Print

Mál nr. 603/2010

Lykilorð
  • Kærumál
  • Samningur
  • Lán
  • Gengistrygging
  • Vextir
  • Kröfugerð

Mánudaginn 14. febrúar 2011.

Nr. 603/2010.

Tölvu-Pósturinn ehf.

(Björn Þorri Viktorsson hrl.

Guðrún Björg Birgisdóttir hdl.)

gegn

Frjálsa fjárfestingarbankanum hf.

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.

Jóhann Pétursson hdl.)

Kærumál. Samningur. Lán. Gengistrygging. Vextir. Kröfugerð.

Einkahlutafélagið T ehf. tók eitt lán hjá F hf. til húsnæðiskaupa á árinu 2007. F hf. var skipuð slitastjórn í júní 2009. T ehf. taldi sig hafa ofgreitt af láni sínu hjá F hf. og lýsti kröfum þar að lútandi við slit F hf., sem slitastjórn F hf. hafnaði. T ehf. höfðaði mál þetta á hendur F hf. til viðurkenningar á kröfum sínum við slit F hf. Ágreiningur aðila laut einkum að tvennu. Annars vegar því hvort skuldbinding T ehf. samkvæmt lánssamningi hafi verið ákveðin í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Hins vegar hvaða vexti skuldin bæri yrði niðurstaðan sú að höfuðstóllinn væri í íslenskum krónum og að óheimilt hefði verið að binda fjárhæð hans við breytingar á gengi krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Um hið fyrrnefnda taldi Hæstiréttur að um ræddi lán í íslenskum krónum, bundin við gengi erlendra gjaldmiðla, og vísaði í því samhengi til dóma Hæstaréttar frá 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010. F hf. bar sérstaklega fyrir sig að samkvæmt lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hefði verið heimilt að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, enda hefði það verið til hagsbóta fyrir skuldara. Hæstiréttur vísaði til þess að umrætt lagaákvæði hefði að geyma undantekningu frá meginreglu laga nr. 38/2001 um að óheimilt væri að semja um grundvöll verðtryggingar, sem ekki væri stoð fyrir í lögum, og að F hf. bæri sönnunarbyrði fyrir því að hagstæðari kosturinn fyrir skuldara hefði orðið ofan á. Við mat á því hvort lánskjör hefðu verið T ehf. til hagsbóta í samanburði við annan kost sem því stóð til boða, gæti engum úrslitum ráðið hvort svo kynni að hafa verið á því tímamarki sem lánið voru tekin. Var F hf. talið óheimilt að verðtryggja lán T ehf. með því að binda það við gengi erlendra gjaldmiðla. Um hið síðarnefnda vísaði Hæstiréttur til dóms réttarins frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010, sem hann taldi að væri fordæmi fyrir úrlausn um vexti í málinu að því marki sem atvik væru sambærileg og málsástæður féllu saman við það sem var í málinu. Hæstiréttur taldi að lengd lánstíma, ólík veð eða heimild til að breyta vöxtum hefðu ekki þýðingu í þessum efnum. Í málinu byggði T ehf. sérstaklega á neytendasjónarmiðum við túlkun samningsins með vísan til þess að það væri neytandi í skilningi 36. gr. a.-d. laga nr. 7/1936, en féll frá því fyrir Hæstarétti að líta bæri á félagið sem neytanda í viðskiptum málsaðila. Niðurstaða Hæstaréttar var sú að fordæmisgildi dóms réttarins frá 16. september 2010 yrði ekki haggað og um vexti af skuldbindingum samkvæmt lánssamningi T ehf. færi því eftir 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 og skyldu þeir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna. Loks segir í dómi Hæstaréttar að T ehf. hefði haft uppi fjárkröfu sem næmi ætlaðri ofgreiðslu af skuldabréfinu. Samkvæmt forsendum fyrir útreikningum F hf. hefði T ehf. ekki ofgreitt af láni sínu, heldur skorti þvert á móti upp á að full skil teldust hafa verið gerð. Kröfu hans um viðurkenningu á tilgreindri fjárhæð við slit F hf. var því hafnað. Fyrir Hæstarétti hélt T ehf. því fram að félagið teldi ekki fá staðist að vaxtaskilmálum lánsins yrði breytt aftur í tímann og að fyrirvaralaus móttaka greiðslu fyrir hverri afborgun væri fullnaðargreiðsla. Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að ekkert væri í kröfugerð málsaðila sem lyti að viðurkenningu á ætluðum rétti F hf. til greiðslu úr hendi T ehf. vegna liðins tíma Vegna þessa taldi Hæstiréttur að framangreind umfjöllun T ehf. fæli í sér lögspurningu sem kæmi ekki til álita í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að viðurkennt yrði að krafa hans að fjárhæð 1.025.826 krónur njóti stöðu í réttindaröð við slit varnaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og framangreind krafa hans tekin til greina. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 13. október 2010. Hann krefst staðfestingar niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að hafna kröfu sóknaraðila við slit varnaraðila.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009 var varnaraðila skipuð slitastjórn samkvæmt 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt fyrir réttinum 19. janúar 2011.

I

Svo sem nánar greinir í hinum kærða úrskurði er sóknaraðili einkahlutafélag, í eigu hjóna, sem tók lán hjá varnaraðila til húsnæðiskaupa í maí 2007. Veðskuldabréf, sem gefið var út í tilefni af lánveitingunni, bar fyrirsögnina „Veðskuldabréf: Fasteignalán í erlendri mynt“ og áritunina „Skuldabréfið er gengistryggt, með breytilegum LIBOR vöxtum og jöfnum afborgunum.“ Lánsfjárhæð skuldabréfsins er tiltekin fjárhæð í íslenskum krónum, en tekið fram að hún sé „jafnvirði“ nánar tilgreindra erlendra mynta í hlutföllum sem þar greinir. Í 2. gr. skuldabréfsins er meðal annars kveðið á um að lánið sé „bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á ofangreindum myntum. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það er á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er deilt í höfuðstól hverrar myntar með þeim fjölda gjalddaga sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem er í það sinn.“ Skuldabréfið er nr. 715319, útgefið 14. maí 2007 til 482 mánaða, lánsfjárhæð 16.030.000 íslenskrar krónur í japönskum yenum (JPY 70%) og svissneskum frönkum (CHF 30%), með eins mánaðar LIBOR vöxtum og 2,75% vaxtaálagi, tryggt með veði í fasteign sóknaraðila að Tröllakór 6-10 6R í Kópavogi og sjálfskuldarábyrgð Kristínar Tryggvadóttur, annars eiganda sóknaraðila.

Við útgáfu skuldabréfsins var eigendum sóknaraðila afhent fylgiskjal, sem var eins konar greiðsluáætlun. Í fylgiskjalinu var yfirlit yfir greiðslur á hverjum hinna nánar tilgreindu gjalddaga, þar sem fram kom við hvern þeirra hvernig hverri greiðslu yrði skipt í afborgun, vexti og kostnað, allt í íslenskum krónum. Við sama tækifæri undirrituðu eigendur sóknaraðila skjal með yfirskriftinni „YFIRLÝSING: Fylgiskjal með láni í erlendri mynt“. Þar lýsa eigendur sóknaraðila því yfir að þeir geri sér grein fyrir því að lántaka með þessum hætti sé áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum, eins og bankinn hafi kynnt þeim sérstaklega. Þá segir þar meðal annars: „Um er að ræða gengisáhættu, sem lýsir sér m.a. í því, að samkvæmt tölfræðilegu mati sem byggir á sögulegum sveiflum á áhættu lána sem skiptast með ofangreindum hætti, getur höfuðstóll láns sem tekið er í framangreindri myntkörfu hækkað umtalsvert á lánstímanum. Jafnframt er um að ræða vaxtaáhættu sem felst m.a. í því, að lánið er með breytilegum vaxtagrunni, eins mánaðar LIBOR vöxtum, með föstu álagi.“

II

Ágreiningur málsaðila lýtur í meginatriðum að tvennu. Í fyrsta lagi greinir þá á um hvort skuldbinding sóknaraðila samkvæmt veðskuldabréfinu hafi verið ákveðin í íslenskum krónum eða erlendum myntum, þar sem varnaraðili heldur hinu síðarnefnda fram, en til vara byggir hann á því að höfuðstóllinn hafi með lögmætum hætti verið ákveðinn í íslenskum krónum og að hann skuli jafnframt breytast á lánstímanum í takt við breytingar á gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum sem við sé miðað í skuldabréfinu. Í öðru lagi snýst deila aðilanna um hvaða vexti skuldin beri verði niðurstaðan sú að höfuðstóllinn sé í íslenskum krónum og að óheimilt hafi verið að binda fjárhæð hans við breytingar á gengi krónu gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Sóknaraðili heldur fram að þá eigi ákvæði lánssamningsins að standa óhaggað um annað en gengisviðmiðun þannig að greiða skuli LIBOR vexti með álagi eins og skuldabréfið kveði á um. Varnaraðili heldur á hinn bóginn fram að við þær aðstæður beri að greiða þá vexti, sem eru á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 var skorið úr ágreiningi lánveitenda og lántaka þar sem deiluefnið var um höfuðstól skulda svonefndra bílalána og atvik voru að öðru leyti um margt áþekk og er í þessu máli og lýst var að framan. Niðurstaðan varð þar sú að um væri að ræða lán í íslenskum krónum og að tenging höfuðstóls skuldabréfanna við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla hafi verið ólögmæt. Sóknaraðili byggir á því að ágreiningsefnið nú sé að þessu leyti í raun hið sama og í áðurnefndum málum og að niðurstaðan í þeim feli í sér skýrt fordæmi fyrir úrlausnarefnið. Varnaraðili heldur á hinn bóginn fram að sitthvað sé með öðru móti nú, sem ætti að leiða til gagnstæðrar niðurstöðu. Kröfugerð málsaðila í fyrrnefndum málum gaf á hinn bóginn ekki tilefni til að í þeim yrði leyst úr hvernig færi um vexti að fenginni niðurstöðu um að tenging lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla væri ólögmæt. Úrlausn um það álitaefni fékkst 16. september 2010 með dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010 þar sem um var að ræða sams konar bílalán og í fyrrnefndu málunum, en samkvæmt dóminum skulu þá greiddir vextir jafnháir þeim, sem Seðlabanki Íslands ákveður af nýjum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum.

Varnaraðili byggir á því að verði niðurstaðan sú að skuldin sé í íslenskum krónum og án þess að vera tengd gengi erlendra gjaldmiðla, beri að ákveða vexti á sama veg og gert var í áðurnefndum dómi Hæstaréttar, sem eigi þá beint við. Sóknaraðili heldur á hinn bóginn fram að staðan sé ólík nú þannig að greiða beri þá vexti, sem samið hafi verið um og skuldabréfin beri með sér eins og fram er komið.

III

Eins og að framan greinir heldur varnaraðili fram að lánin hafi verið ákveðin í erlendri mynt, gagnstætt því sem var í málunum sem skorið var úr með dómum Hæstaréttar 16. júní 2010, en lánveiting í erlendri mynt sé lögmæt. Úrlausn um það hvort lán teljist vera í íslenskum krónum eða erlendri mynt ráðist af atvikum hverju sinni, en hér sé margt með öðru móti en í áðurnefndum málum. Þar beri einkum að nefna að í fyrirsögn veðskuldabréfanna sé tekið fram að um sé að ræða lán í erlendri mynt. Við útborgun lánsins hafi sóknaraðili jafnframt fengið senda kaupnótu, þar sem tekið sé fram að lánið væri veitt í erlendri mynt, sem seld hafi verið sama dag fyrir íslenskar krónur. Á öllum greiðsluseðlum og kvittunum, sem varnaraðili hafi sent sóknaraðila, hafi komið fram fjárhæð afborgunar í erlendri mynt, hvert gengi hennar væri gagnvart krónu og greiðslufjárhæð í íslenskum krónum. Á veðleyfi, undirrituðu af eigendum sóknaraðila, hafi komið fram að andvirði veðskuldabréfsins miðað við kaupgengi á útborgunardegi að frádregnum kostnaði yrði lagt inn á bankareikning seljanda fasteignarinnar. Sóknaraðili hafi sótt um að fá lán í erlendri mynt og eigendur sóknaraðila síðan undirritað yfirlýsingu um að þeim væri ljóst að lántaka með þessum hætti væri áhættumeiri en í íslenskum krónum. Um þetta og annað hafi sérhæfðir starfsmenn varnaraðila leiðbeint eigendum sóknaraðila. Þá hafi þeim verið fullljóst að varnaraðili væri að endurlána fé, sem hann hafi fengið frá erlendum lánastofnunum og bæri áhættu af í samræmi við það. Fyrirkomulag á útborgunum til sóknaraðila skipti ekki máli, en það sé í samræmi við nútíma bankaviðskipti. Sóknaraðila hafi verið frjálst að endurgreiða í erlendum myntum hefði hann kosið svo. Að öllu virtu sé um erlent lán að ræða sem niðurstaða dóms hljóti að taka mið af. Verði á hinn bóginn talið að um sé að ræða lán í íslenskum krónum eigi lokamálsliður 2. gr. laga nr. 38/2001 við og tenging lánsfjárhæðar við gengi erlendra gjaldmiðla þá ekki andstæð ákvæðum VI. kafla laganna, en samkvæmt ákvæðinu sé ávallt heimilt að víkja frá lögunum til hagsbóta fyrir skuldara. Þegar sóknaraðili tók lánið hafi gengi íslensku krónunnar verið stöðugt gagnvart erlendum myntum og hann talið hag sínum best borgið með því að taka slíkt lán með tiltölulega lágum LIBOR vöxtum. Á þetta hafi ekki reynt í dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, en lánastofnanir sem áttu aðild að þeim hafi ekki borið umrætt lagaákvæði fyrir sig.

