Print

Mál nr. 688/2014

Lykilorð
  • Manndráp
  • Tilraun
  • Sakhæfi
  • Öryggisgæsla

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 12. febrúar 2015.

Nr. 688/2014.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Björn L. Bergsson hrl.)

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl. réttargæslumaður)

Manndráp. Tilraun. Sakhæfi. Öryggisgæsla.

Fyrir Hæstarétti krafðist X þess að sér yrði ekki gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga, svo sem hann hafði verið dæmdur til með héraðsdómi í kjölfar sýknu á grundvelli 15. gr. sömu laga. X bar því við að vægari úrræði en kveðið var á um í héraðsdóminum ættu við. Hæstiréttur taldi að ætla mætti að vægari ráðstafanir en víst á viðeigandi hæli væru vegna réttaröryggis ekki nægilegar til tryggingar því að háski stafaði ekki að X, einkum að virtum geðhögum hans og alvarleika þeirrar háttsemi sem hann gerðist sekur um, og staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um öryggisgæslu X.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Ólafur Börkur Þorvaldsson hæstaréttardómari, Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. október 2014 að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að staðfest verði sú niðurstaða héraðsdóms að ákærði skuli sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Ákærði krefst þess að sér verði ekki gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, en staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti.

A krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 4.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um  vexti og verðtryggingu frá 15. nóvember 2013 til 10. maí 2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, „allt að frádregnum kr. 2.000.000,-, með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 15.11.2013 til 10.05.2014, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sem eru þær bætur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum sem brotaþola hafa þegar verið dæmdar í héraði, en þeim hluta kröfu brotaþola er ekki áfrýjað.“

I

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákærði svo sjúkur, er hann framdi þann verknað sem í ákæru greinir, að hann var alls ófær um að stjórna gerðum sínum. Var hann því sýknaður af refsikröfu, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. laganna.

Í héraðsdómi eru rakin gögn um geðhagi ákærða, meðal annars greinargerð B  yfirlæknis réttar- og öryggisdeilda á Kleppi 6. maí 2014 þar sem fram kemur að áður en dómur gekk hafi ákærða verið sinnt í samræmi við áætlun, sem hann hefði gengist undir, um útskrift frá Kleppi. Við skýrslugjöf í héraði kom fram hjá lækninum að hann teldi að ekki væri háski búinn af ákærða, að því gefnu að ákærði fylgdi skilyrðum áætlunarinnar sem voru um lyfjameðferð, viðtöl hjá læknum og öðru fagfólki og um algjört bann við neyslu áfengis og fíkniefna.  Á hinn bóginn rauf ákærði skilyrðin með neyslu fíkniefnis, en hann hafði verið undir áhrifum sömu tegundar fíkniefnis er hann framdi brot sitt.

Að gengnum dómi héraðsdóms fór verjandi ákærða með bréfi 21. nóvember 2014 þess á leit við áðurnefndan lækni að hann veitti upplýsingar um „andlegt ástand“ ákærða „undanfarna mánuði“ og álit á hvort fyrri áætlun um útskrift ákærða „væri enn viðeigandi úrræði eftir reynslu undanfarinna mánaða.“ Í svari læknisins 24. nóvember 2014 sagði: „1) Ástand X undanfarna 3 mánuði hefur verið ágætt. Fyrstu vikuna eftir innlögn á lokaðri réttargeðdeild versnaði þó heilsa hans. Hann varð kvíðinn, þunglyndur, stressaður við meiri innilokun en viðhöfð var mánuðinn fyrir dóminn. Styttra var þá í upplifun radda. Síðar þegar þetta álag og aðlögun gekk yfir leið honum betur. Undanfarna mánuði hefur hann haft eðlilega geðskoðun. X stundar nú iðjuþjálfun og fjarnám í tveimur áföngum í framhaldsskóla og hefur staðið sig mjög vel í náminu. 2) Að mínu mati hefur geðgreining og áhættumat teymis okkar á Réttar- og öryggisdeildum reynst sannspá. X er viðkvæmur fyrir álagi og tryggja þarf því í framtíðinni að hann fari í einu og öllu eftir útskriftaráætlun.“  Í vottorðinu var því næst farið nánar yfir skilyrði áætlunarinnar, með þeirri niðurstöðu að brot gegn þeim gæti „leitt til tafarlausrar innlagnar.“ Loks sagði: „Samantekt: X er einstaklingur með veikleika í sínum persónuleika, sem léttilega undir álagi eða við neyslu getur farið í geðrof. Örugg geðrofseinkenni eru staðfest og hafa sést, en þau hafa í eðli sínu alltaf varað mjög stutt („[...]“, [...]). Yfirleitt hafa raddir beinst gegn honum sjálfum, ekki umhverfinu. X á auðvelt með nám og engin skerðingar einkenni hafa sést líkt og við geðklofa sjúkdóm. X verður að taka reglulega geðrofslyf í framtíðinni. Mitt mat er því að X útskrifist úr ítrustu öryggisgæslu því hennar hefur ekki verið þörf undanfarna mánuði. Hann fái nú að sanna sig og byggja líf sitt upp að nýju. Tryggja þarf með dómi að X fari eftir útskrifaráætlun líkt og lýst var áður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.“

