Print

Mál nr. 195/2006

Lykilorð
  • Stjórnsýsla
  • Stöðuveiting
  • Jafnrétti
  • Skaðabætur

Fimmtudaginn 16

 

Fimmtudaginn 16. nóvember 2006.

Nr. 195/2006.

Íslenska þjóðkirkjan

(Gestur Jónsson hrl.)

gegn

Sigríði Guðmarsdóttur

(Sif Konráðsdóttir hrl.)

 

Stjórnsýsla. Stöðuveiting. Jafnrétti. Skaðabætur.

Í júní 2003 var embætti sendiráðsprests í London auglýst, en embættið er samstarfsverkefni Í, U og TR. Skipuð var sérstök hæfisnefnd með fulltrúum fyrrnefndra aðila og tekið fram að álit hennar væri bindandi. Nefndin mælti með því að SA, sem er tengdasonur biskups, yrði skipaður til að gegna embættinu og var það gert. SG, sem hafði einnig sótt um embættið, krafðist viðurkenningar á því að Í væri skaðabótaskyld vegna skipunarinnar. Ekki var talið neitt því til fyrirstöðu að biskup hefði í samráði við þá sem tilnefndu fulltrúa í hæfisnefndina mátt ákveða að niðurstaða hennar yrði bindandi, enda hélt hann formlegu skipunarvaldi sínu og bar áfram ábyrgð á því að skipun í embættið væri lögmæt. Þá var ekki fallist á að brotið hefði verið gegn vanhæfisreglum stjórnsýsluréttar með afskiptum biskups af skipuninni eða að fulltrúi U hefði verið vanhæfur til setu í nefndinni. Þá var ekki talið að formgalli hefði verið á málsmeðferð nefndarinnar þar sem einn nefndarmanna hefði setið hjá við afgreiðslu málsins eða að brotið hefði verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar þar sem ákvörðun hefði verið tekin án þess að tiltekin meðmæli hefðu borist nefndinni. Hins vegar var komist að þeirri niðurstöðu að nefndin hefði ekki gætt málefnalegra sjónarmiða við mat á starfsreynslu og framhaldsmenntun umsækjenda. Var talið að SG hefði sýnt fram á að starfsreynsla hennar og menntun hefðu nýst henni þannig að hún hafi verið SA jafnhæf eða hæfari til að gegna umræddu embætti. Fram var komið að engin kona gegndi prestsembætti erlendis og hafði Í ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar þeirri ákvörðun að skipa SA í embættið. Var því talið að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna með skipuninni. Að þessu virtu og þar sem leiddar höfðu verið nægilegar líkur að því að SG hefði orðið fyrir fjárhagstjóni sem Í bæri ábyrgð á var fallist á kröfu hennar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2006 og krefst sýknu af kröfu stefndu auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Stefnda höfðaði mál þetta gegn biskupi Íslands fyrir hönd íslensku þjóðkirkjunnar. Hún krefst þess að viðurkennt verði að áfrýjandi sé skaðabótaskyldur vegna skipunar sr. Sigurðar Arnarsonar í embætti sendiráðsprests í London 25. nóvember 2003.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi eru málavextir þeir, að um nokkurn tíma hafa þrír prestar starfað erlendis á vegum áfrýjanda, einn í Kaupmannahöfn, annar í Gautaborg og þriðji í London. Er embætti þess síðastnefnda í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins. Presturinn í London, sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson, hafði vorið 2002 starfað þar í 19 ár þegar hann óskaði eftir námsleyfi frá störfum. Hann hafði sjálfur samband við sr. Sigurð Arnarson, sem þá var í námsleyfi í Bandaríkjunum frá starfi sínu sem prestur í Grafarvogssókn í Reykjavík, og hvatti hann til að sækja um afleysingarstarfið í London. Auglýsing um starfið ásamt fleiri afleysingarstörfum var send Morgunblaðinu 2. maí 2002 og birtist á vef biskupsstofu 6. sama mánaðar. Þar sagði meðal annars: „Biskup Íslands auglýsir eftir fjórum til fimm prestum til afleysinga vegna námsleyfa presta frá 1. september n.k. um níu mánaða skeið. Allar nánari upplýsingar eru veittar á Biskupsstofu ...“. Sr. Sigurður Arnarson, sem er tengdasonur biskups, sótti um afleysingarstarfið í London. Það gerði einnig annar prestur, sem lét þess getið í umsókn sinni að allir staðirnir væru athyglisverðir og kæmu til greina. Í samráði við sr. Jón Aðalstein Baldvinsson, Tryggingastofnun ríkisins og sendiráðið í London var sr. Sigurður Arnarson settur til að gegna starfinu í London í níu mánuði frá 1. október 2002.

Dóms- og kirkjumálaráðherra tilkynnti 25. mars 2003 að lagt yrði til við forseta Íslands að sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson yrði skipaður vígslubiskup á Hólum frá 1. apríl sama ár. Sr. Sigurður Arnarson kveðst þá hafa gert sér grein fyrir því að prestsembættið í London myndi losna. Hann hafi haft áhuga á því að sækja um stöðuna, en aðrir kostir einnig komið til greina, svo ákvörðun um umsókn hafi ekki verið tekin fyrr en í byrjun júní. Sr. Jón Aðalsteinn var skipaður vígslubiskup á Hólum í apríl 2003 og biskup framlengdi þá setningu sr. Sigurðar í embættinu í London um tvo mánuði, til 1. september sama ár. Auglýsing um prestsembættið í London birtist á vef biskupsstofu 4. júní 2003 og í Lögbirtingablaði 6. sama mánaðar. Sr. Sigurður kveðst hafa dagsett umsókn sína 4. júní en ekki sent hana fyrr en nokkru síðar og barst hún biskupsstofu 23. júní. Stefnda sótti um embættið með umsókn dagsettri 12. sama mánaðar. Vegna vitneskju sinnar um hugleiðingar tengdasonar síns kvaðst biskup hafa spurt sr. Sigurð Sigurðarson vígslubiskup í Skálholti á prestastefnu á Hólum um Jónsmessuleytið hvort hann yrði á landinu upp úr næstu mánaðamótum, því til þess gæti komið að hann yrði vanhæfur og þyrfti þá að víkja sæti.

Biskup Íslands hafði 16. apríl 2003 samband við sr. Jón Bjarman og bað hann að vera formann sérstakrar hæfisnefndar um þetta prestsembætti. Biskup fór jafnframt fram á það í maí sama ár að Tryggingastofnun ríkisins og utanríkisráðuneytið tilnefndu fulltrúa í hæfisnefndina og var tekið fram að álit hennar yrði bindandi. Fram er komið að það hafi verið að kröfu tryggingastofnunar að niðurstaða nefndarinnar yrði bindandi. Utanríkisráðuneytið tilnefndi Sverri Hauk Gunnlaugsson sendiherra í nefndina með bréfi 7. júní sama ár og tryggingastofnun tilnefndi Unu Björk Ómarsdóttur lögfræðing með bréfi 8. júlí.

Umsóknarfrestur rann út föstudaginn 4. júlí 2003 og höfðu tvær umsóknir borist, frá stefndu og sr. Sigurði Arnarsyni. Biskup kveðst hafa komið úr sumarleyfi mánudaginn 7. júlí og þá hafi umsóknirnar verið lagðar fyrir hann. Þar með hafi orðið ljóst að hann væri vanhæfur, þar sem tengdasonur hans var annar umsækjenda. Hann undirritaði þó skipunarbréf nefndarmanna í hæfisnefnd vegna ráðningarinnar daginn eftir, 8. júlí 2003, sama dag og nefndin hélt sinn fyrsta fund undir forystu sr. Jóns Bjarman. Biskup ritaði og sr. Sigurði Sigurðarsyni vígslubiskupi bréf 9. sama mánaðar og kvaðst með vísan til 2. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafa ákveðið að víkja sæti vegna veitingar embættis þessa og fól honum að skipa í greint embætti, sbr. 15. gr. laga nr. 78/1997.

Fundargerðir hæfisnefndarinnar hafa verið lagðar fram í málinu. Samkvæmt fundargerð fyrsta fundar 8. júlí 2003 var farið yfir umsóknirnar og meðfylgjandi gögn. Rætt var um vinnutilhögun og ákveðið að boða umsækjendur til viðtals við fyrstu hentugleika og ákveðið að gefa stefndu kost á að senda nefndinni umsagnir, „svo ekki hallaðist á milli umsækjendanna.“ Í lok fundargerðarinnar er bókað: „Eftir að hafa skoðað umsóknir báðar með öllum fylgjandi gögnum, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að báðir umsækjendur væru ... hæfir til að gegna umræddri stöðu.“ Samkvæmt fundargerð annars fundar 14. júlí 2003 voru eftirtalin gögn lögð fram: 1. starfsreglur um presta nr. 735/1998, 2. leiðbeinandi reglur biskups um málsmeðferð fyrir valnefnd á grundvelli 18. gr. starfsreglna um presta og 3. jafnréttisáætlun þjóðkirkjunnar. Formaður afhenti nefndarmönnum útdrátt úr umsóknum og nánar tilgreind meðmæli með báðum umsækjendum. Ákveðið var að boða umsækjendur í viðtal 22. júlí. Næsti fundur var ákveðinn 18. sama mánaðar.

Um miðjan júlí kom upp ágreiningur um framkvæmd samstarfssamnings þeirra þriggja sem stóðu að umræddu embætti vegna hlutdeildar Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við rekstur þess. Samkvæmt fundargerð hæfisnefndar frá 18. júlí 2003 var ákveðið að fresta viðtölum við umsækjendur þar til niðurstaða um afdrif embættisins lægi fyrir og var störfum nefndarinnar frestað ótiltekið. Næsti fundur hennar var haldinn 18. nóvember 2003 og voru þá tekin viðtöl við báða umsækjendur. Að því loknu fjallaði nefndin um hæfi umsækjenda og greiddu tveir nefndarmenn atkvæði með því að sr. Sigurður Arnarson yrði skipaður til að gegna embættinu, en fulltrúi Tryggingastofnunar ríkisins sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Stefndu var tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar símleiðis daginn eftir og óskaði hún eftir rökstuðningi hennar fyrir ákvörðun sinni með bréfi 20. nóvember 2003. Hinn 25. sama mánaðar skipaði sr. Sigurður Sigurðarson, staðgengill biskups, sr. Sigurð Arnarson til að gegna umræddu embætti frá 1. mars 2004. Rökstuðningur hæfisnefndar var veittur með bréfi formanns hennar 1. desember sama ár. Stefnda leitaði degi síðar til jafnréttisnefndar þjóðkirkjunnar og komst sú nefnd að þeirri niðurstöðu að við val á presti í embættið hefði jafnréttisáætlun kirkjunnar ekki verið virt.

II.