Sóknaraðili byggir á því að ekki sé um að ræða lán í erlendri mynt heldur íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Slík lán séu ólögmæt og niðurstaða Hæstaréttar um það í áðurnefndum dómum 16. júní 2010 eigi með sama hætti við í þessu máli. Breyti engu þótt orðalag samnings sé ekki hið sama í öllum atriðum. Helstu einkenni lánssamningsins séu þau að höfuðstóll láns sé einungis tilgreindur í íslenskum krónum og útborgun þess hafi verið í sömu mynt. Lánið hafi þegar verið endurgreitt að hluta með vöxtum í íslenskum krónum. Þá skuli endurgreiðslur og höfuðstóll láns breytast í samræmi við gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslenskri krónu. Þetta komi ítrekað fyrir í texta skuldabréfsins, orðað með ýmsu móti, svo sem að skuldabréf sé gengistryggt, lán sé bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á umræddum gjaldmiðlum og að höfuðstóll skuldar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það sé á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi þeirra milli gjalddaga. Sóknaraðili hafi ekki fengið neinar erlendar myntir að láni og líta beri til efnis lánssamningsins frekar en forms. Þá hafi honum heldur ekki verið gefinn kostur á að endurgreiða með erlendum gjaldmiðlum. Úrlausnarefnið sé hér sambærilegt málum sem dæmd voru 16. júní 2010. Þá mótmælir sóknaraðili að þau lánakjör, sem um var samið, hafi verið honum hagfelld.

Í málinu reynir á hvort um sé að ræða erlent lán eða lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla. Sama álitaefni var til úrlausnar í áðurnefndum málum nr. 92/2010 og 153/2010, þar sem hið síðarnefnda var talið felast í efni lánssamninga. Niðurstaðan var jafnframt sú að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla, en reglur 13. gr. og 14. gr. laganna séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. þeirra, og verði ekki samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögum.

Að framan var gerð grein fyrir lánssamningi aðilanna, en þar skiptir mestu það efni hans að lánsfjárhæð var ákveðin í íslenskum krónum og hana bar að endurgreiða í sama gjaldmiðli. Þá var lánið bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á tilteknum erlendum gjaldmiðlum eins og áður er lýst, sem einnig bendir ótvírætt til að það sé í íslenskum krónum, enda engin þörf á að kveða á um gengistryggingu ef lán væri í raun í erlendri mynt, svo sem varnaraðili heldur fram að samningurinn kveði á um. Slík verðtrygging skuldbindinga í íslenskum krónum er ólögmæt samkvæmt áðurnefndum ákvæðum laga nr. 38/2001. Að þessu virtu skiptir hvorki máli þótt staðhæfing um erlent lán komi fram í fyrirsögn lánssamnings né yfirlýsing sóknaraðila um að skulda í erlendum gjaldmiðlum „jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum. Aðrar fram bornar málsástæður varnaraðila fá heldur ekki hnekkt því að lánið var ákveðið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla.

Varnaraðili ber sérstaklega fyrir sig að samkvæmt lokamálslið 2. gr. laga nr. 38/2001 hafi verið heimilt að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, enda hafi það verið til hagsbóta fyrir skuldara. Sá eini kostur annar, sem sóknaraðila hafi staðið til boða hjá varnaraðila, hafi verið að taka lán í íslenskum krónum, bundið við innlenda verðvísitölu með vöxtum, sem slík lán beri. Það hefði á hinn bóginn verið mun óhagstæðara, enda hafi gengi íslenskrar krónu þá verið stöðugt gagnvart erlendum gjaldmiðlum og höfuðstóll láns sóknaraðila ekki hækkað. Varðandi þetta er þess að gæta að umrætt lagaákvæði hefur að geyma undantekningu frá þeirri meginreglu laga nr. 38/2001 að óheimilt er að semja um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum, og varnaraðili ber sönnunarbyrði fyrir því að hagstæðari kosturinn fyrir skuldara  hafi orðið ofan á. Áður var getið sérstakrar yfirlýsingar, sem varnaraðili lét sóknaraðila undirrita samhliða lánsskjölum, um að honum væri ljóst að meiri áhætta fylgdi slíkri lántöku en láni í íslenskum krónum. Sóknaraðili tók lán sitt hjá varnaraðila á árinu 2007. Þá þegar var farið að gæta óstöðugleika á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum og ári síðar féll gengi krónunnar mjög mikið. Lán sóknaraðila var til ríflega 40 ára og óvissu háð hvernig höfuðstóll og greiðslur kynnu að þróast á löngum tíma. Við mat á því hvort lánskjör hafi verið sóknaraðila til hagsbóta í samanburði við annan kost sem honum stóð til boða, getur engum úrslitum ráðið hvort svo kunni að hafa verið á því tímamarki sem lánið var tekið. Svo unnt sé að slá föstu að gengisbundið lán væri til hagsbóta fyrir sóknaraðila varð að líta til þess hvað ætla mætti um það þegar upp væri staðið að lánstíma loknum. Það varð á hinn bóginn ekki gert nema með samanburði lánskjara samkvæmt leiðum, sem val stóð um, í ljósi reynslu á löngu tímabili til samræmis við lánstíma. Varnaraðili átti þess kost að afla matsgerðar til stuðnings áðurnefndri staðhæfingu sinni, en engin slík sönnunarfærsla hefur verið viðhöfð í málinu. Að öllu virtu er þessi málsástæða varnaraðila haldlaus. Er fallist á með sóknaraðila að varnaraðila hafi verið óheimilt að verðtryggja lán þess fyrrnefnda með því að binda það við gengi erlendra gjaldmiðla. Niðurstaða héraðsdóms í þessum þætti málsins verður samkvæmt því staðfest.

IV

Deila málsaðila lýtur í annan stað að því hvaða áhrif ógilding gengistryggingar hafi á vexti af láni sóknaraðila, sem samkvæmt skuldabréfi áttu að ráðast af millibankavöxtum í London af þeim myntum sem hin ólögmæta gengistrygging tók mið af. Sóknaraðili telur að ógildi gengisviðmiðunar höfuðstóls lánsins hafi engin áhrif á vexti af því. Varnaraðili telur á hinn bóginn að ógildi gengisviðmiðunar valdi því að líta verði framhjá ákvæðum samningsins um vexti. Hann heldur fram að dómur Hæstaréttar 16. september 2010 sé skýrt fordæmi um þetta, en að framan var greint frá niðurstöðu dómsins um það hvaða vexti skyldi greiða af láni, sem kvað á um gengistryggingu skuldbindingar í íslenskum krónum og LIBOR vexti. Í forsendum dómsins sagði meðal annars að fullljóst væri að slík vaxtakjör af láni hefðu aldrei komið til álita nema í tengslum við gengistryggingu þess, sem nú lægi fyrir að óheimilt hafi verið að kveða á um. Í því ljósi og að bein og órjúfanleg tengsl væru milli ákvæða um gengistryggingu og vaxta væri hvorki unnt að styðjast við fyrirmæli um vexti óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda lægi fyrir að á millibankamarkaði í London hafi aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum. Í lánssamningi hafi verið ákveðið að skuldin bæri vexti. Með því að áðurnefndum ákvæðum um hæð þeirra yrði ekki beitt væri óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik í málinu svari til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Þegar svo stæði á skyldu vextir samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna.

Áðurnefndur dómur Hæstaréttar er fordæmi fyrir úrlausn um vexti í þessu máli að því marki sem atvik eru sambærileg og málsástæður falla saman við það, sem var í fyrra málinu. Málsástæður þá til stuðnings því að vextir skyldu vera óbreyttir svara um flest til þess sem sóknaraðili teflir nú fram. Frávik felst helst í því að sóknaraðili telur atvik nú ólík að því leyti að lán hans sé til langs tíma, gagnstætt því sem eigi við um bílalán, og veð sem veitt séu vegna fasteignakaupa haldbetri en þegar bifreið sé veðandlag. Einnig heldur sóknaraðili því fram að í skuldabréfinu sé að finna ákvæði um endurskoðun vaxtaálags, til hækkunar eða lækkunar, að liðnum þremur árum frá útgáfudegi og þar á eftir á þriggja ára fresti. Í ákvæðinu komi fram að ákveði kröfuhafi að breyta vaxtaálagi verði útgefanda tilkynnt um það og ástæður þess tilgreindar. Ekki verður fallist á að lengd lánstíma, ólík veð eða heimild til að breyta vöxtum skipti máli um það hvaða vextir skuli gilda við þær aðstæður, sem hér reynir á.

Í héraði og fyrir Hæstarétti reisti sóknaraðili meðal annars kröfu sína á því að líta bæri til neytendasjónarmiða við túlkun samningsins, með vísan til þess að hann væri neytandi í skilningi 36. gr. a.-d. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti féll sóknaraðili frá því að líta bæri á hann sem neytanda í viðskiptum málsaðila, en umræddum ákvæðum laga nr. 7/1936 var borið við í framangreindum dómi Hæstaréttar 16. september 2010.

Að því gættu, sem að framan er rakið, verður fordæmisgildi dóms Hæstaréttar 16. september 2010 ekki haggað við úrlausn ágreinings aðilanna um vexti af skuldbindingum samkvæmt lánssamningi þeirra. Niðurstaða hins kærða úrskurðar í þessum þætti málsins verður samkvæmt því staðfest.

V

Við munnlegan flutning málsins lagði varnaraðili fyrir Hæstarétt skjal, sem ætlað er að sýna stöðu láns sóknaraðila 11. janúar 2011 miðað við mismunandi forsendur, en sóknaraðili gerir ekki sérstaklega tölulegar athugasemdir við þessar skýringar varnaraðila. Að gefnum þeim forsendum sem fram koma í skjalinu verður ekki annað ráðið en að höfuðstóll lánsins sé til muna lægri nú ef litið er til óverðtryggðs höfuðstóls með vöxtum samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 heldur en samkvæmt upphaflegum lánskjörum. Þótt sú niðurstaða sé sóknaraðila til hags er engu að síður einnig sá munur á, honum í óhag, að greiðslubyrði á fyrstu árum lánstímans hefði með þessari aðferð verið þyngri vegna hærri vaxta en leiddi af umsömdum lánskjörum og greiðslur sóknaraðila tóku í raun mið af. Sóknaraðili hefur uppi fjárkröfu sem nemur ætlaðri ofgreiðslu af skuldabréfinu. Samkvæmt forsendum fyrir útreikningum varnaraðila hefur sóknaraðili ekki ofgreitt af láni sínu, heldur skortir þvert á móti upp á að full skil teljist hafa verið gerð. Kröfu hans um viðurkenningu á tilgreindri fjárhæð við slit varnaraðila er því hafnað.

Sóknaraðili telur í kæru og greinargerð til Hæstaréttar að ekki fáist staðist að vaxtaskilmálum lánsins sé breytt aftur í tímann. Í greinargerð hans segir: „Fyrir liggur í málinu að sóknaraðili greiddi varnaraðila það sem honum bar á hverjum tíma og fékk gefna út kvittun vegna þeirra greiðslna ... Komi til þess að Hæstiréttur ákvarði einhverjar breytingar á vaxtakjörum veðskuldabréfsins verður að telja á allan hátt eðlilegt að slíkar breytingar miðist þá við dómsuppsögu“, en ekki útgáfudag skuldabréfsins. Þessu var fylgt eftir við munnlegan flutning málsins.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hafði varnaraðili uppi þá kröfu til þrautavara í framhaldsgreinargerð sinni í héraði að viðurkennt yrði að höfuðstóll veðskuldabréfsins í íslenskum krónum skyldi bera vexti sem væru á hverjum tíma jafnháir vöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir væru samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001. Krafðist hann þess einnig að slíka vexti skyldi reikna frá útborgunardegi lánsins. Í framhaldsgreinargerð sinni í héraði gerði sóknaraðili þá kröfu að ef fallist yrði á framangreinda þrautavarakröfu varnaraðila, skyldu umkrafðar breytingar á ákvæðum veðskuldabréfsins ekki taka gildi fyrr en frá og með úrskurðardegi.

Í hinum kærða úrskurði er því slegið föstu að þegar litið væri til útreikninga varnaraðila hefði sóknaraðili vangreitt af umræddu láni.  Í kjölfarið var hafnað kröfu hans við slit varnaraðila, en framangreindri þrautavarakröfu varnaraðila vísað frá dómi. Sú niðurstaða var ekki kærð til Hæstaréttar. Fyrir Hæstarétti krefst varnaraðili nú einungis staðfestingar á að hafnað verði kröfu sóknaraðila, en eins og áður segir hefur kröfu sóknaraðila fyrir Hæstarétti verið hafnað. Er þegar af þessum ástæðum ekkert í kröfugerð málsaðila sem lýtur að viðurkenningu á ætluðum rétti varnaraðila til greiðslu úr hendi sóknaraðila vegna liðins tíma. Að þessu virtu felur áðurnefnd umfjöllun í greinargerð sóknaraðila í sér lögspurningu sem ekki kemur til neinna álita í málinu.

