Print

Mál nr. 58/2019

Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar (Margrét Gunnlaugsdóttir lögmaður)
gegn
A (Jóhannes Ásgeirsson lögmaður) og B (Þorbjörg I. Jónsdóttir lögmaður)
Lykilorð
  • Börn
  • Barnavernd
  • Forsjársvipting
  • Stjórnarskrá
  • Gjafsókn
Reifun

BH krafðist þess að A og B yrðu svipt forsjá tveggja barna sinna með vísan til a., c. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í málinu lá meðal annars fyrir álitsgerð sálfræðings um forsjárhæfni B þar sem B var talin skorta nægjanlega hæfni til að fara með forsjá barnanna. Einnig lá fyrir matsgerð dómkvadds matsmanns þar sem fram kom að vilji barnanna væri afar skýr um að þau vildu ekki búa hjá A og B. Héraðsdómur féllst á kröfu BH en A og B voru hins vegar sýknuð af kröfum BH í Landsrétti. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að rétt til fjölskyldulífs, sem varinn væri af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, skyldi ætíð meta út frá hagsmunum barnsins og rétti þess til einkalífs og friðhelgi samkvæmt 3. mgr. 76. gr. hennar. Í þessu fælist jafnframt að líta bæri, eins og frekast væri kostur, til viljaafstöðu barns við úrlausn um málefni þess. Talið var með vísan til gagna málsins, einkum mats dómkvadds matsmanns, að börnin upplifðu verulegan ótta við A þannig að heilsu þeirra og þroska væri hætta búin í umsjá hans sökum þess að breytni hans væri til þess fallin að valda börnunum alvarlegum skaða. Þá voru gögn málsins talin bera með sér að forsjárhæfni B væri skert og að vandséð væri að B væri unnt að byggja upp tengsl og traust við börnin að nýju. Með vísan til þessa og því að börnin hafi sýnt sterkan vilja til þess að búa áfram hjá fósturforeldrum var það talið þeim fyrir bestu að fallast á kröfu BH um forsjársviptingu á grundvelli d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason, Greta Baldursdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2019. Hann krefst þess að stefndu verði svipt forsjá barna sinna, C og D.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt.

I

1

            Stefndu eru hjón og eiga saman tvö börn, C, sem fædd er [...], og D, sem fæddur er [...].

Hinn [...] 2015 sendi E í [...] tilkynningu til áfrýjanda undirritaða af F, sérkennslufulltrúa og meðstjórnanda skólans, þar sem fram kom að C hefði komið að fyrra bragði á skrifstofu F og sagst vilja tala við hana. Stúlkan hefði veturinn áður verið í meðferð hjá sérkennslufulltrúanum, þar sem hún hefði verið að læra á tilfinningar sínar og viðbrögð við hugsunum sínum, styrkingu sjálfsmyndar og eflingu kjarks. Í samtalinu hefði stúlkan talað um líðan sína og lýst ofbeldi á heimili og áhyggjum af móður sinni og bróður. Þá hefði hún með teikningu sýnt að faðir sinn hefði strokið sér og bróður sínum á „einkastöðum“ þeirra. Hefði hann „ruglast“ eitthvað með hendur sínar. Aðspurð hvort hún hefði áður viljað segja F frá þessu bókaði F eftir stúlkunni: „Já - þorði ekki að segja þegar ég var sex ára því þá vissi ég ekki að hann væri að ruglast.“ Aðspurð hversu oft pabbi hennar hefði ruglast á skalanum 1 til 10 sagði stúlkan að það væri „fimm“ eða „oft - ekki mjög.“ Hefði F bent á svartan hluta teikningarinnar af pabbanum og spurt stúlkuna hvað þetta væri. Stúlkan hefði svarað: „Það er þetta - þetta er typpið sem fór inn í píkuna mína.“ Þá mátti ráða af tilkynningunni að bróðir stúlkunnar hefði einnig orðið fyrir áreiti af hálfu föður síns. Fram kom að samskipti sérkennslufulltrúans og stúlkunnar umrætt sinn hefðu tekið um tvær og hálfa klukkustund.  

Málið var þegar tilkynnt lögreglu og var stefndi boðaður til skýrslutöku [...] 2015. Hann var þá handtekinn og sætti í framhaldinu gæsluvarðhaldi í fjóra daga. Samkvæmt gögnum málsins var hann yfirheyrður á ný hjá lögreglu [...], [...] 2015 og [...] 2016. Hann hefur ætíð neitað að hafa framið kynferðisbrot gegn börnum sínum.

Stúlkan fór [...] 2015 í skýrslugjöf í Barnahúsi, sbr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Fyrst sagðist stúlkan aðspurð hvorki muna eftir að faðir sinn hefði gert eitthvað á hennar hlut né að hafa sagt áðurnefndum sérkennslufulltrúa frá því. Stúlkan var þá beðin um að útskýra mynd sem hún teiknaði í samtali sínu við sérkennslufulltrúann. Kvað stúlkan hana vera af stelpu, en sagðist ekki vita hvort það væri hún, vinkona hennar eða einhver annar. Stelpan á teikningunni væri að gráta. Í kjölfarið grét stúlkan mikið og lengi í skýrslugjöfinni og fékk ekka þannig að gera þurfti hlé. Er yfirheyrandi reyndi að taka upp þráðinn að nýju grét stúlkan enn meira, yppti öxlum hvað eftir annað og gaf engin bein svör við því hvort faðir sinn hefði beitt sig eða bróður sinn kynferðislegu ofbeldi.

Sama dag var tekin skýrsla af drengnum í Barnahúsi. Var hann meðal annars spurður að því hvort pabbi sinn hefði snert á honum „mallann“, typpið eða rassinn og hristi hann í öllum tilvikum höfuðið.

Starfsmenn áfrýjanda fóru á heimili fjölskyldunnar þegar rannsókn málsins hófst. Samkvæmt skýrslu þeirra var þar mikil óreiða og börnin afar illa hirt, stúlkan með [...]. Hún hefði verið látin pissa í bleyju, en drengurinn haft hægðir í bleyju vegna [...] og ekki verið vaninn á að nota salerni.

Stúlkan gaf á ný skýrslu í Barnahúsi [...] 2015 og lýsti því þá að faðir sinn hefði snert „einkastaði“ sína með typpinu og hefði hún áhyggjur af bróður sínum. 

Þegar rannsókn málsins hófst var stefnda til meðferðar á G vegna [...]. Með samþykki hennar var ákveðið að vista börnin tímabundið utan heimilis á vegum áfrýjanda. Stóð vistunin til [...] 2015, er börnin fóru aftur í umsjá móður sinnar, en faðirinn hafði þá flutt af heimilinu. Áætlun um frekari meðferð málsins samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 var gerð [...] 2015, með áherslu á að börnin, einkum stúlkan, myndu ekki umgangast föður sinn meðan sakamálarannsókn stæði yfir, nema að takmörkuðu leyti og þá um jól og áramót. Stefnda naut á þessum tíma ýmiss konar aðstoðar og tilsagnar, tók á móti tilsjón á heimili sínu, gekkst þar undir óboðað eftirlit starfsmanna áfrýjanda og lýsti því jafnframt yfir að hún væri samstarfsfús í þágu dóttur sinnar.

Eftir að börnin komu á ný heim til móður sinnar í [...] 2015 fóru starfsmenn áfrýjanda að hafa áhyggjur af högum þeirra. Hinn [...] 2016 ritaði H, sálfræðingur Barnahúss, áfrýjanda bréf, þar sem sagði meðal annars: „Staða málsins er sú að C er í samskiptum við meintan geranda (sem er faðir hennar) og nýtur ekki stuðnings móður sinnar. Meðferðarviðtöl eru þar af leiðandi ekki líkleg til að skila árangri þar sem mikilvægt er, þegar svo ung börn eiga í hlut, að ummönnunaraðili taki þátt í meðferðarvinnunni og haldi áfram með hana á heimilinu.“ Af gögnum málsins verður ráðið að móðir stúlkunnar hafði lýst þeirri afstöðu sinni í samtali við tilsjónaraðila, svo og á fundi með kennurum skólans 11. janúar 2016, að tilkynning um kynferðisofbeldi væri byggð á misskilningi, barnið hefði ruglast í frásögn sinni og faðirinn ekki gert það sem hann væri sakaður um. Jafnframt kom fram sú afstaða móður að skóli barnsins hefði farið offari í tilkynningu um kynferðislegt ofbeldi og ekki staðið rétt að málum varðandi stuðning við barnið í þessum aðstæðum.

Samkvæmt úrskurði áfrýjanda [...] 2016 var stúlkan vistuð utan heimilis foreldra í sex mánuði með stoð í 26. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði héraðsdóms [...] 2016.

Með úrskurði héraðsdóms [...] 2016 var fallist á kröfu áfrýjanda um frekari vistun stúlkunnar utan heimilis. Var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar 19. maí sama ár í máli nr. 362/2016.

Hinn [...] 2016 ritaði fyrrnefndur sérkennslufulltrúi samantekt um líðan stúlkunnar á vorönn skólans, þar sem fram kom að stúlkan hefði átt mjög erfiða daga, oft verið döpur og grátið og sýnt óöryggi, hangið utan í kennara og pissað á sig. Hefði hún annað slagið sagst sakna móður sinnar og bróður, en á þeim tíma sem stúlkan var ein vistuð utan heimilis naut hún takmarkaðrar umgengni við þau. Fólst umgengnin í því að þau hittust einu sinni í viku, tvo tíma í senn, undir eftirliti, fyrst á vistheimilinu, en síðar í íbúð á vegum áfrýjanda.

Stúlkan gaf enn á ný skýrslu í Barnahúsi [...] 2016, þar sem hún lýsti kynferðisbrotum föður síns sem hefði snert „einkastaði“ sína með puttanum og borið krem á og einnig snert „einkastaðina“ með typpinu. Lýsti stúlkan sem fyrr áhyggjum af bróður sínum og vildi að hann byggi hjá sér og fósturmóður sinni svo hann væri öruggur gagnvart föður.  

2

Í [...] 2016 tók móðir barnanna drenginn úr leikskóla í Hafnarfirði og flutti lögheimili þeirra til [...]. Vegna upplýsinga um að drengurinn væri í miklum samvistum við föður sinn úrskurðaði áfrýjandi [...] 2016, sbr. 31. gr. barnaverndarlaga, að drengurinn skyldi tekinn af heimilinu og vistaður á vegum áfrýjanda á sama heimili og stúlkan. Hinn [...] sama mánaðar barst áfrýjanda tilkynning frá fósturmóður barnanna um að drengurinn ætti við [...] að stríða. Þá hefði hann lýst því aðspurður sem leyndarmáli að faðir sinn hefði borið krem á kynfæri sín, en ekki mætti segja móður frá því. Af þessu tilefni sendi áfrýjandi kæru til lögreglu og tók málefni drengsins jafnframt fyrir á fundi sínum [...] 2016. Þar mættu stefndu bæði og kom fram hjá þeim að þótt faðir barnanna myndi ekki dvelja á heimilinu meðan á rannsókn máls stæði væri samband þeirra hjóna traust og fyrri hugmyndir þeirra um skilnað misráðnar.

Rætt var við drenginn í Barnahúsi [...] 2016, þar sem hann lýsti því að faðir sinn hefði nuddað á sér typpið og borið krem á það og auk þess stungið fingri upp í endaþarm sinn. Hefði faðirinn sagt að ekki mætti segja mömmu frá. Degi síðar úrskurðaði áfrýjandi að drengurinn skyldi tekinn af heimili foreldra og vistaður á vegum áfrýjanda í tvo mánuði. Jafnframt var ákveðið samkvæmt 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga að gera kröfu fyrir héraðsdómi um að ráðstöfunin stæði í sex mánuði.

Ekki gekk eftir að krafa um áframhaldandi vistun kæmi fram í tæka tíð áður en vistunartíminn rann út, en áfrýjandi ákvað þess í stað [...] 2016 neyðarvistun samkvæmt 31. gr. laganna og úrskurðaði að drengurinn skyldi kyrrsettur á fósturheimilinu. Gerði áfrýjandi kröfu fyrir héraðsdómi um að ráðstöfun þessi stæði í allt að sex mánuði. Var fallist á það með úrskurði héraðsdóms [...] 2016.

3

Að beiðni áfrýjanda skilaði I sálfræðingur skýrslu [...] 2016 um sálfræðilegt mat á forsjárhæfni móður. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi og dómi Landsréttar kom meðal annars fram í álitsgerðinni að vísbendingar væru um vanrækslu móður og ljóst að tilfinninga- og tengslavandi hefði hamlað getu hennar til að sinna börnunum með eðlilegum hætti. Var það ályktun sálfræðingsins að töluverð áhætta myndi fylgja því ef börnin færu aftur í umsjá hennar. Hún hefði ekki tekið afstöðu með börnunum til að vernda þau, auk þess sem vísbendingar væru um ákveðna vanrækslu á tímabili og hugsanlegt ofbeldi. Þá hefði samstarfi móður við barnavernd verið áfátt. Hefði móðirin sýnt af sér dómgreindarleysi með því að hafa föðurinn áfram á heimilinu og leggja að stúlkunni að breyta framburði sínum. Var það niðurstaða sálfræðingsins að móður skorti nægjanlega hæfni til að fara með forsjá barnanna. Mælti hann með því að þau yrðu áfram í fóstri, en umgengni við móður yrði undir ströngu eftirliti.

4

Hinn [...] 2016 ritaði áðurnefndur sálfræðingur Barnahúss bréf til áfrýjanda, þar sem veitt voru svör við fyrirspurn áfrýjanda um „gang meðferðarviðtala og stöðu“ stúlkunnar. Í bréfinu var nefnt það helsta úr framangreindum viðtölum í Barnahúsi [...] og [...] 2015 og tilgreint að í þriðja viðtalinu [...] 2016 hefði stúlkan skýrt frá kynferðisbrotum föður síns og frásögnin verið sú sama og kom fram í viðtali hennar við sérkennslufulltrúa [...] 2015 og síðari samtölum hennar og fósturmóður. Í viðtalinu [...] 2016 hefði stúlkan meðal annars skrifað á blað „hvað pabbi hafði gert“ af því að „það var svo erfitt að segja það.“

Með úrskurði héraðsdóms [...] 2016 var fallist á fyrrnefnda kröfu áfrýjanda um að drengurinn skyldi áfram vistaður utan heimilis í allt að sex mánuði. Á sama hátt var með úrskurði héraðsdóms [...] 2017 ákveðið að stúlkan skyldi áfram vistuð á vegum áfrýjanda utan heimilis í allt að sex mánuði, en áfrýjandi hafði jafnframt [...] 2016 úrskurðað að stúlkan skyldi vistuð áfram í tvo mánuði utan heimilis.

Hinn [...] 2017 ritaði fyrrgreindur sálfræðingur Barnahúss vottorð um meðferðarviðtöl við stúlkuna. Þar kom fram að henni liði vel á fósturheimilinu og treysti fósturforeldrum. Hún væri hrædd við föður sinn vegna kynferðisbrota og óttaðist afskipti hans af bróður sínum. Þá „ruglaðist“ móðir hennar einnig stundum og vísaði stúlkan þar til þess að móður gæti verið laus höndin. Fram kom að stúlkan hefði mætt í 22 viðtöl í Barnahúsi frá [...] 2016 og mikil breyting orðið á líðan hennar, framkomu og fasi. Hún hefði verið mjög lokuð í byrjun, horft niður fyrir sig og ekki sagt orð að fyrra bragði, en það væri nú breytt.

Um [...] 2017 tók J félagsráðgjafi að sér að vera talsmaður barnanna samkvæmt 46. gr. barnaverndarlaga. Í kjölfar óskar áfrýjanda um að hún myndi ræða við stúlkuna um framtíðarbúsetu og umgengni við móður gerði hún skýrslu [...] 2017, þar sem fram kom að hún hefði hitt stúlkuna alls sex sinnum. Stúlkan hefði svarað því til að hún vildi búa hjá fósturforeldrum sínum „þangað til hún yrði unglingur.“ Þá hefði hún sagst vera sátt við að umgengni þeirra systkina við móður yrði á tveggja vikna fresti, en að bróðir sinn ætti ekki fara án sín í umgengni. Hún sagðist óttast að móðir sín „myndi lemja hann“, enda þótt aðspurð segðist hún hvorki hafa séð slíkt né hafa heyrt bróður sinn segja frá því.   

Í greinargerð tveggja félagsráðgjafa áfrýjanda [...] 2017 kom fram það mat þeirra að hvorugt foreldranna væri til þess fallið að sjá um börnin og sinna þörfum þeirra. Var gerð tillaga um að stefndu yrðu svipt forsjá með dómi og börnin vistuð á vegum áfrýjanda til 18 ára aldurs.

Hinn [...] 2017 gerði áðurnefndur talsmaður barnanna sitt hvora skýrsluna um viðtöl, sem hún átti við börnin að ósk áfrýjanda, í því skyni að fá fram afstöðu þeirra til umgengni við móður. Þar kom fram að stúlkan hefði sagst vilja hitta móður sína hálfsmánaðarlega og þá með bróður sínum, en hún treysti ekki móður sinni einni með honum. Drengurinn hefði á hinn bóginn verið fámáll og sagt aðspurður að erfitt væri að tala um þessa hluti. Hann hefði sagst vilja hitta móður sína oftar en hann gerði, en þá með systur sinni og vilja búa áfram hjá fósturforeldrum sínum.

5

Hinn [...] 2017 var gefin út ákæra á hendur stefnda, þar sem honum voru gefin að sök kynferðisbrot gegn börnunum. Annars vegar stúlkunni „með því að hafa 10 - 20 sinnum, þegar telpan var 6 - 7 ára gömul eða á árinu 2014 til loka [...] 2015, sett getnaðarlim sinn inn í kynfæri telpunnar, þar sem hún lá í rúmi sínu að kvöldi til” og hins vegar gegn drengnum „með því að hafa í eitt skipti, þegar drengurinn var 4 eða 5 ára gamall eða á árinu 2015 til loka [...] 2016, á baðherbergi heimilisins nuddað getnaðarlim drengsins og stuttu síðar í svefnherbergi sett fingur inn í endaþarm hans.“

Með héraðsdómi [...] 2017 var stefndi sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Í dóminum sagði meðal annars að stefndi hefði staðfastlega neitað sök, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, og að mati dómsins væri framburður hans á engan hátt ótrúverðugur. Þá væru engin gögn er styddu frásagnir barnanna um að stefndi hefði beitt þau kynferðislegu ofbeldi. Hefðu því ekki verið færðar viðhlítandi sönnur á, svo hafið væri yfir skynsamlegan vafa, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008, að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum væri gefin að sök í ákæru. Dóminum var ekki áfrýjað.

6

Hinn [...] 2017 samþykkti áfrýjandi bókun, þar sem fram kom það álit að stefndu væru ekki hæf til að fara með forsjá barna sinna og yrði krafist sviptingar forsjár fyrir dómi með vísan til a., c., og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Mál þetta var síðan höfðað [...] 2017.

Undir rekstri málsins var K sálfræðingur dómkvaddur til að meta meðal annars forsjárhæfni foreldra og hagi barnanna. Í matsgerð hans [...] 2018 kom fram að stúlkan hefði mætt þrisvar í skýrslutöku í Barnahúsi frá því að málið kom upp og síðan í 22 skipti í viðtöl þar hjá sálfræðingi. Hefði hún átt erfitt með að tala um ætluð kynferðisbrot og frásögn hennar komið smátt og smátt yfir langt tímabil. Stúlkan hefði sagt fósturmóður frá atvikum og þá frásögn hefði hún endurtekið í viðtölum. Drengurinn hefði einnig farið í skýrslutöku í Barnahúsi [...] 2016 og síðan í meðferðarviðtöl hjá sálfræðingi. Þar hefði hann greint frá háttsemi föður í sinn garð og að hann væri hræddur um að slíkt gerðist aftur. Í matsgerðinni kom fram að það væri mat sálfræðinga, er sáu um viðtöl í Barnahúsi, að frásagnir barnanna væru trúverðugar. Í viðtölum matsmanns við stúlkuna hefði komið fram að henni litist ekki vel á að flytja til móður, en sagst vilja búa áfram hjá fósturforeldrum. Hún væri öruggari þar. Þá hefði móðir sín ekki alltaf verið góð. Stúlkan hefði lítið viljað tjá sig um föður, en spurð um hvernig henni litist á að búa með honum hefði hún svarað ákveðið að það væri ekki gott. Drengurinn hefði aðspurður sagt að sér liði vel hjá fósturforeldrum. Hefði hann lýst jákvæðum samskiptum við móður sína, en nefnt að þegar hann hefði búið hjá henni hefði hún stundum meitt hann, pabbi hans einnig, og hefði hann lýst því nánar fyrir matsmanni. Aðspurður litist drengnum ekki vel á að búa hjá móður sinni og lýst vilja til að búa áfram hjá fósturforeldrum.

Samandregið var það niðurstaða matsmanns að veikleikar hefðu verið í forsjárhæfni foreldra og ýmislegt betur mátt fara í umönnun og uppeldi barnanna. Taldi matsmaður líklegt að andleg vanlíðan móður hefði haft áhrif á getu hennar til að sinna börnunum sem skyldi. Þá hefðu vaknað grunsemdir um kynferðisofbeldi föður, sem flækt hefði málið, en börnin hefðu verið samkvæm sjálfum sér um að eitthvað hefði gerst. Þau óttuðust föður sinn og vildu ekki hitta hann. Tengslamyndun barnanna við móður, einkum stúlkunnar, hefði einnig virst skert. Hvorugt barnanna hefði lýst vilja til að búa á heimili móður sinnar til frambúðar og virst hefði sem tilhugsunin um að flytjast aftur til hennar ylli þeim öryggisleysi. Frekara tengslarof við foreldra hefði orðið eftir að börnin fluttu á fósturheimilið og lítil samskipti upp frá því og hefði það haft mikil áhrif á tengslin. Börnin hefðu hins vegar myndað djúpstæð tengsl við fósturforeldra, þar sem þau virtust upplifa öryggi og hlýju. Þau virtust ekki sakna þess að búa hjá foreldrum og umsagnir skóla og meðferðaraðila bent til að staða þeirra hefði styrkst verulega á þeim tíma sem þau hefðu verið hjá fósturforeldrum. Um getu foreldra til að veita börnunum öruggt og tryggt umhverfi kom fram í matsgerð að þrátt fyrir sýknudóm í sakamáli á hendur föður upplifðu börnin engu að síður enn hræðslu og óöryggi í tengslum við mögulega návist hans. Þar sem þau upplifðu ekki öryggi hjá föður sínum og sökum þess að móðir þeirra tæki afstöðu með honum næði hún heldur ekki að skapa börnunum öruggt og tryggt umhverfi eins og þau upplifðu það. Vilji barnanna væri að áliti matsmanns afar skýr, bæði að teknu tilliti til samtala hans við þau og annarra gagna málsins. Börnin upplifðu núverandi aðstæður sínar góðar og vildu búa áfram hjá fósturforeldrum. Hvorugt þeirra vildi snúa aftur á heimili foreldra.

Með héraðsdómi 16. júlí 2018 var fallist á kröfu áfrýjanda um að stefndu skyldu svipt forsjá barna sinna. Dóminum var áfrýjað til Landsréttar sem með dómi 1. mars 2019 í máli nr. 671/2018 ómerkti héraðsdóm og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar á þeim grundvelli að héraðsdómur hefði verið skipaður tveimur sérfróðum meðdómendum á sama sviði og einum embættisdómara. Eins og háttaði til í málinu væri slík skipan í andstöðu við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. dóm Hæstaréttar 27. febrúar 2019 í máli nr. 26/2018.

Þegar málið var undir áfrýjun í Landsrétti úrskurðaði áfrýjandi [...] 2018 á grundvelli 4. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga að umgengni barnanna við móður skyldi vera einu sinni í mánuði, tvo tíma í senn, undir eftirliti þar til Landsréttur kvæði upp dóm sinn. Aftur úrskurðaði áfrýjandi [...] 2019 á grundvelli sama lagaákvæðis að umgengni barnanna við móður skyldi vera óbreytt. Þá skyldu ömmur barnanna eiga kost á að taka þátt í umgengni móður við börnin fjórum sinnum ári, á hátíðum og afmælum. Á hinn bóginn skyldi engin umgengni vera við föður. Úrskurðurinn gilti uns lokaniðurstaða dómstóla lægi fyrir um skipan forsjár barnanna.

Með héraðsdómi 6. júní 2019 var fallist á kröfu áfrýjanda um sviptingu forsjár barnanna. Málinu var áfrýjað 20. júní 2019 og var hinn áfrýjaði dómur kveðinn upp 1. nóvember sama ár, þar sem stefndu voru sýknuð af kröfu áfrýjanda.

Hæstiréttur veitti áfrýjunarleyfi 17. desember 2019 á þeim grunni að málið hefði verulegt almennt gildi að barnarétti, einkum að því er varðaði hversu mikið vilji barns ætti að vega í málum er snertu það með tilliti til aðstæðna allra.

7

Auk alls framanritaðs eru í gögnum málsins fjölmargar skýrslur og vottorð starfsmanna áfrýjanda um eftirlit með umgengni við móður allan þann tíma sem um ræðir. Samkvæmt þeim hefur umgengnin gengið misvel, illa í fyrstu en batnað svo. Hittu börnin móður sína bæði sitt í hvoru lagi og einnig saman. Bera gögn málsins með sér að aðilar voru ekki á eitt sáttir um fyrirkomulag umgengni.

Þá liggja meðal annars fyrir ýmis vottorð, sem áfrýjandi hefur aflað með reglubundnum hætti samkvæmt 44. gr. barnaverndarlaga, svo sem frá skólum barnanna, þar sem lýst er ítrekað vanlíðan þeirra á því tímabili sem meðferð málsins hefur staðið yfir. Einnig eru meðal málsgagna vottorð frá Barnahúsi með upplýsingum um meðferðarviðtöl. Til að mynda gerði L, sérfræðingur í klínískri barnasálfræði, vottorð [...] 2018 og [...] 2019 um meðferðarviðtöl við drenginn í Barnahúsi. Þar kom fram að hann hefði farið í fjölmörg slík viðtöl og skýrt frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu föður síns. Hefði hann verið samkvæmur sjálfum sér í viðtölunum og fram komið ótti hans í garð föður. Vegna vanlíðunar drengsins hefði verið stofnað meðferðarteymi með sálfræðingum, fósturforeldrum, fulltrúum skóla, listmeðferðarfræðingi og fulltrúum barnaverndar. Þá ber að nefna skýrslur M listmeðferðarfræðings um 20 tíma meðferð hvors barns um sig. Þar kom fram að drengurinn nyti öryggis hjá fósturforeldrum og vildi búa áfram hjá þeim. Um stúlkuna sagði að hún hefði unnið vel úr áfallinu á myndrænan hátt og umbreytt og styrkt tilfinningu sína fyrir öryggi og vernd. Kvíðaköst og vanlíðan kæmu fyrir, en henni virtist líða vel í skólanum og hjá fósturforeldrum og fyndi öryggi þar. Stúlkan væri viðkvæm og erfið reynsla gagnvart föður sínum sæti enn í henni.

