Print

Mál nr. 390/2006

Lykilorð
  • Ölvunarakstur
  • Akstur sviptur ökurétti

Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. febrúar 2007.

Nr. 390/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Margréti Friðriksdóttur

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

 

Ölvun við akstur. Akstur án ökuréttar.

M var sakfelld fyrir að hafa ekið bifreið tvívegis svipt ökurétti og í annað skiptið einnig undir áhrifum áfengis. Við ákvörðun refsingar var m.a. litið til þess að M hafði einu sinni áður verið dæmd fyrir að aka svipt ökurétti svo og dómvenju og að hún ók tvisvar svipt ökurétti og var nú í fjórða sinni sakfelld fyrir ölvun við akstur. Refsing hennar var ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. júlí 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærðu, en þyngingar á refsingu.

Ákærða krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins vegna ölvunar við akstur samkvæmt ákæru 2. janúar 2006 en að öðru leyti mildunar á refsingu.

         Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu og heimfærslu brota hennar til refsiákvæða. Sakaferill ákærðu er réttilega rakinn í hinum áfrýjaða dómi að því undanskildu að þar er ranglega tilgreint að ákærða hafi 21. febrúar 2006 gengist undir lögreglustjórasátt með greiðslu 105.000 króna sektar fyrir að aka 10. janúar 2006 svipt ökurétti og án þess að vera með öryggisbelti. Hún gekkst hins vegar undir viðurlagaákvörðun vegna sama máls í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. janúar 2007 þar sem henni var gert að greiða 100.000 króna sekt vegna aksturs án ökuréttar umrætt sinn, en fallið var frá sakargiftum er lutu að því að hún hefði ekið án öryggisbeltis. Refsing ákærðu verður ákveðin með hliðsjón af 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í umferðarlögum nr. 50/1987 er ekki að finna ítrekunarheimild vegna refsingar fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. laganna, eins og lýst er hinum áfrýjaða dómi. Ákærða hefur hins vegar einu sinni áður verið dæmd fyrir að aka svipt ökurétti. Við ákvörðun refsingar hennar verður litið til þessa svo og dómvenju og að hún ók tvisvar svipt ökurétti og er nú í fjórða sinni sakfelld fyrir ölvun við akstur. Samkvæmt framangreindu og með vísan til 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga og 77. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærðu ákveðin fangelsi í þrjá mánuði.

         Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

         Ákærða verður dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málflutningslaun skipaðs verjanda hennar fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, Margrét Friðriksdóttir, sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 161.154 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur. 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júní 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 22. maí sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 2. janúar 2006, á hendur Margréti Friðriksdóttur, kt. 201177-5299, Njálsgötu 30b, Reykjavík, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa, aðfaranótt mánudagsins 21. nóvember 2005, ekið bifreiðinni MT 738 undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,98‰) og svipt ökurétti, um bifreiðastæði við verslunina Select við Bústaðaveg í Reykjavík.

Ákæruvaldið telur þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.

Þá er mál höfðað á hendur ákærðu með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 17. febrúar 2006, fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 7. febrúar 2006 ekið bifreiðinni MT 738 svipt ökurétti um Langholtsveg og Álfheima í Reykjavík. 

Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993, 2. gr. laga nr. 23/1998 og 8. gr. laga nr. 84/2004.

Málið sem höfðað var með ákæru útgefinni 2. janúar var þingfest 18. janúar sl., en mál samkvæmt ákæru dagsettri 17. febrúar, var þingfest sama dag og ákæran var gefin út og sameinað þessu máli.

Við þingfestingu málanna kvaðst ákærða hafa ekið bifreiðinni aðfaranótt 21. nóvember 2005, en neitaði að hafa verið undir áhrifum áfengis. Ákærða játaði að hafa ekið svipt ökurétti 7. febrúar sl. eins og henni er gefið að sök í síðari ákæru.

Af hálfu ákærðu er krafist sýknu af ákæru um ölvunarakstur en til vara að dæmd verði vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna til handa verjanda. 

Málsatvik.

Ákæra, dagsett 2. janúar 2006.

Aðfaranótt 21. nóvember 2005 barst lögreglu tilkynning um að ökumaður bifreiðarinnar MT 738 væri hugsanlega ölvaður, en hann væri staddur við bensínstöð Select á Bústaðavegi. Þegar lögreglumenn komu á vettvang var bifreiðinni ekið úr stæði við bensínstöðina. Ökumanni bifreiðarinnar, ákærðu í málinu, var gefið merki um að stansa. Ákærða var ekki með ökuskírteini meðferðis og við athugun kom í ljós að hún var svipt ökuréttindum. Þá lagði talsverða áfengislykt frá vitum hennar og öndunarpróf var talið sýna að frekari rannsóknar væri þörf. Var ákærða því handtekin vegna gruns um ölvun við akstur. Ákærða virtist vera í annarlegu ástandi og sneri út úr spurningum lögreglumanna. Tekin var framburðarskýrsla af henni á lögreglustöðinni, og A læknir tók blóð úr henni til alkóhólrannsóknar kl. 03:25, að því er segir í skýrslunni.