Niðurstaða málsins verður samkvæmt framansögðu sú að kröfu sóknaraðila um annað en málskostnað er hafnað. Við ákvörðun um málskostnað verður litið til þess að í héraði var fallist á kröfu sóknaraðila um að skuldbinding hans sé í íslenskum krónum og að ólögmætt hafi verið að binda hana við gengi erlendra gjaldmiðla, sem staðfest er með þessum dómi. Verður varnaraðili dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði eins og nánar greinir í dómsorði, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Kröfum sóknaraðila, Tölvu-Póstsins ehf., er hafnað.

Varnaraðili, Frjálsi fjárfestingarbankinn hf., greiði sóknaraðila 800.000 krónur í málskostnað fyrir héraðsdómi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2010.

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 3. september sl., var þingfest 19. febrúar 2010.

Sóknaraðili er Tölvu-Pósturinn ehf., Reykjavík.

Varnaraðili er Frjálsi fjárfestingarbankinn hf.

Endanlegar kröfur sóknaraðila eru þær aðallega að krafa hans á hendur varnaraðila, sem hefur fengið númerið 151 í kröfuskrá varnaraðila, samtals að fjárhæð 1.025.826 krónur, verði viðurkennd sem almenn krafa í samræmi við kröfulýsingu sóknaraðila og að lagt verði fyrir slitastjórn að samþykkja hana.

Sóknaraðili krefst þess að öllum kröfum varnaraðila í framhaldsgreinargerð hans verði hafnað.

Til vara er þess krafist, verði fallist á vara- eða þrautavarakröfu varnaraðila, að umkrafðar breytingar á ákvæðum veðskuldabréfs nr. 715319 taki ekki gildi fyrr en frá og með úrskurðardegi.

Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

1. Til vara krefst varnaraðili þess, að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 740.455 krónur.

2. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að skilmálar skuldabréfs nr. 715319, dags. 14. maí 2007, verði þannig að upphaflegur höfuðstóll þess, umreiknaður í íslenskar krónur að fjárhæð 16.030.000 krónur breytist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá útborgunardegi þann 30. maí 2007, miðað við grunnvísitöluna 268,7 stig og að veðskuldabréfið beri verðtryggða vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands, samkvæmt 4. gr. sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001 frá sama tíma.

1. Til þrautavara krefst varnaraðili þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

2. Þá er þess krafist að viðurkennt verði að skilmálar skuldabréfs nr. 715319, dags. 14. maí 2007 verði þannig að upphaflegur höfuðstóll þess, umreiknaður í íslenskar krónur að fjárhæð 16.030.000 krónur beri óverðtryggða vexti frá útborgunardegi þann 30. maí 2007 samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands, samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Varnaraðili krefst ekki málskostnaðar.

Málsatvik

Hjónin Kristín Tryggvadóttir og Þorsteinn Víðir Þórðarson eru eigendur einkahlutafélagsins Tölvu-Póstsins. Þau sömdu við varnaraðila um fasteignalán til kaupa á íbúðinni að Tröllakór 6, Kópavogi og veitti varnaraðili þeim lán að fjárhæð 16.030.000 krónur til kaupa á framangreindri íbúð og var lánsfjárhæðin greidd sóknaraðila í íslenskum krónum. Sóknaraðili gaf út veðskuldabréf til tryggingar láninu 14. maí 2007, þar sem varnaraðila var veittur 1. veðréttur í fasteigninni. Gekkst Kristín Tryggvadóttir í sjálfskuldarábyrgð til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu lánsfjárhæðarinnar.

Í veðskuldabréfinu kemur fram að það sé gengistryggt með breytilegum LIBOR vöxtum og að sóknaraðili skuldi varnaraðila jafnvirði 16.030.000 króna í myntunum japönsku jeni, 30% og svissneskum franka, 70%. Í 2. gr. veðskuldabréfsins segir síðan að lánið sé bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á ofangreindri mynt. Þar segir og að höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það er á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga.

Afborganir af höfuðstól lánsins hafa hækkað verulega undanfarna mánuði, sem rekja má til veikingar á gengi íslensku krónunnar. Sóknaraðili telur að höfuðstólsfjárhæð lánsins hafi verið verðtryggð með ólögmætum hætti, sem leitt hafi til þess að hann hafi ofgreitt varnaraðila miðað við afborganir af höfuðstól lánsins.

Stjórn varnaraðila krafðist þess 23. júní 2009 að bú bankans yrði tekið til slitameðferðar í samræmi við 3. tl. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á beiðni bráðabirgðastjórnar Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um skipun slitastjórnar fyrir Frjálsa fjárfestingabankann dags. 23. júní 2009. Innköllun slitastjórnar var birt í Lögbirtingablaðinu 22. júlí 2009.

Kröfulýsing sóknaraðila var árituð um móttöku varnaraðila 22. október 2009, en kröfunni var lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 1.060.121 krónur. Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni og er ágreiningur um lýsta kröfu því til meðferðar fyrir dóminum.

Í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 16. júní sl. í málum nr. 92/2010 og 153/2010 óskuðu lögmenn aðila eftir að gera breytingar á kröfugerð og lögðu fram framhaldsgreinargerðir í þinghaldi 23. ágúst 2010, auk nokkurra skjala. Var þá einnig lögð fram bókun lögmanna aðila, svohljóðandi: ,,Í kjölfar dóma Hæstaréttar þann 16. júní sl. í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hefur skapast óvissa um stöðu og skilmála þeirra skuldaskjala sem kunna að innihalda ólögmæt gengistryggingarákvæði. Úr þeirri óvissu hefur ekki verið endanlega skorið og verður það vart gert án aðkomu dómstóla. Ljóst er að hvortr tveggja hagsmunir Frjálsa fjárfestingabankans sem og hagsmunir lántakenda hjá Frjálsa fjárfestingabankanum krefjast þess að úr þessari óvissu verði skorið sem allra fyrst.

Með vísan til þessa hafa málsaðilar orðið ásáttir um að varnaraðili komi að varakröfum í ágreiningsmáli þessu í framhaldsgreinargerð um úrlausn sakarefnisins, fari svo að niðurstaða dómstóla verði á þann veg að í veðskuldabréfi varnaraðila og sóknaraðila felist ólögmætt gengistryggingarákvæði. Aðilar eru einnig sammála um að sóknaraðili málsins komi að nýjum kröfum og leggi fram framhaldsgreinargerð með andsvörum við varakröfum varnaraðila, sbr. 4. mgr. 176. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti.

Þá eru aðilar jafnframt sammála um að verði ekki fallist á kröfur varnaraðila í málinu þá standi ákvæði 3. gr. veðskuldabréfsins óhaggað…“

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Krafa sóknaraðila er á því reist að varnaraðili hafi valdið honum tjóni með því að hafa með saknæmum og ólögmætum hætti innheimt mánaðarlegar afborganir á grundvelli ofangreinds veðskuldabréfs, sem tekið hafi mið af gengisbreytingu erlendra gjaldmiðla. Lánssamningurinn sem upphaflega hafi verið að jafnvirði 16.030.000 krónur hafi því verið gengistryggður, þ.e verðtryggður miðað við gengisbreytingar framangreindra gjaldmiðla.

Sóknaraðili kveður að verðtrygging sem miði skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla sé ólögmæt samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum 13. og 14. gr. , sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Lánssamningur sem hér um ræði hafi án vafa verið í íslenskum krónum og andvirði lánsins greitt til sóknaraðila í íslenskum krónum, en hins vegar gengistryggður miðað við framangreindar myntir, japanskt jen og svissneskan franka. Þar sem slík gengistrygging sé ólögmæt samkvæmt tilgreindum lagaákvæðum sé lánssamningurinn því í raun óverðtryggður og þegar af þeirri ástæðu hafi allar greiðslur til varnaraðila sem tekið hafi mið af breytingum á höfuðstól lánsins á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar verið ranglega af sóknaraðila hafðar. Samkvæmt 18. gr. laga nr. 38/2001 beri varnaraðila að endurgreiða sóknaraðila þá fjárhæð sem hann hafi þannig ranglega af sóknaraðila haft.

Til stuðnings framangreindu vísar sóknaraðili til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-7206/2009, en þar hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að verðtrygging sem miði skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla sé ólögmæt. Þessi dómur hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í júní sl.

Þá vísar sóknaraðili til þess að það hafi verið skýr vilji löggjafans með setningu laga nr. 38/2001 að útiloka að unnt væri að verðtryggja lánaskuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Sóknaraðili vísar til þess að í almennum athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi því sem orðið hafi að lögum nr. 38/2001 segi að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla séu felldar niður. Þessi túlkun löggjafans hafi svo verið ítrekuð í athugasemdum við 13. og 14. gr. laganna þar sem segir orðrétt: ,,Samkvæmt 13. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.“

Þá vísar sóknaraðili til þess að í útgefnu veðskuldabréfi standi orðrétt: ,,Skuldabréfið er gengistryggt“ og í 2. gr. segi síðan að ,,lán þetta er bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á ofangreindum myntum“ og sé þar átt við myntirnar japanskt jen og svissneskan franka. Sóknaraðili vísar til þess að í framangreindu skuldabréfi komi einungis fram höfuðstólsfjárhæð lánsins í íslenskum krónum. Þá hafi mánaðarlegar greiðslur einnig verið tilteknar í íslenskum krónum í greiðsluáætlun varnaraðila, sem gerð hafi verið samfara lánveitingunni. Þannig séu allar upphæðir sem samningurinn grundvallist á, tilteknar í íslenskum krónum. Öll innheimta lánsins hafi farið fram í íslenskum krónum og sóknaraðili ávallt greitt af láninu í íslenskum krónum. Ljóst sé að varnaraðili beri sönnunarbyrði fyrir því að umrætt lán hafi verið veitt sóknaraðila í erlendum gjaldmiðli.

Jafnframt bendir sóknaraðili á, að hafi varnaraðili ætlað að hafa samninginn í erlendri mynt, hefði honum verið í lófa lagið að tilgreina hina erlendu mynt sem höfuðstólsfjárhæð. Jafnframt hefði varnaraðili þá getað greitt sóknaraðila höfuðstólsfjárhæðina í erlendum gjaldmiðlum inn á gjaldeyrisreikning í bankanum, hafi staðið til að lána erlenda gjaldmiðla en ekki íslenskar krónur.

Sóknaraðili vísar einnig til þess að við mat á lögmæti gengistryggðra lána beri að líta til aðgæsluskyldu varnaraðila við samningu veðskuldabréfsins. Um sé að ræða staðlaða og einhliða samningsskilmála sem varnaraðili hafi samið sjálfur og án nokkurs samráðs við sóknaraðila. Sóknaraðili hafi gengist við skilmálum skuldabréfsins í góðri trú um að þeir væru í samræmi við lög og góða viðskiptahætti. Sé því ljóst að óskýra og íþyngjandi skilmála staðlaðra samninga beri að túlka varnaraðila í óhag og beri hann allan hallann af óskýrleika samningsins.

Þá byggir sóknaraðili á því að ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu séu ófrávíkjanleg. Í 2. gr. laganna sé mælt fyrir um hvaða ákvæði laganna séu frávíkjanleg, en þar segi að ákvæði II. kafla og IV. kafla gildi því aðeins að annað leiði ekki af samningum, venju eða lögum.  Þá segi að einnig verði vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um, en hér sé átt við 6. og 12. gr. laganna. Þó sé ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara. Gagnályktun frá 2. gr. laganna leiði til þess að öll önnur ákvæði laganna séu ófrávíkjanleg, þar á meðal ákvæði VI. kafla laganna um verðtryggingu.

Með hliðsjón af framangreindu beri varnaraðila á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001 að endurgreiða sóknaraðila þá fjárhæð sem hann hafi ranglega af honum haft, enda um ólögmæta verðtryggingu lánsfjár að ræða.

Fari svo ólíklega að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að lánssamningur aðila teljist lán í erlendum myntum, byggir sóknaraðili á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að hækka höfuðstól lánsins í íslenskum krónum talið, enda sé skýrt kveðið á um í samningnum að sóknaraðili skuldi bankanum ,,jafnvirði” þar tilgreindrar fjárhæðar í íslenskum krónum. Hið erlenda gengisviðmið hljóti því að leiða til þess að veiking íslensku krónunnar valdi því að sóknaraðili skuldi bankanum lægri fjárhæð hinna erlendu mynta, enda sé í lánssamningi og greiðsluáætlun ekki gert ráð fyrir því að íslenska jafnvirðisfjárhæðin taki breytingum á lánstímanum.

Höfuðstólsfjárhæð kröfu sóknaraðila er reist á þeim mismun sem hann telur að sér hafi borið að greiða varnaraðila með réttum og lögmætum hætti og þeirri fjárhæð sem sóknaraðili hafi greitt til varnaraðila á grundvelli innheimtuseðla þar að lútandi.