II

Ákærði reisir kröfu sína einkum á vottorði þessu, framburði læknisins við meðferð málsins í héraði, sem og á greinargerð læknisins sem lá þá frammi. Telur hann að vægari úrræði en kveðið var á um í héraði eiga við, en hann hafi hvorki þá né nú átt að þurfa að þola „fulla öryggisgæslu“ samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga.

Í síðastgreindu lagaákvæði segir: „Nú er maður sýknaður samkvæmt ákvæðum 15. gr., eða niðurstaða dóms verður sú, samkvæmt ákvæðum 16. gr., að refsing sé árangurslaus, og má þá ákveða í dómi, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til að varna því, að háski verði að manninum. Ef ætla má, að vægari ráðstafanir, svo sem trygging, bann við dvöl á ákveðnum stöðum eða svipting lögræðis, komi ekki að notum, má ákveða, að honum sé komið fyrir á viðeigandi hæli. Skal þá hæstiréttur skipa honum tilsjónarmann, sem eftirlit hefur með því, að dvöl hans á hælinu verði ekki lengri en nauðsyn ber til. Þegar ástæða þykir til, getur ráðherra leitað úrlausnar héraðsdóms, þar sem hælið er, hvort téðar ráðstafanir skuli teljast lengur nauðsynlegar, enda hafi umsagnar læknis verið leitað. Svo getur og tilsjónarmaður krafist þess, þegar ár er liðið frá dómsuppsögn eða síðasta dómsúrskurði, eða fyrr, ef ráðherra samþykkir, að málið skuli að nýju lagt undir úrskurð dómstóls þess, sem áður segir. Mál samkvæmt þessari grein sæta meðferð eftir lögum um meðferð sakamála.“

Hugtakið öryggisgæsla kemur ekki fyrir í almennum hegningarlögum en sagt að koma megi manni fyrir „á viðeigandi hæli“ samkvæmt framangreindu ákvæði. Inntak þeirrar gæslu sem um ræðir felur samkvæmt ákvæðinu ekki annað í sér en það sem nauðsynlegt telst til að tryggja að háski stafi ekki af þeim sem henni sætir. Þegar komist er að niðurstöðu í refsimáli um hvort ákærður maður skuli vegna sakhæfisskorts sæta öryggisgæslu verður samkvæmt venju að færa ákvörðun um inntak hennar fyrst um sinn í hendur fullnustuyfirvalda. Ber þeim stjórnsýsluaðilum að gæta meðalhófs við framkvæmd gæslunnar á því hæli sem telst viðeigandi, sbr. að sínu leyti dóm Hæstaréttar 18. desember 2008 í máli nr. 659/2008. Þá veita ákvæði 62. gr. almennra hegningarlaga heimild til að krefjast, eigi síðar en innan árs frá dómsúrlausn, í sérstöku máli á hendur stjórnvöldum lausnar úr öryggisgæslu eða breytingar á þeirri vistun og meðferð sem fullnustuyfirvöld hafa ákveðið að viðkomandi maður sæti. Slík krafa sætir sérstakri dómsmeðferð í samræmi við ofangreint og að gættri 3. mgr. 3. gr. laga nr. 88/2008. Koma þá til athugunar nánari skilyrði gæslunnar svo að viðeigandi stjórnsýsluaðili megi framfylgja þeim og sá sem í hlut á viti sem gleggst hvaða skilyrðum hann þurfi að hlíta. Kemur þá einnig eftir atvikum til úrlausnar ákvörðun um vistunarstað viðkomandi manns.

