessar dylgjur séu ekki sæmandi lögmanni, í hvaða tilgangi sem þær kunni að vera settar fram, á þeim vettvangi sem það var gert og eins og hér stóð á. Í þeim felist meingerð gegn stefnanda sem sé brot gegn 1. og 2. gr. Codex og verði ekki réttlætt af þágildandi eða núgildandi 5. gr. Codex. Þau kunni auk þess að fela í sér rangar sakagiftir og vera refsiverð.

9.  Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni:

   "Þetta var ekki eina tilvikið þar sem stúlkan hafði komið fram með ásakanir um

að sér hefði verið misboðið kynferðislega [...] Við rekstur málsins [...] komu fram [...] upplýsingar um að hún hefði borið kennara sökum af þessu tagi. Þessar ásakanir voru hreint með ólíkindum. Og svo einnig frásögn stúlkunnar frá viðbrögðum geðlæknis á eftir, sem móðir hennar hafði látið hana leita til."

Tilvitnun stefnda, Jóns Steinars, til meintar geðlæknisheimsóknar sé hér sett í samhengi við ásakanir stefnda á hendur kennara sínum, án þess að fyrir því sé stoð í dómunum. Í dómsendurriti héraðsdóms komi fram að í framburði stefnanda og föður hennar og móður sé vikið að atviki þegar stefnandi og tvær vinkonur hennar báru að einn kennara þeirra hefði sýnt af sér ósæmilegt atferli. Ekki sé þar greint frá því að það hafi verið kynferðislegt. Stefndi, Jón Steinar, hafi með ummælum sínum brotið gegn banni 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 41. gr. laga nr. 19/1991 og gegn 230. gr. almennra hegningarlaga. Þar að auki felist í ummælunum meingerð gegn stefnanda. Með ummælunum hafi stefndi Jón brotið gegn meginskyldum sínum samkvæmt 1. og 2. gr. Codex, og auk þess 6. gr. Codex og 22. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Ummælin verði ekki réttlætt með vísan til 5. gr. þágildandi eða núgildandi Codex og beri að dæma stefnda, Jón Steinar, til viðurlaga vegna þeirra.

10.  Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni:

"Málið þarf ekki að vera svo einfalt að stúlkan sé einfaldlega blygðunarlaust að

skrökva þessum sökum upp á föður sinn [...] kann hún að hafa fengið fóður í ásakanir sínar í því sem hann hafði áður viðurkennt. Hún fann að hann var sakbitinn [...] Svo koma þessar hvatningar allar saman og það verður erfitt að bakka [...] það sem hún eykur í frásagnir sínar kunni að þróast þannig að hún sé meira og minna farin að trúa því sjálf. Allt mun þetta vera þekkt úr þessum fræðum."

Hér geri stefndi, Jón Steinar, stefnanda beinlínis upp hugsanir og tilfinningar og tengi við umfjöllun sem verði að teljast aðdróttun um refsiverða háttsemi. Stefndi, Jón Steinar, dragi djarfar ályktanir og setji fram fullyrðingar og óviðeigandi vangaveltur í ummælum sínum sem flutt voru í útvarpserindi hans sem lögmanns. Ummælin séu meingerð gegn stefnanda og feli í sér brot stefnda gegn 1. og 2. gr. Codex án þess að þau verði réttlætt með vísan til 5. gr. þágildandi eða núgildandi Codex.

Stefnandi byggir á því að ummæli stefnda, Jóns Steinars, eins og þau hafa verið tilgreind hér að framan í tíu liðum, hvort sem þau eru skoðuð einstaklega og einangruð eða öll saman og í samhengi við önnur ummæli stefnda, Jóns Steinars, eða annarra einstaklinga í þjóðfélaginu á sama tíma, séu gróft brot á góðum lögmannsháttum og hafi falið í sér meingerð gegn stefnanda. Beri að gera honum viðurlög fyrir, samkvæmt þeim lagaákvæðum sem vísað hefur verið til. Því beri að ógilda úrskurð úrskurðarnefndar, og fallast á niðurstöðu sératkvæðis tveggja nefndarmanna, en verði ekki fallist á það, verði viðurkennt að háttsemin og ummælin hafi falið í sér brot á góðum lögmannsháttum. Þá beri að dæma stefnda, Jón Steinar, til að greiða stefnanda miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar, með vísan til 26. gr. skaðabótalaga og grunnraka 234. og 235. gr. almennra hegningarlaga, til persónufrelsisákvæðis stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu og meginreglna laga.

­   Stefndi, Jón Steinar, er hæstaréttarlögmaður og á honum hvíli sérstakar skyldur sem leiði af lögum og siðareglum. Hann er þrautreyndur lögmaður, sem gera verði þá kröfu til að hann sýndi stefnanda tillitsemi í þeirri umræðu er fram fór að gengnum dómi Hæstaréttar. Þá verði einnig að líta til þess kjarna málsins að fyrrum skjólstæðingur stefnda, Jóns Steinars, var sýknaður þar sem sakir á hann töldust ekki sannaðar. Ekkert sé unnt að fullyrða um hvort sakirnar sem á hann voru bornar voru réttar eða rangar, jafnvel þó fallist væri á niðurstöðu Hæstaréttar og þær forsendur er meirihluti dómenda lagði til grundvallar niðurstöðu sinni. Þetta hafi stefndi, Jón Steinar, átt að hafa að leiðarljósi í umræðunni. Það að stefndi, Jón Steinar, hafi endurtekið alvarlegar ásakanir á hendur stefnanda á löngu tímabili leiði einnig til þess að breyta beri niðurstöðu úrskurðarnefndar á þann veg að stefnda, Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl., skuli veitt áminning skv. lögmannalögum. Vegna umfangs málsins fyrir úrskurðarnefnd beri einnig að breyta niðurstöðunni á þann veg að stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson hrl., skuli greiða stefnanda kostnað hennar af málarekstri fyrir úrskurðarnefnd, kr. 150.000, í samræmi við mat nefndarmannanna tveggja er skiluðu sératkvæði í úrskurði úrskurðarnefndar.