Krafa sóknaraðila um að öllum kröfum varnaraðila í framhaldsgreinargerð hans, skuli hafnað, er á því reist að þótt ákvæði veðskuldabréfsins sem kveði á um gengistryggingu sé ógilt, skuli önnur ákvæði þess halda gildi sínu, þar með talið vaxtaákvæðið, gjalddagar, vanskilaúrræði o.s.frv. Sé krafan reist á þeirri grundvallarreglu að samninga skuli halda. Allar umkrafðar breytingar í kröfugerð varnaraðila séu sóknaraðila í óhag og verulega ósanngjarnar.

                Sóknaraðili bendir á, að í veðskuldabréfinu sjálfu sé ekki heimild til að breyta þeim skilmálum sem eftir standi óhaggaðir, að öðru leyti en því að í 5. gr. veðskuldabréfsins sé varnaraðila veitt heimild til að endurskoða vaxtaálag skuldabréfsins að liðnum 3 árum frá útgáfudegi að undangenginni skriflegri tilkynningu til sóknaraðila. Þá vísar sóknaraðili til þess að hvorki 4. gr. né 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu veiti rétt til slíkra breytinga hvað varði umsamda vexti. Varðandi fyrrnefnda ákvæðið sé ótvírætt skilyrði fyrir beitingu þess að sú staða sé fyrir hendi, að vaxtagrunnur hafi ekki verið tiltekinn í veðskuldabréfi. Slíkt eigi ekki við í þessu máli. Varðandi síðarnefnda ákvæðið sé ljóst af orðalagi þess að það veiti varnaraðila engan rétt til breytinga á umsömdum vöxtum, enda fjalli lagaákvæðið um réttarstöðu skuldara þegar kröfuhafi hafi ranglega haft af skuldara hærri fjárhæð en honum beri réttur til.

Með hliðsjón af framangreindu er bent á 2. gr. laga nr. 38/2001, en þar er kveðið á um að ákvæði II. og IV. kafla laganna gildi því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum, en ávallt sé heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara. Sóknaraðili bendir á, að ákvæðið beri að túlka þannig að sé í samningi kveðið á um betri rétt fyrir skuldara, þ.m.t. vaxtagrunn, séu ákvæði fyrrnefndra kafla frávíkjanleg, þannig að kveði samningur aðila á um betri rétt fyrir skuldara, verði lögum um vexti og verðtryggingu ekki beitt honum í óhag. Niðurstaða Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 hafi verið á þann veg að samningar væru ekki ógildir í heild sinni, þrátt fyrir að ákvæði um gengistryggingu lánanna teldist ekki vera skuldbindandi. Óeðlilegt væri einnig að varnaraðili sem er fjármálafyrirtæki gæti velt áhættunni af því að sniðganga ófrávíkjanleg lagaákvæði yfir á grandlausan viðsemjanda sinn, með atbeina dómstóla.

Af framansögðu megi ráða að lög nr. 38/2001 heimili ekki breytingu á samningsákvæðum skuldara í óhag. Komi þá til skoðunar hvort heimilt sé að breyta ákvæðum veðskuldabréfsins með stoð í 36. gr. laga nr. 7/1936.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að skilyrði til að breyta umræddu skuldabréfi séu ekki uppfyllt. Bent er á að 36. gr. samningalaganna sé alger undantekningarregla frá meginreglunni um að samninga skuli halda.

Sóknaraðili kveður að efni samningsins sé að öðru leyti en því sem að framan greinir, í samræmi við lög og þær forsendur sem lántaka sóknaraðila gerði ráð fyrir. Ekkert sé fyrirliggjandi um óeðlilegan hagnað sóknaraðila og hann beri alla áhættu út lánstímann á breytingum á umsömdum vöxtum. Þar að auki sé varnaraðila heimilt að breyta umsömdu vaxtaálagi, sbr. 5. gr. veðskuldabréfsins.

Varnaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að hann hafi orðið fyrir einhverju tjóni, ef ekki verði fallist á kröfur hans um breytingar á ákvæðum veðskuldabréfsins. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna bæði vara- og þrautavarakröfu hans. Þá er því mótmælt að sóknaraðili hagnist á einhvern hátt vegna óréttmætrar auðgunar.

Jafnframt vísar sóknaraðili til þess að það hafi verulega þýðingu að líta til stöðu samningsaðila, sér í lagi vegna þess að einn helsti hvatinn að lögfestingu hinnar almennu ógildingarreglu 36. gr. samningalaga hafi verið sá að treysta þurfti réttarstöðu þeirra samningsaðila sem ætla mætti að hefðu lakari stöðu í samningssambandinu. Þegar af þeirri ástæðu sé nauðsynlegt, við mat á skilyrðum 36. gr. að leggja til grundvallar þá yfirburðastöðu sem varnaraðili hafði við samningsgerðina. Það verði að gera þá lágmarkskröfu til fjármálafyrirtækja að þau þekki þau lög sem gildi um veðskuldabréf, sem um er deilt í þessu máli, enda hafi skjalið verið samið einhliða af varnaraðila.

Sóknaraðili vísar til skýrs orðalags í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, auk þess sem það hafi verið skýr vilji löggjafans með setningu laga nr. 38/2001 að útiloka að unnt væri að verðtryggja lánaskuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla.

Einnig sé sérstök ástæða til að benda á, að í umsögn Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja um frumvarp það sem varð að lögum nr. 38/2001, hafi verið á það bent að lagafrumvarpið gerði það að verkum að óheimilt væri að tengja lánasamninga í íslenskum krónum við erlenda mynt. Varnaraðili, sem aðildarfélagi að Samtökum fjármálafyrirtækja, hafi vitað að gengistrygging var ólögmæt, hann hafi því verið grandsamur. Því geti hann ekki byggt á því að samningurinn sé ósanngjarn eða honum eigi að breyta með svo verulegum hætti sem kröfugerð hans geri ráð fyrir. Hann verði einfaldlega að bera hallann af mistökum við samningsgerðina þar sem honum hafi verið ljóst, eða mátt vera ljóst, að óheimilt væri að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá stoði ekki fyrir varnaraðila að fela sig á bak við vanrækslu eftirlitsaðila líkt og byggt sé á í greinargerð hans.

Hvað varði atvik við samningsgerðina vísi sóknaraðili til þess að ein af ákvörðunarástæðum að baki lántökunni hafi verið sú að hann hafi ekki viljað taka lán sem tæki breytingum á grundvelli vísitölu neysluverðs. Verðbólga frá júlí 2007 hafi verið um 30% og árleg hækkun á vísitölu neysluverðs síðastliðin 15 ár hafi verið um 4%. Þegar af þeirri ástæðu sé ótækt að fallast á kröfu varnaraðila sem geri ráð fyrir að sóknaraðili taki á sig höfuðstólshækkun miðað við verðtryggt lán.

Ótækt sé að fallast á að samningur aðila sé ósanngjarn þannig að unnt sé að breyta honum í öllum grundvallaratriðum, með hliðsjón af 36. gr. laga nr. 7/1936. Þvert á móti væri verulega ósanngjarnt að taka til greina kröfur varnaraðila sem fela í sér að samningi sé breytt til verulegs óhagræðis fyrir sóknaraðila. Óljós ákvæði í einhliða skilmálum, s.s. lánasamningum, skuli að jafnaði túlkuð þeim í óhag sem samið hafi eða látið semja skilmálana.

Sóknaraðili bendir jafnframt á að dómstólar hafi gert miklar kröfur til fjármálafyrirtækja, þar sem um sé að ræða stofnanir sem starfi í skjóli opinberra starfsleyfa og því eðlilegt að gera ríkar kröfur til þeirra, þær hafi nær ávallt yfirburðastöðu gagnvart viðskiptamanni sínum og þær hafi yfir að búa meiri sérþekkingu en viðskiptamaðurinn. Þá semji fjármálastofnanir oftast skjölin einhliða og notist við staðlaða samningsskilmála.

Sóknaraðili vísar jafnframt til 36. gr. a-d liða nr. 7/1936, en samkvæmt þeim ákvæðum verði ákvæðum veðskuldabréfs ekki breytt neytanda í óhag. Með lögfestingu þessara ákvæða hafi með skýrum hætti verið kveðið á um rétt neytenda í þeim tilvikum þar sem hann hafi enga aðkomu haft að gerð samnings. Sóknaraðili vísar sérstaklega til 1. mgr. 46. gr. b, en þar sé kveðið á um að komi upp vafi um merkingu samnings, sem nefndur sé í 1. mgr. 36. gr. a skuli túlka samninginn neytanda í hag. Þá vísar sóknaraðili einnig til 36. gr. c, en með hliðsjón af henni beri að skýra allan vafa sóknaraðila í hag.

Engu máli skipti þótt sóknaraðili sé einkahlutafélag en ekki einstaklingur, enda hafi umþrætt lántaka ekki verið liður í starfsemi félagsins og að auki sé stjórnarmaður félagsins í persónulegri ábyrgð fyrir lántökunni.

Sóknaraðili telur fráleitt að ætla að ólögfestar reglur um brostnar forsendur geti leitt til þess að rétt þyki að annars konar verðtrygging en gengistrygging eða vaxtahækkun komi í stað hinnar ólögmætu gengistryggingar. Sóknaraðili telji ótvírætt að varnaraðili geti ekki borið fyrir sig forsendubrest sem hafi mátt vera ljós strax í öndverðu. Sóknaraðili vísar til þess að ekki sé sanngjarnt að leggja á hann áhættuna af því að forsenda varnaraðila brást. Í þessu sambandi verði sérstaklega að horfa til hugsanlegra afleiðinga sem umkrafðar breytingar kunni að hafa á heildarskuldbindingar sóknaraðila, en ljóst sé að lán sem er verðtryggt á grundvelli vísitölu neysluverðs muni að öllum líkindum hækka verulega greiðslubyrði og heildargreiðslu lánsins. Sóknaraðili vísar til þess að dómstólar hafi lagt til grundvallar í úrlausnum sínum að röksemdir sem reistar séu á brostnum forsendum verði ekki teknar til greina sem ógildingarástæða nema knýjandi nauðsyn sé fyrir aðila að fá sig leystan undan samningi eða fá honum breytt, og þá einungis þegar niðurstaða í þá átt geti ekki talist ósanngjörn í garð gagnaðilans. Þá mótmælir sóknaraðili sérstaklega málsástæðum varnaraðila um rangar forsendur í samningi aðila enda geti slíkt ekki komið til nema mistök eða misritun eigi sér stað við samningsgerð. Þá skuli á það bent að grandlaus löggerningsmóttakandi geti engu að síður byggt rétt á löggerningi þrátt fyrir rangar forsendur.

Sóknaraðili mótmælir staðhæfingum varnaraðila um að vaxtakjör hafi verið aðalákvörðunarástæða fyrir lántökunni. Það sem skipt hafi máli hafi verið að lánið var ekki bundið við vísitölu neysluverðs, en þannig láni sé sóknaraðili verulega mótfallinn. Þá sé vart ástæða til að fjalla sérstaklega um hvort sóknaraðili hugðist taka óverðtryggt lán í íslenskum krónum, en í þeim efnum nægi að vísa til þess að vextir á óverðtryggð lán á árinu 2007 voru um 16%, en meðaltalsvextir Seðlabanka Íslands á óverðtryggð lán, frá því að sóknaraðili tók umþrætt lán séu 14,39%. Sé því algerlega fráleitt að ætla að nokkur sanngirni felist í því að breyta veðskuldabréfi sóknaraðila með því að fallast á þrautavarakröfu varnaraðila.

Þá mótmælir sóknaraðili vaxtaumfjöllun varnaraðila í framhaldsgreinargerð. Nauðsynlegt sé að bera vaxtakjör saman með réttum og skýrum hætti við mat á forsendubresti og hvort víkja eigi til hliðar gildum samningsákvæðum.

Sóknaraðili bendir á að kröfugerð varnaraðila feli í sér verulegar breytingar  sóknaraðila í óhag, ef fallist yrði á varakröfu hans eða þrautavarakröfu. Báðar kröfurnar feli í sér að sóknaraðili verði töluvert verr settur heldur en með núverandi lán, þ.e. gengistryggt lán, þar sem höfuðstóll hefur tæplega tvöfaldast frá lántökudegi.

Þá bendir sóknaraðili á, að flest fjármálafyrirtæki hafi boðið þeim sem tóku verðtryggð lán í íslenskum krónum einhvers konar úrræði eða höfuðstólslækkun. Kröfugerð varnaraðila feli ekkert slíkt í sér, og með því að fallast á kröfugerð hans, sé réttarstaða sóknaraðila mun verri en réttarstaða annarra lántakenda sem nú standi til boða einhvers konar úrræði. Verði fallist á vara- eða þrautavarakröfu, hafi sóknaraðili enga lögmæta kröfu um að fá nýtt þau úrræði sem fjármálafyrirtæki hafi boðið viðskiptavinum sínum.

Fari svo ólíklega að ekki verði fallist á kröfur sóknaraðila, er þess til vara krafist að umkrafðar breytingar á ákvæðum veðskuldabréfs nr. 715319 taki ekki gildi fyrr en frá og með úrskurðardegi. Krafan er reist á því að skýra beri vafa þessa máls sóknaraðila í hag. Sanngjarnt sé og eðlilegt að láta breytingar á veðskuldabréfinu taka mið af úrskurðardeginum, verði fallist á vara- eða þrautavarakröfu varnaraðila.