Af framangreindum gögnum B og framburði hans fyrir héraðsdómi verður ekki annað ráðið en að nauðsynlegt sé að ákærði sinni þeim skilyrðum sem honum eru sett við framkvæmd gæslu hans. Annað ætti að leiða til „tafarlausrar innlagnar.“ Verður samkvæmt því ekki ráðið að læknirinn telji tækt að öryggisgæsla verði alfarið felld niður. Með vísan til þess sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi og hér að framan um geðhagi ákærða og alvarleika þeirrar háttsemi sem hann gerðist sekur um, verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ætla megi að vægari ráðstafanir en vist á viðeigandi hæli séu vegna réttaröryggis ekki nægilegar til tryggingar því að háski stafi ekki af ákærða. Verður héraðsdómur því staðfestur um að ákærði skuli sæta viðeigandi gæslu.

Einkaréttarkrafa brotaþola hefur ekki sætt andmælum hér fyrir dómi af hálfu ákærða. Samkvæmt því, en jafnframt að virtri kröfugerð bótakrefjanda fyrir Hæstarétti, verður ákærði dæmdur til að greiða honum 2.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Að virtri 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 verður allur áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um að ákærði, X, sæti öryggisgæslu á viðeigandi stofnun samkvæmt 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 2.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Allur sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björns L. Bergssonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhannesar Alberts Sævarssonar hæstaréttarlögmanns, 223.200 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2014.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 23. júní síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 14. mars síðastliðinn, á hendur X, kennitala [...], [...], [...], „fyrir tilraun til manndráps með því að hafa aðfaranótt 15. nóvember 2013 á heimili sínu að [...], [...] veist að A með hnífum, þar sem hann svaf á sófa í stofu, og skorið hann á háls og stungið hann í brjóstkassann, allt með þeim afleiðingum að A hlaut um það bil 8 cm langan skurð á hálsi vinstra megin og um það bil 2 cm langt og 1,5 cm djúpt stungusár vinstra megin á brjóstkassa.

Brot ákærða telst varða 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er aðallega krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, en til vara að honum verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga. Í báðum tilvikum er þess krafist að ákærða verði gert að greiða allan sakarkostnað.

Einkaréttarkrafa:

A, kt. [...], gerir kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 4.500.000,- auk þess er krafist viðurkenningar á bótaskyldu ákærða vegna líkamstjónsins. Krafist er vaxta af skaðbótunum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr.  laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. nóvember 2013 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því bótakrafa var birt ákærða, en með dráttarvöxtum eftir þann dag samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Þess er krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól bóta á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta, allt í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001. Þá er gerð krafa um greiðslu þóknunar við réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknunina.“

                Ákærði hefur játað sök og viðurkennt bótaskyldu. Hann krefst sýknu vegna þess að hann sé ósakhæfur. Þá krefst hann þess að bætur verði lækkaðar. Loks er þess krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun.

II

                Málavextir eru þeir að umrædda nótt var komið með brotaþola á slysadeild og var hann með þá áverka sem í ákæru greinir. Lögregla var kölluð til og skýrði brotaþoli henni frá því að ákærði hefði boðið sér á framangreint heimili sitt. Þar hefði ákærði gefið sér áfengi í glas og hefði hann sett muldar töflur út í það. Í framhaldinu kvaðst brotaþoli hafa lognast út af. Hann hefði svo vaknað við að ákærði var að stinga sig. Brotaþoli kvaðst hafa komist undan og náð sambandi við vinkonu sína er hafi flutt sig á slysadeild.

                Ákærði var yfirheyrður af lögreglu og viðurkenndi að hafa stungið brotaþola. Kvaðst hann hafa heyrt raddir er hefðu sagt honum að gera það. Þá kom fram hjá ákærða að þeir hefðu verið að drekka áfengi og eins reykja marijúana áður en þetta gerðist. Ákærði var vistaður á geðdeild að fyrirmælum læknis. Hann var sviptur sjálfræði í 12 mánuði frá 5. desember 2013 samkvæmt úrskurði er kveðinn var upp þann sama dag. 

