Print

Mál nr. 301/2011

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Forgangskrafa
  • Innstæða
  • Lánssamningur
  • Stjórnarskrá
  • Eignarréttur
  • Afturvirkni
  • Jafnræði
  • Meðalhóf
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Lagaskil
  • Samningsvextir
  • Sératkvæði

                                                                                              

Föstudaginn 28. október 2011.

Nr. 301/2011.

Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited

Arrowgrass Master Fund Ltd.

CIG & Co

Conseq Invest plc

Conseq Investment Management AS

CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l.

Fondo Latinoamericano de Reservas (F.L.A.R.)

GLG European Distressed Fund

GLG Market Neutral Fund

ING Life Insurance and Annuity

ING USA Annuity and Life Insurance Co.

LMN Finance Ltd.

Lyxor/Third Point Fund Limited

Monumental Life Insurance Company

National Bank of Egypt (UK) Limited

Ohio National Life Assurance Corporation

PHL Variable Insurance Company

Phoenix Life Insurance Company

Reliastar Life Insurance Company

Security Life of Denver Insurance

Sun Life Assurance Company of Canada

Third Point Partners LP (US)

Third Point Offshore Master Fund LP

Third Point Partners Qualified LP

Third Point Ultra Master Fund LP (Cayman)

Värde Fund LP

Värde Fund V-B LP

Värde Fund VI-A LP

Värde Fund VII-B LP

The Värde Fund VIII LP

The Värde Fund IX LP/The Värde Fund IX-A LP

Värde Investment Partners LP

Värde Investment Partners (Offshore) Master LP

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Bayerische Landesbank

Bremer Landesbank

Commerzbank AG

Commerzbank International S.A.

Erste Europäische Pfandbrief- und

 Kommunalkreditbank AG

Eurohypo AG

DekaBank Deutsche Girozentrale

DekaBank Deutsche Girozentrale Luxembourg S.A.

Deutsche Postbank International S.A.

Düsseldorfer Hypothekenbank AG

DZ BANK AG Deutsche Zentral Genossenschaftsbank

Landesbank Baden-Württemberg

LBBW Luxembourg SA

Deutsche Hypothekenbank AG

Raiffeisenbank International AG

Österreichische Volksbanken AG

Sparkasse Oberhessen

Taunus-Sparkasse

Sparkasse Pforzheim Calw

Sparkasse-Jena-Saale-Holzland

Sparkasse Hannover

Nassauische Sparkasse Anstalt des öffentlichen Rechts

Kreissparkasse Peine

Die Sparkasse Bremen AG

Sparkasse Oder-Spree

(Arnar Þór Jónsson hrl.)

Deutsche Bank Trust Company Americas og

(Eyvindur Sólnes hrl.)

Landsbanki Guernsey Ltd.

(Gunnar Jónsson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf. og

(Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

Gemeente Dordrecht

(Andri Árnason hrl.)

og

Gemeente Dordrecht

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited

Arrowgrass Master Fund Ltd.

CIG & Co

Conseq Invest plc

Conseq Investment Management AS

CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l.

Fondo Latinoamericano de Reservas (F.L.A.R.)

GLG European Distressed Fund

GLG Market Neutral Fund

ING Life Insurance and Annuity

ING USA Annuity and Life Insurance Co.

LMN Finance Ltd.

Lyxor/Third Point Fund Limited

Monumental Life Insurance Company

National Bank of Egypt (UK) Limited

Ohio National Life Assurance Corporation

PHL Variable Insurance Company

Phoenix Life Insurance Company

Reliastar Life Insurance Company

Security Life of Denver Insurance

Sun Life Assurance Company of Canada

Third Point Partners LP (US)

Third Point Offshore Master Fund LP

Third Point Partners Qualified LP

Third Point Ultra Master Fund LP (Cayman)

Värde Fund LP

Värde Fund V-B LP

Värde Fund VI-A LP

Värde Fund VII-B LP

The Värde Fund VIII LP

The Värde Fund IX LP/The Värde Fund IX-A LP

Värde Investment Partners LP

Värde Investment Partners (Offshore) Master LP

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Bayerische Landesbank

Bremer Landesbank

Commerzbank AG

Commerzbank International S.A.

Erste Europäische Pfandbrief- und

Kommunalkreditbank AG

Eurohypo AG

DekaBank Deutsche Girozentrale

DekaBank Deutsche Girozentrale Luxembourg S.A.

Deutsche Postbank International S.A.

Düsseldorfer Hypothekenbank AG

DZ BANK AG Deutsche Zentral Genossenschaftsbank

Landesbank Baden-Württemberg

LBBW Luxembourg SA

Deutsche Hypothekenbank AG

Raiffeisenbank International AG

Österreichische Volksbanken AG

Sparkasse Oberhessen

Taunus-Sparkasse

Sparkasse Pforzheim Calw

Sparkasse-Jena-Saale-Holzland

Sparkasse Hannover

Nassauische Sparkasse Anstalt des öffentlichen Rechts

Kreissparkasse Peine

Die Sparkasse Bremen AG

Sparkasse Oder-Spree

(Arnar Þór Jónsson hrl.)

WGZ Bank Luxembourg S.A.

Landesbank Berlin AG

Deutsche Postbank AG

Caixa Geral de Depositos

The Royal Bank of Scotland plc.

ABN AMRO Bank NV, London Branch

Sparkasse zu Lübeck AG

Vereinigte Sparkassen im Landkreis Weilheim

KfW Bankengruppe

Arrowgrass Special Situations S.a.r.l.

Skika ehf.

Blomstra ehf.

Íslensku útflutningsmiðstöðinni hf.

Óttari Yngvasyni

Rakel Óttarsdóttur

(enginn)

Deutsche Bank Trust Company Americas og

(Eyvindur Sólnes hrl.)

Landsbanki Guernsey Ltd.

(Gunnar Jónsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð. Forgangskrafa Innstæða. Lánssamningur. Stjórnarskrá. Eignarréttur. Afturvirkni. Jafnræði. Meðalhóf. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Lagaskil. Samningsvextir. Sératkvæði.

A og fleiri kærðu úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem krafa hollenska sveitarfélagsins GD var talin innstæða og viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit bankans LÍ hf. Var krafan viðurkennd með samningsvöxtum frá 6. júlí 2008 til og með 22. apríl 2009. GD kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti þar sem hann taldi að fallast bæri kröfu sína um viðurkenningu áfallins kostnaðar sem forgangskröfu. Ýmsum málsástæðum var teflt fram af hálfu sóknaraðila, þar á meðal að þeir hefðu beðið tjón vegna setningar laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og að ákvæði í þeim fengju ekki staðist gagnvart stjórnarskránni og nánar tilgreindum fjölþjóðlegum samningum, sem Ísland hefði undirgengist. Um þann þátt sagði í dómi Hæstaréttar að í máli þessu og tíu öðrum að auki reyndi á stjórnskipulegt gildi 6. gr. laga nr. 125/2008. Í einu þeirra, hæstaréttarmálinu nr. 340/2011, héldu sóknaraðilar þess máls fram sömu málsástæðum og gert væri í þessu máli um annmarka á lögum nr. 125/2008, en dómur í því hefði verið kveðinn upp fyrr sama dag. Í kafla II í áðurnefndum dómi Hæstaréttar væri gerð grein fyrir efni laga nr. 125/2008 og tilfærð orðrétt 6. gr. þeirra, sem ágreiningur málsaðila stæði einkum um, en með henni hefði réttindaröð krafna við skipti á búum fjármálafyrirtækja verið breytt þannig að innstæðukröfum væri skipað sem forgangskröfum samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Í sama kafla dómsins væri getið um yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á þremur stærstu viðskiptabönkum landsins í beinu framhaldi af setningu laganna, þar á meðal varnaraðilans LÍ hf., og stofnun nýrra banka á grunni þeirra eldri. Loks væru í þessum kafla dómsins rakin sjónarmið sóknaraðila um stjórnskipulega annmarka á lögum nr. 125/2008, sem ættu að leiða til þess að þau yrðu virt að vettugi við úrlausn málsins og gagnstæð sjónarmið varnaraðila þess máls, sem teldu að lögin samræmdust bæði stjórnarskránni og fjölþjóðlegum samningum sem Ísland hefði undirgengist. Í kafla III í áðurnefndum dómi væri gerð grein fyrir lögskýringargögnum með frumvarpi, sem orðið hefði að lögum nr. 125/2008, að því marki sem skipti máli við úrlausn um ágreining aðilanna. Þar greindi ennfremur frá því að í lok árs 2008 hefðu verið sett lög nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða og þeim niðurstöðum rannsóknarnefndar á vegum Alþingis sem skiptu máli hér. Í kafla IV í áðurnefndum dómi væri síðan leyst úr ágreiningi um stjórnskipulegt gildi laga nr. 125/2008 þar sem hafnað væri málsástæðum sóknaraðila sem reistar væru á því að lögin færu í bága við stjórnarskrána og fjölþjóðlega samninga. Umfjöllun í köflum II og III í dómi Hæstaréttar í máli nr. 340/2011 ætti jafnt við í því máli sem hér væri til úrlausnar og jafnframt niðurstöður í kafla IV í dóminum. Ættu almenn sjónarmið sem þar væru rakin einnig við í þessu máli. Samkvæmt því væri hafnað málsástæðum sóknaraðila þessa máls sem reistar væru á því að lögin samrýmdust ekki stjórnarskrá og fjölþjóðlegum samningum.

Hæstiréttur vék því næst að því hvort viðskipti GD og LÍ hf. gætu talist innstæða í skilningi laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki giltu við slit fjármálafyrirtækis sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi. Þó skyldu kröfur um innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 njóta rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með innstæðu samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 væri samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins átt við innstæðu sem væri tilkomin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði bæri að endurgreiða samkvæmt skilmálum er giltu samkvæmt lögum eða samningum. Hæstiréttur rakti lögskipti sveitarfélagsins og LÍ hf. í tengslum við fjármuni þá sem sveitarfélagið átti hjá bankanum og taldi rétturinn að samkvæmt því sem þar kæmi fram og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar bæri að staðfesta þá niðurstöðu hans, að sveitarfélagið hefði átt hjá bankanum innlán sem telja bæri innstæðu samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og að sú innstæða nyti tryggingarverndar samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Af því leiddi að hin lýsta krafa sveitarfélagsins nyti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit bankans. Þá væri og með skírskotun til forsendna dóms Hæstaréttar í máli nr. 340/2011 sem og forsendna hins kærða úrskurðar í þessu máli fallist á þá niðurstöðu, að lágmarkstryggingarvernd sú sem mælt væri fyrir um í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 breytti engu um að tryggð innstæða nyti í heild sinni forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá vék Hæstiréttur að kröfu GD um að áfallinn kostnaður sveitarfélagsins yrði samþykktur sem forgangskrafa við slit LÍ hf. Hafnaði rétturinn þeirri kröfu með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar. Samkvæmt öllu framangreindu var niðurstaða málsins sú að viðurkennd var krafa GD að fjárhæð 1.402.348.118 krónur og var henni skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Eggert Óskarsson héraðsdómari og Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 15. apríl 2011 sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. maí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2011, þar sem krafa varnaraðilans hollenska sveitafélagsins Gemeente Dordrecht, hér eftir nefndur GD, að fjárhæð 8.286.640,18 evrur, að meðtöldum 4,79% samningsvöxtum frá 6. júlí 2008 til og með 22. apríl 2009, var viðurkennd sem forgangskrafa við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga.

Sóknaraðilinn Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited auk þrjátíu og tveggja annarra í sama hópi krefjast þess að kröfu varnaraðilans GD að lýstri fjárhæð

1.412.376.469 krónur verði hafnað sem forgangskröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. Til vara er þess krafist að verði fallist á að einhver hluti kröfu sveitarfélagsins njóti forgangs þá skuli sú fjárhæð vera að hámarki 20.887 evrur. Að því frágengnu er þess krafist að hafnað verði kröfu sveitarfélagsins um að vextir er fallið hafa á kröfuna njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Loks er þess krafist að gagnkröfu sveitarfélagsins um að viðurkenndar verði kröfur um tilteknar fjárhæðir, þar með talið um forgang þeirra krafna, umfram það sem samþykkt var af slitastjórn Landsbanka Íslands hf., verði hafnað. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðilinn Bayerische Landesbank og tuttugu og fjórir aðrir í sama hópi gera sömu kröfur og sóknaraðilinn Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited og fleiri að því undanskildu að í stað þess að hafna með öllu að vaxtakrafa varnaraðilans GD verði samþykkt sem forgangskrafa þá verði því hafnað að vextir, sem fallið hafi á kröfuna eftir 6. október 2008, njóti forgangs. Loks er þess krafist að hafnað verði gagnkröfum sveitarfélagsins um viðurkenningu á kröfufjárhæðum umfram þær fjárhæðir sem samþykktar hafa verið af slitastjórn varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., þar með talið um forgangsrétt slíkra fjárhæða. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðilinn Deutsche Bank Trust Company Americas krefst þess að hrundið verði niðurstöðu héraðsdóms um að áðurnefnd krafa sveitarfélagsins verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðilinn Landsbanki Guernsey Ltd. krefst þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þá leið að krafa sveitarfélagsins verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Til vara er þess krafist að hún verði aðeins viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 að hámarki 20.887 evrur. Loks er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.      

Varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann þess að kærumálskostnaður verði felldur niður.

Varnaraðilinn GD kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 24. maí 2011. Hann krefst þess aðallega að viðurkennd verði krafa hans á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 8.310.863,06 evrur og að krafan njóti stöðu í réttindaröð við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Til vara krefst varnaraðilinn að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir WGZ Bank Luxembourg S.A., Landesbank Berlin AG, Deutsche Postbank AG, Caixa Geral de Depositos, The Royal Bank of Scotland plc., ABN AMRO Bank NV, London Branch, Sparkasse zu Lübeck AG, Vereinigte Sparkassen im Landkreis Weilheim, KfW Bankengruppe, Arrowgrass Special Situations S.a.r.l., Skiki ehf., Blomstra ehf., Íslenska útflutningsmiðstöðin hf., Óttar Yngvason og Rakel Óttarsdóttir hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fyrir héraðsdómi kröfðust sóknaraðilarnir Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited og fleiri og Bayerische Landesbank og fleiri þess að kröfu varnaraðilans GD yrði vísað frá dómi að öðru leyti en því sem lýtur að fjárhæðum umfram það sem slitastjórn Landsbankans hefur samþykkt sem forgangskröfu. Í forsendum héraðsdóms fyrir hinum kærða úrskurði var þeirri kröfu hafnað, en í kærum þessara sóknaraðila til Hæstaréttar var krafan enn höfð uppi. Með bréfum þeirra 25. ágúst 2011 til Hæstaréttar var fallið frá þessari kröfu og kemur niðurstaða héraðsdóms um þetta atriði því ekki til úrlausnar fyrir réttinum.

I

Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Bankanum var eftir það veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember sama ár. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum áðurnefndra laga, var bankinn síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 29. sama mánaðar slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur bankanum. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 30. apríl 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Fjölmargir lýstu kröfu sinni af því tilefni, en meðal þeirra voru sóknaraðilar þessa máls eða í einhverjum tilvikum kröfuhafar, sem sóknaraðilar hafa eftir það öðlast rétt sinn frá. Í kröfum nær allra þeirra fólst jafnframt að þær hlytu stöðu í réttindaröð við slit bankans sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í langflestum tilvikum eru sóknaraðilar alþjóðleg fjármálafyrirtæki sem eiga skuldabréf og önnur verðbréf, sem gefin voru út af varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf. Breytingar hafa orðið á hópi upphaflegra sóknaraðila málsins, en nokkrir þeirra féllu frá aðild að því undir rekstri þess í héraði og fimmtán til viðbótar una niðurstöðu héraðsdóms og hafa ekki kært hana til Hæstaréttar fyrir sitt leyti. Vegna kæru varnaraðilanna á úrskurði héraðsdóms eiga þessir fimmtán kröfuhafar aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilinn GD sem er sveitarfélag í Hollandi krafðist þess fyrir slitastjórn að höfuðstóll kröfu hans að fjárhæð 8.310.863,06 evrur yrði viðurkenndur sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Krafan er til komin sem heildsöluinnlán sveitarfélagsins til útibús varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. í Hollandi 6. júlí 2007 að fjárhæð 8.000.000 evrur. Hún fól í sér höfuðstól innlánsins auk 4,79% samningsvaxta til og með 22. apríl 2009, en þá hafði verið tekið tillit til vaxtagreiðslu 7. júlí 2008 og dregin frá greiðsla Seðlabanka Hollands 18. mars 2009 vegna tryggingarverndar að fjárhæð 20.887 evrur. Loks fólst í kröfu sveitarfélagsins að greiddur yrði sem forgangskrafa innheimtukostnaður að fjárhæð 24.222,84 evrur, sem fallið hefði til fram að 22. apríl 2009.

Að loknum kröfulýsingarfresti lýsti slitastjórn Landsbanka Íslands hf. afstöðu sinni til einstakra krafna. Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði samþykkti hún höfuðstól kröfu sveitarfélagsins sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 sem og samningsvexti til og með 22. apríl 2009, en hafnaði þeim liðum kröfunnar sem lutu að innheimtukostnaði og málskostnaði. Sveitarfélagið mótmælti þessari afstöðu slitastjórnar og krafðist þess að krafan yrði viðurkennd að fullu eins og henni hafði verið lýst samkvæmt framansögðu. Sóknaraðilar og fleiri sem lýst höfðu kröfum sínum mótmæltu afstöðu slitastjórnar um viðurkenningu kröfunnar í réttindaröð samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði. Við meðferð málsins fyrir slitastjórn var án árangurs reynt að jafna ágreininginn. Við svo búið beindi hún málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 2. mars 2010 með vísan til 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.

Ágreiningur málsaðila er margþættur en hann á rót sína að rekja til áðurnefndra laga nr. 125/2008 sem sett voru 6. október 2008 en öðluðust gildi daginn eftir. Með þeim var eldri lögum breytt með þeim hætti, sem sóknaraðilar telja að fái ekki staðist og skaði verulega hagsmuni þeirra við væntanlegar greiðslur til kröfuhafa af eignum varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. við slit hans. Þá hefur því verið hreyft af hálfu hluta sóknaraðila að á ný hafi verið brotið á rétti þeirra með setningu áðurnefndra laga nr. 44/2009. Í meginatriðum eru ágreiningsefni málsins milli sóknaraðila og varnaraðila, en varnaraðila greinir einnig innbyrðis á um úrlausn afmarkaðra þátta í kröfu varnaraðilans GD. Nánar verður vikið að málsástæðum aðilanna hér á eftir svo sem þörf er á við úrlausn málsins.

II

Í máli þessu og tíu öðrum að auki sem í september 2011 voru flutt fyrir Hæstarétti, ýmist munnlega eða skriflega, reynir á stjórnskipulegt gildi 6. gr. laga nr. 125/2008. Í einu þeirra, hæstaréttarmálinu nr. 340/2011, halda sóknaraðilar þess máls fram sömu málsástæðum og gert er í þessu máli um annmarka á lögum nr. 125/2008, en dómur í því hefur verið kveðinn upp fyrr í dag. Í kafla II í áðurnefndum dómi Hæstaréttar er gerð grein fyrir efni laga nr. 125/2008 og tilfærð orðrétt 6. gr. þeirra, sem ágreiningur málsaðila stendur einkum um, en með henni var réttindaröð krafna við skipti á búum fjármálafyrirtækja breytt þannig að innstæðukröfum var skipað sem forgangskröfum samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Í sama kafla dómsins var getið um yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á þremur stærstu viðskiptabönkum landsins í beinu framhaldi af setningu laganna, þar á meðal varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., og stofnun nýrra banka á grunni þeirra eldri. Loks eru í þessum kafla dómsins rakin sjónarmið sóknaraðila um stjórnskipulega annmarka á lögum nr. 125/2008, sem ættu að leiða til þess að þau yrðu virt að vettugi við úrlausn málsins og gagnstæð sjónarmið varnaraðila þess máls, sem telja að lögin samræmist bæði stjórnarskránni og fjölþjóðlegum samningum sem Ísland hefur undirgengist. Í kafla III í áðurnefndum dómi er gerð grein fyrir lögskýringargögnum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 125/2008, að því marki sem skiptir máli við úrlausn um ágreining aðilanna. Þar greinir ennfremur frá því að í lok árs 2008 voru sett lög nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða og þeim niðurstöðum rannsóknarnefndar á vegum Alþingis sem skipta máli hér. Í kafla IV í áðurnefndum dómi er síðan leyst úr ágreiningi um stjórnskipulegt gildi laga nr. 125/2008 þar sem hafnað er málsástæðum sóknaraðila sem reistar eru á því að lögin fari í bága við stjórnarskrána og fjölþjóðlega samninga. Umfjöllun í köflum II og III í dómi Hæstaréttar í máli nr. 340/2011 á jafnt við í því máli, sem hér er til úrlausnar, og jafnframt niðurstöður í kafla IV í dóminum. Eiga almenn sjónarmið sem þar eru rakin einnig við í þessu máli. Samkvæmt því er hafnað málsástæðum sóknaraðila þessa máls sem reistar eru á því að lögin samrýmist ekki stjórnarskrá og fjölþjóðlegum samningum.

III

Eins og fyrr greinir snýst ágreiningur málsaðila meðal annars um það hvar í réttindaröð skipa skuli framangreindri kröfu varnaraðilans GD við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. Sóknaraðilar, sem allir eru almennir kröfuhafar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, gera ekki ágreining um þá afstöðu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. að samþykkja höfuðstól kröfu sveitarfélagsins ásamt samningsvöxtum til og með 22. apríl 2009, en þeir telja kröfuna almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 en ekki forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laganna. Ágreiningur málsaðila að þessu leyti lýtur að því hvort krafa sveitarfélagsins sem það lýsti við slit Landsbanka Íslands hf. teljist innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og njóti sem slík forgangs við slit bankans samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 svo sem henni var breytt með 6. gr. laga nr. 125/2008 og síðar 6. gr. laga nr. 44/2009, en sá er skilningur beggja varnaraðila. Sóknaraðilar telja á hinn bóginn lögskipti sveitarfélagsins og bankans hafa verið í formi fjárfestingar eða lánssamnings, og því geti krafa sveitarfélagsins ekki talist innstæða í framangreindum skilningi og njóti því ekki forgangs. Ekki er tölulegur ágreiningur um vexti í málinu.

IV

Svo sem í hinum kærða úrskurði greinir tilkynnti Landsbanki Íslands hf. Fjármálaeftirlitinu með bréfi 6. mars 2006, að bankinn hefði í hyggju að stofna og starfrækja útibú í Amsterdam í Hollandi. Í bréfinu kemur fram að fyrst um sinn verði eingöngu um útlánastarfsemi að ræða með þátttöku Landsbanka Íslands hf. í sambankalánum og með almennum fyrirtækjalánum og fasteignalánum til fyrirtækja og fjárfesta. Síðar megi gera ráð fyrir að sett verði á fót innlánsstarfsemi á heildsölumarkaði fyrir innlán auk fyrirtækjaráðgjafar. Í tilkynningu bankans til Fjármálaeftirlitsins 6. september 2007 segir að bankinn tilkynni að móttaka innlánsfjár og annars fjár til endurgreiðslu muni innan skamms falla undir starfsemi útibús bankans í Amsterdam.

Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir samningi þeim sem sveitarfélagið Gemeente Dordrecht og útibú Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam gerðu 3. júlí 2007, en sá samningur komst á fyrir milligöngu miðlarans Wallich & Matthes. Samkvæmt þeim samningi lagði varnaraðilinn GD 8.000.000 evrur 6. júlí 2007 inn á reikning útibús Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam hjá Fortis Bank N.V. í formi millifærslu, en öll fjárhæðin ásamt 4,79% samningsvöxtum skyldi vera laus til útborgunar 6. júlí 2009. Meðal gagna málsins er staðfesting dagsett 3. júlí 2007 um innlegg (depositotransactie) sem miðlarinn sendi varnaraðilanum GD. Þar kemur fram að staðfest sé símtal fyrr sama dag, en í því símtali hafi miðlarinn gert fyrir sveitarfélagið innleggsviðskipti gegn tilteknum skilyrðum. Tekið var fram tilvísunarnúmerið 023010, sá sem tæki við peningum (geldneemster) væri Landsbanki Íslands hf. í Amsterdam, sá sem léti af hendi peninga (geldgeefster) Gemeente Dordrecht, fjárhæð (bedrag) væri 8.000.000 evrur, vextir (rente) 4,79% á ári, vaxtaútreikningar (renteberekening) act/360, lánstími (looptijd) 6. júlí 2007 til 6. júlí 2009 eða 731 dagur, vaxtafjárhæð (rente bedrag) 778.108,89 evrur, greiðsla (betaling) komi frá Fortis Bank N.V. Rotterdam, endurgreiðsla (terugbetaling) sé til tiltekins banka í Haag, söluþóknun (provisie) 3.248.88 evrur og verði hún sett á mánaðarreikning. Framangreind staðfesting miðlarans er eina skjalið sem gefið var út vegna umræddra lögskipta varnaraðilans GD og Landsbanka Íslands hf.

V

Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda við slit fjármálafyrirtækis sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi. Þó skulu kröfur um innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna, sem njóta rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með innstæðu í skilningi 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 er samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins átt við innstæðu, sem er tilkomin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum, er gilda samkvæmt lögum eða samningum.

Í kafla IV hér að framan eru rakin lögskipti sveitarfélagsins GD og útibús Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam í tengslum við fjármuni þá sem sveitarfélagið átti hjá bankanum. Samkvæmt því sem þar kemur fram, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 311/2011 sem kveðinn var upp fyrr í dag, og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða hans, að sveitarfélagið hafi átt hjá Landsbanka Íslands hf. innlán, sem telja ber innstæðu í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, og að sú innstæða njóti tryggingarverndar samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Af því leiðir að hin lýsta krafa sveitarfélagsins nýtur forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit bankans. Þá er og með skírskotun til forsendna dóms Hæstaréttar í máli nr. 340/2011 sem og forsendna hins kærða úrskurðar fallist á þá niðurstöðu, að lágmarkstryggingarvernd sú sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 breyti engu um að tryggð innstæða njóti í heild sinni forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

VI

Varnaraðilinn GD hefur ennfremur uppi kröfu um að áfallinn kostnaður hans til 22. apríl 2009 að fjárhæð 24.222,84 evrur verði samþykktur sem forgangskrafa við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. Þessum lið kröfugerðar hans var hafnað í hinum kærða úrskurði og verður sú niðurstaða staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms.

Í málinu er ágreiningslaust milli varnaraðila að 18. mars 2009 greiddi Seðlabanki Hollands varnaraðilanum GD upp í kröfu hans 20.887 evrur vegna innstæðutryggingar. Þá er og ágreiningslaust með varnaraðilum að fjárhæð samningsvaxta, 4,79%, frá 6. júlí 2008 til og með 22. apríl 2009 sé 307.527,18 evrur. Samkvæmt því og með vísan til annars þess er að framan greinir er staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að viðurkenna sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. kröfu varnaraðilans GD að fjárhæð 8.286.640,18 evrur (8.000.000 + 307.527,18 – 20.887 = 8.286.640,18) sem umreiknast í 1.402.348.118 krónur miðað við gengi 22. apríl 2009, sbr. 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Viðurkennd fjárhæð verður dæmd í einu lagi og tiltekin í íslenskum krónum.

Fyrir héraðsdómi var hver málsaðili látinn bera sinn kostnað af málinu með skýringum sem greinir í forsendum héraðsdóms. Sú niðurstaða verður staðfest með vísan til forsendna hans. Í meginatriðum eiga sömu sjónarmið einnig við að því er varðar málskostnað fyrir Hæstarétti. Að því virtu verður hver aðili látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Krafa varnaraðilans Gemeente Dordrecht að fjárhæð 1.402.348.118 krónur á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf. er viðurkennd við slit hans. Kröfunni er skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Svo sem fram kemur í II. kafla atkvæðis meirihlutans er þetta eitt af ellefu málum sem flutt voru í september 2011 og snerta ágreining um hvort 6. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. hafi verið gild heimild til að viðurkenndur yrði á grundvelli hennar forgangur krafna, sem taldar eru innstæður í skilningi ákvæðisins, við slit á Landsbanka Íslands hf. og Glitni banka hf.

Í dómum Hæstaréttar í dag í öllum framangreindum málum er komist að þeirri niðurstöðu að viðurkenna beri forgangsrétt innlána á grundvelli nefnds lagaákvæðis. Þessari niðurstöðu er ég ósammála og geri grein fyrir forsendum þeirrar afstöðu með sératkvæði í máli nr. 340/2011. Í þessu máli er ég einnig ósammála meirihluta réttarins og tel að taka eigi til greina kröfur sóknaraðila um að hafna viðurkenningu á forgangsrétti kröfu varnaraðilans Gemeente Dordrecht við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. Vísast til sératkvæðis míns í málinu nr. 340/2011 um rökstuðning fyrir þeirri niðurstöðu.

Þá vísast einnig til nefnds sératkvæðis til rökstuðnings fyrir þeirri afstöðu minni að varnaraðilinn Gemeente Dordrecht geti átt aðild að þessu máli.     

                                                   

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2011.

Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited

Arrowgrass Master Fund Ltd.

Arrowgrass Special Situations S.a r.l.

CIG & Co

Conseq Invest plc

Conseq Investment Management AS

CVI GVF (Lux) Master S.a r.l

Fondo Latinoamericano de Reservas (F.L.A.R.)

GLG European Distressed Fund

GLG Market Neutral Fund

ING Life Insurance and Annuity

ING USA Annuity and Life Insurance Co.

LMN Finance Ltd

Lyxor / Third Point Fund Limited

Monumental Life Insurance Company

National Bank of Egypt (UK) Limited

Ohio National Life Assurance Corporation

PHL Variable Insurance Company

Phoenix Life Insurance Company

Reliastar Life Insurance Company

Security Life of Denver Insurance

Sun Life Assurance Company of Canada

Third Point Partners LP (US)

Third Point Offshore Master Fund LP

Third Point Partners Qualified LP

Third Point Ultra Master Fund LP (Cayman)

Värde Fund LP

Värde Fund V-B LP

Värde Fund VI-A LP

Värde Fund VII-B LP

The Värde Fund VIII LP

The Värde Fund IX LP  / The Värde Fund IX-A LP

Värde Investment Partners LP

Värde Investment Partners (Offshore) Master LP

WGZ Bank Luxembourg S.A.

WGZ Bank Ireland plc

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Bayerische Landesbank

Bremer Landesbank

Commerzbank AG

einnig vegna  Commerzbank International S.A.

Erste Europäische Pfandbrief-

und Kommunalkreditbank AG,

Eurohypo Aktiegesellschaft

DekaBank Deutsche Girozentrale

einnig vegna DekaBank Deutsche

Girozentrale Luxembourg S.A.

Deutsche Postbank International S.A

Düsseldorfer Hypothekenbank AG

DZ BANK AG Deutsche

Zentral-Genossenschaftsbank

Landesbank Baden-Württemberg

LBBW Luxembourg SA

Landesbank Berlin AG

Deutsche Postbank AG

Deutsche Hypothekenbank (Actien-Gesellschaft)

KfW Bankengruppe

Raiffeisen Zentralbank Österreich AG

Österreichische Volksbanken-Aktiengesellschaft

Sparkasse Oberhessen

Taunus-Sparkasse

Sparkasse Pforzheim Calw

Sparkasse-Jena-Saale-Holzland

Sparkasse Hannover 

Nassauische Sparkasse Anstalt des

öffentlichen Rechts

Sparkasse zu Lübeck AG

Kreissparkasse Peine

Die Sparkasse Bremen AG

Sparkasse Oder-Spree

Vereinigte Sparkassen im Landkreis Weilheim

Caixa Geral de Depositos

The Royal Bank of Scotland plc.

ABN AMRO Bank NV, London Branch

(Kári Hólmar Ragnarsson hdl.)

Rakel Óttarsdóttir

Óttar Magnús G. Yngvason

Blomstra ehf.

Skiki ehf.

Íslenska útflutningsmiðstöðin hf.

(Óttar Yngvason hrl.)

Deutsche Bank Trust Company Americas

(Eyvindur Sólnes hrl.)

Landsbanki Guernsey Ltd.

(Jóhannes Eiríksson hdl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

Gemeente Dordrecht

(Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 23. febrúar sl., var þingfest 30. apríl 2010.  Sóknar­aðilar eru Arrowgrass Master Fund Limited, Bretlandi, auk þeirra kröfuhafa sem tilgreindir eru hér að ofan og Ragnar Aðalsteinsson hrl. fer með málsvar fyrir Bayerische Landesbank, Þýskalandi, auk þeirra kröfuhafa sem tilgreindir eru hér að ofan og Kári Hólmar Ragnarsson hdl. fer með málsvar fyrir, Rakel Óttarsdóttir, Reykjavík, Óttar Magnús G. Yngvason, Kópavogi, Blomstra ehf., Reykjavík, Skiki ehf., Reykjavík, Íslenska útflutningsmiðstöðin hf., Reykjavík, Deutsche Bank Trust Company Americas, Bandaríkjunum, og Landsbanki Guernsey Ltd., Bretlandi.

Varnaraðilar eru Landsbanki Íslands hf., Reykjavík, og Gemeente Dordrecht, Hollandi.

Sóknaraðilarnir Arrowgrass Master Fund Limited o.fl. krefjast þess að vísað verði frá dómkröfum varnaraðilans Gemeente Dordrecht að öðru leyti en því sem lýtur að fjárhæðum umfram það sem slitastjórn Landsbankans hefur samþykkt sem forgangskröfu þ.e. evrur 8.275.992,73, í samræmi við bókun á dómskjali nr. 148.

Verði ekki fallist á kröfu þeirra krefjast þeir þess aðallega að kröfu Gemeente Dordrecht, nr. 726 á kröfuskrá, að lýstri fjárhæð 1.412.376.469 krónur verði hafnað sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við slitameðferð Landsbanka Íslands hf.

Verði fallist á að einhver hluti kröfu Gemeente Dordrecht, nr. 726 á kröfuskrá, að lýstri fjárhæð 1.412.376.469 krónur, njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, við slitameðferð Landsbanka Íslands hf., er þess krafist til vara að sú  fjárhæð sé að hámarki 20.887 evrur.

Önnur varakrafa sóknaraðilanna er sú að hafnað verði öllum kröfum Gemeente Dordrecht um að vextir er fallið hafa á kröfuna njóti stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðilar krefjast í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi varnaraðila hvors um sig eða in solidum að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts.

Sóknaraðilarnir Bayerische Landesbank o.fl. krefjast þess vísað verði frá  dómkröfum varnaraðilans Gemeente Dordrecht að öðru leyti en því sem lýtur að fjárhæðum umfram það sem slitastjórn Landsbankans hefur samþykkt sem forgangskröfu þ.e. evrur 8.275.992,73, í samræmi við bókun á dómskjali nr. 148.

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu þeirra krefjast þeir þess aðallega að kröfu Gemeente Dordrecht, nr. 726 á kröfuskrá, að lýstri fjárhæð 1.412.376.469 krónur verði hafnað sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., við slitameðferð Landsbanka Íslands hf.

Verði fallist á að einhver hluti kröfu Gemeente Dordrecht, nr. 726 á kröfuskrá, að lýstri fjárhæð 1.412.376.469 krónur, njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, við slitameðferð Landsbanka Íslands hf., er þess krafist til vara að sú fjárhæð sé að hámarki 20.887 evrur.

Önnur varakrafa sóknaraðilanna er sú að hafnað verði öllum kröfum Gemeente Dordrecht um að vextir er fallið hafa á kröfu nr. 726 á kröfuskrá eftir 6. október 2008 njóti stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Sóknaraðilar krefjast í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi varnaraðila hvors um sig eða in solidum að skaðlausu samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts.

Sóknaraðilarnir Rakel Óttarsdóttir, Óttar Magnús G. Yngvason, Skiki ehf., Blomstra ehf., og Íslenska útflutningsmiðstöðin hf. krefjast þess að ógilt verði viðurkenning slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. á kröfu Gemeente Dordrecht að fjárhæð 7.979.113 evrur auk vaxta að fjárhæð 296.879,73 evrur, sem forgangskröfu á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeirri lagagrein var breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009, sbr. einnig 6. gr. laga nr. 125/2008.

Sóknaraðilar krefjast þess að krafa varnaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við úthlutun úr búi Landsbanka Íslands hf. Þá krefjast sóknaraðilar þess að varnaraðilar verði in solidum dæmdir til að greiða þeim málskostnað að mati dómsins.

Sóknaraðilinn Deutsche Bank Trust Company Americas krefst þess að hnekkt verði með dómi þeirri ákvörðun slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. að kröfur Gemeente Dordrecht verði viðurkenndar sem forgangskröfur í skilningi 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Sóknaraðilinn Landsbanki Guernsey Ltd. krefst þess aðallega að afstöðu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. til kröfu Gemeente Dordrecht verði hrundið og breytt á þá leið að krafan verði einungis viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð bankans.

Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa Gemeente Dordrecht verði aðeins viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 að hámarki 20.887 evrur fyrir hverja innstæðu sem kröfulýsingin tekur til. Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðilum verði gert in solidum að greiða honum málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. krefst þess að hafnað verði frávísunarkröfu sóknaraðila, Arrowgrass Master fund o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. Í bókun sem gerð var í þingbók við aðalmeðferð málsins óskaði hann eftir að bókað yrði að slitastjórn hefði fallist á að hækka fjárhæð viðurkenndrar forgangskröfu í 8.286.640 evrur, sem umreiknist í kröfuskrá í 1.402.348.118 krónur. Að því leyti sem varnaraðili, Gemeente Dordrecht hefði í greinargerð sinn á dómskjali 54 gert kröfur um að fá viðurkennda sem forgangskröfu, hærri fjárhæð en slitastjórn hefði samþykkt, var þess krafist að þeim kröfum yrði hafnað. Fallið var frá kröfum um málskostnað, en þess krafist að málskostnaðarkröfum aðila á hendur Landsbanka Íslands hf., yrði hafnað.

Varnaraðilinn Gemeente Dordrecht krefst þess að hafnað verði frávísunarkröfu sóknaraðila, Arrowgrass Master fund o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. Þá krefst varnaraðili þess aðallega að viðurkennd verði krafa hans á hendur Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 8.310.863,06 evrur og að viðurkennt verði að krafan njóti rétthæðar við slitameðferð Landsbanka Íslands hf. samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Fyrsta varakrafa varnaraðila er að viðurkennd verði krafa hans á hendur Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 8.275.992,73 evrur og að viðurkennt verði að krafan njóti rétthæðar við slitameðferð Landsbanka Íslands hf. samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 og þannig staðfest ákvörðun slitastjórnar Landsbanka Íslands hf.

Önnur varakrafa varnaraðila er að viðurkennd verði aðalkrafa hans með rétthæð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Þriðja varakrafa varnaraðila er að viðurkennd verði fyrsta varakrafa hans með rétthæð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili krefst í öllum tilvikum málskostnaðar in solidum úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti samkvæmt málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.

Sóknaraðilarnir Arrowgrass Master Fund Limited o.fl. krefjast þess að öllum gagnkröfum varnaraðilans Gemeente Dordrecht, um að viðurkenndar verði kröfur um tilteknar upphæðir þ.m.t. um forgang þeirra krafna umfram það sem samþykkt hafi verið af slitastjórn varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., verði hafnað. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts.

Sóknaraðilarnir Bayerische Landesbank o.fl. krefjast þess að öllum gagnkröfum varnaraðilans Gemeente Dordrecht sem fram koma í greinargerð hans til dómsins og lúta að viðurkenningu á kröfufjárhæðum umfram þær fjárhæðir sem samþykktar hafa verið af slitastjórn varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., þ.m.t. um forgangsrétt slíkra fjárhæða, verði hafnað. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðilans að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, eða samkvæmt málskostnaðarreikningi, auk virðisaukaskatts.

Helstu atvik máls

Varnaraðili, Gemeente Dordrecht, er sveitarfélag í vesturhluta Hollands og eru íbúar þar um 120.000.

Með bréfi Landsbanka Íslands hf. til Fjármálaeftirlitsins, dags. 6. mars 2006, tilkynnti bankinn um fyrirhugaða stofnun og starfsemi útibús í Amsterdam í Hollandi. Í tilkynningunni segir:

,,síðar má gera ráð fyrir að sett verði á fót innlánsstarfsemi á heildsölumarkaði fyrir innlán…“

Þá tilkynnti bankinn 6. september 2007 að hann hygðist útvíkka starfsemi útibúsins þannig að þar yrðu einnig móttekin innlán.

Hinn 3. júlí 2007 gerðu varnaraðilar, Landsbanki Íslands hf. og sveitarfélagið Gemeente Dordrecht, með sér samning um svokölluð heildsöluinnlánsviðskipti. Viðskiptin komust á fyrir milligöngu miðlara í Hollandi,  Wallich og Matthes B.V. Um var að ræða ,,heildsöluinnlán“ að höfuðstólsfjárhæð 8.000.000 evra. Varnaraðili, Gemeente Dordrecht, lagði nefnda höfuðstólsfjárhæð inn á reikning Landsbanka Íslands hf. hjá Fortis Bank N.V. í formi millifærslu, 6. júlí 2007, en höfuðstólsfjárhæðin ásamt 4,79% samningsvöxtum skyldi vera laus til útborgunar fyrir varnaraðila, Gemeente Dordrecht, 6. júlí 2009. Í staðfestingu frá miðlarafyrirtækinu Wallich og Matthes kemur fram að gerð hafi verið ,,innleggsviðskipti“, ,,depositotransactie“.

Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið hinn 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Á grundvelli 6. gr. laganna hljóðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki nú svo: Við skipti á búi fjármálafyrirtækja njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 var tilteknum eignum, réttindum og skuldum og skuldbindingum varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem síðar hlaut nafnið NBI hf. Ákvörðunin tók þegar gildi. Samkvæmt 8. tl. ákvörðunarinnar fluttust allar innlendar innstæður við varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. til nýja bankans. Í viðauka er tekið fram að innlán í erlendum útibúum varnaraðila flytjist ekki yfir til nýja bankans. Varnaraðila var veitt greiðslustöðvun með úrskurði dómsins 5. desember 2008.

Með lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem tóku gildi 22. apríl 2009, var bankinn síðan tekinn til slitameðferðar og honum skipuð slitastjórn. Fer slitastjórn með þá þætti slitameðferðarinnar er lúta að meðferð krafna á hendur bankanum. Samkvæmt auglýsingu hennar um innköllun til kröfuhafa bankans lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Varnaraðilinn, Gemeente Dordrecht, lýsti kröfu á hendur bankanum hinn 20. október 2009 og krafðist forgangs fyrir höfuðstól, 8.000.000 evra ásamt samningsvöxtum til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 307.527.18 evra. Þá var einnig gerð krafa um kostnað sem féll til fyrir 22. apríl 2009 samtals að fjárhæð 24.222.88 evra. Að því er varðar kröfu um höfuðstól sem og kröfu um vexti og kostnað sem féll til fyrir 22. apríl 2009 var um rétthæð kröfunnar vísað til 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Varðandi kröfu um vexti og kostnað sem féll til eftir 22. apríl 2009 var um rétthæð vísað til 114. gr. laga nr. 21/1991.

Slitastjórn Landsbankans lýsti þeirri afstöðu til kröfunnar að höfuðstóll hennar að fjárhæð 8.000.000 evrur væri samþykktur sem forgangskrafa með breytingum, þ.e. að frádreginni greiðslu frá De Nederlandsche Bank N.V. til kröfuhafa að fjárhæð 20.887 evrur, eða samtals 7.979.113 evrur, sem og krafa um samningsvexti til og með 22. apríl 2209, að fjárhæð 296.879.73 evrur. Slitastjórn endurreiknaði vexti með tilliti til fyrrgreindrar innborgunar inn á kröfuna sem kom til frádráttar höfuðstóls hennar. Kröfu um kostnað kröfuhafa sem til féll fyrir 22. apríl 2009 var hins vegar hafnað.

Af hálfu varnaraðila var þessari afstöðu slitastjórnarinnar mótmælt og þess krafist að krafan yrði viðurkennd að fullu eins og henni hefði verið lýst. Þá var þeirri afstöðu slitastjórnarinnar, að samþykkja hluta kröfunnar sem forgangskröfu, mótmælt af hálfu verulegs fjölda erlendra kröfuhafa og nokkurra innlendra kröfuhafa. Þar sem ekki tókst að jafna þennan ágreining á kröfuhafafundum í kjölfarið beindi slitastjórnin ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms, með vísan til 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991. Kom þar meðal annars fram að auk slitastjórnar bankans yrðu tilteknir kröfuhafar er mótmælt hefðu afstöðu slitastjórnarinnar, sbr. sérstakan lista er fylgdi með beiðni slitastjórnar, að eiga þar aðild. Undir rekstri málsins voru lagðar fram yfirlýsingar nokkurra aðila þar sem fram kom að þeir óskuðu ekki eftir að eiga beina aðild að máli þessu án þess að í því fælist afturköllun á fyrri mótmælum við afstöðu slitastjórnar til kröfu varnaraðila Gemeente Dordrecht.

Með tilliti til þess að slitastjórn Landsbanka Íslands hf. hafði að langstærstum hluta fallist á kröfur varnaraðilans Gemeente Dordrecht í málinu, gegn mótmælum þeirra almennu kröfuhafa sem telja til aðildar að því, ákvað dómari undir rekstri málsins að hinir almennu kröfuhafar skyldu teljast sóknaraðilar þess en að Gemeente Dordrecht og Landsbanki Íslands hf. yrðu saman varnaraðilar.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðilarnir Arrowgrass Master Fund o.fl. vísa til þess vegna frávísunarkröfu sinnar að varnaraðilinn Gemeente Dordrecht hafi tekið undir og samsinnt afstöðu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. um að fallast á að krafan teljist til forgangskröfu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 638/2010 hljóti þetta að leiða til þess að varnaraðili geti ekki látið málið til sín taka.