Loks vísar sóknaraðili til þess að íþyngjandi breytingar á samningum með afturvirkum hætti samrýmist afar illa þeim lögbundnu réttindum sem ákvæðum laga nr. 7/1936 sé ætlað að tryggja samningsaðilum, sérstaklega neytendum og öðrum þeim sem taldir eru vera veikari aðilinn í samningssambandinu.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili kveður sóknaraðila hafa leitað til sín á árinu 2007 og óskað eftir erlendu láni í myntkörfu. Lánsféð hafi verið nýtt til greiðslu kaupverðs vegna kaupa sóknaraðila á fasteign að Tröllakór 6, Kópavogi. Meginforsenda lántökunnar hafi verið sú að lánið var í erlendri mynt með lágum vöxtum. Með því að taka lán í erlendri mynt hafi sóknaraðili notið góðs af styrkingu íslensku krónunnar gagnvart framangreindum gjaldmiðlum á lánstímanum, þar sem greiðslubyrðin og höfuðstóll lánsins hafi lækkað í íslenskum krónum, auk þess sem vextir hafi verið lágir. Að sama skapi hafi sóknaraðili borið áhættuna af veikingu krónunnar gagnvart hinum erlendu myntum.

Sóknaraðila hafi hlotið að vera ljóst að skuldbindingar hans væru í erlendri mynt.

Lánsumsókn hafi verið undirrituð af forsvarsmanni sóknaraðila og þar komi fram að óskað sé eftir láni í myntkörfu.

Veðskuldabréfið sé undirritað af sóknaraðila og beri það yfirskriftina: Veðskuldabréf-fasteignalán í erlendri mynt.

Á skilyrtu veðleyfi segi m.a. að veðleyfi sé veitt gegn því skilyrði að andvirði ofangreinds veðskuldabréfs m.v. kaupgengi á útborgunardegi að frádregnum kostnaði verði lagt inn á bankareikning seljanda fasteignarinnar. Veðleyfið sé undirritað af forsvarsmönnum sóknaraðila.

Þegar lánið hafi verið greitt út til sóknaraðila hafi hann fengið senda kaupnótu þar sem fram komi að lánið hafi verið veitt í erlendum myntum sem seldar hafi verið fyrir íslenskar krónur sama dag. Lánsfjárhæðin hafi verið 9.438.665 JPY og 222.066 CHF að frádregnum kostnaði.

Á öllum þeim greiðsluseðlum og kvittunum sem sóknaraðila hafi borist frá varnaraðila vegna lánsins sé ávallt tekið fram hver afborgunarfjárhæðin sé hverju sinni í erlendri mynt af höfuðstól sem jafnframt sé tilgreindur í viðkomandi mynt, hver sé vaxtagreiðsla í erlendri mynt og vaxtaprósenta. Síðan er myntgengis getið og að lokum greiðslufjárhæðar í íslenskum krónum.

Á veðbandayfirliti framangreindrar fasteignar sé fjárhæð lánsins í íslenskum krónum auðkennd með stjörnu til sérstakrar áréttingar því að lánið sé að hluta eða öllu í erlendri mynt, eins og segi í veðbandayfirlitinu.

Á greiðsluáætlun sem forsvarsmenn sóknaraðila hafi undirritað, segi m.a.:Ýmsir hlutir geta haft áhrif á gengi gjaldmiðla svo sem efnahagsástand í landi viðkomandi gjaldmiðils og margt fleira.“

Samhliða því sem veðskuldabréfin hafi verið undirrituð, hafi sóknaraðili undirritað yfirlýsingu sem beri yfirskriftina: ,,Yfirlýsing-Fylgiskjal með láni í erlendri mynt.“ Í yfirlýsingunni segi m.a.:

,,Undirritaður útgefandi lýsir því yfir, að hann gerir sér grein fyrir því að lántaka með þessum hætti er áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum, eins og bankinn hefur kynnt honum sérstaklega. Um er að ræða gengisáhættu, sem lýsir sér m.a. í því, að samkvæmt tölfræðilegu mati sem byggir á sögulegum sveiflum á áhættu lána sem skiptast með ofangreindum hættu, getur höfuðstóll láns sem tekið er í framangreindri myntkörfu hækkað umtalsvert á lánstímanum…“

Varnaraðili kveður að forsvarsmaður sóknaraðila hafi mátt gera sér fulla grein fyrir efni og inntaki þeirra skjala sem undirrituð hafi verið fyrir hönd sóknaraðila.

Þegar skuldabréfið sé skoðað geti engum dulist að það taki til fjárskuldbindinga í erlendum myntum. Í 1. málslið 2. gr. skilmála veðskuldabréfanna, sem sóknaraðili vísi til í greinargerð sinni, segi að höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það sé á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Umrætt samningsákvæði taki eðli málsins samkvæmt aðeins til þess hvernig endurgreiðslu lánsins sé háttað í íslenskum krónum, en sóknaraðili hafi aldrei óskað eftir öðru, þegar skuldabréfið hafi verið útbúið, en að greiða af því í íslenskum krónum. Samkvæmt ákvæðinu breytist umreiknuð fjárhæð lánsins í íslenskum krónum í samræmi við breytingar á þeim myntum sem lánið hafi verið veitt í. Lánsfjárhæðin sem tiltekin sé í íslenskum krónum á veðskuldabréfinu vísi til þess hver lánsfjárhæðin í hinum erlendum myntum, umreiknuð í íslenskar krónur, hafi verið á útborgunardegi lánsins, þ.e. jafnvirði þeirrar fjárhæðar. Lánsfjárhæðin í erlendri mynt, þ.e. samningsmyntinni, breytist hins vegar ekki vegna gengisbreytinga.

Sóknaraðila hefði verið nær að líta til 2. málsliðar 2. gr. skuldabréfanna þar sem segi um afborganir af lánunum:

,,Afborganir eru reiknaðar þannig, að á hverjum gjalddaga er deilt í höfuðstól hverrar myntar með þeim fjölda gjalddaga sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem er í það sinn.“

Í samræmi við framangreint ákvæði hafi allar afborganir sóknaraðila af lánunum verið í erlendum myntum.

Samkvæmt 3. gr. skilmála skuldabréfanna séu grunnvextir erlendu lánanna LIBOR vextir eins og þeir hafi verið fyrir viðkomandi gjaldmiðil tveimur dögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils, sbr. 2. gr. skilmála veðskuldabréfanna. Sú staðreynd að vextir lánanna hafi ráðist af LIBOR vöxtum staðfesti enn fremur að um lántöku í erlendri mynt hafi verið að ræða og það hafi ekki síst verið þau lágu vaxtakjör sem verið var að sækjast eftir.

Varnaraðili telur ljóst, með vísan til framangreinds, að sóknaraðili hafi ekki bara samþykkt, heldur sóst eftir að taka á sig þá áhættu sem í lántökunum hafi falist fyrir hann, að því er varði greiðslubyrði af lánunum í íslenskum krónum. Bent er á, að forsvarsmenn sóknaraðila eru báðir á sjötugsaldri og ættu því að hafa upplifað bæði hæðir og lægðir í efnahagslífinu í gegnum tíðina. Hafnað er sjónarmiðum um brostnar forsendur og vísan til ógildingarreglna samningaréttarins, sem leitt geti til þess að kröfur þeirra verði teknar til greina.

Í greinargerð sóknaraðila sé því haldið fram að sóknaraðila hafi aldrei staðið til boða að fá lánsfjárhæðina greidda í erlendri mynt og varnaraðila hafi verið í lófa lagið að greiða lánsfjárhæðina í erlendri mynt. Þessum málatilbúnaði sé alfarið hafnað. Í fyrsta lagi hafi það legið fyrir við lántökuna að lánsféð yrði nýtt til greiðslu kaupverðs fasteignar hér á landi, sem umsamið var í íslenskum krónum. Í öðru lagi hafi forsvarsmenn sóknaraðila sjálfir undirritað skilyrt veðleyfi þar sem fram hafi komið að lánsfjárhæðin yrði greidd inn á bankareikning seljanda fasteignarinnar miðað við kaupgengi á útborgunardegi. Sóknaraðili hafi því sjálfur verið búinn að samþykkja að lánsféð yrði greitt út í íslenskum krónum. Því hafi lánsfjárhæðin verið nýtt til kaupa á íslenskum krónum á útborgunardegi lánsins, sem greiddar hafi verið til seljanda fasteignarinnar, eins og sóknaraðili hafi sjálfur samþykkt.

Varnaraðili kveður að hann hafi hafið að veita fasteignalán til einstaklinga og lögaðila hér á landi í erlendum myntum árið 2004. Lánin hafi verið veitt til kaupa eða endurfjármögnunar íbúðarhúsnæðis, atvinnuhúsnæðis eða sumarhúsa, tryggð með veði í viðkomandi eign. Lán í erlendum myntum hafi gjarnan verið nefnd myntkörfulán sem vísi til þess að lántakar hafi í flestum tilvikum fengið lánað í 2-4 erlendum myntum, þ.e. í körfu. Það hafi einkum verið gert til að dreifa þeirri áhættu sem lántökum í erlendri mynt geti fylgt, fyrir þá sem hafi tekjur í íslenskum krónum. Þessi áhætta sé vissulega aðeins raunveruleg fyrir þá lántakendur sem hafi tekjur sínar í íslenskum krónum og/eða hafi kosið að greiða af lánunum í íslenskum krónum. Höfuðstóll lánanna í erlendum myntum, þ.e. samningsmyntunum, breytist ekki við breytingar á gengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum.

Framkvæmd og fyrirkomulag lánveitinga varnaraðila til lántakenda hafi í stuttu máli verið þannig að lántakendur hafi leitað til varnaraðila vegna fasteignakaupa og hafi þá oft legið fyrir kaupsamningur milli viðkomandi lántaka og seljanda vegna fasteignar með fyrirvara um fjármögnun. Þar sem lánsféð hafi nær undantekningarlaust verið nýtt til greiðslu kaupverðs á fasteign, sem umsamið hafi verið í íslenskum krónum, hafi lántakar óskað eftir lánum í erlendum myntum, þar sem fjárhæð lánsins í viðkomandi myntum hafi svarað til ákveðinnar fjárhæðar í íslenskum krónum á útborgunardegi lánsins. Því hafi veðskuldabréfin verið útbúin þannig að fjárhæð lánsins hafi verið tiltekin í íslenskum krónum, sem miðaðist við fjárhæð þess í íslenskum krónum á útborgunardegi lánsins, en jafnframt tekið skýrlega fram í veðskuldabréfunum að lánið væri í erlendum myntum og síðan hlutfall hverrar myntar tiltekið eftir því hvaða myntkarfa hafi verið valin. Í framhaldinu hafi veðskuldabréf verið útbúið, undirritað og því þinglýst, og lánsfjárhæð greidd út nokkrum dögum síðar. Hinar erlendu myntir hafi verið seldar fyrir lántaka fyrir íslenskar krónur, sem hafi verið greiddar til lántaka að frádregnum kostnaði. Lántakar hafi fengið sendar kaupnótur þegar lánin hafi verið greidd út, þar sem fram hafi komið að lánin hafi verið greidd út í erlendum myntum, sem nýttar hefðu verið til kaupa á íslenskum krónum, svo og hver kostnaður hafi verið.

Lántakendur hjá varnaraðila hafi nær allar tekjur sínar í íslenskum krónum og hafi af þeim sökum kosið að greiða af lánum sínum í íslenskum krónum. Það sé ástæða þess að greiðsluáætlanir hafi sýnt áætlaðar afborganir erlendu lánanna í íslenskum krónum. Sóknaraðila sé hins vegar heimilt að greiða af lánum sínum í erlendum myntum, óski hann þess.

Varnaraðili kveður grundvallaratriði málsins vera að sóknaraðili og varnaraðili hafi gert með sér gagnkvæman samning um lántöku sóknaraðila hjá varnaraðila í erlendum myntum sem samkvæmt meginreglu samningaréttarins skuli standa. Meginreglan um samningafrelsi sé grundvallarregla í samningarétti. Í reglunni felist að mönnum og lögaðilum sé almennt heimilt og frjálst að stofna til samninga og jafnframt að þeir hafi frelsi um efni samningsins. Takmarkanir á samningsfrelsi manna og lögaðila verði almennt ekki gerðar nema með settum lögum. Varnaraðili hafni því að lánveitingarnar eða samningsskilmálar framangreindra veðskuldabréfa gangi gegn lögum og telji ljóst, með vísan til meginreglunnar um samningsfrelsi, að túlka beri öll þau lagaákvæði sem sóknaraðilar tiltaki í greinargerð sinni, þröngt með hliðsjón af meginreglunni.

Lánveitingar í erlendum myntum séu heimilar hér á landi. Varnaraðili hafni því að í lögum nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands sé að finna reglu þess efnis að lánveitingar í erlendum gjaldmiðli séu óheimilar hér á landi. Íslensk króna sé vissulega innlendur gjaldeyrir landsins, en viðskipti og lánveitingar í erlendum gjaldeyri séu heimilar. Gjaldeyrisviðskipti hafi verið frjáls hér á landi frá árinu 1994. Þá vísar varnaraðili til meginreglu EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.