                C geðlæknir var beðinn að meta geðhagi ákærða „svo unnt sé að meta hvort hann teljist sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eða eftir atvikum hvort ætla megi að refsing muni bera árangur í skilningi 16. gr. sömu laga.“ Í matinu segir að ákærði hafi heyrt raddir frá unga aldri. Þá hafi hann endurtekið reynt sjálfsvíg og hafi gengið með sjálfsvígshugmyndir, en hann hafi þagað yfir hvorutveggja, enda snillingur í að setja upp grímu, eins og haft er eftir honum. „Vaxandi aðsóknarhugmyndir á síðustu árum með röddum sem lengst af voru hvísl, en urðu síðan ákveðnar og stundum fyrirskipandi. Tilvísunarranghugmyndir frá sjónvarpinu, sér skugga og er oft á tíðum viss um að sér sé veitt eftirför, sími hans sé hleraður og vinir hans séu tortryggnir og treysti honum ekki. Ofnotkun á áfengi og marijúana eins og fram kemur. Aðsóknarhugmyndir fara vaxandi. Hann einangrar sig. Vinnusaga er fremur stutt og hann missir vinnu. Þegar umræddur atburður átti sér stað var hann búinn að nota áfengi og einnig marijúana um tíma. Allt bendir til þess að hann sé haldinn [...], [...] ([...]). Þess utan hefur hann verið mjög kvíðinn, verið þunglyndur og talinn vera með persónuleikaröskun og þau einkenni hafa greinilega fyrr á þessu ári skyggt á aðalvandamálið sem eru aðsóknarhugmyndirnar. Hann lýsir því að raddirnar hafi sagt honum að stinga vin sinn. Í viðtali 11. desember sl. talar X um að hann hafi reynt að kyssa vin sinn, sem var sofandi. Vinurinn ýtir honum burtu og X talar um að hafa upplifað höfnun. Ekki er mögulegt að athuga nánar þetta atvik og samspil við raddir. X verður mjög reiður, ef það er reynt. Marijúananotkun getur espað upp aðsóknarhugmyndir.“ Það var mat geðlæknisins að aðalsjúkdómur ákærða væri geðklofi með verulegum aðsóknarranghugmyndum. Í lok matsins segir að ákærði sé haldinn [...] og hafi „heyrt raddir og verið með margskonar aðsóknarhugmyndir í nokkur ár. Raddirnar hafi skipað honum fyrir og að mati undirritaðs var hann á valdi þessara radda þegar atburðirnir gerðust sem hér eru til umfjöllunar. Mat undirritaðs er að vegna geðveikinnar hafi X verið alls ófær að stjórna gerðum á þeim tíma sem atburðurinn gerðist, sem hér er til umfjöllunar.“

                B yfirlæknir réttar- og öryggisgeðdeilda á Kleppi ritaði greinargerð um ákærða að beiðni verjanda hans. Fyrir lækninn voru lagðar fjórar spurningar og var sú fyrsta hvernig dvöl ákærða á deildinni hefði gengið. Í svarinu segir að ákærði hafi náð sér fljótt á bráðageðdeildinni og verið orðinn nærri einkennalaus af geðrofi um svipað leyti og hann hafi komið á öryggisgeðdeildina. Þar hafi geðrofseinkenni ekki sést. Spurningu um mat á geðheilsu ákærða núna svarar læknirinn þannig að hann hafi tilhneigingu til geðrofs við álag og þá hafi neysla gert hlutina verri. Við væga meðferð, það er lyfjagjöf í töflum, eftirlit og stuðning vegni honum hins vegar vel. Þriðja spurningin laut að því hvort þörf væri á vistun á öryggisgeðdeild eða hvort önnur og vægari úrræði gætu nægt til að tryggja réttaröryggi og að ekki stafaði hætta af ákærða. Læknirinn kvað best fyrir ákærða að fá göngudeildarmeðferð enda fengi hann ekki séð að háski stafaði af honum núna. Taldi hann best að ákærða væru sett ákveðin skilyrði, svo sem að mæta reglulega til læknis og í stuðningsviðtöl. Eins þyrfti hann á geðrofslyfjameðferð að halda og halda sér frá neyslu. Nánar tiltekið ættu þessi vægari úrræði að felast í sömu meðferð og ákærði hafi samþykkt að gangast undir og vinni eftir í dag. Hann komi á göngudeild vikulega og er þá mælt hvort hann hafi fíkniefni í þvagi. Þá fái hann lyf. Eins tali hann við lækni og sálfræðing. Undir þessa skilmála hafi ákærði skrifað og honum sé ljóst að ef hann brýtur gegn þeim geti það varðar tafarlausri innlögn á deildina.