Þagnarskylda lögmanns sé sérstaklega rík. Almennt gildi um þagnarskyldu lögmanna ákvæði 22. gr. lögmannalaga nr. 77/1998, þar sem efnislega segi að lögmaður beri þagnarskyldu um hvaðeina sem honum er trúað fyrir í starfi sínu. Leysi umboð fyrrum skjólstæðings stefnda, Jóns Steinars, hann ekki undan þessari skyldu. Þagnarskylda gildi um aldur og ævi samkvæmt almennum reglum. Stefnandi byggir á því að stefndi, Jón Steinar, hafi brotið gegn þessari skyldu samkvæmt framansögðu.

Í Codex Ethicus fyrir Lögmannafélag Íslands, í 6. gr. bæði þágildandi og núgildandi Codex, segi efnislega að upplýsingum sem lögmaður fær í starfi, skuli haldið frá óviðkomandi, þó lögboðin þagnarskylda banni ekki.

Dómsmál það sem varð tilefni hinnar opinberu umræðu í kjölfar sýknudóms Hæstaréttar, hafi verið háð fyrir luktum dyrum. Ekki sé heimilt að greina opinberlega frá því sem fram fer í lokuðu þinghaldi, skv. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 19/1991. Hafi það lagt sérstakar skyldur á herðar stefnda, Jóni Steinari, umfram það sem leiði almennt af þagnarskyldu lögmanna. Bannið sé fortakslaust samkvæmt lagaákvæðinu, nema dómari leyfi.

Lögmenn séu opinberir sýslunarmenn skv. 2. mgr. 1. gr. lögmannalaga. Í 230. gr. almennra hegningarlaga er það lýst refsivert að maður, sem hefur með höndum starf, sem opinbera skipun, leyfi eða viðurkenningu þarf til að rækja, segir frá einhverjum einkamálefnum sem leynt eiga að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu.

Tilgreind ákvæði laga og skráðra siðareglna fyrir lögmannastéttina varði öll mál þetta. Stefnandi byggir á því að öll framagreind ákvæði hafi verið brotin af stefnda Jóni. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. lögmannalaga eigi hvaða háttsemi sem kunni að stríða gegn lögum eða Codex Ethicus undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar lögmanna. Meirihluti úrskurðarnefndar í þessu máli hafi skilgreint verkefni sitt afar þröngt í úrskurði sínum, samanber eftirfarandi:

Í úrskurði úrskurðanefndar, sem meirihluti nefndarinnar skrifaði undir, sé ekki fjallað um það hvort hin nánar tilgreindu ummæli skoðuð hver fyrir sig, eða háttsemi stefnda, Jóns Steinars, og ummælin í heild sinni, hafi brotið gegn öllum eða einhverjum af hinum tilgreindu lagaákvæðum og hafi þar með verið brot gegn siðareglum og ekki verið honum sæmandi.

Í niðurstöðu meirihluta úrskurðarnefndar sé ekki að finna rökstuðning fyrir því að stefnda, Jóni Steinari, hafi verið heimilt að segja opinberlega frá því sem honum er trúað fyrir í starfi sínu, þrátt fyrir ákvæði 22. gr. lögmannalaga er banni lögmanni slíkt.

Í niðurstöðunni sé ekki að finna viðhlítandi rökstuðning fyrir því að stefnda, Jóni Steinari,  hafi verið heimilt að láta óviðkomandi í té upplýsingar sem lögmaður fær í starfi, þrátt fyrir þá lágmarksreglu sem 6. gr. Codex geymi um þetta efni.

Ekki sé í niðurstöðunni að finna rökstuðning fyrir því að stefnda Jóni hafi verið  heimilt að greina opinberlega frá því sem fram fer í lokuðu þinghaldi, þrátt fyrir hið fortakslausa bann 2. mgr. 10. gr. laga nr. 19/1991.

Í niðurstöðu meirihluta úrskurðarnefndar sé ekki að finna viðhlítandi rökstuðning fyrir því að stefnda, Jóni Steinari, hafi verið heimilt að greina opinberlega frá einkamálefnum sem leynt eiga að fara og hann hafi fengið vitneskju um í starfi sínu, þrátt fyrir ákvæði 230. gr. almennra hegningarlaga.

Stefnandi heldur því fram að hvorki ákvæði stjórnsýslulaga um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana né ákvæði 11. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd um rökstuðning úrskurða hennar hafi verið uppfyllt í máli þessu hvað varðar niðurstöðu meirihluta úrskurðarnefndar.

Niðurstaða meirihluta úrskurðarnefndar byggist að því er virðist aðallega á nýrri túlkunarreglu sem meirihlutinn hafi sett fram í úrskurðinum. Túlkunarreglan sé þessi

"...verður að túlka allar takmarkanir, sem settar eru tjáningarfrelsi lögmanna í siðareglum þeirra, mjög þröngt."

Þessa nýju túlkunarreglu byggi meirihluti úrskurðanefndar á tvíþættum rökum. Í   fyrsta lagi á því að skráðar siðareglur Lögmannafélagsins hefðu ekki breyst í samræmi við seinni tíma viðhorf um rýmkun tjáningarfrelsis. Þetta sé ekki rökstutt frekar í úrskurðinum. Í öðru lagi byggi meirihluti úrskurðarnefndar hina nýju túlkun á þeirri staðreynd að Lögmannafélagið sé skylduaðildarfélag. Því ættu lögmenn ekki val um það hvort þeir "selji sig undir siðareglur" eins og segir í úrskurðinum. Sé þetta gagnstætt því sem tíðkast um aðrar starfsstéttir.

Stefnandi fellst ekki á ofangreind rök fyrir túlkun á siðareglum. Að mati stefnanda stenst túlkunin hvorki siðferðileg rök né lögfræðileg. Túlkunina noti meirihluti úrskurðarnefndar eðlilega ekki um neinar þær takmarkanir er sett lög setja tjáningarfrelsi lögmanna enda dugi rökin ekki á sett lög. Aðferðin sé heldur ekki í samræmi við viðurkenndar lögskýringaraðferðir. Meirihluti úrskurðarnefndar láti í raun hjá líða að taka afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn settum lögum. Sé það í andstöðu við hlutverk nefndarinnar eins og það er skilgreint í 27. gr. lögmannalaga og í b-lið 3. gr. reglna um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd. Sé það einnig í andstöðu við tilefni kvörtunarinnar og það hvernig málið var lagt fyrir nefndina.