Varnaraðili kveður að lán þau sem hann hafi boðið hafi aldrei verið kynnt öðruvísi en þannig að um væri að ræða lán í erlendum myntum, sem fylgdi áhætta fyrir íslenska lántakendur, sem flestir hafi tekjur sínar í íslenskum krónum. Öllum lántakendum hjá varnaraðila hafi verið kynnt þessi áhætta. Á varnaraðila hafi ekki hvílt bein lagaskylda til að upplýsa sóknaraðila sérstaklega um áhættuna sem hafi getað falist í lántöku í erlendum myntum eða að óska eftir að undirrituð væri sérstök yfirlýsing þess efnis að áhættan hefði verið kynnt fyrir honum. Varnaraðili hafi hins vegar lagt ríka áherslu á að kynna erlendu lánin sérstaklega fyrir lántakendum og þann mun sem verið hafi á þeim og lánum í íslenskum krónum, sem varnaraðili hafi einnig haft á boðstólum. Eðli málsins samkvæmt beri lántakendur í öllum tilvikum ákveðna varúðarskyldu og áhættu vegna fjárskuldbindinga sem hann sjálfur stofni til.

Móðurfélag varnaraðila, SPRON, hafi sótt lánsfé sitt nær eingöngu til erlendra banka og hafi SPRON endurlánað varnaraðila hluta þess fjármagns í erlendum myntum og hafi verið langstærsti fjármögnunaraðili hans. Skuldbindingar varnaraðila séu því í erlendum myntum að mjög stórum hluta.

Grundvallaratriðið sé því að sóknaraðili hafi fengið lán í erlendum myntum og beri varnaraðili skuldbindingar á móti gagnvart sínum lánardrottnum í erlendum myntum. Erlend lán varnaraðila hafi í öllum tilvikum verið veitt í erlendum myntum og séu þannig færð í lánabókum bankans.

Þá hafnar varnaraðili því að 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 geti leitt til þess að kröfur sóknaraðila verði teknar til greina. Kröfugerð sóknaraðila lúti ekki að því að samningum aðila (veðskuldabréfum) verði breytt eða þeim vikið til hliðar, heldur því að afborganir þeirra fari eftir ,,upprunalegum greiðsluáætlunum vegna lánanna“. Kröfugerðin feli ekki í sér kröfu um breytingu eða ógildingu á skilmálum veðskuldabréfanna. Því geti tilvitnuð ákvæði samningalaga ekki leitt til þess að krafa sóknaraðila verði tekin til greina, hvað sem öðru líði. Samkvæmt efni 36. gr. samningalaga verði skaðabóta- og/eða endurkröfur ekki gerðar á grundvelli ákvæðisins. Því verði skaðabótakrafa sóknaraðila ekki gerð á grundvelli ákvæðisins.

Allt að einu sé því hafnað að umræddir samningsskilmálar séu ,,ósanngjarnir“ eða ,,andstæðir góðri viðskiptavenju“. Lán þau sem sóknaraðilar hafi tekið hjá varnaraðila hafi verið í  erlendri mynt og hafi þeim mátt vera sú áhætta kunn sem í lántökunni gat falist. Lán í erlendri mynt hafi verið mjög algeng hér á landi á árunum 2003-2008. Fáir hafi séð fyrir hrun íslenska bankakerfisins haustið 2008. Enn séu áhrif þess, t.a.m. á gengi erlendra gjaldmiðla gagnvart íslensku krónunni, til framtíðar óljós og raunar ómögulegt að spá fyrir um þróun gengisvísitölunnar, t.d. eftir 10 ár. Lán sóknaraðila hjá varnaraðila séu til 20, 25 eða 30 ára og með öllu óljóst hvort heildarendurgreiðslur þeirra við lok samningstímans verði hærri eða lægri en sóknaraðilar hafi áætlað í upphafi.

Málsástæðum sóknaraðila á grundvelli ,,Force majeure“ sjónarmiða og brostinna forsendna sé mótmælt og að sama skapi sé því hafnað að á nokkurn hátt hafi verið brotið gegn lögum nr. 121/1994 um neytendalán. Sóknaraðila hafi verið veittar upplýsingar um öll þau atriði sem varnaraðila bar að upplýsa um.

Þá er því sérstaklega mótmælt að sóknaraðili eigi skaðabótakröfu á hendur varnaraðila. Skilyrði skaðabótaskyldu séu ekki fyrir hendi, auk þess sem alla umfjöllun skorti um meint tjón sóknaraðila, sem og önnur skilyrði skaðabótaábyrgðar, s.s. orsakatengsl og sennilega afleiðingu í greinargerð.

Í málatilbúnaði sóknaraðila sé því haldið fram að lánveitingar til sóknaraðila hafi verið í íslenskum krónum sem bundnar hafi verið við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessum málatilbúnaði hafi alfarið verið hafnað hér að framan. Vegna umfjöllunar í greinargerð sóknaraðila um lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, telji varnaraðili þó rétt að árétta eftirfarandi:

Núgildandi lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu feli ekki í sér bann við því að lánsfjárhæð í íslenskum krónum sé bundin við gengi erlends gjaldmiðils eins og sóknaraðilar haldi fram. Ekki verði séð að með setningu laganna hafi verið meiningin að draga úr heimildum til að gengistryggja lánsfé og sé engin regla þess efnis orðuð í lögunum. Slíka bannreglu hafi þó verið að finna í eldri lögum. Í lögum nr. 4/1960 um efnahagsmál hafi verið sagt að eigi væri heimilt, frekar en leyft væri í lögunum, ,,að stofna til fjárskuldbindinga í íslenskum krónum eða öðrum verðmæli með ákvæðum þess efnis, að greiðslur, þar með taldir vextir skuli breytast í hlutfalli við breytingar á vísitölum, vöruverði, gengi erlends gjaldeyris, verðmæti gulls, silfurs eða annars verðmælis“. Með öðrum orðum hafi í lögunum verið sett bann við tilteknum verðtryggingum sem og gengistryggingum og hafi meginreglan því verið sú að verð-og gengistrygging hafi verið bönnuð, nema það hafi verið sérstaklega heimilað með lögum. Þetta ákvæði hafi verið tekið óbreytt upp í 1. gr. laga nr. 71/1966 um efnahagsmál. Bann við gengistryggingu lánsfjár við gengi erlendra gjaldmiðla hafi svo verið numið úr lögum er lög nr. 71/1966 hafi verið felld úr gildi og hafi slík bannregla ekki verið sett í lög síðan.

Í núgildandi lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hafi hugtakið verðtrygging einnig verið þrengt frá því sem áður hafi verið og komi hvergi fram að það taki einnig til gengistrygginga sem sé annað hugtak.

Í eldri lögum þar sem fjallað hafi verið um verðtryggingar hafi ávallt verið tiltekið að með orðinu verðtrygging væri hvort tveggja átt við opinberar/innlendar vísitölur eða bindingu við gengi erlends gjaldmiðils. Megi hér nefna að í 4. mgr. 39. gr. laga nr. 13/1979, hafi verið fjallað um grundvöll verðtrygginga og skyldi hann annaðhvort miðast við a) opinberar vísitölur eins og þær væru reiknaðar á hverjum tíma eða b) gengi erlends gjaldeyris í þeim tilvikum sem slíkt væri heimilt samkvæmt lögum eða reglugerð. Sambærilegt orðalag hafi verið að finna í breytingalögum nr. 13/1995 sem breytt hafi þágildandi vaxtalögum nr. 25/1987. Gildissvið V. kafla þeirra laga hafi verið afmarkað þannig að hann gilti um skuldbindingar um sparifé og lánsfé í íslenskum krónum, þar sem áskilið er að greiðslurnar skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða vísitölu gengis á erlendum gjaldmiðlum, sbr. 20. gr.

Enn hafi verið gengið út frá sams konar skilgreiningu á orðinu ,,verðtrygging“ í frumvarpi til laga um vexti, dráttarvexti og verðtryggingu sem lögð hafi verið fram á 122. löggjafarþingi. Gildissvið frumvarpsins um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár hafi verið skilgreint á sambærilegan hátt og í þágildandi vaxtalögum. Í 14. gr. frumvarpsins hafi verið sagt að með verðtryggingu væri átt við breytingu í hlutfalli við ,,innlenda verðvísitölu eða gengi erlends gjaldmiðils“. Í athugasemdum með frumvarpinu í umfjöllun um 14.-18. gr. segi m.a. að eftir að gjaldeyrisviðskipti hafi verið gefin frjáls á árinu 1994 hafi aðstæður gjörbreyst hér á landi. Minni þörf sé en áður fyrir ákvæði um gengisbindingu skuldbindinga í íslenskum krónum. Svo segi:

,,Vilji einstaklingur eða fyrirtæki gengisbindingu er ekkert því til fyrirstöðu að viðkomandi geri samning í erlendum gjaldmiðli.“

Í núgildandi lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 séu ákvæði um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár í VI. kafla laganna, einkum 13. og 14. gr. Gildissvið kaflans sé afmarkað þrengra en gert hafði verið í lögum, a.m.k. frá árinu 1960.

Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að hugtakið verðtrygging hafi verið þrengt frá áðurgildandi lögum sem varðað hafi verð- og gengistryggingar sparifjár og lánsfjár. Samkvæmt núgildandi lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, taki hugtakið ,,verðtrygging“ aðeins til innlendra verðvísitalna en ekki til þess þegar lánsfjárhæð sé bundin við gengi erlends gjaldmiðils. Því taki núgildandi lög ekki til gengistryggingar lánsfjár í íslenskum krónum.

Engin fortakslaus bannregla verði lesin úr lögunum við því að lán í íslenskri mynt séu bundin við gengi erlendra gjaldmiðla, þ.e. gengistryggð, og telji varnaraðili að gengistryggðar lánveitingar séu heimilar að lögum hér á landi. Hvað sem öðru líði hafi komist á bindandi venja þess efnis. Bann við gengistryggingu lánsfjár við gengi erlendra gjaldmiðla hafi verið numið úr lögum er lög nr. 71/1966 hafi verið felld úr gildi og hafi slík bannregla ekki verið sett í lög síðan.

Varnaraðili hafni því alfarið að ummæli í lögskýringargögnum geti gefið ákvæðum laga nr. 38/2001 víðtækari eða aðra merkingu en leiði af skýringu þeirra samkvæmt orðanna hljóðan. Varnaraðili telji ljóst að hafi ætlun löggjafans verið sú að setja bannákvæði um tilteknar verðtryggingar eða gengistryggingar lánsfjár, sem gangi gegn meginreglum samningaréttar um samningsfrelsi, hafi orðið að orða slíkt lagaákvæði skýrlega í lögum. Lögskýringargögn geti ekki leitt til túlkunar á lagaákvæði eða lagabálk sem leiði til þess að fengin verði ný og íþyngjandi regla sem eigi sér ekki skýra stoð í lögunum sjálfum. Meintur vilji löggjafans geti ekki leitt til slíkrar niðurstöðu.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að skuldabréf málsaðila hafi verið gengistryggt með ólögmætum hætti, samkvæmt lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, byggir varnaraðili á því að ákvæði samningsins um önnur kjör hans séu einnig ógild. Meginreglur samningaréttar um brostnar og rangar forsendur, 36. gr. samningalaga, samningsrök og eðli máls leiði til þess að víkja beri til hliðar eða ógilda ákvæði skuldabréfsins um vaxtakjör, sbr. 3. gr. þess, og ákvarða vexti og, eftir atvikum verðtryggingu, samkvæmt lægstu vöxtum á nýjum, almennum útlánum hjá lánastofnunum sem Seðlabanki Íslands ákveði og birti samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 4. gr. sömu laga.

Varnaraðili telur ljóst að fyrir liggi og sé óumdeilanlegt að forsenda fyrir þeim kjörum, einkum vaxtakjörum, sem lán varnaraðila til sóknaraðila hafi verið háð, hafi verið að lánið var í erlendri mynt. Á því er byggt að sóknaraðila hafi verið þessi verulega ákvörðunarforsenda ljós og kunn. Þessi forsenda hafi jafnframt verið ákvörðunarforsenda sóknaraðila fyrir því að taka umrætt lán en ekki íslenskt lán, sem honum hafi einnig staðið til boða.

Reynist framangreindar forsendur rangar eða brostnar, vegna þess að samningur aðila verði talinn innihalda ólögmætt gengistryggingarákvæði, sé ljóst að vaxtaskilmálar hans séu jafnframt úr gildi fallnir og eða forsendur að baki þeim brostnar, sem leiði til ógildingar þeirra. Eðli málsins samkvæmt sé samhengi milli vaxtakjara, myntar lánsins og grunns verðtryggingar, þ.e. gengistryggingarinnar. Raunar séu þessar forsendur svo samofnar og samtvinnaðar að ógildist ein þeirra, bresti hinar, sem valdi því að þær ógildist og falli úr gildi.