Í 1. gr. og 2. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar kemur fram að hún sé sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni sem njóti sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka. Í III. kafla laganna er fjallað um stjórn og starfsskipan þjóðkirkjunnar. Í 8. lið kaflans, 33. gr. til 46. gr., er fjallað um presta. Í 37. gr. segir að ráðherra skipi í embætti sóknarpresta en biskup skipi í önnur prestsembætti, sbr. 35., 36., 44. og 45. gr. Í 40. gr. laganna segir að ráðherra veiti þeim embætti sóknarprests sem hlotið hafi bindandi val en ákvarði að öðrum kosti veitingu að fenginni tillögu biskups. Biskup Íslands veiti þeim embætti prests samkvæmt 35. gr. sem hlotið hafi bindandi val en ákvarði að öðrum kosti veitingu.

Í lögunum er gert ráð fyrir prestum er starfi erlendis. Segir í 45. gr. að biskupi Íslands sé heimilt að samþykkja að prestar séu ráðnir til starfa meðal Íslendinga erlendis. Í 46. gr. segir að nánari ákvæði um sérþjónustupresta skuli setja í almennar starfsreglur, sbr. 59. gr. Í þeirri grein segir að um aðra starfsmenn þjóðkirkjunnar en þá sem fyrr hafi verið taldir fari eftir almennum reglum um starfshætti hennar er kirkjuþing setji og hafi að geyma nánari fyrirmæli um stjórnun og starfshætti kirkjunnar á grundvelli laga þessara. Segir og að í reglum þessum skuli meðal annars kveðið á um hlutverk starfsmanna þjóðkirkjunnar eftir því sem við geti átt. Á grundvelli 59. gr. laganna hefur kirkjuþing sett starfsreglur um presta nr. 735/1998, starfsreglur um íslensku þjóðkirkjuna erlendis nr. 737/1998 og starfsreglur um sérþjónustupresta sem ráðnir eru á vegum stofnana og félagasamtaka nr. 824/1999.

Í 1. gr. starfsreglna um íslensku þjóðkirkjuna erlendis segir að hún sé sérstakt viðfangsefni þjóðkirkjunnar og heyri undir biskup Íslands. Í 5. gr. segir að um störf og starfsskyldur presta sem starfa innan vébanda íslensku þjóðkirkjunnar erlendis gildi ákvæði starfsreglna um presta eftir því sem við á. Ákvæði um val og veitingu prestsembætta eru í II. kafla síðastgreindu reglnanna og er í 14. gr. til 19. gr. fjallað um valnefndir, skipan þeirra og störf. Segir í 15. gr. að valnefnd velji sóknarprest og prest, og í 2. mgr. 19. gr. að biskup skipi þann umsækjanda í prestsembætti sem valnefnd hafi náð samstöðu um. Samkvæmt starfsreglum þessum er niðurstaða valnefndar því bindandi. Í starfsreglum um sérþjónustupresta sem ráðnir eru á vegum stofnana og félagasamtaka segir í 4. gr. að sérstaklega tilkvödd hæfisnefnd veiti umsögn um þá sem sækja um starf sérþjónustuprests. Nefndin sé skipuð þremur mönnum og þremur til vara. Vinnuveitandi skipi einn og sé sá jafnframt formaður. Biskup skipi einn og vinnuveitandi og biskup hafi samráð um skipun þriðja nefndarmannsins og skuli þess gætt að hann komi úr röðum fagsamtaka á viðkomandi starfssviði. Í 2. mgr. 4. gr. reglnanna eru síðan nánari ákvæði um hvernig hæfisnefndin meti hæfi allra umsækjenda og er þar ekki tekið fram að niðurstaða hennar sé bindandi, enda segir í 5. gr. að vinnuveitandi ákveði hver ráðinn skuli til starfans.

Samkvæmt því sem rakið hefur verið eru ekki ákvæði um hæfis- eða valnefndir í starfsreglum um íslensku þjóðkirkjuna erlendis, en slík ákvæði eru í almennum starfsreglum um presta og í starfsreglum um sérþjónustupresta. Telja verður að síðastnefndu reglurnar eigi ekki við um prestsembætti erlendis, þar sem þær taka aðeins til presta sem ráðnir eru á vegum stofnana og félagasamtaka með samþykki biskups. Um presta erlendis gilda því starfsreglur um íslensku þjóðkirkjuna erlendis og starfsreglur um presta eftir því sem við á, ásamt ákvæðum laga nr. 78/1997. Þegar litið er til 40. gr. laganna, sem áður er getið, virðist sem almenn regla við veitingu prestsembætta sé sú að skipan, setning, veiting eða ráðning fari fram að loknu bindandi vali annarra en þess sem fer með hið formlega skipunarvald. Biskup hafði samráð við utanríkisráðuneytið og tryggingastofnun um auglýsingu prestsembættisins í London og skipan hæfisnefndar um embættið. Tryggingastofnun gerði þá kröfu að niðurstaða nefndarinnar yrði bindandi og samþykkti utanríkisráðuneytið það. Þegar til þess er litið, að prestsembættið í London, eins og önnur prestsembætti erlendis, eru ákveðin af biskupi og hann skipar í þau, verður ekki talið neitt því til fyrirstöðu að hann í samráði við þá sem tilnefndu fulltrúa í nefndina hafi mátt ákveða að niðurstaða hennar yrði bindandi. Með því var biskup heldur ekki að framselja formlegt skipunarvald sitt, enda hélt hann því og bar áfram ábyrgð á því að skipun í embættið væri lögmæt. Verður krafa stefndu sem reist á þessari málsástæðu því ekki tekin til greina.

III.

Stefnda reisir kröfu sína einnig á því að biskup Íslands hafi verið vanhæfur og borið að víkja sæti strax og lá fyrir að tengdasonur hans hefði hug á að sækja um prestsembættið í London. Hann hafi sett tengdason sinn til að gegna embættinu áður en það losnaði, borið ábyrgð á auglýsingunni um embættið þar sem tekið hafi verið fram að niðurstaða hæfisnefndar yrði bindandi andstætt lögum og reglum og tilnefnt sr. Jón Bjarman í hæfisnefnd eftir að tengdasonur hans hafi sent inn umsókn. Loks hafi hann skipað sjálfur alla menn í hæfisnefndina eftir að umsóknarfrestur var liðinn. Þá hafi hann sjálfur framlengt setningu tengdasonar síns í embættið í júlí 2003 og síðan frestað veitingu embættisins og ákveðið að það yrði ekki veitt til bráðabirgða. Hann hafi og ákveðið í september að tengdasonur hans myndi ásamt fyrrverandi presti í London þjóna embættinu með því að messa þar einu sinni í mánuði uns skipað hefði verið í það.

Enda þótt biskup Íslands hafi vitað um hugleiðingar tengdasonar síns um prestsembættið í London varð hann ekki vanhæfur til þess að fjalla um stöðuna fyrr en honum varð ljóst að tengdasonur hans yrði einn af umsækjendum. Hefur ekki verið sýnt fram á annað en að það hafi verið þegar hann kom fyrst til vinnu eftir frí að loknum umsóknarfresti 7. júlí 2003. Þá bar honum að víkja sæti, sem og hann gerði. Honum var samkvæmt 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga þó heimilt að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar voru til að halda málinu í réttu horfi þar til staðgengill hans, vígslubiskupinn í Skálholti, tæki við því. Eins og áður greinir hafði biskup um miðjan apríl 2003 beðið nafngreindan mann að vera formann nefndarinnar og var sú beiðni ítrekuð með bréfi 5. júní. Undir lok maí óskaði biskup eftir tilnefningum annarra í hæfisnefndina. Tilnefning utanríkisráðuneytisins barst 7. júní en tilnefning Tryggingastofnunar ríkisins barst ekki fyrr en 8. júlí. Við þessar aðstæður var það aðeins formsatriði að biskup undirritaði skipunarbréf þeirra sem tilnefndir höfðu verið af þessum samstarfsaðilum um prestsembættið. Var honum það því rétt samkvæmt 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga. Eftir það verður ekki séð að biskup hafi haft þau afskipti af umsóknarferlinu eða störfum hæfisnefndarinnar að varði við vanhæfisreglur stjórnsýsluréttar, enda var það að frumkvæði ríkisstjórnar Íslands sem ákveðið var að fresta veitingu prestsembættisins 15. júlí. Verður krafa stefndu því ekki tekin greina á grundvelli þessarar málsástæðu.

Stefnda heldur því einnig fram að fulltrúi utanríkisráðuneytisins í hæfisnefndinni hafi verið vanhæfur til setu í nefndinni vegna tengsla sinna við tengdason biskups og að formaður nefndarinnar hafi verið vanhæfur þar sem hann hafi verið skipaður af biskupi, sem hafi verið vanhæfur. Eins og fyrr segir var biskup ekki vanhæfur á þeim tíma sem formaður nefndarinnar var valinn og skipun hans féll undir réttmætar gerðir til þess að halda máli í horfi samkvæmt 1. mgr. 4. gr. stjórnsýslulaga. Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra í London starfaði með sr. Sigurði Arnarsyni frá 1. janúar 2003. Stefnda hefur ekki borið fram neitt það sem leitt gæti til þess að sendiherrann teldist vanhæfur á grundvelli hæfisreglu 6. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga, og verður þessari málsástæðu því ekki frekar sinnt.

Stefnda ber því einnig við að sá formgalli hafi verið á málsmeðferð hæfisnefndarinnar að einn nefndarmanna hafi setið hjá við afgreiðslu málsins án þess að taka efnislega afstöðu. Þetta hafi verið Una Björk Ómarsdóttir, og hafi hún átt kost á því að skila séráliti. Um afstöðu hennar hafi heldur ekki verið bókað í fundargerð hæfisnefndar, og það ekki verið fyrr en eftir að rökstuðningur nefndarinnar var veittur sem munnlegar upplýsingar um afstöðu Unu Bjarkar hafi komið fram, og þá komið í ljós að hún hafi talið stefndu hæfari til að fá stöðuna. Niðurstaða hæfisnefndar geti ekki talist bindandi þegar einn nefndarmanna af þremur sé á öndverðri skoðun, sbr. þær reglur sem gildi um valnefndir samkvæmt II. kafla starfsreglna um presta, þar sem niðurstaða verði að vera samhljóða til þess að val hennar sé bindandi. Málsmeðferð og niðurstaða hæfisnefndar hafi því verið ólögmæt og embættisveitingin ógildanleg að stjórnsýslurétti. Á þetta verður ekki fallist. Sérstaklega er tekið fram í 18. gr. starfsreglna um presta, sem hæfisnefndin hafði meðal málsgagna og stefnda vísar til, að við ákvörðun í valnefnd teljist það samstaða ef enginn mótmælir niðurstöðu. Hjáseta rjúfi ekki samstöðu. Með því að sitja hjá rauf þessi nefndarmaður því ekki samstöðu, og varð því samstaða um niðurstöðu nefndarinnar samkvæmt þessum reglum. Er þessi málsástæða stefndu því haldlaus. Ágreiningslaust er að æskilegt væri að bókað hefði verið um hjásetuna í fundargerð. Að það var ekki gert veldur þó ekki að ákvörðunin sé ógildanleg.