Vegna allra ofangreindra annmarka sem séu á rökstuðningi úrskurðarins, er krafist ógildingar hans samkvæmt 3. mgr. 28. gr. lögmannalaga nr. 77/1998.

Um málskostnað fyrir úrskurðarnefnd er vísað til 3. mgr. 15. gr. máls-meðferðarreglna fyrir nefndina.

Krafa um málskostnað í þessu máli byggist á 130. gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing er vísað til 1. mgr. 32. gr. og 2. mgr. 33. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, úrskurðarnefndar lögmanna

Sýknukrafa stefnda, úrskurðarnefndar lögmanna, er m.a. byggð á aðildarskorti en ljóst sé að úrskurðarnefndin, sem úrskurðaraðili í ágreiningsmáli, geti eðli málsins samkvæmt ekki átt aðild að þeim réttarágreiningi sem skotið er til hans.                Úrskurðarnefnd lögmanna starfi samkvæmt lögmannalögum nr. 77/1998, sbr. 3. gr. laganna. Meginhlutverki nefndarinnar sé lýst í 5. kafla laganna en það sé annars vegar að leysa úr ágreiningi lögmanns og skjólstæðings  hans um rétt til endurgjalds fyrir störf lögmannsins eða fjárhæð þess og hins vegar að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá þeim sem telur lögmanninn hafa í starfi sínu gert á hlut sinn með háttsemi sem stríði gegn lögum eða siðareglum LMFÍ. Kæru- og ágreiningsmálum sé skotið til  nefndarinnar af málsaðilum en nefndin hafi yfirleitt ekki sjálf frumkvæði að því að taka mál til umfjöllunar.

Úrskurðarnefnd lögmanna afgreiði erindi samkvæmt 26. og 27. gr. lögmannalaga með úrskurði eða sátt. Meðferð mála fyrir nefndinni fari aðallega eftir stjórnsýslulögum, sbr. 1. mgr. 4. gr. lögmannalaga. Þau réttaráhrif fylgi úrskurðum nefndarinnar og sáttum, gerðum fyrir henni, að þeim megi fullnægja með aðför eins og dómsúrskurði eða dómsátt. Ágreiningsmál um lögmannsþóknun sem nefndin fjalli um verði ekki lagt fyrir dómstóla á meðan. Þá vísi nefndin ágreiningsmáli um þóknun frá sér ef dómur er fallinn í því. Nefndin sé bær til að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna reksturs máls fyrir henni. Samkvæmt þessu séu úrskurðir nefndarinnar eða sáttir, gerðar fyrir henni, í eðli sínu lík dómsúrskurðum eða sáttum.

Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. lögmannalaga geti aðili að máli sem lokið er fyrir nefndinni leitað fyrir dómi ógildingar á úrskurði nefndarinnar eða sátt sem gerð er fyrir henni eða leitað þannig breytingar á niðurstöðu sem þar hefur fengist. Hvorki lögmannalögin né önnur löggjöf geri ráð fyrir aðild nefndarinnar að slíkum dómsmálum.

Máli sínu til stuðnings vísar stefndi, úrskurðarnefnd lögmanna, aðallega til lögmannalaga nr. 77/1998, sbr. 3. og 4. gr. og 5. kafla laganna. Þá er vísað til 3. og 13. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Málsástæður og rökstuðningur stefnda, Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Krafa um frávísun 2. kröfuliðar í stefnu er rökstudd með því að með kröfunni sé stefnandi að skjóta til almennra dómstóla þeim efnislegu kröfum sem úrskurðarnefnd lögmanna hafnaði, þ.e.a.s. ekki sé látið við það sitja að krefjast ógildingar á úrskurði nefndarinnar heldur sé þess einnig krafist að hinn almenni dómstóll setjist í sæti hennar og verði við þeim efnislegu kröfum sem hún synjaði. Í reynd sé þetta eins konar áfrýjun til dómstóla á niðurstöðu nefndarinnar. Stefndi mótmælir því að slíkt málskot sé heimilt. í 3. mgr. 28. gr. lögmannalaga nr. 77/1978 sé heimilað að leita fyrir dómi "ógildingar" á úrskurði nefndarinnar "eða leita þannig breytingar á niðurstöðu sem þar hefur fengist." Í þessu geti ekki falist heimild til að krefjast þess að almennir dómstólar veiti starfandi lögmönnum áminningar sem úrskurðarnefndin hefur synjað eða veiti viðurkenningar á brotum gegn hinum svokölluðu góðu lögmannsháttum sem nefndin vill ekki veita. Úrskurðarnefndin sé eins konar sérfræðinganefnd sem falið sé í lögum að taka afstöðu til matsatriða sem snerti háttsemi lögmanna. Almennir dómstólar geti tæpast endurskoðað að efni til niðurstöður nefndarinnar um slík málefni, þegar lögmaður er sýknaður af kröfum þó að þeir geti samkvæmt lögunum ógilt úrskurði hennar þyki þeir andstæðir lögum.

Réttur til að "áminna" menn sé sérstakt fyrirbæri í lögum sem þarfnist sérstakrar lagaheimildar. Þau lagaúrræði sem á er kveðið í 2. mgr. 27. gr. lögmannalaga, þ.e. að finna að vinnubrögðum eða háttsemi lögmanns eða veita honum viðvörun eða áminningu, séu bundin við úrskurðarnefnd lögmanna eina. Aðrir úrskurðaraðilar eða almennir dómstólar geti ekki beitt þessum úrræðum lögmannalaganna. Til þess skorti lagaheimild. Um heimildir dómara til að beita lögmenn agaviðurlögum sé hins vegar fjallað í 2. tl. 135. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þessar heimildir eigi að sjálfsögðu ekki við hér.