Varðandi efnisþáttinn byggja þessir sóknaraðilar í fyrsta lagi á því að krafa varnaraðilans Gemeente Dordrecht falli utan gildissviðs lagaákvæða um forgang innstæðna. Krafa varnaraðilans sé aðeins ein af mörgum kröfum sem lýst sé við slitameðferð Landsbankans og eigi rætur að rekja til fjárfestinga bankans á heildsölufjármagnsmarkaðinum. Í þeim tilvikum hafi kröfuhafinn lánað Landsbankanum fjármuni í viðskiptum sem komist hafi á og samist um á heildsölufjármagnsmarkaði. Fjármunirnir hafi verið afhentir bankanum um tiltekinn tíma og á því tímabili hafi lánveitandinn engan aðgang haft að fjármununum. Kröfur þessar teljist ekki til innstæðna heldur sé um að ræða tiltekið fjárfestingarform eða lánveitingu. Skýrlega verði ráðið af þessum viðskiptum Landsbankans við varnaraðilann Gemeente Dordrecht að tiltekin megineinkenni greini þessi lán frá innstæðum. Þannig hafi viðskiptin komist á fyrir milligöngu sérstaks miðlara og ekki falið í sér að innstæðueigandinn greiddi peningaupphæð til bankans til geymslu og/eða til þess að nýta greiðsluþjónustu og almenna bankaþjónustu. Fjármunirnir hafi ekki verið geymdir á sérstökum bankareikningi sem opnaður hafi verið í nafni innstæðueigandans. Fjármunirnir hafi ekki heldur verið aðgengilegir fyrr en á gjalddaga og hafi þar fyrir utan verið ómögulegt að taka þá út þegar þess hafi verið óskað. Þá hafi greiðslustaður viðskiptanna ekki verið hjá Landsbankanum heldur skyldi fjárhæðin greiðast inn á bankareikning sem tilgreindur hafi verið af kröfuhafanum í upphafi viðskiptanna. Loks sé ljóst að um þessi viðskipti hafi ekki gilt staðlaðir skilmálar, sem samdir hafi verið einhliða af bankanum, eins og sé raunin með innstæður, heldur hafi verið samið sérstaklega um skilmálana hverju sinni. Hafi umrædd viðskipti verið til tiltekins tíma, rúmlega eins árs. Hafi þau verið með föstum 6% vöxtum og hafi bankanum borið að endurgreiða höfuðstólinn og vextina á gjalddaga rúmlega ári síðar.

Sóknaraðilar vísa til þess að forgangur innstæðna hafi verið lögleiddur með ákvæðum 6. gr. laga nr. 125/2008. Ákvæði þessu hafi svo verið breytt með 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009, sem breytt hafi lögunum um fjármálafyrirtæki. Bæði þessi ákvæði vísi til skilgreiningar laganna nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta á því hvað sé innstæða, en lög þessi byggi á tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar. Verði að skilja framangreind lagaákvæði þannig að einungis innstæðum sem njóti tryggingar samkvæmt lögum nr. 98/1999 sé ætlað að njóta forgangsréttar. Skilgreiningu á því hvað sé innstæða sé að finna í 3. mgr. 9. gr. þeirra laga og sé þar skýrt tekið fram að hugtakið innstæða nái ekki til „skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa“.

Á því sé byggt að umrædd krafa sé í formi verðbréfs og því undanskilin í framangreindri skilgreiningu á innstæðum. Þar eð ekki sé að finna sérstaka skilgreiningu á því í lögum nr. 98/1999 hvað átt sé við með hugtakinu verðbréf verði hvað það varði að horfa til skilgreiningar á því hugtaki í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, svo og í eldri lögum um sama efni nr. 33/2003 og 13/1996. Með hliðsjón af þeim skilgreiningum og útskýringum sem fram komi í framangreindum lögum og lögskýringargögnum með þeim megi draga þær ályktanir að megineinkenni hugtaksins verðbréfs sé að það sé framseljanlegt, ekki sé gerð krafa um tiltekið form á því og að kröfur um greiðslur í reiðufé geti talist verðbréf. Þegar þau heildsöluviðskipti sem um ræði í þessu máli séu skoðuð með þetta í huga megi sjá að krafa varnaraðilans hafi verið framseljanleg, af viðskiptunum leiði krafa um greiðslu í reiðufé, um viðskiptin hafi verið samið fyrir milligöngu miðlara á fjármagnsmarkaði enda séu gerningarnir framseljanlegir á fjármagnsmörkuðum. Heildsöluviðskiptin hafi því verið í formi verðbréfs skv. lögum nr. 98/1999 og því undanskilin samkvæmt þeim.

Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að heildsöluviðskipti teljist ekki verðbréf samkvæmt undantekningunni í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 sé á því byggt að viðskiptin falli ekki undir skilgreininguna á innstæðu samkvæmt ákvæðum laga um forgang innstæðna. Þetta sé ljóst út frá almennri orðskýringu en einnig út frá markmiðum lagasetningarinnar. Þannig sé ljóst að ætlun löggjafans við innleiðingu lagaákvæðanna um forgang innstæðna hafi ekki verið sú að veita kröfum eins og þeirri er hér um ræði forgangsrétt heldur hafi löggjafinn vísað til þess að nauðsynlegt væri að veita einstaklingum, innstæðum þeirra og sparifé, vernd.

Í ljósi málsatvika og þeirra atriða sem greini heildsöluviðskipti almennt, og kröfuna er sé til umfjöllunar sérstaklega, frá innstæðum og í ljósi þess markmiðs íslenska ríkisins við innleiðingu lagaákvæða um forgang innstæðna að vernda smásöluinn­stæðu­eigendur og sparifjáreigendur, verði að telja að sönnunarbyrði um að krafan teljist innstæða hvíli á kröfuhafanum sjálfum, varnaraðilanum Gemeente Dordrecht. Eigi þetta sérstaklega við vegna þeirra takmarkana á réttindum sem forgangur innstæðna, að því leyti sem honum kunni að vera beitt af hálfu dómsins, hafi í för með sér.

Verði ekki fallist á framangreind rök sé á því byggt að ákvæði hinnar nýju löggjafar, þ.m.t. neyðarlaganna nr. 125/2008, í tengslum við forgang innstæðna, svo og uppskiptingu bankanna og endurfjármögnun nýju bankanna, séu ósamrýmanleg og í andstöðu við grundvallarreglur um friðhelgi eignarréttar, um jafnræði og bann við mismunun sem njóti verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Séu þau þar af leiðandi ógild og óbindandi og beri að líta fram hjá þeim við úrlausn máls þessa.

Tvímælalaust sé að kröfur sóknaraðila, auk lögmætra væntinga þeirra, njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmálans sem eignir. Hafi aðgerðir ríkisins varðandi stöðu kröfuhafa í skuldaröð falið í sér de facto sviptingu eigna kröfuhafa, annarra en innstæðueigenda, en þeir kröfuhafar séu mestmegnis útlendingar. Það sama megi segja um skiptingu bankanna, endur­fjármögnun nýju bankanna og flutning skulda og eigna til þeirra. Hafi sóknaraðilarnir sætt ólögmætri mismunun með því að verðmæti réttinda þeirra, sem njóti verndar við slitameðferð samkvæmt settum lögum, hafi verið skert að verulegu leyti eða gerð að engu. Hafi þessi eignaskerðing valdið sóknaraðilum umtalsverðu tjóni. Ljóst sé að innlendir innstæðueigendur hafi strax öðlast forgang í reynd með skiptingu bankanna og endurfjármögnun nýju bankanna á kostnað annarra kröfuhafa sem átt hafi kröfur er áfram hefðu orðið skuldir gömlu bankanna. Þegar litið sé á ráðstafanir ríkisins sé ljóst að þær hafi haft í för með sér mismunum milli a.m.k. þriggja hópa kröfuhafa: Í fyrsta lagi innlendra innstæðueigenda, sem hafi algerlega verið losaðir úr slitameðferðinni með skiptingu bankanna og endurfjármögnun nýju bankanna, og því í raun notið óþarfrar verndar lagaákvæða hinnar nýju löggjafar um forgang innstæðna, í öðru lagi erlendra innstæðueigenda sem hafi verið settir í mun betri stöðu en aðrir almennir kröfuhafar með lagaákvæðunum um forgangsrétt innstæðueigenda og í þriðja lagi einkum erlendra kröfuhafa, annarra en innstæðueigenda, sem hafi verið settir í þá stöðu að réttindi þeirra hafi að verulegu leyti eða öllu leyti verið svipt verðmæti sínu.

Að því marki sem gripið hafi verið til aðgerðanna í því skyni að tryggja virkni íslenska bankakerfisins og koma í veg fyrir tafarlaust hrun íslensks efnahags þá hafi þær ráðstafanir sem gripið hafi verið til verið óhóflegar, í andstöðu við meðalhóf. Leiði þetta þegar af því að engar bætur hafi verið greiddar þeim kröfuhöfum sem borið hafi hinar fjárhagslegu byrðar af vernd innlendra og erlendra innstæðueigenda. Hafi skaðabætur ekki verið greiddar geti það leitt til þess að þær takmarkanir á eignar­réttindum, eða inngrip í notkun eigna sem um ræði, teljist ólögmætar. Ráðstafanirnar teljist einnig í andstöðu við meðalhóf þar sem þær hafi ekki verið í rökrænum tengslum við það markmið að viðhalda virkni bankakerfisins og að koma í veg fyrir tafarlaust hrun bankanna. Sérstaklega sé vakin athygli á því að engin frekari ávinningur hafi fylgt aðgerðunum fyrir íslenskt bankakerfi þar eð innlendar innstæður hefðu þá þegar verið fluttar til nýju bankanna og innlendum innstæðueigendum þannig í reynd verið veitt full trygging fyrir innstæðum sínum. Aðgerðirnar hafi ekki verið vandlega mótaðar til að ná því lögmæta markmiði sem að hafi verið stefnt heldur hafi þær verið byggðar á órökréttum sjónarmiðum, geðþótta og ósanngirni. Þá sé og ljóst að framangreindar ráðstafanir hafi ekki falið í sér minnstu mögulegu skerðingu á umræddum réttindum. Auk þess hafi þær falið í sér brot gegn meginreglum um bann við afturvirkni og skýrleika laga, þ.á m. brot á lögmætum væntingum sóknaraðila um að ný löggjöf sem hefði áhrif á eignarréttindi þeirra myndi samrýmast þessum meginreglum.

Vísað sé til þess að innleiðing forgangs innstæðna með afturvirkum hætti brjóti í bága við grundvallarregluna um jafnræði og bann við mismunun sem njóti verndar 65. gr. stjórnarskrárinnar, 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmálans og 6. gr., í samræmi við 14. gr. mannréttindasáttmálans. Grundvallarreglur þessar gildi einnig að Evrópurétti og hafi því gildi í íslenskum rétti í gegnum EES-samninginn. Fyrir liggi að ákvæði laga nr. 125/2008 og 44/2009 mæli fyrir um mismunandi meðferð sam­bærilegra tilvika með því að einn hópur almennra óveðtryggðra kröfuhafa, innstæðueigendur, hafi með lögunum verið færður í stöðu forgangskröfuhafa á kostnað annarra kröfuhafa sem ekki séu innstæðueigendur. Með því hafi verið raskað stöðu aðila sem verið hafi í sambærilegri stöðu án þess að málefnaleg sjónarmið réttlættu hina mismunandi meðferð og teljist slík aðgerð bein mismunun gagnvart hinum almennu kröfuhöfum. Þá liggi einnig fyrir óbein mismunun á grundvelli þjóðernis þar sem kröfuhafar bankanna, sem ekki séu innstæðueigendur, einkum erlendir aðilar, muni bera óhóflega byrði samanborið við aðra kröfuhafa bankanna vegna þeirrar staðreyndar að þjóðerni þeirra sé annað en íslenskt.

Á því sé byggt að umrædd lagaákvæði um forgang innstæðna verði ekki réttlætt með vísan til sjónarmiða um stjórnskipulegan neyðarrétt, enda sé enga slíka heimild að finna í stjórnarskránni sjálfri. Í það minnsta hljóti sá réttur þá að takmarkast við aðstæður sem skapist við stríðsástand auk þess sem óheimilt sé með öllu að víkja frá mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Þá sé ljóst að Alþingi hafi ekki litið svo á að það væri að beita rétti til þess að víkja frá ákvæðum stjórnarskrár þegar neyðarlögin og lög þeim tengd hafi verið sett. Enga tilvísun um slíkt sé þannig að finna í lögskýringargögnum með greindri löggjöf. Þá liggi alla vega fyrir að ekkert neyðarástand hafi verið fyrir hendi í apríl 2009 þegar lög nr. 44/2009 um breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki hafi verið samþykkt, en þau hafi endurlögfest forgang innstæðna.

Til stuðnings aðalkröfu sóknaraðilans sé loks vísað til þess að umræddar aðgerðir íslenska ríkisins feli í sér ólögmæta mismunun gagnvart erlendum aðilum, sbr. 4. gr. EES-samningsins og 2. mgr. 16. gr. tilskipunar 2001/24/EB, og ákv. 40. gr. EES-samnings um bann við takmörkun á frjálsu flæði fjármagns milli aðildarríkjanna, auk þess að fela í sér ólöglega ríkisaðstoð skv. 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins.

Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að forgangur innstæðna sé gildur, og beiti löggjöfinni sem mælt hafi fyrir um hann, sé því til vara haldið fram að túlka beri réttarreglur þar um með þeim hætti að forgangs njóti einungis kröfur að hámarki 20.887 evrur. Sé í því sambandi einkum bent á að forgangur á grundvelli neyðarlaganna hafi verið veittur „innstæðum samkvæmt lögum nr. 98/1999“, en þau lög varði einungis innstæður upp að lögvörðu marki sem njóti tryggingar. Þó að lögin nefni að í tilteknum aðstæðum geti komið til greiðslu heildarfjárhæðar innstæðna þá sé eini hluti innstæðu sem raunverulega sé tryggður að höfuðstól 20.887 evrur. Enn fremur komi fram í 1. gr. laganna nr. 98/1999 að markmið þeirra sé að veita innstæðueigendum lágmarksvernd við greiðsluþrot banka. Því sé þess vegna haldið fram að markmið löggjafans hafi verið að veita þeirri fjárhæð forgang, sem nemi hinni tryggðu fjárhæð 20.887 evrum, en þeim hluta umræddra krafna sem fari umfram þessa upphæð stöðu almennrar kröfu. Ljóst sé að sú túlkun að einungis þessi tiltekna fjárhæð eigi að njóta stöðu forgangskröfu myndi virða lögmætar væntingar innstæðu­eigendanna, enda væru þannig tryggðar endurheimtur þeirrar fjárhæðar sem þeir hafi mátt vænta að fá greidda frá Tryggingarsjóðnum ef til ógjaldfærni eins bankanna kæmi.

Loks sé á því byggt að umræddur forgangsréttur eigi ekki að ná til neinna krafna um áfallna vexti og kostnað. Samkvæmt lögum nr. 98/1999, sbr. einnig reglugerð nr. 120/2000 um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, einkum 5. gr., beri að reikna fjárhæð innstæðu miðað við stöðu hennar á þeim degi sem Fjármálaeftirlitið gefi út álit um að fjármálafyrirtæki sé ekki fært að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu. Fjármálaeftirlitið hafi gefið út það álit 27. október 2008 að 6. október hafi Landsbankanum verið ófært að standa við skuldbindingar vegna innstæðna. Hafi skyldur Tryggingarsjóðsins því orðið virkar þann sama dag og teljist vextir sem fallið hafi til eftir hinn skilgreinda dag því ekki til tryggðra innstæðna samkvæmt lögum nr. 98/1999. Varðandi kostnaðarkröfu varnaraðilans Gemeente Dordrecht sé á því byggt að hann hafi ekki sýnt fram á að sá kostnaður sem hann geri kröfu um sé kostnaður af innheimtu kröfunnar. Þá sé ljóst að fallist dómurinn á að slík krafa sé til staðar geti hún ekki undir neinum kringumstæðum notið sama forgangs og höfuðstóll kröfunnar verði hann talinn njóta forgangs við slitameðferðina, enda geti kostnaðurinn aldrei talist vera innstæða í skilningi laga nr. 98/1999. Verði í þessu sambandi að hafa í huga að forgangur krafna fram yfir almennar kröfur sé undantekning frá meginreglunni um jafnræði kröfuhafa.

Sóknaraðilarnir Bayerische Landesbank o.fl. vísa til þess vegna frávísunarkröfu sinnar að varnaraðilinn Gemeente Dordrecht hafi tekið undir og samsinnt afstöðu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. um að fallast á a-lið varakröfu hans sem forgangskröfu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferðina. Með hliðsjón af niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 638/2010 hljóti þetta að leiða til þess að þessi varnaraðili geti ekki látið málið til sín taka og beri því að vísa þessum hluta kröfugerðar hans frá dómi.

Varðandi efnisþátt málsins kveðast sóknaraðilarnir í fyrsta lagi byggja á því að krafa varnaraðilans Gemeente Dordrecht geti ekki talist innstæða í þeim skilningi sem máli skipti og geti hún því ekki notið forgangs sem slík. Sé á það bent að forgangur innstæðna hafi verið lögleiddur með 6. gr. laga nr. 125/2008. Ákvæði þessu hafi svo verið breytt með 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009, sem breytt hafi lögunum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Bæði þessi ákvæði vísi til skilgreiningar sem fram komi í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta á því hvað sé innstæða, en lög þessi byggi á tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar. Verði að skilja framangreind lagaákvæði þannig að einungis innstæðum sem njóti tryggingar samkvæmt lögum nr. 98/1999 sé ætlað að njóta forgangsréttar. Krafa Gemeente Dordrecht geti ekki talist vera innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 þar sem hún teljist vera „í formi verðbréfa“, teljist ekki vera „tilkomin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi“ og falli að öðru leyti ekki undir skilgreiningu innstæðu samkvæmt lögum nr. 98/1999.

Skýrt sé tekið fram í tilvitnuðu lagaákvæði að skilgreining innstæðna nái ekki til „skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa“. Í lögunum sé ekki að finna skilgreiningu á hugtakinu „verðbréf“ en slíka skilgreiningu sé hins vegar að finna í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, svo og í eldri lögum um sama efni nr. 33/2003 og 13/1996. Í 2. gr. laganna nr. 108/2007 sé hugtakið verðbréf skilgreint þannig: „Hvers konar fram­seljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum.“ Þá sé í greinargerð með frumvarpi til framangreindra laga tekið fram að: „Samkvæmt ákvæðinu þarf að vera hægt að eiga viðskipti með verðbréf á fjármagnsmarkaði til að það falli undir skilgreininguna. Með viðskiptum á fjármagnsmarkaði er átt við viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði, á markaðstorgi fjármálagerninga (MTF) eða viðskipti fyrir milligöngu fjármálafyrirtækis með leyfi til verðbréfaviðskipta.“ Sóknaraðilar telji að krafa varnaraðila sé framseljanleg og að um hafi verið að ræða viðskipti á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði, með milligöngu fjármálafyrirtækis með leyfi til verðbréfaviðskipta. Þá hafi viðskiptin haft einkenni verðbréfs.

Sóknaraðilar benda á að krafan geti í eðli sínu ekki talist innstæða og benda á eftirfarandi þætti sem helst einkenni hina umdeildu kröfu: Samið hafi verið sérstaklega um skilmála viðskiptanna og hafi samningar tekist fyrir milligöngu miðlara á hinum alþjóðlega fjármagnsmarkaði. Viðskiptin hafi þjónað þeim almenna tilgangi að vera skammtímafjárfesting fyrir kröfuhafann, fremur en leið til að geyma handbært fé, svo sem almennt sé tilgangur innlána. Frá sjónarhóli Landsbankans hafi tilgangur viðskiptanna verið sá að mæta almennri þörf fyrir rekstrarfé og virðist viðskiptanna hafa verið leita með virkum hætti á hinum alþjóðlega fjármagnsmarkaði. Þá skyldi endurgreiða fjármunina á tilteknum tíma en að öðru leyti hafi kröfuhafinn ekki haft neinn aðgang að þeim. Samið hafi verið sérstaklega um fasta vexti, sem skyldi greiða ásamt höfuðstól á gjalddaga, en þau kjör sem varnaraðila Gemeente Dordrecht hafi boðist hafi ekki verið í boði fyrir hinn almenna innlánseiganda. Varnaraðilinn, sem notið hafi sérfræðiaðstoðar, teljist fagfjárfestir í þessu sambandi og hlutverk hans og staða hafi verið gjörólík þeirri stöðu sem almennir innlánseigendur séu í. Ekki virðist hafa verið um sérstakan bankareikning að ræða í nafni kröfuhafans heldur virðist kröfuhafinn þvert á móti hafa greitt fjármuni inn á reikning Landsbankans hjá þriðja aðila. Þá séu þau skjöl, sem viðskiptin byggist á, gjörólík þeim skjölum sem liggi til grundvallar innstæðum. Svo virðist sem samningur um lánveitingu hafi tekist milli miðlarans og Landsbankans, sennilega munnlega, en um hann liggi ekki fyrir nein gögn önnur en eftirfarandi staðfesting frá Landsbankanum. Þá skyldi Landsbankinn endurgreiða fjárhæðina með vöxtum inn á bankareikning Gemeente Dordrecht í NV Bank Ned. Gemeenten á gjalddaga. Slíkt samrýmist ekki innlánsviðskiptum og feli jafnframt í sér að greiðslustaður hafi verið hjá kröfuhafa. Þegar um innstæðuviðskipti sé að ræða sé greiðslustaður innlánsins hins vegar hjá bankanum sem taki við innstæðunni.

Þá verði að telja að krafan falli utan þeirrar merkingar á hugtakinu innstæða sem skipti máli, einkum með hliðsjón af tilgangi og markmiði þeirra lagaákvæða sem reyni á í málinu. Af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 184/2010 leiði að einungis tryggðar innstæður skv. lögum nr. 98/1999 geti flokkast undir innstæður í lögum nr. 125/2008 og nr. 44/2009. Til afmörkunar á því hvaða innstæður njóti tryggingar verði að líta til allra ákvæða laganna nr. 98/1999 svo og tilgangs þeirra og markmiðs. Ljóst megi vera að markmið laga nr. 98/1999, sbr. m.a. 1. gr. laganna, sé að veita almennum innstæðueigendum tiltekna lágmarksvernd. Byggi lögin augljóslega á sjónarmiðum um neytendavernd, svo sem einnig komi fram í inngangsorðum tilskipunar 94/19/EB, sem innleidd hafi verið í íslenskan rétt með lögunum. Hin umrædda krafa varnaraðila falli ekki undir þetta markmið, enda sé um að ræða fjárfestingu fagfjárfestis. Sé í þessu sambandi bent á að heildsölulán eða heildsöluinnlán hafi ekki verið þekkt fyrirbrigði á Íslandi þegar lög nr. 98/1999 hafi verið sett og þess því ekki að vænta að löggjafinn hafi tekið beina afstöðu til þess hvort slík viðskipti teldust innstæður í skilningi laganna.

Sóknaraðilar telji að við skýringu á því hvaða kröfur skuli njóta forgangs sem innstæður í merkingu 6. gr. laga nr. 125/2008 og 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009 verði að hafa hliðsjón af tilgangi þessarar lagasetningar. Þannig verði bæði að kanna forsögu og tilgang laga nr. 98/1999 sem og þeirra laga sem innleiddu forgang innstæðna, eða laga nr. 125/2008 og 44/2009. Enda þótt svo virðist sem ríkisvaldið hafi með aðgerðum sínum stefnt að því að tryggja hagsmuni einstakra sparifjáreigenda og almennra viðskiptavina bankanna, auk þess að vernda lágmarksbankastarfsemi og greiðslumiðlun, telji sóknaraðilar að forgangur innstæðna og aðrar aðgerðir ríkisins hafi hvorki verið til þess fallnar né nauðsynlegar til að ná þessum markmiðum. Allt að einu megi vera ljóst að forgangur kröfu fagfjárfesta svo sem varnaraðila sem átt hafi í viðskiptum á heildsölumarkaði með fjármagn falli langt utan við markmiðið sem löggjafinn kunni að hafa stefnt að með innleiðingu ákvæða um forgang innstæðna. Með hliðsjón af framangreindu telji varnaraðilar að krafa varnaraðilans Gemeente Dordrecht falli utan hugtaksins innstæða í lögum nr. 125/2008 og 44/2009.