Loks ber stefnda því við að afgreiðsla hæfisnefndarinnar hafi verið ólögmæt vegna þess að hún hafi tekið ákvörðun án þess að öll umsóknargögn stefndu hafi verið til reiðu. Þannig hafi rannsóknarregla stjórnsýsluréttar verið brotin er nefndin tók ákvörðun 18. nóvember 2003, án þess að meðmæli hafi verið komin frá dr. Catherine Keller prófessor í trúfræði við Drew háskóla í Bandaríkjunum, þar sem stefnda hafi nýlokið meistaraprófi. Á þetta verður ekki fallist. Á fyrsta fundi hæfisnefndarinnar 8. júlí voru umsóknir skoðaðar. Þá kom í ljós að meðmæli fylgdu umsókn sr. Sigurðar Arnarsonar en ekki umsókn stefndu. Formaður nefndarinnar hafði samband við stefndu símleiðis til Bandaríkjanna og bauð henni að bæta þar úr. Stefnda kaus að gera það, en samkvæmt gögnum málsins mun hún ekki hafa sent meðmæli og önnur gögn frá Bandaríkjunum fyrr en 4. nóvember, en þá voru fjórir mánuðir liðnir frá því umsóknarfrestur rann út. Degi fyrir fund nefndarinnar 18. nóvember lá fyrir að meðmælin með stefndu höfðu ekki borist og aflaði stefnda nýrra eintaka af öllum gögnunum nema greindra meðmæla frá dr. Keller. Það var á ábyrgð stefndu að sjá til þess að gögn þau sem hún vildi að nefndin hefði í störfum sínum bærust henni í tíma og engin skylda hvíldi á nefndarmönnum að bíða þeirra. Er þessi málsástæða stefndu því einnig haldlaus.

IV.

Auk þeirra formlegu annmarka, sem hér að framan voru teknir til meðferðar, heldur stefnda því fram að efnisannmarkar hafi verið á niðurstöðu hæfisnefndarinnar. Rök aðila varðandi þessa málsástæðu stefndu eru ýtarlega rakin í héraðsdómi.

Í auglýsingu um embætti sendiráðsprests í London var tekið fram að það væri skilyrði að umsækjendur hefðu haldgóða prestsreynslu og að æskilegt væri að þeir hefðu framhaldsmenntun, helst á sviði sálgæslu og sjúkrahúsþjónustu. Þá var tilgreint að ríkar kröfur væru gerðar til færni í mannlegum samskiptum, hæfileika til sjálfstæðis í starfi og frumkvæðis. Auk þess voru gerðar kröfur til góðrar enskukunnáttu í mæltu og rituðu máli. Með hliðsjón af þessu var farið fram á að umsækjendur gerðu grein fyrir menntun sinni, starfsferli og öðru sem þeir óskuðu eftir að taka fram.

Hæfisnefndin hélt fjóra fundi og komst að niðurstöðu 18. nóvember 2003, eftir að hafa fengið umsækjendur í viðtal. Af umbeðnum rökstuðningi hæfisnefndar 1. desember 2003 verður ráðið að nefndin hafi reist niðurstöðu sína á umsóknum, framhaldsmenntun og starfsreynslu umsækjenda. Taldi nefndin starfsreynslu umsækjenda á Íslandi sambærilega. Hefðu þeir báðir stundað framhaldsnám, stefnda í doktorsnámi undanfarin þrjú ár en sr. Sigurður lokið ársnámi í klíniskri sálgæslu og þjálfun í prestsstörfum á sjúkrahúsum. Segir síðan að framhjá því verði ekki litið að „nám sr. Sigurðar hefur beina tilvísun til þeirra starfa sem sótt er um og er á því sérsviði sem sérstaklega er óskað eftir í auglýsingu um starfið. Ákvörðun um val á sr. Sigurði byggðist á heildarmati hvað varðar sérmenntun samkvæmt auglýsingu svo og umfangi á prestsstörfum beggja umsækjenda.“

Við mat sitt var nefndinni rétt að byggja á öllum málefnalegum sjónarmiðum og eru þau skýrlega rakin í 17. gr. starfsreglna um presta. Stefnda reisir kröfu sína á því að nefndin hafi ekki gætt málefnalegra sjónarmiða við mat á starfsreynslu og menntun umsækjenda.

Af gögnum málsins verður ráðið að stefnda hafði fimm árum lengri reynslu af prestsstarfi en sá sem skipaður var í embættið. Hún hafði starfað sem sóknarprestur á Íslandi í ellefu ár, en sr. Sigurður hafði aldrei gegnt slíku embætti. Fallast verður á með stefndu að ábyrgð sóknarprests sé ríkari en prests, en sá fyrrnefndi ber ábyrgð á starfrækslu embættis samkvæmt 43. gr. starfsreglna um presta og gegnir skyldum samkvæmt ákvæðum 2. gr. til 7. gr. reglnanna. Telja verður að nefndinni hafi borið að líta til þessa munar á umsækjendum við mat á starfsreynslu þeirra og að matið sé að þessu leyti ekki málefnalegt. Þau rök sem nefndin teflir fram fyrir því að starfsreynsla umsækjenda sé sambærileg þrátt fyrir að stefnda hafi lengri starfsferil að baki, svo sem vegna þess að óvenju mikið og stöðugt starfsálag hafi verið á sr. Sigurði, breyta engu í þessum efnum, enda verður ekki séð að sambærilegt mat hafi farið fram á starfsálagi stefndu.

Í auglýsingunni kom fram að framhaldsmenntun væri æskileg, helst á sviði sálgæslu og sjúkrahúsþjónustu. Stefnda hafði lokið meistaraprófi eftir þriggja ára framhaldsnám í háskóla á sviði guðfræði og lagði stund á doktorsnám erlendis. Sr. Sigurður hafði hins vegar lokið eins árs framhaldsnámi á því sviði sem tilgreint var í auglýsingu. Hafði stefnda því meiri framhaldsmenntun en sr. Sigurður, þó svo að hún væri ekki á því sviði sem sérstaklega var tilgreint. Virðist sem framhaldsmenntun sr. Sigurðar á umræddu sviði hafi raunar ráðið úrslitum um niðurstöðu nefndarinnar. Var ekki réttmætt að gefa því sjónarmiði jafn ríkt vægi og gert var, enda kom aðeins fram í auglýsingunni að framhaldsmenntun væri æskileg og þá helst á umræddu sviði. Verður því ekki talið að nefndin hafi gætt málefnalegra sjónarmiða við mat á umsækjendum að þessu leyti.

Að þessu virtu verður talið að stefnda hafi sýnt fram á að starfsreynsla hennar og menntun nýtist henni þannig að hún hafi verið sr. Sigurði jafnhæf eða hæfari til að gegna embætti sendiráðsprests í London. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna er markmið þeirra að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Markmið III. kafla laganna er að stemma stigu við mismunun á vinnumarkaði, en erfitt getur verið að sanna að um hana hafi verið að ræða. Lögin yrðu að þessu leyti þýðingarlítil nema meginreglur kaflans væru skýrðar svo, að konu skuli veita starf ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin og karlmaður, sem við hana keppir, að því er menntun varðar og annað sem máli skiptir, þegar á starfssviðinu eru fáar konur. Ber að fylgja fordæmum réttarins um þessa lögskýringu, sbr. H. 1993:2230, H.1996:3760 og H 1998:3599. Fram er komið að engin kona gegndi prestsstarfi erlendis. Að svo komnu var það áfrýjanda að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun að skipa sr. Sigurð í embættið. Með vísan til þess sem að framan er rakið um rökstuðning hæfisnefndarinnar hefur áfrýjandi ekki gert það. Verður því talið að brotið hafi verið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 með skipuninni.

Með málsókn þessari hefur verið neytt heimildar í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að leita að svo stöddu dóms eingöngu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu áfrýjanda. Stefnda hefur til stuðnings kröfu sinni bent á mismun á launum og hlunnindum sendiráðsprests í London og sóknarprests í Grafarholtsprestakalli, sem hún var skipuð til að gegna 1. júlí 2004. Hafa verið leiddar nægilegar líkur að því að stefnda hafi orðið fyrir fjárhagstjóni sem áfrýjandi ber skaðabótaábyrgð á. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

Áfrýjandi skal greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska þjóðkirkjan, greiði stefndu, Sigríði Guðmarsdóttur, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. janúar 2006.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 6. desember 2004 og dómtekið 4. janúar sl. Stefnandi er sr. Sigríður Guðmarsdóttir, Kirkjustétt 7a, Reykjavík. Stefndi er biskup Íslands fyrir hönd íslensku þjóðkirkjunnar, Laugavegi 31, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefndi sé skaðabótaskyldur vegna skipunar sr. Sigurðar Arnarssonar í embætti sendiráðsprests í London 25. nóvember 2003 og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 500.000 krónur í miskabætur með dráttarvöxtum frá 7. desember 2004. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu auk málskostnaðar.

I.

Málsatvik

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun hr. Sigurðar Sigurðarsonar, staðgengils biskups Íslands hinn 25. nóvember 2003, að skipa sr. Sigurð Arnarson í embætti sendiráðsprests í London, en auk sr. Sigurðar Arnarsonar hafði stefnandi sótt um stöðuna. Helstu atvik málsins eru ágreiningslaus.

Í ágúst 2002 auglýsti biskup Íslands á vefsíðu biskupsstofu eftir fjórum til fimm prestum til afleysinga vegna námsleyfa presta í um níu mánaða skeið frá 1. september þess árs. Samkvæmt því sem fram kom í skýrslum við aðalmeðferð málsins var þar m.a. um að ræða afleysingar á embætti sendiráðsprests í London. Í ágúst 2002 var sr. Sigurður Arnarson settur til að gegna embætti sendiráðsprests í London, en sr. Sigurður er tengdasonur biskups Íslands, hr. Karls Sigurbjörnssonar. Samkvæmt því sem fram kom í skýrslum við aðalmeðferð málsins var ákvörðun um að sr. Sigurður fengi umrædda setningu að stærstum hluta í höndum skipaðs sendiráðsprests, sr. Jóns Baldvinssonar, sem skrifstofustjóri biskupsstofu, Ragnhildur Benediktsdóttir, staðfesti fyrir hönd biskups. Í mars 2003 var sr. Jón A. Baldvinsson kjörinn vígslubiskup á Hólum og losnaði þá varanlega umrætt embætti sendiráðsprests. Í lok þessa mánaðar vísiteraði hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, söfnuðinn í London og í framhaldi af því fylgdi sr. Sigurður Arnarson honum í vísitasíu til Lúxemborgar.