Rétturinn skv. 2. mgr. 28. gr. lögmannalaga til málskots til dómsstóla sé sjálfsagt einkum raunhæfur í tilvikum þar sem nefndin hefur ákvarðað lögmanni viðurlög án nægjanlegs tilefnis og virki þannig sem öryggisventill gegn því að starfandi lögmenn þurfi að sæta tilefnislausum viðurlögum þessarar stjórnsýslunefndar. Jafnvel í slíku tilfelli sé raunar líklegt að dómstóll yrði tregur til að endurskoða að efni til niðurstöðu nefndarinnar um áminningu þó að til þess teljist vafalaust vera næg heimild að lögum. Teldi nefndin (svo) í slíku máli að fallast bæri á sjónarmið um að ekki hafi verið nægileg tilefni til áminningar myndi það leiða til ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögunum en ekki til breytingar á efni hans. Þá sé rétturinn til að leita fyrir dómi ógildingar á úrskurði nefndarinnar einnig raunhæfur í tilvikum þar sem málsmeðferð nefndarinnar væri áfátt, t.d. andmælaréttur brotinn o.s.frv.

Til stuðnings frávísunarkröfunni er á það bent að ekki verði betur séð en varakrafan um viðurkenningu á að stefndi hafi brotið góða lögmannshætti fari gegn 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og beri hvað sem öðru líður að vísa henni frá dómi af þeim sökum.

Sýknukrafan er byggð á eftirfarandi málsástæðum:

Fyrir liggur úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna með þeirri niðurstöðu, að stefndi teljist ekki með ummælum sínum og háttsemi hafa gert á hlut stefnanda. Þessi úrskurður sé í lögmætu formi auk þess sem ágreiningslaust sé í málinu að málsmeðferð fyrir nefndinni hafi verið lögum samkvæm. Það séu því engin efni til að verða við kröfu stefnanda um að ógilda hann. Það sé stefnandi sem hafi valið máli sínu þann farveg að bera það undir úrskurðarnefnd lögmanna skv. V. kafla lögmannalaga nr. 77/1998. Þar með ráðist úrslit þess alfarið af afstöðu dómsins til málsmeðferðarinnar fyrir nefndinni. Nefndin verði að teljast stjórnsýslunefnd, skipuð sérfræðingum um það sem stefnandi kallar góða lögmannshætti. Hlutverk almennra dómstóla sé ekki að endurskoða mat nefndarinnar varðandi góða lögmannshætti í einstökum málum. Almennir dómstólar hljóti að leggja niðurstöður nefndarinnar um þau efni til grundvallar nema annmarkar séu á málsmeðferð fyrir nefndinni. Það varði þá ógildingu en ekki endurskoðun á efnislegu mati nefndarinnar. Í þessu tilviki sé ekki um að ræða neina annmarka á málsmeðferð nefndarinnar. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í málinu.

Telji dómurinn sig þurfa að prófa efnislega þá háttsemi stefnda sem stefnandi kvartaði yfir til nefndarinnar sé sýknukrafan byggð á eftirfarandi ástæðum:

Stefndi hafi ekki farið út fyrir neinar heimildir sínar við umfjöllun sína í fjölmiðlum um hæstaréttardóminn 28. nóvember (svo) 1999 í máli nr. 286/1999. Hæstaréttardómur og héraðsdómur í málinu höfðu verið birtir almenningi. Við þá birtingu hafi hagsmuna stefnanda og annarra þátttakenda í þessum hildarleik verið gætt með nafnleynd. Stefndi hafi gætt  hennar við alla umfjöllun sína um málið. Að öllu sem hann hafi fjallað um sé vikið með einum eða öðrum hætti í hinum birtu dómum. Engin formregla banni honum eftir birtingu dómanna að tala um þetta efni, jafnvel þó að einstökum efnum sé vikið nánar en gert sé í hinum birtu dómum. Ekkert sem stefndi fjallaði um hafi gengið nær persónu stefnanda heldur en efni það sem birt var í dómunum.

Við mat á þátttöku stefnda í hinum almennu umræðum um dóm Hæstaréttar verði að ætla honum rýmkað málfrelsi. Þrennt komi þar einkum til. Í fyrsta lagi heiftúðugar árásir í fjölmiðlum á fyrrverandi skjólstæðing stefnda, þar sem því hafi beinlínis verið haldið fram að hann væri sekur um glæpinn sem Hæstiréttur hafði sýknað hann af. Í öðru lagi heiftúðugar árásir á Hæstarétt með bréfasendingum og í fjölmiðlum fyrir að hafa sýknað ákærða í málinu. Í þriðja lagi rangar staðhæfingar á opinberum vettvangi um efni málsins. Í viðbót við þetta megi raunar nefna að stefndi hafi sjálfur orðið opinberlega fyrir ámæli vegna verjendastarfa sinna. Hafi hann að því leyti haft sínar eigin hendur að verja.

Við málsmeðferðina í Hæstarétti hafi ekki verið tekin ákvörðun um lokun réttarhaldanna á þann hátt sem lög geri ráð fyrir. Þó að stefndi telji það engum úrslitum ráða í málinu, verði af þessum sökum ekki á því byggt gagnvart honum að réttarhöldunum hafi verið lokað.

Í stefnu sé á því byggt að stefndi hafi í 10 tilgreindum tilvikum viðhaft ámælisverð ummæli sem varða eigi hann viðurlögum. Séu þetta þau tilvik sem minnihluti úrskurðarnefndarinnar, tveir nefndarmenn af fimm, hafi talið að varða ættu stefnda viðurlögum í formi áminningar. Um þessi tilvik er af hálfu stefnda aðallega vísað til forsendna fyrir niðurstöðum meirihluta úrskurðarnefndarinnar, sem að sjálfsögðu hafi fjallað um þá alla og sýknað stefnda. Í viðbót við það er af hálfu stefnda eftirfarandi tekið fram.