Auk framangreinds minni sóknaraðilar á þrjú meginsjónarmið sem leiða eigi til þess að dóminum sé rétt og skylt að túlka ákvæði um forgang innstæðna þröngt. Í fyrsta lagi sé ljóst að forgangurinn feli í sér takmarkanir á réttindum sóknaraðila sem njóti verndar stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Í öðru lagi verði að skýra ákvæðin þröngt til samræmis við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 og bókun 35 við EES-samninginn, svo og hið almenna sjónarmið íslensks réttar að skýra beri landsrétt í samræmi við þjóðréttarskuldbindingar. Sé það afstaða sóknaraðila að forgangur innstæðna brjóti gegn EES-samningnum, meðal annars ákvæðum hans um jafnræði. Í þriðja lagi sé ljóst að forgangur innstæðna feli í sér undantekningu frá meginreglu gjald­þrotaskiptaréttarins um jafnræði kröfuhafa sem leiði til þess að túlka beri hugtakið innstæða í ákvæðum laga um forganginn þröngt.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að umrædd krafa varnaraðila geti talist innstæða, og falli þannig innan lagaákvæða um forgang innstæðna, byggi sóknaraðilar á því að þessum lagaákvæðum verði ekki beitt þar sem þau séu í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár, mannréttindasáttmála Evrópu og EES-samninginn.

Í fyrsta lagi brjóti forgangur innstæðna í bága við vernd eignarréttar skv. 72. gr. stjórnarskrár og 1. gr. fyrsta viðauka mannréttindasáttmálans. Kröfur sóknaraðila á hendur Landsbankanum teljist tvímælalaust eignir í skilningi framangreindra ákvæða og njóti því verndar þeirra. Þessi réttindi hafi verið skert með ófyrirsjáanlegum og afturvirkum hætti er ákvæði um forgang innstæðna hafi verið leidd í lög. Hafi stöðu þessara krafna og verðmæti verið breytt eftir á með setningu laganna og fái slík lagasetning ekki staðist. Sóknaraðilar telji að þeim hafi verið gert að láta eignir sínar af hendi. Verðmæti kröfuréttinda þeirra á hendur Landsbankanum hafi rýrnað verulega þegar innstæðueigendum hafi verið veittur forgangur fram yfir þá. Þessi eignasvipting beinist einkum að einstökum kröfuhöfum, einkum erlendum kröfu­höfum Landsbankans, og geti því ekki talist heimil á grundvelli 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. fyrsta viðauka mannréttindasáttmálans. Forgangur innstæðna hafi verið innleiddur með afturvirkum hætti, algjörlega á kostnað sóknaraðila og annarra almennra kröfuhafa þar sem þeim sé gert að bera tap sem annars hefði fallið á innstæðueigendur eða tryggingarsjóð innstæðueigenda. Þar sem sóknaraðilar hafi verið sviptir eignarréttindum sínum með eignarnámi beri ríkinu samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar að greiða fullar bætur fyrir. Engar slíkar bætur hafi verið boðnar fram og því teljist beiting ákvæða laga um forgang innstæðna í andstöðu við stjórnarskrá. Auk þess telji sóknaraðilar að ákvæði laga nr. 125/2008 veiti ekki fullnægjandi lagaheimild fyrir eignarnámi þar sem þau séu of óskýr og almennt orðuð.

Jafnvel þótt framangreind skerðing á eignarréttindum sóknaraðila verði ekki talin fela í sér eignarnám heldur almennar takmarkanir á eignarréttindum byggi sóknaraðilar á því að farið hafi verið út fyrir leyfilegt umfang slíkra takmarkana gagnvart stjórnarskránni og mannréttindasáttmálanum, einkum vegna þess að skerðingin feli í sér mismunum og virði ekki meðalhóf. Sérstaklega sé á því byggt að sóknaraðilar hafi haft lögmætar væntingar varðandi þá málsmeðferð sem íslensk löggjöf mælti fyrir um ef til gjaldþrots íslensku bankanna kæmi. Á þeim grundvelli hefðu þeir afhent Landsbankanum lánsfé. Þessar lögmætu væntingar njóti verndar eignarréttar­ákvæðisins en hvað þetta varði sé einnig vísað til skýrleika laga og banns við afturvirkni. 

Í annan stað sé byggt á því að innleiðing forgangs innstæðna með afturvirkum hætti brjóti í bága við grundvallarregluna um jafnræði og bann við mismunun sem njóti verndar 65. gr. stjórnarskrárinnar, 14. gr. mannréttindasáttmálans í tengslum við 1. gr. fyrsta samningsviðauka, 26. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 4. gr. og 40. gr. EES-samningsins. Sé hvað þetta varði einnig vísað til 12. og 16. liðar í formála tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB um endurskipulagningu og slit lánastofnana og enn fremur 16. gr. tilskipunarinnar. Auk þess sé vísað til meginreglu skiptaréttar um jafnræði kröfuhafa. Allar undantekningar frá þessari reglu verði að skýra þröngt. Fyrir liggi að ákvæði laga nr. 125/2008 og 44/2009 mæli fyrir um mismunandi meðferð sambærilegra tilvika og með því hafi verið raskað stöðu aðila sem verið hafi í sambærilegri stöðu án þess að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið réttlættu hina mismunandi meðferð. Auk þessi stefni mis­mununin ekki að lögmætu markmiði.

Í þriðja lagi sé vísað til þess að forgangur innstæðna standist ekki í ljósi stjórnskipulegrar meðalhófsreglu, sem meðal annars felist í ákvæðum 72. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar, en einnig ákvæðum mannréttindasáttmálans. Sé í því sambandi bent á að ákvæði laga um forgang innstæðna hafi hvorki verið til þess fallin að ná lögmætu markmiði í skilningi meðalhófsreglunnar né hafi forgangurinn verið nauðsynlegur í því tilliti. Standist ekki þau rök að aðgerðirnar hafi verið nauðsynlegar til að tryggja lágmarks bankastarfsemi og virkni greiðslukerfa eða að aðgerðirnar hafi verið nauðsynlegar til að koma í veg fyrir bankaáhlaup. Þvert á móti virðist sem með forganginum hafi einkum verið stefnt að því að forða ríkinu frá greiðsluskyldu vegna innstæðutrygginga og að flytja tap á hruni bankanna frá ríkinu og til almennra kröfuhafa. Jafnvel þótt gengið sé út frá því að markmiðið hafi verið lögmætt, t.d. að vernda sparifé einstaklinga eða viðhalda lágmarks bankastarfsemi og koma í veg fyrir tafarlaust hrun efnahagskerfisins, telji sóknaraðilar forgang innstæðna hvorki hafa verið nauðsynlegan né til þess fallinn að ná slíkum markmiðum. Sérstaklega verði ekki fallist á að vernd fagfjárfesta eins og varnaraðilans Gemeente Dordrecht geti talist lögmætt markmið og verði reyndar að telja að vernd slíkra fjárfesta hafi alls ekki fallið undir markmið aðgerðanna eins og áður hafi verið rakið.

Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að markmiðið með veitingu forgangsins hafi verið lögmætt þá telji sóknaraðilar að aðgerðin hafi hvorki verið til þess fallin að ná slíkum markmiðum né hafi hún verið nauðsynleg í því skyni. Telji sóknaraðilar að sönnunarbyrði um markhæfni og nauðsyn lagaákvæða sem takmarki stjórnarskrárvarin réttindi verði að hvíla á þeim sem hyggist byggja rétt sinn á þeim. Þá verði einnig að telja að beita hefði mátt vægara úrræði til að ná tilætluðum markmiðum eins og því að innleiða þrengri skilgreiningu á hugtakinu innstæða við setningu hinn umdeildu lagaákvæða. Loks sé í þessu sambandi vísað til þess að ekki sé nóg að horfa til þess hvaða nauðsyn kunni að hafa legið að baki lagasetningunni í október 2008 heldur verði einnig að horfa til þess hver staðan hafi verið í mars 2009 þegar lögin nr. 44/2009 hafi verið sett. Á þeim tíma hafi ekki verið hægt að styðjast við sjónarmið um yfirvofandi glundroða, hrun greiðslukerfa eða algera stöðvun daglegra viðskipta og lágmarksbankastarfsemi. Verði alla vega að telja að 6. gr. laga nr. 44/2009 og beiting þess ákvæðis samrýmist ekki kröfum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um eignarréttarvernd, jafnræði og meðalhóf.

Sóknaraðilar bendi og á að forgangur innstæðna verði ekki réttlættur á grundvelli sjónarmiða um stjórnskipulegan neyðarrétt. Hvað það varði sé einkum á því byggt að stjórnskipulegur neyðarréttur eigi sér enga stoð í íslenskum stjórnskipunarrétti. Ljóst megi vera að Alþingi hafi ekki litið svo á að samþykkt laga nr. 125/2008 byggðist á einhvers konar frávikum frá ákvæðum stjórnarskrárinnar. Með öðrum orðum hafi Alþingi ekki litið svo á að lögin væru sett á grundvelli stjórnskipulegs neyðarréttar. Verði hins vegar litið svo á að slíkur réttur fyrirfinnist þá telji sóknaraðilar að aðstæður þær sem uppi hafi verið í október 2008 séu engan veginn sambærilegar þeim aðstæðum sem réttlætt hafi beitingu neyðarréttar í íslenskri réttarsögu, þ.e. síðari heimsstyrjöld. Ekki verði heldur fallist á að aðstæðurnar hafi „ógnað lífi þjóðarinnar“ í skilningi gr. ABSR og 15. gr. mannréttindasáttmálans. Hafi neyðarástandi ekki verið lýst yfir opinberlega, sbr. 1. mgr. 4. gr. ABSR, og tilkynning hafi hvorki verið send Evrópuráðinu né Sameinuðu þjóðunum, sbr. 3. mgr. 4. gr. ABSR og 3. mgr. 15. gr. mannréttindasáttmálans. Þá sé ljóst að gildissvið stjórnskipulegs neyðarréttar sem heimildar til frávika frá stjórnarskránni sé takmarkað við ákvæði sem tengist valddreifingu og valdframsali, en heimili ekki frávik frá mannréttindum. Í öllum tilvikum sé því haldið fram að frávik frá stjórnarskrárvörðum réttindum í máli þessu geti ekki talist hafa verið bráðnauðsynleg, m.a. þar sem þau hafi falið í sér mismunun, sbr. 4. gr. ABSR. Ekki hafi verið sýnt fram á að aðrar vægari aðgerðir hafi ekki verið mögulegar.

Enn fremur sé á því byggt að forgangur innstæðna, ásamt öðrum aðgerðum ríkisins vegna bankahrunsins, þ.e. skipting bankanna og endurfjármögnun nýju bankanna, sé í heild í andstöðu við ákvæði stjórnarskrárinnar, mannréttindasáttmála Evrópu og EES-samninginn. Sérstaklega sé bent á að aðgerðir ríkisins hafi falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins. Þar sem viðbrögð ríkisins við bankahruninu hafi verið ólögmæt, sé litið á þau með heildstæðum hætti, þá verði ekki byggður á þeim neinn réttur. Þar með talið verði ekki fallist á að innstæður geti notið forgangsréttar, enda hafi sú lagabreyting verið hluti af hinum ólögmætu ráðstöfunum ríkisins.

Verði niðurstaða dómsins samt sem áður sú að einhver hluti kröfunnar geti notið forgangs sem innstæða þá byggi fyrsta varakrafa sóknaraðila á því að slík forgangskrafa geti að hámarki verið að fjárhæð 20.887 evrur, sem sé sú fjárhæð sem hafi getað notið tryggingar samkvæmt lögum nr. 98/1999. Gildi það um hvern innstæðueiganda en ekki fyrir hvern innstæðureikning. Verði fallist á fyrstu varakröfu sóknaraðila verði afleiðingin sú að engar aðrar kröfur varnaraðila Gemeente Dordrecht geti notið forgangs sem innstæður.

Verði ekki fallist á framangreindar málsástæður sóknaraðila sé vísað til þess, vegna annarrar varakröfu sóknaraðila, að túlka verði ákvæði um forgang innstæðna, svo og ákvæði laga nr. 98/1999, með þeim hætti að forgangsréttur nái ekki til vaxta sem fallið hafi á innstæður eftir 6. október 2008, en frá þeim degi hafi Landsbankanum verið ókleift að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt áliti Fjármálaeftirlitsins og á sama degi hafi greiðsluskylda Tryggingarsjóðs innstæðueigenda orðið virk. Verði fjárhæð innstæðunnar og að miðast við sama dag.

Sóknaraðilarnir kveðast mótmæla þeim kröfum og málatilbúnaði varnaraðilans Gemeente Dordrecht er lúti annars vegar að vöxtum á kröfu hans fyrir tímabilið frá gjalddaga lánsins til 22. apríl 2009 og hins vegar að útlögðum kostnaði. Sé hvað það varði aðallega vísað til raka varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., en slitastjórnin hafi hafnað þessum kröfum.

Sóknaraðilarnir Skiki ehf., Blomstra ehf., Íslenska útflutningsmiðstöðin hf., Óttar Yngvason og Rakel Óttarsdóttir kveða kröfur sínar í fyrsta lagi byggjast á því að ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008 frá 7. október 2008 og 6. gr. laga nr. 44/2009 frá 22. apríl 2009 feli í sér stórbrotna eignaupptöku fyrir sóknaraðilana og að þau séu andstæð ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar sem og 1. gr. í fyrsta viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og ákvæði EES-samningsins. Hin tilgreindu ákvæði laga nr. 125/2008 séu í öðru lagi andstæð jafnréttisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar sem og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Viðurkenning svo stórra almennra kröfuhafa bankans sem forgangskröfuhafa hafi þær afleiðingar að forgangskröfurnar hirði allar fyrirsjáanlegar eignir búsins og þurrki þar með út allar almennar kröfur. Sé í því fólgin alvarleg mismunun milli kröfuhafa bankans. Sóknaraðilarnir vísi í þriðja lagi til þess að framangreind lög nr. 125/2008 og nr. 44/2009 feli í sér afturvirka lagasetningu, en með setningu þeirra hafi réttarstöðu almennra kröfuhafa bankans verið breytt eftir á þeim til stórtjóns. Slík lagasetning sé andstæð hinni almennt viðurkenndu óskráðu grundvallarreglu réttarríkisins um bann við afturvirkni laga. Þessi meginregla sé grundvöllur þess að réttaröryggi borgaranna geti talist nægilega tryggt. Í fjórða lagi sé á því byggt að meðalhófsregla hafi ekki verið virt með setningu laganna nr. 125/2008 og enn síður með setningu lag nr. 44/2009. Sé það mat sóknaraðilanna að auðveldlega hefði verið hægt að leysa bankavandann sem upp hafi komið í byrjun október 2008 með því að beita mun vægari úrræðum heldur en gert hafi verið með lögum nr. 125/2008. Hafi ekki verið sýnt fram á að vægari ráðstafanir hefðu ekki dugað til að leysa vandann. Loks sé á því byggt að hin umdeilda krafa varnaraðilans Gemeente Dordrecht geti ekki talist innstæða í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 125/2008 og síðan lögum nr. 44/2009. Sé niðurstaða slitastjórnar í þessu efni röng og í ósamræmi við kröfulýsingagögn. Í þeim gögnum komi fram að ekki sé um að ræða innstæðureikning í venjulegum skilningi, heldur hafi fyrirtækið Wallich & Matthes BV í Amsterdam gert lánssamning fyrir hönd varnaraðila, Gemeente Dordrecht við útibú Landsbankans í Amsterdam með sérstökum vaxtakjörum og tveggja ára lánstíma.

Sóknaraðilinn Deutsche Bank Trust Company Americas vísar til þess að ekki sé hægt að byggja forgangsröðun krafna varnaraðilans Gemeente Dordrecht á þeim ákvæðum laga nr. 125/2008 og 44/2009 sem lúti að forgangi innstæðna þar sem þau brjóti í bága við stjórnarskrá og séu því ógild réttarheimild. Ákvæðin fari og í bága við mannréttindasáttmála Evrópu, meginreglur EES-réttar og almennar meginreglur alþjóðlegra og innlendra laga. Eigi kröfur varnaraðilans því að vera í sömu kröfuröð og kröfur sóknaraðila, það er almennar kröfur skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Sé hvað það varði í fyrsta lagi  byggt á því að sá forgangur sem innstæðum hafi verið veittur með þessum lögum hafi verið ófyrirsjáanlegur og afturvirkur og brjóti gegn almennum reglum um réttmætar væntingar, afturvirkni og fyrirsjáanleika laga. Með setningu greindra lagaákvæða hafi verið gróflega brotið á réttindum allra ótryggðra kröfuhafa Landsbankans. Þannig komi sérstaklega fram í grein 3.1. í samningi milli Landsbankans og sóknaraðila, dags. 21. júlí 2006, er gildi um skuldabréfaútgáfu bankans, að kröfur samkvæmt skuldabréfunum skuli vera skilyrðislausar, ófrávíkjan­legar og ótryggðar skuldbindingar Landsbankans. Jafnframt sé sérstaklega tiltekið að kröfurnar séu jafnsettar innstæðum og öllum öðrum ótryggðum skuldbindingum. Í tilviki sóknaraðila hafi þetta verið skýr forsenda og samnings­skuldbinding Lands­bankans.

Sóknaraðilinn telji ljóst að þau ákvæði fyrrnefndra laga sem mæli fyrir um og breyti forgangsröðun krafna brjóti gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmálans. Verði umræddar kröfur gerðar að forgangskröfum dragi það verulega úr líkum á því að sóknaraðili fái eitthvað greitt upp í kröfur sínar. Sé þessi ráðstöfun því gerð á kostnað sóknaraðila og annarra almennra kröfuhafa. Leiði hún til eignaskerðingar og ólöglegra takmarkana á eignarrétti sóknaraðila, án skaðabóta. Verði ekki séð að almenningsþörf eða almannahagsmunir hafi staðið til setningar greindra lagaákvæða. Einnig sé ljóst að sú krafa um meðalhóf, sem felist í 72. gr. stjórnarskrárinnar, og komi fram í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sé ekki uppfyllt. Löggjafinn hafi gengið mun lengra en nauðsynlegt geti talist með setningu umræddra laga. Þá sé það mat sóknaraðilans að slík óhófleg meðferð á kröfuhöfum sem hér um ræði brjóti gegn meginreglu um jafnræði og banni gegn mismunun sem kveðið sé á um í 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmálans.

Verði umrædd lagasetning að einhverju leyti talin réttlætanleg telji sóknaraðili allt að einu ljóst að umdeildar kröfur varnaraðila geti ekki talist til innstæðna í samræmi við ákvæði laga nr. 125/2008. Telji sóknaraðili að hugtakið innstæða samkvæmt lögunum verði að skýra þannig að um sé að ræða innstæðu á sérgreindum reikningi í nafni viðkomandi. Hefðbundin innstæða sé bundin ákveðnum fyrirframákveðnum skil­málum en ekki samið um vexti og kjör hverju sinni. Á hinn bóginn séu helstu einkenni heildsöluláns varnaraðila ekki í samræmi við ofangreindan skilning, enda semji aðilar hverju sinni um skilmála lánsins, þ.e. fjárhæð, lánstíma og vexti. Séu lánin byggð á samningi milli Landsbankans og varnaraðilans Gemeente Dordrecht og endurspegli kjörin væntanlega ráðandi markaðsaðstæður og fjármögnunarþörf Landsbankans á samningsdegi. Þetta séu lán sem bankinn hafi nýtt sér til fjármögnunar frá varnaraðilanum, sem sé fagfjárfestir, með milligöngu miðlara á peningamarkaði. Öll umræða við setningu umræddra laga beri með sér að fyrst og fremst hafi verið ætlunin að tryggja innstæður sparifjáreigenda, en ekki heildsölulán fjármálafyrirtækja eða fagfjárfesta.

Sóknaraðili bendir og á að varnaraðili hafi sönnunarbyrði fyrir því að kröfur varnaraðila hafi notið tryggingaverndar í samræmi við lög nr. 98/1999 um innstæðu­tryggingar og tryggingakerfi.  Þannig þurfi hann að sýna fram á að greitt hafi verið iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda vegna umræddra lána og að lán varnaraðila hafi myndað grunn bindisskyldu til Seðlabanka Íslands.

Verði talið að krafa varnaraðila geti að einhverju leyti notið forgangsréttar í kröfuröð telji sóknaraðili þó ljóst að sá forgangsréttur geti, hvað sem öðru líði, einungis numið fjárhæð er samsvari 20.887 evrum. Í hinum umdeildu lagaákvæðum um forgangs­réttinn sé vísað til laganna nr. 98/1999 þar sem fram komi að eingöngu séu verndaðar innstæður upp að framangreindri fjárhæð.

Sóknaraðilinn Landsbanki Guernsey Ltd. kveður aðalkröfu sína byggða á því að slitastjórn varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., hafi verið óheimilt að veita kröfu varnaraðila, Gemeente Dordrecht, stöðu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem svonefnd heildsöluinnlán falli ekki undir hugtakið innstæða í skilningi laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Falli þau í sama flokk og svonefnd peningamarkaðsinnlán og hafi verið ein leið fjármálafyrirtækja til að fjármagna rekstur sinn. Heildsöluinnlán teljist því ekki til hefðbundinna innlána sem lögum nr. 98/1999 sé ætlað að tryggja. Að sama skapi teljist varnaraðilinn Gemeente Dordrecht ekki til hefðbundinna innstæðueigenda sem lögunum sé ætlað að vernda.

Sóknaraðilinn vísar og til þess að ákvæði neyðarlaganna um forgangsrétt innstæðu­eigenda brjóti gegn friðhelgi eignarréttarins samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hefur verið hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994. Fyrir setningu laga nr. 125/2008 hafi sóknaraðilar og aðrir innstæðueigendur tilheyrt hópi almennra kröfuhafa. Með lögunum hafi innstæðu­eigend­um hins vegar verið tryggður forgangsréttur við skipti á búi Landsbankans og þar með tryggð betri staða en sóknaraðilum. Hefðu lögin ekki verið sett og kröfur innstæðueigenda áfram notið rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 megi ljóst vera að sóknaraðilar, sem og aðrir almennir kröfuhafar, hefðu fengið greitt að hluta upp í kröfur sínar. Samkvæmt nýjustu upplýsingum slitastjórnar varnaraðila, Lands­banka Íslands hf., sé staðan hins vegar sú að einungis verði greitt að hluta upp í forgangskröfur. Ekkert muni því greiðast upp í almennar kröfur. Samkvæmt framangreindu verði að telja að setning laga nr. 125/2008 hafi haft í för með sér að kröfuréttindi annarra almennra kröfuhafa, þ. á m. sóknaraðila, hafi verið gerð að litlu eða engu. Með því telji sóknaraðili sig hafa verið skyldaðan til að láta af hendi öll stjórnarskrárvarin eignarréttindi sín gagnvart varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf., til hagsbóta fyrir innstæðueigendur. Í athugasemdum við frumvarp það er orðið hafi að lögum nr. 125/2008 séu engar ástæður eða markmið að baki þessari eignasviptingu tilgreind, auk þess sem þar sé í engu kveðið á um greiðslu bóta til handa þeim sem kunni að verða fyrir eignasviptingunni. Engar bætur hafi því verið greiddar þeim sem þurft hafi að þola eignasviptingu, þ.e.a.s. öðrum almennum kröfuhöfum en innstæðueigendum. Sóknaraðili telji og umrædd eignaskerðing verði ekki réttlætt með vísan til almenningsþarfar eða annarra sjónarmiða auk þess sem lögin hafi gengið mun lengra en nauðsynlegt hafi verið.