Hinn 4. júní 2003 birtist auglýsing á vefsíðu biskupsstofu um að laust væri til umsóknar embætti prests í London. Um væri að ræða samstarfsverkefni biskups Íslands, Tryggingastofnunar ríkisins og utanríkisráðuneytisins á grundvelli sérstaks samstarfssamnings. Biskup Íslands skipaði í embættið til fimm ára frá og með 1. september 2003. Skyldur prestsins væru þríþættar: a. Almenn prestsþjónusta við Íslendinga í London. b. Skyldur við sjúklinga sem sendir eru til London á vegum Tryggingastofnunar ríkisins og aðstandendur þeirra. c. Skyldur innan sendiráðs Íslands í London þar sem prestur hefur starfsaðstöðu. Þá kemur fram í auglýsingunni að presturinn hafi skyldum að gegna við Íslendinga á meginlandi Evrópu, einkum í Lúxemborg og nærliggjandi svæðum samkvæmt nánari ákvörðun biskups. Þá segir í auglýsingunni:

 

Skilyrði er að umsækjendur hafi haldgóða prestreynslu. Æskilegt er að umsækjendur hafi framhaldsmenntun, helst á sviði sálgæslu eða sjúkrahúsþjónustu. [/] Ríkar kröfur eru gerðar til færni í mannlegum samskiptum, hæfileika til sjálfstæðis í starfi og frumkvæðis. Starfið er krefjandi og erilsamt. Viðkomandi skal leggja til bifreið. Gerðar eru kröfur til góðrar enskukunnáttu í mæltu og rituðu máli. [/] Með hliðsjón af ofangreindu geri umsækjendur skriflega grein fyrir menntun sinni, starfsferli og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram. [/] Þriggja manna hæfisnefnd tilnefnd af samstarfsaðilum metur umsækjendur og mælir með einum. Niðurstaða nefndarinnar er bindandi. [/] Um launakjör fer skv. ákvörðun kjaranefndar um laun sérþjónustu­presta og skv. ofangreindum samstarfssamningi . [/] Að öðru leyti gilda um starfið lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. [/] Vísað er til laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. [/] Allar upplýsingar um embættið eru veittar á biskupsstofu. [/] Umsóknir sendist biskupi Íslands, biskupsstofu, Laugavegi 31, 150 Reykjavík. [/] Umsóknarfrestur rennur út 4. júlí 2003.

 

Undir auglýsinguna ritaði Ragnhildur Benediktsdóttir, skrifstofustjóri biskupsstofu, fyrir hönd biskups. Sama auglýsing birtist í Lögbirtingablaðinu 6. júní 2003. Sam­kvæmt skýrslum hr. Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands, og Unu Bjarkar Ómars­dóttur, lögfræðings Tryggingastofnunar ríkisins, var það að kröfu Tryggingastofnunar sem niðurstaða hæfisnefndarinnar skyldi vera bindandi.  

Með bréfi 4. júní 2003 sótti sr. Sigurður Arnarson um umrætt embætti. Stefnandi sótti um embættið með bréfi 12. sama mánaðar. Hinn 5. sama mánaðar ritaði Ragnhildur Benediktsdóttir sr. Jóni Bjarman bréf þar sem þess var farið á leit, fyrir hönd biskups Íslands, að sr. Jón tæki sæti sem formaður í hæfisnefnd vegna skipunar í embættið. Í greinargerð stefnda kemur þó fram að áður, eða 16. apríl 2003, hafi hr. Karl Sigurbjörnsson haft samband við sr. Jón símleiðis og beðið hann um að taka að sér starfið. Með bréfi hr. Karls 8. júlí 2003 var sr. Jón skipaður formaður nefndarinnar. Með bréfum hr. Karls sama dag voru Sverrir Haukur Gunnlaugsson, sendiherra, og fyrrnefnd Una Björk Ómarsdóttir skipuð í nefndina. Var Sverrir Haukur skipaður samkvæmt tilnefningu utanríkisráðuneytisins og Una Björk samkvæmt tilnefningu Trygginga­stofnunar ríkisins. Þennan dag, þ.e. 8. júlí 2003, var haldinn fundur í hæfisnefndinni í húsnæði biskupsstofu. Með bréfi 9. sama mánaðar vék hr. Karl Sigurbjörnsson sæti að því er varðaði umrædda skipun með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og fól hr. Sigurði Sigurðarsyni vígslubiskupi að skipa í embættið, sbr. 15. gr. laga nr. 78/1997.  Er ágreiningslaust í málinu að ástæða þessarar ákvörðunar hr. Karls hafi verið að þá var komið í ljós að tengdasonur hans, sr. Sigurður Arnarson, var meðal umsækjenda um stöðuna. Í umræddu bréfi hr. Karls til vígslubiskups er tekið fram að niðurstaða skipaðrar hæfisnefndar sé bindandi.

Í síðari hluta júlí 2003 kom upp ágreiningur um framkvæmd samstarfssamnings  þeirra þriggja aðila sem stóðu að embættinu í London og mun þar hafa verið um að ræða athugasemdir Tryggingastofnunar ríkisins við hlutdeild stofnunarinnar í kostnaði við rekstur embættisins. Í greinargerð stefnda kemur fram að umrædd frestun hafi verið ákveðin á ríkisstjórnarfundi 15. júlí 2003. Samkvæmt skýrslu hr. Karls Sigur­björns­sonar barst honum á þessum tíma bréf frá kirkjumálaráðherra um að fresta yrði skipunarferlinu af þeim ástæðum sem áður er lýst og gerði hann sr. Jóni Bjarman og hr. Sigurði Sigurðarsyni vígslubiskupi aðvart um þetta. Samkvæmt minnisblaði sr. Jóns Bjarmans 16. júlí 2003 leit hann svo á að veruleg óvissa væri um fjárhagshlið málsins og óráðlegt að ganga frá vali prests í embættið á meðan svo væri. Óskaði hann þess að biskup Íslands mætti á fund hæfisnefndarinnar 18. sama mánaðar. Samkvæmt skýrslu hr. Karls Sigurbjörnssonar hugleiddi hann á þessum tíma að láta skipunarferli falla niður og auglýsa að nýju í starfið þegar málin skýrðust. Í framhaldi af viðræðum við starfsmannasvið fjármálaráðuneytisins hafi hins vegar verið fallið frá þeirri leið. Samkvæmt fundargerð hæfisnefndar 18. júlí 2003 kom hr. Karl á fund nefndarinnar. Var það niðurstaða nefndarinnar að fresta viðtölum við umsækjendur þar til niðurstaða um afdrif embættisins lægi fyrir. Jafnframt var ákveðið að fresta störfum nefndarinnar ótiltekið.

Setning sr. Sigurðar Arnarsonar í embætti prests í London var framlengd frá 1. júlí til 1. september 2003, en eftir þann tíma gegndi enginn embættinu af þeim fjárhagslegu ástæðum sem áður greinir. Í september 2003 ákvað hr. Karl Sigurbjörns­son að sr. Sigurður og sr. Jón A. Baldvinsson vígslubiskup skyldu skiptast á að fara til London einu sinni í mánuði til að messa þar til búið væri að skipa í embættið. Í stefnu segir að vegna mótmæla formanns prestafélagsins hafi hr. Karl fallist á að stefnandi messaði í eitt skipti í London. Hafi stefnandi messað í London í nóvember 2003.

Hæfisnefnd hélt fundi 8. júlí 2003 og 14. sama mánar auk fundarins 18. sama mánaðar sem áður er getið. Ágreiningslaus er að stefnanda var gefinn kostur á að auka gögnum við umsókn sína eftir að nefndin hafði frestað störfum sínum. Póstlagði stefnandi endurskoðaða umsókn ásamt fylgigögnum í byrjun nóvember 2003. Umsækjendur voru boðaðir til viðtals hjá nefndinni 18. nóvember 2003. Í ljós kom að umsóknargögn stefnanda sem póstlögð höfðu verið í Bandaríkjunum höfðu ekki borist nefndinni. Eru aðilar sammála um að leggja til grundvallar í máli þessu að stefnandi hafi komið til fundar við sr. Jón Bjarman, formann hæfisnefndarinnar, að kvöldi hins 17. nóvember 2003 og afhent honum afrit allra umsóknargagna að frátöldu meðmæla­bréfi dr. Catherine Keller, leiðbeinanda stefnanda í doktorsnámi hans.

Samkvæmt fundargerð hæfisnefndar 18. nóvember 2003 var farið yfir viðbótar­gögn frá báðum umsækjendum sem og spurningar nefndarmanna sem þeir höfðu undirbúið fyrir viðtalið. Þá voru tekin viðtöl af stefnanda og sr. Sigurði Arnarsyni. Samkvæmt skýrslu Unu Bjarkar Ómarsdóttur var henni þó ekki kunnugt um að til stæði að taka viðtöl af umsækjendum á þessum fundi og hafði hún ekki undirbúið spurningar til umsækjenda líkt og aðrir nefndarmenn.

Samkvæmt aðilaskýrslu stefnanda var honum tilkynnt að nefndin myndi taka ákvörðun á fundi 21. nóvember 2003. Samkvæmt skýrslu fyrir dómi ræddi nefndin hins vegar umsóknir stefnanda og sr. Sigurðar Arnarsonar þegar eftir að viðtölum lauk hinn 18. nóvember 2003. Samkvæmt skýrslum nefndarmanna fyrir dómi töldu sr. Jón Bjarman og Sverrir Haukur Gunnlaugsson að sr. Sigurður væri hæfastur, en Una Björk Ómarsdóttir áleit að stefnandi væri hæfastur. Var sú ákvörðun tekin með atkvæðum umræddra tveggja manna að velja sr. Sigurð, en Una Björk sat hjá við atkvæða­greiðslu. Lýsti Una Björk því í skýrslu sinni fyrir dómi að hún hefði ekki talið sérstaka ástæðu til þess að greiða atkvæði gegn vali á sr. Sigurði, enda hefði legið fyrir að slíkt atkvæði hefði ekki sérstaka þýðingu um endanlega niðurstöðu málsins. Niðurstaða hæfisnefndarinnar var kynnt stefnanda símleiðis 19. nóvember 2003. Hinn 25. nóvember 2003 skipaði hr. Sigurður Sigurðarson, staðgengill biskups Íslands, sr. Sigurð Arnarson til að gegna umræddu embætti frá 1. mars 2004 að telja.

Stefnandi óskaði eftir rökstuðningi hæfisnefndar með bréfi 20. nóvember 2003. Var rökstuðningur nefndarinnar veittur með bréfi formanns nefndarinnar 1. desember 2003. Eru umsóknir stefnanda og sr. Sigurðar raktar í bréfinu. Þá segir orðrétt:

Báðir umsækjendur hafa lagt stund á framhaldsnám. Sr. Sigríður hefur lagt stund á doktorsnám undanfarin þrjú ár, sem enn stendur yfir. Sr. Sigurður hefur lokið ársnámi í klínískri sálgæslu og þjálfun í prestsstörfum á sjúkrahúsum. Framhjá því verður hins vegar ekki litið að nám sr. Sigurðar hefur beina tilvísun til þeirra starfa sem sótt er um og er á því sérsviði sem sérstaklega er óskað eftir í auglýsingu um starfið. [/] Ákvörðun um val á sr. Sigurði byggðist á heildarmati hvað varðar sérmenntun samkvæmt auglýsingu svo og umfangi á preststörfum beggja umsækjenda. [/] Niðurstaða beggja umsækjenda var því að sr. Sigurður væri, af tveimur hæfum umsækjendum, hæfari til starfsins.