Enn fremur gerði fyrrnefndur talsmaður barnanna [...] 2017 sitt hvora skýrsluna vegna þeirra. Lýsti talsmaðurinn því að stúlkan vildi eindregið búa hjá fósturforeldrum og hefði áhyggjur af því að þurfa að fara til móður sinnar. Þá hefði drengurinn sagst vilja búa hjá fósturforeldrum sínum, en hitta móður sína oftar og einnig ömmur sínar.

Loks er að finna í gögnum málsins fleiri en eina lýsingu fósturmóður barnanna, meðal annars við skýrslugjöf hjá lögreglu [...] og [...] 2016, um að stúlkan hefði fengið grátköst og skýrt að eigin frumkvæði frá kynferðisofbeldi föður síns.

Að gengnum hinum áfrýjaða dómi hafa ýmis gögn verið lögð fyrir Hæstarétt. Um er að ræða skýrslur talsmanns barnanna um viðtöl hennar við þau [...], tilkynningu til barnaverndarnefndar og skýrslu stuðningsfulltrúa stúlkunnar vegna viðtals stúlkunnar við hana [...] um hug stúlkunnar til foreldra sinna, skýrslur vegna umgengni móður við börnin dagana [...] og [...] og [...], [...], [...], [...] og [...] 2019, skýrslur skóla barnanna [...] 2019, [...]og [...] og [...] 2020 og skýrslur barnaspítala [...] og heilsugæslu um andlega líðan stúlkunnar síðastnefndan dag. Í þessum gögnum er umfjöllun um vanlíðan beggja barnanna, einkum stúlkunnar, í kjölfar hins áfrýjaða dóms og skýra afstöðu beggja barnanna um að þau vilji alls ekki búa hjá stefndu. Þá kom fram í gögnunum að umgengni hefði farið verulega úr skorðum.

Loks voru lögð fyrir Hæstarétt endurrit af framangreindum viðtölum barnanna í Barnahúsi [...] og [...] 2016, en þau voru eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi ekki meðal gagna máls við meðferð þess þar.

II

1

Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir eigi rétt til friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis og þann rétt megi ekki skerða nema með lögum og að brýna nauðsyn beri til. Hliðstætt ákvæði er í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá er í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar mælt fyrir um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

Í athugasemdum við frumvarp til stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, þar sem lögfest voru framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar, segir í skýringum við 3. mgr. 76. gr. að ákvæðið feli í sér vissa stefnuyfirlýsingu og sæki meðal annars fyrirmynd í 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 og sé eink­um gert ráð fyrir að leggja skyldu á löggjafann til að setja lög um að veita börnum fyrr­nefnda tryggingu.

Í 1. tölulið. 3. gr. samningsins, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 19/2013, segir að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn. Þá er meðal annars í 2. og 6. gr. samningsins kveðið á um að aðildarríki hans skuli í hvívetna virða réttindi barnsins og tryggja af fremsta megni að börn megi lifa og þroskast. Í 1. tölulið 12. gr. er jafnframt mælt fyrir um að tryggja skuli barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða og skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Síðan segir í 2. tölulið greinarinnar að vegna þessa skuli barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi er barnið varðar, annað hvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð. Þá segir í 13. gr. samningsins að slíkt feli í sér rétt til að leita, taka við og miðla hvers kyns vitneskju og hugmyndum án tillits til landamæra, annað hvort munnlega, skriflega eða á prenti, í formi lista eða eftir hvers kyns öðrum leiðum að vali þess. Jafnframt kemur fram í 14. gr. að virða skuli rétt barns til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. Loks verður ráðið af ákvæðum 41. gr. samningsins að hann kveði á um lágmarksréttindi barns.

Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 19/2013, er meðal annars tíundað að ákvæði 1. töluliðar 3. gr. áðurnefnds samnings feli í sér einn af máttarstólpum hans ásamt hinum meginreglunum í 2., 6. og 12. gr. og að túlka beri einstök ákvæði hans með hliðsjón af því. Ákvæðið gegni sérlega mikilvægu hlutverki við aðstæður þegar önnur og sértækari ákvæði samningsins eigi ekki við. Við mat á því hvað teljist barni fyrir bestu skuli taka mið af efni grundvallarreglna samningsins, lögum hvers aðildarríkis, sem og rannsóknum og þekkingu á málefnum barna innan samfélagsins, ekki síst þekkingu og vitneskju barnanna sjálfra. Séu réttindi annarra tekin fram yfir réttindi barns eða barna beri þeim sem tekur ákvörðunina að gera grein fyrir ástæðum þess og rökstyðja með sannfærandi hætti. Annað sé í ósamræmi við samninginn. Forsenda þess að yfirvöld geti tekið slíkar ákvarðanir, sem séu barni fyrir bestu samkvæmt 3. gr. samningsins, sé að börn fái að segja álit sitt, að á þau sé hlustað og skoðanir þeirra virtar í samræmi við aldur þeirra og þroska, sbr. 12. gr. Þessi réttur barna sé ekki einungis bundinn við persónuleg málefni, heldur nái hann einnig til málefna samfélagsins og þá fyrst og fremst þeirra málefna er varði nánasta umhverfi barnanna og þau þekkja af eigin raun. Eðli máls samkvæmt þarfnist börn meiri umhyggju og ríkari verndar meðan þau eru ung að árum. Eftir því sem þau verða eldri og þroskaðri þurfi þau jafnframt í auknum mæli að fá tækifæri til að hafa áhrif á líf sitt og umhverfi. Þetta sé grunnurinn að nútímaviðhorfi til barna sem sjálfstæðra einstaklinga með eigin réttindi og marki endalok þeirrar aldagömlu hugmyndar að börn séu „eign“ foreldra sinna.

Svo sem áður segir er friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis varin af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þá vernd verður þó að meta í samhengi við 3. mgr. 76. gr. hennar sem mælir fyrir um að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Með því ákvæði er sú skylda lögð á almenna löggjafann að móta nánar með lögum hvernig og með hvaða hætti velferð barna verður tryggð. Þótt þetta sé falið almenna löggjafanum mælir ákvæðið sjálft fyrir um að vernd barna skuli tryggð í þágu velferðar þeirra. Af því leiðir að grunnregla barnaréttar um að hagsmunir barna skuli hafðir í fyrirrúmi, eftir því sem velferð þeirra krefst, nýtur verndar stjórnarskrárinnar. Er þá jafnframt litið til þess að markmið 3. mgr. 76. gr. hennar er að tryggja að íslenskur réttur sé í samræmi við umræddan alþjóðasamning um réttindi barnsins, en hann hvílir á fyrrgreindri grunnreglu. Samkvæmt þessu leiðir af stjórnarskránni að friðhelgi einkalífs, fjölskyldu og heimilis verður að víkja þegar velferð barns er í húfi. Þegar hagsmunir barns eru metnir í því tilliti er nauðsynlegt að líta til vilja þess eftir því sem aldur þess og þroski stendur til.  

2

Krafa áfrýjanda er reist á því að uppfyllt séu skilyrði a., c. og d. liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga til sviptingar forsjár stefndu, en börn þeirra eru nú vistuð utan heimilis á vegum áfrýjanda samkvæmt 28. gr., sbr. b. lið 27. gr. laganna.

Barnaverndarnefnd getur krafist sviptingar forsjár fyrir dómi samkvæmt a. lið 29. gr. barnaverndarlaga ef daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns er alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska. Þá eru skilyrði sviptingar samkvæmt c. lið greinarinnar þau að barni sé misþyrmt, misboðið kynferðislega eða megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu. Loks er í d. lið veitt heimild til forsjársviptingar ef fullvíst er að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða breytni þeirra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Í 2. mgr. greinarinnar er síðan mælt fyrir um að kröfu um sviptingu forsjár skuli því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.

Í 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga kemur fram það markmið laganna að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Í því tilliti skal leitast við að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum til verndar einstökum börnum þegar það á við. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að barnaverndarlögum segir í skýringum með ákvæðinu að í þessu felist meðal annars það almenna sjónarmið að hagsmunir barna séu alla jafna best tryggðir með því að þau alist upp hjá sinni eigin fjölskyldu og að stöðugleiki ríki í uppvexti þeirra.

Í 4. gr. laganna koma fram þær meginreglur sem gilda í barnaverndarstarfi. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og skulu hagsmunir barna ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Í 2. mgr. segir að í störfum sínum skuli barnaverndaryfirvöld taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til. Þá er mælt fyrir um í 3. og 4. mgr. greinarinnar að barnaverndarstarf skuli stuðla að stöðugleika í uppvexti barna og skuli barnaverndaryfirvöld leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra sem þau hafa afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu. Jafnframt skulu þau í störfum sínum og öllum ákvörðunum gæta samræmis og jafnræðis, sbr. 6. mgr. Þá kemur fram í 7. mgr. að barnaverndaryfirvöld skuli eftir föngum gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu séu reynd áður en gripið er til annarra úrræða. Þau skuli ávallt gæta meðalhófs þannig að íþyngjandi ráðstafanir komi aðeins til greina að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum segir í skýringum við 4. gr. að í henni sé safnað saman nokkrum meginreglum alls barnaverndarstarfs og að reglur þessar beri að leggja til grundvallar við beitingu og túlkun laganna. Í 1. mgr. ákvæðisins sé sett fram sú almenna grundvallarregla barnaréttar að í barnaverndarstarfi skuli jafnan beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu. Þessi regla vísi til sjálfstæðs réttar barnsins þar sem hagsmunir þess skuli skipa öndvegi. Aðrir hagsmunir, svo sem hagsmunir foreldra, verði þar af leiðandi að víkja ef þeir stangist á við hagsmuni barnsins, en reglan komi meðal annars fram í 1. tölulið 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Við beitingu þessarar reglu í barnaverndarstarfi séu barnaverndaryfirvöld þó að sjálfsögðu bundin við þau úrræði sem lögin geri ráð fyrir og heimili. Þá er vísað til þess að ýmis ákvæði samningsins um réttindi barnsins séu byggð á því viðhorfi sem fram komi í 2. mgr. greinarinnar og þess gæti í vaxandi mæli íslenskri í löggjöf um málefni barna. Í hendur við þetta viðhorf haldist sú regla að taka beri tillit til sjónarmiða og óska barnsins eftir því sem við eigi. Er um þetta meðal annars vísað til 1. töluliðar 12. gr. samningsins. Til þess er skírskotað að afskipti barnaverndaryfirvalda skuli grundvallast á meðalhófi og sérstakar ráðstafanir aðeins réttlætanlegar beri nauðsyn til vegna hagsmuna barnsins, sbr. 7. mgr. 4. gr.

Í 1. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga segir að þegar barnaverndarnefnd hefur tekið við umsjá eða forsjá barns sem vistast utan heimilis skuli hún gera skriflega áætlun um um vistunina. Þá er kveðið á um í 2. mgr. sömu greinar að leitast skuli við að finna systkinum sameiginlegar lausnir í samræmi við þarfir þeirra og hagsmuni. Eigi foreldrar sem hafa verið sviptir forsjá barns ekki aðild að málum sem varða ákvarðanir um úrræði því til handa, að undanskildum málum er varða ákvörðun um umgengnisrétt, sbr. 3. mgr. greinarinnar.

III

1

            Upphaf máls þessa verður sem fyrr segir rakið til tilkynningar til Barnahúss og lögreglu í lok [...] 2015 um grunsemdir þess efnis að stefndi hafi beitt dóttur sína kynferðisofbeldi. Af þeim sökum voru börnin vistuð tímabundið utan heimilis á vegum áfrýjanda með samþykki móður er þá var í meðferð á [...] vegna [...]. Stóð vistun barnanna fram í desember það ár er þau fluttust aftur heim til móður sinnar. Var þá gerð áætlun um frekari meðferð málsins í samræmi við 33. gr. barnaverndarlaga, þar sem lögð var áhersla á að börnin, einkum stúlkan, skyldu ekki nema að afar takmörkuðu leyti umgangast föður sinn meðan málið væri í rannsókn. Svo sem áður greinir gekk áætlunin ekki eftir og leiddi það til þess að stúlkan var vistuð utan heimilis á grundvelli b. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga frá [...] 2016 og drengurinn frá [...] það ár, sbr. 31. gr. laganna. Hefur stúlkan því verið vistuð utan heimilis foreldra sinna rúm fjögur ár og drengurinn liðlega þrjú og hálft ár. Á því tímabili hefur móðir notið takmarkaðrar umgengni við þau og faðir engrar.

2

Í málinu liggja fyrir fjölmörg gögn ýmissa fagaðila um stefndu og börn þeirra, þar sem fram koma upplýsingar um líðan barnanna, heilsu þeirra og þroska á þeim tíma sem um ræðir. Þá hafa börnin reglulega lýst vilja sínum um málefni sín, þar á meðal um búsetu og umgengni við stefndu. Af þessum gögnum verður með engum hætti dregin önnur ályktun en að börnin hafi við alla meðferð málsins verið afdráttarlaus um að þau vilji ekkert samneyti eiga við föður sinn. Bera gögnin með sér að þau óttist hann og var það álit dómkvadds matsmanns að sá ótti væri þeim raunverulegur. Jafnframt hafa börnin allan þann tíma sem þau hafa búið hjá fósturforeldrum lýst þeirri afstöðu sinni að þar líði þeim vel og vilji búa þar áfram.

Auk þessa ræddu dómendur í héraði beint við börnin til þess að kanna afstöðu þeirra í samræmi við síðari málslið 2. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga. Var stúlkan mjög afdráttarlaus um að hún vildi búa áfram hjá fósturforeldrum sínum, en hvorki fara aftur í umsjá foreldra sinna né búa hjá móður sinni, jafnvel þótt faðir hennar væri ekki þar. Stúlkan féllst á að hitta móður sína mánaðarlega, en vildi alls ekki hitta föður sinn. Drengurinn tjáði sig ekki jafn skýrt, en dómendur í héraði mátu vilja hans á þann veg að hann vildi fá að búa með systur sinni hjá fósturforeldrum þótt hann vildi jafnframt hitta móður sína meira. Hann kvaðst hins vegar ekki vilja hitta föður sinn. Í dóminum var tekið fram að áberandi væri að hvorugt barnanna virtist geta hugsað sér að eiga í samskiptum við föðurinn, en drengurinn virtist sakna þess að fá ekki að sjá meira af móður sinni eftir að umgengni hans við hana var skert um helming um [...] 2018.

Í minnisblaði dómara Landsréttar um samtal þeirra við börnin 13. febrúar 2019 við fyrri meðferð málsins þar fyrir dómi kom fram að stúlkan myndi „aldrei vilja fara til móður og föður“, en féllist á að umgengni við móður yrði með tilteknum hætti. Þá sagði að stúlkan vildi búa hjá fósturforeldrum sínum. Samkvæmt minnisblaðinu tjáði drengurinn sig „ekki mikið sjálfstætt um málið við dómara.“ Þó var haft eftir drengnum að honum líkaði „smá vel“ að búa hjá fósturforeldrum. Hann óskaði eftir að fá meiri umgengni við móður og „kannski hitta pabba.“  Var það ályktun dómsins samkvæmt minnisblaðinu að í svörum drengsins kæmi fram skýr vilji um að hafa meiri samskipti við móður og eftir atvikum búa hjá henni.

Samkvæmt þessu og að virtu því sem að framan er rakið um þær meginreglur, sem líta ber til við úrlausn barnaverndarmála og að teknu tilliti til þess sem ráðið verður um vilja barnanna, getur ekki ráðið úrslitum að faðir þeirra var sýknaður í sakamáli samkvæmt þeim ströngu kröfum um sönnun sem í slíkum málum gilda. Þvert á móti verður að virða atvik málsins með hliðsjón af því hvað börnunum er fyrir bestu eftir þeim reglum sem áður eru raktar. Fer þetta ekki í bága við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um að hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus uns sekt hans hefur verið sönnuð.

3

Tekið er undir þær athugasemdir, sem fram koma í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi, að ýmislegt hafi farið úrskeiðis varðandi meðferð málsins af hálfu áfrýjanda.  Að virtum þeim meginreglum sem að framan eru raktar er það á hinn bóginn sjálfstætt úrlausnarefni hvaða áhrif ágallar í stjórnsýslumeðferð skuli hafa á niðurstöðu þessa máls um velferð barna stefndu.

4

Endurrit af þinghöldum vegna síðari meðferðar málsins fyrir Landsrétti ber með sér að áfrýjandi hafi talið rétt að börnin færu á ný í viðtal hjá dómurum málsins, en dómurinn féllst ekki á það. Þótt börnin hafi þurft að þola óvenju mikið álag við málsmeðferðina er til þess að líta að rúmlega átta mánuðir liðu frá því að þau gáfu skýrslu fyrir Landsrétti þar til hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp. Bar réttinum að fullvissa sig um afstöðu og líðan barnanna með því að tala við þau á nýjan leik. Var enn meiri nauðsyn til þess í því ljósi að með dóminum er farið á svig við afdráttarlaus gögn málsins um vilja stúlkunnar og að sínu leyti gögn um vilja drengsins, sbr. framangreind ákvæði 2. mgr. 4. gr., 2. mgr. 46. gr. og 2. mgr. 55. gr. barnaverndarlaga og 1. og 2. tölulið 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, og dóm Hæstaréttar 29. nóvember 2017 í máli nr. 703/2017.  

Nokkuð skortir á rökstuðning í hinum áfrýjaða dómi með hvaða hætti óumdeildir annmarkar við stjórnsýslumeðferð málsins eigi að vera stoð undir aðra efnislega niðurstöðu en héraðsdómur komst að. Ekki er með fullnægjandi hætti fjallað um hvernig frásagnir eða endursagnir af frásögnum barnanna við málsmeðferðina alla hafi verið misvísandi og þá í hvaða atriðum. Auk þess er til að mynda ónákvæm sú ályktun dómsins að við skýrslutöku af stúlkunni í Barnahúsi [...] 2015 sé ekki að finna neinar upplýsingar um ætluð kynferðisbrot stefnda. Má þar um vísa til lýsingar hér að framan á viðbrögðum hennar við spurningum og vanlíðan meðan á viðtali stóð.

Í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms er að engu leyti vikið að matsgerð dómkvadds matsmanns. Í henni kemur fram að vilji barnanna sé mjög skýr um að þau upplifi aðstæður sínar góðar á fósturheimilinu, öfugt við heimili foreldra sinna, og vilji hvorugt þeirra snúa aftur á heimili foreldranna. Eru þessar ályktanir matsmanns mjög í samræmi við viðtöl barnanna við talsmann sinn og meðferðaraðila í Barnahúsi og einnig lýsingar annarra þeirra er komu að málefnum barnanna, svo og þau nýju gögn sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, meðal annars frá skipuðum talsmanni þeirra.  

Loks er því heldur ekki lýst í hinum áfrýjaða dómi með hvaða hætti aðkoma starfsmanna áfrýjanda og meðferðaraðila barnanna hafi haft áhrif á viljaafstöðu þeirra þannig að ekki verði byggt á frásögnum barnanna um atriði sem skipta máli, þar á meðal vilja þeirra og líðan. Gengur þessi niðurstaða að auki þvert á þann framburð matsmanns fyrir dómi að ekki væri að merkja innrætingu um þessi atriði hjá systkinunum.

Til viðbótar þessu verður ekki séð hvernig framfylgja megi að lögum þeim fyrirmælum eða tilmælum um umgengni stefndu við börnin er fram koma í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms og lýst er sem nauðsynlegum forsendum fyrir því að unnt sé að sýkna stefndu.

Þrátt fyrir framangreinda ágalla á hinum áfrýjaða dómi er hins vegar óhjákvæmilegt, með tilliti til brýnna hagsmuna barnanna, að dæma málið að efni til í stað þess að vísa því til nýrrar meðferðar.

5

Réttur barns til fjölskyldulífs er alla jafna samþýðanlegur því sem barni er fyrir bestu. Eins og mál þetta liggur fyrir er hins vegar deilt um hvort hér hátti svo til. Við úrlausn málsins er það grundvallaratriði að tekin verði ákvörðun með sérstakri hliðsjón af þeim ákvæðum stjórnarskrár og laga sem að framan eru rakin og eftir þeirri meginreglu að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu þegar á kunna að rekast hagsmunir foreldra og barna.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, einkum mati dómkvadds matsmanns sem ekki hefur verið hnekkt, er ljóst að upplifun beggja barnanna ber með sér verulegan ótta við stefnda. Er fallist á með áfrýjanda að líklegt sé að heilsu barnanna og þroska sé hætta búin í umsjá stefnda sökum þess að breytni hans sé til þess fallin að valda börnunum alvarlegum skaða, sbr. d. lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Verður stefndi því sviptur forsjá beggja barnanna.

Ekki verður vefengt sem fram kemur í fyrirliggjandi gögnum, þar á meðal matsgerð dómkvadds manns, að forsjárhæfni stefndu B sé skert og þótt litið sé til þess að hún hafi lagt sig fram um að bæta stöðu sína séu veikleikar í persónugerð hennar og skortur á innsæi, auk þess sem þrálátt [...] og vanvirkni hamli henni. Er þó fallist á að í þessu efni dugi ekki að líta eingöngu til ætlaðrar vanrækslu stefndu við umönnun barnanna, þar sem hún virðist ekki hafa verið slík að réttlæti forsjársviptingu. Á hinn bóginn verður af því sem fram er komið í málinu ekki vefengt að tengsl hafi ekki myndast á eðlilegan hátt á milli mæðgnanna. Þá bera gögn málsins með sér að eftir vistun stúlkunnar utan heimilis varð enn frekara tengslarof og vandséð að unnt sé að byggja upp tengsl þeirra og traust að nýju. Jafnframt hefur stúlkan margítrekað lýst því afar skýrt að hún treysti stefndu ekki nægilega vel og vilji búa í öruggu umhverfi fósturforeldra sinna eins og hún geri nú. Enn fremur sýndi stefnda verulegan innsæisskort með viðbrögðum sínum við erfiðri stöðu dóttur sinnar eftir að málið kom upp. Verður heldur ekki fram hjá því litið að stefndu eru í hjúskap og hafa lýst því yfir að ekki standi til að breyting verði þar á. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta stefndu forsjá dóttur sinnar.  

Ótvírætt er af því sem fram er komið í málinu að staða drengsins gagnvart móður er að sumu leyti önnur en staða stúlkunnar. Hefur drengurinn lýst vilja sínum til að vera áfram hjá fósturforeldrum. Á hinn bóginn hefur hann einnig greint frá því að hann óski eftir að umgangast móður sína meira en nú og eftir atvikum búa hjá henni. Á móti kemur að verulegs vantrausts virðist einnig hafa gætt hjá honum gagnvart móður sinni varðandi samskipti hennar við stefnda, sem drengurinn hefur óttast eins og áður segir.

Í 2. mgr. 33. gr. barnaverndarlaga er mælt fyrir um að leitast skuli við að finna systkinum sameiginlegar lausnir í samræmi við þarfir þeirra og hagsmuni. Samræmist það þeirri niðurstöðu  dómkvadds matsmanns, sem studd er öðrum gögnum málsins, að réttast sé að rjúfa ekki tengslin milli systkinanna, einnig til framtíðar þeirra litið. Um þetta verður einnig að líta til eindreginnar viljaafstöðu barnanna um að þau fái að búa áfram saman, er kemur skýrt fram í gögnum málsins. Loks verður að líta til þess sem áður greinir að börnin virðast ekki treysta móður sinni til þess að veita þeim vernd sem þau þarfnast vegna ótta þeirra við stefnda.

Samkvæmt þessu og því að börnin hafa sýnt sterkan vilja til þess að fá að vera áfram saman hjá fósturforeldrum verður ekki annað séð en að þeim sé fyrir bestu að fallist verði á þá kröfu áfrýjanda að stefnda verði svipt forsjá sonar síns með stoð í sama lagaákvæði og vísað var til um forsjársviptingu dóttur hennar.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Þá er rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað stefndu hér fyrir dómi fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndu, B og A, eru svipt forsjá barnanna C og D.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 1.000.000 krónur til hvors um sig.

                                                                           

 

 

Dómur Landsréttar 1. nóvember 2019

Mál þetta dæma landsréttardómararnir Davíð Þór Björgvinsson og Jóhannes Sigurðsson og Ragna Ólafsdóttir sálfræðingur.

Málsmeðferð og dómkröfur aðila

1        Áfrýjendur skutu málinu til Landsréttar 11. júní 2019. Áfrýjað er dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2019 í málinu nr. E-[…]/2017.

2        Áfrýjendur gera þá kröfu að þau verði sýknuð af kröfu stefnda um sviptingu forsjár barna þeirra. Þá gera þau kröfu um greiðslu málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

3        Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Málsatvik og sönnunarfærsla

4        Áfrýjendur eru hjón sem fara sameiginlega með forsjá barnanna C sem er fædd [...] og D sem er fæddur [...]. Börnin er nú [...] og [...] ára. Upphaf máls þessa má rekja til þess að […] í skóla stúlkunnar tilkynnti til barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar [...] 2015 að stúlkan hefði í viðtali við fulltrúann upplýst að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu föður síns. Starfsmenn barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar tilkynntu málið strax til lögreglu og var faðirinn handtekinn þann sama dag. Hann sætti gæsluvarðhaldi í framhaldi af því. Gerð var húsleit á heimili áfrýjenda og lagt hald á tölvur og ýmis önnur gögn. Faðirinn hefur ávallt neitað sök í málinu.

5        Móðirin dvaldi á þessum tíma á [...] vegna [...]. Ákvað barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar þá með samþykki móður að vista börnin utan heimilis til [...] 2015. Óskað var eftir samþykki móður til að framlengja vistina þar til skýrslutökum yfir stúlkunni í Barnahúsi lyki. Því hafnaði móðirin og ákvað stefndi því að beita neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og vista bæði börnin áfram utan heimilis til [...] 2015.