Einnig sé á því byggt að umrætt ákvæði neyðarlaganna feli í sér mismunun milli almennra kröfuhafa og brjóti því í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmálans. Staða þeirra hafi verið eins fram að gildistöku laganna og hafi því sambærileg tilvik verið meðhöndluð með ólíkum hætti. Við mat á því hvort staða aðila sé sambærileg sé eingöngu hægt að líta til þess hvort kröfur þeirra hafi notið sömu rétthæðar fyrir breytinguna. Einungis í algjörum undantekningar­tilvikum sé heimilt að gera mun á milli manna, enda byggist mismununin á málefna­legum sjónarmiðum eða veigamiklu sjónarmiði sem réttlæti nauðsyn hans. Varnar­aðilanum Gemeente Dordrecht hafi ekki tekist að sýna fram á að slík réttlætingar­sjónarmið hafi verið fyrir hendi. Alla vega sé ljóst að lagabreytingin hafi gengið mun lengra en nauðsynlegt hafi verið. Komist rétturinn að þeirri niðurstöðu að mismununin hafi verið réttlætanleg þá hljóti kostnaður vegna hennar að verða borinn af ríkinu en ekki almennum kröfuhöfum.

Sóknaraðilinn kveðst og vísa til þess að ákvæði neyðarlaganna og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 um flutning innstæðna frá Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf., síðar NBI hf., brjóti gegn 4. og 40. gr. EES-samningsins, 2. mgr. 16. gr. tilskipunar EB nr. 2001/24/EB og óskráðri meginreglu EES-réttar um jafnræði aðila. Hafi þetta bæði falið í sér beina og óbeina mismunun og hafi engar hlutlægar og málefnalegar ástæður legið þar að baki. Þá hafi ekkert eðlilegt samræmi verið milli þess markmiðs sem mismununin virðist hafa stefnt að og þeirra aðferða sem notaðar hafi verið til að ná því markmiði. Einnig hafi þessar ráðstafanir takmarkað frjálst flæði fjármagns, sbr. meginreglu 40. gr. EES-samningsins.

Þá verði forgangsrétturinn ekki heldur réttlættur með vísan til stjórnskipulegs neyðarréttar enda sé það algerlega óskilgreint hugtak. Ekki sé að finna í stjórnar­skránni neina heimild fyrir beitingu slíks neyðarréttar og hafi stjórnarskrárgjafinn aldrei séð ástæðu til að lögfesta slíkt ákvæði. Sé það raunar svo að stjórnarskrárgjafinn hafi séð ástæðu til að hafna lögfestingu slíks ákvæðis eins og sjá megi í nefndaráliti stjórnarskrárnefndar nr. 758 frá 118. löggjafarþingi, 297. mál. Forgangsrétturinn verði heldur ekki réttlættur með vísan til 15. gr. mannréttindasáttmálans um skerðingu réttinda á hættutímum, enda sé skýrlega kveðið á um það í 3. mgr. 15. gr. að samningsaðili sem neyti þess réttar til undansláttar skuli tilkynna um það til Evrópuráðsins með tilgreindum hætti og það hafi íslensk stjórnvöld ekki gert.

Á því sé og byggt að með setningu laganna nr. 125/2008 hafi meginreglur íslensks réttar og EES-réttar um réttmætar væntingar, fyrirsjáanleika og bann við afturvirkni laga verið virtar að vettugi. Þegar viðskipti sóknaraðila og Landsbanka Íslands hf. hafi átt sér stað hafi sóknaraðili gert ráð fyrir að litið væri á innstæðueigendur sem almenna kröfuhafa og að þeir nytu því rétthæðar skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Með þeim grundvallarbreytingum á reglum um slitameðferð fjármálafyrirtækja sem hér um ræði hafi því verið brotið gegn lögmætum væntingum sóknaraðila hvað þetta varði. Þá sé ljóst að meginreglan um lögmætar væntingar setji löggjafanum takmörk, m.a. varðandi setningu afturvirkra laga.

Varðandi aðalkröfuna sé loks skírskotað til þess að hér á landi gildi óskráð en almenn meðalhófsregla við skýringu stjórnarskrárákvæða, einkum við úrlausn dómstóla um það álitaefni hvort lög samrýmist stjórnarskrá. Í því felist m.a. að takmarkanir á eignarréttindum verði að helgast af lögmætu markmiði, markmiðinu sem að sé stefnt megi ekki ná með öðru og vægara úrræði, auk þess sem gæta verði hófs í beitingu þess. Sönnunarbyrði um að skilyrðin hafi verið uppfyllt hvíli á þeim sem vilji byggja rétt á efni lagaákvæðis, í þessu tilviki varnaraðila Gemeente Dordrecht, og telji sóknaraðili að slík sönnun hafi ekki tekist.

Varðandi varakröfu sóknaraðila sé á því byggt að forgangsréttur samkvæmt 6. gr. neyðarlaganna nái einungis til kröfu varnaraðilans Gemeente Dordrecht að hámarki 20.887 evrur fyrir hverja innstæðu sem kröfulýsingin taki til, enda ábyrgist Tryggingarsjóður innstæðueigenda að hámarki þá fjárhæð.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðilinn Gemeente Dordrecht kveðst byggja kröfur sínar í fyrsta lagi á því að innlán hans teljist innstæða í skilningi laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar. Hugtakið innstæða sé skilgreint með skýrum hætti í 3. mgr. 9. gr. laganna og vísi ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008, svokallaðra neyðarlaga, til þeirrar skilgreiningar. Ákvæðið innleiði í íslenskan rétt skilgreiningu 1. tl. 1. gr. tilskipunar nr. 94/19/EB.

Varnaraðili telur að einungis sé ein skilgreining á hugtakinu ,,innstæða“. Enginn greinarmunur sé gerður á ,,heildsöluinnlánum“ og ,,smásöluinnlánum“. Varnaraðili byggir á því að til að krafa geti notið forgangs samkvæmt lögum nr. 125/2008 sé nóg að hún teljist innstæða samkvæmt skilgreiningu laga nr. 98/1999, þ.e. að innstæðan sé til komin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og sem viðskiptabanka eða sparisjóði beri að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gildi samkvæmt  lögum eða samningi.

Gögn málsins beri það með sér að um innstæðu sé að ræða. Varnaraðili, Landsbanki Íslands hf., hafi talið að um innstæðu væri að ræða. Bankinn hafi staðfest að ,,heildsöluinnstæður“ eins og sú sem hér um ræðir hafi verið bókfærðar sem innstæður í bókhaldi sínu, slitastjórn bankans telji kröfu varnaraðila vera vegna innstæðu, og bankinn hafi talið innlán ,,heildsöluaðila“, líkt og varnaraðila, með í útreikningum bankans á skyldum hans gagnvart Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og greitt af þeim innstæðum í sjóðinn. Þá hafi varnaraðili móttekið 18. mars 2009 lágmarks innstæðutryggingu samkvæmt lögum nr. 98/1999, sem hollenski seðlabankinn hafi greitt út fyrir hönd tryggingarsjóðsins.

Þá stafi innstæða varnaraðila af millifærslu, en varnaraðili hafi 6. júlí 2007 millifært 8.000.000 evra af eigin reikningi inn á reikning varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. Innstæða varnaraðila og millifærsla falli innan marka hefðbundinna bankaviðskipta. Almennt sé vitað að móttaka innlána sé kjarnastarfsemi bankaþjónustu. Ákvæði 1. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 renni rökum undir þetta. Krafa varnaraðila uppfylli því skilyrði fyrri hluta skilgreiningar laga nr. 98/1999. Einnig sé krafan í samræmi við skilyrði seinni hluta skilgreiningarinnar. Óumdeilt sé að varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., hafi verið skylt að endurgreiða umræddar innstæður ásamt áföllnum vöxtum 6. júlí 2009.

Loks hafi löggjafinn staðfest að innstæðueigendur í sömu stöðu og varnaraðili séu tryggðir af Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, en þetta komi fram í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 96/2009.

Varnaraðili telur orðalag tilskipunar Evrópusambandsins styðja enn frekar að krafa varnaraðila sé innstæða samkvæmt lögum nr. 98/1999. Samkvæmt tillögum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að tilskipuninni sé hugtakið innstæða skilgreint mjög rúmt í tilskipuninni og þar undir falli margskonar gerningar sem bankar bjóði upp á. Skilgreining hugtaksins ,,innstæðu“ sé í tilskipuninni svo rúm að nauðsynlegt hafi þótt að taka fram að skuldabréf rúmuðust ekki innan hennar. Gagnálykta megi út frá því að ella hefðu skuldabréf fallið innan hugtaksins. Sama eigi við um innstæður sem ekki séu skráðar á nafn og almennar skuldaviðurkenningar sem falli innan skilgreiningar tilskipunarinnar.

Varnaraðili mótmælir lagagrundvelli umfjöllunar sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl., um það hvernig skilgreina beri hugtakið innstæðu í skilningi laga nr. 98/1999 og tilskipunarinnar. Hvergi sé þar vísað til lagaákvæða eða lögskýringargagna. Upptalning sóknaraðila á ætluðum „fimm megineinkennum innstæðu“ sé byggð á almennum skilningi á hugtakinu „innstæða“ og hefðbundinni notkun á hugtakinu í fjármálalífinu. Varnaraðili byggir á því að einungis eigi að miða við lögfræðilega skilgreiningu hugtakanna. Þá vísi sóknaraðilar ekki til neinna heimilda fyrir ætluðum „almennum málskilningi“.

Eitt þessara megineinkenna innstæðu sé að innstæðan þurfi að vera lögð inn af innstæðueiganda til varðveislu og/eða þannig að innstæðueigandinn nýti þá greiðsluþjónustu sem í boði sé. Sóknaraðilar virðist halda því fram að einungis veltureikningar teljist vera innstæður, en sú fullyrðing samrýmist ekki hinni lagalega skilgreiningu á innstæðu. Engu máli skipti, um skilgreiningu á innstæðu, hvort innstæðueigandinn eigi „þann kost að fá aðgang að fénu án tafar“ eða að hann geti „tekið út þetta sparifé þegar á þarf að halda“. Þó að nnstæðueigendur sækist eftir því að ávaxta fé sitt, samhliða því hagræði sem í því felist að geyma féð hjá fjármálastofnun, þýði það ekki að innstæða þeirra sé ekki grundvölluð á innláni eða að innstæðueigandinn horfi ekki til þess að fé hans sé geymt á öruggan hátt. Annað ætlað einkenni ,,innstæðu“ sé að féð sé geymt á sérstökum bankareikningi. Þetta eigi sér ekki stoð í hinni lagalegu skilgreiningu innstæðu. Orðið ,‚reikningur“ sé ekki hugtaksskilyrði þegar skilgreina eigi innstæðu. Annað ætlað megineinkenni innstæðu að mati sóknaraðila sé að greiðslustaður innstæðu sé hjá bankanum. Þetta ætlaða einkenni sé ekki í samræmi við hina lagalegu skilgreiningu innstæðu. Ekki sé óalgengt að bundnar innstæður séu sjálfkrafa greiddar út á lausnardegi innstæðunnar og að hún greiðist á fyrir fram ákveðinn bankareikning sem innstæðueigandinn hafi gefið upp. Fé á veltureikningum sé ekki endilega greitt hjá viðkomandi banka. Enn eitt ætlaða megineinkennið sé að almennir skilmálar, sem gerðir eru einhliða af bankanum, eigi við um innstæður. Sú fullyrðing sóknaraðila sé röng, að varnaraðili hafi samið sérstaklega við varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., um skilmála innstæðu varnar­aðila.

Varðandi fullyrðingar sóknaraðila um að krafa varnaraðila sé lán kveður varnaraðili að almennir markaðsskilmálar varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., hafi ekki þótt nauðsynlegir, af því að skilmálar bundna innlánsins sem varnaraðili, Landsbanki Íslands hf., hafi lagt til og varnaraðili samþykkt, hafi verið mjög nákvæmir. Það hafi verið samningur um alla nauðsynlega þætti bundins innláns; fjárhæð, vexti og tímabil. Það fyrirkomulag að varnaraðili, Landsbanki Íslands hf., gæti ekki einhliða breytt skilmálum innlánsins sé mjög algengt í tilviki bundinna innlána. Almennt séu innlán framkvæmd án vísan til skilmála, nema þeirra skilmála sem fram komi í innstæðukvittun. Fullyrðing sóknaraðilanna Bayerische Landesbank o.fl. um að miðlarinn Wallich & Matthes „hafi ekki litið á viðskiptin sem innlán heldur frekar lánveitingu“, sé röng. Hvorki tilskipun 94/19/EB né lög nr. 98/1999 undanþiggi innstæður frá vernd tryggingarsjóðs eða sambærilegs kerfis þótt innstæðueigandi nýti sér þjónustu þriðja aðila við að finna lánastofnun til að leggja inn fjármuni hjá. Um tilgang innlánsins segir varnaraðili að nær allir bankar fjármagni sig með móttöku innlána og sé varnaraðili, Landsbanki Íslands hf., engin undantekning þar frá. Ef krafa teldist ekki innlán vegna þess að viðkomandi banki hygðist taka á móti fénu til að fjármagna starfsemi sína gæti engin krafa uppfyllt það skilyrði að teljast vera innlán. Varðandi skilmála innlánsins segir varnaraðili að sóknaraðilar telji ranglega að einungis fjármunir á veltureikningum teljist vera innstæður. Rétt skilgreining á innstæðu sé mun rýmri og eigi einnig við um bundin innlán. Ekkert þeirra ákvæða sem sóknaraðilar fjalli um sé óeðlilegt þegar um bundin innlán sé að ræða.

Í innstæðukvittuninni sé vísað til varnaraðila sem „geldgeefster“ og varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., sem „geldneemster“. Varnaraðili kveður að orðin hafi ekki neina sérstaka merkingu í lagalegum skilningi. Þýðing, að teknu tilliti til hugtakanna, væri „sá sem gefur peninga“ og „sá sem tekur peninga“. Rétt þýðing orðanna sé háð samhengi notkunar þeirra. Séu orðin notuð í tengslum við innlán merki þau „innstæðueigandi“ og „skuldari“. Séu þau notuð í tengslum við lánasamning þýði þau „lánveitandi“ og „lántaki“.

Varnaraðili segir innstæðu sína ekkert eiga skylt við hugtakið ,,verðbréf“ eins og það sé skilgreint í núgildandi eða eldri lögum. Í fyrsta lagi byggi krafa varnaraðila ekki á útgáfu varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., á neinum gerningi heldur á innláns­samningi milli varnaraðilanna sem hafi verið staðfestur með kvittun útgefinni af miðluninni Wallich & Mattes. Sú kvittun sé ekki sönnun um eignarhald heldur eingöngu staðfesting um innstæðu varnaraðila og að varnaraðili, en ekki handhafi kvittunarinnar, eigi kröfu á varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. Í öðru lagi sé möguleiki til framsals á skipulögðum verðbréfamarkaði eitt meginskilyrða þess að gerningur sé álitinn verðbréf að íslenskum rétti. Framsal staðfestingar á innstæðu lúti takmörkunum almennra reglna kröfuréttar og sé frábrugðin framsali verðbréfa á „skipulögðum verðbréfamarkaði“ þar sem afhendingin sjálf eða rafrænt framsal verðbréfs teljist nægjanlegt til að framsal teljist komið á í lagalegum skilningi. Afhendi varnaraðili þriðja manni staðfestingu fyrir innstæðunni væri skjalið þeim aðila einskis virði. Því sé ljóst að ekki sé unnt að telja innstæðuna eða staðfestingarkvittunina til verðbréfa. Ekki hafi verið samið um innlánsviðskiptin á verðbréfamarkaði né annars konar skiptavettvangi.

Hvað varði tilgang og markmið laga nr. 125/2008 telur varnaraðili ómögulegt að draga þá ályktun af lögskýringargögnum að ætlunin hafi verið að undanskilja svokölluð heildsöluinnlán frá forgangsákvæðum laganna. Lögin vísi í innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 og verði því að leggja hugtakið innstæður samkvæmt þeim lögum til grundvallar. Það hefði enn fremur strítt gegn markmiðum laga nr. 125/2008 að undanskilja innstæður fyrirtækja og stjórnvalda.

Varnaraðili byggir á því að ákvæði laga nr. 125/2008 um forgang innstæðukrafna við skipti fjármálafyrirtækja séu stjórnskipulega gild lög sem byggja verði á við slit varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. Kæmist dómurinn að þeirri niðurstöðu að með setningu laga nr. 125/2008 hafi verið brotið á einhverjum stjórnarskrárvörðum réttindum sóknaraðila yrðu þeir að sækja hugsanlegar kröfur sínar á hendur íslenska ríkinu.

Varnaraðili byggir á því, að sú breyting á rétthæð krafna við slit fjármálafyrirtækja sem 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, hafi haft í för með sér feli ekki í sér brot á eignarrétti sóknaraðila. Varnaraðili vísar um það til 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, eins og þau verði skýrð með hliðsjón af 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Varnaraðili fullyrðir að kröfuréttindi sóknaraðila hafi ekki verið skert með neinu móti, né hafi þeir verið þvingaðir til að láta kröfur sínar af hendi. Eign sóknaraðila sé krafa sú sem þeir eigi á hendur varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., ásamt þeim réttindum sem krafan beri með sér. Setning forgangsákvæðis laga nr. 125/2008 hafi ekki takmarkað rétt sóknaraðila til að eiga kröfuna eða haft áhrif á möguleika sóknaraðila til að hafa uppi kröfur á hendur varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. Þá hafi sóknaraðilar ekki verið þvingaðir til að lækka fjárhæð krafnanna og ekki hafi verið ráðist í neinar aðgerðir til að koma í veg fyrir að sóknaraðilar geti tekið á móti greiðslum frá varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. Mögulegt sé að forgangsákvæði laga nr. 125/2008 hafi áhrif á möguleika sóknaraðila til að fá kröfur sínar greiddar að fullu. Breyting á forgangsröðun krafna sé sem slík einungis einn af þeim þáttum sem haft geti slík áhrif. Enn sem komið er sé ómögulegt að fullyrða hve mikið almennir kröfuhafar muni fá greitt við úthlutun þar sem það sé háð ótal utanaðkomandi þáttum. Því sé ómögulegt fyrir sóknaraðila að sýna fram á að þeir hafi orðið fyrir einhverju tjóni. Sóknaraðilar hafi ekkert aðhafst til að sýna fram á hvort þeir hafi átt kröfur sínar við fall varnaraðila, Landsbanka Íslands hf.; og/eða á hvaða verði þeir keyptu kröfurnar og með hvaða skilmálum; eða að hve miklu marki hver sóknaraðili telji kröfur sínar hafa verið skertar vegna forgangsákvæðis laga nr. 125/2008. Varnaraðili byggir á því, án tillits til þess hver endanleg útkoma þess verði, að hvorki 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar né 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu sé ætlað að vernda og viðhalda virði eigna og að ákvæðin koma ekki í veg fyrir að löggjafinn geti sett almenn lög eða að dómstólar felli dóma sem kunni að hafa áhrif á virði eigna.

Varnaraðili telur ekki mögulegt að líta svo á að breyting á réttarstöðu kröfuhafa sé „skerðing á eign“ í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í fyrsta lagi sé „réttur kröfuhafa til að njóta jafnrar stöðu“ við úthlutun fjármuna við slitameðferð ekki „eign“ sem kröfuhafar geti vænst að haldist óbreytt frá einum tíma til annars. Í öðru lagi sé um að ræða almenna og framvirka breytingu á úthlutunarreglum við slitameðferð sem ekki teljist eiginleg skerðing eignarréttar samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Semji kröfuhafi við skuldara um að krafa skuli njóta ,,pari passu“ réttinda geti breyting á forgangsröðun við skipti eða slit leitt til þess að kröfuhafinn öðlist einhvern rétt, innan samningsins, á hendur skuldaranum. Varnaraðili mótmælir þeirri fullyrðingu sóknaraðila, Landsbanka Guernsey, að innleiðing forgangsréttar innstæðueigenda hafi verið á kostnað almennra kröfuhafa. Þó að breytt löggjöf um réttarstöðu kröfuhafa gagnvart þrotabúi geti í einstökum tilvikum leitt til þess að fullnustumöguleikar tiltekinna kröfuréttinda séu takmarkaðir séu þau áhrif einungis afleidd og njóti ekki verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu tryggi ekki rétt manna til að öðlast eign. Þótt almennt sé viðurkennt að skilgreina beri hugtakið „eign“ skv. 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar rúmt, eigi eins víðtæk túlkun og sú sem sóknaraðilar vilji beita í málinu, hvorki stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar né Mannréttindadómstóls Evrópu. Almennt sé viðurkennt að 1. mgr. 72. gr. verndi ekki eign, ef réttindi samkvæmt slíkri eign séu háð ákveðnum skilyrðum og/eða slík eign sé ekki sérgreind eða virði hennar óljóst. Kröfur sóknaraðila séu háðar því að slitastjórn varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., staðreyni kröfur þeirra og óljóst sé á þessu stigi hverjar endurheimtur af eignum varnaraðila verði. Réttindi sóknaraðila samkvæmt slíkum kröfum séu því skilyrt og virði þeirra óljóst og njóti af þeim sökum ekki verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Hafni dómurinn framangreindum röksemdum varnaraðila byggir varnaraðili á því að lög nr. 125/2010 og 44/2009 brjóti engu að síður hvorki í bága við 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar né 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, enda hafi einungis verið um almenna takmörkun eignarréttinda að ræða en ekki eignarnám. Yfirfærsla eignarréttar frá sóknaraðilum til íslenska ríkisins, innstæðueigenda eða annarra hafi ekki farið fram með því að veita innstæðukröfum rétthæð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Ekki hafi heldur verið um að ræða ,,de facto“ eignarnám. Það eigi einungis við ef eiganda sé með öllu fyrirmunuð venjuleg og eðlileg afnot eigna sinna en nái ekki til tilvika þar sem ráðstafanir kunni að hafa einhver áhrif á virði eigna. Sóknaraðilar eigi enn sínar kröfur að fullu.

Viðurkennt sé að löggjafinn geti á grundvelli 2. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, takmarkað eignarrétt með almennum hætti þannig að gætt sé skilyrða 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Almenn takmörkun á eignarréttindum sem eigandi verði að þola bótalaust sé því háð að slík takmörkun byggi á skýrri lagaheimild, að hún sé almenn og takmörkunin miði að lögmætu og hlutlægu markmiði. Óumdeilt sé að forgangur innstæðueigenda skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 byggi á skýru lagaákvæði. Hin meinta takmörkun sé einnig almenn enda taki hún til allra krafna allra kröfuhafa í öllum íslenskum bönkum, að því marki sem kröfurnar séu ekki innstæður og feli því í sér almenna takmörkun á öllum eignum sem ekki séu af tilteknu tagi. Um þriðja skilyrðið segir varnaraðili að forgangsákvæði laga nr. 125/2008 hafi verið sett við algjört neyðarástand á Íslandi og hafi verið nauðsynleg til að ekki skapaðist óhófleg óvissa og órói um afdrif innstæðna einstaklinga og fyrirtækja.

Fallist dómurinn á með sóknaraðilum að ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um forgangsrétt innstæðna, sbr. lög nr. 125/2008 og 44/2009, feli í sér skerðingu eignarréttar, séu málsástæður sóknaraðila um eignarnám, haldlausar. Komist dómur­inn að þeirri niðurstöðu að réttaráhrif ákvæða laga nr. 161/2002 um forgangsrétt inn­stæðukrafna jafngiltu eignarnámi í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, væri íslenska ríkið bótaskylt gagnvart sóknaraðilum. Sóknaraðilar geti ekki átt bæði bótarétt á hendur íslenska ríkinu og um leið rétt til að njóta jafnrar stöðu í kröfuröð og varnaraðili. Sú niðurstaða að forgangsréttur innstæðna jafngildi eignarnámi leiði ekki til þess að viðkomandi lagaákvæði teljist ógild, sem sé forsenda þess að kröfur sóknaraðila verði teknar til greina. Því sé ekki nauðsynlegt að leysa úr því í þessu máli hvort um eignarnám sé að ræða og því hafi sóknaraðilar ekki lögvarða hagsmuni af því að dómurinn leysi úr umræddri málsástæðu. Jafnframt skorti samhengi milli kröfugerðar og málsástæðna hvað þetta varðar, sem brjóti gegn d- og e- liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Jafnvel þótt talið yrði að forgangsákvæði laga nr. 125/2008 hafi falið í sér eignarnám, byggi varnaraðili á því að öll skilyrði lögmæts eignarnáms hafi verið fyrir hendi. Skilyrðin séu í fyrsta lagi að almannahagsmunir krefjist þess og gætt sé meðalhófs, í öðru lagi að lög mæli svo fyrir og í þriðja lagi að fullar bætur komi fyrir. Fyrstu tvö skilyrðin séu uppfyllt. Varðandi skilyrðið um fullar bætur telur varnaraðili að þeir sóknaraðilar sem telji sig hafa orðið fyrir eignarnámi verði að sækja ætlaðan rétt sinn á hendur íslenska ríkinu.