Við þátttöku sína á hinum opinbera vettvangi í umræðum um málið hafi stefndi leitast við að skýra út reglur um sönnunarbyrði í sakamálum. Við þá umfjöllun hafi að sjálfsögðu verið ljóst að sýknudómurinn hafi verið á því byggður að sök mannsins væri ósönnuð en ekki á því að sannast hefði í málinu að stefnandi bæri föður sinn röngum sökum. Í hinni almennu umfjöllun um málið hafi almenningur í reynd verið hvattur til að taka afstöðu til sönnunarfærslunnar og sakfella sýknaðan manninn. Það hafi því verið nauðsynlegt fyrir stefnda að fjalla um hugsanlegar ástæður fyrir því að menn séu bornir röngum sökum af því tagi sem málið fjalli um og kringumstæður þessa tiltekna máls í því samhengi. Þetta hafi stefndi gert. Hann hafi hins vegar oftsinnis tekið skýrt fram að ekki væri frekar sannað að stefnandi bæri föður sinn röngum sökum heldur en að hann hefði framið þau afbrot gegn henni sem hann var ákærður fyrir. Um þetta efni er af hálfu stefnda vísað til dskj. 26, 3. tl. og greinarinnar "Um framgöngu verjandans" í Morgunblaðinu 7. des. 1999 á dskj. 24. Stefndi hafi aldrei fullyrt að stefnandi segði ósatt. Hins vegar hafi allt málið og umræðan um það snúist um þá grundvallarspurningu, hvort sakargiftir stefnanda á hendur föður sínum væru réttar eða rangar og hver væri trúverðugleiki stefnanda í því sambandi. Því hafi verið óhjákvæmilegt fyrir stefnda að taka á þessu í umræðunni til varnar sýknaða manninum og fyrir Hæstarétti. Hvergi sé sýnt fram á að stefndi hefði getað sleppt því að taka á þessum atriðum í umræðunni eða getað tekið á þeim með öðrum hætti án skaða fyrir málsvörnina.

Liðir 1, 4, 5, 7, 8 og 10 í stefnu snerti allir ummæli stefnda af þessu tagi. Niðurstaða minnihluta úrskurðarnefndarinnar um þessa liði virðist byggjast á því að stefnda hafi verið óheimilt að fjalla um hugsanlegar skýringar á því að stefnandi bæri föður sinn röngum sökum. Minnihlutinn virðist vilja jafna þessu við ásakanir á hendur stefnanda um rangar sakargiftir, þrátt fyrir hið augljósa samhengi þessara ummæla. Þessa niðurstöðu minnihlutans telur stefndi ekkert minna en fjarstæðukennda.

Þeir töluliðir stefnu sem hér um ræðir séu á eftirtöldum stöðum í úrskurðinum á dskj. 3: 1. tl. stefnunnar sé í kafla sem merktur er 1.3.2. á bls. 15-16 í niðurstöðum meirihluta úrskurðarnefndarinnar. Þessi liður sé merktur VI.2. hjá minnihlutanum.  4. tl. sé merktur 1.3.5. á bls. 18-19 hjá meirihluta en VI.9. hjá minnihluta.  5. tl. sé á bls. 21 hjá meirihluta en merktur VI.15. hjá minnihluta.  7. tl. sé á samsvarandi hátt á bls. 23 og merktur VI.19.  8. tl. sé á bls. 23 og í lið VI.21. Loks sé 10. tl. í stefnu að finna á bls. 24 í áliti meirihlutans en sé merktur VI.23 hjá minnihlutanum.

Liðir 2 og 9 í stefnu lúti að ummælum stefnda um að stefnandi hafi borið kennara sinn sökum um að hafa misboðið sér kynferðislega. Þetta séu liðir merktir 1.3.4. á bls. 17 og liður á bls. 24 hjá meirihluta úrskurðarnefndarinnar. Í sératkvæði minnihlutans séu þetta liðir VI.6. og VI.22. Svo sé að sjá að minnihluti úrskurðarnefndarinnar hafi talið það ámælisvert af stefnda að geta þess að ásökun stefnanda hafi lotið að kynferðislegu athæfi kennarans þar sem í forsendum héraðsdómsins hafi aðeins verið talað um ósæmilegt athæfi hans. Þá virðist minnihlutinn telja að stefndi hafi ekki mátt segja að þessar ásakanir hafi verið rangar. Sé gengið svo langt í minnihlutaálitinu að telja að ekki sé að finna stoð fyrir ummælum stefnda í hinum birtu dómum. Hér hafi verið um að ræða sakagiftir stefnanda á hendur kennara sem hafi verið teknar til athugunar við skólann. Í framburði stefnanda fyrir dómi hafi komið fram að niðurstaða þeirrar athugunar hefði orðið sú að henni hafi verið gert að biðjast afsökunar á ásökunum sínum sem meðal annars  hafi lotið að því að kennarinn hefði verið " í sjálffróun þegar bekkurinn var að labba inn." Af þessu hafi verið ljóst að ásakanir stefnanda hefðu ekki fengið stuðning annarra nemenda og verið afgreiddar sem rangar. Þetta hafi verið þýðingarmikið atriði sem hafi snert trúverðugleika stefnanda við ásakanirnar á hendur föður sínum og alveg nauðsynlegt fyrir stefnda að geta um þetta í málsvörnum sínum á hinum opinbera vettvangi fyrir föðurinn og dómstólinn,. þar sem stofnað hafi verið til umfjöllunar um sönnunarfærsluna á hendur föðurnum. Vafalaust sé að þetta hafi haft áhrif. Stefnda hafi fráleitt verið óheimilt að viðhafa þau ummæli um þetta sem stefnt sé útaf.

Liðir 3 og 6 snerti upplestur stefnda úr bréfi sem stefnandi hafði sent föður sínum. Þetta sé liður 1.3.4. á bls. 17-18 og liður (svo) á bls. 22 í áliti meirihluta úrskurðarnefndarinnar en liðir VI.7. og VI.17. hjá minnihlutanum. Bréfið hafi verið í eigu föðurins og það hafi stefndi sem verjandi hans lagt fram við rekstur sakamálsins. Í forsendum meirihluta Hæstaréttar sé bréfið sagt vera ástúðlegt og að ekki sé unnt að líta fram hjá því við sönnunarmatið.