6        Þann [...] 2015 voru teknar skýrslur af báðum börnunum í Barnahúsi. Endurrit af þeim skýrslum liggja fyrir í málinu en þar er ekki að finna neinar upplýsingar um meinta kynferðislega misnotkun. Dóttirin gaf að nýju skýrslu í Barnahúsi [...] 2015 þar sem hún lýsti því að faðir hennar hefði snert einkastaði hennar […]. Nánar lýsti hún því þannig að […]. Nánar aðspurð gat hún ekki lýst því hvernig […]. Framburður stúlkunnar var óljós þegar hún var nánar spurð út í atvik og bar hún oft fyrir sig minnisleysi. Þann [...] 2016 var þriðja skýrslan tekin af stúlkunni í Barnahúsi. Endurrit þeirrar skýrslu hefur ekki verið lagt fram í málinu en hluti hennar er tekinn upp í dómi héraðsdóms [...] í máli nr. S-[...]/2017 þar sem fjallað var um ákærur á hendur föður um kynferðislega misnotkun. Þar er haft eftir stúlkunni að faðirinn komið við einkastað hennar […]. Þá skrifaði hún á blað að faðirinn hefði […]. Nánar aðspurð sagði hún síðan að það hefði gerst nokkrum sinnum eða tíu til tuttugu sinnum í […]. 

7        Í framangreindum dómi kemur fram að drengurinn gaf að nýju skýrslu í Barnahúsi [...] 2016. Drengurinn hafði þá aftur verið vistaður utan heimilis frá [...] 2016 eins og nánar verður vikið að hér síðar. Skýrslutakan átti sér stað í kjölfar þess að vistmóðir hans hafði spurt drenginn hvort hann og stúlkan ættu sér leyndarmál. Hafi drengurinn neitað því en sagt að hann og pabbi hans ættu leyndarmál. Sagði hann vistmóðurinni að pabbinn hefði […]. Í framburði drengsins hjá Barnahúsi endurtók drengurinn þessa frásögn og sagði þetta hafa gerst í eitt skipti. Nánar aðspurður hvar þetta hafi átt sér stað svaraði drengurinn því til að það hefði verið […]. Sagði hann mömmu sína hafa verið viðstadda og að hún hafi verið í símanum.

8        Í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar [...] 2017, sem liggur til grundvallar úrskurði nefndarinnar um forsjársviptingarkröfuna, eru rakin atvik málsins út frá sjónarhorni þeirra. Þar kemur fram að jafnhliða grun um kynferðislega misnotkun hafi vaknað grunur um vanrækslu foreldra í uppeldi barnanna. Kom þar einkum þrennt til. Í fyrsta lagi hafi komið í ljós að drengurinn átti erfitt með [...]. Í öðru lagi kom í ljós að stúlkan hafi um skeið átt við [...]. Í þriðja lagi hafi verið [...]

9        Áfrýjendur hafa lýst því að í raun hafi [...] ekki verið mikið vandamál hjá drengnum en hann hafi viljað [...]. Það hafi þau leyft eftir að hafa leita ráða hjá ýmsum aðilum um hvernig bregðast ætti við þessum vanda. Stúlkan hafi átt það til að [...]. Ástandið hefði verið farið að lagast þótt enn hafi borið á því þegar börnin voru fyrst tekin af heimilinu. Hefðu þau verið búin að leita aðstoðar sérfræðinga um möguleg úrræði og hafi verið að vinna að lausnum á því, meðal annars með [...]. Þá hefur móðirin lýst því að hún hafi [...].

10       Í framburði G, starfsmanns stefnda, fyrir Landsrétti, sem unnið hefur við barnaverndarmálið frá upphafi, kom fram að stúlkan væri með [...] og að fylgjast þyrfti með því hvort drengurinn [...]. Vandamál með [...] stúlkunnar væru ekki lengur til staðar. Þá kom fram í framburði G að samkvæmt upplýsingum lögreglu hefði verið mikil óreiða á heimili áfrýjenda þegar lögreglan gerði þar húsleit við upphaf málsins.

11       Auk framangreindra atriða kemur fram í gögnum málsins að bæði börnin hafi glímt við [...]. Stúlkan hafi sýnt merki um [...] og drengurinn verið [...]. Fram kemur í gögnum málsins að þessi vandamál hafi haldið áfram eftir vistun utan heimilis þótt sumt hafi þróast til betri vegar. Líðan barnanna er þó misjöfn og hafa fósturmóðir og kennarar sagt að háttsemi þeirra og líðan sé oft slæm í tengslum við umgengni við móður. Umgengni móður hefur frá upphafi verið undir eftirliti og kemur fram í skýrslum eftirlitsaðila að umgengni hafi almennt gengið vel. Þá sýna gögn í málinu að börnin [...]. Börnin hafi í framhaldi af því [...]

12       Af áðurgreindri greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar má ráða að móðurinni hafi verið mjög brugðið þegar ásökun um kynferðislega misnotkun af hálfu föður kom fyrst fram. Hún hafi tjáð starfsmönnunum að hún mundi standa með stúlkunni þótt hún vissi ekki hvorum aðilanum hún ætti að trúa. Að hennar sögn hefði eiginmaður hennar reynst henni mjög vel og væri natinn við börnin. Þá bar móðuramman föðurnum mjög vel söguna í samtali við starfsmenn stefnda. Þá kemur fram að móðirin hafi sýnt góða samvinnu við þá í upphafi, meðal annars með því að samþykkja vistun barnanna utan heimilis. Fljótlega töldu starfsmenn barnaverndarnefndar að móðirin stæði í raun ekki með stúlkunni og að hún tryði ekki frásögn hennar. Meðal annars hefði móðirin sýnt börnunum myndbandsupptöku með kveðju frá föður þeirra þegar þau voru í umgengni hjá henni. Þá komu fram ásakanir frá móður og móðurömmu barnanna á fundum með starfsmönnum stefnda um að stúlkunni hafi verið lögð orð í munn af […]. Töldu mæðgurnar jafnframt að starfsmenn barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar væru að vinna gegn fjölskyldunni.

13       Börnin fóru aftur til móður [...] 2015. Starfsmenn stefnda lögðu þá áherslu á það við móður að faðirinn umgengist börnin ekki og boðuðu heimsókn á heimilið. Í heimsókninni [...] 2015 kom til umræðu hvort stúlkan mætti hitta föður sinn í jólaboðum en fram kom hjá móður að fyrirhuguð væru jólaboð hjá fjölskyldunni nánast alla daga. Samkvæmt greinargerð starfsmanna stefnda var talið í lagi að stúlkan hitti föðurinn í einu fjölskylduboði en of mikið væri að hún hitti hann á hverjum degi. Móðirin hefur á hinn bóginn lýst þessum samskiptum þannig að hún hafi ekki fengið skýr skilaboð um að faðirinn mætti aðeins hitta börnin í einu boði, heldur hafi hún talið að það væri í lagi að þau hittu hann oftar að því tilskildu að þau væru ekki ein með honum.

14       Starfsmenn barnaverndarnefndar gerðu skriflega meðferðaráætlun [...] 2015 í því skyni að styðja við móður og börn og skyldi áætlunin gilda til [...] 2016. Í henni kemur fram að móðirin skuli sýna starfsmönnum barnaverndarnefndar samstarfsvilja í málinu, koma ásamt börnum í viðtöl við félagsráðgjafa eftir þörfum og mæta í sálfræðiviðtöl til að styrkja hana í uppeldishlutverkinu og tengsl hennar við börnin. Þá kemur einnig fram að móðirin eigi að sinna því að dóttirin fari í viðtöl í Barnahúsi og að hún þiggi aðstoð í formi tilsjónar á heimili. Starfsmenn barnaverndarnefndar skyldu fá móður í regluleg viðtöl, fylgjast með börnum í […], útvega sálfræðiviðtöl fyrir móður og dóttur, útvega tilsjón á heimilið og setja á fund með skóla og foreldri. Ekki voru gerðar frekari meðferðaráætlanir í málinu.

15       Starfsmenn barnaverndarnefndar gera grein fyrir því í áðurnefndri greinargerð að í samskiptum þeirra við móður [...] 2016 hafi aftur komið fram það sjónarmið hjá móður að hún teldi […] hafa farið út fyrir verklagsreglur í samtölum við stúlkuna. Þá hafi hún gefið í skyn að vinnsla málsins væri ekki rétt og að vandræði fjölskyldunnar væru tilkomin vegna vinnubragða starfsmanna barnaverndarnefndar og skóla. Var í framhaldinu ákveðið að móðirin og starfsmenn stefnda hittu starfsmenn skólans [...] 2016 til þess að varpa frekara ljósi á málið. Á þeim fundi hafi móðirin sagt frá því að stúlkan hafi upplýst hana um að hún hefði ruglast þegar hún var að tala við […] og að faðirinn hefði aldrei gert neitt. Þá setti móðirin út á störf […]. Aðilar voru þó sammála um það á fundinum að stúlkan færi sem fyrst í viðtöl í Barnahúsi. Seinna fengu starfsmenn stefnda upplýsingar frá Barnahúsi um að hringt hefði verið þrisvar í móðurina þennan sama dag en hún ekki svarað eða hringt til baka. Daginn eftir, [...] 2016, barst starfsmönnum barnaverndarnefndar bréf frá Barnahúsi þar sem því er lýst að stúlkan sé í samskiptum við meintan geranda og að hún njóti ekki stuðnings móður sinnar. Meðferðarviðtöl séu því ekki líkleg til að skila árangri. Ekki kemur fram í bréfinu hvaðan starfsmaður Barnahúss hafði þær upplýsingar að stúlkan væri í samskiptum við föður og að hún nyti ekki stuðnings móður sinnar.

16       Í samræmi við meðferðaráætlunina var höfð tilsjón með heimilinu með því markmiði að koma reglu á heimilishaldið. Tilsjónarkonan fór þrisvar á heimilið á tímabilinu [...] til [...] 2016. Í skýrslum hennar kemur fram að móðirin hafi lýst því að stúlkan hafi sagst hafa ruglast í frásögn sinni og að málið væri allt misskilningur. Í skýrslunum kemur einnig fram að móðirin hafi verið í samskiptum við föður meðal annars vegna sálfræðiaðstoðar sem þau væru að leita eftir fyrir stúlkuna og að maðurinn hefði komið oft í heimsókn á heimilið en gisti hjá […].

17       Samkvæmt meðferðaráætluninni skyldi barnaverndarnefnd útvega móður sálfræðiviðtöl. Leituðu starfsmenn barnaverndarnefndar til O sálfræðings í þessu skyni [...]. Í framburði O fyrir héraðsdómi staðfesti hún að rætt hefði verið við hana en hún hefði hins vegar ekki fengið beiðni frá barnaverndarnefnd þótt hún hefði gengið eftir því.

18       Fram kemur í greinargerð starfsmanna barnaverndarnefndar að í upplýsingum frá skóla stúlkunnar [...] 2016 hafi komið fram að hún hafi átt erfiðan dag í skólanum og að hún hafi sagt frá því að hún hefði farið með foreldrum sínum og bróður að kaupa [...]. Þá hafi faðir og móðir mætt saman í foreldraviðtal í skólanum [...] 2016 og þar hefðu komið fram vísbendingar um að faðirinn væri ennþá á heimilinu.

19       Starfsmaður barnaverndarnefndar ræddi við móðurina [...] 2016 um að hún styddi ekki við dóttur sína sem kæmi meðal annars fram í því að hún hefði ekki svarað símhringingum Barnahúss og að meðferðin þar mundi ekki koma að gagni ef umönnunaraðilinn væri ekki virkur þátttakandi. Þá hafi komið fram hjá móðurinni að hún tryði ekki frásögn dótturinnar hjá […] eða Barnahúsi, heldur eingöngu frásögn hennar um að þetta væri allt á misskilningi byggt. Rætt var hvort móðirin mundi samþykkja vistun utan heimilis svo að stúlkan gæti verið í umhverfi þar sem hún hefði stuðning. Móðirin hafnaði þeirri tillögu.

20       Starfsmenn barnaverndarnefndar lögðu fram tillögu [...] 2016 um vistun stúlkunnar utan heimilis og úrskurðaði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar [...] 2016 að stúlkan skyldi tekin af heimili foreldra og vistuð utan þess á vegum nefndarinnar. Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti úrskurð barnaverndarnefndar með dómi [...] 2016. Stúlkan hefur síðan verið vistuð utan heimilis.

21       Sumarið 2016 bárust starfsmönnum barnaverndarnefndar upplýsingar um að drengurinn hefði ekki mætt í […] eftir sumarfrí og að hann hefði [...]. Ræddu starfsmenn barnaverndarnefndar við starfsmenn [...] og kom fram hjá þeim að drengnum hefði gengið mjög erfiðlega að aðlagast. Í viðtali starfsmanna barnaverndarnefndar við drenginn í […] kom fram að hann, móðirin og faðir byggju öll saman. Þegar rætt var við móðurina um þessi mál sagðist hún hafa ákveðið að flytja frá Hafnarfirði til [...] og hún væri að hefja nám í [...].

22       Á fundi starfsmanna barnaverndarnefndar með móðurinni og lögmanni hennar í [...] 2016 var borin undir hana grunur um að hún byggi ennþá með föður barnanna. Móðirin sagði það rangt, þau væru búin að slíta samvistum og hefðu ekki búið saman síðan í [...] 2015. Móðirin upplýsti að faðir kæmi stundum til þeirra um helgar í umgengni við drenginn en væri aldrei einn með honum. Lögmaður konunnar staðfesti að hún hefði verið að vinna í skilnaði hjónanna í hálft ár. Umsókn um skilnað var lögð fram hjá sýslumanni [...] 2016 en hún var síðar dregin til baka þar sem þau hefðu ákveðið að vera í hjúskap en búa ekki saman þar til málið væri til lykta leitt. Samkvæmt upplýsingum starfsmanna barnaverndarnefndar hefði komið fram í skýrslutöku af stúlkunni í Barnahúsi [...] 2016 að hún hefði áhyggjur af bróður sínum hjá móður sinni en hún hafði tvívegis áður nefnt þessar áhyggjur sínar að sögn starfsmanna barnaverndarnefndar.

23       Í ljósi upplýsinga sem starfsmenn barnaverndarnefndar töldu sig hafa um stöðu foreldra á heimili barnsins var ákveðið [...] 2016 að beita neyðarráðstöfun samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga og vista drenginn utan heimilis. […]. Drengurinn hefur frá þessum tíma verið vistaður utan heimilis.

24       Á heimilinu þar sem börnin voru vistuð, fyrst í [...] 2015 og síðan frá árinu 2016, voru fyrir [...]. Samkvæmt framburði vistmóður fyrir héraðsdómi voru vistforeldrarnir þá [...] og [...] ára gamlir.

25       Í ágústmánuði 2016 óskaði barnaverndarnefnd eftir því við E sálfræðing að hann mæti forsjárhæfni móðurinnar. Skilaði hann matinu 7. nóvember sama ár. Meginniðurstöður þess voru þær að móðirin væri ekki nægilega hæf til að fara með forsjá barna sinna einkum vegna afstöðu hennar til barnaverndarmálsins. Það lýsti sér í því að hún hefði ekki tekið skýra afstöðu með börnunum, hún hefði verið í samskiptum við föður, samstarf hennar við barnaverndarnefnd hefði ekki verið nægjanlega gott, vísbendingar væru um ákveðna vanrækslu á heimili vegna [...] stúlkunnar og [...] hjá drengnum, mögulegt ofbeldi, foreldrar hefðu rætt um barnaverndarmálið í veislu og móðirin pressað á stúlkuna vegna framburðar hennar. Matsmaðurinn mælti þó með áframhaldandi umgengni undir eftirliti og að hún yrði aukin þegar á liði og færi fram á heimili móður. Telur matsmaðurinn að aðlaga þurfi börnin aftur móður sinni þegar lögreglumálinu verður lokið ef vel gengur með umgengni. Þá mælir hann með því að móðir og börn vistist í greiningar- og leiðbeiningarvistun áður en þau fara í hennar umsjá ef möguleiki er á slíku úrræði eða að vandað verði vel til aðlögunar á heimilinu. Í matinu kemur fram að tengsl móður við börnin séu eðlileg í umgengninni og að móðirin hafi góðan grunn til tengslamyndunar. Styrkleiki hennar felist einnig í að hún sé reglusöm, hafi sýnt vilja til að sinna börnunum og hafi sterk fjölskyldutengsl. Tengslin við bæði börnin hafi í umgengni virst eðlileg [...]. Í ljósi alls þessa taldi matsmaðurinn ekki rétt eins og á stæði að börnin færu í hennar umsjá meðan á rannsókn málsins stæði.

26       Með greinargerð 8. júní 2017 lögðu starfsmenn barnaverndarnefndar til að áfrýjendur yrðu sviptir forsjá barna sinna með dómi og að börnin yrðu vistuð til 18 ára aldurs á vegum barnaverndarnefndar. Til grundvallar tillögunni lá að þeir hefðu reynt til hlítar að ná fram samvinnu við móðurina en afstaða hennar væri sú að um misskilning hafi verið að ræða við upphaf málsins sem hafi leitt til ómaklegrar aðfarar að fjölskyldu hennar. Þá kemur fram í tillögunni að þrátt fyrir útgáfu ákæru á hendur föður í málinu styðji móðirin föðurinn en ekki börnin og megi því ætla að hvort sem um sekt eða sýknu verði að ræða í dómsmálinu muni móðirin ekki skipta um skoðun. Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar samþykkti með bókun 4. júlí 2017 að gerð yrði krafa fyrir dómi um að foreldrarnir yrðu sviptir forsjá barnanna. Í bókuninni er meðal annars vísað til þess að ákæra hafi verið gefin út á hendur föður og að börnunum líði vel á vistheimilinu. Stefna í máli til sviptingar forsjár var gefin út 22. september 2017 og var hún þingfest í Héraðsdómi [...] 2017.

27       Með ákæru útgefinni [...] 2017 var faðirinn ákærður fyrir brot gegn börnum sínum sem talin voru varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með dómi Héraðsdóms […] í máli nr. S-[...]/2017 uppkveðnum [...] 2017 var hann sýknaður af sakargiftum. Þeirri niðurstöðu var ekki áfrýjað og er sá dómur því endanlegur. 

28       Frá því að börnin voru vistuð utan heimilis hefur móðir haft við þau umgengni. Upphaflega var umgengni við stúlkuna tvisvar í mánuði í tvær klukkustundir í senn. Eftir að drengurinn fór í vistun var umgengni hans við móður einu sinni í viku, tvær klukkustundir í senn og var stúlkan með þeim í umgengni tvisvar í mánuði. Eftir að dómur féll í héraði [...] 2018 sem staðfesti kröfur stefnda um forsjársviptingu úrskurðaði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar 16. ágúst 2019 að umgengni barnanna við móður skyldi vera einu sinni í mánuði í tvær klukkustundir og undir eftirliti. Faðir hefur ekki haft neina umgengni við börnin frá vistun þeirra og ömmur barnanna hafa haft mjög takmarkaða umgengni við þau.

29       Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi var dómkvaddur matsmaður 25. október 2017 til að framkvæma mat á forsjárhæfni foreldra. Matsmaðurinn, F sálfræðingur, skilaði mati 12. maí 2018. Meginniðurstöður matsgerðarinnar voru þær að ýmislegt hefði mátt fara betur í umönnun og uppeldi barnanna. Veikleikar hafi verið í forsjárhæfni foreldra en erfitt væri að meta þá vegna þess hvernig málið væri vaxið og að ekki hefði náðst samvinna með aðilum í upphafi. [...] B hefði haft áhrif á getu hennar til að sinna börnunum og sömuleiðis fjarvistir föður vegna […]. Útilokað hafi verið að meta tengsl barnanna við föður með beinum hætti þar sem ekkert samband hafi verið á milli þeirra í langan tíma. Tengslamyndun móður við börnin væri skert og þá einkum tengsl hennar við stúlkuna. Tengslarof hafi orðið þegar börnin voru tekin af heimilinu og foreldrum nær algjörlega haldið fyrir utan umönnun þeirra síðustu tvö árin. Börnin hafi á þessu tíma myndað djúpstæð tengsl við vistforeldra sína og virst upplifi þar öryggi, ást og hlýju.  

30       Í gögnum málsins er að finna tvö bréf þar sem fram koma athugasemdir og ábendingar Barnaverndarstofu við málsmeðferð barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar í málum barnanna. Í fyrsta bréfinu, [...] ágúst 2017 vegna kvörtunar lögmanns móður 26. október 2016, gerir Barnaverndarstofa athugasemdir við vinnslu málsins þar sem ekki hafi verið fylgt ákvæðum 23. gr. barnaverndarlaga og að börnin hafi verið vistuð utan heimilis á ólögmætan hátt. Nánar lutu athugasemdirnar að því að ekki hefðu verið gerðar greinargerðir um niðurstöður könnunar í málinu, ekki hefði legið fyrir á hvaða grundvelli stuðningsúrræði hefðu verið veitt, ekki hefðu verið gerðar áætlanir fyrir hvort barn um sig auk þess sem ekki hefði verið fjallað um þau atriði í áætluninni sem skylt var að gera. Þá hefðu ekki verið gerðar einhliða áætlanir ef samvinnu foreldra skorti. Þar sem vistheimili barnanna hefði ekki haft leyfi Barnaverndarstofu til að vista börnin frá [...] 2016 hafi þau ekki verið löglega vistuð.

31       Í seinna bréfinu [...] maí 2019, vegna kvörtunar lögmanns föður 31. janúar 2018, gerir Barnaverndarstofa athugasemdir við að drengurinn hafi verið vistaður utan heimilis eftir að úrskurður um vistun hafi runnið út [...] 2017 án þess að ákvörðun um hana hafi verið endurnýjuð. Drengurinn hafi því verið vistaður án þess að legið hafi fyrir leyfi Barnaverndarstofu fyrir vistheimilinu. Þá gerir Barnaverndarstofa athugasemdir við að ekki hafi verið gerður skriflegur umgengnissamningur við föður barnanna og ömmur þótt þau hafi leitað eftir umgengni.

32       Fyrir Landsrétti hafa málsaðilar lagt fram ný gögn en þar á meðal eru endurrit af fyrstu skýrslutökum yfir börnunum í Barnahúsi á árinu 2015, athugasemdir Barnaverndarstofu við málsmeðferð barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 8. maí 2019 og úrskurður barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar um að umgengni móður skuli vera einu sinni í mánuði, tvo tíma í senn undir eftirliti og að engin umgengni verði við föður.

33       Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var dómur héraðsdóms frá 16. júlí 2018 um forsjársviptingu ómerktur með dómi Landsréttar í máli nr. 671/2018 frá 1. mars 2019 þar sem héraðsdómur hafði verið skipaður tveimur sérfróðum meðdómsmönnum. Með hinum áfrýjaða dómi sem kveðinn var upp 6. júní 2019 í málinu nr. E-[...]/2017 var komist að því að fallast bæri á kröfur stefnda um að áfrýjendur yrðu sviptir forsjá barnanna þar sem uppfyllt þættu skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og að ekki yrði séð að önnur og vægari úrræði væru tæk samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laganna.

34       Við meðferð málsins nr. 671/2018 í Landsrétti, sem ómerkti dóm héraðsdóms, ræddu dómarar við börnin 13. febrúar 2019. Ekki var talin ástæða til að ræða við börnin að nýju þegar málið kom aftur fyrir dóminn enda töldu áfrýjendur að börnin væru farin að gjalda verulega fyrir þau fjölmörgu viðtöl sem þau hafi átt við sérfræðinga og dómara í málinu í gegnum tíðina. Í málinu er lagt fram minnisblað dómara um viðtöl þeirra við börnin 13. febrúar 2019 en þar kemur fram að stúlkan vilji búa hjá fósturforeldrum og finnist hún örugg þar. Sagðist hún vera óörugg hjá móður og ekki treysta henni þar sem hún hefði ekki passað hana. Hún vildi hins vegar fara í umgengni til móður. Drengurinn tjáði dómurum að honum líkaði „smá vel“ að búa hjá fósturforeldrum en hann vildi meiri umgengni við móður og jafnvel fá að gista hjá henni. Hann hlakkar til að hitta móður sína í umgengni og verður „smá dapur“ þegar hann fer frá henni. Hann hugsar stundum um mömmu þegar hann er einn og „smá“ um pabba. 

Málsástæður aðila

Málsástæður stefnda

35       Svo sem rakið hefur verið gerir stefndi kröfu um að áfrýjendur verði sviptir forsjá barna sinna þar sem uppfyllt séu skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Krafan byggist á því að móðirin hafi ekki lagt trúnað á frásagnir barnanna af meintu kynferðisofbeldi og telji að ákæra á hendur föðurnum hafi verið á misskilningi byggð. Þar sem börnin hafi ekki notið stuðnings áfrýjenda í málinu séu þau óhæf til þess að fara með forsjá barnanna þar sem heilsu þeirra og þroska sé hætta búinn í umsjá þeirra við óbreyttar aðstæður. Þá er á því byggt að börnin óttist föður sinn og móður og stafi raunveruleg ógn af þeim. Stefndi byggir á því að önnur og vægari úrræði hafi verið fullreynd þegar málið var höfðað, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna, sérstaklega í ljósi þess að móðirin hefur ekki verið til neinnar samvinnu í málinu og ekki stutt frásagnir barnanna. Í stefnu til héraðsdóms er ekki sérstaklega byggt á því að vanræksla barnanna vegna áðurnefndra [...], [...] og óreiðu á heimili séu málsástæður fyrir sviptingarkröfunni þótt þessara atriða sé getið í lýsingu málsatvika.

Málsástæður áfrýjenda

36       Áfrýjendur reisa kröfur um sýknu á því að skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu ekki uppfyllt í málinu. Það sé röng forsenda hjá stefnda að móðir hafi ekki stutt við hagsmuni barnanna í málinu eða verið til samvinnu. Málsgrundvöllur stefnda sé ekki lengur til staðar þar sem faðirinn hafi verið sýknaður af ákæru. Þá er á því byggt að upphafleg frásögn stúlkunnar hafi fengist í viðtali við […] sem tók tvær og hálfa klukkustund og að fulltrúinn hafi ekki haft reynslu eða þekkingu til að taka slík viðtöl. Þá hafi vistmóðir haft áhrif á frásagnir bæði stúlkunnar og drengsins enda liggur fyrir í framburði hennar hjá lögreglu og í framangreindum dómi í sakamálinu að hún hafi spurt þau út í meinta kynferðislega misbeitingu. Skýrslur barnanna í Barnahúsi hafi verið teknar í kjölfar þessara samtala og eftir ábendingu vistmóður.