Varnaraðili fullyrðir að sú ráðstöfun löggjafans að veita innstæðum forgang feli ekki í sér mismunun í andstöðu við 65. gr. stjórnarskrárinnar, 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 26. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Hæstiréttur Íslands hafi í dómum sínum sett fram þrjú skilyrði sem mismunun verði að uppfylla til að hún brjóti ekki gegn jafnræðisreglunni, þ.e að mismununin sé lögákveðin, hún stefni að lögmætu markmiði og meðalhófs hafi verið gætt. Alþjóðleg dómaframkvæmd á reglum 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 26. gr. alþjóða­samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi geti verið 65. gr. stjórnarskrárinnar til skýringar. Sú aðgerð að veita kröfum innstæðueigenda forgang hafi ekki falið í sér beina mismunun í skilningi þessara ákvæða, þar sem 6. og 9. gr. laga nr. 125/2008 geri ekki greinarmun á aðilum á grundvelli þjóðernis og ekki sé um óbeina mismunum að ræða þar sem innstæðueigendur séu ekki í sambærilegum aðstæðum og kröfuhafar ótryggðra krafna, þ.m.t. sóknaraðilar. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að um mismunun hafi verið að ræða sé hún lögmæt með vísan til þess í fyrsta lagi að hún hafi verið ákveðin með lögum og sé almenn í eðli sínu, í öðru lagi hafi ætluð mismunun verið heimil vegna þess að markmið lagasetningarinnar hafi verið lögmætt og miðað að því að vernda ríka samfélagslega og efnahagslega hagsmuni almennings og í þriðja lagi hafi ekki verið gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið til að ná þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að.

Varnaraðili kveður að til að um ólögmæta mismunun sé að ræða verði aðilum innan sama hóps í sams konar kringumstæðum að vera mismunað. Þessi skilningur sé í samræmi við jafnræðisreglu 2. mgr. 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins um endurskipulagningu og slit lánastofnana nr. 2001/24/EB. Varnaraðili byggir á því að við ákvörðun þess hvort um mismunun sé að ræða, verði að skipta kröfuhöfum í mismunandi hópa á grundvelli krafna sinna. Sóknaraðilar og varnaraðili séu í ólíkum hópum þar sem skýr greinarmunur sé á kröfu varnaraðila vegna innstæðna annars vegar og krafna sóknaraðila hins vegar. Ekki verði séð að málsástæður um skiptingu bankanna í gamla og nýja banka komi máli þessu við. Þó telji varnaraðili mikilvægt að leggja áherslu á tvennt í tengslum við skiptingu bankanna. Í fyrsta lagi hafi uppskipting bankanna ekki verið afleiðing laga nr. 125/2008 sem slíkra. Í öðru lagi sé vald það sem falið hafi verið Fjármálaeftirlitinu með lögum nr. 125/2008 eðlilegt og réttmætt þar sem það samrýmist og sé í raun takmarkaðra en sú framkvæmd sem flest vestræn ríki hafi viðhaft til að takast á við núverandi fjármálakreppu og fjármála­stofnanir í erfiðleikum.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að um mismunun hafi verið að ræða, kveður varnaraðili að sú mismunun sé lögmæt. Með 6. gr. laga nr. 125/2008, nú 3. mgr. 102. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, hafi einstökum kröfuhöfum ekki verið ívilnað. Ákvæðið sé almennt og ekki sé minnst á eðli kröfuhafans. Kröfuhöfum sé, eins og algengt sé með reglur um rétthæð krafna við slitameðferð fjármálafyrirtækja og gjaldþrotaskipti fyrirtækja, skipt upp eftir eðli krafna sinna á hendur viðkomandi aðila. Skýr eðlismunur sé á kröfum innstæðueigenda annars vegar og kröfum sóknaraðila hins vegar. Þá hafi markmið lagasetningarinnar verið lögmæt og ekki gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið til að ná þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að.

Varnaraðili fullyrðir að breyting á rétthæð innstæðukrafna samkvæmt 6. og 9. gr. laga nr. 125/2008 og síðar laga nr. 44/2009 feli ekki í sér afturvirkni sem brjóti í bága við 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Breyting rétthæðarinnar gildi einungis frá og með gildistöku laga nr. 125/2008 og nái eingöngu til slitameðferða sem hafi byrjað eftir gildistöku þeirra. Sóknaraðilar telji að til staðar sé ólögmæt afturvirkni þar sem lög nr. 125/2008 taki til samningssambands sem þegar hafi verið stofnað. Það sé rangt því ekki hafi verið gerðar breytingar á forgangi kröfu sóknaraðila, heldur hafi gerðar breytingar lotið að forgangi innstæðna. Þetta geti haft óbeinar afleiðingar á endanlega upphæð sem aðrir kröfuhafar en innstæðueigendur endurheimti úr slitameðferð. Til þess verði þó að líta að um sé að ræða óhjákvæmilega afleiðingu allra breytinga sem gerðar séu á forgangi við úthlutun í slitameðferð, nema breyting á forgangi taki aðeins gildi eftir að allir gildir samningar sem máli skipta renni út en slík frestun væri óframkvæmanleg. Enn erfiðara sé að bera fyrir sig sjónarmið um afturvirkni fyrir sóknaraðila sem keypt hafi kröfu vitandi að innstæðueigendur nytu forgangs.

Varnaraðili byggir á því að ekki sé viðurkennt að réttmætar væntingar njóti einar sér verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þótt lögmætar væntingar geti notið verndar 1. gr. 1. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, leiði það ekki sjálfkrafa til þess að 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar verði skýrð með sama hætti. Hugsanlegt brot gegn „lögmætum væntingum“ samkvæmt 1. gr. 1. samningsviðauka við mann­réttinda­sáttmála Evrópu einum sér geti ekki leitt til þess að lögum nr. 125/2008 verði vikið til hliðar, enda njóti mannréttindasáttmálinn aðeins stöðu almennra laga. Fallist dómurinn ekki á þetta byggir varnaraðili á því að ef einstaklingur eða lögaðili geti haft réttmætar væntingar um tiltekna meðferð, í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, verði þær væntingar að teljast hluti af þeirri eign sem sé grundvöllur réttmætra væntinga. Sama eigi við um 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Einu réttmætu væntingarnar sem sóknaraðilar hafi getað haft hafi verið að farið yrði með kröfur þeirra við slit varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., ef til kæmi, í samræmi við íslenskar réttarreglur um gjaldþrotaskipti eins og þær séu á hverjum tíma. Telji dómurinn að almennt séð geti kröfuhafar haft réttmætar væntingar til þess að réttindaröð krafna við gjaldþrotaskipti haldist óbreytt á líftíma krafna, byggir varnaraðili á því að þeir sóknaraðilar sem eignast hafi kröfur sínar eftir gildistöku laga nr. 125/2008 geti þegar af þeirri ástæðu ekki borið fyrir sig réttmætar væntingar og/eða fyrirsjáanleika.

Varnaraðili byggir á því að staðhæfingar sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund o.fl. um að íslenska ríkisstjórnin hafi haft vitneskju, tækifæri og tilefni til að breyta ákvæðum um forgangsröðun á hefðbundinn og fyrirsjáanlegan hátt, hafi ekkert vægi í þessu máli og sé ósönnuð.

Varnaraðili byggir á því að lög nr. 125/2008 hafi haft það lögmæta og hlutlæga markmið að vernda mikilvæga almannahagsmuni með því að reyna að forða algeru hruni íslensks efnahagslífs. Sú aðgerð að veita innstæðukröfum forgang við slit fjármálafyrirtækja hafi verið til þess fallin að stöðva bankaáhlaup og koma á fjárhagslegum stöðugleika. Fjarri lagi sé að helsta eða eina markmiðið hafi verið að takmarka tjón ríkissjóðs. Í ljósi aðstæðna, þar sem raunverulegur möguleiki hafi verið á því að allt bankakerfi og greiðslukerfi myndu hrynja til grunna, hafi verið nauðsynlegt að reyna að bjarga því litla trausti á bankakerfinu sem eftir hafi verið hjá almenningi og koma þannig í veg fyrir allsherjar áhlaup á banka landsins og allsherjarhrun íslensks efnahagslífs.

Varnaraðili fullyrðir að dómstólar hafi farið varlega í að endurskoða mat löggjafans á nauðsynlegum aðgerðum hafi markmið aðgerðanna á annað borð verið lögmætt. Þó að dómurinn teldi að leggja beri sjálfstætt mat á aðgerðir löggjafans hafi setning laga nr. 125/2008 verið nauðsynleg og ekki brotið gegn stjórnskipulegri meðalhófsreglu. Nauðsyn laganna felist í því að hefði innstæðum ekki verið veittur forgangur hefði verið raunveruleg hætta á því að traust almennings á hinum nýstofnuðu bönkum hefði ekki verið nægilegt til að varna áhlaupi á þá. Í öðru lagi hefði aðgangur hinna nýju banka og Seðlabankans að alþjóðlegu greiðslumiðlunarkerfi hugsanlega stöðvast með tilheyrandi afleiðingum fyrir vöruinnflutning til landsins. Raunveruleg hætta hefði í þriðja lagi verið á gjaldþroti ríkisins. Loks hafi verið raunveruleg hætta á einangrun Íslands á alþjóðavettvangi, bæði í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti. Fyrstu aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að halda aftur af byrjuðu bankaáhlaupi og gæta allsherjarreglu hafi verið að lýsa því margsinnis yfir að innstæður væru ríkistryggðar. Hinn 29. september 2008 hafi ríkisstjórn Íslands enn fremur lýst því yfir að ríkissjóður hygðist yfirtaka 75% hlutafjár í Glitni banka hf., með sama markmið að leiðarljósi. Þrátt fyrir þessar aðgerðir hafi ekki dregið úr yfirstandandi bankaáhlaupi.

Nokkrir sóknaraðilar lýsi því að ríkinu hafi staðið til boða aðrar vægari leiðir til að leysa það neyðarástand sem uppi hafi verið í íslensku efnahagslífi í október 2008. Ekki fáist séð að vangaveltur sóknaraðila um þetta hafi þýðingu í máli þessu. Staðfest sé í dómaframkvæmd að löggjafinn hafi víðtækt svigrúm til að meta umfang þeirra aðgerða sem grípa þurfi til vegna atburða eins og hruns bankanna og slíkt mat verði ekki endurskoðað eftir á. Ljóst sé að þær aðgerðir sem sóknaraðilarnir nefni hafi verið skoðaðar á sínum tíma og að þær aðgerðir hefðu ekki dugað til að ná því markmiði sem að hafi verið stefnt á þeim tíma. Innleiðing forgangs innstæðna eins og sér hafi ekki komið í veg fyrir hrun flestra banka hér á landi innan nokkurra daga frá samþykki laganna. Þrátt fyrir það sé ekki þar með sagt að ákvæðið hafi ekki náð markmiði sínu. Meginmarkmið laganna hafi verið að koma í veg fyrir að íslenskt efnahagslíf og allt bankakerfið færi á hliðina. Með því að veita innstæðukröfum forgang við slit fjármálafyrirtækja hafi stjórnvöldum tekist að koma á nægjanlegu trausti á íslenska bankakerfinu til að „nýju“ bankarnir gætu starfað. Sú ráðstöfun að leitast við að vernda innstæðueigendur til þess að varðveita stöðugleika í bankakerfum og koma í veg fyrir að áhlaup séu gerð á banka sé almenn og vel þekkt. Í þeim aðstæðum sem uppi hafi verið 6. október 2008 hafi forgangs verið þörf til að unnt væri að mæta lágmarksskuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og til að renna stoðum undir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að innlendar innstæður væru að fullu tryggðar.

Sóknaraðilarnir Arrowgrass Distressed Opportunities Fund o.fl. telji að lög nr. 125/2010 hafi falið í sér óhóflegt framsal valds til Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins sem brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Varnaraðili mótmælir því að sú staðhæfing eigi við í þessu máli. Niðurstaða þar um gæti eingöngu leitt til ógildingar þeirrar stjórnvaldsákvörðunar að bönkunum yrðu skipaðar skilanefndir og skipt upp. Varnaraðili hafnar þeirri fullyrðingu sóknaraðilanna Bayerische Landesbank AG o.fl. að ekki hafi verið fyrir hendi sérstök þörf á að innleiða forgang innstæðna í lög nr. 161/2002 með lögum nr. 44/2009. Við setningu laga nr. 44/2009 hafi íslenska hagkerfið og bankar þess átt í erfiðleikum og verið mjög brothætt. Þá hafi lög nr. 44/2009 ekki innleitt ákvæði um forgang innstæðna, heldur fyrst og fremst verið tæknilegs eðlis.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að með því að veita innstæðukröfum forgang hafi íslenska ríkið brotið gegn 65. og/eða 72. gr. stjórnarskrárinnar og samsvarandi ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, byggir varnaraðili á því að aðgerðir íslenska ríkisins hafi samt sem áður verið réttlætanlegar á grundvelli stjórnskipulegs neyðarréttar. Varnaraðili vísar til þess að reglur um neyðarrétt byggi á því að laga­reglur, sem að jafnaði gildi við venjulegar aðstæður, geti ekki séð fyrir neyðartilvik og lögin þannig orðið óframkvæmanleg, eða óhjákvæmilegt geti orðið að víkja frá lagaboði, til að afstýra stórfelldri röskun eða stórtjóni. Við mat á lögmæti aðgerða á grundvelli stjórnskipulegs neyðarréttar verði að líta til vægis þeirra hagsmuna sem í húfi hafi verið og vægis þeirra réttinda sem hugsanlega hafi verið gengið á. Þrátt fyrir að þau skipti sem íslensk stjórnvöld hafi beitt stjórnskipulegum neyðarrétti hafi tengst aðstæðum Íslands í seinni heimstyrjöldinni, sé ekki hægt að fallast á með sóknaraðilum að beiting stjórnskipulegs neyðarréttar sé einungis heimil þegar styrjaldarástand ríki. Afleiðingar atburðarins hljóti að liggja til grundvallar, fremur en orsök. Þrátt fyrir að fram komi í lögskýringargögnum með stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 að ekki hafi verið vilji til að lögfesta sérstakar fráviksreglur, þýði það ekki að reglan um stjórnskipulegan neyðarrétt hafi verið afnumin úr íslenskum rétti. Varnaraðili bendir á að lög nr. 125/2008, og athugasemdir með frumvarpi sem varð að lögunum, víki ekki berum orðum að því að um beitingu stjórnskipulegs neyðarréttar hafi verið ræða. Varnaraðili hafnar þeim rökum sóknaraðila að þar sem íslensk stjórnvöld hafi ekki með formlegum hætti tilkynnt til viðeigandi stofnana að þau hygðust víkja frá ákveðnum ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, hafi aðgerðirnar verið ólögmætar. Stjórnskipulegur neyðarréttur hafi löngum verið viðurkenndur sem ein af óskráðum meginreglum þjóðarréttar. Fræðimenn, dómar og opinberir túlkunaraðilar hafi verið samróma um að efnahagslegt neyðarástand falli undir reglur þjóðarréttar um neyðarrétt ríkja.

Varnaraðili mótmælir því að fullyrðingar sóknaraðila um meint brot á EES-samningnum og að niðurstöður bráðabirgðaálits ESA séu rangar, eigi við í þessu máli. Ekki hafi verið um neina mismunun á grundvelli ríkisfangs að ræða, hvorki í aðgerðum ríkisstjórnarinnar né með forgangsveitingu innstæðukrafna, í skilningi 4. og 40. gr. EES samningsins. Til að sanna brot gegn 40. gr. EES samningsins verði að sýna fram á hömlur á frjálst flæði fjármagns, eða mismunun á grundvelli þjóðernis. Forgangsveiting innstæðna feli ekki í sér neinar slíkar hömlur. Hömlur á frjálst flæði fjármagns séu þó réttlætanlegar að uppfylltum þremur skilyrðum, að stefnt sé að lögmætu markmiði, að það sé gert innan ramma meðalhófsreglunnar, og að vernda eigi raunverulega og alvarlega almannahagsmuni. Þetta séu sömu skilyrði og fyrir almennri mismunun í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar, og almennri takmörkun eignarréttarins í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar og eigi sömu rök við í öllum tilvikum.

Varnaraðili telur álitaefni máls þessa ekkert hafa með uppskiptingu bankanna og meinta ólögmæta ríkisaðstoð íslenskra stjórnvalda að gera. Telji dómurinn hins vegar að skoða þurfi þessi mál byggir varnaraðili á því að ráðstafanir ríkisins í október og nóvember 2008 hafi ekki falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð, í skilningi 1. mgr. 61. gr. EES samningsins. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að ráðstafanir stjórnvalda í október og nóvember 2008 hafi falið í sér ríkisaðstoð og þannig að þýðingu hafi í þessu máli, byggir varnaraðili á því að b-liður 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins eigi við. Þá vakni annars vegar sú spurning hvort umræddar aðgerðir íslenskra stjórnvalda falli undir þessa reglu og hins vegar hvort stjórnvöld þurfi, þátt fyrir ákvæðið, að tilkynna ESA um aðstoðina og bíða ákvörðunar stofnunarinnar um lögmæti aðgerðanna. Varnaraðili bendir á að röskun á efnahagslífi geti vart verið alvarlegri en þegar algjört efnahagshrun blasi við. Því eigi undantekningin við. Ekki verði séð hvernig hægt sé að beita ákvæði b-liðar 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins þannig að það nái tilgangi sínum ef einnig þyrfti að bíða niðurstöðu ESA um hvort ríkisaðstoð sé heimil. Horfa verði til þess að ákvæði b-liðar 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins hafi lagagildi hér á landi, ólíkt bókun 3 við samning milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Þá hafi heimildin sjálfstæða þýðingu gagnvart 30. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Varnaraðili byggir á því að forgangur innstæðna sé ekki takmarkaður við 20.887 evrur. Draga megi þá ályktun af forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 184/2010 að forgangsréttur samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 sé ekki svo víðtækur að hann nái til „innstæðna“ eins og hugtakið sé skilgreint í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, heldur einungis til þeirra innstæðna sem njóti tryggingaverndar samkvæmt þeim lögum, þ.e.a.s. falla ekki undir undantekningarákvæði 6. mgr. 9. gr. laganna. Hvergi í tilvitnuðum forsendum sé vísað til þess að forgangsrétturinn sé bundinn við ákveðin efri mörk. Varnaraðili byggir á því að hafi verið sannað að um sé að ræða innstæðu sem njóta beri forgangsréttar eigi sá réttur að ná til allrar upphæðar innstæðunnar. Lagatúlkun sóknaraðila virðist byggja á því að íslenska innstæðutryggingakerfið sé nátengt fjárhagslegum styrk Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem hafi í för með sér að í tilviki slitameðferðar varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., séu aðeins tilteknar innstæðukröfur tryggðar og eigi því rétt á forgangsrétti upp að 20.887 evrum, þ.e. þeirri fjárhæð sem sjóðurinn sé fær um að tryggja. Varnaraðili byggir á því að ekkert gefi tilefni til slíkrar túlkunar. Markmið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 hafi verið að tryggja hagsmuni innstæðueigenda að fullu en túlkun sóknaraðila á ákvæðinu fari á svig við þetta markmið. Tilgangur laga nr. 98/1998 sé að veita innstæðueigendum „lágmarks tryggingarvernd“. Ekki sé hægt að skilja ákvæði laga nr. 98/1999 á gagnstæðan máta, þ.e. að þegar sjóðurinn sé ekki greiðsluhæfur veiti hann lágmarkstryggingu, annars tryggi hann heildarupphæð innstæðunnar. Næði forgangur einungis til lágmarksfjárhæðar laga nr. 98/1999, hefði ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 enga raunhæfa merkingu. Þá fengju innstæðueigendur hvort sem er alltaf greidda lágmarksfjárhæð viðkomandi tryggingarsjóðs og ættu því einungis almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 á hendur þrotabúinu. Markmið lagaákvæðisins sé að sjá til þess að krafa innstæðueigenda, umfram það sem þeir hafi fengið greitt frá viðkomandi tryggingarsjóði, sé forgangskrafa við skipti fjármálafyrirtækja. Forgangur innstæðna nær til allra tryggðra innstæðna. Allar innstæður séu tryggðar nema frá fyrirtækjum sem séu aðilar að sjóðnum óháð fjárhæð. Lágmarksfjárhæð 1. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 komi einungis til kastanna ef eignir sjóðsins dugi ekki til greiðslu á öllum innstæðum. Forgangsákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 vísi til innstæðu í skilningi laga nr. 98/1999, en ekki meðferðar hennar er til útgreiðslu komi úr sjóðnum.

Varnaraðili lýsir því að hann hafi lýst kröfu að fjárhæð 8.310.863,06 evrur við slit varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. Slitastjórn bankans hafi samþykkt kröfu varnaraðila að fjárhæð 8.275.992,73 evrur. Slitastjórnin hafi samþykkt kröfu varnaraðila um samningsvexti að fjárhæð 296.879,73 evrur og höfuðstól að fjárhæð 7.979.113 evrur, sem svari til þeirrar fjárhæðar sem lögð hafi verið inn, að frádregnum 20.887 evrum sem varnaraðili hafi fengið greiddar frá Seðlabanka Hollands 18. mars 2009. Varnaraðili byggir á því að slitastjórnin hafi ranglega dregið 20.887 evrurnar frá höfuðstólnum og reiknað samningsvextina ofan á þá fjárhæð, en reikna beri samningsvexti á alla fjárhæðina fram til 18. mars 2009. Frá þeim degi til 22. apríl 2009 skuli reikna samningsvexti á fjárhæðina að frádregnum 20.887 evrum. Varnaraðili hafi fengið vaxtagreiðslu að fjárhæð 390.651,11 evrur þann 7. júlí 2008 og hafi verið tekið tillit til þess í vaxtaútreikningum varnaraðila. Þá krefjist varnaraðili í öllum tilvikum kostnaðar, eins og kröfu hans hafi verið lýst um það efni.

Varðandi vexti mótmælir varnaraðili 2. varakröfu sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund o.fl. Skilgreining innstæðu í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 nái til innstæðunnar samkvæmt þeim skilmálum sem gildi um hana, þar á meðal þeirra vaxta sem samið hafi verið um eða kunni að eiga við um kröfuna samkvæmt lögum. Þá sé það meginregla gjaldþrotaskiptaréttar að forgangur kröfu í þrotabú nái ekki bara til höfuðstóls kröfunnar heldur kröfunnar ásamt vöxtum og kostnaði sem fallið hafi til áður en úrskurður um gjaldþrotaskipti sé kveðinn upp. Þannig njóti vextir á kröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 sama forgangs og krafan sjálf að því marki sem þeir hafi fallið til fyrir úrskurðardag. Þessi niðurstaða verði einnig fengin með gagnályktun frá 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991. Reglugerð nr. 120/2000 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta breyti engu um rétt varnaraðila.