Forsendur minnihluta úrskurðarnefndarinnar um þetta efni séu við lið VI.7. Þar sé sagt að ekki hafi verið nauðsynlegt fyrir stefnda að lesa upp úr bréfinu við að bera blak af föðurnum eða í viðleitni sinni til að skýra fyrir almenningi hvernig sönnunarstöðu sé háttað í opinberum málum. Sagt sé að bréfið hafi verið skrifað við "sérstakar aðstæður" án þess að greint sé hverjar þær hafi verið eða hvaða þýðingu þær hafi haft fyrir úrlausnarefnið. Það hafi verið "óviðeigandi" að lesa upp úr því. Stefndi telur þessar forsendur minnihlutans lítt skiljanlegar og efnislega nánast út í hött. Ekkert í bréfi þessu hafi verið þess háttar að gengið gæti nærri dóttur sem skrifi föður sínum ástúðlegt bréf. Hagsmunir stefnanda af því að efni bréfsins væri haldið leyndu hafi tengst því að hún hafði borið föður sinn sökum sem lítt urðu samrýmdar því að hafa skrifað honum svona bréf á þessum tíma. Þessir hagsmunir hafi enga vernd verðskuldað. Það hafi ekki bara verið "viðeigandi" heldur beinlínis nauðsynlegt að kynna efni bréfsins við þessar aðstæður þegar leitast hafi verið við að verja lífshagsmuni hins sýknaða manns fyrir múghyggjunni á götunni. Lesturinn hafi líka án vafa haft áhrif í þá átt að opna augu manna fyrir því að áfellidómar þeirra yfir föðurnum hafi ekki átt neinn rétt á sér. Faðirinn hafi beðið stefnda um að birta opinberlega tilvitnanir úr bréfinu og hafi stefnda því bæði verið rétt og skylt að gera það.

Af hálfu stefnda er því sérstaklega mótmælt að skilyrði 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 fyrir miskabótakröfu stefnanda séu uppfyllt í málinu. Málskostnaðarkrafa stefnda er studd með vísan til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Úrskurðarnefnd lögmanna er lögbundin, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn. Samkvæmt 4. gr. laganna fer meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna eftir stjórnsýslulögum nema annað leiði af ákvæðum V. kafla laganna. Innan þess ramma setur nefndin sér nánari reglur um meðferð einstakra málaflokka. Ákvarðanir úrskurðarnefndarinnar sæta hvorki stjórnsýslukæru né málskoti innan LMFÍ. Í 2. mgr. 5. gr. laganna um lögmenn segir að Lögmannafélag Íslands setji siðareglur fyrir lögmenn. Samkvæmt 27. gr. laganna getur hver sá, sem telur að lögmaður hafi í starfi sínu gert á sinn hlut með háttsemi sem stríði gegn lögum eða reglum skv. 2. mgr. 5. gr. laganna, lagt mál fyrir úrskurðarnefnd lögmanna. Þá er máli er lokið fyrir úrskurðarnefndinni getur sá aðili málsins sem ekki unir úrskurði nefndarinnar leitað ógildingar á úrskurði hennar eða leitað þannig breytingar á niðurstöðu sem þar hefur fengist, sbr. 3.  mgr. 28. gr. laganna.

Í reglum um meðferð mála fyrir úrskurðarnefnd lögmanna segir um hlutverk nefndarinnar í b) lið 3. gr. Að fjalla um kvörtun á hendur lögmanni frá aðila vegna  háttsemi sem kann að stríða gegn lögum eða siðareglum LMFÍ. Í 17. gr. reglnanna segir að ákvarðanir nefndarinnar sæti hvorki stjórnsýslukæru né málskoti innan Lögmannafélags Íslands. 2. mgr. 17. gr. reglnanna er svohljóðandi: "Málsaðili getur fyrir dómi leitað ógildingar eða breytinga á úrskurði nefndarinnar eða sátt sem gerð er fyrir henni."

Samkvæmt þessum ákvæðum geta almennir dómstólar hvort heldur ógilt úrskurði úrskurðarnefndar LMFÍ eða breytt þeim.

Ekki er á það fallist að réttur til málskots til dómstóla samkvæmt  28. gr. laga nr. 77/1998 sé einkum miðaður við hagsmuni lögmanna.

Þegar til þess er litið sem hér að framan var rakið, um hlutverk úrskurðarnefndarinnar og þess sem rakið var úr reglum um meðferð mála fyrir úrskurðarnefndinni, verður að telja að það falli innan verksviðs hinna almennu dómstóla, þá er tekin er afstaða til kröfu um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar lögmanna, að leggja mat á það hvort lögmaður hafi brotið gegn tilteknum lagaákvæðum. En fallast ber á það með stefnda, Jóni Steinari, að það sé ekki hlutverk hinna almennu dómstóla að veita lögmönnum áminningu sbr. 2. mgr. 27. gr. laga um lögmenn. Þar af leiðandi ber að vísa frá dómi kröfu stefnanda um að stefnda Jóni verði veitt áminning.

Það sem felst í varakröfu skv. 2. kröfulið í stefnu kemur til skoðunar þá er afstaða er tekin til kröfunnar um ógildingu úrskurðar úrskurðarnefndar lögmanna.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms í máli ákæruvaldsins gegn S þann 2. júlí 1999 birtist frétt í Degi þann 7. júlí s.á. undir fyrirsögninni "Dómur klofnar í misnotkunarmáli."  Í fréttinni var í stórum dráttum greint frá ákæruatriðum málsins og niðurstöðu dómaranna. Eftir þeim dómara sem vildi sýkna S var haft að "óheimilt væri að álykta af ósönnuðu málsatviki."  Í fréttinni var jafnframt m.a. haft eftir stefnda, Jóni Steinari, að engin "sönnunarfærsla hefur átt sér stað, um sakir mannsins, sem heldur vatni. Þetta er bara byggt á mati dómaranna á einhverju öðru en sönnunargögnum."