37       Jafnframt byggja áfrýjendur kröfur sínar einnig á því að ekki hafi verið færðar sönnur á að skilyrði forsjársviptingar samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu að öðru leyti til staðar. Þá hafi stefndi ekki sýnt fram á að ekki hafi verið unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til að tryggja hagsmuni barnanna, sbr. 2. mgr. 29. gr. laganna, heldur liggi þvert á móti fyrir að stefndi hafi vanrækt þær skyldur sínar að styðja við fjölskylduna vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem komu upp. Meðferðaráætlanir hafi ekki verið gerðar og upphaflegri áætlun ekki verið fylgt af hálfu stefnda. Stefndi hafi brotið gegn meginreglum barnaverndarlaga sem fram koma í 4. gr., meðal annars um að hagsmunir barnanna skuli ráða för.

Niðurstaða

38       Í ákvæði 1. mgr. 2. gr. barnaverndarlaga kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja nauðsynlega aðstoð við börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu. Til að ná markmiðum laganna skuli leitast við að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverkinu og beita úrræðum til verndar börnum þegar það á við. Í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur fram það grunnviðhorf að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að börnum séu fyrir bestu og að hagsmunir þeirra skuli hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Þá kemur fram í 7. mgr. 4. gr. laganna að barnaverndaryfirvöld skuli gæta þess að almenn úrræði til stuðnings fjölskyldu skuli reynd áður en gripið er til annarra úrræða og að beitt skuli vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

39       Ákvæði barnaverndarlaga taka mið af þeim grunnréttindum sem mælt er fyrir um í 71. gr. stjórnarskrárinnar um að allir eigi rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu og heimilis og að þann rétt megi ekki skerða nema með lögum og að brýna nauðsyn beri til. Sambærilegt ákvæði er að finna í 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en þar kemur fram að ekki megi ganga á þann rétt nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi meðal annars til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra. Þá ber einnig að geta 7. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, þar sem segir meðal annars að barn eigi eftir því sem unnt er rétt til að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra.  

40       Framangreind ákvæði barnaverndarlaga, stjórnarskrár og alþjóðlegra sáttmála eru reist á því að á milli foreldris og barns séu tengsl sem njóta skuli lagaverndar. Gengið er út frá því að almennt þjóni það hagsmunum barnsins að leitað sé leiða til að barn og foreldri þess geti verið saman og þannig myndað fjölskyldutengsl eða til að efla og rækta þau tengsl sem fyrir eru. Af barnaverndarlögum og þeim meginreglum sem þau eru reist á leiðir að ávallt beri að velja þann kost að barn verði áfram hjá foreldri nema í ljós sé leitt að það samræmist ekki hagsmunum barnsins. Leiða af þessum meginreglum, sem og ákvæði 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga, ríkar skyldur barnaverndarnefndar til að kanna til hlítar hvort grundvöllur sé til þess að halda fjölskyldum saman og eftir atvikum hvort það sé unnt með viðeigandi stuðningsúrræðum barnaverndaryfirvalda ef talið er að skorti á forsjárhæfni foreldra.

41       Upphaf málsins er sem fyrr segir að […] í skóla stúlkunnar tilkynnti til stefnda, barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar, í [...] 2015 að stúlkan hefði í viðtali við hana upplýst að hún hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu föður síns. Starfsmenn stefnda tilkynntu málið strax til lögreglu og var faðirinn handtekinn þann sama dag. Strax í [...] var tekin, með samþykki móður, ákvörðun um að börnin yrðu vistuð utan heimilis. Þar sem móðir var ófús að samþykkja framlengingu á vist barnanna utan heimilis í [...] var gripið til neyðarráðstöfunar samkvæmt 31. gr. barnaverndarlaga og voru bæði börnin vistuð áfram utan heimilis til [...] 2015.

42       Í málinu liggur fyrir að starfsmenn barnaverndarnefndar töldu í upphafi árs 2016 að móðir barnanna stæði ekki af heilum hug að baki stúlkunni og þeirri meðferð sem fór fram í Barnahúsi og lögreglu vegna rannsóknar á ásökunum um kynferðislega misnotkun af hálfu föður. Þá bera gögn málsins með sér að þótt móðirin hafi viljað trúa stúlkunni og styðja við hana hafi geta hennar til þess á þeim tíma verið takmörkuð þar sem hún taldi sig ekki vita hverju hún ætti að trúa um hina meintu misnotkun. Hún hafi haft traust á föðurnum og taldi hann hafa reynst börnunum vel. Þá fullyrðir móðirin að stúlkan hafi sagt henni, eftir að hún kom til baka úr fyrstu vistuninni [...] 2015, að hún hefði ruglast í viðtalinu hjá […] og að málið væri á misskilningi byggt. Kemur fram í greinargerðum starfsmanna stefnda sem liggja frammi í málinu að móðirin og móðuramman hafi ítrekað lýst því yfir á þessum tíma að rekja mætti málið til mistaka […] og afstöðu starfsmanna stefnda. Þá kemur einnig fram í málsgögnum að starfsmenn stefnda hafi grunað að faðirinn hafi verið í meiri samskiptum við börnin um jólin en þeir höfðu gert ráð fyrir og jafnvel að hann hefði verið inni á heimilinu um jól og áramót. Þessu hefur móðirin mótmælt sem röngu en staðfest að hún hafi skilið það svo að faðirinn mætti umgangast stúlkuna í fjölskylduboðum. Fram hefur komið að starfsmenn barnaverndarnefndar gáfu vilyrði sitt fyrir því að börnin gætu hitt föður um jól í eitt sinn að minnsta kosti.

43       Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. barnaverndarlaga ber barnaverndarnefndum að kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns þegar nefndinni berast upplýsingar um hugsanlega vanrækslu. Þá er mælt fyrir um það í 1. mgr. 23. gr. að nefndinni beri að taka saman greinargerð þar sem lýst er niðurstöðum könnunarinnar, hverra úrbóta sé þörf og tillögum að heppilegum úrræðum. Ef könnunin leiðir til þess að þörf sé á sérstökum úrræðum ber að gera skriflega áætlun um frekari meðferð málsins. Í gögnum málsins verður ekki séð að nefndin hafi tekið saman greinargerð um könnun málsins en fyrir liggur að aðeins var gerð ein skrifleg meðferðaráætlun [...] 2015.

44       Þegar fyrir liggur grunur um misnotkun á barni þarf að tryggja að rannsókn slíks máls hafi eðlilegan framgang. Þá er eðlilegt að gripið sé til ráðstafana til að tryggja að samskipti barns og meints geranda séu takmörkuð. Miðað við þær aðstæður sem voru uppi í málinu og lýst er að framan verður að fallast á að forsvaranlegt hafi verið að vista stúlkuna tímabundið utan heimilis meðan á rannsókn málsins stóð og eftir atvikum meðan unnið væri með móður að því að skapa fullnægjandi aðstæður á heimilinu fyrir stúlkuna.

45       Eftir að stúlkan og síðan drengurinn voru vistuð utan heimilis fékk móðirin vikulega umgengni við drenginn en við stúlkuna á tveggja vikna fresti. Umgengnin fór fyrst fram utan heimilis móður en síðar á heimili hennar. Af fjölmörgum skýrslum umsjónaraðila sem liggja fyrir í málinu verður ekki annað ráðið en að umgengnin hafi almennt gengið vel miðað við aðstæður.

46       Áður er rakið að stefndi fékk E sálfræðing til að meta forsjárhæfni móðurinnar og skilaði hann niðurstöðu 7. nóvember 2016. Meginniðurstöður matsins eru þær að móðirin sé ekki nægilega hæf til að fara með forsjá barna sinna einkum vegna afstöðu hennar til barnaverndarmálsins og að hún hafi ekki tekið skýra afstöðu með börnunum. Matsmaðurinn mælti þó með áframhaldandi umgengni og að hún yrði aukin. Taldi hann að aðlaga þyrfti börnin aftur að móður þegar sakamálinu lyki. Í matinu kemur fram að tengsl móður við börnin hafi verið eðlileg í umgengni og að móðirin hafi góðan grunn til tengslamyndunar. Tengslin séu [...]. Taldi matsmaðurinn ekki rétt að börnin færu í hennar umsjá meðan á rannsókn sakamálsins stæði.

47       Eftir að ákæra á hendur föður var gefin út […] 2017, en áður en dómur féll í máli hans [...] sama ár, ákvað stefndi með bókun 4. júlí 2017 að gerð yrði krafa fyrir dómi um að foreldrarnir yrðu varanlega sviptir forsjá barnanna, þrátt fyrir ráðleggingar sálfræðingsins um aukna umgengni og aðlögun þegar sakamálinu lyki. Í bókuninni er meðal annars vísað til þess að ákæra hafi verið gefin út á hendur föður og að börnunum líði vel á vistheimilinu. Í tillögu starfsmanna stefnda sem lá til grundvallar bókuninni kom fram að þeir höfðu talið sig hafa reynt til hlítar að ná fram samvinnu við móður en að afstaða hennar við upphaf málsins væri sú að um misskilning hafi verið að ræða sem hafi leitt til ómaklegrar aðfarar að fjölskyldunni. Þá kemur fram í tillögunni að þrátt fyrir útgáfu ákæru á hendur föður í málinu styðji móðir hann en ekki börnin og megi því ætla að hvort sem um sekt eða sýknu yrði að ræða í dómsmálinu myndi hún ekki skipta um skoðun. Af þessum rökstuðningi nefndarinnar verður ekki annað ráðið en að það hafi engu skipt fyrir stefnda, þegar bókað var að krafa yrði gerð fyrir dómi um að foreldarnir yrði sviptir forsjá, hvort faðir barnanna yrði sakfelldur eða sýknaður af ákæru.   

48       Sem fyrr greinir var faðirinn með dómi Héraðsdóms [...] 2017 sýknaður af sakargiftum. Má af gögnum málsins ráða að stefndi hafi talið þá niðurstöðu engu skipta um nauðsyn áframhaldandi afskipta af málefnum fjölskyldunnar, sem birtist meðal annars í því að nefndin hélt til streitu kröfu sinni fyrir dómi um að foreldarnir yrðu báðir varanlega sviptir forsjá barna sinna. Afstaða stefnda virðist hafa mótast af þeirri sannfæringu starfsmanna nefndarinnar að faðirinn hefði misnotað börnin þótt sýknaður hefði verið í sakamáli af sakargiftum þar um. Þessi afstaða nefndarinnar samræmist illa  þeim sjónarmiðum sem ákvæði 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. greinar mannréttindasáttmála Evrópu eru reist á, en þar er kveðið á um að hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skuli talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð. Sýkna af sakargiftum gaf stefnda þvert á móti fullt tilefni til að endurskoða í heild aðkomu sína að málinu. Þetta á einkum við um þá ákvörðun að krefjast þess að báðir foreldrar skyldu varanlega sviptir forsjá barna sinna. Þá var tilefni til að gera nýja meðferðaráætlun um samskipti barna við móður og föður, saman eða hvort í sínu lagi, með það að markmiði að sameina fjölskylduna aftur nema það yrði talið ógerlegt vegna hagsmuna barnanna.

49       Krafa stefnda um að áfrýjendur verði sviptir forsjá barna sinna er reist á a-, c- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt a-lið er heimilt að krefjast þess fyrir dómi að annað foreldri eða bæði verði svipt forsjá ef daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns er alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska. Samkvæmt c-lið er heimilt að krefjast forsjársviptingar ef barninu er misþyrmt, því misboðið kynferðislega eða megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu. Þá er unnt samkvæmt d-lið ákvæðisins að krefjast forsjársviptingar ef fullvíst þykir að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar séu augljóslega vanhæfir til að fara með forsjá, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Þá kemur fram í 2. mgr. 29. gr. að forsjársviptingu verði eingöngu beitt þegar önnur úrræði hafa verið fullreynd.

50       Svipting forsjár barna samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga er alvarlegt inngrip í friðhelgi fjölskyldu og gengur lengst þeirra úrræða sem barnaverndarlög heimila. Með úrræðinu er í reynd miðað að því að slíta tengsl barna við foreldra sína og aðra fjölskyldumeðlimi. Verður forsjársviptingu af þessum ástæðum aðeins beitt að uppfylltum ströngum skilyrðum og að fullreyndum öðrum úrræðum sem skemmra ganga, sbr. 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. 

51       Í hinum áfrýjaða dómi er á því byggt að uppfyllt séu skilyrði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga í tilviki móður og því sé rétt að svipta hana forsjá. Rökstyður dómurinn það með því að ótti barnanna gagnvart föður virðist af einhverjum ástæðum vera raunverulegur og sérstaklega að stúlkan treysti ekki móður sinni til að veita þeim vernd. Að auki byggir dómurinn á því að það sé sterkur vilji hjá börnunum að búa hjá vistforeldrum. Niðurstaða héraðsdóms byggir að þessu leyti á frásögn barnanna við ýmsa aðila sem hafa verið í samskiptum við þau vegna málsins. Í hinum áfrýjaða dómi er ekki frekar skýrt í hverju ótti barnanna felist heldur látið nægja að nefna að stúlkan hafi „… upplifað eitthvað það af völdum föður sem leitt hefur til þess að hún óttist hann ...“, hún sé „… sýnilega þjökuð af einhverju“. Í málinu hefur ekkert komið fram um að þessi ótti stúlkunnar kunni að stafa af öðru en meintum kynferðisbrotum sem hún hefur lýst í skýrslum í Barnahúsi og faðirinn hefur nú verið sýknaður af.

52       Þegar barnaverndarnefnd hóf afskipti af málefnum fjölskyldunnar var stúlkan [...] ára gömul. Hún er nú [...] ára gömul og hefur samfellt frá febrúarmánuði 2016 verið vistuð utan heimilis í þrjú ár og sjö mánuði. Drengurinn var [...] ára þegar barnaverndarmálið hófst. Hann er nú [...] ára gamall og hefur samfellt verið vistaður utan heimilis frá 1. september 2016 eða í ríflega þrjú ár. Umgengni móður við börnin á þessum tíma hefur verið takmörkuð og undir eftirliti þrátt fyrir ráðleggingar sálfræðings um að umgengni skyldi aukin og börnin aðlöguð heimili móður þegar niðurstaða í sakamálinu lægi fyrir. Umgengni við föður hefur nánast engin verið, hvorki fyrir né eftir sýknudóminn yfir honum.

53       Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. a. í barnaverndarlögum skal gefa barni sem ekki er aðili barnaverndarmáls kost á að tjá sig um mál í samræmi við aldur þess og þroska nema dómari telji að afstaða barns komi fram með nægilega skýrum hætti í gögnum málsins. Reglan er áréttuð í 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þar segir í 1. mgr. að aðildarríki skuli tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skuli tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að vegna þessa skuli barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð.

54       Í héraðsdómi er meðal annars á því byggt að börnin, og þá einkum stúlkan, vilji vera áfram hjá vistforeldrum. Áður er þess getið að í viðtölum dómara Landsréttar við börnin 13. febrúar 2019 hafi komið fram hjá stúlkunni að hún óttist föður sinn og treysti ekki móður sinni. Hins vegar kom enginn slíkur ótti eða vantraust fram hjá drengnum, heldur lýsti hann þvert á móti áhuga á meiri samskiptum við móður og föður. Ljóst er að gögn málsins eru nokkuð misvísandi um vilja barnanna að þessu leyti eftir því hver hefur frásögnina eftir börnunum og hvenær hún átti sér stað. Þegar horft er til misvísandi endursagna af frásögnum barnanna, ungs aldurs þeirra og mikillar takmörkunar á umgengni við foreldra, sem staðið hefur í mjög langan tíma, verður að fara gætilega þegar vilja barnanna er gefið vægi í málinu. Þá er þess að gæta að svipting forsjár verður ekki byggð á því einu að vilji barnanna standi til þess að búa ekki hjá foreldrum sínum.

55       Við mat á því hversu mikið vægi meintum vilja barnanna verði gefið í málinu þarf að hafa í huga að börnin hafa verið vistuð lengi utan heimilis. Umgengni þeirra við móður hefur verið afar takmörkuð og við föður nánast engin. Þá verður að meta hvort þau hafi aldur og þroska til að skilja langvarandi og víðtækar afleiðingar þess að verða varanlega tekin úr forsjá foreldra sinna. Enn fremur þarf að huga að því hvernig meintur vilji barnanna hafi myndast. Ætla má að hann hafi mótast að einhverju marki af því að umgengni hefur lengst af farið fram undir eftirliti sem kann að hafa átt þátt í að móta þann skilning þeirra að þeim sé ekki óhætt í umsjá móður sinnar án þess að utanaðkomandi aðili sé viðstaddur. Að framangreindu virtu getur vilji barnanna ekki ráðið úrslitum í málinu.

56       Frá upphafi árs 2016 og fram á þennan dag, og þá einkum eftir að sýknudómur yfir föður lá fyrir, verður ekki séð að marktækar tilraunir hafi verið gerðar til að auka umgengni barna við móður, styrkja forsjárhæfni hennar eða aðlaga börnin heimili hennar. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að kannað hafi verið hvort forsendur hafi verið til þess að koma aftur á samskiptum barnanna við föður sinn eftir að sýknudómurinn féll. Þá voru, svo sem fram hefur komið í athugasemdum Barnaverndarstofu, málsmeðferðarreglur ítrekað brotnar við meðferð málsins.

57       Samkvæmt því sem að framan er rakið er óhjákvæmilegt að líta svo á að stefndi hafi ekki sýnt fram á að ekki hafi verið unnt, eftir að sýknudómur féll, að beita öðrum og vægari úrræðum en varanlegri forsjársviptingu í málinu til þess að tryggja friðhelgi fjölskyldunnar og hagsmuni barnanna í samræmi við þau meginsjónarmið sem lög um barnavernd byggjast á. Með vísan til 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga er því fallist á kröfu áfrýjenda um sýknu af kröfum stefnda.

58       Í ljósi þeirrar niðurstöðu sem dómurinn hefur komist að er brýnt að barnaverndaryfirvöld sem koma að framhaldi málsins leggi sig fram um að koma á aukinni og bættri umgengni við foreldra sem fyrst. Þá er nauðsynlegt að gerð verði raunhæf og ítarleg áætlun um aðlögun að heimili móður. Markmið áætlunarinnar verði meðal annars að kanna nánar í hverju ótti stúlkunnar liggur og hvernig best verði að byggja upp traust hennar gagnvart móður og eftir atvikum föður. Áfrýjendur hafa lýst því yfir við dóminn að þau búi ekki saman og að faðirinn muni ekki búa á heimilinu eða koma að umgengni við börnin nema samkvæmt ráði sérfræðinga. Í framhaldinu mun því reyna verulega á vilja og getu foreldranna til þess að tryggja hagsmuni barnanna og sýna fram að þau séu hæf til þess að fara áfram með forsjá barnanna og gæta að fullu hagsmuna þeirra. Í ljósi atvika málsins, afstöðu barnanna og þess hvernig málinu hefur undið fram, er ljóst að stíga þarf varlega til jarðar í nýrri meðferðaráætlun. Þegar viðeigandi meðferð hefur farið fram mun koma í ljós hvort foreldrarnir geti áfram farið með forsjá barnanna, hvernig umgengni þeirra við börnin verði og hvort gerlegt sé, vegna hagsmuna barnanna, að sameina fjölskylduna á ný.

59       Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

60       Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjendur, A og B, skulu vera sýkn af kröfum stefnda, barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað áfrýjenda skulu vera óröskuð.

Málskostnaður fyrir Landsrétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda fyrir Landsrétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, Jóhannesar Ásgeirssonar, 1.000.000 króna, og Þorbjargar Ingu Jónsdóttur, 1.000.000 króna.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur mánudaginn 6. júní 2019

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þess […]. maí sl., er höfðað af Hafnarfjarðarkaupstað vegna Barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar, Strandgötu 6 í Hafnarfirði, með stefnu birtri 22. september 2017 á hendur B og A, báðum til heimilis að […] í Reykjavík.

Stefnandi gerir þá kröfu að stefndu verði svipt forsjá barnanna C og D, sem nú eru vistuð utan heimilis á vegum stefnanda, samkvæmt 28. gr., sbr. b-lið 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Stefnandi krefst ekki málskostnaðar sér til handa.

Stefnda B krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda auk málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Af hálfu stefnda A er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og ekki væri um gjafsókn að ræða.

Mál þetta sætir meðferð samkvæmt 53. gr. b í barnaverndarlögum nr. 80/2002.

Rétt er að geta þess að fyrri héraðsdómur í máli þessu, dags. […]. júlí 2018, og meðferð málsins allt frá aðalmeðferð sem fram fór dagana 20.–21. júní s.á. var ómerkt með dómi Landsréttar í máli nr. 671/2018, dags. 1. mars 2019, með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 26/2018 frá 27. febrúar s.á., og hefur nú verið brugðist við því með því að endurtaka aðalmeðferð fyrir dómi skipuðum eins og að framan greinir. 

 

II.

Ágreiningsefni og málsatvik

Stefndu eru hjón og fara sameiginlega með forsjá barna sinna, þeirra C, sem er fædd […], og D, sem er fæddur […]. Mál þetta á annars einkum rætur að rekja til þess að þann […]. október 2015 barst stefnanda, Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, tilkynning þess efnis að eldra barnið, C, hefði í samskiptum við […] í grunnskóla hennar í […] greint frá því að faðir hennar, stefndi A, hefði haft í frammi háttsemi gagnvart henni sem svaraði til kynferðislegrar misnotkunar. Málið var þegar tilkynnt af hálfu skólans til lögreglu og var faðirinn, stefndi A, í framhaldi handtekinn sama dag og hann síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir þar sem hann var í haldi í fjóra daga. Var þá í framhaldi ákveðið, með samþykki móður barnanna, stefndu B, að vista skyldi stúlkuna C, og […] systkini hennar, drenginn D, tímabundið utan heimilis á heimili á vegum stefnanda og stóð það svo til […]. desember 2015, en móðirin var innlögð á […] vegna […] þegar málið kom upp.

Af hálfu stefnanda hefur verið vísað til þess að við könnun málsins í upphafi þess þá hafi starfsmenn barnaverndar farið inn á heimili fjölskyldunnar, en þar hafi þá verið mikil óreiða og börnin verið þar illa hirt, […]. Ber aðilum ekki saman um orsakir þessara vandamála hjá börnunum, en stúlkan hefur glímt við […] og drengurinn átt í vanda með […]. Heldur stefnandi því fram að merkjanlegar framfarir hafi orðið hjá börnunum eftir að þau fóru á vistheimili og þau þá fengið viðeigandi meðferð vegna framangreindra vandamála sinna, en börnin hafi þá einnig sýnt merki um betri líðan í skóla og leikskóla.

Eftir að málið kom upp fór stúlkan C í skýrslutökur fyrir dómi, þann […]. október og […]. desember 2015 og síðar […]. ágúst 2016, þar sem hún staðfesti framburð sinn um kynferðislegt athæfi föður gagnvart sér, auk þess sem fram komu þá áhyggjur af bróður hennar þar sem hún hefði talið sig sjá föður „eiga við hann“. Var einnig tekið viðtal við drenginn D í Barnahúsi […]. október 2015, en erfitt reyndist þá að ná athygli hans og kom þá ekkert fram sem gaf vísbendingar um að faðir hans hefði beitt hann misnotkun. Síðar var svo tekin skýrsla af D í Barnahúsi […]. september 2016 þar sem hann skýrði frá því að faðir hann hefði átt við hann kynferðislega.

Af hálfu stefnanda hefur verið vísað til þess að þegar við upphaf málsins hafi móðir og móðuramma átt afar erfitt með að trúa því að faðir barnanna gæti hafa gert stúlkunni nokkuð, en móðir komið með þær skýringar að stúlkan hefði átt við vanda að etja og ásakanir hennar skýrðust mögulega af […] sem þyrfti greiningar við. Kvaðst móðir engu að síður ætla að styðja dóttur sína í gegnum það ferli sem við tæki. 

Börnin tvö fóru síðan aftur heim í umsjá móður sinnar […] 2015, en faðirinn var þá fluttur af heimilinu til […]. Var þá gerð áætlun um frekari meðferð málsins og var af hálfu stefnanda lögð áhersla á það að börnin, og þá einkum stúlkan, myndu ekki umgangast föður sinn nema að takmörkuðu leyti þá um jól og áramót á meðan umrædd mál hans væru enn í rannsókn. Stefnda B þáði á þessum tíma einnig ýmiss konar aðstoð og tilsögn og sótti meðal annars sálfræðitíma, tók á móti tilsjón á heimili sínu, gekkst þar undir óboðað eftirlit barnaverndar og lýsti því jafnframt yfir að hún væri samstarfsfús í þágu dóttur sinnar.    

Eftir að börnin tvö komu á ný heim til móður sinnar í […] 2015 fóru þó starfsmenn barnaverndar fljótlega að hafa áhyggjur af stöðu barnanna þar. Þá einkum yfir því að stúlkan, sem átti að fara í meðferðarviðtöl í Barnahúsi, nyti ekki nauðsynlegs stuðnings móður sinnar, en hún hafði, að mati stefnanda, átt í erfiðleikum með að taka afstöðu með stúlkunni og dregið trúverðugleika framburðar hennar í efa. Hafi stefnda B þannig lýst þeirri afstöðu í samtali við tilsjónaraðila og á fundi með kennurum skólans, þegar í byrjun árs 2016, að tilkynningin um kynferðisofbeldi væri byggð á misskilningi, að barnið hefði ruglast í frásögn sinni og að faðirinn hefði ekki gert það sem hann væri sakaður um. Þá kom einnig fram sú afstaða móðurinnar að skólinn hefði farið offari með tilkynningunni og ekki staðið rétt að málum þar sem viðbrögð […] við frásögn stúlkunnar í upphafi hefðu verið röng og ekki verið nægilegt tilefni til að stefnandi hefði afskipti af málum þeirra. Í greinargerð sem móðirin lagði síðan fram á fundi barnaverndar þann 26. janúar 2016 kom einnig fram að hún teldi að stúlkan ætti mögulega við geðrænan vanda að etja, jafnvel […]. Þá hafi, að sögn stefnanda, stefnda B talið að framburður yngra barnsins um kynferðisofbeldi, sem hefði komið fram síðar í málsmeðferðinni, væri hugarburður.   