Varnaraðili telur, að með gagnályktun frá 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991 ætti kostnaður við innheimtu kröfu fyrir úrskurðardag að njóta sömu rétthæðar og krafan sjálf. Önnur túlkun ákvæðisins myndi leiða til ójafnræðis meðal kröfuhafa. Samkvæmt ákvæði hollensku lögbókarinnar nr. 6:74 eigi kröfuhafi rétt á skaðabótum vegna tjóns sem hann verði fyrir við vanefnd á samningi. Honum sé heimilt að krefjast endurgreiðslu sanngjarns útlagðs kostnaðar frá þeim tíma sem ljóst sé að skuldari hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt samningi. Samkvæmt 1. mgr. 6:74 gr. sé skuldari skuldbundinn til að bæta kröfuhafa þann kostnað sem hann verður fyrir ef skuldara er ómögulegt að inna af hendi skuldbindingu sína og sé slík staða áfram til staðar fari skuldari í þrot. Hinn 8. október 2008 hafi birst á heimasíðu varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. í Hollandi, yfirlýsing sem gefið hafi til kynna að hann gæti ekki lengur staðið við skuldbindingar sínar. Samkvæmt framangreindu eigi varnaraðili samkvæmt hollenskum lögum rétt á því að fá viðurkennda kröfu sína vegna kostnaðar að fjárhæð 24.222,88 evrur til og með 22. apríl 2009.

Varnaraðili byggir aðallega á ákvæðum laga nr. 21/1991, 125/2008, 161/2002, 98/1999, 2/1993, 62/1994, 33/1944, 138/2001 og 91/1991. Þá er krafa um málskostnað byggð á ákvæði 130. gr. laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði á lögum nr. 50/1988. Þá byggir varnaraðili einnig á grundvallarreglum kröfu- og samningaréttar, svo og þeim grunnreglum hollensks réttar sem hann vísar til í greinargerð.

Varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. byggir kröfur sínar einkum á því að krafa varnaraðilans Gemeente Dordrecht, sem sé svokallað heildsöluinnlán (e. wholesale deposit), teljist vera innstæða í skilningi laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta og teljist því forgangskrafa skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Varðandi forsendur fyrir framangreindri niðurstöðu sé vísað til þess að hvorki við lögleiðingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 94/19/EB um innlánatryggingakerfi, sem átt hafi sér stað með lögum nr. 39/1996, né með lögum nr. 98/1999, hafi verið nýtt heimild tilskipunarinnar til að undanskilja innlán ýmissa aðila tryggingavernd, s.s. fjármálastofnana, annarra en aðildarfyrirtækja Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, bæjar- og sveitarfélaga, sem og lífeyris- og eftirlaunasjóða, en slíkir aðilar séu meginþorri innlánskröfuhafa hjá Landsbanka Íslands hf. Þá séu ákveðin innlánaform eins og t.d. heildsöluinnlánsviðskipti ekki heldur undanþegin tryggingavernd, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna nr. 98/1999. Hafi þetta þýðingu, m.a. með tilliti til dóms Hæstaréttar í máli nr. 184/2010 þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að kröfur sem nytu ekki tryggingaverndar skv. lögum nr. 98/1999 gætu þegar af þeirri ástæðu ekki notið rétthæðar skv. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Við mat á því hvort hin umdeilda krafa teljist innstæða í framangreindum skilningi verði og að líta til þess að höfuðstóll innlánsins hafi samkvæmt samningi aðilanna verið lagður inn á reikning bankans í formi millifærslu með viðskiptum sem telja megi til hefðbundinnar almennrar starfsemi bankans. Þá liggi ljóst fyrir að heildsöluviðskipti hafi verið færð í bókhaldi og ársreikningi bankans sem innlán og að í samræmi við það hafi bankinn greitt iðgjöld af heildsöluinnlánsviðskiptum til innstæðudeildar Tryggingarsjóðsins í samræmi við lög nr. 98/1999. Loks sé á það bent að þau skjöl sem liggi til grundvallar viðskiptunum beri á ýmsan hátt með sér að um innlán hafi verið að ræða.

Slitastjórn varnaraðila hafi samþykkt kröfu varnaraðilans Gemeente Dordrecht um samningsvexti  á samningstímabilinu að fjárhæð 296.879,73 evrur en slitastjórnin hafi endurreiknað vexti með tilliti til innborgunar De Nederlandsche Bank inn á kröfuna sem hafi komið til frádráttar höfuðstóls hennar.

Kröfu Gemeente Dordrecht um kostnað fyrir 22. apríl 2009 hafi verið hafnað. Hvorki verði ráðið af fyrirliggjandi gögnum að varnaraðilinn Gemeente Dordrecht hafi byrjað innheimtu kröfu sinnar á hendur varnaraðila fyrir 22. apríl 2009 né að umkrafinn kostnaður tengist innheimtu kröfunnar eða málshöfðun vegna hennar fyrir þann tíma. Að því leyti sem kostnaður tengist ekki beinni innheimtu kröfu, undirbúningi málshöfðunar eða málshöfðun á hendur varnaraðila hér á landi, byggist réttur varnaraðilans Gemeente Dordrecht til að fá umkrafinn kostnað greiddan, á þeim lögum sem gildi um aðalkröfuna að efni til, sem séu hollensk lög. Varnaraðilinn byggi kröfu sína um kostnað á ákvæði 6:74 í hollensku einkamálalögunum. Varnaraðili, Landsbanki Íslands hf., mótmælir því að það ákvæði eigi við um innheimtukostnað utan réttar fyrir viðmiðunardag slita. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að umkrafinn kostnaður sé tengdur innheimtu kröfu varnaraðila utan réttar, sbr. ákvæði 6:126c. Kröfugerð varnaraðilans Gemeente Dordrecht um kostnað fram til 22. apríl 2009 eigi hvorki stoð í hollenskum né íslenskum lögum. Um kostnað sé að ræða sem varnaraðilinn hafi ákveðið að leggja út til að gæta hagsmuna sinna og/eða til að sinna lögboðnum verkefnum sínum og skyldum.

Þá hafi varnaraðilinn Gemeente Dordrecht lýst kröfu um vexti og vegna kostnaðar eftir 22. apríl 2009. Slitastjórn varnaraðila hafi ekki tekið afstöðu til þeirra krafna, enda um eftirstæðar kröfur að ræða og þyki fullvíst að ekkert greiðist upp í kröfur með þeirri rétthæð, sbr. 1. mgr. 119. gr. laga nr. 21/1991.

Niðurstaða

1. Krafa um frávísun

Af hálfu sóknaraðilanna Arrowgrass Master Fund o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. var þess krafist að kröfu Gemeente Dordrecht, ,,að öðru leyti en því sem lýtur að fjárhæðum umfram það sem slitastjórn Landsbankans hefur samþykkt sem forgangskröfu þ.e. 8.275.992,73 evrur“, í samræmi við bókun á dómskjali nr. 148, yrði vísað frá dómi án kröfu. Af hálfu varnaraðilans var frávísunarkröfu mótmælt og þess krafist að sóknaraðilum Arrowgrass Master Fund o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. og lögmönnum þeirra yrði gert að greiða varnaraðila málskostnað vegna þessa þáttar málsins auk álags á málskostnað. Dómurinn taldi ekki efni til að láta fara fram munnlegan málflutning um þennan ágreining sérstaklega heldur var aðilum gefinn kostur á að reifa sjónarmið sín um frávísun málsins þegar málið var tekið til efnislegrar meðferðar. 

Sóknaraðilar Arrowgrass Master Fund o.fl. og Bayersiche Landesbank o.fl. telja að þar sem ljóst sé af málatilbúnaði varnaraðilans Gemeente Dordrecht að hann mótmæli ekki afstöðu slitastjórnar varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. til kröfu hans heldur þvert á móti samsinni ákvörðun slitastjórnarinnar um að krafan teljist forgangskrafa, auk þess sem hann byggi á sömu röksemdum, málsástæðum og lagarökum og slitastjórnin geri, geti varnaraðili ekki látið ágreining sóknaraðila Arrowgrass Master Fund o.fl. og Bayersiche Landesbank o.fl. til sín taka. Varnaraðili Gemeente Dordrecht byggir á því að krafa um frávísun sé of seint fram komin auk þess sem kröfuhafi í þrotabúi eigi ætíð rétt til aðildar að ágreiningi um eigin kröfu.

Af málatilbúnaði sóknaraðilanna Arrowgrass Master Fund o.fl. og Bayersiche Landesbank o.fl. má ráða að krafa þeirra um frávísun byggi á niðurstöðu Hæstaréttar í máli 638/2010 sem kveðinn var upp 24. janúar 2011 og verður því ekki fallist á að krafa að þessu leyti sé of seint fram komin. 

Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess.  Samkvæmt 119. gr. laga nr. 21/1991 skal slitastjórn gera skrá um lýstar kröfur að loknum kröfulýsingarfresti og taka þar afstöðu til þess hvernig viðurkenna skuli hverja kröfu um sig. Í 1. mgr. 120. gr. laganna segir að kröfuhafa, sem ekki vill una afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu sinnar, sé heimilt að bera fram mótmæli gegn afstöðu slitastjórnarinnar á skiptafundi sem haldinn er til að fjalla um lýstar kröfur.  Með sama hætti er kröfuhafa rétt að mótmæla afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefur gert, hafi niðurstaða um hana áhrif við skiptin á hagsmuni þess sem hefur uppi mótmælin. Í 4. tölulið 1. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991 segir að í beiðni um úrlausn héraðsdóms vegna ágreinings við gjaldþrotaskipti skuli koma fram hvort skiptastjóri telji hlutaðeigandi þrotabú þurfa að eiga aðild að ágreiningsmálinu. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að ef ágreiningsmálið varði hvort krafa á hendur þrotabúi verði viðurkennd skuli sá sem hefur kröfuna uppi að öðru jöfnu verða sóknaraðili málsins en búið eða sá sem andmælir kröfunni varnaraðili.

Ekki er ágreiningur um að niðurstaða um kröfu varnaraðilans Gemeente Dordrecht hefur við skiptin áhrif á hagsmuni kröfuhafanna Arrowgrass Master Fund o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. og var þeim rétt að mótmæla afstöðu slitastjórnar varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. til viðurkenningar á kröfunni. Aðild slitastjórnar varnaraðilans Landsbanka Íslands að ágreiningsmálinu lýtur eingöngu að ágreiningi vegna krafna varnaraðila Gemeente Dordrecht um kostnað og því hvernig greiðslu De Nederlandsche bank var ráðstafað inn á kröfu sveitarfélagsins. 

Eins og fram er komið taldi slitastjórn varnaraðila Landsbanka Íslands hf. sig þurfa að eiga aðild að málinu þar sem ágreiningur var m.a. um kostnað og af þeim sökum var aðildin ákveðin með þeim hætti að kröfuhafinn, Gemeente Dordrecht, yrði varnarmegin við hlið slitastjórnarinnar en þeir kröfuhafar sem andmæltu kröfunni sóknaraðilar. Ekki er ávallt þörf á því að þrotabú eigi aðild að ágreiningsmáli vegna krafna á hendur búi, en hins vegar gefur auga leið að eigandi þeirrar kröfu sem ágreiningsmál snýst um verður ávallt að eiga aðild að því ágreiningsmáli. Að öðrum kosti væri hætta að hagsmunir hans færu forgörðum, þar sem hann hefði ekki tök á að koma að sínum sjónarmiðum vegna kröfunnar. Er því hafnað kröfum sóknaraðila Arrowgrass Master Fund o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. um frávísun aðildar varnaraðilans Gemeente Dordrecht.

2. Hugtakið innstæða

Krafa varnaraðilans, Gemeente Dordrecht, byggist á samkomulagi hans við varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., frá 3. júlí 2007 um svokölluð heildsöluinnláns­viðskipti. Viðskiptin komust á fyrir milligöngu miðlara í Hollandi,  Wallich og Matthes B.V. Um var að ræða ,,heildsöluinnlán“ að höfuðstólsfjárhæð 8.000.000 evra. Varnaraðili, Gemeente Dordrecht lagði nefnda höfuðstólsfjárhæð inn á reikning Landsbanka Íslands hf. hjá Fortis Bank N.V. í formi millifærslu, 6. júlí 2007, en höfuðstólsfjárhæðin ásamt 4,79% samningsvöxtum skyldi vera laus til útborgunar fyrir Gemeente Dordrecht 6. júlí 2009. Í staðfestingu frá miðlarafyrirtækinu Wallich og Matthes kemur fram að gerð hafi verið ,,innleggsviðskipti“, ,,depositotransactie“.

Meginúrlausnarefni máls þessa er hvort umrætt heildsöluinnlán geti talist innstæða samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og þar með notið forgangs við slit bankans samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki eins og þeim lögum var breytt með 6. gr. laga nr. 125/2008 um heimild ríkissjóðs vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., svokallaðra neyðarlaga og síðar 6. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði 3. mgr. 102. gr. laganna skulu við slit fjármálafyrirtækja gilda sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skulu ,,kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta jafnframt teljast til krafna sem njóta rétthæðar samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“.

Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 er með innstæðu átt við ,,innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa“. Með framangreindum lögum nr. 98/1999 var innleidd tilskipun Evrópusambandsins um tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 97/9 EB. Áður höfðu ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 94/19/EB um innlánatryggingakerfi verið innleidd í íslenskan rétt, þar á meðal sú skilgreining á innstæðu sem nú er að finna í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.

Í almennum athugasemdum með frumvarpi er varð að lögum nr. 39/1996 sagði m.a. um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 94/19/EB, um heimild stjórnvalda til að undanskilja tryggingu: ,,Þá er stjórnvöldum heimilt að undanskilja aðra liði trygging­unni eða lækka hana, svo sem innstæður í eigu ríkisins, bæjar- og sveitarfélaga, tryggingafélaga, verðbréfasjóða, lífeyrissjóða og stjórnenda hlutaðeigandi stofnunar, inn­stæður annarra félaga í samsteypu með hlutaðeigandi stofnun, nafnlausa innláns­reikninga…“ Þá segir jafnframt í athugasemdum þessum: ,,Í 16. gr. eru lagðar til umtalsverðar breytingar á X. kafla laganna í því skyni að unnt sé að hrinda í framkvæmd hér á landi ákvæðum tilskipunar ESB um innstæðutryggingar…Því er gert ráð fyrir að gildissvið tryggingarinnar hér á landi verði óbreytt frá því sem verið hefur að undanskildum innstæðum í eigu viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana sem verða skilyrðislaust að vera undanþegnir tryggingunni…“Af framangreindu er ljóst að hvorki við innleiðingu tilskipunar nr. 94/19/EB né tilskipun 97/9/EB í íslenskan rétt, þ.e. með lögum nr. 39/1996 og lögum nr. 98/1999, var nýtt heimild til að undanskilja innlán ýmissa aðila tryggingavernd, svo sem fjármála­stofnana annarra en aðildarfyrirtækja Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, bæjar- og sveitarfélaga sem og lífeyris- og eftirlaunasjóða. Hins vegar voru skuldabréf, víxlar og aðrar kröfur í formi verðbréfa undanskilin tryggingavernd og einnig voru undanskilin tryggingavernd innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildar­fyrirtækja, svo og móður- og dótturfyrirtækja þeirra, fyrir þeirra eigin reikning og innstæður, verðbréf og reiðufé sem tengist málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti. Að mati dómsins gefur framangreint skýrlega til kynna að vilji löggjafans hafi verið sá að allir aðrir aðilar og öll önnur ,,innstæðuform“ en þau sem berlega eru undanskilin í lögunum njóti tryggingaverndar samkvæmt lögunum. Ekki er að finna í lögskýringargögnum vegna setningar laga nr. 98/1999 eða vegna þeirra ákvæða laga nr. 113/2006 um viðskiptabanka og sparisjóði sem fyrrgreindu lögin leystu af hólmi, nánari afmörkun á skilgreiningu á hugtakinu innstæða í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 sem hér skiptir máli. Hafa sóknaraðilar hins vegar haldið því fram að túlka beri umrætt ákvæði þröngt með hliðsjón af því að með ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 sé verið að veita innstæðueigendum forgang fram yfir aðra kröfuhafa, auk þess sem öll slík ákvæði varðandi kröfuröð við gjaldþrotaskipti beri að túlka þröngt. Á þetta sjónarmið er ekki fallist. Í 21. gr. laga nr. 98/1999 kemur fram að lögin séu sett meðal annars til að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar nr. 94/19 EB um innstæðutryggingar og verður því að skýra ákvæði laganna með hliðsjón af henni, en eins og að framan greinir var þar ekki nýtt heimild til þess að undanskilja viss innstæðuform eða tilgreinda innstæðueigendur, umfram það sem að framan er rakið.

Telja verður að það markmið hafi vegið þungt við stofnun Tryggingarsjóðs innstæðueig­enda og fjárfesta að vernda einstaklinga og minni fjárfesta vegna greiðsluerfiðleika fjármálafyrirtækja. Við stofnun sjóðsins hafa hagsmunir stærri fjárfesta, eins og þeirra sem mál þetta varðar ef til vill verið fjarlægari. Þó er ljóst að það hlutverk sjóðsins að stuðla að almennum fjár­málastöðugleika og styrkingu fjármálakerfisins á breiðum grundvelli hefur án efa vegið þyngst. Að þessu virtu og þar sem ekkert verður ráðið af lög­skýringargögnum um að tilgangur löggjafans hafi verið sá að millifærsla af því tagi sem hér um ræðir nyti ekki tryggingaverndar verður ekki séð að nein rök hnígi til annars en að skýra umrætt lagaákvæði í samræmi við hljóðan þess.

Sóknaraðilar hafa og vísað til þess að umrædd krafa varnaraðila hafi nokkur megineinkenni sem geri það að verkum að hún geti ekki talist innstæða í skilningi laga nr. 98/1999, heldur hafi þar fremur verið um að ræða fjárfestingu eða lánveitingu. Til þess að komast að niðurstöðu um það er nauðsynlegt að líta m.a. til eðlis þeirra viðskipta sem að baki liggja, aðila málsins, og markmiðs viðskiptanna. Að mati dómsins breytir engu hvaða nöfnum viðskiptin eru nefnd í þessu tilliti. Ber þó að árétta að í máli þessu verður ekki ráðið af gögnum þess að nokkru sinni komi fram að varnaraðili, Gemeente Dordrecht, hafi verið að veita Landsbanka Íslands hf. lán, heldur verður fremur ráðið af þeim gögnum sem fyrir liggja um viðskiptin að ætlun sveitarfélagsins hafi verið að leggja inn ákveðna fjárhæð í 731 dag, sem skyldi vera laus til útborgunar 6. júlí 2009. Þá verður ráðið af gögnum málsins að varnaraðili, hið hollenska sveitarfélag, hafi í júlí 2007 séð fram á að sveitarfélagið hefði umfram fjármagn árið 2007. Af hálfu sveitarfélagsins var því haft samband við miðlarafyrirtækið Wallich og Matthes, sem kom á þeim viðskiptum sem mál þetta er sprottið af. Sú staðreynd að þjónusta miðlaranna Wallich og Matthes var notuð umrætt sinn, breytir engu um eðli þeirra viðskipta sem fram fóru. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að frumkvæði að viðskiptunum hafi komið frá varnaraðila, Gemeente Dordrecht. Sveitarfélaginu, sem telst til fagfjárfesta, bar ávallt skylda til að halda sig innan ákveðins ramma sem settur var með svokölluðum féhirslureglum og svokölluðum Fido lögum. Þótt ráða megi af framlögðum féhirslureglum sveitar­félagsins að sveitarfélagið hafi haft til ráðstöfunar mikið fjármagn til ávöxtunar verður starfsemi þess á engan hátt jafnað til fyrirtækis sem telur sig geta tekið mikla áhættu við ávöxtun fjár síns. Hið hollenska sveitarfélag var að lögum skuldbundið til þess að geyma fjármuni sína hjá banka sem hafði að minnsta kosti A í einkunn hjá viðurkenndu matsfyrirtæki.

Varðandi þá staðhæfingu sóknaraðila að féð hafi ekki verið geymt á sérstökum bankareikningi sem opnaður hafi verið í nafni innstæðueigandans hafa sóknaraðilar meðal annars vísað til þess að skilgreining á innstæðu í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 byggi á skilgreiningu tilskipunar 94/19/EB, en þar sé í enska textanum notað orðalagið ,,funds left in an account“ sem gefi skýrlega til kynna að féð verði að leggja inn á sérgreindan reikning. Hér ber að líta til þess að samkvæmt fyrirliggjandi athugasemdum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um skilgreiningu á hugtak­inu innlán er ljóst að tilvitnuðu orðalagi hafi verið ætluð mun víðtækari tilvísun. Þannig segi þar m.a: ,,The idea of ,,credit balance“ is relatively clear: In particular it is used for current accounts but it is supplemented by the idea of ,,funds left in accounts“  which is intended to indicate saving books or accounts or any other instrument in which funds generally remain for longer than in current accounts.“ Feli þetta í sér að undir hugtakið geti fallið sparnaðarbækur, sparnaðarreikningar eða hvers konar geymslustaðir þar sem fjármunir séu geymdir til lengri tíma en á hlaupareikningum. Þegar texti tilskipunarinnar og skýring framkvæmdastjórnarinnar er virt saman verður ekki séð að tilvitnað orðalag í hinum enska texta 1. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar nr. 94/19/EB styðji skýrlega þá túlkun á ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 að innlán þurfi að vera á sérgreindum reikningi í eigu innlánshafa til að geta talist tryggð innstæða.

Að fé hins hollenska sveitarfélags hafi verið bundið inni á reikningi í ákveðinn tíma og aðeins laust til útborgunar að þeim tíma liðnum, hefur að mati dómsins ekki þá þýðingu að ekki hafi verið um innstæðu að ræða, enda er óumdeilt að fé er oft bundið á innlánsreikningum til langs tíma og er aðeins laust til útborgunar að þeim tíma liðnum.

Ekki verður séð að máli skipti við skilgreiningu þess hvort um innstæðu hafi verið ræða, hvort aðilar hafi samið sérstaklega sín á milli um skilmála viðskiptanna, enda verður skýrlega ráðið af 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 að tryggð innstæða geti byggst á samningi aðila.

Þá breytir engu um skilgreiningu á innstæðu hvort greiðslustaður innstæðu var hjá bankanum sjálfum, enda er unnt að taka út af tilteknum veltureikningum hvar sem er í heiminum, með aðgangi að hraðbanka eða heimabanka.

Að framanrituðu virtu verður ekki fallist á að neitt framangreindra atriða, eitt út af fyrir sig eða virt með öðrum, geti útilokað að umrætt heildsöluinnlán teljist innstæða sem njóti tryggingaverndar í skilningi laga nr. 98/1999.

Varðandi það álitaefni hvort viðtaka heildsöluinnlána geti talist til hefðbundinnar almennrar bankastarfsemi, verður að líta til þess að hvergi er í lögum að finna skilgreiningu á því hvað í slíkri starfsemi felst. Liggur þó í hlutarins eðli að skilgreining ,,hefðbundinnar almennrar bankastarfsemi“ breytist í samræmi við þróun og breytingar sem verða á fjármálamarkaði. Er því enga einhlíta skilgreiningu að finna á því hvað teljist til hefðbundinnar almennrar bankastarfsemi. Þar sem ekkert liggur fyrir um annað en að móttaka slíkra heildsöluinnlána sem mál þetta varðar, hafi fallið undir starfsheimildir viðskiptabanka er lúta að móttöku innlána, sbr. 1. tl. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og teljist því hluti af hinni leyfisbundnu starfsemi Landsbanka Íslands hf., verður að líta svo á að hún teljist hefðbundin í skilningi greinds lagaákvæðis.