Í framburðarskýrslu sem tekin var af ákærðu er haft eftir henni að hún hafi verið að aka bifreið, og hafi drukkið áfengi. Hafi drykkjan hafist á milli klukkan tvö og þrjú um nóttina. Þá hafi ákærða sagt að hún hafi ekki fundið til áfengisáhrifa, og ekki drukkið áfengi eftir að akstrinum lauk. Skýrslan er undirrituð af votti, B, en ákærða og C hafa ekki undirritað skýrsluna.

Í málinu liggur frammi blóðtökuvottorð, dagsett 21. nóvember 2005, kl. 03:25, og undirritað af A lækni. Samkvæmt vottorðinu er númer blóðsýnis 35509. C varðstjóri skrifar undir sem vottur að blóðtöku, en C og D lögreglumaður votta að sýnanúmer hafi verið skráð. Samkvæmt niðurstöðu Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði varðandi alkóhólákvörðun í blóðsýni nr. 35509 mældist 1,98‰ vínandamagns í því sýni.

Framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.

Ákærða lýsti atvikum málsins svo að hún hafi verið í heimsókn í húsi við Miklubraut, þar sem drukkinn hafi verið pilsner. Hún hafi orðið fyrir áfalli um kvöldið, grátið mikið og því verið rauðeygð. Hafi hún ekki náð sambandi við leigubílastöð þegar hún ætlaði að fara. Þar sem hún hafi talið að ekki gæti mælst mikið alkóhól í blóði hennar eftir tvo pilsnera og ekki dottið í hug að það væri einhver á ferðinni og hún verið svöng, hafi hún tekið áhættuna. Á leiðinni hafi hún komið við á Select, en lögreglan beðið eftir henni fyrir utan. Ekkert áfengi hafi mælst er hún blés í blöðru hjá lögreglu, en þar sem hún hafi verið próflaus hafi þeir farið með hana á lögreglustöð. Hafi ákærða talið að þeir ætluðu að taka skýrslu af henni vegna þess. Handtakan hafi verið harkaleg, hún hafi reiðst og spurt hvað gæfi lögreglunni rétt til að ráðast á fólk að tilefnislausu. Hún kvað ranglega eftir sér haft í framburðarskýrslu að hún hefði drukkið áfengi. Hún hafi sagt að hún hefði drukkið pilsner, en varðstjóri svarað að þeir kölluðu það áfengi. Eftir skýrslutökuna hafi hún fengið að fara heim. Henni hafi verið sagt að eitthvert áfengi hefði mælst í öndunarprófi, en ekki fengið uppgefið hversu mikið. Ákærða sagði að sér hafi ekki verið gefinn kostur á verjanda, eða gefin skýrslan til undirritunar. Í frumskýrslunni segir: „Við tjáðum henni ekki einnig að henni bæri ekki skylda til að tjá sig um brotið og að hún hefði rétt á aðstoð verjanda. Ákærða sagðist ekki minnast þess að hafa verið færð í blóðtöku.

Vitnið, D lögreglumaður, sagði svo frá að ákærða hefði verið stöðvuð við Select á Bústaðavegi, og hún verið látin blása í áfengismæli í lögreglubifreiðinni. Töluvert áfengi hafi mælst hjá henni. Hafi ákærða verið færð á lögreglustöð þar sem tekin var framburðarskýrsla af henni, en hún hafi neitað að undirrita skýrsluna. Vitnið minnti að læknir hefði komið og tekið blóð úr ákærðu, og að vitnið og annar lögreglumaður hefðu verið viðstaddir þegar sýnið var tekið. Vitnið sagði  að þeir reyndu ávallt að vera tveir viðstaddir sýnatöku.

Vitnið, B lögreglumaður, sagði að ákærða hefði verið sjáanlega ölvuð er hún var stöðvuð og minnti vitnið að hún hafi verið látin blása í áfengismæli í lögreglubifreiðinni. Hafi þeir farið með ákærðu á lögreglustöðina, þar sem C varðstjóri hafi tekið skýrslu af henni. Þá hafi verið kallaður til læknir, og vitnið verið viðstatt blóðtökuna. Læknirinn hafi heitið A.

Vitnið, C varðstjóri, sagði málið hafa haft sinn venjulega gang, hann hafi tekið skýrslu af ákærðu, og læknir, sem hann mundi ekki hver var, tekið úr henni blóð. Mundi hann óljóst eftir því að ákærða hafi ekki undirritað skýrslu eftir yfirheyrsluna, en kvaðst ekki muna hvers vegna hún vildi ekki skrifa undir. Ekki væri lagt hart að fólki að skrifa undir. C kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað fór þeim á milli um það hvort ákærða hefði neytt áfengis. Hann kvað það vera mistök að hann hafi ekki undirritað framburðarskýrsluna.