Auk framangreinds bárust síðan einnig ábendingar frá skóla og tilsjónaraðila um að stúlkan hefði um þetta leyti verið í meiri samskiptum við föður en eðlilegt gæti talist með hliðsjón af þeim brotum sem hann hefði þá verið grunaður um, en foreldrarnir hefðu þá enn verið samvistum að mati stefnanda. Þá telur stefnandi að móðirin hafi á þessum tíma ekki sinnt því að C færi í nauðsynleg meðferðarviðtöl í Barnahúsi, móðirin sjálf ekki komið í viðtöl við starfsmenn barnaverndar, auk þess sem hún hafi ekki svarað í síma. Þá hafi komið fram vísbendingar um það að stefndu hefðu þá enn verið samvistum, þau mætt saman í skólaviðtöl og afmæli, en ekki sótt um skilnað, eins og stefnda B hefði áður tjáð barnaverndarnefnd að yrði gert. Þá hafi stefndu einnig farið saman í […] með D og hann lýst því í viðtölum að hann hefði á þessum tíma ítrekað sofið á milli foreldra sinna heima við þótt faðir hans ætti ekki að búa þar.

Mál vegna C var lagt fyrir á fyrrgreindum fundi barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 26. janúar 2016. Var það gert í kjölfar þess að sérfræðingar Barnahúss höfðu þá látið í ljós það álit sitt við barnavernd að ekki væri vænlegt til árangurs að hefja þar meðferð með barn sem ekki nyti stuðnings ummönnunaraðila síns. Í úrskurði stefnanda frá 3. febrúar 2016 var ákveðið að C skyldi vistuð utan heimilis í tvo mánuði, en móðir hafði þá ekki viljað fallast á slíka vistun. Liggur fyrir að í ljósi framangreindra efasemda móður um frásögn barnsins og málsmeðferð skólans og barnaverndar hafi verið talin nauðsyn í skilningi b-liðar 1. mgr. 27. gr. laga nr. 80/2002 að C yrði vistuð utan heimilis um tíma svo viðtalsmeðferð gæti farið fram. Var ákvörðunin borin undir dóm og staðfest í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, dags. […] 2016. Á fundi barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar 8. mars 2016 var svo samþykkt, með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002, að gerð yrði krafa fyrir héraðsdómi um að vistun C yrði framlengd þar til viðtölum í Barnahúsi væri lokið eða í allt að sex mánuði til viðbótar við þann tíma sem kveðið hafði verið á um í úrskurðinum […] 2016. Var fallist á kröfu um áframhaldandi vistun stúlkunnar utan heimilis í sex mánuði í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, dags. […] 2016.        

Á þeim tíma sem C var að nýju vistuð utan heimilis, frá […] 2016, naut hún áfram takmarkaðrar umgengni við móður sína og bróður undir eftirliti, fyrst á vistheimilinu en síðar í íbúð á vegum stefnanda og fékk stefnda þá að hitta dóttur sína þannig aðra hverja viku í tvo tíma í senn og þá undir eftirliti. Í […] afréð stefnda B síðan að taka drenginn D úr […] í Hafnarfirði og flytja lögheimili þeirra til Reykjavíkur þar sem hún kvaðst ætla að hefja nám, og flutti hún síðan drenginn í skóla þar. Liggur fyrir í gögnum málsins að drengurinn hafi átt fremur erfitt uppdráttar í samskiptum við önnur börn þá um vorið og einnig eftir að hann fór í hinn nýja skóla. Þótti starfsmönnum stefnanda þá ljóst orðið, með hliðsjón af framangreindu, að foreldrarnir myndu ekki ætla að eiga samvinnu við stefnanda, og að móðirin hefði sagt ósatt um hagi þeirra og sonar þeirra á heimilinu þar sem faðir hefði áfram verið í virkum samskiptum við þau. Var þá kveðinn upp úrskurður 1. september 2016, sbr. 31. gr. laga nr. 80/2002, um töku drengsins af heimilinu og vistun hans á vegum stefnanda. Þá liggur einnig fyrir að um miðjan […] 2016 var drengurinn svo aftur fluttur í […] í Hafnarfirði þar sem hann hafði áður verið.

Þann […]. september 2016 barst barnavernd síðan tilkynning frá vistmóður barnanna þar sem hún lýsti því að drengurinn ætti við […] að stríða, eins og þegar hann hefði dvalið hjá henni í fyrra skiptið. Kvað hún D þá enn fremur hafa tjáð sér, aðspurður um leyndarmál sín, að faðir hans hefði […], en sagt að ekki mætti segja móður hans frá því. Í framhaldi var síðan send kæra til lögreglu og óskað eftir rannsóknarviðtali við D í barnahúsi. Mál drengsins var síðan tekið fyrir hjá barnaverndarnefnd 13. september 2016. Þar áréttaði móðirin að faðir barnanna væri fluttur af heimilinu og hann hefði ekki búið þar frá því í […] 2015. Faðirinn kom enn fremur á fund nefndarinnar og tjáði þar þá skoðun sína að þau hjónin gerðu sér nú grein fyrir því að skilnaður væri misráðinn þar sem samband þeirra væri traust, þótt þau yrðu að búa í sundur á meðan á málarekstri stæði. Skýrsla var síðan tekin af D í Barnahúsi […] 2016 þar sem hann staðfesti, að mati stefnanda, framburð um athafnir föður síns í sinn garð. Úrskurður var svo kveðinn upp […] um að D skyldi tekinn af heimili móður og vistaður utan heimilis á vegum stefnanda í tvo mánuði, en stefnandi samþykkti þá jafnframt, með vísan til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002, að gerð yrði krafa fyrir héraðsdómi um að ráðstöfun þessi skyldi standa í allt að sex mánuði. Sú krafa var þó ekki sett fram í tæka tíð áður en vistunartími rann út og var þá neytt úrræða 31. gr. laga nr. 80/2002 og úrskurðað að barnið D skyldi kyrrsett á vistheimili. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá […] 2016 var loks fallist á vistun til sex mánaða. Var umræddur úrskurður héraðsdóms síðan staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands.

Fyrir liggur að stefnandi hafi óskað eftir sálfræðilegu mati á forsjárhæfni stefndu B eftir að […] barnið var einnig vistað utan heimilis á vegum stefnanda í […]árið 2016. E sálfræðingur hafi þá verið fenginn til þess að vinna sálfræðilegt mat á forsjárhæfni stefndu. Í matsgerð hans, dags. 7. nóvember 2016, kemur meðal annars fram að vísbendingar séu um vanrækslu móður og ljóst sé að tilfinninga- og tengslavandi hennar hafi hamlað getu hennar til að sinna börnunum með eðlilegum hætti. Þá hafi komið fram vísbendingar um innsæisleysi móður, meðal annars varðandi […] og tilfinningar C. Þá hafi komið fram vísbendingar um að móðirin kynni að hafa beitt börnin ofbeldi. Matsmaður tekur þó einnig fram að móðirin hafi góða kosti, greind og menntun auk vinnusögu, sé reglusöm og sýni áhuga á að fá börnin aftur. Hún hafi að mestu staðið sig vel í umgengni og að mörgu leyti farið eftir ábendingum fagaðila og barnaverndar. Hún hafi þó ekki enn sýnt að henni sé treystandi eða tekið skýra afstöðu í málinu. Hún sé ekki að fara að skilja við barnsföður sinn og sé í miklum samskiptum við hann. Var það ályktun sálfræðingsins að töluverð áhætta myndi fylgja því ef börnin færu aftur í umsjá móður. Hún hafi ekki tekið afstöðu með börnunum til að vernda þau auk þess sem vísbendingar væru um ákveðna vanrækslu á tímabili og mögulegt ofbeldi. Þá hafi samstarfi við barnavernd verið áfátt. Hafi móðirin sýnt af sér dómgreindarleysi með því að hafa föðurinn áfram á heimilinu og lagt að stúlkunni að breyta framburði sínum. Þá hafi hún ekki sinnt […] stúlkunnar, […] drengsins, né viðurkennt að um vandamál væri að ræða. Matsmaður hafi átt gott samtal við móður í lokaviðtali og þá látið hana vita af áhyggjum sínum og að ekki yrði mælt með því að hún fengi börnin að óbreyttu ástandi. Hafi hún þá lýst miklum vilja til samstarfs og bent á það að ekki hefði verið reyndur neinn stuðningur en hún hygðist nú setja börnin í forgang. Matsmaður taldi hins vegar að hún hefði sýnt tilhneigingar til þess að varpa ábyrgð á aðra. Mælti hann með því að börnin yrðu áfram í fóstri en að umgengni héldi áfram undir ströngu eftirliti enda hætta á að móðir reyndi að hafa áhrif á framburð barnanna. 

Mánudaginn […]. desember 2016 úrskurðaði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar að C skyldi kyrrsett á vistheimili í tvo mánuði. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness, dags. […] 2017, var vistun stúlkunnar C utan heimilis síðan enn framlengd til sex mánaða. Þar sem mál þetta um sviptingu forsjár er höfðað í […] liggur þannig fyrir að bæði börnin hafa nú samfellt verið vistuð utan heimilis í umtalsverðan tíma, C í á […] og D í á […].

Af hálfu móðurinnar, B, hefur verið lögð áhersla á að henni hafi ekki verið gefið neitt að sök í málinu, en samt hafi hún ekki notið eðlilegra réttinda og stöðu sinnar sem móðir barnanna við meðferð málsins. Hafi málsmeðferð stefnanda að hennar mati verið afar áfátt og raunar verið ámælisverð í ýmsum atriðum, en frekar verður vikið að því í þeim kafla dómsins er fjallar um málsástæður hennar og lagarök. 

Fyrir liggur að stefndi A hefur allt frá upphafi máls þessa staðfastlega neitað öllum ásökunum um það að hafa beitt börn sín kynferðislegu ofbeldi. Eftir að lögreglurannsókn á meintum brotum lauk sætti hann ákæru fyrir brot gegn báðum börnunum sem töldust varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Varð niðurstaðan í sakamálinu sú að stefndi A var þar sýknaður af öllum ákæruatriðum með dómi Héraðsdóms […] frá […] 2017, eins og þar er nánar lýst, það er vegna skorts á lögfullri sönnun á þeim brotum sem honum voru þar gefin að sök, og var dómi í sakamálinu á hendur honum ekki áfrýjað. Í umræddum dómi Héraðsdóms […] segir meðal annars um framburð drengsins D: „Telur dómurinn sér ekki fært að byggja sakfellingu ákærða á þeim framburði sem drengurinn gefur vistmóður sinni þegar hún spyr hann sérstaklega að því hvort hann og ákærði eigi sér einhver leyndarmál, löngu eftir að upphaflegar ásakanir á hendur ákærða komu fram og að því gættu að engin gögn málsins renna neinum stoðum undir þann framburð drengsins að ákærði hafi beitt hann kynferðisofbeldi með þeim hætti sem lýst er í II. kafla ákærunnar.“ Hvað varðar stúlkuna C, þá kemur meðal annars fram í framangreindum dómi að teknar hafi verið alls þrjár skýrslur af stúlkunni fyrir dómi og þar af tvær í Barnahúsi og var það mat dómsins að sá framburður stúlkunnar hefði ekki verið á einn veg, eins og þar er nánar lýst, en önnur gögn í málinu, þá einkum líkamsskoðun lækna, styddu heldur ekki við sönnun á þeim brotum er ákærða hefðu verið gefin að sök með hliðsjón af síðasta framburði stúlkunnar fyrir dómi.

Af hálfu stefnda A hefur verið lögð áhersla á það að hann hafi verið alfarið sýknaður af ákæru um kynferðisbrot gagnvart börnum sínum í framangreindu sakamáli en hann njóti samt sem áður engrar umgengni við börn sín. Hann hafi ekki hitt dóttur sína síðan um jól og áramót 2015–2016 og ekki fengið að hitta son sinn eða átt við hann samskipti frá því að hann að var settur á sama vistheimili og systir hans […] 2016. Þá hefur stefndi A lagt áherslu á að sú trú stefndu B að hann væri saklaus af þeirri háttsemi sem honum var gefin að sök hafi verið notuð mjög gegn henni af hálfu stefnanda, en nú sé sýnt að það hafi verið að ófyrirsynju.  

Þrátt fyrir framangreint liggur þó fyrir í málinu að stúlkan C hefur áfram haldið sig við þá upplifun sína og þá frásögn að faðir hennar, sem eftir því sem næst verður komist var áður náinn henni, hafi misboðið henni á einhvern þann hátt að hún óttist hann nú og geti nú ekki hugsað sér að vera í návist hans. Þá ber að geta þess að af hálfu stefnanda er lögð áhersla á að C hafi á þeim tíma sem hún hafi verið vistuð utan heimilis sýnt áberandi betri líðan og tekið miklum framförum með ýmsan vanda sem hún hafi áður glímt við og hafi hún nú einnig myndað traust og góð tengsl við vistforeldra og önnur börn sem þar búa. Sömu sögu sé að segja í megindráttum um D, en þau systkinin séu auk þess tengd tilfinningaböndum og vilji vera saman.

Þá hefur verið bent á af hálfu stefnanda að á vistunartíma hafi stefnda B haft reglulega umgengni við börnin. Móðirin hafi þannig frá því að bæði börn voru vistuð á vegum stefnanda almennt haft umgengni við stúlkuna aðra hverja viku, en við drenginn vikulega, tvo tíma í senn, undir eftirliti, fyrst í húsnæði á vegum stefnanda, en frá ársbyrjun 2017 á heimili móður. Heldur stefnandi því fram að við ákvörðun á þessu fyrirkomulagi hafi einkum verið tekið mið af óskum […] barnsins […]. Stefnandi hefur líka vísað til þess að að mati skóla og vistunaraðila hafi umgengnin valdið börnunum streitu og kvíða, er hafi svo létt þegar dregið hafi verið úr umgengni. Af hálfu stefndu B hefur þessu verið mótmælt og lögð áhersla á að drengurinn a.m.k. hafi þvert á móti sóst eftir meira samneyti við móður sína og það bersýnilega haft jákvæð áhrif á hann en framkoma vistmóður og barnaverndaryfirvalda hafi með tímanum skapað neikvæða afstöðu í garð beggja foreldranna hjá börnunum.  

Stefnandi leggur einnig áherslu á það að að mati eftirlitsaðila hafi umgengnin ekki leitt í ljós náin tengsl á milli barnanna og móður þeirra en þessu hafa stefndu mótmælt með vísan til málsgagna um hið gagnstæða. Þá bendir stefnandi á það að samkvæmt umsögn meðferðaraðila í Barnahúsi hafi mikil framför orðið á líðan, framkomu og fasi […] barnsins frá því að meðferð hófst eftir flutning hennar á vistheimilið. Í upphafi hafi stúlkan verið lokuð og átt erfitt með að tjá sig, einkenni sem oft megi sjá hjá þolendum ofbeldis og vanrækslu. Nú væri stúlkan hins vegar opin og sjálfsörugg og hefði ekki áhyggjur eða mælanlegan kvíða líkt og í upphafi. Í umsögn meðferðaraðila komi fram að stúlkan hafi verið samkvæm sjálfri sér í frásögn sinni og trúverðug, en af hálfu stefndu hefur verið vísað til gagna um hið gagnstæða. Þá vísar stefnandi loks til þess að bæði börnin hafi lýst því í viðtölum við talsmann þeirra að […]. Þá hafi eldra barnið ítrekað lýst ákveðið þeirri afstöðu sinni að […]. 

Við meðferð málsins var dómkvaddur matsmaður F, sálfræðingur, til þess að meta forsjárhæfni stefndu. Verður nánar gerð grein fyrir matsgerð hans í niðurstöðukafla dómsins.

Að endingu er rétt að árétta það að börnin tvö hafa frá því að hinn ómerkti héraðsdómur var kveðinn upp, þann […]. júlí 2018, áfram verið í umsjá stefnanda. Hafa þau búið á sama vistheimili og áður hjá […]. Liggur einnig fyrir í málinu að stefnandi hefur frá miðju síðasta ári ákveðið að skerða umgengni stefndu B við bæði börnin frá því sem áður var, það er úr tveimur og fjórum skiptum í mánuði niður í eitt skipti í mánuði, auk þess sem stefndi A hefur ekki haft neina umgengni við börnin tvö.

 

III.

Framburður aðila og vitna fyrir dómi

Fyrir dómi gáfu bæði hin stefndu, þau B og A, aðilaskýrslu. Vitnaskýrslur í málinu létu meðal annars í té þeir F, sálfræðingur og dómkvaddur matsmaður, er staðfesti fyrir dómi framangreinda matsgerð sína, sem og E sálfræðingur, er staðfesti fyrirliggjandi matsskýrslu sína varðandi stefndu B, sem einnig liggur fyrir í málinu, svo sem rakið var í málsatvikakafla. Auk þeirra gáfu vitnaskýrslu hér fyrir dómi í málinu þau G og H, starfsmenn barnaverndar Hafnarfjarðar, I, vistmóðir barnanna, J, […] í skóla barnanna, K, talsmaður beggja barnanna, L listmeðferðarfræðingur, M félagsráðgjafi, sem hefur annast eftirlit með umgengni móður við börnin, N, sálfræðingur stefndu B, O sálfræðingur stefndu B, P, móðuramma barnanna, R lögmaður og S, sem hefur nú tekið við eftirliti með umgengni stefndu við börnin.

Rétt er að geta að stefnandi ákvað jafnframt að leggja fram fyrir dóminn endurrit af vitnaskýrslum úr þeirri aðalmeðferð héraðsdóms í máli þessu sem ómerkt var og bað þá síðan tilsvarandi vitni nú um að staðfesta skrifleg endurrit af þeim framburði þeirra. Var stefnanda bent á það að með hliðsjón af meginreglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu fyrir dómi væri a.m.k. ekki unnt að líta á þær skýrslur sem gögn í skilningi VII. kafla laga nr. 91/1991, heldur aðeins sem önnur framlögð gögn í málinu.

Fyrir dómi bar stefnda B um það að hún byggi ein í […] og hefði barist við […] árum saman en hefði nú náð góðum tökum á því. Hún hafi hafið […] nú í haust og gangi vel, sé […] og líði almennt ágætlega sé hún ekki að hugsa um of um þetta mál og börnin sín. Börnin hafi aldrei búið þarna hjá henni en þau þekki vel heimili hennar, eins og það sé þeirra, a.m.k. D, en þau eigi þar sitt dót. Börnin tvö hafi komið þangað í umgengni frá og með […] 2016. Eftir dóm héraðsdóms nú í fyrra hafi umgengni stefndu við börnin þó verið minnkuð úr tveimur skiptum niður í tvær klukkustundir í eitt skipti í mánuði þar sem þau komi til hennar saman undir eftirliti. Drengurinn hafi talað um það að hann vildi gista og sagst vilja komast til stefndu. Aðspurð um tildrög máls þessa kvaðst stefnda í fyrstu hafa talið að lögreglukonan sem hringdi hefði verið að gera at í sér. Stefnda hafi síðan verið í áfalli og ekki trúað því að faðir barnanna hefði gert eitthvað, en hún hafi þó ekki viljað vera í afneitun og viljað styðja dóttur sína, en þó fundist þetta afar langsótt miðað við samband þeirra. Hún hafi þá ekki fengið leiðbeiningar nema um það að hún ætti ekki að ræða um málið við dóttur sína. Fyrst þegar málið hafi komið upp hafi bæði börnin verið tekin í neyðarvistun og stefnda hafi síðan samþykkt áframhaldandi tímabundna vistun þeirra en hún hafi þá ekki haft lögmann. Stefnda hafi þá verið til dvalar á […] og starfsmaður barnaverndar sagt henni að best væri að hún yrði þar áfram og fengi þá alla þá aðstoð sem hún þyrfti þar en sagt að hún yrði að samþykkja vistun því ella færi sú krafa fyrir dóm. Þegar stúlkan hafi svo aftur snúið heim hafi hún spurt stefndu af hverju hún hefði verið í vistun og þá hafi barnavernd ráðlagt henni að svara stúlkunni þannig að hún vissi hvað stúlkan hefði sagt um föður sinn í Barnahúsi þótt hún vissi ekki hvað það var. Stúlkan hafi þá svarað stefndu þannig til að hún hefði ruglast og ekki áttað sig á því að það skipti máli að þau hefðu verið í fötum og að faðir hennar hefði aldrei meitt hana, en þetta hafi verið í […] 2015. Stefnda kvaðst aldrei hafa reynt að hafa áhrif á frásögn dóttur sinnar, eða sagt að hún tryði henni ekki, en aðeins brýnt fyrir barninu að segja sannleikann. Stefnda hafi gagnrýnt starfsmenn barnaverndar og hvernig þeir hafi talað við dóttur hennar og vegna þess hafi sú afstaða vísast orðið til hjá þeim að stefnda stæði ekki með dóttur sinni. Stefnda hafi algerlega verið tilbúin að vinna með barnaverndaryfirvöldum. Í […] 2016 hafi stefndu þannig verið boðin tilsjón sem hún hafi þegið, en aldrei hafnað, auk þess að hafa samþykkt óboðið eftirlit. Þrátt fyrir þetta hafi þó verið úrskurðað um vistun stúlkunnar utan heimilis að nýju, en umgengni stefndu við stúlkuna hafi síðan verið í annarri hverri viku. Stúlkan hafi þá grátið og ekki viljað fara og hún verið miður sín að vera í burtu. Stúlkan hafi annars alltaf verið fremur lokuð tilfinningalega og tjáð sig lítið að fyrra bragði. Hún hafi síðan verið í vistun utan heimilis frá […] 2016 og tengsl þeirra hafi óneitanlega minnkað við hina löngu samfelldu fjarveru. Það sé því mjög eðlilegt, miðað við þessa forsögu, að barnið sækist eftir stöðugleika og að afstaða hennar nú ráðist helst af því. Stefnda hafi ekki skýringu á því hvers vegna dóttir hennar ætti ekki að treysta henni en mögulega hafi barninu verið innrættar slíkar hugmyndir. Telur stefnda að gerlegt væri með aðstoð fagaðila að aðlaga þær mæðgur að nýju. Heimilið sem stúlkan búi nú á sé ekki ákjósanlegt þar sem þar dveljist […] ásamt þeim systkinum, […], auk þess sem stunduð sé […] á heimilinu sem fylgi […]. Fósturfaðir hafi komið fram af virðingu, en fósturmóðir ekki komið fram af heilindum, og þau séu […]. Aðspurð kvaðst stefnda ekki hafa fengið að hitta börnin um síðustu jól. Aldrei hefði henni verið boðin nein ráðgjöf með tengslin við stúlkuna, einungis tilsjón og síðan sálfræðiaðstoð. Sú aðstoð hafi þó aldrei verið veitt og hafi hún því þurft að leita til eigin sálfræðings. Aldrei hafi verið boðin aðstoð fyrir fjölskylduna né verið unnið með mögulega endurkomu barnanna til hennar. D hafi verið vistaður utan heimilis frá […] 2016. Drengurinn sé enn mjög tengdur móður sinni og tengsl þeirra sterk. Það yrði því mun minna mál að aðlaga þau tvö að nýju og hann kalli ítrekað eftir því að fá að vera meira með stefndu og hafi sagst vilja búa hjá henni. Aðspurð kvaðst stefnda ekki hafa fengið neinar ráðleggingar fyrir […] 2016 um það að hún ætti ekki að vera að hitta föður barnanna. Þau hafi þá hist af og til en henni hafi aldrei verið sagt að drengurinn mætti ekki hitta föður sinn. Hún hafi þó aldrei skilið drenginn einan eftir með honum. Þau meðstefndi hafi ekki búið saman, né búi þau saman, frá því að málið hafi komið upp, en drengurinn hafi þá verið ósáttur við það að faðir hans mætti ekki búa hjá þeim. Aðspurð telur stefnda að dóttir hennar hafi ekki orðið fyrir kynferðisbrotum af hálfu föður. Frásögn hennar frá því í […] 2016 verði að virða með hliðsjón af því að þá hafði hún þegar verið í vistun í […] mánuði og ekki séð föður sinn í […] mánuði. Stefnda viti ekki hvað sé rætt við dóttur hennar þar en allar nýjar upplýsingar í málinu virðist þó koma frá vistmóðurinni. Stúlkan taki margt bókstaflega og hafi verið með […] og hafi tilhneigingu til að reyna að þóknast fólki. Hún hafi því vísast tekið umræðu í skóla um einkastaði bókstaflega, en auðvitað komist foreldrar ekki hjá því að snerta á þeim hjá ungum börnum sínum. Það sé ekki saknæmt og hefði […] ekki hafið málið ranglega eins og hún hafi gert hefði upphafleg frásögn stúlkunnar vísast ekki undið þannig upp á sig. Upphaflega hefðu þau foreldrarnir leitað til […] 2014 vegna […] í skóla hjá stúlkunni og hún síðan fengið að fara til hennar eftir þörfum. Umræddan dag hafi hún svo verið hjá […] í tvær og hálfa klukkustund þar sem stúlkan eigi svo undir lokin að hafa sagt þetta sem haldið er fram. Eftir að faðir var sýknaður í sakamáli hafi þó engin áherslubreyting orðið hjá barnavernd og ljóst sé að starfsmenn þar taki ekkert mark á þeim dómi. Stefnda kveðst vera tilbúin til að reyna samstarf í hvaða formi sem er til þess að aðlaga börnin að nýju. Faðir barnanna hafi flutt af heimili þeirra í […] 2015 vegna málsins og þau tvö ekki búið saman síðan þá en þau séu gift og eigi ágæt samskipti sem vinir. Þá kvaðst stefnda ekki kannast við vanrækslu, en stúlkan hefði haft […] frá fæðingu, sem væri ættgengur vandi, auk þess sem hún hefði glímt við […], en […] drengsins og […] hefði í reynd ekki verið stórfellt vandamál. Ekkert hafi verið reynt til að aðstoða með slíkt né verið gerð áætlun fyrir fjölskylduna. Aðeins hafi verið gerð ein áætlun frá desember 2015 og til mars 2016 um að stefnda leitaði sálfræðiaðstoðar og stúlkan færi í viðtöl í Barnahúsi en annað ekki verið reynt. Stefnda hafi ítrekað óskað eftir meiri umgengni við börnin sem hafi ýmist verið neitað eða ekki svarað. Kvaðst stefnda aldrei hafa orðið vör við ofbeldi föður í garð barnanna en þau fjögur hefðu fram til þess að mál þetta hófst […] 2015 lifað mjög venjulegu fjölskyldulífi og aldrei komið fram neinar athugasemdir frá skóla áður en málið hófst. Lýsti stefnda því að áður hefði hún hitt börnin saman aðra hverja viku og drenginn því til viðbótar aðra hverja viku, en nú sæi hún þau aðeins saman einu sinni í mánuði, en flyttust börnin að nýju til hennar þá væri það ljóst að þau kæmu einungis til hennar.                                   