Í kjölfar hæstaréttardómsins þann 28. október 1999 hófst mikil og oft tilfinningarík umræða í fjölmiðlum. Stefndi, Jón Steinar, átti ekki frumkvæði að þeirri umræðu en tók þátt í henni með blaðaskrifum, útvarpspistli og viðtölum í fjölmiðlum. Umræðan, sem fram fór, fól í sumum tilvikum í sér þunga gagnrýni á Hæstarétt Íslands, einkum þá þrjá dómara sem sýknuðu S. Fram kom hjá nokkrum þeirra sem tjáðu sig um dóminn að hann væri beinlínis rangur og að S væri í raun sekur um það athæfi sem hann var ákærður fyrir. Umræðan í fjölmiðlum um S var í ýmsum tilvikum afar óvægin. Stefnandi tók ekki þátt í þessari umræðu.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. siðareglna LMFÍ, sem giltu fram til 17. mars 2000, gat lögmaður fjallað um mál á opinberum vettvangi, sem hann hafði eða hafði haft til meðferðar, ef réttmætir hagsmunir skjólstæðings, almennings eða lögmannsins sjálfs kröfðust þess. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. siðareglna var lögmanni jafnan rétt að koma á framfæri mótmælum og leiðréttingum við röngum og villandi fréttum af slíkum málum. 

Stefnda, Jóni Steinari, var heimilt að taka þátt í þessari umræðu meðal annars með því að leitast við að halda uppi vörnum fyrir skjólstæðing sinn og jafnframt að reyna að skýra út fyrir almenningi þær reglur sem gilda um sönnunarfærslu í opinberum málum. Við þá umfjöllun bar honum að virða friðhelgi einkalífs og æruvernd stefnanda og leitast við að draga hana ekki inn í umræðuna. Sú takmörkun á tjáningarfrelsi stefnda, Jóns Steinars, styðst við 2. mgr. 10. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu og 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Við rekstur framangreinds máls fyrir héraðsdómi var tekin ákvörðun um að þinghöld skyldu háð fyrir luktum dyrum. Í skjölum málsins kemur fram að við meðferð málsins fyrir Hæstarétti var ekki bókað í þingbók að þinghöld í máli nr. 286/1999 væru lokuð, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Þegar dómur var kveðinn upp í Hæstarétti var það gert svo sem þegar dómar eru kveðnir upp í málum þar sem þinghöld hafa verið háð fyrir luktum dyrum. Við birtingu dóms Hæstaréttar var gætt nafnleyndar og ýmislegt fellt út úr dómsendurriti sem gat veitt vísbendingu um það hvaða einstaklingar áttu þarna hlut að máli. Verður því að telja að ákvæði 2. mgr.10. gr. laga nr. 19/1991 eigi við um mál þetta þrátt fyrir að ekki hafi verið bókað sérstaklega í þingbók Hæstaréttar að þinghöld í málinu væru lokuð. Þessi skoðun hefur stuðning af bréfi stefnda, Jóns Steinars, til Hæstaréttar, dags. 29. okt. 1999, þar sem lögmaðurinn óskaði eftir því að ákveðin atriði er vörðuðu einkalíf S yrðu felld út úr opinberri birtingu dómsins.

Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 19/1991 er óheimilt að skýra opinberlega frá því sem fram fer í lokuðu þinghaldi. Stefnda, Jóni Steinari, var því í umfjöllun sinni óheimilt að skýra frá öðru sem fram kom undir rekstri málsins en því sem fram kemur í dómsendurritum.

Ljóst er af eðli málsins nr. 286/1999 að hlutverk stefnda, Jóns Steinars, sem verjanda ákærða í málinu var m.a. að draga það fram sem veikt gat framburð stefnanda fyrir lögreglu og fyrir dómi. En eftir að málið hafði verið dæmt og skjólstæðingur hans sýknaður bar honum eins og áður segir að virða friðhelgi einkalífs og æruvernd stefnanda.

Verður nú fjallað um hin tilgreindu ummæli stefnda Jóns í sömu númeraröð og þau eru rakin í stefnu en ástæðulaust þykir að endurtaka ummælin sem voru rakin í kaflanum, Málsástæður og rökstuðningur stefnanda.

1.                Þann 5. nóvember 1999 í grein í Morgunblaðinu.         

Ummæli þessi eru til þess fallin að gefa lesendum blaðsins til kynna að stefnandi hafi borið föður sinn röngum sökum í málinu. En þegar ummælin eru skoðuð í því samhengi sem þau voru sett fram og litið til stöðu stefnda, Jóns Steinars, sem verjanda föður stefnanda þá verða ummælin ekki túlkuð á annan veg en þann að velt sé upp þeim möguleika að um rangar ásakanir væri að ræða. Hér er ekki fullyrt að stefnandi hafi borið föður sinn röngum sökum.

Verður því ekki talið að stefndi, Jón Steinar, hafi með þessum ummælum sínum gengið of langt í málsvörn sinni fyrir skjólstæðing sinn.

2.                Þann 20. nóvember 1999 í opnuviðtali í dagblaðinu Degi.

Í þessum ummælum staðhæfir stefndi, Jón Steinar, að stefnandi hafi orðið uppvís að því að bera kennara sinn röngum sökum um kynferðislega áreitni. Í hinum birtu dómum er ekki að finna stoð fyrir þessum ummælum. Ummæli þessi eru óþörf og óviðeigandi. Með þeim gerði hann á hlut stefnanda.

3.  Þann 20. nóvember 1999 í opnuviðtali í dagblaðinu Degi.

Hér er um að ræða persónulegt bréf sem stefnandi, þá 16 ára gömul, sendi föður sínum. Ekki er rakið úr efni bréfsins í hinum birtu dómum. Með vísan til þess sem að framan var ritað um að stefnda, Jóni Steinari, hafi verið óheimilt að birta annað en birtist í hinum birtu dómum var honum óheimilt að birta opinberlega úr bréfi þessu. Með þessu gerði stefndi, Jón Steinar, á hlut stefnanda og braut gegn 2. mgr. 10. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 3. mgr. 41. gr. sömu laga.

4.                Þann 23. nóvember 1999 í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2.