Réttarregla 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 um að ósanngjörnum samningsskilmálum megi víkja til hliðar, leiði til sömu niðurstöðu, enda séu samningsskilmálar ósanngjarnir ef miða eigi við að lánið sé í íslenskum krónum en með LIBOR vöxtum, eins og sóknaraðili krefjist. Ljóst sé, að ef gengisáhætta reynist ekki hafa verið til staðar, hafi löggerningurinn augljóslega orðið annars efnis en til hafi verið ætlast af báðum aðilum og gengið hafi verið út frá við samningsgerðina.

Vextir skuldabréfsins hafi, samkvæmt 3. gr. þess, tekið mið af breytilegum eins mánaðar LIBOR vöxtum, sem séu vextir af lánum á millibankamarkaði í London, auk álags. LIBOR vextir hafi aðeins verið í boði hér á landi þegar um lán í erlendri mynt hafi verið að ræða, sem endurspegli svo aftur að lánveitendur, eins og varnaraðili, hafi fjármagnað stóra hluta lánasafns síns erlendis frá. LIBOR vextir séu mun lægri en þeir vextir sem í boði hafi verið hér á landi á lánum sem veitt hafi verið í íslenskum krónum. Forsenda þess að samið hafi verið um LIBOR vexti hafi verið sú að um lánveitingu í erlendri mynt hafi verið að ræða og lántakandinn hafi vitandi vits tekið gjaldeyrisáhættu. Því eigi varnaraðili rétt á því, ef forsenda þessi bresti, að lánakjör samningsins verði ákveðin með þeim hætti sem ætla megi að aðilar hefðu ellegar sammælst um, án tillits til villu þeirra beggja.

Jafnframt vísar varnaraðili hér til þeirrar meginreglu samningaréttar, að ekki sé hægt að bera fyrir sig skuldbindingu sem móttakandi veit, eða má vita, að er gefin vegna villu um aðstæður og hefur verulega þýðingu fyrir þann samning sem um ræði.

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. samningalaga megi víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Á það er bent að með setningu 36. gr. samningalaga voru dómstólum veittar víðtækar heimildar til ógildingar eða leiðréttingar ósanngjarnra samningsskilmála. Varnaraðili telur að öll skilyrði lagaákvæðisins séu fyrir hendi. Sóknaraðili geti ekki með sanngjörnum eða réttmætum hætti haldið uppi kröfum um lága LIBOR vexti af láninu út lánstímann, þ.e. til júlí árið 2047, eins og gerð hafi verið grein fyrir. Þá stríði það jafnframt gegn góðri viðskiptavenju í skilningi ákvæðisins.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili eigi ekki að geta hagnast óeðlilega vegna atvika sem kunni að leiða til þess að skilmálar skuldabréfsins séu ógildanlegir að hluta. Slík niðurstaða myndi leiða til þess að sóknaraðili nyti kjara sem eru í engu samræmi við þau kjör sem verið hafi í boði hér á landi á lánum í íslenskum krónum. Sóknaraðili hafi aldrei getað haft neinar væntingar um að njóta slíkra kjara á íslensku láni. Ef láninu verði breytt í lán í íslenskum krónum og vextir miðaðir við erlendar myntir, eins og sóknaraðili krefjist, sé ljóst að hann sé að tryggja sér umtalsvert lægri fjármögnun en öðrum aðilum hafi staðið til boða á þeim tíma sem skuldabréfið hafi verið undirritað og gengið hafi verið út frá við gerð þess. Slíkt sé í andstöðu við meginreglur kröfuréttarins og reglur um óréttmæta auðgun.

Af lögskýringargögnum og dómaframkvæmd megi jafnframt ráða að 36. gr. samningalaganna hafi einmitt verið ætlað að ná til tilvika sem þessara. Sóknaraðila hafi aldrei staðið til boða, hvorki hjá varnaraðila né öðrum lánveitendum, að taka lán með lágum LIBOR vöxtum

Varnaraðili telji jafnframt að við sanngirnismatið beri að horfa til þess að verði vaxtaákvæði veðskuldabréfsins ekki vikið til hliðar og breytt, njóti sóknaraðili langtum betri stöðu en þeir lántakar hér á landi sem tekið hafi langtímalán í íslenskum krónum til kaupa á fasteign, t.d. hjá Íbúðalánasjóði. Slík niðurstaða væri ósanngjörn í öllu tilliti.

Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. samningalaga beri að líta til ,,efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til“, við mat samkvæmt 1. mgr. greinarinnar. Í því samhengi árétti varnaraðili að skuldabréfið hafi gert ráð fyrir skyldu til greiðslu vaxta sem tekið hafi mið af forsendum samningsins að öðru leyti, þar á meðal gjaldeyrisáhættu. Það sé ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju að krefjast erlendra vaxta á lán í íslenskum krónum.

Sóknaraðili málsins teljist ekki vera neytandi í skilningi samningalaga, heldur lögaðili sem beri ríkari skyldur en neytandi við samningsgerð.

Sóknaraðili hafi tekið lán hjá varnaraðila á árinu 2007. Þá hafi tíðkast a.m.k. frá árinu 2003 að lán væru veitt í erlendum myntum hér á landi án nokkurra athugasemda eftirlitsaðila eins og Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Út frá þessum lánum hafi verið gengið sem eðlilegum og löglegum, af öllum þeim aðilum sem að málum hafi komið, hvort heldur lántökum, lánveitendum eða eftirlitsaðilum eða öðrum stjórnvöldum. Við mat á sanngirni fyrir kröfum málsaðila verði því að líta til þeirra atvika sem síðar hafi komið til, þ.e. ef skuldabréf eins og það sem mál þetta snúi að, gangi gegn lögum, beri að beita reglu 36. gr. samningalaga og breyta samningi aðila. Önnur niðurstaða skapi verulegt ójafnvægi milli réttinda og skyldna aðila. Því sé ljóst að þau kjör sem sóknaraðili krefjist nú að hann njóti, þ.e. lán í íslenskum krónum með lágum LIBOR vöxtum og án verðtryggingar eða gengistryggingar, hefðu aldrei staðið honum til boða. Það brjóti gegn ,,góðri viðskiptavenju“ í skilningi 36. gr. samningalaga að halda öðru fram.

Með vísan til alls framangreinds telji varnaraðili að miða beri við að samningsfjárhæðin, sem á lántökudegi hafi verið 16.030.000 krónur, hafi verið bundin vísitölu neysluverðs frá lántökudegi, sbr. 14. gr. laga nr. 38/2001 og beri vexti sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir samkvæmt 10. gr. laganna frá sama tíma. Á því er byggt að forsenda samningsaðila hafi verið sú að skuldbindingin væri bundin verðvísitölu, nánar tiltekið gengi svissneskra franka og japönsku jeni. Ef sú tenging reynist ólögmæt sé rétt og eðlilegt að tekið verið tillit til hækkana eftir þeirri íslensku vísitölu sem heimilt sé að binda lánsfé við, samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laganna, þ.e. vísitölu neysluverðs og fara með vexti eftir 4. gr. laga nr. 38/2001. Í skjölum málsins sé að finna greiðsluseðla sem gerðir séu út frá þessum forsendum frá lántökudegi til upphafsdags slitameðferðar varnaraðila 23. júní 2009 og stöðu lánsins miðað við mismunandi forsendur. Samkvæmt þessum útreikningum hafi sóknaraðili málsins ofgreitt af láni sínu 740.455 krónur og gerir varnaraðili því til vara kröfu um að krafa sóknaraðila verði viðurkennd þeirrar fjárhæðar.

Að öðrum kosti telur varnaraðili, verði ekki fallist á að lán sóknaraðila skuli bundið vísitölu neysluverðs og beri verðtryggða vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands, að miða beri við að samningsfjárhæðin beri óverðtryggða vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands, samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001. Krafan byggir á því, auk alls sem að framan greinir, að samningur málsaðila geri augljóslega ráð fyrir skyldu sóknaraðila til greiðslu vaxta, en eins og fyrr var rakið séu forsendur með öllu brostnar fyrir vaxtaákvæðum hans og því beri að ógilda eða víkja til hliðar vaxtaákvæðinu og fara með vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001.

Þá sé að finna í gögnum málsins greiðsluseðla sem gerðir séu út frá þessum forsendum frá lántökudegi til upphafsdags slitameðferðar varnaraðila, miðað við mismunandi reikniforsendur, þ.e. annars vegar að lánið sé jafngreiðslulán og hins vegar lán með jöfnum afborgunum. Samkvæmt þessum útreikningum hafi sóknaraðili vangreitt af lánum sínum og því eigi hann enga kröfu á varnaraðila og beri því að hafna kröfum hans.

Varðandi sjálfstæða kröfu í 2. tölulið kröfugerðar varnaraðila, kveður varnaraðili að hann hafi lögvarða hagsmuni af dómsniðurstöðu um að skilmálum skuldabréfsins verði breytt í samræmi við varakröfur sínar, verði fallist á framangreindar málsástæður og lagarök varnaraðila, m.a þar sem 37 ár séu eftir af samningstímanum og hagsmunir varnaraðila því verulegir af því að fá skýra niðurstöðu um skilmála skuldabréfsins.

Niðurstaða

Eins og fram kemur í gögnum málsins tók sóknaraðili lán hjá varnaraðila til að standa straum af kaupverði fasteignar að Tröllakór 6, Kópavogi. Veðskuldabréfið er varnaraðili gaf út ber númerið 715319, er útgefið 14. maí 2007 og ber yfirskriftina: Veðskuldabréf, fasteignalán í erlendri mynt. Til hliðar við nafn skuldara er ritað: ,,Skuldabréfið er gengistryggt, með breytilegum LIBOR vöxtum og jöfnum afborgunum“. Þar segir að skuldari viðurkenni að skulda varnaraðila jafnvirði 16.030.000 ISK, fjárhæð í bókstöfum sextán milljónir og þrjátíu þúsund í eftirtöldum myntum og hlutföllum 70% CHF 30% JPY sem endurgreiðast með tilgreindum skilmálum, þar sem lánstíma er getið, frá hvaða tíma vextir reiknist, hvenær gjalddagi fyrstu afborgunar er, fjölda afborgana er getið, greiðslustaðar, vaxta, vaxtaálags og vaxtaflokks (LIBOR).

Í 2. gr. skuldabréfsins segir: ,,Lán þetta er bundið sölugengi Seðlabanka Íslands á ofangreindum myntum. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar eins og það er á útborgunardegi til fyrsta gjalddaga, og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Afborganir eru reiknaðar þannig að á hverjum gjalddaga er deilt í höfuðstól hverrar myntar með þeim fjölda gjalddaga sem þá eru eftir, að meðtöldum þeim gjalddaga sem er í það sinn. Kröfuhafi getur breytt greiðslustað einhliða á lánstímanum“.

Í sérstöku fylgiskjali skuldabréfsins þar sem afborganir eru sundurliðaðar, kemur fram hverjar áætlaðar greiðslur séu, afborganir tilgreindar í íslenskum krónum, vextir, greiðslugjald og samtals áætluð fjárhæð afborgana í íslenskum krónum. Þar segir og um gengistryggð skuldabréf:

,,Gengistrygging skuldabréfa FFB miðast við sölugengi Seðlabanka Íslands. Einu sinni á dag skráir Seðlabanki Íslands opinbert viðmiðunargengi krónunnar gagnvart flestum erlendum myntum (sbr. 19. gr. laga nr. 36/2001 um Seðlabankann). Ýmsir hlutir geta haft áhrif á gengi gjaldmiðla svo sem efnahagsástand í landi viðkomandi gjaldmiðils og margt fleira. Höfuðstóll skuldarinnar breytist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar milli gjalddaga…  Breytingar á gengi erlendra mynta gagnvart íslensku krónunni og breytingar á vöxtum geta haft áhrif á heildarendurgreiðslu lánsins.“

Í yfirlýsingu, sem sögð er vera fylgiskjal með láni í erlendri mynt og undirrituð er af fyrirsvarsmanni sóknaraðila, segir: ,,Undirritaður útgefandi lýsir því yfir að hann gerir sér grein fyrir að lántaka með þessum hætti er áhættusamari en lántaka í íslenskum krónum, eins og bankinn hefur kynnt honum sérstaklega. Um er að ræða gengisáhættu, sem lýsir sér m.a í því að samkvæmt tölfræðilegu mati sem byggir á sögulegum sveiflum á áhættu lána sem skiptast með ofangreindum hætti, getur höfuðstóll láns sem tekið er í framangreindri myntkörfu hækkað umtalsvert á lánstímanum. Jafnframt er um að ræða vaxtaáhættu sem felst m.a. í því að lánið er með breytilegum vaxtagrunni, eins mánaðar LIBOR vöxtum, með föstu álagi. Vextir fyrir hverja mynt eru aðeins ákveðnir til eins mánaðar í senn og geta því breyst með vaxtaákvörðunum í heimaríkjum hverrar myntar auk þess sem sveiflur á alþjóðlegum gjaldeyrismörkuðum geta haft áhrif til hækkunar“.

Á greiðsluseðlum vegna umrædds skuldabréfs er fjárhæð greiðslu greind í íslenskum krónum, þ.e. í reit sem merktur er ,,til greiðslu á gjalddaga“ er fjárhæð afborgunar greind í íslenskum krónum. Hins vegar er einnig greint í greiðsluseðlunum hver myntin er, þ.e. CHF og JPY, eftirstöðvar bréfsins í þeirri mynt, myntgengi og fjárhæð í íslenskum krónum.