Fyrir dómi lýsti stefndi A því að hann hefði verið að sækja börnin í […]skóla um kl. 14 umræddan dag og síðan ætlað með þau til […]læknis. Lögregla hefði þá hringt í hann og sagt honum að koma upp á lögreglustöð í snatri. Stefndi hefði þá ekki vitað hvers eðlis málið væri og því fyrst farið til læknisins með börnin en svo hringt í tengdamóður sína og beðið hana að sækja börnin þar sem hann þyrfti að fara að ræða við lögregluna, en stefnda B hefði þá verið til dvalar á […]. Þegar komið hafi verið á lögreglustöðina hafi hann verið handtekinn, þá yfirheyrður og svo settur í fangaklefa, en síðan hafi tekið við einangrun í fjórar nætur uns hann hafi svo verið látinn laus. Stefndi hafi alveg komið af fjöllum með þessar ætluðu ásakanir. Síðan hafi hann verið ákærður og svo sýknaður í sakamáli. Eftir það hafi hins vegar aðeins verið haldinn einn fundur hans með barnavernd og þetta engu breytt og hann ekki fengið neina umgengni við börnin í rúm þrjú ár og ekkert mark verið tekið á sýknudómi hans. Engin vanhirða hafi verið fyrir hendi með börnin, stúlkan hafi átt við […] að stríða og læknir talið það vera […], en aldrei verið reynd vægari úrræði en svipting. Stefndi hafi áttað sig á því að hann væri í veikri stöðu á meðan sakamál hans var til meðferðar og hann því ákveðið að halda sig fjarri. Samskipti hans og barnanna hafi ætíð verið góð og stúlkan verið mikil pabbastelpa en drengurinn öllu hændari að móður sinni. Stefndi kunni enga skýringu á því hvers vegna börnin ættu að óttast hann og hann hafi ekkert gert þeim, en búið sé að hræða börnin og gera „grýlu“ úr honum. Málið hafi haft veruleg áhrif fyrir stefnda, en hann hafi ráðlagt stefndu að standa með stúlkunni í þessari stöðu og trúa því sem hún sjálf segði henni en ekki því sem aðrir segðu henni að stúlkan hefði sagt. […] ár sé liðið frá því að hann hafi verið með börnunum og hann hafi því ekkert getað fylgst með þeim. Þegar dóttirin hafi fæðst hafi B […] og hann því verið mikið með stúlkuna og þau þá tengst afar sterkum böndum. Drengurinn hafi jafnan verið meiri mömmustrákur, en […]. Þegar stúlkan var lítil hafi hún haft viss sérkenni, […] Stefndi hafi annars engar skýringar á því af hverju börnin séu fráhverf honum en þær hugmyndir geti aðeins komið frá vistheimilinu sem þau dvelji á. Stefndi kveðst nú tilbúinn til að leyfa allri aðlögun að eiga sér stað með tilheyrandi sérfræðiaðstoð en aldrei hafi þó neitt verið unnið með tengsl hans við börnin þar sem barnavernd virðist sannfærð um að hann sé sekur um að hafa framið skelfilegan glæp.        

Í vitnisburði dómkvadds matsmanns, F sálfræðings, staðfesti hann fyrirliggjandi matsgerð sína í málinu. Kvaðst matsmaður hafa lagt til grundvallar gögn frá barnavernd um að stefnda B hefði ekki verið fús til samstarfs. Mestu varði þó að mikið samræmi hafi verið í frásögnum barnanna, bæði í samtölum hjá honum, hjá talsmanni og meðferðaraðilum í Barnahúsi. Börnin hafi vissulega farið ung í gegnum erfitt ferli en hefðu grunntengsl við foreldra verið heilbrigð og sterk hefði þó annað átt að koma fram varðandi tengslarof en raunin hefði orðið við athugun hans. Veikleikar hefðu verið greinilegir í forsjárhæfni en hið meinta kynferðisbrot hefði þó vegið einna þyngst. Börnin hafi verið samkvæm sjálfum sér um það að eitthvað mikið hefði gengið á, hvað svo sem nákvæmlega það hafi verið og þau sýni þess skýr merki. Aðspurður kannaðist matsmaður við það að hafa séð greiningarmerki hjá stefndu B varðandi […] og það gæti vissulega haft áhrif á tengslamyndun en hann treysti sér ekki til að meta slíkt varðandi stúlkuna C. Matsmaður taldi að aldur og þroski barnanna, þ.e. […] og […] ára, væri slíkur að stúlkan hefði ótvírætt þroska til að álit hennar hefði þýðingu en þetta væri meira álitamál með drenginn sem væri […] ára og hefði því ekki sams konar heildarsýn. Ekki væri útilokað að byggja upp rofin tengsl við foreldri en þá þyrftu forsendur að vera töluvert aðrar og breyttar. Þegar matsmaður hafi rætt við börnin hafi […]. Hvað varði innbyrðis tengsl barnanna tveggja þá hafi stúlkan sýnt verndandi tilfinningar gagnvart litla bróður sínum í því sem hún sagði og hún tengist greinilega bróður sínum sterkt auk þess sem börnunum virtist líða vel í aðstæðum sínum á fósturheimilinu. Taldi matsmaður ljóst að fósturhæfni foreldranna hefði verið skert og eitthvað mikið hefði gengið á, en það að svo ung börnin virtust frekar fagna því að komast frá heimilinu væri heldur óvenjulegt. Þau hafi síðan almennt bæði verið að bæta sig og styrkja hjá vistforeldrum. Matsmaður kvað stefnda A í viðtölum hafa virkað á sig sem viðkunnanlegur en frásagnir barnanna, sem virðist heilt yfir vera mjög samkvæm sjálfum sér, gefi það þó eindregið til kynna að eitthvað mikið hafi gengið þarna á. Hafi matsmaður því, þrátt fyrir sýknudóm stefnda A í sakamáli, ekki getað litið fram hjá tilfinningalegum og hegðunartengdum viðbrögðum beggja barnanna. Matsmaður hafi í samtölum sínum við börnin upplifað þennan ótta hjá þeim báðum og það hafi verið […]. Tilgáta um innrætingu hjá börnunum sé að mati matsmanns afar langsótt og ólíkleg skýring. Matsmaður telur það vera afgerandi niðurstöðu sína að það sé að óbreyttu börnunum ekki fyrir bestu að fara aftur í umsjá foreldra sinna. Matsmaður kvaðst þá aðspurður einnig vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, […] 2018, og hann stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram.            

Í vitnisburði E sálfræðings, er gaf nú skýrslu í síma fyrir dómi, staðfesti hann að hafa gert framlagða matsgerð um forsjárhæfni stefndu B frá því fyrir tæpum þremur árum, dags. 7. nóvember 2016, er getið var um hér áður. Aðspurður kvaðst vitnið enn geta staðið við allt er þar kæmi fram. Hann hafi byggt matsgerð sína á fyrirliggjandi gögnum frá barnavernd, auk þess sem hann hafi tekið viðtöl við stefndu B og lagt fyrir hana sálfræðipróf og hafi einnig verið viðstaddur umgengni hennar við börnin tvö, skoðað heimili hennar og rætt við fósturforeldra, en matið byggist á þessu öllu. Ekki hafi verið nein fjölskylduráðgjöf í gangi á þessum tíma en stefnda hafi sótt ráðgjafarviðtöl hjá barnavernd og málið þá verið í rannsóknarferli. Vitnið telji að sýknudómurinn yfir föður barnanna hafi í reynd engu breytt um stöðuna hvað varði mat hans á forsjárhæfni stefndu því það hefði eftir sem áður verið eðlilegra viðhorf hjá henni að setja börn sín í forgang í samstarfi við barnavernd á meðan svo alvarlegt mál hefði enn verið til rannsóknar. Stefnda hafi verið afar ósammála nálgun barnaverndar í málinu og legið hafi fyrir að hún væri ófús til samstarfs við barnavernd. Matið hafi leitt í ljós að stefnda hefði ekki næga forsjárhæfni en vitnið hefði þó lagt áherslu á að endurmeta yrði það að nýju síðar þegar málið væri komið í betri farveg. Stefndu hafi ekki verið treystandi því hún hefði ekki tekið skýra afstöðu með börnunum, en fyrir hefði legið að faðir barnanna hefði enn verið að koma á heimili hennar eftir að málið kom upp. Einnig hafi verið saga um ákveðna vanrækslu og skort á innsæi í þarfir barnanna. Vitnið kvaðst kannast við að vinna mikið fyrir barnaverndarnefndir en taldi þó að hann gæti verið hlutlaus í þessari vinnu við mötin og að hann legði metnað sinn í það. Vitnið kvaðst þá aðspurður einnig vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, frá […] 2018, og hann stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram.          

Vitnið G, félagsráðgjafi hjá barnavernd í Hafnarfirði, kvaðst hafa unnið að máli þessu því sem næst frá upphafi. Hún væri enn að vinna að þessu máli, það væri þá tengt eftirfylgni með umgengni, óskum um aukaumgengni, ef börnin þyrftu aðstoð o.fl. Börnin tvö dvelji enn á sama vistheimili hjá þeim I og U og fyrir liggi að þar fái þau að vera áfram þar til þau vilji flytja að heiman sem fullorðnir einstaklingar. Þessi vetur hafi verið afar erfiður börnunum þar sem endalaus málaferli í þessu máli reyni mjög á þau og erfitt sé að útskýra þetta síendurtekna ferli á mismunandi dómstigum fyrir þeim. Þá hafi stúlkan í haust […]. Börnin haldi sig enn við sömu frásögn og frá því […] 2015, það er að faðir þeirra hafi meitt þau, og það hafi ekkert breyst. Á tímabili hafi stúlkunni verið tíðrætt um þá minningu að foreldrar þeirra hefðu slegið til þeirra, og þá einkum drengsins, og hann verið með ákveðið viðbragð í því sambandi. Móðirin hafi kosið að trúa börnunum ekki og sagt að drengurinn lygi en einnig sagt að stúlkan hefði sagt sér að hún hefði bara ruglast og að hún tryði einungis þeirri frásögn hennar. Móðirin hafi í raun sjálf tekið þann kost að halda sig frá málinu árið 2016 og það hafi því verið lítið samband og engin samvinna af hennar hálfu. Faðir barnanna hafi svo verið sýknaður en börnin þó ekki breytt frásögn sinni og barnavernd beri að tryggja öryggi þeirra og velferð. Stúlkan hafi verið mjög afgerandi í afstöðu sinni og alfarið hafnað aukinni umgengni við móður en börnin hafi jafnan viljað halda umgengni í þeim skorðum sem hún er. Stúlkan hafi líka verið mjög afgerandi í því að vilja áfram búa hjá I og U, en drengurinn sé ekki jafn mikið að spá í þetta, hafi minni yfirsýn, en vilji þó jafnan hafa systur sína með sér í heimsóknum. Óöryggið í kringum málið leggist nú afar þungt á stúlkuna sem sé orðin nógu þroskuð til þess að skilja betur aðstæðurnar og hún eigi erfitt með að rifja þetta svona stöðugt upp og gráti þá. Eftir héraðsdóminn í […] 2018 hafi umgengni við móður verið minnkuð til að reyna að skapa meiri ró og stöðugleika en það sé almennt verklag þegar búið sé að svipta forsjá. Umgengnin við móður sé enn undir eftirliti. Í fyrstu hafi alls konar aðstæður verið að koma upp í tengslum við umgengnina og engin heilindi verið í samstarfinu við móður þar sem hún tryggði þá ekki nægilega að faðir barnanna héldi nauðsynlegri fjarlægð. Síðar hafi verið reynt að gera eftirlitið frjálslegra en stúlkunni þá þótt það ótryggt og viljað hafa eftirlitskonu viðstadda til að skapa öryggi og drengurinn líka minnst á það. Varðandi málsmeðferðina þá hefði vissulega mátt standa betur að málum í tengslum við meðferðaráætlanir en í tvígang hafi þó verið send út drög en engin viðbrögð komið frá stefndu og því hafi ekki verið gerðar frekari áætlanir. Þó hafi verið gerð áætlun í upphafi en stefnda dregið sig út úr því og afþakkað. Þá hefði átt að gera einhliða áætlanir en alltaf hafi þó legið fyrir úrskurðir um umgengni. Vitnið hafi unnið að málinu nánast frá byrjun þess. Það hafi verið hringt frá skólanum og málið útskýrt og þá verið farið í að reyna að ná til barnanna sem hafi þá verið í umsjá föður en móðirin […]. Lögreglan hafi hringt í föðurinn og kallað á hann í skýrslutöku en […] síðan komið með börnin. Samstarfsmaður hennar, H, hafi svo tekið að sér að nálgast móðurina. Farið hafi verið með börnin í skoðun á spítala og svo farið með þau á vistheimilið. Faðir barnanna hafi svo verið settur í gæsluvarðhald. Móðirin hafi strax brugðist við tíðindunum með því að hringja í föður barnanna og þá upplýst hann um allt sem barnavernd hafði rætt við hana. Síðan hafi samskiptin verið þannig að móðirin hafi verið mun meira samvistum við föðurinn en til hafi staðið miðað við aðstæður í kringum […] 2015 […]. Síðan hafi komið fram ásakanir móður á hendur […] sem tilkynnti málið og á skólann. Þá hafi verið haldinn foreldrafundur í janúar 2016 þar sem stefndu hafi mætt saman og þá talað eins og þau byggju enn saman. Þá hafi stefnda B ekki svarað ítrekuðum símtölum frá Barnahúsi og sérfræðingar þar ekki talið mögulegt að halda meðferð áfram á meðan móðir væri ekki til samvinnu um stuðning við stúlkuna. Eftir að faðirinn var síðan sýknaður vegna ónógrar sönnunar í sakamáli í […] 2017 hafi barnavernd staðið uppi með börnin tvö sem staðhæfi ennþá að faðir þeirra hafi meitt þau og að þau hræðist hann og vilji ekki vera nálægt honum. Barnavernd verði að nálgast málið út frá hagsmunum barnanna og gerð hafi verið skýrsla eftir fund þar í desember 2017 þar sem ákveðið hafi verið að halda forsjársviptingarmálinu áfram eftir sem áður. Reynt hafi verið að vinna með móðurinni frá upphafi en hún verið ófús til nauðsynlegrar samvinnu við barnavernd. Móðirin hafi í upphafi samþykkt vistun barnanna utan heimilis og barnavernd talið hana fúsa til samstarfs í fyrstu, í […] 2015. En eftir […] 2016 hafi sú staða gerbreyst eftir foreldrafundinn í skólanum þar sem faðir barnanna hafi komið með henni og þau talað eins og hann hefði verið þar heima kvöldið áður og stefnda þá auk þess ekki svarað símtölum vegna viðtala í Barnahúsi. Þá hafi verið búið að gera stefndu það ljóst að faðir barnanna mætti ekki vera hjá henni með börnunum á meðan rannsókn á máli hans stæði yfir, þó svo að það hafi ekki verið gert skriflega, en fram hafi farið óboðað eftirlit. Tilraunir til samstarfs við stefndu hafi verið gerðar frá október 2015 til janúar 2016, en síðan ekki verið unnt að grípa til vægari úrræða miðað við viðbrögð stefndu og alvarleika málsins að mati starfsmanna stefnanda. […]. Ekki hafi verið talið fýsilegt að færa málið yfir til annarra barnaverndaryfirvalda. Þegar barnaverndaryfirvöld hafi fyrst komið inn á heimilið hafi drengurinn reynst vera […] og stúlkan […]. […] þeirra hafi verið boðið að taka þátt í umgengni en fyrir liggi mál hjá stefnanda um kröfu um frekari umgengni þeirra. Stúlkan sé farin að gera sér glögga grein fyrir þessu máli öllu en hafi miklar áhyggjur af því að standa sig ekki nógu vel fyrir dómi og óttast að […]. Drengurinn hafi ekki verið […] þegar málið kom upp en hann leiti mjög til fósturforeldra og fólki í Barnahúsi þyki hann trúverðugur í frásögn. Báðum börnum sé nú vel sinnt en viðraðar hafi verið hugmyndir um stuðningsfjölskyldu eða tengingu við fólk í fjölskyldu þeirra. Þó verði að gæta þess að stúlkan sé ekki sett í þá stöðu að hún fái samviskubit. Vistforeldrarnir séu afar eljusöm við að sinna börnunum þó svo að þau séu […]. Vitnið kvaðst aðspurð einnig vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og að hún stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram.           

Vitnið H félagsráðgjafi bar fyrir dómi að hann hefði frá upphafi unnið að málinu hjá barnavernd Hafnarfjarðar en að hann hefði tekið þar við öðrum málaflokki á síðasta ári. Vitnið hafi þegar málið kom fyrst upp farið […] að hitta stefndu B. Stefnda hafi þá fallist á vistun barnanna þar sem móðir hennar hafi þá ekki getað verið með börnin og til þess að stefnda gæti klárað meðferð sína á […]. Eftir að stefnda hafi síðan komið heim og þá fengið börnin til sín hafi svo komið í ljós að stefnda hefði ekki gætt að því að taka stöðu með stúlkunni á meðan mál eiginmanns hennar var til rannsóknar. Það hafi vissulega þurft þrjár erfiðar skýrslutökur í Barnahúsi áður en stúlkan hafi opnað sig um málið en allt frá því að hún hafi gert það hafi hún ekki hvikað frá þeirri frásögn sinni. Vitnið kvaðst ekki vera ánægður með málsmeðferðina yfirleitt þessi fjögur ár frá því að málið kom upp. Stúlkan hafi myndað trúnaðarsamband við […]kennara í […] og þar sagt fyrst frá ætlaðri misnotkun föður og síðan aldrei hvikað frá þeirri frásögn, en að þurfa síðan að endurtaka þetta fyrir framan margt fólk sem hún þekki hvorki né treysti sé henni afar erfitt. Í ferlinu í desember 2015 og í janúar 2016 hafi svo ýmislegt komið upp í samstarfi við stefndu B. Fjölskyldan hafi öll verið mikið saman í […]. Stefnda hafi síðan borið því við að hún hafi ekki vitað betur, en ætla verði að þetta hafi verið verulegur dómgreindarbrestur hennar, eins og málið stóð þá, það er að þau hjónin væru þannig saman á meðan mál föður gagnvart dóttur voru enn til rannsóknar. Eitt og annað af þessu tagi hafi gefið vísbendingar um það að stefnda væri ekki fær um eða tilbúin til að vernda stúlkuna og því hafi komið til sviptingarinnar í […] 2016. Starfsmenn stefnanda hafi svo reynt að fá stefndu til að skilja alvarleika málsins, en án árangurs, og á þessum tíma hafi fjölskyldumeðferð ekki verið raunhæft úrræði. Margoft hafi síðan verið rætt við börnin og þá komið skýrt fram að stúlkan vildi […] og að börnin tvö […] og starfsmenn stefnanda staðið með þeim í því, enda hafi barnavernd jafnan haft hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Ákveðið hafi verið að draga úr umgengni eftir héraðsdóminn í […] 2018 þar sem þá hafi verið stefnt að varanlegu fóstri, en svo mikil umgengni hafi verið erfið fyrir börnin, og þá einkum stúlkuna. Börnin tvö hafi, þrátt fyrir sýknudóm föður þeirra í sakamáli, aldrei dregið framburð sinn til baka hvað hann varði. Vitnið kvaðst enn fremur aðspurður vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og að hann stæði enn við allt það sem þar hafi komið fram.

Vitnið I, vistmóðir barnanna, bar fyrir dómi að börnin tvö byggju hjá henni og eiginmanni hennar, en þau væru nú vistforeldrar þeirra. Eftir að niðurstaða héraðsdómsins í […] 2018 lá fyrir hafi G útskýrt fyrir börnunum að málinu hefði verið áfrýjað og þau þyrftu þá hugsanlega að fara fyrir dóm aftur. Þau hafi verið í sumarbústað þegar dómurinn barst og hafi verið fegin að fá tíðindin um að nú væru þau örugg. Þeim líði yfirleitt vel, […]. Áframhaldandi dómsmeðferð í málinu hafi reynt mjög á bæði börnin, en þau séu nú bæði tímabundið komin […] sem hafi hjálpað mikið. […]. Drengurinn sé nú miklu öruggari með sig, […]. Börnin geti búið og vilji búa áfram á vistheimilinu og þau séu orðin eins og hluti af fjölskyldu hennar eftir þessi bráðum fjögur ár. Aðspurð kvaðst vitnið aldrei hafa reynt að hafa áhrif á börnin og aldrei hafi verið rætt við þau um þeirra fyrra líf að fyrra bragði. Stúlkan sé mjög staðföst, og drengurinn vilji líka vera áfram hjá þeim, en hann sé enn það ungur að hann skilji aðstæðurnar ekki eins vel. Börnin hafi óttast föður sinn mjög en ekki móður en stúlkan hafi ekki þessi tengsl við móður sem drengurinn hafi og vilji stundum alls ekki þessa umgengni. Drengurinn biðji þó aldrei um að fara til móður en honum þyki það þó alveg ágætt að hitta hana. Þá hafi stúlkan t.d. nefnt við vistmóður í eitt sinn að hún vildi ekki vera […] og þetta hafi komið henni í opna skjöldu. Drengurinn hafi um tíma átt mjög erfitt og þótt það óþægilegt að vera úti að leika sér utan við garðinn á vistheimilinu af ótta við það að […]. Lýsti vitnið því að þau væru með […]. Þau hjónin séu nú […] og […] ára og […] á heimilinu, […]. Þau fái um […] krónur greiddar með börnunum tveimur á mánuði, sem séu nýttar í þágu barnanna. Stúlkan hafi kviðið nokkuð fyrir því að fara […] og þá hafi […] komið upp aftur. Þá sæki stundum á hana endurminningar um það sem kom fyrir hana og valdi það henni þá vanlíðan. Varðandi það að drengurinn sé […], þá telji vitnið að hin framlengda dómsmeðferð hafi reynt mjög á börnin og rifji upp fyrir þeim vondar minningar sem valdi þeim vanlíðan. Vitnið kvaðst trúa því sem börnin hefðu sagt um misnotkun föður. Drengurinn hafi eftir að hann kom í síðara skiptið til hennar getið þess eitt sinn að hann og pabbi ættu saman leyndarmál sem væri það að pabbi […]. Þá hafi stúlkan sagt henni fljótlega eftir að hún kom fyrst að pabbi hefði meitt hana […]. Hvorugt barnanna vilji hitta föðurinn en drengurinn sé kærleiksríkur í garð móður sinnar. Stúlkan virðist vera fremur köld í garð móður sinnar en vilji þó geta komið til hennar til þess að geta leikið sér þar með gamla dótið sitt. Vitnið kvaðst þá aðspurð staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og standa enn við allt það sem þar hefði komið fram.          

Vitnið J, […] í […], bar hér fyrir dómi að haustið […]  hefði stúlkan C byrjað í […]. bekk skólans. Móðir hennar hafi síðan komið og rætt um áhyggjur sínar af stúlkunni bæði tengdar skólanum en einnig heima fyrir. Ákveðið hafi verið að styrkja stúlkuna sérstaklega til að […]. Í […] 2015 hafi verið beðið um frumgreiningu og niðurstaðan orðið sú að stúlkan væri yfir mörkum í […] en ekkert komið fram tengt […]. Hafi þá verið ákveðið að stúlkan færi til vitnisins í svokallaða […]-vinnu til að læra á tilfinningar sínar og […] og hafi sú vinna lofað mjög góðu þegar komið var […] 2015. Hafi þá verið ákveðið að stúlkan mætti áfram koma eftir þörfum og hafi hún þá stundum komið og þetta gengið þannig fram […] 2015. Þegar stúlkan kom svo […] 2015 þá hafi verið opið inn á skrifstofu vitnisins og stúlkan komið inn og þá aðspurð sagst vilja koma í […] þar sem hún valdi að tala um […]. Síðan hafi komið þarna fram hjá stúlkunni að […] og svo hafi hún brotnað niður og grátið í fanginu á vitninu og mikil angist verið í svip hennar en stúlkan hafi verið mjög lengi að koma þessu frá sér. Vitnið hafi þá hringt í barnavernd og verið tjáð að H og G myndu koma en faðirinn hefði þó áður komið og sótt börnin. Vitnið kvað viðtalið hafa verið alfarið á forsendum stúlkunnar og hefði hún verið stöðvuð þarna þá hefði hún vísast aldrei getað sagt frá. Vitnið hafi metið barnið í hættu og aldrei verið í vafa um að rétt hefði verið að tilkynna málið um leið og þetta lá svona fyrir. Vitnið gat um það að áður hefði borið á […] hjá stúlkunni og […]. Þá hafi verið áberandi […] hjá D bróður hennar. Frá haustinu 2015 og fram til […] 2018 hafi skólinn reynt að styðja sem best við stúlkuna því hún hafi haft verulegar áhyggjur af því að […]. Þá hafi borið á vanlíðan sem virtist tengd dögum þegar umgengni var við móður en stúlkan hafi yfirleitt ekki rætt um móður sína að fyrra bragði en oft sagst vilja fá að vera hjá I og U. D hafi komið í skólann haustið […] og verið áberandi pirraður þegar liðið hafi að umgengni en önnur kona hjá skólanum mest sinnt honum. Drengurinn hafi átt afar erfitt tímabil nú í vor þegar fyrir lá að hann ætti að koma aftur fyrir dóm og þurft hafi að kalla til sálfræðing í gegnum barnavernd. Hafi drengurinn sýnt mikið óöryggi og reiði en líka skrifað eitt sinn niður að […]. Drengurinn tali líkt og systir hans um það að hann sé öruggur hjá I og U en hann hafi ekki tjáð sig sérstaklega í skólanum um […]. Samskipti við foreldrana hafi verið ágæt áður en málið kom upp, en verið mjög erfið eftir það, og móðirin og móðuramma þá sakað vitnið um það að hafa komið máli þessu til leiðar. Samskipti við vistforeldrana hafi verið afar góð og börnin virst fljót að tengjast þeim og sé greinilega vel séð um börnin þar og þau virðist njóta þar ástúðar og umhyggju. Vitnið taldi að hún hefði alls ekki leitt stúlkuna í […] 2015. Þá kvaðst vitnið kannast við að þessi skólavetur hefði verið sérlega erfiður fyrir drenginn. Vitnið kvaðst einnig aðspurð vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og að hún stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram.  