Stefnandi féllst ekki á röksemdir hæfisnefndar fyrir vali sínu og leitaði til jafnréttisnefndar þjóðkirkjunnar með bréfi 2. desember 2003. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu 20. janúar 2004 að við val á sendiráðspresti í London hefði jafnréttisáætlun kirkjunnar ekki verið virt. Þá vísaði nefndin einnig til laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og leiðbeinandi reglna biskups um málsmeðferð fyrir valnefnd og umsækjendur nr. 789/2002, sbr. 18. gr. starfsreglna um presta nr. 735/1998.

Í þinghaldi 5. október 2005 gaf sr. Jón Bjarman, formaður hæfisnefndar stefnda, skýrslu fyrir dómi á grundvelli samkomulags aðila og með heimild í 4. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við aðalmeðferð málsins gáfu aðilaskýrslur stefnandi og hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands. Þá komu fyrir dóminn sem vitni Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra, hr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup, Una Björk Ómarsdóttir lögfræðingur Tryggingastofnunar ríkisins, Ragnhildur Benediktsdóttir skrifstofustjóri biskupsstofu, sr. Sigurður Arnarson sendiráðsprestur í London, sr. Jón Helgi Þórarinsson formaður prestafélags Íslands, sr. Sigrún Óskars­dóttir formaður  jafnréttisnefndar kirkjunnar og sr. Kristinn Jens Sigurþórsson prestur að Saurbæ.

Samkvæmt aðilaskýrslu hr. Karls Sigurbjörnssonar fyrir dómi vissi hann ekki að sr. Sigurður Arnarson hefði sótt um umrætt starf fyrr en umsóknir voru opnaðar á biskupsstofu eftir fyrstu helgina í júlí 2003, þ.e. 7. þess mánaðar. Hins vegar kom fram í skrýslu hans að hann hefði vel getað ímyndað sér að sr. Sigurður hefði hug á að sækja um, en sr. Sigurður hafði áður fært þetta í tal við hr. Karl án þess þó að þar kæmi fram ákveðinn afstaða sr. Sigurðar. Þá kom fram í skýrslu hr. Karls að hann hefði við þetta tækifæri tekið skýrt fram við sr. Sigurð að hann gæti ekki rætt þetta mál við hann og honum leyfðist hvorki að letja hann né hvetja; hann yrði að halda sér utan við þessar umþenkingar hans. Samkvæmt skýrslu hr. Karls ræddi hann óformlega við hr. Sigurð Sigurðarson vígslubiskup um að til þess gæti komið að hann þyrfti að víkja sæti vegna skipunar í embætti sendiráðsprests. Samkvæmt skýrslu hr. Sigurðar fyrir dómi átti þetta samtal sér stað í kringum prestastefnu á árinu 2003 eða í lok maí þess árs.

Samkvæmt skýrslu hr. Sigurðar Sigurðarsonar vígslubiskups hafði hann efasemdir um að heimilt væri að kveða svo á að niðurstaða hæfisnefndar væri bindandi við skipun í embætti sendiráðsprests. Aðspurður af dómara um hvort hr. Sigurður hafi litið svo á að hann væri bundinn af niðurstöðu hæfisnefndarinnar við skipun í embættið sagði hr. Sigurður að til þess hefði ekki þurft að koma að hann gerði þetta upp við samvisku sína. Kom fram í skýrslu hr. Sigurðar að hann hefði ekki tekið umrædda ákvörðun nema vera sjálfur sáttur við hana. 

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að á veitingu umrædds embættis hafi verið bæði formlegir og efnislegir annmarkar og hún því verið ólögmæt. Séu annmarkar verulegir og beri stefndi ábyrgð á fjártjóni stefnanda og miska.

Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, hafi haft veruleg afskipti af umræddri skipun áður en hann vék sæti 9. júlí 2003. Þannig hafi hr. Karl sett tengdason sinn til að gegna umræddri stöðu áður en embættið losnaði. Hann beri ábyrgð á efni auglýsingar um embættið, þar sem tekið var fram að niðurstaða hæfisnefndar skyldi vera bindandi. Hann hafi tilnefnt sjálfur sr. Jón Bjarman í hæfisnefnd eftir að tengdasonur hans hafði sent inn umsókn um embættið og skipaði sjálfur alla nefndarmenn í hæfisnefndina eftir að umsóknarfrestur var liðinn. Hann hafi sjálfur framlengt setningu tengdasonar síns í embættið í júlí 2003. Hann hafi sjálfur ákveðið að fresta veitingu embættis prests í Lundúnum. Hann hafi einnig ákveðið sjálfur að embættinu yrði ekki ráðstafað til bráðabirgða. Hann hafi ákveðið í september 2003 að tengdasonur hans myndi ásamt fyrrverandi presti í London þjóna embættinu með því að messa þar einu sinni í mánuði þar til skipað hefði verið í embættið. Þá hafi hann haft afskipti af stjórnsýslumálinu með ýmsum óbeinum hætti, en hann hafi m.a. rætt við nefndarmenn í hæfisnefnd eftir að hann hafði vikið sæti í málinu og ráðningarferlið var langt á veg komið auk þess sem hann hafi sent út fréttatilkynningu þar sem hann fjallaði um ráðstöfun á embættinu. Stefnandi telur að hr. Karl hafi orðið vanhæfur til meðferðar málsins og borið að víkja sæti þegar fyrir lá að sr. Sigurður Arnarson hafði hug á því að sækja um embættið. Telur stefnandi að gögn málsins sýni hr. Karli hafi verið þetta ljóst þegar í byrjun maí. Auk þess vísar stefnandi til þess að sr. Sigurður hafi hafið undirbúning að umsókn sinni þegar um vorið 2003 þegar ljóst var að embættið myndi losna. Stefnandi hafnar því að afskipti hr. Karls hafi takmarkast við að halda málinu til haga.

Í annan stað telur stefnandi að óheimilt hafi verið að kveða á um það að niðurstaða hæfisnefndar væri bindandi. Vísar stefnandi til þess að starfsreglur um sérþjónustu­presta skv. auglýsingu nr. 824/1999, sem settar séu með heimild í 44. og 59. gr. laga nr. 78/1997 eigi ekki við umrætt embætti. Þá hafi hæfisnefndin ekki verið valnefnd vegna veitingar embættis sóknarprests líkt og kveðið sé á um í starfsreglum um presta nr. 735/1998. Stefnandi telur að skipunarvald í umrædda stöðu hafi verið hjá biskupi Íslands, sbr. 37. gr. laga nr. 78/1997 og hafi hann brostið heimild til að framselja þetta vald án heimildar í lögum. Auk þess telur stefnandi að þetta fyrirkomulag hafi verið fordæmalaust í framkvæmd embættisveitinga. Í þessu sambandi vísar stefnandi einnig til þess að það hafi brotið gegn jafnræðisreglu að biskup hafi ákveðið að í þetta eina sinn skyldi niðurstaða hæfisnefndar vera bindandi. Telur stefnandi að með umræddri ákvörðun hafi hr. Karl bundið hendur staðgengils síns eftir að honum mátti vera ljóst að tengdasonur hans hafði sótt um embættið. Sú ákvörðun að mæla fyrir um bindandi niðurstöðu hæfisnefndar hafi því verið ómálefnaleg og ólögmæt. Þá séu í skipunar­bréfum þeim er biskup Íslands gaf út til nefndarmanna 8. júlí 2003 engin fyrirmæli um að niðurstaða þeirra eigi að vera bindandi.

Í þriðja lagi reisir stefnandi kröfur sínar á því að nefndarmennirnir, sr. Jón Bjarman og Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra, hafi verið vanhæfir samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vegna tengsla sinna við umsækjandann sr. Sigurð Arnarson. Sr. Sigurður hafi starfað í sendiráði Íslands í London við hlið Sverris Hauks meðan á setningartíma hans sem sendiráðsprests stóð. Ljóst sé af gögnum málsins að staða sendiráðsprestsins sé í skipuriti sendiráðsins og presturinn hafi margvíslegar skyldur gagnvart sendiráðinu. Stefnandi bendir á að atkvæði Sverris Hauks hafi ráðið úrslitum og því sé öll málsmeðferð nefndarinnar ógildanleg að stjórnsýslu­rétti. Þá telur stefnandi ljóst að sr. Jón Bjarman hafi verið vanhæfur til setu í hæfisnefnd þar sem hann var bæði tilnefndur og skipaður af vanhæfum stjórnvalds­hafa. Þá sé sr. Jón náinn vinur hr. Karls og fjölskyldu hans.

Í fjórða lagi bendir stefnandi á ýmsa annmarka á málsmeðferð hæfisnefndarinnar. Þannig hafi nefndarmanninum Unu Björk Ómarsdóttur verið óheimilt að sitja hjá við afgreiðslu málsins í nefndinni. Henni hafi borið að skila séráliti væri hún ósammála meirihlutanum. Þá hafi borið að bóka um afstöðu hennar í fundargerð. Þá getur niðurstaða hæfisnefndar undir engum kringumstæðum talist bindandi að mati stefnanda þegar einn nefndarmanna af þremur er á öndverðri skoðun við hina tvo nema slíkt hafi stoð í lögum eða reglum með lagastoð. Málsmeðferð og niðurstaða hæfisnefndar sé samkvæmt þessu ólögmæt og sé embættisveitingin ógildanleg að stjórnsýslurétti.

Í fimmta lagi grundvallar stefnandi kröfur sínar á því að hæfisnefnd hafi tekið ákvörðun án þess að hafa öll umsóknargögn stefnanda og þannig brotið gegn rannsóknar­reglu stjórnsýsluréttar. Er í þessu sambandi einkum vísað til þess að með­mæli frá dr. Catherine Keller, prófessors í trúfræði við Drew háskóla, hafi ekki verið komin til nefndarinnar þegar tekin var ákvörðun um val á umsækjanda.

Að lokum byggir stefnandi kröfur sínar á því að með skipun sr. Sigurðar hafi hæfasti umsækjandinn um umrædda stöðu ekki verið valinn. Skipun sr. Sigurðar sé því stjórnvaldsákvörðun sem grundvallist á ólögmætum sjónarmiðum að því er varðar mat á hæfni umsækjenda, en við mat á hæfni megi benda á leiðbeiningar í 4. gr. starfs­reglna nr. 824/1999 og 17. gr. starfsreglna um presta nr. 735/1998 auk 6. og 7. gr. leiðbeinandi reglna biskups nr. 789/2002 fyrir valnefndir og umsækjendur. Í fyrsta lagi sé menntun stefnanda meiri en menntun sr. Sigurðar. Þannig virðist skv. gögnum um nám sr. Sigurðar Arnarsonar í guðfræði eftir embættispróf að hann hafi einungis lokið fjórum einingum í því sem kallast CPE nám í sjúkrahúsprestafræðum. Hann hafi ekki lokið neinu akademísku prófi á háskólastigi eftir embættispróf sem komist nálægt því að vera sambærilegt við prófgráðu stefnanda. Stefnandi hafi stundað framhalds­nám eftir embættispróf í þrjú og hálft ár, en sr. Sigurður í eitt ár. Stefnandi hafi meistarapróf á sviði guðfræði frá bandarískum háskóla og hafi stundað doktorsnám í guðfræði. Það hafi ekki verið lögmætt sjónarmið að leggja svo afgerandi áherslu á nám á sviði sálgæslu og sjúkrahúsþjónustu, þrátt fyrir að í auglýsingu komi fram að framhalds­menntun á þessu sviði sé æskileg. Ljóst sé af gögnum máls að umrætt embætti felist í hverfandi mæli í aðstoð við sjúklinga. Þá hafi hæfisnefndin ekki metið á móti námi sr. Sigurðar á sviði sálgæslu hina víðtæku reynslu stefnanda sem sóknar­prests í ellefu ár í tveimur einmenningsprestaköllum sem gerð var ítarleg grein fyrir í umsókn, sérstök störf hennar við sálgæslu eftir snjóflóð á Vestfjörðum og loks sálgæslu í samstarfi við sendiráðið í New York m.a. eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001.