III

                Við aðalmeðferð, sem fram fór að beiðni aðila málsins, ítrekaði ákærði játningu sína á sakargiftum. Hann samþykkti bótaskyldu en mótmælti fjárhæð bótakröfu sem of hárri. Ákærði kvaðst hafa verið í sjálfsmorðshugleiðingum þennan dag en hætt við og í staðinn boðið brotaþola, sem hafi verið vinur sinn, að koma til sín og spila tölvuleiki. Hann kvað þá einnig hafa verið að drekka og reykja kannabis. Ákærði kvað brotaþola hafa sofnað og um tíu mínútum síðar hafi hann farið að heyra raddir en hunsað þær eins og hann geri venjulega. Raddirnar hafi sagt sér að stinga brotaþola. Næst kvaðst ákærði muna eftir sér þar sem hann hafi staðið fyrir ofan brotaþola með hníf og hann var hlaupinn út eins og hann orðaði það. Ákærði kvað ekkert hafa komið upp á í samskiptum þeirra er hafi gefið sér tilefni til að stinga hann. Hann kvað raddirnar yfirleitt alltaf hafa sagt sér að beita sjálfan sig ofbeldi en ekki aðra. Þetta hafi verið í fyrsta skipti sem þær hafi sagt sér að beita aðra ofbeldi.

                Ákærði kvaðst hafa lagst inn á geðdeild í framhaldi af þessum atburði en síðan hafi hann verið útskrifaður með skilyrðum. Hann kvaðst hafa brotið gegn skilyrðunum með því að neyta fíkniefna og því verið vistaður aftur á geðdeild.

                Brotaþoli bar að hafa farið í heimsókn til ákærða, en þeir hafi verið mjög góðir vinir. Þeir hafi verið að spila tölvuleiki og drekka. Eins hafi þeir neytt kannabisefna og hann hefði tekið lyf er ákærði hafi boðið sér en hann viti ekki um hvaða lyf var að ræða. Hann kvaðst hafa sofnað og vaknað við sársauka í bringunni og hálsinum. Þá hafi hann séð ákærða standa yfir sér. Hann hafi farið inn á klósett til að reyna að átta sig á hvað væri í gangi. Ákærði hafi komið aftur með hníf og kvaðst brotaþoli hafa tekið kúst til að verja sig og ýta ákærða frá. Brotaþoli kvað sér svo hafa tekist að komast út og á slysadeild. Hann kvað ekkert tilefni hafa verið til þessarar atlögu ákærða að sér og hefði hann enga skýringu á henni.

                Brotaþoli kvað þessa árás hafa haft alvarlegar afleiðingar fyrir sig, hann sé bæði með kvíða og þunglyndi og eins hafi hann hætt í skóla. Þá hafi hann misst áhuga á flestum hlutum sem hann hafi haft áhuga á áður. Þá gangi hann til sálfræðings vegna kvíða og óróleika. Áður en þetta gerðist hafi sér liðið vel en nú viti hann ekki hverjar framtíðaráætlanir sínar séu.

                B staðfesti framangreinda greinargerð sína. Hann kvaðst hafa séð ákærða fyrst í nóvember 2013. Hann hafi síðan komið til sín á deildina í kjölfar sjálfræðissviptingar 5. desember. Hann kvað það engum vafa undirorpið að þá hafi ákærði verið veikur, hann hafi haft ranghugmyndir og heyrt raddir. Eins hafi hann verið með aðsóknarkennd og ekki skilning á þeirri alvarlegu stöðu er hann hafði komið sér í. Hann hafi hins vegar náð góðum bata og um jólin hafi hann fengið að fara til ættingja sinna og síðan smátt og smátt fengið meira frelsi eftir því sem honum batnaði. B kvað ákærða ekki hafa sýnt merki um geðrof meðan hann hafi verið inni á deildinni. Þá hafi hann stundað iðjuþjálfun sem hafi gengið vel. Þetta hafi endað með því að ákærði hafi verið útskrifaður með skilyrðum þeim sem að framan voru rakin. Fyrir tveimur til þremur vikum hafi svo fundist vottur af kannabis í þvagsýni frá ákærða og hafi hann viðurkennt neyslu þess fyrir sér. Í framhaldinu hafi ákærði aftur verið lagður inn á geðdeildina. Að öðru leyti hafi allt verið í lagi með ákærða og hafi gengið vel hjá honum.

                B kvað engan vafa í sínum huga um að ákærði hafi verið í geðrofi á verknaðarstundu. Hins vegar hafi hann verið undir áhrifum og það hafi getað gert hann illvígari og hættulegri. Þá kvað hann það sína skoðun að 16. gr. almennra hegningarlaga ætti við um ákærða. Einnig kvað hann ljóst að ákærði þyrfti að vera undir eftirliti og taka lyf því að undir álagi og við neyslu geti hann fengið geðrof. Hins vegar væri engin þörf á að halda honum inni á lokaðri öryggisdeild. Hann væri á því stigi núna að eiga að búa heima hjá sér.