Vitnið, A læknir, sagðist ekki muna eftir málinu. Kvaðst hann taka margar vaktir og þurfa að taka blóðprufur af og til. Hann sagðist ekki treysta sér til að votta að hann hefði tekið blóð úr tiltekinni manneskju. Vitnið staðfesti undirritun sína á blóðtökuvottorði, og nafnritun við númer á sýnaglasi sem vitnið setti blóðið í. Vitnið kvaðst hafa skrifað dagsetningu og tíma á vottorðið. A sagði að það væri búið að færa nöfn fólks á blóðtökuvottorð þegar hann fengi þau. Þá bæði hann fólk ekki um skilríki þegar blóðsýni væri tekið.

Niðurstaða.

Ákærða játaði að hafa ekið bifreið aðfaranótt 21. nóvember fyrra árs, en neitaði að hafa verið undir áhrifum áfengis, eins og henni er gefið að sök í ákæru dagsettri 2. janúar, og heldur því fram að ekki hafa verið tekið blóð úr henni umrætt sinn.

Vitnið, A læknir, kvaðst ekki muna eftir málinu sérstaklega en staðfesti undirritun sína á blóðtökuvottorði vegna ákærðu og að hann hefði skráð dagsetningu og tíma á vottorðið. Samkvæmt beiðni um töku blóðsýnis, er liggur frammi í málinu, vottaði lögreglumaðurinn C skráningu númers blóðsýnisins og blóðtökuna sjálfa, en A læknir, vottaði að sýnanúmer væri rétt. Í gögnum málsins er ekkert sem bendir til þess að eitthvað hafi verið athugavert við framkvæmd töku blóðsýnis úr ákærðu og er lögregluskýrsla í málinu í samræmi við blóðtökuvottorð. Er ekkert fram komið í málinu sem rennt geti stoðum undir þá staðhæfingu ákærðu að blóð hafi ekki verið tekið úr henni umrætt sinn, en í sýninu mældist magn vínanda 1,98‰. Þá bar vitnið, B lögreglumaður fyrir dómi að ákærða hefði verið sýnilega ölvuð umrætt sinn og er það í samræmi við frumskýrslu lögreglunnar. Hefur með vísan til þess sem að framan greinir verið færð fram næg sönnun um að ákærða hafi ekið bifreið undir áhrifum áfengis eins og henni er gefið að sök í ákæru. Ákærða ók bifreiðinni svipt ökurétti umrætt sinn.

Ákærða hefur játað ákæru frá 17. febrúar sl. rétta. Þykir með játningu hennar nægilega sannað að hún hafi gerst sek um þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákærunni, sem er í samræmi við framlögð gögn. Um málavexti vísast til ákærunnar.

Brotin eru réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærum.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærðu gekkst hún 7. október 1998 undir 75.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í eitt ár fyrir ölvunarakstur, og akstur án þess að hafa ökuskírteini meðferðis, brot gegn 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 10. gr. umferðarlaga. Með dómi 5. nóvember 2001 hlaut hún 50.000 króna sekt fyrir brot gegn 1., sbr. 3. mgr. 37. gr. umferðarlaga. Þá var hún dæmd til að greiða 90.000 króna sekt og var svipt ökurétti í tvö ár 17. desember 2001 fyrir ölvunarakstur og 14. nóvember 2002 var hún dæmd í 30 daga fangelsi og svipt ökurétti ævilangt fyrir ölvunarakstur og akstur svipt ökurétti. Loks gekkst ákærða 21. febrúar 2006 undir 105.000 króna lögreglustjórasátt fyrir að aka svipt ökurétti og án þess að vera með öryggisbelti. Refsing ákærðu nú verður ákveðin sem hegningarauki við fyrrgreinda sátt, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og einnig verður við ákvörðun refsingar litið til 77. gr. sömu laga.

Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ákærða ók tvisvar sinnum svipt ökurétti og að ákærða er nú í fjórða sinn dæmd fyrir ölvunarakstur. Hins vegar eru ekki ítrekunaráhrif milli refsingar er ákærða hlaut með lögreglustjórasekt frá 21. febrúar 2006 og brota ákærðu nú gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga, þar sem brot ákærðu í máli þessu eru framin áður en ákærðu var gert að greiða þá sátt. Refsing ákærðu þykir samkvæmt öllu framangreindu hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, en auk þess verður ákærðu gert að greiða 100.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en ella sæti ákærða fangelsi í 8 daga.

Ákærða var svipt ökurétti ævilangt með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. nóvember 2002, og skal ævilöng ökuleyfissvipting áréttuð. 

Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga um meðferð opinberra mála verður ákærða dæmd til að greiða allan sakarkostnað, 102.517 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 80.000. krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. 

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærða sæti fangelsi í tvo mánuði.

Ákærða greiði 100.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa að telja, en sæti ella fangelsi í 8 daga.

Ævilöng ökuleyfissvipting ákærðu er áréttuð.

Ákærða greiði sakarkostnað málsins 102.517 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns 80.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.