Vitnið K, félagsráðgjafi hjá barnavernd Reykjavíkur, sem tilnefnd var sem talsmaður C og síðar D, kom fyrir dóminn. Voru þar bornar undir hana tvær nýjar talsmannaskýrslur hennar, báðar dags. 1. apríl 2019, sín um hvort barnið, sem vitnið staðfesti. Hvað varðaði skýrsluna um C kannaðist vitnið við að stúlkunni liði nú verr en áður. Hún kvaðst hafa hitt stúlkuna í alls níu skipti, síðast í desember 2017, en þá hefði stúlkan átt erfitt með að […]. Ljóst sé frá upphafi og hún hafi tjáð það í öll skiptin að hún vilji búa hjá I og U. Þá hafi stúlkan sagt að hún […]. D sé mun lokaðri og erfiðara að ráða í hans afstöðu. Hann hafi þó virst mun opnari gagnvart þeim möguleika að flytja aftur til móður en ekkert talað um föður og sé greinilega tengdari móður en systir hans virðist vera. D kveðst vitnið hafa hitt í alls fimm skipti sem talsmaður. […]. Afstaða C virðist ígrunduð en D bregðist meira við eftir líðan hverju sinni og sé hann ekki eins dómbær og stúlkan á það hvað sé honum fyrir bestu. Sem talsmaður kvaðst vitnið hafa nokkrar áhyggjur af því hversu margir væru að tala við börnin um málið og það væri vísast stór ástæða fyrir vanlíðaninni nú. Systkinin séu tengd sterkum böndum og þeim þyki mjög vænt hvoru um annað, þar sem hún passi upp á hann, en aðskilnaður myndi ótvírætt reynast þeim báðum mjög erfiður. Vitnið kvaðst fyrst hafa hitt stúlkuna í júlí 2016 en drenginn í september sama ár. Hún kvaðst hafa rætt við börnin einslega á vistheimilinu, en þar virðist þau telja sig örugg. Vitnið kvaðst einnig aðspurð vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og standa enn við allt það sem þar hefði komið fram.

Vitnið L listmeðferðarfræðingur gaf skýrslu í síma fyrir dómi. Bar vitnið um það að síðan síðasta sumar hefði D haldið áfram hjá henni í listmeðferð en C hefði nú lokið sinni meðferð. Hann hafi verið að fá […] sem virtist tengjast því að verið væri að opna þessi mál aftur og það hafi valdið honum ólgu og óöryggi, en honum virtist líða betur nú eftir að […]. […]. Það væri alls ekki til bóta ef hann færi aftur til foreldra sinna miðað við það sem hann segi. Allt rótið eftir að málið var tekið upp aftur valdi drengnum greinilega óöryggi. Stúlkan hafi áður verið hjá henni í meðferð og hún þá tjáð öryggi sem heima hjá I og U og tjáð skýrt […]. Aðspurð kvaðst vitnið nú hafa hitt drenginn í um 60 skipti alls. Vitnið kvaðst einnig aðspurð vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og að hún stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram. 

Vitnið M, félagsráðgjafi hjá barnavernd í Reykjavík, gaf skýrslu í síma fyrir dómi. Vitnið kvaðst aðspurð lengstum hafa haft eftirlit af hálfu barnaverndar með umgengni C og D við stefndu móður þeirra. Bar hún að endurteknar skýrslutökur fyrir dómi væru farnar að reyna mjög á börnin og […]. Hún hafi annars hætt að hafa umsjón með umgengninni eftir mitt síðasta ár. Almennt hafi umgengnin gengið misjafnlega og hún verið öryggisventill, og einkum fyrir stúlkuna. Henni hafi þótt drengurinn sýna viss tengsl við móðurina en stúlkan síður. Hún hafi þekkt börnin síðan 2016 og henni þótt stúlkan vera orðin miklum mun sjálfstæðari, öruggari og opnari en áður var, en það hefði hins vegar verið dagamunur á drengnum. Vitnið kvaðst einnig aðspurð vilja staðfesta orðréttan framlagðan framburð sinn fyrir dómi, dags. […] 2018, og að hún stæði enn við allt það sem þar hefði komið fram.

Vitnið N sálfræðingur gaf skýrslu fyrir dómi í síma. Kvaðst vitnið fyrst hafa fengið stefndu B til sín í viðtal 27. júní 2017, en alls hefðu þetta verið 23 meðferðarviðtöl sem hefði lokið upp úr síðustu áramótum. Fyrst hafi stefnda verið í miklu uppnámi yfir málinu og sagt að það hefði verið mikið áfall þegar málið hefði komið upp og hún þá raunar gengið í gegnum fleiri áföll, t.d. […]. Stefnda hafi lýst langri sögu um […] og að hún fyndi til mikils saknaðar og sorgar vegna barnanna en síðar hafi áherslan orðið meiri á að komast í gegnum daglega lífið. Stefnda hafi verið opin og einlæg og mikið velt málinu fyrir sér frá öllum hliðum og þá ekki síst sínum eigin viðbrögðum og hvað hún hefði getað gert betur og öðruvísi sem og hvað væri best fyrir börnin í þessari erfiðu stöðu. Stefndu hafi þótt vera brotið á sér og þótt erfitt að skilja af hverju börnin voru tekin af henni. Stefnda hafi talið sig hafa reynt að fara eftir fyrirmælum barnaverndar en hún ekki fengið þaðan nógu skýr fyrirmæli. Stefnda hafi virst vera skýr í hugsun en foreldrahæfnin hafi ekki verið metin. Vitnið hafi þá bent stefndu á að starfsmenn skóla ættu ekki að yfirheyra börn. Síðast er vitnið hafi hitt stefndu hafi hún fundið til […].  

Vitnið O sálfræðingur bar hér fyrir dómi að hún kannaðist við þau skjöl sem frá henni séu í málinu. Vitnið kvaðst hafa þekkt stefndu B frá því að […] hafi fyrst vísað stefndu til sín árið 2010, eftir að hún hafði þá glímt við […], og svo hafi hún aftur komið í viðtöl 2014, en síðan fengið […] og staða hennar þá orðið betri. Síðan hafi líf stefndu aftur tekið aðra og verri stefnu vegna […] og áföll riðið yfir fjölskylduna þegar […]. Stefnda hafi farið á […] 2015 og síðan leitað til vitnisins þegar mál þetta hafi farið af stað. G hefði þó fyrst haft samband við vitnið 2015 og beðið hana að veita konu sálfræðiviðtöl sem síðar hefði komið í ljós að var stefnda. Hafi vitnið orðið við þessu og þær síðan hist reglulega upp frá því en þó ekki fyrir milligöngu stefnanda þar sem slík formleg beiðni hefði aldrei borist sér. Vitnið hafi svo upp frá því fyrst og fremst litið á sig sem stuðningsaðila fyrir stefndu í gegnum öll þessi áföll sem hún hafi þurft að þola. Vitnið kvaðst ekki telja að stefndu hefði skort forsjárhæfni en hún hefði þó oft reynt að bera sig eftir stuðningi og ráðum. Stefnda hafi þannig í kringum 2014 rætt nokkuð við vitnið um stöðu dóttur sinnar og að mögulega […]. Vitnið telur að stefnda hafi ekki verið sátt við þessi miklu inngrip í líf fjölskyldunnar og vísast eitthvað í hennar framkomu verið túlkað sem skortur á samstarfsvilja. Stefnda hafi átt erfitt með að taka við stuðningi frá sama fólki og ruddist þannig inn í líf hennar og væri vafasamt blanda þessum hlutverkum þannig saman. Stefnda hafi átt erfitt með að trúa slæmu upp á mann sinn en þó viljað láta dóttur sína njóta alls vafa.   

Vitnið P, móðuramma barnanna tveggja, gaf vitnaskýrslu fyrir dómi. Hún hafi […] en síðan flutt til […] 2015. Vel hafi verið séð um börnin en stúlkan hafi jafnan verið […]. Frá því í […] 2016 hafi vitnið aðeins fengið að hitta stúlkuna í fjögur skipti en hún margoft beðið um að fá að hitta börnin oftar en því yfirleitt verið svarað seint og illa. Vitnið hafi mætt tvisvar á fundi með stefndu dóttur sinni vegna málsins. Þær hafi fyrst talið að málið yrði leist fljótlega og ekki órað fyrir þeim ósköpum er svo hefðu gengið  á og þær ekki gert sér grein fyrir þessu og verið í sjokki. Ekki hafi síðan auðnast að vista börnin hjá vandamönnum þar sem sagt hafi verið að fjölskyldunni væri ekki treyst. Vitnið hafi þó nú fyrir skömmu rekist á stúlkuna í sundi og hún þá heilsað henni og þær fallist í faðma. Þær mæðgur hafi jafnan verið í daglegu sambandi og heilsufar barnanna hafi ekkert skorið sig úr að því er hún best vissi. Þetta hafi verið venjuleg börn, hún hændari að föður en hann að móður. Vitnið kunni enga skýringu á framvindunni en börnunum hafi verið haldið frá fjölskyldunni í lengri tíma og þau viti nú ekkert um föður sinn nema af afspurn. Aldrei hafi vitnið orðið vör við neitt ofbeldi á heimilinu og stefnandi aldrei spurt hana hvort hún gæti tekið börnin að sér.

Vitnið R, fyrrum lögmaður stefndu B, bar fyrir dómi að hún hefði fyrst komið að málinu í […] 2016. Stefnda hafi þá lítið náð sambandi við þann lögmann sem fyrst hafi farið með málið fyrir hana og þá greinilega þegar orðin erfið staða í samskiptunum við barnavernd sem vinna hafi þurft með. Þarna hafi verið nýbúið að taka drenginn líka í vistun. Reynt hafi verið að ná samstarfi við barnavernd en síðan orðið augljóst að engin málamiðlun kæmi til álita af hálfu stjórnvaldsins. Afstaða þess hafi verið sú að börnin skyldu áfram vistuð utan heimilis og umgengni við móður vera lítil sem engin. Þarna hafi því þegar verið komið upp mikið vantraust og samskiptavandi allur verið skrifaður á reikning stefndu þótt henni væri ekki alltaf um að kenna. Vitninu hafi blöskrað ofsinn í málinu og hvernig starfsmenn stefnanda hafi talað til stefndu, sem sé afar óvenjulegt. Enginn vilji hafi verið til að reyna neitt annað en sviptingu og tregða verið til að veita umgengni þótt stefnda væri undir eftirliti, gagnvart konu sem ekki var sakborningur. Sýknudómur stefnda A hafi svo engu breytt um stöðuna og H þá sagt að þá yrði þeim bara náð á vanrækslunni en aldrei hafi þó verið reynt að vinna nokkuð með þann þátt málsins. Hvað varði hina meintu vanrækslu þá hafi það aldrei verið ástæða vistunar barnanna og það í raun ekki komið til umfjöllunar fyrr en síðar, þegar stefndi var sýknaður. Meðferðaráætlun hafi ekki verið reynd fyrr en 2016 en vistun í raun staðfest vegna sakamálsins. Aldrei hafi komið til tals að börnin yrðu vistuð hjá vandamönnum og það ekki þótt raunhæft en ömmur barnanna síðan ekki fengið að hitta börnin nema með eftirgangsmunum. Vitnið kvaðst hafa verið í sambandi við Barnaverndarstofu vegna málsmeðferðarinnar þar sem barnavernd í Hafnarfirði hafi borið af leið og ekkert gert til að viðhalda tengslum.       

Vitnið S félagsráðgjafi bar fyrir dómi að hún hefði tekið við eftirliti með umgengni stefndu við börnin tvö í janúar 2019 en áður þó komið að sem slík með öðrum. Þau skipti sem hún hafi verið viðstödd hafi gengið vel og stefnda þá lagt sig fram við að gera eitthvað með börnunum. Börnin virðist þekkja heimilið nokkuð vel og séu þar eins og venjuleg systkini. Börnin séu ólík þar sem hann sé virkari en hún rólegri en vitnið greini ekki muninn á tengslum móður við þau.

 

IV.

Málsástæður og lagarök aðila

Málsástæður og lagarök af hálfu stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að afstaða stefndu B gagnvart ásökunum barnanna sé óbreytt. Stefnda telji að málssókn á hendur stefnda A hafi verið á misskilningi byggð og að stefnandi hafi farið offari í málinu. Með hliðsjón af því njóti börnin ekki stuðnings stefndu í málinu, en að mati meðferðaraðila í Barnahúsi ráði það úrslitum um velferð þeirra til langframa. Séu stefndu þannig vanhæf til að fara með forsjá barnanna þar sem heilsu þeirra og þroska sé hætta búin í umsjá þeirra við óbreyttar aðstæður.

Í munnlegum málflutningi vísaði stefnandi til þess að vilji barnanna til búsetu væri skýr. Þau vilji búa áfram á vistheimilinu. Þrátt fyrir sýknudóm í máli ákæruvaldsins gegn föður þeirra lýstu þau ákveðnum upplifunum sem ekki væri hægt að horfa fram hjá. Börnin njóti hér vafans og í barnaverndarmálum skuli ætíð hafa að markmiði það sem þeim er fyrir bestu.

Stefnandi byggi kröfu sína um forsjársviptingu á því að ákvæði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Stefnanda beri skylda til þess að tryggja grundvallarréttindi barnanna samkvæmt barnaverndarlögum, að börnin megi búa við stöðugleika í uppvexti og við þroskavænleg skilyrði.

Með hliðsjón af öllu framansögðu um málavexti og gögnum málsins sé það mat stefnanda að hagsmunir barnanna verði ekki tryggðir með öðru móti en því að krefjast þess að stefndu verði svipt forsjá barnanna svo hægt sé að finna þeim varanlegt fóstur.

Að mati stefnanda hafi önnur og vægari úrræði barnaverndarlaga verið fullreynd. Ekki hafi tekist að koma á samvinnu við stefndu B um að hún taki skýra afstöðu með börnunum og veiti þeim viðeigandi vernd.

Um lagarök sé einkum vísað til barnaverndarlaga nr. 80/2002, og til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 18/1992, auk laga nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök af hálfu stefndu B

Stefnda mótmælir málsástæðum stefnanda. Byggi hún sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á það að skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu.

Málsástæður stefnanda séu af þeim toga að málsgrundvöllur sé þar ekki lengur til staðar eftir sýknudóm í máli ákæruvaldsins gegn stefnda A. Ástæða forsjársviptingar sé eingöngu sögð vera afstaða stefndu B til ásakana um meint kynferðisbrot föður gegn börnum hennar. Eins og stefnda B hafi margsinnis tekið fram undir rekstri málsins hjá stefnanda þá hafi hún staðið með börnum sínum í gegnum allt málið og hlustað á frásagnir þeirra. Hennar afstaða hafi einnig verið sú að þar sem hún hafi sjálf ekki orðið vitni að neinu hafi hún ekki getað fallist á það að hún hafi beinlínis staðið við hlið stefnda A, eins og henni hafi verið gefið að sök. Þá hafi hún sannanlega ekki orðið vör við meint brot og hafi það haft áhrif á viðhorf hennar til frásagna, ekki síst þar sem stúlkan hafi allt frá fæðingu drengsins verið mun hændari að A en móður sinni. Hafi hún ávallt leitað meira til hans með sínar daglegu þarfir og ekkert borið á ótta eða neikvæðri afstöðu stúlkunnar í garð föður fram að því að hún hafi verið vistuð utan heimilis. Þá megi sjá það af umsögnum eftirlitsaðila og skóla að stúlkan virðist sakna fjölskyldunnar sárt. Stúlkan hafi einnig greint frá því í upphafi máls að hún hefði ruglast er hún hefði sagt […] að faðir hennar hefði beitt hana ofbeldi. Hafi hún beðið stefndu B um að koma því til skila. Þrátt fyrir þetta hafi stefnda að sjálfsögðu sagst styðja börn sín og hafi hún gert það meðal annars með því að slíta samvistum við stefnda A og gera allt sem hún hafi getað til þess að njóta góðra samvista við börn sín. En þrátt fyrir sýknudóm yfir A hafi stefnandi enn ekki leyft stefndu að umgangast börn sín með eðlilegum hætti. Engin hætta sé á því að stefnda reyni að hafa áhrif á frásögn barnanna enda sé dómsmáli föður þeirra nú lokið og ákæruvaldið hafi enga ástæðu talið vera til áfrýjunar. 

Stefnda vísi til matsgerðar í málinu máli sínu til stuðnings. Hún komi þar vel út í persónuleikaprófi, en meintir veikleikar eins og þeir birtist í mati byggist á gögnum frá stefnanda sem stefnda kannist ekki við og hafi margsinnis mótmælt. Samkvæmt matsgerð dómkvadds matsmanns teljist stefnda hæf til þess að annast börnin þótt hún hafi um tíma átt erfitt uppdráttar vegna […]. Þá megi sjá greinilega væntumþykju og vilja barnanna til samveru við hana í skýrslum eftirlitsaðila.

Varðandi það að stúlkan hafi ítrekað verið með […] og að það sé merki um vanrækslu stefndu gagnvart barninu þá bendi stefnda á það að stúlkan glími enn við […]. Ekki séu þó gerðar athugasemdir við slíka stöðu á vistheimilinu heldur sé barnið látið dvelja þar áfram þrátt fyrir […].

Varðandi frásögn um bætta líðan barnanna á vistheimilinu þá virðist drengurinn áfram þurfa […]. Óróleikann megi án efa rekja til vanlíðunar vegna hins skerta tíma sem drengurinn fái með móður sinni þrátt fyrir ítrekaðar óskir hans um aukna umgengni við hana. Stúlkan hafi hins vegar fengið þó nokkra aðstoð fagaðila, en vert sé að benda á það að áður en málarekstur hófst þá hafi stefndu leitað til sérfræðings vegna […] hennar. Hafi verið talið, eftir lauslegt mat, að stúlkan kynni að vera með […]. Þrátt fyrir ítrekaða ábendingu stefndu B hafi stefnandi ekki enn látið fara fram neina athugun á stúlkunni. Ummælum um að börnin hafi sýnt vanlíðan í kjölfar umgengni verði að vísa til föðurhúsanna enda séu þau órökstudd.

Hvað varði meinta afstöðu barnanna til dvalarstaðar þá bendir stefnda á að um sé að ræða ung börn. Augljóst tengslarof hafi orðið enda ekkert verið gert af hálfu stefnanda til að varðveita tengsl og byggja upp traust á milli stefndu og barna hennar. Börnin hafi mátt heyra það allan vistunartímann að heimili móður væri ótækt til búsetu en þau hafi eingöngu fengið að hitta hana undir eftirliti nokkrar klukkustundir í mánuði.

Stefnda byggi sýknukröfu einnig á 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um meðalhóf, en þar segi að kröfu um sviptingu forsjár skuli aðeins gera ef aðrar og vægari aðgerðir hafa verið reyndar án viðunandi árangurs. Vert sé að benda á það að ekkert hafi verið gert til þess að reyna að aðstoða fjölskylduna í þeim hremmingum sem hún hafi verið í. Engin sálfræðiaðstoð hafi verið veitt stefndu og börnum hennar né heldur tilsjón með heimili eða önnur og vægari úrræði sem almennt séu notuð áður en til forsjársviptingar sé gripið. Þrátt fyrir sýknudóm í sakamáli stefnda A þá hafi viðhorf starfsmanna stefnanda haldist að öllu leyti óbreytt þótt stefndu hafi eingöngu verið legið á hálsi fyrir að hafa ekki trúað meintum ásökunum.

Stefnda telji auk þess að krafa stefnanda um að hún verði svipt forsjá barna sinna fari í bága við fjölmargar meginreglur barnaverndarlaga. Þannig sé í 4. gr. þeirra laga kveðið á um meginreglur barnaverndarstarfs. Í 1. mgr. 4. gr. komi fram að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu. Stefnda telji að svipting forsjár hennar yfir börnunum sé andstæð hagsmunum barnanna enda sé það grundvallarréttur barns að njóta samvista við fjölskyldu sína. Enginn stuðningur hafi verið veittur á heimili, engin fjölskylduaðstoð, heldur eingöngu aðstoð við börnin utan heimilis og það notað sem staðfesting á því að þeim líði betur utan heimilis móður.

Stefnda telji mikilvægt að dómurinn sé upplýstur um það hvernig freklega hafi verið brotið á grundvallarmannréttindum hennar og barna hennar allt frá fyrstu afskiptum stefnanda af málum fjölskyldunnar. Þá hafi stefnda aldrei legið undir nokkrum grun um það að hafa beitt börnin ofbeldi eða annarri vanvirðandi meðferð. Allt frá fyrsta inngripi stefnanda hafi umgengni stefndu við börnin verið stórlega skert. Þá hafi stefnandi ekki uppfyllt sínar lögbundnu skyldur samkvæmt 2. og 4. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 um gerð meðferðaráætlunar vegna málsins. Stefnandi hafi vanrækt að treysta tengsl barnanna við stefndu og stórfjölskylduna og virðist málsmeðferðin fremur hafa miðað að því leynt og ljóst að slíta varanlega þau grundvallartengsl við fjölskylduna er börnin eigi rétt á. Stefnda hafi aldrei verið grunuð um ofbeldi eða vanvirðandi hegðun gagnvart börnunum og því sé ljóst að viðbrögð stefnanda séu ekki í neinu samræmi við tilefni. Engin tilraun hafi verið gerð af hálfu stefnanda til að lina þjáningar barnanna vegna hins skyndilega aðskilnaðar. Ekkert hafi verið reynt til að byggja upp traust á milli stefndu og barna hennar heldur þvert á móti verið unnið markvisst gegn möguleikum á því að viðhalda tengslum og góðu sambandi með eins takmarkaðri umgengni og raun beri vitni. Engin tilraun hafi verið gerð til þess að fá fjölskylduráðgjöf eða aðra ráðgjöf með aðstoð Barnahúss eða annarra fagaðila.

Þá skorti alveg á það, þrátt fyrir sýknudóminn, að stefnandi hafi hugleitt hvernig staðið skuli að því að börnin komi aftur heim til stefndu, enda hafi starfsmaður stefnanda lýst því yfir að það yrði aldrei. Þvert á móti hafi hann lýst því yfir á fundi barnaverndarnefndar að hvort sem stefndi A yrði fundinn sekur eða ekki myndi stefnandi halda áætlun um sviptingu forsjár til streitu.

Stefnda vísi til barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 4. gr., 2. mgr. 29. gr., 1. mgr. 41. gr. og 60. gr., og til óskráðrar meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf, auk 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þá byggist málskostnaðarkrafa á 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en stefndu hafi verið veitt gjafsóknarleyfi í málinu.

 

Málsástæður og lagarök af hálfu stefnda A

Stefndi A byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu uppfyllt í máli þessu. Þvert á móti þá sýni niðurstöður forsjárhæfnismats hins dómkvadda matsmanns í fyrirliggjandi matsgerð að stefndu séu hæf til þess að fara með forsjá barna sinna. Í matinu komi fram að vitsmunalegar forsendur séu fyrir hendi hjá báðum stefndu hvað varði forsjá. Þá staðfesti matsmaður einnig að bæði stefndu lifi reglusömu lífi.

     Af stefnu megi ráða það að stefnandi byggi málatilbúnað sinn hér á þremur málsástæðum: Í fyrsta lagi á ásökunum um það að stefndi A sé grunaður um að hafa beitt börnin kynferðislegu ofbeldi. Í öðru lagi á því að stefnda B hafi tekið afstöðu með stefnda A og trúað á sakleysi hans. Í þriðja lagi sé svo byggt á því að börnin hafi verið vanhirt, stúlkan með […] og […]. Þá hafi drengurinn glímt við […] og börnin í upphafi máls þurft að […].

     Við útgáfu stefnu hafi ekki legið fyrir sýknudómur frá […] 2017, en þrátt fyrir hann hafi stefnandi áfram kosið að halda þessari málsástæðu á lofti. Skjóti það skökku við að stjórnvald, í þessu tilfelli stefnandi, kjósi þannig að hundsa löglega uppkveðinn dóm þriggja dómara. Að sjálfsögðu hljóti sú spurning þá að vakna hvað búi á bak við þessa ákvörðun stefnanda. Stefndi A telji þessa háttsemi stefnanda verulega ámælisverða og ekki í samræmi við meginreglur barnaverndarstarfs, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf.

     Sú afstaða stefndu B að standa með saklausum manni sínum allt frá upphafi rannsóknar liggi eins og rauður þráður í gegnum allt ferlið hjá stefnanda. Þessi afstaða virðist hafa ráðið mestu um ákvörðun stefnanda um vistun barnanna utan heimilis hjá vandalausum, vistun sem nú hafi staðið yfir í nokkur ár. Refsing stefndu B sé gífurleg og veki það furðu að henni skuli skuli enn vera haldið til streitu eftir að sýknudómur hafi verið kveðinn upp. Samkvæmt þessu megi ljóst vera að tvær af þeim málsástæðum sem stefnandi byggi mál sitt á eigi ekki við. Eftir standi þá sú fullyrðing stefnanda að börn stefndu hafi verið vanhirt. Því sé mótmælt. Rétt sé að börnin hafi þurft að […] þegar málið gegn stefnda A hafi farið af stað en fyrir því hafi legið gild rök.

Stefnandi hafi lagt mikla áherslu á það, þegar nefndin hafi tekið ákvarðanir sem snert hafi stefndu og börnin, að stúlkan hafi verið með […]. Vilji stefndi vekja athygli á því að á þeim tíma sem stúlkan hafi verið vistuð utan heimilis þá hafi honum borist til eyrna að hún glímdi enn við […].

Stefndi vísar til þess að börnin hafi aldrei sætt ofbeldi af hálfu stefndu sem telji sig fullfær um að fara með forsjá þeirra og telji að þær málsástæður sem stefnandi byggi á séu ekki fyrir hendi. Það megi aldrei vera markmið barnaverndaryfirvalda með afskiptum sínum að svipta foreldra forsjá yfir börnum sínum heldur beri að leita allra leiða til að börnin geti alist upp hjá þeim og haldið í uppruna sinn eins og þau eigi rétt til samkvæmt lögum. Það sé þekkt viðhorf í barnarétti að aðskilnaður svo ungra barna frá aðalumönnunaraðila sínum í langan tíma geti haft skaðleg áhrif á þau til frambúðar. Sé það því mat stefnda A að stefnandi hafi gerst sekur um ítrekuð brot gagnvart stefndu og börnunum og réttindum þeirra við meðferð málsins. Endurspeglist það í því að stefnandi hafi ákveðið að halda málinu til streitu þó að fyrir liggi sýknudómur. 