Að því er varðar starfsaldur stefnanda og sr. Sigurðar Arnarsonar vísar stefnandi til þess að starfsaldur stefnanda sé fimm árum lengri en starfsaldur sr. Sigurðar. Þá sé einnig ljóst að sr. Sigurður hafi aldrei starfað sem sóknarprestur. Stefnandi telur að engin raunverulegur samanburður sé gerður á inntaki og eðli starfsreynslu um­sækjendanna í rökstuðningi hæfisnefndar. Vísar stefnandi í þessu sambandi til umfjöllunar hæfisnefndar um störf sr. Sigurðar í Grafarvogssókn annars vegar og ýmis störf stefnanda hins vegar, m.a. störf stefnanda sem prests á Ísafirði í tvo mánuði eftir snjóflóðið á Súðavík og preststörf í Bandaríkjunum. Þá gerir stefnandi athugsemdir við að sr. Sigurður hafi verið látinn njóta þess að hafa starfað sem sendiráðsprestur um eins árs skeið þrátt fyrir að setning hans í stöðuna hafi verið með þeim hætti sem áður greinir. Telur stefnandi að þetta hafi verið ómálefnalegt. Stefnandi byggir einnig á því að með tilvísun í auglýsingu til laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla hafi borið að gæta þess sérstaklega hvort allra lögmætra sjónarmiða væri gætt. Er í þessu sambandi einnig vísað til jafnréttisáætlunar þjóðkirkjunnar og bent á að jafnréttissjónarmið virðist ekki hafa komið til skoðunar við umrædda skipun. Telur stefnandi að samkvæmt umræddum lögum og jafnréttisáætlun hafi borið að skipa stefnanda í stöðuna, enda séu konur í minnihluta í öllum stöðum innan raða stefnda. Til stuðnings þessum sjónarmiðum er vísað til álits jafnréttisnefndar kirkjunnar í máli stefnanda 20. janúar 2004. Af framangreindu telur stefnandi ljóst að brotið hafi verið gegn 22. og 24. gr. laga nr. 96/2000 sbr. 1. og 13. gr. sömu laga. Beri stefndi því bótaábyrgð gagnvart stefnanda samkvæmt 28. gr. laganna.

Að því er varðar kröfu stefnanda um viðurkenningu á skaðabótaskyldu er á það bent að umrædd skipun hafi verið ólögmæt og háð svo verulegum form- og efnis­annmörkum að hún væri ógildanleg að stjórnsýslurétti. Stefndi beri ábyrgð á því fjártjóni sem hann hafi valdið stefnanda með saknæmum og ólögmætum hætti. Tjón stefnanda er talið nema launum og hlunnindum sendiráðsprests í Lundúnum frá skipunar­tíma hans 1. mars 2004 til 1. júlí 2004, auk mismunar á launum stefnanda í núverandi embætti og launum er hún hefði haft sem skipaður sendiráðsprestur í Lundúnum, en áskilinn er réttur til að afla frekari gagna um umfang tjónsins. Að því er varðar kröfu um miska er á það bent að mikil starfsreynsla stefnanda, ábyrgð og álag, glæsilegur námsferill og farsæll starfsferill hafi verið sniðgenginn á einkar niðurlægjandi hátt. Ber stefndi ábyrgð á þeirri ólögmætu meingerð sem stefnandi hafi orðið fyrir á æru sinni og persónu samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993. Við mat á miska stefnanda beri að taka tillit til þeirrar hneisu og óþæginda sem það hafi valdið henni að stefndi braut í veigamiklum atriðum margar þær grundvallarreglur sem um stjórnsýslu embættis hans gilda, bæði að formi og efni samkvæmt því sem rakið hefur verið. Einnig er vísað til 28. gr. laga nr. 96/2000, svo sem áður greinir.

 

III.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi hafnar því alfarið að umrædd skipun hafi verið ólögmæt að formi eða efni.

Að því er varðar ætlað vanhæfi hr. Karls Sigurbjörnssonar vísar stefndi til þess að hr. Karl hafi vikið sæti vegna vanhæfis þegar ljóst varð að sr. Sigurður Arnarson hafði sótt um. Hann hafi svo hvergi komið nálægt skipun sr. Sigurðar. Stefndi hafnar því að hr. Karli hafi borið að víkja sæti áður en auglýsing um embættið var samin og birt. Telur stefndi þvert á móti að hr. Karli hefði verið óheimilt að víkja sæti svo snemma undan starfsskyldum sínum, enda hafi sr. Sigurði sjálfum ekki einu sinni verið ljóst á þessum tíma hvort hann myndi sækja um. Vísar stefndi einnig til þess að vinnubrögð sem þessi þekkist ekki innan stjórnsýslunnar og gangi auk þess ekki upp í mannfáu samfélagi. Stefndi vísar til þess að þegar í apríl 2003 hafi hr. Karl verið búinn að hafa samband við sr. Jón Bjarman og óska eftir því að hann tæki að sér starfann. Er í greinargerð stefnda ítarlega rakið hvers vegna sr. Jón hafi verið æskilegur formaður hæfisnefndar í krafti reynslu sinnar og stöðu.

Í greinargerð er því mótmælt sem röngu að setning sr. Sigurðar hafi verið framlengd í júlí 2003. Hið rétta sé að þetta hafi verið gert í apríl 2003 og þá í þeim tilgangi að tryggja að prestlaust yrði í London. Það sé einnig rangt sem fram komi í stefnu að hr. Karl hafi sjálfur skipað alla nefndarmenn í hæfisnefndina. Hið rétta sé að utanríkisráðuneytið hafi tilnefnt Sverri Hauk Gunnlaugsson sendiherra og Tryggingastofnun tilnefnt Unu Björk Ómarsdóttur lögfræðing. Þar sé því ljóst að skipun hr. Karls í hæfisnefndina hafi einungis verið formlegs eðlis. Það sé einnig rangt að hr. Karl hafi sjálfur ákveðið að fresta veitingu embættis í London. Hið rétta sé að 15. júlí hafi hr. Karl fengið skilaboð frá dóms- og kirkjumálaráðherra um að á ríkisstjórnarfundi þann sama dag hefði verið ákveðið að fara fram á að veitingu embættisins í London yrði frestað vegna andmæla Tryggingastofnunar við þeim kostnaði sem stofnunin átti að bera vegna prestsembættisins í London. Það hafi því verið ríkisstjórnin en ekki hr. Karl sem hafi ákveðið að fresta veitingu embættisins. Þetta og ekkert annað hafi hr. Karl rætt við nefndarmenn í hæfisnefnd á fundi nefndarinnar þann 18. júlí 2003. Stefndi telur að ekkert hafi verið athugavert við það að biskupsstofa hafi sent út fréttatilkynningu um frestun á veitingu embættisins í kjölfarið.

Stefndi telur að það hafi verið klaufalegt að bjóða ekki stefnanda að fyrra bragði að messa í London áður en skipað yrði í embættið, en hins vegar hafi verið brugðist við athugasemdum stefnanda um þetta atriði fljótt og vel. Hafi stefnandi og sr. Sigurður því hvort um sig haldið eina messu í London á þessu tímabili.

Stefndi hafnar því að honum hafi verið ljóst 11. maí 2003 að sr. Sigurður hygðist sækja um embætti prests í London, enda hafi sr. Sigurður þá sjálfur ekki verið enn búinn að gera upp hug sinn. Geti það ekki haggað þessu þótt sr. Sigurður hafi á þessum tíma verið búinn að afla sér meðmæla. Sú vinnuregla sé í gildi hjá biskups­stofu að skoða ekki umsóknir um laus störf fyrr en umsóknarfrestur sé runninn út. Hr. Karl hafi komið til starfa úr sumarleyfi mánudaginn 7. júlí og hafi honum ekki orðið ljóst fyrr en þá að sr. Sigurður hafði sótt um embættið. Hann hafi vikið sæti í málinu með bréfi 9. sama mánaðar. Þar sem þegar hafði verið ákveðið hverjir ættu að eiga sæti í hæfisnefnd hafi verið talið heimilt að ganga frá formlegri skipun í nefndina. Hafi málinu með því einungis verið haldið í horfinu uns staðgengill hefði tekið við, sbr. 4. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þessi skipun hafi engin áhrif haft á úrslit málsins þar sem þegar hafði verið ákveðið hverjir ættu sæti í hæfisnefndinni.

Að því er varðar þá ákvörðun að niðurstaða hæfisnefndar yrði bindandi bendir stefndi á að um hafi verið að ræða kröfu Tryggingastofnun ríkisins sem stefndi hafi orðið við. Stefndi telur að tilvísun stefnanda til starfsreglna nr. 824/1999 sé byggð á misskilningi enda gildi þessar reglur ekki um þá stöðu sem hér um ræði. Um starf sendiráðsprests í London gildi starfsreglur nr. 737/1998 um íslensku þjóðkirkjuna erlendis, en í 5. gr. þeirra reglna sé vísað til starfsreglna um presta nr. 735/1998 eftir því sem við geti átt. Stefndi dregur þá ályktun af 14. til 19. gr. starfsreglna nr. 735/1998 sem fjalla um valnefndir að heimilt sé að ákveða að niðurstaða hæfisnefndar sé bindandi, enda hafi hæfisnefndin haft svipaða stöðu og valnefnd þótt hún væri ekki skipuð með sama hætti. Stefndi telur raunar að það sé sjaldnast þannig að biskup Íslands ákveði sjálfur hver eigi að hljóta stöður þótt hann fari með veitingarvald samkvæmt 37. gr. laga nr. 78/1997. Meginreglan innan kirkjunnar sé sú að embætti séu veitt á grundvelli bindandi vals, kosninga eða kjörs, sbr. 2. til. 19. gr. starfsreglna um presta nr. 735/1998 og 29. gr. sömu reglna. Allt þetta mæli með því að heimilt hafi verið að ákveða að niðurstaða hæfisnefndar yrði bindandi. Stefndi telur einnig að skipan hæfisnefndarinnar hafi verið til þess fallin að tryggja vandaða málsmeðferð. Skipan nefndarinnar hafi þannig falið í sér vandaðri málsmeðferð en ef einn maður hefði skipað í stöðuna. Í þessu sambandi er einnig vísað til þess að ýmis fordæmi séu fyrir því að skipaðar séu hæfisnefndir þótt álit þeirra hafi ekki verið bindandi.