                C geðlæknir staðfesti geðmat sitt. Hann staðfesti að ákærði væri haldinn [...] og heyrði raddir. Jafnframt að ákærði hefði verið ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Eftir að ákærði hafi komið inn á deildina hafi honum batnað og hann hafi verið orðinn mun rólegri þegar hann ræddi við hann. Þá kvað hann hægt að halda einkennum ákærða í skefjum með lyfjagjöf.

IV

                Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið brot það sem honum er gefið að sök í ákærunni og er játning hans studd sakargögnum eins og rakið var. Það er því niðurstaða dómsins að ákærði hafi framið brotið sem honum er gefið að sök í ákærunni.

                Hér að framan var gerð grein fyrir mati á geðhögum ákærða og eins greinargerð yfirlæknis réttar- og öryggisgeðdeilda á Kleppi. Með vísun til þess, sem þar kemur fram, og framburðar ákærða og brotaþola er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum á verknaðarstundu. Samkvæmt því verður að sýkna hann, sbr. 15. gr. almennra hegningarlaga.

                Í ákæru er gerð sú varakrafa að ákærða verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, sbr. 62. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði krafðist þess við flutning málsins að ekki yrði orðið við þessari kröfu heldur yrðu sér sett tiltekin skilyrði, lík þeim er gerð var grein fyrir í greinargerð B geðlæknis. Í nefndri lagagrein segir að sé maður sýknaður samkvæmt ákvæðum 15. gr. almennra hegningarlaga megi ákveða í dómi, ef nauðsynlegt þykir vegna réttaröryggis, að gerðar skuli ráðstafanir til að varna því að háski verði af manninum. Síðan segir að ef ætla megi að vægari ráðstafanir, og eru nokkrar taldar upp í dæmaskyni, komi ekki að notum megi ákveða að manninum sé komið fyrir á viðeigandi hæli. Eins og fram hefur komið er ákærði greindur með alvarlegan geðsjúkdóm. Læknar eru þó sammála um að honum megi halda í skefjum með lyfjagjöf og reglulegu eftirliti. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir alvarlegt afbrot sem hefði leitt til margra ára fangelsisrefsingar, hefði hann verið sakhæfur. Þá er skammur tími liðinn frá því ákærði framdi afbrotið. Loks má geta þess að stutt er síðan ákærði rauf skilyrði er honum höfðu verið sett með því að neyta fíkniefna. Að öllu þessu virtu er það niðurstaða dómsins að ekki sé tímabært nú að beita hann vægari viðurlögum en öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

                Brotaþoli krefur ákærða um greiðslu skaðabóta og viðurkenningar á bótaskyldu ákærða vegna líkamstjóns. Af kröfugerð má hins vegar ráða að aðeins er krafist miskabóta. Við upphaf aðalflutnings voru lagðir fram reikningar er brotaþoli hefur greitt vegna sjúkrakostnaðar og sálfræðiviðtala en, eins og kröfugerð er háttað, koma þeir ekki til álita. Miskabætur til brotaþola eru hæfilega ákveðnar 2.000.000 króna með vöxtum eins og í dómsorði segir. Það athugast að ekki verður séð að ákærða hafi verið birt bótakrafan fyrr en við þingfestingu málsins og miðast upphaf dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar frá þeim degi. Þá þykir rétt að verða við þeirri kröfu brotaþola að viðurkenna að ákærði beri bótaskyldu vegna líkamstjóns hans.

                Með vísun til 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 skal allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði, þar með talin laun verjenda ákærða og réttargæslumanns brotaþola að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði. Einnig skal greiða úr ríkissjóði útlagaðan kostnað verjanda ákærða eins og í dómsorði greinir.                              

                Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

                Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

                Ákærði skal sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

                Ákærði greiði A 2.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 15. nóvember 2013 til 10. maí 2014 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Viðurkennt að er ákærði er bótaskyldur gagnvart brotaþola vegna líkamstjóns hans.

                Sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Björns L. Bergssonar hrl., 376.500 krónur og útlagðan kostnað hans, 64.000 krónur, laun verjanda ákærða á rannsóknarstigi, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 37.650 krónur og laun réttargæslumanns brotaþola, Sigrúnar Jóhannsdóttur hdl., 251.000 krónur.