Sóknaraðilar hafa m.a. haldið því fram að viðskipti þau sem hér um ræðir teljist í raun vera verðbréf í skilningi tilvitnaðs ákvæðis, en ekki innstæða og njóti þar af leiðandi ekki tryggingarverndar. Vísa þeir í því sambandi til skilgreiningar á hugtakinu verðbréf í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og eldri lögum um sama efni nr. 33/2003 og 13/1996, enda sé slíka skilgreiningu ekki að finna í lögum nr. 98/1999. Í 2. gr. laga nr. 13/1996, sem í gildi voru við setningu laga nr. 98/1999, kemur fram að verðbréf séu hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum. Í gildandi lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti kemur fram sú skilgreining á hugtakinu verðbréf í 2. tl. 1. mgr. 2. gr. að það séu þau framseljanlegu verðbréf sem hægt sé að eiga viðskipti með á fjármagnsmarkaði. Sú millifærsla sem mál þetta er sprottið af, byggir á samningi um innlögn á 8.000.000 evrum frá varnaraðila Gemeente Dordrecht til Landsbanka Íslands hf., sem var staðfest með kvittun útgefinni af miðluninni Wallich og Matthes. Sú kvittun er eingöngu staðfesting á því að hið hollenska sveitarfélag hafi lagt inn framangreint fé og að það eigi kröfu á Landsbanka Íslands hf. um endurgreiðslu, svo og vexti.

Þegar framangreint er virt verður ekki á það fallist að sú staðfesting sem fyrir liggur í málinu, og fjallar um ,,innleggsviðskipti“ eða ,,depositiotransactio“ þess efnis að varnaraðilinn Gemeente Dordrecht hafi innt af hendi greiðslu sína til varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. geti talist framseljanleg kröfuréttindi í framangreindum skilningi. Verður því ekki talið að umrætt heildsöluinnlán geti talist verðbréf í skilningi laga nr. 98/1999.

Við aðalmeðferð málsins var á því byggt í málflutningi sóknaraðilanna, Landsbanka Guernsey ltd og Deutsche Bank Trust Company Americas, að hafna beri kröfu varnaraðilans um forgang þegar af þeirri ástæðu að samkvæmt 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar beri að beita hollenskum lagareglum um efni samnings varnaraðilanna með tilliti til þess að Landsbanki Íslands hf. hafði starfsstöð í Amsterdam. Samningurinn falli því undir lagaákvæði um hollenska innstæðutryggingakerfið en ekki það íslenska og samkvæmt hollenskum lögum geti kröfur sveitarfélaga ekki notið tryggingaverndar, sem sé forsenda forgangs samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Varnaraðili, Gemeente Dordrecht, hefur mótmælt þessu á grundvelli þess að um sé að ræða nýja málsástæðu sem sé of seint fram komin.

Hvorki í greinargerð þessara tveggja sóknaraðila né í þeim athugasemdum sem þeir settu fram vegna svokallaðra gagnkrafna varnaraðila, Gemeente Dordrecht, er vísað til þeirra sjónarmiða sem hér um ræðir. Áttu varnaraðilar því hvorki kost á að bregðast við þessum málsástæðum undir rekstri málsins með framlagningu gagna né að reifa og rökstyðja málið með tilliti til þeirra við aðalmeðferð málsins. Verður í ljósi þess að telja að um nýja málsástæðu sóknaraðila sé að ræða sem getur ekki komist að við úrlausn málsins, sbr. 5. mgr. 101. gr.  laga um meðferð einkamála nr. 91/1991

Að öllu framanrituðu virtu er það niðurstaða dómsins að afhending heildsöluinnláns varnaraðilans Gemeente Dordrecht á reikning útibús Landsbanka Íslands hf.í greint sinn, til tímabundinnar varðveislu með tiltekinni ávöxtun, falli undir þá hljóðan fyrra málsliðs hins tilvitnaða ákvæðis 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 að vera tilkomin vegna innláns eða millifærslu sem bankanum beri að endurgreiða í samræmi við skilmála samkomulags varnaraðila. Þar sem sóknaraðilar hafa ekki sýnt fram á að innstæðan sé undanskilin tryggingavernd samkvæmt öðrum ákvæðum laganna eða af  öðrum ástæðum verður hún talin innstæða sem nýtur tryggingaverndar samkvæmt lögum nr. 98/1999.

Það rennir enn fremur stoðum undir að millifærsla sú sem mál þetta snýst um teljist til innstæðu þótt það ráði ekki úrslitum að af hálfu varnaraðila, Landsbanki Íslands hf., var millifærslan bókfærð sem innstæða í bókhaldi bankans. Þá liggur jafnframt fyrir að Landsbanki Íslands hf. greiddi í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta vegna þeirra skuldbindinga sem mál þetta fjallar um.

3. Forgangur takmarkist við 20.887 evrur

Sóknaraðilar hafa haldið því fram að forgangur krafna sóknaraðila takmarkist við 20.887 evrur. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 er tryggingarsjóðnum skylt að greiða viðskiptavini sem krefur aðildarfyrirtæki um endurgreiðslu andvirði innstæðu ef aðildarfyrirtæki er að álit Fjármálaeftirlits ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu. Þá segir í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 að ef eignir viðkomandi deildar tryggingarsjóðsins hrökkvi ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðra inn­stæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum skuli greiðslu úr hvorri deild skipt milli kröfuhafa þannig að krafa hvers þeirra allt að 1,7 milljónum króna, bundin við gengi evru, skuli bætt að fullu en allt umfram þá greiðslu  hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkvi til. Í frumvarpi til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sagði að hlutverk tryggingarsjóðs viðskiptabanka samkvæmt lögunum væri að tryggja innstæðueiganda skil á greiðslu innstæðu sem hann hafi krafist endurgreiðslu á og viðskiptabanki eða útibú geti ekki innt af hendi.

Samkvæmt framansögðu verður tryggingarsjóðurinn ekki krafinn um greiðslu umfram 1,7 milljónir króna, bundnar við evru, hrökkvi eignir hans ekki til, en sjóðnum ber hins vegar að greiða innstæðu að fullu svo fremi sem eignir hans hrökkva til. Greiðist krafa varnaraðila, hins hollenska sveitarfélags, að fullu við slitameðferð varnaraðila, mun ekki koma til þess að sveitarfélagið eignist kröfu á sjóðinn. Samkvæmt framan­greindu breytir sú lágmarksjárhæð sem innstæðueigendum er tryggð, sam­kvæmt lögum nr. 98/1999 engu um að forgangur kröfu varnaraðila, Gemeente Dordrecht, tekur til allrar kröfu aðilans. Verður því ekki fallist á það með varnaraðila að forgangur takmarkist við umrædda lágmarksfjárhæð.

4. Um stjórnskipulegt gildi laganna

Sóknaraðilar byggja á því að jafnvel þótt dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að umrædd krafa varnaraðila teljist innstæða og hún falli þannig innan lagaákvæða um forgang innstæðna, verði þessum lagaákvæðum ekki beitt, þar sem þau séu í andstöðu við ákvæði 72. og 65. gr. stjórnarskrárinnar, samsvarandi ákvæði í mannréttinda­sáttmála Evrópu, og meginreglur EES-samningsins. Það sama gildi og um ákvæði annarra laga er sett hafi verið vegna nátengdra aðgerða ríkisins er lutu að skiptingu bankanna, endurfjármögnun nýju bankanna og flutningi skulda og eigna þeirra. Varnaraðili, Gemeente Dordrecht hefur mótmælt þessum staðhæfingum og vísar í því sambandi meðal annars til þess að um slíkar kröfur verði ekki dæmt í máli þessu þar sem ríkið sé ekki aðili þess.

Ekki verður fallist á að réttarfarsnauðsyn beri til þess, að íslenska ríkið sé aðili málsins. Er það á valdi dómstóla að úrskurða, án þess að aðild ríkisins sé þar nauðsynleg, hvort tiltekin lagafyrirmæli sem um er deilt fari í bága við ákvæði stjórnarskrár með þeim afleiðingum að á þeim verði ekki byggt. Í máli þessu, sem eingöngu snýst um það álitaefni hvort krafa varnaraðila njóti forgangs við slitameðferð Landsbanka Íslands á grundvelli 6. gr. laga nr. 125/2008, getur hins vegar ekki komið til neinnar skoðunar hvort önnur ákvæði þeirra laga, eða nátengdrar löggjafar, er ekki lúta að forgangi innstæðna, fari gegn ákvæðum stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu. Þannig verður ekki séð að það varði sakarefni máls þessa, sem fjallar um hvort krafa varnaraðila Gemeente Dordrecht skuli njóta forgangs á grundvelli laga nr. 125/2008 hvort Fjármálaeftirlitinu hafi verið heimilt að flytja eignir og skuldir frá Landsbanka Íslands hf. til hins nýja banka NBI hf.

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 er eignarrétturinn friðhelgur og má engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Efni 1. gr. fyrsta viðauka mannréttindasáttmála Evrópu er í megindráttum það sama. Umfjöllunarefnið í þessum þætti málsins snýr í raun einungis að því hvort umrætt ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008 kunni að fara í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar með þeim afleiðingum að henni verði ekki beitt svo gilt sé, en lýtur hins vegar ekki að því hvort íslenska ríkið kunni að hafa bakað sér bótaskyldu vegna lagasetningarinnar. Verður því einungis úr því leyst með tilliti til ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar og þá með hliðsjón af túlkun á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og meginreglum EES-samningsins 

Eins og fyrr greinir var 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 laga um fjármálafyrirtæki breytt með 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. lög nr. 44/2009 á þann veg að kröfur um innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 skyldu frá gildistöku þeirra teljast til forgangskrafna skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð fjármálafyrirtækja. Telja sóknaraðilar, sem allir eru eigendur krafna sem hafa stöðu almennra krafna við slitameðferð Landsbanka Íslands hf., að þessar aðgerðir ríkisins hafi falið í sér óheimila skerðingu á verðmæti kröfuréttinda þeirra og valdið þeim með því umtalsverðu tjóni. Hafi stöðu þessara krafna og verðmæti verið breytt eftir á með setningu laganna og fái slík lagasetning ekki staðist. Þá hafi þeir haft lögmætar væntingar sem varðar séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar, varðandi þá málsmeðferð sem íslensk löggjöf mælti fyrir um ef til gjaldþrots íslensku bankanna kæmi.

Fallist er á það með sóknaraðilum að kröfur þeirra, sem teljast takmörkuð eignarréttindi, njóti verndar af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar hins vegar er leyst úr því hvort ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008 hafi haft í för með sér slíka skerðingu á þessum réttindum sóknaraðilanna að samsvari eignarnámi eða feli í sér svo almenna takmörkun á eignarrétti þeirra að fari í bága við 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar verður meðal annars að líta til eðlis þeirra ráðstafana sem hér um ræðir, markmiðs þeirra og afleiðinga auk þess hvaða aðstæður voru uppi í þjóðfélaginu þegar gripið var til þeirra.

Eins og lýst hefur verið var með gildistöku ákvæðis 6. gr. laga nr. 125/2008 gerð breyting á þeirri skipan sem fyrir var um réttindaröð krafna við slitameðferð fjármálastofnana. Verður ekki annað ráðið en að ákvæðinu hafi verið ætlað að ná til ótilgreinds hóps innstæðueigenda, en fyrirsjáanlegt var að breyting þessi gæti hugsanlega orðið á kostnað annarra kröfuhafa með þeim hætti að þeir fengju fyrir bragðið minna til úthlutunar upp í sínar kröfur við slitameðferð og jafnvel ekki neitt. Tóku lögin gildi við birtingu og gilti ákvæði þetta því við slitameðferðir þeirra fjármálafyrirtækja sem tekin voru til slitameðferðar eftir þann tíma. Enda þótt ljóst sé að mjög stuttur aðdragandi hafi verið að setningu neyðarlaganna verður ekki annað séð en að fyrirkomulag þetta hafi verið í samræmi við það hvernig að slíkum málum hafði áður verið staðið er breytingar voru gerðar á gildandi forgangsréttarákvæðum við gjaldþrotaskipti. Verður ekki á það fallist með sóknaraðilum að þeir eigi skilyrðislausan stjórnarskrárvarinn rétt til að verða meðhöndlaðir í samræmi við þær forgangsreglur gjaldþrotaskiptalaga sem giltu þegar samningar þeirra við varnaraðilann Landsbaka Íslands hf. komust á. Breytir engu í því sambandi þótt í tilviki sóknaraðilans Deutsche Bank Trust Company Americas hafi verið kveðið á um það í samningi hans við Landsbankann að kröfurnar væru jafnsettar innstæðum og öllum öðrum ótryggðum skuldbindingum. Þá hefur ekkert komið fram um að stjórnvöld hafi, á þeim tíma sem sóknaraðilar eignuðust kröfur sínar, aðhafst eitthvað það sem gefið hafi sóknaraðilum ástæðu til að ætla að breytingar yrðu ekki gerðar á réttindaröð við gjaldþrotaskipti á fjármálastofnunum, jafnvel í neyðarástandi.

Ekkert liggur fyrir um það í máli þessu að kröfur sóknaraðila hafi verið gjaldfallnar við gildistöku laganna. Þá verður hér og að hafa í huga að enda þótt eigendum innstæðna hafi með hinni umdeildu lagasetningu verið veittur forgangur í kröfuröð umfram sóknaraðila og aðra almenna kröfuhafa liggur ekki ljóst fyrir í málinu, og telst ósannað, að verðmæti krafna sóknaraðilanna hafi við það skerst og þá hversu mikið.

Af lögskýringargögnum með frumvarpi til laga nr. 125/2008 verður ráðið að þau hafi verið sett með það að markmiði að tryggja almannahagsmuni og tryggja og endurreisa fjármálalegan stöðugleika. Er þannig í framsöguræðu forsætisráðherra og ræðu viðskiptaráðherra við 1. umræðu frumvarpsins minnst á að hætta sé á að bankarnir loki, greiðslukerfið frjósi eða hrynji og verði ekki virkt. Kemur og fram að liður í þessum aðgerðum sé að ríkið hafi lýst yfir „að allar innstæður í íslenskum bönkum á Íslandi eru tryggðar að fullu og án hámarks“, og að gera eigi innstæður að forgangskröfum við slit fjármálafyrirtækja, sbr. áður tilvitnaða 6. og hins vegar 9. gr. laganna, er kveður á um að krafa Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta njóti rétthæðar skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Með hliðsjón af framangreindu og öðrum gögnum málsins sýnist ljóst að lagasetning þessi hafi verið til þess fallin að viðhalda trausti einstaklinga og fyrirtækja á því að innstæður þeirra yrðu tryggðar og að bankastarfsemi yrði áfram haldið gangandi. Var með því komið í veg fyrir áhlaup á bankana og tryggð virkni bankakerfisins, sem var nauðsynleg forsenda þess að ekki yrði hér efnahagslegt hrun. Verður og að telja að forgangsákvæðið hafi verið óhjákvæmilegt til að tryggt yrði að ríkið gæti staðið undir framangreindri ábyrgð sinni á innstæðum, bæði í eigu innlendra og erlendra aðila. Samkvæmt þessu verður á það fallist með varnaraðilum að brýna nauðsyn hafi borið til að velja þessa leið til að forða ríkinu frá yfirvofandi greiðsluþroti og samfélaginu frá efnahagshruni. Helguðust þessar aðgerðir ríkisvaldsins því augljóslega af ríkum almannahagsmunum. Verður því að telja að með setningu neyðarlaganna hafi verið stefnt að lögmætu markmiði.

Þá verður og að telja, með hliðsjón af þeim aðstæðum sem uppi voru við umrædda lagasetningu er að framan var lýst og þeirri brýnu þörf sem vissulega var til staðar á að stjórnvöld brygðust skjótt við, að sóknaraðilar hafi ekki sýnt nægilega fram á að aðgerðir þessar varðandi forgang innstæðna hafi gengið lengra en brýna nauðsyn bar til í því skyni að ná því markmiði að forða þjóðinni frá efnahagslegu hruni og tryggja þar með hag hins almenna borgara. 

Þegar til alls framangreinds er litið er það niðurstaða dómsins að sóknaraðilar hafi hvorki sýnt fram á að umdeilt ákvæði um forgangsrétt innstæðna í 6. gr. laga nr. 125/2008 hafi skert eignarréttindi þeirra með afturvirkum hætti svo að í bága fari við 72. gr. stjórnarskrárinnar né að fulls meðalhófs hafi ekki verið gætt við setningu þess.

Verður þá vikið að því  hvort ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008 kunni að fara í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar með þeim afleiðingum að henni verði ekki beitt svo gilt sé. Umfjöllunarefni málsins lýtur hins vegar ekki að því hvort íslenska ríkið kunni að hafa bakað sér bótaskyldu vegna lagasetningarinnar. Verður því einungis úr því leyst með tilliti til ákvæðis 65. gr. stjórnarskrárinnar og þá með hliðsjón af túlkun á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og meginreglum EES-samningsins 

Við mat á því hvort kröfuhöfum hafi verið mismunað við lagasetninguna og þar með brotið gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, verður að líta til ofangreindra markmiða með lagasetningunni, sem var að tryggja hagsmuni hins almenna borgara og skapa skilyrði fyrir stöðugleika í efnahagslífi landsins. Það að veita innstæðueigendum forgang fram yfir aðra kröfuhafa stefndi samkvæmt ofangreindu að lögmætu markmiði, en líta verður og til þess að lögin taka til allra sem eru í sambærilegri stöðu. Með þeim er ekki gerður greinarmunur á innstæðueigendum í hefðbundinni almennri banka­starfsemi, svo sem eftir því hvort þeir eiga háar eða lágar kröfur eða því hvort þeir eru innlendir eða erlendir. Innstæðueigendur og kröfuhafar ótryggðra krafna eru hins vegar ekki í sambærilegri stöðu og verður aðstöðu þeirra því ekki jafnað saman við mat á því hvort um brot gegn jafnræðisreglu sé að ræða. Er í því sambandi sérstaklega litið til þess að í alþjóðlegu tilliti er viðurkennd sú sérstaða innstæðna gagnvart almennum kröfum af öðrum toga er tengist trausti einstaklinga og fyrirtækja á því að innstæður þeirra séu tryggðar, sbr. áður tilvitnaða tilskipun nr. 94/19/EB og staðfestingu þeirra með lögum nr. 98/1999. Hefur því hér að framan verið lýst að almennt sé talið að skortur á slíku trausti sé til þess fallinn að hrinda af stað áhlaupi á banka með alvarlegum afleiðingum fyrir stöðugleika fjármálakerfisins í heild og þar með almannahagsmuni.

Þá ber að líta til þess að engin breyting var gerð með lögunum á rétthæð krafna sóknaraðila og ósannað að væntingar sóknaraðila um stöðu kröfuhafa í kröfuröð hafi haft úrslitaáhrif er krafa þeirra á hendur Landsbanka Íslands hf. varð til.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða dómsins að ákvæði 6. gr. svokallaðra neyðarlaga nr. 125/2008 brjóti hvorki gegn eignarréttarákvæði 72. gr. né jafnræðis­reglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Verður þá ekki fjallað um þær málsástæður sóknar­aðila sem lúta að stjórnskipulegum neyðarrétti.

5.Vextir og kostnaður

Eins og að framan greinir er í máli þessu ágreiningur um forgang innstæðu sem lögð var inn í útibúi Landsbanka Íslands hf. í Hollandi. Um slitameðferðina sjálfa gilda íslensk lög samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 9. gr. laga nr. 130/2004. Þegar slitastjórn tók afstöðu til kröfu varnaraðila var hins vegar gengið út frá því að hollensk lög giltu um kröfuna að efni til, en um er að ræða einkaréttarlega samningsskuldbindingu í skilningi laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar. Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000 segir að hafi samningur ekki að geyma ákvæði um það hvers lands lögum skuli beita, skuli beita lögum þess lands sem samningur hefur sterkust tengslin við. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna skal að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem aðili hefur aðalstöðvar sínar. Ef samningur er gerður í tengslum við atvinnu eða atvinnurekstur viðkomandi skuli litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem sá sem aðalskylduna beri hafi aðalstarfsstöð sína. Ef efna eigi samning samkvæmt ákvæðum hans á annarri starfsstöð en þar sem aðili hafi aðalstarfsstöð skuli beita lögum þess lands þar sem sú starfsstöð sé.

Í skjölum málsins er varða umdeild viðskipti aðila kemur ekki fram hvers lands lögum skuli beita. Hins vegar liggur fyrir að viðskipti aðila áttu sér stað í gegnum útibú varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., í Hollandi. Er fallist á þann skilning varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., að umdeilt heildsöluinnlán sem stofnað var til í útibúi Landsbanka Íslands hf. í Amsterdam hafi haft sterkustu tengslin við Holland í skilningi 1. mgr. 4. gr. lagaskilalaga. Beri því að beita hollenskum lögum um kröfuna, sem og rétt varnaraðila til krefjast vaxta á kröfuna, auk kostnaðar, en að um kröfulýsinguna sjálfa og stöðu kröfunnar í réttindaröð beri að beita íslenskum lögum.

Ágreiningur stendur í málinu milli varnaraðila, Landsbanka Íslands og Gemeente Dordrecht, einungis um kostnað, en ekki er ágreiningur milli þessara aðila um að krafan njóti forgangsréttar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili, Landsbanki Íslands hf. hefur viðurkennt að krafan beri samningsvexti, 4,79% frá 6. júlí 2008 til og með 22. apríl 2009.

Hluti sóknaraðila telur hins vegar að ef komist verði að því að höfuðstóll kröfunnar njóti forgangs, njóti kröfur um samningsvexti eftir 6. október 2008 ekki forgangsréttar.

Samkvæmt meginreglu gjaldþrotaskiptaréttar, sbr. og 1. mgr. 114. gr. laga nr. 21/1991 njóta vextir á kröfur sem teljast forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 sama forgangs og krafan sjálf, að því marki sem þeir hafa fallið til fyrir úrskurðardag. Því njóta þeir vextir sem fallið hafa á kröfu varnaraðila, Gemeente Dordrecht, fyrir úrskurðardag, sama forgangs og krafan sjálf.

Varnaraðili byggir kostnaðarkröfu sína á ákvæði 6:74 í hollensku einkamálalögunum, en ákvæðið hefur verið lagt fram í íslenskri þýðingu, af hálfu varnaraðila. Tilvist og efni þeirrar reglu hefur því verið leitt í ljós með fullnægjandi hætti, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Ekki verður séð að það ákvæði eigi við um innheimtukostnað utan réttar fyrir úrskurðardag. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að umkrafinn kostnaður sé tengdur innheimtu kröfu varnaraðila utan réttar. Jafnframt verður ekki af gögnum málsins ráðið með vissu hvernig fjárhæð umrædds kostnaðar er fengin eða hvenær til hans var stofnað. Þykir varnaraðili ekki hafa sýnt fram á að hann eigi réttmæta kröfu um að varnaraðili, Landsbanki Íslands hf. beri kostnað sem stofnað var til af hálfu hins hollenska sveitarfélags á umræddu tímabili. Verður því kröfum hans um kostnað sem til féll fyrir 22. apríl 2009 hafnað.

Með vísan til breyttrar kröfugerðar Landsbanka Íslands hf. sem bókuð var við aðalmeðferð máls, og þess að ekki er ágreiningur um greiðslu samningsvaxta til og með 22. apríl 2009, er krafa varnaraðila, Gemeente Dordrecht að fjárhæð 8.286.640,18 evrur viðurkennd sem forgangskrafa við slit varnaraðila, Landsbanka Íslands hf.

Í máli þessu eru uppi veruleg vafaatriði. Í ljósi þess og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurð þennan kveða upp Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari sem dómsformaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Greta Baldursdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Krafa varnaraðila, Gemeente Dordrecht að fjárhæð 8.286.640,18 evrur er viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, við slitameðferð varnaraðila, Landsbanka Íslands hf.

Málskostnaður fellur niður milli aðila.