Í skilyrtu veðleyfi Húsvirkis hf., dagsettu 16. maí 2007, sem var seljandi fasteignar þeirrar er sóknaraðili keypti að Tröllakór, segir að veðleyfið sé ,,veitt gegn því skilyrði að Frjálsi Fjárfestingabankinn greiði andvirði ofangreinds veðskuldabréfs m.v. kaupgengi á útborgunardegi inn á bankareikning seljanda nr. 1158-26-51…“

Ágreiningur aðila snýst m.a.

 um það hvort umrætt veðskuldabréf sé skuldbinding í erlendri mynt eða íslenskum krónum sem bundnar séu gengi erlendra gjaldmiðla.

Í hæstaréttardómum frá 16. júní 2010 í máli nr. 92/2010 og í máli nr. 153/2010 þar sem sambærilegur ágreiningur var uppi og í máli þessu, segir m.a. í niðurstöðu:

Lán í erlendri mynt falla ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001. Til þess verður á hinn bóginn að líta að samningur aðilanna ber skýrlega með sér að hann var um lán í íslenskum krónum, en fjárhæðin sem ákveðin var í þeirri mynt, væri bundin…við gengi… erlendra mynta í þar greindum hlutföllum…  Berum orðum kom fram… að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar ætti að breytast eftir gengi á þeim erlendu myntum sem mið var tekið af… Af þessum sökum er ótvírætt að samningur aðilanna var um skuldbindingu í íslenskum krónum og fellur hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001. Samkvæmt framansögðu er komist að þeirri niðurstöðu að samningur... hafi verið lánssamningur í íslenskum krónum og gengistryggður eftir gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla á gjalddögum hans.“…

Í dómunum var því auk þess slegið föstu að lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla og að reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar. Ákvæði í samningi aðila um gengistryggingu hafi því verið í andstöðu við þessi fyrirmæli laganna og skuldbindi ekki lántaka.

Lán í erlendri mynt falla ekki undir reglur um heimildir til verðtryggingar lánsfjár í íslenskum krónum í VI. kafla laga nr. 38/2001. Við mat á því hvort sá lánssamningur sem mál þetta snýst um, sé um lán í íslenskum krónum sem bundnar séu gengi erlendra gjaldmiðla eða skuldbinding í erlendri mynt, verður að líta til þeirra sjónarmiða sem fram koma í ofangreindum dómum Hæstaréttar frá 16. júní 2010, í máli nr. 92/2010 og 153/2010 og leggja mat á hvort atvik í því máli séu sambærileg atvikum þessa máls.

Eins og að framan greinir kemur fram í skuldabréfi því sem mál þetta snýst um, að sóknaraðili viðurkenni að skulda varnaraðila ákveðna fjárhæð, jafnvirði 16.030.000 íslenskra króna í ákveðnum myntum. Óumdeilt er að lánsfjárhæðin var greidd inn á íslenskan tékkareikning, í íslenskum krónum og sóknaraðili hefur ætíð greitt af láninu í íslenskum krónum. Á greiðsluseðlum sem sóknaraðili fékk í hendur, kemur fram hverja afborgun skyldi greiða, í íslenskum krónum. Í texta veðskuldabréfsins kom fram að höfuðstóll skuldarinnar breyttist í hlutfalli við breytingar á sölugengi hverrar myntar og síðan í hlutfalli við breytingar á sölugengi myntanna milli gjalddaga. Lánið er með breytilegum vaxtagrunni, eins mánaðar LIBOR vöxtum. Þegar framangreint er virt er það mat dómsins að atvikum í máli þessu svipi svo mjög til atvika í máli því sem að ofan er getið og dómar hæstaréttar frá 16. júní 2010 fjalla um, að leggja beri til grundvallar þau sjónarmið sem þar koma fram, til lausnar þeim ágreiningi sem uppi er í máli þessu. Samningur aðila var samkvæmt framansögðu um skuldbindingu í íslenskum krónum og hann er gengistryggður eftir gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla. Ákvæði í samningi aðila um gengistryggingu eftir gengi tilgreindra erlendra gjaldmiðla eru í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 38/2001, sem heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Ákvæði þessi eru því óskuldbindandi fyrir sóknaraðila. Er því fallist á með sóknaraðila að greiðslur af umræddu láni til varnaraðila, sem tóku mið af breytingum af höfuðstóli lánsins á grundvelli ólögmætrar gengistryggingar, hafi verið ranglega af honum hafðar.

Endanleg krafa sóknaraðila er að fjárhæð 1.025.826 krónur. Með bókun sem lögmenn aðila lögðu fram í þinghaldi 23. ágúst 2010 urðu málsaðilar ásáttir um að varnaraðili kæmi að varakröfum í framhaldsgreinargerð, færi svo að niðurstaða dómsins yrði þannig að í veðskuldabréfi aðila fælist ólögmætt gengistryggingarákvæði.

Að fenginni ofangreindri niðurstöðu um að ákvæði í samningi aðila um gengistryggingu eftir gengi tilgreindra erlendra gjaldmiðla séu óskuldbindandi fyrir sóknaraðila, liggur fyrir dóminum að taka afstöðu til varakrafna varnaraðila, sem fram koma í framhaldsgreinargerð hans.

Í framhaldsgreinargerð varnaraðila er þess krafist í varakröfu, ef ekki yrði fallist á aðalkröfu, sem byggðist á því að gengistrygging lánsins eftir gengi tilgreindra erlendra gjaldmiðla væri lögmæt, að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 740.455 krónur. Var sú fjárhæð grundvölluð á því að skuldbinding sóknaraðila væri bundin vísitölu neysluverðs og miðað við þær forsendur hefði sóknaraðili ofgreitt af láni sínu 740.455 krónur.

Þá var þess krafist að viðurkennt yrði að skilmálar skuldabréfs nr. 715319, dags. 14. maí 2007, yrðu þannig að upphaflegur höfuðstóll þess, umreiknaður í íslenskar krónur að fjárhæð 16.030.000 krónur, breyttist í hlutfalli við breytingar á vísitölu neysluverðs samkvæmt 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá útborgunardegi þann 30. maí 2007, miðað við grunnvísitöluna 268,7 stig og að veðskuldabréfið bæri verðtryggða vexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands, samkvæmt 4. gr. sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001 frá sama tíma.

Til þrautavara krafðist varnaraðili þess að kröfum sóknaraðila yrði hafnað og jafnframt að viðurkennt yrði að skilmálar skuldabréfs nr. 715319, dags. 14. maí 2007, yrðu þannig að upphaflegur höfuðstóll þess, umreiknaður í íslenskar krónur að fjárhæð 16.030.000 krónur, bæri óverðtryggða vexti frá útborgunardegi þann 30. maí 2007 samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands, samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þrautvarakrafa varnaraðila um höfnun kröfu sóknaraðila er á því byggð að ef fallist yrði á að miða bæri vexti við þá vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna, sbr. og 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, hafi sóknaraðili vangreitt varnaraðila og beri því að hafna kröfu hans um tilgreinda fjárhæð úr hendi varnaraðila.

Óumdeilt er að vextir af veðskuldabréfi því sem mál þetta tekur til, nr. 715319, áttu að taka mið af meðaltali LIBOR vaxta af lánum í japönskum jenum og svissneskum frönkum, að viðbættu 2,75% álagi.

Í dómi Hæstaréttar frá 16. september sl., í máli nr. 471/2010 var tekist á með sambærilegum hætti og í máli þessu, um hvaða áhrif sú niðurstaða að ákvæði um gengistryggingu væru ólögmæt, hefði á vexti af láninu.

Í dóminum segir m.a. að líta verði til þess að eftir að ákvæði í samningnum um gengistryggingu hafi verið metið ógilt, séu skuldbindingar aðila að öllu leyti í íslenskum krónum og algerlega óháðar þeirri tengingu við japönsk jen og svissneska franka, sem aðilarnir hafi gengið út frá við gerð samningsins. Þegar virt sé að ákvæðið um gengistryggingu í samningi aðilanna sé ógilt og bein og órjúfanleg tengsl séu milli þess ákvæðis og fyrirmæla um vexti í bréfinu sjálfu, sé hvorki unnt að styðjast við þau fyrirmæli óbreytt eftir orðanna hljóðan né gefa þeim með skýringu annað inntak, enda liggi fyrir í málinu að á millibankamarkaði í London hafi aldrei verið skráðir LIBOR vextir af lánum í íslenskum krónum.

Í forsendum ofangreinds hæstaréttardóms segir einnig:

,,Í samningnum … var ekki mælt fyrir um að skuldbinding gagnáfrýjanda við aðaláfrýjanda ætti að fylgja breytingum á vísitölu neysluverðs, svo sem aðaláfrýjandi hefur lagt til grundvallar í aðalkröfu sinni og fyrstu varakröfu, og er hvorki unnt að gefa samningnum það inntak með skýringu né geta lög leitt til þeirrar niðurstöðu. Í samningnum var ákveðið að skuld gagnáfrýjanda bæri vexti. Með því að þar greindum fyrirmælum um hæð þeirra verður samkvæmt framansögðu ekki beitt er óhjákvæmilegt að líta svo á að atvik svari hér til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 skulu vextir þegar svo stendur á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum, sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna.“

Í ofangreindum dómi Hæstaréttar var fjallað um svokallað ,,bílalán“, en mál það sem hér er til úrlausnar fjallar um gengistryggingu skuldabréfs með veði í fasteign. Breytir það engu um það mat dómsins að með fyrrgreindum hæstaréttardómi hafi verið gefið ákveðið og skýrt fordæmi varðandi vaxtaviðmið, sem nær jafnt til þess konar lánssamninga sem dómur Hæstaréttar fjallar um og þess veðskuldabréfs sem mál þetta snýst um.

Með hliðsjón af ofangreindri niðurstöðu og rökstuðningi í dómi Hæstaréttar verður fallist á þrautavarakröfu varnaraðila samkvæmt 1. tölulið þrautavarakröfu. Enginn ágreiningur er um fjárhæðir í málinu og hefur varnaraðili sýnt fram á með útreikningum þeim er liggja frammi í málinu, að sóknaraðili hafi vangreitt af umræddu láni. Er því aðalkröfu sóknaraðila um viðurkenningu kröfu sinnar að fjárhæð 1.025.826 krónur, sem almennrar kröfu, hafnað.

Liggur þá fyrir dóminum að taka afstöðu til viðurkenningarkröfu varnaraðila samkvæmt 2. tölulið þrautavarakröfu varnaraðila. Þar er þess krafist að viðurkennt verði að skilmálar skuldabréfs nr. 715319 verði þannig að upphaflegur höfuðstóll þess, umreiknaður í íslenskar krónur að fjárhæð 16.030.000 krónur beri óverðtryggða vexti frá útborgunardegi þann 30. maí 2007 samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands samkvæmt 4. gr., sbr. 10. gr. laga nr. 38/2001.

Eins og að framan greinir hefur dómurinn fallist á að ,,atvik svari hér til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera“ eins og greinir í dómi Hæstaréttar frá 16. september sl. og að samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001 skuli vextir þegar svo stendur á vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laganna. Þá hefur verið fallist á þá útreikninga varnaraðila sem lagðir hafa verið fram til rökstuðnings því að sóknaraðili hafi, miðað við þessar forsendur og þessi vaxtaviðmið vangreitt af láni sínu, en þeir útreikningar eru miðaðir við útborgunardag lánsins. Niðurstaða um 1. tölulið þrautavarakröfu varnaraðila um vaxtaviðmið, felur í sér niðurstöðu um það hvernig reikna beri vexti af umræddu láni. Hefur því varnaraðili ekki lögvarða hagsmuni af því að fá sérstakan viðurkenningardóm varðandi 2. tölulið kröfunnar og er þeim kröfulið vísað frá dómi.

Að öllu framansögðu virtu er hafnað kröfu sóknaraðila um viðurkenningu kröfu sinnar á hendur varnaraðila að fjárhæð 1.025.826 krónur sem almennrar kröfu. Varakröfu varnaraðila um viðurkenningu kröfu sóknaraðila sem almennrar kröfu að fjárhæð 740.455 krónur ef hafnað, sem og viðurkenningarkröfu varðandi skilmála skuldabréfs sóknaraðila, samkvæmt tölulið 2 í varakröfu varnaraðila.

Fallist er á þrautavarakröfu varnaraðila samkvæmt tölulið 1 í þrautavarakröfu, en vísað er frá dómi kröfu varnaraðila um viðurkenningardóm er fram kemur í tölulið 2 í þrautavarakröfu hans.

Varnaraðili hefur ekki krafist málskostnaðar.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kröfu sóknaraðila, Tölvu-Póstsins ehf. um viðurkenningu kröfu nr. 151 í kröfuskrá við slit varnaraðila, Frjálsa fjárfestingabankans hf. að fjárhæð 1.025.826 krónur, sem almennrar kröfu, er hafnað.

Kröfu varnaraðila um viðurkenningardóm samkvæmt tölulið 2 í þrautavarakröfu, er vísað frá dómi.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.