Ummæli þessi eru til þess fallin að gefa hlustendum til kynna að stefnandi hafi borið föður sinn röngum sökum í málinu. En þegar ummælin eru skoðuð í því samhengi sem þau voru sett fram og litið til stöðu stefnda, Jóns Steinars, sem verjanda föður stefnanda þá verða ummælin ekki túlkuð á annan veg en þann að velt sé upp þeim möguleika að um rangar ásakanir væri að ræða. Hér er ekki fullyrt að stefnandi hafi borið föður sinn röngum sökum.

Verður því ekki talið að stefndi, Jón Steinar, hafi með þessum ummælum sínum gengið of langt í málsvörn sinni fyrir skjólstæðing sinn.

5.  Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni.

Fyrri hluta ummælanna undir þessum lið þykir bera að skoða sem almenna umfjöllum um mál vegna meintrar kynferðislegrar misnotkunar innan fjölskyldna. Telja verður að stefnda, Jóni Steinari,  hafi verið heimilt að viðhafa þau.

Þegar seinni hluti ummælanna er skoðaður í því samhengi sem þau voru sett fram og litið til stöðu stefnda, Jóns Steinars, sem verjanda föður stefnanda þá verða ummælin ekki túlkuð á annan veg en þar sé velt upp þeim möguleika að um rangar ásakanir hafi verið að ræða og fyrrum skjólstæðingur stefnda, Jóns Steinars, saklaus. Hér er ekki fullyrt að stefnandi hafi borið föður sinn röngum sökum.

Verður því ekki talið að stefndi, Jón Steinar, hafi með þessum ummælum sínum gengið of langt í málsvörn sinni fyrir skjólstæðing sinn.

6.  Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni.

Bréf þetta var ekki rakið í dómum og var stefnda, Jóni Steinari, því óheimilt að lesa úr bréfinu í útvarpi. Með þessum upplestri úr bréfi stefnanda til föður síns telst stefndi, Jón Steinar, hafa brotið gegn friðhelgi stefnanda og 2. mgr. 10. gr. laga nr. 19/1991 og 3. mgr. 41. gr. sömu laga.

7.                Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni.

Með þessum ummælum gefur stefndi, Jón Steinar, sterklega til kynna að stefnandi hafi borið föður sinn röngum sökum. Ummæli þessi voru óþörf og meiðandi í garð stefnanda. Auk þess sem ummælin kunna að fela í sér rangar sakargiftir. Með ummælum þessum gerði stefndi á hlut stefnanda.

8.                Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni.

Ummæli þessi fela í sér ásökun á hendur stefnanda um að hún hafi borið föður sinn röngum sökum. Ummæli þessi voru óþörf og meiðandi í garð stefnanda. Auk þess sem ummælin kunna að fela í sér rangar sakargiftir. Með ummælum þessum gerði stefndi á hlut stefnanda.

 9.  Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni.

Af dómum í hæstaréttarmáli nr. 286/1999 verður ekki  séð að stefnandi hafi verið látin leita til geðlæknis í framhaldi af því að hún og tvær skólasystur hennar kærðu einn kennara fyrir ósæmilegt atferli. Ekki er tilgreint í dómsendurritum að kennarinn hafi misboðið stefnanda kynferðislega eða að hún hafi borið hann sökum um það. Orðalag stefnda, Jóns Steinars, er að þessu leyti ónákvæmt og villandi. Ummæli þessi voru óþörf og meiðandi í garð stefnanda. Með ummælum þessum gerði stefndi á hlut stefnanda.

10. Þann 28. nóvember 1999 í útvarpserindi á útvarpsstöðinni Bylgjunni. Ummæli þessi fela í sér ásökun á hendur stefnanda um að hún hafi borið föður sinn röngum sökum. Með ummælum þessum felst aðdróttun um háttsemi sem kynni að vera refsiverð. Ummælin eru óviðeigandi. Auk þess sem ummælin kunna að fela í sér rangar sakargiftir. Með ummælum þessum gerði stefndi, Jón Steinar, á hlut stefnanda.

 Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson, hafi gert á hlut stefnanda með þeirri háttsemi sinni sem  talin er undir liðum 2, 3, 6, 7, 8, 9 og 10 og brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 10. gr. laga  nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og 3. mgr. 41. gr. sömu laga með háttsemi sem talin er undir liðum 3 og 6. 

Er úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna frá 22. maí 2000 í málinu nr. 25/1999  því ógiltur, sbr. 28. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998.

Um leið er tekin til greina krafa stefnanda um að viðurkennt verði að stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson, hafi brotið góða lögmannshætti með framangreindum ummælum í fjölmiðlum á tímabilinu frá 20. nóvember 1999 til 28. sama mánaðar.

Með vísan til þessarar niðurstöðu ber samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að dæma stefnda, Jón Steinar Gunnlaugsson, til þess að greiða stefnanda miskabætur sem ákveðast 100.000 kr.

Kröfu stefnanda um að stefnda, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, verði gert að greiða stefnanda 150.000 kr. í málskostnað fyrir úrskurðarnefndinni er hafnað.

Stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson, greiði 400.000 kr. upp í málskostnað sem renni í  ríkissjóð. Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda Sifjar Konráðsdóttur hrl. 600.000 kr.

Kröfu stefnanda um að stefndi, úrskurðarnefnd lögmanna, verði dæmd in solidum með stefnda, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, til greiðslu málskostnaðar er hafnað.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna mikilla anna dómarans sem er Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari.

Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð:

Kröfu stefnanda um að stefnda, Jóni Steinari Gunnlaugssyni hrl., verði veitt áminning er vísað frá dómi.

Úrskurður úrskurðarnefndar lögmanna frá 22. maí 2000 í málinu nr. 25/1999 er ógiltur.

Stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson, braut góða lögmannshætti með háttsemi sinni og ummælum í fjölmiðlum á tímabilinu frá 20. nóvember 1999 til 28. sama mánaðar um mál nr. 286/1999 sem dæmt var í Hæstarétti þann 28. október 1999.

Stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson, greiði stefnanda 100.000 kr. í miskabætur.

Stefndi, Jón Steinar Gunnlaugsson, greiði 400.000 kr. í málskostnað sem renni í ríkissjóð. Málskostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Sifjar Konráðsdóttur hrl. 600.000 kr.