Að því er varðar hæfi sr. Jóns Bjarmans og Sverris Hauks Gunnlaugssonar sendiherra er málsástæðum stefnanda hafnað. Vísað er til 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 og lögskýringargagna um að vináttubönd geti ekki valdið vanhæfi nema þau séu mjög náin. Mikið þurfi því að koma til og sé útilokað að hugsanlegur kunningsskapur Sverris Hauks og sr. Sigurðar fullnægi því skilyrði. Einnig er bent á að vegna leyfis Sverris Hauks hafi hann haft mjög lítil kynni af sr. Sigurði meðan hann var settur sendiráðsprestur. Stefndi hafnar einnig fullyrðingum um að hr. Karl hafi þegar verið orðinn vanhæfur þegar hann tilnefndi sr. Jón Bjarman. Þá hafi formleg skipun sr. Jóns eingöngu verið formlegs eðlis. Því er mótmælt að vinátta sr. Jóns Bjarmans og hr. Karls Sigurbjörnssonar sé þess eðlis að valdi vanhæfi. Bent er á að fyrst og fremst sé um að ræða samstarfsmenn til lengri tíma. Hafnar stefnandi því að þetta geti valdið vanhæfi.

Stefndi hafnar því að Unu Björk Ómarsdóttur hafi verið óheimilt að sitja hjá við afgreiðslu í hæfisnefnd 18. nóvember 2003. Í 2. mgr. 34. gr. stjórnsýslulaga segi að afl atkvæða ráði úrslitum máls hjá stjórnsýslunefnd nema öðruvísi sé fyrir mælt í lögum. Í þessu felist að til að ákvörðun teljist samþykkt þurfi aðeins að vera fyrir hendi einfaldur meirihluti nefndarmanna svo sem við eigi í máli þessu. Þá er vísað til 18. gr. starfsreglna um presta nr. 735/1998 þar sem gert sé ráð fyrir hjásetu og segi í greininni að hjáseta rjúfi ekki samstöðu. Taka megi undir að æskilegt hefði verið að bóka um hjásetuna en þetta hafi þó ekki þýðingu fyrir sakarefni málsins. Þá kemur fram í greinargerð að engu skipti þótt Una Björk hafi síðar lýst yfir annarri skoðun á vali umsækjanda en fram hafi komið á fundinum 18. nóvember 2003. Jafnvel þótt svo yrði talið hefði það þó ekki þýðingu með hliðsjón af því að hún hafi verið í minnihluta.

Stefndi hafnar því að hæfisnefndin hafi tekið ákvörðun án þess að sinna rannsóknar­skyldu sinni. Á fyrsta fundi hæfisnefndarinnar 8. júlí hafi komið í ljós að engin meðmæli fylgdu með umsókn stefnanda og hafi honum þá verið gefinn kostur á að bæta úr því. Það hafi ekki verið fyrr en 4. nóvember 2003 sem stefnandi sendi af stað meðmæli og önnur gögn frá Bandaríkjunum. Á fundi hæfisnefndar þann 17. nóvember hafi orðið ljóst að umrædd meðmæli höfðu ekki borist nefndinni og hafi stefnandi þá aflað nýs eintaks af öllum gögnum nema meðmælum frá dr. Catherine Keller. Stefndi hafnar því alfarið að á hæfisnefndinni hafi hvílt sú skylda að bíða mánuðum saman eftir frekar gögnum frá stefnanda. Það hafi verið á ábyrgð stefnanda að senda hæfisnefndinni þau gögn sem stefnandi vildi að tekið yrði tillit til.

Að því er varðar ætlaða efnisannmarka á niðurstöðu hæfisnefndarinnar vísar stefndi í fyrsta lagi til þess að það hafi verið hæfisnefndin en ekki stefndi sem tók ákvörðun í málinu. Geti stefndi enga ábyrgð borið á störfum nefndarinnar. Hefði stefnanda borið að höfða mál gegn þeim einstaklingum sem sátu í nefndinni. Verði talið að stefndi beri ábyrgð á störfum hæfisnefndarinnar vísar hann til þess að ákvörðun nefndarinnar hafi verið reist löglegum og málefnalegum sjónarmiðum. Gengið hafi verið út frá því að báðir umsækjendur væru hæfir til að gegna umræddri stöðu. Við mat á umsækjendum hafi nefndinni verið heimilt að byggja á öllum mál­efna­legum sjónarmiðum. Eins og kemur fram í rökstuðningi hæfisnefndarinnar, hafi nefndin byggt ákvörðun sína á umsóknum aðila, meðmælum, viðtölum, menntun og starfsreynslu þeirra. Eins og segir í stefnu hafi nefndinni borið m.a. við mat sitt að líta til 17. gr. starfsreglna um presta nr. 735/1998 en þar segir: ,,Við mat á hæfni umsækjenda skal valnefnd m.a. líta til menntunar þeirra, starfsaldurs, starfsreynslu og starfsferils. Sé áskilin sérstök þekking eða reynsla í auglýsingu um laust embætti eða starf er að öðru leyti sérhæft, skal meta umsækjendur eftir því hvernig þeir uppfylla þau sérstöku skilyrði.” Hæfisnefndin hafi einnig haft til hliðsjónar leiðbeinandi reglur biskups um málsmeðferð fyrir valnefnd, en sem fyrr sé það misskilningur hjá stefnanda að reglur nr. 824/1999 hafi átt við um hæfisnefndina. Í samræmi við 6. gr. leiðbeinandi reglna biskups um málsmeðferð fyrir valnefnd hafi verið tekin umfangsmikil og krefjandi viðtöl við umsækjendur og frammistaða þeirra metin.

Annað málefnalegt sjónarmið sem hæfisnefndin hafi lagt til grundvallar hafi verið menntun. Stefndi telur að í stefnu sé lítið gert úr menntun sr. Sigurðar Arnarsonar. Óumdeilt sé að stefnandi hafi lengri háskólagöngu en sr. Sigurður. Hins vegar hafi sr. Sigurður framhaldsmenntun á því sviði sem beðið var um í auglýsingu um embætti prests í London. Sr. Sigurður hafi verið í CPE námi í Meriter-sjúkrahúsinu í Madison Wisconsin í klínískri sálgæslu og þjálfun í prestsstörfum á sjúkrahúsum frá 1. september 2001 til 31. ágúst 2002. Nám sr. Sigurðar hafi verið mjög umfangsmikið og eftirsótt. Námið sé byggt upp sem fræðilegt og verklegt nám undir handleiðslu presta sem lærðir eru í klínískum fræðum. Það sé einnig stór hluti af náminu að vera við störf á sjúkrahúsum og hafi sr. Sigurður verið við störf á Meriter- sjúkrahúsinu. Þetta nám sr. Sigurðar jafngildi 15 eininga mastersnámi við Háskóla Íslands. Stefnandi hafi enga framhaldsmenntun hvorki í sálgæslu né sjúkrahúsþjónustu og hljóti það að teljast málefnalegt sjónarmið að líta til þess að annar umsækjandi hafi þá menntun sem beðið var um og skiptir máli í því starfi sem sótt er um. Stefndi bendir í þessu sambandi á 17. gr. starfsreglna um presta nr. 735/1998 en þar sé tekið sérstaklega fram að sé áskilin sérstök þekking eða reynsla í auglýsingu um laust embætti skuli meta um­sækjendur eftir því hvernig þeir uppfylla þau sérstöku skilyrði. Einnig er vísað til d. liðar 2. mgr. 13. gr. starfsreglnanna þar sem segir að í auglýsingu skuli m.a. koma fram hvort lögð sé sérstök áhersla á hæfni umsækjenda til að sinna tilteknum þáttum safnaðarstarfs. Því er mótmælt sem fram kemur í stefnu að starf sendiráðsprests felist í hverfandi mæli í  aðstoð við sjúklinga.

Þriðja málefnalega sjónarmiðið sem hæfisnefndin leit til hafi verið starfsreynsla umsækjendanna. Nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að starfsreynsla þeirra á Íslandi væri sambærileg. Vísar stefnandi til þess að almennt sé viðurkennt innan presta­stéttarinnar að Grafarvogsprestakall sé meðal þyngstu prestakalla landsins enda sé um að ræða fjölmennasta prestakallið. Þegar sr. Sigurður hafi komið til starfa í Grafarvogi hafi hann verið þriðji starfsmaður safnaðarins sem ráðinn var í fullt starf en fyrir hafi verið sóknarprestur og kirkjuvörður. Í dag starfi þar fjórir prestar í fullu starfi og sjö aðrir starfsmenn í fullu starfi. Er nánar vikið að því í greinargerð í hverju starf sr. Sigurðar í Grafarvogssókn hafi falist. Þá er einnig vísað til þess að reynslan af starfi sr. Sigurðar í London það ár sem hann var settur í starf sendiráðsprests hafi verið góð. Er í þessu sambandi vísað til gagna málsins um ánægju sóknarbarna í London með störf sr. Sigurðar meðan hann var settur og jákvæðra viðbragða við skipun hans. Telur stefndi að mat hæfisnefndar á starfsreynslu hafi verið málefnalegt.

Að því er varðar mat á umsóknum er að lokum vísað til ýmissa meðmæla sem lögð voru fram. Eru í greinargerð stefnda talin upp fjölmörg meðmælabréf sem fylgdu umsókn sr. Sigurðar. Þá segir að meðmæli stefnanda hafi hins vegar borist seint.

Samkvæmt öllu framangreindu telur stefndi ljóst að ákvörðun hæfisnefndarinnar hafi verið reist á málefnalegum sjónarmiðum. Það sé meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöld velji á hvaða málefnalegu sjónarmiðum þau byggja ákvörðun sína og ákveði jafnframt hvaða sjónarmið þau leggja áherslu á. Þannig hafi hæfisnefndinni verið fyllilega heimilt að leggja áherslu á menntun á því sérstaka sviði sem tiltekið var í auglýsingu. Þar sem ljóst sé að ákvörðun hæfisnefndarinnar hafi verið tekin á grund­velli málefnalegra sjónarmiða hafi nefndin haft verulegt svigrúm til töku ákvörðunar sinnar. Eigi dómstólar að fara varlega í að endurskoða það mat.