Stefndi bendir á að dómkvaddur hafi verið matsmaður, F, til þess að meta forsjárhæfni stefndu og komi þau mjög vel út í matinu. Matsmaður telji hvorugt þeirra uppfylla skilmerki fyrir persónuleikaröskun og því hafi ekki verið sýnt fram það að stefndu séu vanhæf til þess að fara með forsjá barnanna.Þó svo að matsgerðin styðji dómkröfur stefndu, þá geri stefndi nokkrar athugasemdir við sumt sem þar kemur fram. Þannig vísi matsmaður t.d. til þess að vaknað hafi upp grunsemdir um kynferðisofbeldi af stefnda sem flækir málið óneitanlega en börnin hafa verið samkvæm sjálfum sér um að eitthvað hafi gerst. Þetta sé ekki rétt. Stúlkan hafi farið í þrjú viðtöl í Barnahúsi og þar hafi hún ekki verið samkvæm sjálfri sér í frásögnum sínum. Þá hafi drengurinn farið í tvö viðtöl í Barnahúsi og ekki verið samkvæmur sjálfum sér í framburði sínum. 

Fullyrt sé í matsgerðinni að stefnda B hafi ekki verið fús til samstarfs við stefnanda. Þetta sé alrangt. Það hafi verið stefnandi sem ekki hafi verið fús til samstarfs þar sem stefnda B hafi neitað að trúa því að eiginmaður hennar væri sekur. Í kaflanum séu fullyrðingar um það að komið hafi í ljós að þau A hafi haldið sambandi síðan en sagt ósatt um það, sem séu alrangar. Stefndi bendir á að sjálfsögðu hafi þau hjónin haldið sambandi og aldrei farið leynt með það. Fáránlegt sé að telja það brot þó að stefndu hafi haft samband, en þau hafi verið og séu hjón og ekkert óeðlilegt við það. Þá kannist stefndu ekki við það að þeim hafi verið bannað að hafa samband hvort við annað enda ekki á valdi stefnanda að hindra samskipti þeirra. 

Í matsgerð dómkvadds matsmanns í málinu sé loks stuttur kafli undir heitinu Vilji barnanna. Telji matsmaður að vilji barnanna sé mjög skýr, það er að þau vilji búa áfram hjá vandalausu vistunaraðilunum. Þetta veki upp afar áleitna spurningu, það er hversu gömul þurfi börn að vera og hversu þroskuð til þess að geta tekið slíkar ákvarðanir og hvenær eigi þá að taka mark á þeim. Stefndu telji það mjög óeðlilegt, við þær sérstöku kringumstæður sem hér hafi verið um að ræða, að leyfa eigi börnunum þannig að ráða hvar heimili þeirra verði í framtíðinni. Einnig væri það mjög óeðlilegt að fara eftir slíkum óskum og beinlínis brot á barnaverndarlögum. Börnin hafi hvorki séð né heyrt í stefnda A í nokkur ár og umgengist móður sína mjög stopult þann tíma. Megi gera ráð fyrir því að svör barnanna séu lituð af því.

Með vísan til alls framangreinds þá telji stefndi að skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 séu hér ekki uppfyllt og krefjist hann því sýknu af kröfum stefnanda. Stefndi byggi sýknukröfu sína einnig á 2. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002, þar sem segi að kröfu um sviptingu forsjár skuli aðeins gera ef aðrar og vægari aðgerðir hafa verið reyndar án viðunandi árangurs. Samkvæmt þessu ákvæði laganna þá sé ekki nóg að vægari aðgerðir hafi verið reyndar heldur sé það sett sem skilyrði að slíkar aðgerðir hafi ekki skilað viðunandi árangri.

Stefndi vísi annars til barnaverndarlaga nr. 80/2002, einkum 4. gr., 2. mgr. 29. gr., 1. mgr. 41. gr. og 60. gr. Þá vísist til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 10. og 12. gr., auk óskráðrar meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf. Málskostnaðarkrafa byggi á 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en sótt hafi verið um gjafsóknarleyfi vegna reksturs máls þessa.

 

V.

Niðurstaða

Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um það að hinir stefndu foreldrar, þau B og A, verði með dómi svipt forsjá barna sinna, þeirra C og D, sem nú eru vistuð utan heimilis á vegum stefnanda samkvæmt 28. gr., sbr. b-lið 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002. Byggist þessi krafa stefnanda einkum á því að uppfyllt séu í málinu skilyrði í a-, c- og d- lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, fyrir forsjársviptingu, en í umræddu ákvæði laganna segir eftirfarandi:

   „Barnaverndarnefnd er heimilt að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar, annar þeirra eða báðir, skuli sviptir forsjá ef hún telur: 
    a. að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska,

[…] 
    c. að barninu sé misþyrmt, misboðið kynferðislega eða megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu, 

   d. fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru augljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana, greindarskorts eða að breytni foreldra sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða.“ 

Fyrir liggur að framangreind krafa stefnanda um forsjársviptingu tengist þeirri forsögu málsins sem að framan hefur verið lýst í málsatvikakafla dómsins, þar sem faðir barnanna, stefndi A, var ákærður fyrir brot gegn báðum börnum sínum samkvæmt 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en hann var síðan sýknaður af þeim meintu brotum í dómi Héraðsdóms […] frá […] 2017. Eftir stendur engu að síður krafa stefnanda um sviptingu forsjár, það er þá einkum vegna ætlaðrar vanrækslu beggja foreldra á umönnun barnanna, sem og meintrar vanhæfni þeirra til að axla forsjárskyldur sínar. En auk þessa er því enn borið við að hvorugt barnanna beri traust til foreldra sinna, að því er virðist í ljósi atvika sem átt hafi sér stað á heimilinu og leiddu til málsins. […]

Í málinu liggja fyrir ítarleg gögn, bæði varðandi foreldrana og börnin, auk þess sem ýmsir þeir sem komið hafa að málinu á ýmsum stigum þess gáfu skýrslu fyrir dómi. Á meðal gagna í málinu er matsgerð dómkvadds matsmanns, F sálfræðings, dags. 12. maí 2018, en hann staðfesti hana hér fyrir dómi.

Í framangreindri matsgerð dómkvadds matsmanns var matsmaður sérstaklega beðinn um það að leggja mat á forsjárhæfni móður, tengsl barnanna við móður, getu móður til þess að veita börnunum öruggt og tryggt umhverfi, svo og liðsinni vandamanna og áhrif tengslarofa við stórfjölskylduna á börnin. Þá var þess farið á leit að matsmaður tilgreindi annað það sem máli kynni að skipta með vísan til þeirra atriða sem tilgreind eru í greinargerð með frumvarpi til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þá var einnig síðar aukið við matsbeiðni spurningum um afstöðu móður til föður til framtíðar og um afstöðu móður til sambands hennar og barnanna við föður til framtíðar. Síðar var matsmanni svo falið að meta sömu atriði varðandi föður.

Í matsgerðinni kemur meðal annars fram að stúlkan C hafi mætt þrisvar í skýrslutöku í Barnahúsi frá því að málið hafi komið fyrst upp […] 2015 og síðan í 22 skipti í viðtöl þar hjá sálfræðingi. Hafi hún þar átt erfitt með það að tala um meint kynferðisbrot og frásögn hennar komið smátt og smátt yfir langt tímabil. Hún hafi sagt vistmóður frá atvikum sem hún hafi síðan endurtekið í viðtölum. Drengurinn D hafi einnig farið þangað í skýrslutöku […] 2016 og síðan í meðferðarviðtöl hjá sálfræðingi. Þar hafi D greint frá háttsemi föður í sinn garð og að hann væri hræddur um að slíkt gerðist aftur. Hann væri hins vegar ekki hræddur við að fara til móður sinnar því þar væri kona sem væri að passa hann. Samkvæmt matsgerð var það mat sálfræðinga er sáu um viðtöl í Barnahúsi að frásagnir barnanna væru trúverðugar.

Hvað varðar móður barnanna, stefndu B, þá kemur meðal annars fram í matsgerðinni að hún eigi sögu um […] og þegar C hafi fæðst árið […] hafi hún þjáðst af […]. Eftir að D hafi fæðst árið […] hafi hún svo verið greind […] árið 2012 og hafi síðan greinst með […] árið 2014. Þá hafi veikindi og […] í seinni tíð reynst henni erfið. B hafi verið á […] vegna þessara vandamála sinna þegar málið hafi komið upp í […] 2015. Liggi fyrir að stefnda reyki ekki og eigi ekki sögu um vandamál tengd áfengi eða vímuefnum. Í sálfræðiprófunum B komi fram fremur há gildi í tengslum við […].

Hvað varðar síðan föðurinn, stefnda A, þá kom meðal annars fram í mati matsmanns að hann kæmi vel fyrir og hefði rólegt yfirbragð. Hann eigi að baki háskólamenntun og sé í traustri vinnu. A segist jafnan hafa verið mjög virkur í umönnun barna sinna og þá meðal annars vegna […]. A reyki ekki og eigi ekki sögu um vanda tengdan áfengi eða vímuefnum og taki engin lyf. A sé heilsugóður og ekki hafi borið á […] áður en að mál þetta hafi komið upp. Í sálfræðiprófum komi fram að hann sýni tilhneigingu til sjálfsfegrunar auk tregðu til þess að viðurkenna eða gangast við almennum breyskleikum.

Hvað varðar barnið C þá kom fram í viðtölum matsmanns að um væri að ræða stúlku á […] ári sem væri aldurssvarandi í þroska en sýnilega þjökuð af einhverju. C hafi verið fremur til baka í viðtölum. Aðspurð hafi henni ekki litist vel á að flytja til móður en sagt að hún vildi búa áfram hjá vistforeldrunum, I og U, […]. […] Hvað varðar barnið D þá hafi meðal annars komið fram að um sé að ræða […] ára kröftugan dreng sem virðist klínískt eðlilegt barn í þroska og komi vel fyrir sig orði. […]. D hafi einnig lýst vilja til að búa áfram hjá núverandi vistforeldrum. […].

Ekki eru að mati dómsins efni til þess að rekja hér sérstaklega viðtöl við aðra þá sem matsmaður ræddi við, svo sem vistforeldra, ömmur, kennara og aðra handleiðara. En í samantekt þá var það niðurstaða matsmanns hvað varðar forsjárhæfni foreldra að ýmislegt hefði mátt betur fara í umönnun og uppeldi barnanna. Það hafi verið veikleikar í forsjárhæfni foreldra. Telur matsmaður líklegt, með hliðsjón af gögnum málsins, að […] B hafi haft áhrif á getu hennar til þess að sinna börnunum sem skyldi. Þá vakni upp grunsemdir um kynferðisofbeldi föður sem flæki málið óneitanlega en börnin hafi verið samkvæm sjálfum sér um það að eitthvað hefði gerst.

Hvað varði tengslamyndun barnanna við foreldrana þá sé að mati matsmanns erfitt að meta hana hvað varði föður þar sem ekkert samband hafi verið þar um langan tíma. Eins og líðan barnanna sé í dag þá óttist þau föður sinn og vilji ekki hitta hann. Sú afstaða komi einnig ítrekað fram í málsgögnum. Tengslamyndun barnanna við móður þeirra virðist samkvæmt gögnum einnig vera skert að mati matsmanns og þá einkum C. Hvorugt barnanna hafi lýst vilja til þess að búa á heimili móðurinnar til frambúðar og virðist sem að tilhugsunin um það að flytjast aftur til hennar valdi þeim öryggisleysi. Þá kveðst matsmaður líta til þess að frekara tengslarof við foreldranna hafi orðið eftir að börnin hafi flust á vistheimili og lítil samskipti verið upp frá því og hafi það haft mikil áhrif á tengslin. Börnin hafi hins vegar myndað djúpstæð tengsl við vistforeldra þar sem þau virðist upplifa öryggi og hlýju. Börnin virðist ekki sakna þess að búa hjá foreldrum og umsagnir skóla og meðferðaraðila bendi til þess að staða þeirra hafi styrkst verulega á þeim tíma sem þau hafa verið utan heimilis hjá vistforeldrum. Hvað varðar getu foreldranna til þess að veita börnunum öruggt og tryggt umhverfi þá kemur fram í matsgerð að þrátt fyrir sýknudóm í sakamáli föðurins upplifi börnin engu að síður enn hræðslu og óöryggi í tengslum við mögulega návist hans. Þar sem börnin upplifi ekki öryggi hjá föður og þar sem móðir taki afstöðu með honum nái hún heldur ekki að veita börnunum öruggt og tryggt umhverfi eins og þau upplifi það. Hvað varði vilja barnanna þá sé hann að mati matsmanns afar skýr, bæði út frá viðtölum hans við þau og öðrum gögnum málsins, það er að þau upplifi núverandi aðstæður sínar góðar og að þau vilji búa áfram hjá vistforeldrum, en hvorugt vilji snúa aftur á heimili foreldra.

Auk framangreindrar matsgerðar hins dómkvadda matsmanns þá ræddu dómarar málsins beint við bæði börnin til þess að kanna afstöðu þeirra í málinu. Hér fyrir dómi tjáði C, sem nú er á […] ári, sig mjög afdráttarlaust um það að hún vilji fá að búa áfram hjá núverandi vistforeldrum sínum, en ekki fara aftur í umsjá foreldra sinna, né heldur vilji hún búa hjá móður sinni þótt faðir hennar væri ekki þar, þar sem hún telji sig ekki örugga þar. Hún telur það hæfilegt að hitta móður sína mánaðarlega, eins og nú er, en að hún vilji ekki hitta föður sinn því hann hafi meitt hana og hún vilji ekki þurfa að rifja það upp. D er hins vegar yngri, eða […] ára, og tjáir sig ekki jafn afdráttarlaust. Vilji hans virðist þó vera sá að fá að dvelja með systur sinni hjá núverandi vistforeldrum. D tók þó jafnframt fram að hann vildi fá að hitta móður sína meira en nú er og að það væri skemmtilegt að fara til hennar. Hann kvaðst hins vegar ekki vilja hitta föður sinn því að hann hafi stundum verið hræddur við hann en þó ekki jafn mikið og áður. Áberandi var því að hvorugt barnanna virtist nú geta hugsað sér að eiga í samskiptum við föðurinn, en D virtist a.m.k. sakna þess að fá ekki að sjá meira af móður sinni eftir að umgengni hans við hana var skert um helming um mitt árið 2018.

Að öllu framangreindu virtu þá er það mat dómenda að hér sé um að ræða afar flókið og vandmeðfarið mál, sé tekið mið af skilyrðum í a-, c- og d- lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sem og í 2. mgr. sama lagaákvæðis, sem uppfylla þarf hvað varðar báða foreldra og bæði börnin til þess að dómkrafa stefnanda í málinu geti náð fram að ganga. En að mati dómsins er það þó einnig grundvallaratriði í málinu að tekin verði hér ákvörðun með sérstakri hliðsjón af þeim markmiðum laganna sem lýst er í 1. og 2. gr. þeirra, sem og þeirri meginreglu að í öllu barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að barni séu fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna.

Sé litið til fyrirliggjandi gagna, og þá einkum til mats dómkvadds matsmanns sem ekki hefur verið hrakið í málinu, þá verður að taka undir það með matsmanni að ljóst verði að telja að upplifun beggja barnanna af verulegum ótta við föður sinn sé mjög raunveruleg fyrir þeim báðum, þótt ekkert verði hér fullyrt um það hvaða atvik kunni raunverulega að hafa leitt til þessa, en bæði börnin hafa þó ítrekað lýst háttsemi, eins og fram hefur komið, af hálfu föður í þeirra garð. Verður því að mati dómsins, með hliðsjón af framangreindu, að leggja það til grundvallar að uppfyllt séu hér nægilega skilyrði c-liðar 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 í tilviki föðurins, stefnda A, til þess að svipta megi hann forsjá beggja barna hans. Þá er einnig fallist á það með stefnanda að í tilviki föðurins eigi d-liður sama ákvæðis ótvírætt við, þar sem sýnt þykir að stefndi sé vanhæfur til þess að fara með forsjá barnanna þar sem heilsu þeirra og þroska sé hætta búin í umsjá hans þar sem breytni hans sé fallin til þess að valda börnunum skaða.

Hvað varðar síðan móður barnanna, stefndu B, þá er það mat dómenda að sérstaklega verði að horfa til þess að fyrirliggjandi gögn í málinu benda til þess að forsjárhæfni hennar sé skert. Þó svo að stefnda hafi lagt sig fram um það að bæta stöðu sína þá eru veikleikar í persónugerð hennar og hana skortir innsæi, auk þess sem þrálátt […] og vanvirkni hamlar henni. Í þessu tiltekna sambandi dugar að mati dómsins þó ekki að líta sérstaklega til ætlaðrar vanrækslu við umönnun þar sem hún virðist þegar á allt er litið ekki hafa verið slík að það réttlæti forsjársviptingu ein og sér. Það sem hins vegar blasir við í málinu er að frum- og umönnunartengsl hafa ekki myndast á eðlilegan hátt á milli mæðgnanna B og C. Eftir vistun C utan heimilis hefur síðan orðið þar enn frekara tengslarof og vandséð að unnt sé að byggja upp tengsl þeirra og traust að nýju. Þá sýndi móðirin, stefnda B, einnig af sér verulegan innsæisskort með viðbrögðum sínum við erfiðri stöðu dóttur sinnar fljótlega eftir að málið kom upp og það átti ásamt öðru þátt í því hvernig því vatt óheppilega fram eftir það. Verður að heimfæra þennan vanda samantekið undir bæði a- og d- liði 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 og fallast á það að stefnda verði svipt forsjá dóttur sinnar C á þessum grundvelli, enda hefur stúlkan einnig ítrekað sjálf lýst því afar skýrt að hún treysti ekki móður sinni nægilega vel en vilji áfram fá að þroskast í öruggara umhverfi, eins og hún nú búi við. Hvað síðan varðar drenginn D, þá er staða hans gagnvart móður ótvírætt um margt flóknari þar sem hann hefur einnig lýst því yfir að hann vilji vera áfram hjá vistforeldrum, en tengsl hans við móður sína virðast þó, með hliðsjón af því sem liggur fyrir í málinu, vera bæði raunveruleg og nokkuð sterk, þótt verulegs vantrausts og ótta virðist einnig hafa gætt hjá honum gagnvart móður. Stefnda glímir eins og áður segir enn við […] og hefur sótt stuðning sinn til föður og í ljósi reynslu verður að telja óvarlegt að treysta því að stefnda tryggi að stefndi verði ekki í samvistum við drenginn. Er það því niðurstaða dómenda að svipta beri móður einnig forsjá drengsins D með vísan til d-liðar 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002 þar sem sýnt hafi verið nægilega fram á það að stefnda sé, líkt og í tilviki C, vanhæf til að fara með forsjá hans því að heilsu hans og þroska sé hætta búin í umsjá hennar. En hér er meðal annars einnig litið til þess álits dómkvadds matsmanns að réttast sé að rjúfa ekki tengslin á milli þeirra systkinanna, og þá einnig til framtíðar þeirra litið, en þar fyrir utan þyrfti gríðarlega vinnu til að treysta tengsl drengsins að nýju við móður sína, þó svo að viss grundvöllur kunni að vera þar fyrir hendi. Enn fremur vísast í þessu samhengi til ákvæðis 2. mgr. 33. gr. sömu laga sem kveður á um það að leitast skuli við að finna systkinum sameiginlegar lausnir í samræmi við þarfir þeirra og hagsmuni.

Rétt er að geta þess að í málinu liggja nú enn fremur fyrir ýmis ný gögn frá síðasta og þessu ári sem sína fram á það að líðan beggja barnanna hafi alls ekki verið nægilega góð á umliðnu ári en nokkuð vandasamt er þó að ráða rækilega í þá stöðu. Verður þó að telja það nærtækt að sérstakt álag hafi verið fyrir stúlkuna að […]. Varðandi drenginn þá virðist vilji hans standa til þess að fá að hitta móður sína meira en nú er, en fyrir liggur að frá miðju síðasta ári var umgengni hans við móður sína skert umtalsvert í trássi við leiðbeiningar sérfróðra meðdómsmanna, sem þá fjölluðu um mál þetta, um mikilvægi þess að reyna fremur að efla og styrkja þau tengsl til framtíðar. Er einnig ótvíræð afstaða dómenda nú að sú síendurtekna dómsmeðferð sem börnin hafa þurft að þola hljóti að hafa valdið þeim verulegu álagi. En auk þess verði að taka alvarlega ábendingar, sbr. t.d. af hálfu talsmanns þeirra hér fyrir dómi, um það að börnin hafi vísast verið undir of miklu álagi hjá of mörgum meðferðaraðilum.   

Sé tekið mið af öllu hér framangreindu þá er það þó mat dómsins að eins og málum er komið þá sé það börnunum fyrir bestu að fallist verði á kröfu stefnanda um það að báðir foreldrar verði sviptir forsjá þeirra beggja. Er þá, sem fyrr segir, einkum til þess að líta að ótti barnanna við föður sinn virðist af einhverjum ástæðum hafa verið mjög raunverulegur fyrir þeim og líklegur til þess að vera langvarandi, auk þess sem börnin, og þá sérstaklega stúlkan, treysta ekki móður sinni til þess að veita þeim vernd í þessari stöðu. Með hliðsjón af þessu og því að börnin hafa sýnt sterkan vilja til þess að fá að vera áfram saman hjá núverandi vistforeldrum, þar sem þeim virðist yfirleitt líða vel, þá er það mat dómsins að það sé börnunum nú ótvírætt fyrir bestu að fallist verði á dómkröfu stefnanda um forsjársviptingu eins og hún liggur hér fyrir. Er þá einnig til þess að líta að ekki virðast, eins og málum er komið, heldur vera raunhæfir kostir til þess að láta hér reyna á einhver önnur og vægari úrræði með hliðsjón af hagsmunum barnanna, sbr. áskilnað 2. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002. 

Þrátt fyrir þá niðurstöðu sem liggur hér fyrir telur dómurinn engu að síður sérstakt tilefni til þess að gera athugasemdir við ýmislegt varðandi meðferð málsins af hálfu stefnanda. Liggur þannig meðal annars fyrir í málinu að móðir hafi beint kvörtun til Barnaverndarstofu, dags. 26. október 2016, þar sem fundið var að vinnubrögðum stefnanda. Í úrskurði Barnaverndarstofu, dags. 21. ágúst 2017, kemur svo meðal annars fram að nokkuð hafi skort á að vinnsla málsins væri í samræmi við það hvernig standa eigi að könnun mála og gerð áætlana. Þá var þar fundið að því að börnin hefðu verið vistuð á heimili sem ekki hefði um tíma haft tilskilin leyfi til þess að vista börn. Að mati dómsins ber að taka undir þessar athugasemdir Barnaverndarstofu. En auk þessa telur dómurinn ástæðu til að átelja fleira í vinnubrögðum starfsmanna stefnanda og annarra sem komu að málinu, og þá einkum þá ófaglegu nálgun að fjalla ítrekað um meint kynferðisbrot föður barnanna eins og sönnuð hefði verið sú sök hans áður en dómur féll í sakamáli á hendur honum. Þá er það einnig mat dómsins að móðirin, stefnda B, virðist heldur ekki allskostar hafa notið sannmælis hjá starfsmönnum stefnanda og allt of lítið verið aðhafst af hálfu stefnanda til þess að reyna að styrkja tengsl hennar við börn sín fyrr í ferlinu eða til þess að auka traust hennar í garð barnaverndar, auk þess sem engin meðferðaráætlun var í gildi frá apríl 2016 á meðan unnið var að málinu. Þá virðist heldur ekki hafa verið höfð samvinna eða samráð við móðurina varðandi […] á stúlkunni, um viðtöl í Barnahúsi eða um viðtöl hjá listmeðferðarfræðingi, svo dæmi séu nefnd. Einnig virðist að mati dómsins hafa mátt láta reyna á frekari og opnari umgengni drengsins við móður, sem hann virðist nú sjálfur kalla eftir, en þvert á móti þá virðist stefnandi allt frá síðasta ári hafa reynt að skerða þau tengsl frekar, án gildra skýringa, og verður að telja vandséð hvernig það eigi að geta talist barninu fyrir bestu til lengri tíma litið. En þrátt fyrir framangreint þá er það mat dómsins að þessir annmarkar við meðferð málsins séu þó ekki þess eðlis að þeir geti leitt til annarrar efnislegrar niðurstöðu en hér er þegar fengin með hliðsjón af öllu hér framansögðu og hefur að öllu virtu einkum að leiðarljósi hagsmuni beggja barnanna.

Eins og mál þetta er vaxið þykir rétt að málskostnaður á milli aðila falli niður. Bæði stefndu njóta gjafsóknar, sbr. fyrirliggjandi gjafsóknarleyfi með vísan til 60. gr. laga nr. 80/2002, sbr. 126. gr. laga nr. 91/1991, til handa stefndu B, dags. […] 2019, og til handa stefnda A, dags. […] 2019, og skal því allur gjafsóknarkostnaður beggja stefndu vegna reksturs máls þessa fyrir dómi greiðast úr ríkissjóði. Þar með talin er þá málflutningsþóknun lögmanna þeirra, Þorbjargar Ingu Jónsdóttur, lögmanns B, sem ákvarðast 1.400.000 krónur og Jóhannesar Ásgeirssonar, lögmanns A, sem ákvarðast 1.000.000 krónur. En krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun á sér hér ekki stoð, sbr. úrskurður Landsréttar í máli nr. 7/2019, dags. 22. janúar 2019, um þau efni. En við ákvörðun málflutningsþóknunar var tekið mið af yfirlitum um tímaskráningu af hálfu lögmanna.        

Málið flutti Björgvin Halldór Björnsson lögmaður fyrir stefnanda, en þau Þorbjörg Inga Jónsdóttir lögmaður fyrir stefndu B og Jóhannes Ásgeirsson lögmaður fyrir stefnda A.

Pétur Dam Leifsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan sem dómsformaður í fjölskipuðum dómi, sbr. 1. mgr. 54. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sbr. og 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991, með þeim Kolbrúnu Sævarsdóttur héraðsdómara og Guðrúnu Oddsdóttur sálfræðingi. Þess skal getið að dómsformaður tók fyrst við meðferð málsins þann 10. janúar 2018, en hafði fram til þess tíma engin afskipti haft af meðferð þess.

D ó m s o r ð

Stefndu, B og A, eru svipt forsjá barnanna C og D.

Málskostnaður fellur niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefndu B og stefnda A greiðist úr ríkissjóði, en þar með talin er málflutningsþóknun Þorbjargar Ingu Jónsdóttur, lögmanns B, sem ákvarðast 1.400.000 krónur, og Jóhannesar Ásgeirssonar, lögmanns A, sem ákvarðast 1.000.000 krónur.