Að því er varðar lög nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla telur stefndi að þar sem fyrir liggi að skipun sr. Sigurðar hafi grundvallast á málefna­legum sjónarmið sé ljóst að sr. Sigurður hafi verið hæfari en stefnandi til að gegna starfinu. Jafnframt bendir stefndi á að til að um brot á lögum nr. 96/2000 geti verið að ræða verði stefnandi að leggja fram gögn sem sýni fram á líkur á því að ástæða meintrar mismununar sé kynferði, sbr. 3. mgr. 24. gr. laganna. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein slík gögn, en ekkert bendi til þess að kynferði hafi skipt máli við ákvörðun nefndarinnar. Að því er varðar jafnréttisnefnd kirkjunnar tekur stefndi fram að nefndin sé einungis ráðgefandi. Þar sem hæfisnefndin hafi talið að sr. Sigurður væri hæfari, en ekki einungis jafnhæfur og stefnandi, í starf það sem um var að ræða sé hvorki um að ræða brot gegn jafnréttislögum né jafnréttisáætlun kirkjunnar. Það sé þvert á móti brot á jafnréttislögum að ráða konu í starf ef umsækjandi af karlkyni telst hæfari.

Stefndi vísar einnig til þess að þótt svo ólíklega vildi til að talið yrði að brotið hefði verið gegn einhverjum formreglum stjórnsýslulaga við meðferð málsins leiði það ekki til ógildingar ákvörðunarinnar og því getur ákvörðunin ekki talist hafa verið ólögmæt. Hugsanlegir annmarkar geti með öðrum orðum ekki talist vera verulegir eða verið til þess fallnir að hafa áhrif á efnislega niðurstöðu. Að því er varðar skaðabóta­skyldu stefnda er einnig vakin athygli á því að ekki hafi verið sýnt fram á að stefndi hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi eða að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem teljist sennileg afleiðing slíkrar háttsemi. Vísar stefndi m.a. til þess að stefnandi gegni nú embætti sóknarprests í Grafarholtsprestakalli og hafi þar hærri laun en nemi prests­laununum í London.

Að því er varðar kröfu um miskabætur hafnar stefndi því alfarið að það geti hafa skaðað æru og persónu stefnanda að sr. Sigurður hafi verið tekinn fram yfir stefnanda. Stefndi telur það af og frá að það hafi verið ásetningur eða stórkostlegt gáleysi stefnda eða nefndarmanna í hinni sérstöku hæfisnefnd að skaða æru eða persónu stefnanda. Telur stefndi því að engin ólögmæt meingerð hafi verið framin gegn æru eða persónu stefnanda. Er m.a. vísað til þess að stefnandi hafi verið skipaður sóknarprestur í Grafar­holts­prestakalli 1. júlí 2004 og var valinn úr stórum hópi umsækjenda. Það megi því öllum vera ljóst að stefndi meti hæfileika stefnanda mikils.

IV.

Niðurstaða

Samkvæmt 37. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar skipar biskup Íslands í embætti presta til starfa meðal Íslendinga erlendis, sbr. 45. gr. laganna. Er ekki um það deilt í málinu að biskup Íslands hafi farið með skipunarvald við veitingu embættis sendiráðsprests í London sumarið 2003 samkvæmt nefndum lagaákvæðum. Með bréfi 9. júní 2003 til hr. Sigurðar Sigurðarsonar vígslubiskups vék hr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sæti vegna skipunar í embættið með vísan til 2. töluliðar 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fór hr. Sigurður með skipunar­vald vegna stöðuveitingarinnar sem staðgengill biskups Íslands upp frá þessu, sbr. lokaorð 1. málsliðar 15. gr. laga nr. 78/1997. Í umræddu bréfi biskups Íslands til vígslubiskups kom fram að niðurstaða hæfisnefndar, sem skipuð hafði verið deginum áður, væri bindandi. Hafði þessi afstaða einnig komið fram í auglýsingum um lausn embættisins og bréfum til þeirra sem skipaðir voru í hæfisnefndina. Liggur fyrir í málinu að sú tilhögun, sem hér var kveðið á um, var til komin að kröfu Trygginga­stofnunar ríkisins sem var einn þriggja aðila sem fjármagnaði stöðu sendi­ráðs­prests í London.

Það er álit dómara að biskupi Íslands hafi verið óheimilt að framselja umrætt skipunar­vald sitt til stjórnsýslunefndar, sem stofnað var til vegna umræddrar embættis­­veitingar, án sérstakrar heimildar í settum lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða stjórnsýsluvenju. Ljóst er að slíkum heimildum var ekki til að dreifa í lögum nr. 78/1997 eða öðrum lagafyrirmælum. Þá áttu ekki við um skipun í embætti sendiráðs­prests ákvæði II. kafla starfsreglna um presta nr. 735/1998 sem fjalla um val valnefnda á sóknarprestum. Að lokum hefur ekki verið sýnt fram á stjórnsýsluvenju um heimildir til þess framsals opinbers valds er hér um ræðir. Var biskupi Íslands því óheimilt að kveða svo á að niðurstaða þeirrar hæfisnefndar sem skipuð var 8. júlí 2003 væri bindandi fyrir handhafa skipunarvalds.

Í málinu liggur fyrir að af hálfu nefndarmanna var litið svo á að þeir hefðu vald til þess að kveða á um það með bindandi hætti hverjum yrði veitt hið umdeilda embætti sendiráðs­prests. Samkvæmt framburði Unu Bjarkar Ómarsdóttur, eins þriggja nefndar­manna hæfisnefndarinnar, taldi hún ástæðulaust að greiða sérstaklega atkvæði eða skila séráliti við afgreiðslu nefndarinnar með hliðsjón af því að um var að ræða endanlega niðurstöðu málsins. Má því allt eins ætla að umræddur nefndarmaður hefði skilað séráliti til staðgengils biskups, ef ekki hefði ranglega verið út frá því gengið að umsögn nefndarinnar væri bindandi. Þá er ekki unnt að útiloka að ummæli hr. Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands, í framangreindu bréfi 9. júlí 2003 þess efnis að niðurstaða nefndarinnar væri bindandi, hafi haft áhrif á endanlega ákvörðun stað­gengils biskups Íslands. Er þá einnig litið til þess að engin sjálfstæð könnun á umsóknum og hæfni umsækjenda virðist hafa farið fram af hálfu staðgengils biskups.

Samkvæmt framangreindu var sá annmarki á meðferð málsins sem nú hefur verið lýst ótvírætt til þess fallinn að hafa áhrif á störf hæfisnefndarinnar svo og endanlega niðurstöðu staðgengils biskups um veitingu embættisins. Af hálfu stefnda hefur ekki verið sýnt fram á að niðurstaða umrædds umsagnar- og skipunarferils hefði orðið sú sama ef umræddur annmarki hefði ekki komið til. Er þá litið til þess að gögn málsins bera með sér að bæði stefnandi og sr. Sigurður Arnarson, sem hlaut embættið, voru talin vel hæf til starfans og hefur ekki verið sýnt fram á að sr. Sigurður hafi haft augljósa yfirburði yfir stefnanda þannig að skylt hafi verið að skipa hann í stöðuna. Verður stefndi að bera hallan um óvissu um hverjar lyktir málsins hefðu orðið, ef rétt hefði verið staðið að undirbúningi og skipun í umrædda stöðu. Þegar af þessum ástæðum er það álit dómara að stefndi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna umræddrar skipunar að því er varðar fjártjón hans. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt umrædd ákvörðun biskups Íslands hafi verið tekin að kröfu Trygginga­stofnunar ríkisins, enda er í máli þessu ekki leyst úr ábyrgð Trygginga­stofnunar eða hugsanlegri endurkröfu stefnda á hendur þeirri stofnun.

Að mati dómara telst framangreindur annmarki á málsmeðferð stefnda ekki meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda, sbr. b. lið 1. mgr. 24. gr. skaðabóta­laga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Sama á við þótt fallist væri á máls­ástæður stefnanda viðvíkjandi vanhæfi biskups Íslands, vanhæfi sr. Jóns Bjarmans og Sverris Hauks Gunnlaugssonar sendiherra, sem sátu í framangreindri hæfis­nefnd, sem og fullyrðingar stefnanda um ætluð brot nefndarinnar á máls­meðferðar­reglum. Kemur því eingöngu til skoðunar hvort umrædd skipun hafi grund­vallast á ómálefnalegum sjónarmiðum, einkum hvort skipunin hafi verið andstæð lögum nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þannig að stefnanda beri miskabætur samkvæmt 2. málslið 28. gr. laganna, eins og það ákvæði verður skýrt til samræmis við b. lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1993.

Eins og áður er rakið er ekki unnt að útiloka að stefnandi hefði hlotið umrætt embætti, ef farið hefði verið að lögum við veitingu þess. Í samræmi við ítrekuð fordæmi Hæstaréttar Íslands ber að skýra ákvæði jafnréttislaga, sbr. nú 24. gr. nr. 96/2000, þannig að ef kona og karl sækja um stöðu sé skylt að skipa konuna, ef hún er að minnsta kosti jafnt að stöðunni komin að því er varðar menntun og annað sem máli skiptir, enda séu fáar konur á viðkomandi starfssviði. Eins og málið liggur fyrir verður því að ganga út frá því að skipun sr. Sigurð Arnarsonar í embætti sendiráðsprests hafi brotið gegn umræddu ákvæði laga nr. 96/2000. Á það er hins vegar að líta að ekkert í málsmeðferð stefnda eða efnislegri ákvörðun hans fól í sér lítillækkun á persónu stefnanda eða niðrandi afstöðu til kynferðis hans, menntunar, starfsferils eða reynslu. Þá verður einnig að árétta að dómari lítur ekki svo á að sýnt hafi verið fram á að stefnandi hafi verið augljóslega hæfari en meðumsækjandi hans, sr. Sigurð Arnarson, eða að sýnt hafi verið fram á að stefnandi hefði ótvírætt verið skipaður í umrædda stöðu, ef rétt hefði verið staðið að undirbúningi og skipun í embættið. Að öllu virtu er það því niðurstaða dómara að ekki séu efni til þess að dæma stefnanda sérstaklega miskabætur samkvæmt 28. gr. laga nr. 96/2000 eða samkvæmt b. lið 1. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1993.

Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda hluta af málskostnaði hans. Er þá einnig litið til niðurstöðu um frávísunarkröfu stefnda í úrskurði héraðsdóms 19. september sl. Að virtu umfangi málsins þykir rétt að stefndi greiði 400.000 krónur upp í málskostnað stefnanda og rennur sú fjárhæð í ríkissjóð samkvæmt 4. mgr. 128. gr. laga nr. 91/1991.

Stefnandi fékk útgefið leyfi til gjafsóknar við meðferð málsins í héraði hinn 10. febrúar 2005. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hans, Sifjar Konráðsdóttur hrl. að fjárhæð 1.050.000 krónur, greiðist því úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts á máflutningsþóknun.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sif Konráðsdóttir hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Gestur Jónsson hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

 

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, íslensku þjóðkirkjunnar, gagnvart stefnanda, sr. Sigríði Guðmarsdóttur, vegna skipunar í embætti sendiráðsprests í London 25. nóvember 2003.

Stefndi er sýkn af kröfu stefnanda um miskabætur vegna framangreindrar skipunar.

Stefndi greiði 400.000 krónur upp í málskostnað stefnanda sem renni til ríkis­sjóðs.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Sifjar Konráðsdóttur hrl., að fjárhæð 1.050.000 krónur.